Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2018 Þykkvibær

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 14. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar Þykkvabæjar 21.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. janúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Þykkvabæ 19 og Vorsabæ 20, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 14. september 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar Þykkvabæjar 21. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. mars 2018.

Málavextir: Forsögu máls þessa má rekja aftur til ársins 1958 þegar faðir lóðarhafa Árbæjarbletts 62, sem síðar varð Þykkvibær 21, keypti sumarhús á lóðinni. Lóðin var þá í erfðafestu samkvæmt samningi frá 20. febrúar 1941. Með yfirlýsingu borgarstjórans í Reykjavík, dags. 26. október 1963, var föður lóðarhafa tilkynnt að Árbæjarblettur 62 væri tekinn úr erfðafestu og að endurgjald greiddist samkvæmt erfðafestusamningnum. Jafnframt sagði að borgarráð gerði ráð fyrir að hverjum erfðafestuhafa yrði gefinn kostur á einni byggingarlóð. Lóðarhafi eignaðist húsið við fyrirframgreiðslu arfs árið 2003 og lét þá kanna stöðu lóðarinnar í skipulagi Reykjavíkurborgar. Í ljós kom að ekki hefði verið gengið formlega frá úthlutun lóðarinnar til föður hennar og ekki hefði verið gert ráð fyrir afmarkaðri lóð fyrir húsið í deiliskipulagi Árbæjar – Seláss frá 1966. Í kjölfarið var lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur tillaga um að afmarka lóð undir hús lóðarhafa, en tillögunni var synjað á fundi nefndarinnar 6. september 2004. Lóðarhafi höfðaði þá dómsmál á hendur Reykjavíkurborg og krafðist þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar yrði felld úr gildi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2005 var fallist á að lóðarhafi, sem tekið hefði við réttindum og skyldum fyrri eiganda við eigendaskiptin, hefði unnið afnotahefð af skikanum í kringum húsið. Var ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar felld úr gildi með vísan til þess að hún hefði verið grundvölluð á þeirri ólögmætu forsendu að kærandi ætti ekki afnotarétt til umrædds skika umfram það sem leiddi af erfðafestusamningnum frá 1941.

Að dóminum gengnum fór lögmaður lóðarhafa þess á leit við Reykjavíkurborg að afmörkuð yrði hæfileg lóð undir hús kæranda. Á fundi skipulagsráðs 25. janúar 2006 var tillaga þar að lútandi rædd og afgreidd með svohljóðandi bókun: „Tillaga skipulagsfulltrúa að afmörkun lóðar samþykkt með vísan í d. lið 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð. Málinu vísað til skrifstofustjóra Framkvæmdasviðs til frágangs á lóðarleigusamningi. Ráðið felur skipulags­fulltrúa að gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árbæjarhverfis vegna lóðarinnar.“ Viðræður áttu sér stað milli aðila um hugsanleg kaup Reykjavíkurborgar á fasteign lóðarhafa en báru ekki árangur. Að endingu var málið tekið aftur fyrir á fundi skipulagsráðs 27. október 2010 og voru þá lögð fram ný drög að breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar nr. 21 við Þykkvabæ, dags. 16. febrúar 2006. Skipulagsráð afgreiddi málið með svofelldri bókun: „Synjað með vísan til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu.“ Borgarráð staðfesti synjunina 4. nóvember 2010 og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Í úrskurði kveðnum upp 25. júní 2015 af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ákvörðun borgarráðs hefði falið í sér afturköllun á fyrri ákvörðun skipulagsráðs frá 25. janúar 2006 um stofnun lóðarinnar, en þar sem ekki yrði séð að skilyrði afturköllunar væri fyrir hendi bæri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 29. mars 2017 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss. Í breytingunni fólst að afmarka lóðina umrædda lóð og byggingarreit um núverandi hús. Á fundi borgarráðs 6. apríl s.á. var afgreiðsla ráðsins staðfest. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 16. ágúst s.á. ásamt umsögn skrifstofu sviðsstjóra um athugasemdir sem bárust á kynningartíma. Var erindið samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar og staðfesti borgarráð afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi sínum 14. september s.á. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. desember s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja kröfugerð sína á því að hin kærða ákvörðun sé annmörkum háð. Samkvæmt b-lið 1. mgr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu markmið laganna meðal annars þau að „stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“ Ljóst megi vera að af þessu leiði að allar ákvarðanir um landnotkun þurfi að vera yfirvegaðar, enda kunni ákvörðun um slíka notkun að hafa í för með sér skerðingu á umhverfi og náttúru eða útiloka að önnur landnotkun verði möguleg í náinni framtíð. Slík sjónarmið séu viðurkennd víða í íslenskum rétti, sbr. t.d. varúðarregla 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. einnig 2. gr. laga nr. 109/2015 um breytingu á þeim lögum. Sjónarmið í tengslum við vernd umhverfis og náttúru hafi talsvert vægi þegar komi að skipulagi í nágrenni Elliðaánna. Í núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé þannig gert ráð fyrir því að afmörkuð verði hverfisverndarsvæði fyrir Elliðaárnar og nánasta umhverfi þeirra í deiliskipulagi. Auk þess komi fram í aðalskipulaginu að meginstefna í skipulagi svæðisins sé að skapa jafnvægi á milli verndunar og nýtingar svæðisins til útivistar, enda um eitt mest sótta útivistarsvæði borgarinnar að ræða.

Á meðal gagna málsins sé að finna umsögn borgarlögmanns, dags. 2. ágúst 2017, í tengslum við mögulegar eignarnámsheimildir Reykjavíkurborgar á lóðinni. Þar sé sérstaklega vísað til þess að í eldra aðalskipulagi Reykjavíkur hafi verið gert ráð fyrir því að ekki væri byggt nær ám og vötnum innan þéttbýlissvæða borgarinnar en 100 m og í ákveðnum tilvikum allt að 250 m, en í núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé ekki mælt fyrir um almenna reglu um fjarlægð byggðar frá vötnum eða ám. Auk þess sé rakið að lóðin sé staðsett innan svæðis sem skilgreint sé sem íbúðarhverfi (ÍB45) í núgildandi aðalskipulagi, en ekki innan þess svæðis sem skilgreint sé sem borgargarður og Elliðaárnar tilheyri. Þannig fari afmörkun lóðarinnar og byggingarreits innan hennar ekki gegn núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur. Í umsögn skrifstofu sviðstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 11. ágúst 2017 sé sérstaklega vísað til niðurstöðu borgarlögmanns í tengslum við athugasemdir kærenda við hinni auglýstu tillögu. Ekki verði hins vegar séð að horft hafi verið frekar til nálægðar lóðarinnar við Elliðaárnar.

Í 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga sé mælt fyrir um skipulagskyldu sveitarfélaga. Í 2. mgr. ákvæðisins komi fram að í skipulagsáætlunum, þ. á m. deiliskipulagi, sbr. einnig 7. mgr. 37. gr. laganna, sé mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun og að þar séu sett fram stefnumið um einstaka þætti, þ. á m. náttúru og vatnsvernd. Í 3. mgr. 12. gr. segi að í skipulagsáætlunum skuli meðal annars lýsa umhverfi og aðstæðum á skipulagssvæðinu við upphaf áætlunar og forsendum þeirrar stefnu sem hún feli í sér. Af þessum ákvæðum megi að mati kærenda draga þá ályktun að sveitarfélögum sé skylt, þar sem tilefni sé til, að taka tillit til umhverfis og náttúru á þeim svæðum sem undirorpin séu viðkomandi skipulagsáætlunum. Samkvæmt 7. mgr. 37. gr. skipulagslaga gildi, auk framangreindra ákvæða, skipulagsreglugerð um gerð og framsetningu deiliskipulags. Í gr. 5.3.2.14. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi að við gerð deiliskipulags skuli í þéttbýli lögð áhersla á að almenningur geti komist að og meðfram vötnum, eftir því sem hægt sé á viðkomandi svæði. Í gr. 5.3.2.17. í reglugerðinni segi auk þess að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir gildandi stefnu aðalskipulags og ákvæðum laga um friðun og vernd, þ. á m. að því er varði náttúruvernd og vatnsvernd.

Hvað sem líði þögn núgildandi aðalskipulags Reykjavíkur um æskilega fjarlægð byggðar frá vötnum og ám í þéttbýli verði að mati kærenda ekki dregin sú ályktun að Reykjavíkurborg sé þar með heimilt að skipuleggja byggð óháð sjónarmiðum að þessu leyti. Í þessu samhengi vísi kærendur sérstaklega til þess að í núgildandi aðalskipulagi sé ekki að nokkru leyti vikið að ástæðum þess að það svæði sem skilgreint sé sem íbúðarhverfi (ÍB45) nái nú til lóðarinnar sem afmörkuð sé með hinni kærðu ákvörðun og að lóðin tilheyri ekki lengur því svæði sem nú sé formlega skilgreint sem borgargarður (OP4). Afstaða Reykjavíkurborgar varðandi sjónarmið tengd fjarlægð byggðar frá ám og vötnum standist ekki skoðun, enda ótækt að draga slíkar ályktanir af þögn aðalskipulagsins. Þvert á móti beri núgildandi aðalskipulag Reykjavíkur með sér að lögð sé rík áhersla á verndun Elliðaánna og umhverfis þeirra.

Hin kærða ákvörðun beri með sér að ekki hafi verið tekin afstaða til sjónarmiða í tengslum við vernd Elliðaánna að nokkru leyti. Sé rannsókn málsins þannig verulega ábótavant og ekki í samræmi við þá rannsóknarskyldu sem leiði af ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráða meginreglu stjórnsýslu­réttarins sama efnis. Ákvörðunin sé því verulegum annmörkum háð, sem varði ógildingu hennar, enda hafi Reykjavíkurborg ekki sýnt að ákvörðunin hefði verið sú sama ef meðferð málsins hefði tekið mið af sjónarmiðum um vernd Elliðaánna og umhverfis þeirra, líkt og ógildingarreglur í íslenskum stjórnsýslurétti geri ráð fyrir.

Ákvörðun Reykjavíkur um breytt deiliskipulag hafi ekki tekið með fullnægjandi hætti mið af hagsmunum íbúa í nágrenni lóðarinnar. Aðbúnaður á lóðinni, þ. á m. í tengslum við trjágróður sem á henni vaxi, rýri gildi fasteigna í nágrenni hennar, bæði hvað varði notkun þeirra og verðmæti. Með tilliti til þess byggingarreits sem deiliskipulagsbreytingin geri ráð fyrir sé ljóst að þar sé gert ráð fyrir búsetu. Ákvörðunin sé þannig að festa í sessi ólögmætt ástand, sem brjóti í bága við hagsmuni þeirra, og hafi sveitarfélagið þannig ekki gætt meðalhófs við ákvörðunartöku sína, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga og óskráða meginreglu stjórnsýsluréttarins sama efnis. Hvað sem líði möguleika kærenda til skaðabóta, sbr. 51. gr. skipulagslaga, leiði það ákvæði ekki til þess að sveitarfélaginu sé ekki skylt að gæta meðalhófs við ákvörðunartöku sína.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að með hinni umræddu skipulagsákvörðun hafi lóð og byggingarreitur um Árbæjarblett 62 verið afmarkaður í samræmi við þá niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. desember 2005 að stofnast hefði afnotahefð af því landi sem í kringum húsið stæði og afgirt hefði verið um árabil. Í dóminum hafi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að synja eiganda um lóðarafmörkun að Árbæjarbletti 62 verið felld úr gildi, enda hefði eigandi unnið afnotahefð að umræddum skika. Sé því ekki fallist á að verið sé að festa í sessi ólögmætt ástand og sé ekki verið að veita neinar auknar byggingarheimildir á lóðinni. Um sé að ræða hús sem hafi verið til staðar um áratugaskeið og því sé ekki verið að skipuleggja nýja byggð. Það að afmarka lóðina núna veiti ekki tilefni til þess að rannsaka áhrif lóðarinnar á Elliðaárdalinn eða vernd Elliðaánna.

Hvorki sé fallist á að hagsmunir kærenda séu fyrir borð bornir með ákvörðuninni né að hún feli í sér rýrnun á verðgildi fasteigna þeirra. Í því sambandi sé minnst á 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem fram komi að leiði skipulag eða breyting á skipulagi til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við eigi um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, eigi sá er geti sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 14. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Árbæjar-Seláss. Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst að afmörkuð er lóðin Þykkvabær 21 og markaður byggingarreitur um það hús sem á henni stendur. Hvorki er veitt heimild til stækkunar né breytinga á húsinu, en heimilt er að endurbyggja það í sömu mynd ef það eyðileggst.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags, en við beitingu þess valds ber þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Þeirra á meðal er að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. b-lið lagagreinarinnar, og að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Elliðaárdalur skilgreindur sem opið svæði, OP4. Er tekið fram í greinargerð skipulagsins að stefnt sé að afmörkun hverfisverndarsvæðis fyrir Elliðaárnar og nánasta umhverfi þeirra í deiliskipulagi, en það hefur ekki enn gengið eftir. Felur hin kærða deiliskipulagsbreyting í sér að afmörkuð er lóð og byggingarreitur á aðliggjandi íbúðarsvæði, ÍB-45, í um 50 m fjarlægð frá ánum, en líkt og rakið er í málavöxtum vann faðir lóðarhafa afnotahefð af skika í kringum hús það sem staðið hefur á lóðinni samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. desember 2005. Hin kærða deiliskipulagsákvörðun er þar af leiðandi í samræmi við landnotkun aðalskipulags og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana því fullnægt.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var hvorki verið að skipuleggja nýja byggð né veita fordæmi fyrir frekari byggð nálægt Elliðaánum. Fól breytingin það í sér, sem fyrr segir, að afmarka lóð og byggingarreit utan um þegar byggt hús í samræmi við fyrrnefndan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Stóðu ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, t.a.m. gr. 5.3.2.14, eða gildandi aðalskipulags því ekki í vegi. Var með hliðsjón af framangreindu ekki þörf fyrir Reykjavíkurborg að rannsaka nánar áhrif deiliskipulagsbreytingarinnar á umhverfi Elliðaánna. Verður ekki heldur séð að með afmörkun lóðar og byggingarreits hafi verið farið gegn meðalhófi eða þeim markmiðum skipulagslaga sem áður eru rakin. Skal áréttað í því sambandi að samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands var hús það sem um ræðir byggt árið 1958, eða um 10 árum áður en hús kærenda voru byggð.

Breytingartillagan var kynnt með almennri auglýsingu, hún afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði að kynningu lokinni, framkomnum athugasemdum kærenda og annarra svarað og tillagan staðfest í borgarráði lögum samkvæmt. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin ágöllum sem áhrif geta haft á gildi hennar og verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

Telji kærendur ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi hins umrædda húss eða lóðar ábótavant geta þeir þó beint því til byggingarfulltrúa að úrbóta kunni að vera þörf, sbr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 14. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar Þykkvabæjar 21.

151/2017 Laxalind

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. nóvember 2017 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar, vegna lóðarinnar nr. 15 við Laxalind.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóðarinnar Laxalindar 15, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. nóvember 2017 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar, vegna lóðarinnar Laxalindar 15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að lagt verði fyrir skipulagsráð og bæjarstjórn Kópavogsbæjar að gera þær breytingar á deiliskipulagi sem nauðsynlegar þyki til þess að fyrri ákvörðun skipulagsráðs vegna þessa máls geti gengið fram eða eftir atvikum að leysa úr máli kærenda á grundvelli réttmætra væntinga þeirra.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 7. febrúar 2018.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Í desember 2011 réðust kærendur í framkvæmdir við mannvirki á mörkum lóðanna Laxalindar 15 og Laxalindar 17, en á svæðinu er í gildi deiliskipulag Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar. Í maí 2012 fóru lóðarhafar Laxalindar 8, 10, 17 og 19 þess á leit við Kópavogsbæ að tekin yrði afstaða til lögmætis mannvirkjanna, en ekki hafði verið sótt um byggingarleyfi fyrir fram­kvæmdunum. Í kjölfarið fór byggingarfulltrúi fram á það við kærendur að framkvæmdir yrðu stöðvaðar, en jafnframt var bent á að unnt væri að óska eftir breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar. Var það og gert og á fundi skipulagsnefndar 18. mars 2014 var tekið fyrir erindi kærenda um breytingu á deiliskipulagi vegna fyrrnefndrar lóðar og var samþykkt að grenndar­kynna framlagða tillögu. Fól tillagan í sér að á lóðamörkum Laxalindar 15 og 17 yrði 26 m² opinn skáli, sem og skjólgirðing og væri mesta hæð hennar, séð frá Laxalind 17, um 1,7 m. Enn fremur var gert ráð fyrir 15,8 m² hjólaskýli á norðausturhorni lóðarinnar, á lóðamörkum við götu og við Laxalind 17. Mesta hæð við götu væri 1,6 m og hæsti punktur skýlisins 1,98 m. Að lokum var tillagan samþykkt á fundi skipulagsnefndar 5. júní 2014 og á fundi bæjarstjórnar 10. s.m., en þá mun framkvæmdum hafa verið lokið. Öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 20. s.m.

Hinn 16. júlí 2014 barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæra vegna deiliskipulagsbreytingarinnar frá lóðarhöfum Laxalindar 17. Kvað nefndin upp úrskurð 7. apríl 2016, í kærumáli nr. 74/2014, þar sem fyrrnefnd ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs var felld úr gildi. Í niðurstöðu úrskurðarins segir að það sé mat nefndarinnar að ekki hefðu verið skilyrði til fara með málið eftir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með ákvörðuninni hefði verið veitt fordæmi og með tilliti til jafnræðissjónarmiða hefði fremur átt að taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til að gera almenna breytingu á skilmálum skipulagsins í gildandi deiliskipulagi.

Á fundi skipulagsráðs 6. nóvember 2017 var lagt fram að nýju erindi kærenda um breytingu á deiliskipulagi vegna Laxalindar 15. Einnig voru minnisblöð lögfræðideildar Kópavogsbæjar frá 6. júní og 5. október s.á. lögð fram. Kemur fram í bókun skipulagsráð að ekki verði fallist á að víkja frá skilmálum deiliskipulagsins og veita þannig fordæmi á svæðinu fyrir svo umfangsmiklum mannvirkjum á lóðamörkum. Var beiðni kærenda því hafnað. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum 14. nóvember 2017.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að aðalforsenda hinnar kærðu ákvörðunar, eins og hún sé sett fram, virðist vera að Kópavogsbær vilji ekki veita fordæmi fyrir viðkomandi mannvirkjum á lóðarmörkum. Þessi forsenda standist aftur á móti ekki skoðun, þar sem fordæmið hafi þegar verið gefið af skipulagsyfirvöldum sveitarfélagsins með fyrra samþykki þeirra á umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi vegna Laxalindar 15. Breytingin hafi falið í sér samþykki skipulagsyfirvalda fyrir mannvirkjum þeim sem um ræði og vísað sé til í ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2017. Þannig hafi sveitarfélagið þegar samþykkt mannvirkin og þar með gefið fordæmi, sem það nú af óútskýrðum ástæðum telji sig ekki geta gefið, en sveitarfélagið geti ekki ómerkt það fordæmi. Enn fremur sé á þessu skipulagssvæði Kópavogsbæjar um að ræða fjöldamörg önnur fordæmi um hliðstæð mannvirki og jafnvel umfangsmeiri, sem fengið hafi að standa athugasemdalaust.

Mannvirkin hafi verið kostnaðarsöm fyrir kærendur. Það sé því augljóst að kærendur hafi mikla hagsmuni af því að fyrri ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs standi og að mannvirkin fái að standa óhögguð. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 74/2014, þar sem nefnt samþykki skipulagsnefndar hafi verið ógilt, sé á því byggt að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði til að fara með málið eftir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Enn fremur komi fram í niðurstöðu nefndarinnar að með ákvörðun skipulagsnefndar hafi verið veitt fordæmi og að úrskurðarnefndin telji að með tilliti til jafnræðissjónarmiða hafi fremur átt að taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til að gera almenna breytingu á skilmálum skipulagsins í gildandi deiliskipulagi. Ekki verði annað séð en að afgreiðsla skipulagsráðs frá 6. nóvember 2017 gangi þvert gegn framangreindri skoðun og ábendingu úrskurðarnefndarinnar. Þannig sé ljóst að skipulagsráð hafi með afgreiðslu sinni hunsað niðurstöðu nefndarinnar og hvorki tekið tillit til jafnræðissjónarmiða né þess fordæmis sem sett hafi verið.

Með afgreiðslu skipulagsráðs hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda sé ótvírætt að ákvörðun stjórnvaldsins hafi verið afar íþyngjandi fyrir kærendur. Það muni verða afar kostnaðarsamt og gríðarleg fyrirhöfn fyrir kærendur ef umrædd mannvirki fái ekki að standa. Enn fremur hafi jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga verið brotin, en ljóst sé að bæjaryfirvöld hafi ekki gætt samræmis og jafnræðis við afgreiðslu þessa máls.

