Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

151/2018 Bæjargarður

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 5. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 30. ágúst 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa girðingu kringum fótboltavöll í Bæjargarði í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Túnfit 1, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 30. ágúst 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa girðingu kringum fótboltavöll í Bæjargarði í Garðabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 10. janúar 2019.

Málavextir: Hinn 3. mars 2017 tóku gildi breytingar á deiliskipulagi skóla- og íþróttasvæðis við Ásgarð og deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ vegna tiltekinna íþróttamannvirkja. Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn 18. maí s.á. umsókn bæjarverkfræðings um leyfi til framkvæmda við gerð tveggja nýrra æfingavalla og til breytinga á núverandi æfingavelli á Ásgarðssvæði og í Bæjargarði. Var framkvæmdaleyfi gefið út 19. s.m. Með bréfi, dags. 29. ágúst s.á., fór kærandi fram á það við úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að tekin yrði afstaða til þess hvort framkvæmdirnar væru háðar byggingarleyfi, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hinn 7. nóvember s.á. kvað nefndin upp úrskurð í máli nr. 96/2017 þess efnis að framkvæmdirnar væru ekki háðar byggingarleyfi að öðru leyti en því að girðingar umhverfis íþróttavelli á svæðinu væru háðar byggingarleyfi.

Umsókn um byggingarleyfi fyrir nefndum framkvæmdum var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. ágúst 2018 og mun það hafa verið gefið út sama dag.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að byggingarfulltrúi hafi ekki látið kæranda vita um útgáfu byggingarleyfisins þrátt fyrir að kærandi hafi ítrekað lýst áhuga á því. Byggingar­­­­leyfið hafi auk þess hvergi verið birt almenningi, hvorki á vef Garðabæjar né á skrifstofu bæjarins. Það hafi nánast verið fyrir tilviljun að kærandi hafi komist að tilvist leyfisins 13. desember 2018 á fundi hjá Garðabæ um annað mál.

Í byggingarleyfinu sé girðingunni lýst sem „grindverki“ þó að hönnunargögn lýsi henni sem 2,0 m hárri stálrimlagirðingu. Á þeim gögnum sem lágu til grundvallar byggingarleyfinu sé ekki hægt að sjá að byggingarfulltrúi hafi með neinum hætti fjallað um hvort girðingin væri í samræmi við deiliskipulag eins og kærandi hafi farið fram á árið áður. Reyndar sé ekki að sjá á gögnunum að fjallað hafi verið um efni málsins á nokkurn hátt. Kærandi hafi sent byggingarfulltrúa fyrirspurn um tvö efnisatriði byggingarleyfisins vegna svara skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins. Annars vegar hafi komið fram hjá skipulagsfulltrúa að deiliskipulag heimili ekki að girðing sé reist kringum umrædda boltaflöt. Hins vegar sé um að ræða svar frá skipulagsfulltrúanum þar sem fram komi að boltaflötin verði ekki lokuð almenningi, en byggingarleyfið sé fyrir 2,0 m hárri stálrimlagirðingu með læstu hliði. Mun Ungmennafélagið Stjarnan hafa lyklavöld að umræddu hliði.

Afgreiðsla byggingarfulltrúa Garðabæjar á byggingarleyfi fyrir girðingu í Bæjargarði sé ekki í samræmi við kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010. Bygging girðingarinnar hafi áður verið tekin fyrir af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna kæru kæranda. Hann hafi ítrekað við byggingarfulltrúa að hann teldi girðinguna ekki í samræmi við skipulagsáætlanir. Hann hafi vísað í skrifleg gögn frá skipulagsfulltrúa um að girðingin væri ekki í samræmi við deiliskipulag. Í 10. gr. mannvirkjalaga segi að sé mannvirki háð byggingarleyfi skuli byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Augljóslega hafi vafi leikið á því hvort byggingarleyfið samræmdist skipulagsáætlunum Garðabæjar. Í gögnum frá byggingar­­­­­fulltrúa sé hvergi að finna þá umsögn skipulagsfulltrúa sem lög kveði á um. Verði því að álykta að hann hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni og útgáfa byggingarleyfisins hafi því ekki uppfyllt kröfur laga.

Ekki hafi verið gengið úr skugga um að aðaluppdráttur uppfyllti ákvæða laga og reglugerða. Í 11. gr. mannvirkjalaga segi: „Ef mannvirki er háð byggingarleyfi skv. 9. gr. fer byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun yfir byggingarleyfisumsókn og gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og að tilkynnt hafi verið um hönnunarstjóra mannvirkisins.“ Samkvæmt ákvæðinu hafi byggingafulltrúa m.a. borið að staðfesta að girðingin væri í samræmi við skipulagsáætlanir Garðabæjar. Í gögnum frá byggingarfulltrúa sé hvergi að sjá að hann hafi sinnt þessari skyldu. Verði því að álykta sem svo að hann hafi ekki gert það og útgáfa byggingarleyfisins uppfylli því ekki kröfur laga.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að við útgáfu byggingar­leyfisins hafi þess verið gætt að umrædd framkvæmd væri í samræmi við skipulag sem gildi fyrir Bæjargarð. Í f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að girðingar allt að 1,8 m að hæð séu undanþegnar byggingarleyfi. Í máli þessu sé umrædd girðing 2,0 m að hæð og sé tilgangur hennar margþættur, en fyrst og fremst sé verið að horfa til notagildis vallarins og öryggissjónarmiða til að vernda völlinn gegn ágangi og hugsanlegum skemmdum á þeim tíma sem hann eigi ekki að vera í notkun.

Samkvæmt breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs frá árinu 2006 komi fram í skipulags­skilmálum að gert sé ráð fyrir að afmarkaður verði sérstakur gervigrasvöllur á svæðinu. Eðlilegt sé að líta svo á m.t.t. þess hvernig almennt sé staðið að afmörkun gervigrasvalla að það sé gert með girðingu. Á skýringarmyndum sem kynntar hafi verið hafi 2,0 m há girðing verið sýnd umhverfis gervigrasvöllinn og í þeim tilvikum sé um byggingar­leyfis­s­kylda framkvæmd að ræða. Við útgáfu á byggingarleyfi hafi byggingafulltrúi horft til þess að skipulagsskilmálar kveði á um afmörkun vallarins og lagt til grundvallar skýringarmyndir er sýni væntanlega girðingu. Við mat á hæð girðingarinnar sé ljóst að 2,0 m há girðing, eins og hér um ræði, geti ekki varðað hagsmuni annarra en sveitarfélagsins sem leyfisumsækjanda, en um sé að ræða gegnsæja stálrimlagirðingu. Í því sambandi sé bent á að í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé heimild fyrir sveitarstjórn til að falla frá breytingu á deiliskipulagi þegar um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp og innsýn. Þetta sé enn frekar áréttað í gr. 5.8.4. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013. Hefði því aldrei þurft að koma til breytinga á deiliskipulagi vegna hæðar girðingarinnar.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 31. janúar 2019 að viðstöddum kæranda og fulltrúum bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Gögn málsins bera með sér að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um samþykki umrædds byggingarleyfis. Gera verður ráð fyrir að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi fyrri hluta desembermánaðar 2018, en um miðjan mánuðinn sendi hann byggingarfulltrúa Garðabæjar tölvupóst þar sem óskað var eftir gögnum sem lágu til grundvallar ákvörðuninni. Barst kæran samkvæmt því innan kærufrests.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Hefur þetta ákvæði verið skýrt í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Við mat á því hvort kærandi eigi þeirra hagsmuna að gæta vegna umdeilds byggingarleyfis verður að líta til þess að heimiluð 2,0 m há girðing er í sjónlínu frá fasteign kæranda og í rúmlega 55 m fjarlægð. Snertir byggingarleyfið því sérstaklega grenndarhagsmuni kæranda með tilliti til útsýnis og verður honum játuð kæruaðild að máli þessu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þegar af þeirri ástæðu er skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er heimilar að vikið sé frá deiliskipulagi ef hagsmunir nágranna skerðast í engu við heimilaða framkvæmd, ekki uppfyllt.

Eins og fram er komið var með hinu kærða byggingarleyfi heimilað að reisa 2,0 m girðingu umhverfis fótboltavöll og er sú framkvæmd byggingarleyfisskyld, sbr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og f-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Bar byggingarfulltrúa því að ganga úr skugga um að umrædd girðing ætti stoð í gildandi deiliskipulagi áður en byggingaráform voru samþykkt og byggingarleyfi gefið út, sbr. 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. gr. laga um mannvirki. Í gildandi deiliskipulagi Bæjargarðs er ekki að finna áform um að reisa girðingu umhverfis áðurnefndan fótboltavöll og þar af leiðandi engar upplýsingar um hæð hennar. Skorti því lagaskilyrði fyrir samþykki og útgáfu hins kærða byggingarleyfis. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 30. ágúst 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa girðingu  kringum fótboltavöll í Bæjargarði í Garðabæ.

80/2017 Vindaborgir

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2017, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. apríl 2017 um tillögu að matsáætlun vegna vindorkugarðs í Þykkvabæ, Rangárþingi ytra, að því er varðar athugasemd nr. 5 í ákvörðuninni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Biokraft ehf., ákvörðun Skipulagsstofnunar. Segir kærandi að „með bréfi dags. 9. júní 2017 hafi Biokraft ehf. verið tilkynnt að Skipulagsstofnun teldi ekki forsendur til að endurskoða ákvörðun um matsáætlun dags. 17. apríl 2017 og beiðni Biokraft ehf. um endurskoðun á athugasemd nr. 5 í niðurstöðukafla ákvörðunar um matsáætlun væri hafnað.“ Krefst kærandi þess aðallega að „felld verði úr gildi athugasemd nr. 5 í niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsáætlun, dags. 17. apríl, sem Skipulagsstofnun hafnaði að fella úr gildi eða endurskoða með bréfi dags. 9. júní 2017, sem barst kæranda þann 22. júní 2017.“ Til vara er þess krafist að umræddri athugasemd verði breytt með þeim hætti að kæranda verði skylt að framkvæma fuglarannsóknir með sama hætti og tíðkist í nágrannalöndum Íslands.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 28. ágúst 2017.

Málavextir: Hinn 28. september 2016 barst Skipulagsstofnun tillaga kæranda að matsáætlun vegna fyrirhugaðs vindorkugarðs, svonefndrar Vindaborgar, í Þykkvabæ, Rangárþingi ytra, í samræmi við 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 3.02 í 1. viðauka laganna. Í umræddri tillögu kom m.a. fram að við flugmælingar fugla yrði stuðst við aðferðafræði sem notuð hefði verið í Skotlandi. Farnar yrðu vettvangsferðir á mismunandi árstímum og yrði athugun á hverjum árstíma um 36 klst. Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna ýmissa aðila, m.a. Náttúrufræðistofnunar Íslands, en einnig bárust athugasemdir við kynnta tillögu, t.a.m. frá Fuglavernd. Með ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 17. apríl 2017, var fallist á framlagða tillögu að matsáætlun með 14 tölusettum athugasemdum. Í athugasemd nr. 5 segir eftirfarandi: „Afla þarf upplýsinga um farleiðir fugla með vettvangsathugunum og radarmælingum og gera grein fyrir flugferðum og flughæð fugla í frummatsskýrslu. Í frummatsskýrslu skal leggja mat á áhrif vindorkuversins á fugla með hliðsjón af leiðbeiningariti Scottish Natural Heritage og framkomnum umsögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands.“ Tekið var fram í ákvörðuninni að framkvæmdaraðili gæti kært „ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.“ Ákvörðun Skipulagsstofnunar var send kæranda með tölvupósti 12. apríl 2017.

Með bréfi kæranda til Skipulagsstofnunar, dags. 9. maí 2017, var þess óskað að Skipulagsstofnun endurskoðaði athugasemd nr. 5 er varðaði fuglamælingar, hún yrði dregin til baka eða henni breytt þannig að fuglarannsóknir skyldu fram fara með sama hætti og tíðkaðist í nágrannalöndum. Var m.a. vísað til þess að ratsjármælingar hefðu ekki verið framkvæmdar við undirbúning tuga nýlegra vindorkuverkefna í Evrópu. Þá hefði ekki komið fram að hvaða leyti slíkar mælingar gæfu betri niðurstöðu en hefðbundnar fuglarannsóknir. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 9. júní s.á., kom fram að leitað hefði verið upplýsinga hjá Scottish Natural Heritage um notkun á ratsjármælingum í sambærilegum verkefnum í Skotlandi. Hefðu svör þeirra og erindi kæranda verið borin undir Náttúrufræðistofnun Íslands og óskað umsagnar hennar. Með hliðsjón af því sem kæmi fram í umsögninni teldi Skipulagsstofnun ekki forsendur til að endurskoða ákvörðun sína og væri beiðninni því hafnað.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til kæruheimildar skv. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Þær aðferðir sem lagðar séu til við upplýsingaöflun í ákvörðun Skipulagsstofnunar séu úr hófi fram og ekki í samræmi við þær aðferðir sem notaðar séu í nágrannalöndum okkar. Ekki liggi fyrir að umræddar rannsóknir skili nákvæmari og marktækari niðurstöðum en þær rannsóknir sem kærandi hafi lagt til. Geti kostnaður vegna þeirra rannsókna sem Náttúrufræðistofnun Íslands hafi lagt til numið allt að 100 milljónum króna. Sé ekki forsvaranlegt að gera þessar kröfur þegar aðrar og ódýrari leiðir standi til boða. Því sé andmælt að ratsjármælingar hafi verið reglulega notaðar víða um heim við mat á umhverfisáhrifum verkefna sem svipi til Vindaborga, en ekkert þeirra verkefna sem Náttúrufræðistofnun Íslands vísi til sé sambærilegt  því.

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakir en nauðsyn beri til. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæma skuli ratsjármælingar sé verulega íþyngjandi. Verði hinu lögmæta markmiði sem að sé stefnt náð með vægara móti, þ.e. með þeim hætti sem lagt sé til í matsáætlun. Þær mælingar muni gefa góða mynd af áhrifum framkvæmdanna á fuglalíf á svæðinu og þær séu fullkomlega sambærilegar við þær mælingar sem gerðar hafi verið vegna mats á umhverfisáhrifum vegna svipaðra framkvæmda í nágrannalöndum.

Kærandi hyggist ekki slá slöku við í rannsóknum á áhrifum framkvæmdanna á fuglalíf frekar en á nokkrum öðrum umhverfisáhrifum þeirra. Þvert á móti hafi hann hug á því að haga rannsóknum með þeim hætti að sem mestra upplýsinga verði aflað um áhrif framkvæmdanna og vindmylla á fuglalíf.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að a-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, taki aðeins til ákvarðana Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og um endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000. Geti kærandi því ekki byggt á umræddri kæruheimild í máli þessu. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 geti framkvæmdaraðili kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun Skipulagsstofnunar um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni. Í máli því sem hér sé til skoðunar sé hins vegar ekki verið að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. apríl 2017, enda sé kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar liðinn, heldur sé kærð höfnun stofnunarinnar á beiðni um að endurskoða tiltekinn hluta umræddrar ákvörðunar. Beri orðalag fyrrnefndrar 3. mgr. 14. gr. ekki með sér að hægt sé að kæra slíka höfnun til úrskurðarnefndarinnar.

Að öðru leyti leggi Skipulagsstofnun áherslu á eðli og tilgang mats á umhverfisáhrifum. Slíkt mat gangi út á að ákveðnar framkvæmdir fari í gegnum tiltekið upplýsinga- og rannsóknarferli þannig að fyrir liggi nægjanlegar upplýsingar fyrir leyfisveitendur framkvæmda til að ákveða hvort leyfi skuli veitt. Þetta hafi í för með sér að framkvæmdaraðili þurfi að grípa til ráðstafana sem kunni, eftir atvikum, að hafa í för með sér veruleg fjárútlát.

Fyrirhugað vindmyllusvæði sé staðsett í einni af meginfarleiðum farfugla til og frá landinu. Gefi upplýsingar í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 14. október 2016, sérstakt tilefni til að afla upplýsinga um farleiðir farfugla með ratsjármælingum í tiltekinn tíma. Fram komi í umsögninni að þar sem mikið liggi við varðandi fuglalíf séu oftar en ekki gerðar kröfur um slíkar mælingar og nægi þar að vísa í stefnu Scottish Natural Heritage. Þykkvibær sé hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði. Því lengur sem mælingar standi yfir því nákvæmari og skýrari upplýsingar fáist um farleiðir og háttsemi fugla. Með þetta í huga sé tveggja ára tímabil til ratsjármælingar forsvaranlegur tími. Taki umrætt skilyrði mið af þeim kröfum sem leiði af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að mál sé nægilega upplýst.

Þótt það kunni að vera rétt hjá kæranda að þau verkefni sem vísað sé til séu ekki í öllu sambærileg við Vindaborg þá breyti það því ekki að talin sé þörf á að gera fyrrnefndar ratsjármælingar. Leggi Náttúrufræðistofnun Íslands, sem sé rannsóknarstofnun á sviði náttúruvísinda, í umsögnum sínum áherslu á að slíkar mælingar séu gerðar. Hlutverk Náttúrufræðistofnunar samkvæmt 4. gr. laga nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur sé að stunda undirstöðurannsóknir í dýrafræði og eitt af aðalverkefnum hennar sé að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands, sbr. a-lið 4. gr. Þá hafi stofnunin það hlutverk að vinna að rannsóknum á villtum stofnum fugla. Jafnframt feli þau verkefni, sem nefnd séu í umsögn Náttúrufræðistofnunar frá 31. maí 2017, ekki í sér tæmandi upptalningu á þeim dæmum sem til séu um að ratsjármælingum á flugi fugla hafi verið beitt við mat á umhverfisáhrifum vegna vindmyllugarða vítt og breitt um heiminn.

