Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

182/2021 Svínabú að Torfum

Með

Árið 2022, föstudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 182/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar­sveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur tveggja jarða sem liggja að jörðinni Torfum í Eyjafjarðarsveit þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 22. desember 2021.

Málavextir: Hinn 28. mars 2019 samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí s.á. Tiltekið er í auglýsingunni að skipulagssvæðið sé 15 ha spilda sunnan Finnastaðaár sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagið taki til byggingar tveggja gripahúsa, samtals u.þ.b. 5.700 m2 að flatarmáli, auk tilheyrandi fóðursílóa, haug­geymslu og starfsmannahúss. Kærendur kærðu ákvörðun Eyjafjarðarsveitar um að samþykkja deiliskipulag fyrir svæðið og með úrskurði, uppkveðnum 14. nóvember 2019 í máli nr. 49/2019, komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu að deiliskipulagið hefði ekki verið samþykkt með réttum hætti í sveitarstjórn og væri því ekki í gildi. Var kröfu um ógildingu skipulagsins því vísað frá þar sem ekki var til staðar gilt deiliskipulag til að kæra. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti hinn 25. nóvember 2019 nýtt deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa. Kærendur kærðu þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsins með úrskurði uppkveðnum 7. maí 2020 í máli nr. 133/2019. Hinn 19. nóvember 2021 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðarsveitar byggingarleyfisumsókn vegna svínabús á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hið umdeilda byggingarleyfi sé byggt á veikum for­sendum í eldri matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Sé því farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til dómsúrlausn liggi fyrir hjá héraðsdómi eða þar til Skipulagsstofnun hafi tekið afstöðu til endurupptökubeiðni kærenda.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu Eyjafjarðarsveitar er bent á að engin rök séu til að stöðva framkvæmdir auk þess sem krafa kærenda sé vanreifuð. Hvorki sé vísað til lagaheimildar né séu rök færð fyrir því hvers vegna hagsmunir þeirra krefjist þess að framkvæmdir verði stöðvaðar. Rétt sé að hafa í huga að stöðvun framkvæmda valdi leyfishafa miklu tjóni og erfiðleikum við fram­kvæmdina. Ákvörðun um stöðvun framkvæmda yrði í hróplegu ósamræmi við hagsmuni aðila máls af framvindu þess. Sú ákvörðun yrði verulega íþyngjandi fyrir leyfishafa en að sama skapi hafi kærendur aðeins haft uppi almennar yfirlýsingar um ætlaða réttindaskerðingu sína af því að reist verði svínabú og að áhrif þess nái u.þ.b. 500 m inn á jarðir þeirra, sem þó séu skipulagðar sem landbúnaðarsvæði. Engin tilraun sé gerð til að afmarka hvenær hið ætlaða tjón kærenda geti orðið. Mögulegt tjón kærenda verði ekki ljóst fyrr en svínabúið hefji rekstur en fyrst þurfi viðeigandi ­leyfi frá þar til bærum yfirvöldum, þ.e. heilbrigðiseftirliti, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun. Byggingarnar einar og sér ættu ekki að trufla kærendur og hafi þeir ekki sýnt fram á tjón eða umfang neikvæðra áhrifa. Matsgerð sem unnin hafi verið að beiðni kærenda sé til að mynda ekki sönnunargagn um tjón þeirra. Að því sögðu blasi við að kærendur hafi enga hagsmuni af því að stöðva fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir og beri því að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda.

Með sömu rökum sé á því byggt að það hafi engan hagnýtan tilgang að stöðva framkvæmdirnar. Hefjist framkvæmdir áður en málið sé til lykta leitt hjá úrskurðarnefndinni þá færu þær fram­kvæmdir fram á ábyrgð og áhættu leyfishafa. Verði að ætla honum þá skynsemi að leggja sjálfur mat á það hvort hagsmunum hans sé betur borgið með því að hefja byggingarframkvæmdir eða fresta þeim. Stöðvun framkvæmda sé mjög mikilsverð og íþyngjandi ákvörðun. Þar sem kæran snúi í raun að því hvort gefið verði út starfsleyfi fyrir svínabú að Torfum, en ekki hvort byggingar rísi, sé ótækt að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda við byggingu mannvirkja á skipulags­reitnum.

Meðalhófsregla stjórnsýsluréttar, um að ekki skuli taka meira íþyngjandi ákvarðanir en nauðsynlegt sé til að ná fram lögmætu markmiði, leiði til þeirrar niðurstöðu að ekki skuli stöðva byggingaráform. Í besta falli verði réttaráhrifum ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis frestað, en ekki hafi verið sótt um slíkt leyfi og því síður komið að því að gefa það út. Leyfishafi hafi áform um að reisa tvö hús samkvæmt deiliskipulaginu, en nú standi til að reisa aðeins annað þeirra. Að fenginni þeirri niðurstöðu að starfsemi sé ekki meiri að umfangi en svo að hún ekki skuli háð mati á umhverfisáhrifum, þá liggi fyrir að nægjanlegt myndi reynast að stöðva framkvæmdir að hluta þar sem einfalt sé að áfangaskipta framkvæmdinni. Það yrði þá á valdi umsækjanda sjálfs að leggja mat á það hvort hann myndi vilja hefja byggingu annars hússins með það fyrir augum að geta minnkað byggingarmagn og sótt um starfsleyfi fyrir minna búi sem því nemi. Verði að telja öruggt að starfsemin þannig minnkuð væri innan marka matsskyldu og í samræmi við landnotkun aðal­skipulags.

Ákvörðun um að stöðva framkvæmdir sé íþyngjandi fyrir leyfishafa og það þurfi að skýra heimildir til stöðvunar með tilliti til þess. Almennt fresti kæra ekki réttaráhrifum og því þurfi mikið til að koma svo vikið verði frá þeirri meginreglu. Íþyngjandi ákvarðanir sem beinast gegn ráðstöfun eiganda á landi hans, sem séu í samræmi við gildandi skipulag á eignarlandi, þurfi skýra lagastoð og takmarkist af meðalhófi og mati á gagnstæðum hagsmunum, enda sé eignarrétturinn stjórnarskrár­varinn. Þá sé ekki úr vegi að tiltaka og minna á atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar, en leyfishafi reki fjölskyldufyrirtæki um búrekstur eigenda félagsins sem hafi helgað búrekstrinum ævistarf sitt og byggi afkomu sína á honum.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til sömu röksemda og koma fram í athuga­semdum Eyjafjarðarsveitar vegna höfnunar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Jafn­framt er bent á að kærendur hafi tvívegis áður gert kröfu um stöðvun framkvæmda vegna fyrirhugaðs svínabús, annars vegar í kærumáli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 49/2019 og hins vegar í máli nr. 70/2019. Kröfunni hafi verið hafnað í fyrra málinu en vísað frá í því síðara. Leyfishafi telji skjóta skökku við að unnt sé að fara oft fram á stöðvun vegna sömu framkvæmdar, ekki síst þegar framkvæmdin hafi fengið jafn ítarlega umfjöllun hjá stjórnvöldum, þ. á m. fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærendur hafi sýnt af sér verulegt tómlæti við að halda á lofti kröfu sinni um að matsskyldu­ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 skyldi felld úr gildi. Kæru þeirra til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamáli í máli nr. 49/2019 hafi verið vísað frá með úrskurði nefndarinnar 14. nóvember 2019. Sá úrskurður hafi verið fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi en dómsmál hafi hins vegar ekki verið höfðað fyrr en í október 2021. Það skjóti því skökku við að aðrir eigi að bíða eftir niðurstöðu dómsmálsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafn­framt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðunin sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu eru málsaðilar fleiri en einn og eiga þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Ekki verður talið að bygging eldishúss fyrir svínabú séu óafturkræfar framkvæmdir. Þá verður ekki hjá því litið að kærendur hafa í engu rökstutt sérstaklega hagsmuni sína af stöðvun framkvæmda.

Í ljósi framangreinds verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað en frekari fram­kvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu eldishúss fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

7/2022 Kirkjubraut

Með

Árið 2022, föstudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 16. desember 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sex íbúða sambýli að Kirkjubraut 20.

 Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Kirkjubraut 18, eigandi, Kirkjubraut 18, eigandi, Kirkjubraut 17, eigandi, Kirkjubraut 16 og eigandi, Kirkjubraut 21, Seltjarnarnesi, framkvæmdir á Kirkjubraut 20, Seltjarnarnesi. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 16. desember 2021 að samþykkja byggingarleyfi fyrir sex íbúða sambýli að Kirkjubraut 20. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 20. janúar 2022.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar 17. september 2021 var samþykkt breyting á deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæðis. Bæjar­stjórn staðfesti afgreiðsluna á fundi sínum 22. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók svo gildi 14. október 2021 við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Í breytingunni fólst skilgreining á nýrri lóð, Kirkjubraut 20, og heimild til að reisa á lóðinni hús að hámarki 560 m2 á einni hæð með samtals sex íbúðum. Hinn 7. desember 2021 gaf byggingarfulltrúi út heimild til jarðvegs­könnunar á lóðinni og 16. s.m. samþykkti hann byggingaráform og gaf út byggingarleyfi til að byggja sex íbúða sambýli á einni hæð að Kirkjubraut 20.

Málsrök kærenda: Kærendur gera athugasemd við upphaf framkvæmdar en byggingarleyfi hafi verið gefið út 16. desember 2021 en framkvæmdir hafi byrjað nokkrum dögum fyrr, áður en skilyrði byggingarreglugerðar hefðu verið uppfyllt. Endanlegur gólfkóti nýrrar byggingar sé ekki skilgreindur í samþykktu deiliskipulagi og þar með séu skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis ekki uppfyllt. Hagsmunir kærenda liggi fyrst og fremst í ákvörðun um gólfkóta byggingarinnar þar sem hæð hennar hafi veruleg áhrif á húsnæði þeirra. Jafnframt hafi það áhrif á líf þeirra hvernig framkvæmdum sé háttað. Ekki hafi farið fram kynning á fram­kvæmdinni meðal íbúa og því hafi skilyrðum 9. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða ekki verið uppfyllt. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis hafi kærendum verið tjáð að það væri á hendi bæjaryfirvalda að fylgja því eftir að skilyrði reglugerðarinnar séu uppfyllt. Kærendur hafi þurft að kalla til lögreglu til að stöðva framkvæmdir með brotvélum á tímum sem ekki sé heimilt að viðhafa slíkar framkvæmdir samkvæmt reglugerðinni. Þá sé umrætt deiliskipulag sem byggt sé á ekki endanlegt. Íbúar í fleiri húsum við götuna hafi sammælst um að styðja kæruna.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að fyrsta skóflustunga að hinum nýja búsetukjarna hafi verið tekin 8. desember 2021. Daginn áður hafi byggingarfulltrúi gefið út heimild til jarðvegskönnunar í samræmi við gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Byggingarleyfi hafi verið gefið út 16. desember 2021 í samræmi við gildandi deili­skipulag og samþykkta aðaluppdrætti. Á skipulagsuppdrætti sé lega nýbyggingar í landi sýnd og leiðbeinandi gólfkóti gefinn. Á aðaluppdráttum komi fram endanlegar hæðir nýbyggingar með hæðarkótum og legu húsnæðisins í landinu gerð skil. Þá hafi framkvæmdirnar og áætlaður framkvæmdatími verið kynntur í Nesfréttum og á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar.

 Niðurstaða: Fyrir liggur að 7. desember 2021 gaf byggingarfulltrúi út leyfi til jarðvegs­könnunar á lóðinni Kirkjubraut 20. Þá var byggingarleyfi gefið út vegna fyrirhugaðra fram­kvæmda á lóðinni 16. desember 2021. Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er heimilt að veita umsækjanda leyfi til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út. Verður ekki annað séð að framkvæmdir þær sem voru hafnar áður en byggingarleyfi var gefið út hafi verið í samræmi við framangreint ákvæði.

Markmið reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða er að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Í 9. gr. er fjallað um hávaða vegna framkvæmda og segir m.a. í 2. mgr. ákvæðisins að framkvæmdaraðili skuli kynna fyrir íbúum nærliggjandi svæða með sannarlegum hætti um háværar framkvæmdir, s.s. byggingar, gröft, sprengingar og gatnagerð á íbúðarsvæðum eða nágrenni þeirra, áður en framkvæmd hefst. Fram skuli koma tímalengd framkvæmdar, hvaða þættir hennar séu líklegir til að valda ónæði og hvenær unnið verði að þeim þáttum.

Útgefandi byggingarleyfis hefur eftirlit með því að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gilda, sbr. 16. gr. laga um mannvirki. Þá skulu heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaða undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar. Hafi farist fyrir að kynna framkvæmdina samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar um hávaða verður það hins vegar ekki talið hafa áhrif á gildi byggingarleyfisins þótt rétt hefði verið að kynna nærliggjandi íbúum framkvæmdina sérstaklega, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 9. gr.

Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði er byggingarmagn fyrir umrædda lóð að hámarki 560 m2 og má þar reisa hús á einni hæð með samtals sex íbúðum. Hámarksmænishæð er 4,5 m og mesta vegghæð 3,5 m. Þá er hámarks­nýtingarhlutfall 0,3. Á sniðmynd deiliskipulagsuppdráttar er gólfkóti heimilaðrar nýbyggingar 22,50. Fram kemur að gólfkótinn sé ekki bindandi og gæti breyst við frekari hönnun. Í gr. 5.5.4. í byggingarreglugerð kemur fram að skýringaruppdrætti, svo sem götumyndir, skuggavarps­teikningar og sniðmyndir, líkön og hreyfimyndir sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags. Skýringargögn samkvæmt framansögðu eru ekki bindandi nema það sé sérstaklega tekið fram. Samkvæmt framangreindu er ekki gerð krafa um að skilgreindur sé bindandi gólfkóti í deiliskipulagi.

Á aðaluppdráttum með hinu kærða byggingarleyfi er gólfkóti fyrirhugaðs húss sýndur 22,50. Hámarksmænishæð er 4,32 m og mesta vegghæð 3,42 m. Verður ekki annað séð en að hið kærða byggingarleyfi hafi verið í samræmi við framangreint deiliskipulag svo sem kveðið er á um í 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið að hið kærða byggingarleyfi sé haldið þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað getur gildi þess. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Rétt þykir að benda á að leiði hin kærða framkvæmd til hávaða umfram leyfileg mörk geta kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar, sem lætur framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða eftir þörfum samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um hávaða og getur eftir atvikum beitt þvingunarúrræðum samkvæmt 12. gr. sömu reglugerðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 16. desember 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sex íbúða sambýli að Kirkjubraut 20.

138/2021 Hafnargata

Með

Árið 2022, föstudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2021, kæra á ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 um að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndarkynn­ingu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innan húss að Hafnargötu 32, Fáskrúðs­firði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Búðavegi 24, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði 22. september 2021 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað.

 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 30. ágúst 2021.

 

Málavextir: Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 7. júní 2021 var umsókn leyfishafa lögð fram þar sem sótt var um leyfi til að byggja tvær viðbyggingar, 147,5 m2 og 652,7 m2 að flatarmáli, í kverk austan frystitækjasalar og norðan við núverandi pökkunarsal og starfsmannaaðstöðu í húsnæði fyrirtækisins að Hafnargötu 32, Fáskrúðsfirði. Kemur fram í umsókninni að bæta eigi við eimsvala norðan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði í því skyni að uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í samræmi við reglugerð um hávaða nr. 724/2008. Nefndin samþykkti að grenndarkynna umsóknina. Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi 24. júní s.á. og samþykkti afgreiðslu nefndarinnar. Að lokinni grenndarkynningu var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 22. júlí 2021 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 23. s.m. Þar kom fram að hljóðvist við fasteign kærenda yrði mæld að framkvæmdum loknum til að sannreyna að útreikningar um að hljóðstig yrði innan tilskilinna marka væru réttir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að hús þeirra sé einbýlishús sem standi á ódeili­skipulögðu svæði innan reitar M1, miðsvæðis, samkvæmt aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Til suð­austurs við fasteign kærenda standi vinnslustöð leyfishafa við Hafnargötu, einnig á ódeili­skipulögðu svæði en innan reitar H3/I1, sem sé hafnar- og iðnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Frá suðausturhorni húss kærenda að norðvesturhorni fasteignar leyfishafa séu um 23 m. Hávaði frá vinnslustöðinni hafi veruleg áhrif á nýtingarmöguleika og verðgildi fasteignar kærenda sem hafi allt frá því að þau hafi keypt fasteignina árið 2017 gert athugasemdir við hávaða frá starfsemi leyfishafa, án þess að gripið hafi verið til viðeigandi úrræða. Þau hafi því verulegra og einstaklegra hagsmuna að gæta í tengslum við ákvörðun um veitingu byggingarleyfis sem hafi áhrif á umfang starfsemi leyfihafa.

