Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

111/2021 Fagurgerði

Árið 2021, fimmtudaginn 9. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur

Fyrir var tekið mál nr. 111/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 27. maí 2020 um að breyta deiliskipulagi við Austurveg milli Sigtúns og Fagurgerðis og ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 19. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjórbýli á lóðinni Fagurgerði 12.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2021, er barst nefndinni 2. júlí s.á., kæra eigendur, Fagurgerði 10, Selfossi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 27. maí 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi við Austurveg milli Sigtúns og Fagurgerðis og ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 19. ágúst s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjórbýli á lóðinni Fagurgerði 12. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 18. ágúst 2021.

Málavextir: Á svæðinu sem um ræðir er í gildi deiliskipulag frá árinu 1989. Kemur þar fram að megineinkenni hverfisins eru meðalstór íbúðarhús í gróðurmiklum görðum og haldist þau óbreytt. Skipulagssvæðið sé látið halda sér sem einbýlishúsahverfi. Einnig er þar að finna fleiri skilmála, svo sem kröfu um bílageymslu með hverju húsi og að nýtingarhlutfall megi vera að hámarki 0,3.

Með umsókn, dags. 20. febrúar 2020, óskaði lóðarhafi Fagurgerðis 12 eftir leyfi fyrir byggingu fjórbýlishúss á lóðinni. Til þess að það gæti gengið eftir þyrfti að stækka byggingareit og hækka heimilað nýtingarhlutfall í gildandi deiliskipulagi. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. s.m. og var skipulagsfulltrúa falið að ræða við lóðarhafa. Hinn 13. mars. s.á. sendi lóðarhafi uppfærða teikningu að fyrirhuguðu mannvirki á lóðinni. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. s.m. var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir eigendum fasteigna að Fagurgerði 9 og 10 og að Austurvegi 21, 21b, 21c og 25. Var eigendunum sent bréf, dags. 30. mars 2020, þar sem erindið var grenndarkynnt og þeim boðið að skila athugasemdum fyrir 27. apríl s.á. Með bréfi, dags. 24. s.m., gerðu kærendur athugasemdir við hina kynntu tillögu. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. maí 2020 var málinu frestað og skipulagsfulltrúa falið að afla frekari gagna. Á fundi nefndarinnar 20. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum. Var lagt til við bæjarstjórn að samþykkja stækkun á byggingarreit og hækkun leyfilegs nýtingarhlutfalls á lóðinni Fagurgerði 12. Á fundi bæjarstjórnar 27. maí 2020 var tillaga skipulags- og byggingar­nefndar samþykkt.

Með umsókn, dags. 29. júní 2020, sótti lóðarhafi Fagurgerðis 12 um byggingarleyfi vegna mannvirkis á lóðinni. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. júlí s.á., var óskað eftir uppfærðum aðaluppdráttum frá lóðarhafa. Með bréfum, dags. 14. og 16. s.m., gerðu kærendur athugasemdir við umþrætt byggingaráform og framkvæmd grenndarkynningar og óskuðu eftir tilteknum gögnum. Bréfin voru móttekin hjá sveitarfélaginu en kærendur fengu hvorki svör né þau gögn sem óskað var eftir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, dags. 19. ágúst 2020, var byggingarleyfisumsóknin tekin fyrir og hún samþykkt með fyrirvara um að brugðist yrði við athugasemdum við fyrirliggjandi uppdrætti. Með bréfi, dags. 25. janúar 2021, þar sem m.a. var vísað til fyrri bréfa, gerðu kærendur athugasemdir við meðferð málsins og óskuðu eftir svörum. Því bréfi hefur ekki verið svarað. Húsið er í dag fullbyggt.

 Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er tekið fram að með grenndarkynningu hafi borist ljósrit úr skipulagslögum nr. 123/2010 sem reyndar sé ekki í samræmi við núgildandi lög, þar sem búið hafi verið að merkja við síðustu málsgrein 40. gr., sem fjalli um gerð deiliskipulags, kynningu og samráð. Jafnframt hafi verið merkt við 2. mgr. 43. gr. um breytingar á deili­skipulagi og 44. gr. um grenndarkynningu. Kærendur hafni því alfarið að kynning og sam­ráð við íbúa hafi verið með fullnægjandi hætti, eins og kveðið sé á um í 40. gr. skipulags­laga, og sé þar vísað bæði til 1. og 3. mgr. þeirrar greinar laganna. Grenndarkynningin hafi í fyrsta lagi verið sett fram sem fyrirspurn og tiltekið að hún varðaði, eins og þar komi fram, stækkun á byggingarreit. Ekki hafi þar verið vikið einu orði að því að samkvæmt gildandi deiliskipulagi skuli byggt einbýli á lóðinni að Fagur­gerði 12. Upplýsingar til þeirra sem grenndarkynning hafi náð til hafi því verið ófullnægjandi og beinlínis blekkjandi.

Ekki sé um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi og hafi kærendur enga tilkynningu fengið um niðurstöðu sveitarstjórnar í málinu, sbr. einnig ákvæði þar um í 44. gr. skipulagslaga. Þá hafi engar upplýsingar borist um hvort sveitarstjórn hefði tilkynnt Skipulagsstofnun um samþykkt á óverulegri breytingu á deiliskipulagi eða í hverju sú skipulagsbreyting væri fólgin. Að lokum geri skipulagslög kröfu um að samþykki um óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli birt af hálfu sveitarstjórnar í B-deild Stjórnartíðinda. Kærendur hafi við ritun þessa erindis rúmu ári eftir ákvörðunartöku sveitarfélagsins, hver sem hún kunni að vera, ekki fundið neina auglýsingu í Stjórnartíðindum um breytingu á deiliskipulagi sem varði Fagurgerði 12 á Selfossi. Sé því full ástæða til að efast um að sveitarfélagið hafi uppfyllt skilyrði samkvæmt skipulagslögum til ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi eða staðfestingar slíkrar ákvörðunar.

Í athugasemdum við grenndarkynningu hefði því verið mótmælt að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða þar sem stækkun á byggingarreit og aukið nýtingarhlutfall leiddi til skerðingar á birtu og sjónlínu frá eign kærenda. Jafnframt hefði verið gerð athugasemd við aukið umferðarálag. Einnig sé vísað til athugasemda sem sendar hafi verið skipulags- og byggingar­nefnd Árborgar með erindi, dags. 24. apríl 2020, sem engin svör hafi borist við. Verulegur munur sé á því hvort á lóðinni Fagurgerði 12 sé byggt einbýli eða fjölbýli. Ekkert mat virðist hafa verið lagt á aukið umferðarálag sem þessu fylgi og engar upplýsingar lagðar fram um bílastæði eða aðkomu að húsinu. Miðað við fjölda bifreiða í hverfinu megi ætla að hverri íbúð að Fagurgerði 12 geti fylgt að lágmarki ein til tvær bifreiðar. Því fylgi veruleg aukning á umferðarálagi sem varði hagsmuni allra íbúa í Fagurgerði sem og í nærliggjandi götum eins og Grænuvöllum. Því megi ætla að bifreiðum verði lagt í Fagurgerði utan lóðar. Þar við bætist gestakomur vegna fjögurra íbúða í umræddu fjölbýli. Þetta mál varði því hagsmuni mun fleiri aðila en þeirra sem grenndarkynning hafi náð til. Með stækkun á byggingarreit að Fagurgerði 12 og byggingu á mun stærra húsnæði en samþykkt deiliskipulag geri ráð fyrir verði aukning á nýtingarhlutfalli lóðarinnar og byggðar svalir á efri hæð húsnæðisins með skjólveggjum og sambærilegum skjólveggjum á neðri hæð. Þetta leiði til skerðingar á birtu og sjónlínu frá húsi kærenda til viðbótar við fjölgun íbúa og aukið umferðarálag í næsta nágrenni. Þetta hafi um leið augljós áhrif á næði og friðsæld sem kærendur hafi búið við og vilji áfram geta búið við. Sé í því sambandi vísað til núgildandi deiliskipulags sem eigendur hafi haft réttmætar væntingar um að héldist óbreytt. Af þessum ástæðum hafi stækkun á byggingarreitnum verið harðlega mótmælt og um leið því að um væri að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umrædd breyting á deiliskipulaginu muni hafa veruleg áhrif á hagsmuni eigenda að Fagurgerði 10, bæði hvað varði verðmæti og gildi þeirrar eignar, auk þess ónæðis og óhagræðis sem geti fylgt verulegri stækkun húsnæðis og fjölgun íbúða á næstu lóð.

