Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

138/2018 Bogatröð

Árið 2019, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2018, kæra vegna álagningar „matsgjalds“ vegna brunabótamats fasteignarinnar Bogatröð 31, Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir M.K. Bílaleiga ehf., Látraströnd 54, Seltjarnarnesi, álagningu „matsgjalds“ vegna brunabótamats fasteignarinnar Bogatröð 31, Reykjanesbæ með gjalddaga 1. september 2018 að upphæð kr. 97.845. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu álagningar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Þjóðskrá Íslands 4. janúar 2019 og 10. september s.á.

Málavextir: Með beiðni til Þjóðskrár Íslands, dags. 4. október 2018, óskaði kærandi eftir breytingu á skipulagsgjaldi fasteignarinnar Bogatröð 31 í Reykjanesbæ. Í erindinu kom fram að eigandi fasteignarinnar hefði aldrei farið fram á brunavirðingu en samkvæmt lögum geti enginn annar en eigandi farið fram á nefnda virðingu. Á þeim grundvelli óskaði kærandi eftir því að skipulagsgjald yrði fellt niður.

Kærandi ítrekaði beiðni sína um breytingu á skipulagsgjaldi fasteignarinnar með bréfi, dags. 24. október 2018, og tiltók að matið hefði verið framkvæmt áður og vísaði til þess að í kaupsamningi um eignina sé tilgreint um brunabótamat. Með tölvupósti, dags. 2. nóvember 2018, óskaði Þjóðskrá Íslands eftir afriti af kaupsamningnum þar sem brunabótamat fasteignarinnar væri tilgreint og svaraði kærandi því erindi 4. s.m. þar sem fram kom að samningurinn væri ekki aðgengilegur að svo stöddu. Hinn 15. nóvember 2018 barst kæranda ákvörðun Þjóðskrá Íslands þar sem hafnað var beiðni hans um breytingu á álagningu skipulagsgjalds vegna fast­eignarinnar að Bogatröð 31 þar sem kærandi hafi ekki lagt fram haldbær gögn, s.s. tilvísaðan kaupsamning, sem sýndi fram á að seljandi fasteignarinnar hafi samið um að greiða álagt skipulagsgjald.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi eignast umrædda fasteign með kaup­samningi, dags. 4. júní 2015. Hinn 1. september 2018 hafi honum borist reikningur frá Sýslumanninum á Suðurnesjum þar sem hann hafi verið krafinn um kr. 97.845 fyrir skipulagsgjald. Við nánari eftirgrennslan hafi hins vegar komið í ljós að gjaldið væri vegna virðingar eignarinnar til brunabótamats. Haft hafi verið samband við Þjóðskrá Íslands vegna kröfunnar og bent á að við kaupin hafi fasteignin ekki verið metin til brunabótamats og þar sem um fyrstu virðingu væri að ræða væri hún gjaldfrjáls skv. 1. gr. gjaldskrár nr. 446/2001 vegna brunabótamats, málskots til yfirfasteignarmatsnefndar og gerðardóms skv. lögum nr. 48/1994 um brunatryggingar.

Bendir kærandi á að umrætt gjald sé ávallt ranglega nefnt „skipulagsgjald“ en í raun sé um að ræða gjald vegna virðingar húseignar á grundvelli gjaldskrár nr. 446/2001, sem stoð eigi í lögum nr. 48/1994. Yfirlit Þjóðskrár sýni að allt fram til 7. ágúst 2018 hafi fasteignin ekki verið virt til brunabótamats. Það mat sé gert eftir að hann eignaðist fasteignina og sé því fyrsta virðing hennar til brunabótamats, en fyrir það skuli ekki greiða matsgjald, svo notað sé orðalag reglugerðarinnar.

Málsrök Þjóðskrár Íslands: Stofnunin vísar til þess að samkvæmt 1. gr. laga um bruna­tryggingar nr. 48/1994 sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir og að vátryggingar­skyldar húseignir sé skylt að meta eigi síðar en fjórum vikum eftir að byggingu þeirra lauk eða þær hafi verið teknar í notkun. Í máli þessu sé ekki ágreiningur um að byggingu fasteignarinnar sé lokið og að fasteignin hafi verið tekin í notkun fyrir meira en fjórum vikum.

Samkvæmt 2. gr. sömu laga annist Þjóðskrá Íslands virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar. Heiti þeirrar gerðar sé brunabótamat. Vísar stofnunin til þess að þó svo að kærandi hafi ekki farið eftir 1. gr. laganna leysi það hann hvorki undan lagaskyldu varðandi tilkynningu né greiðsluskyldu.

Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Samkvæmt 3. mgr. falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar virðingargjörð hefur farið fram og Fasteignamat ríkisins (nú Þjóðskrá Íslands) hafi tilkynnt hana til innheimtumanns ríkissjóðs.

Kærandi hafi ekki lagt fram gögn eða upplýsingar þess efnis að skipulagsgjald hafi áður verið lagt á fasteignina Bogatröð 31 og ekki séu í kerfum Þjóðskrár Íslands upplýsingar um slíka álagningu. Þá hafi kærandi ekki lagt fram haldbær gögn, svo sem áðurnefndan kaupsamning, sem sýndi fram á að seljandi fasteignarinnar hafi samið um að greiða álagt skipulagsgjald.

Niðurstaða: Af fyrirliggjandi gögnum máls verður ekki annað séð en að reikningur vegna álagningar gjalds að fjárhæð kr. 97.845, sem deilt er um í þessu máli, varði álagninu skipulagslagsgjalds skv. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en ekki gjalds vegna virðingar húseignar skv. gjaldskrá nr. 446/2001 vegna brunabótamats, málskots til yfir­fasteignarmatsnefndar og gerðardóms skv. lögum nr. 48/1994 um brunatryggingar, sem unnt væri að skjóta til yfirfasteignamatsnefndar.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti farið fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið.  Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar. Verður ekki á það fallist að umrædd fasteign, sem mun hafa verið reist á árinu 1960, verði talið nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga er umdeild álagning fór fram. Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þess lagaákvæðis, sem umdeild álagning styðst við þegar litið er til orðalags þess. Verður og að líta til þess að um er að ræða eldri fasteign á svæði sem löngu hafði verið byggt upp og skipulagt á kostnað framkvæmdaaðila er skipulagsgjaldið var lagt á.

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi álagningu skipulagsgjalds á umrædda fasteign kæranda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2018 að upphæð kr. 97.845 vegna fasteignarinnar Bogatröð 31, Reykjanesbæ.