Kærendur hafi haft réttmætar væntingar til þess að hin umþrættu mannvirki fengju að standa samkvæmt samþykki skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 5. júní 2014. Aðdragandi að samþykki skipulagsnefndar hafi verið langur. Vandlega hafi verið farið yfir viðkomandi málsatvik og þess gætt að málið væri upplýst sem best. Margir fundir hafi verið haldnir með aðilum og skilmerkilega farið yfir málið með bréfaskriftum. Þegar niðurstaða hafi loksins fengist hafi kærendur fyllilega haft réttmætar væntingar til þess að endanleg niðurstaða væri komin í málið.

Í grunninn snúist mál þetta ekki um neina lögvarða hagsmuni eigenda lóðarinnar Laxalindar 17. Þeir hafi ekki sýnt fram á að mannvirki þau sem um ræði skerði útsýni eða með nokkrum öðrum hætti hagsmuni þeirra, þ.m.t. hafi ekki verið sýnt fram á að einhver verðrýrnun hafi orðið á fasteign þeirra. Enda sé það svo að engin slík verðrýrnun hafi átt sér stað. Einnig skuli áréttað í þessu sambandi að umræddir eigendur hafi veitt samþykki sitt fyrir margnefndum mannvirkjum og hafi tvö óvilhöll vitni staðfest það.

Alvarlegar athugasemdir séu gerðar við málsmeðferð skipulagsráðs. Í bréfi skipulagsstjóra frá 23. nóvember 2017, þar sem reifuð sé forsaga og forsendur umræddrar ákvörðunar skipulags­ráðs, sé því alfarið sleppt að geta um fyrri afgreiðslu skipulagsnefndar. Skipulagsráð hafi því ekki haft til umfjöllunar þá ákvörðun bæjaryfirvalda sem skipti kærendur mestu máli. Enn fremur sé í inngangi bréfsins tekið fram að lögð séu fram minnisblöð lögfræðideildar Kópavogsbæjar, en í umfjöllun skipulagsnefndar um málefnið sé ekki með neinum hætti vísað í hvort byggt sé á einhverjum efnisatriðum þessara minnisblaða. Þess beri að geta að minnisblöð þessi hafi ekki fylgt afgreiðslu skipulagsráðs. Því sé kærendum ómögulegt að taka afstöðu til eða fjalla um þessi minnisblöð, þar sem ekki sé vitað hvort efnisatriði þeirra hafi haft áhrif á niðurstöðu skipulagsráðs. Ákvörðun skipulagsráðs sé því vanreifuð að þessu leyti og rökstuðningi hennar afar ábótavant. Verði það að teljast ámælisvert, þar sem kærendum sé þar með gert erfitt um vik að verja hagsmuni sína með eðlilegum hætti.

Í athugasemdum kærenda við greinargerð Kópavogsbæjar er m.a. vísað til þess að mannvirki þau sem um ræði hafi verið byggð, að stórum hluta til, síðari hluta árs 2011 og ekki hafi verið sýnt fram á neikvæð fordæmisáhrif vegna þeirra. Áréttað sé að fjöldamörg önnur fordæmi séu fyrir sambærilegum framkvæmdum í sama hverfi og raunar í sömu götu, eða að Laxalind 3, 5, 7, 8, 10, 12 og 13. Samkvæmt því eigi röksemdir skipulagsráðs Kópavogsbæjar, fyrir synjun á beiðni kærenda um breytingu á deiliskipulagi á þeim grundvelli að þar með væri veitt fordæmi fyrir umfangsmiklum mannvirkjum á lóðamörkum, ekki við nein haldbær rök að styðjast. Loks sé þess farið á leit að úrskurðarnefndin viðhafi vettvangskönnun vegna málsins.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að við fyrri meðferð umsóknar kærenda um breytt deiliskipulag árið 2014 hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að um væri að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, enda hafi tillagan verið grenndarkynnt á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Niðurstaðan hafi verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem hafi með úrskurði ekki fallist á fyrrnefnt mat skipulagsyfirvalda. Sveitarfélagið sé bundið af niðurstöðu úrskurðar­nefndarinnar og við síðari meðferð umsóknar kærenda um breytt deiliskipulag hafi þannig verið lagt til grundvallar að umbeðin breyting væri veruleg, vikið væri frá skilmálum varðandi umfang mannvirkja og fjarlægð þeirra frá lóðarmörkum og breytingarnar væru til þess fallnar að breyta útliti og formi svæðisins. Grundvöllur málsins hafi þar með breyst fullkomlega og hafi skipulagsyfirvöld tekið ákvörðun í málinu með hliðsjón af því.

Kærendur hafi vísað til þess að á hinu umrædda skipulagssvæði hafi hliðstæð mannvirki, og jafnvel umfangsmeiri, fengið að standa athugasemdalaust, en þó hafi ekki verið vísað til neinna raunverulegra dæma. Hin umdeildu mannvirki liggi að nær öllu leyti á lóða­mörkum Laxalindar 15 og 17, en í gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé tekið skýrt fram að „[g]irðing eða skjólveggur á mörkum lóða er alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggs og skal samþykkis leitað áður en hafist er handa við smíði girðingar eða skjólveggs.“ Ekkert liggi fyrir um hvort fordæmi þau sem kærendur vísi til séu mannvirki á lóðamörkum eða hvort samþykki nágranna liggi fyrir. Við meðferð skipulags­yfirvalda á umsókn kærenda hafi ekki verið talið að fyrir lægju fordæmi um breytingar á deiliskipulagi vegna svo umfangsmikilla framkvæmda á lóðamörkum í andstöðu við vilja nágranna.

Á árunum 2011 og 2012 hafi verið farið í byggingarleyfisskyldar framkvæmdir á lóðinni Laxalind 15, en þar hafi verið reist tvö hús utan byggingarreits og há skjólgirðing á lóða­mörkum. Hvorki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum áður en þær hófust né eftir ítrekaðar ábendingar byggingarfulltrúa þar að lútandi. Kærendur hafi haldið því fram við meðferð málsins að þeir hafi verið í góðri trú um að ekki þyrfti byggingarleyfi, auk þess sem þeir hafi upplýst byggingaryfirvöld um framgang framkvæmdanna og haft samráð um þær eftir maí 2012. Það geti aftur á móti ekki vikið úr vegi skýrri lagaskyldu um að sækja beri um byggingarleyfi fyrir umræddum framkvæmdum. Þá hafi kærendur ekki óskað eftir breytingu á deiliskipulagi áður en framkvæmdir hafi byrjað, en þær hafi ekki verið í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Eftir ítrekaðar ábendingar byggingarfulltrúa, fyrst í maí 2012, hafi lóðarhafi sótt um breytt deiliskipulag með bréfi, dags. 17. mars 2014, eða tæpum tveimur árum eftir fyrstu ábendingu byggingarfulltrúa. Breyting á deiliskipulagi hafi verið samþykkt af hálfu bæjarstjórnar 10. júní 2014 að lokinni grenndarkynningu, en með nefndum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hafi ákvörðunin verið felld úr gildi. Kærendur geti ekki haft réttmætar væntingar til þess að mannvirki, sem reist séu í óleyfi og í andstöðu við deiliskipulag, fái að standa, einfaldlega vegna þess að verulegum fjármunum hafi verið varið í byggingu þeirra.

Í athugasemdum lóðarhafa Laxalindar 17 vegna grenndarkynningar deiliskipulags­breytingarinnar, dags. 12. maí 2014, hafi m.a. komið fram að þau hefðu ekki „athugasemdir svo fremi sem framkvæmdir allar væru innan laga og reglna um slíkar framkvæmdir sem í hverfinu gilda.“ Í byggingarreglugerð sé ekki kveðið sérstaklega á um form samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna girðingar á lóðamörkum, sbr. gr. 7.2.3. Aftur á móti sé skriflegt samþykki forsenda þess að sýna megi fram á að það liggi fyrir. Í framkvæmd úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hafi enn fremur verið byggt á því að skriflegt samþykki skuli liggja fyrir í tilvikum sem þessum. Samkvæmt gögnum málsins hafi lóðarhafar Laxalindar 17 lýst því yfir munnlega að þau gerðu ekki athugasemdir við framkvæmdirnar svo lengi sem þær væru innan marka laga og reglna og hafi lögmaður þeirra staðfest það skriflega. Ekki sé hægt að fallast á að þar með liggi fyrir skriflegt samþykki fyrir skjólgirðingu á lóðamörkum, enda sé um að ræða afar opna munnlega yfirlýsingu bundna tilteknum skilyrðum. Verði þannig að telja ósannað, gegn andmælum þeirra, að samþykki lóðarhafa Laxalindar 17 hafi legið fyrir vegna hinna umdeildu framkvæmda.

Í frekari athugasemdum kærenda sé vísað til fordæma fyrir sambærilegum framkvæmdum, en ekki verði betur séð en að þau fordæmi varði hefðbundnar skjólgirðingar sem almennt séu undanþegnar byggingarleyfi, sbr. f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Þá skipti jafnframt máli hvar girðingar séu staðsettar á lóðinni, þ.e. hvort þær standi á lóðamörkum aðliggjandi lóðar, sem þær virðist ekki allar gera. Einnig sé ítrekað að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar sé nauðsynlegt ef skjólgirðing sé staðsett við lóðamörk. Ekkert af greindum fordæmum hafi þurft aðkomu bæjaryfirvalda og verði því að ætla að þar ríki sátt á milli aðila.

—–

Ekki var talin þörf á að kanna aðstæður á vettvangi, enda telst málið nægjanlega upplýst, sbr. 4. málsl. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs að synja beiðni kærenda um breytingu á deiliskipulagi Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar, vegna lóðarinnar Laxalindar 15.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að lagt verði fyrir skipulagsráð og bæjarstjórn Kópavogsbæjar að gera þær breytingar á deiliskipulagi sem nauðsynlegar þykja til þess að fyrri ákvörðun skipulagsráðs vegna málsins geti gengið fram eða eftir atvikum að leysa úr máli kærenda á grundvelli réttmætra væntinga þeirra.

Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Unnt er að óska eftir því við sveitarstjórn að deili­skipulagi sé breytt en einstakir aðilar eiga almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Við meðferð slíkrar umsóknar ber sveitarstjórn aftur á móti að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar.

Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að með samþykki deiliskipulagsbreytingarinnar yrði vikið frá skilmálum deiliskipulagsins og veitt fordæmi á svæðinu fyrir umfangsmiklum mannvirkjum á lóðamörkum. Eru þau rök málefnaleg, enda felst í skipulagsvaldi sveitarstjórnar tæki til að þróa byggð í sveitarfélaginu. Þá verður heldur ekki talið að kærendur hafi mátt hafa réttmætar væntingar til þess að efni eldri ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. júní 2014, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Laxalindar 15, fengi fram að ganga. Var enda sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamál, sem felldi hana úr gildi með úrskurði í máli nr. 74/2014. Geta kærendur því ekki byggt rétt á efni þeirrar ákvörðunar og felst ekki í henni fordæmi, svo sem þeir halda fram.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í því felst að aðilar í sambærilegum aðstæðum skuli hljóta sambærilega afgreiðslu. Í athugasemdum kærenda er vísað til þess að sambærilegar framkvæmdir sé m.a. að finna í sömu götu, en samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ er ekki um að ræða framkvæmdir sem bæjaryfirvöld hafa haft aðkomu að.  Hin umdeildu mannvirki í máli þessu eru girðing á lóðamörkum, 15,8 m2 hjólaskýli við lóðamörk og opinn 26 m2 skáli á lóðamörkum, og er að áliti úrskurðarnefndarinnar ekki um sambærileg mannvirki að ræða á þeim lóðum sem kærendur vísa til. Á annan tug breytinga hafa verið samþykktar á deiliskipulagi Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar, frá því að það var samþykkt á árinu 1995. Einungis ein þeirra breytinga var fyrirhuguð vegna framkvæmda á lóðamörkum, en að fengnum athugasemdum var framkvæmdin færð 50 cm frá mörkunum og lá fyrir skriflegt samþykki eiganda aðliggjandi eignar við samþykkt breytingarinnar. Að framangreindu virtu verður ekki séð að bæjarstjórn Kópavogs hafi með synjun á breytingu deiliskipulags Laxalindar 15 brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. nóvember 2017 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna Laxalindar 15.

141/2018 Brekkukot

Með

Árið 2019, föstudaginn 1. mars tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 141/2018 kæra vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. október 2018 um breytingar á aðalskipulagi Mosfellsbæjar og framkvæmda í landi Brekkukots í Mosfellsdal

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2018, er barst nefndinni 12. s.m., kærir eigandi, Fífuhjalla 1, Kópavogi, ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. október 2018 um breytingu á Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 og framkvæmdir í landi Brekkukots í Mosfellsdal. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða aðalskipulagsbreyting verði felld úr gildi og greindar framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 18. febrúar 2019.

Málsatvik og rök: Hinn 31. október 2018 samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar breytingu á Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 vegna stakra íbúðarhúsa í Mosfellsdal. Í breytingunni fólst heimild til að byggja íbúðarhús til viðbótar þeim sem fyrir væru á landareignum/lóðum Móatúni, Brekkukoti, Sigtúni og Mosfelli í Mosfellsdal. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna 10. desember 2018 og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember s.á.

Af hálfu kæranda er á það bent að engin grenndarkynning hafi farið fram á hinni kærða aðalskipulagsbreytingu, líkt og kveðið sé um í lögum. Skýrt sé tekið fram í afsali fyrir sumarhúsi kæranda sem liggi að lóðinni Brekkukoti að óheimilt sé að reisa nokkrar byggingar á melunum fyrir neðan landspilduna nema samþykki eigenda hennar komi til. Á lóðinni Brekkukoti hafi nú hins vegar risið mikið mannvirki sem virðist mun stærra en íbúðarhúsið að Brekkukoti og sé notað sem íbúðarhús þó eigandi kalli það geymslur.

Af hálfu Mosfellsbæjar er tekið fram að bærinn hafi ekki úthlutað neinum lóðum til búsetu í Brekkukotslandi enda sé Mosfellsbær ekki eigandi jarðnæðis á því svæði. Einungis hafi verið samþykkt breyting á aðalskipulagi sem sé almenns eðlis og taki til fleiri lóða en Brekkukots. Þá hafi hvorki byggingar- né framkvæmdaleyfi verið gefin út og hafi vettvangskannanir skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa á svæðinu ekki gefið til kynna að nýjar byggingarframkvæmdir hafi verið þar hafnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. ml. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tekur aðalskipulag gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. ml. 3. mgr. 32. gr. nefndra laga. Hin kærða aðalskipulagsbreyting var staðfest af Skipulagsstofnun 10. desember 2018 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. s.m.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá liggur ekki fyrir að ákvarðanir um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum í landi Brekkukots hafi verið teknar sem kæranlegar eru til úrskurðar-nefndarinnar. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

91/2018 Berserkseyri

Með

Árið 2019, föstudaginn 1. mars tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 91/2018, kæra vegna aðgerðarleysis Grundafjarðarbæjar í tengslum við lagningu vatnslagnar í landi Berserkseyrar Ytri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Blikaási 8, Hafnarfirði, aðgerðarleysi Grundarfjarðarbæjar í tengslum við lagningu vatnslagnar í landi Berserkseyrar Ytri. Er þess krafist að úrskurðarnefndin hlutist til um að landeigandinn að Berserkseyri fjarlægi vatnslögnina ásamt tilheyrandi lokunarbúnaði úr landi Berserkseyrar Ytri sem fyrst.

Gögn málsins bárust frá Grundafjarðarbæ 20. júlí 2018.

Málsatvik og rök: Eigendur jarðarinnar Berserkseyrar lögðu vatnslögn sem fór að hluta til inn á jörðina Berserkseyri Ytri. Samkvæmt fundargerð umhverfis– og skipualgsnefndar bæjarins samþykkt nefndin 1. febrúar 2018 breytt aðalskipulag Berserkseyrar og deiliskipulag þar sem m.a. var gert ráð fyrir vatnslögn um land Berserkseyrar Ytri að íbúðarhúsi að Berserkseyri. Þá var tekið fram að þegar til framkvæmda kæmi á deiliskipulagssvæðinu þyrfti að færa vatnslögn vegna frístundabyggðarinnar út fyrir byggingarreit að Berserkseyri Ytri á kostnað eigenda Berserkseyrar. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar hinn 8. febrúar 2018.

Kærendur benda á að þeir séu hluti erfingja að jörðinni Berskerseyri Ytri og sé ætluð sú landspilda sem nefnd vatnslögn muni liggja að hluta til um samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Eigi þeir því lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi legu lagnarinnar. Vatnslögn ásamt lokunarbúnaði hafi verið lögð yfir deiliskipulagt byggingarsvæði Berserkseyrar Ytri. Lagning umræddrar vatnslagnar hafi ekki verið gerð í samráði við sveitarfélagið. Eftir nokkur samskipti við bæjarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa Grundarfjarðar hafi skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnt að samþykkt hefði verið í umhverfis- og skipulagsnefnd 1. febrúar 2018 að vatnslögnin ásamt lokunarbúnaði yrði fjarlægð þegar kærendur hæfu byggingarframkvæmdir á landinu. Telja kærendur að um lögbrot skv. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé að ræða þar sem ekki hafi fengist framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu fyrir framkvæmdinni. Því beri að fjarlægja lögnina sem fyrst úr landi Berserkseyrar Ytri.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að vísa eigi kærunni frá af þeirri ástæður að kærendur séu ekki þinglýstir eigendur lands þess sem til umfjöllunar er. Því hafi þeir ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun líkt og krafa sé gerð um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þinglýstur eigandi sé móðir annars kæranda og virðist kæran, samkvæmt gögnum sem sveitarfélagið hafi undir höndum, vera í andstöðu við vilja hennar. Lagning vatnslagnarinnar hafi verið í fullu samráði við sveitarfélagið og stríði að mati þess ekki gegn skipulagsákvörðunum. Í samþykkti skipulags- og umhverfisnefndar Grundafjarðarbæjar frá 1. febrúar 2018 komi einnig skýrt fram að verði vatnslögnin fyrir á hinu skipulagða svæði þegar til framkvæmda komi muni hún verða færð á kostnað landeiganda Berserkseyrar.

 Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuna að gæta vegna kæranlegrar ákvörðunar.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskár Íslands telja kærendur hvorki til beinna né óbeinna eignarréttinda er tengjast landi Berserkseyrar Ytri og þar með því landi sem umdeild vatnslögn mun liggja um. Hafa þeir því engan lögvarinn rétt til íhlutunar um ráðstöfun eða notkun þess lands. Þótt annar kærenda væri lögerfingi eiganda umræddrar landsspildu veitir það honum ekki lögvarinn réttindi tengd umræddri eign fyrr en hún eftir atvikum félli í hans hlut við dánarbúskipti.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem ekki hafa komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kærumáli þessu vísað frá  úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

134/2017 og 8/2019 Þrastargata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna lóðanna Þrastargötu 1 og 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. nóvember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húss að Þrastargötu 7, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Fálkagötureits vegna lóðanna Þrastargötu 1 og 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. janúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. s.m. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á lóðinni nr. 5 við Þrastargötu. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að sami aðili stendur að báðum kærumálunum, og að hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, verður síðara kærumálið, sem er nr. 8/2019, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. janúar 2018 og 11. febrúar 2019.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Fálkagötureits sem samþykkt var á árinu 2008 og tekur m.a. til lóðanna Þrastargötu 1 og 5. Meðal markmiða skipulagsins samkvæmt greinargerð þess er að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum á forsendum þeirrar byggðar sem þar er fyrir. Þá segir í skilmálum um byggðamynstur að hafa beri í huga mælikvarða þeirrar byggðar sem fyrir sé á svæðinu. Samkvæmt grein 1.A í skilmálum deiliskipulagsins er heimilt að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsa.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. ágúst 2016 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á lóðinni nr. 5 við Þrastargötu, en leyfið fól í sér að flatarmál bygginga á lóðinni fór úr 67,2 m2 í 86,1 m2, eða aukningu um 28%. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem felldi leyfið úr gildi með úrskurði uppkveðnum 8. desember 2016 í máli nr. 126/2016. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að almennir skilmálar deiliskipulagsins, um heimild til að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna, gæti ekki tekið til þeirrar stækkunar hússins sem um ræddi í málinu.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. mars 2017 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits. Í breytingunni fólst heimild til að byggja við húsið að Þrastargötu 5, að lóðin Þrastargata 1 verði aftur hluti sameiginlegrar lóðar Þrastargötu 1-11, Smyrilsvegar 29 og 31, skilgreining kvaða um gangstíga og aðkomu neyðarbíla og árétting á skilmálum um fjölda bílastæða. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna og fól jafnframt skipulagsfulltrúa að upplýsa íbúa í nágrenninu sérstaklega um auglýsinguna. Var tillögunni vísað til borgarráðs, sem samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 6. apríl s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 10. apríl til 22. maí s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kæranda. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 30. ágúst s.á. ásamt ódagsettu bréfi eiganda fasteignarinnar að Þrastargötu 5, mótteknu af Reykjavíkurborg 22. ágúst s.á., og umsögn skipulagsfulltrúa frá 28. s.m. um framkomnar athugasemdir. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna með breytingum þeim sem settar voru fram í umsögn skipulagsfulltrúa og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 7. september s.á. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. október 2017.