Því sé hafnað að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Sé umrætt skilyrði til þess fallið að ná því markmiði laga um mat á umhverfisáhrifum að draga eins og kostur sé úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Verði hvorki séð að þessu markmiði verði náð með öðrum og vægari hætti né að með þessu skilyrði sé gengið lengra en nauðsyn beri til. Hafa beri í huga aðstæður á því svæði þar sem Vindaborg áformi uppbyggingu vindorkuversins. Hinn fyrirhugaði vindmyllugarður samanstandi af 13 vindmyllum sem séu 149 m háar miðað við spaða í toppstöðu. Þykkvibær sé hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði. Svæðið sé í mikilvægri farleið fugla vor og haust og umferð fugla um það mikil á þessum tíma. Þá sé fuglalíf einnig auðugt utan fartíma. Enn fremur verði að hafa í huga að á svæðinu séu fuglategundir, svo sem grágæs og blesgæs sem séu á válista, en þessar gæsategundir séu á viðauka 1 í fuglatilskipun Evrópusambandsins yfir tegundir í útrýmingarhættu, sbr. umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 6. mars 2017. Í umsögninni sé einnig tilgreint að mikill fjöldi fugla nýti svæðið. Miklu minna sé vitað um umferð annarra algengra fugla en gæsa og álfta um Þykkvabæ. Á fartíma fari um Suðurland samtals hundruð þúsunda [einstaklinga] tegunda, s.s. heiðlóu, spóa, hrossagauks, jaðrakans, skógarþrastar og þúfutittlings, en hvaða hluti þessa straums fari um Þykkvabæ sé óvíst.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Skipulagsstofnunar: Kærandi tekur fram að skýr heimild sé til málskots í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Varði kæran óumdeilanlega breytingar á þeirri matsáætlun sem kærandi hafi gert tillögu um. Þá hafi kærufrestur ekki verið liðinn. Í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, eins og hún hafi verið árið 2017, hafi ekkert komið fram um kærufrest framkvæmdaraðila til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hafi því legið beinast við að líta til þeirra almennu sjónarmiða sem fram komi í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.e. að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Hér hafi lög ekki mælt á annan veg og hafi því gilt hinn almenni þriggja mánaða frestur. Jafnframt hafi ekki verið gætt ákvæða 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga um að veita skuli leiðbeiningar um kæruheimild, kærufrest, kærugjöld og hvert beina skuli kæru. Verði kærandi að njóta alls vafa sem kunni að vera uppi um kærufresti og kæruheimild, sérstaklega í ljósi þeirrar ríku leiðbeiningaskyldu sem hvíli á stjórnvöldum. Verði og að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr vegna skorts á leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um kærurétt.

Beiðni félagsins um að athugasemd nr. 5 yrði endurskoðuð hafi efnislega falið í sér ósk um endurupptöku málsins á þeim grundvelli að ákvörðun Skipulagsstofnunar hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Hafi þá kærufrestur vegna ákvörðunarinnar rofnað, sbr. 4. mgr. 27. gr. sömu laga og ekki byrjað að líða að nýju fyrr en 22. júní 2017, þegar kæranda hafi verið tilkynnt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkominni beiðni um endurupptöku væri synjað. Kæra til nefndarinnar hafi því borist vel innan kærufrests og hafi verið mjög nálægt því að berast úrskurðarnefndinni innan þriggja mánaða frá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun.

Sú aðferð við fuglamælingar sem kærandi hafi lagt til í matsáætlun muni veita fullnægjandi upplýsingar um farleiðir fugla í kringum það svæði þar sem fyrirhugað sé að reisa Vindaborg. Aðferðin sé í fullu samræmi við leiðbeiningar Scottish Natural Heritage og sé algjörlega sambærileg því sem best gerist í nágrannalöndum okkar að því er varði vindmyllugarða á landi. Í nefndum leiðbeiningum sé litið á ratsjármælingar sem annars konar aðferð, sem aðeins sé mælt með að nota í undantekningartilfellum. Virðist þar gert ráð fyrir því að ratsjármælingar fari fram samhliða meginaðferðum við mælingar, þ.e.a.s. Distribution and Abundance Surveys og Vantage Point Surveys. Sjái kærandi ekki að hinar umfangsmiklu ratsjármælingar sem Skipulagsstofnun leggi til muni skila nákvæmari upplýsingum, enda hafi ítrekað verið bent á ýmsa vankanta á ratsjármælingum, s.s. að ekki sé hægt að greina nákvæmlega tegund og stærð fugla út frá þeim. Jafnframt sé ítrekað að ekki verði séð að stuðst hafi verið við umfangsmiklar ratsjárrannsóknir til að meta fyrirhuguð framkvæmdarsvæði í sambærilegum verkefnum í nágrannalöndum okkar, óháð því hvort þau séu á mikilvægri farleið fugla.

Kærandi hafi gangsett tvær tilraunavindmyllur á svæðinu í júlí 2014 og hafi alla tíð síðan fylgst vel með áhrifum þeirra á fugla. Á þessum tíma hafi ekki fundist merki um að einn einasti fugl hafi flogið á vindmyllurnar. Áflugshættan sé því lítil sem engin, þótt að sérsjónarmið kunni að eiga við á Íslandi. Hafi rannsóknir einnig leitt í ljós að vindmyllur séu fjarri því að hafa jafnmikil áhrif á umhverfið og dýralíf og aðrar og ósjálfbærari aðferðir við framleiðslu á orku.

Skipulagsstofnun hafi við töku ákvörðunar sinnar 17. apríl 2017 ekki sinnt þeirri skyldu sinni að rannsaka málið, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að þeim lögum komi fram að þegar aðili sæki um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvaldi geti stjórnvald beint þeim tilmælum til hans að hann veiti upplýsingar og leggi fram þau gögn sem nauðsynleg séu og með sanngirni megi ætla að hann geti lagt fram án þess að það íþyngi honum um of. Þá sé tekið fram að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búi að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Hafi Skipulagsstofnun átt að gæta þess að nægilega væri upplýst um kosti og galla ratsjárrannsókna og hvort slíkum rannsóknum væri beitt við mat á umhverfisáhrifum vegna vindorkugarða í nágrannalöndum okkar áður en ákvörðun um matsáætlun væri tekin. Hefði sú rannsókn leitt í ljós að kröfur um tveggja ára ratsjárrannsóknir séu umfram það sem þörf sé á til þess að málið verði nægilega upplýst í mati á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða: Samkvæmt tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun vegna fyrirhugaðs vindorkugarðs í Þykkvabæ er fyrirhugað að reisa 13 vindmyllur. Gert er ráð fyrir allt að 45 MW uppsettu afli í fyrirhugaðri virkjun og er framkvæmdin því háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 1. mgr. 5. gr., sbr. lið 3.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hátti svo til skal framkvæmdaraðili skv. 1. mgr. 8. gr. sömu laga gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar sem skv. 2. mgr. 8. gr. getur fallist á tillögu að matsáætlun með eða án athugasemda eða synjað tillögunni. Geri stofnunin athugasemdir skulu þær verða hluti af matsáætlun. Í samræmi við 1. mgr. 8. gr. fyrrnefndra laga gerði kærandi tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og féllst stofnunin hinn 17. apríl 2017 á hana með 14 tölusettum athugasemdum, sem kærandi sætti sig við, að undanskildri athugasemd nr. 5. Sú athugasemd laut að því hvaða aðferðum skyldi beitt til að meta áhrif vindorkuversins á fugla og fór kærandi fram á það við Skipulagsstofnun að greind athugasemd yrði endurskoðuð. Var því hafnað af stofnuninni, eins og fram kemur í málavaxtalýsingu.

Hinn 21. júlí 2017 barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu. Í kærunni er þess aðallega krafist að „felld verði úr gildi athugasemd nr. 5 í niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsáætlun, dags. 17. apríl, sem Skipulagsstofnun hafnaði að fella úr gildi eða endurskoða með bréfi dags. 9. júní 2017, sem barst kæranda þann 22. júní 2017.“ Af andmælum kæranda við greinargerð Skipulagsstofnunar er og ljóst að ætlun kæranda var sú að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun sem og synjun stofnunarinnar á því að endurskoða athugasemd nr. 5 í nefndri ákvörðun.

Eins og áður er komið fram er ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun vegna fyrirhugaðs vindorkugarðs dagsett 17. apríl 2017, en kæranda var þó tilkynnt um afgreiðslu málsins með tölvupósti nokkrum dögum fyrr, eða 12. s.m. Í ákvörðuninni var tekið fram að framkvæmdaraðili gæti kært hana til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Í tilvitnuðu ákvæði, eins og það hljóðaði þegar hin kærða ákvörðun var tekin, var m.a. tilgreint að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er kæruna varðaði færi samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina, en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun. Hin kærða ákvörðun var send kæranda degi fyrir skírdag, eða 12. apríl 2017, en hún er dagsett 17. s.m., sem var annar dagur páska. Tók kærufrestur því ekki að líða fyrr en 18. apríl 2017.

Svo sem fyrr segir fór kærandi fram á það með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 9. maí 2017, að endurskoðuð yrði athugasemd nr. 5 í fyrrnefndri ákvörðun stofnunarinnar um matsáætlun, en telja verður að í greindu erindi hafi falist beiðni um endurupptöku málsins. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rofnaði við það kærufrestur vegna fyrrnefndrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsáætlun og byrjaði hann ekki að líða að nýju fyrr en kæranda var tilkynnt um synjun endurupptöku ákvörðunarinnar með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 9. júní 2017, sem kæranda barst 22. s.m. Var þá um vika eftir af kærufresti vegna upphaflegrar ákvörðunar, en nýr kærufrestur byrjaði að líða vegna synjunar um endurupptöku hennar.

Úrskurðarnefndin tók við kæru í máli þessu 21. júlí 2017, eða innan kærufrests hvað varðar synjun Skipulagsstofnunar á endurupptöku, en ríflega þremur vikum frá lokum kærufrests vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsáætlun. Berist kæra að liðnum kærufresti skal samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Verður að telja að þrátt fyrir að vikið hafi verið að kæruheimild í ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 17. apríl 2017, svo sem að framan greinir, hafi nokkuð skort á að veittar hafi verið fullnægjandi leiðbeiningar, sbr. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, enda var ekki vikið þar að kærufresti. Þá skorti með öllu að gefnar væru leiðbeiningar um kæruheimild eða kærufrest í afgreiðslu Skipulagsstofnunar, dags. 9. júní s.á., en til þess var rík ástæða að teknu tilliti til þess að kærufrestur vegna upphaflegrar ákvörðunar hafði verið rofinn og byrjaði að líða að nýju við synjunina. Verður því talið afsakanlegt í skilningi 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að upphafleg ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi ekki verið kærð innan kærufrests. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 getur framkvæmdaraðili kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ákvörðun Skipulagsstofnunar um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni. Er sú ákvörðun kærð en jafnframt er kærð synjun stofnunarinnar á endurupptöku ákvörðunarinnar. Þó svo að heimild til endurupptöku sé að finna í 24. gr. stjórnsýslulaga en ekki í lögum nr. 106/2000 verður að telja synjun þar um kæranlega til úrskurðarnefndarinnar, enda myndi öndverð niðurstaða leiða til þess að fjallað gæti verið samtímis um sömu efnisatriði að miklu leyti hjá fleiri en einu kærustjórnvaldi, þ.e. hjá úrskurðarnefndinni og ráðherra. Sú niðurstaða væri andstæð sjónarmiðum þeim sem liggja að baki litispendens-áhrifum sem vikið er að í athugasemdum með 24. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum. Að framangreindu virtu verður kærumál þetta tekið til efnismeðferðar í heild sinni.

Á það skal bent að hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti hinna kærðu ákvarðana til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu, enda fellur það utan valdheimilda hennar. Verður því ekki fjallað um þá kröfu kæranda að breytt verði athugasemd nr. 5 í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun.

Í máli þessu er eins og fyrr greinir deilt um athugasemd nr. 5 sem Skipulagsstofnun gerði í áðurnefndri ákvörðun sinni frá 17. apríl 2017 um matsáætlun kæranda. Í greindri athugasemd var gerð krafa um að afla þyrfti upplýsinga um farleiðir fugla með vettvangsathugunum og ratsjármælingum og gera grein fyrir flugferlum og flughæð fugla í frummatsskýrslu. Þar skyldi jafnframt leggja mat á áhrif vindorkuversins á fugla með hliðsjón af leiðbeiningariti Scottish Natural Heritage og framkomnum umsögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í tillögu framkvæmdaraðila kom fram að gerð yrði grein fyrir áhrifum á fuglalíf með sambærilegri aðferð og sett hafi verið fram í nánar tilgreindri rannsókn Landsvirkjunar vegna vindmylla við Búrfell. Við flugmælingar yrði stuðst við aðferðarfræði sem notuð hefði verið í Skotlandi og farið á vettvang á mismunandi árstímum. Lýtur ágreiningur máls þessa að þeirri kröfu Skipulagsstofnunar að fara þurfi fram ratsjármælingar, en kærandi telur m.a. að sú krafa sé úr hófi fram og að ekki liggi fyrir að þær rannsóknir skili marktækari upplýsingum en þær aðferðir sem kærandi leggi til í matsáætlun. Þær aðferðir séu aukinheldur í samræmi við það sem fram komi í fyrrnefndum leiðbeiningum.

Aðila málsins greinir m.a. á um hvernig túlka beri framangreindar leiðbeiningar um það hvernig haga skuli fuglarannsóknum í mati á umhverfisáhrifum vindorkuframkvæmda á landi, en Skipulagsstofnun hefur ekki gefið út leiðbeiningar vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna vindorkunýtingar svo sem henni er heimilt skv. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 106/2000. Eðli máls samkvæmt er takmörkuð reynsla og þekking til staðar hérlendis um áhrif vindorkuvera, m.a. á fuglalíf. Þó hafa verið tilraunavindmyllur í Þykkvabæ og við Búrfell og hefur mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar, vindorkuvers norðaustan Búrfells, farið fram. Frekari undirbúningur framkvæmda þar hefur hins vegar ekki átt sér stað. Undir þessum kringumstæðum er eðlilegt að Skipulagsstofnun og framkvæmdaraðilar, þ. á m. kærandi, líti til reynslu nágrannalanda, s.s. Skotlands. Reynsla og upplýsingar þaðan og vegna vindorkuverkefna erlendis geta þó aðeins veitt leiðbeiningar um það til hvaða þátta beri einkum að horfa við mat á umhverfisáhrifum eða hvernig rannsóknum skuli háttað en hafa að öðru leyti enga lögformlega þýðingu við úrlausn máls þessa. Er þannig varhugavert að leggja erlendar leiðbeiningar, s.s. þær skosku, gagngert til grundvallar og verður ávallt að meta hvort þær eigi við um aðstæður þær sem um ræði. Bar því aðilum öllum að byggja á íslenskum lögum og líta fyrst og fremst til aðstæðna þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Í skosku leiðbeiningunum er í kafla 3 fjallað um mæliaðferðir en í kafla 4 um annars konar aðferðir (e. alternative methods), s.s. ratsjármælingar. Má af uppröðuninni skilja að ratsjármælingar séu ekki fyrsti kostur og heldur kærandi þeim sjónarmiðum fram. Skýrt kemur þó fram í inngangi leiðbeininganna að þær séu ekki bindandi og eigi ekki við í öllum tilvikum. Í vindorkuframkvæmdum geti verið um að ræða áflugshættu fugla, fælingu, þ.e. þegar fuglar forðast vindorkugarða og nota svæðið í minna mæli en áður, hindrun á farleiðum fugla og búsvæðamissir vegna lands sem fer undir mannvirki. Nákvæmar upplýsingar um dreifingu fugla og farleiðir þeirra séu nauðsynlegar til að segja fyrir um möguleg áhrif vindorkugarða á fugla. Er og tekið fram að ef um sé að ræða vernduð fuglasvæði samkvæmt tilgreindum skoskum lögum, Ramsar-samþykktinni um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, sem og fuglatilskipun Evrópusambandsins, séu gerðar strangari kröfur og líklegt sé að mælingar þurfi að vera umfangsmeiri. Tekið er fram í kafla 4 að aðrar mælingar, s.s. ratsjármælingar, geti reynst nauðsynlegar fyrir tegundir sem séu virkar að næturlagi, við sólarupprás og sólarlag. Ratsjármælingar geti gefið yfirsýn yfir staðsetningu og fjölda flugferla og þar með veitt gagnlegar upplýsingar þar um. Ratsjármælingar geti þó ekki greint á milli tegunda svipaðrar stærðar og þyngdar og þurfi því ávallt einnig að koma til einhverjar vettvangsathuganir að degi til. Er svo tekið fram að ekki sé mælt með ratsjármælingum nema um sé að ræða mikilvægar tegundir sem séu virkar að næturlagi. Af lestri leiðbeininganna verður ráðið að ávallt sé atviksbundið hvernig mælingum er háttað. Verður því ekki treyst á nefndar leiðbeiningar í blindni.

Með lögum um mat á umhverfisáhrifum hefur löggjafinn ákveðið að mat á umhverfisáhrifum skuli fara fram áður en leyfi er veitt til framkvæmda sem hafa, eða kunna að hafa, umtalsverð áhrif á umhverfið. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 106/2000 er tekið fram að viðurkennt sé að mat á umhverfisáhrifum sé mikilvæg leið til að ná fram þeim markmiðum að láta þá sem taka ákvarðanir er snerta umhverfið vera upplýsta um þau umhverfisáhrif sem ákvörðun þeirra hefur og að tryggja að tillit sé tekið til umhverfisins þegar teknar eru slíkar ákvarðanir. Lög nr. 74/2005 breyttu lögum nr. 106/2000 í veigamiklum atriðum en í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingalögunum er áréttað að leyfisveitandi skuli m.a. vera upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda. Er og talin meðal helstu breytinga í frumvarpinu að matsferlið miði að því að matsskýrsla framkvæmdaraðila lýsi sem best og dragi fram öll veigamikil umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Mat á umhverfisáhrifum er þannig þáttur í rannsókn máls áður en leyfi er veitt og í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, skal mál nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í heimild Skipulagsstofnunar til að samþykkja tillögu að matsáætlun með athugasemdum sem verða hluti áætlunarinnar felst því tæki stofnunarinnar til að stuðla að rannsókn máls, sem og að því að matsferlið endurspegli þau markmið laga um mat á umhverfisáhrifum sem koma fram í 1. gr. þeirra, s.s. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar fari fram og að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum hennar.

Í lögum nr. 106/2000 er matsáætlun skilgreind sem áætlun framkvæmdaraðila byggð á tillögu hans á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu í frummatsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð skýrslunnar, sbr. h-lið 3. gr. laganna. Er þannig lögð áhersla á ákveðið forræði framkvæmdaraðila, sem einnig hefur verið staðfest í framkvæmd, en það forræði er þó ekki óskorað, m.a. vegna heimildar Skipulagsstofnunar til að samþykkja matsáætlun með athugasemdum. Þá hefur nefnt forræði framkvæmdaraðila verið viðurkennt í dómaframkvæmd að því gefnu að mat hans sé reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Mat á umhverfisáhrifum er tímafrekt og dýrt og einstakar rannsóknir sem fara fram vegna þess geta verið mjög kostnaðarsamar. Svo sem áður er rakið hefur löggjafinn þó ákveðið að slíkt mat skuli fara fram vegna tiltekinna framkvæmda. Stoðar því ekki að bera við kostnaði vegna rannsókna sem framkvæmdar eru við mat á umhverfisáhrifum nema ljóst sé að aðrar ódýrari aðferðir nái sama markmiði matsins, þ.e. að umhverfisáhrif framkvæmda verði upplýst áður en leyfi sé veitt til framkvæmda.

