Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2018 Þrastargata

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 9. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna hússins að Þrastargötu 7b.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húss að Þrastargötu 7, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna hússins að Þrastargötu 7b. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. júlí 2018.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Fálkagötureits frá árinu 2008 sem tekur m.a. til lóðarinnar Fálkagötu 7b. Meðal markmiða skipulagsins samkvæmt greinargerð þess er að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum á forsendum þeirrar byggðar sem þar er fyrir. Þá segir í skilmálum um byggðamynstur að hafa beri í huga mælikvarða þeirrar byggðar sem fyrir sé á svæðinu. Samkvæmt grein 1.A í skilmálum deiliskipulagsins er heimilt að byggja kvisti á risþök á helmingi þakflatar og skal fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Gæta skuli þess að kvistar fari húsum vel og falli vel að byggingarstíl þeirra.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 29. ágúst 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu kvists á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Kærandi í máli þessu kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, en eftir að kæra barst voru breytingar á leyfinu samþykktar í tvígang. Með úrskurði uppkveðnum 22. desember s.á., í kærumáli nr. 100/2017, var byggingarleyfið fellt úr gildi þar sem það var ekki talið vera í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags Fálkagötureits.

Á fundi skipulagsfulltrúa 23. febrúar 2018 var lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagsráðs um breytingu á skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits vegna lóðarinnar Þrastargötu 7b. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að byggja kvist á norðurhlið hússins og mætti hann ekki vera stærri en sem næmi 70% af þakfleti þess Auk þess yrði heimilt að byggja á lóðinni 6 m2 viðbyggingu/sólskála við suðurhlið hússins. Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum. Að lokinni grenndarkynningu vísaði skipulagsfulltrúi tillögunni til umsagnar verkefnisstjóra á fundi sínum 6. apríl s.á. Tillagan var svo samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 16. maí 2018 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá sama degi. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 100/2017 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að kvistur á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b samræmdist ekki almennum skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits. Kvistur hafi verið á húsinu sunnanverðu í samræmi við skilmála deili­skipulags, sbr. samþykktar teikningar frá 12. maí 2015. Framkvæmdir hafi hafist við gerð kvistsins á norðurhlið hússins um leið og byggingaráform hafi verið samþykkt. Á sama tíma hafi kvistur á suðurhlið þess verið hækkaður og breikkaður til samræmis við samþykktan kvist á norðurhliðinni án tilskilins leyfis. Því liggi fyrir að bæði kvistur á norðurhlið og suðurhlið hússins séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag Fálkagötureits.

Kærandi sé eigandi Þrastargötu 7 sem standi gegnt norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Hann hafi því verulegra grenndarhagsmuna að gæta í málinu. Stækkun á suðurkvisti hafi verið í ósamræmi við skilmála deiliskipulags Fálkagötureits þar sem hann nái yfir meira en helming þakflatar á húsinu að Þrastargötu 7b, líkt og kvistur á norðurhlið þess.

Hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar. Í fyrsta lagi sé deiliskipulagsbreytingin í andstöðu við eðli og markmið deiliskipulagsins. Í greinargerð með deiliskipulagi Fálkagötureits sé byggðamynstur við Þrastargötu verndað. Með deiliskipulagi sé mörkuð heildarstefna fyrir tiltekinn reit eða svæði. Borgarar verði að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi sem móti byggð á skipulagssvæðinu nema að veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því. Uppbyggingarmöguleikar hafi verið færðir inni í deiliskipulag Fálkagötureits árið 2008 í kjölfar rannsóknar skipulagsyfirvalda til að varðveita sem best byggðamynstur. Við þá rannsókn hafi m.a. verið leitað til Borgarsögusafns við mat á heimiluðum breytingum á húsum á deiliskipulagssvæðinu. Ekki sé því tækt að breyta deiliskipulagi svæðisins svo oft sem raun beri vitni. Skipulagsbreytingar sem þessar hafi fordæmisgildi um nýtingu annarra lóða á svæðinu á grundvelli jafnræðissjónarmiða. Þar af leiðandi hafi þær víðtæk áhrif og breyti byggðamynstri og núverandi nýtingarhlutfalli skipulagssvæðisins ásamt ásýnd og hlutföllum húsa.

Hvorki séu til staðar veigamiklar ástæður eða skipulagsrök fyrir deiliskipulagsbreytingunni. Heimild til að stækka kvist sé réttlætt með vísan til þess að kvistur á suðurhlið hússins sé af sömu stærð. Ekki liggi fyrir leyfi fyrir stækkun kvists á suðurhlið hússins þannig að þau rök standist ekki. Ekki sé hægt að réttlæta framkvæmd með óleyfisframkvæmd. Þá komi fram að risið sé illnýtanlegt. Það sé tilvikið með mörg hús á skipulagssvæðinu. Til að breytingin standist skoðun þurfi að gera breytingu á almennum deiliskipulagsskilmálum svo öllum standi það jafnt til boða, sbr. 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 19/2002.

Í öðru lagi hafi ekki verið heimilt að fara með deiliskipulagsbreytinguna samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda sé verið að víkja frá almennum skilmálum deiliskipulags, sem hafi fordæmisgildi fyrir aðra lóðarhluta sem tilheyri sameiginlegri lóð Þrastargötu 3-11 og Smyrilsvegar 29-31. Í þriðja lagi hafi verið óheimilt að breyta skilmálatöflu þannig að farið væri gegn almennum byggingarskilmálum deiliskipulags Fálkagötureits, sbr. grein 1.A í skilmálum skipulagsins. Með tilliti til úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefði þurft að breyta hinum almennu skilmálum til þess að stækkunin á kvistum hússins gæti staðist.

Samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni sé heimilað að byggja viðbyggingu/sólskála á lóðar­hlutanum að Þrastargötu 7b. Í almennum skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits sé heimilt að byggja annars vegar litlar viðbyggingar og hins vegar litlar geymslur/sólstofur á baklóðum allt að 6 m2 þar sem aðstæður leyfi. Á lóðarhlutanum að Þrastargötu 7b hafi þegar verið byggð geymsla. Kærandi byggi því í fjórða lagi á því að ekki séu skilyrði fyrir hendi til þess að heimila viðbyggingu/sólskála við suðurhlið hússins.

Í fimmta lagi liggi ekki fyrir að Minjastofnun hafi fjallað um fyrirspurn eigenda Þrastargötu 7b um heimild til að byggja kvisti á húsið í þeirri stærð sem þeir hafi verið byggðir. Því skorti á að rannsóknarskyldu hafi verið framfylgt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að Minjastofnun hafi borist til umsagnar erindi um að reisa kvist á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Þær teikningar sem lagðar voru fyrir stofnunina hafi tekið mið af kvisti í samræmi við stærðarhlutföll almennra skilmála deiliskipulags Fálkagötureits. Því séu framangreindar upplýsingar í umsögn skipulagsfulltrúa rangar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að með deili­skipulagsbreytingunni hafi verið gerðir sérskilmálar fyrir Þrastargötu 7b um að heimilt væri að byggja kvist á norðurhlið, sem yrði í samræmi við eldri kvist á suðurhlið hússins, en sá kvistur nái aðeins yfir helming þakflatar. Um sé að ræða minni háttar framkvæmd við kvist á litlu gömlu einbýlishúsi. Verið sé að viðhalda gömlu húsi með möguleika á smávægilegri stækkun, sem sé í samræmi við markmið deiliskipulagsins, þ.e. að vernda þá byggð sem sé þarna til staðar.

Samkvæmt 30. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 sé eigendum húsa og mannvirkja sem byggð hafi verið 1925 eða fyrr skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands ef þeir hyggðust breyta þeim, flytja þau eða rífa. Þrastargata 7b sé hluti af bráðabirgðaskúrbyggingum einstaklinga sem reistar hafi verið á árunum 1926-1929. Eigendur Þrastargötu 7b hafi sótt um leyfi hjá byggingarfulltrúa til að byggja kvist árið 2015 og hafi sömu teikningar verið lagðar til Minjastofnunar. Í áliti stofnunarinnar frá 24. mars 2015 segi: „Þar sem húsið Þrastargata 7b stendur á baklóð, þétt inn á milli annarra húsa, er breytingin vart sýnileg frá Þrastargötu og hefur lítil sem engin áhrif á heildaryfirbragð svæðisins. Hönnun viðbygginga tekur mið af stærð og formi hússins. Minjastofnun gerir ekki athugasemd við erindið.“

Það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að ekki væri heillavænlegt að opna á útvíkkun almennra skilmála varðandi stækkun kvista á rishæðum. Byggðin við Þrastargötu sé „sprottin af smáum auðmjúkum skala og því ákaflega viðkvæm fyrir hverskyns breytingum.“ Embættið telji rétt að hver fyrirspurn sem lúti að stækkun kvista eða annarra viðbygginga umfram heimildir skuli skoðast sem undantekning frá almennum skilmálum. Húsið við Þrastargötu 7b sé mun minna en mörg hús á reitnum, eða 85,3 m2. Það segi sig sjálft að þegar rýmkuð sé heimild um nokkur prósent þá hafi það mun meiri áhrif á stærri hús en þau sem séu minni. Kvistur á norðurhluta hússins sé dreginn rúmlega 1,0 m frá þakenda og stækki í raun einungis um 36 cm frá núverandi heimild, þ.e. 18 cm til hvorrar hliðar, en það sé minni háttar breyting. Deiliskipulagsbreytingin hafi verið auglýst skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en ákvæðið heimili breytingu á deiliskipulagi með grenndarkynningu að vissum skilyrðum uppfylltum. Breytingin verði að teljast óveruleg, en við það mat skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.

Leitað hafi verið eftir umsögn Minjastofnunar þegar byggingarleyfisumsókn hafi verið send inn árið 2015 vegna kvista og sólskála, þ.e. sömu framkvæmd sem deiliskipulagsbreytingin lúti að. Sérstaklega sé tekið fram í umsögninni að umsóknin lúti að kvisti norðan megin hússins „sem sé sambærilegur að stærð og gerð og kvistur sem fyrir er á suðurhlið hússins“, enda sá kvistur löngu byggður. Bæði á skipulagsstigi og byggingarstigi hafi verið leitað álits Minjastofnunar og hafi verið tekið vel í þessar breytingar af hálfu stofnunarinnar.

Niðurstaða: Hin kærða breyting á deiliskipulagi Fálkagötureits felur í sér heimild til að byggja kvist á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b og má kvisturinn ekki vera stærri en sem nemur 70% af þakfleti hússins. Auk þess er heimilað að byggja 6 m2 viðbyggingu/sólskála við suðurhlið. Kærandi er eigandi húss að Þrastargötu 7 og byggir kröfu sína um ógildingu ákvörðunarinnar m.a. á því að breytingin sé í andstöðu við eðli, markmið og almenna skilmála deiliskipulags Fálkagötureits, að ekki hafi verið heimilt að fara með breytinguna eftir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að málsmeðferðin hafi verið andstæð rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, og eru skipulagsyfirvöld þar af leiðandi ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu.

Tillaga að hinni umdeildu breytingu var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Heimilaðar breytingar eru ekki til þess fallnar að breyta útliti og formi byggðar á viðkomandi svæði umfram það sem heimilað var samkvæmt skilmálum deiliskipulags Fálkagötureits fyrir umrædda breytingu. Deiliskipulagsbreytingin hefur ekki í för með sér breytingu á notkun hinnar sameiginlegu lóðar og nýtingarhlutfall hennar eykst lítillega. Samkvæmt framangreindu var heimilt að breyta deiliskipulaginu með grenndarkynningu í stað auglýsingar. Átti kærandi þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna breytingarinnar, sem hann og gerði, og að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til athugasemda hans og þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16. maí 2018. Umhverfis- og skipulagsráð fjallaði um tillöguna á fundi sínum sama dag og samþykkti hana með vísan til a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. Skipulagsyfirvöldum bar ekki skylda til að afla álits Minjastofnunar þrátt fyrir að fyrri umsögn stofnunarinnar hafi tekið mið af öðrum teikningum. Auglýsing um gildistöku tillögunnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. maí 2018. Var málsmeðferð tillögunnar því í samræmi við skipulagslög.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér heimild til að stækka húsið að Þrastargötu 7b úr 85,3 m2 í 121,4 m2 og verður stærð hússins sambærileg því sem gengur og gerist á sameiginlegu lóð Þrastargötu 3-11 og Smyrilsvegar 29-31. Af gögnum málsins verður ráðið að grenndaráhrif kvistsins með tilliti til skuggavarps og útsýnis verði óveruleg en að einhver innsýn verði frá kvistinum á fasteign kæranda, en þau grenndaráhrif teljast þó ekki umtalsverð.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna hússins að Þrastargötu 7b.

23/2018 Lindargata Skúlagötusvæði

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 9. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu.  

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðareigendur og forsvarsmenn aðila sem eiga lóðarréttindi og fasteignir á lóðunum Smiðjustíg 10, Smiðjustíg 11 og 11b, Smiðjustíg 12, Klapparstíg 16 og Lindargötu 11 í Reykjavík þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að breyta deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. maí 2018.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Skúlagötusvæðis frá árinu 1986, en 17. nóvember 2005 var gerð breyting á deiliskipulaginu vegna staðgreinireits 1.151.5, sem afmarkast af Lindargötu, Klapparstíg, Hverfisgötu og Smiðjustíg.

Hinn 5. apríl 2017 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu. Í breytingunni fólst að fasteignin að Lindargötu 10 yrði gerð upp og færð sem næst í upprunalegt horf. Ný viðbygging yrði byggð milli Lindargötu 10 og Lindargötu 12 og nýtt hús yrði byggt upp að brunagafli Smiðjustígs 12. Var tillagan auglýst til kynningar í fjölmiðlum 9. maí 2017 með athugasemdarfresti til 20. júní s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Beytingartillagan var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 23. ágúst 2017 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 12. október s.á. Skipulagsstofnun var send deiliskipulagsbreytingin í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í bréfi stofnunarinnar til Reykjavíkurborgar, dags. 1. nóvember 2017, voru gerðar athugasemdir við að birt yrði auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku skipulagsbreytingarinnar. Var á það bent að fjalla þyrfti um og bregðast við athugasemdum Minjastofnunar Íslands frá 18. september 2017, þar sem athygli væri vakin á óútskýrðu misræmi í hæðarkótum, ósamræmi í grunnmynd og sniðmyndum að nýju húsi við Smiðjustíg 14, auk þess sem fyrirhugaður kjallari væri of nálægt brunagafli Smiðjustígs 12. Þá gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við að fara þyrfti almennt yfir gögn m.t.t. skýrleika skilmála og gæta þyrfti að innbyrðis samræmi. Kótar hámarkshæðar þyrftu að koma fram auk mænis- og brunagaflshæðar húsanna að Lindargötu 12 og Smiðjustíg 12.

Í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar voru gögn yfirfarin m.t.t. skýrleika, kjallari tekin út af sniðmynd nýbyggingar við brunagafl Smiðjustígs 12 og tilteknar aðrar breytingar gerðar í tilefni af athugasemdum Minjastofnunar og Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í borgarráði 21. desember 2017 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. janúar 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur benda í fyrsta lagi á að við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu virðist borgaryfirvöld hafa talið sér heimilt að taka lóðarskika af lóðinni við Smiðjustíg 12 án þess að eiga um það nokkuð samtal við eiganda lóðarinnar. Slík eignatilfærsla sé óheimild enda séu lóðarréttindi lóðarhafa Smiðjustígs 12 friðhelg eignarréttindi sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Engar lagaheimildir séu til staðar fyrir færslu greindra eignaréttinda til lóðarhafa Lindargötu 10 með breyttu deiliskipulagi.

Í öðru lagi sé bent á að bygging einbýlishúss/parhúss við Smiðjustíg 14 hafi veruleg fjár­hag­s­­­­­­leg áhrif á virði fasteignarinnar við Smiðjustíg 12. Megi jafna slíkri ákvörðun við eignaupptöku og sé hún því að fullu bótaskyld, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við mat á þessu sé óhjákvæmilegt að vísa til þess að þær deiliskipulagsbreytingar sem ákveðnar hafi verið byggi ekki á neinni þörf, hvorki almennings né annarra. Einu hagsmunirnir sem séu til staðar séu fjárhagslegir hagsmunir eiganda fasteignarinnar að Lindargötu 10.

Í þriðja lagi sé fundið að því að á skorti að skýrleiki þeirra gagna sem umþrætt deiliskipulagsbreyting byggi á sé nægjanlegur. Kærendur vísi í þessu sambandi til bréfs Skipulagsstofnunar frá 1. nóvember 2017 þar sem fram komi að hæðarkótar á svæðinu séu óskýrir, einkum þegar komi að því að bera saman hæðarkóta fyrir og eftir væntanlegar breytingar á húsunum samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Í umsögnum hagsmunaaðila til skipulagsyfirvalda hafi ítrekað verið vísað til þess að hæðarkótar séu ekki réttir. Ekkert hafi verið gert með þær ábendingar.

Í fjórða lagi feli deiliskipulagsbreytingin í sér að nýtingarhlutfall á skipulagsreitnum aukist frá því sem samþykkt hafi verið árið 2005, úr 0,9 í 2,2, en núverandi nýtingarhlutfall reitsins sé 0,4. Byggingarmagn frá núverandi fyrirkomulagi sé því rúmlega fimmfaldað. Eðli málsins samkvæmt hafi slík breyting mikil áhrif á skipulag lóðarinnar Lindargötu 10 og á næstu lóðir. Breytingin feli enn fremur í sér inngrip í götumyndir beggja gatnanna sem lóðin standi við, þ.e. Lindargötu og Smiðjustíg. Það sé ekki í anda þess sem unnið hafi verið að undanfarin ár með friðun götumyndar Smiðjustígs. Þá falli timburhúsin sem þar standi undir lög um menningarminjar.