Hinn 30. október 2018 sótti eigandi Þrastargötu 5 um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á grundvelli hins breytta deiliskipulags. Byggingar­fulltrúinn í Reykjavík samþykkti byggingaráform fyrir viðbyggingunni hinn 22. janúar 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í gr. 1.A í skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits sé gerð grein fyrir almennum byggingarmöguleikum á lóðum, en þar segi m.a. að heimilt sé að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna. Í skilmálunum séu framangreindir almennir byggingarmöguleikar heimfærðir á einstakar lóðir og þar komi fram að lóðarhlutinn að Þrastargötu 5 sé fullbyggður. Þrastargata 5 sé hluti sameiginlegar lóðar Þrastargötu 3, 3b, 4, 5, 7, 7b, 8, 9, 10 og 11 og Smyrilsvegar 29 og 31. Byggðamynstur Þrastargötu njóti verndar samkvæmt deiliskipulagi. Húsið við Þrastargötu 5 teljist samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands 58,9 m2 með 8,3 m2 geymslu. Í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits komi fram varðandi uppbyggingu á reitnum að breytingar þurfi að taka „mið af mælikvarða byggðar og hlutföllum húsa. Sýna þurfi sérstaka aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga.“ Við gerð deiliskipulagsins hafi farið fram mat á því hvar uppbygging væri heimil og ekki til þess fallin að raska hinu verndaða byggðamynstri. Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að heimila ekki uppbyggingu að Þrastargötu 5 í deiliskipulagi, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 56/2008.

Í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits segi um fjölda bílastæða: „Gert er ráð fyrir 1 bílastæði fyrir hverja nýja íbúð undir 80 m2 en 2 stæði fyrir íbúðir stærri en 80 m2 í samræmi við byggingarreglugerð.“ Samkvæmt lágmarkskröfum deiliskipulagsins þurfi því að vera samtals 27 bílastæði á hinu deiliskipulagða svæði. Á mæliblaði fyrir hina sameiginlegu lóð sé að finna kvöð fyrir 39 bílastæði. Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé sérstaklega tekið fram að breyttar kröfur samkvæmt stefnu skipulagsins séu ekki afturvirkar fyrir samþykkt deiliskipulag.

Deiliskipulagsbreytingin taki í fyrsta lagi til þess að sérstökum skilmálum fyrir Þrastargötu 5 sé breytt á þann veg að heimilað sé að reisa viðbyggingu á lóðinni í samræmi við samþykkt byggingaráform, sem felld hafi verið úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 126/2016. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni sé rakið að Þrastargata 5 sé 67,2 m2 að stærð, en verði eftir breytinguna 86,1 m2. Ekki sé fjallað um að svo mikil stækkun á húsinu muni hafa áhrif á skerðingu bílastæða og stærð hinnar sameiginlegu lóðar. Í öðru lagi feli deiliskipulagsbreytingin í sér að lóðin að Þrastargötu 1 sé sameinuð fyrrnefndri sameiginlegu lóð en ekki sé fjallað um áhrif sameiningarinnar á fjölda bílastæða á reitnum.

Að því er varði byggingaráformin að Þrastargötu 5 telji kærandi í fyrsta lagi að viðbygging sem heimilað sé að reisa að Þrastargötu 5 hafi áhrif á hagsmuni hans. Hún muni hafa áhrif frá húsi og garði til austurs frá Þrastargötu 7. Samhliða deiliskipulagsbreytingunni hafi ekki verið kannað skuggavarp og áhrif þess, eins og venja sé í eldri þéttari byggðum. Sá annmarki feli í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi annmarki sé sérlega alvarlegur þar sem byggðamynstur Þrastargötu sé verndað.

Í öðru lagi sé annmarki á málsetningu á viðbyggingu við Þrastargötu 5, sem heimilað sé að reisa samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni segi að eigandi Þrastargötu 5 hafi óskað eftir heimild til að stækka húsið til austurs ásamt því að fjarlægja skúr og reisa lægri viðbyggingu í hans stað. Sú lýsing sé ekki rétt þar sem gögn málsins sýni að viðbyggingin sé ekki lægri en þrír metrar. Þá sé viðbygging til suðausturs ekki málsett á hæðina en sá hluti breytingarinnar muni hafa hvað mest áhrif á hagsmuni kæranda. Breidd þess hluta viðbyggingar sé málsett 3,35 m en núverandi breidd á skúr samkvæmt samþykktum aðaluppdrætti frá 9. maí 1984 sé 2,76 m. Því sé um breikkun að ræða þótt fullyrt sé í umsögn skipulagsfulltrúa að viðbygging eigi að vera í samræmi við núverandi skúr. Óvíst sé hvort vísað sé til hins ólöglega skúrs og hann notaður sem viðmið. Verði að telja það verulega ómálefnalegt ef miðað sé við hinn ólöglega skúr sem sé hærri en leyfileg hámarkshæð skúra samkvæmt byggingarreglugerð og deiliskipulagi. Skúrar séu ekki byggingarleyfisskyldir ef þeir séu undir 2,5 m og minni en 15 m2 samkvæmt byggingarreglugerð. Viðmið hljóti einvörðungu að eiga við um löglega skúra. Lagfærður deiliskipulagsuppdráttur sýni ekki málsetningu einnar hæðar viðbyggingar þar sem nú standi hinn ólöglegi skúr. Verði að telja það verulegan annmarka.

Í þriðja lagi séu byggingaráformin í andstöðu við almenna skilmála deiliskipulags Fálkagötu­reits, en skilmálarnir séu bindandi, sbr. 21. tl. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Viðbyggingin sem heimiluð sé samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni feli í sér a.m.k. 28% aukningu á byggingarmagni á lóðarhlutanum. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi staðfest að aukning byggingarmagns um 28% gæti aldrei talist „lítil“ og rúmist því ekki innan greinar 1.A í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits. Óhjákvæmilega hefði þurft að breyta þeim samhliða breytingum á sértækum skilmálum fyrir lóðarhlutann að Þrastargötu 5.

Með deiliskipulagsbreytingunni sé einvörðungu verið að heimila að byggja viðbyggingu í samræmi við almenna skilmála deiliskipulagsins. Þó svo að stærð viðbyggingar sé tilgreind í deiliskipulagsbreytingunni breyti það því ekki að hún geti ekki talist „lítil“. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni sé talað um að aukning um 30% sé ekki mikil á þeim forsendum að húsið að Þrastargötu 5 sé lítið. Það geti ekki átt við þegar talað sé um hlutfallslega aukningu. Horfa verði sjálfstætt á hvern lóðarhluta og hlutfallslega aukningu á byggingarmagni á honum, enda hafi breytingar sem þessar áhrif á byggðamynstur. Mælikvarði á hvort viðbygging geti talist „lítil“ taki eðli málsins samkvæmt mið af því húsi sem verið sé að byggja við.

Við meðferð tillögu að deiliskipulagsbreytingunni hafi verið fjallað um þá aukningu á byggingarmagni sem hafi verið heimiluð á húsi kæranda að Þrastargötu 7 samkvæmt gildandi deiliskipulagi Fálkagötureits. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hafi verið heimilað að „endurbyggja húsið“ að Þrastargötu 7 í hæð aðlægra húsa. Þá hafi legið fyrir skilgreindur byggingarreitur fyrir nýtt hús samkvæmt deiliskipulagsuppdrættinum þegar kærandi eignaðist húsið. Þegar núverandi eigandi Þrastargötu 5 hafi eignast hús sitt eftir gildistöku deiliskipulagsins frá 2008 hafi honum mátt vera ljóst að ekki væru til staðar heimildir til stækkunar að Þrastargötu 5.

Við gerð deiliskipulags Fálkagötureits á árinu 2008 hafi farið fram mat á því hvaða byggingaráform væru til þess fallin að taka „mið af mælikvarða byggðar og hlutföllum húsa“. Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að heimila ekki uppbyggingu að Þrastargötu 5 í deili­skipulaginu. Heimiluð byggingaráform samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni falli því ekki að markmiðum deiliskipulagsins og skipulagsáherslum.

Í fjórða lagi hafi við meðferð deiliskipulagstillögunnar hvorki verið leitað eftir áliti Minjastofnunar né Borgarsögusafni þrátt fyrir að byggðamynstur við Þrastargötu sé verndað. Málsmeðferðin sé því andstæð rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði talið að ekki hafi verið skylt að leita eftir slíku áliti fyrr en uppdrættir liggi fyrir sé bent á að form og hlutföll viðbyggingar séu ákveðin í deiliskipulagsbreytingunni og málsett að hluta. Engin rök standi til þess að bíða með að leita eftir slíku áliti þegar deiliskipulagsbreytingin sé gagngert samþykkt til að heimila tiltekin byggingaráform.

Að því er varði sameiningu Þrastargötu 1 við hina sameiginlegu lóð byggi kærandi á því að til þess hefði þurft samþykki allra lóðarhafa hinnar sameiginlegu lóðar, en sameiningin hafi áhrif á sameiginlega ákvarðanatöku innan sameignarinnar. Bent sé á að Reykjavíkurborg hafi átt lóðina að Þrastargötu 1 á undan núverandi eiganda. Þvert á það sem fram komi í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni þá muni fækkun bílastæða hafa áhrif á hagsmuni kæranda þar sem sameiningin feli í sér skerðingu á þeim bílastæðum sem fyrir séu á lóðinni og gert sé ráð fyrir á uppdrætti, en eins og áður greini sé þar kveðið á um fjölda bílastæða umfram þann fjölda sem tryggður sé í gildandi deiliskipulagi. Þá muni sameiningin í öllu falli hafa í för með sér skerðingu á stærð hinnar sameiginlegu lóðar eins og hún komi fram í lóðarleigusamningi og á mæliblaði með honum, þ.e. að hluti lóðarinnar fari undir bílastæði fyrir lóðarhafa að Þrastargötu 1. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni sé ekki fjallað um þá skerðingu á bílastæðum sem stækkun Þrastargötu 5 muni hafa í för með sér. Afla þurfi samþykkis allra lóðarhafa hinnar sameiginlegu lóðar fyrir stækkuninni. Aðalskipulag horfi til framtíðar og geti ekki haft afturvirk áhrif á lágmarksrétt sem tryggður sé samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Það sé annmarki á málinu að hagur heildarinnar hafi ekki verið hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem svo mikil aukning á nýtingarhlutfalli hafi áhrif á verndað byggðamynstur og kunni að skapa fordæmi. Þá sé málsmeðferð Reykjavíkurborgar gagnrýnd. Bréf eiganda Þrastargötu 5 hafi verið tekið inn í skipulagsferlið þrátt fyrir að hafa borist að athugasemdafresti liðnum. Þar komi fram alvarlegar og rangar ávirðingar í garð kæranda. Verði að telja ómálefnalegt að hafa litið til þess við meðferð tillögunnar.

Eftirfarandi athugasemdir séu gerðir við samþykkta aðaluppdrætti. Í grein 1.A í deiliskipulagsskilmálum Fálkagötureits komi fram að heimilt sé að byggja kvisti á helmingi þakflatar og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum sé fjarlægðarviðmið ekki virt og sé því um sjálfstæðan annmarka að ræða, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 100/2017.

Eigandi Þrastargötu 9 hafi sent fyrirspurn um stækkun viðbyggingar á sínu húsi til vesturs um 1,8 m. Í svari Reykjavíkurborgar segi að við þá aðgerð raskist fínleg hlutföll núverandi húss. Ekki sé hægt að fallast á erindið en hafi eigandi Þrastargötu 9 áhuga á hóflegri stækkun skuli hann leita eftir umsögn Borgarsögusafns Reykjavíkur. Með hliðsjón af svari Reykjavíkurborgar geti hin kærðu byggingaráform ekki talist vera í samræmi við framangreint, enda um að ræða stærri viðbyggingu en fyrirspurn eiganda Þrastargötu 9 hafi lotið að, sbr. einnig 11. gr. stjórnsýslulaga.

Af aðaluppdráttum verði ráðið að hæð á viðbyggingu sem snúi að Þrastargötu sé ekki málsett. Eingöngu sé málsett hæð viðbyggingar frá gólfplötu hennar. Því sé ekki rétt fram sett sú hæð sem verði á viðbyggingu við Þrastargötu 5. Ætla megi að 600 til 800 mm bætist við hæð útveggjar þegar mælt sé frá Þrastargötu. Engir hæðarkótar séu á teikningum sem geri grein fyrir þessari hæð.

Hin samþykkta viðbygging sé í andstöðu við fyrirmæli um brunavarnir í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ekki sé að sjá að uppfyllt séu fyrirmæli gr. 6.7.6. um að í þakherbergjum og kvistherbergjum íbúða megi meðalhæð vera minnst 2,20 m, enda sé lofthæðin minnst 2,50 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis. Þá komi fram í gr. 6.7.14. að veggsvalir bygginga skuli vera a.m.k. 4,0 m2 að stærð og ekki mjórri en 1,60 m. Á aðaluppdráttum sé dýpt svala hins vegar einvörðungu sýnd 1,0 m. Fram komi á aðaluppdráttum að um björgunarsvalir sé að ræða, en í gr. 9.5.5. segi: „Björgunarop í byggingum eru auðopnanlegir gluggar eða hlerar sem nota má við flótta úr eldsvoða til öruggs svæðis og til að gera vart við sig. Gluggar skulu vera hliðarhengdir, rennigluggar eða á láréttum snúningsás og þá skal vera hægt að opna án lykils eða annarra verkfæra. Breidd björgunaropsins skal vera minnst 0,60 m og hæðin minnst 0,60 m […].“ Ljóst sé að gluggar viðbyggingarinnar séu topphengdir auk þess sem þeir séu ekki málsettir til að uppfylla kröfur um lágmarksstærð þeirra. Þá komi fram í gr. 9.7.5. að bil milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra. Bent sé á að fjarlægð á milli Þrastargötu 3 og 5 sé ekki málsett á afstöðumynd eða grunnmynd. Það liggi ekki fyrir útreikningar á geislun á milli bygginganna en Reykjavíkurborg hafi gert kröfu um slíkt í öðrum sambærilegum málum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að breyting á deiliskipulaginu hafi verið gerð til að taka af öll tvímæli um að heimild væri fyrir viðbyggingu við Þrastargötu 5 í deiliskipulagsskilmálum. Líta beri til þess að Þrastargata 5 sé með minnstu húsum við botnlangann, eða 67,2 m2 samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en um sé að ræða rúmlega 18 m2 viðbyggingu. Þær byggingarheimildir sem tilteknar séu á lóðum við Fálkagötu 2, 4, 7, 10, 20, 25, 26 og 30 og Suðurgötu 100 heimili miklu meira byggingarmagn en þær almennu heimildir sem gildi á reitnum um litlar viðbyggingar. Viðbygging sé í takti við markmið deiliskipulagsins um hæfilega uppbyggingu og endurnýjun á reitnum. Viðbyggingin sé bæði í samræmi við byggingarstíl hússins og sé óveruleg. Hún sé því innan allra heimilda sem deiliskipulagið kveði á um. Einnig taki hin nýja viðbygging mið af því byggðamynstri sem fyrir sé og njóti verndar í gildandi deiliskipulagi, sem felist í því að hönnunin taki tillit til einkenna nærliggjandi byggðar hvað varði efnisval, þakgerð og mælikvarða. Að því er varði stækkun hússins við Þrastargötu 5 vegna viðbyggingarinnar þurfi að líta til þess að það sé með minnstu húsum við botnlangann. Því sé ekki rétt að miða við 30% stækkun þegar um sé að ræða 17,9 m2 viðbyggingu á mjög litlu húsi.

Þegar gerður hafi verið samningur árið 1984 við eigendur húsanna að Þrastargötu 3, 3b, 5, 5a, 7, 7a, 9 og 9a hafi Þrastargata 1 ekki verið talin með þar sem þar hafi ekkert hús staðið. Því hafi hún verið talin sem sérstök lóð. Árið 1989 hafi verið gefinn út lóðauppdráttur og þar séu lóðamörkin óskýr, en sjá megi að Þrastargata 1 sé talin með í hinni sameiginlegu lóð. Árið 2005 hafi lóðunum verið breytt og Þrastargata 1 tekin út úr hinni sameiginlegu lóð. Með samþykktum skipulagsnefndar 4. janúar 1993 og borgarráðs 5. s.m. hafi útivistarsvæði að Þrastargötu 1 verið samþykkt. Með samþykktum skipulags- og umferðarnefndar 27. október 1997 og borgarráðs 28. s.m. hafi lóð Suðurgötu 100 verið stækkuð. Það sjáist á þeim uppdráttum að Þrastargata 1 hafi verið innan sameinaðrar lóðar til ársins 1993. Því sé eðlilegt að Þrastargata 1 verði aftur hluti sameinaðrar lóðar. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um skipulagsforsendur innan sveitarfélagsins, m.a. um stærðir lóða og fjölda þeirra. Þá sé óheimilt að skipta jörðum, löndum, lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til, sbr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ekki sé heimilt að sameina lóðirnar án breytingar á deiliskipulagi.

Núverandi deiliskipulagsskilmálar um bílastæði gildi áfram. Þar sé gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja nýja íbúð undir 80 m2, en tvö stæði fyrir íbúðir stærri en 80 m2. Á hinni sameiginlegu lóð séu nú 36 bílastæði, en eins og kærandi bendi á þurfi einungis 27 bílastæði til að uppfylla bílastæðabókhaldið fyrir lóðina. Fjöldi bílastæða á lóðinni sé talsvert meiri en gert sé ráð fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og því sé nægilegt svigrúm til að sameina aftur lóðina að Þrastargötu 1 við hina sameiginlegu lóð án þess að ganga á þær heimildir sem fyrir séu. Ekki sé verið að fjölga bílastæðum fyrir Þrastargötu 5 og einungis eitt stæði muni fylgja Þrastargötu 1.

Samkvæmt 30. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 sé eigendum húsa og mannvirkja sem byggð hafi verið á árinu 1925 eða fyrr skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands ef þeir hyggðust breyta þeim, flytja þau eða rífa. Ekki sé hægt að bera saman framkvæmdir kæranda að Þrastargötu 7 og þær framkvæmdir sem heimilaðar séu með byggingarleyfinu að Þrastargötu 5. Kærandi hafi þurft að leita eftir áliti Minjastofnunar á sínum tíma þegar hann hafi óskað eftir því að rífa hús sem byggt hafi verið árið 1925, þar sem hús nr. 7 standi nú, og byggja nýtt staðsteypt hús í staðinn. Hér sé verið að tala um litla viðbyggingu, sem sé í samræmi við byggðamynstur og hlutfall hússins, á hús sem sé byggt árið 1944 og sé því ekki umsagnarskylt, eins og kærandi haldi fram. Reykjavíkurborg vísi því á bug að rannsóknarregla og jafnræðisregla hafi verið brotin með nokkru móti.

Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við það deiliskipulag sem gildi fyrir Þrastargötu 5, og gætt hafi verið að málsmeðferðarreglum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Í breytingu á deiliskipulagi fyrir Þrastargötu 5 hafi verið settur inn uppdráttur sem sé ítarleg teikning miðað við að um deiliskipulag sé að ræða. Á grunn- og útlitsmynd komi fram að bæði brunasvalir og svalahurð verði á viðbyggingunni. Skýrt sé tekið fram hvernig Þrastargata 5 skuli líta út eftir breytinguna. Þessi uppdráttur sé skilgreindur sem sérskilmálar fyrir Þrastargötu 5 og því eigi ekki almennir skilmálar deiliskipulags Fálkagötureits við húsið. Þá sé ekki hægt að byggja á því að svar Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Þrastargötu 9 eigi við um Þrastargötu 5, enda um tvö gjörólík hús að ræða. Á upp­drættinum séu allar hæðarmerkingar settar inn. Yfirleitt séu ekki settar inn mælingar á útlitsmynd hússins heldur í sniðmynd og teljist það nægjanlegt. Á deiliskipulagsuppdrættinum og teikningunum komi fram að viðbyggingin verði 5,48 m að hæð.

Að því er varði ákvæði byggingarreglugerðar um lofthæð og birtuskilyrði íbúðahúsa þá sé ekki verið að bæta við herbergi heldur að stækka þau sem fyrir séu. Þegar breyting eigi sér stað á eldri húsum, sem byggð hafi verið samkvæmt eldri byggingarreglugerðum, sé ekki hægt að krefjast þess að stærð herbergja uppfylli þær kröfur sem gerðar séu í dag. Um sé að ræða smágert einbýlishús og viðbyggingin sé hönnuð með tilliti til stærðar og lögunar eldra húss.