Óumdeilt sé að hávaði frá núverandi starfsemi leyfishafa sé meiri en heimilt sé samkvæmt reglu­gerð um hávaða nr. 724/2008. Mestur hávaði berist frá eimsvölum sem staðsettir séu við norð­vesturhorn fasteignar leyfishafa gegnt fasteign kærenda. Einnig berist hljóð frá öðrum þáttum starfseminnar, svo sem þegar slegið sé úr frystipönnum, frá öðrum tækjum og umgangi starfsfólks. Samkvæmt mælingum verkfræðistofu sem framkvæmdar hafi verið að beiðni leyfishafa 8. september 2020 hafi jafngildishljóðstig 0,5 m frá húsveggjum kærenda verið á bilinu 57,8-61,9 dB og hámarkshljóðstig farið allt upp í 74,1 dB. Samkvæmt reglugerð um hávaða skuli hávaði frá atvinnustarfsemi ekki vera yfir 50 dB við húsveggi nærliggjandi íbúðarhúsa yfir daginn, 45 dB að kvöldi og 40 dB að nóttu. Umrædd mæling hafi verið gerð að degi til en eimsvalarnir séu í gangi allan sólarhringinn.

Kærendur byggi á því að leyfishafi hafi ekki sýnt fram á að með hinum umdeildu framkvæmdum verði ráðin slík bót á þeim hávaða sem frá starfseminni berist að hún verði innan leyfilegra marka samkvæmt framangreindri reglugerð um hávaða. Þá telji kærendur að bæjarráð og eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðarbyggðar hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Sé ákvörðun um veitingu byggingarleyfis þegar af þeirri ástæðu ógildanleg.

Hávaði sem berist frá núverandi starfsemi vinnslustöðvarinnar að Hafnargötu 32-36 sé yfir leyfi­legum mörkum. Á meðan svo sé ástatt sé brýnt að leyfishafi sýni fram á með óyggjandi hætti að fyrirhugaðar breytingar muni tryggja að hávaði verði án undantekninga innan þessara marka áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmdum sem hafi í för með sér stækkun húsnæðis vinnslustöðvarinnar um 147,5 m2 og auki umsvif starfseminnar. Eftir að ákvörðun hafi verið tekin um að grenndar­kynna byggingarleyfisumsóknina hafi leyfishafi lagt fram minnisblað frá verkfræðistofu þar sem segi m.a.: „Frá fyrirhuguðum breytingum má búast við að hávaði verði að mestu frá eimsvala/kæliviftum. […] Í eftirfarandi útreikningum er gert ráð fyrir að jafngildishljóðstig yfir sólarhringinn frá eimsvala sé 43 dB við 70% afköst skv. framleiðanda. […] Á lóðamörkum í um 10 m fjarlægð frá eimsvala má búast við að hljóðstigið sé um Laeq 46 dB. Jafngildishljóðstigið utan við húsvegg Búðavegar 24 er áætlað um Laeq 39,5 dB.“ Í umsögn eigna,- skipulags- og umhverfis­nefndar, dags. 20. júlí 2021, sé á því byggt að með þessu minnisblaði sé nægilega sýnt fram á að tryggt verði að hávaði frá starfseminni verði innan marka reglugerðar nr. 724/2008.

Kærendur telji hins vegar skorta verulega á að fyrir liggi fullnægjandi gögn um hver raunverulegur hávaði verði frá starfseminni eftir breytingar. Umrætt minnisblað sé ýmsum annmörkum háð og þær upplýsingar sem það veiti séu alltof takmarkaðar til að á því verði byggð ákvörðun um veitingu byggingarleyfis. Þeir útreikningar sem settir séu fram í minnisblaðinu horfi aðeins til eins hljóðgjafa, þ.e. nýs eimsvala, sem fyrirhugað sé að koma fyrir við vélasal vinnslustöðvarinnar. Útreikningarnir byggi ekki á raunmælingum á þessum búnaði, heldur aðeins á upplýsingum frá framleiðanda um eiginleika hans. Slíkar grunnupplýsingar, svo sem um gerð búnaðarins, stærð hans og hljóðstig sem hann gefi frá sér við mismunandi vinnslu, komi hins vegar ekki fram í minnisblaðinu og verði heldur ekki séð að þær liggi fyrir í öðrum gögnum málsins. Eins komi ekkert fram um fyrirhugaða staðsetningu eimsvalans né hljóðstyrk við uppsprettu hljóðsins. Það sé því engin leið að sannreyna þessa útreikninga eða heimfæra þá á aðstæður við vinnslustöðina.

Þá séu niðurstöður minnisblaðsins um jafngildishljóðstig frá þessum eina hljóðgjafa, nýjum eimsvala, aðeins 0,5 dB undir þeim mörkum sem sett séu í reglugerð um hávaða. Ekkert tillit sé tekið til þess að aðrar hljóðuppsprettur hafi áhrif á heildarhávaða frá starfseminni. Jafnvel þó gengið sé út frá því að hávaði berist „að mestu frá eimsvala/kæliviftum“ eins og lagt sé upp með í umræddu minnisblaði, sé ljóst að afar lítið þurfi að bætast við svo samanlagður hljóðstyrkur fari yfir leyfileg mörk. Með hliðsjón af þessu telji kærendur minnisblaðið engan veginn sýna fram á með fullnægjandi hætti að fyrirhugaðar breytingar tryggi ásættanlega hljóðvist við fasteign þeirra. Með því að byggja ákvörðun sína alfarið á þessu minnisblaði hafi Fjarðarbyggð brugðist rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærendur telji það eðlilega kröfu að hljóðvist verði bætt og tryggt verði að hávaði sem frá starfseminni berist sé innan leyfilegra marka áður en leyfi verði veitt fyrir frekari framkvæmdum sem komi til með auka umfang starfseminnar. Uppsetning nýs eimsvala sé óháð öðrum byggingar­áformum og ekkert sem standi því í vegi að setja þann búnað upp áður en ráðist sé í aðrar fram­kvæmdir. Nauðsynlegt sé að sannreyna með nýjum hljóðmælingum, framkvæmdum af óháðum aðila, að hávaði frá starfseminni haldist innan leyfilegra marka áður en leyfi verði veitt fyrir framkvæmdum sem óhjákvæmilega muni auka umfang hans.

Lítið hald sé í þeim almennt orðaða fyrirvara sem settur hafi verið við veitingu byggingarleyfisins „að tryggt verði í hönnunar- og framkvæmdaferli að hljóðvist verði innan tilskilinna marka“. Fyrir liggi að framkvæmdir séu hafnar án þess að gerðar hafi verið mælingar eða lögð fram ítarlegri hönnunargögn sem staðfesti að hljóðvist verði innan leyfilegra marka. Þá hafi ekki verið sett nein skýr skilyrði um eftirlit óháðra aðila eða úttekt að þessu leyti, hvorki fyrir framkvæmdir, meðan á þeim standi né að þeim loknum. Leyfishafa virðist þannig alfarið í sjálfsvald sett hvort og að hvaða leyti þessum óljósa fyrirvara verði fylgt eftir.

Málsrök Fjarðabyggðar: Af hálfu Fjarðabyggðar er bent á að málsmeðferð við veitingu umdeilds byggingarleyfis hafi verið fullnægjandi og fyrirliggjandi gögn þess eðlis að forsendur hafi verið til að samþykkja framkvæmdirnar. Áréttað sé að meginreglur ógildingarfræða stjórnsýsluréttar feli í sér að ógilding stjórnvaldsákvörðunar komi ekki til greina nema að ákvörðun sé háð efnisannmarka eða að réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt og að sá annmarki geti hafa haft áhrif á efni ákvörðunar. Þessi skilyrði ógildingar séu ekki uppfyllt. Þá sé bent á að meðalhófs hafi verið gætt sem birtist m.a. í því að byggingarleyfi hafi verið samþykkt með skilyrðum sem varði hags­muni kærenda.

Mikilvægt sé að huga að hlutverki stjórnvalda á grundvelli reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Reglugerðin sé sett með stoð í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Eftirlit og þvingunaraðgerðir varðandi hljóðmengun frá atvinnurekstri sé í grunninn hjá eftirlitsstjórnvöldum sem fari með starfsleyfi viðkomandi rekstrar eða heilbrigðisnefndum sveitarfélaga almennt. Það virðist því vera á valdsviði starfsleyfisveitanda að gera kröfur á starfsemi leyfishafa svo hljóðvist verði bætt.

Hins vegar sé ljóst að við útgáfu byggingarleyfa beri að líta til þýðingar framkvæmda varðandi hljóðvist, sbr. m.a. ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, einkum ákvæði 11. kafla og gr. 14.2.10. um hljóðvistarkröfur hita- og kælikerfa. Í gr. 14.2.10. komi m.a. fram að við ákvörðun á staðsetningu á pípum, tækjum og stjórnbúnaði skuli tryggt að hávaði frá þeim valdi ekki óþægindum í byggingu eða umhverfi hennar og að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist, sbr. 11. kafla reglugerðarinnar. Reyndar sé tekið fram að umdeilanlegt geti verið hvort ákvæði gr. 14.2.10. eigi við um framkvæmdir vegna uppsetningar nýs eimsvala. Líta megi svo á að þegar byggingar­reglugerð vísi til hita- og kælikerfis sé átt við kerfi sem þjóni viðkomandi byggingu. Því eigi möguleg kæli- eða hitakerfi sem séu fremur hluti af þeirri verksmiðjustarfsemi eða iðnaði sem fram fari í byggingu ekki beinlínis undir gr. 14.2. Meginreglur 11. kafla reglugerðarinnar gildi þó í öllu falli. Markmið 11. kafla séu m.a. að byggingar og önnur mannvirki skuli þannig hönnuð og byggð að heilsu og innra umhverfi sé ekki spillt af völdum hávaða og óþægindum af hans völdum sé haldið í lágmarki. Hávaði sem fólk í mannvirki eða næsta nágrenni skynji skuli vera viðunandi og ekki hærri en svo að það geti sofið, hvílst og starfað við eðlileg skilyrði.

Það verði eðli máls samkvæmt að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða hönnun bygginga varðandi hljóðvist eða áhrif tækjabúnaðar og almennrar starfsemi á hljóðvist. Áhersla byggingar­reglugerðar sé á hönnun mannvirkja varðandi hljóðvist en ekki eftirlit með þeirri starfsemi sem fari fram eða muni fara fram. Þetta birtist t.d. í c-lið gr. 11.1.3 byggingarreglugerðar þar sem segi: „Sé byggt við hús eða annað mannvirki eða hluti þess eða heild er endurnýjuð ber hönnuði að staðfesta að hljóðvist hins nýja, breytta eða endurnýjaða mannvirkis fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til hljóðvistar vegna þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er í mannvirkinu skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til.“

Það sé hins vegar ljóst að huga beri að staðsetningu tækjabúnaðar utanhúss, þ.m.t. kælikerfa, en eftirlit með tækjabúnaði eða virkni verksmiðjutækja, m.a. varðandi hljóðmengun, liggi hjá starfsleyfisveitanda. Hvað sem þessu líði sé sýnt að leyfisveitandi hafi í þessu máli byggt ákvörðun sína á tilliti til áhrifa eimsvala á hljóðvist í umhverfinu. Í umsögn byggingarfulltrúa, dags. 20. júlí 2021, sé fjallað um skipulagslega stöðu svæða sem málið varði. Í fasteign leyfishafa hafi um langa hríð verið starfrækt fiskvinnsla. Fasteign kæranda sé á skilgreindu miðsvæði en um Búðaveg séu mörk svæðanna. Ekki sé verið að breyta notkun fasteignar leyfishafa.

Það sé í verkahring þess stjórnvalds sem starfsleyfi leyfishafa heyri undir að fylgja því eftir að hávaði frá starfsemi uppfylli kröfur reglugerðar um hávaða. Leyfisveitandi þurfi hins vegar að taka til umfjöllunar byggingarleyfisumsóknir og leggja mat á þær varðandi kröfur byggingar­reglu­gerðar. Þær kröfur varði einkum hönnun mannvirkja varðandi hljóðvist og staðsetningu lagna og tæknibúnaðar með tilliti til hljóðvistar. Í þessu tilviki megi líta svo á að leyfisveitandi hafi gengið lengra en kröfur byggingarreglugerðar gangi um hvernig líta skuli til sjónarmiða um bætta hljóð­vist þegar hávaða sé að rekja til starfsleyfisskyldrar starfsemi og tækjabúnaðar sem ekki séu hluti af þjónustukerfi viðkomandi byggingar. Leyfisveitanda hafi þó verið heimilt að líta til slíkra þátta og í raun tekið tillit til áhrifa framkvæmda samkvæmt byggingarleyfisumsókn á hljóðvist, bæði vegna framkvæmdarinnar sjálfrar og varðandi heildaráhrif fyrir starfsemi á fasteign leyfishafa.

Í byggingarleyfisumsókn komi fram: „Bæta á við hljóðlátum eimsvala ofan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði ofan vélasalar til að uppfylla viðmiðunar mörkin Laeq07-19 50 dB fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í reglugerð um hávaða nr. 724/2008.“ Í minnisblaði verkfræðistofu, dags, 8. júní 2021, sé gerð grein fyrir áhrifum eimsvala á hljóðvist á grunni upplýsinga um hljóðstig tækisins frá framleiðanda. Þar komi fram eftirfarandi niðurstaða: „Miðað við framangreindar forsendur og útreikninga er talið að í öllum tilfellum mun hljóðstig frá eimsvala vera innan marka reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.“

Í afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar hafi svo komið fram að hljóðvist yrði mæld þegar framkvæmdum væri lokið og búnaður kominn í fulla virkni til að sannreyna útreikninga um að hljóðstig verði innan tilskilinna marka. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 26. júlí 2021, komi fram bein skilyrði byggingarleyfis samkvæmt bókunum eigna,- skipulags- og umhverfisnefndar og bæjarráðs. Í því felist að eftirliti yrði fylgt eftir af hálfu leyfisveitanda og að ráðin yrði bót á hávaða frá starfsemi leyfishafa svo að hún yrði innan leyfilegra marka skv. reglugerð um hávaða. Það verði áfram hlutverk eftirlitsstjórnvalda með starfsleyfisskyldum rekstri leyfishafa að gæta að því að vélbúnaður og skipulag starfsemi í heild verði með þeim hætti að kröfur reglugerðar um hávaða verði uppfylltar. Ef ástæða sé til frekari úrbóta megi gera ráð fyrir að leyfishafi þurfi þá samkvæmt athugasemdum viðkomandi eftirlitsstjórnvalds með starfsleyfi að leggja til frekari úrbætur sem mögulega geti verið byggingarleyfisskyldar þegar þar að kæmi.

Rannsókn leyfisveitanda hafi verið fullnægjandi og tekið mið af hlutverki hans samkvæmt byggingarreglugerð og þeim framkvæmdum sem sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir en gæta þurfi að hlutverki og valdsviði eftirlitsstjórnvalda með starfsleyfi varðandi heildaráhrif vélbúnaðar og skipulags starfseminnar á hljóðvist. Þar fyrir utan liggi fyrir að leyfisveitandi byggi á því með vísan til gagna að framkvæmdir séu til þess fallnar að bæta hljóðvist fyrir starfsemina í heild og setja skilyrði um að það verði kannað og brugðist við ef á þurfi að halda.

