Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2018 Fitjar, Skorradal

Árið 2019, mánudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2018, kæra á álagningu afgreiðslu- og umsýslugjalds og gjalds fyrir aukayfirferð vegna óverulegrar breytingar á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 varðandi land Fitja.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2018, er barst nefndinni 8. s.m., kærir íbúi og landeigandi að Fitjum í Skorradalshreppi, álagningu afgreiðslu- og umsýslugjalds að fjárhæð kr. 208.600 og gjalds fyrir aukayfirferð að fjárhæð kr. 11.000 vegna óverulegrar breytingar á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 varðandi land Fitja. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 27. júlí 2018, í ágúst, október og nóvember 2019.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 6. febrúar 2018 var tekin fyrir ósk kæranda um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 í því skyni að fella niður verslunar- og þjónustusvæði í landi kæranda, Fitjum, til að koma fyrir íbúðalóðum á landbúnaðarlandi. Lagði nefndin til við hreppsnefnd Skorradals­hrepps að heimila óverulega breytingu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Staðfesti hreppsnefndin afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á fundi sínum 1. mars s.á. Með bréfi, dags. 13. s.m., tilkynnti skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins kæranda um ákvörðun hreppsnefndarinnar. Í bréfinu kom fram að gjald fyrir óverulega breytingu aðal­skipulags væri að fjárhæð kr. 208.600. Byggðist gjaldtakan á gjaldskrá nr. 1001/2016 fyrir afgreiðslu umsókna, leyfisveitingar og þjónustu skipulags- og byggingarfulltrúaembættis Skorradals­hrepps, nánar tiltekið liðum 6.1 og 6.3. Í apríl 2018 var greiðsluseðill að fjárhæð kr. 11.000 sendur til kæranda vegna aukayfirferðar skipulagsgagna.

Hinn 24. apríl 2018 spurði kærandi skipulagsfulltrúa hvað fælist í umsýslugjaldi skv. lið 6.3 í gjaldskrá hreppsins. Í svari hans frá 30. s.m. kom fram að í því fælist yfirferð framlagðrar tillögu með tilliti til staðfests aðalskipulags, gildandi deiliskipulagsáætlana og gildandi lögum og reglugerðum, undirbúningi tillögunnar til formlegrar meðferðar hjá sveitarfélaginu, auglýsing niðurstöðu í opinberum fjölmiðlum, samantekt gagna fyrir Skipulagsstofnun, prentun og undirbúningur gagna til undirritunar. Einnig kom fram að í gjaldinu fælist hlutfallslegur kostnaður nefnda við umfjöllun málsins. Kærandi leitaði til umboðs­manns Alþingis 5. maí 2018 vegna málsins. Með bréfi, dags. 24. s.m., benti umboðsmaður kæranda á þann möguleika að leita til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvörðunar hrepps­nefndarinnar. Sem fyrr greinir barst kæra í máli þessu til nefndarinnar 8. júní s.á. og tók breyting á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, í landi Fitja, gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. ágúst 2018.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hún hafi falið fagaðila að búa til tillögu að óverulegri breytingu á aðalskipulagi og rúmist gjaldtaka Skorradalshrepps fyrir „óverulegri aðalskipulagsbreytingu“ og „auka yfirferð“ gagna ekki innan gjaldtökuheimildar 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lágmarki verði að gera þá kröfu að um gjaldskrá hreppsins nr. 1001/2016 gildi meginreglur um þjónustugjöld, þ.e. að gjaldtakan endurspegli raunkostnað fyrir veitta þjónustu.