Að lokum geri kærendur athugasemdir við stjórnsýslu Reykjavíkurborgar við vinnslu og afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar. Ekki hafi verið rætt við hagsmunaaðila eða þeim gefinn kostur á að koma að undirbúningi málsins á fyrri stigum. Þá hafi vakið athygli kærenda að eigandi hússins að Lindargötu 10 sé hlutafélagið Minjavernd ehf., sem sé m.a. í eigu ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar. Af þessum sökum sé þess farið á leit við úrskurðarnefndina að hún kanni sérstaklega hvort og þá hver aðkoma stjórnarmanna Reykjavíkurborgar í einkahlutafélaginu Minjavernd hafi verið við vinnslu deiliskipulagstillögunnar og afgreiðslu hennar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að deiliskipulag sé ekki alltaf hárnákvæmt varðandi lóðastærðir en lóðarblað hafi verið nákvæmara þegar það hafi verið gert, en við gerð slíks blaðs sé litið til fyrirliggjandi gagna um viðkomandi lóð. Lóðum sé ekki breytt í hinni umþrættu deiliskipulagstillögu heldur sé byggt á deiliskipulagi frá árinu 2005. Lóðarblað gert af landupplýsingadeild Reykjavíkurborgar frá 28. september 2015 standi óbreytt eftir deiliskipulagsbreytinguna.

Í 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé kveðið á um að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður hafi verið heimilt eða hún rýrni svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður eigi sá sem sýnt geti fram á að hann verði fyrir tjóni af þeim sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða ríkissjóði. Verðmæti fasteignarinnar verði að skerðast meira en almennt gerist á skipulagssvæðinu. Telji kærendur að sveitarfélagið hafi með samþykkt skipulagsáætlunar valdið þeim tjóni sé vakin athygli á því að kröfu um bætur skuli beint að sveitarfélaginu sem taki afstöðu til kröfunnar þegar og ef hún berist.

Kærendur telji að óskýrleiki gagna sem deiliskipulagsbreytingin grundvallist á eigi að leiða til ógildingar umræddrar skipulagsbreytingar og vísi þeir í því sambandi til athugasemda Skipulagsstofnunar við hina samþykktu deiliskipulagsbreytingu. Skipulagsyfirvöld hafi brugðist við athugasemdum Skipulagsstofnunar og hafi uppdráttur skipulagsins og greinargerð verið uppfærð eftir ábendingum stofnunarinnar. Þá hafi Minjastofnun gefið út tvær umsagnir í málinu á vinnslutíma skipulagsbreytingarinnar, hina fyrri, dags. 1. júlí 2015. Í umsögninni hafi áformum um að endurbyggja Ebenezershús í nær upprunalegu horfi verið fagnað, en gerð hafi verið athugasemd við útfærslu nýbyggingar við brunagafl Smiðjustígs 12. Brugðist hafi verið við þeim athugasemdum. Í seinni umsögn Minjastofnunar, dags. 12. júlí 2016, hafi ekki verið gerðar athugasemdir við tillöguna að öðru leyti en að mælt hafi verið með því að veggbrún framhliðar og mænir þaks yrðu í sömu hæð og á Smiðjustíg 12. Þriðja umsögn Minjastofnunar hafi borist eftir að búið hafi verið að samþykkja umsögn skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda í umhverfis- og skipulagsráði og málið komið á dagskrá borgarráðs. Ekki hafi þótt ástæða til að bregðast við ábendingum stofnunarinnar í þriðju umsögninni vegna stjórnsýslulegrar stöðu málsins. Sömuleiðis hafi Skipulagsstofnun átt eftir að fjalla um málið og gera athugasemdir, sem og stofnunin hafi gert. Búið hafi verið að yfirfara gögn m.t.t. skýrleika, uppsetningar á töflu um byggingarmagn og skýringar varðandi fjölda hæða á grunnmyndum og sniðum. Það misræmi sem fram komi á hæð hússins að Lindargötu 12 skv. deiliskipulagsuppdrætti og byggingarnefndarteikningum, skýrist af því að „gerð var mæling á staðnum og raunhæð hússins skráð á deiliskipulaginu, ásamt skýringum um að um raunhæð húss sé að ræða.“

Þá hafi Minjastofnun mælt með því að vegghæð og mænishæð nýbyggingar við Smiðjustíg 12 yrði sú sama og byggingarinnar við hliðina. Tillöguhöfundar hafi lagt mikinn metnað í útfærslu nýbyggingarinnar. Brugðist hafi verið við óskum Minjastofnunar um að vegghæð yrði sú sama, en ekki hafi verið brugðist við ósk stofnunarinnar um að færa mænishæð nýbyggingarinnar í sömu hæð og húss nágrannans. Tillöguhöfundar hafi, máli sínu til stuðnings, einnig bent á að örlítið mismunandi mænishæð skapi uppbrot í götumynd og mörg dæmi þess séu í lifandi götumyndum eldri borgarhluta. Að öðru leyti hafi verið búið að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar.

Kærandi telji að ekki hafi verið haft nægjanlegt samráð við lóðarhafa þeirra lóða sem liggi að þeim lóðum sem breytt hafi verið með deiliskipulagsbreytingunni. Reykjavíkurborg bendi í þessu sambandi á að deiliskipulagsbreytingin hafi verið auglýst samkvæmt 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við reglur skipulagslaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hagsmunaaðilar og nágrannar hafi verið upplýstir með bréfi, dags. 9. maí 2017, um að auglýsing hefði birst í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu s.d. Þessar bréfasendingar séu umfram lagalega tilkynningarskyldu sveitarfélaga, eins og hún sé skilgreind í skipulagslögum. Hafi málsmeðferðin  uppfyllt gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Vegna athugasemdar kærenda um að úrskurðarnefndin eigi að skoða hver aðkoma stjórnarmanna Reykjavíkurborgar í einkahlutafélaginu Minjavernd hafi verið við vinnslu deiliskipulagstillögunnar og afgreiðslu hennar sé á það bent að sveitarstjórn borgarinnar sé fjölskipað stjórnvald sem beri ábyrgð á gerð og afgreiðslu deiliskipulags samkvæmt 38. gr. skipulagslaga. Sé ákvörðunarvaldið hjá sveitarstjórninni en ekki hjá einstaka embættis–mönnum. Sé því  vísað á bug að afstaða borgarinnar hafi við deiliskipulagsbreytinguna byggt á því hvaða hlutafélag sé skráð fyrir lóðinni eða að um hagsmunaárekstra hafi verið að ræða.

 Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kærenda verði hafnað. Lóðarhafi tekur undir rök Reykjavíkurborgar í málinu og gerir að sínum.

Mótmælt sé villandi framsetningu  í kæru,  en þar sé látið sem niðurrif á bíslagi við Lindargötu 10 og stækkun hússins með byggingu tengibyggingar upp að brunavegg við Lindargötu 12 sé grundvallarbreyting sem gerð hafi verið með hinu nýja deiliskipulagi.

Þá telji lóðarhafi að kærendur uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Kærendur hafi kosið að bera fram eina kæru án nánari útlistunar á lögvörðum hagsmunum hvers kærenda um sig. Eins og kæran sé úr garði gerð og framsett verði ekki komist hjá því að vísa henni í heild sinni frá úrskurðarnefndinni.

Lóðarhafi telji jafnframt nauðsynlegt að leiðrétta misskilning í kæru varðandi stöðu götu–myndar Smiðjustígs. Götumyndin sé ekki friðuð heldur hafi hún fengið umfjöllun sem „vernduð“ götumynd. Sú afgreiðsla hafi hins vegar ekkert lögformlegt gildi heldur sé hún frekar hugsuð sem vinnugagn þegar til breytinga eða óska þar um komi. Meðal annars af þeim ástæðum hafi ítrekað verið leitað umsagnar Minjastofnunar við vinnslu skipulagstillögunnar og ekki hafi verið gerðar efnislegar athugasemdir við nýbyggingu upp að brunagafli Smiðjustígs 12.

Lóðarhafi mótmæli umfjöllun kærenda um stærð lóðarinnar að Smiðjustíg 12. Kærendur hafi reynt að færa rök fyrir því að lóðin hafi af einhverjum ástæðum minnkað frá árinu 1905 úr 165,5 m², fyrst í 160,2 m² árið 1921 og síðan í 158,05 m² í dag. Enginn vafi sé uppi um að húsið standi á lóðarmörkum við Lindargötu 10. Hafi eigandi Smiðjustígs 12 á hverjum tíma haft þessi viðhorf um ótalda áratugi felist í hans aðgerðaleysi ígildi afsals eða samþykki og hafi hann vitað af þessu frá 2014 þá hefði að sama skapi verið eðlilegt að koma athugasemdum á framfæri þá þegar við rétta aðila.

Lóðarhafi bendi enn fremur á að nýtingarhlutfall lóðarinnar Lindargötu 10 hafi verið langt fyrir neðan öll viðmið og að eðlilegt sé að bæta þar verulega við samræmi við umhverfi og aðliggjandi lóðir. Þótt nýtingarhlutfallið fari upp í 2,2. sé það langt fyrir neðan nýtingarhlutfall aðliggjandi lóða og meðaltal nýtingarhlutfall reitsins í heild. Hafi það verið 2,37 áður en samþykktar hafi verið breytingar á deiliskipulagi vegna Smiðjustígs 10 og Klapparstígs 16, sem fari fram úr þessu marki. Þétting byggðar hafi átt sér stað í öllu Skuggahverfi og það sé markviss stefna Reykjavíkurborgar að þétta byggð.

Að lokum telji lóðarhafi að í kæru sé vegið  að embættismönnum og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar með ósmekklegum hætti. Sé það vart svaravert af hálfu lóðarhafa. Öllum vangaveltum í kæru um óeðlilega afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar sé vísað á bug.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að breyta deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu og hefur m.a. verið gerð krafa um frávísun málsins sökum skorts á kæruaðild.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Er það ákvæði skýrt í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærumál lýtur að.

Að kærumáli þessu standa lóðareigendur og forsvarsmenn aðila sem eiga lóðarréttindi og fasteignir á lóðum í næsta nágrenni við Lindargötu 10, ýmist innan umrædds skipulagsreits eða við nærliggjandi götur. Í ljósi staðsetningar fasteigna kærenda geta framkvæmdir þær sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu snert grenndarhagsmuni þeirra. Þykja kærendur því eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og verður kæru þeirra því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sem annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga, og sætir ákvörðun um aðalskipulag ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem m.a. öryggi landsmanna sé haft að leiðarljósi, sbr. a-lið ákvæðisins. Sveitarstjórnir eru enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem tók gildi 26. febrúar 2014, er lóðin nr. 10 við Lindargötu á skilgreindu miðborgarsvæði. Þar er lóðin sett í flokk þróunarsvæða þar sem gert er ráð fyrir mögulegri þéttingu íbúðarbyggðar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir ráð fyrir að húsið að Lindargötu 10 verði gert upp, ný viðbygging verði reist á milli Lindargötu 10 og 12 og að nýtt hús verði byggt upp að brunagafli Smiðjustígs 12. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting gangi gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana því fullnægt.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem og þeir gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. skipulagslaga. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna, sem Reykjavíkurborg tók til afgreiðslu og brást við eins og rakið er í málavöxtum. Ekki liggur fyrir að aðkoma starfsmanna Reykjavíkurborgar hafi verið með óeðlilegum eða ómálefnalegum hætti við vinnslu og afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar, svo sem kærendur byggja á. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. janúar 2018. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hækkar nýtingarhlutfall lóðarinnar Lindargötu 10 úr 0,9 í 2,2, en meðalnýtingarhlutfall nærliggjandi lóða er 2,37, sem er svipað og á öðrum lóðum á Skúlagötusvæðinu.

Í skipulagslögum er gert ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignarréttindum. Sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi fasteignaeiganda tjóni getur viðkomandi eftir atvikum leitað réttar síns og krafist skaðabóta í samræmi við 51. gr. laganna, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki tekið til skoðunar hvort bygging húss við Smiðjustíg 14 hafi fjárhagsleg áhrif á virði fasteignarinnar við Smiðjustíg 12. Þá verður eignarréttarlegur ágreiningur um lóðamörk við Smiðjustíg 12 ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur heyrir hann sömuleiðis undir lögsögu dómstóla. Hins vegar er rétt að taka fram að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, séu talin skilyrði til þess.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin neinum þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geta til ógildingar hennar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna staðgreinireits 1.151.5 fyrir lóðina nr. 10 við Lindargötu.

49/2018 Þingvallavegur

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 7. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 um að endurbætur á Þingvallavegi, milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð, skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 að endurbætur á Þingvallavegi, milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð, skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og að umrædd framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt var þess krafist að fram­kvæmdir við endurbætur Þingvallavegar yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðar­nefndin hefði málið til meðferðar, en því var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 25. apríl 2018.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 23. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 3. nóvember 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá framkvæmdar­aðila, Vegagerðinni, um fyrirhugaðar endurbætur á Þingvallavegi, samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 10.09 í 1. viðauka laganna, til ákvörðunar um matsskyldu.

Í gögnum framkvæmdaraðila kom m.a. fram að um væri að ræða endurbætur á 9 km löngum vegkafla milli þjónustumiðstöðvar Þingvalla og syðri vegamóta við Vallarveg. Framkvæmda­svæðið lægi um Þingvallahraun og Þingvallaskóg, sem væri annars vegar nútímahraun og hins vegar birkiskógur. Svæðið væri að öllu leyti innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Á undir­búningsstigi framkvæmdarinnar hefðu verið skoðaðir þrír valkostir. Kostur A fæli í sér breikkun vegarins úr 6,5 m í 8,0 m með 1:3 fláa samkvæmt vegtegund C₈. Valkostur B gerði ráð fyrir 9,0 m breiðum vegi samkvæmt vegtegund C₉. Þriðji kosturinn fælist í því að byggja upp burðarþol vegarins miðað við núverandi breidd vegstæðis, þ.e. núllkostur. Lagði Vega­gerðin til kost A og taldi að með þeim kosti hefði verið tekið fullt tillit til umhverfisáhrifa og sjónarmiða um umferðaröryggi.

Einnig var tekið fram að ákveðið hefði verið að fylgja núverandi veglínu Þingvallavegar, þótt hún uppfyllti ekki forsendur sem fram kæmu í veghönnunarreglum Vegagerðarinnar, til að draga sem kostur væri úr raski á umhverfið. Endurnýja þyrfti burðarlag vegarins, breikka hann og hækka, þannig að hann gæti sinnt þeirri umferð sem um hann færi og þeirri auknu umferð sem spáð væri. Í stað þess að breikka veginn beggja vegna hans yrði eftir föngum reynt að fylgja öðrum vegkantinum til að varðveita vegfláa og jaðarsvæði vegarins þeim megin. Auk þess yrðu breytingar á útskotum og bílastæðum á vegkaflanum, en þeim væri ætlað að auka umferðaröryggi. Ekki lægju fyrir nákvæmar tölur um umfang rasks, en út frá þeim forsendum sem lagt væri upp með mætti áætla að rask á hvern lengdarmetra yrði 3,5 m² fyrir kost A og 4,5 m² fyrir kost B. Beint rask af völdum framkvæmda kynni því að vera á um 3,2 ha svæði vegna kosts A og á 4,1 ha svæði vegna kosts B. Enn fremur hefðu nánar tilgreindir umhverfisþættir verið skoðaðir og yrðu helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á vistgerðir, fornleifar, jarðminjar, landslag og ásýnd. Væri niðurstaðan sú að með hönnun, mótvægisaðgerðum og ákveðnu verklagi væri hægt að draga sem kostur væri úr neikvæðum áhrifum á umhverfið á þann hátt að þau teldust ekki umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Bláskógabyggðar, Ferðamálastofu, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu, Skógræktarinnar, Umhverfisstofnunar og Þingvallanefndar um það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Þeir umsagnaraðilar sem tóku beina afstöðu til umræddrar fyrir­spurnar töldu að ekki væri þörf á því að framkvæmdin sætti mati á umhverfisáhrifum en komu að ýmsum ábendingum og athugasemdum. Álit Minjastofnunar var á sömu lund, þó að því gefnu að gengið yrði að nánar tilgreindum kröfum hennar. Umsagnir ásamt athugasemdum voru sendar framkvæmdaraðila, sem brást við þeim með bréfum, dags. 23. og 27. nóvember 2017, 8. desember s.á. og 16. febrúar 2018. Þá veitti þjóðgarðsvörður umsögn í tilefni af umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þingvallanefnd veitti ekki umsögn en á fundi nefndar­innar 14. mars 2018 voru fyrirhugaðar endurbætur á Þingvallavegi samþykktar.