Samkvæmt tillögu að matsáætlun er gert ráð fyrir því að hinn fyrirhugaði vindorkugarður verði staðsettur rétt um 2,3 km norðan við Þykkvabæ, við svokallaða Austurbæjarmýri. Stærð umrædds svæðis er samkvæmt framkvæmdaraðila 193 ha. Þar er áætlað að reisa 13 vindmyllur, mastur hverrar vindmyllu yrði allt að 92,5 m hátt og þvermál snúningsflatar um 113 m. Hæsti punktur spaða í toppstöðu yrði 149 m. Óumdeilt er að gróskumikið fuglalíf er á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði og kemur fram í umsögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands að það sé í einni af megin farleiðum farfugla til og frá landinu vor og haust. Mikið af fuglum dvelji á svæðinu á öðrum árstímum. Í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar, dags. 14. október 2016, bendir Náttúrufræðistofnun á að sú aðferð sem í upphafi hafi verið lagt upp með að nota í rannsókn Landsvirkjunar vegna fugla og vindmylla við Búrfell hafi ekki veitt nægilegar upplýsingar og hafi því verið ráðist í umfangsmeiri rannsóknir, sem lagt hafi grunninn að mati á umhverfisáhrifum vindmyllulundar við Búrfell. Telur stofnunin að miðað við eðli þeirrar framkvæmdar sem fyrirhuguð sé í Þykkvabæ og mikilvægi svæðisins fyrir fugla, á landsvísu og alþjóðavísu, verði að krefjast þess að rannsóknir vegna áflugshættu séu áreiðanlegar og í hæsta gæðaflokki. Leggur stofnunin þannig ríka áhersla á að ráðist verði í rannsóknir svipaðar þeim og framkvæmdar hafi verið vegna Búrfellslundar. Mikilvægt sé að ekki verði eingöngu stuðst við rannsóknir sem gerðar séu á einu ári heldur sé eðlilegt að slíkar rannsóknir spanni minnst tvö ár. Tryggja þurfi að rannsóknir lýsi umferð fugla bæði dag og nótt yfir fartímann.

Samkvæmt lögum nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur er meðal aðalverkefna stofnunarinnar að aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna, sbr. e-lið 4. gr. laganna. Þá er henni m.a. falið það hlutverk í 4. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum að stunda rannsóknir á stofnun villtra fugla og spendýra, meta ástand þeirra og gera tillögur um vernd þeirra. Ljóst er að umsagnir Náttúrufræðistofnunar höfðu töluvert vægi við meðferð málsins. Telja verður að Skipulagsstofnun hafi í ljósi sérfræðiþekkingar Náttúrufræðistofnunar verið rétt að leita eftir og líta til umsagna hennar við afgreiðslu málsins. Var Skipulagsstofnun þó ekki bundin af umsögnum sem aflað var við rannsókn málsins heldur bar henni að leggja efnislegt mat á innihald og vægi þeirra áður en ákvörðun var tekin.

Fuglar, þar með taldir farfuglar, eru friðaðir skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994. Skal skv. 2. mgr. 6. gr. laganna gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og búsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun. Fjölda fuglategunda er að finna á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði í Þykkvabæ, m.a. álftir sem eru friðaðar á heimsvísu og blesgæsir sem eru samkvæmt válista í hættu, en válistar eru m.a. gefnir út til að uppfylla aðildarskyldur Íslands samkvæmt Bernarsamningnum um vernd plantna og dýra og búsvæða þeirra í Evrópu. Fer Náttúrufræðistofnun Íslands með framkvæmd samningsins á Íslandi. Svo sem áður segir er óumdeilt að fyrirhugað framkvæmdarsvæði er staðsett í farleið fugla, en Ísland ber þjóðréttarlega ábyrgð á viðhaldi þeirra fartegunda sem finnast og fara um íslenska lögsögu, sbr. samninginn um vernd votlendisfarfugla og búsvæði þeirra. Jafnframt er ljóst að þekkingu er ábótavant um fugla og ferðir þeirra á svæðinu. Eðli máls samkvæmt leiðir skortur á þekkingu til þess að umhverfisáhrif framkvæmdar verða ekki upplýst að því marki sem mögulegt er. Að sama skapi eru minni líkur á að leyfisveitandi geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort leyfa eigi framkvæmdina. Eins og hér háttar leggur úrskurðarnefndin áherslu á að brýnt sé að leggja varúðarsjónarmið til grundvallar þegar umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar verða metin.

Þær rannsóknir á fuglum sem kærandi lagði til í matsáætlun sinni byggðust á aðferðarfræði sem lagt var upp með í upphafi mats á umhverfisáhrifum Búrfellslundar. Á meðan á því mati stóð var aðferðum breytt og voru m.a. framkvæmdar ratsjármælingar í eitt ár. Var með þeim hætti aflað mun fyllri upplýsinga en ella. Allt að einu var það álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar að ákveðna fyrirvara yrði að setja um áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf og að samráð yrði að hafa við Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi þörf á frekari rannsóknum áður en til ákvörðunar um uppbyggingu eða framkvæmd kæmi. Verður ekki talið óeðlilegt að litið hafi verið til framkvæmdar fuglarannsókna vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs Búrfellslundar þótt sú framkvæmd yrði umfangsmeiri en sú sem hér um ræðir. Yrði enda hæð hverrar vindmyllu þar, miðað við spaða í hæstu stöðu, allt að 150 m og sambærileg að því leyti við framkvæmd kæranda þótt þar sé um færri vindmyllur að ræða. Loks skal tekið fram að þótt fallast megi á það með kæranda að ratsjármælingar séu ekki gallalausar þá lýtur athugasemd Skipulagsstofnunar að því að hvoru tveggja vettvangsathuganir og ratsjármælingar fari fram, en í skosku leiðbeiningunum kemur einmitt fram að ekki sé hægt að styðjast við ratsjármælingar eingöngu heldur sé nauðsynlegt að framkvæma vettvangsathuganir þeim samhliða.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki annað séð, að teknu tilliti til alls þess sem að framan er rakið og til staðhátta og mikilvægis umrædds svæðis fyrir fuglalíf, en að kröfur Skipulagsstofnunar séu réttmætar og til þess fallnar að stuðla að því að markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum verði náð. Þykir Skipulagsstofnun hafa gætt meðalhófs og ekki hafa gengið lengra en nauðsynlegt var svo að umhverfisáhrif yrðu nægilega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga. Var og þannig stuðlað að því að leyfisveitandi gæti tekið upplýsta ákvörðun. Úrskurðarnefndin telur þó að umrædd athugasemd Skipulagsstofnunar nr. 5 sé sett fram með þeim hætti að skýrleika hennar sé í nokkru áfátt. Vísaði stofnunin til umsagna Náttúrufræðistofnunar Íslands en jafnframt var vísað til þess að leggja þyrfti mat á áhrif vindorkuversins á fugla með hliðsjón af leiðbeiningariti Scottish Natural Heritage. Hins vegar var ekki tekið skýrlega fram í athugasemdinni hversu langan tíma mælingar þyrftu að fara fram, en skýrt verður að koma fram í athugasemdum við tillögu að matsáætlun hvaða kröfur séu gerðar til framkvæmdaraðila við frekari málsmeðferð. Þó kemur fram í þeim umsögnum, sem raktar eru í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar, að fuglamælingar þyrftu að spanna tvö ár og einnig kemur það skýrt fram í skosku leiðbeiningunum að svo þurfi að vera. Verður því að telja að framkvæmdaraðila, sem hefur forræði á framkvæmd sinni, sé nægilega ljóst til hvers sé ætlast af honum til að mat á umhverfisáhrifum skili tilgangi sínum. Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að athugasemd Skipulagsstofnunar nr. 5 við matsáætlun kæranda skuli standa óröskuð.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni og að virtum þeim gögnum sem fyrir liggja vegna endurupptökubeiðni kæranda er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi verið rétt í kjölfar frekari rannsóknar sinnar að synja þeirri beiðni á þeim grundvelli að skilyrði endurupptöku væru ekki uppfyllt, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Var enda ákvörðun Skipulagsstofnunar hvorki byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik né höfðu atvik breyst verulega frá því að ákvörðunin var tekin. Verður synjun Skipulagsstofnunar um endurupptöku því ekki felld úr gildi, enda er hún hvorki haldin ógildingarannmörkum að formi til né efni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. apríl 2017 um tillögu að matsáætlun vegna vindorkugarðs í Þykkvabæ, Rangárþingi ytra, að því er varðar athugasemd nr. 5 í ákvörðuninni.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun Skipulagsstofnunar frá 9. júní 2017 á beiðni kæranda um endurskoðun á fyrrgreindri ákvörðun stofnunarinnar frá 17. apríl s.á.

133/2017 Skjólbraut

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. október 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Skjólbrautar 11, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 9. nóvember 2017, er barst nefndinni 10. s.m., kæra eigendur, Skjólbraut 14, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. október 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Skjólbrautar 11. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 21. nóvember 2017.

Málavextir: Hinn 28. mars 2006 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs tillögu að deiliskipulagi Skjólbrautar 9 og 11. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. maí 2006. Í deiliskipulaginu fólst heimild til að fjarlægja einbýlishús frá árinu 1944 af lóðinni nr. 9 og byggja í stað þess tveggja hæða parhús með hámarksnýtingarhlutfall 0,55 og hámarksþakhæð 31,50 m y.s. Á lóðinni nr. 11 var gert ráð fyrir endurbyggingu einbýlishússins sem fyrir var á lóðinni og heimild til að byggja við það. Hámarksnýtingarhlutfall þeirrar lóðar var 0,55 og hámarksþakhæð 32,53 m.

Á fundi skipulagsráðs Kópavogs hinn 18. apríl 2017 var lagt fram erindi lóðarhafa Skjólbrautar 11 þar sem óskað var eftir að fjarlægja 136 m² einbýlishús af lóðinni, skipta lóðinni í tvær lóðir, byggja parhús með samtals fjórum íbúðum á lóðunum og setja upp átta bílastæði innan lóðar. Fyrirhugað heildarbyggingarmagn var um 570 m² og nýtingarhlutfallið 0,58. Lóðarhafi gaf upp þá ástæðu fyrir erindinu að mikil eftirspurn væri eftir íbúðum fyrir 3ja til 4ra manna fjölskyldur og þá sérstaklega í grónum hverfum. Skipulagsráð samþykkti með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna ofangreint erindi fyrir eigendum lóða í nágrenninu, m.a. kærendum. Erindið var lagt aftur fyrir á fundi skipulagsráðs 15. maí 2017 þar sem í ljós hafði komið að lóðin var á deiliskipulögðu svæði. Á þeim fundi var samþykkt, með vísan til 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, að auglýsa tillöguna og vísa erindinu til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum 23. maí 2017. Tillagan var auglýst frá 23. júní 2017 með athugasemdafresti til og með 8. ágúst s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá kærendum.

Skipulagstillagan var lögð fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 2. október 2017 ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar sveitarfélagsins með athugasemdum og ábendingum. Samþykkti skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna með vísan til niðurstöðu fyrrnefndrar umsagnar og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 10. október 2017. Tillagan var birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að bygging fjölbýlishúss í götunni feli í sér eðlisbreytingu á svæðinu og grundvallarbreytingu á götumyndinni. Ekki hafi verið tekið tillit til svipmóts þeirrar byggðar og einstakra bygginga sem fyrir séu, líkt og eigi að gera þegar verið sé að gera deiliskipulagsbreytingu í þegar byggðu hverfi. Bygging fjórbýlishúss í stað einbýlishúss sé meiriháttar breyting á rólegu og grónu svæði, sem sé að mestu byggt einbýlis- og parhúsum með örfáum undantekningum. Einungis eitt fjórbýlishús sé í götunni, en það sé á lóð nr. 2 og með nýtingarhlutfall 0,44. Áætlað nýtingarhlutfall Skjólbrautar 11 sé nokkuð hátt og mun hærra en nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða ásamt því að nýtingarhlutfall lóðarinnar með núverandi einbýlishúsi sé 0,14. Hætta sé á að með byggingu parhússins verði sett fordæmi sem auki líkur á því að fleiri fjölbýlishús muni rísi við götuna.

Með deiliskipulagsbreytingunni sé verið að fara út fyrir öll mörk sem núverandi deiliskipulag geri ráð fyrir. Breytingin muni hafa í för með sér aukna umferð og bílastæðaþörf með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa ásamt því að hún muni að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á virði fasteigna í nágrenninu.

Kærendur álíti að ef heimilt verði að byggja fjórbýlishús á lóðinni Skjólbraut 11 verði það meiriháttar breyting og sé mótmælt bókun meirihluta bæjarráðs frá fundi ráðsins 5. október 2017 um að í gildandi deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir 540 m² byggingu og því sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða. Ekki hafi staðið til að byggja 540 m² einbýlishús á umræddri lóð heldur hafi verið um það að ræða að nýtingarhlutfall hennar færi ekki yfir 0,55. Byggingarreitur lóða sé yfirleitt takmarkandi að því er varði það byggingarmagn sem hægt sé að koma fyrir, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að í rammahluta Aðalskipulags Kópavogs 2012-2014 komi fram að á Kársnesinu standi fyrir dyrum áframhaldandi uppbygging sem felist einkum í aukinni íbúðarbyggð. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Kópavogs 10. október 2017, hafi falið í sér að byggðar yrðu fjórar íbúðir á lóðinni Skjólbraut 11 með átta bílastæðum.

Skipulagsyfirvöld í Kópavogsbæ hafi metið það svo að aukning byggingarmagns um 30,9 m² frá gildandi deiliskipulagi væri óveruleg. Lenging á byggingarreit til suðurs myndi að einhverju leyti hafa neikvæð áhrif á aðliggjandi lóðir hvað varði skuggamyndun. Ekki hafi verið fyrirhugað að heimila hækkun byggingar á reitnum frá gildandi deiliskipulagi, en ljóst sé að fyrirhuguð nýbygging myndi sannanlega verða hærri en núverandi bygging á lóðinni. Þá hafi breytingartillagan gert ráð fyrir að byggingarreitur myndi mjókka um 1,5 m til austurs og vesturs, samtals um 3 m, sem myndi hafa jákvæð áhrif á nærliggjandi lóðir.

Fjölgun íbúða úr einni í fjórar, í götu þar sem meðalfjöldi íbúða á lóð sé 1,7, teljist hins vegar veruleg breyting og því hafi verið talið hugsanlegt að aukningin gæti að einhverju leyti haft neikvæð áhrif á íbúa götunnar, m.a. vegna umferðaraukningar. Við Skjólbraut 1-22 séu 40 íbúðir í dag og aukning í 43 íbúðir hefði í för með sér 7,5% umferðaraukningu, eða aukningu um u.þ.b. 22 ferðir ökutækja á sólarhring. Hafi því verið ákveðið að auglýsa tillöguna til kynningar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Hvorki sé hægt að fallast á það með kærendum að með byggingu hússins verði grundvallar­breyting á götumyndinni né að ekki hafi verið tekið tillit til byggðarinnar. Verði í því sambandi að líta til þess að við Skjólbraut 1-22 séu tíu einbýlishús, fjögur parhús og tíu sambýlishús, sem skiptist á þann hátt að sex þeirra séu tvíbýli, þrjú þríbýli og eitt fjórbýli. Þrátt fyrir að breytingin hafi í för með sér aukna umferð í götunni verði að telja að aukningin hafi ekki slík áhrif á grenndarhagsmuni kærenda að það varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, sérstaklega í ljósi stefnu aðalskipulags Kópavogs um aukna íbúðarbyggð á Kársnesinu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að stefna bæjaryfirvalda í Kópavogi sé að þétta byggð á Kársnesinu. Í samræmi við það hafi bæjar- og skipulagsyfirvöld í Kópavogi heimilað verulega uppbyggingu og breytingu húsa við Skjólbraut. Áður hafi bæjarskrifstofur Kópavogs og ýmis fyrirtæki verið til húsa við götuna en nú séu flest þeirra húsa horfin og ný komin í staðinn. Sum þeirra húsa sem reist hafi verið í staðinn séu hærri, stærri, með hærra nýtingarhlutfalli og með jafn mörgum íbúðum og það hús sem heimilað hafi verið að reisa. Ef fallist yrði á kröfu kærenda yrði því gengið gróflega gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ásamt því að leyfishafi myndi verða fyrir verulegu tjóni.

Því sé andmælt að deiliskipulagsbreytingin feli í sér meiriháttar breytingu á lóðinni nr. 11 við Skjólbraut. Samkvæmt deiliskipulagi fyrir Skjólbraut 9 og 11 frá 2006 sé heimilt að byggja um 500 m² einbýlishús á lóðinni. Þá sé nýtingarhlutfall lóðarinnar með breytingunni nú örlítið hærra en verið hafi. Fari það úr 0,55 í 0,58, sem sé lægra en nýtingarhlutfall Skjólbrautar 13, þar sem það sé 0,61. Um óverulega breytingu á götumynd sé að ræða en íbúðum muni fjölgi úr 54 í 57, eða um 5,5%, og aukning í fermetrum sé um 30,9 m². Breytingin samræmist svipmóti annarra húsa við götuna, þeirri uppbyggingu sem átt hafi sér stað og taki mið af nýjustu húsunum, Skjólbraut 9 og Skjólbraut 13.

Með fjölgun bílastæða úr fjórum í átta á lóðinni megi ætla að umferðarhætta muni minnka við þessa framkvæmd þar sem bifreiðastæði muni færast af götunni inn á lóðina nr. 11.

Niðurstaða: Upphaflegt deiliskipulag fyrir Skjólbraut 9-11 tók gildi árið 2006. Samkvæmt því skipulagi mátti reisa á lóðinni Skjólbraut 11 einnar hæðar einbýlishús með nýtanlegu risi ásamt innbyggðri eða tengdri bílageymslu og þremur bílastæðum á lóð. Hámarksþakkóti var 32,53, hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar var 0,55 og heimilað byggingarmagn var 542,3 m2. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var heimilað að reisa á lóðinni 570 m² parhús með fjórum íbúðum, nýtingarhlutfall lóðarinnar fór í 0,58 og hámarkshæð húss var lækkuð í 32,43 m, eða um 10 sentimetra. Þá var bílastæðum á lóð fjölgað úr þremur í átta en lóðinni var ekki skipt upp í tvær lóðir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga, en þess ber þó að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. áðurnefndra laga og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Telji þeir sem eiga hagsmuna að gæta að þeir verði fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á deiliskipulagi þarf það ekki að hafa áhrif á gildi skipulagsbreytingarinnar, en getur eftir atvikum orðið grundvöllur að bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Auk þess var nágrönnum, m.a. kærendum, sent dreifibréf þar sem athygli var vakin á því að samþykkt hefði verið að auglýsa breytt deiliskipulag fyrir Skjólbraut 11. Deiliskipulagstillagan var afgreidd og framkomnum athugasemdum svarað af skipulags- og byggingardeild og var sú afgreiðsla samþykkt af skipulagsráði. Að lokum var breytingin samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 10. október 2017 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember s.á., eftir að umrædd kæra barst úrskurðarnefndinni.