Gjaldskráin sæki stoð sína í 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga. Það gjald sem kærandi hafi verið rukkuð fyrir falli undir lið 6.1., afgreiðslugjald vegna móttöku umsóknar um breytingu aðalskipulags, og lið 6.3, umsýslugjald vegna óverulegra breytinga á aðalskipulagi. Mögulega samrýmist það gjaldtökuheimild 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga að krefjast afgreiðslugjalds, sbr. lið 6.1, en óljóst sé hvaða þjónusta felist í móttökunni m.t.t. þess sem fram komi hjá skipulagsfulltrúa um hvað felist í umsýslugjaldi skv. lið 6.3. Það hljóti að vera eðlilegur hluti móttöku umsóknar um skipulagsbreytingu að yfirfara hana í samræmi við gildandi skipulag og gagnvart gildandi lögum og reglugerðum. Mögulega falli það undir gjaldheimild 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga að rukka umsýslugjald fyrir undirbúning tillögu til formlegrar meðferðar hjá nefndum, en þá ætti tímafjöldi fyrir þá þjónustu að koma fram á reikningi. Ekki sé fallist á að auglýsing niðurstöðu sveitarfélagsins sé hluti umsýslugjalds skv. lið 6.3, heldur falli það undir lið 6.4. Óljóst sé hvort viðhlítandi lagaheimild sé fyrir gjaldtöku vegna samantektar á gögnum fyrir Skipulagsstofnun, prentun tillögunnar og hlutfallslegan kostnað nefnda við umfjöllun málsins. Í það minnsta hefði þjónustan átt að vera sundurliðuð á reikningi, þannig að unnt væri að gera sér grein fyrir umfangi hvers þjónustuliðar fyrir sig og meta hvort hann falli undir gjaldtökuheimildina. Einnig sé óljóst hvers konar þjónusta eigi sér stað við aukayfirferð skipulagsgagna í ljósi þess sem nefnt sé að falli undir lið 6.3 sem umsýslugjald. Þá kröfu verði að gera til sveitarfélaga að þau tilgreini nákvæmlega fyrir hvaða þjónustu sé verið að rukka þar sem grundvallarreglan sé sú að þjónustugjöld eigi að endurspegla raunkostnað.

Túlka beri hugtakið „skipulagsvinna“ í 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga sem gjald fyrir vinnu við að búa til nýja eða breyta gildandi skipulagsáætlun. Fagaðili hafi útbúið tillögu að „óverulegri breytingu“ á aðalskipulagi og sá aðili hafi ekki sent hreppnum rukkun fyrir skipulagsvinnuna. Ef fallist sé á þrönga túlkun gjaldtökuheimildar 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga, þ.e. að hún nái einungis til vinnu við að búa til eða breyta skipulagsáætlun, þá sé ljóst að hreppurinn hafi ekki unnið þá skipulagsvinnu. Sé gjaldtökuheimildin hins vegar túlkuð rúmt verði að gera þá kröfu til skipulagsvaldsins að það þjónustugjald sem innheimt sé vegna „afgreiðslu“ og „umsýslu“ sé sundurliðað með skýrum hætti og nemi ekki hærri upphæð en raunkostnaði fyrir veitta þjónustu, kynningu og auglýsingu, enda sé mælt svo fyrir um í nefndri 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að á því hvíli skyldur samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Til að sinna þeim skyldum hafi sveitarfélagið haft byggingar- og skipulagsfulltrúa í hlutastarfi. Skipulagslög heimili álagningu gjalda til að standa undir kostnaði að hluta með innheimtu gjalda fyrir vinnu starfsmanna sveitarfélagsins sem unnin sé að beiðni íbúa þess eða eigenda fasteigna innan þess. Heimild til innheimtu gjalda fyrir skipulagsvinnu sem nauðsynleg sé vegna leyfisskyldrar framkvæmdar sé að finna í 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga. Á grundvelli þeirrar greinar hafi sveitarstjórn samþykkt 26. október 2016 gjaldskrá nr. 1001/2016 fyrir afgreiðslu umsókna, leyfisveitinga og þjónustu skipulags- og byggingarfulltrúa Skorradals­hrepps.