Hinn 16. febrúar 2018 lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar fyrir, miðað við áðurnefndan kost A, þ.e. breikkun vegarins úr 6,5 m í 8,0 m. Í niðurstöðu sinni tók stofnunin m.a. fram að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda yrðu rask á vistgerðum, jarðminjum og menningarminjum. Framkvæmdin myndi fela í sér rask á birki­skógi og raska eldhrauni, en hvort tveggja nyti sérstakrar verndar. Jafnframt yrðu áhrif á menningarminjar nokkuð neikvæð, en líkur væru á því að framkvæmdin raskaði fornleifum á a.m.k. fjórum stöðum. Taldi Skipulagsstofnun að boðaðar mótvægisaðgerðir ættu að draga úr nei­kvæðum áhrifum á birkiskóg og að hafa þyrfti í huga að rask á eldhrauni myndi eiga sér stað á svæði sem þegar væri raskað að hluta vegna fyrri vegaframkvæmda. Þá væri einungis fyrir­hugað að breikka veginn öðrum megin og yrði að einhverju marki hægt að hlífa svæðum með verndar- og ásýndargildi við raski með því að breikka veginn á þeim vegkanti sem hefði minna verndargildi. Einnig var tiltekið að til að draga úr hættu á mengunaróhöppum myndi framkvæmdaraðili móta sérstakar verklagsreglur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

Var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að á grundvelli gagna málsins og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum væru fyrirhugaðar endurbætur á Þingvallavegi ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Skyldi framkvæmdin því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var áréttað að fyrirhugaðar fram­kvæmdir væru á svæði sem væri einstaklega mikilvægt og viðkvæmt og því væri nauðsynlegt að framkvæmdaraðili viðhefði boðað verklag og að samráð yrði haft við hlutaðeigandi stofnanir við nánari útfærslu framkvæmdarinnar og verklagsreglna.

Hinn 11. maí 2018 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að allt að 30.000 m³ efnistaka úr námu í Svartagili til að nýta til framangreindra endurbóta skyldi ekki háð mati á umhverfis­áhrifum. Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 14. júní s.á. var samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi vegna endurbóta á kafla Þingvallavegar og efnistöku í þágu sömu framkvæmdar. Hafa greindar ákvarðanir ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að um friðlýstan helgistað sé að ræða og að fá svæði á landinu, ef nokkur, njóti jafn öflugrar lagaverndar og fyrirhugað framkvæmdasvæði. Þegar af þeirri ástæðu beri að vanda undirbúning framkvæmdarinnar eins vel og kostur sé. Leita eigi allra leiða til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og byggja ákvarðanatöku um veg­hönnun og útfærslu á bestu mögulegu upplýsingum og víðtæku samráði við almenning. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar myndi tryggja eða a.m.k. gefa kost á slíku samráði. Sé ekki útilokað að velt yrði upp lausnum sem hefðu minni umhverfisáhrif í för með sér.

Framkvæmdin hafi óumdeild neikvæð umhverfisáhrif. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að áhrif framkvæmdarinnar á jarðmyndanir verði talsvert neikvæð og áhrif á upprunalegan birkiskóg nokkuð neikvæð. Njóti bæði þessi vistkerfi sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndar­lögum. Geti nýrækt birkiskógar annars staðar ekki talist mótvægisaðgerð fyrir rask á uppruna­legum birkiskógi. Spurt sé hvenær umhverfisáhrif framkvæmda verði umtalsverð og hvort alvarleiki þeirra sé ekki beintengdur verndarstöðu viðkomandi svæðis.

Forsendur framkvæmdaraðila varðandi valkosti séu ógagnsæjar. Fyrirhuguð framkvæmd sé dæmigert viðbragð við ástandi, frekar en úthugsuð langtímaaðgerð. Muni hún að öllum líkindum auka umferð um þjóðgarðinn þannig að innan 20 ára stefni í að endurbættur vegur samkvæmt staðli C₈ anni ekki umferðinni. Núllkostur sé afgreiddur með frekar einföldum hætti en aðeins sé horft til núverandi umferðarþunga frekar en að horfa fram í tímann og til möguleikans á að draga úr umferð ökutækja. Engin langtímasýn sé lögð fram um það hvernig draga megi úr umferð um þjóðgarðinn með því að styrkja aðrar umferðaræðar frá uppsveitum Suðurlands til höfuðborgarsvæðisins. Hafi núverandi umferðarálag lengi verið langt yfir mörkum og geti 1-2 ár til viðbótar varla skipt sköpum.

Málið sé vanreifað. Engin greining virðist liggja fyrir á þeim hópum sem noti veginn, en þarfir þessara hópa séu væntanlega mjög ólíkar. Engin rök séu færð fram fyrir nauðsyn alls fjögurra bílastæða við veginn, með plássi fyrir 50-60 bíla, þar af eins stórs bílastæðis fyrir 25-30 bíla og a.m.k. tvær rútur. Þá sé spurt hvaða greining liggi að baki þeirri fullyrðingu framkvæmdaraðila að vel hannað vegrið hafi neikvæðari áhrif á landslag og ásýnd en hækkun vegarins. Virðist sem Vegagerðin/Þingvallanefnd hafi ekki leitað sér sérfræðiráðgjafar erlendis um hvernig standa skuli að vegagerð á svo mikilvægu verndarsvæði sem Þingvellir séu. Til dæmis hafi Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna hartnær 150 ára reynslu af veghönnun í þjóð­görðum.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki valdheimild til að úrskurða um að umrædd framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Við mat stofnunarinnar á því hvort tiltekin framkvæmd skuli háð slíku mati eður ei beri að horfa til viðmiða í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Að auki líti stofnunin til þess hvernig umtalsverð umhverfisáhrif séu skilgreind í p-lið 3. gr. laganna. Verði ekki séð miðað við þá skilgreiningu að umrædd framkvæmd geti haft í för með sér „veruleg óafturkræf áhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í því sambandi horfi Skipulagsstofnun til lýsingar á framkvæmdinni, tilhögun hennar og þeirra mótvægisaðgerða sem ætlað sé að grípa til. Ekki sé tekið undir það að nýrækt birkiskógar annars staðar geti ekki talist mótvægisaðgerð fyrir rask á upprunalegum birkiskógi, en jafnframt sé bent á að í umsögn Skógræktarinnar segi að dæmi um mótvægisaðgerð sé að rækta upp birkiskóg á skóglausu landi í stað þess sem eyðist við framkvæmdirnar. Vegna athugasemda við valkostagreiningu sé ekki tilefni til að bregðast við þeim, enda sé um að ræða ákvörðun um matsskyldu. Við undirbúning og meðferð slíkrar ákvörðunar séu valkostir ekki skoðaðir heldur sé slíkt gert þegar mat á umhverfisáhrifum fari fram.

Málsrök framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Bent sé á að vegurinn hafi verið lagður árið 1974. Umferðaröryggi hans sé orðið mjög ábótavant og slysahætta mikil. Afar lélegt ástand slitlags og burðarlaga liggi undir skemmdum og breidd vegarins og hönnunarlína uppfylli ekki þær kröfur sem umferð um hann gefi tilefni til. Nánast óvinnandi sé að sinna viðhaldi vegarins vegna ástands hans auk þess sem það sé afar kostnaðarsamt. Tilgangur fyrirhugaðra framkvæmda sé að auka umferðaröryggi vegarins og gera hann í stakk búinn til að bera þá umferð sem um hann fari. Hafi umferð um hann aukist um 250% frá árinu 2010, eða úr 430 bílum á sólarhring í 1.500 bíla. Um sé að ræða nauðsynlegar endurbætur og brýnt sé að grípa til aðgerða strax og koma í veg fyrir frekari slys. Um löngu tímabæra aðgerð sé að ræða sem ekki sé unnt að fresta frekar en orðið sé.

Því sé alfarið hafnað að málið sé vanreifað. Undirbúningur verksins hafi staðið yfir í rúm þrjú ár og hafi framkvæmdaraðili haft samráð við ýmsa aðila á þeim tíma, m.a. á vegum þjóð­garðsins á Þingvöllum. Fyrirspurn framkvæmdaraðila um matsskyldu hafi verið birt á heima­síðu Vegagerðarinnar. Almenningi hafi gefist kostur á að koma að sjónarmiðum sínum við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun. Hafi allar umsagnir er borist hafi Skipulagsstofnun verið jákvæðar í garð framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðili hafi þegar brugðist við öllum athugasemdum, ábendingum og tillögum er fram hafi komið frá umsagnaraðilum og muni taka tillit til þeirra.

Við hönnun endurbótanna sé núverandi veglínu fylgt, en vegurinn verði breikkaður á víxl eftir því hvorum vegkanti verði ákveðið að fylgja, m.t.t. þess að vernda þann kantinn sem hafi meira gildi út frá umhverfisþáttum. Verklag við endurheimt staðargróðurs sé þróað í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og hafi umsagnaraðilar, þ. á m. Umhverfisstofnun, lýst sérstakri ánægju með það.

Lögð sé áhersla á að í niðurstöðu Skipulagsstofnunar sé sérstaklega tekið fram að ljóst sé að framkvæmdin muni hafa tímabundin neikvæð áhrif á landslag og ásýnd vegna rasks á gróðri og hrauni. Með tilliti til fyrirhugaðrar endurheimtar á staðargróðri megi hins vegar gera ráð fyrir því að áhrifin muni dvína með tímanum og að framkvæmdin falli inn í landslagið. Til lengri tíma megi því gera ráð fyrir að áhrifin verði minni háttar.

Lausn sú sem orðið hafi fyrir valinu sé vel ígrunduð og hafi verið legið yfir henni í töluverðan tíma í nánu samráði við þjóðgarðinn og Landbúnaðarháskóla Íslands. Sú niðurstaða að velja vegtegund C₈ sé málamiðlun milli annars vegar óska er komið hafi fram af hálfu þjóðgarðsins um að takmarka rask og umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og hins vegar vegna vegtækni­legra sjónarmiða og umferðaröryggis. Vegna þessa hafi verið ákveðið að leyfilegur hámarks­hraði verði aðeins 50 km/klst á umræddum kafla. Miðað við umferðarspá Vegagerðarinnar muni endurbæturnar, og þar með burðargeta vegarins, anna umferð um þjóðgarðinn til næstu 25-30 ára.

Ekki sé fallist á að svonefndur núllkostur hafi verið afgreiddur á einfaldan hátt. Uppfylli umræddur kostur hvorki veghönnunarreglur né nái því markmiði verkefnisins að auka umferðaröryggi. Stór hluti umferðar í gegnum þjóðgarðinn sé vegna áhugaverðrar náttúru- og menningarminja innan garðsins, en minni hluti vegna innri samgangna á svæðinu. Ekki sé talið raunhæft að beita aðgerðum til að draga úr umferð, enda myndi það ekki breyta þeirri staðreynd að ráðast þurfi í endurbætur vegna slæms ástand vegarins.

Því sé hvergi haldið fram af hálfu framkvæmdaraðila að vegrið valdi neikvæðari umhverfis­áhrifum en hækkun vegar. Æskilegt sé að hækka veginn, en hækkunin sé fyrst og fremst til að tryggja náttúrulega snjóhreinsun og stuðla að betri afvötnun og þar með endingu vegarins. Sé vegur ekki hækkaður þurfi að gera vegrásir meðfram vegi, sem gæti aukið rask. Meginreglan sé sú að sett skuli upp vegrið þar sem breidd öryggissvæðis vegar náist ekki. Feli vegrið þannig í sér ákveðna hættu og ætti því aðeins að setja þau upp þar sem hættulegra sé að aka út af en að aka á vegrið. Ávallt beri því að skoða aðra kosti áður en sett sé upp vegrið. Sé flái vegar ekki lagfærður þurfi að setja upp vegrið til að koma til móts við öryggiskröfur. Líklega hefði það í för með sér að á vegköflum yrði að fleyga klapparholt við hlið vegar. Lækkun vegar hefði í för með sér mikla snjósöfnun, sem leiði til erfiðari og dýrari reksturs og lakara umferðaröryggis. Sjónlengdir myndu skerðast, sem aftur leiddi til minna umferðar­öryggis. Liggi núverandi vegur mjög lágt í landinu og reynslan sýni að hann nái illa að af­vatna sig á köflum, sem valdi því að ástand hans og burðargeta verði óásættanleg.

Styrking vegakerfis í uppsveitum Suðurlands um Hellisheiði og Þrengsli til höfuðborgar­svæðisins breyti engu um aðdráttarafl Þingvallaþjóðgarðs og sé ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á svonefnda „gegnumstreymisumferð“ um þjóðgarðinn. Unnið sé að framtíðar­umferðar­skipulagi í samvinnu við þjóðgarðinn. Feli það m.a. í sér að styrkja Þingvallaveg þannig að hann beri umferð um svæðið. Að endurbótum loknum sé gert ráð fyrir að loka fyrir gegnum­akstur á Vallarvegi, en umferð um hann fari mun nær hinum helga þingstað og Þingvallavatni. Verði umferð einungis færð frá þessum svæðum með því að styrkja núverandi Þingvallaveg.

Hafi framkvæmdaraðili litið til þarfa ólíkra vegfarenda við hönnun endurbótanna. Feli breikkun vegarins í sér að hægt verði að hjóla og ganga á vegöxl endurbætts vegar og skipu­lögð séu bílastæði í nágrenni gönguleiða um svæðið. Fjölmörgum útskotum við veginn verði lokað og mikil áhersla lögð á að halda umferðarhraða í 50 km/klst. Allt þetta sé til þess fallið að auka umferðaröryggi um svæðið, mæta ólíkum þörfum vegfarenda og stuðla áfram að því að hægt verði að upplifa sérstöðu svæðisins. Núverandi útskot séu algerlega ófullnægjandi og mörg þeirra staðsett á slæmum stöðum m.t.t. umferðaröryggis. Við endurbætur vegarins sé lögð áhersla á að fækka þessum hættulegu bílastæðum verulega og staðsetja frekar færri og stærri stæði á vel völdum svæðum. Við ákvörðun um stærð og staðsetningu þeirra hafi verið stuðst við ábendingar og óskir þjóðgarðsins, sem verði eigandi og rekstraraðili bílastæðanna. Ákveðið hafi verið að halda bílastæðafjölda í hógværari kantinum til að lágmarka rask á landi, en hægt sé að fjölga þeim síðar. Sé bílastæðafjöldi takmarkaður sé hætta á því að í þess stað verði lagt í vegköntum og á öðrum stöðum þar sem hætta geti skapast. Í dag sé hægt að leggja allt að 115 bílum í útskotum og því sé um að ræða fækkun bílastæða en ekki fjölgun, eins og ráða megi af kæru.

Vegagerðin hafi um árabil kynnt sér vegagerð á þjóðgarðssvæðum víða um heim og við hönnun endurbóta vegarins hafi m.a. verið tekið tillit til reynslu frá þessum svæðum. Við hönnun og áætlanagerð vegna endurheimtar gróðurs hafi að mestu leyti verið byggt á reynslu Norðmanna við svipaðar aðstæður, en slíkt verklag sé nýjung hér á landi. Þá hafi hönnunar­reglur og þversnið vega í bandarískum þjóðgörðum verið skoðuð sérstaklega þegar hönnunar­forsendur Þingvallavegar hafi verið ákveðnar. Samsvari kostur B í matsskyldufyrirspurninni „þjóðgarðaþversniði“ frá Bandaríkjunum. Ákveðið hafi verið að velja kost A með það að markmiði að takmarka umhverfisáhrif án þess að gengið væri á umferðaröryggi með því að halda hámarkshraða áfram í 50 km/klst. Hafi Vegamálastjóri veitt undanþágu frá veg­hönnunarreglum fyrir þeirri útfærslu.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 17. apríl 2019.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 að endurbætur á 9 km löngum vegkafla á Þingvallavegi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem fram­kvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Þingvallavegur mun hafa verið lagður árið 1974 og hafa framkvæmdir við hann áður sætt meðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hinn 22. apríl 1998, í gildistíð eldri laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993, féllst skipulagsstjóri ríkisins á úrbætur á 11,8 km löngum kafla á Þingvallavegi, frá afleggjara við Steingrímsstöð að þjóðgarðsmörkum við Gjábakkaveg. Var það mat skipulagstjóra að framkvæmdin, sem m.a. fól í sér endurbyggingu Þingvallavegar á 10,2 km kafla og lagningu nýs 1,6 km vegbúts, hefði ekki í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir eða samfélag ef nánar tilgreindum ábendingum, sem og skil­yrðum úrskurðarins, yrði fylgt. Þá komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu 4. júní 2014 að lagfæringar á vegamótum Þingvallavegar og Haksvegar, m.a. með því að sá fyrrnefndi skyldi breikkaður á um 300 m kafla með því að koma fyrir aðreinum, skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Nýir tveggja akreina vegir styttri en 10 km í þéttbýli og nýir vegir utan þéttbýlis á verndar­svæðum, sem og endurbygging þeirra, falla í flokk B í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, sbr. tölul. 10.09, en skv. 1. mgr. 6. gr. laganna skulu framkvæmdir í þeim flokki háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna um­fangs, eðlis eða staðsetningar. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrir­hugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Við ákvörðun um matsskyldu skal fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en áður skal leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni.

Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 barst Skipulagsstofnun tilkynning Vegagerðar­innar um endurbætur á um 9 km löngum vegkafla á Þingvallavegi á milli þjónustumiðstöðvar Þingvalla og syðri vegamóta við Vallarveg. Tilkynningunni fylgdi greinargerð þar sem m.a. var fjallað um tilgang og forsendur framkvæmdarinnar og staðhætti. Hafði til­kynningin einnig að geyma lýsingu á framkvæmdinni og hönnunar­forsendur. Reifuð voru umhverfisáhrif hennar og var framkvæmdin talin líkleg til að hafa neikvæð áhrif á vistgerðir, fornminjar, jarðminjar, landslag og ásýnd, auk þess sem hætta væri á neikvæðum áhrifum á vatnafar. Framkvæmdin væri líkleg til að hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Mat Vegagerðin það svo að óhjákvæmilegt væri að raska birkikjarri og eldhrauni í nágrenni vegarins. Með mótvægisaðgerðum og nánar tilgreindum áherslum gætu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar hins vegar ekki talist umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000. Til­kynningunni fylgdi einnig greinargerð frá árinu 2017 um fornleifaskráningu í Þingvalla­þjóðgarði vegna mats á umhverfisáhrifum breikkunar vegarins sem og minnisblað Náttúrufræði­stofnunar Íslands frá 2017 þar sem gerð var grein fyrir gróðurfarsúttekt vegna nefndrar breikkunar. Fullnægjandi gögn fylgdu því tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulags­stofnunar skv. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og áðurnefnda 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000.