Sveitarfélagið Árborg hafi unnið að þessu máli með ámælisverðum hætti og að engu haft eigin samþykktir og lagaskyldur um viðbrögð og svör vegna andmæla kærenda. Við afgreiðslu mála í skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn sé eingöngu skráð umfjöllun og samþykkt um stækkun á byggingarreit, en ekki breyting á deiliskipulagi um byggingu fjölbýlis í stað einbýlis. Ákvörðun um að skipulagsfulltrúi skyldi í framhaldinu svara innsendum athugasemdum vegna grenndarkynningar hefði ekki verið sinnt og engin umfjöllun virðist hafa verið um alvarlegar athugasemdir vegna galla á grenndarkynningu. Ítrekuðum beiðnum um upplýsingar og skýringar á ákvörðunartöku sveitar­félagsins, beiðnum um afrit af gögnum málsins og um skyldu til að upplýsa um kærurétt hafi heldur ekki verið sinnt. Sama gildi um erindi sem sent hafi verið bæjarstjórn Árborgar í byrjun árs 2021, en bæjarstjóri hafi upplýst að því hefði verið vísað til umfjöllunar Lögmanna Suðurlandi með ósk um skjót svör. Fimm mánuðum frá því erindið hafi verið sent höfðu enn engin svör fengist. Með vísan til þessa telji kærendur að sveitarfélagið hafi bæði brotið ákvæði stjórnsýslulaga og og upplýsingalaga. Þar við bætist að sveitarfélagið virðist ekki hafa virt ákvæði 44. gr. skipulagslaga um fullnægjandi kynningu málsins og upplýsingaskyldu gagnvart þeim sem það varði. Loks verði ekki séð að breyting á deiliskipulagi hafi verið birt með lögform­legum hætti skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og teljist ákvörðun sveitar­félagsins því ógild, hvers efnis sem hún kunni að hafa verið.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Sveitarfélagið gerir kröfu um frávísun málsins. Kærufrestur til úrskurðar­nefndarinnar sé einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála, og hafi hann því verið liðinn þegar kæran barst. Byggingarframkvæmdir hafi hafist á lóðinni Fagurgerði 12 skömmu eftir að byggingarleyfi hafi verið gefið út, en hinn 10. júní 2020 hafi verið óskað eftir útsetningu á greftri. Af bréfi kærenda, dags. 14. júlí 2020, megi ráða að þeim hafi verið fulljóst að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni enda búi þau í húsinuvið hliðina.