Búið sé að fella úr gildi gr. 6.7.14. í byggingarreglugerðinni, sem kveðið hafi á um lágmarks­stærð svala. Í gr. 6.7.6. í reglugerðinni sé fjallað um svalir og svalaskýli, en þar segi: „Svalir skulu vera öruggar og henta til fyrirhugaðra nota.“ Fyrirhugaðar svalir séu svokallaðar björgunarsvalir og svalahurð sé með sérstöku brunaheldu gleri. Þá séu gluggar á efri hæð ekki skilgreindir sem björgunarop. Þess vegna hafi svalir og svalahurð verið settar og skilgreindar sem björgunarleið af efri hæðinni. Að því er varði fjarlægð milli Þrastargötu 5 og 3 þá séu tæpir 5 m á milli húsanna og það teljist nægjanlegt þar sem Þrastargata 3 sé steinsteypt hús með brunagafli og Þrastargata 5 með brunamótstöðu EI60. Forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi yfirfarið teikningarnar áður en þær hafi verið samþykktar og ekki gert athugasemd varðandi fjarlægð á milli húsanna, enda talið hana uppfylla kröfur skv. töflu 9.09 í byggingarreglugerðinni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hin fyrirhugaða viðbygging sé inndregin og því muni kærandi ekki sjá neitt af viðbyggingunni frá lóð sinni. Fyrir liggi að eigendur húsa sem standi næst austurgafli Þrastargötu 5 hafi allir gefið skriflegt samþykki fyrir framkvæmdunum, en ólíkt húsi kæranda muni viðbyggingin sjást frá þeim húsum.

Hin fyrirhugaða viðbygging sé í samræmi við verndun byggðamynsturs og falli vel inn í götumyndina. Umrætt hús sé lágreist og lítið, viðbyggingin sé inndregin á öllum hliðum og í samræmi við byggingarstíl húsanna við Þrastargötu. Það sé leyfishafa nauðsynlegt að fara í breytingarnar. Með hliðsjón af lögum nr. 75/2000 um brunavarnir þá séu engir bruna- eða neyðarútgangar af efri hæð hússins og það samrýmist ekki lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Á efri hæð hússins sé aðeins einn þröngur útgangur og þar sofi börn. Það sé því beinlínis hættulegt ástand sem leyfishafi búi við. Þá eigi leyfishafi tvö fötluð börn í hjólastólum sem þurfi að hafa afdrep á neðri hæð hússins þegar þau dvelji þar. Það náist einungis með því að fara í þær framkvæmdir sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Fálkagötureits, sem felur m.a. í sér heimild til að byggja við húsið að Þrastargötu 5 og að lóðin Þrastargata 1 verði aftur hluti sameiginlegrar lóðar Þrastargötu 1-11 og Smyrilsvegar 29 og 31. Þá eru í breytingunni áréttaðir skilmálar um fjölda bílastæða. Einnig er deilt um lögmæti samþykktar byggingarleyfis fyrir nefndri viðbyggingu að Þrastargötu 5.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna. Skipulagsyfirvöld eru ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu, enda felur breyting á deiliskipulagi eðli máls samkvæmt í sér breytingu á deiliskipulagi sem fyrir er. Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. um að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið nefnds ákvæðis.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna Þrastargötu 1 og 5 var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Að loknum athugasemda­fresti tóku skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins við bréfi með athugasemdum frá eiganda Þrastar­götu 5, en þar sem stjórnvöldum ber að sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, getur slíkt ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Deiliskipulagstillagan var svo afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði, þar sem framkomnum athugasemdum kæranda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Vegna athugasemdanna voru gerðar þrjár breytingar á tillögunni, en þær breytingar voru þó ekki svo veigamiklar að auglýsa þyrfti breytta tillögu að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Að lokum var breytingin samþykkt í borgarráði lögum samkvæmt. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga, en ekki liggja fyrir lagafyrirmæli sem knýja á um að afla þurfi álits Minjastofnunar eða Borgarsögusafns vegna viðbyggingarinnar að Þrastargötu 5.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur m.a. í sér heimild til að fjarlægja skúr og byggja í staðinn viðbyggingu til austurs og suðausturs, innan byggingarreits, við einbýlishúsið að Þrastargötu 5. Hús kæranda að Þrastargötu 7 liggur norðvestanmegin við Þrastargötu 5. Á uppdráttum deiliskipulagsins er ekki málsett hæð viðbyggingar til suðausturs, sem er sá hluti hennar sem mun hafa mest grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda. Þrátt fyrir það er ljóst að hæð viðbyggingarinnar verður mjög svipuð og hæð þess skúrs sem samþykktur var árið 1984. Er því ekki að sjá að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda að nokkru marki, svo sem vegna skerðingar á útsýni, skuggavarps, aukinnar umferðar eða vegna annars ónæðis. Verður með hliðsjón af því ekki talið að breytingin sé slík að réttur kæranda hafi verið fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Sem fyrr segir felst í skipulagsvaldi sveitarstjórna m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga, en í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðarmynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Ekki er áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis lóðarhafa vegna sameiningar lóða, líkt og kærandi heldur fram, enda verður eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Sem endranær verða þó að liggja málefnalegar forsendur að baki slíkum ákvörðunum. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er ástæða þess að lóðin að Þrastargötu 1 var sameinuð fyrrnefndri sameiginlegu lóð sú að upphaflega var lóðin hluti af hinni sameiginlegu lóð en var síðar breytt í sérlóð undir útivistarsvæði. Þar sem nú sé aftur komið hús á lóðina sé eðlilegt að lóðin verði aftur hluti af hinni sameiginlegu lóð. Búa því efnisleg rök að baki þeirri ákvörðun að sameina umræddar lóðir.

Samkvæmt 3. gr. deiliskipulagsskilmála Fálkagötureits er gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir íbúðir undir 80 m2 en tveimur stæðum fyrir íbúðir stærri en 80 m2 í samræmi við byggingar­reglugerð. Með deiliskipulagsbreytingunni eykst krafa um fjölda bílastæða fyrir hina sameiginlegu lóð úr 27 bílastæðum í 30. Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar kemur fram að bílastæði á lóðinni séu 36 en á lóðaruppdrætti sem fylgir lóðarleigusamningi eru á sama svæði merkt inn 39 bílastæði. Uppfyllir deiliskipulagsbreytingin því kröfu deiliskipulags Fálkagötureits um fjölda bílastæða.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Af framlögðum gögnum verður ekki annað ráðið en að samþykktir aðaluppdrættir hins kærða byggingarleyfis séu í samræmi við ákvæði nefndra laga og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, þ. á m. ákvæði um brunavarnir í 9. hluta reglugerðarinnar.

Í áðurgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildis­töku reglugerðarinnar skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Tekið er fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt er byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“

Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en auk þess geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, sem hefur m.a. að geyma reglur um lofthæð íbúðarrýma, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að byggt verði við íbúðarhús sem reist var á árinu 1944 og breytt var árið 1984. Um heimilaða nýbyggingu við húsið gilda ákvæði reglugerðar nr. 112/2012. Fram kemur í 2. mgr. gr. 6.7.2. í reglugerðinni að í þakherbergjum og kvist­herbergjum íbúða megi meðalhæð minnst vera 2,20 m, enda sé lofthæðin minnst 2,50 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis. Samkvæmt samþykktum uppdráttum er umrædd viðbygging 18,9 m2 að stærð og lofthæð á 2. hæð nær ekki 2,50 m í þriðjungi herbergis. Hvorki liggur fyrir að greinargerð hafi fylgt umsókn um umrætt byggingarleyfi vegna frávika frá kröfum um lofthæð þakherbergja né að leyfisveitandi hafi fallist á slíkt frávik með formlegum hætti í samræmi við fyrrgreinda gr. 6.1.5. í byggingar­reglugerð. Að framangreindu virtu uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 11. gr. mannvirkjalaga um að byggingarleyfi sé í samræmi við byggingarreglugerð. Verður hið kærða byggingarleyfi því fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna lóðanna Þrastargötu 1 og 5.

 

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss á lóð nr. 5 við Þrastargötu er felld úr gildi.

147/2017 Sóleyjargata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 147/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. nóvember 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir endurgerð bílskúrs að Sóleyjargötu 13.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Sóleyjargötu 13, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 21. nóvember 2017 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir endurgerð bílskúrs að Sóleyjargötu 13. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að gefa út byggingarleyfi á grundvelli fyrirliggjandi aðaluppdrátta um endurgerð bílskúrsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. janúar 2018.

Málavextir: Hinn 29. mars 2016 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir endurgerð bílskúrs að Sóleyjargötu 13. Á uppdrætti sem fylgdi með umsókninni kemur fram að árið 1937 hafi verið samþykkt leyfi til að byggja bílskúr ásamt gróðurhúsi. Byggingin hafi áður verið 49 m2 en þar sem gróðurhúsið hafi síðar verið rifið væri hún  42 m2 samkvæmt fasteignamati. Staðsetning og breidd byggingarinnar sé hin sama og áður en hæðin sé eilítið meiri og lengdin einnig. Í stað gróðurhússins sé nú gert ráð fyrir að byggingin sé ein heild og áætluð heildar­stærð sé 67,2 m2.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. janúar 2017 var umsókn kæranda vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem samþykkti hinn 12. maí s.á. að grenndarkynna umsóknina. Fór grenndarkynningin fram frá 22. maí til 19. júní s.á. og bárust athugasemdir frá meðeigendum kæranda að Sóleyjargötu 13. Skipulagsfulltrúi skilaði umsögn 25. ágúst s.á., en þar segir m.a: „Í ljósi kröftugra mótmæla nágranna og meðlóðarhafa er mælst til þess að ekki verði veittar auknar heimildir til stækkunar bílskúrsins og hann byggður á grunni núverandi heimildar frá 1937 og skráningar í þinglýstum eignarskiptasamningum sem er 42 m2.“ Í niðurstöðu umsagnarinnar segir jafnframt að ekki séu gerðar skipulagslegar athugasemdir við að endurbyggja 42 m2 bílskúr á grunni heimildar frá 1937. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. nóvember 2017 var umsókn kæranda synjað með vísan til nefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skipulagsfulltrúi hafi viðurkennt að hægt sé að byggja bílskúr á grunni eldri byggingarheimildar frá 1937. Þær breytingar sem framlagðar teikningar sýni séu í samræmi við teikninguna frá 1937, þar sem sami helgunarreitur gróðurhússins sé nýttur að nýju ásamt því að byggingin sé færð til nútímahorfs, sbr. núgildandi byggingarreglugerð. Framlagðar teikningar sýni einnig rými sem gangi undir innkeyrslu bílskúrs og sé það rými ekki sjáanlegt utan frá, en innkeyrslan sé til sérafnota eiganda bílskúrsins í dag. Leiði það til þess að fermetrafjöldi byggingarinnar aukist sem því nemi.

Eignaskiptayfirlýsing taki einungis upp núgildandi þinglýstar heimildir um eignarhald og sýni innbyrðis stærðir, en taki ekki afstöðu til núgildandi byggingarheimilda, eins og skýrt komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa. Það sé rangt hjá skipulagsfulltrúa að eignaskipta­samningur geti breytt skráningu þinglýstra heimilda ásamt fyrri stjórnvaldsákvörðun byggingarfulltrúa frá árinu 1937, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, þar sem fjallað sé um eignaskiptayfirlýsingar. Eignaskiptayfirlýsing fjalli um þær húseignir á lóð sem séu uppistandandi á hverjum tíma og myndi þar með flatarmál og rúmmál sem grundvöll útreiknings hlutfallstalna og fasteignagjalda. Ef eignatilfærslur verði innan húss og lóðar, þá verði að þinglýsa þeim til þess að tryggja réttarvernd og rétta skráningu í þinglýsingarbók eða með rafrænum hætti. Ekki hafi verið sýnt fram á að afnotaréttur og afnotahefð hafi myndast á því svæði sem sé frátekið fyrir byggingu bílskúrs og gróðurhúss. Meðeigendum beri að sanna með óyggjandi hætti að þeir hafi öðlast sérstök sameiginleg eignarréttindi, sem víki séreignaafnotaréttindum til hliðar, sbr. fyrrgreinda teikningu frá 1937. Í þessu samhengi hefði verið forvitnilegt að vita hver ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík hefði verið ef einungis hefði verið sótt um að endurreisa gróðurhúsið í þeirri mynd sem sýnt sé á samþykktri teikningu frá árinu 1937. Reykjavíkurborg sé með ákvörðun sinni að afturkalla samþykktar teikningar frá árinu 1937. Ekki verði séð að lagaleg rök standi til þess að eignarréttarlegar heimildir séu teknar af lögmætum eigendum án bóta, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í umsögn skipulagsfulltrúa sé nefnt að kröftug mótmæli meðeigenda hafi borist. Alkunna sé að nágrannar og meðlóðarhafar taki stundum afstöðu gegn lögmætum breytingum til að skapa sér samningsstöðu eða áskilja sér rétt til greiðslna án þess að baki liggi réttmætir hagsmunir. Í umsögnina skorti sjálfstæða og rökstudda afstöðu byggða á nauðsynlegri rannsókn. Ákvörðun byggingarfulltrúa byggi alfarið á umsögn skipulagsfulltrúa án nokkurrar sjálfstæðrar máls­meðferðar. Því hafi undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki verið nægilega vandaður og ekki hafi verið gætt að reglum stjórnsýsluréttarins við ákvarðanatökuna. Þá hafi hvorki í umsögn skipulagsfulltrúa né í ákvörðun byggingarfulltrúa verið svarað athugasemdum kæranda, hvorki með lagarökum né rökstuðningi. Af þeim ástæðum beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Ákvörðun byggingarfulltrúa byggi á þeirri forsendu að bygging þurfi að vera uppistandandi til þess að vera réttilega eignaskráð. Ef svo sé þá megi álykta sem svo að ef húsbygging í séreign sé rifin þá breytist lóðin í sameign. Niðurstaða skipulagsfulltrúa standist ekki eignaréttar­ákvæði laga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í athugasemdum meðlóðarhafa hafi verið bent á að gróðurhúsið hafi verið samþykkt árið 1937 af byggingar­nefnd en rifið á árunum 1946-1947. Á þeim tíma hafi húsið á lóðinni verið einbýlishús en 8. mars 1956 hafi byggingunni verið breytt úr einbýlishúsi í fjölbýlishús. Núverandi íbúar hafi ekki gert ráð fyrir öðru en að umræddur lóðarskiki, þar sem áður hafi staðið gróðurhús, væri sameign allra. Íbúar hafi nýtt svæðið fyrir grillaðstöðu og aðra útiveru. Þau hafi krafist þess að byggingaryfirvöld samþykki ekki bygginguna þannig að gengið verði á eignarétt annarra og geri að skilyrði að aflað verði samþykkis allra meðeigenda. Samkvæmt fasteignamati og þinglýstum eignaskiptasamningi frá 15. júlí 1989 sé bílskúrinn skráður 42 m2. Á grundvelli þess að ekki hafi fengist samþykki meðeigenda fyrir 49 m2 bílskúr hafi skipulagsfulltrúi lagt til að tekið yrði neikvætt í erindið og að ekki yrðu frekari heimildir veittar til stækkunar en sem tilgreindar séu í eignaskiptasamningi frá 1989. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við að kærandi byggi 42 m2 bílskúr samkvæmt heimild í fyrrgreindum samningi.

Niðurstaða: Í 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um að umsókn um byggingarleyfi skuli fylgja öll nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús ef við á. Í 6. gr. þeirra laga segir að sameign teljist allir þeir hlutar húss og lóðar sem ekki séu ótvírætt í séreign skv. 4. gr., en skv. nefndri 4. gr. er séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð, eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið. Áréttað er í 5. tl. 1. mgr. 8. gr. laganna að öll lóð húss og mannvirki falli undir sameign fjöleignarhúss. Loks kemur fram í 19. gr. nefndra laga sú meginregla að samþykki allra eigenda þurfi til að ráðstafa sameign.

Á lóðinni Sóleyjargötu 13 er fjölbýlishús og bílskúr sem fylgir eignarhluta kæranda. Árið 1937 var samþykkt byggingarleyfi fyrir 21 m2 bílskúr á tveimur hæðum á lóðinni, ásamt 7 m2 gróður­húsi, en gróðurhúsið var síðar rifið. Var fasteignin þá í eigu eins aðila en henni var síðar skipt upp í fleiri eignarhluta. Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið frá árinu 1989 er bílskúrinn 21 m2 að stærð með kjallara að sömu stærðar og í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands kemur fram að bílskúrinn sé 42 m2 að stærð. Á framlögðum teikningum fyrir endurgerð bílskúrsins má sjá að byggingin mun ná inn á lóðarskika þann sem gróðurhúsið stóð á áður. Af gögnum málsins verður ráðið að synjun byggingarfulltrúa á umsókn kæranda hafi byggst á því að þar sem endurgerð bílskúrsins myndi ná inn á lóð í sameign þyrfti samþykki meðeigenda fyrir byggingarleyfinu, sbr. 10. gr. laga um mannvirki.

Þinglýsingum fylgir tiltekinn áreiðanleiki að lögum og verða þær lagðar til grundvallar við töku stjórnvaldsákvarðana. Verður þinglýstum eignaskiptasamningi ekki vikið til hliðar á grundvelli eldri samþykktra teikninga. Samkvæmt hinum þinglýsta eignaskiptasamningi fyrir umrætt fjöleignarhús myndi endurgerð bílskúrsins samkvæmt framlögðum teikningum fela í sér að byggt yrði á lóð í sameign. Þinglýsingarstjórar hafa eftir atvikum heimildir til þess að endurskoða úrlausnir sínar í þinglýsingarmálum og heyrir ágreiningur um efnisatvik að baki þinglýstum réttindum og eftir atvikum forgangsvernd þeirra samkvæmt þinglýsingalögum  undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Þá getur hver eigandi sem telur hlutfallstölur í eignaskiptayfirlýsingu rangar eða eignarhlutföllin í húsinu óeðlileg eða ósanngjörn krafist breytinga og leiðréttinga þar á, sbr. 3. mgr. 18. gr. fjöleignarhúsalaga.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið studd efnislegum rökum með hliðsjón af opinberri skráningu fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og þinglýstum eignaskiptasamningi sem fyrir lá þegar ákvörðunin var tekin. Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 21. nóvember 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir endurgerð bílskúrs að Sóleyjargötu 13.

144/2017 Álfholt

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 144/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 1. nóvember 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum þakglugga á Álfholti 56a.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2017, er barst nefndinni 12. s.m., kærir Gosi trésmiðja ehf., eigandi íbúðar nr. 0201 að Álfholti 56a, Hafnar­firði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 1. nóvember 2017 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum þakglugga á Álfholti 56a. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að samþykkja umsóknina.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 20. desember 2017.

Málavextir: Byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar sendi kæranda bréf, dags. 16. nóvember 2016, þar sem fram kom að kvörtun hefði borist um að búið væri að setja þakglugga á Álfholt 56a, en ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir glugganum. Var kæranda gefinn frestur til að bregðast við og sækja um byggingarleyfi. Með umsókn, dags. 7. mars 2017, sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir umræddum þakglugga. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnafjarðar 26. apríl s.á. var afgreiðslu umsóknarinnar frestað vegna skorts á samþykki meðeigenda. Í kjölfarið lagði kærandi fram undirritunarblað með samþykki 22 af 28 meðeigendum í fjöleignarhúsunum að Álfholti 56a-d. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnfjarðar 20. september s.á. var erindinu vísað til stjórnsýslusviðs með beiðni um athugun á ákvæðum fjöleignarhúsalaga er vörðuðu samþykki meðeigenda. Umsókn kæranda var síðan synjað á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 1. nóvember s.á. á þeim grundvelli að umsóknin samræmdist ekki lögum um mannvirki nr. 160/2010. Jafnframt var lagt fram minnisblað lögmanns stjórnsýslusviðs frá 31. október s.á. og umsögn skipulagsfulltrúa frá 1. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi keypt íbúð nr. 0201 að Álfholti 56a á árinu 2016. Fasteignin sé sambyggð fasteignunum að Álfholti 56b-d, en sjálfstætt húsfélag sé fyrir Álfholt 56a. Með umsókn hans um byggingarleyfi hafi fylgt tilskildar teikningar, en auk þakgluggans hafi þar verið gerð grein fyrir þeim breytingum sem fyrri eigandi íbúðarinnar hefði gert á eigninni á árunum 1998-1999 þegar hann hefði sett upp milliloft í íbúðinni. Byggingar­yfirvöld hefðu krafist þess að kærandi skilaði inn teikningum með fyrrnefndum breytingum, þar sem slíkt væri nauðsynlegt til að samþykkja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir þakglugganum. Engar athugasemdir hefðu verið gerðar af hálfu byggingaryfirvalda vegna fyrrgreindra breytinga fyrir tæpum 20 árum. Umsókn kæranda snúi þó einungis að þakglugganum en ekki þeim breytingum sem fyrri eigandi hafi gert.