Eitt af markmiðum Aðalskipulags Kópavogs 2012-2024 er þétting byggðar og kemur fram, í rammahluta aðalskipulagsins að fyrir dyrum standi áframhaldandi uppbygging á Kársnesi sem felist einkum í aukinni íbúðarbyggð. Umrædd lóð er á skilgreindu íbúðarsvæði ÍB-1 og segir m.a. um það svæði í aðalskipulaginu að byggðin sé nokkuð fastmótuð og lágreist með 1-5 hæða húsum. Verður ekki annað séð en að deiliskipulagsbreytingin sé í samræmi við aðalskipulag, líkt og áskilið er í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Fordæmi eru fyrir fjögurra íbúða fjölbýlishúsum við Skjólbraut og sambærilegu nýtingar­hlutfalli og hin kærða ákvörðun heimilar á lóðinni Skjólbraut 11, en það eykst um 5,45% frá því sem áður var gert ráð fyrir. Hámarkshæð húss lækkar um 10 sentimetra og bílastæðum innan nefndrar lóðar fjölgar úr þremur í átta. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að umdeild breyting hafi teljandi grenndaráhrif gagnvart fasteign kærenda, en milli húss kærenda og Skjólbrautar 11 er gata og stendur fasteign kærenda hærra í landi.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim ágöllum sem áhrif geta haft á gildi hennar og verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. október 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Skjólbrautar 11 í Kópavogi.

16/2018 Rangárbakki 2

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 30. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

l nr. 16/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra frá 8. janúar 2018 um að hafna beiðni kæranda um leyfi fyrir breyttri notkun núverandi húsnæðis á lóðinni Rangárbakka 2 í þjónustubyggingu fyrir gistihús og um leyfi til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús .

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Rent Leigumiðlun ehf., eigandi fasteignarinnar að Rangárbakka 2, þá ákvörðun Rangárþings ytra frá 8. janúar s.á. að hafna beiðni kæranda um leyfi fyrir breyttri notkun núverandi húsnæðis í þjónustubyggingu fyrir gistihús á lóðinni Rangárbakka 2 og um leyfi til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að veita kæranda umbeðna heimild. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að taka umsóknina aftur fyrir.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 15. mars 2018.

Málavextir: Með bréfi, dags. 27. desember 2017, sótti kærandi um leyfi til skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra til að setja niður smáhýsi á lóðinni að Rangárbakka 2 til að nota sem gistihús. Jafnframt sótti kærandi um breytta notkun verslunarhúsnæðis á lóðinni í þjónustuhúsnæði fyrir umrædd gistihús. Á fundi nefndarinnar 8. janúar 2018 var erindinu hafnað. Með bréfum, dags. 15. janúar s.á. og 2. febrúar s.á., óskaði kærandi eftir rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir ákvörðuninni, en ekkert svar barst. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 7. s.m. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 12. mars 2018 var bókað um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun og var sá rökstuðningur staðfestur á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 14. s.m..

Málsrök kæranda: Kærandi telur að synjun sveitarfélagsins á erindi hans standist ekki lög. Synjunin brjóti gegn aðal- og deiliskipulagi svæðisins, sem og gegn stjórnsýslu- og skipulagslögum. Auk þess standist meðferð málsins ekki ákvæði laga.

Frá því að fulltrúar kæranda hafi sett sig í samband við skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins í ágúst 2017 hafi aldrei annað komið fram en að unnt væri að fá í gegn þá breytingu sem kærandi hafi viljað gera. Þannig hafi verið óskað eftir því að fulltrúar kæranda útbyggju öll gögn sem hefði annars verið óþarft ef fyrir lægi að í grunninn væri ekki heimild samkvæmt skipulagi fyrir þess háttar starfsemi á lóðinni. Sú túlkun virðist hafa komið til síðar, þ.e. að kærandi þyrfti að sækja um breytta notkun á húsnæðinu. Um þetta hafi kæranda aldrei verið tilkynnt.

Samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins sé Rangárbakki 2 skilgreind sem „Þ3“ lóð, en samkvæmt skilgreiningu á skipulaginu séu Þ-svæði „verslunar- og þjónustusvæði“. Í greinargerð með aðalskipulagi segi að á þessum reit sé „blómaverslun og möguleiki á frekari uppbyggingu“. Forsaga þess sé að á svæðinu hafi áður verið blómaverslun en hún hafi ekki verið starfrækt þar lengi. Þrátt fyrir að tekið sé fram í greinargerð aðalskipulagsins að þarna sé blómaverslun þá geti það ekki verið túlkað sem einhvers konar takmörkun fyrir aðra starfsemi, t.d. annars konar verslun eða þjónustustarfsemi, enda sé greinargerðin fyrst og fremst að lýsa ákveðnu ástandi og notkun eignarinnar á tilteknum tíma. Deiliskipulag af svæðinu kveði á um það sama, þ.e. að þarna séu „verslunar- og þjónustulóðir“. Hvergi sé notkun þessara lóða skilgreind nánar eða takmörkuð, þ.e. að þarna megi ekki vera annars konar starfsemi en verslun. Einnig sé lóðin skilgreind sem „verslunar- og þjónustulóð“ samkvæmt fasteignaskrá. Í lóðarleigusamningi segi að leigutaka sé leigð lóðin „undir atvinnustarfsemi“. Í 1. gr. samningsins komi fram að önnur notkun lóðarinnar en að framan greini sé óheimil. Að öðru leyti sé ekki að finna neinar takmarkanir í samningnum fyrir því hvers konar atvinnustarfsemi megi fara fram á lóðinni.

Í 2. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé kveðið á um að í aðalskipulagi skuli lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi m.a. landnotkun og takmarkanir á landnotkun. Þá segi í 1. mgr. 37. gr. að í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um m.a. lóðir, lóðanotkun og aðrar skipulagsforsendur. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé fjallað nánar um landnotkunarflokka. Samkvæmt c-lið gr. 6.2. í reglugerðinni sé „Verslun og þjónusta (VÞ)“ svæði þar sem gert sé ráð fyrir verslun og þjónustu, þ.m.t. hótelum, gistiheimilum og gistiskálum. Í gr. 6.3. komi fram að hvers konar takmarkanir á landnotkun skuli tilgreindar í aðalskipulagi og eftir atvikum í deiliskipulagi. Þá segi í 2. mgr. gr. 5.3. í reglugerðinni að heimilt sé að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi. Því sé ljóst að sveitarfélagið hafi haft ýmis tækifæri til þess að kveða skýrt á um takmarkanir á notkun umræddrar lóðar. Svo hafi aftur á móti ekki verið gert. Hvorki í aðalskipulagi, deiliskipulagi né lóðarleigusamningi. Höfnun sveitarfélagsins á umsókn kæranda sé því óheimil.

Afgreiðsla sveitarfélagsins standist ekki jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við Rangárbakka 6 og 8b, sem sé á næstu lóð við eign kæranda og á sama svæði skv. aðalskipulagi, sé sams konar starfsemi og kærandi hafi í hyggju að byggja upp, þ.e. smáhýsi sem nýtt séu til gistingar. Það fáist ekki staðist að leyfa slíka starfsemi á einum stað en hafna á öðrum, þegar í báðum tilfellum sé um að ræða viðskipta- og þjónustulóðir samkvæmt skipulagi. Með því brjóti sveitarfélagið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og eftir atvikum jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig sé brotið gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi þar sem afgreiðsla sveitarfélagsins stöðvi áform kæranda um að hefja fyrirhugaða starfsemi. Í ljósi þess að sambærileg starfsemi sé nú þegar við Rangárbakka 6 og 8b þá jafnist afgreiðsla bæjarins til þess að þeim aðilum sé veitt einokun á því að reka slíka starfsemi í bænum.

Málsrök Rangárþings ytra: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að í gildandi Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 segi um verslunar- og þjónustusvæði á Hellu að gera skuli fyrst og fremst ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, m.a. ferðaþjónustu. Á lóðinni að Rangárbakka 2 segi í greinargerð: „Á þessum reit er blómaverslun og möguleiki á frekari uppbyggingu.“ Ekki sé minnst á frekari uppbyggingu smáhýsa á lóðinni.

Á lóð nr. 8 við Rangárbakka sé rekin ferðaþjónusta, m.a. smáhýsi ásamt tengingu við tjaldsvæði. Síðast hafi verið byggð smáhýsi þar árið 1993 fyrir utan tvö smáhýsi sem hafi verið byggð árið 2010. Uppbygging lóðanna núna sé allt önnur en lagt hafi verið upp með árið 1993. Áform kæranda feli í sér mikla breytingu á nýtingu lóðarinnar, en þar sé nú einungis eitt verslunarhúsnæði. Þá sé stærð lóðarinnar ekki nema um 3.500 m2. Nefndin telji því að uppbygging lóðarinnar geti ekki talist sambærileg og núverandi aðstæður á lóð nr. 8.

Unnið sé að endurskoðun aðalskipulagsins. Þar sé umræddu svæði fyrir lóðir nr. 2 og 4 við Rangárbakka breytt úr verslunar- og þjónustusvæði yfir í miðsvæði. Ef breytingin sé samþykkt muni það hafa áhrif á umhverfi og yfirbragð byggðar á svæðinu, þar á meðal ásýnd þéttbýlisins varðandi aðkomu úr vestri. Það sé álit nefndarinnar að uppbygging fjölda smáhýsa til útleigu gistinga fari betur við jaðar heldur en innan væntanlegs miðsvæðis. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi um miðsvæði: „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin sé samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.“ Yfirbragð smáhýsabyggðar samræmist ekki skilgreiningu fyrir miðsvæði.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið segi um lóð nr. 4 við Rangárbakka, sem sé við hlið lóðar nr. 2, að lóðin sé fyrir gistihús eða hótel á 1-2 hæðum og að mænishæð sé heimilt allt að 12 m. Frekari uppbygging á lóð nr. 2. skuli frekar fylgja slíkri stefnu heldur en smáhýsabyggð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra frá 8. janúar 2018 að synja umsókn kæranda um leyfi til breyttrar notkunar núverandi húsnæðis á lóðinni að Rangárbakka 2 og til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús.

Umsókn kæranda laut að byggingarleyfisskyldum framkvæmdum, en skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. laganna. Samkvæmt sömu grein skal umsókn um byggingarleyfi ásamt hönnunargögnum send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa, sem fer yfir umsóknina, gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og tilkynnir umsækjanda eftir atvikum um samþykkt byggingaráforma hans, sbr. 11. gr. nefndra laga. Sveitarstjórn er heimilt, með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. laganna, að kveða á um það að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Rangárþing ytra hefur ekki sett sér slíka samþykkt.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir að um sé að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Samkvæmt skýru orðalagi mannvirkjalaga og athugasemdum í lögskýringargögnum er endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var umsókn kæranda synjað á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 8. janúar 2018. Sú ákvörðun gat ekki bundið enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur þurfti að koma til sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa, en ákvörðun hans liggur ekki fyrir í málinu samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað.

Að teknu tillit til þess sem að framan er rakið er ljóst að ekki liggur fyrir lokaákvörðun í málinu, en kærandi verður þó ekki látinn bera hallann af því. Verður að svo komnu máli að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að tæpt ár er liðið frá kæru og enn liggur ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúans í Rangárþingi ytra í málinu verður lagt fyrir hann að taka erindi kæranda frá 27. desember 2017 til efnislegrar meðferðar án frekari tafa. Þegar ákvörðun byggingarfulltrúa vegna erindis kæranda liggur fyrir er sú ákvörðun hins vegar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. mannvirkjalaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Rangárþingi ytra að taka til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar umsókn kæranda frá 27. desember 2017 um leyfi fyrir breyttri notkun núverandi húsnæðis í þjónustubyggingu fyrir gistihús á lóðinni Rangárbakka 2 og um leyfi til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús.

89/2018 Heitloftsþurrkun á fiski í Garði

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2018, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 17. maí 2018 um að synja umsókn um endurnýjun starfsleyfis Nesfisks ehf. til heitloftsþurrkunar fiskafurða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Nesfiskur ehf., Gerðavegi 32, Garði, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 17. maí 2018 að synja umsókn kæranda um endurnýjun starfsleyfis hans til heitloftsþurrkunar fiskafurða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir heilbrigðisnefnd Suðurnesja að veita hið umbeðna tímabundna starfsleyfi.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála barst tölvupóstur af hálfu kæranda 2. nóvember 2018 þar sem fram kom að ákvörðun heilbrigðisnefndar hefði verið tekin upp og nefndin samþykkt tímabundið starfsleyfi honum til handa. Hagsmunir kæranda af kæru væru því fallnir niður og skyldi kæra í málinu teljast afturkölluð samhliða því að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja gæfi út umrætt starfsleyfi. Í samræmi við tilkynningu kæranda taldi úrskurðarnefndin málinu lokið.

Úrskurðarnefndinni barst tölvupóstur að nýju frá kæranda 11. desember 2018 þar sem fram kom að þrátt fyrir að heilbrigðisnefnd hefði ákveðið að veita skyldi starfsleyfið hefði Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ekki enn gefið það út og væri óvíst hvenær það yrði formlega gert. Afturköllun kæru hefði verið bundin því skilyrði að formlegt starfsleyfi yrði gefið út. Hygðist kærandi ekki afturkalla kæruna og óskaði hann þess að fá úrskurð í málinu sama hver framvindan yrði.

Úrskurðarnefndin fellst á að afturköllun kæranda hafi verið háð skilyrði sem ekki var uppfyllt þegar hann tilkynnti að hann hygðist halda kæru sinni til streitu. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurnesja 11. júlí og 17. desember 2018.

Málavextir: Forsaga máls þessa er sú að kærandi mun um langt skeið hafa starfrækt heitloftsþurrkun fiskafurða í Garði samkvæmt starfsleyfum frá heilbrigðisnefnd Suðurnesja. Var kæranda m.a. veitt starfsleyfi árið 2012 og var bókað af því tilefni á fundi heilbrigðisnefndar að leyfið væri veitt til eins árs til reynslu á mengunarvarnarbúnaði og skyldi starfsleyfið endurskoðað á tímabilinu reyndist hann ófullnægjandi. Starfsleyfið var endurnýjað til fjögurra ára á fundi heilbrigðisnefndar 6. maí 2013. Var þá bókað að nefndin ítrekaði að hún teldi að heitloftsþurrkun fiskafurða ætti ekki að vera nálægt íbúabyggð og hvetti hún fyrirtækið til að íhuga aðra staðsetningu, t.d. á Reykjanesi. Á fundi heilbrigðisnefndar 11. maí 2017 var starfsleyfi veitt til eins árs og var fært til bókar hvers efnis bókun nefndarinnar hefði verið við starfsleyfisveitinguna árið 2013. Var enn bókað að fyrirtækið hefði fundið starfseminni annan stað á Reykjanesi og myndi flytja þangað. Í ljósi þess væri fyrirtækinu veitt starfsleyfi til loka maí 2018, en ekki væri heimilt að halda úti starfsemi mánuðina júní, júlí og ágúst 2017. Nefnd ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Með umsókn, dags. 27. apríl 2018, óskaði kærandi eftir því að starfsleyfi hans yrði endurnýjað. Greinargerð hans barst heilbrigðisnefnd 14. maí s.á. og var þar tekið fram að sökum kvartana vegna lyktarmengunar hygðist kærandi ekki starfrækja þurrkklefa í Garði í júní, júlí og ágúst 2018 í þeirri von að með því næðist sátt um framlengingu starfsleyfisins til eins árs, en um mitt ár 2019 myndi starfsemin flytja. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, dags. 18. maí 2018, var kæranda tilkynnt að á fundi heilbrigðisnefndar degi áður hefði umsókn hans um endurnýjun starfsleyfis verið synjað. Var í bókun heilbrigðisnefndar tekið fram að í greinargerð með umsókn kæmi fram að ástæða hennar væri sú að ný verksmiðja á Reykjanesi yrði ekki tilbúin fyrr en um mitt ár 2019. Nefndin hefði áður framlengt starfsleyfi fyrirtækisins og við það tilefni bókað að hún teldi að heitloftsþurrkun ætti ekki að vera nálægt íbúabyggð og hvetti fyrirtækið til að íhuga aðra staðsetningu, t.d. á Reykjanesi. Starfsleyfið hefði verið framlengt að nýju þar sem fyrirtækið hefði fundið starfseminni stað á Reykjanesi. Starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hefðu ítrekað staðfest lyktarmengun frá verksmiðjunni, m.a. í nærliggjandi íbúðahverfi, auk þess sem fjölmargar kvartanir þess efnis hefðu borist frá íbúum í nálægum íbúðarhúsum. Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir væri heilbrigðisnefndum ætlað að standa vörð um heilnæm lífsskilyrði landsmanna og vernda þau gildi sem fælust í heilnæmu ómenguðu umhverfi. Teldi heilbrigðisnefndin forsendur brostnar fyrir áframhaldandi heitloftsþurrkun í verksmiðju kæranda og væri umsókn hans um endurnýjun starfsleyfis því hafnað.

Kærandi gerði athugasemdir við ákvörðun heilbrigðisnefndar með bréfi, dags. 31. maí 2018. Var tekið fram að kærandi hefði haft réttmætar væntingar til framlengingar starfsleyfis síns og að hann teldi að við synjun þess hefði ekki verið gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda var svarað með bréfi, dags. 15. júní s.á., og var því þar vísað á bug að ekki hefði verið gætt að stjórnsýslureglum við meðferð málsins, sbr. stjórnsýslulög, og ítrekað að niðurstaða heilbrigðisnefndar hefði verið að ekki væri unnt að tryggja íbúum í grennd við starfsstöð kæranda heilnæmt og ómengað umhverfi nema með því að synja kæranda um umsótt starfsleyfi. Hefur synjun heilbrigðisnefndar frá 17. maí 2018 verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Á fundi heilbrigðisnefndar 1. nóvember 2018 var tekin fyrir ósk kæranda um endurupptöku ákvörðunar nefndarinnar um synjun á tímabundnu starfsleyfi honum til handa til þurrkunar fiskafurða. Var bókað að umsókn kæranda, dags. 11. september s.á., hefði borist og að frekari skýringa hefði verið óskað. Frekari skýringar hefðu leitt í ljós að um beiðni um endurupptöku væri að ræða, sem byggðist aðallega á sjónarmiðum um jafnræði og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Einnig var bókað að nefndin hefði móttekið viðbót við erindið og frekari yfirlýsingar af hálfu kæranda þar sem fram kæmi að hann myndi nota óson í meira mæli og með reglulegri hætti en ráðgert hefði verið til þess að minnka lyktarmengun, eins og mögulegt væri. Hefði kærandi enn fremur lýst því yfir að fyrirtækið væri reiðubúið að skoða alla mögulega þætti er vörðuðu útloftun og dregið gætu úr lykt auk þess að leita allra leiða sem því væru tækar til úrbóta. Ekki yrði sótt um áframhaldandi leyfi fyrir vinnslu í Garði færi svo að fallist yrði á endurupptöku málsins og leyfi veitt til skamms tíma. Féllst heilbrigðisnefnd á endurupptöku málsins, með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem synjunin hefði falið í sér íþyngjandi ákvörðun gagnvart kæranda og ný sjónarmið hefðu komið fram. Væru skilyrði fyrir hendi til að veita kæranda tímabundið starfsleyfi til 31. maí 2019, en starfsleyfisveitingin væri bundin því skilyrði að aukið yrði við mengunarvarnir, s.s. fram hefði komið. Einnig væri það gagnkvæmur skilningur nefndarinnar og kæranda, sem og forsenda fyrir leyfisveitingu, að ekki yrðu veitt frekari starfsleyfi vegna starfseminnar þar sem hún væri nú staðsett í Garði.

