Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2019 Hraunbær

Árið 2020, föstudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. febrúar 2019 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggja við sérafnotafleti á lóðinni Hraunbæ 102B-E.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Hraunbæ 102B-E, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. febrúar 2019 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjól­veggja við sérafnotafleti á lóðinni Hraunbæ 102B-E. Er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. apríl 2019.

Málavextir: Hinn 3. janúar 2019 sendi kærandi byggingarfulltrúanum í Reykjavík erindi varð­andi skjólveggi sem hefðu verið reistir við íbúðir á fyrstu hæð hússins að Hraunbæ 102B-E. Í erindinu kom fram að tveir þeirra skjólveggja sem reistir hefðu verið næðu rúmlega fjóra metra frá útvegg. Fyrir slíkum framkvæmdum hefðu eigendur íbúðanna ekki nokkra heimild. Þess var óskað að byggingarfulltrúi tæki málið til skoðunar og eftir atvikum tæki afstöðu til þess hvort tilefni væri til að beita þvingunarúrræðum 55. eða 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. ákvæði gr. 2.9.1. og 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með bréfi, dags. 11. febrúar 2019, þar sem fram kom að hann hefði tekið málið til skoðunar og taldi að ekki væri um brot á byggingarreglugerð eða lögum um mannvirki að ræða og því væri ekki ástæða til að beita þvingunarúrræðum 55. eða 56. gr. mannvirkjalaga, sbr. ákvæði gr. 2.9.1. og 2.9.2. reglugerðarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ljóst sé af eignaskiptayfirlýsingum og öðrum þinglýstum heimildum um greinda fasteign að enginn séreignarhluti/sérnotaréttur tilheyri íbúðum á 1. hæð fjöleignarhússins á lóðinni við Hraunbæ 102B-E. Óháð álitaefnum er varði skort á samþykki sameigenda fyrir framkvæmdinni sé hins vegar ljóst að umrædd framkvæmd sé í ósamræmi við samþykkta uppdrætti fyrir lóðina. Umræddir skjólveggir standi rúma fjóra metra frá húsvegg, langt umfram þá tvo metra sem afmarkaðir séu sem svokallaðir sérnotareitir á uppdráttum samþykktum af byggingarfulltrúa. Húsfélagið hafi ekki fengið upplýsingar um að leitað hafi verið byggingarleyfis fyrir framkvæmdunum í samræmi við 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. einnig kafla 2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og að umræddar framkvæmdir feli í sér brot á ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar, sbr. einnig ákvæði stjórnsýslu­laga nr. 37/1993, einkum 10., 13. og 22. gr. laganna.

Umrædd eignaskipta­yfirlýsing hafi aldrei verið samþykkt af neinum í húsfélaginu, hvorki í stjórn þess né á aðalfundi. Krafa kæranda sé einföld. Hann vilji að úrskurðað verði að enginn íbúi í húsinu að Hraunbæ 102B-E hafi sérafnotarétt af neinu svæði sem tilheyri sameign hússins og hafi frá upphafi gert. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir og góðan vilja langflestra íbúa fyrstu hæðar hafi þeir ekki getað komið sér saman um útlit og stærð palla vegna þess að ákveðnir aðilar standi fast á meintum sérafnotarétti í boði byggingarfulltrúans í Reykjavík.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld ítreka það sem fram komi í bréfi byggingar­fulltrúa frá 11. febrúar 2019. Ekki sé um brot á byggingarreglugerð nr. 112/2012 eða á mannvirkjalögum nr. 160/2010 að ræða og að málið sé einkaréttarlegs eðlis. Ekki verði séð að um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir sé að ræða. Framkvæmdin sé minniháttar sem sé undanþegin byggingarleyfi, sbr. f. lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið sé fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefi stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum, svo sem tengist skipulagi, öryggi og heilbrigði. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingar­yfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna hagsmuna einstaklinga enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búi að baki fyrrgreindum lagaheimildum. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að engir slíkir hagsmunir væru fyrir hendi sem kalli á afskipti embættisins með þeim hætti sem kærandi hafi óskað eftir.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum. Í samræmi við það tekur úrskurðar­nefndin lögmæti ákvörðunar til endurskoðunar en ekki er á færi nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu eða leggja fyrir yfirvöld að afgreiða mál með tilteknum hætti. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til skoðunar ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggja á lóðinni Hraunbæ 102B-E, en sú ákvörðun er kæranleg til úrskurðar­nefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga er að finna heimild fyrir byggingar­fulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Þá heimilar 56. gr. byggingarfulltrúa að krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum eða lögaðilum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einkaréttarlegs ágreinings enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni svo sem með því að bera ágreining milli aðila undir dómstóla.

Borgaryfirvöld rökstuddu hina kærðu synjun um beitingu þvingunarúrræða með þeim hætti að um hafi verið að ræða einkaréttarlegan ágreining sem lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús tæki til, m.a. III. kafli laganna um réttindi og skyldur eigenda séreignarhluta í fjölbýlis­húsi þegar um væri að ræða notkun og umgengni um sameiginleg rými. Húsfélag hefði þar að auki almennar heimildir til þess að bregðast við vegna brota félagsmanns gagnvart húsfélaginu eða öðrum eigendum. Jafnframt var vísað til þess að um minniháttar framkvæmdir væri að ræða sem undanþegnar væru byggingarleyfi, sbr. f. lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en í málinu liggur fyrir skoðunarskýrsla byggingarfulltrúa þar sem fram kemur fram að hæð umþrættra skjólveggja hafi verið mæld og reynst mest vera 1,8 m. Samkvæmt því eru skjól­veggirnir undanþegnir byggingarleyfi, sbr. greint ákvæði reglugerðarinnar. Það mat byggingar­fulltrúa að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum var því stutt efnisrökum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. febrúar 2019 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggja við sérafnota­fleti á lóðinni Hraunbæ 102B-E.