Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

144/2021 Flekkudalsvegur

Árið 2022, fimmtudaginn 20. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 144/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 26. ágúst 2021 um að samþykkja byggingaráform fyrir byggingu frístundahúss á lóðinni Flekkudalsvegi 21A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Flekkudals 1, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 26. ágúst 2021 að samþykkja byggingar­áform fyrir byggingu frístundahúss á lóðinni Flekkudalsvegi 21A. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 12. október 2021.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 27. júní 2019 var tekin fyrir umsókn eiganda lóðar Flekkudalsvegar 21A um byggingarleyfi fyrir byggingu 36,1 m2 frístundahúss. Var umsóknin samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda. Á fundi nefndarinnar 29. ágúst s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og bókað að athugasemdir hefðu borist á grenndarkynningartíma. Taldi nefndin framkomnar athugasemdir ekki veita ástæðu til synjunar og samþykkti því byggingaráformin með þeim kvöðum að skýra yrði lóðarmörk við lóðina Sand í samráði við landeigendur.

Með umsókn 3. maí 2021 sótti eigandi lóðarinnar að Flekkudalsvegi 21A að nýju um leyfi til að byggja 70 m2 frístundahús á lóðinni. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Kjósar­hrepps, dags. 2. júní s.á., var umsóknin grenndarkynnt fyrir eigendum Eyja 1, Flekkudalsvegi 20A og Flekkudal 1. Athugasemdir bárust á kynningartíma frá kæranda. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 1. júlí 2021 var umsóknin tekin fyrir og bókað að nefndin óski eftir um­sögnum frá opinberum aðilum, s.s. heilbrigðiseftirliti, Vegagerðinni, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Hinn 13. júlí 2021 óskað skipulags- og byggingarfulltrúi eftir umsögnum nefndra stofnana auk Minjastofnunar. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. ágúst 2021 var fært til bókar að nefndin hafi farið yfir framkomnar athugasemdir og umsagnir og gæfu þær ekki tilefni til synjunar og voru byggingaráformin því samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærða ákvörðun ekki standast lög. Byggingarreitur sé staðsettur innan við 50 m frá vatni og vatnasvæði Meðalfellsvatns, sbr. gr. 5.3.2.14. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013. Undanþágu frá ráðherra þurfi svo að bygging gæti risið svo nálægt vatni og vatnasvæði, sbr. 12. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fáist undanþága frá ráðherra sé farið fram á að lóðin verði deiliskipulögð áður en byggingarleyfi verði veitt. Mengunarhætta geti stafað frá rotþró tengdri fyrirhugaðri byggingu þar sem reglulega myndi flæði yfir lóðina. Um mengunarhættu sé vísað til gr. 5.3.2.18. í skipulagsreglugerð. Með tilliti til nálægðar við Meðalfellsvatn og mögulegra áhrifa á lífríki vatnsins ætti að fara fram mat á umhverfisáhrifum. Lóðamörk séu dregin alveg upp að þjóðvegi en slíkt standist ekki skipulagslög nr. 123/2010. Þá geti skapast eldhætta fyrir nærliggjandi byggingar komi upp eldur í fyrirhugaðri byggingu. Að lokum sé því veitt athygli að upphaflegt samþykki skipulags- og byggingarnefndar hafi lotið að 34 m2 húsi en nú sé það orðið að 70 m2 húsi.

Málsrök Kjósarhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að fyrirhuguð bygging sé í sam­ræmi við byggingar á nærliggjandi lóðum og ekki nær vatni en þær byggingar. Byggingin verði staðsett meira en 50 m frá fjöruborði Meðalfellsvatns en til að gæta jafnræðis hafi þó verið hefð fyrir því að á óbyggðum lóðum sé ekki byggt nær vatni en byggingar á næstu nágrannalóðum. Fyrirhuguð framkvæmd samræmist aðalskipulagi en deiliskipulag sé ekki fyrir hendi. Í sam­ræmi við skipulagslög nr. 123/2010 hafi byggingarleyfisumsóknin verið grenndarkynnt. Þá hafi verið leitað umsagna Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Vegagerðinni, en ekkert í umsögnunum hafi gefið tilefni til að synja umsókninni. Búið verði svo um framkvæmdina að ekki verði mengun enda verði farið að tilmælum Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.