Í þinglýstum kaupsamningi kæranda um eignina komi fram að hluti eignarinnar sé háaloft og að gengið sé upp á háaloftið úr anddyri eignarinnar. Kaupsamningnum hafi verið þinglýst án athugasemda og þá bendi kærandi á að fyrir liggi yfirlýsing eiganda íbúðar nr. 0101 í Álfholti 56a þar sem hann samþykki að milliloft tilheyri alfarið íbúð kæranda. Auk þess sé fasteignin að Álfholti 56a sjálfstætt húsfélag með tveimur íbúðum. Áðurnefnt milliloft sé innan rýmis og eignarhluta íbúðar nr. 0201 og breyti því ekki hlutfallstölum eignarhluta. Jafnframt verði engar breytingar á hlutfallstölum eða eignarhaldi vegna þakgluggans og þá verði sú breyting á útliti eignarinnar ekki talin þess eðlis að samþykki allra eigenda að Álfholti 56a-d þurfi að liggja fyrir. Um óverulega breytingu á útliti sé að ræða og útilokað sé að samþykki allra þinglýstra eigenda eignarinnar þurfi fyrir þakglugganum. Ekki verði séð að breytingin falli undir ákvarðanatöku samkvæmt a-lið 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Afgreiðsla skipulags- og byggingarfulltrúa sé haldin verulegum ágöllum því blandað sé saman annars vegar umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir þakglugganum og hins vegar fram­kvæmdum sem fyrri eigandi hafi gert fyrir tæpum 20 árum. Svo virðist sem umsókn kæranda sé fyrst og fremst hafnað vegna framkvæmda á árunum 1998-1999, sem þó hafi verið látnar átölulausar af byggingaryfirvöldum alla tíð.

Málsrök Hafnarfjarðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að Álfholt 56a sé sambyggt fjölbýlishús þar sem Álfholt 56b-d séu öll tengd og því gildi um húsið ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segi að með umsókn um byggingarleyfi skuli fylgja samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús. Í 1. mgr. 6. gr. laga um fjöleignarhús komi fram að sameign teljist allir þeir hlutar húss, bæði innan og utan, og lóðar sem ekki séu ótvírætt í séreign skv. 4. gr. laganna. Í 1. mgr. 8. gr. segi að eftirfarandi teljist m.a. sameign samkvæmt 6. gr. laganna: „1. Allt ytra byrði hússins, útveggir, þak, gaflar og útidyr, þó ekki svaladyr, svo og útitröppur og útistigar. […] 6. Allt húsrými, hverju nafni sem það nefnist, sem ekki telst séreign, svo sem gangar, stigar, geymslur, kyndiklefar, þvottahús, þurrkherbergi, kæliklefar, tómstundaherbergi, vagna- og hjólageymslur, háaloft, risloft o.s.frv., án tillits til legu, nýtingarmöguleika og nýtingarþarfa einstakra eigenda í bráð og lengd. […] 9. Réttur til byggingar ofan á eða við hús eða á lóð þess.“ Að framangreindu virtu sé því ljóst að hin kærða ákvörðun varði umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á sameign í skilningi laga um fjöleignarhús.

Í 1. mgr. 19. gr. laga um fjöleignarhús sé kveðið á um að sameign fjöleignarhúss verði ekki ráðstafað af húsfélagi með samningi nema allir eigendur séu því samþykkir. Sama gildi um verulegar breytingar á sameign eða hagnýtingu hennar. Þá segi í 1. mgr. 30. gr. laganna: „Sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu þá verður ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um er að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins.“ Samkvæmt 36. gr. laganna sé eiganda á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota tiltekna hluta hennar. Þá sé kveðið á um það í 41. gr. að til ákvarðana um framkvæmdir sem hafi í för með sér verulega breytingar á sameign, sbr. 2. mgr. 28. gr. og 1. mgr. 30. gr., þurfi samþykki allra eigenda, sbr. 6. tl. a-liðs 1. mgr. ákvæðisins. Að framangreindu sé ljóst að umræddar breytingar sem sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir feli í sér breytingu á sameign sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi. Einnig sé ljóst að umræddar breytingar séu taldar verulegar, sbr. álit kærunefndar fjöleignarhúsamála nr. 23/2000, þar sem breyting á glugga í geymslurými hafi verið talin veruleg breyting, og álit kærunefndarinnar nr. 17/2016, þar sem uppsetning á hurð hafi verið talin vera veruleg breyting. Því þurfi samþykki allra eigenda fyrir slíkum breytingum, en ef svo sé ekki beri að hafna umsókn um byggingarleyfi, líkt og gert hafi verið í máli þessu.

Byggingarfulltrúi hafi enga vitneskju haft um umrætt háaloft fyrr en kvörtun hafi borist um þakgluggann í nóvember 2016. Hafi eitthvað verið gert án leyfis fyrir tæplega 20 árum þá sé núverandi eiganda rétt og skylt að sækja um leyfi fyrir þeim breytingum eða breyta til baka til samræmis við samþykktar teikningar hússins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum þakglugga á húsinu að Álfholti 56a.

Í 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki er gerð krafa um að með byggingarleyfisumsókn fylgi nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga verður ekki ráðist í framkvæmdir sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu nema allir eigendur samþykki, ef um er að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi breytingar á sameign, utan húss eða innan, í för með sér sem þó geti ekki talist verulegar, þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 6. gr. laganna að þótt fjöleignarhús samanstandi af einingum eða hlutum (stigahúsum) sem séu sjálfstæðar eða aðgreindar að einhverju leyti og hvort sem þau standi á einni lóð eða fleirum sé allt ytra byrði hússins alls staðar, þak, útveggir og gaflar, í sameign allra eigenda þess.

Á samþykktum teikningum Álfholts 56a frá árinu 1993 má sjá að ekki er gert ráð fyrir nefndum þakglugga. Þá er ljóst að þakglugginn breytir ásýnd og heildarsamræmi hússins. Má vænta þess að viðhaldsþörf á þaki hússins geti breyst við slíkar framkvæmd eins og hér um ræðir. Með hliðsjón af því verður að telja að gerð þakgluggans feli í sér verulega breytingu á sameign, þ. á m. útliti hússins, í skilningi 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga, og sé því háður samþykki allra meðeigenda. Hinn umdeildi þakgluggi kæranda fól í sér breytingu á sameign allra eigenda í fjöleignarhúsinu að Álfholti 56a-d, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Í gögnum málsins er að finna undirskriftarlista með samþykki 22 af 28 eigendum hússins fyrir framkvæmdunum. Lá því ekki fyrir fullnægjandi samþykki meðeigenda samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður því ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 1. nóvember 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum þakglugga á Álfholti 56a.

 

141/2017 Austurkór

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 141/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 12. október 2017 um að fella breytingu á opnun útidyra í Austurkór 79 undir c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Einnig er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans frá 6. nóvember s.á. að gera ekki kröfu til þess að lögð verði fram gögn vegna breytinganna ásamt samþykki meðeigenda.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Austurkór 79, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi að fella breytingu á opnun útidyra í Austurkór 79 undir c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 9. janúar 2018.

Málavextir: Hinn 9. október 2017 sendi kærandi tölvupóst til embættis byggingarfulltrúans í Kópavogi með fyrirspurn um hvort sótt hefði verið um byggingarleyfi vegna breytinga á útidyrahurðum og hurðarkörmum í Austurkór 79. Í svörum byggingarfulltrúans frá 12. s.m. var tekið fram að litið væri svo á að um minni háttar breytingar væri að ræða sem undanþegnar væru byggingarleyfi skv. c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Sama dag óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Hinn 24. s.m. ítrekaði kærandi beiðni sína og óskaði jafnframt eftir greinargerð hönnuðar um breytinguna ásamt hönnunargögnum. Umbeðinn rökstuðningur var veittur með bréfi byggingarfulltrúa 6. nóvember s.á. Í bréfinu kemur fram að breytingarnar hafi mjög litlar útlitsbreytingar í för með sér og telji embættið enga þörf á að skila inn gögnum vegna þeirra.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að af bréfi byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 6. nóvember 2017 virðist mega ráða að þá fyrst hafi verið farið á staðinn og málið rannsakað. Ákvörðun byggingarfulltrúans um að fella framkvæmdina undir c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi því verið tekin án þess að málið hefði verið rannsakað. Ekki hafi verið lögð fram gögn um að farið hefði verið á staðinn, framkvæmdin tekin út eða hvaða íbúðir hefðu verið skoðaðar. Byggingarfulltrúi hafi því ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé ekki að sjá að byggingarfulltrúi hafi vald til þess að ákveða hvort skila skuli inn gögnum vegna tilkynntra framkvæmda skv. gr. 2.3.5. Þvert á móti sé gerð skýr krafa um það í a- og b-lið 1. mgr. gr. 2.3.6. í reglugerðinni um að gögnum sé skilað til byggingarfulltrúa. Þar að auki sé framkvæmdaraðila ekki heimilt að hefja framkvæmdir fyrr en byggingarfulltrúi hafi yfirfarið gögn, sbr. fyrrnefnt ákvæði.

Það mat byggingarfulltrúans að fella framkvæmdina undir c-lið gr. 2.3.5. í reglugerðinni standist ekki skoðun þar sem um sé að ræða breytingu á fasteign, en ákvæðið taki til þess þegar um viðhald sé að ræða. Breyting á opnunarstefnu hurðar sé útlitsbreyting og sé í ósamræmi við opnunarstefnu annarra hurða umrædds fjöleignarhúss. Uppdráttum hafi ekki verið breytt, ekki hafi verið aflað umsagnar slökkviliðs um brunavarnir auk þess sem ekki liggi fyrir samþykki meðeigenda. Hafa verði í huga að hurðir opnist nú út á stigapall sem sé í sameign hússins. Ljóst sé að ákvörðun byggingarfulltrúans frá 6. nóvember 2017 sé í andstöðu við skýr ákvæði byggingarreglugerðar og lögmætisreglu stjórnsýslulaga.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að í 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sé fjallað um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir, en þar segi m.a. að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi. Í athugasemdum með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um mannvirki nr. 160/2010 komi fram að þessi heimild ráðherra hafi verið nauðsynleg í því skyni að einfalda byggingareftirlit og auka athafnafrelsi borgaranna upp að vissu marki. Í samræmi við markmið laganna skuli byggingareftirlit miða að því að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi þeirra og heilnæmi sé fullnægt. Því sé eðlilegt að minni háttar mannvirkjagerð sem ekki hafi áhrif á þessa þætti sé undanþegin byggingareftirliti. Of mikil orka byggingaryfirvalda hafi oft á tíðum farið í slíkt eftirlit og hafi því verið lagt til við gerð nýrrar reglugerðar um byggingarmál að leitast yrði við að einfalda eftirlitið með þessum hætti. Þá ættu yfirvöld að geta einbeitt sér að þeim mannvirkjum þar sem raunveruleg þörf væri á eftirliti með því að þau standist öryggis-, heilbrigðis- og aðgengiskröfur.

Samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé það byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags sem veiti byggingarleyfi. Í ákvæðinu séu taldar upp þær framkvæmdir og breytingar sem séu undanþegnar byggingarleyfi, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Í c-lið ákvæðisins sé fjallað um framkvæmdir utanhúss. Komi þar fram að viðhald bygginga að utan, þar sem sambærileg efni og frágangur sé þannig að útliti byggingar sé ekki breytt, séu undanþegnar byggingarleyfi. Líkt og fram hafi komið í rökstuðningi byggingarfulltrúa sé um að ræða minni háttar breytingu sem sé undanþegin byggingarleyfi með vísan til tilvitnaðs c-liðar gr. 2.3.5. Viðhald af þessu tagi sé undanþegið byggingarleyfi ef notað sé eins eða sambærilegt efni og frágangur sé þannig að útlit byggingar sé ekki breytt eða breyting óveruleg.

Samkvæmt kæru þá sé því haldið fram að brotið hafi verið gegn gr. 2.3.6. í byggingarreglugerðinni með því að tilkynna leyfisveitanda ekki um framkvæmdina auk þess sem að byggingarfulltrúi hafi ekki farið fram á viðhlítandi gögn. Með breytingarreglugerð nr. 360/2016 hafi verið gerð breyting á gr. 2.3.5. og 2.3.6., sem hafi m.a. haft í för með sér að minni háttar framkvæmdum sem væru undanþegnar byggingarleyfi hafi verið fjölgað, en þess í stað  gerðar tilkynningarskyldar. Mannvirkjastofnun hafi gefið út nánari leiðbeiningar um þessar tvær greinar og þar komi fram hvaða framkvæmdir, sem undanþegnar séu byggingarleyfi, þurfi að tilkynna til leyfisveitanda. Af þeim framkvæmdum sem nefndar séu í c-lið gr. 2.3.5. séu það einungis framkvæmdir sem varði nýklæðningu þegar byggðra bygginga og minni háttar breytingar á burðarvirki sem séu tilkynningarskyldar. Því sé ekki skylt að tilkynna umdeilda framkvæmd til byggingarfulltrúa samkvæmt lögum og reglum og honum sé ekki skylt að fara fram á frekari gögn vegna þeirra.

Þegar ábending hafi borist um framkvæmdina hafi byggingarfulltrúi rökstutt afstöðu sína, auk þess sem hann hafi kannað nánar ábendinguna og komist að sömu niðurstöðu og áður. Því verði ekki séð að brotið hafi verið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér óformlega aðstæður á vettvangi hinn 19. febrúar 2019.

 Niðurstaða: Í máli þessu er ágreiningur um það hvort breyting á dyraumbúnaði, í því skyni að útidyrahurðir í Austurkór 79 opnist út í stað þess að opnast inn í íbúð, sé háð byggingarleyfi.

Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um að unnt sé að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á um hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður tekin afstaða til þess hvort umdeild breyting á opnun útidyra sé háð byggingarleyfi eða ekki.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Er þar og tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar. Fram kemur í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að tiltekin mannvirki og framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi. Samkvæmt c-lið þeirrar greinar fellur viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga, undir þá undanþágu, ef notað sé eins eða sambærilegt efni. Þó þurfi að sækja um byggingarleyfi fyrir breytingu á útliti byggingar. Með reglugerð nr. 360/2016, um (4.) breytingu á nefndri reglugerð, tók gildi breyting á tilvitnaðri gr. 2.3.5. og var c-lið greinarinnar þá breytt á þann veg að viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga, eru nú undanþegnar byggingarleyfi þegar notað sé eins eða sambærilegt efni og frágangur sé þannig að útliti byggingar sé ekki breytt eða breyting sé óveruleg. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. maí 2016.

Fyrir liggur að nokkrum útidyrum fjölbýlishússins að Austurkór 79 hefur verið breytt á þann veg að hurðirnar opnast nú út í stað þess að opnast inn með tilheyrandi breytingum á umbúnaði, en að öðru leyti eru hurðirnar hússins óbreyttar. Sú framkvæmd telst vera breyting á mannvirki í skilningi 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Verður að líta svo á að umdeild breyting feli í sér breytingu á dyraumbúnaði og því sé um viðhald að ræða í skilningi fyrrnefnds c-liðar, enda eru þess dæmi að útidyrahurðum sé breytt eins og hér um ræðir m.a. til að verjast leka. Hafa má og í huga þá meginreglu byggingarreglugerðar nr. 112/2012 að dyr í flóttaleið skulu opnast í flóttaátt, sbr. 1. tölul. 1. mgr. gr. 9.5.9. Þá er ljóst að umdeild breyting felur í sér óverulega breytingu á útliti hússins að Austurkór 79 og að breytt opnun útidyra út á stigapall í sameign hefur fyrst og fremst áhrif á þá sem eiga leið um útidyr viðkomandi séreignarhluta hússins.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er umdeild breyting á dyraútbúnaði undanþegin byggingarleyfisskyldu og var því ekki þörf á því fyrir byggingarfulltrúa að kalla eftir umsókn um slíkt leyfi, ásamt lögmæltum fylgigögnum.

Kærandi kærir einnig þá ákvörðun byggingarfulltrúans að gera ekki þá kröfu að lögð verði fram gögn vegna breytinganna samkvæmt gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð ásamtsamþykki meðeigenda. Í gr. 2.3.6. er kveðið á um það hvaða málsmeðferð skuli viðhafa vegna framkvæmda sem tilkynna skal til leyfisveitanda skv. gr. 2.3.5. í reglugerðinni. Í c-lið síðarnefnds ákvæðis er ekki mælt fyrir um að viðhald byggingar að utan sé tilkynningarskyld framkvæmd. Því var byggingarfulltrúa ekki skylt að krefjast þess að lögð yrðu fram gögn í samræmi við gr. 2.3.6.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hin kærða breyting á opnun útidyra að Austurkór 79 er ekki byggingarleyfisskyld framkvæmd.

Hafnað er kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 6. nóvember 2017 um að gera ekki þá kröfu að lögð verði fram gögn vegna breytinganna ásamt samþykki meðeigenda.

40/2018 Hraunhella

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2018, kæra vegna framkvæmda á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu, Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra fasteignaeigendur að Tjaldhólum 8, 18, 20 og að Hraunhellu 16 og 17, Selfossi, framkvæmdir við lóðina Hraunhellu 19. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að felldar verði úr gildi ákvarðanir  skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 1. mars 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Hraunhellu 19 á Selfossi og um breytta staðsetningu innkeyrslu á nefnda lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 13. apríl 2018.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 1. mars 2017 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa Hraunhellu 19, Selfossi, um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð. Umsóknin var samþykkt með fyrirvara um að brugðist yrði við athugasemdum nefndarinnar. Á sama fundi nefndarinnar var samþykkt umsókn lóðarhafa um­ breytta­­ staðsetningu innkeyrslu á greinda lóð. Eiganda var tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi, dags. 3. mars 2017. Ákvarðanir þessar voru staðfestar á fundi bæjarstjórnar Árborgar 15. mars 2017.

Síðla árs 2017 kom í ljós að byggingarframkvæmdir á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu voru ekki í samræmi við samþykktar teikningar, lóðarblað, byggingarleyfi og deiliskipulagsskilmála. Frá þeim tíma hélt eigandi fasteignarinnar að sér höndum með frekari framkvæmdir á lóðinni vegna þessara mistaka. Í kjölfarið kom beiðni frá eigandanum, dags. 22. nóvember 2017, um breytingu á deiliskipulagsskilmálum vegna lóðarinnar þess efnis að gerð yrði undanþága frá skilmálunum og leyfi gefið fyrir því að hluti byggingarinnar yrði hærri en sú hámarkshæð sem þar er tilgreind. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 15. desember 2017 var tekin ákvörðun um að grenndarkynna erindið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Gögn vegna grenndarkynningarinnar voru send út 17. desember 2017 til íbúa að Hraunhellu 16 og 17 og Tjaldhólum 6, 8, 18, 20 og 34. Athugasemdir bárust frá nágrönnum 11. janúar 2018. Í athuga­­semdunum kom m.a. fram mikil andstaða þeirra gagnvart breytingum og framkvæmdum við umrædda lóð. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar, sem haldinn var 17. janúar 2018, var fyrrgreindu erindi eiganda lóðarinnar hafnað og honum tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 22. janúar 2018.

Kærendur halda því  fram að með framkvæmdunum hafi verið vikið frá gildandi skipulagi með því að aðkomu að lóðinni hafi verið breytt. Þá verði heimiluð bygging á lóðinni fullar tvær hæðir, auk kjallara, en ganga megi út frá því að þar sé aðeins heimiluð ein hæð. Loks sé bent á að brotið sé gegn ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um mænishæð og með framkvæmdunum sé vikið frá meginforsendum sem settar voru í skipulagi um hæðarsetningu.