Drög að starfsleyfisskilyrðum voru kynnt, m.a. á vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, hinn 9. nóvember 2018 með fresti til að gera athugasemdir til 12. desember s.á.

Á fundi heilbrigðisnefndar 12. desember 2018 var bókað að kæranda væri veitt starfsleyfi til 31. maí 2019 skv. reglugerð nr. 785/1999 um atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. verklagsreglur við auglýsingu nr. 582/2000 frá umhverfisráðuneytinu. Enn fremur að Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja væri falið að vinna starfsleyfisskilyrði fyrir kæranda á grundvelli þeirra draga sem auglýst hefðu verið á netsíðu embættisins. Nefndin legði áherslu á að starfsemi fyrirtækisins myndi ekki hefjast fyrr en heilbrigðiseftirlitið hefði með úttekt staðfest að mengunarvarnarbúnaður og vinnsluferlar væru í samræmi við starfsleyfisskilyrðin.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram í bréfi sínu, dags. 28. desember 2018, að umrætt starfsleyfi hafi enn ekki verið gefið út þrátt fyrir að heilbrigðisnefnd hafi á fundi sínum 12. s.m. ákveðið að það skyldi gert. Hvað sem afgreiðslu málsins líði nú, sem ekki sé útséð um, hafi kærandi ríka hagsmuni af því að fá efnislega úrlausn úrskurðarnefndarinnar í kærumálinu. Upphafleg afgreiðsla málsins og meðferð þess í kjölfarið hafi valdið kæranda umtalsverðu fjárhagstjóni sem hann muni sækja á þar til bæra aðila.

Hvað efni málsins varði hafi kærandi gætt að kröfum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settum samkvæmt þeim og hafi því borið að veita honum umsótt leyfi. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi hins vegar ekki gætt að meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, s.s. um meðalhóf, jafnræði, rannsókn máls og andmælarétt aðila.

Heilbrigðisnefnd hafi vísað til þess að heilbrigðisnefndum sé ætlað að standa vörð um heilnæm lífsskilyrði landsmanna og vernda þau gildi sem felist í ómenguðu umhverfi. Telji kærandi útilokað að þessi efnisgrundvöllur geti einn og sér talist fullnægjandi. Stutt sé í að ný verksmiðja verði tekin í gagnið af kæranda og hafi hann sömuleiðis bætt allan sinn búnað í núverandi starfsemi til að draga úr mengun. Hafi hann haft réttmætar væntingar til endurnýjunar leyfisins og málefnalegar ástæður búið að baki umsókn hans, en meðalhófs hafi ekki verið gætt. Ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra aðgerða sem kærandi hefði gripið til í þeim tilgangi að sporna við lyktarmengun. Jafnræðisreglan hafi ekki verið virt, en samþykkt hafi verið umsókn annars aðila til sömu starfsemi, sem einnig sé í grennd við íbúabyggð. Önnur sambærileg dæmi megi nefna. Ekki hafi verið gengið úr skugga um að mengun sú sem kvartað hafi verið yfir hafi raunverulega stafað frá starfsemi kæranda, sbr. rannsóknarregluna.

Málsrök heilbrigðisnefndar Suðurnesja: Af hálfu heilbrigðisnefndar er tekið fram að 12. desember 2018 hafi kæranda verið veitt tímabundið starfsleyfi að kynningarferli loknu. Eftir að nefndin hafi ákveðið að endurupptaka málið hafi þurft að vinna starfsleyfisskilyrði í samræmi við ákvæði þágildandi reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur hafti í för með sér mengun. Starfsleyfisskilyrði beri að auglýsa og veita almenningi frest til að gera athugasemdir við þau. Ekki sé hægt að víkja frá greindum málsmeðferðarreglum. Séu engin skilyrði til að hætta við afturköllun kæru vegna þess að farið hafi verið að lögum við meðferð umsóknar um starfsleyfi eða vegna þess að kæranda hafi á einhvern hátt komið á óvart að svo væri eða að málsmeðferð tæki þann tíma sem ákvæði laga og reglugerða mæli fyrir um. Kærandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og beri af þeirri ástæðu að fella málið niður eða vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Vegna synjunar á umsókn kæranda um starfsleyfi ítreki heilbrigðisnefnd að fjölmargar kvartanir hafi borist vegna ólyktar frá starfsemi kæranda, m.a. á árinu 2018. Í greinargerð kæranda með umsókn sinni hafi ekki verið vísað til áætlana hans um að beita nýjum aðferðum við mengunarvarnir heldur hafi verið viðurkennt að könnun hans á mögulegum mengunarvörnum hafi leitt í ljós að ekki væri unnt að koma í veg fyrir mengun. Umsókn hans hafi því verið synjað. Óumdeilt sé að mengun stafi frá starfseminni. Um starfsleyfisskylda starfsemi sé að ræða skv. 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en markmið þeirra laga sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. Kæranda hafi ekki geta dulist að forsendur hafi ekki verið fyrir frekari framlengingu starfsleyfis og gæti réttur hans ekki verið ríkari en réttindi t.a.m. íbúa í sveitarfélaginu til að búa sér og fjölskyldum sínum heilnæm lífsskilyrði og nýta eignir sínar.

Farið hafi verið að stjórnsýslureglum við meðferð málsins, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Kæranda hafi verið veittur réttur til að gera athugasemdir við ákvörðunina og koma að frekari gögnum og skýringum en ekkert hafi komið fram sem gefið hafi tilefni til að breyta hinni kærðu ákvörðun. Fyrir liggi að aðferð kæranda til að draga úr mengun hafi reynst ófullnægjandi, eins og kærandi hafi sjálfur viðurkennt, og sé það í samræmi við eftirlitsskýrslu heilbrigðiseftirlits frá júlí 2015, sem byggst hafi á skoðun á staðnum og aðstæðum. Þá hafi fjölmargar kvartanir borist vegna mengunar frá starfsemi kæranda og sé ekki fyrir hendi nein óvissa um að mengun stafi frá henni. Mengunin hafi verið staðfest í eftirlitsferðum heilbrigðiseftirlitsins auk þess sem kvartanir hafi borist þegar nærliggjandi fiskverkunarfyrirtæki hafi verið lokað. Það fyrirtæki hafi haft starfsleyfi til sama tíma og kærandi en aðstæður hjá öðru fyrirtæki sem kærandi hafi nefnt séu ólíkar. Séu m.a. staðhættir og staðsetning þessara fyrirtækja gagnvart íbúðarbyggð ekki sambærilegar, auk þess sem mikill munur sé á mengunarvarnarbúnaði þessara fyrirtækja. Meðalhófs hafi verið gætt, enda hafi kærandi ítrekað fengið starfsleyfi til skamms tíma. Honum hafi einnig verið gefið til kynna að starfsleyfi yrði ekki til langframa sökum mengunar sem frá starfsemi hans stafaði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar heilbrigðisnefndar Suðurnesja á umsókn kæranda um endurnýjun starfsleyfis. Fyrir liggur, svo sem áður er rakið, að sú ákvörðun hefur verið endurupptekin og hefur heilbrigðisnefndin nú samþykkt umsókn kæranda um starfsleyfi. Telur heilbrigðisnefnd að af þeim sökum hafi kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins og beri af þeim sökum að vísa því fá úrskurðarnefndinni. Kærandi heldur því hins vegar fram að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við ólögmæta meðferð málsins og kveðst hann muni sækja bætur vegna þess. Með hliðsjón af þeim rökum kæranda, og eins og atvikum er hér sérstaklega háttað, telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að leyfi hafi nú verið veitt þá hafi kærandi engu að síður lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti synjunar heilbrigðisnefndarinnar. Hins vegar einskorðast umfjöllun úrskurðarnefndarinnar við þá ákvörðun, enda hefur mögulegur ágreiningur aðila í kjölfar hennar ekki sætt kæru til nefndarinnar.

Samkvæmt 6. gr. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 7. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. nefndrar 7. gr. gefa heilbrigðisnefndir út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem m.a. er talinn upp í viðauka IV í lögunum, þ. á m. fyrir heitloftsþurrkun fiskafurða, sbr. lið 5.7. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Þegar umsókn kæranda um endurnýjun starfsleyfis var synjað voru starfsleyfi háð skilyrðum þágildandi reglugerðar nr. 785/1999 um atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum slíks atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Heilbrigðisnefnd er því ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Í 10. mgr. 3. gr. í nefndri reglugerð segir að mengun sé þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valdi óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun taki einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. Ber heilbrigðisnefnd þannig m.a. að líta til þess við ákvörðun um starfsleyfi að áhrif framangreindra þátta á umhverfið verði sem minnst. Að auki ber nefndinni að fara að þeim reglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Af gögnum málsins verður ráðið að allt frá árinu 2000 hafi í starfsleyfum fiskvinnslufyrirtækja, m.a. kæranda, gefnum út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, verið tiltekið það skilyrði að loftræstingu skuli þannig háttað að hún valdi ekki fólki í nærliggjandi húsakynnum eða vegfarendum óþægindum vegna lyktar, mengunar eða hávaða. Kemur og fram að kæranda var veitt starfsleyfi í maí 2012 til eins árs til reynslu á mengunarvarnarbúnaði og hefur sá búnaður, ósonbúnaður, verið í notkun frá hausti 2012. Í maí 2013 var kæranda veitt starfsleyfi til fjögurra ára og af því tilefni var tekið fram af heilbrigðisnefnd að hún teldi heitloftsþurrkun fiskafurða ekki eiga að vera nálægt íbúabyggð. Í ágúst sama ár var kæranda tilkynnt með bréfi að heilbrigðiseftirlitinu hefði borist kvörtun vegna ólyktar frá starfsemi hans og hefði embættið staðreynt það. Var tekið fram að á þeim tíma hefði fiskþurrkun ekki farið fram í annarri fiskverkun við sömu götu og starfsemi kæranda og var sú krafa gerð til hans að komið yrði í veg fyrir ólykt. Í júlímánuði 2015 var kæranda tilkynnt bréflega að kvartanir hefðu borist um nokkurra vikna skeið vegna ólyktar frá fiskverkunarfyrirtækjum í Garðinum. Hefði fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins kannað aðstæður vegna þessa 30. júní svo og 6., 8. og 10. júlí. Enga lykt hefði verið að finna frá starfsemi kæranda 30. júní, lykt hefði mátt finna 6. júlí og ólykt hefði fundist 8. og 10. júlí. Ítrekuð var sú krafa eftirlitsins að komið yrði í veg fyrir ólykt, bent á bókun heilbrigðisnefndar við starfsleyfisveitingu árið 2013 og tekið fram að einsýnt þætti nú að mengunarvarnarbúnaður sá sem notaður væri virkaði ekki sem skyldi. Var og tiltekið að vegna þessa myndi Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja leggja til við heilbrigðisnefnd að starfsleyfi kæranda yrði ekki framlengt á núverandi stað þegar það rynni úr gildi í maí 2017. Var kæranda veittur andmælaréttur vegna þessa en hann mun ekki hafa nýtt sér hann. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var kæranda allt að einu veitt starfsleyfi í eitt ár frá maí 2017, en bent á fyrri bókun og jafnframt tekið fram að í ljósi þess að kærandi hefði fundið starfsemi sinni annan stað væri leyfi veitt til eins árs, en starfsemin væri óheimil yfir sumarmánuðina 2017.

Í greinargerð í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs 2013-2030 er tekið fram að með skipulaginu sé gerð breyting á tegund atvinnusvæðanna í þéttbýli þannig að öll skilgreind iðnaðarsvæði verði að athafnasvæðum, enda eigi landnotkun athafnasvæða betur við þá starfsemi sem geti farið saman við íbúðarbyggð í þéttbýlinu. Innan eins athafnasvæðisins, AT7, er þó skilgreint iðnaðarsvæðið I4, þar sem starfstöð kæranda er staðsett, og er tekið fram um það svæði að áfram skuli unnið að mótvægisaðgerðum til að draga úr lyktarmengun þar. Í málinu liggja fyrir gögn sem sýna ítrekaðar kvartanir árin 2015-2018 vegna ólyktar frá starfsemi kæranda og annarrar fiskverkunar við sömu götu. Liggur og fyrir útdráttur úr dagbók heilbrigðiseftirlitsins vegna tímabilsins 2011 til síðla árs 2016 og kemur þar fram að í tugfjölda tilfella hafi lyktarmengun verið staðfest ýmist frá báðum fiskverkununum eða annarri hvorri þeirra. Báðar fiskverkanirnar héldu úti starfsemi til loka maí 2018 og eru kvartanir vegna lyktarmengunar allt til þess tíma. Ekki verður séð að staðreynt hafi verið af heilbrigðiseftirliti á árunum 2017 til 2018 frá hvorri fiskverkuninni mengunina hafi stafað hverju sinni, en nefndar kvartanir lutu ýmist almennt að fiskverkun við nefnda götu eða að ólykt frá starfsemi kæranda. Á það er hins vegar að líta að í greinargerð kæranda með umsókn um áframhaldandi starfsleyfi er því lýst að notast sé við óson sem dragi verulega úr lykt og bætt hafi verið við skolun á hráefni, auk þess sem nýtt og ferskt hráefni sé notað til þurrkunar. Þá hafi kærandi tekið þátt í rannsóknarverkefnum en þau ekki leitt í ljós neina leið sem gæti með fullkominni vissu útilokað alla lykt sem fylgdi starfseminni. Umsókn kæranda var fyrst og fremst reist á því að fyrirhugað húsnæði fyrir starfsemi hans væri ekki tilbúið án þess að lagðar væru til aðrar og frekari mótvægisaðgerðir eða uppsetning mengunarvarnarbúnaðar. Þó tók kærandi fram að starfsemi yrði ekki yfir sumarmánuðina árið 2018.

Umsækjandi um starfsleyfi fyrir starfsemi sem getur haft í för með sér mengun á ekki lögvarða kröfu á því að leyfi sé gefið út honum til handa. Í ákvörðun sinni vísaði heilbrigðisnefnd til þeirra sjónarmiða sinna sem áður hefðu komið fram að „heitloftsþurrkun fiskafurða eigi ekki að vera nálægt íbúabyggð.“ Að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðar nr. 785/1999 sem áður er lýst og þess að mengun tekur einnig til ólyktar verður að telja nefnd sjónarmið lögmæt. Var bæði kæranda og öðrum fiskverkanda við sömu götu synjað um starfsleyfi til heitloftsþurrkunar, en starfsleyfi þeirra beggja runnu út í maímánuði 2018. Að mati úrskurðarnefndarinnar lágu nægar upplýsingar fyrir heilbrigðisnefnd til að synja umsókn kæranda, enda lá ljóst fyrir að kærandi hafði átt í erfiðleikum með að koma í veg fyrir lyktarmengun frá starfsemi sinni og uppfylla þar með skilyrði fyrri starfsleyfa sinna. Þá verður umrædd ákvörðun talin byggjast á meðalhófi, enda hafði kæranda ítrekað áður verið veitt starfsleyfi svo hann gæti fundið starfsemi sinni heppilegri stað. Var hann og upplýstur um að möguleikar hans til áframhaldandi starfsemi í nágrenni við íbúðarbyggð væru takmarkaðir og bundnir við það að honum tækist að koma í veg fyrir lyktarmengun frá starfseminni. Loks var hvorugri fiskverkuninni á svæðinu veitt leyfi til áframhaldandi heitloftsþurrkunar og því ekki tæk þau rök kæranda að jafnræðis hafi ekki verið gætt, enda eru önnur þau tilvik er hann tiltekur ekki sambærileg, t.a.m. hvað varðar nálægð við íbúðarbyggð. Var málsmeðferð nefndarinnar og að öðru leyti í samræmi við lög.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir voru hvorki þeir form- né efnisgallar á hinni kærðu ákvörðun sem ógildi hennar geta valdið. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 17. maí 2018 um að synja umsókn Nesfisks ehf. um endurnýjun á starfsleyfi til heitloftsþurrkunar fiskafurða.

147/2018, 1 0g 2/2019 Vatnsendablettur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 24. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 147/2018 kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendi, svæðið milli vatns og vegar, að því er varðar Vatnsendabletti 730-739.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2018, er barst nefndinni 21. desember s.á., kæra tilgreindir íbúar við Vatnsenda, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendi, svæðið milli vatns og vegar, fyrir Vatnsendabletti 730-739. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að úrskurðarnefndin kveði upp bráðabirgðaúrskurð um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar og að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. janúar 2018, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra annars vegar Þorsteinn Sigmundsson, Elliðahvammi v/Vatnsenda, Kópavogi og hins vegar Karl Lárus Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested, erfingjar að 1/15 hluta dánarbús sem hefur á hendi beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda, einnig fyrrgreinda ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að úrskurðarnefndin kveði upp bráðabirgðaúrskurð um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar og að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar. Þar sem hin síðari kærumál, sem eru nr. 1 og 2/2019, varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verða þau sameinuð máli þessu.

Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Breyting á deiliskipulaginu Vatnsendi, svæðið milli vatns og vegar, var samþykkt fyrir Vatnsendabletti 730-739 af bæjarstjórn Kópavogs 25. september 2018. Í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 var breytingin send Skipulagsstofnun til athugasemda. Með bréfi, dags. 10. október 2018, tilkynnti Skipulagsstofnun Kópavogsbæ að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til efnis deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem ekki lægi fyrir umsögn heilbrigðiseftirlits vegna færslu byggingarreits nær alifuglaeldi á svæðinu. Jafnframt var bent á að rökstuðning vantaði fyrir deiliskipulagsbreytingunni í greinargerð líkt og gert væri að skilyrði í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Með bréfi skipulags- og byggingardeildar Kópavogsbæjar, dags. 6. nóvember 2018, var brugðist við athugasemdum Skipulagsstofnunar og 15. s.m. barst Kópavogsbæ bréf frá Skipulagsstofnun þar sem stofnunin gerði ekki frekari athugasemdir við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytinganna yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var slík auglýsing birt 28. nóvember 2018.