 Málsrök eiganda Flekkudalsvegar 21A: Vísað er til þess að byggingaráform hafi verið samþykkt með því skilyrði að haft yrði samráð og leitað leiðbeiningar heilbrigðiseftirlits um frágang fráveitu. Vegna nálægðar við Flekkudalsveg 20A sé gert ráð fyrir að settur verði eldvarnarveggur á þeirri hlið fyrirhugaðrar byggingu sem snúi að bústað á lóð Flekkudalsvegar 20A. Bent sé að 37 m2 húsið hafi ekki breyst í 70 m2 heldur hafi verið lögð inn ný umsókn.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingar­nefndar Kjósarhrepps að samþykkja byggingaráform fyrir frístundahús á lóðinni Flekkudals­vegi 21A. Útgáfa byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa er háð samþykki nefndarinnar, sbr. 2. gr. samþykktar nr. 429/2013 um afgreiðslur skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps, en samþykktin er sett með stoð í 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því verður litið svo á að fyrir liggi lokaákvörðun í málinu sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Lóðin Flekkudalsvegur 21A er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Í slíkum tilvikum er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingar­leyfi ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Í gildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 er lóðin á skilgreindu svæði fyrir landbúnað en samkvæmt skilmálum skipulagsins er heimilt að reisa stök mannvirki, t.d. íbúðar- og frístundahús, á slíkum svæðum. Þá eru skipulagðar frístundabyggðir í grennd við lóðina með sambærilegum byggingum. Eru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. um samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar uppfyllt í málinu. Hins vegar var sá ágalli á málsmeðferð byggingarleyfis­umsóknarinnar að umsóknin var grenndarkynnt án aðkomu skipulags- og byggingarnefndar líkt og nefnd 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga kveður á um. Með hliðsjón af því að skipulags- og byggingarnefnd tók umsóknina til umfjöllunar að lokinni grenndarkynningu verður sá ágalli þó ekki talinn geta valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og þar að auki hafði nefndin samþykkt grenndarkynningu sambærilegrar umsóknar á sömu lóð á árinu 2019.

Hin samþykktu byggingaráform gera ráð fyrir byggingu mannvirkis í grennd við bakka Meðalfellsvatns. Hefur kærandi vísað til þess að reglulega flæði yfir bakka vatnsins á lóðina auk þess sem fyrirhuguð bygging verði of nálægt vatninu. Samkvæmt 3. mgr. gr. 5.3.2.18. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er óheimilt að byggja á þekktum flóðasvæðum við ár, vötn og sjó. Í 1. mgr. sama reglugerðarákvæðis er kveðið á um að gera skuli grein fyrir þekktum flóða­svæðum í aðalskipulagi. Umrætt svæði hefur ekki verið skilgreint sem flóðasvæði í aðal­skipulagi og eru byggingaráformin því ekki í andstöðu við gr. 5.3.2.18. Þá verður ekki fallist á með kæranda að fyrirhugað mannvirki uppfylli ekki gr. gr. 5.3.2.14. í skipulagreglugerð um að ekki sé heimilt að reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m utan þétt­býlis, en rétt yfir 50 m verða frá mannvirkinu að Meðalfellsvatni.

Samkvæmt aðalskipulagi Kjósarhrepps er Meðalfellsvatn á hverfisverndarsvæði HV5. Í skil­málum aðalskipulagsins um hverfisvernd vegna náttúruverndar segir að þar sem um sé að ræða vötn eða tjarnir taki verndarsvæðið til þeirra svæða og að lágmarki til 50 m beltis á bökkum þeirra. Halda skuli byggingarframkvæmdum í lágmarki og þess gætt að þær leiði til eins lítillar röskunar og kostur sé. Um hverfisverndarsvæði HV5 segir enn fremur að huga þurfi sérstaklega að frárennslisþáttum, m.a. frá heitum pottum og hreinsivirkjum í samráði við Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis. Með hliðsjón af stærð fyrirhugaðs frístundahúss og að álits heilbrigðiseftirlitsins var leitað þykja áformin ekki ganga gegn skilmálum hverfisverndar í aðal­skipulagi Kjósarhrepps. Er þá einnig horft til þess að önnur sambærileg frístundahús hafa verið reist í svipaðri og minni fjarlægð frá Meðalfellsvatni.

Kærandi gerir einnig athugasemd við brunavarnir fyrirhugaðs frístundahúss og bendir á að lítið bil sé á milli þess húss og hússins á lóð Flekkudalsvegar 20A. Meira en 8 m verða á milli húsanna og verður fjarlægðin því ekki minni en þær lágmarksfjarlægðir sem gert er ráð fyrir í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá hefur eigandi Flekkudalsvegar 21A upplýst um að eld­varnarveggur verði settur upp á þeirri hlið fyrirhugaðs húss sem snýr að Flekkudalsvegi 20A.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Kjósar­hrepps frá 26. ágúst 2021 um að samþykkja byggingaráform fyrir byggingu frístundahúss á lóðinni Flekkudalsvegi 21A.