Í 6. gr. gjaldskrárinnar sé kveðið á um gjöld fyrir veitta þjónustu og verkefni skipulags­fulltrúa, m.a. fyrir undirbúning, svo sem vegna nauðsynlegrar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, yfirferð skipulagsgagna og skjalfærslu gagna, en gjald samkvæmt greininni miðist við eina yfirferð skipulagsgagna. Við ákvörðun umsýslugjalds skipulagsfulltrúa vegna óverulegrar breytingar á aðalskipulagi hafi hreppsnefnd haft hliðsjón af þeirri málsmeðferð sem skipulagslög kveði á um að skuli viðhöfð og hve mörgum tímum gera megi ráð fyrir að skipulagsfulltrúi þurfi að jafnaði að verja í slíka málsmeðferð. Afgreiðslugjald sé skilgreint í 2. gr. gjaldskrárinnar sem gjald sem greitt sé við móttöku umsóknar um m.a. nýja skipulags­áætlun eða breytingar á skipulagsáætlun og að í því felist kostnaður við móttöku og skráningu umsóknar. Tímagjald hafi verið tekið vegna aukayfirferðar skipulagsfulltrúa yfir skipulags­gögn þau sem frá kæranda hafi komið eftir að þau hafi verið lagfærð að kröfu Skipulags­stofnunar, en eins og áður segi miði umsýslugjaldið við eina yfirferð gagna, sbr. 1. mgr. 6. gr. gjaldskrárinnar.

Það sé rétt sem kærandi bendi á að innheimta þjónustugjalda skuli endurspegla raunkostnað við að veita þjónustuna. Í íslenskum rétti hafi almennt verið litið svo á að sá sem greiði þjónustugjald geti ekki krafist þess að sá kostnaður sem hljótist af því að veita hana sé reiknaður nákvæmleg út og hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála stuðst við þá meginreglu í eldri úrskurðunum sínum, t.a.m. í kærumálum nr. 19/2017 og 45/2017. Um tilvist nefndrar meginreglu sé jafnframt vísað til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2534/1998 og 5184/2007. Með hliðsjón af umræddri meginreglu vísi sveitarfélagið til sundurliðunar í bókhaldi sveitarfélagsins fyrir árið 2017 annars vegar og fyrstu fjóra mánuði ársins 2018 hins vegar. Þar megi sjá að heildartekjur sem falli undir liðinn skipulagsmál og byggingareftirlit séu umtalsvert lægri en samanlagður heildarkostnaður við rekstur embætta skipulags- og byggingarfulltrúa. Að sama skapi séu tekjur af þjónustu­gjöldum skipulagsfulltrúa umtalsvert lægri en launakostnaður hans. Því sé augljóst að kostnaður sveitarfélagsins við að veita skipulagsþjónustu sé umtalsvert hærri en sú fjárhæð sem innheimt sé með þjónustugjöldum skv. 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga. Þar með sé gjaldtakan innan þeirra viðmiða sem lagagreinin kveði á um.

Í tölvupósti skipulagsfulltrúa 30. apríl 2018 hafi verið gerð grein fyrir þeim atriðum málsmeðferðar sem greitt sé fyrir með umsýslugjaldi vegna óverulegrar aðalskipulags­breytingar. Hafi sveitarfélagið veitt kæranda fullnægjandi upplýsingar um hvað felist í gjaldinu og um leið sýnt fram á réttmæti þess að innheimta umsýslugjald skv. lið 6.3 í gjaldskránni. Vegna umsóknar kæranda um breytingu á aðalskipulagi hafi skipulagsfulltrúi þurft að sinna ýmsum þáttum málsins við yfirferð gagna, leiðbeiningar um leiðréttingar, samskipti við ráðgjafa kæranda og kæranda sjálfan og undirbúning málsins fyrir fundi skipulags- og byggingarnefndar og hreppsnefndar, svo dæmi séu tekin. Því sé ekki haldið fram í kæru að kærandi hafi ekki nýtt sér umrædda þjónustu skipulagsfulltrúa. Þvert á móti sé því lýst í kæru að kærandi hafi lagt umrædda skipulagstillögu fram til meðferðar hjá sveitarfélaginu.