Sveitarfélagið vísar til þess að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu málsins þar sem uppfylltar hafi verið kröfur form- og efnisreglna, sem því hafi borið að fara eftir, við meðferð umsóknar um hið kærða byggingarleyfi og um breytingu á innkeyrslu umræddrar lóðar. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin á grundvelli deiliskipulagsskilmála fyrir Gráhellu á Selfossi, sem gildi á umræddu svæði, og annarra lagareglna sem við eigi. Þá sé ljóst að eins mánaðar kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn er kæran hafi borist  úrskurðarnefndinni. Kærendum hafi mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir í síðasta lagi þegar gögn vegna grenndarkynningar á umsókn um undanþágu frá deiliskipulagsskilmálum á hámarkshæð umræddrar byggingar hafi verið send út hinn 17. desember 2017.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Gögn málsins bera með sér að byggingar­framkvæmdir á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu hafi verið vel á veg komnar fyrir árslok 2017, en í nóvember s.á. fór eigandi lóðarinnar þess á leit við Sveitarfélagið Árborg að veitt yrði undanþága frá deiliskipulagsskilmálum og leyfi gefið fyrir því að hluti byggingarinnar á lóðinni yrði hærri en tilgreind hámarkshæð í deiliskipulagsskilmálum. Kærendum, sem búa á næstu lóðum við lóð leyfishafa, mátti vera ljóst af framkvæmdum á umræddri lóð á árinu 2017 að leyfi hefðu verið veitt fyrir þeim og gátu þeir þá þegar aflað sér upplýsinga um efni hinna kærðu ákvarðana hjá bæjaryfirvöldum. Þá liggur fyrir að grenndarkynningargögn vegna lóðarinnar Hraunhellu 19 voru send kærendum 17. desember 2017. Í ljósi þessa verður við það að miða að kærufrestur í málinu hafi í síðasta lagi byrjað að líða þann dag. Var kærufrestur því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga þar sem brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra, áður en ágreiningur um þær verði ljós, skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Að þessu virtu verður ekki talið að undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

82/2017 Hveravellir

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2017, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 um endurskoðun matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum, Húnavatnshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Hveravallafélagið ehf. þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 að endurskoða skuli matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum.  Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að einungis beri að endurskoða hluta umræddrar matsskýrslu. Þá er farið fram á að úrskurðarnefndin ákveði að Skipulagsstofnun verði gert að greiða kostnað kæranda við kæru samkvæmt mati nefndarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 4. september 2017.

Málavextir: Hveravellir á Kili liggja í um 600 m hæð á milli Hofsjökuls og Langjökuls. Eru hverirnir á Hveravöllum ásamt næsta nágrenni friðlýst sem náttúruvætti, sbr. auglýsingu nr. 217/1975 í B-deild Stjórnartíðinda, og er mannvirkjagerð öll og jarðrask á svæðinu háð leyfi Umhverfisstofnunar. Þar eru nokkur mannvirki, m.a. tveir gistiskálar Ferðafélags Íslands, baðlaug og tjaldsvæði. Á árunum 1995-1997 fór fram mat á umhverfisáhrifum uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum á grundvelli þágildandi laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum.

Frumathugun skipulagsstjóra ríkisins lauk með úrskurði 7. mars 1996. Var niðurstaða hans sú að ráðast skyldi í frekara mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Í kjölfar þessa var lögð fram matsskýrsla og í úrskurði skipulagsstjóra 27. ágúst 1997 segir svo um kynnta framkvæmd: „Bygging allt að 640 m² ferðamannamiðstöðvar að hálfu innan friðlýsta svæðisins en að mestu í hvarfi frá aðalhverasvæðinu á Hveravöllum, ásamt nýjum aðkomuvegi, bílastæði og tjaldsvæði. Einnig er fyrirhugað að girða af hluta friðlýsta svæðisins, leggja um það göngustíga og græða upp svæði innan girðingarinnar. Gert er ráð fyrir hitaveitu, neysluvatnsveitu og fráveitu. Einnig er fyrirhugað að reisa rafstöð (að hámarki 10 m²) og birgðageymslu fyrir bensín og olíur.“ Jafnframt kom fram að nánar tilgreind mannvirki yrðu fjarlægð auk núverandi aðkomuvegar og bílastæða. Eftir stæðu af mannvirkjum steinhlaðið sæluhús, reist 1922, eldri skáli Ferðafélags Íslands, reistur 1938, og veðurathugunarstöð Veðurstofu Íslands, reist 1965. Í úrskurðinum er áformaðri ferðamannamiðstöð lýst með eftirfarandi hætti: „Í ferðamannamiðstöðinni er gert ráð fyrir mótttöku með veitingasölu og möguleika á sölu á íslenskum handiðnaði, gistirými fyrir 80 manns í þremur 15 manna svefnskálum og þriggja og fimm manna herbergjum, eldhúsi, hreinlætisaðstöðu, geymslum, aðstöðu fyrir hestamenn og vélsleða á vetrum, þjónustu við tjaldsvæði, húsnæði fyrir 5 starfsmenn og heitri útilaug.“ Féllst skipulagsstjóri ríkisins á fyrirhugaðar framkvæmdir með tilteknum skilyrðum er fólust m.a. í því að samráð yrði haft við Náttúruvernd ríkisins um endanlega hönnun þjónustumiðstöðvar. Staðfesti umhverfisráðherra greindan úrskurð 19. desember 1997.

Nýtt deiliskipulag Hveravalla tók gildi árið 2002. Í því kemur m.a. fram að í svæðisskipulagi miðhálendis Íslands sé gert ráð fyrir því að Hveravellir verði ein af sjö hálendismiðstöðum landsins. Þá er tiltekið að í aðalskipulagi sé ráðgert að framtíðarþjónustan á Hveravöllum miðist við þá þjónustu sem nú þegar sé veitt en að öll aðstaða verði bætt. Í nefndu deiliskipulagi er og tekið fram að stefnt sé að því að fækka mannvirkjum. Gert sé ráð fyrir nýju þjónustuhúsi og bílastæði á svæðinu. Þá verði ný tjaldstæði ræktuð upp í norðanverðum dalnum.

Ekki hefur verið ráðist í þær framkvæmdir sem kynntar voru í áðurnefndri matsskýrslu. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt, ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Í samræmi við þetta óskaði Húnavatnshreppur eftir því í bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 13. júní 2016, að stofnunin tæki ákvörðun um hvort endurskoða þyrfti áðurnefnda matsskýrslu í heild eða að hluta vegna fyrirhugaðra áforma um að reisa nú allt að 1.710 m² hálendismiðstöð á Hveravöllum. Í greinargerð framkvæmdaraðila, dags. 25. nóvember 2016, er framkvæmdinni nánar lýst. Er þar m.a. tilgreint að umrætt mannvirki verði á sama stað og áður hefði verið ráðgert í mati á umhverfisáhrifum. Breytingar væru frá fyrri áformum varðandi fjölda gistirýma, fyrirkomulag bílastæða og staðsetningu rafstöðvar.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Húnavatnshrepps, Ferðamálastofu, forsætisráðuneytisins, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar um hvort endurskoða bæri fyrrnefnda matsskýrslu. Var þess sérstaklega óskað að tekin yrði afstaða til þess hvort forsendur hefðu breyst verulega frá fyrri úrskurðum Skipulagsstofnunar, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Málið var einnig kynnt með auglýsingu í fjölmiðlum og á vefsíðu Skipulagsstofnunar. Veittur var frestur til að koma að athugasemdum og bárust athugasemdir frá Landvarðafélagi Íslands, Landvernd, Ungum umhverfissinnum og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Töldu Ferðamálastofa, forsætisráðuneytið, Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun að endurskoða bæri matsskýrsluna. Erindi Skipulagsstofnunar var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Húnavatnshrepps 12. desember 2016. Taldi nefndin að verulegar breytingar hefðu orðið á landnotkun svæðisins með stóraukinni umferð ferðamanna en að ekki hefðu orðið umtalsverðar breytingar á náttúrufari. Væru fyrirhugaðar framkvæmdir jákvæðar þar sem þær væru utan friðaða svæðisins og byggingarsvæðið ógróinn melur. Ekki væri þörf á því að endurskoða umrædda matsskýrslu. Vegagerðin tók fram að forsendur hefðu ekki breyst verulega og að ekki væri þörf á því að endurskoða matsskýrsluna út frá hagsmunum Vegagerðarinnar. Í umsögn Minjastofnunar kom fram að fyrir lægju upplýsingar um fornleifar á Hveravöllum. Hins vegar væru engar fornleifar skráðar á því svæði sem afmarkað væri fyrir þjónustuhús, bílastæði og tjaldsvæði. Þyrfti að mati stofnunarinnar ekki að endurskoða matsskýrsluna að því gefnu að farið yrði að nánar tilgreindum kröfum Minjaverndar varðandi fornminjar. Þá taldi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra fyrirhugaðar framkvæmdir jákvæðar en óskaði greinarbetri upplýsinga um fráveitubúnað og fráveitumannvirki. Umsagnir ásamt athugasemdum voru sendar framkvæmdaraðila, sem brást við þeim bréflega 28. febrúar 2017. Fylgdi bréfinu greinargerð frá mars 2013 um áhrif vatns- og gufuvinnslu á hverasvæðið á Hveravöllum.

Með ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að meta þyrfti umhverfisáhrif uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum að nýju. Í ákvörðuninni kemur m.a. eftirfarandi fram: „Tuttugu ár eru liðin frá því mat á umhverfisáhrifum uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum fór fram. Þau framkvæmdaáform sem Hveravallafélagið hefur kynnt eru talsvert breytt frá þeim uppbyggingaráformum sem Svínavatnshreppur og Torfalækjarhreppur lögðu fram við mat á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Það varðar bæði umfang mannvirkjagerðar og eðli og umfang áformaðrar starfsemi. Þá hefur lagaumgjörð og stefna stjórnvalda breyst mikið. Helst ber þar að nefna ný náttúruverndarlög nr. 60/2013 sem fela í sér ýmis nýmæli, svo sem verndarmarkmið og meginreglur um meðal annars varúðarregluna og reglu um mat á heildarálagi. Þá hafa ný skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum leyst af hólmi þá löggjöf sem í gildi var þegar umhverfismatið fór fram 1995-1997, en núgildandi skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum fela í sér miklar breytingar á markmiðum, efnistökum og málsmeðferð frá því sem var samkvæmt skipulags- og umhverfismatslöggjöf á þeim árum. Jafnframt hefur verið mörkuð stefna um skipulagsmál á miðhálendinu með samþykkt Alþingis á Landsskipulagsstefnu 2015-2026 en þar er að finna stefnu um verndun landslags og náttúru miðhálendisins og mannvirkjagerð og ferðaþjónustu á hálendinu. Á þeim tíma sem liðinn er frá því umhverfisáhrif uppbyggingar ferðaþjónustu voru metin hefur einnig orðið þróun í verklagi við umhverfismat. Í umhverfismatinu 1995-1997 var ekki sérstaklega lagt mat á áhrif framkvæmdanna á landslag, en nú er slíkt mat ófrávíkjanlegur hluti umhverfismats mannvirkjagerðar á miðhálendingu og til staðar mótaðar og viðteknar aðferðir við slíkt mat. Jafnframt hafa forsendur breyst frá því umhverfismatið fór fram hvað það varðar að ferðamannastraumur til Hveravalla er meiri en gert var ráð fyrir í umhverfismatinu 1995-1997, auk þess sem ferðamannastraumur til landsins hefur margfaldast á undanförnum árum.“

Enn fremur segir: „Í fjórða kafla [ákvörðunarinnar] er fjallað um áhrifamat með tilliti til landslags, ferðaþjónustu og útivistar, jarðhita- og hverasvæðisins sem er friðlýst sem náttúruvætti, neysluvatns og fráveitu og gróðurs og dýralífs. Ljóst er að þessir umhverfisþættir tengjast náið og valda gagnvirkum og afleiddum áhrifum hver á annan. Þannig er mat á áhrifum fyrirhugaðrar ferðaþjónustuuppbyggingar á landslag nátengt mati á áhrifum þeirra áforma á ferðaþjónustu og útivist, sem aftur tengist áhrifamati á jarðhita- og hverasvæðið, náttúruvættið Hveravelli og gróður á svæðinu þar sem aukin og breytt ferðaþjónustuumsvif á Hveravöllum kunna að auka ágang og álag á svæðið. Einnig er óvissa um áhrif vatnstöku og fráveitu miðað við núverandi uppbyggingaráform. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum getur Skipulagsstofnun ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu ef forsendur hafa breyst verulega frá því að matið fór fram, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina. Í ljósi þess sem að framan er rakið og gerð er nánari grein fyrir í köflum 3 og 4 að framan er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að endurskoða skuli matsskýrslu um uppbyggingu ferðaþjónustu á Hveravöllum í heild sinni. Fara skal með endurskoðunina samkvæmt 8.-11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.“

Málsrök kæranda: Kærandi telur að Skipulagsstofnun skorti heimild til að kveða á um endurskoðun matsskýrslu enda séu skilyrði 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum ekki uppfyllt. Forsendur matsins hafi ekki breyst verulega. Það að langur tími hafi liðið frá því að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram réttlæti ekki endurskoðun á matsskýrslu í heild sinni. Breytingar á forsendum þurfi að vera svo miklar að hugsanlega hefði niðurstaða mats orðið önnur á grundvelli hinna breyttu forsendna. Endurskoðun á matsskýrslu sé íþyngjandi og verði af þeim sökum að túlka ákvæðið þröngt. Með hliðsjón af meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skuli tryggt að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefji. Þótt breytingar hafi orðið á nálgun og aðferðum við mat á umhverfisáhrifum þá geti það ekki talist verulega breyttar forsendur. Verklag við slíkt mat hljóti eðli málsins samkvæmt að vera í sífelldri þróun.

Engin eðlisbreyting sé á þeim framkvæmdum sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum 1995-1997 og þeirri hálendismiðstöð sem fyrirhuguð sé. Miði bæði framkvæmda­áformin að því að bæta aðstöðuna á Hveravöllum. Séu núverandi áform að öllu leyti sambærileg við fyrri áform með þeirri einu breytingu að gert sé ráð fyrir gistiaðstöðu fyrir 120 manns í einu húsi. Ekki sé um neina breytingu á staðsetningu að ræða eða aðrar viðameiri breytingar sem kalli á verulega breyttar forsendur. Hér sé ekki um nýja framkvæmd að ræða heldur aðkallandi breytingar til að mæta betur þörfum ferðamanna ásamt því að gæta betur að Hveravallasvæðinu.

Ekki sé rétt sú fullyrðing Skipulagsstofnunar að með  fyrirhugaðri framkvæmd verði öll gisting hótelgisting. Um þriðjungur gistirýma verði hótelgisting en tveir þriðju hlutar gistiframboðsins verði fjöldagistirými fyrir hópa sem vilji upplifa hefðbundna fjallaskálavist. Sé það sambærileg uppbygging og áður hafi verið gert ráð fyrir. Þá þurfi ekki að meta samlegðaráhrif og gagnvirk áhrif vegna uppbyggingar ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum en um áratugaskeið hafi verið starfrækt ferðaþjónusta á báðum þessum stöðum. Hafi það í för með sér að álagi sé dreift betur og því óljóst hvaða tilgangi það þjóni að láta meta þennan þátt sérstaklega.

Þrátt fyrir að einhverjar breytingar hafi orðið á löggjöf um umhverfismál feli þær ekki í sér slíkar breytingar á forsendum að réttlæti endurskoðun á matsskýrslu í heild sinni. Engar breytingar hafi orðið á alþjóðlegum skuldbindingum eða tækniþróun hvað varði hinar fyrirhuguðu framkvæmdir. Engin breyting hafi átt sér stað á náttúrufari eða landnotkun á Hveravöllum á undanförnum 20 árum. Sé vísað til tveggja rannsóknarskýrslna um náttúrufar á Hveravöllum frá árinu 2009 þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að ekki hafi orðið neinar teljandi breytingar á náttúrufari svæðisins, nema til batnaðar. Stafi það af aðgerðum kæranda til að stýra umferð og ágangi ferðamanna betur um svæðið, með vernd Hveravallasvæðisins í huga.

Þá hafi engin breyting orðið á forsendum umhverfismatsins um áhrif framkvæmdanna á neysluvatn og fráveitu. Búið sé að grafa nýja vatnsveitu sem engin áhrif hafi á friðlýsta hverasvæðið. Einnig hafi kærandi í samvinnu við Umhverfisstofnun sett upp nýja og afkastamikla rotþró, sem sé að öllu leyti fullnægjandi til að anna þeim framkvæmdaráformum sem fyrirhuguð séu. Loks hafi engar breytingar orðið á framkvæmdaráformum sem haft geti áhrif á jarðhita- og hverasvæðið miðað við það sem gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum 1995-1997. Telji Skipulagsstofnun að svipað eigi við um umhverfisþáttinn gróður- og dýralíf.

Mat á umhverfisáhrifum með tilliti til landslags geti átt við á svæðum þar sem engin mannvirki hafi verið reist. Hveravellir séu ekki ósnortið víðerni. Þar sé starfrækt ferðaþjónusta. Séu níu mannvirki á víð og dreif ásamt stóru bílastæði, akstursleiðum og tjaldsvæði inn á friðlýsta svæðinu sem muni hverfa með tilkomu hálendismiðstöðvarinnar. Hafi miðstöðin verið hönnuð með það að leiðarljósi að falla vel að náttúru og landslagi svæðisins og muni ásýnd þess breytast verulega til batnaðar með tilkomu hennar. Sé hægt að sýna þetta með innsetningu á ljósmyndum. Engin þörf sé á því að meta þennan umhverfisþátt sérstaklega á ný.

Gert sé ráð fyrir hálendismiðstöð í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 og uppfylli fyrirhuguð framkvæmd öll skilyrði stefnunnar um hálendismiðstöðvar. Staðfesting umhverfisráðherra 19. desember 1997 á úrskurði skipulagsstjóra ríkisins hafi m.a. verið bundin þeim skilyrðum að endanleg hönnun þjónustumiðstöðvarinnar og annarra mannvirkja yrði í samráði við Náttúruvernd ríkisins og að þjónusta í miðstöðinni yrði í samræmi við þá stefnu sem mörkuð yrði í svæðisskipulagi miðhálendisins.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Bent sé á að hin áformaða umfangsaukning uppbyggingar og þjónustustarfsemi á Hveravöllum, og breytingar á löggjöf og verklagi hafi haft þýðingu fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Það hversu langur tími hafi verið liðinn frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram hafi ekki haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðuna, en aðeins hafi verið vakin athygli á þeim tíma í upplýsingaskyni.

Fyrirhuguð áform séu umfangsmeiri en þau sem sætt hafi mati á árunum 1995-1997. Eingöngu sé fyrirhugað að hafa 2ja-8 manna herbergi, með sérsnyrtingu og án eldunaraðstöðu. Þótt hluti herbergjanna séu átta manna herbergi breyti það því ekki að ekki sé þar gert ráð fyrir eldunaraðstöðu eða öðrum íverurýmum á þeim tíma árs sem hótelið sé opið, eins og gera verði ráð fyrir í fjallaskálum. Falli áformin best að skilgreiningu á hóteli, sbr. skilgreiningar á tegundum gististaða í gr. 4-13 í reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Geti uppbyggingin ekki samrýmst því að gisting sé almennt í gistiskálum í hálendismiðstöðvum, eins og gengið sé út frá í greinargerð með landsskipulagsstefnu.

Umhverfisáhrif uppbyggingar á Hveravöllum hafi verið metin á fyrstu árum formlegs umhverfismats, þegar aðferðir og nálgun hafi enn verið í mótun, en síðan hafi aðferðum við slíkt mat fleygt fram. Þannig sé almennt gengið út frá því að við mat sé lögð fram greining á landslagsgerðum, flokkun í landslagsheildir, metið gildi landslags og áhrif framkvæmda á landslag. Sýnileiki mannvirkja sé metinn og lagt mat á áhrif þeirra á ásýnd lands. Jafnframt sé nú í löggjöf og stefnu stjórnvalda lögð meiri áhersla á landslag og landslagsvernd en þegar matið hafi farið fram. Feli þessi þróun á verklagi og nefndar breytingar í sér verulega breyttar forsendur. Fullyrðing um að mat á umhverfisáhrifum með tilliti til landslags eigi aðeins við á svæðum þar sem engin mannvirki hafi verið reist sé ekki studd haldbærum rökum.

Hvað það varði að meta þurfi sérstaklega samlegðaráhrif og gagnvirk áhrif vegna uppbyggingar ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum sé skírskotað til 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem segi að í frummatsskýrslu skuli m.a. tilgreina samvirk áhrif sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi kunni að hafa á umhverfi. Með samvirkum áhrifum sé t.d. átt við sammögnunar- eða samlegðaráhrif framkvæmdar með öðrum framkvæmdum.

Settar hafi verið fram hugmyndir um breytt fyrirkomulag á öflun gufu og heits vatns. Ekki hafi verið lagðar fram upplýsingar sem skýri að fullu hversu mikil þörf sé fyrir heitt vatn og gufu, miðað við núverandi uppbyggingaráform, samanborið við fyrri áform. Geti aukið umfang mannvirkja og starfsemi haft í för með sér önnur og meiri áhrif á jarðhita- og hverasvæðið og hið friðlýsta svæði vegna heitavatns- og gufuöflunar og ágangs ferðamanna.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé ekki tekin endanleg afstaða til þess hvort forsendur umhverfismatsins hafi breyst verulega með tilliti til neysluvatns og fráveitu heldur sé bent á að það sé vafa undiropið hvort svo sé. Ekki sé því tekin efnisleg ákvörðun um að það þurfi að endurskoða þennan umhverfisþátt. Kunni aukin og breytt ferðaþjónustuumsvif að auka ágang og álag á svæðið. Undir það falli m.a. umhverfisþættirnir gróður og dýralíf.