Kærendur gera þá kröfu að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar þar til mál þetta er til lykta leitt. Er m.a. skírskotað til þess að kærendur hafi brýna hagsmuni af því að nærumhverfi þeirra sé ekki raskað með óafturkræfum hætti meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Deiliskipulagsbreytingin feli í sér gjörbreytingu á uppbyggingu Vatnsendabletts, bæði hvað varði byggingarmagn, svipmót og eðli byggðar. Verði krafa kærenda ekki samþykkt sé hætt við að Kópavogsbær gefi út framkvæmdar- eða byggingarleyfi samkvæmt hinu breytta deiliskipulagi. Hagsmunir kærenda af því að réttaráhrifum verði frestað, sem leiðir m.a. til þess að Kópavogsbæ gefst ekki færi á að gefa út framkvæmdar- eða byggingarleyfi, vegi mun þyngra en hagsmunir Kópavogsbæjar, þar sem sú röskun á náttúrunni sem framkvæmdir hefðu í för með sér yrði óafturkræf. Hin kærða deiliskipulagsbreyting verði aldrei gerð nema að höfðu samráði og með samþykki eiganda beins eignarréttar að því landi sem breytingin nái til, þ.e. skiptastjóra og eftir atvikum erfingja dánarbúsins þess sem landið eigi. Þá geti byggingarnefnd Kópavogsbæjar ekki gefið út byggingarleyfi nema fyrir liggi samþykki eiganda jarðarinnar Elliðahvamms á Vatnsenda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendi, svæðið milli vatns og vegar, að því er varðar Vatnsendabletti 730-739. Sú ákvörðun felur ekki í sér heimild til þess að hefja framkvæmdir heldur þurfa að koma til sérstakar stjórnvaldsákvarðanir, t.a.m. um byggingarleyfi, sem kæranlegar eru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. III. kafla laga um mannvirki nr. 160/2010. Í kærumáli vegna slíkrar stjórnvaldsákvörðunar er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi ákvarðana sem veita ekki heimild til þess að framkvæmdir hefjist.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og hinnar kærðu ákvörðunar, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda frestun réttaráhrifa, enda veitir hin kærða ákvörðun ekki sjálfstæða heimild til þess að framkvæmdir hefjist.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

139/2018 Leirutangi

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 24. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 139/2018, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 26. október 2018 á umsókn um byggingarleyfi vegna Leirutanga 10.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2018, er barst nefndinni 5. s.m., kæra eigendur einbýlishúsanna nr. 2, 4, 6, 8, 12, 14, og 16 við Leirutanga í Mosfellsbæ „…ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 26. október 2018 um byggingarleyfi til eiganda hússins nr. 10 við Leirutanga…“ Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Umsókn eiganda hússins nr. 10 við Leirutanga um leyfi til að hækka þak á húsinu til samræmis við aðliggjandi hús og innrétta þar íbúðarrými var grenndarkynnt í tvígang fyrir kærendum sem eru eigendur fasteigna við sömu götu. Umsóknin var grenndarkynnt 12. mars 2018 og að nýju 25. júní s.á. Með bréfi, dags. 25. júlí 2018, mótmæltu kærendur því að veitt yrði byggingarleyfi fyrir þeirri framkvæmd við Leirutanga 10 sem grenndarkynningin laut að.

Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 26. október 2018 var m.a. bókað að samþykkt væri að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hefðu borist. Var vísað til minnisblaðs lögmanns sveitarfélagsins, dags. 24. s.m., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að stefna skyldi að útgáfu byggingarleyfis til handa umsækjanda.

Kærendur halda því fram að ákvörðun skipulagsnefndar bæjarins sé röng og ekki í samræmi við lög og reglur. Þá gera kærendur athugasemdir við málsmeðferð bæjarins, en ekki hafi verið tekið tillit til ítarlegra og rökstuddra athugasemda þeirra og sjónarmiða.

Kærendur hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar.

Með tölvupósti 18. janúar 2019 fór úrskurðarnefndin þess á leit við byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar að hann upplýsti hvort byggingaráform hefðu verið samþykkt, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Svar byggingarfulltrúa barst samdægurs og var þess efnis að byggingaráform hefðu ekki verið samþykkt. Umsókn um byggingarleyfi, ásamt hönnunargögnum, lægi fyrir og væri til yfirferðar hjá byggingarfulltrúa.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.

Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, en þá skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er tiltekið í lagagreininni að þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr sömu laga. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki sem eru rakin hér að framan.

Samkvæmt því sem að framan greinir var hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar frá 26. október 2018 ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá liggur ákvörðun byggingarfulltrúa ekki fyrir í málinu, eins og áður greinir. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í máli þessu verður ekki hjá því komist að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Þó þykir rétt að benda á að samþykki byggingarfulltrúi byggingaráformin er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku þá í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

108/2017 Hvannalundur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 6. september 2017 um að synja beiðni um að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóð nr. 8 við Hvannalund í Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigendur lóðar nr. 10 við Hvannalund, Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 6. september 2017 að synja beiðni um að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóðinni að Hvannalundi 8. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að hlutast til um að umrætt mannvirki verði fjarlægt eða fært til þannig að það sé að lágmarki 10 m frá lóðamörkum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 13. október 2017.

Málavextir: Forsaga máls þessa er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 17. apríl 2015, í máli nr. 71/2011, var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni nr. 8 við Hvannalund. Var sú niðurstaða á því reist að samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016 og með vísan til þágildandi gr. 4.22.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 væri ekki heimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar. Jafnframt var tekið fram í úrskurðinum að ekki væri tekin afstaða til kröfu kærenda um að hin umdeilda bygging yrði fjarlægð, enda félli ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða ekki undir valdheimildir úrskurðarnefndarinnar.

Með tölvupóstum til sveitarfélagsins 25. maí og 13. júní 2015 óskuðu kærendur máls þessa, er staðið höfðu að fyrrgreindu málsskoti, svara við því hvort til stæði að færa eða fjarlægja umrætt hús frá lóðarmörkum. Var erindi þeirra tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar í mars 2016 og á fundi sveitarstjórnar 7. apríl s.á. og því hafnað. Skutu kærendur ákvörðun sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar, sem að með úrskurði uppkveðnum 24. nóvember 2016, í máli nr. 41/2016, vísaði kærumálinu frá. Taldi nefndin að ekki lægi fyrir ákvörðun sem borin yrði undir úrskurðarnefndina, enda væri það á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis.

Í framhaldi af því mun hafa verið reynt að finna lausn á málinu en það ekki gengið eftir. Tók sveitarfélagið málið fyrir að nýju og leitaði sjónarmiða aðila málsins. Með bréfum, dags. 13. mars og 24. júlí 2017, ítrekuðu kærendur kröfu sína og komu lóðarhafar Hvannalundar 8 að andmælum sínum með bréfi, dags. 31. ágúst s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. september 2017 var hafnað þeirri kröfu kærenda að byggingarfulltrúi myndi hlutast til um að láta fjarlægja stækkun sumarhússins að Hvannalundi 8 eða færa húsið 10 m frá lóðarmörkum. Nánari rökstuðningur fyrir synjun byggingarfulltrúa var sendur kærendum með bréfi, dags. 7. september s.m. Kom þar fram að stærð og hæð hússins hafi verið talin innan þeirra marka sem almennt teldist hóflegt á þessu svæði auk þess sem byggingarmagn á lóðarmörkum væri óbreytt. Í öndverðu hafi ekki verið um óleyfisframkvæmd að ræða. Byggingarfulltrúi hefði kynnt sér öll gögn málsins og sjónarmið beggja aðila og hagsmunir þeirra verið metnir. Horft hefði verið til meðalhófs og jafnræðis og hefðu hvorki verið efnisrök né hagsmunir fyrir því að fjarlægja stækkun hússins eða færa það. Hefur synjun byggingarfulltrúa verið kærð, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: 
Kærendur benda á að ákvæði um niðurrif óleyfisframkvæmdar í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé heimildarákvæði en beiting slíkrar heimildar sé undirorpin frjálsu mati stjórnvalda. Ákvarðanir sem stjórnvald taki á grundvelli ákvæðisins verði að fela í sér hagsmunamat. Þurfi málefnaleg sjónarmið að liggja til grundvallar ákvörðun og fara þurfi að stjórnsýslulögum.

Af dómum Hæstaréttar megi ráða að þau sjónarmið sem mestu skipti við umrætt mat séu meðalhóf, huglæg afstaða eiganda mannvirkis, réttmætar væntingar og fjárhagsleg sjónarmið. Slíkt hagsmunamat hafi ekki farið fram af hálfu sveitarfélagsins í máli þessu. Fyrir liggi að framkvæmdir við viðbyggingu hússins að Hvannalundi 8 hafi hafist án tilskilinna leyfa. Hafi kærendur gert alvarlegar athugasemdir við þetta og farið fram á stöðvun framkvæmda. Jafnframt hafi verið farið fram á að það sem reist hefði verið í óleyfi yrði tekið niður þar til grenndarkynningu væri lokið og búið að gefa út löggilt byggingarleyfi. Kærendur hafi komið að athugasemdum við grenndarkynningu m.a. varðandi byggingarmagn við lóðamörk Hvannalundar 8 og 10. Hafi skipulagsnefnd samþykkt á fundi sínum í júlí 2011 að fara þess á leit við lóðarhafa að auka ekki við byggingarmagn þar heldur byggja inn á lóðina, en lóðarhafar hafi ekki fylgt því. Byggingin sé því mun lengri við lóðamörk og að auki hærri og stærri en samþykkt hafi verið. Þá hafi sveitarfélagið og eigendur Hvannalundar 8 verið grandsamir um að ekki væri heimilt að gefa út byggingarleyfi vegna ákvæða í aðalskipulagi Bláskógabyggðar.

Við fyrrgreint hagsmunamat verði að taka mið af því að eigendur Hvannalundar 8 hafi allan tímann verið í vondri trú um að leyfi væri fyrir framkvæmdunum. Þrátt fyrir það hafi þeim verið haldið áfram í bága við athugasemdir kærenda. Eign kærenda að Hvannalundi 10 sé ósöluhæf vegna umræddrar viðbyggingar. Ekki sé hægt að gera kærendum að bera það tjón, einkum í ljósi grandsemi eigenda hússins og athafnaleysis sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hunsi úrskurði úrskurðarnefndar og haldi áfram að valta yfir réttindi kærenda, en með bréfi byggingarfulltrúa til eigenda Hvannalundar 8, dags. 11. september 2017, hafi þeir verið hvattir til að sækja um byggingarleyfi fyrir umræddri stækkun.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Hvorki séu efnisrök né hagsmunir fyrir því að fallast á kröfur þeirra. Í 2. mgr. 56. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi verið mælt fyrir um skyldu byggingarfulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Við setningu laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi ákvæðinu verið breytt á þann hátt að nú sé um heimildarákvæði að ræða. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til mannvirkjalaga sé tekið fram að eðlilegt sé að þetta sé metið í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Geti kærendur ekki knúið byggingaryfirvöld til að beita umræddu þvingunarúrræði enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína.

Upphaflega hafi ekki verið um óleyfisframkvæmd að ræða, en byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi vegna formannmarka. Síðan þá hafi deiliskipulag fyrir umrætt svæði tekið gildi og búið sé að fella burt ákvæði úr aðalskipulagi þess efnis að deiliskipulag sé ávallt forsenda byggingarleyfis. Við afgreiðslu málsins hafi sveitarfélagið kynnt sér öll gögn þess. Sjónarmið og hagsmunir aðila hafi verið vegnir saman. Höfð hafi verið hliðsjón af atriðum er varði húsið sjálft og litið til skipulagssjónarmiða. Sé það mat sveitarfélagsins að ekki stafi hætta af umræddu húsi. Við ákvörðunartökuna hafi að auki verið haft í huga meðalhóf og jafnræði. Sé því mótmælt sem röngu og órökstuddu að kærendur hafi ekki getað selt hús sitt að Hvannalundi 10 vegna hinnar umdeildu viðbyggingar.

Athugasemdir leyfishafa: Sjónarmið leyfishafa eru á sömu lund og sveitarfélagsins. Bent sé á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki fellt ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi frá 13. september 2011 úr gildi vegna þeirra sjónarmiða sem kærendur hafi sett fram um stærð eða hæð hússins. Hagsmunir leyfishafa af því að endurbætur sumarhússins, sem unnar hafi verið eftir samþykkt byggingarfulltrúa, fái að standa gangi framar hagsmunum kærenda. Hafi matskennd ákvörðun byggingarfulltrúa um að neyta ekki heimildar mannvirkjalaga um niðurrif verið studd viðhlítandi rökum. Þá beri að líta til almennra reglna stjórnsýsluréttar og sérstaklega til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Lóðirnar nr. 8  og 10 við Hvannalund eru í frístundabyggð við Þingvallavatn. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru á lóðinni Hvannalundi 8 sumarbústaður og geymsla byggð á árinu 1984. Eftir framkvæmdir við endurbætur og stækkun bústaðarins, sem fram munu hafa farið á árinu 2011, mun stærð hans vera um 60 m². Kröfugerð kærenda í máli þessu lýtur að hluta til að því að úrskurðarnefndin hlutist til um að nefndur sumarbústaður verði færður innan lóðar eða fjarlægður. Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar, í þessu tilfelli synjun byggingarfulltrúa á að beita þvingunarúrræðum, en úrskurðarnefndin tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða í máli þessu til greindra krafna kærenda.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Er ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis háð mati stjórnvalds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. laganna í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þess sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Gefur umrætt ákvæði sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Fyrir liggur að samþykkt byggingarfulltrúa fyrir stækkun hússins að Hvannalundi 8 var felld úr gildi þar sem ekki var heimilt að samþykkja byggingarleyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar, m.a. með vísan til ákvæða í aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Á því fullyrðing sveitarfélagsins, um að í öndverðu hafi ekki verið um óleyfisframkvæmd að ræða, ekki við rök að styðjast, enda stóðu ákvæði aðalskipulags í vegi fyrir því að samþykkt yrði byggingarleyfi fyrir henni. Hins vegar verður til þess að líta að þegar hin kærða ákvörðun var tekin 6. september 2017 hafði  tekið gildi breyting á aðalskipulaginu þar sem fellt var niður fyrrgreint ákvæði um að ekki mætti gefa út byggingarleyfi á núverandi frístundabyggðarsvæðum í Þingvallasveit nema á grundvelli deiliskipulags. Þá tók gildi nokkru fyrr, eða 29. maí 2017, deiliskipulag fyrir frístundabyggðina Veiðilund í landi Miðfells, en Hvannalundur 8 er á því skipulagssvæði. Hafa atvik því breyst að þessu leyti frá því að hið umdeilda byggingarleyfi var fellt úr gildi. Samkvæmt skilmálum fyrrnefnds deiliskipulags skal aðeins reisa eitt sumarhús á hverri lóð en að auki er heimilt að byggja eitt aukahús. Mega hús vera allt að 100 m² að stærð en aukahús allt að 30 m². Mesta hæð húss með mæni skal ekki vera meiri en 5,5 m frá jörðu en 4 m ef þak er slétt. Hús skal vera á einni hæð, en þó má vera svefnloft yfir hluta af húsi. Jafnframt er tekið fram að þar sem nú þegar séu hús sem byggð séu nær lóðarmörkum en 10 m þá skuli þeim ekki breytt. Eins og áður er fram komið er húsið að Hvannalundi 8 um 60 m² að flatarmáli. Þrátt fyrir að um verulega stækkun hússins sé að ræða samkvæmt framlögðum teikningum, samþykktum 13. september 2011, fer húsið ekki í bága við ofangreinda skilmála hvað stærð og hæð þess varðar. Voru því ekki fyrir hendi skipulagsrök fyrir beitingu umbeðinna þvingunarúrræða.

Ekki verður annað ráðið, m.a. af þeim upplýsingum sem liggja fyrir frá skipulags- og byggingarfulltrúa, en að fjarlægð á milli húsanna að Hvannalundi 8 og 10 sé um 10 m. Í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um bil á milli bygginga í gr. 9.7.5. Er meginreglan sú að bil milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra og í töflu 9.09 í ákvæðinu eru tilteknar lágmarksfjarlægðir á milli bygginga, minnst 0 m og mest 8 m, miðað við brunamótstöðu. Verður þannig ekki séð að hætta hafi stafað af umræddu mannvirki og tók mat og rökstuðningur byggingarfulltrúa réttilega mið af því.

Byggingarfulltrúi tiltók einnig í rökstuðningi sínum að horft hefði verið til röskunar á hagsmunum kærenda, eigenda Hvannalundar 10, og til hagsmuna eigenda hússins Hvannalundar 8 svo og íþyngjandi áhrifa fyrir þá kæmi til umbeðinna þvingunarúrræða. Mænishæð sumarhússins mun áður hafa verið 3,1 m frá gólfi en mun nú vera 4,67 m með svefnlofti. Ljóst er að eftir endurbætur og stækkun er húsið miklu mun hærra en áður, auk þess sem gluggasetning er breytt. Eru þessar breytingar til þess fallnar að hafa allnokkur áhrif á grenndarhagsmuni kærenda. Var það mat byggingarfulltrúa að þeir hagsmunir skyldu víkja fyrir hagsmunum eigenda Hvannalundar 8 af því að hús þeirra yrði ekki fjarlægt eða fært, en ljóst er að af því myndi hljótast töluvert fjárhagslegt tjón. Við matskenndar ákvarðanir svo sem hér um ræðir hafa stjórnvöld alla jafna nokkuð svigrúm. Er og til þess að líta að þvingunarúrræðum mannvirkjalaga verður, svo sem áður segir, fyrst og fremst beitt til gæslu almannahagsmuna en ekki til verndar eignarréttarlegum hagsmunum aðila, sem þeim eru tryggð önnur réttarúrræði vegna, s.s. að leita til dómstóla. Að þessu virtu, og þar sem beiting þessara úrræða telst íþyngjandi í garð eigenda Hvannalundar 8, verður framangreindu mati byggingarfulltrúa ekki hnekkt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 6. september 2017 um að synja beiðni um að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóðinni að Hvannalundi 8.

158/2017 Egilsgata

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 158/2017, kæra á afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni kæranda um afhendingu gagna. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. september 2018, er barst nefndinni 27. s.m., óskaði Borgarbyggð þess að mál nr. 158/2017 yrði endurupptekið, en úrskurður í því var kveðinn upp 21. september 2018. Þar var til úrlausnar kæra Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, á afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni félagsins um afhendingu gagna sem honum hefði verið kynnt með bréfi, dags. 4. desember 2017. Var þess krafist að úrskurðarnefndin tæki málið til efnislegrar meðferðar og gerði sveitarfélaginu að afhenda umbeðin gögn á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að eftir að ákvörðun hefur verið tilkynnt aðila máls eigi hann rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Sveitarfélagið hefur ekki aðilastöðu í málinu og getur því ekki stutt endurupptökubeiðni sína með vísan til framangreinds ákvæðis. Hins vegar hefur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, líkt og stjórnvöld almennt, lögfesta heimild til afturköllunar að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila, sbr. 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga.