Þá sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað enda sé ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis ekki ógildanleg þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð hjá sveitarfélaginu. Byggt sé á því að annmarkar á málsmeðferð vegna byggingarleyfis að Fagurgerði 12 leiði ekki einir og sér til þess að ákvörðun um útgáfu þess verði ógilt samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar. Annmarkarnir séu ekki verulegir og ljóst sé að þeir hafi ekki verið til þess fallnir að hafa áhrif á efnislegt inntakt ákvörðunarinnar um útgáfu byggingarleyfisins. Því sé mótmælt að leyfið hafi neikvæð áhrif á hagsmuni lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Ákvörðun um útgáfu hins kærða byggingarleyfis hafi ekki falið í sér breytingu á deiliskipulagi þrátt fyrir að byggingarframkvæmdir geri ráð fyrir stækkun á byggingarreit. Í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. sama ákvæðis um breytingu á deili­skipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Það sé mat sveitarfélagsins að stækkun á byggingarreit að Fagurgerði 12 hafi ekki neikvæð áhrif á hagsmuni eigenda aðliggjandi lóða og því hafi ekki verið nauðsynlegt að gera breytingar á deiliskipulagi, enda ekki um að ræða aukið skuggavarp, leyfishafi hafi sýnt fram á næg bílastæði fyrir fyrirhugaðar íbúðir og umferð færi að mestu til suðurs án ónæðis fyrir aðra íbúa við Fagurgerði.

Sveitarfélagið hafi ákveðið, umfram skyldu sína samkvæmt skipulagslögum, að grenndarkynna frávik frá deiliskipulagsskilmálum fyrir eigendum húsa að Fagurgerði 9 og 10 og Austurvegi 21, 21b, 21c og 25 og hafi grenndarkynning farið fram í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulags­laga. Þá sé grenndarkynning sem slík ekki stjórnvaldsákvörðun sem hægt sé að fá ógilta með úrskurði. Athugasemdir hafi borist frá kærendum með bréfi, dags. 24. apríl 2020, og aðallega snúið að því að stækkun á byggingareit hefði veruleg áhrif á hagsmuni þeirra og umferð og öryggi íbúa í hverfinu. Skipulags- og byggingarnefnd hafi tekið erindið fyrir á fundi sínum 20. maí s.á. og bókað að erindið hefið verið grenndarkynnt og athugasemdir borist. Hafi skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum og lagt til við bæjarstjórn að samþykkja erindið, enda hafi það verið mat nefndarinnar að fyrirhugaðar framkvæmdir hefðu ekki veruleg áhrif á hagsmuni annarra íbúa hverfisins. Hefði tillagan síðan verið samþykkt af bæjarstjórn Árborgar á fundi 27. maí 2020.

Því sé hafnað að ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis vegna byggingar á lóðinni nr. 12 við Fagurgerði hafi leitt til skerðingar á eignarrétti kærenda umfram það sem eðlilegt geti talist. Bent sé á að samkvæmt deiliskipulagi hafi verið byggingarreitur á lóðinni þrátt fyrir að á henni hafi ekki verið byggt fyrr en nú. Kærendur hafi ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að á lóðinni yrði aldrei byggt enda eiganda lóðarinnar heimilað að byggja á lóðinni íbúðarhús samkvæmt deiliskipulagi.

Kærendur byggi á því að verðmæti fasteignar þeirra hafi rýrnað m.a. vegna þess að bygging mannvirkis að Fagurgerði 12 hafi leitt til skerðingar á birtu og sjónlínu frá fasteign þeirra. Þótt tekið væri undir það þá væri skerðingin ekki umfram það sem hefði mátt ætla samkvæmt deili­skipulagi og kærendur því ekki getað haft réttmætar væntingar til annars en að á lóðinni yrði byggt og að útsýni og birta á þeirra lóð myndi skerðast. Ekki sé um ólögmæta skerðingu að ræða. Þess beri að geta að byggingarreitur á lóðinni Fagurgerði 12 hafi verið stækkaður til suðurs en hús kærenda standi norðanmegin við lóðina og því ljóst að stækkunin hafi engin áhrif á útsýni eða birtu frá húsi kærenda.