Vinna við breytingu á gildandi skipulagi sé mun fjölþættari en svo að aðeins sé um gerð skipulagsuppdráttar að ræða, t.d. að gæta þess að skilyrði laga og reglugerða um málsmeðferð og gerð skipulagsgagna séu uppfyllt. Þá hafi sá fagaðili sem kærandi hafi falið verkið ekki verið á lista Skipulagsstofnunar yfir þá aðila sem uppfylli skilyrði til gerðar skipulags­áætlunar, sbr. 7. gr. skipulagslaga. Þau gögn sem skipulagsfulltrúi hafi fengið til meðferðar hafi borið þess merki að ekki væri um vanan skipulagsráðgjafa að ræða. Gögnin hafi því þurft nokkuð meiri yfirferð og fleiri leiðréttingar af hálfu skipulagsfulltrúa en ella.

Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni óskaði nefndin eftir frekari skýringum frá sveitarfélaginu á útreikningi gjaldaliðs 6.3 í gjaldskrá nr. 1001/2016. Í svari sveitarfélagsins við fyrirspurninni kemur fram að í liðnum sé að finna jafnaðarverð fyrir umsýslu skipulagsfulltrúa vegna óverulegrar breytingar á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga. Reiknað sé með að meðaltali 18 tíma vinnu undir gjaldalið 6.3. Þar sem tímagjald embættisins sé skv. gjaldalið 6.5 að fjárhæð kr. 10.500 sé gjaldaliður 6.3 samanlagt að fjárhæð kr. 190.000. Gjaldaliðurinn skiptist í eftirfarandi vinnuþætti: þrír tímar vegna yfirferðar framlagðrar tillögu með hliðsjón af leiðbeininga­blöðum Skipulagsstofnunar, tveir tímar vegna vinnu við að meta hvort að tillaga breytingar aðalskipulags sé óveruleg í samræmi við gátlista Skipulagsstofnunar, þrír tímar vegna vinnu við að rýna tillögu breytingar með tilliti til staðfests aðalskipulags sveitarfélagsins, fjórir tímar vegna undirbúnings tillögunnar til formlegrar meðferðar hjá sveitarfélaginu, tveir tímar vegna vinnu við að auglýsa niðurstöðu í opinberum fjölmiðlum, einn tími vegna plottunar gagna og undirbúnings undirritunar oddvita og þrír tímar vegna samantektar gagna fyrir Skipulagsstofnun ásamt erindi þar sem farið sé yfir málsmeðferð og afgreiðslu málsins. Vegna frekari fyrir­spurna úrskurðarnefndarinnar upplýsti sveitarfélagið jafnframt að svar skipulagsfulltrúa frá 30. apríl 2018, við fyrirspurn kæranda um hvað fælist í gjaldalið 6.3, hafi verið byggt á misminni. Við undirbúning gjaldskrárinnar hafi útreikningur gjaldsins byggst á óformlegu vinnugagni auk þess sem gjaldskrár annarra sveitarfélaga hafi verið skoðaðar ofan í kjölinn. Nefnt vinnugagn hafi ekki verið varðveitt þar sem um hafi verið að ræða handunna útreikninga á lausum blöðum.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð álagning af hálfu Skorradalshrepps vegna óverulegrar breytingar á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 sem gerð var að beiðni kæranda sem eiganda þess lands sem breytingin tók til. Fram kemur í 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að sé þörf á að vinna skipulagsáætlun eða gera breytingu á henni vegna leyfisskyldra framkvæmda geti sveitarstjórn innheimt gjald fyrir skipulagsvinnu sem nauðsynleg sé vegna þeirrar fram­kvæmdar og skuli gjaldið ekki nema hærri upphæð en nemi kostnaði við skipulagsgerðina og kynningu og auglýsingu skipulagsáætlunar. Skal sveitarstjórn setja gjaldskrá um innheimtu gjaldsins og birta í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Skorradalshreppur samþykkti slíka gjaldskrá 26. október 2016. Gjaldskráin, sem er nr. 1001/2016 fyrir afgreiðslu umsókna, leyfisveitingar og þjónustu skipulags- og byggingarfulltrúaembættis Skorradalshrepps, tók gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. nóvember s.á.

