Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67 og 69/2019 Furugerði

Árið 2019, miðvikudaginn 25. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 67/2019, kæra á afgreiðslu borgarráðs Reykjavíkur frá 4. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina að Furugerði 23 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir íbúar og eigendur Furugerðis 10 og Furugerðis 12, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Furugerði 23, Reykjavík.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 19. júlí 2019, er móttekin var hjá nefndinni sama dag, kæra 34 nánar tilgreindir eigendur og íbúar íbúða við Furugerði og Espigerði í Reykjavík sömu ákvörðun. Gerð er sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið, sem er nr. 69/2019, sameinað máli þessu.

Upplýsingar er málið varða bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. og 24. september 2019.

Málsatvik og rök: Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Furugerði 23 er á lóðinni gróðrarstöð, gróðurhús, söluskáli og ræktunarreitir ásamt íbúðarhúsi. Hinn 26. júní 2019 var samþykkt á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Í breytingunni felst að núverandi mannvirki verði fjarlægð og heimilað að reisa allt að 30 íbúðir á umræddri lóð. Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu 4. júlí s.á.

Kærendur telja að þeir muni verða fyrir alvarlegu ónæði og röskun á margvíslegum hagsmunum sínum. Að auki muni eignir þeirra rýrna í verði vegna þeirrar miklu aukningar á byggingarmagni sem verið sé að heimila. Breytingin sé í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og fari m.a. gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana og meginreglu stjórnsýsluréttarins um réttmætar væntingar. Jafnframt hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá séu hvorki uppfyllt ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða né undanþáguheimild hljóðvistarstaðalsins ÍST 45:2003.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að ekki sé búið að birta auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu breytingar í B-deild Stjórnartíðinda, en breytingin sé í umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun.

Niðurstaða: Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eftir samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar var hún send til lögboðinnar yfirferðar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bárust athugasemdir frá Skipulagsstofnun við yfirferð málsins sem sveitarfélagið þarf að bregðast við og er því ekki búið að senda breytinguna til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Að lokinni meðferð tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á því skal birta auglýsingu um samþykkt þess í B-deild Stjórnartíðinda skv. 42. gr., sbr. 43. gr. skipulagslaga. Fyrir liggur að ekki hefur enn verið birt auglýsing um gildistöku hinnar kærðu breytingar í B-deild Stjórnartíðinda, en þar til slík auglýsing hefur verið birt er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ekki lokið. Er enda ekki loku fyrir það skotið að tillagan taki breytingum eða hætt verði við gildistöku hennar, svo sem vegna framkominna athugasemda Skipulagsstofnunar. Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Verði birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagbreytingar þeirrar er um ræðir er rétt að benda á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar vegna ákvarðana sem sæta opinberri birtingu einn mánuður frá birtingu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.