Í gögnum framkvæmdaraðila kom fram að skoðaðir hefðu verið þrír framkvæmdakostir við endurbætur vegarins. Hefði kostur A verið valinn, en með þeim kosti hefði verið tekið fullt tillit til umhverfisáhrifa og sjónarmiða um umferðaröryggi. Laut ákvörðun Skipulagsstofnunar að því að meta hvort framkvæmdin, samkvæmt kosti A, gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með hliðsjón af einu eða fleiri viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000, sbr. 6. gr. laganna og 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Ekki er hins vegar gerð sú krafa að lögum að Skipulagsstofnun taki á þessu stigi afstöðu til annarra valkosta sem lagðir eru fram í tilkynningu framkvæmdaraðila.

Samkvæmt ákvæðum 6. gr. laga nr. 106/2000 ræðst matsskylda, eins og fyrr greinir, af því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar sinnar, en í p-lið 3. gr. nefndra laga eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Mælt er fyrir um í 3. mgr. nefndrar 6. gr. að Skipulagsstofnun skuli fara eftir viðmiðum 2. viðauka við lögin við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar. Í viðaukanum eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið er svo fjöldi annarra liða. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir þeirra liða vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Það að framkvæmd falli undir einhvern liðanna leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka. Umfangslítil framkvæmd getur t.d. haft mikil áhrif á umhverfið á stað þar sem umhverfisþættir eru viðkvæmir fyrir breytingum.

Það svæði sem hér um ræðir, þjóðgarðurinn á Þingvöllum, nýtur fjölþættrar verndar að lögum, m.a. vegna náttúrufars og menningarsögu þjóðarinnar. Verður að líta á svæðið sem viðkvæmt í skilningi 2. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en samkvæmt honum skal líta til staðsetningar framkvæmdar, þ.e. hve viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmdin hafi áhrif á. Ber í þessu skyni t.a.m. að líta til verndarsvæða, m.a. svæða sem falla undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd, nálægðar við fornminjar, hverfisverndarsvæða samkvæmt ákvæðum í skipulagsáætlunum og svæða sem njóta verndar samkvæmt sérlögum, svo sem Þingvalla. Þá skal líta til álagsþols náttúrunnar, með tilliti til t.d. sérstæðra jarðmyndana, náttúruverndarsvæða, þ.m.t. svæða á náttúruminja­skrá, upprunalegs gróðurlendis og svæða sem hafa sögulegt, menningarlegt og fornleifa­fræðilegt gildi. Er og rakið með greinargóðum hætti í niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé innan svæðis sem bundið sé ýmsum verndarákvæðum. Land þjóðgarðsins á Þingvöllum skuli vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur sé hinu upprunalega náttúrufari, sbr. lög nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þjóðgarðurinn sé á Heimsminjaskrá UNESCO, Þingvellir og Þingvallavatn séu á náttúruminjaskrá, vatnasvið Þingvallavatns sé verndað með lögum nr. 85/2005 og svæðið njóti hverfisverndar í aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Þá liggi vegurinn um eldhraun og fari í gegnum birkiskóg, sem bæði njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Tekur stofnunin fram að fyrirhugaðar framkvæmdir séu á svæði sem sé einstaklega mikilvægt og viðkvæmt. Því sé nauðsynlegt að framkvæmdaraðili viðhafi boðað verklag og að samráð verði haft við hlutaðeigandi stofnanir við nánari útfærslu framkvæmdarinnar.

Í 1. tl. nefnds 2. viðauka laga nr. 106/2000 er vikið að því að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til t.d. stærðar og umfangs, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum og nýtingar náttúruauðlinda. Samkvæmt tilkynningu framkvæmdaraðila felast endurbæturnar í endurnýjun burðarlags, breikkun og hækkun vegarins, auk þess sem um 50 útskot, sem hvert rúmar einn til tvo bíla, verða lögð af en þess í stað útbúin bílastæði á fjórum stöðum fyrir samtals 50-60 bíla. Framkvæmdirnar ná til um 9 km langs vegkafla á Þingvallavegi og er það niðurstaða Skipulagsstofnunar hvað þennan þátt varðar að um nokkuð langan vegkafla sé að ræða, en þar sem einungis sé fyrirhugað að breikka veginn um 1,5 m telji stofnunin að ekki sé hægt að líta á fyrirhugaða framkvæmd sem umfangsmikla. Verður og á það fallist, enda er við endurbæturnar fylgt núverandi vegstæði og breikkun vegarins verður þeim megin vegar hverju sinni sem hefur minni áhrif á umhverfið. Auk þess leiðir hækkun vegarins þar sem hann liggur lágt í landi til betri afvötnunar og afrennslis frá veginum og þar með til minna rasks af völdum vegrása, sem þjóna sama tilgangi. Þá verða bílastæði þau sem koma í stað útskota, sem ætlað er að leggja af, ekki heldur mikil að umfangi. Það stærsta þeirra er þó 2.300 m², en lögun þess og staðsetning, sem ákveðin var í samráði við Þingvallanefnd, veldur því að það sker sig ekki úr umhverfinu með þeim hætti að áhrif þess verði veruleg. Þá er tekið fram í tilkynningu framkvæmdaraðila að gengið verði frá aflögðum útskotum með því að „leggja gróðurþekju yfir þau“ og að svæði þar sem þörf sé á endurheimt gróðurs sé minna en það gróðurlendi sem fari undir rask og verði því umframefni af gróðurtorfum fyrir hendi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna ýmissa aðila, en enginn þeirra taldi að framkvæmdin skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt lá fyrir að samskipti höfðu átt sér stað af hálfu þjóðgarðsins við framkvæmdaraðila á undirbúningstíma framkvæmdar­innar. Að fengnum umsögnum taldi Skipulagsstofnun að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda yrðu rask á vistgerðum, jarðminjum og menningarminjum. Áhrif á vatnafar yrðu óveruleg og framkvæmdin myndi hafa tímabundin neikvæð áhrif á landslag og ásýnd vegna rasks á gróðri og hrauni. Tiltók stofnunin hvaða tilhögun yrði viðhöfð við framkvæmdina til að draga úr hættu á mengun og forðast rask á minjum. Enn fremur var tekið fram hvaða mótvægisaðgerðir yrðu viðhafðar vegna rasks á birkiskógi og að vegna þeirra aðgerða yrðu áhrif á landslag og ásýnd minni háttar til lengri tíma. Tók stofnunin og fram varðandi röskun á eldhrauni að áhrifin yrðu óafturkræf, en að svæðið væri þegar raskað að hluta vegna fyrri vegaframkvæmda og að tilhögun framkvæmdarinnar væri með þeim hætti að hlífa mætti að einhverju marki svæðum með verndar- og ásýndargildi með því að breikka veginn þeim megin sem teldist hafa minna verndargildi. Skírskotar þessi umfjöllun stofnunarinnar til atriða varðandi eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar.

Skipulagsstofnun hefur ákveðið forræði um til hverra hún leitar eftir umsögnum, enda skal það gert eftir eðli máls hverju sinni, svo sem segir í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Í því felst þó að leita skal umsagna í því skyni að upplýsa mál eftir því sem þörf krefst. Í því sambandi er rétt að benda á að umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands¸ sem stundar undirstöðu­rannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins, sbr. 4. gr. laga nr. 60/1992 um stofnunina, var ekki leitað. Þó lá fyrir að fyrirhuguð framkvæmd raskaði eldhrauni og birkiskógi, sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, og að í nágrenni vegstæðisins væri þekktur skráningarstaður friðaðrar plöntutegundar. Upplýsingar um gróðurfar komu raunar úr minnisblaði Náttúrufræðistofnunar, en því fer fjarri að með því hafi komið fram formlegt álit stofnunarinnar hvað möguleg áhrif framkvæmdar­innar á gróður varðaði. Þá var heldur ekki til hennar leitað hvað varðaði áhrif á jarðminjar. Í ljósi niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að meðal helstu neikvæðra áhrifa yrðu rask á vistgerðum og jarð­minjum, þótt mat á því hvort brýna nauðsyn beri til slíks rasks komi fyrst og fremst til skoðunar áður en leyfi er veitt til framkvæmda, var tilefni til þess að umsagnar Náttúrufræði­stofnunar yrði leitað. Er henni enda ætlað ákveðið hlutverk hvað þessa umhverfisþætti varðar samkvæmt náttúruverndarlögum, auk þess sem hún gegnir því lögbundna hlutverki sem áður er lýst. Það er þó til þess að líta að framkvæmd sú sem um er deilt er ekki mikil að umfangi og dregið er úr áhrifum hennar með þeim hætti sem áður er að vikið. Helstu óafturkræfu áhrif framkvæmdarinnar verða á jarðminjar, en þau verða þó ekki veruleg að teknu tilliti til þess að eldra vegstæði verður fylgt og að svæðinu hefur þegar verið raskað við fyrri vegagerð. Verða áhrif framkvæmdar­innar að því leyti því ekki heldur talin veruleg. Að því virtu raskar það ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar að ekki hafi verið leitað umsagnar Náttúrufræðistofnunar.

Að virtum gögnum málsins og staðháttum, sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér, tók Skipulagsstofnun viðhlítandi tillit til þeirra viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 sem við áttu, að teknu tilliti til kynntrar tilhögunar framkvæmdarinnar og mótvægisaðgerða, við þá ákvörðun sína að framkvæmdin skyldi ekki háð matsskyldu. Er enda ekki um að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif vegna framkvæmdarinnar eða veruleg spjöll á umhverfinu, sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum í skilningi p-liðar 3. gr. sömu laga. Verður því ekki séð þótt um viðkvæmt svæði sé að ræða að af framkvæmdinni geti stafað umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Verður og ekki annað ráðið en að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmdina og forsendur hennar sem stofnunin gat reist ákvörðun sína á.

Loks skal á það bent að gerð er grein fyrir markmiðum laga nr. 106/2000 í 1. gr. þeirra og er eitt þeirra að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir, sbr. d-lið. Gera lögin þannig fyrst og fremst ráð fyrir því að samráð við almenning fari fram við málsmeðferð matsskyldra framkvæmda áður en leyfi er veitt fyrir þeim. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir slíku samráði við matsskylduákvörðun, enda fer samráð þá fram á síðari stigum samkvæmt lögunum verði niðurstaðan sú að um matsskylda framkvæmd sé að ræða. Eins og áður hefur verið rakið veltur sú niðurstaða á því hvort framkvæmd getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, en samráð umfram lagaskyldu, þótt æskilegt kunni að vera, er að lögum ekki þáttur í þeirri ákvörðun.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum er ógildingu geta valdið og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 um að endurbætur á Þingvallavegi, milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð, skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

38/2018 Þrastargata

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 17. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. febrúar 2018 um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna kvista á norður- og suðurhlið hússins að Þrastargötu 7b.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2018, er barst nefndinni 8. s.m., kærir eigandi húss að Þrastargötu 7 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. febrúar 2018 að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna kvista á norður- og suðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. apríl 2018.

Málavextir: Á árinu 2015 var sótt um leyfi til byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir áður byggðum kvisti á suðurhlið hússins að Þrastargötu 7b auk nýs kvists á norðurhlið þess og sólskála við húsið. Byggingarfulltrúi samþykkti á afgreiðslufundi sínum 29. ágúst 2017 leyfi fyrir áður gerðum kvisti ásamt því að samþykkja umsókn um byggingu nýs kvists á norðurhlið hússins. Kærandi kærði þann hluta byggingarleyfisins sem sneri að heimild til byggingar kvists norðan megin til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 14. september 2017. Eftir að sú kæra barst voru breytingar á leyfinu samþykktar í tvígang. Með úrskurði nefndarinnar kveðnum upp 22. desember s.á. í kærumáli nr. 100/2017 var byggingarleyfið fellt úr gildi þar sem það var ekki talið í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags Fálkagötureits. Í kjölfar úrskurðarins sendi kærandi bréf til byggingarfulltrúa, dags. 29. janúar 2018, þar sem farið var fram á að byggingarfulltrúi gripi til viðeigandi úrræða skv. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki vegna kvista á norður- og suðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Hinn 18. febrúar 2018 hafnaði byggingarfulltrúi kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða. Í ákvörðuninni segir m.a. að engin rök hafi komið fram sem gætu sýnt fram á að hagsmunir kæranda að fá kvistinn fjarlægðan væru ríkari en hagsmunir eiganda Þrastargötu 7b, að ekki væri að sjá að kvisturinn raski hagsmunum kæranda á einhvern hátt auk þess sem engin hætta stafi af honum. Þá var vísað til þess að hafin væri vinna við breytingu á deiliskipulagi vegna Þrastargötu 7b þar sem ætlunin væri að heimila stærri kvist á norðurhlið.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi verulegra hagsmuna að gæta af kröfu sinni að því er varði báða kvisti á húsinu að Þrastargötu 7b enda sé hús hans að Þrastargötu 7 mjög nálægt húsinu að Þrastargötu 7b. Óumdeilt sé að bygging kvista norðan- og sunnanmegin á húsinu að Þrastargötu 7b gangi verulega gegn gildandi deiliskipulagi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumáli nr. 100/2017. Ekki hafi verið aflað byggingarleyfis vegna kvistsins sunnanmegin á húsinu. Eigandi hússins að Þrastargötu 7b hafi framkvæmt í vondri trú um að vafi væri um réttmæti byggingarleyfisins sem gefið hafi verið út og án þess að afla tilskilins byggingarleyfis í andstöðu við 9. gr. laga um mannvirki. Mat á meðalhófi hljóti að taka mið af huglægri afstöðu framkvæmdaraðila, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 7. apríl 2009 í máli nr. 444/2008. Þá liggi einnig fyrir að byggðamynstur í götunni njóti hverfisverndar.

Ekki sé heimilt að gera breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits, hvorki almennum skilmálum þess né sérstökum skilmálum að því er varði uppbyggingarheimildir að Þrastargötu 7b. Bent sé á að síðast hafi verið gerð breyting á deiliskipulagi reitsins árið 2017. Skipulagsyfirvöldum hefði þá verið í lófa lagið að gera aðrar breytingar á skipulaginu. Það séu takmörk fyrir því hve oft sé heimilt að gera breytingar á deiliskipulagi vegna eðlis og markmiðs þess sem stefnumörkunar fyrir „heildstæða einingu í skipulagslegu tilliti.“ Borgarar verði að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála í kærumáli nr. 88/2006. Ákvörðun byggingarfulltrúa um veitingu byggingarleyfis hafi verið ómálefnaleg enda réttlæt með vísan til þess að vinna við gerð deiliskipulagsbreytingar sé í gangi.

Í ákvörðun byggingarfulltrúa frá 8. febrúar 2018 sé fullyrt að kvistirnir raski ekki hagsmunum kæranda. Ekki sé hægt að fullyrða um það, enda hafi engin rannsókn á áhrifum kvistanna farið fram.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að Þrastargata 7b sé hluti af bráðabirgðaskúrbyggingum sem reistar hafi verið á árunum 1926-1929 og hafi húsið fyrst verið virt í maí 1926. Merkja megi úr húsakönnun frá 2008 vegna Grímsstaðaholts og nágrennis að húsið hafi verið byggt með suðurkvistinum og engar meiriháttar breytingar hafi verið gerðar á húsinu nema þegar bílskúr hafi verið bætt við árið 1945. Engar byggingarteikningar hafi verið til af húsinu en eigendur Þrastargötu 7b hafi 17. mars 2015 sent inn til byggingarfulltrúa reyndarteikningar af húsinu og sé suðurkvisturinn inni á þeim teikningum. Þær teikningar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa 12. maí s.á. Samhliða hafi eigendur sótt um byggingarleyfi fyrir kvisti á norðurhlið hússins og sólskála garðmegin. Hafi þær teikningar þá verið lagðar fram til Minjastofnunar til umsagnar. Í áliti stofnunarinnar, dags. 24. mars 2015, segi: „Þar sem húsið Þrastargata 7B stendur á baklóð, þétt inn á milli annarra húsa, er breytingin vart sýnileg frá Þrastargötu og hefur lítil sem engin áhrif á heildaryfirbragð svæðisins. Hönnun viðbygginganna tekur mið af stærð og formi hússins. Minjastofnun gerir ekki athugasemd við erindið.“ Ekki hafi verið farið í framkvæmdir og því hafi eigendur sótt aftur um byggingarleyfi en þá hafi eingöngu verið sótt um leyfi fyrir norðurkvistinum en ekki sólstofunni. Fyrrgreint álit Minjastofnunar hafi þá legið fyrir þegar byggingarleyfið var samþykkt og hafi verið litið til þess enda sama útfærsla á kvisti lögð fram.

Kærandi eigi í sjálfu sér enga kröfu á því að byggingarfulltrúi grípi til þvingunarúrræða þeirra sem farið hafi verið fram á í málinu enda sé það byggingarfulltrúa að framfylgja lögum og reglugerðum. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segi að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laganna geti byggingarfulltrúi t.a.m. stöðvað framkvæmdir ef byggt sé á annan hátt en leyfi standi til og í 2. mgr. sömu lagagreinar sé að finna heimild fyrir byggingarfulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Sé ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið sé og fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þessa úrræðis sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verði fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að það eigi við í þessu máli. Einstaklingum sé ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína.