Skipulagsstofnun bendir loks á að ekki sé fyrir hendi lagaheimild fyrir úrskurðarnefndina til að leggja þá skyldu á stofnunina að greiða málskostnað kæranda.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Skipulagsstofnunar: Kærandi áréttar fyrri sjónarmið sín. Markmið uppbyggingarinnar sé að stuðla að þjónustu við ferðamenn á Hveravöllum og vernd náttúruverðmæta svæðisins með því að flytja núverandi umsvif og byggingar út fyrir verndarsvæðið. Mat á umhverfisáhrifum slíkrar uppbyggingar hafi þegar farið fram og hafi engar breytingar orðið á svæðinu nema til batnaðar.

Ítrekað sé að ekki sé um hótel að ræða og að fyrirhuguð uppbygging uppfylli að öllu leyti skilyrði þess að flokkast sem hálendismiðstöð. Þannig sé fyrirhugað að boðið verði upp á blandaða gistingu í samræmi við ákvæði Landsskipulagsstefnu 2015-2026 um gistimöguleika í hálendismiðstöðvum. Svo sem sjá megi af uppdrætti af miðstöðinni þá standi eldunaraðstaða öllum gestum til boða, hvort sem þeir gisti innandyra eða í tjöldum. Í miðstöðinni verði rými, svo sem matsalur, sem ávallt verði opin fyrir gesti svæðisins. Forsenda Skipulagsstofnunar hvað þetta varði sé því röng og af þeim sökum beri að ógilda ákvörðun stofnunarinnar varðandi þennan þátt málsins.

Engin veruleg breyting hafi átt sér stað á landslagi, landslagsgerð eða landslagsheild á Hveravöllum síðan mat á umhverfisáhrifum fór fram. Ásýnd svæðisins hafi batnað og kærandi hafi komið vatnsveitu- og fráveitumálum í gott horf. Þannig hafi landslagsvernd aukist og fyrirhuguð uppbygging leiði af sér að enn betur verði gert í þessum efnum. Í ljósi staðsetningar verði tryggt að mannvirki verði látlaus, leyfi umhverfinu að njóta sín og taki mið af byggingarlagi og byggingarefnum áningarstaða á miðhálendinu. Hafi kærandi verulega hagsmuni af því að standa vel að uppbyggingu á svæðinu. Séu fyrirhuguð áform að öllu leyti í samræmi við þá stefnu sem mörkuð sé í svæðisskipulagi miðhálendisins. Muni kærandi haga uppbyggingu á svæðinu í samráði við Umhverfisstofnun.

Blöndulón sé í rúmlega 40 km fjarlægð til norðurs. Næsti áningarstaður til suðurs sé ferðaþjónustan í Kerlingarfjöllum og sé rúmlega klukkustundar akstur þangað við bestu aðstæður. Komi ferðamenn aðallega til Kerlingarfjalla til að ganga um svæðið og þurfi að gista til að komast á eftirsóknarverðustu staðina. Ferðamenn á Hveravöllum stoppi flestir stutt á leið sinni yfir Kjöl. Hluti þeirra noti laugarnar á staðnum og lítill hluti, eða um 13%, gisti yfir nótt. Ekki verði séð hvernig uppbygging á þessum stöðum geti haft samvirkniáhrif, sem hægt sé að leggja mat á. Geti slíkt mat aldrei orðið annað en getgátur.

Ekki fáist séð að spurningar um hitunarþörf byggingarinnar feli í sér svo verulega breyttar forsendur að það kalli á endurskoðun á mati á umhverfisáhrifum vegna þess þáttar. Um sé að ræða úrlausnarefni sem haldist í hendur við hönnun byggingarinnar. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafi rannsakað vatns- og gufuöflun úr borholu á Breiðamel, sem sé 2 km fyrir norðan friðlýsta hverasvæðið, en áformað sé að beisla gufu til upphitunar hálendismiðstöðvarinnar úr þeirri borholu. Í skýrslu ÍSOR komi fram að nýting borholunnar eigi ekki að geta valdið neinum merkjanlegum breytingum á hveravirkni á Hveravöllum, ekki síst vegna þess að Breiðimelur sé í afrennsli frá friðlýsta hverasvæðinu. Jafnframt sé bent á að Hveravallasvæðið sé öflugt jarðhitakerfi og heildarafl þess sé metið 9 MW og orkugeta 72 GWst á ári í 50 ár. Aflþörf til húshitunar hálendismiðstöðvarinnar yrði á bilinu 0,5% til 1% af heildarorkugetu svæðisins. Í upphaflegum tillögum um uppbyggingu á Hveravöllum hafi verið gert ráð fyrir rafmagnsframleiðslu á staðnum og að til þess yrðu keyrðar dísilvélar, eins og verið hafi. Sú jákvæða breyting hafi orðið á þessum áformum að rekstraraðilar á sunnanverðum Kili hafi lagt upp með samstarf um að fá rafmagn með jarðstreng frá Bláfellshálsi, sem RARIK myndi leggja. Aðilar séu vongóðir um að þessi áform gangi eftir og að strengurinn verði lagður næsta vor eða sumar. Ljóst sé að tilkoma þessa rafstrengs yrði afar jákvætt innlegg í þá náttúruupplifun sem ferðamenn sækist eftir á Hveravöllum. Þá sé með dælingu á heitu vatni eða gufu utan frá hægt að hætta núverandi heitavatnstöku á friðlýsta hverasvæðinu.

Ferðamönnum hafi fjölgað á Hveravöllum í takt við fjölgun ferðamanna til Íslands. Hafi þeir sótt Hveravelli heim þrátt fyrir þá takmörkuðu og úr sér gengu aðstöðu sem þar sé að finna. Kærandi hafi gert sitt besta til að mæta þessari fjölgun ferðamanna og tryggja að hún hafi ekki neikvæð áhrif á náttúruvættið. Hafi kærandi þannig fjárfest fyrir 100 milljónir króna í nýrri fráveitu, nýrri kaldavatnslögn og uppsetningu salernisaðstöðu til bráðabirgða, auk annarra úrbóta. Árangur kæranda af þessum aðgerðum hafi verið mikill og hafi Umhverfisstofnun tekið Hveravelli af svonefndum rauðum lista um náttúruverndarsvæði í hættu. Sé fyrirhuguð uppbygging hálendismiðastöðvar gagngert hugsuð til að minnka álag og ágang á friðlýsta svæðinu.

—–

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 að endurskoða skuli matsskýrslu um uppbyggingu ferðaþjónustu á Hveravöllum, en með úrskurði skipulagsstjóra ríkisins 27. ágúst 1997 var fallist á fyrirhugaðar framkvæmdir á Hveravöllum með nánar tilgreindum skilyrðum.

Þegar mat á umhverfisáhrifum þjónustuhúss á Hveravöllum fór fram á árunum 1995-1997 voru í gildi lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum, en núgildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfishrifum leystu þau lög af hólmi. Gerð er grein fyrir markmiðum síðarnefndu laganna í 1. gr. þeirra. Eiga þau m.a. að tryggja að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar sem kunni vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgi, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif áður en leyfi sé veitt fyrir viðkomandi framkvæmd. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Enn fremur er það markmið að stuðla að samvinnu hagsmunaaðila eða þeirra sem láta sig málið varða sem og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir. Fjallað er um endurskoðun matsskýrslu í 12. gr. laga nr. 106/2000. Kemur þar fram í 1. mgr. að ef framkvæmdir hefjist ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir skuli viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar stofnunarinnar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Samkvæmt 2. mgr. getur stofnunin ákveðið að slík endurskoðun fari fram ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.

Skýra verður ákvæði 12. gr. laga nr. 106/2000 á þann veg að markmiðum laganna verði sem best náð með þessari endurskoðunarheimild. Henni verður þó ekki beitt nema uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. 12. gr. um að forsendur hafi breyst og það verulega. Leiðir sérhver forsendubreyting þannig ekki til þess að skilyrði séu til að ákveða að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdar heldur verður að vera um verulega breytingu að ræða. Ekki eru í ákvæðinu tæmandi taldar þær forsendur sem til greina koma, en nokkrar eru nefndar í dæmaskyni, svo sem áður greinir. Er og tekið fram í athugasemdum með ákvæði 2. mgr. 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 106/2000 að eitt dæmi um verulega breyttar forsendur sé að tækniþróun hafi breytt möguleikum til að minnka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar. Forsendubreyting getur því hvort sem er leitt til þess að umhverfisáhrif verði minni eða meiri, jákvæðari eða neikvæðari. Aðrar breytingar á forsendum, sem geta komið til greina, eru t.d. aukin þekking, enda getur skortur á grunnþekkingu við mat á umhverfisáhrifum ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að frekara mat á umhverfisáhrifum fari ekki fram komi fram vísbendingar um að þess þurfi. Annað væri í andstöðu við grunnhugsunina að baki varúðarreglunni. Eftir sem áður yrði að vera um verulega breytingu að ræða, sbr. 2. mgr. 12. gr. nefndra laga.

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila við mat á umhverfisáhrifum uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum á árunum 1995-1997 var fyrirhugaðri framkvæmd lýst, en eins og áður segir var  m.a. gert ráð fyrir allt að 640 m² ferðamannamiðstöð, að hálfu innan friðlýsta svæðisins, ásamt nýjum aðkomuvegi, bílastæði og tjaldsvæði. Í fyrrnefndum úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er að finna umfjöllun um nánar tilgreinda þætti og afstöðu skipulagsstjóra til þeirra. Er þar um að ræða vatnstöku og varmanám á jarðhitasvæðinu, öflun kalds neysluvatns, gróðurfar og dýralíf, þörf fyrir uppgræðslu, umhverfisvöktun sem og spá um fjölda ferðamanna og þörf fyrir þjónustu á Hveravöllum. Jafnframt er vikið að umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar uppbyggingar og þau borin saman við óbreytta þjónustu á Hveravöllum en þar kemur fram að framlagðar tillögur geri ráð fyrir talsverðum breytingum frá því sem verið hafi og að aðstaða fyrir ferðamenn muni gjörbreytast. Var niðurstaða skipulagsstjóra sú að fyrirhuguð framkvæmd hefði ekki í för með sér umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir eða samfélag, að uppfylltum nánar settum skilyrðum.

Í greinargerð kæranda til Skipulagsstofnunar, dags. 25. nóvember 2016, er m.a. greint frá breytingum á framkvæmdaráformum og fjallað um hvort breytingar hafi orðið á staðháttum eða aðstæðum sem haft gætu áhrif á fyrirhugaða framkvæmd. Lagt er mat á það hvort nýjar rannsóknir, breyttir staðhættir, lagaumhverfi eða áhrif vegna framkvæmda muni hafa áhrif á hvern umhverfisþátt umfram það sem mat á umhverfisáhrifum frá árinu 1997 hafi leitt í ljós og ef svo sé í hverju þau áhrif felist. Enn fremur eru tilgreindir þeir þættir í umhverfinu sem helst eru taldir geta orðið fyrir umhverfisáhrifum og tekið fram að þeir séu valdir í samráði við Skipulagsstofnun. Um eftirfarandi umhverfisþætti sé að ræða, jarðhita- og hverasvæði, neysluvatn, gróðurfar og dýralíf, sem og ferðamennska. Eiga þessir þættir sér samsvörun við þá þætti sem fyrra mat á umhverfisáhrifum laut að. Er það mat kæranda að fyrirhuguð framkvæmdaráform muni í heild sinni hafa í för með sér óveruleg áhrif á umhverfið. Áhrif verði á umhverfisþáttinn ferðamennska þar sem breyting muni verða á þeirri aðstöðu sem í boði verði á Hveravöllum en áhrif á aðra umhverfisþætti eru talin óveruleg.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar laut að því að meta hvort og að hvaða leyti endurskoða skyldi matsskýrslu kæranda. Var við þá ákvörðun litið til áhrifa hinna fyrirhuguðu áforma á landslag, ferðaþjónustu og útivist, jarðhita- og hverasvæðið og náttúruvættið Hveravelli, á neysluvatn og fráveitu og gróður og dýralíf, sem og til hvaða áhrifa breytt framkvæmdaráform leiða. Telur stofnunin að kynnt áform séu umfangsmeiri en þau sem áður höfðu sætt mati, bæði hvað varðar mannvirkjagerð og eðli og umfang áformaðrar starfsemi, og að það eitt og sér geti kallað á að umhverfisáhrifin verði metin að nýju. Þurfi að hafa í huga hvernig uppbyggingin samræmist Landsskipulagsstefnu 2015-2026 hvað varði mannvirkjagerð og ferðaþjónustu á miðhálendinu. Lagaumgjörð og stefna stjórnvalda hafi breyst mikið og þróun orðið í verklagi við mat á umhverfisáhrifum. Þá er bent á að forsendur hafi breyst hvað varði fjölda ferðamanna er komi til Hveravalla, en hann sé meiri en áður hafi verið gert ráð fyrir. Varðandi einstaka þætti, þ.e. landslag, ferðaþjónustu og útivist og jarðhita- og hverasvæðið og náttúruvættið Hveravelli, var niðurstaða stofnunarinnar sú að breyttar forsendur kölluðu á að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar yrði endurskoðað hvað þá varðaði. Taldi stofnunin ljóst að þessir umhverfisþættir tengdust náið og myndu valda gagnvirkum og afleiddum áhrifum hver á annan. Þá ríkti óvissa um áhrif vatnstöku og fráveitu miðað við núverandi uppbyggingaráform. Var það því niðurstaða stofnunarinnar að endurskoða skyldi matsskýrslu um uppbyggingu ferðaþjónustu á Hveravöllum í heild sinni.

Óumdeilt er að uppbygging ferðaþjónustu á Hveravöllum hefur áhrif á umhverfið, en deilt er um hvort mat á þeim áhrifum þurfi að fara fram að nýju. Kærandi telur að þrátt fyrir stækkun miðstöðvarinnar sé engin eðlisbreyting á þeim framkvæmdum sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Áformin lúti að samskonar uppbyggingu og áður, um  sömu staðsetningu sé að ræða og starfsemi. Fyrir liggur að í stað allt að 640 m² ferðamannamiðstöðvar er nú áformuð allt að 1.710 m² hálendismiðstöð, sem fyrr að hálfu innan friðlýsta svæðisins en að mestu í hvarfi frá aðalhverasvæðinu. Þá gera bæði framkvæmdaáform ráð fyrir því að nánar tilgreind mannvirki verði fjarlægð, gerður verði nýr aðkomuvegur og útbúin ný tjaldsvæði. Hluti friðlýsta svæðisins verði girtur af og lagðir um það göngustígar og svæði innan girðingarinnar grætt upp. Áður var gert ráð fyrir móttöku með veitingasölu og möguleika á sölu á íslenskum handiðnaði, gistirými fyrir 80 manns í þremur 15 manna svefnskálum og þriggja og fimm manna herbergjum, eldhúsi, hreinlætisaðstöðu, geymslum, aðstöðu fyrir hestamenn og vélsleða á vetrum, þjónustu við tjaldsvæði, húsnæði fyrir 5 starfsmenn og heitri útilaug. Nú er samkvæmt greinargerð kæranda áformuð allt að 1.710 m² bygging með gistingu fyrir um 120 manns í tveggja, þriggja og fjögurra til átta manna herbergjum, öllum með sérbaðherbergjum. Í byggingunni verður m.a. veitingastaður og verslun og gistiaðstaða fyrir 12 starfsmenn. Einnig eru gerðar breytingar frá fyrri áformum varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða, rútustæða og húsbílastæða og staðsetningu rafstöðvar. Liggur þannig fyrir að nú er gert ráð fyrir miklu mun meira byggingarmagni en áður, um helmings fjölgun gesta og tvöföldun starfsmanna. Er framkvæmdin þannig töluvert breytt frá því sem áður var en ekki er hægt að telja að breytingin sé svo mikil að eðli eða umfangi að þegar af þeirri ástæðu sé um svo verulega breytta forsendu að ræða í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að mat þurfi í heild sinni að fara fram að nýju.

Eins og fyrr greinir voru lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum í gildi þegar fram fór mat á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Núgildandi lög eru nr. 106/2000 og hefur þeim verið margsinnis breytt frá þeim tíma, m.a. voru viðamiklar breytingar gerðar með lögum nr. 74/2005. Einnig hafa verið gerðar breytingar á lögum um náttúruvernd og eru núgildandi lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að þeim lögum eru raktar helstu breytingar sem frumvarpið fól í sér frá fyrri lögum nr. 44/1999 sama heitis. Var tekið fram að þau innihéldu ítarlegri markmiðsákvæði og nokkrar meginreglur sem leggja bæri til grundvallar við framkvæmd laganna í heild. Meðal annars væru þar útfærðar nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar, t.d. varúðarreglan og greiðslureglan. Ákvæði um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda væru ítarlegri en í gildandi lögum. Við setningu nýrra laga var þannig lögð áhersla á að um ítarlegri ákvæði væri að ræða um margt og útfærslu meginreglna umhverfisréttar. Skipulagslög nr. 123/2010 hafa leyst af hólmi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Í skipulagslögum er kveðið á um landsskipulagsstefnu en í henni skal ávallt vera uppfærð stefna um skipulagsmál á miðhálendi Íslands og er henni þannig ætlað að koma í stað svonefnds svæðisskipulags miðhálendisins samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Þá er á meðal markmiða skipulagslaga að tryggja vernd landslags auk þess sem landslag er skilgreint, en sambærilegt markmið og skilgreiningu var ekki að finna í skipulags- og byggingarlögum.

Þrátt fyrir að þannig sé ljóst að ýmsar breytingar hafi orðið á lagaumhverfinu öllu frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram á árunum 1995-1997 verður réttarþróun sú sem átt hefur sér stað ekki talin svo veruleg breyting á forsendum í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að vegna hennar þurfi að endurskoða matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum í heild sinni. Hins vegar getur komið til álita hvort þróunin hafi verið slík varðandi einhverja þætti sérstaklega að endurskoða þurfi matsskýrsluna vegna þess hluta.

Verður nú fjallað um niðurstöðu Skipulagsstofnunar varðandi hvern og einn þeirra þátta sem umfjöllun hennar tók til, m.a. að teknu tilliti til þess sem áður er rakið.

Landslag

Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er tekið fram að lítil umfjöllun hafi verið í mati á umhverfisáhrifum um áhrif framkvæmdarinnar á landslag og þau sjónrænu áhrif sem uppbyggingin myndi hafa í för með sér. Skírskotar stofnunin til þess að nú sé gert ráð fyrir nær þreföldun á stærð ferðamannamiðstöðvarinnar og kunni áhrif hennar á landslag því að vera önnur en þeirrar framkvæmdar sem til umfjöllunar hafi verið í mati á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Aðferðum við mat á áhrifum framkvæmda á landslag hafi fleygt fram frá þeim tíma og lagaumgjörð og stefna stjórnvalda um landslag og landslagsvernd tekið breytingum.

Með lögum nr. 74/2005 var lögum nr. 106/2000 breytt og meðal nýmæla var að Skipulagsstofnun skyldi gefa út leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum. Var það og gert, en á árinu 2005 voru gefnar út Leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og Leiðbeiningar um flokkun umhverfisþátta, viðmið, einkenni og vægi umhverfisáhrifa. Í síðarnefndu leiðbeiningunum eru skilgreindir átta megin umhverfisþættir sem fjalla skal um við mat á umhverfisáhrifum og er einn þeirra landslag. Ljóst er að ekki var fjallað um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á landslag við mat á umhverfisáhrifum hennar í samræmi við nefndar leiðbeiningar og að verklag hvað það varðar hefur vegna breytinga á löggjöf breyst mikið frá því að mat fór fram, en auk þess er fyrirhuguð framkvæmd töluvert breytt. Verður því fallist á að um verulegar breytingar á forsendum sé að ræða í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 og er hafnað kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun um að endurskoða þurfi matsskýrslu hvað þennan þátt varðar. Í þessu sambandi leggur úrskurðarnefndin áherslu á að þótt ásýnd svæðisins muni mögulega breytast til batnaðar þá verða áhrif framkvæmdarinnar önnur en áður var talið, auk þess sem þau áhrif voru ekki metin nema að takmörkuðu leyti í upphafi.

Ferðaþjónusta og útivist

Hvað varðar áhrif á ferðaþjónustu og útivist vísar Skipulagsstofnun til umsagna Ferðamálastofu, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og forsætisráðuneytisins, sem og til athugasemda sem bárust. Er það álit fyrrnefndra aðila að endurskoða þurfi matsskýrslu í heild sinni að teknu tilliti til ýmissa þátta. Forsendur séu gjörbreyttar og fyrirhugaðar framkvæmdir séu til þess fallnar að auka enn frekar álag á viðkvæman gróður og hveramyndanir. Jafnframt þurfi að líta til staðsetningar og þess hvort framkvæmdaráform samræmist landsskipulagsstefnu. Þá er bent á áform ríkisstjórnarinnar um verndun miðhálendisins. Er niðurstaða Skipulagsstofnunar á þá leið að sú mikla fjölgun ferðamanna til landsins sem orðin sé, stefna stjórnvalda og sú reynsla sem byggja megi á varðandi viðhorf ferðamanna og ferðaþjónustuaðila feli í sér breyttar aðstæður sem líta verði á sem verulega breyttar forsendur í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga 106/2000. Stofnunin vísar um þá niðurstöðu sína einnig til þeirra breytinga sem orðið hafi á framkvæmdaráformum og í forsendum vegna þessa er tekið fram að samkvæmt framlögðum gögnum framkvæmdaraðila sé miðað við að öll gisting í nýrri þjónustumiðstöð verði hótelgisting og telji stofnunin þau áform ekki í samræmi við ákvæði Landsskipulagsstefnu 2015-2026 um hálendismiðstöðvar.