Eðlilegt sé að leyfisveitandi leggi til grundvallar upplýsingar sem umsækjandi byggingarleyfis kynni vegna umsóknar sinnar. Það sé þó matsatriði hvort og að hve miklu leyti leyfisveitandi ráðist í heildarendurskoðun slíkra upplýsinga. Löggjöf um mannvirkjagerð á Íslandi byggi með almennum hætti á því að sá sem byggi mannvirki, þ.m.t. byggingarstjóri í hans umboði, og þeir fagaðilar sem komi að hönnun og byggingu mannvirkja beri ábyrgð á þeim. Gögn og útreikningar sem séu settir fram með forsvaranlegum hætti verði því lagðir til grundvallar við leyfisveitingar nema sérstakt tilefni sé til að véfengja þau. Minnisblöðin tvö sem unnin hafi verið af verkfræðistofu séu rökstudd og feli í sér greinilegar niðurstöður sem ekki hafi verið tilefni til að endurmeta. Þá sé einnig óraunhæft að framkvæma raunmælingar á hljóðstigi frá væntanlegum eimsvala áður en hann verði tekinn í notkun. Hins vegar sé gert ráð fyrir raunmælingum eftir að búnaðurinn verði tekinn í notkun.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er því mótmælt að hávaði hafi veruleg áhrif á nýtingarmöguleika og verðgildi fasteignar kærenda. Þeim hafi verið fullkunnugt um að starfsemi færi fram að Hafnargötu 32 sem myndi framkalla hávaða þegar þau hafi keypt húsið. Bent sé á að ásett verð fasteignar kærenda hafi numið 14,5 m. kr. þegar hún hafi verið sett á sölu í október 2014. Kærendur hafi hins vegar keypt fasteignina á 24 m. kr. þann 24. júní 2017. Fæst því ekki staðist að hávaði hafi haft áhrif á verðgildi fasteignarinnar. Þá taki leyfisveitandi fram að aldrei hafi komið fram í svörum leyfishafa til kærenda að til standi að byggja nýtt hús og vinnslu á öðrum stað. Slík fjárfesting gæti numið á bilinu 5-6 ma. kr.

Eftir að kærendur hafi keypt fasteign sína hafi leyfishafi fundað með þeim og ákveðið að setja hljóðdeyfi á seinni eimsvalann strax í kjölfarið. Áður hefði verið settur hljóðdeyfir á hinn eim­svalann. Einnig sé rétt að benda á að leyfishafa sé ekki kunnugt um að kvartanir vegna hávaða hafi borist til Heilbrigðiseftirlits Austurlands vegna starfseminnar. Hávaði vegna álpanna vinnslunnar muni verða að engu með plastpönnum í nýju vinnslukerfi. Með sjálfvirkni hinnar nýju vinnslu muni hávaði frá öðrum tækjum og umgangi starfsfólks einnig minnka til mikilla muna.

Hinn nýi eimsvali, svokallaður „low noice“ eimsvali, sé sérstaklega hannaður til að vera hljóðlátur. Auk þess afkasti hann um 77% af heildarþörf frystibúnaðar. Samanlagt sé því nýi eimsvalinn og hinir eldri tveir í yfirstærð, þ.e. 38% yfir þörfinni og þurfi því ekki að keyra eldri eimsvala á eins miklu álagi og þeir séu keyrðir í dag. Hinar nýju frystivélar, eimsvali og annar búnaður sé keyptur í einu lagi og afgreiddur frá sama framleiðanda sem hluti af nýju kerfi. Fullyrðingar kærenda um að uppsetning nýs eimsvala sé óháð öðrum byggingaráformum samkvæmt umsókninni eigi því ekki við rök að styðjast.

Minnisblað frá verkfræðistofu liggi fyrir þar sem niðurstaða mælinga tilgreini að í öllum tilvikum muni hljóðstig vera innan marka reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Hafi kærendur ekki sýnt fram á að fyrirliggjandi útreikningar séu rangir. Afstaða kærenda virðist frekar byggja á tilfinningu þeirra án þess að nokkur gögn eða útreikningar styðji fullyrðingar þeirra um að útreikningarnir séu rangir. Að lokum sé því mótmælt að fyrirvari byggingarleyfisins hafi ekkert vægi enda muni umræddar framkvæmdir leiða til þess að hljóðvist verði innan tilskilinna marka. Leyfisveitandi hafi fullar heimildir til að knýja á um að skilyrðum í byggingarleyfi verði framfylgt í hvívetna.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32, en í húsinu er rekin fiskvinnsla. Kærendur byggja málatilbúnað sinn helst á því að hávaði frá starfsemi á fasteigninni verði yfir þeim mörkum sem getið er um í reglugerð um hávaða nr. 724/2008.

Í 4. gr. reglugerðar um hávaða kemur fram að í viðauka, töflum I-III, séu tilgreind viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða frá umferð ökutækja, flugumferð og hvers konar atvinnustarfsemi. Þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess jafnframt gætt að hljóðstig sé undir LAeq 55 dB(A). Á kyrrlátu svæði skal hljóðstig í þéttbýli ekki fara yfir Lden 50 dB(A). Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að rekstraraðilar atvinnustarfsemi skuli miða rekstur sinn við að hljóðstig í byggð, sem verði fyrir áhrifum af starfseminni, verði ekki yfir mörkum í töflu III í viðauka. Í töflu III er fjallað um mörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi. Samkvæmt töflunni eru mörk fyrir atvinnustarfsemi gagnvart íbúðarhúsnæði á verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum LAeq 55 dB(A).

Samkvæmt þéttbýlisuppdrætti fyrir Fáskrúðsfjörð í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 er Hafnargata 32 á hafnar- og iðnaðarsvæði, H3/I1, en fasteign kærenda er á miðsvæði M1. Í framkvæmdalýsingu hinnar samþykktu byggingarleyfisumsóknar kemur fram að bæta eigi við hljóðlátum eimsvala ofan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði ofan vélasalar til að uppfylla viðmiðunarmörkin LAeq, (07-19) 50 dB(A) fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í reglugerð um hávaða. Jafnframt var tekið fram við afgreiðslu umsóknarinnar að hljóðvist við fasteign kærenda yrði mæld að framkvæmdum loknum til að sannreyna að út­reikn­ingar um að hljóðstig verði innan tilskilinna marka séu réttir.

Eðli máls samkvæmt er ekki mögulegt að mæla mun á hávaða frá starfseminni fyrir og eftir fram­kvæmdir fyrr en af þeim afstöðnum. Verður því að telja að með útreikningum á hávaða hafi málið að því leyti verið nægjanlega upplýst áður en hið kærða byggingarleyfi var samþykkt, sbr. rann­sóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mörk samkvæmt útreikningum eru undir þeim mörkum sem tilgreind eru í töflu III sem fylgir reglugerð um hávaða.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og að ekki liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið form- eða efnisannmörkum verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Rétt þykir að benda á að leiði hin kærða framkvæmd til hávaða umfram leyfileg mörk geta kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar, sem lætur framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða eftir þörfum skv. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um hávaða og getur eftir atvikum beitt þvingunarúrræðum skv. 12. gr. sömu reglugerðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 um að samþykkja umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32.

144/2021 Flekkudalsvegur

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 20. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 144/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 26. ágúst 2021 um að samþykkja byggingaráform fyrir byggingu frístundahúss á lóðinni Flekkudalsvegi 21A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Flekkudals 1, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 26. ágúst 2021 að samþykkja byggingar­áform fyrir byggingu frístundahúss á lóðinni Flekkudalsvegi 21A. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 12. október 2021.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 27. júní 2019 var tekin fyrir umsókn eiganda lóðar Flekkudalsvegar 21A um byggingarleyfi fyrir byggingu 36,1 m2 frístundahúss. Var umsóknin samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda. Á fundi nefndarinnar 29. ágúst s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og bókað að athugasemdir hefðu borist á grenndarkynningartíma. Taldi nefndin framkomnar athugasemdir ekki veita ástæðu til synjunar og samþykkti því byggingaráformin með þeim kvöðum að skýra yrði lóðarmörk við lóðina Sand í samráði við landeigendur.

Með umsókn 3. maí 2021 sótti eigandi lóðarinnar að Flekkudalsvegi 21A að nýju um leyfi til að byggja 70 m2 frístundahús á lóðinni. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Kjósar­hrepps, dags. 2. júní s.á., var umsóknin grenndarkynnt fyrir eigendum Eyja 1, Flekkudalsvegi 20A og Flekkudal 1. Athugasemdir bárust á kynningartíma frá kæranda. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 1. júlí 2021 var umsóknin tekin fyrir og bókað að nefndin óski eftir um­sögnum frá opinberum aðilum, s.s. heilbrigðiseftirliti, Vegagerðinni, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Hinn 13. júlí 2021 óskað skipulags- og byggingarfulltrúi eftir umsögnum nefndra stofnana auk Minjastofnunar. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. ágúst 2021 var fært til bókar að nefndin hafi farið yfir framkomnar athugasemdir og umsagnir og gæfu þær ekki tilefni til synjunar og voru byggingaráformin því samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærða ákvörðun ekki standast lög. Byggingarreitur sé staðsettur innan við 50 m frá vatni og vatnasvæði Meðalfellsvatns, sbr. gr. 5.3.2.14. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013. Undanþágu frá ráðherra þurfi svo að bygging gæti risið svo nálægt vatni og vatnasvæði, sbr. 12. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fáist undanþága frá ráðherra sé farið fram á að lóðin verði deiliskipulögð áður en byggingarleyfi verði veitt. Mengunarhætta geti stafað frá rotþró tengdri fyrirhugaðri byggingu þar sem reglulega myndi flæði yfir lóðina. Um mengunarhættu sé vísað til gr. 5.3.2.18. í skipulagsreglugerð. Með tilliti til nálægðar við Meðalfellsvatn og mögulegra áhrifa á lífríki vatnsins ætti að fara fram mat á umhverfisáhrifum. Lóðamörk séu dregin alveg upp að þjóðvegi en slíkt standist ekki skipulagslög nr. 123/2010. Þá geti skapast eldhætta fyrir nærliggjandi byggingar komi upp eldur í fyrirhugaðri byggingu. Að lokum sé því veitt athygli að upphaflegt samþykki skipulags- og byggingarnefndar hafi lotið að 34 m2 húsi en nú sé það orðið að 70 m2 húsi.

Málsrök Kjósarhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að fyrirhuguð bygging sé í sam­ræmi við byggingar á nærliggjandi lóðum og ekki nær vatni en þær byggingar. Byggingin verði staðsett meira en 50 m frá fjöruborði Meðalfellsvatns en til að gæta jafnræðis hafi þó verið hefð fyrir því að á óbyggðum lóðum sé ekki byggt nær vatni en byggingar á næstu nágrannalóðum. Fyrirhuguð framkvæmd samræmist aðalskipulagi en deiliskipulag sé ekki fyrir hendi. Í sam­ræmi við skipulagslög nr. 123/2010 hafi byggingarleyfisumsóknin verið grenndarkynnt. Þá hafi verið leitað umsagna Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Vegagerðinni, en ekkert í umsögnunum hafi gefið tilefni til að synja umsókninni. Búið verði svo um framkvæmdina að ekki verði mengun enda verði farið að tilmælum Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.

 Málsrök eiganda Flekkudalsvegar 21A: Vísað er til þess að byggingaráform hafi verið samþykkt með því skilyrði að haft yrði samráð og leitað leiðbeiningar heilbrigðiseftirlits um frágang fráveitu. Vegna nálægðar við Flekkudalsveg 20A sé gert ráð fyrir að settur verði eldvarnarveggur á þeirri hlið fyrirhugaðrar byggingu sem snúi að bústað á lóð Flekkudalsvegar 20A. Bent sé að 37 m2 húsið hafi ekki breyst í 70 m2 heldur hafi verið lögð inn ný umsókn.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingar­nefndar Kjósarhrepps að samþykkja byggingaráform fyrir frístundahús á lóðinni Flekkudals­vegi 21A. Útgáfa byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa er háð samþykki nefndarinnar, sbr. 2. gr. samþykktar nr. 429/2013 um afgreiðslur skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps, en samþykktin er sett með stoð í 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því verður litið svo á að fyrir liggi lokaákvörðun í málinu sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Lóðin Flekkudalsvegur 21A er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Í slíkum tilvikum er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingar­leyfi ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Í gildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 er lóðin á skilgreindu svæði fyrir landbúnað en samkvæmt skilmálum skipulagsins er heimilt að reisa stök mannvirki, t.d. íbúðar- og frístundahús, á slíkum svæðum. Þá eru skipulagðar frístundabyggðir í grennd við lóðina með sambærilegum byggingum. Eru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. um samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar uppfyllt í málinu. Hins vegar var sá ágalli á málsmeðferð byggingarleyfis­umsóknarinnar að umsóknin var grenndarkynnt án aðkomu skipulags- og byggingarnefndar líkt og nefnd 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga kveður á um. Með hliðsjón af því að skipulags- og byggingarnefnd tók umsóknina til umfjöllunar að lokinni grenndarkynningu verður sá ágalli þó ekki talinn geta valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og þar að auki hafði nefndin samþykkt grenndarkynningu sambærilegrar umsóknar á sömu lóð á árinu 2019.

Hin samþykktu byggingaráform gera ráð fyrir byggingu mannvirkis í grennd við bakka Meðalfellsvatns. Hefur kærandi vísað til þess að reglulega flæði yfir bakka vatnsins á lóðina auk þess sem fyrirhuguð bygging verði of nálægt vatninu. Samkvæmt 3. mgr. gr. 5.3.2.18. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er óheimilt að byggja á þekktum flóðasvæðum við ár, vötn og sjó. Í 1. mgr. sama reglugerðarákvæðis er kveðið á um að gera skuli grein fyrir þekktum flóða­svæðum í aðalskipulagi. Umrætt svæði hefur ekki verið skilgreint sem flóðasvæði í aðal­skipulagi og eru byggingaráformin því ekki í andstöðu við gr. 5.3.2.18. Þá verður ekki fallist á með kæranda að fyrirhugað mannvirki uppfylli ekki gr. gr. 5.3.2.14. í skipulagreglugerð um að ekki sé heimilt að reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m utan þétt­býlis, en rétt yfir 50 m verða frá mannvirkinu að Meðalfellsvatni.

Samkvæmt aðalskipulagi Kjósarhrepps er Meðalfellsvatn á hverfisverndarsvæði HV5. Í skil­málum aðalskipulagsins um hverfisvernd vegna náttúruverndar segir að þar sem um sé að ræða vötn eða tjarnir taki verndarsvæðið til þeirra svæða og að lágmarki til 50 m beltis á bökkum þeirra. Halda skuli byggingarframkvæmdum í lágmarki og þess gætt að þær leiði til eins lítillar röskunar og kostur sé. Um hverfisverndarsvæði HV5 segir enn fremur að huga þurfi sérstaklega að frárennslisþáttum, m.a. frá heitum pottum og hreinsivirkjum í samráði við Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis. Með hliðsjón af stærð fyrirhugaðs frístundahúss og að álits heilbrigðiseftirlitsins var leitað þykja áformin ekki ganga gegn skilmálum hverfisverndar í aðal­skipulagi Kjósarhrepps. Er þá einnig horft til þess að önnur sambærileg frístundahús hafa verið reist í svipaðri og minni fjarlægð frá Meðalfellsvatni.

Kærandi gerir einnig athugasemd við brunavarnir fyrirhugaðs frístundahúss og bendir á að lítið bil sé á milli þess húss og hússins á lóð Flekkudalsvegar 20A. Meira en 8 m verða á milli húsanna og verður fjarlægðin því ekki minni en þær lágmarksfjarlægðir sem gert er ráð fyrir í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá hefur eigandi Flekkudalsvegar 21A upplýst um að eld­varnarveggur verði settur upp á þeirri hlið fyrirhugaðs húss sem snýr að Flekkudalsvegi 20A.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Kjósar­hrepps frá 26. ágúst 2021 um að samþykkja byggingaráform fyrir byggingu frístundahúss á lóðinni Flekkudalsvegi 21A.