Í greinargerð sveitarfélagsins, dags. 15. febrúar 2018 í kærumáli nr. 158/2017 sagði að erindi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 10. október 2017, þar sem óskað hefði verið tiltekinna gagna, hefði ekki enn verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. Með bréfi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar frá 25. september 2018 þar sem fram kemur að erindi kæranda frá 10. október 2017 hafi verið svarað með bréfi, dags. 31. s.m., hefur verið leitt í ljós að úrskurður í máli þessu byggði ranglega á því að erindinu hefði ekki verið svarað. Kærandi hefur einn aðilastöðu í málinu og í ljósi þess að hann telur svar sveitarfélagsins vera ófullnægjandi verður ekki séð að afturköllun úrskurðarins myndi vera til tjóns fyrir hann. Telur úrskurðarnefndin því rétt á grundvelli 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga að afturkalla úrskurð sinn sem kveðinn var upp 21. september 2018 í kærumáli nr. 158/2017 og verður málið nú tekið til úrskurðar að nýju.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 21. febrúar 2018 og viðbótargögn 25. september s.á.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur þrívegis lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna leyfisveitinga Borgarbyggðar fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með uppkvaðningu úrskurðar 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæðinu á lóð nr. 6 við Egilsgötu og með úrskurði uppkveðnum 9. nóvember 2016 var vísað frá kröfum kæranda, sem einnig er kærandi þessa máls, en kröfur hans beindust að breyttri notkun húss að Egilsgötu 6 úr íbúð í gistiheimili. Var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um frávísun á því reist að ekki lægi fyrir lokaákvörðun sveitarfélagsins um breytta notkun, auk þess sem leyfi til rekstrar gistiheimilis væri ekki kæranlegt til nefndarinnar. Loks hefur kærandi kært ákvörðun byggingarfulltrúa að samþykkja endurnýjaða byggingarleyfisumsókn fyrir þremur stúdíóíbúðum á neðri hæð og breytingu á efri hæð hússins að Egilsgötu 6 í Borgarnesi. Er það kærumál nr. 93/2017 og var úrskurður í því kveðinn upp 21. september 2018.

Með bréfi til Borgarbyggðar, dags. 6. nóvember 2016, vísaði kærandi til fyrri samskipta við sveitarfélagið vegna beiðna sinna um afhendingu gagna. Ítrekaði kærandi í bréfinu beiðni sína um aðgang að nánar tilgreindum gögnum sem talin voru upp í bréfi hans. Erindið var tekið fyrir á fundi byggðarráðs 17. s.m. og var sveitarstjóra falið að svara því. Í svarbréfi sveitarstjóra, dags. 13. desember s.á., er vísað til beiðni kæranda um öll þau mál sem skráð hefðu verið hjá sveitarfélaginu frá 1. janúar 2010 til 1. nóvember 2016 vegna erinda kæranda. Í bréfi sveitarstjóra voru rakin svör við þeim liðum sem fram komu í erindi kæranda frá 6. nóvember 2016. Kom þar fram hvaða gögn hefðu þegar verið afhent og hvaða erindi væru í vinnslu hjá skipulags- og byggingarfulltrúa. Einnig kom fram að tilgreind erindi til skipulags- og byggingarfulltrúa, sem nú hefði látið af störfum, hefðu ekki verið skráð hjá sveitarfélaginu og væri því ekki hægt að bregðast við þeim en kæranda væri bent á þann möguleika að endursenda erindin til sveitarfélagsins. Í bréfinu var enn fremur hafnað beiðni kæranda um afhendingu gagna um samskipti og samninga sveitarfélagsins við nánar tilgreinda lögmannsstofu og vísað til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Jafnframt var í bréfinu upplýst um bókun byggðarráðs um þjónustu lögmannsstofunnar. Loks var, með vísan til einkahagsmuna, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, svo og umfangs beiðnarinnar, sbr. 15. gr. sömu laga, hafnað beiðni kæranda um afrit af öllum tölvubréfum og bréflegum samskiptum frá 2013 til og með 2016 og þá sérstaklega frá 24. september 2015 til 1. nóvember 2016, á milli sveitarfélagsins og forráðamanna gistihúss þess sem rekið er í næsta húsi við kæranda. Leiðbeint var um að synjun um afhendingu gagna væri kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Kærandi brást við bréfi sveitarstjóra með bréfi til byggðarráðs, dags. 11. janúar 2017, þar sem fram kom „Kvörtun – endurupptaka“  og var þess m.a. beiðst að ráðið hlutaðist til um að umbeðin gögn yrðu afhent kæranda á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Erindið var tekið fyrir á fundi byggðarráðs 26. s.m. og var afgreiðslu þess frestað en sveitarstjóra falið að undirbúa svar. Formaður byggðarráðs svaraði svo með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, þar sem tekið var undir sjónarmið þau sem fram komu í bréfi sveitarstjóra frá 13. desember 2016. Með bréfi, dags. 18. apríl 2017, benti kærandi á að ekki væri að sjá af fundargerðum byggðarráðs að ráðið hefði samþykkt svör formannsins eða falið honum að svara kæranda og setti hann fram þá kröfu að byggðarráð afgreiddi erindi hans. Ítrekaði kærandi erindi sitt bréflega í júní og júlí s.á.

Með bréfi, dags. 10. október 2017, fór kærandi að nýju fram á afrit allra bréfa og tölvupósta, sem og upplýsingar um öll skráð samskipti sveitarfélagsins við eigendur áðurnefnds gistihúss, frá ársbyrjun 2013 til október 2017. Jafnframt var farið fram á afhendingu sambærilegra upplýsinga sem tengdust samskiptum sveitarfélagsins við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vegna kæru á rekstrarleyfi gistihússins. Var beiðni kæranda svarað með bréfi, dags. 31. október 2017, þar sem upp voru talin gögn í átta tölusettum liðum sem vörðuðu samskipti sveitarfélagsins við forráðamenn gistihússins. Fylgdi afrit gagnanna svarbréfinu til kæranda.

Með bréfi sveitarstjóra, dags. 4. desember 2017, var kærandi upplýstur um að þegar bréf hans, dags. 11. janúar s.á., hefði borist hefði sveitarstjóra verið falið að útbúa svarbréf, sbr. bókun þar um í fundargerð byggðarráðs frá 26. janúar 2017. Það hefði verið gert og slíkt bréf lagt fyrir formann byggðarráðs til yfirferðar. Hann hafi síðan sent bréfið í samræmi við nefnda samþykkt. Til að taka af allan vafa hafi byggðarráð ákveðið að bóka sérstaklega um afgreiðsluna á fundi sínum 23. nóvember s.á. Hefði ráðið þá tekið fyrir erindi kæranda frá 11. janúar 2017 og verið bókað að byggðarráð tæki fram að gefnu tilefni að þau sjónarmið sem kæmu fram í bréfi formanns byggðarráðs frá 2. febrúar 2017 nytu stuðnings byggðarráðs. Kom og fram í bréfi sveitarstjóra 4. desember 2017 að bréf hans væri ritað í framhaldi af og til staðfestingar á nefndri afgreiðslu ráðsins. Væru fyrri svör til kæranda ítrekuð.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi ítrekað beðið um aðgang að gögnum, m.a. ljósritum af tölvusamskiptum sveitarfélagsins við eiganda gistihúss í næsta húsi við kæranda, á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi kærandi rökstutt að um stjórnsýslumál væri að ræða en því hafi verið hafnað og honum verið tilkynnt að málsmeðferð beiðnar hans færi að ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi hafi farið fram á umrædd gögn þar sem þau séu hluti af stjórnsýslumáli og hafi m.a. verið fyrirhugað að senda þau með kærum sem hafi verið til meðferðar og sem nú séu til meðferðar fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ástæða sé til að ætla að umræddir tölvupóstar geti varpað frekara ljósi á málið og haft áhrif á úrlausn þess.

Í athugasemdum sínum við beiðni sveitarfélagsins um endurupptöku úrskurðarins segir kærandi að viðbrögð sveitarfélagsins í bréfi, dags. 31. október 2017, hafi ekki verið fullægjandi svar við beiðni hans um gögn frá 10. s.m. Til dæmis hafi vantað afrit allra samskipta forráðamanna hins umdeilda gistihúss við fyrrverandi byggingarfulltrúa sveitarfélagsins fyrir og eftir að úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir Egilsgötu 6, sem og við aðra skipulags- og byggingarfulltrúa og sveitarstjóra sem hafi starfað fyrir sveitarfélagið umrætt tímabil. Þá hafi vantað öll gögn er varði úttektir byggingarfulltrúa umrætt tímabil vegna Egilsgötu 6 allt frá árinu 2013 auk fleiri gagna tengdum framkvæmdum og leyfisveitingum, ef farið hafi verið að lögum og reglugerðum við afgreiðslu mála.

Málsrök Borgarbyggðar:
 Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að kæra í málinu sé óskýr og sé framsetning hennar með þeim hætti að óljóst sé hvaða gögn það séu nákvæmlega sem kærandi krefjist afhendingar á sem ekki hafi verið afhent honum nú þegar. Vísað sé til erinda sem enn hafi ekki verið svarað af hálfu sveitarfélagsins og liggi því ekki fyrir endanleg stjórnvaldsákvörðun þar um. Kærandi hafi sent sveitarfélaginu fjölda bréfa í gegnum tíðina, en tilefni þeirra hafi verið misjafnt. Kærandi skýri það ekki frekar og því geti úrskurðarnefndin varla tekið afstöðu til þess á hvaða grundvelli sé verið að krefjast gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá málið tekið fyrir hjá nefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kæranda hafi með bréfi sveitarstjóra, dags. 13. desember 2016, verið leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hann hafi ekki sinnt því heldur kvartað til byggðarráðs sveitarfélagsins og síðar umboðsmanns Alþingis. Afstaða sveitarfélagsins hafi verið óbreytt allt frá 13. desember 2016. Hafi því verið liðið meira en ár frá því að kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna kröfu hans um aðgang að gögnum þar til kæra hafi borist úrskurðarnefndinni. Sé því dregið í efa að kæran hafi komið fram innan lögákveðinna tímamarka.

Athygli úrskurðanefndarinnar sé jafnframt vakin á því að kærandi hafi sent samhljóða kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en sveitarfélagið telji kæranda ekki geta lögum samkvæmt verið með sama ágreiningsefnið til úrlausnar fyrir tveimur kærunefndum í einu.

Hvað efni málsins varði ítreki sveitarfélagið að synjað hafi verið um afhendingu gagna er vörðuðu samskipti þess við forráðamenn gistiheimilis á næstu lóð við kæranda. Hefði það verið gert með vísan til 9. og 15. gr. upplýsingalaga, en þar sé annars vegar vísað til takmörkunar á rétti til upplýsinga vegna einkahagsmuna einstaklinga og hins vegar ef umfang umbeðinna gagna sé slíkt að ekki teljist fært af þeim sökum að verða við beiðninni. Heimfæra megi þessi sjónarmið undir ákvæði stjórnsýslulaga telji úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að sér beri að afgreiða kærumálið. Sé vísað til sömu lagaákvæða vegna synjunar sveitarfélagsins á beiðni kæranda um afhendingu gagna varðandi samskipti og samninga þess við tilgreinda lögmannsstofu.

Í bréfi sveitarfélagsins, dags. 25. september 2018, kemur fram að umbeðin gögn hafi verið send kæranda í pósti þann 31. október 2017 eða þremur vikum eftir að beiðni um fyrrgreind gögn hafi borist sveitarfélaginu. Þau séu tilgreind í svarbréfinu í átta tölusettum liðum. Gögnin séu frá árunum 2013-2017. Gögn hafi verið póstlögð á sama hátt og öll bréf með tilheyrandi gögnum sem hafi verið send af hálfu sveitarfélagsins til kæranda á undanförnum árum. Þess skuli þó getið að þau hafi ekki verið send með ábyrgðarpósti. Í ljósi framangreinds sé þess farið á leit við úrskurðarnefndina að úrskurður hennar í máli nr. 158/2017 vegna kvörtunar um að erindi kæranda frá 10. október 2017 hafi ekki verið svarað verði tekinn til endurskoðunar og niðurstaðan birt á jafn áberandi hátt og úrskurður nefndarinnar í málinu frá 21. september 2017.

Niðurstaða: Af gögnum málsins verður ráðið að í máli þessu sé deilt um synjun á afhendingu gagna sem varða samskipti Borgarbyggðar við aðila í næsta húsi við kæranda. Í því húsi er nú rekið gistiheimili og hefur kærandi átt aðild að þremur málum fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna leyfisveitinga tengdu því, svo sem nánar kemur fram í málavaxtalýsingu. Heldur kærandi því fram að sem aðila máls beri að afhenda honum gögnin á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af hálfu sveitarfélagsins hefur honum verið leiðbeint um að upplýsingalög nr. 140/2012 gildi þar um.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Er tekið fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum að regla þessi sé forsenda þess að málsaðili geti tjáð sig um málefni svo fullt gagn sé að. Í almennum athugasemdum í nefndu frumvarpi er tekið fram: „Hugtakið „aðili máls“ kemur fyrir á nokkrum stöðum í frumvarpinu og ber að skýra það rúmt þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli, svo sem umsækjendur um byggingarleyfi eða opinbert starf, heldur geti einnig fallið undir það þeir sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágrannar eða meðumsækjendur um starf. Ómögulegt er hins vegar að gefa ítarlegar leiðbeiningar um það hvenær maður telst aðili máls og hvenær ekki, heldur ræðst það af málsatvikum hverju sinni. Það sem ræður úrslitum í því efni er það hvort maður teljist hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, en það ræðst m.a. af því um hvaða svið stjórnsýslunnar er að ræða.“

Ákvarðanir þær sem kærandi hefur kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eru til komnar vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á umsóknum um byggingarleyfi vegna húss á næstu lóð við kæranda. Þegar sótt er um byggingarleyfi til sveitarfélags er almennt sá einn aðili málsins sem sækir um leyfið. Hins vegar er ljóst að veiting byggingarleyfis getur snert lögvarða hagsmuni annarra aðila, einkum nágranna, og hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli að málum fyrir úrskurðarnefndinni vegna ákvarðana um slíkar leyfisveitingar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í nefndri lagagrein er kæruréttur til úrskurðarnefndarinnar bundinn við lögvarða hagsmuni rétt eins og almennt er gerð krafa um í stjórnsýslurétti og vísað er til í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja kæranda einnig aðila máls á sveitarstjórnarstigi í skilningi 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga og á hann þar með rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varða þær þrjár afgreiðslur sem síðar var skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Af gögnum málsins er ljóst að upphafleg krafa kæranda um gögn var afgreidd á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, en hann gerði aftur kröfu um afhendingu gagna á grundvelli stjórnsýslulaga í bréfi sínu 6. nóvember 2016. Þeirri kröfu var synjað af sveitarstjóra með bréfi, dags. 13. desember s.á., og var enn vísað til upplýsingalaga. Því mótmælti kærandi með bréfi, dags. 11. janúar 2017, og var því svarað af formanni byggðaráðs með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, þar sem tekið var undir sjónarmið sveitarstjóra. Verður að líta svo á að í bréfi kæranda hafi falist endurupptökubeiðni samkvæmt yfirskrift þess og að henni hafi verið hafnað með bréfi formannsins. Þegar kæra barst til úrskurðarnefndarinnar 28. desember 2017 var kærufrestur bæði vegna efnislegrar afgreiðslu sveitarstjórans og synjunar formanns byggðaráðs á endurupptöku málsins löngu liðinn, en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Eðli máls samkvæmt hlýtur það stjórnvald sem er bært til að leysa úr máli og hefur umráð skjals almennt að vera það stjórnvald sem ákveður hvort veita eigi aðgang að upplýsingum. Í þeim málum sem kærandi hefur átt aðild að fyrir úrskurðarnefndinni hefur verið um að ræða leyfi sem byggingarfulltrúi veitir. Af svari sveitarstjóra frá 13. desember 2016 verður hins vegar ekki annað ráðið en að hann hafi haft umráð þeirra upplýsinga sem efnislegt svar hans laut að. Bar kæranda þá þegar, eða í öllu falli þegar endurupptökubeiðni hans var synjað, að hefjast handa við kæru án ástæðulauss dráttar. Þess í stað kaus hann að ítreka endurtekið erindi sem þegar hafði fengið efnislega afgreiðslu aðila sem ekki verður annað séð en að hafi verið til þess bær. Verður þessum hluta kærumálsins því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 28. gr. stjórnsýslulaga.

Hins vegar fór kærandi að nýju fram á með bréfi, dags. 10. október 2017, að fá afrit allra bréfa og tölvupósta, sem og upplýsingar um önnur samskipti sveitarfélagsins við eigendur gistihússins að Egilsgötu 6. Á þeim tíma var hann aðili að kærumáli nr. 93/2017 fyrir úrskurðarnefndinni, sem varðar sama mál og upplýsingabeiðni hans varðaði að hluta eða í heild. Réttur aðila máls til upplýsinga er nátengdur andmælarétti hans í málinu, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, en ljóst er að honum getur einnig borið nauðsyn til að fá aðgang að málsgögnum að því loknu, t.d. í því skyni að meta réttarstöðu sína. Var erindi kæranda svarað af hálfu sveitarfélagsins með bréfi, dags. 31. október 2017, svo sem áður hefur komið fram.

Beiðni kæranda frá 10. október 2017 um aðgang að gögnum var reifuð í þremur efnisgreinum. Í þeirri fyrstu var beiðst afrits af bréfi tilgreinds lögmanns, dags. 29. september 2017, vegna kærumáls nr. 93/2017. Í annarri efnisgreininni var farið fram á afrit allra bréfa, tölvupósta og upplýsingar um öll skráð samskipti sveitarfélagsins vegna Egilsgötu 6 og 8 í Borgarnesi við eigendur umdeilds gistihúss frá ársbyrjun 2013 til 10. október 2017. Þriðja efnisgrein erindis kæranda laut að beiðni hans um öll skráð samskipti og afrit allra tölvupósta og skjala er tengdust samskiptum sveitarfélagsins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna kæru á rekstrarleyfi gistihússins. Sú kæra mun hafa verið til meðferðar hjá ráðuneytinu enda eru rekstrarleyfi ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Fellur það þar með utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að fjalla um aðgang að gögnum vegna þess kærumáls sem beiðst var í þriðju efnisgrein erindis kæranda.

Í svarbréfi sveitarfélagsins, dags. 31. október 2017, eru tilgreind í átta liðum sjö bréf og einn tölvupóstur og afrit þeirra látin kæranda í té. Í fyrsta töluliðnum er tilgreint bréf það sem kærandi beiddist í fyrstu efnisgrein sinni. Í töluliðum 2.-8. eru talin samskipti milli Borgarbyggðar og forráðamanna hins umdeilda gistihúss, s.s. farið var fram á af hálfu kæranda í annarri efnisgrein erindis hans. Hins vegar fylgdu engar frekari skýringar og var hvorki tiltekið hvort öll umbeðin gögn væru afhent né færður rökstuðningur fyrir því að svo væri ekki, sbr. 19. gr. stjórnsýslulaga, hafi svo verið. Getur svar sveitarfélagsins frá 31. október 2017 til kæranda því ekki talist vera fullnægjandi, enda felst ekki í því afstaða til alls erindis hans. Í því sambandi er rétt að benda á að kærandi bað ekki einungis um afrit allra bréfa og tölvupósta heldur líka um „upplýsingar um öll skráð samskipti Borgarbyggðar við eigendur…“. Lægju engar frekari upplýsingar fyrir bar sveitarfélaginu hið minnsta að greina frá því og þá af hverju það stafaði, t.d. að frekari samskipti hefðu ekki farið fram eða eingöngu farið fram símleiðis eða munnlega og ekki verið skráð.