Í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 er gert ráð fyrir níu hálendismiðstöðvum og eru Hveravellir og Kerlingarfjöll þeirra á meðal. Þjónustustarfsemi á fyrst og fremst að felast í rekstri gistingar og tjaldsvæða, auk fræðslu og eftirlits, en einnig getur verið um einhvern verslunar- og veitingarekstur að ræða. Gisting er almennt í gistiskálum, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en þau eru nr. 85/2007, og reglugerð nr. 585/2007, auk tjaldsvæða. Einnig er tekið fram að möguleiki sé á að bjóða upp á hótel- og gistiheimilagistingu, sbr. reglugerð nr. 585/2007, enda sé slík gisting aðeins hluti gistiframboðs á viðkomandi stað og falli að öllu leyti að kröfum um óbyggðaupplifun. Reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald hefur leyst eldri reglugerð nr. 585/2007 af hólmi, en hótel og gistiskálar eru skilgreind með sambærilegum hætti og áður. Þannig er hótel gististaður þar sem gestamóttaka er aðgengileg allan sólarhringinn, veitingar af einhverju tagi framleiddar á staðnum og skal fullbúin baðaðstaða vera með hverju herbergi, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Samkvæmt sömu grein er gistiskáli skilgreindur sem gisting í herbergjum eða svefnskálum og falla hér undir farfuglaheimili (hostel). Samkvæmt nefndri 4. gr. getur hver einstök tegund gististaða fallið undir fleiri en einn flokk gististaða.

Svo sem fram hefur komið er áður áformaðri ferðamannamiðstöð lýst svo í úrskurði skipulagsstjóra að m.a. sé gert ráð fyrir mótttöku með veitingasölu og gistirými fyrir 80 manns í þremur 15 manna svefnskálum og þriggja og fimm manna herbergjum. Breytt framkvæmdaráform gera ráð fyrir gistirými fyrir 120 manns í einu húsi í tveggja, þriggja og fjögurra til átta manna herbergjum, sem öllum fylgir sérsnyrting. Á mynd 6 í greinargerð framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar er að finna teikningu sem sýnir frumdrög að þjónustuhúsi og lýsingu á því. Þar kemur fram að í álmu fyrir gistirými verði 20 herbergi fyrir 40-60 manns, þar af 14 venjuleg tveggja manna herbergi, fjögur herbergi með aðgengi fyrir hjólastóla og tvær svítur. Í annarri álmu er að finna gistirými fyrir hópa og því lýst að þar sé um að ræða 10 herbergi, öll með snyrtingu, fyrir samtals 40-80 gesti, þ.e. fjögurra til átta manna herbergi. Í framhaldi af þeirri álmu er m.a. sýndur matsalur með eldhúsi fyrir tjaldsvæði og er ekkert sem bendir til þess að gestum, öðrum en þeim er nýta tjaldsvæðið, verði meinaður aðgangur að þeirri aðstöðu. Verður ekki séð af þessari lýsingu að án frekari rökstuðnings eða rannsóknar hafi verið hægt að draga svo afdráttarlausa ályktun að ekki yrði um að ræða gistingu í gistiskála að neinu leyti og að þar með væri ekki uppfyllt krafa landsskipulagsstefnu um að blönduð gisting verði í boði í hálendismiðstöðvum.

Hvað sem því líður verður þó ekki fram hjá því litið að fjölgun ferðamanna á Íslandi síðustu ár hefur verið mjög mikil og miklum mun meiri en fyrirséð var. Sést þess og stað í fjölda heimsókna til Hveravalla, en í úrskurði skipulagsstjóra frá 1997 var tekið fram að í spá um fjölda sumargesta á Hveravöllum væri gert ráð fyrir að yfir sumartímann (70 daga) gætu gistinætur orðið allt að 8.500 og heildarfjöldi daggesta allt að 23.000. Í greinargerð framkvæmdaraðila kemur fram að árlegur fjöldi gesta á Hveravöllum sé um 35.000 og sé gert ráð fyrir að þeim fjölgi um 5-10% á ári. Ekki liggi fyrir upplýsingar um fjölda gistinátta á svæðinu. Í svörum framkvæmdaraðila við framkomnum umsögnum og athugasemdum kemur  fram að samkvæmt könnun á vegum Ferðamálastofu árin 2011, 2014 og 2016 hafi erlendum ferðamönnum á Hveravöllum fjölgað á fimm árum úr um 30.000 í ríflega 60.000. Tekið er fram að ekki sé óvarlegt að áætla að a.m.k. 80.000 gestir hafi komið til Hveravalla árið 2016 og 13% þeirra gist. Þrátt fyrir að upplýsingar um fjölda ferðamanna séu nokkuð á reiki er að mati úrskurðarnefndarinnar um svo mikla breytingu að ræða að telja verði það verulega breytta forsendu í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000, að teknu tilliti til markmiða 1. gr. laganna. Er enda ekki tæmandi talið í nefndu lagaákvæði um hvaða forsendur geti verið að ræða. Með tilliti til þessa verður hafnað ógildingarkröfu kæranda vegna þess þáttar er lýtur að ferðaþjónustu og útivist.

Skipulagsstofnun telur einnig að í nýju mati á umhverfisáhrifum sé tilefni til umfjöllunar um möguleg gagnvirk áhrif og samlegðaráhrif, m.a. með uppbyggingu í Kerlingarfjöllum, en kærandi fær ekki séð um hvers konar samvirk áhrif geti verið að ræða sem hægt sé að leggja mat á. Bendir úrskurðarnefndin í þessu sambandi á að í þessu orðalagi felist fyrst og fremst forsendur stofnunarinnar fyrir því að endurskoða þurfi matsskýrslu hvað ferðaþjónustu og útivist varðar. Er enda ekki gert ráð fyrir því í lögum nr. 106/2000 að í ákvörðun um hvort endurskoða þurfi matsskýrslu verði grunnur lagður að nýju mati heldur verði það gert í matsáætlun sem framkvæmdaraðili getur eftir atvikum kært til úrskurðarnefndarinnar.

Jarðhita- og hverasvæðið, náttúruvættið Hveravellir

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar er greint frá því að í greinargerð framkvæmdaraðila komi fram að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á framkvæmdaráformum sem haft geti áhrif á jarðhita- og hverasvæðið, miðað við það sem gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Þó séu uppi hugmyndir um að sækja heitt vatn í borholu á Breiðamel sem sé utan við verndarsvæði hveranna. Gert sé ráð fyrir að lagnir liggi að svæðinu og að vatnið verði nýtt bæði til húshitunar og framleiðslu á rafmagni fyrir svæðið, í stað díselknúinna ljósavéla með tilheyrandi hljóð- og loftmengun.

Skipulagsstofnun bendir í ákvörðun sinni á að hverasvæðið á Hveravöllum sé friðlýst náttúruvætti og að hverahrúður í kringum hverina sé viðkvæmt og njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Vísar stofnunin til þeirra breytinga sem orðið hafi á lögum um náttúruvernd og bendir á að meðal meginreglna sem settar séu þar fram séu varúðarreglan og regla um mat á heildarálagi. Þá tekur Skipulagsstofnun fram að þótt ekki sé talið að miklar breytingar hafi orðið á náttúrufari svæðisins telji stofnunin að sá tími sem liðinn sé frá mati á umhverfisáhrifum gefi tilefni til að áformuð uppbygging ásamt nýjustu upplýsingum um náttúrufar og umhverfisáhrif séu kynnt hagsmunaaðilum að nýju. Einnig er vikið að því að hafa þurfi m.a. í huga þau markmið laga nr. 106/2000 að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hagsmuna eigi að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falli undir ákvæði laganna. Vísar Skipulagsstofnun og til þess að breytingar hafi orðið á framkvæmdaráformum og að settar hafi verið fram hugmyndir um breytt fyrirkomulag á öflun gufu og heits vatns. Er það niðurstaða stofnunarinnar að aukið umfang mannvirkja og starfsemi geti haft í för með sér önnur og meiri áhrif vegna heitavatns- og gufuöflunar og ágangs ferðamanna. Telur Skipulagsstofnun að fyrirhuguð áform og þær breytingar sem orðið hafi á löggjöf feli í sér verulegar breytingar á forsendum og kalli á að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verði endurskoðað hvað þetta varðar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur takmarkaða þýðingu í þessu samhengi að skerpt hafi verið á meginreglum umhverfisréttar í nýjum náttúruverndarlögum eða að langur tími hafi liðið frá upphaflegu mati, enda er tekið fram í niðurstöðu Skipulagsstofnunar að ekki sé talið að miklar breytingar hafi orðið á náttúrufari svæðisins. Skal og á það bent að í ákvörðun Skipulagsstofnunar er tekið fram að ekki hafi verið lagðar fram upplýsingar sem skýri að fullu hve mikil þörf fyrir heitt vatn og gufu sé miðað við núverandi uppbyggingaráform samanborið við fyrri áform. Hefði eftir atvikum verið rétt af því tilefni að Skipulagsstofnun leitaði upplýsinga hvað þetta varðaði, enda gátu þær upplýsingar haft þýðingu við mat stofnunarinnar á því hvort endurskoða bæri matsskýrslu. Hins vegar ber til þess að líta að ráð er fyrir því gert að hálendismiðstöðin verði staðsett að hluta til innan friðlýsta svæðisins. Ljóst er einnig að staðsetning byggingarinnar og töluverð stækkun hússins frá því sem áður var gert ráð fyrir geta aukið álag á jarðhitasvæðið. Þá er stóraukinn fjöldi ferðamanna og tilheyrandi umgangur um svæðið til þess fallinn að valda enn auknu álagi á viðkvæmt svæðið. Að teknu tilliti til framangreinds verða ágallar á rökstuðningi Skipulagsstofnunar ekki látnir varða ógildingu niðurstöðu hennar um að endurskoða þurfi matsskýrslu hvað varðar áhrif framkvæmdarinnar á jarðhita- og hverasvæðið sem friðað er sem náttúruvætti.

Gróður og dýralíf

Hvað umhverfisþáttinn gróður og dýralíf varðar þá er það mat Skipulagsstofnunar að svipað eigi þar við og um jarðhita- og hverasvæðið og náttúruvættið Hveravelli, þ.e. að talsverðar breytingar hafi orðið á náttúruverndarlöggjöf og að langt sé liðið frá mati á umhverfisáhrifum. Gefi það tilefni til að áformuð uppbygging ásamt nýjustu upplýsingum um náttúrufar og umhverfisáhrif séu kynnt hagsmunaaðilum að nýju. Álit úrskurðarnefndarinnar er sem áður að þessi atriði hafi takmarkaða þýðingu. Þannig skiptir t.a.m. tímalengdin ein og sér ekki máli heldur hefur löggjafinn ákveðið að skoða þurfi hverju sinni hvort forsendur hafi breyst og það verulega, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Þá voru tilvitnaðar meginreglur náttúruverndarlaga vel þekktar í umhverfisrétti þegar mat fór fram. Rökstuðningi Skipulagsstofnunar er að þessu leyti áfátt.

Líkt og fram hefur komið er þó gert ráð fyrir að stærra svæði fari undir mannvirki en áður var talið. Þá má vegna fjölgunar ferðamanna búast við meiri ágangi á gróður og dýralíf. Þótt gróður breytist hægt á hálendi Íslands er ekki óeðlilegt að farið sé fram á að lagt sé til nýrra mat, ekki síst þar sem ljóst er að landnýting hefur mikil áhrif á gróður og jarðveg á Hveravöllum. Í þessu sambandi er rétt að árétta sérstaklega að þótt framkvæmdaraðili telji stækkun framkvæmdar fara inn á gróðursnauð svæði og bendi á að bæði miðstöðin og bílastæði verði staðsett á mel þá hefur þekking og skilningur á vistfræðilegum ferlum á lítt grónum svæðum aukist mjög á þeim tíma sem liðinn er frá mati á umhverfisáhrifum. Verður að telja að forsendur hafi breyst í verulegum mæli hvað varðar aukna þekkingu, aukið umfang framkvæmda og fjölgun ferðamanna, en á síðarnefndu atriðunum byggði Skipulagsstofnun lokaniðurstöðu sína. Krafa kæranda um ógildingu þessa hluta ákvörðunar stofnunarinnar er því ekki tekin til greina.

Skal og á það bent að í úrskurði skipulagsstjóra kemur fram að smádýralíf hafi ekki verið rannsakað eða dýralífskönnun farið fram á Hveravöllum vegna mats á umhverfisáhrifum. Þá er ljóst að uppgræðsla með innlendum staðartegundum gegndi stóru hlutverki í áætlunum framkvæmdaraðila og í matsskýrslu hans þá og í greinargerð hans nú kemur fram að græða eigi upp 3,5 ha lands. Það er þó ekki að fullu ljóst með hvaða hætti þetta muni verða framkvæmt eða hvernig tilhögun tjaldsvæða verði á meðan á uppgræðslu stendur, t.a.m. hvort um nokkurra ára skeið verði boðið upp á eldri tjaldsvæðin eða tjaldsvæði á ógrónu svæði til bráðabirgða.

Neysluvatn og fráveita

Í umfjöllun Skipulagsstofnunar er tekið fram að samkvæmt greinargerð framkvæmdaraðila sé öflun neysluvatns óbreytt og að borað hafi verið eftir köldu vatni við Hvannavallakvísl árið 2012. Með þeirri borholu sé ekki talin þörf á frekari öflun vatns vegna fyrirhugaðra byggingar- og rekstraráforma á Hveravöllum. Vísar Skipulagsstofnun til umsagnar Ferðamálastofu er telur að forsendur um m.a. nýtingu heits og kalds vatns, úrgangslosun, frárennsli og efnislosun séu gjörbreyttar og kalli á nýtt mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt vísar Skipulagsstofnun til umsagnar Umhverfisstofnunar þar sem fram komi að með breyttum áherslum varðandi umfang mannvirkjagerðar og aukin umsvif á Hveravöllum ætti við mat á umhverfisáhrifum að fjalla ítarlega um mögulegar lausnir í fráveitumálum á svæðinu í samræmi við kröfur í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Loks er tekið fram að framkvæmdaraðili bendi á í svörum sínum að umfangsmikil endurnýjun hafi fram árið 2013 á fráveitu svæðisins og að staðhæft sé að sú fráveita muni anna þeirri starfsemi sem félagið áformi.

Er niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að það sé vafa undirorpið hvort forsendur mats á umhverfisáhrifum varðandi áhrif á neysluvatn og fráveitu hafi breyst verulega. Varði það bæði umfangsaukningu og eðlisbreytingu áformaðra mannvirkja og þjónustu og hugmyndir um breytt fyrirkomulag á vatnsöflun. Kemst Skipulagsstofnun þannig ekki að því í þessum kafla að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um að forsendur hafi breyst verulega. Allt að einu er það lokaniðurstaða stofnunarinnar að endurskoða skuli matsskýrslu um uppbyggingu á Hveravöllum í heild sinni. Í forsendum lokaniðurstöðu sinnar tiltekur stofnunin þær breytingar á lögum er áður hafa verið raktar, nýja landsskipulagsstefnu, aukið umfang framkvæmdarinnar og breyttar forsendur um fjölda ferðamanna. Einnig að umhverfisþættirnir tengist náið og valdi gagnvirkum og afleiddum áhrifum hver á annan. Skýrir stofnunin það nánar hvað varðar alla þættina utan vatnstöku og fráveitu, en þar færir stofnunin engin frekari rök fram en að um þau áhrif sé uppi óvissa. Skortir verulega á að rökstuðningur þessi sé svo skýr og greinargóður að ljóst sé af hverju meta þurfi áhrif vegna neysluvatns og fráveitu að nýju. Er sú niðurstaða raunar óskýr að efni til, enda bendir Skipulagsstofnun í athugasemdum sínum til úrskurðar­nefndarinnar á að hún taki „ekki efnislega ákvörðun um að það þurfi að endurskoða þennan umhverfisþátt.“ Er það ekki í samræmi við þá lagaskyldu sem hvílir á stofnuninni að taka ákvörðun í samræmi við fyrirmæli 12. gr. laga nr. 106/2000.

Í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins kemur fram að kalds neysluvatns verði aflað með borun við Hvannavallakvísl. Svo sem áður kom fram var svo gert árið 2012. Í úrskurðinum kemur enn fremur fram um tilhögun fráveitumála að notast verði við rotþró og siturlögn. Nánari lýsingu á því hvernig fráveitumálum er nú háttað á svæðinu má finna í fyrrnefndum svörum framkvæmdaraðila. Þar er tekið fram að árið 2013 hafi hann hafið umfangsmikla endurnýjun á fráveitu svæðisins í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun. Sett hafi verið niður 60.000 lítra rotþró langt fyrir utan friðlýsta svæðið og fráveituvatn frá henni lagt í 800 m² siturbeð. Tilhögun framkvæmdar hvað þessa þætti varðar er því sambærileg við það sem fyrirhugað var við mat á umhverfisáhrifum.

Reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp tók gildi að loknu mati á umhverfisáhrifum, en skv. lið 3.14 í 3. gr. reglugerðarinnar telst það tveggja þrepa hreinsun þegar notuð er rotþró með siturlögn við hreinsun skólps. Í reglugerðinni er m.a. fjallað um við hvaða aðstæður heimilt er að hreinsa skólp með þeim hætti. Þannig er tekið fram í lið 7.1 í 7. gr. að hreinsa skuli skólp með tveggja þrepa hreinsun eða sambærilegri hreinsun áður en því sé veitt í viðtaka, en þó skal hreinsa skólp með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa ef viðtaki er viðkvæmur eða nýtur sérstakrar verndar vegna nytja af ýmsu tagi, lífríkis, jarðmyndana eða útivistar, auk annarra sérstakra vatnsverndunarsvæða, sbr. svo breyttan lið 7.2 í sömu grein. Þá segir m.a. í 13. gr. sömu reglugerðar, lið 13.3, að fráveituvatni einstakra húsa, þ.m.t. íbúðarhúsa lögbýla, frístundahúsa og fjallaskála, sem ekki verði veitt í fráveitur skuli veitt um rotþró og siturleiðslu, samkvæmt ákveðnum leiðbeiningum og fyrirmælum, eða um annan sambærilegan búnað. Verður ekki ráðið að tilkoma nefndrar reglugerðar hafi verið verulega breytt forsenda í skilningi 2. mgr.12. gr. laga nr. 106/2000, en Skipulagsstofnun vék ekki heldur að reglugerðinni í ákvörðun sinni að öðru leyti en því að vísa til umsagnar Umhverfisstofnunar. Í áðurgreindum svörum sínum til Skipulagsstofnunar vísaði framkvæmdaraðili m.a. til þess að teknir hefðu verið úr rotþrónni um 11.000 lítrar í september 2016 og var það mat þjónustuaðilans að ef um mikla umferð yrði að ræða þyrfti að taka úr henni aftur eftir eitt ár, annars annað hvert ár. Verður að telja að ástæða hafi verið til að taka afstöðu til þessa, eftir atvikum með því að bera þessar upplýsingar undir Umhverfisstofnun og kanna nánar að teknu tilliti til þeirra, hvað lá að baki umsögn hennar þess efnis að kanna þyrfti mögulegar lausnir í fráveitumálum. Er vegna þess rétt að benda á að Umhverfisstofnun hafði komið að endurnýjun á fráveitu svæðisins auk þess sem hún hefur umsjón með svæðinu, líkt og fram hefur komið. Var málið þannig ekki rannsakað og upplýst með þeim hætti að unnt væri að fullyrða að óvissa væri um hvort forsendur hefðu breyst hvað þennan þátt varðaði.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að undirbúningi, skýrleika og rökstuðningi þess þáttar hinnar kærðu ákvörðunar er lýtur að neysluvatni og fráveitu hafi verið svo ábótavant að ógildingu varði.

——-

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar í heild sinni hafnað, en telja verður hana slíkum annmörkum háða hvað varðar þann þátt hennar er lýtur að neysluvatni og fráveitu að ógildingu varði að þeim hluta. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð. Loks skal þess getið að þar sem lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni kemur krafa kæranda þar um ekki til álita.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2017 um að endurskoða skuli matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum að öðru leyti en því að felldur er úr gildi sá hluti ákvörðunarinnar sem lýtur að áhrifum á neysluvatn og fráveitu.