114/2021 Giljasel

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefáns­son varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. júní 2020 um að gefa út byggingarleyfi fyrir skjólgirðingu á lóðinni Giljaseli 8 og ákvörðun hans frá 9. júní 2021 um að synja um beitingu þvingunar­úrræða vegna girðingarinnar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júlí 2021, kæra eigendur, Giljaseli 6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. júní 2020 að gefa út byggingarleyfi fyrir skjól­­­girðingu á lóðinni Giljaseli 8. Er þess krafist að byggingarleyfið verði fellt úr gildi, en byggingar­áform voru ­samþykkt 10. desember 2019. Þá ber málskot kærenda með sér að einnig sé kærð ákvörðun frá 9. júní 2021 um synjun byggingarfulltrúa um beitingu þvingunarúrræða vegna sömu girðingar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. ágúst 2021.

Málavextir: Kærendur sendu byggingarfulltrúanum í Reykjavík tölvupóst 9. maí 2019 vegna framkvæmda á lóðinni Giljaseli 8. Kom þar fram að settir hefðu verið upp girðingastaurar og að tveir þeirra væru innan við 1,8 m frá mörkum lóðanna Giljasels 6 og 8. Þá fylgdi mynd með í viðhengi. Kærendur töldu líklegt að nýta ætti staurana sem undirstöður fyrir skjólgirðingu og tóku fram að þeir hefðu ekki veitt leyfi fyrir slíkum framkvæmdum.

 Eigendur Giljasels 6 og 8 höfðu hinn 9. janúar 2019 gert með sér samkomulag í því skyni að jafna ágreining sem risið hafði árið áður. Varðaði samkomulagið m.a. skjól­girðingu á „aftari/efri hluta garðs“ Giljasels 8. Eigendur síðarnefndu lóðarinnar sóttu hinn 22. októ­ber 2019 um ­­leyfi fyrir áður gerðum breytingum á lóð og byggingu sólstofu. Til stuðnings um­sókn sinni lögðu þeir fram áðurnefnt sam­komulag. Byggingafulltrúi samþykkti byggingar­áform­in 10. desember s.á. og tók m.a. fram að um væri að ræða samþykki á áður gerðri fram­kvæmd sem gerð hefði verið án byggingar­leyfis. Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum er m.a. um að ræða viðarklædda skjólgirðingu ofan á steyptum stoðvegg á vesturhlið lóðarinnar Giljasels 8, þ.e. á framhlið hennar meðfram Giljaseli, að horni lóðarinnar á mörkum hennar gagnvart lóðinni Giljaseli 6. Skjól­girðingin á umræddri hlið er hæst 1,80 m við mörk áðurgreindra lóða.

Hinn 18. apríl 2021 sendu kærendur byggingarfulltrúa tölvupóst þar sem fram kom að ekkert svar hefði borist við fyrra erindi þeirra frá árinu 2019 og að skjólgirðing hefði verið sett upp á meðan þeir hefðu verið „úti á landi frá s.l. fimmtudegi“. Töldu þeir heildarhæð stoðveggjar og skjól­girðingar vera um 2,5 m. Óskuðu kærendur eftir upp­lýsingum um það hvort veitt hefði verið leyfi fyrir framkvæmdinni. Degi síðar sendi byggingar­fulltrúi kærendum afrit af áðurnefndu sam­komulagi eigenda lóðanna. Kærendur svöruðu um hæl að þar væri um aðra framkvæmd að ræða. Í kjölfarið upplýsti byggingar­fulltrúi kærendur um að skilmálaeftirlit embættisins myndi taka erindið til skoðunar og bregðast við eftir atvikum. Kærendur höfðu á ný samband 7. og 16. maí s.á. og kom m.a. fram í síðarnefnda tölvupósti kærenda að þeir hefðu ekki veitt leyfi fyrir skjólgirðingu og að ljóst mætti vera að fjarlægja þyrfti þann hluta girðingarinnar sem væri nær lóðamörkum en hæð hennar. Hinn 9. júní 2021 greindu borgaryfirvöld kærendum frá því að byggingar­­leyfi fyrir framkvæmdunum hefði verið gefið út 30. júní 2020, að á samþykktum aðal­upp­drætti frá 10. desember 2019 væri gert ráð fyrir umræddum skjólvegg í suðausturhorni lóðarinnar og að í ljósi þess myndi embætti byggingar­­fulltrúa ekki aðhafast frekar vegna málsins.

Málsrök kærenda: Kærendur telja girðinguna búa til blint horn sem geri þeim erfiðara að sjá öku­­­­tæki og gangandi vegfarendur er þau aki út úr bílastæði sínu. Ekki hafi verið farið eftir gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um girðingar á lóðum. Kærendur hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá Reykjavíkurborg til að hlutast til um málið. Þeir ­­hafi ekki veitt leyfi fyrir skjól­girðingu við lóðamörk og álits þeirra hafi ekki verið leitað. Kærendur hafi sent inn ótal fyrir­spurnir, hringt í tugi skipta og gert allt sem í þeirra valdi standi til að fá upplýsingar um stöðu málsins hjá byggingarfulltrúa, en hann hafi ýmist ekki svarað, svarað seint eða tekið ákvarðanir á skjön við reglur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­­mála nr. 130/2011 sé liðinn en byggingarleyfi hafi verið samþykkt 30. júní 2020. Til vara er gerð krafa um að kröfu kærenda verði hafnað þar sem að á grundvelli samkomulags lóðarhafa lóðanna tveggja og samþykkis Reykjavíkurborgar sé búið að reisa girðingu í kringum nær alla lóðina Giljasel 8. Samkomu­lag eigenda lóðanna vegna stoðveggjar á lóðamörkum hafi legið fyrir þegar byggingar­­­­leyfi hafi verið gefið út. Veggurinn sem kæran snúi að liggi meðfram borgarlandi en við enda veggjarins sé staur, á lóðamörkum Giljasels 6 og 8. Staurinn sé 9 cm breiður, alls 0,0039% af heildarlengd umræddra lóðamarka. Með hliðsjón af meðalhófi verði ekki séð að staurinn hafi slík áhrif að fella skuli byggingarleyfið úr gildi og að skjólveggurinn verði rifinn.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar vísa til þess að skjólgirðingin sem um ræði liggi að ­­­­mörkum lóðar þeirra og lóðar kærenda en ekki á milli lóðanna. Þá sé steypti stoðveggurinn í sömu hæð og veggur sem tilheyri kærendum á lóð þeirra, eða 1,3 m að hæð. Engin breyting sé á hæð í landslagi lóðar. Stoðveggurinn sem snúi að gangstétt á borgarlandi sé 1,7 m frá gang­stéttinni. Áður hafi verið trjágróður á milli lóðanna sem hafi náð allt að 2,5 m hæð.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur taka fram að tilgreint samkomulag á milli kærenda og leyfishafa nái ekki til umræddrar skjólgirðingar heldur til girðingar á öðrum stað á ­­­­mörk­um lóðanna. Kærendur hafi kært ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar 29 dögum eftir að þeim hafi verið tilkynnt um ákvörðun um byggingarleyfi og að hún væri kæranleg til nefnd­arinnar. Í fundargerð byggingarfulltrúa frá 10. desember 2019 komi m.a. fram að skilyrði fyrir samþykki byggingarleyfis séu m.a. að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðar­hafa að­liggj­andi lóða. Þess hafi ekki verið gætt.

Þá hafi kærendur aldrei heyrt að það sé í lagi að brjóta reglur vegna þess að brotið sé bara 0,0039%. Afgreiðsla embættismanna borgarinnar á innsendum erindum þeirra hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Frá því að framkvæmdir leyfishafa hófust sumarið 2018 hafi kærendur reynt að fá leiðsögn starfsmanna byggingarfulltrúa en fálæti þeirra verið algert og starfsmenn borgarinnar ítrekað brugðist eftirlitsskyldu sinni gagnvart framkvæmdum leyfis­­­hafa. Það sé ósatt að umræddur skjólveggur skyggi jafn mikið á útsýni og limgerði hafi áður gert. Kærendur hafi þegar lent í því að sjá ekki börn á rafskutlum sem komi eftir Giljaseli í suður­­­átt þrátt fyrir að ekið væri varlega út af bílastæðinu. Til að tryggja öryggi þurfi að taka niður hluta skjól­­girðingarinnar.

Niðurstaða: Byggingaráform vegna nýs sólskála við hús á lóðinni Giljaseli 8 ásamt áður gerðum breytingum á lóðinni voru samþykkt með áritun byggingarfulltrúa á aðaluppdrætti 10. desember 2019. Í máli þessu er deilt um lögmæti hluta þeirrar skjólgirðingar sem sýnd er á uppdráttunum, þ.e. þess hluta hennar sem reist var við húsið að framanverðu, meðfram gangstétt götunnar, og nær að lóðamörkum Giljasels 6 og 8. Gera borgaryfirvöld kröfu um frávísun málsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kæru­frestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hags­muna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta.

Kærendur höfðu samband við byggingarfulltrúa 9. maí 2019 með tölvupósti og kom þar fram að búið væri að setja upp girðingarstaura. Vísuðu kærendur til samtals við byggingar­fulltrúa frá því um þremur vikum fyrr og greindu frá því að erindi þeirra væri hið sama og áður, „að óska eftir því að byggingarfulltrúi Reykjavíkur­borgar hlutist til um framkvæmdir eigenda Gilja­sels 8“. Þá lýstu kærendur því yfir að framkvæmdirnar væru ekki gerðar með þeirra sam­þykki og að mikilvægt væri að staurarnir yrðu fjarlægðir. Samkvæmt gögnum málsins var ekki um frekari samskipti að ræða á milli kærenda og byggingar­­fulltrúa á árunum 2019 eða 2020 og höfðu kærendur ekki samband við byggingar­fulltrúa á ný fyrr en með tölvupósti 18. apríl 2021, þar sem þeir greindu frá því að skjól­girðing hefði verið sett upp nokkrum dögum fyrr, þegar þeir hefðu verið úti á landi. Óskuðu þeir jafnframt eftir upplýs­ingum um það hvort leyfi hefði verið veitt fyrir framkvæmdinni. Í kjölfar ítrekunar á beiðni um upp­lýs­ingar, að undan­gengn­um frekari samskiptum við borgaryfirvöld, fengu kærendur hinn 7. maí s.á. upplýsingar um að byggingarleyfi hefði verið gefið út 30. júní 2020.

Við mat á upphafi kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina er horft til þess að kærendur höfðu frumkvæði að því að hafa sam­band við byggingarfulltrúa á vormánuðum ársins 2019, þegar þeir kveðast hafa orðið varir við fram­kvæmdir, án þess að erindi þeirra væri þá svarað, en fyrir liggur að á því tíma­marki höfðu umrædd byggingaráform ekki verið samþykkt. Ekki liggur annað fyrir en að kærendur hafi leitað til byggingarfulltrúa um leið og þeim hafi verið ljóst að verið væri að reisa skjólgirðingu á vormánuðum 2021. Að því virtu verður talið að kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun 7. maí 2021, en kæra í málinu barst úrskurðar­nefndinni 8. júlí s.á. Var kærufrestur þá liðinn sam­kvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Einnig var 8. júlí 2021 kærð ákvörðun byggingarfulltrúa frá 9. júní s.á. um að synja um beitingu þvingunarúrræða og er kæra á þeirri ákvörðun því fram komin innan kærufrests.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnis­með­ferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslu­lögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undan­tekningar­tilvikum.

Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki einungis hagsmuni kærenda heldur einnig eigenda Giljasels 8. Ekki verður þó framhjá því litið hve seint kærendum var leiðbeint um kæruleið og kærufrest í samskiptum sínum við borgaryfirvöld. Fyrir liggur að kærendur upp­lýstu byggingarfulltrúa þegar á árinu 2019 um að umræddur hluti skjólgirðingar á lóðinni Gilja­seli 8 yrði í óþökk þeirra. Þá ítrekuðu þeir þá afstöðu sína 18. apríl 2021 en var ekki leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrr en 9. júní s.á., en kæra í málinu barst nefndinni 8. júlí 2021. Í ljósi þess að kærendur voru ekki upplýstir um tilurð umdeilds byggingarleyfis fyrr en 7. maí 2021, þeim var ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest skv. 7. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga fyrr en 9. júní s.á. og að kæra í málinu barst án ástæðulauss dráttar eftir það tímamark verður með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslu­laga að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Verður sá þáttur málsins sem varðar kæru á umræddu byggingarleyfi því tekinn til efnismeðferðar.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Seljahverfis, skilmálar fyrir keðjuhús við Giljasel, Gljúfrasel og Grjótasel, frá árinu 1974. Þrátt fyrir að í heiti skipulagsins sé vikið að keðjuhúsum við göturnar má ráða að ekki sé aðeins um tvíbýlishús að ræða á skipulagssvæðinu og má á mæliblöðum og uppdrætti með skilmálunum sjá að ekki eru öll húsin keðjuhús. Samkvæmt skilmálunum bar byggingaraðilum að sýna fyllstu aðgát og tillitssemi gagnvart nágranna­lóðar­höfum sínum við allar framkvæmdir en ekki er sérstaklega kveðið á um hæðir skjólgirðinga í skilmálum eða skýringabók deiliskipulagsins.

Í gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er kveðið á um að hæð girðinga á lóðum skuli vera í samræmi við skipulagsskilmála og afla skuli byggingarleyfis nema framkvæmdirnar séu undanþegnar slíku leyfi. Þá sé girðing eða skjólveggur á mörkum lóða alltaf háður sam­þykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggjar og leita skuli samþykkis áður en hafist sé handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Í gr. 2.3.5. er mælt fyrir um minniháttar mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarleyfum. Samkvæmt e-lið ákvæðisins á það m.a. við um skjólveggi og girðingar sem eru allt að 1,8 m á hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m og girðingar eða skjólveggi sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og ekki hærri en sem nemi fjarlægðinni að lóðarmörkum.

Samkvæmt ótvíræðu orðalagi 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð eru girðingar eða skjól­veggir á mörkum lóða alltaf háðar samþykki beggja lóðarhafa en svo var ekki í tilfelli um­ræddrar girðingar. Verður af þeim sökum að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi,­ en að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verður það þó eingöngu fellt úr gildi að því leyti sem skjólgirðingin liggur á lóðarmörkum kærenda.

Þá er jafnframt í málinu deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2021 um að synja um beitingu þvingunar­úrræða vegna girðingarinnar.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því hlutverki felst eftir atvikum heimild til að beita þvingunarúrræðum þeim sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerðar ef ekki sé fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingar­framkvæmd­ina. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingar­fulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starf­semi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Um­rædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almanna­hagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðis­­hagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lög­varinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklings­­hagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hlið­sjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum laga­heimildum, og fylgja þarf megin­reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að mál­efnaleg sjónarmið búi þar að baki.

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að í ljósi þess að byggingarleyfi hefði verið gefið út og að á sam­þykktum aðaluppdrætti frá 10. desember 2019 væri gert ráð fyrir umræddum skjólvegg í suð­austur­horni lóðarinnar myndi embætti byggingarfulltrúa ekki aðhafast frekar. Þá kom og fram í skýringum borgaryfirvalda að með hliðsjón af meðalhófi fengist ekki séð að staur á mörkum umræddra lóða hefði slík áhrif að fella beri byggingarleyfið úr gildi og ógilda þá ákvörðun byggingarfulltrúa að beita ekki þvingunarúrræðum.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri mats­kenndu ákvörðun að synja kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða þótt hún kunni að snerta hags­muni þeirra, enda verður ekki talið að almannahagsmunum hafi verið raskað með hinni umdeildu girðingu. Fyrir liggur að leyfishafar reistu girðinguna í góðri trú að fengnu byggingar­leyfi og verður ekki séð að hún fari í bága við gildandi deiliskipulag. Þá eru kærendum önnur úr­ræði til­tæk til að gæta sinna hagsmuna, svo sem áður er komið fram. Kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar um synjun á beitingu þvingunarúrræða vegna umdeildrar skjól­girðingar er því hafnað.­­­­­­

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. desember 2019 um að samþykkja byggingar­leyfi fyrir skjólgirðingu á lóðinni Giljaseli 8 er felld úr gildi að því er varðar þann hluta skjólgirðingarinnar sem liggur á lóðamörkum Giljasels 6 og 8.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2021 um að synja kröfu þeirra um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólgirðingar á lóðinni Giljaseli 8.

