Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

142/2021 Breiðholtsbraut – auglýsingaskilti

Árið 2021, föstudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 142/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júlí 2021 um að synja umsókn um leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti við gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Íþróttafélag Reykjavíkur þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn um leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti við gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. september 2021.

Málavextir: Með umsókn, dags. 31. mars 2021, óskaði kærandi eftir leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti í stað núverandi flettiskiltis við gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Jafnframt að skoðaður yrði möguleiki á að hækka núverandi skilti eða koma því fyrir á gatna­mótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka. Af hálfu byggingarfulltrúa var leitað eftir umsögn skipulagsfulltrúa vegna framlagðrar umsóknar.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. júlí 2021, kemur fram að leitað hafi verið umsagnar Vega­gerðarinnar um nýtt stafrænt skilti eða hækkun á núverandi skilti. Í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 24. júní 2021, kemur fram að hún leggist gegn auglýsingaskiltum sem beint sé að umferð vegna umferðaröryggissjónarmiða. Stafrænt auglýsingaskilti sé enn meira til þess fallið en flettiskilti að fanga athygli ökumanna. Slíkt kunni að draga úr umferðaröryggi. Vegagerðin bendi á 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, auglýsingaskilti við veg, en samkvæmt þeirri laga­grein sé veghaldara heimilt að hafna umsóknum um uppsetningu á auglýsingaskiltum sem beint sé að vegi veghaldara. Þá samþykki Vegagerðin hvorki hækkun skiltis né tilfærslu á því þar sem að aðgerðirnar séu til þess fallnar að fanga athygli ökumanna sem kunni að draga úr umferðaröryggi.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júlí s.á. var umsóknin tekin fyrir og henni synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi komið í bréfpósti til félagsins og komið fyrst til vitundar þess 7. ágúst 2021 þegar framkvæmdastjóri félagsins hafi komi úr sumarleyfi og opnað bréfið. Byggi kærandi á því að borgaryfirvöld beiti reglum um skilti afturvirkt, sem sé ekki heimilt að lögum. Uppsetning á stafrænum skjá hafi verið hafin áður en ný samþykkt um skilti hafi tekið gildi hjá Reykjavíkurborg í maí 2020. Í kjölfar upplýsinga frá byggingarfulltrúa hafi félagið sótt um leyfi fyrir stafrænu skilti. Þá séu hagsmunir vegna öryggissjónarmiða svo litlir miðað við hagsmuni kæranda að ákvörðun byggingarfulltrúa standist ekki með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra eigi. Hin umþrætta ákvörðun hafi verið tekin 6. júlí 2021 og kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 7. s.m. Frestur til að kæra áðurgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni, en það að póstur sé ekki opnaður tímanlega af hálfu kæranda, eins og upplýst sé í kæru, sé á hans ábyrgð og framlengist kærufrestur ekki af þeim sökum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála miði kærufrestur við vitneskju eða ætlaða vitneskju aðila. Byggt sé á því að kærufrestur hafi byrjað að líða 7. ágúst 2021 þegar framkvæmdastjóri kæranda hafi snúið aftur til vinnu eftir sumarleyfi og opnað erindið. Ákvörðunin hafi borist í bréfpósti, en ekki liggi fyrir hvenær bréfið hafi borist kæranda. Eðlilegt hefði verið að senda bréfið í ábyrgðarpósti til að tryggja móttöku þess ef til hefði staðið að byggja á dagsetningu þess um upphaf kærufrests.

 Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um þá ákvörðun sem kæra skal. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda var tilkynnt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 6. júlí 2021 um synjun á umsókn hans með bréfi, dags. 7. s.m. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er ákvörðun bindandi eftir að hún er komin til aðila. Hins vegar er það ekki gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar hans. Í bréfinu var bent á að heimilt væri að skjóta málinu til æðra stjórnvalds, sem væri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en kæranda var ekki leiðbeint um kærufrest, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 7. september 2021. Í ljósi greinds annmarka á leið­beiningum til kæranda, og þess að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er styttri en almennur kærufrestur samkvæmt stjórnsýslulögum, verður með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr og verður málinu því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum þess að kæra hafi borist að kærufresti liðnum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki falla skilti, eins og um ræðir í þessu máli, undir gildissvið laganna. Þá er fjallað um kröfur til skilta í kafla 2.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt reglugerðinni eru skiltin byggingarleyfisskyld og skulu þau vera í samræmi við gildandi skipulag. Í 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 kemur fram að spjöld, auglýsingar, ljósaskilti eða sambærilegan búnað megi eigi setja á eða við veg þannig að honum sé beint að umferð nema með heimild veghaldara. Veghaldari geti synjað um leyfi eða gert kröfu um að slíkur búnaður verði fjarlægður ef hann telji hann draga úr umferðar­öryggi, þar á meðal ef misskilja megi hann sem umferðarmerki, umferðarskilti eða veg­merkingu, búnaður tálmi vegsýn eða sé til þess fallinn að draga athygli vegfarandans frá vegi eða umferðinni.

Með vísan til afdráttarlausrar umsagnar Vegagerðarinnar, sem vísað var til í umsögn skipulags­fulltrúa, eins og rakið er í málavaxtalýsingu, verður að telja að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um annars vegar að koma fyrir stafrænu skilti í stað núverandi flettiskiltis við gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels og hins vegar að skoðaður yrði sá möguleiki að hækka núverandi skilti eða koma því fyrir á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka. Verður synjunin af þeim sökum ekki felld úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júlí 2021 um að synja umsókn um leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti við gatnamót Breiðholts-brautar og Skógarsels/Stekkjarbakka.