Samkvæmt lið 6.1 í nefndri gjaldskrá er afgreiðslugjald við móttöku umsóknar um breytingu aðalskipulags að upphæð kr. 10.500, en í því felst kostnaður við móttöku og skráningu umsóknar, sbr. skilgreiningu á afgreiðslugjaldi í 2. gr. gjaldskrárinnar. Samkvæmt lið 6.3 er umsýslugjald vegna óverulegrar breytingar á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga að fjárhæð kr. 190.000, en í því felst kostnaður vegna yfirferðar gagna og afgreiðslu umsóknar, sbr. skilgreiningu á umsýslugjaldi í 2. gr. gjaldskrárinnar. Samkvæmt lið 6.5 er gjald fyrir hverja klukkustund vegna aukayfirferðar skipulagsgagna að fjárhæð kr. 10.500, en í því felst gjald vegna yfirferðar breyttra gagna þar sem umsókn og móttaka gagna hefur áður átt sér stað, sbr. skilgreiningu á aukayfirferð í 2. gr. gjaldskrárinnar. Var kærandi krafinn um greiðslu að upphæð samtals kr. 218.600 vegna framangreindra gjaldaliða, en þeir höfðu tekið verðlagsbreytingum í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu, sbr. 9. gr. gjaldskrárinnar.

Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er því ekki skylt að reikna út kostnað við meðferð hverrar umsóknar um breytingu á aðalskipulagi. Þá verður að telja að heimilt sé að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald fyrir hvern og einn gjaldalið. Aftur á móti verður fjárhæð þjónustugjalds að byggjast á traustum útreikningi miðað við þann kostnað sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Þó hefur verið litið svo á að ef ekki sé hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði þá sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Loks hefur verið litið svo á með tilliti til réttaröryggis borgaranna að útreikningur þjónustugjalds verði að liggja fyrir áður en ákvörðun um fjárhæð þess er tekin.

Í fyrirliggjandi bókhaldi sveitarfélagsins sem fylgdi með greinargerð þess er að finna ýmsar upplýsingar um kostnað sveitarfélagsins vegna skipulags- og byggingarmála, svo sem launakostnað skipulagsfulltrúa. Af þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram verður þó ekki með góðu móti ráðið hvaða útreikningar lágu að baki umsýslugjaldi gjaldaliðs 6.3. Verður því ekki séð að traustur útreikningur hafi legið til grundvallar ákvörðunar á upphæð gjaldsins. Aftur á móti verður að líta til þess að það getur verið erfiðleikum bundið að sérgreina nákvæmlega kostnaðarliði þjónustugjalds fyrir breytingu á aðalskipulagi vegna leyfisskyldra framkvæmda þar sem sveitarfélögin sjálf sjá allajafna um breytingu á gerð aðalskipulags, sbr. 36. gr. skipulagslaga, og standa straum af kostnaði vegna hennar, sbr. þó 3. tl. 1. mgr. 18. gr. laganna. Verður því að líta svo á að tækt sé að byggja kostnaðarliði umsýslugjaldsins á skynsamlegri áætlun. Sem fyrr segir verður þó áætlun að baki þjónustugjaldi að liggja fyrir áður en ákvörðun um fjárhæð þess er tekin.