99/2021 Bakkabraut

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon. fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mýrdalshrepps frá 7. júní 2021 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Bakkabraut 6A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi fasteignarinnar að Bakkabraut 6A, Vík í Mýrdal, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mýrdalshrepps frá 7. júní 2021 að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir nánar tilgreindum breytingum á fasteigninni Bakkabraut 6A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mýrdalshreppi 20. ágúst 2021.

Málavextir: Bakkabraut 6A er hús á tveimur hæðum sem skráð er í fasteignaskrá sem tvær íbúðir. Í júní 2017 leitaði kærandi til byggingarfulltrúa vegna fyrirhugaðra breytinga á efri hæð hússins. Óskaði hann eftir upplýsingum um hvort sækja þyrfti um byggingarleyfi vegna breytinganna. Þáverandi byggingarfulltrúi fór fram á frekari teikningar og upplýsingar um hvernig skráningin á húsinu yrði í kjölfar breytinganna. Upplýsti kærandi byggingarfulltrúa um hvað fælist í hinum fyrirhuguðu breytingum og að margt væri óákveðið um breytingar á neðri hæð hússins. Ljóst væri að auka þyrfti lofthæðina með því að grafa út og „mögulega síkka niður“ útveggina með því að steypa undir þá. Grafa þyrfti meðfram húsinu og athuga með byggingarfulltrúa hvað húsið þyldi mikla lækkun jarðvegs fyrir utan og innan.

Hinn 18. september 2017 sendi kærandi „umsókn um samþykki fyrir breytingu á fyrirkomu­lagi“ á neðri hæð hússins með tölvupósti til byggingarfulltrúa. Meðfylgjandi voru teikningar og skjal þar sem fyrirhuguðum breytingum var nánar lýst. Byggingarfulltrúi sendi kæranda tölvupóst 18. desember s.á. þar sem fram kom að hann gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á neðri hæð hússins en að hann þyrfti að fá ítarlegri gögn til að geta skráð breytingarnar í fasteignaskrá og að vinna þyrfti eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið ef skipta ætti því upp í nokkrar fasteignir. Kærandi upplýsti með tölvupósti til byggingarfulltrúa 27. ágúst 2018 að til stæði að hefja framkvæmdir á neðri hæð hússins. Fram kom að hann hafi fengið munnlegt samþykki fyrir því að hefja framkvæmdir, en hann teldi sig ekki hafa fengið formlegt samþykki. Óskaði hann eftir því að erindið yrði tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd. Í kjölfarið svaraði byggingarfulltrúi með eftirfarandi hætti: „Ein ástæða þess að málið hefur ekki verið sérstaklega tekið til afgreiðslu í skipulagsnefnd er að ég er ekki alveg viss um að þessar framkvæmdir séu þess eðlis að skipulagsnefnd þurfi sérstaklega að fjalla um þær.“ Samkvæmt upplýsingum frá kæranda stóðu yfir framkvæmdir á neðri hæð hússins frá september 2018 til apríl 2019. Í september 2019 óskaði núverandi byggingarfulltrúi eftir burðarþols- og lagnateikningum fyrir íbúðina á neðri hæð hússins.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa tölvupóst 31. janúar 2020 þar sem fram kom að hann sækti „formlega um að fá samþykki til að láta hanna og teikna breytingar“ á efri hæð hússins og var fyrirhuguðum breytingum nánar lýst. Byggingarfulltrúi upplýsti kæranda 28. febrúar 2020 um að fyrirhugaðar breytingar væru byggingarleyfisskyldar og að hann þyrfti því að sækja um leyfi. Þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu þyrfti að leggja fram umsókn um byggingarleyfi fyrir skipulagsnefnd. Kærandi sendi umsókn um byggingarleyfi, ásamt greinargerð um fyrirhugaðar breytingar á efri hæð hússins, með tölvupósti til byggingarfulltrúa 12. mars 2020. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 16. s.m. og var byggingar­fulltrúa falið að framkvæma grenndarkynningu þegar aðaluppdráttur hefði borist. Bókun nefndarinnar var staðfest í sveitarstjórn 19. s.m. Grenndarkynning fór fram 20. maí 2021 og var frestur til að gera athugasemdir til 18. júní s.á. Á fundi skipulagsnefndar 13. ágúst 2021 var ekki fallist á athugasemdir sem bárust á grenndarkynningartíma. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 20. s.m. og samþykkti „fyrir sitt leyti útgáfu byggingar­leyfis“. Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um þessa afgreiðslu með tölvupósti 22. ágúst 2020 og tók fram að byggingarleyfi yrði gefið út samkvæmt skilyrðum „núverandi byggingar­reglugerðar“. Næsta skref væri að senda inn rafræna umsókn um byggingarleyfi og vísaði byggingarfulltrúi til leiðbeininga um ferlið.

Hinn 7. september 2020 sendi kærandi rafræna umsókn um byggingarleyfi. Í henni var fyrir­huguðum breytingum á efri hæð lýst nánar. Byggingarfulltrúi sendi kæranda athugasemdir vegna umsóknarinnar 20. s.m. þar sem m.a. sagði: „Breytingar gerðar á neðri hæð voru gerðar af eiganda án leyfis og verður að meðhöndla og tilkynna þær sem hluta af nýrri framkvæmd.“ Kærandi sendi byggingarfulltrúa uppfærða aðaluppdrætti 12. desember 2020 og svaraði hann erindinu 11. febrúar 2021 þar sem m.a. kom fram: „Lofthæð í íbúð á jarðhæð merkt 0101 er minni en 2,50 m að innanmáli, sjá 6.7.2. gr. byggingarreglugerð nr. 112/2012.“

Hinn 26. febrúar 2021 sendi kærandi inn uppfærðar teikningar og greinargerð með svörum við athugasemdum byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi gerði frekari athugasemdir með bréfi, dags. 26. mars 2021, sem lutu m.a. að því að undanþága samkvæmt 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ætti ekki við og því væri gerð krafa um 2,5 m lofthæð í samræmi við gr. 6.7.2. í reglugerðinni. Kærandi skilaði inn greinargerð frá verkfræðingi, dags. 15. apríl 2021, þar sem m.a. var fjallað um lofthæð neðri hæðar hússins. Byggingarfulltrúi sendi kæranda athugasemdir með tölvupósti 7. júní 2021 þar sem ítrekað var að framangreind undanþága ætti ekki við í tilviki kæranda og því væri gerð krafa um 2,5 m lofthæð. Sagði svo eftirfarandi: „Vinsamlegast breyttu hönnuninni í samræmi við gildandi byggingarreglugerð.“ Þá kom einnig fram að þar sem kærandi hefði ekki fengið samþykki frá lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna stoðveggjar á lóðamörkum þyrfti að finna aðra lausn fyrir bílastæði.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ráðist hefði verið í endurbætur á fasteigninni sumarið 2017 í samráði við þáverandi byggingarfulltrúa, en ekki hefði tekist að skila inn teikningum af neðri hæð hússins til skipulags- og byggingarnefndar áður en hann hætti störfum haustið 2018. Hugmyndin hefði verið að gera neðri hæðina íbúðarhæfa á ný með því að lækka gólfið í íbúðinni, en lofthæðin hefði aðeins verið um tveir metrar. Ekki hefði komið til greina að hækka hæðarskil þar sem búið hefði verið á efri hæðinni og lofthæð þar rúmir tveir metrar. Haldið hefði verið fyrirkomulagi íbúðar á neðri hæðinni í megindráttum, en því þó breytt til að fullnægja nútímakröfum um hollustu, öryggi og eldvarnir, eins og kveðið sé á um í gr. 9.2.5. og 12.1.12. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Einnig hefði verið stuðst við gr. 6.1.5. í sömu reglugerð og leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við þessa grein. Þá hefði verið litið til gr. 12.8 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 vegna aldurs hússins.

Athugasemd um lofthæðina á seinni stigum umsóknar, sem sé í raun það eina sem standi í vegi fyrir því að framkvæmdir fari á næsta stig, sé ekki samkvæmt góðri stjórnsýslu þar sem byggingarfulltrúi hefði vitað af umræddri lofthæð frá upphafi umsóknar. Hálft ár hefði liðið þar til athugasemdin barst. Í greinargerð verkfræðistofu hefði komið fram að ekki væri hægt að verða við kröfum um aukna lofthæð og það rökstutt ítarlega. Einnig hefðu verið færð rök fyrir því að byggingarfulltrúa væri heimilt að falla frá ítrustu kröfum um lofthæð, með vísan til viðeigandi greinar í byggingarreglugerð og leiðbeininga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þá hefði slökkvilið í Vík ekki gert athugasemdir við brunavarnir við yfirferð á teikningunum, þar með talið vegna íbúðar á neðri hæð. Byggingarfulltrúi virðist ekki meðvitaður um framangreindar leiðbeiningar um breytingar á mannvirkjum byggðum í gildistíð eldri byggingarreglugerða. Tillaga hans um að hafa núverandi gólfbita sýnilega sé ekki raunhæf og skapi önnur vandamál. Að hækka hæðarskil um 20 cm sé stórmál og jafngildi því að rífa þyrfti efri hæð hússins og byggja aftur upp frá grunni. Einnig þyrfti að eyðileggja stóran hluta af nýlegri framkvæmd, þ.e. rífa þyrfti frágang á útveggjum og lofti íbúðar á neðri hæð.

Í 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð og í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkja-stofnunar við sömu grein sé fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess og segi þar svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar.“ Þetta sé undirstrikað betur í leiðbeiningum stofnunarinnar en þar segi svo: „Lofthæð þegar byggðra mannvirkja var í eldri byggingarreglugerðum að lágmarki 2,40 m en er í gildandi byggingarreglugerð 112/2012 að lágmarki 2,50 m. Í slíkum tilvikum er ekki ætlast til þess að lofthæðinni sé breytt enda er það oft ógerningur.“ Í gr. 78.4 í byggingarreglugerð frá 1998 segi: „Í þakherbergjum og kvist­herbergjum má meðalhæð vera 2,20 m enda sé lofthæðin 2,40 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis í íbúðarhúsnæði. Í öðrum herbergjum nýrra íbúða skal lofthæð vera a.m.k. 2,50 m en við endurgerð eða breytingu eldri húsa má lofthæð fara niður í 2,20 m enda sé meðallofthæð íbúða a.m.k. 2,30 m.“

Málsrök Mýrdalshrepps: Sveitarfélagið bendir á að kærandi hafi ekki getað vísað til neinna skriflegra gagna um samþykki fyrri byggingarfulltrúa fyrir umræddum framkvæmdum. Honum hafi verið leiðbeint um að hann þyrfti að senda skriflega lýsingu á fyrirhuguðum fram­kvæmdum áður en leyfi yrði gefið út á grundvelli umsóknar um byggingarleyfi. Í október 2019 hefði kærandi lagt fram ófullnægjandi teikningar. Í ágúst 2020 hefði skipulagshlutinn verið afgreiddur og byggingarfulltrúi óskað eftir því að skjöl um byggingarleyfið yrðu lögð fram. Fyrstu hönnunargögn, sem hefðu verið lögð fram í desember 2020, hefðu ekki sýnt hæðar­mælingar. Vísað hefði verið til kjallaraíbúðarinnar sem núverandi íbúðar og hefði verið gerð athugasemd við það. Frekari hönnunargögn hefðu verið lögð fram í desember 2020 og þeim síðan breytt í janúar 2021. Þau hefðu sýnt „hæð á milli hæða“ sem ekki hefði áður verið sýnd. Byggingarfulltrúi hefði í kjölfarið sett fram athugasemdir sínar um það tiltekna atriði.

 Umræddar breytingar á húsinu hafi án nokkurs vafa átt að vera í samræmi við gildandi mannvirkjalög. Vinnan við að dýpka kjallarann hefði átt sér stað árið 2020. Rökin fyrir því að lofthæð eigi á árinu 2020 að taka mið af byggingarreglum frá árinu 1998 en ekki af núverandi reglum standist ekki. Að auki vísi eigandi hússins til undantekninga frá reglunum frá 1998, þótt húsinu hefði í raun verið breytt árið 2020 til samræmis við reglurnar sem gilt hafi 1998. Fyrir liggi að húsinu verði breytt mjög mikið og tilgangur breytinganna sé augljóslega ekki sá að endurreisa eldri byggingu. Þar sem verkið í kjallaranum hafi verið unnið ólöglega séu engar úttektir eða skýrslur tiltækar og því ómögulegt að sannreyna gæði eða veruleika fullyrðinga eiganda varðandi þá vinnu sem unnin hafi verið. Samkvæmt síðasta bréfi frá verkfræðingi séu bitarnir undir gólfi efri hæðar lagðir óreglulega þótt þeir séu merktir sem hér um bil 700 mm á teikningu. Það veki spurningar um veruleika eldvarna og byggingarheiðarleika. Reglugerð varðandi hljóðeinangrun milli hæða verði að gilda þar sem byggingin verði fjölhæðarhús. Ef undanþága verði gerð í kjallaranum þurfi hún einnig að ná til efri hæðar og verði þá öll byggingin undanþegin núgildandi reglum. Þar sem gólfbitarnir séu úr timbri sé óraunhæft að halda því fram að erfitt sé að breyta eða skipta þeim út.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að Bakkabraut 6A sé ríflega aldargamalt hús. Í maí árið 2020 hefði Minjastofnun samþykkt hönnunargögn vegna fyrir­hugaðra breytinga og ekki gert athugasemdir. Breytingar á íbúð neðri hæðar hússins hefðu verið gerðar í embættistíð fyrri byggingarfulltrúa, sem samþykkt hefði breytingar á lofthæð úr 2,0 m í 2,3 m, enda hefði hann verið meðvitaður um undanþágur í byggingarreglugerð vegna aldurs hússins. Tölvupóstsamskipti staðfesti þetta. Húsið hefði verið byggt sem tvílyft tvíbýlishús, báðar hæðir skráðar og þær notaðar sem íbúðarhúsnæði. Neðri hluti hússins hafi alltaf verið skilgreindur og notaður sem íbúðarhúsnæði, þó seinni ára notkun hefði breyst, enda húsið illa einangrað og kaldara niðri en uppi. Tilgangur breytinga hefði því sannarlega verið sá að færa neðri hæðina í það horf að hún uppfyllti nútímakröfur um öryggi og hollustuhætti.

Húsið sé friðað sökum aldurs þess og kærandi hafi því leitað álits Minjastofnunar á kröfu byggingarfulltrúa um 2,5 m lofthæð á neðri hæð. Minjastofnun hafi sent kæranda umsögn, dags. 2. september 2021, þar sem segi að ekki sé fallist á kröfu byggingarfulltrúa um aukna lofthæð þar sem það hefði í för með sér mikið rask á grunngerð og hlutföllum hins friðaða húss. Minjastofnun bendi á að byggingarfulltrúi hafi heimildir í lögum til að falla frá ítrustu kröfu um lofthæð í friðuðu húsi og bendi á fordæmi þar sem slík heimild hafi verið nýtt. Álykta verði sem svo að það sé lögbundið að hlíta fyrirmælum Minjastofnunar, þar sem leita verði samþykkis hennar til að breyta svo gömlu húsi, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2012. Í því felist að óheimilt sé að raska húsinu, spilla því eða breyta, rífa eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna. Minjastofnun hafi heimilað breytingar á húsinu samkvæmt uppdráttum arkitekts frá apríl 2020. Kærandi vísi til 2. mgr. í fyrrnefndu bréfi Minjastofnunar, en í gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi m.a.: „Gæta skal að ákvæðum laga um menningarminjar vegna umsóknar um breytingu á þegar byggðu mannvirki sem fellur undir þau lög.“ Þá segi í gr. 6.1.5. og 9.2.5 m.a: „Ef sértökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar.“ Minjastofnun álykti eftirfarandi: „Krafa um aukna lofthæð á neðri hæð Bakkabrautar 6A muni hafa í för með sér mikið rask á grunngerð og hlutföllum hins friðaða húss sem Minjastofnun getur að öllu óbreyttu ekki fallist á.“ Minjastofnun hafi vegið og metið og tekið faglega afstöðu til sérstakra erfiðleika við að verða við kröfum byggingarfulltrúa. Niðurstaða Minjastofnunar sé skýr og í henni felist að ákvörðun byggingarfulltrúa teljist brot á minjalögum.