Engin rök hafi komið fram hjá kæranda sem sýni fram á að hagsmunir hans til að fá kvistinn fjarlægðan séu ríkari en hagsmunir eiganda Þrastargötu 7b að halda kvistinum. Byggingarfulltrúi hafi metið það svo að ekki væri að sjá að kvisturinn raski hagsmunum kæranda á nokkurn hátt og þar að auki stafi engin hætta af honum. Þá liggi ekkert fyrir um að kærandi hafi orðið fyrir tjóni sökum þessa. Þá sé á það bent að breyting á deiliskipulagi sé í vinnslu hjá embætti skipulagsfulltrúa sem snerti lóðina Þrastargötu 7b.

Niðurstaða: Kveðið er á um það í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna getur byggingarfulltrúi krafist þess, ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti séu fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna hagsmuna einstaklinga enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna kvists á norðurhlið var studd þeim rökum að engin rök hafi komið fram sem gætu sýnt fram á að hagsmunir kæranda til að fá kvistinn fjarlægðan væru ríkari en hagsmunir eiganda Þrastargötu 7b að halda kvistinum, að ekki sé að sjá að kvisturinn raski hagsmunum kæranda á einhvern hátt og að engin hætta stafi af kvistinum. Þá var ákvörðun um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræðis vegna kvists á suðurhlið studd þeim rökum að byggingarleyfið, sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt úr gildi í máli nefndarinnar nr. 100/2007, hafi einungis tekið til kvists á norðurhlið hússins en ekki suðurhlið þess. Fyrir liggur að byggingarleyfi fyrir áður byggðum kvisti á suðurhlið hefur hlotið samþykki og hefur það ekki verið kært. Verður að telja ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna fyrrgreindra kvista hafa verið studda efnislegum rökum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. febrúar 2018 um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna kvista á norður- og suðurhlið hússins að Þrastargötu 7b.

24 og 140/2018 Hlíðarendi

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 17. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðar A (Hlíðarendi 2).

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra NH eignir ehf., lóðarhafi Hlíðarenda 28-34, og Dalhús ehf., lóðarhafi Hlíðarenda 1-7, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðar A, einnig nefnd Hlíðarendi 2. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðar A. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Með hliðsjón af því að sömu aðilar standa að báðum kærumálunum og hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar verður síðara kærumálið, sem er nr. 140/2018, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. apríl 2018 og 18. mars 2019.

Málavextir: Hinn 23. júní 2004 tók gildi deiliskipulag Hlíðarenda en helsta viðfangsefni þess var að „festa starfsemi Knattspyrnufélagsins Vals í sessi með byggingum og íþróttavöllum ásamt því að gera tillögu að uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis á svæðinu.“ Árið 2015 var gerð breyting á deiliskipulaginu sem tók mið af nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Í greinargerð skipulagsins kom fram að lóð A væri atvinnuhúsalóð og í sérstökum skilmálum lóðarinnar var gert ráð fyrir allt að 12.500 m2 byggingu á fjórum hæðum. Á skipulagsuppdrætti var byggingin merkt 4-5 hæða og nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,81. Með deiliskipulagsbreytingu 6. júlí 2016 var skilmálatafla Hlíðarenda uppfærð og kom þar fram að heimilað væri að reisa 1-5 hæða byggingu á lóð A.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 8. febrúar 2017 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda. Í tillögunni fólst m.a. breyting á byggingarreit lóðar A og aukning á byggingarmagni lóðarinnar um 5.000 m2. Nýtingarhlutfall hennar færi úr 1,81 í 2,54. Borgarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum 7. mars s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 20. s.m. til 15. maí 2017 og bárust þrjár athugasemdir á kynningartíma hennar, m.a. frá kærendum. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. desember s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir og var tillagan samþykkt með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögn hans. Á fundi borgarráðs 21. s.m. var afgreiðsla ráðsins samþykkt og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. janúar 2018. Kærendur skutu ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 6. júní 2018 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda. Breytingin fól í sér að lóð A yrði blönduð íbúða- og atvinnuhúsalóð í stað hreinnar atvinnuhúsalóðar auk þess sem heimild yrði fyrir leikskólastarfsemi á lóðinni með leiksvæði í inngarði. Borgarráð samþykkti erindið á fundi sínum 28. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 6. júlí 2018 til 17. ágúst s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 10. október s.á. var deiliskipulagstillagan lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa. Meirihluti ráðsins samþykkti tillöguna óbreytta og staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi sínum 25. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. febrúar 2019, en sem fyrr segir kærðu kærendur ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 6. desember 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að þeir hafi verulegra hagsmuna að gæta af hinum kærðu deiliskipulagsbreytingum vegna nálægðar fasteigna þeirra við lóð A. Deiliskipulagsbreytingarnar séu haldnar verulegum annmörkum sem eigi að leiða til ógildingar þeirra.

Fyrri deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við eðli og markmið deiliskipulags. Deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags og feli í sér að mörkuð sé stefna fyrir heildstæða einingu, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilað sé í 43. gr. laganna að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi. Sá réttur sé þó ekki takmarkalaus. Reykjavíkurborg hafi verið óheimilt að taka út einn byggingarreit deiliskipulags Hlíðarenda og heimila þar aukningu á nýtingarhlutfalli á reitnum úr 1,81 í 2,54, eða um 40%, enda hafi þegar verið mörkuð stefna fyrir hina heildstæðu einingu sem deiliskipulag Hlíðarenda taki til sem byggi ekki á því að nýtingarhlutfall geti verið jafn hátt og nú hafi verið heimilað.

Sérstakar takmarkanir séu á rétti til að gera slíkar breytingar á deiliskipulagi þegar skammt sé liðið frá þeim tíma sem deiliskipulag, sem marki stefnu fyrir hina heildstæðu einingu, hafi tekið gildi. Á árinu 2015 hafi verið gerð veruleg breyting á skipulagi Hlíðarenda í kjölfar þess að nýtt aðalskipulag Reykjavíkur hafi verið samþykkt. Þar hafi fullmótuð stefna fyrir svæðið verið samþykkt í meginatriðum með bindandi hætti. Í þessu samhengi megi vísa til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 24. janúar 2008 í máli nr. 67/2006 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að útbúa deiliskipulag fyrir eina lóð án þess að jafnhliða væri unnið og samþykkt deiliskipulag fyrir svæði sem væri talið mynda „heildstæða einingu í skipulagslegu tilliti.“

Borgarar verði að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi í úrskurðarframkvæmd sinni tekið sérstaklega fram að gjalda verði varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 88/2006 frá 2. september 2008. Ljóst sé að skipulagsrök mæli ekki með hinni umdeildu skipulagsbreytingu.

Aukning á nýtingarhlutfalli sem samþykkt var með deiliskipulagsbreytingunni frá árinu 2017 fari gegn c-lið 1. gr. skipulagslaga, enda umfram það sem má með sanngirni ætlast til að verði heimiluð á reitnum miðað við fyrirliggjandi deiliskipulag. Líta verði til þess að lóðin sé staðsett við hliðin á íþróttamannvirki sem dragi að sér fjölda fólks á hverjum degi og að á henni sé gert ráð fyrir hreinni atvinnustarfsemi. Svo mikil aukning á nýtingarhlutfalli geti ekki talist málefnaleg.

Deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við almenna skilmála deiliskipulags Hlíðarenda frá 2004 með síðari breytingum, sbr. 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga og gr. 5.1.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Annars vegar komi fram í almennum skilmálum deiliskipulagsins að byggingarreitir á skipulagsuppdrætti rúmi stærri byggingar en hámarksbyggingarmagn einstakra lóða leyfi. Í tillögu að breytingu á deiliskipulaginu komi á hinn bóginn fram að heimilt sé að fullbyggja reit A. Hins vegar sé fjallað um húsagerðir í gr. 2.4 í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni. Þar sé gert ráð fyrir 3-5 hæða blandaðri byggð íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis og 3-4 hæða hreinu atvinnuhúsnæði. Þá sé ráðgert að á reit A standi einvörðungu hreint atvinnuhúsnæði. Það standist því ekki að breyta einvörðungu sérákvæðum í skilmálum vegna reitar A á þá leið að þar verði heimilað að byggja fimm hæðir.

Í deiliskipulagi Hlíðarenda frá 2004 með síðari breytingum sé skuggavarp rannsakað með tilliti til hæðar húsa og byggingarmagns á lóðinni. Engin rannsókn hafi farið fram á skuggavarpi vegna fyrirhugaðrar aukningar á byggingarmagni en verið sé að heimila hækkun hússins um heila hæð. Málsmeðferðin sé því í andstöðu við rannsóknarskyldu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Aukning á byggingarmagni á reit A sé réttlæt með vísan til þess að byggingarmagnið sé í samræmi við heimilað byggingarmagn á lóðum G og H. Þeir reitir séu hreinir atvinnuhúsareitir líkt og reitur A. Á lóð G sé heimilað að byggja 3-4 hæða atvinnuhúsnæði auk bílageymslu í kjallara. Gerð sé krafa um eitt bílastæði á hverja 100 m2. Á reit H sé jafnframt heimilað að byggja atvinnuhúsnæði á 3-4 hæðum auk bílageymslu í kjallara. Kærendur telja að ekki sé hægt að bera saman fyrrnefnda reiti. Reitir G og H séu á vesturenda skipulagssvæðisins og á útkanti þess. Ekkert sé byggt vestan megin við reitina eða á reitnum sunnan megin við reitina. Reitur A sé á hinn bóginn umkringdur íbúðahúsnæði og íþróttamannvirkjum sem dragi að sér mikla umferð og margt fólk. Á reitum G og H sé einvörðungu ráðgerð hefðbundin atvinnustarfsemi samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins. Slík atvinnustarfsemi sé að jafnaði einvörðungu yfir daginn, ólíkt íbúðahóteli sem trufli fyrirsjáanlega nærliggjandi byggð á mun lengri tíma yfir sólarhringinn. Fram komi í tillögu að breytingu á deiliskipulaginu að gert sé ráð fyrir að byggja megi 4-5 hæðir á reitnum. Einvörðungu sé heimilt að byggja fimm hæða hús á reitum þar sem áformuð sé blönduð byggð með íbúðir á efri hæðum. Þá sé ekki heimilað að byggja fimm hæða hús á reitum G og H og því sé verulega ómálefnalegt að vísa einvörðungu til þeirra lóða til að réttlæta aukið nýtingarhlutfall á reit A.

Breyttur byggingarkroppur muni þekja lóðina á reit A á sama hátt og á lóðum G og H og opið bílastæði breytist í aflokaðan inngarð byggingar líkt og á reitum C, D, E, F G og H. Ekki verði séð af skipulagsuppdrætti hvar hinn svokallaði inngarður eigi að komast fyrir á reitnum. Þá sé ljóst að inngarður muni ekki nýtast á sama hátt og yfirborðsstæði. Nálægð byggingarinnar við íþróttamannvirki kalli á að til staðar sé yfirborðsstæði enda muni önnur lausn fela í sér verulega truflun fyrir nærliggjandi íbúðabyggð.

Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að aðalmarkmið deiliskipulagsbreytingarinnar sé að loka reitnum með randbyggð, m.a. til að styrkja götumynd við knatthús, auka nýtingarhlutfall og skilgreina hvar heimilað sé að byggja að hluta til á 5. hæð byggingarinnar. Framangreind skýring geti ekki talist málefnalegur grundvöllur fyrir deiliskipulagsbreytingu. Ef ætlunin sé að loka reitnum með randbyggð til að styrkja götumynd við knatthús þurfi að gera slíkt hið sama varðandi lóð B, þar sem um ræði sömu landnotkun og staðsetningu gagnvart íþróttasvæðinu. Með því að heimila hækkun byggingarinnar og aukningu á nýtingarhlutfalli á lóð A sé verið að raska jafnræði lóðarhafa á svæðinu með þeim hætti að ógildingu varði. Þá komi ekkert í veg fyrir að rekstur hótels verði leyfður á reitnum þrátt fyrir mótmæli um það sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa. Skilmálar séu hvergi nærri bindandi eða afgerandi að þessu leyti.

Grenndaráhrif fyrirhugaðrar nýbyggingar á reit A séu svo neikvæð að fella beri deiliskipulagsbreytinguna úr gildi. Á lóðum C og D sé heimiluð blanda af íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, þ.e. atvinnuhúsnæði á 1. hæð og íbúðir á efri hæðum. Hækkun byggingarinnar á reit A í fimm hæðir muni hafa mikil áhrif á íbúðasvæðið. Bent sé á að á reitum G og H þar sem verði heimilað að reisa hrein atvinnuhúsnæði sé einvörðungu gert ráð fyrir að þau verði á þremur til fjórum hæðum enda íbúðarsvæði heimilað á lóð F sem liggi þar við hliðina á.

Að því er varði síðari deiliskipulagsbreytinguna vísi kærendur til þess að fyrri deiliskipulagsbreytingin, sem hafi aukið heimilað byggingarmagn úr 12.500 m2 í 17.500 m2, hafi verið réttlætt með vísan til þess að um hafi verið að ræða hreina atvinnuhúsalóð líkt og lóðir G og H. Með því að breyta landnotkun á lóð A úr hreinni atvinnuhúsalóð í blandaða íbúða- og atvinnuhúsalóð liggi fyrir að aukning byggingarmagns á lóð A hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Þá sé um óhóflega aukningu að ræða sem sé í andstöðu við 1. gr. skipulagslaga. Telja kærendur að sömu röksemdir fyrir því að fella eigi fyrri deiliskipulagsbreytinguna úr gildi eigi við um síðari deiliskipulagsbreytinguna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess varðandi fyrri deiliskipulagsbreytinguna að heimilt hafi verið að breyta deiliskipulagi fyrir einn reit í deiliskipulagi Hlíðarenda. Ekki sé um að ræða deiliskipulagsgerð fyrir eina lóð eins og kærendur virðast telja.

Samkvæmt skipulagslögum sé vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í skipulagslögum sé ekki gefið til kynna að skipulagsvaldi sveitarfélaganna séu takmarkanir settar og sé skýrt á um það kveðið í 43. gr. að heimilt sé að breyta deiliskipulagi enda sé fylgt tilteknum formreglum um kynningu. Þó hafi það verið viðurkennt að íbúar skipulagssvæðis, sem byggt hafi hús sín eða keypt með gildandi skipulagsforsendur í huga, verði að geta treyst því að ekki verði gerðar breytingar á skipulaginu nema veigamiklar ástæður liggi þar að baki. Eigi þetta sjónarmið einna helst við þar sem um sé að ræða tiltölulega nýtt hverfi sem þegar sé fullbyggt. Ekki sé fallist á að svo sé ástatt um þá breytingu sem til umfjöllunar sé í málinu. Markmið deiliskipulagsbreytingarinnar sé að loka reitnum með randbyggð, styrkja götumynd við knatthús, auka nýtingarhlutfall og skilgreina hvar heimilt sé að byggja fimm hæðir að hluta til.

Það hljóti að teljast málefnalegt að heimila aukið byggingarmagn til samræmis við það sem gerist á lóðum G og H. Við skipulagningu lóðar A hafi verið litið til þess að hún sé hornlóð á gatnamótum Nauthólsvegar og Flugvallavegar og höfð hliðsjón af fyrirhuguðum byggingum hinum megin við sömu gatnamót. Byggingarreitur breytist í randbyggð og byggingarmagn aukist við þá breytingu.

Í deiliskipulagsbreytingunni séu engar breytingar á notkun lóðarinnar. Áfram verði um atvinnuhúsnæði að ræða með verslun eða þjónustu á 1. hæð að Snorrabrautarás auk heimildar fyrir íbúðahóteli sem ætlað sé námsmönnum, ekki síst erlendum skiptinemum, vegna nálægðar við háskólastofnanir. Skilmálar um blöndum atvinnuhúsnæðis og íbúðahótels fyrir námsmenn gildi fyrir lóðir A og B og séu þær því ekki sambærilegar og hreinar atvinnuhúsalóðir G og H.

Bílastæðakrafa sé óbreytt, þ.e. eitt bílastæði á hverja 100 m2 atvinnuhúsnæðis og 0,2 stæði á íbúð ef byggt verði íbúðahótel fyrir námsmenn. Ekki verði heimilaður rekstur hótels á lóðinni.

Ekki sé heldur fallist á að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi en gerðir hafi verið skuggavarpsuppdrættir sem sýni að áhrif skugga gæti helst á morgnana á jafndægrum. Séu þau áhrif ekki meiri en gangi og gerist í þéttri byggð. Ekki sé ljóst hvað kærendur eigi við með að ekki verði séð hvar hinn svokallaði inngarður eigi að komast fyrir á reitnum, en hann sé sýndur og merktur á uppdrætti og sneiðingum. Þá verði ekki heldur séð hvernig ný aðkoma að stækkaðri bílageymslu um rampa eða götu á milli knatthússins og reitar A hafi neikvæð áhrif á aðrar lóðir Hlíðarendasvæðisins. Önnur aðkoma að stækkuðum bílakjallara gæti einmitt dregið úr umferð við fyrri skilgreinda aðkomu frá Snorrabrautarás á milli lóða A og B.