Mál þetta á sér töluverðan aðdraganda svo sem að framan greinir. Nú eru liðnir rúmir 14 mánuðir frá því að kærandi lagði fram áðurnefnda beiðni um gögn með bréfi, dags. 10. október 2017, sem ekki hefur verið svarað með fullnægjandi hætti af hálfu bæjaryfirvalda. Að svo komnu verður að telja drátt á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegan, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Verður því lagt fyrir sveitarfélagið að taka þann hluta erindisins sem ósvarað er til afgreiðslu án frekari tafa. Skal í því sambandi áréttað að úrskurðarnefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga njóti kærandi stöðu aðila að þeim málum sem hann hefur skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir Borgarbyggð að taka til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar þann hluta erindis kæranda frá 10. október 2017 um aðgang að gögnum sem fram kemur í annarri efnisgrein erindisins.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

126/2018 Káragerði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 9. október 2018 um að stöðva ekki efnistöku úr árfarveginum við ána Affall í Vestur-Landeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2018, er barst nefndinni 11. s.m., kæra A og B, þinglýstir eigendur jarðarinnar Bergþórshvols í Vestur-Landeyjum, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 9. október 2018 að stöðva ekki efnistöku án framkvæmdaleyfis í landi Bergþórshvols í Vestur-Landeyjum. Að auki er þess krafist að efnistaka á efnistökusvæðinu verði stöðvuð til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 31. október og 1. nóvember 2018.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings 30. júní 2011 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi á 5 ha svæði í landi Káragerðis með landnúmerið 163954. Samkvæmt fundargerð fyrrnefnds fundar tók deiliskipulagið til byggingarreits fyrir íbúðarhús, bílskúr og útihús. Aðkoma að svæðinu átti að vera um Landeyjaveg, um Bergþórshvolsveg og aðkomuveg að Káragerði. Kærendur, sem eru þinglýstir eigendur jarðanna Bergþórshvols I og II, komu á framfæri athugasemdum við meðferð málsins þar sem því var mótmælt að aðkoma að Káragerði yrði um aðkomuveg að Bergþórshvoli I og II. Skipulagsnefnd Rangárþings vísaði málinu til sveitarstjórnar Rangárþings eystra til frekari afgreiðslu. Á fundi sveitarstjórnar 8. september 2011 var tekið fram að sveitarstjórn tæki tillit til framkominna athugasemda eigenda Bergþórshvols I og II og mæltist til þess að aðkomu að Káragerði yrði fundinn nýr staður. Á sveitarstjórnarfundi 6. október s.á. var málið tekið fyrir að nýju til þess m.a. að skýra betur fyrri ákvörðun sveitarstjórnar frá 8. september vegna fyrirspurna sem fram höfðu verið bornar af hálfu eigenda Bergþórshvols vegna boðaðra lokana á heimreið að Káragerði. Af þessu tilefni var lögð fram í sveitarstjórn bókun sem samþykkt var samhljóða. Í bókuninni kom fram að sveitarstjórn staðfesti þá afstöðu sem fram kæmi í bréfi lögmanns sveitarfélagsins að lokun á heimreiðinni að Káragerði væri ekki samþykkt af hálfu þess. Þá var tekið fram að sveitarstjórn liti að öðru leyti svo á að um einkaréttarlegan ágreining milli eigenda Bergþórshvols og Káragerðis væri að ræða og að hún myndi ekki aðhafast frekar í málinu að óbreyttu. Var síðan ítrekað í bókuninni að fyrirliggjandi deiliskipulag íbúðarhúss, bílskúrs og útihúss að Káragerði væri samþykkt af hálfu sveitarfélagsins. Byggingarleyfi eigenda Káragerðis væri því án annarra skilyrða en þeirra sem fram kæmu í almennum lögum og reglum um framkvæmdir af því tagi sem um ræddi á svæðinu. Með bókun sinni frá 8. september 2011 hefði sveitarstjórn ekki verið að fella skipulagið úr gildi heldur hefði hún samþykkt deiliskipulagið. Hins vegar hefði sveitarstjórn viljað taka fram að ákveddu eigendur Káragerðis að sækja síðar um breytingu á legu heimkeyrslu að hinum nýbyggðu húsum á jörðinni myndi sveitarfélagið taka jákvætt í það, þrátt fyrir almennt ákvæði í aðalskipulagi um samnýtingu vega svo sem frekast væri kostur, enda félli væntanleg tillaga að skipulagi svæðisins að öðru leyti.

Deiliskipulagstillagan var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings eystra á fundi 8. september 2016. Hinn 28. mars 2017 birtist hún í B-deild Stjórnartíðinda og var tekið fram í greinagerð að aðkoma að Káragerði væri af Landeyjavegi nr. 252 um nýjan aðkomuveg að Káragerði.

Hinn 17. maí 2018 sendu kærendur bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra og kröfðust stöðvunar á framkvæmdum framkvæmdaaðila skv. 53. gr. skipulagslaga þar sem þeir töldu þær fela í sér framkvæmdaleyfisskylda efnistöku í landi Bergþórshvols. Að sögn kærenda var á þessum tíma hins vegar ekki þörf á frekari afskiptum sveitarfélagsins þar sem framkvæmdaaðilar hættu efnistökunni af sjálfsdáðum. Efnistakan hófst hins vegar aftur um haustið án þess að aflað hefði verið framkvæmdaleyfis og höfðu kærendur því samband við embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins og kröfðust þess að nýju að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar. Skipulags- og byggingarfulltrúi synjaði beiðni kærenda 9. október 2018 með þeim rökum að þar sem efnistakan væri til einkanota væri hún ekki framkvæmdaleyfisskyld. Kærendur óskuðu þá eftir því að embættið endurskoðaði afstöðu sína til erindisins tafarlaust eða rökstyddi hana með fullnægjandi hætti. Tóku þeir fram að um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd væri að ræða en efnistakan væri í landi kærenda þar sem að á þriðja tug sturtuvagna af möl hefðu verið fjarlægðir. Ekkert framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar lægi fyrir, líkt og skýrt og afdráttarlaust orðalag laganna gerði kröfu um, og bæri því skipulagsfulltrúa að stöðva þær framkvæmdir sem hafnar væru án leyfis skv. 53. gr. skipulagslaga. Lögmaður sveitarfélagsins staðfesti með skeyti 10. október 2018 fyrri afstöðu embættis skipulags- og byggingarfulltrúa. Tók hann fram að tilgangur laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu væri að tryggja að farið væri með löndum við nýtingu auðlinda í jörðu. Benti hann sérstaklega á að í a-lið 2. mgr. 8. gr. kæmi fram að minni háttar efnistaka væri ekki háð sérstöku framkvæmdaleyfi að mati sveitarfélagsins og um væri að ræða efnistöku til einkanota. Áréttaði hann síðan að lokum að viðkomandi malartekja væri ekki framkvæmd sem háð væri skilyrðum um framkvæmdaleyfi að mati sveitarfélagsins. Tók hann síðan fram að sveitarfélagið myndi ekki blanda sér með neinum hætti í þær deilur sem kynnu að vera uppi um málið á Bergþórshvoli og yrðu aðilar því að leita annarra úrræða til að leiða þær til lykta.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé efnistaka að meginreglu háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Skilyrði undanþágu frá slíku leyfi komi fram í 2. mgr. fyrrnefnds ákvæðis þar sem segi að eiganda eða umráðamanni eignarlands sé heimil minni háttar efnistaka til eigin nota, án þess að aflað sé framkvæmdaleyfis. Af þessu leiði að afla þurfi framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku ef eigandi eða umráðamaður efnistökusvæðis stendur ekki að framkvæmdinni, efnistakan sé minniháttar eða efnistakan sé ekki til einkanota.

Að mati kærenda ættu umrædd skilyrði fyrir undanþágu frá framkvæmdaleyfi ekki við um hina kærðu efnistöku. Efnistökusvæðið sé innan þinglýstra marka jarðar þeirra, Bergþórshvols, og hún hafi ekki verið til eigin nota framkvæmdaaðila þar sem efninu hafi verið ekið í veginn að Káragerði, sem sé héraðsvegur, sbr. c-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Því hafi eigendur Káragerðis einungis borið helming kostnaðar við gerð vegarins á móti Vegagerðinni, sbr. 20. og 13. gr. vegalaga, og að lokum hafi framkvæmdin ekki með nokkru móti geta talist minni háttar í skilningi laganna, en kærendum hafi talist til að um 50 vörubílahlöss af möl hafi verið fjarlægð af efnistökusvæðinu á sólarhring. Þá sé efnistakan enn yfirstandandi og aukist jafnt og þétt. Af framangreindu blasi við að umrædd efnistaka sé framkvæmdaleyfisskyld og hafi því embætti skipulagsfulltrúa borið að lögum að grípa tafarlaust til aðgerða til að stöðva óleyfisframkvæmdina í samræmi við 53. gr. skipulagslaga.

Kærendur geri athugasemdir við þá fullyrðingu sveitarfélagsins að verkinu sé lokið. Hið rétta sé að aðeins hafi verið ekið efni í hluta af heimreiðinni að Káragerði og því standi allar líkur til þess að efnistökunni verði fram haldið í óþökk kærenda. Hafi vinnuvél á vegum eigenda Káragerðis staðið á efnistökusvæðinu svo ætla megi að áframhaldandi efnistaka sé þar yfirvofandi.

Við meðferð málsins og undirbúning ákvörðunarinnar hafi skipulagsfulltrúi ekki gætt nægilega vel að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum rannsóknarreglu 10. gr. þeirra, þar sem ákvörðun embættisins hafi verið tekin þegar hvorki hafi verið búið að staðreyna umfang efnistökunnar né hvort hún hafi verið til einkanota framkvæmdaaðila.

Málsrök Rangárþings eystra: Að hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að í kjölfar ábendingar kærenda varðandi umdeilda efnistöku hafi verið aflað upplýsinga um framangreint mál í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi fengið þær upplýsingar frá framkvæmdaaðilum að kærendur hafi meinað þeim að nota sameiginlegan afleggjara jarðanna tveggja. Af þeim sökum hafi framkvæmdaaðilar ákveðið að bera ofan í afleggjara sem sé innan lands þeirra, Káragerðis, til að komast að húsi sínu. Til þess verks hafi framkvæmdaaðilar tekið óverulegt malarefni úr eignarlandi sínu. Eftir rannsókn sveitarfélagsins hafi það verið mat þess að umrædd efnistaka rúmaðist innan heimilda 2. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og að ekki hefði þurft framkvæmdaleyfi vegna hennar. Hafi því ekki verið tilefni til að stöðva efnistökuna auk þess sem verkinu hafi þá verið lokið. Framkvæmdaaðilar hafi ekki verið að útbúa nýjan veg heldur bera í veg sem hafi verið innan jarðar þeirra. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi farið á vettvang vegna málsins til að staðfesta magn efnistökunnar og um hafi veri að ræða 24 vagna, eða um 8 m3 efni í hverjum vagni, samanlagt tæplega 200 m3.

Athugasemdir framkvæmdaaðila: Af hálfu framkvæmdaaðila er vísað til þess að frá árinu 1998 hafi svæðið verið nýtt til efnistöku til heimanota. Efnistakan sem hér hafi farið fram hafi einnig verið til heimanota en efnið hafi verið nýtt til að bera ofan í bráðabirgða slóða sem nýttur séu eins og vegur vegna samskiptavanda við nágranna. Sé ljóst að þörf sé á frekari ofaníburði í þennan slóða og til þess muni hann sækja möl eftir þörfum úr landi sínu. Viðgengist hafi allt þar til nýlega að eigendur Káragerðis hafi getað farið um jörð Bergþórshvols og sótt möl úr Affalli eftir þörfum, en frjáls malartaka hafi tíðkast úr vatnasvæði Affallsins. Framkvæmdaaðilar hafi ekið um 25 vagna af möl úr hrúgu sem þegar hafi verið mokað upp í því skyni að leggja við hlið fyrirhugaðs vegstæðis í landi Káragerðis. Eigendur Káragerðis hafi brugðið á þetta ráð í ljósi þess að eigendur Bergþórshvols hafi lokað fyrir umferð eigenda, íbúa og gestkomandi að Káragerði. Malartakan hafi ekki verið meiri en þetta og séu rangar þær fullyrðingar eigenda Bergþórshvols að hún sé yfirstandandi og hafi aukist jafnt og þétt.

Andmæli kærenda við umsögn sveitarfélagsins:
 Kærendur mótmæla því að sameiginleg aðkoma sé að jörðunum Bergþórshvoli og Káragerði. Hið rétta sé að á meðan fyrrverandi eigandi Káragerðis hafi búið að Bergþórshvoli II hafi hann ekið frá íbúðarhúsi síðarnefndu jarðarinnar að Káragerði. Forsendur þeirrar aðkomu að jörðinni Káragerði um og frá landi Bergþórshvols hafi hins vegar liðið undir lok þegar fyrrverandi eigandi Bergþórshvols II hafi selt jörðina til kærenda.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé aðkoma að jörðinni Káragerði frá þjóðveginum innan þinglýstra marka þeirrar jarðar. Í greinagerð deiliskipulagsins og með deiliskipulags-uppdrættinum sjáist svo ekki verði um villst hvernig gert sé ráð fyrir heimreið að Káragerði frá Landeyjavegi nr. 252, en jafnframt hvernig heimreið í landi Bergþórshvols endi við íbúðarhúsið að Bergþórshvoli II. Deiliskipulagið sé fullgild réttarheimild sem stjórnvaldsfyrirmæli, sett af sveitarfélaginu og skuldbindandi fyrir bæði almenning og sveitarfélagið sjálft. Deiliskipulagið sé undirritað af núverandi sveitarstjóra og sæti því óneitanlega furðu að sveitarfélagið skuli fullyrða að allt annað fyrirkomulag sé í gildi á svæðinu en fram komi í deiliskipulaginu.

Því sé hafnað að efnistakan sem um ræði hafi verið óveruleg. Um 50 vörubílahlöss af malarefni hafi verið flutt af efnistökusvæðinu. Umfang efnistökunnar sé því langt umfram það sem geti talist óverulegt í skilningi 2. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Athygli veki að engin gögn fylgi bréfi sveitarfélagsins til stuðnings þeirri fullyrðingu þess að efnistakan falli undir það að vera óveruleg framkvæmd í skilningi laganna. Þá mótmæli kærendur þeirri fullyrðingu að framkvæmdaaðilar hafi tekið óverulegt malarefni úr eignarlandi sínu. Sú fullyrðing sé í hróplegu ósamræmi við þinglýsta yfirlýsingu eigenda jarðanna Káragerðis og Bergþórshvols, dags. 22. júní 2009, þar sem staðfest hafi verið landamerki á milli jarðanna. Á loftmynd með landamerkjum jarðanna sé augljóst að efnistökusvæðið sem sé næst Affallinu sé innan þinglýstra landamerkja Bergþórshvols. Þá sé gerð athugasemd við það að sveitarfélagið bregðist ekki við því sjónarmiði kærenda að efnistakan sé ekki til eigin nota framkvæmdaaðila. Ljóst sé að framkvæmdaaðilar muni ekki bera nema helming kostnaðar af gerð vegarins á móti Vegagerðinni í samræmi við 20. gr. vegalaga nr. 80/2008. Skilyrði tilvitnaðrar 2. mgr. 8. gr. a í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og 2. ml. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um að framkvæmdin sé til einkanota séu því ekki uppfyllt.

Fullyrðingar sem fram komi í bréfi sveitarfélagsins séu í raun svo víðsfjarri staðreyndum og gögnum málsins að kærendur telja einsýnt að sveitarfélaginu hafi orðið á mistök við afgreiðslu þess. Raunar renni bréf sveitarfélagsins stoðum undir þá fullyrðingu kærenda, að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi við afgreiðslu á kröfu kærenda um stöðvun efnistökunnar ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda ljóst að ekkert hafi verið aðhafst í málinu fyrr en ákvörðun embættisins hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Upplýsingaöflun sveitarfélagsins um málsatvik hafi síðan verið ófullnægjandi með öllu eins og ráða megi af efnistökum bréfsins.

Niðurstaða: Fram kemur í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt 2. mgr. 13. gr. öll efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr hafsbotni innan netlaga háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar að því undanskildu að eiganda eða umráðamanni eignarlands er heimil minni háttar efnistaka til eigin nota án leyfis nema um sé að ræða náttúruverndarsvæði. Er ákvæði þetta sambærilegt 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Sé framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni er eftir atvikum unnt að leita atbeina skipulagsfulltrúa um stöðvun framkvæmda, sbr. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga.

Í máli þessu greinir kærendur og framkvæmdaaðila á um eignarheimildir að landi því þar sem umdeild malartaka átti sér stað. Upplýst hefur verið að framkvæmdaaðilarnir hafa stefnt kærendum fyrir Héraðsdóm Suðurlands og farið fram á viðurkenningu á því að jörð þeirra Káragerði tilheyri þriðjungur af óskiptum hlunnindum Bergþórshvolstorfu, sem felur þá m.a. í sér þriðjungshlutdeild til malarnáms ásamt tilheyrandi umferðarrétti. Telja framkvæmdaaðilar sig því hafa rétt til efnistöku á svæðinu. Það er hvorki á valdi skipulagsfulltrúa né úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi heldur á úrlausn hans eftir atvikum undir dómstóla. Er því óljóst hvernig eignarréttindi að umdeildu malartökusvæði er háttað.

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er umrætt svæði ætlað til malarnáms og er þar tekið fram að malarnám skuli fyrst og fremst fara fram á slíkum stöðum þar sem árframburður jafni út áhrif námsins. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur upplýst að umrædd malartaka hafi verið úr árfarvegi Affalls. Því má gera ráð fyrir að framburður árinnar upphefji áhrif malarnámsins að mestu og hefur malartakan því væntanlega takmörkuð áhrif á ásýnd lands. Samkvæmt upplýsingum skipulags- og byggingarfulltrúa var um að ræða tæplega 200 m3 malartekju, sem fallast má að ekki geti talist meiri háttar með tilliti til staðhátta. Þá verður ekki annað séð en að malartakan hafi verið ætluð til eigin nota framkvæmdaaðila, en ljóst er að vegurinn er heimkeyrsla að húsi í þeirra eigu og skiptir þá ekki máli þótt framkvæmdaaðilar hafi ekki staðið einir að kostnaði við gerð vegarins.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að fullnægjandi rök hafi verið færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun að synja beiðni kærenda um stöðvun umræddrar efnistöku. Slík ákvörðun felur í sér íþyngjandi réttarúrræði sem beita ber af varúð og einungis þegar ótvírætt er að lagaskilyrði teljist uppyllt. Verður kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra um að stöðva ekki efnistöku landeigenda Káragerðis úr árfarvegi árinnar Affalls í Vestur-Landeyjum skv. 53. gr. skipulagslaga.