 Niðurstaða: Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir breytingum á efri hæð hússins að Bakkabraut 6A en í kjölfar athugasemda byggingarfulltrúa bætti hann við umsóknina þegar gerðum breytingum á neðri hæð þess. Á milli kæranda og byggingarfulltrúa áttu sér stað tölvupóstsamskipti þar sem byggingarfulltrúi gerði athugasemdir við umsóknina og kærandi brást við þeim athugasemdum.

Í hinni kærðu afstöðu byggingarfulltrúa, sem barst kæranda með tölvupósti 7. júní 2021, var vísað til ákvæða byggingarreglugerðar um lofthæð og kom þar fram eftirfarandi: „Vinsamlegast breyttu hönnuninni í samræmi við gildandi byggingarreglugerð.“ Þá sagði enn fremur að kærandi hefði ekki fengið samþykki nágranna fyrir stoðvegg á lóðamörkum og því yrði hann að finna aðra lausn. Ekki kom fram í ákvörðuninni að um synjun á byggingarleyfi væri að ræða og ber hún fremur merki þessi að vera leiðbeiningar byggingarfulltrúa til kæranda, enda var þar ekki leiðbeint um kæruheimild í samræmi við 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá liggja ekki fyrir neinar bókanir embættisins um afgreiðslu málsins.

Með hliðsjón af málavöxtum og fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að umrædd byggingarleyfisumsókn kæranda hafi fengið lokaafgreiðslu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að dragist áframhaldandi meðferð málsins úr hófi er unnt að kæra slíkan drátt til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

90/2021 Engjavegur

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021 um að samþykkja leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7, Ísafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2021, er barst nefndinni 21. s.m., kæra eigendur Engjavegar 9, Ísafirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 19. júlí og 3. desember 2021.

Málavextir: Vorið 2020 ákváðu eigendur húsanna að Engjavegi 7 og 9 að smíða sólpalla við hús sín. Þegar framkvæmdir hófust við sólpall á Engjavegi 7 töldu eigendur Engjavegar 9 að líklega þyrfti byggingarleyfi fyrir þeim palli. Höfðu þeir því samband við byggingarfulltrúa 20. júlí 2020 og óskuðu eftir að hann skoðaði framkvæmdirnar. Var það mat byggingarfulltrúans eftir skoðun að framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld. Með umsókn, dags. 31. júlí 2020, sóttu eigendur Engjavegar 7 um leyfi fyrir nýjum dyrum og verönd við suðvesturenda hússins. Hinn 18. september s.á. var erindið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og bárust athugasemdir frá eigendum Engjavegar 9. Á fundi skiplags- og mannvirkjanefndar 14. apríl 2021 var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókun gerð: „Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur tillit til athugasemda eigenda Engjavegar 9. Breytingar skulu gerðar á sólpalli svo þær samræmist byggingarreglugerð.“ Eigendur Engjavegar 7 skiluðu inn nýjum uppdrætti að sólpallinum 16. apríl s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. maí s.á. var umsókn þeirra um byggingarleyfi síðan samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Til grundvallar ákvörðun byggingarfulltrúa var m.a. minnisblað hans, dags. 29. mars 2021, þar sem eigendur Engjavegar 7 höfðu áritað samþykki sitt fyrir breytingum á umræddum sólpalli svo hann samræmdist byggingarreglugerð.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn byggingarreglugerð og að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafi verið við grenndarkynningu vegna málsins. Gerðar hafi verið athugasemdir við að skjólveggur við pallinn væri of hár miðað við að standa í 80-90 cm fjarlægð frá lóðamörkum. Hæð veggjarins væri þar 180 cm og enn meiri meðfram götunni. Skjólveggurinn myndi auka á snjósöfnun á bílastæði kærenda og minnka útsýni á götuna þegar bakkað væri út úr bílastæðinu. Framkvæmdin væri ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar varðandi hæð skjólveggjar og hæð á verönd/svölum. Byggingarfulltrúi hefði haft samband í desember s.á. og viljað halda fund með eigendum húsanna tveggja þar sem afdrif sólpalla beggja húsa yrðu rædd. Hefði þetta verið í fyrsta skipti sem þeirra sólpallur hefði blandast inn í málið. Kærendur hafi ekki séð tilgang með þessum fundi þar sem sólpallurinn að Engjavegi 7 væri byggingarleyfisskyldur.

Þegar eigandi Engjavegar 7 hefði haldið áfram með byggingu sólpallsins hefðu kærendur haft samband við byggingarfulltrúa 18. maí 2021 og óskað upplýsinga um hvort búið væri að veita leyfi fyrir framkvæmdunum. Þar sem engin svör hefðu borist hefðu kærendur farið á skrifstofu sveitarfélagsins 20. s.m. og hitt byggingarfulltrúann, sem hefði upplýst að búið væri að samþykkja framkvæmdirnar eftir einhverjar breytingar og að þau þyrftu að rífa sinn pall. Byggingarfulltrúinn hefði neitað að afhenda teikningar og gögn um leyfið og bent á að hægt væri að nálgast þetta á netinu. Í kjölfarið hefðu kærendur sent bréf á alla starfsmenn umhverfis- og eignasviðs þar sem þau hefðu óskað eftir teikningum, afriti af byggingarleyfi og fundargerð, en engin svör hefðu borist. Þeim hefði borist tölvupóstur frá byggingarfulltrúa 26. maí s.á. með loftmynd, sem að mati kærenda væri sama loftmynd og fylgt hefði með upphaflegu byggingar­leyfis­umsókninni og hafnað hefði verið af umhverfis- og skipulagsnefnd. Stuttu síðar hefði þeim borist annað bréf þar þeim hefði verið gefinn 20 daga frestur til að rífa sólpall sinn eða færa hann 1,8 m inn á lóðina. Óskað hefði verið eftir málsettum teikningum sem hið kærða byggingarleyfi byggðist á en engin svör hefðu borist. Viti kærendur ekki hvaða breytingar hefðu verið gerðar sem leitt hefðu til þess að leyfið var veitt.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Sveitarfélagið bendir á að ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita byggingarleyfi fyrir umræddum sólpalli hafi grundvallast á heildstæðu mat á atvikum og aðstæðum. Horft hafi verið til þeirra athugasemda sem fram hafi komið við grenndarkynningu og til undirritaðrar yfirlýsingar eigenda Engjavegar 7 þess efnis að sólpallurinn yrði færður í það horf að hann uppfyllti byggingarreglugerð. Skjólveggir sem snúi að lóðamörkum gagnvart Engjavegi 9 hefðu verið lækkaðir niður í 120 cm en þeir stæðu í 120 cm fjarlægð frá lóðamörkunum.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Vísað er til þess að teikningarnar sem byggingarleyfið byggi á séu ófullnægjandi. Einungis sé um að ræða loftmynd þar sem lína hafi verið færð til en engar málsettar teikningar. Byggingarfulltrúi hafi ekki svarað erindi þeirra um að fá málsettar teikningar. Þá geti það varla talist viðurkennt verklag að eigendur Engjavegar 7 hafi undirritað yfirlýsingu um að byggingaráformum yrði breytt á þann hátt að þau stæðust byggingar­reglugerð. Byggður hefði verið skúr við hlið bílskúrs þeirra sem hvergi sé að finna á teikningum, girðingar við götu og bílskúrsplan séu mun hærri en gert sé ráð fyrir á teikningum og ekki hafi verið upplýst um hvaða breytingar hafi verið gerðar frá upphaflegum teikningum. Byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt skyldum sínum sem eftirlitsaðili með framkvæmdinni þar sem hún sé nokkuð mikið frábrugðin teikningum og hafi kærendur vakið athygli hans á því.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að samþykkja byggingarleyfi fyrir sólpalli á lóðinni Engjavegi 7 og þá sérstaklega að því er varðar hæð skjólveggjar sem liggur samhliða lóðamörkum nefndrar lóðar og lóðar kærenda nr. 9 við Engjaveg.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru taldar upp minniháttar framkvæmdir sem ekki séu háðar byggingarleyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Í f-lið greinarinnar er tekið fram að skjólveggir og girðingar sem séu allt að 1,8 m að hæð og ekki nær lóðamörkum en 1,8 m séu undanþegnar byggingarleyfi. Enn fremur girðingar eða skjólveggir sem séu nær lóðar­mörkum en 1,8 m og séu ekki hærri en sem nemi fjarlægðinni frá lóðamörkum.

Samkvæmt lóðarleigusamningi fyrir lóðina Engjaveg 7 er bílskúrinn að Engjavegi 9 byggður yfir mörk lóðanna tveggja en þau eru í 5,4 m fjarlægð frá húsinu að Engjavegi 7. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er hinn umdeildi skjólveggur í 4,2 m fjarlægð frá húsinu að Engjavegi 7 og því 1,2 m frá lóðamörkum. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa var hið kærða byggingarleyfi samþykkt á þeim grundvelli að leyfishöfum væri heimilt að byggja skjólvegg sem væri 1,2 m á hæð og stæði í 1,2 m fjarlægð frá mörkum lóðanna tveggja. Verður því að telja að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við fyrrgreint ákv. gr. 2.3.5 í byggingar­reglu­gerðinni. Ber því að hafna kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Fram hefur komið að kærendur telji að umræddur skjólveggur á lóðinni Engjavegi 7 sé í raun allt að 2,2 m á hæð við bílastæði. Samkvæmt 8. gr. laga um nr. 160/2010 um mannvirki fer byggingarfulltrúi með eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi og er m.a. tekið fram í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og 10. kafla mannvirkjalaga sé framkvæmd ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir og byggingarlýsingu. Telji kærendur að sólpallurinn sé ekki í samræmi við byggingarleyfi geta þeir leitað til byggingarfulltrúa, sbr. framangreint ákvæði, og krafist íhlutunar hans svo mannvirkið verði í samræmi við veitt byggingar­leyfi. Afgreiðsla slíks erindis er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í kærumáli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun frá sveitar­félaginu.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021 um að samþykkja leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7, Ísafirði.

98/2021 Eyrartún

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 16. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 28. maí 2021 um að verða ekki við beiðni um að færa ærslabelg á Eyrartúni á Ísafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júní 2021, er barst nefndinni 25. s.m., kærir eigandi Túngötu 5, Ísafirði, þá ákvörðun skipulags- og mann­virkjanefndar Ísafjarðarbæjar að verða ekki við beiðni hans um að færa ærslabelg á Eyrartúni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 12. ágúst 2021.

Málavextir: Árið 2017 óskaði hverfisráð Eyrar og efri bæjar, Ísafirði, eftir því að keyptur yrði ærslabelgur sem settur yrði upp á „túnið við gamla sjúkrahúsið, vinstra megin við húsið, í skotin við trén“. Beiðni hverfisráðsins var kynnt bæjarráði 13. nóvember 2017 og var henni vísað til frekari úrvinnslu í umhverfis- og framkvæmdanefnd og íþrótta- og tómstundanefnd. Var fundargerð hverfisráðsins lögð fram til kynningar í umhverfis- og framkvæmdanefnd 21. s.m. og íþrótta- og tómstundanefnd 6. desember s.á. Íbúar Túngötu 12 og Eyrargötu 3 leituðu til tæknideildar Ísafjarðarbæjar 5. september 2018 vegna óánægju með fyrirhugaða staðsetningu ærsla­belgsins. Voru íbúarnir óánægðir með að þeim hefði ekki verið tilkynnt um fyrirhugaða uppsetningu leiktækisins og að ekki hefði farið fram grenndarkynning. Eftir samráð bæjarins við forstöðumann Safnahússins var ærslabelgurinn færður af Túngötu 10 og inn á Eyrartún. Kærandi lagði fram beiðni til skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar, dags. 19. maí 2021, um að umræddur ærslabelgur yrði fluttur á annan stað. Ekki hefði verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdinni, hvorki til skipulags- og mannvirkjanefndar né til Minjastofnunar. Samkvæmt svari frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun væri um mannvirki að ræða og bæri umhverfis- og eignasviði að breyta deiliskipulagi eða að lágmarki að láta fara fram grenndar­kynningu. Synjaði skipulags- og mannvirkjanefnd beiðni kæranda á fundi hinn 27. maí s.á. á þeim grundvelli að staðsetning ærslabelgsins væri í samræmi við deiliskipulag. Var kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu í tölvupósti daginn eftir.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að með ákvörðun sinni um að staðsetja svokallaðan ærslabelg á Eyrartúni og færa hann nær Túngötu 5 hafi verið brotið gegn andmælarétti íbúa í nærumhverfi framkvæmdarinnar enda hafi ekki farið fram grenndarkynning. Í kjölfar athuga­semda íbúa við Túngötu 12 og Eyrargötu 3 hafi belgurinn verið færður í 48,35 m fjarlægð frá þeim húsum en hin nýja staðsetning sé hins vegar einungis í 39,39 m fjarlægð frá húsi kæranda og því hafi ekki verið gætt jafnræðis við framkvæmdina. Ekki hafi verið hugað að umferðaröryggi eða aðgengi og séu börn ítrekað að skjótast milli kyrrstæðra bifreiða á leið sinni til og frá ærslabelgnum og legið hafi við stórslysum. Ekki hafi verið fengið leyfi hjá Minjastofnun fyrir framkvæmdinni á Eyrartúni, eins og beri að gera samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012, en bæði sé Eyrartún friðhelgað svæði og njóti hverfisverndar. Krefst kærandi þess að framkvæmd við ærslabelginn verði dæmd ólögleg og til vara að belgurinn verði fluttur á annan stað með að lágmarki sömu fjarlægðarmörkum og ákvörðuð hafi verið gagnvart íbúum Túngötu 12 og Eyrargötu 3.

 Málsrök Ísafjarðarbæjar: Sveitarfélagið telur að vísa beri kærunni frá. Rétt sé að Eyrartún falli undir hverfisvernd en í henni felist ekki lögformleg friðun heldur sé með hverfisvernd verið að leitast við að varðveita gömul hús sem hafi verndargildi. Það sé á hendi sveitarstjórnar að taka ákvörðun um hverfisvernd með skipulagsáætlunum og að henni sé ekki ætlað að koma í veg fyrir uppbyggingu og þróun í hverfum. Minjastofnun hafi eftirlit með friðuðum húsum og minjum en Eyrartún sé ekki friðað í heild sinni heldur einungis lóð safnahússins, húsið sjálft og friðlýstar minjar bæjarhólsins. Þá hafi Minjastofnun verið upplýst um breytingar á deiliskipulagi svæðisins í nóvember 2018 og engar athugasemdir hafi borist vegna þessa.

Framkvæmdin hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag og staðsetning belgsins sé á skipulögðu leiksvæði. Ærlsabelgurinn sé hvorki byggingarleyfisskyldur, sbr. lög um mann­virki nr. 160/2010, né framkvæmdaleyfisskyldur m.t.t. reglugerðar 771/2012 um framkvæmda­leyfi og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Kærandi hafi fest kaup á fasteigninni að Túngötu 5 árið 2018 og hafi honum mátt vera ljóst að svæðið hefði verið nýtt sem gæsluvöllur og bolta­völlur í áratugi. Þá sé jafnræðisreglunni ekki ætlað að tryggja jafna fjarlægð frá leiktækjum heldur að gætt sé jafnræðis á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði, kynþætti, litarhætti o.fl.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að umræddur ærslabelgur sé ekki staðsettur að Túngötu 10, líkt og sveitarfélagið haldi fram, heldur á Eyrartúni. Komið hafi fram í svari frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að ærslabelgurinn teljist mannvirki í skilningi laga um mannvirki og því hafi sveitarfélaginu borið að láta fara fram grenndarkynningu.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá brestur úrskurðarnefndina heimild til þess að leggja fyrir stjórnvöld að taka tilteknar ákvarðanir. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að flytja umdeildan ærslabelg á annan stað með að lágmarki sömu fjarlægðarmörkum og ákvörðuð hafi verið gagnvart íbúum Túngötu 12 og Eyrargötu 3.