Rétt sé að lokaður inngarður bjóði ekki upp á aðgengi að bílastæðum á yfirborði. Bílakjallari undir knatthúsi sé hins vegar tvöfaldaður að stærð og megi vænta að hægt verði að nýta hann vegna viðburða í knatthúsi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti tveggja breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðar A er tóku gildi 19. janúar 2018 og 14. febrúar 2019. Felur fyrri breytingin m.a. í sér aukningu á byggingarmagni á byggingarreit lóðar A um 5.000 m2 sem hefur í för með sér breytingu á nýtingarhlutfalli lóðarinnar úr 1,81 í 2,54. Með síðari deiliskipulagsbreytingunni breyttist landnotkun lóðarinnar úr hreinni atvinnustarfsemi í blandaða byggð íbúða- og atvinnuhúsnæðis auk þess sem heimild var veitt fyrir leikskólastarfsemi. Að öðru leyti var deiliskipulag svæðisins óbreytt frá fyrri skipulagi. Með gildistöku síðari deiliskipulags­breytingarinnar var nýr skipulagsuppdráttur fyrir svæðið staðfestur og féll eldri deiliskipulags­uppdráttur þar með úr gildi. Kæra vegna fyrri deiliskipulagsbreytingarinnar barst úrskurðar­nefndinni innan kærufrests en því kærumáli var ólokið hjá nefndinni er deiliskipulaginu var breytt að nýju og samþykkt svo breytt. Verða málsástæður kærenda vegna fyrri deiliskipulags­breytingarinnar því teknar til efnislegrar skoðunar eftir því sem við á.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna og eru skipulagsyfirvöld ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu, enda felur breyting á deiliskipulagi eðli máls samkvæmt í sér breytingu á eldra skipulagi. Þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna. Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra og eru sveitarstjórnir enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á þeim skuli háttað.

Hinar kærðu deiliskipulagsbreytingar voru kynntar með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Að loknum athugasemdafresti voru deiliskipulagstillögurnar afgreiddar í umhverfis- og skipulagsráði þar sem framkomnum athugasemdum var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga og staðfestar af borgarráði. Tóku þær gildi með birtingu auglýsinga þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Á skýringaruppdrætti með fyrri deiliskipulagsbreytingunni er sýnt  skuggavarp vegna aukningar á byggingarmagni. Er því ekki fallist á með kærendum að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega með tilliti til skuggavarps. Var þannig farið að lögum við málsmeðferð hinna kærðu skipulagsákvarðana.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem var í gildi þegar hinar kærðu ákvarðanir voru teknar, er lóð A á skipulagssvæðinu á skilgreindu þróunarsvæði þar sem gert er ráð fyrir blandaðri byggð. Fram kemur í aðalskipulaginu að þróunarsvæðið sé 11 ha að stærð og er ætlað undir íbúðir, skrifstofur auk verslunar og þjónustu. Áhersla sé á 3-5 hæða randbyggð og borgargötur. Í ágúst 2017 tók gildi breyting á aðalskipulaginu er fól í sér breytta stefnu um íbúðarbyggð á umræddu skipulagssvæði með fjölgun íbúða úr 500 í 650. Jafnframt er nú kveðið á um að vikmörk um fjölda íbúða geti verið á bilinu -10% til +20% og séu háð samþykki umhverfis- og skipulagsráðs. Í síðari deiliskipulagsbreytingunni kemur fram að leyfilegur fjöldi íbúða á skipulagssvæði Hlíðarenda sé 780 samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Með samþykki umhverfis- og skipulagsráðs hinn 10. október 2018 fyrir umræddri deiliskipulagsbreytingu verður að líta svo á að ráðið hafi samþykkt að fullnýta leyfileg vikmörk aðalskipulags. Þá er ekki að sjá að aðrar breytingar hinna kærðu ákvarðana gangi gegn stefnu aðalskipulags um Hlíðarendasvæðið. Áskilnaði laga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana er að framangreindu virtu fullnægt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Með fyrri deiliskipulagsbreytingunni var byggingarmagn atvinnuhúsnæðis á lóð A aukið úr 12.500 m2 í 17.500 m2. Vísað var til þess að tillagan væri til samræmis við lóðir G og H, en þær lóðir eru atvinnuhúsalóðir samkvæmt skipulagi og að aukið byggingarmagn atvinnuhúsnæðis rúmist innan gildandi aðalskipulags. Jafnframt kom fram að húsbygging þeki alla lóðina, líkt og á við um lóðir G og H, og að breytingin muni styrkja götumynd. Með síðari deiliskipulagsbreytingunni var notkun lóðarinnar breytt úr hreinni atvinnuhúsalóð í blandaða íbúða- og atvinnuhúsalóð og fór byggingarmagn atvinnuhúsnæðis úr 17.500 m2 í 9.500 m2. Þótt notkun lóðar A hafi verið breytt með seinni skipulagsbreytingunni verður það ekki talið ómálefnalegt í sjálfu sér. Þá er fjölgun íbúða á Hlíðarendasvæðinu samræmi við stefnu fyrrnefndrar aðalskipulagsbreytingar frá því í ágúst 2017. Með hliðsjón af framangreindu verður talið að efnisleg og lögmæt markmið hafi búið að baki deiliskipulagsbreytingunum.

Líkt og rakið er í málavöxtum var þegar á árinu 2015 gert ráð fyrir 5 hæða byggingu á lóðinni. Fela hinar kærðu deiliskipulagsbreytingar því ekki í sér breytingu á fjölda hæða í húsinu á lóðinni líkt og haldið er fram í kæru. Þó er ljóst að einhver grenndaráhrif fylgja hinu aukna byggingarmagni, svo sem vegna aukinnar umferðar, en þau grenndaráhrif verða þó ekki talin svo veruleg að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi c. liðar 1. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 25. október 2018 um breytt deiliskipulag Hlíðarenda hafnað. Að þeirri niðurstöðu fenginni eiga kærendur ekki lengur hagsmuni af því að fá úrskurð um lögmæti hinnar eldri deiliskipulagsbreytingar þar sem hið breytta deiliskipulag héldi allt að einu gildi sínu. Af þeim sökum verður kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 21. desember 2017 um breytingu deiliskipulags Hlíðarenda vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðar A.

Kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um að sam­þykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðar A er vísað frá úrskurðarnefndinni.

13/2019 Blesugróf, Reykjavík

Með

Árið 2019, föstudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir parhúsi með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóðinni nr. 12 við Blesugróf.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. febrúar 2019, kæra eigendur, Blesugróf 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 að veita byggingarleyfi fyrir parhúsi með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóðinni nr. 12 við Blesugróf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir á lóðinni verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. mars 2019 og viðbótargögn bárust 1. apríl s.á.

Málsatvik: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. apríl 2018 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja parhús með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóðinni nr. 12 við Blesugróf. Var fært til bókar að frágangur á lóðamörkum yrði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 26. s.m. Var byggingar­leyfi gefið út 8. janúar 2019 og hófust framkvæmdir við byggingu parhússins í kjölfar þess.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að framkvæmdir þær sem samþykktar hafi verið með hinu kærða byggingarleyfi hafi aldrei verið kynntar fyrir þeim og hafi því þeim ekki verið kunnugt um áformin. Í svari skipulags- og byggingarsviðs sem kærendum hafi borist 14. febrúar 2019 hafi komið fram að hæð fyrirhugaðrar nýbyggingar yrði innan gildandi deiliskipulags. Þegar framkvæmdir hafi byrjað og búið hafi verið að koma púða fyrir á lóðinni og slá upp sökklum hafi komið í ljós að framangreind svör hafi einfaldlega ekki verið rétt. Með vísan til þess hafi kæra í máli þessu borist innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og beri því að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Útgefið byggingarleyfi sé ekki í samræmi við skilmála deiliskipulags Blesugrófar. Samkvæmt hæðarblaði sé hæðarkóti 17,8 við lóðamörk Blesugrófar 12 og 14 og skuli frágangur á lóða­mörkunum miða við þá hæð að framkvæmdum loknum. Enginn áberandi hæðarmunur hafi verið á milli lóðanna fyrir framkvæmdir en landið halli lítillega og jafnt á milli Blesugrófar 10 og 14. Kærendur hafi gert ráð fyrir að hæð nýs húss á lóð nr. 12 myndi verða í eðlilegu samhengi við nærliggjandi hús og heildargötumynd, líkt og skilmálar gildandi deiliskipulags krefjist. Nú sé aftur á móti búið að keyra miklu magni af möl í lóðina Blesugróf 12, gera púða ofanjarðar og þar ofan á hafi verið slegið upp fyrir sökklum. Búið sé að búa til hæðarmun á milli lóðanna sem ekki hafi verið til staðar áður. Virðist gert ráð fyrir að gólfkóti Blesugrófar 12 verði 19,86 sem sé 3 m frá lóðamörkum þar sem hæðarkóti sé 17,8. Af þessum sökum þurfi að gera sérstakar varnarráðstafanir til að bregðast við hæðarmismuninum við lóðamörkin en ekkert slíkt hafi verið rætt við kærendur þrátt fyrir að slíkt sé áskilið í útgefnu byggingar­leyfi.

Skilmálar deiliskipulags um 6 m hámarkshæð húsa miði við aðkomuhæð auk þess sem taka skuli tillit til legu í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástand. Með því að hafa púða og sökkla hússins ofanjarðar, með gólfkóta 19,86 borið saman við hæðarkóta 17,8 á lóðamörkum í 3 m fjarlægð, sé húsið að Blesugróf 12 komið upp fyrir leyfilega hámarkshæð samkvæmt deiliskipulagi og miðað við það sem kærendur hafi mátt ætla út frá legu lóðarinnar í umhverfinu. Á afstöðumynd sé hæðarkóti mænis sýndur 24,8 sem þýði að húsið verði meira en 6 m hátt miðað við landhæð við lóðamörk.

Í skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir Blesugróf komi fram að þar sem aðstæður leyfi megi gera kjallara, en það sé háð mati skipulagsyfirvalda hverju sinni. Þá sé í skipulaginu fjallað um heimild til að vera með bílastæði eða bílskúra. Deiliskipulaginu fylgi skýringarmyndir með dæmum um húsagerðir. Í umsögn skipulagsfulltrúa um hið kærða byggingarleyfi segi að þær aðstæður séu tæplega til staðar að vera með kjallara í húsinu. Heldur mikill halli verði á rampa niður í bílakjallara, eða 17,5%, en viðmið varðandi hámarkshalla á slíkum rampa sé 15%. Hönnun hússins samræmist ekki skilmálum gildandi deiliskipulags og sé ekki í sam­ræmi við legu í landi og umhverfi. Deiliskipulagið heimili ekki bílakjallara heldur einungis lágreista bílskúra. Þá geti skilmálar um kjallara ekki átt við um bílakjallara enda fjallað um bílastæði/bílskúra á öðrum stað í skipulagsskilmálunum. Umræddur bílakjallari virðist að miklu leyti vera rót þess hversu frekt mannvirkið verði til umhverfisins, bæði hvað varði hæð hússins í nágrenni lóðamarkanna og fyrirkomulag aðkomu.

Byggingarleyfið gangi gegn grenndarhagsmunum kærenda og sé ólögmætt. Inngangur að Blesugróf 12 snúi að fasteign kærenda í 2-3 m hæð yfir lóð þeirra, 3 m frá lóðamörkum. Gangstétt og tröppur muni ná nánast alveg að lóðamörkum. Á afstöðumynd sjáist að gert sé ráð fyrir að húsið sjálft verði byggt út að ystu mörkum byggingarreits þeim megin sem snúi að húsi kærenda og síðan sé gert ráð fyrir að gangstígur og tröppur að inngangi séu staðsett á hinu 3 m belti á milli byggingarreits og lóðamarka. Koma þurfi fyrir fallvörnum, bæði við inngang og rampa bílakjallara, sbr. kafla 12.10 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar að auki uppfylli aðkoman að Blesugróf 12 ekki kröfur byggingarreglugerðar um aðgengi, sbr. h-lið 1. mgr. gr. 6.1.3.

Í hinu útgefna byggingarleyfi sé áskilið að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Ekkert samráð hafi aftur á móti verið haft við kærendur og viti þeir því ekki hvernig fyrirhugað sé að ganga frá hæðarmismuninum. Ljóst sé að þar þurfi að koma til umfangsmikið mannvirki, enda gert ráð fyrir að húsið sjálft standi ofan á grjóthrúgu auk þess sem aðalinngangur þess verði þar með tilheyrandi tröppum og fallvörnum. Slík mannvirki á lóðamörkum séu byggingarleyfisskyld skv. ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð, sbr. gr. 2.3.5., auk þess sem samþykki beggja lóðarhafa þurfi að liggja fyrir áður en byggingarleyfi sé gefið út.

Ræktaður garður með sólpalli og heitum potti sé á þeirri hlið lóðar kærenda sem snúi að suðurhlið Blesugrófar 12. Af sólpalli muni blasa við grjótgarður eða annað mannvirki og ofan á því margra metra hár húsveggur. Gott útsýni muni verða úr hinu nýja húsi ofan í garð kærenda, þ.m.t. á sólpallinn og heita pottinn. Vegna hins manngerða hæðarmunar sé engin leið til að hindra útsýnið með skjólveggjum. Búast megi við miklu skuggavarpi frá nýja húsinu og sé líklegt að hinn sólríki suðurgarður verði ekki lengur sólríkur auk þess sem friðhelgi kærenda sé rofin vegna umferðar um gangstétt í 2-3 m hæð og útsýnis yfir garðinn.

Í kærumáli úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 31/2011 hafi verið talið að bygging setlaugar á lóðamörkum hefði veruleg grenndaráhrif gagnvart eigendum aðliggjandi lóðar. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem ákvæði byggingarreglugerðar um girðingar og gróður á lóðamörkum og þeirra grenndaráhrifa sem setlaugin hafði, hafi úrskurðarnefndin ekki talið rétt af hálfu byggingaryfirvalda að veita leyfi fyrir henni á umræddum stað án samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Hafi því byggingarleyfi setlaugarinnar verið fellt úr gildi. Niðurstaða nefndarinnar hafi einnig verið studd við ákvæði 4. mgr. gr. 4.2.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem fram kom að við deiliskipulagningu íbúðar­svæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar. Sambærilegt ákvæði sé nú í gr. 5.3.2.2. í gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Mál kærenda sé sambærilegt framangreindu máli að því leyti að verulega sé gengið á grenndarhagsmuni þeirra með útgáfu byggingarleyfis án samþykkis þeirra fyrir stórfelldum framkvæmdum við lóðamörk. Samþykki kærenda þurfi fyrir þeim mannvirkjum sem koma þurfi fyrir við og í nágrenni lóðamarka. Áskilnaður um samráð eftir á nægi ekki í því samhengi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í greinargerð deiliskipulags Blesugrófar komi fram að hús séu bundin þeim skilmálum að óheimilt sé að fara út fyrir byggingarreit. Af þeim gögnum sem hafi fylgt byggingarleyfisumsókninni sé ljóst að öll byggingin sé innan byggingarreits. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins skuli lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum vera 3-5 m. Fjarlægð byggingarinnar frá lóðamörkum við Blesugróf 14 sé 3 m. Í greinargerð skipulagsins komi fram að heimilt sé að veita leyfi fyrir kjallara þar sem aðstæður leyfi. Skipulagsfulltrúi hafi skilað inn umsögn þar sem ekki hafi verið gerð athugasemd við niðurgrafinn bílskúr, nema að því að leyti að rampur skuli vera með 15% halla en ekki 17,5% halla líkt og umsóknin gerði ráð fyrir. Heimilt sé á tilteknum lóðum að byggja hærri hús en samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins. Þá skuli miða við legu hússins í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástand. Hæsti punktur þeirra húsa sem undir heimildina falli sé 6,0 m frá grunnplötu og hámarkshæð útveggja sé sú sama. Sérstakt tillit skuli tekið til nærliggjandi húsa og heildargötumyndar. Blesugróf 12 falli undir þessa reglu og sé leyfileg hámarkshæð 6,0 m mælt frá grunnplötu.

Samkvæmt samþykktum uppdráttum fyrir Blesugróf 12 sé byggingin 6 m að hæð miðað við götukóta en 4,32 m miðað við grunnplötu. Hæsti punktur byggingarinnar sé í kóta 24,18, gólfkóti grunnplötu sé 19,86 og götukóti 18,10. Af þessu megi vera ljóst að byggingin sé innan skilmála deiliskipulagsins, enda sé hæð hússins 4,32 m mælt frá grunnplötu þegar leyfileg hámarkshæð sé 6 m. Í deiliskipulaginu sé ekki kveðið á um það í hvaða hæð miðað við götu grunnplata skuli vera. Hæð hússins sé því í samræmi við gildandi deiliskipulag og sömuleiðis gólfkóti þar sem engin takmörk séu sett í skilmálum skipulagsins fyrir legu hans. Við samþykkt byggingaráforma hafi verið bókað að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Bókunin leggi þær skyldur á herðar byggingaraðila að ekki verði gengið frá lóðamörkum nema í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Verði þeir að koma sér saman um frágang á lóðamörkum. Sveitarfélagið hafi ekki aðrar forsendur en að líta svo á að frágangur verði í samræmi við fyrrnefnda bókun.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar telja að skilmálar gildandi deiliskipulags um hámarks­hæðir húsa hafi ekki verið brotnir. Hönnun umrædds húss sé í fullkomnu samræmi við legu á landi og umhverfið og byggingaryfirvöld hafi heimilað bílageymslu undir húsinu. Vísað sé til heimilda þeirra yfirvalda til mats samkvæmt skipulaginu. Þá hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra hafi borist nefndinni skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í rökstuðningi borgaryfirvalda komi fram að hvergi í deiliskipulaginu sé hæð grunnplötu ákvörðuð miðað við götukóta. Nánast megi skilja afstöðu borgarinnar þannig að engar takmarkanir hafi í raun verið á því hversu mikið hafi mátt hækka lóðina svo lengi sem húsið sjálft væri innan hæðarmarka. Þetta sé einfaldlega rangt þar sem í deiliskipulaginu sé kveðið á um að miða eigi við legu í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástand. Jafnframt segi að þegar um sé að ræða lóðir þar sem hærri húsagerð sé leyfð skuli sérstaklega tekið tillit til nærliggjandi húsa og heildargötumyndar.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 22. mars 2019 að viðstöddum fulltrúum málsaðila og borgaryfirvalda.

 Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hófust framkvæmdir á grundvelli hins kærða byggingarleyfis í janúar 2019 og beindi annar kærenda fyrirspurn til byggingarfulltrúa af því tilefni. Var m.a. spurt hvort gólfplata á Blesugróf 12 yrði sú sama og á Blesugróf 10. Í svarpósti starfsmanns byggingar­fulltrúa 21. janúar 2019 er vísað til deiliskipulags svæðisins og þess að byggingar­leyfisumsókn hafi verið send til skipulagsfulltrúa til umsagnar og var jafnframt upplýst um hæðar­­­­kóta Blesugrófar 14 og Blesugrófar 12 en ekki var tekin fram hæð gólfplötu Blesugrófar 10. Ítrekaði kærandi fyrirspurn sína hvað hæð gólfplatna varðaði og verður ekki talið að honum hafi mátt að fullu vera kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar fyrr en starfsmaður skipulagsfulltrúa sendi kæranda sneiðmynd af fyrirhuguð húsi skv. samþykktum teikningum í tölvupósti 14. febrúar s.á. Kæra í máli þessu barst 25. s.m. og þar með innan kærufrests. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi og vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir parhúsi með geymslum og bíl­geymslum í kjallara á lóð nr. 12 við Blesugróf. Er einkum deilt um grenndaráhrif þau sem af húsinu verða sökum hæðar þess og innsýnar á lóð kærenda. Á svæðinu gildir deiliskipulag Blesugrófar frá árinu 2005. Um markmið skipulagsins segir að við uppbyggingu skuli taka mið af yfirbragði hverfisins og leitast við að styrkja heildarmynd þess. Þá segir í skilmálum deiliskipulagsins um hæð bygginga að almennt skuli miða við þá hæð sem einkenni hverfið, þ.e. einnar hæðar einbýlishús með lágu þaki. Hæsti útveggur skuli ekki vera hærri en 3,5 m og hæsti punktur þaks megi vera 1,5 m yfir hæstu leyfilegu hæð útveggja. Heimilt sé að byggja hærri hús á tilgreindum lóðum, þ. á m. Blesugróf 12, og eigi þá að taka mið af legu í landi, hæð húsa í kring og núverandi ástandi. Í þeim húsum sé gert ráð fyrir að hæsti punktur þaks og hámarkshæð útveggja sé 6,0 m frá grunnplötu. Þá skuli sérstaklega taka tillit til nærliggjandi húsa og heildargötumyndar. Í deiliskipulaginu er skýringamynd sem sýnir sneiðmynd af lægri og hærri húsagerð og sýnir sú mynd gólfplötu beggja húsagerða við yfirborð lóðar. Skýringargögn eru ekki bindandi nema það sé sérstaklega tekið fram skv. gr. 5.5.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 en geta þó verið til leiðbeiningar við túlkun á efni skipulags. Að mati úrskurðarnefndarinnar felur deiliskipulagið í sér hið minnsta þá takmörkun á hæð gólfplötu að taka beri mið af nærliggjandi húsum og umhverfinu í kring.

Gólfkóti samkvæmt samþykktum uppdráttum fyrirhugaðrar nýbyggingar að Blesugróf 12 er 19,86. Hús kærenda er einbýlishús á einni hæð og samkvæmt samþykktum uppdráttum frá árinu 2006 er gólfkóti þess 17,8. Hús á lóð Blesugrófar 10 er einbýlishús með kjallara og samkvæmt samþykktum uppdráttum frá árinu 1983 er gólfkóti þess 19,8. Hæðarkóti á lóða­mörkum Blesugrófar 12 og 14 miðað við aðkomu er 18,0 en á lóðamörkum Blesugrófar 12 og 10 er hann 18,2. Lóðir Blesugrófar 12 og 14 eru í litlum halla en örlítið meiri halli er á lóð Blesugrófar 10. Gólfkóti nýbyggingarinnar tók þannig að nánast öllu leyti mið af húsinu á lóðinni nr. 10, sem stendur hærra í landi, en að sama skapi að hverfandi leyti af húsi kærenda að Blesugróf 14 sem þó stendur nær hinni fyrirhugaðri nýbyggingu en húsið að Blesugróf 10. Verður því ekki fallist á að gætt hafi verið að hinu sérstaka tilliti gagnvart nærliggjandi húsum sem skilmálar deiliskipulagsins kveða á um að taka skuli þegar um ræðir heimild til byggja hærri hús en samkvæmt almennum skilmálum skipulagsins. Til þess er einnig að líta að vegna hæðar gólfplötu Blesugrófar 12 verður inngangur hússins, sem er rúmum 3 m frá lóðarmörkum og snýr að garði kærenda, í um 2 m hæð frá yfirborði lóðar kærenda. Hefur byggingin þar af leiðandi veruleg grenndaráhrif gagnvart fasteign kærenda, m.a. með tilliti til innsýnar yfir á suðurhluta lóðar þeirra. Eru þau áhrif umfram það sem kærendur máttu búast við með hliðsjón af orðalagi gildandi deiliskipulags um að tillit skuli tekið til nærliggjandi eigna.

Að framangreindu virtu er hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svo sem áskilið er í 11. gr., sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr., laga um mannvirki og verður því ekki hjá því komist að fella það úr gildi.

Þá þykir rétt að benda á að fram kemur í skilmálum gildandi deiliskipulags að þar sem aðstæður leyfi megi gera kjallara, en það sé mat skipulagsyfirvalda hverju sinni. Í málinu liggur fyrir umsögn skipulagsfulltrúa þar sem segir að lóðin sé nánast hallalaus og það sé mat skipulagsfulltrúa að þær aðstæður séu tæplega til staðar að vera með kjallara á húsinu, en fallist yrði á það ef halli á rampi yrði 15%. Þegar deiliskipulag mælir fyrir um að aðstæður verði að vera til staðar vegna einhverra framkvæmda og eftirlætur það mat skipulagsyfirvöldum verður að gera þær kröfur að lágmarki að það sé ótvírætt mat þeirra yfirvalda að þær aðstæður séu fyrir hendi. Umsögn skipulagsfulltrúa ber það hins vegar ekki með sér samkvæmt orðalagi sínu.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 um að veita byggingarleyfi til að byggja parhús með geymslum og bílgeymslum í kjallara á lóð nr. 12 við Blesugróf er felld úr gildi.

113/2018 Brúnás, Garðabær

Með

 

Árið 2019, föstudaginn 12. apríl kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 6. júlí 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Brúnási 12 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 3. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Brúnási 14, Garðabæ, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Garðabæ frá 6. júlí 2018 að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Brúnási 12. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að leyfishafi hélt að sér höndum meðan reynt var að ná samkomulagi milli aðila var ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 13. febrúar 2019.

Málsatvik og rök: Hinn 9. janúar 2018 samþykkti bæjarráð Garðabæjar afgreiðslu byggingarfulltrúans í Garðabæ um samþykkt byggingaráforma til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Brúnási 12. Í bókun ráðsins var tekið fram að útgáfa byggingarleyfisins væri háð því að samhliða yrði útgefið byggingarleyfi fyrir lóðirnar við Brúnás 10 og Brekkuás 7 samkvæmt ákvæði í úthlutunarsamningi lóðarinnar. Hinn 19. Febrúar s.á. móttók Garðabær breytta aðaluppdrætti fyrir Brúnás 12, en dagsetning breytinganna var 2. s.m. Kom þar fram að óskað væri eftir hækkun kóta þakkants ásamt hækkun gólfkóta hússins og jöfnun hæðarkóta íbúðarrýmis. Byggingarfulltrúi samþykkti breytta uppdrætti 6. júlí 2018 og gaf út byggingar­leyfi í framhaldi af því 13. s.m.. Sú ákvörðun var kærð eins og að framan greinir en í kjölfar þess var reynt að leita lausna í málinu með aðilum sem ekki gekk eftir.

Kærandi bendir á að samkvæmt byggingarlýsingu sem fram komi á teikningu að húsinu að Brúnási 12, dags. 2. febrúar 2018, hafi verið sótt um breytingu á aðaluppdrætti sem hafi falið í sér hækkun kóta þakkants ásamt hækkun á gólfkóta. Aðaluppdráttur virðist áður hafa verið gefinn út 14. nóvember 2017. Kærandi hafi hvorki fengið afrit af fyrri aðaluppdrætti né nein gögn þar sem færð séu fram rök fyrir breytingunni eða umfjöllun um hana á vettvangi bæjaryfirvalda. Þá virðist sem hin kærða ákvörðun hafi ekki verið lögð fyrir skipulagsnefnd, bæjarstjórn eða bæjarráð til samþykktar. Umrædd lóð tilheyri deiliskipulagssvæði Hraunsholts í Garðabæ sem hafi að mestu verið byggt á árunum 1999-2010. Samkvæmt skilmálum skipulagsins sé á lóðinni heimiluð bygging einnar hæðar einbýlishúss, E-1. Hvorki fyrirhuguð vegghæð né gólfhæð samkvæmt samþykktum teikningum samræmist skipulagsskilmálum. Lóðin að Brúnási 12 liggi að norðurmörkum lóðar kæranda að Brúnási 14. Fyrirhuguð nýbygging verði því reist framan við suðurhlið lóðar hans, þar sem sé að finna sólaraðstöðu og verönd. Grenndaráhrif fyrirhugaðs húss verði mikil fyrir íbúa að Brúnási 14, sérstaklega vegna fyrirhugaðrar gólfhæðar og vegghæðar hússins.

Bæjaryfirvöld vísa til þess að á lóðinni Brúnási 12 sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum heimilt að byggja hús af gerðinni E-1 eða E-2. Hús af gerðinni E-1 sé í gildandi deiliskipulagi skilgreint sem einbýlishús á einni hæð en hús að gerðinni E-2 sem einbýlishús á einni og hálfri hæð. Að mati Garðabæjar sé áætluð heildarhæð hússins og vegghæð innan heimilda gildandi skipulags fyrir hús af gerðinni E-1. Þá sé á hæðarblaði einungis kveðið á um gólfhæð fyrir þann hluta hússins sem snúi að götu. Verði því að telja að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að samþykkja frávik frá hæðarkóta gólfhæðar enda sé þess gætt við hönnun hússins að heildarhæð þess sé innan tilskilinna skilmála. Á sneiðmyndum sem Garðabær hafi látið útbúa og sýni götumynd húsanna við Brúnás 8-16 megi sjá að götumynd sé eðlileg og í samræmi við þann fjölbreytileika sem almennt megi gera ráð fyrir í einbýlishúsahverfum. Þá sé ólíklegt að truflun verði af innsýn yfir á lóð kæranda umfram það sem eðlilegt sé og fólk sem búi í þéttbýli verði að sætta sig við.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærumálsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Fram kemur í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að óheimilt sé að reisa mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa eða Mannvirkja­stofnunar, sbr. 2. og 3. mgr. greinds ákvæðis. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. á byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi að veita byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr. laganna, vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er byggingarleyfi skv. 1. mgr. Í nefndri 1. mgr. 7. gr. kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi. Sveitarstjórn er heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þegar byggingar­fulltrúinn í Garðabæ samþykkti hið kærða byggingarleyfi var í gildi samþykkt nr. 863/2011 um afgreiðslur byggingarnefndar Garðabæjar. Í 2. gr. þeirrar samþykktar kemur fram að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa samkvæmt III. kafla laga um mannvirki sé að bæjarráð hafi samþykkt útgáfuna en bæjarráð annist verkefni byggingar­nefndar samkvæmt 7. gr. laganna.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var samþykkt byggingaráforma ekki lögð fyrir bæjarráð að nýju eftir að byggingarfulltrúi samþykkti breytingar á hæðarkótum á aðaluppdráttum 6. júlí 2018, svo sem kveðið var á um í 2. gr. fyrrgreindrar samþykktar um afgreiðslur byggingarnefndar Garðabæjar. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna sáttaumleitana í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

62/2018 Flatir, Vestmannaeyjar

Með

 

Árið 2019, fimmtudaginn 11. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 23. mars 2018 um að veita 2-Þ ehf. starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7 í Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Flötum 10, Vestmanna­eyjum, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 25. apríl 2018 að veita 2-Þ ehf. starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 27. apríl 2018 og 2. og 3. apríl 2019.

Málavextir: Fyrirtækið 2-Þ ehf. sótti hinn 5. febrúar 2018 um starfsleyfi til reksturs steypustöðvar og færanlegrar steypustöðvar að Flötum 7, Vestmannaeyjum. Auglýsing til kynningar á starfsleyfistillögunni birtist í Eyjafréttum 14. febrúar 2018 og var athugasemda­frestur veittur til og með 14. mars s.á. Kærendur ásamt fleirum komu á framfæri sameiginlegum athugasemdum, dags. 14. mars 2018, sem lutu m.a. að því að starfsleyfisskilyrði væru ekki uppfyllt, ákvæðum 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða væri ekki fylgt, auk þess sem ekki hefði verið leitast við að draga úr álagi á umhverfið og beita bestu fáanlegu tækni.

Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 22. mars 2018 var fjallað um starfsleyfisumsóknina og eftirfarandi bókun gerð: „Varðandi athugasemdir við starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7, Vestmannaeyjum. Umsókn liggur fyrir til afgreiðslu um starfsleyfi fyrir starfseminni sem er á skipulögðu athafnasvæði skv. Aðalskipulagi Vestmannaeyjabæjar. Málið rætt á fundinum og framkvæmdastjóra falið að afla frekari upplýsinga áður en starfsleyfið verður veitt.“

Hinn 23. mars 2018 svaraði framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands athugasemdum kærenda og tók eftirfarandi fram: „Undirrituð hefur þegar aflað nánari gagna um málið og fengið staðfestingu frá Skipulags- og byggingafulltrúa Vestmannaeyjabæjar að skipulagið geri ráð fyrir þessari starfsemi. Í samræmi við ofangreint verður starfsleyfi fyrir 2 Þ ehf. vegna steypustöðvar að Flötum 7 afgreitt.“ Var í bréfinu leiðbeint um kæruheimild til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála og m.a. tekið fram að kærufrestur væri einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Starfsleyfi fyrir framleiðslu tilbúinnar steinsteypu og fyrir færanlegri steypustöð og steypustöð að Flötum 7 með ákveðnum starfsleyfisskilyrðum var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands sama dag, eða 23. mars 2018, með gildistíma til 23. mars 2030.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að eftir að tímabundið starfsleyfi hafi runnið út 3. desember 2006 hafi færanleg steypustöð verið starfrækt að Flötum 7 án starfsleyfis. Varðandi það starfsleyfi sem gefið hafi verið út 23. mars 2018 hafi skilyrði fyrir rekstri færanlegrar steypustöðvar og/eða steypustöðvar að Flötum 7 ekki verið uppfyllt. Ekki hafi verið leitast við að draga úr álagi á umhverfið og beita bestu fáanlegu tækni til að ná þeim markmiðum, þrátt fyrir ítrekaðar óskir kærenda um úrbætur. Framkvæmd starfseminnar hafi ekki verið í samræmi við ýmis skilyrði útgefins starfsleyfis, ásamt því að verulegur hávaði og ónæði fylgi starfseminni, oft á tíðum að næturlagi. Ítrekaðar kvartanir hafi borist frá íbúunum til lögreglu vegna mikils hávaða utandyra, en að auki hafi Heilbrigðiseftirlit Suðurlands einnig móttekið kvörtun um ónæði. Þrátt fyrir að umrædd starfsemi sé staðsett á lóð sem ætluð sé undir atvinnustarfsemi samkvæmt gildandi aðalskipulagi séu á svæðinu einnig þrjú íbúðarhús frá eldri tíð. Því sé um að ræða blandaða byggð íbúðar- og athafnasvæðis.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurlands: Heilbrigðiseftirlit Suðurlands kaus að koma ekki á framfæri athugasemdum vegna kærunnar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess fyrst og fremst að kærunni verði vísað frá þar sem hún hafi borist utan lögbundins kærufrests. Hin kærða ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sé frá 23. mars 2018. Kærendur hafi verið upplýstir um ákvörðunina samdægurs og fram hafi komið að kærufrestur væri einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæran sé dagsett 25. apríl 2018, þ.e. rúmum mánuði eftir að kærendum hafi verið kynnt ákvörðunin.

Ef málinu verði ekki vísað frá sé þess krafist að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins standi óbreytt. Því sé hafnað að færanleg steypustöð hafi verið starfrækt að Flötum 7 frá árinu 2006 án þess að starfsleyfi hafi verið framlengt eða nýtt leyfi gefið út. Starfsleyfi til handa félaginu vegna rekstursins hafi verið gefið út 23. febrúar 2007 en vegna mannlegra mistaka hafi þar tilgreint rangt heimilisfang.