Umferðarálag aukist ekki í hverfinu umfram það sem eðlilegt sé vegna framkvæmda á lóð sem hafi frá upphafi verið ætluð undir íbúðarhúsnæði. Kærendur hafi ekki sýnt fram á að umferðar­álag aukist umfram það sem eðlilegt geti talist með uppbyggingu deiliskipulagðra íbúðarhúsa­lóða í þéttbýli. Þá sé bent á að ætla megi að umferð til og frá Fagurgerði 12 beinist að stærstum hluta inn á Austurveg þar sem meginhluti verslunar- og þjónustu á Selfossi sé. Austurvegur liggi í gagnstæða átt frá húsi kærenda. Þá séu engar reglur í gildi um lágmarksfjölda bílastæða við íbúðarhús skv. skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Gert sé ráð fyrir sex bílastæðum við Fagur­gerði 12 samkvæmt teikningu, eða einu og hálfu stæði á hverja íbúð, og séu þau öll innan lóðar.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Því er hafnað af hálfu kærenda að þau hafi verið meðvituð um hina kærðu ákvörðun 14. júlí 2020 enda komi fram í athugasemdum Árborgar að umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi hafi ekki verið tekin til samþykktar fyrr en 19. ágúst 2020 og samþykktin þá háð fyrirvara. Hvenær þær efniskröfur hafi verið uppfylltar og fyrirvara þar með aflétt hafi kærendur engar upplýsingar um. Í þessu samhengi sé bent á að beiðnum um upplýsingar um kærurétt hafi ekki verið sinnt. Hér sé vert að vísa til 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli tilkynna aðila máls um hana og skuli þar veita leiðbeiningar um kæruheimild þegar hún sé fyrir hendi, kærufresti og hvert beina skuli kæru. Þar sem fyrir liggi að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt og að stjórnsýsla sveitarfélagsins hafi misfarist, svo notuð séu þeirra eigin orð, sé því mótmælt að ekki beri að taka málið fyrir efnislega. Það sé ekki hægt að láta kæruaðila líða fyrir mistök sveitarfélagsins og að það hafi ekki sinnt skyldum sínum um að upplýsa kærendur um niður­stöðu málsins og leiðbeina um kærurétt. Sérstaklega þegar fyrir liggi að ítrekað hafi verið óskað eftir svörum og upplýsingum um málið án þess að sveitarfélagið hafi svarað þeim erindum.

Þegar litið sé til málsatvika sé ljóst að sveitarfélagið komi nú með eftiráskýringar í þeirri viðleitni að ramma gjörðir skipulags- og byggingaryfirvalda innan lagaramma, en sú viðleitni sé mótsagnakennd og gangi ekki upp. Eins og viðurkennt sé hafi farið fram grenndar­kynning í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Sú grenndarkynning, þótt gölluð væri, hefði verið undanfari samþykkta um deiliskipulagsbreytingu bæði af hálfu skipulags- og byggingar­nefndar og bæjarstjórnar, þó svo sú breyting hefði aðeins náð til stækkunar á byggingarreit, en ekki breytingar úr einbýli í fjölbýli. Þar með liggi fyrir að málið hafi alfarið verið unnið á grundvelli 2. mgr. 43. gr. laganna, þó svo að misfarist hefði eins og annað, að birta auglýsingu um skipulags­breytinguna í B-deild Stjórnartíðinda og jafnvel einnig að senda Skipulagsstofnun tilkynningu um breytinguna.

Við nánari skoðun á ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna megi einnig geta þess að orðalagið „svo óveruleg frávik“ geti aldrei átt við um byggingu tveggja hæða fjölbýlis á þessari byggingarlóð í stað einbýlis samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem samkvæmt fram komnum athuga­semdum varnaraðila hafi ekki verið breytt.