 Í máli þessu er deilt um staðsetningu svonefnds ærslabelgs sem er uppblásinn dýna ætluð fyrir börn til leikja. Hann er staðsettur á Eyrartúni og er 164 m2 að stærð. Ærslabelgnum var upphaflega ætlaður staður á lóðinni Túngötu 10 en hann var síðan færður inn á Eyrartún í kjölfar athugasemda íbúa.

Samkvæmt Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 telst Eyrartún opið svæði til sérstakra nota og fellur túnið undir hverfisvernd. Í gildandi deiliskipulagi Eyrarinnar á Ísafirði er Eyrartún skilgreint sem leiksvæði og almenningsgarður og gert er ráð fyrir sparkvelli næst gæsluvelli, þar sem ærslabelgurinn er nú staðsettur. Verður að telja að staðsetning ærslabelgsins sé í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gilda lögin um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofanjarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sbr. þó 2. mgr. Lögin gilda einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengivirki, gáma og leik- og íþróttasvæði. Í 1. mgr. 9. gr. laganna segir að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Jafn­framt segir þar að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar skuli undanþiggja byggingarleyfi. Í 60. gr. laganna er tekið fram að ráðherra setji að tillögu Mannvirkjastofnunar og í samráði við hagsmunaaðila reglugerðir sem nái til alls landsins þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmd laganna. Í reglugerðinni skuli kveðið á um tiltekin atriði sem talin eru upp í þrettán tölusettum liðum. Í 10. töluliðnum segir að í reglugerðinni skuli kveðið á um frágang leiksvæða, íþróttasvæða og annarra opinna svæða.

Í samræmi við framanritað er í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ákvæði um opin svæði í gr. 7.2.5. og kemur þar fram að til opinna svæða teljist leiksvæði, íþróttasvæði og önnur manngerð svæði sem séu opin almenningi. Við frágang búnaðar allra opinna svæða skuli þess gætt að öryggi og aðgengi notenda sé sem best tryggt. Þá segir í gr. 7.1.6. um dvalar- og leiksvæði innan lóða eða opinna svæða við mannvirki að slík svæði skuli henta til útivistar, hvíldar og leikja og skuli staðsett og gerð með tilliti til skjóls, sólar og birtuskilyrða, hljóðvistar og annarra umhverfis­áhrifa. Öryggi fólks skuli tryggt á öllum dvalar- og leiksvæðum. Um kröfur til öryggis dvalarsvæða og opinna svæða gildi ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar og eftir því sem við eigi ákvæði reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leiktækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Með ákvæðum þeim sem að framan eru rakin eru settar reglur um frágang útivistarsvæða á vegum sveitarfélaga og felst í þeim krafa um að minni háttar mannvirki á slíkum svæðum sem ekki hafi umtalsverð umhverfisáhrif skuli fullnægja kröfum um öryggi og aðgengi notenda. Það felst síðan í lögbundnu eftirlitshlutverki sveitarfélaga að gæta þess að þessar kröfur séu uppfylltar. Af þessum sérákvæðum, er taka til leiksvæða og leiktækja, leiðir að leiktæki það sem hér um ræðir er ekki háð byggingarleyfi enda er fyrrgreindum  reglugerðarákvæðum ætlað að gæta sambærilegra hagsmuna og búa að baki byggingarleyfisskyldu.

Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kveður sú regla á um að við úrlausn mála skuli stjórnvald gæta samræmis og jafnræðis milli aðila. Í reglunni felst að almennt sé óheimilt að mismuna aðilum sem eins sé ástatt um og að sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum viðhorfum. Verður hins vegar að telja að staðsetning hins umdeilda ærslabelgs brjóti ekki gegn jafnræðisreglu, en hann er staðsettur u.þ.b. 10 m nær húsi kæranda en húsum þeim er hann hefur bent á í því sambandi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 28. maí 2021 um að verða ekki við kröfu hans um að ærslabelgur á Eyrartúni verði færður.

111/2021 Fagurgerði

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 9. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur

Fyrir var tekið mál nr. 111/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 27. maí 2020 um að breyta deiliskipulagi við Austurveg milli Sigtúns og Fagurgerðis og ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 19. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjórbýli á lóðinni Fagurgerði 12.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2021, er barst nefndinni 2. júlí s.á., kæra eigendur, Fagurgerði 10, Selfossi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 27. maí 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi við Austurveg milli Sigtúns og Fagurgerðis og ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 19. ágúst s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjórbýli á lóðinni Fagurgerði 12. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 18. ágúst 2021.

Málavextir: Á svæðinu sem um ræðir er í gildi deiliskipulag frá árinu 1989. Kemur þar fram að megineinkenni hverfisins eru meðalstór íbúðarhús í gróðurmiklum görðum og haldist þau óbreytt. Skipulagssvæðið sé látið halda sér sem einbýlishúsahverfi. Einnig er þar að finna fleiri skilmála, svo sem kröfu um bílageymslu með hverju húsi og að nýtingarhlutfall megi vera að hámarki 0,3.

Með umsókn, dags. 20. febrúar 2020, óskaði lóðarhafi Fagurgerðis 12 eftir leyfi fyrir byggingu fjórbýlishúss á lóðinni. Til þess að það gæti gengið eftir þyrfti að stækka byggingareit og hækka heimilað nýtingarhlutfall í gildandi deiliskipulagi. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. s.m. og var skipulagsfulltrúa falið að ræða við lóðarhafa. Hinn 13. mars. s.á. sendi lóðarhafi uppfærða teikningu að fyrirhuguðu mannvirki á lóðinni. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. s.m. var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir eigendum fasteigna að Fagurgerði 9 og 10 og að Austurvegi 21, 21b, 21c og 25. Var eigendunum sent bréf, dags. 30. mars 2020, þar sem erindið var grenndarkynnt og þeim boðið að skila athugasemdum fyrir 27. apríl s.á. Með bréfi, dags. 24. s.m., gerðu kærendur athugasemdir við hina kynntu tillögu. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. maí 2020 var málinu frestað og skipulagsfulltrúa falið að afla frekari gagna. Á fundi nefndarinnar 20. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum. Var lagt til við bæjarstjórn að samþykkja stækkun á byggingarreit og hækkun leyfilegs nýtingarhlutfalls á lóðinni Fagurgerði 12. Á fundi bæjarstjórnar 27. maí 2020 var tillaga skipulags- og byggingar­nefndar samþykkt.

Með umsókn, dags. 29. júní 2020, sótti lóðarhafi Fagurgerðis 12 um byggingarleyfi vegna mannvirkis á lóðinni. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. júlí s.á., var óskað eftir uppfærðum aðaluppdráttum frá lóðarhafa. Með bréfum, dags. 14. og 16. s.m., gerðu kærendur athugasemdir við umþrætt byggingaráform og framkvæmd grenndarkynningar og óskuðu eftir tilteknum gögnum. Bréfin voru móttekin hjá sveitarfélaginu en kærendur fengu hvorki svör né þau gögn sem óskað var eftir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, dags. 19. ágúst 2020, var byggingarleyfisumsóknin tekin fyrir og hún samþykkt með fyrirvara um að brugðist yrði við athugasemdum við fyrirliggjandi uppdrætti. Með bréfi, dags. 25. janúar 2021, þar sem m.a. var vísað til fyrri bréfa, gerðu kærendur athugasemdir við meðferð málsins og óskuðu eftir svörum. Því bréfi hefur ekki verið svarað. Húsið er í dag fullbyggt.

 Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er tekið fram að með grenndarkynningu hafi borist ljósrit úr skipulagslögum nr. 123/2010 sem reyndar sé ekki í samræmi við núgildandi lög, þar sem búið hafi verið að merkja við síðustu málsgrein 40. gr., sem fjalli um gerð deiliskipulags, kynningu og samráð. Jafnframt hafi verið merkt við 2. mgr. 43. gr. um breytingar á deili­skipulagi og 44. gr. um grenndarkynningu. Kærendur hafni því alfarið að kynning og sam­ráð við íbúa hafi verið með fullnægjandi hætti, eins og kveðið sé á um í 40. gr. skipulags­laga, og sé þar vísað bæði til 1. og 3. mgr. þeirrar greinar laganna. Grenndarkynningin hafi í fyrsta lagi verið sett fram sem fyrirspurn og tiltekið að hún varðaði, eins og þar komi fram, stækkun á byggingarreit. Ekki hafi þar verið vikið einu orði að því að samkvæmt gildandi deiliskipulagi skuli byggt einbýli á lóðinni að Fagur­gerði 12. Upplýsingar til þeirra sem grenndarkynning hafi náð til hafi því verið ófullnægjandi og beinlínis blekkjandi.

Ekki sé um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi og hafi kærendur enga tilkynningu fengið um niðurstöðu sveitarstjórnar í málinu, sbr. einnig ákvæði þar um í 44. gr. skipulagslaga. Þá hafi engar upplýsingar borist um hvort sveitarstjórn hefði tilkynnt Skipulagsstofnun um samþykkt á óverulegri breytingu á deiliskipulagi eða í hverju sú skipulagsbreyting væri fólgin. Að lokum geri skipulagslög kröfu um að samþykki um óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli birt af hálfu sveitarstjórnar í B-deild Stjórnartíðinda. Kærendur hafi við ritun þessa erindis rúmu ári eftir ákvörðunartöku sveitarfélagsins, hver sem hún kunni að vera, ekki fundið neina auglýsingu í Stjórnartíðindum um breytingu á deiliskipulagi sem varði Fagurgerði 12 á Selfossi. Sé því full ástæða til að efast um að sveitarfélagið hafi uppfyllt skilyrði samkvæmt skipulagslögum til ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi eða staðfestingar slíkrar ákvörðunar.

Í athugasemdum við grenndarkynningu hefði því verið mótmælt að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða þar sem stækkun á byggingarreit og aukið nýtingarhlutfall leiddi til skerðingar á birtu og sjónlínu frá eign kærenda. Jafnframt hefði verið gerð athugasemd við aukið umferðarálag. Einnig sé vísað til athugasemda sem sendar hafi verið skipulags- og byggingar­nefnd Árborgar með erindi, dags. 24. apríl 2020, sem engin svör hafi borist við. Verulegur munur sé á því hvort á lóðinni Fagurgerði 12 sé byggt einbýli eða fjölbýli. Ekkert mat virðist hafa verið lagt á aukið umferðarálag sem þessu fylgi og engar upplýsingar lagðar fram um bílastæði eða aðkomu að húsinu. Miðað við fjölda bifreiða í hverfinu megi ætla að hverri íbúð að Fagurgerði 12 geti fylgt að lágmarki ein til tvær bifreiðar. Því fylgi veruleg aukning á umferðarálagi sem varði hagsmuni allra íbúa í Fagurgerði sem og í nærliggjandi götum eins og Grænuvöllum. Því megi ætla að bifreiðum verði lagt í Fagurgerði utan lóðar. Þar við bætist gestakomur vegna fjögurra íbúða í umræddu fjölbýli. Þetta mál varði því hagsmuni mun fleiri aðila en þeirra sem grenndarkynning hafi náð til. Með stækkun á byggingarreit að Fagurgerði 12 og byggingu á mun stærra húsnæði en samþykkt deiliskipulag geri ráð fyrir verði aukning á nýtingarhlutfalli lóðarinnar og byggðar svalir á efri hæð húsnæðisins með skjólveggjum og sambærilegum skjólveggjum á neðri hæð. Þetta leiði til skerðingar á birtu og sjónlínu frá húsi kærenda til viðbótar við fjölgun íbúa og aukið umferðarálag í næsta nágrenni. Þetta hafi um leið augljós áhrif á næði og friðsæld sem kærendur hafi búið við og vilji áfram geta búið við. Sé í því sambandi vísað til núgildandi deiliskipulags sem eigendur hafi haft réttmætar væntingar um að héldist óbreytt. Af þessum ástæðum hafi stækkun á byggingarreitnum verið harðlega mótmælt og um leið því að um væri að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umrædd breyting á deiliskipulaginu muni hafa veruleg áhrif á hagsmuni eigenda að Fagurgerði 10, bæði hvað varði verðmæti og gildi þeirrar eignar, auk þess ónæðis og óhagræðis sem geti fylgt verulegri stækkun húsnæðis og fjölgun íbúða á næstu lóð.

Sveitarfélagið Árborg hafi unnið að þessu máli með ámælisverðum hætti og að engu haft eigin samþykktir og lagaskyldur um viðbrögð og svör vegna andmæla kærenda. Við afgreiðslu mála í skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn sé eingöngu skráð umfjöllun og samþykkt um stækkun á byggingarreit, en ekki breyting á deiliskipulagi um byggingu fjölbýlis í stað einbýlis. Ákvörðun um að skipulagsfulltrúi skyldi í framhaldinu svara innsendum athugasemdum vegna grenndarkynningar hefði ekki verið sinnt og engin umfjöllun virðist hafa verið um alvarlegar athugasemdir vegna galla á grenndarkynningu. Ítrekuðum beiðnum um upplýsingar og skýringar á ákvörðunartöku sveitar­félagsins, beiðnum um afrit af gögnum málsins og um skyldu til að upplýsa um kærurétt hafi heldur ekki verið sinnt. Sama gildi um erindi sem sent hafi verið bæjarstjórn Árborgar í byrjun árs 2021, en bæjarstjóri hafi upplýst að því hefði verið vísað til umfjöllunar Lögmanna Suðurlandi með ósk um skjót svör. Fimm mánuðum frá því erindið hafi verið sent höfðu enn engin svör fengist. Með vísan til þessa telji kærendur að sveitarfélagið hafi bæði brotið ákvæði stjórnsýslulaga og og upplýsingalaga. Þar við bætist að sveitarfélagið virðist ekki hafa virt ákvæði 44. gr. skipulagslaga um fullnægjandi kynningu málsins og upplýsingaskyldu gagnvart þeim sem það varði. Loks verði ekki séð að breyting á deiliskipulagi hafi verið birt með lögform­legum hætti skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og teljist ákvörðun sveitar­félagsins því ógild, hvers efnis sem hún kunni að hafa verið.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Sveitarfélagið gerir kröfu um frávísun málsins. Kærufrestur til úrskurðar­nefndarinnar sé einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála, og hafi hann því verið liðinn þegar kæran barst. Byggingarframkvæmdir hafi hafist á lóðinni Fagurgerði 12 skömmu eftir að byggingarleyfi hafi verið gefið út, en hinn 10. júní 2020 hafi verið óskað eftir útsetningu á greftri. Af bréfi kærenda, dags. 14. júlí 2020, megi ráða að þeim hafi verið fulljóst að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni enda búi þau í húsinuvið hliðina.

Þá sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað enda sé ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis ekki ógildanleg þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð hjá sveitarfélaginu. Byggt sé á því að annmarkar á málsmeðferð vegna byggingarleyfis að Fagurgerði 12 leiði ekki einir og sér til þess að ákvörðun um útgáfu þess verði ógilt samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar. Annmarkarnir séu ekki verulegir og ljóst sé að þeir hafi ekki verið til þess fallnir að hafa áhrif á efnislegt inntakt ákvörðunarinnar um útgáfu byggingarleyfisins. Því sé mótmælt að leyfið hafi neikvæð áhrif á hagsmuni lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Ákvörðun um útgáfu hins kærða byggingarleyfis hafi ekki falið í sér breytingu á deiliskipulagi þrátt fyrir að byggingarframkvæmdir geri ráð fyrir stækkun á byggingarreit. Í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. sama ákvæðis um breytingu á deili­skipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Það sé mat sveitarfélagsins að stækkun á byggingarreit að Fagurgerði 12 hafi ekki neikvæð áhrif á hagsmuni eigenda aðliggjandi lóða og því hafi ekki verið nauðsynlegt að gera breytingar á deiliskipulagi, enda ekki um að ræða aukið skuggavarp, leyfishafi hafi sýnt fram á næg bílastæði fyrir fyrirhugaðar íbúðir og umferð færi að mestu til suðurs án ónæðis fyrir aðra íbúa við Fagurgerði.