Að mati leyfishafa uppfylli hann skilyrði þau sem fram komi í starfsleyfisinu. Kröfur þær sem lúti að frárennsli hafi ekki verið í eldri starfsleyfisskilyrðum og því sé verið að vinna að endurbótum í samræmi við ný skilyrði í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Eðli þeirrar starfsemi sem um ræði og takmarkanir á samgöngumálum valdi því að sementsflutningabílar komi seint að kvöldi, með seinni ferð Herjólfs, með efni í starfsstöð leyfishafa. Þeir þurfi síðan að fara með fyrstu Herjólfsferju til baka morguninn eftir. Losun þurfi því að fara fram seint að kvöldi eða snemma að morgni og taki um 30 mínútur. Leyfishafi hafi reynt að sýna tillitssemi eftir fremsta megni og draga úr sjón-, hljóð- og rykmengun.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggi að tölvupóstur með tilkynningu um útgáfu starfsleyfisins hafi verið móttekinn hjá lögmanni kærenda 27. mars 2018. Í ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins hafi verið vísað til ákveðinna fylgiskjala sem ekki hafi fylgt með tilkynningunni. Óskað hafi verið eftir fyrrnefndum fylgiskjölum og hafi þau borist 4. apríl 2018. Í kjölfarið hafi lögmaður kærenda upplýst þá um framangreinda ákvörðun, en þá fyrst hafi kærendum verið hún kunn. Af þessu leiði að kærufrestur hafi byrjað að líða 4. apríl 2018 þegar öll gögn hefðu borist. Að auki hafi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 23. mars 2018, verið send kl. 16:27, eða eftir lok vinnudags á föstudegi, og því sé ómögulegt að miða upphaf kærufrests við þann dag.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að gefa út starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7, Vestmannaeyjum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Hið kærða starfsleyfi er frá föstudeginum 23. mars 2018 og voru svör við athugasemdum kærenda send lögmanni þeirra sama dag með bréfpósti og tölvupósti eftir opnunartíma skrifstofu eftirlitsins. Hvorki var ljóst af tölvupóstinum né svörunum að starfsleyfið hefði þegar verið gefið út heldur kom fram að starfsleyfið yrði gefið út. Verður því ekki talið að kærendur hafi mátt vita af útgáfu starfsleyfisins þegar á þeim tíma og að sama skapi tók kærufrestur ekki þá að líða. Hafði lögmaður þeirra og enga möguleika á að leita frekari upplýsinga fyrr en skrifstofan opnaði aftur 26. mars 2018 að helginni liðinni. Gerði hann það 27. s.m. og fékk gögn send 4. apríl s.á. Kæra barst í málinu 25. apríl 2018 og var það því innan kærufrests. Það athugast að þegar á þessum tíma var kveðið á um það í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 7. gr. breytingalaga nr. 66/2017, að útgefandi starfsleyfis ætti að auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Birting á vefsíðu útgefanda starfsleyfis teldist vera opinber birting. Þar sem slík birting fór ekki fram tók kærufrestur ekki heldur að líða af þeim sökum.

Lög nr. 7/1998 hafa það að markmiði að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi ásamt því að koma í veg fyrir eða að draga úr losun og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið, sbr. 1. gr. laganna. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin kom fram í 6. gr. að allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, ætti að hafa gilt starfsleyfi. Heilbrigðisnefndir gæfu út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem talinn væri upp í viðauka IV í lögunum, þ. á m. vegna steypustöðva, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það er lögbundið hlutverk heilbrigðisnefnda að veita starfsleyfi, m.a. fyrir þá starfsemi sem hér um ræðir.

Líkt og rakið er í málavaxtalýsingu var fjallað um málið á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 22. mars 2018, þar sem bókað var að framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands væri falið að leita eftir frekari upplýsingum áður en starfsleyfið yrði veitt. Daginn eftir, eða 23. s.m., var starfsleyfið gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands án þess að málið kæmi aftur til kasta heilbrigðisnefndar. Var bókun nefndarinnar frá fundi hennar 22. mars 2018 ekki afdráttarlaus um að leyfi skyldi veitt, auk þess sem í bókuninni var kveðið á um frekari rannsókn málsins áður en svo yrði gert. Verður að gera þá lágmarkskröfu til stjórnvalds þess sem bært er til að lögum að samþykkja starfsleyfi að það veiti slíkt samþykki berum orðum og án fyrirvara um frekari rannsókn sem eftir atvikum gæti breytt grundvelli málsins. Það var hins vegar ekki gert. Fór heilbrigðiseftirlitið því út fyrir valdmörk sín við útgáfu hins kærða starfsleyfis. Það þykir þó ekki eiga að leiða til ógildingar heldur verður litið svo á að í þeirri afgreiðslu hafi falist tillaga heilbrigðiseftirlitsins til heilbrigðisnefndar, enda eru hlutverk þessara aðila skv. lögum nr. 7/1998 samofin þótt lögin geri einnig ráð fyrir ákveðinni verkaskiptingu þar á milli. Þar sem heilbrigðisnefnd hefur ekki komið að málinu að nýju er hins vegar ekki til staðar lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem ekki er til staðar ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar verður máli þessu vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

32/2018 Kaldársel, Kaldárbotnar, Gjárnar

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 11. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 29. júní 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Kaldársel, Kaldárbotna og Gjárnar í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Herjólfsgötu 36, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 29. júní 2017 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Kaldársel, Kaldárbotna og Gjárnar í Hafnarfirði. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að lóð kæranda á deiliskipulagssvæðinu verði skilgreind sem lóð undir frístundahús.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 27. mars 2018 og 17. janúar 2019.

Málavextir: Hinn 23. nóvember 2016 samþykkti Hafnarfjarðarbær að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Kaldársel, Kaldárbotna og Gjárnar. Tillagan var auglýst til kynningar frá 6. apríl 2017 með athugasemdafresti til og með 18. maí s.á. Athugasemdir bárust á kynningar–tíma, þ. á m. frá kæranda. Hin kynnta skipulagstillaga var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 27. júní 2017 þar sem fyrir lágu framkomnar athugasemdir ásamt umsögn skipulags- og umhverfisþjónustu bæjarins um athugasemdirnar, dags. 22. s.m. Var tillagan samþykkt ásamt nefndri umsögn. Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, samþykkti deiliskipulags–tillöguna á fundi sínum 29. júní 2017 og var skipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar umfjöllunar 5. desember 2017. Með bréfi, dags. 21. s.m., tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins. Kæranda voru send svör við framkomnum athugasemdum með bréfi, dags. 12. janúar 2018, og tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29 s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að deiliskipulag frístundabyggðar í Sléttuhlíð og á svæðinu upp að Gjánum hafi verið samþykkt eftir að bústaðir hefðu þar verið byggðir og sé skipulagið sniðið að þeim. Eina lóðin sem haldið sé utan við deiliskipulag, án nokkurra haldbærra ástæðna, sé lóð kæranda. Sú lóð sé undanskilin friðlýsingu Gjánna, en þannig hafi málum verið skipað þegar friðlýsing hafi tekið gildi í apríl 2009. Þá hafi kærandi greitt lóðarleigu og opinber gjöld af lóðinni frá árinu 1944, en þó sé ekkert um lóðina fjallað í hinu kærða deiliskipulagi. Þá hafi meðferð málsins hjá Hafnarfjarðarbæ verið ábótavant. Svör við athugasemdum kæranda hafi fyrst borist honum níu mánuðum eftir að athugasemdirnar hafi verið sendar inn. Þau svör hafi ekki verið efnisleg og ekki hafi verið fjallað um lóð kæranda. Ekki sé hægt að vinna deiliskipulag án þess að gerð sé grein fyrir þeim löggerningum sem í gildi séu innan svæðisins. Við vinnslu deiliskipulags frístundabyggðar í Sléttuhlíð, Gráhelluhrauni og Klifsholti frá árinu 2006 hafi hins vegar verið tekið tillit til hagsmuna allra þeirra aðila sem átt hafi hús eða lóðir í upplandi Hafnarfjarðar, fyrir utan kæranda. Athugasemdir hafi verið gerðar á þeim tíma, en þá hafi verið farin sú leið að halda lóð kæranda fyrir utan skipulagið. Athugasemdum kæranda hafi aldrei verið svarað formlega og því hafi ekki verið virtur lögvarinn andmælaréttur.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum hans verði hafnað. Vísað er til þess að í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé tiltekið hvaða atriði skulu koma fram í kæru svo hún uppfylli formskilyrði og verði tekin til efnismeðferðar. Að mati bæjarins uppfylli kæra málsins ekki skilyrði ákvæðisins enda sé ekki ljóst hvaða ákvörðun eða ákvarðanir séu kærðar, hverjar kröfur kæranda séu og hvaða rök liggi þeim til grundvallar.

Á það sé bent að sveitarstjórnir fari með skipulagsvald innan marka sveitarfélags skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga og beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Sveitarfélögum sé beinlínis skylt að skipuleggja land innan marka sveitarfélagsins og sé í skipulagsáætlunum mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun. Tillaga að umdeildu deiliskipulagi hafi verið auglýst með almennum hætti í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Tekin hafi verið afstaða til framkominna athugasemda og leitað nauðsynlegra umsagna. Tillagan hafi síðan verið samþykkt í bæjarstjórn og athugasemdaraðilum tilkynnt um lyktir málsins. Formleg málsmeðferð skipulagstillögunnar hafi því að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Sveitarfélagið árétti að samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 sé ekki gert ráð fyrir frístundabyggð eða einstaka húsum á svæðinu heldur einungis á svæði við Sléttuhlíð og Klifsholt. Þá sé svæðið, þar sem lóð kæranda sé, friðlýst vegna merkrar stöðu hraunsins. Afstaða skipulags- og byggingarráðs til þess að frístundahús standi innan lóðarinnar hafi legið skýr fyrir á fundi ráðsins þann 13. júní 2017.

Niðurstaða: Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hún uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæran ber með sér að kærð sé ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 29. júní 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Kaldársel, Kaldárbotna og Gjárnar í Hafnarfirði og eru þar tíundaðar ástæður þær sem búa þar að baki. Með hliðsjón af því, og að gættum ákvæðum 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds og um rannsókn máls, verður ekki fallist á kröfu um frávísun málsins af framangreindum ástæðum.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og ein– skorðast valdheimildir hennar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar, en ekki er á færi nefndarinnar að breyta efni kærðrar skipulagsákvörðunar, líkt og krafa er gerð um í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að lóð hans á skipulagssvæðinu verði skipulögð undir frístundabyggð.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sem annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórnir eru einnig bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Hið kærða deiliskipulag var auglýst til kynningar lögum samkvæmt, afstaða tekin til athuga–semda sem borist höfðu og skipulagstillagan ásamt svörum við athugasemdum samþykkt í bæjarráði. Í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að senda skuli Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð, ásamt athugasemdum og umsögnum um þær, innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Jafnframt skuli sveitarstjórn senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær. Fyrir liggur að kæranda bárust ekki svör við athugasemdum fyrr en með bréfi sveitarfélagsins, dags. 12. janúar 2017, eða tæpum níu mánuðum eftir að athugasemdafresti lauk. Þykir þessi dráttur þó ekki þess eðlis að hann geti raskað gildi hinnar kærðu ákvörðunar, en kærandi varð ekki fyrir réttarspjöllum af þessum sökum.

Lóð kæranda í Gjánum við Kaldárselsveg hefur hvorki verið sýnd á aðalskipulags- né deiliskipulagsuppdrætti. Lóðin kemur þó fram á uppdrætti í auglýsingu umhverfis–ráðuneytisins um gildistöku friðlýsingar Kaldárhrauns og Gjánna í upplandi Hafnarfjarðar frá 3. apríl 2009. Af uppdrættinum verður ráðið að lóðin fellur að stærstum hluta innan marka hins kærða deiliskipulags.

Samkvæmt greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðarbæjar 2013-2025, sem var í gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin, er skipulagssvæði hins kærða deiliskipulags hluti af upplandi Hafnarfjarðar. Svæðið er að nær öllu leyti skilgreint sem óbyggt svæði. Samkvæmt aðalskipulagi falla undir þann flokk svæði með útivistargildi, þar sem aðeins er gert ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við útivist, öryggismál og fjarskipti. Þar er ekki gert ráð fyrir búsetu eða atvinnustarfsemi. Þá eru hlutar skipulagssvæðisins skilgreindir í aðalskipulagi sem opin svæði, svæði undir samfélagsþjónustu og vatnsbólasvæði. Þá er einnig gert ráð fyrir svæðum fyrir stofnanir og fyrirtæki sem, óháð eignaraðild, veita almenna þjónustu við samfélagið og falla þar m.a. undir skálar KFUM og KFUK í Kaldárbotnum. Af þessu er ljóst að í aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir frístundabyggð eða einstökum frístundahúsum á skipulagssvæði hins kærða deiliskipulags og hefði því ekki verið unnt að verða við kröfu kæranda um að lóð hans verði skilgreind sem lóð undir frístundahús að óbreyttu aðalskipulagi vegna áskilnaðar 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Ljóst er að kærandi hefur að óbreyttu skipulagi umrædds svæðis takmörkuð not af lóð sinni, en samkvæmt 51. gr. skipulagslaga getur sú staða eftir atvikum skapað rétt til bóta vegna sannanlegs fjártjóns. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina, svo sem orðalag greinds lagákvæðis ber með sér.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 29. júní 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Kaldársel, Kaldárbotna og Gjárnar.

76/2018 Dugguvogur

Með

Árið 2019, föstudaginn 5. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2018, er barst nefndinni 25. s.m., kæra fasteignaeigendur 2. hæðar að Dugguvogi 8-10, „úrskurð skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018 um að húsnæðið samræmist ekki skipulagi“. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að kærð sé til ógildingar synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 á leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. september 2018.

Málavextir: Kærendur sóttu um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. apríl 2018 og var henni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem tók umsóknina fyrir 27. s.m. Í niðurstöðu umsagnar skipulagsfulltrúa var m.a. tekið fram að ekki væri hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Á afgreiðslufundi sínum 2. maí 2018 synjaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. apríl s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að teikningar af húsnæðinu við Dugguvog hafi áður verið samþykktar sem íbúðir 11. nóvember 2008. Vísað sé til teikninga af húsnæðinu sem samþykktar hafi verið 14. febrúar 2017, þar sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafi gert athugasemdir. Samkvæmt skipulagi sé heimilt að nota umrætt húsnæði sem íbúðir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað. Forsaga málsins sé sú að í nóvember 2008 hafi byggingarfulltrúi samþykkt byggingarleyfisumsókn þar sem sótt hafi verið um að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir. Umsóknin hafi verið samþykkt með þeim skilyrðum að skráningartafla yrði lagfærð fyrir útgáfu á byggingarleyfi. Fleiri skilyrði hafi legið fyrir, s.s. að gerð skyldi grein fyrir brunahólfum rýmisins bæði lóðrétt og lárétt og að eignaskiptayfirlýsingu yrði þinglýst. Framangreind skilyrði hefðu aldrei verið uppfyllt og hefði byggingarleyfið fallið úr gildi ári síðar. Árið 2011 hafi síðan verið sótt um endursamþykkt á íbúðum á annarri hæð, matshluta 02, með vísan til samþykktarinnar frá 2008, ásamt umsókn um leyfi til að innrétta hluta efri hæðar matshluta 02 sem skrifstofur í húsinu. Afgreiðslu þeirrar umsóknar hafi verið frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa í október 2011 með vísan til þess að ekki hefði verið bætt úr athugasemdum varðandi lagfæringar á skráningartöflu. Einnig hefðu legið fyrir athugasemdir frá forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er lutu að eldvörnum.

Synjun byggingarleyfisumsóknarinnar hafi byggt á umsögn skipulagsfulltrúa frá 27. apríl 2018. Í umsögninni segi m.a. að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ37) fyrir uppbyggingu blandaðrar byggðar í borgarhluta 04, Laugardal. Það sé breyting frá eldra aðalskipulagi þar sem lóðin hafi verið á svæði þar sem landnotkun hafi verið takmörkuð við iðnaðar- og athafnasvæði. Ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir lóðina, en unnið hafi verið rammaskipulag fyrir Vogabyggð árið 2013, svæði 1-4, en umrætt svæði hafi fengið númerið 3. Fyrir liggi að ganga frá deiliskipulagi fyrir Vogabyggð 3, en þegar hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir Vogabyggð 1 og 2. Rammaskipulag og gildar deiliskipulagsáætlanir fyrir Vogabyggð 1 og 2 geri ráð fyrir að hverfið sé heildstæð og sjálfbær eining sem einkennist af blöndu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis með verslun og þjónustu. Endanlegur fjöldi íbúða og heildarbyggingarmagn ráðist við vinnslu á deiliskipulagi.

Ekki sé hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð sé á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hafi verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þar af leiðandi skuli skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður hafi verið gert á svæðinu. Til að mynda séu ríkari kröfur gerðar til hljóðvistar innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmála, aðgengis fyrir alla, bílastæða og frágangs.

Niðurstaða: Lóðin Dugguvogur 10 er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin skilgreind á miðsvæði (M19) á þróunarsvæði (Þ52). Þar kemur fram að á miðsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, stjórnsýslu og skrifstofum en einnig íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Samkvæmt aðalskipulagi telst Vogabyggð til þróunarsvæðis 52. Þar er gert ráð fyrir íbúðum og skrifstofum, auk verslunar og þjónustu. Áhersla skuli lögð á 3-5 hæða randbyggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi.

Hin kærða synjun um byggingarleyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog var rökstudd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. apríl 2018. Í þeirri umsögn var niðurstaðan svohljóðandi: „Ekki er hægt að samþykkja íbúðir í iðnaðarhúsnæði. Umrædd lóð er á miðsvæði fyrir blandaða byggð en ekki iðnaðarsvæði og hefur verið það frá gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Þ.a.l. skal skoða hljóðvist, loftgæði, rykmyndun, starfsemi og aðra umhverfisþætti á annan hátt en áður var gert á svæðinu. T.a.m. eru  ríkari kröfur um hljóðvist innan- og utanhúss á lóðinni, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði, frágang á lóð o.fl.“

Ekki er fallist á að gildandi aðalskipulag hafi girt fyrir veitingu byggingarleyfis fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum, enda er beinlínis gert ráð fyrir íbúðum á umræddu svæði eins og áður greinir. Þá liggja engar upplýsingar fyrir í málinu um að umrætt húsnæði uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis skv. ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, s.s um hljóðvist, sorpmál, aðgengi fyrir alla, bílastæði og til frágangs á lóð.

Með hliðsjón af framangreindu var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo verulega áfátt að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2018 um að synja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum íbúðum og vinnustofum í húsi á lóð nr. 10 við Dugguvog.