Líkt og áður hefur verið rakið óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari skýringum á útreikningum að baki gjaldalið 6.3. í gjaldskrá nr. 1001/2016. Svörum sveitarfélagsins við fyrirspurn nefndarinnar ber ekki að öllu leyti saman við svar skipulagsfulltrúa 30. apríl 2018 við fyrirspurn kæranda, er rakið var í málavöxtum, en það svar mun hafa verið byggt á misminni. Útreikningur gjaldsins, eins og hann er settur fram í svari sveitarfélagsins við fyrirspurn nefndarinnar, byggist á að margfalda áætlaðan fjölda vinnustunda skipulagsfulltrúa sem til þarf vegna óverulegrar breytingar aðal­skipulags með tímagjaldi embættisins skv. gjaldalið 6.5. Með hliðsjón af þeim verkefnum sem þar eru upp talin, s.s. yfirferð framlagðrar tillögu skv. leiðbeiningablöðum Skipulags­stofnunar, undirbúning tillögunnar til formlegrar með­ferðar hjá sveitarfélaginu, samantekt gagna fyrir Skipulagsstofnun auk annarra verkefna, verður að telja að sá útreikningur feli í sér skynsamlega áætlun.

Gjaldtaka er íþyngjandi fyrir þann sem fyrir henni verður og leiða sjónarmið um réttaröryggi borgaranna til þess að grundvöllur hennar verður allt frá upphafi að vera traustur. Þrátt fyrir að réttar upplýsingarnar um útreikning gjaldsins í lið 6.3 í gjaldskránni hafi ekki verið veittar kæranda þegar eftir þeim var óskað getur það eitt og sér ekki leitt til þess að álagning gjaldsins verði felld úr gildi. Þá verður að líta til þess að þótt ekki liggi fyrir nákvæm gögn til stuðnings svörum sveitarfélagsins liggur ekki annað fyrir en að útreikningur gjaldsins, auk þess að byggjast á skynsamlegri áætlun, hafi átt sér stað áður en ákvörðun um fjárhæðina var tekin. Er og til þess að líta að gjaldtakan byggist á skýrri lagaheimild 2. mgr. 20. gr. skipulags­laga til gjaldtöku fyrir þjónustu sem innt er af hendi. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um að fella úr gildi álagningu sveitarfélagsins að þeim hluta hvað varðar gjaldalið 6.3.

Að því er varðar gjaldtöku skv. gjaldalið 6.1, afgreiðslugjald við móttöku umsóknar um breytingu aðalskipulags, telur úrskurðarnefndin að slíkt gjald falli undir skipulagsvinnu sem nauðsynleg er vegna breytingar á aðalskipulagi, sbr. 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga. Samkvæmt skilgreiningu á gjaldinu í 2. gr. gjaldskrárinnar felst í því kostnaður við móttöku og skráningu umsóknar. Verður sá kostnaður ekki talinn skarast á við þann kostnað sem innifalinn er í lið 6.3 líkt og kærandi heldur fram. Þá gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemd við að sveitar­félagið hafi innheimt gjald samkvæmt lið 6.5 í gjaldskránni vegna aukayfirferðar skipulags­gagna á þeim grundvelli að ráðgjafi kæranda, er vann skipulagstillöguna, hafi þurft að fá ítrekaðar leiðbeiningar þar sem tillagan hafi á þeim tíma ekki verið tæk til meðferðar hjá nefndum sveitarfélagsins, auk þess sem hann hafi ekki verið á lista Skipulagsstofnunar skv. 9. mgr. 45. gr. skipulagslaga um skipulagsráðgjafa sem uppfylli skilyrði 7. gr. skipulagslaga til að sinna gerð skipulagsáætlana. Telst sá kostnaður einnig til skipulagsvinnu sem nauðsynleg er vegna breytingar á aðalskipulagi í skilningi 2. mgr. 20. gr. skipulagslaga. Álagning gjalds á grundvelli gjaldaliðar 6.1 var því einnig lögmæt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu álagningar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu álagningar afgreiðslu- og umsýslugjalds að fjárhæð kr. 208.600 og gjalds fyrir aukayfirferð að fjárhæð kr. 11.000 vegna óverulegrar breytingar á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 varðandi land Fitja.