Sveitarfélagið hafi ákveðið, umfram skyldu sína samkvæmt skipulagslögum, að grenndarkynna frávik frá deiliskipulagsskilmálum fyrir eigendum húsa að Fagurgerði 9 og 10 og Austurvegi 21, 21b, 21c og 25 og hafi grenndarkynning farið fram í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulags­laga. Þá sé grenndarkynning sem slík ekki stjórnvaldsákvörðun sem hægt sé að fá ógilta með úrskurði. Athugasemdir hafi borist frá kærendum með bréfi, dags. 24. apríl 2020, og aðallega snúið að því að stækkun á byggingareit hefði veruleg áhrif á hagsmuni þeirra og umferð og öryggi íbúa í hverfinu. Skipulags- og byggingarnefnd hafi tekið erindið fyrir á fundi sínum 20. maí s.á. og bókað að erindið hefið verið grenndarkynnt og athugasemdir borist. Hafi skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum og lagt til við bæjarstjórn að samþykkja erindið, enda hafi það verið mat nefndarinnar að fyrirhugaðar framkvæmdir hefðu ekki veruleg áhrif á hagsmuni annarra íbúa hverfisins. Hefði tillagan síðan verið samþykkt af bæjarstjórn Árborgar á fundi 27. maí 2020.

Því sé hafnað að ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis vegna byggingar á lóðinni nr. 12 við Fagurgerði hafi leitt til skerðingar á eignarrétti kærenda umfram það sem eðlilegt geti talist. Bent sé á að samkvæmt deiliskipulagi hafi verið byggingarreitur á lóðinni þrátt fyrir að á henni hafi ekki verið byggt fyrr en nú. Kærendur hafi ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að á lóðinni yrði aldrei byggt enda eiganda lóðarinnar heimilað að byggja á lóðinni íbúðarhús samkvæmt deiliskipulagi.

Kærendur byggi á því að verðmæti fasteignar þeirra hafi rýrnað m.a. vegna þess að bygging mannvirkis að Fagurgerði 12 hafi leitt til skerðingar á birtu og sjónlínu frá fasteign þeirra. Þótt tekið væri undir það þá væri skerðingin ekki umfram það sem hefði mátt ætla samkvæmt deili­skipulagi og kærendur því ekki getað haft réttmætar væntingar til annars en að á lóðinni yrði byggt og að útsýni og birta á þeirra lóð myndi skerðast. Ekki sé um ólögmæta skerðingu að ræða. Þess beri að geta að byggingarreitur á lóðinni Fagurgerði 12 hafi verið stækkaður til suðurs en hús kærenda standi norðanmegin við lóðina og því ljóst að stækkunin hafi engin áhrif á útsýni eða birtu frá húsi kærenda.

Umferðarálag aukist ekki í hverfinu umfram það sem eðlilegt sé vegna framkvæmda á lóð sem hafi frá upphafi verið ætluð undir íbúðarhúsnæði. Kærendur hafi ekki sýnt fram á að umferðar­álag aukist umfram það sem eðlilegt geti talist með uppbyggingu deiliskipulagðra íbúðarhúsa­lóða í þéttbýli. Þá sé bent á að ætla megi að umferð til og frá Fagurgerði 12 beinist að stærstum hluta inn á Austurveg þar sem meginhluti verslunar- og þjónustu á Selfossi sé. Austurvegur liggi í gagnstæða átt frá húsi kærenda. Þá séu engar reglur í gildi um lágmarksfjölda bílastæða við íbúðarhús skv. skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Gert sé ráð fyrir sex bílastæðum við Fagur­gerði 12 samkvæmt teikningu, eða einu og hálfu stæði á hverja íbúð, og séu þau öll innan lóðar.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Því er hafnað af hálfu kærenda að þau hafi verið meðvituð um hina kærðu ákvörðun 14. júlí 2020 enda komi fram í athugasemdum Árborgar að umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi hafi ekki verið tekin til samþykktar fyrr en 19. ágúst 2020 og samþykktin þá háð fyrirvara. Hvenær þær efniskröfur hafi verið uppfylltar og fyrirvara þar með aflétt hafi kærendur engar upplýsingar um. Í þessu samhengi sé bent á að beiðnum um upplýsingar um kærurétt hafi ekki verið sinnt. Hér sé vert að vísa til 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli tilkynna aðila máls um hana og skuli þar veita leiðbeiningar um kæruheimild þegar hún sé fyrir hendi, kærufresti og hvert beina skuli kæru. Þar sem fyrir liggi að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt og að stjórnsýsla sveitarfélagsins hafi misfarist, svo notuð séu þeirra eigin orð, sé því mótmælt að ekki beri að taka málið fyrir efnislega. Það sé ekki hægt að láta kæruaðila líða fyrir mistök sveitarfélagsins og að það hafi ekki sinnt skyldum sínum um að upplýsa kærendur um niður­stöðu málsins og leiðbeina um kærurétt. Sérstaklega þegar fyrir liggi að ítrekað hafi verið óskað eftir svörum og upplýsingum um málið án þess að sveitarfélagið hafi svarað þeim erindum.

Þegar litið sé til málsatvika sé ljóst að sveitarfélagið komi nú með eftiráskýringar í þeirri viðleitni að ramma gjörðir skipulags- og byggingaryfirvalda innan lagaramma, en sú viðleitni sé mótsagnakennd og gangi ekki upp. Eins og viðurkennt sé hafi farið fram grenndar­kynning í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Sú grenndarkynning, þótt gölluð væri, hefði verið undanfari samþykkta um deiliskipulagsbreytingu bæði af hálfu skipulags- og byggingar­nefndar og bæjarstjórnar, þó svo sú breyting hefði aðeins náð til stækkunar á byggingarreit, en ekki breytingar úr einbýli í fjölbýli. Þar með liggi fyrir að málið hafi alfarið verið unnið á grundvelli 2. mgr. 43. gr. laganna, þó svo að misfarist hefði eins og annað, að birta auglýsingu um skipulags­breytinguna í B-deild Stjórnartíðinda og jafnvel einnig að senda Skipulagsstofnun tilkynningu um breytinguna.

Við nánari skoðun á ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna megi einnig geta þess að orðalagið „svo óveruleg frávik“ geti aldrei átt við um byggingu tveggja hæða fjölbýlis á þessari byggingarlóð í stað einbýlis samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem samkvæmt fram komnum athuga­semdum varnaraðila hafi ekki verið breytt.

Lýsing sveitarfélagsins á umferðarálagi vegna byggingar fjórbýlis í stað einbýlis að Fagurgerði 12 staðfesti í raun að ekkert mat á þessum þætti málsins hafi farið fram í aðdraganda ákvörðunar um að heimila slíka byggingu þvert á gildandi deiliskipulag sem fullyrt sé að ekki hafi tekið breytingum. Að sjálfsögðu muni umferðarálag vegna fjórbýlis verða meira en ef á lóðinni væri einbýli samkvæmt gildandi skipulagi. Þá telji sveitarfélagið að umferð verði að mestu til og frá Austurvegi, en sú sé ekki raunin í dag og hafi ekki verið. Íbúar í þessu hverfi forðist iðulega umferðarálag á Austurvegi og leiti því annarra leiða út úr hverfinu til vinnu og til að sækja þjónustu.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Sveitarfélagið vísar til þess að kærendum hafi átt að vera kunnugt um að framkvæmdir væru hafnar hinn 14. júlí 2020 með vísan til bréfs kærenda sem dagsett hafi verið þann dag og að þeir búi á lóðinni við hlið Fagurgerðis 12. Byggingarframkvæmdir hafi hafist á lóðinni skömmu eftir að byggingarleyfi hafi verið gefið út, en hinn 10. júní 2020 hafi verið óskað eftir útsetningu fyrir greftri. Í gögnum málsins kemur þó fram að umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt með fyrirvara á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. ágúst 2020. Þá bera gögn málsins ekki með sér að kærendur hafi fengið tilkynningu um töku hinna kærðu ákvarðana eða leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest. Þrátt fyrir að framkvæmdir hafi hafist í kjölfar útgáfu byggingarleyfis verður að líta til þess að kærendur hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum og gögnum frá sveitarfélaginu um framkvæmdirnar án þess að hafa haft erindi sem erfiði. Með hliðsjón af greindum málsatvikum verður málið tekið til efnismeðferðar á grundvelli 28. gr. stjórnsýslu­laga þar sem afsakanlegt verður að telja að dráttur hafi orðið á kæru í málinu en óvíst er hvenær kæranda hafi orðið eða mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir.

Í 43. gr. skipulagslaga 123/2010 er fjallað um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deili­skipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkom­andi svæðis. Sveitarstjórn skal senda Skipulagsstofnun samþykkta deiliskipulags­breytingu og birta auglýsingu um samþykkt hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Í 3. mgr. segir að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Upphaf máls þessa var að óskað var eftir stækkun á byggingarreit og breytingu á nýtingar­hlutfalli lóðarinnar nr. 12 við Fagurgerði svo hægt væri að byggja þar fjórbýlishús. Sú ósk var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. mars 2020 sem fyrirspurn um stækkun byggingarreits. Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna erindið með vísan til 44. gr. skipulags­laga og í grenndarkynningunni var ástæðan sögð vera breyting á byggingarreit, en ekki kom fram að til stæði að fjölga íbúðum og bílastæðum eða hækka nýtingarhlutfall. Fyrir liggur að auglýsing um samþykkt deiliskipulags var hins vegar ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda og liggur af þeim sökum ekki fyrir kæranleg ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi. Verður kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með umsókn, dags. 29. júní 2020, var sótt um byggingarleyfi fyrir fjórbýlishúsi á umræddri lóð. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. ágúst 2020 var umsóknin samþykkt með fyrirvara um að brugðist yrði við athugasemdum. Vísað hefur verið til þess af hálfu sveitarfélagsins að skv. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga geti sveitarstjórn, við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis, heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. sama ákvæðis um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Í gögnum málsins er þó ekki að sjá að sveitarstjórn hafi samþykkt hið kærða byggingarleyfi, eins og ákvæðið gerir að skilyrði. Með hinu kærða byggingarleyfi er vikið frá gildandi deiliskipulagi meðal annars hvað varðar stærð byggingar­reits, nýtingarhlutfall umræddrar lóðar og fjölda íbúða á lóð. Er óhjákvæmilegt að sú breyting hafi einhver grenndaráhrif gagnvart næstu fasteignum og kemur því ekki til álita að víkja frá skilmálum gildandi deiliskipulags í þessu tilviki á grundvelli fyrrnefndrar 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og verður leyfið því fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 19. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjórbýli á lóðinni Fagurgerði 12, Selfossi.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

142/2021 Breiðholtsbraut – auglýsingaskilti

Með

Árið 2021, föstudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 142/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júlí 2021 um að synja umsókn um leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti við gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Íþróttafélag Reykjavíkur þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn um leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti við gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. september 2021.

Málavextir: Með umsókn, dags. 31. mars 2021, óskaði kærandi eftir leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti í stað núverandi flettiskiltis við gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Jafnframt að skoðaður yrði möguleiki á að hækka núverandi skilti eða koma því fyrir á gatna­mótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka. Af hálfu byggingarfulltrúa var leitað eftir umsögn skipulagsfulltrúa vegna framlagðrar umsóknar.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. júlí 2021, kemur fram að leitað hafi verið umsagnar Vega­gerðarinnar um nýtt stafrænt skilti eða hækkun á núverandi skilti. Í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 24. júní 2021, kemur fram að hún leggist gegn auglýsingaskiltum sem beint sé að umferð vegna umferðaröryggissjónarmiða. Stafrænt auglýsingaskilti sé enn meira til þess fallið en flettiskilti að fanga athygli ökumanna. Slíkt kunni að draga úr umferðaröryggi. Vegagerðin bendi á 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, auglýsingaskilti við veg, en samkvæmt þeirri laga­grein sé veghaldara heimilt að hafna umsóknum um uppsetningu á auglýsingaskiltum sem beint sé að vegi veghaldara. Þá samþykki Vegagerðin hvorki hækkun skiltis né tilfærslu á því þar sem að aðgerðirnar séu til þess fallnar að fanga athygli ökumanna sem kunni að draga úr umferðaröryggi.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júlí s.á. var umsóknin tekin fyrir og henni synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi komið í bréfpósti til félagsins og komið fyrst til vitundar þess 7. ágúst 2021 þegar framkvæmdastjóri félagsins hafi komi úr sumarleyfi og opnað bréfið. Byggi kærandi á því að borgaryfirvöld beiti reglum um skilti afturvirkt, sem sé ekki heimilt að lögum. Uppsetning á stafrænum skjá hafi verið hafin áður en ný samþykkt um skilti hafi tekið gildi hjá Reykjavíkurborg í maí 2020. Í kjölfar upplýsinga frá byggingarfulltrúa hafi félagið sótt um leyfi fyrir stafrænu skilti. Þá séu hagsmunir vegna öryggissjónarmiða svo litlir miðað við hagsmuni kæranda að ákvörðun byggingarfulltrúa standist ekki með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra eigi. Hin umþrætta ákvörðun hafi verið tekin 6. júlí 2021 og kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 7. s.m. Frestur til að kæra áðurgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni, en það að póstur sé ekki opnaður tímanlega af hálfu kæranda, eins og upplýst sé í kæru, sé á hans ábyrgð og framlengist kærufrestur ekki af þeim sökum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála miði kærufrestur við vitneskju eða ætlaða vitneskju aðila. Byggt sé á því að kærufrestur hafi byrjað að líða 7. ágúst 2021 þegar framkvæmdastjóri kæranda hafi snúið aftur til vinnu eftir sumarleyfi og opnað erindið. Ákvörðunin hafi borist í bréfpósti, en ekki liggi fyrir hvenær bréfið hafi borist kæranda. Eðlilegt hefði verið að senda bréfið í ábyrgðarpósti til að tryggja móttöku þess ef til hefði staðið að byggja á dagsetningu þess um upphaf kærufrests.

 Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um þá ákvörðun sem kæra skal. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda var tilkynnt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 6. júlí 2021 um synjun á umsókn hans með bréfi, dags. 7. s.m. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er ákvörðun bindandi eftir að hún er komin til aðila. Hins vegar er það ekki gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar hans. Í bréfinu var bent á að heimilt væri að skjóta málinu til æðra stjórnvalds, sem væri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en kæranda var ekki leiðbeint um kærufrest, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 7. september 2021. Í ljósi greinds annmarka á leið­beiningum til kæranda, og þess að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er styttri en almennur kærufrestur samkvæmt stjórnsýslulögum, verður með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr og verður málinu því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum þess að kæra hafi borist að kærufresti liðnum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki falla skilti, eins og um ræðir í þessu máli, undir gildissvið laganna. Þá er fjallað um kröfur til skilta í kafla 2.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt reglugerðinni eru skiltin byggingarleyfisskyld og skulu þau vera í samræmi við gildandi skipulag. Í 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 kemur fram að spjöld, auglýsingar, ljósaskilti eða sambærilegan búnað megi eigi setja á eða við veg þannig að honum sé beint að umferð nema með heimild veghaldara. Veghaldari geti synjað um leyfi eða gert kröfu um að slíkur búnaður verði fjarlægður ef hann telji hann draga úr umferðar­öryggi, þar á meðal ef misskilja megi hann sem umferðarmerki, umferðarskilti eða veg­merkingu, búnaður tálmi vegsýn eða sé til þess fallinn að draga athygli vegfarandans frá vegi eða umferðinni.

Með vísan til afdráttarlausrar umsagnar Vegagerðarinnar, sem vísað var til í umsögn skipulags­fulltrúa, eins og rakið er í málavaxtalýsingu, verður að telja að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um annars vegar að koma fyrir stafrænu skilti í stað núverandi flettiskiltis við gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels og hins vegar að skoðaður yrði sá möguleiki að hækka núverandi skilti eða koma því fyrir á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka. Verður synjunin af þeim sökum ekki felld úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júlí 2021 um að synja umsókn um leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti við gatnamót Breiðholts-brautar og Skógarsels/Stekkjarbakka.