Lýsing sveitarfélagsins á umferðarálagi vegna byggingar fjórbýlis í stað einbýlis að Fagurgerði 12 staðfesti í raun að ekkert mat á þessum þætti málsins hafi farið fram í aðdraganda ákvörðunar um að heimila slíka byggingu þvert á gildandi deiliskipulag sem fullyrt sé að ekki hafi tekið breytingum. Að sjálfsögðu muni umferðarálag vegna fjórbýlis verða meira en ef á lóðinni væri einbýli samkvæmt gildandi skipulagi. Þá telji sveitarfélagið að umferð verði að mestu til og frá Austurvegi, en sú sé ekki raunin í dag og hafi ekki verið. Íbúar í þessu hverfi forðist iðulega umferðarálag á Austurvegi og leiti því annarra leiða út úr hverfinu til vinnu og til að sækja þjónustu.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Sveitarfélagið vísar til þess að kærendum hafi átt að vera kunnugt um að framkvæmdir væru hafnar hinn 14. júlí 2020 með vísan til bréfs kærenda sem dagsett hafi verið þann dag og að þeir búi á lóðinni við hlið Fagurgerðis 12. Byggingarframkvæmdir hafi hafist á lóðinni skömmu eftir að byggingarleyfi hafi verið gefið út, en hinn 10. júní 2020 hafi verið óskað eftir útsetningu fyrir greftri. Í gögnum málsins kemur þó fram að umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt með fyrirvara á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. ágúst 2020. Þá bera gögn málsins ekki með sér að kærendur hafi fengið tilkynningu um töku hinna kærðu ákvarðana eða leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest. Þrátt fyrir að framkvæmdir hafi hafist í kjölfar útgáfu byggingarleyfis verður að líta til þess að kærendur hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum og gögnum frá sveitarfélaginu um framkvæmdirnar án þess að hafa haft erindi sem erfiði. Með hliðsjón af greindum málsatvikum verður málið tekið til efnismeðferðar á grundvelli 28. gr. stjórnsýslu­laga þar sem afsakanlegt verður að telja að dráttur hafi orðið á kæru í málinu en óvíst er hvenær kæranda hafi orðið eða mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir.

Í 43. gr. skipulagslaga 123/2010 er fjallað um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deili­skipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkom­andi svæðis. Sveitarstjórn skal senda Skipulagsstofnun samþykkta deiliskipulags­breytingu og birta auglýsingu um samþykkt hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Í 3. mgr. segir að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Upphaf máls þessa var að óskað var eftir stækkun á byggingarreit og breytingu á nýtingar­hlutfalli lóðarinnar nr. 12 við Fagurgerði svo hægt væri að byggja þar fjórbýlishús. Sú ósk var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. mars 2020 sem fyrirspurn um stækkun byggingarreits. Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna erindið með vísan til 44. gr. skipulags­laga og í grenndarkynningunni var ástæðan sögð vera breyting á byggingarreit, en ekki kom fram að til stæði að fjölga íbúðum og bílastæðum eða hækka nýtingarhlutfall. Fyrir liggur að auglýsing um samþykkt deiliskipulags var hins vegar ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda og liggur af þeim sökum ekki fyrir kæranleg ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi. Verður kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með umsókn, dags. 29. júní 2020, var sótt um byggingarleyfi fyrir fjórbýlishúsi á umræddri lóð. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. ágúst 2020 var umsóknin samþykkt með fyrirvara um að brugðist yrði við athugasemdum. Vísað hefur verið til þess af hálfu sveitarfélagsins að skv. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga geti sveitarstjórn, við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis, heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. sama ákvæðis um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Í gögnum málsins er þó ekki að sjá að sveitarstjórn hafi samþykkt hið kærða byggingarleyfi, eins og ákvæðið gerir að skilyrði. Með hinu kærða byggingarleyfi er vikið frá gildandi deiliskipulagi meðal annars hvað varðar stærð byggingar­reits, nýtingarhlutfall umræddrar lóðar og fjölda íbúða á lóð. Er óhjákvæmilegt að sú breyting hafi einhver grenndaráhrif gagnvart næstu fasteignum og kemur því ekki til álita að víkja frá skilmálum gildandi deiliskipulags í þessu tilviki á grundvelli fyrrnefndrar 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og verður leyfið því fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 19. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjórbýli á lóðinni Fagurgerði 12, Selfossi.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.