Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

23/2024 Hraunberg

Með

Árið 2024, föstudaginn 3. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2024, kæra á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. febrúar 2024, að hafna kröfu um að taka upp ákvörðun um samþykki byggingar­áforma, dags. 9. nóvember 2021, vegna breytinga á annarri hæð fjöleignarhússins á lóð nr. 4 við Hraunberg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2024, er barst nefndinni 28. s.m., kærir O ehf., eigandi eignarhluta F2263337 í fjöleignarhúsi á lóð nr. 4 við Hraunberg í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. febrúar 2024 um að hafna kröfu um að taka upp ákvörðun um samþykki byggingaráforma, dags. 9. nóvember 2021, vegna breytinga á annarri hæð hússins. Er þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir Reykjavíkur­borg að verða við kröfu kæranda eða eftir atvikum afturkalla ákvörðun um að veita tilgreint byggingarleyfi. Þá verður að skilja málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. mars 2024.

Málavextir: Fjöleignarhús á lóð nr. 4 við Hraunberg í Reykjavík er samkvæmt eignaskipta­yfirlýsingu frá árinu 2003 skipt í 14 eignarhluta sem skiptast ýmist í séreignir eða sameignir sem ýmist eru í eigu allra eða sumra. Í húsinu er gert ráð fyrir fjölbreyttri notkun einstakra eigna, t.d. fyrir verslunarstarfsemi, skrifstofur og veitingahús.

Á afgreiðslufundi 9. nóvember 2021 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík byggingar­áform eiganda fjögurra eignarhluta Hraunbergs 4, þ.e. eignarhluta F2263329, F2263330, F2263331 og F2263332. Í áformunum fólst að notkun yrði breytt úr atvinnuhúsnæði í íbúðar­húsnæði og gerðar yrðu fimm nýjar íbúðir, fasteignanúmerum yrði þ.a.l. fjölgað um eitt ­og til viðbótar yrði svölum komið fyrir í vesturhluta annarrar hæðar fjöleignarhússins. Bókað var að erindinu fylgdi fundargerð húsfundar sem og það skilyrði að ný eigna­skipta­yfirlýsing yrði samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis og að henni yrði þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt.

Ný eignaskiptayfirlýsing, dags. 15. júlí 2022, var árituð af byggingarfulltrúa 15. september s.á., en byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum hafði verið gefið út 30. ágúst s.á. Hin nýja eigna­skiptayfirlýsing gerði ráð fyrir að eignarhlutar yrðu 15, þar af fimm í eigu byggingarleyfishafa, en eigendur þriggja eignarhluta undirrituðu ekki yfirlýsinguna, þ. á m. kærandi í máli þessu. Var eignaskiptayfirlýsingunni þinglýst 23. júní 2023, en skráningin var síðar afmáð af þinglýsingarstjóra í framhaldi af athugasemdum um að hún væri ógild. Er eignaskipta­yfirlýsingin frá árinu 2003 því óhögguð.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að hann hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir framangreindri breytingu, en samþykki allra eigenda sé áskilið þegar fjölga eigi eignarhlutum í fjöleignarhúsi. Þá sé með breytingunni gengið á sameign sem sé að hluta í eigu kæranda, þ.e. rými 0209, samkvæmt gildandi eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 2003. Samþykki kæranda fyrir skerðingu á eignarhluta sínum liggi ekki fyrir og njóti eignarréttindi hans stjórnarskrárverndar. Frá þeim tíma er byggingarfulltrúi hafi haft vitneskju um að samþykkið hefði skort hafi honum borið að afturkalla ákvörðun sína um að veita byggingarleyfi vegna framkvæmdarinnar.

Þegar verkferlar stjórnvalds bregðist svo sem hér um að ræði sé það lágmarkskrafa að borgar­yfirvöld beiti þeim stjórnsýsluúrræðum sem þeim séu tæk til að vinda ofan af því ólöglega ástandi sem mistökin hafi leitt til. Hagsmunir byggingarleyfishafa af því að leyfið standi óraskað hljóti að víkja fyrir hagsmunum kæranda og annarra sameigenda af því að halda eign sinni óskertri.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að ákvörðun um að veita bygg­ingarleyfi hafi ekki verið kærð innan kærufrests. Þó er tekið fram að byggingarleyfið hafi verið gefið út án þess að skilyrði um samþykki nýrrar eignaskiptayfirlýsingar hefði verið uppfyllt og misskilnings virðist hafa gætt hjá byggingarfulltrúa um samþykki eigenda fjöleignar­hússins.

Þrátt fyrir að fallist sé á að sjónarmið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi við í málinu segi í 2. mgr. sömu lagagreinar að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár sé liðið frá þeim tímamörkum sem aðila hafi verið eða hafi mátt vera kunnugt um breytingu á þeim atvikum sem ákvörðun mæli með, nema veigamiklar ástæðu mæli með því sem og að samþykki gagnaðila í málinu liggi fyrir. Ljóst sé að ákvæðið geri ráð fyrir að tómlætissjónarmið geti leitt til þess að skylda stjórnvalds til að endurupptaka mál vari ekki í ótakmarkaðan tíma. Talið verður að meira en ár sé liðið frá því að kæranda hafi verið eða mátt vera kunnugt um atvik sem ákvörðun hafi byggt á.

Byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu til framkominnar kröfu um endurupptöku og metið svo að ekki væru til staðar nægjanlega veigamiklar ástæður sem mæltu með endurupptöku, m.t.t. almannahagsmuna eða fordæmisgildis ákvörðunarinnar enda snerti hún einungis „ósamræman­lega hagsmuni“ aðila þessa máls.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að gerð eigna­skiptayfirlýsingar, dags. 15. júlí 2022, hafi verið gerð í samstarfi og með samþykki fyrri eiganda þess eignarhluta sem nú sé í eigu kæranda. Eignaskiptayfirlýsingin sé í fullu samræmi við samþykkt deiliskipulag og nýtingu eignarinnar, en eldri eignaskiptayfirlýsing sem þinglýst sé á eignina, sé hins vegar ekki í samræmi við núverandi nýtingu eignarinnar.

Hinn 19. ágúst 2020 hefði fyrri eigandi gefið heimild fyrir því að notkun eignarhluta byggingar­leyfishafa yrði breytt úr atvinnuhúsnæði í íbúðir, en kærandi hefði keypt eignarhlutann ári síðar. Þá hefði fyrri eigandi undirritað samþykki hinn 10. maí 2021 fyrir útlitsbreytingu á annarri hæð. Í því hafi falist útlits- og notkunarbreyting, gerðar yrðu svalir á norður- og suðurhlið hússins sem tengdust fimm sjálfstæðum rýmum efri hæðar, hvert um sig á sjálfstæðum „skráningarnúmerum“.

Húsfundur hefði m.a. tekið málið upp á fundi sem haldinn var 3. júní 2021 og sé bókað í fundargerð að verið væri að breyta rými leyfishafa í fimm íbúðir og að samþykktir væru ýmist komnar í eða væru í ferli. Á aðalfundi húsfélagsins 18. maí 2022 hafi svo verið ákveðið að leyfishafi myndi láta vinna nýja eignaskiptayfirlýsingu vegna íbúðanna. Það hafi því verið gert, en kærandi hafi ekki fengist til að undirrita hana þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. febrúar 2024 að synja um endurupptöku þeirrar ákvörðunar að samþykkja byggingaráform vegna breytinga á annarri hæð fjöleignarhúss á lóð nr. 4 við Hraunberg. Hvorki samþykki hinna umdeildu byggingaráforma, dags. 9. nóvember 2021, né útgáfa byggingarleyfisins, dags. 30. ágúst 2022, voru á hinn bóginn kærð til úrskurðarnefndarinnar. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana sem teknar eru samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 er í 59. gr. laganna.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður af þeim sökum ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að byggingar­fulltrúa verði gert að endurupptaka eða afturkalla ákvörðun um samþykki byggingaráformanna og þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Stjórnvaldi kann að vera heimilt að fella ákvörðun sína úr gildi eða breyta henni, annað hvort að undangenginni endurupptöku málsins að uppfylltum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða á grundvelli annarra og eftir atvikum ólögfestra reglna, eða með því að afturkalla ákvörðunina samkvæmt 25. gr. sömu laga eða öðrum reglum, sé þeim til að dreifa. Almennt hefur verið litið svo á að synjun um endurupptöku sé stjórnvaldsákvörðun þar sem hún feli í sér bindandi niðurstöðu eða úrlausn um rétt eða skyldu borgaranna.

Af málsgögnum verður ráðið að samþykki byggingarfulltrúa á byggingaráformum þeim sem hér um ræðir hafi í raun verið fjórþætt. Þar var heimiluð breytt notkun á yfir helmingi annarrar hæðar í fjöleignarhúsi því sem hér um ræðir, þ.e. notkun var breytt úr atvinnuhúsnæði í íbúðarrými. Einnig var samþykkt að eignarhlutum hússins yrði fjölgað úr 14 í 15. Þá var veitt leyfi fyrir breytingum á innra og ytra byrði hússins, þ.m.t. með gerð svala og uppsetningu nýrra veggja. Loks var heimiluð stækkun séreignar á kostnað sameignar sumra, þ. á m. kæranda í máli þessu.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki skal umsókn um byggingarleyfi m.a. fylgja samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þessa var ekki gætt en við töku ákvörðunar byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma lá á hinn bóginn fyrir útskrift úr fundargerð húsfundar, dags. 16. september. Fundargerðin er ekki ársett, en af gögnum málsins má ráða að slíkur fundur var fyrirhugaður þann dag árið 2021. Hvað varðar umrædd byggingaráform segir í fundargerðinni: „Breyting útlits vegna svala á annarri hæð Teikning jón guðmundssonar vegna svala á annarri hæð lá fyrir og var hún samþykkt samhljóða“. Í fundargerðinni er bókað að mætt hafi verið f.h. tólf eignarhluta í húsinu, þ. á m. eignarhluta kæranda. Fram kemur að fulltrúi hans hafi yfirgefið fundinn áður en málið hafi komið til afgreiðslu. Fundargerðin er óundirrituð.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Í 3. mgr. lagagreinarinnar segir að sé um að ræða breytta hagnýtingu sem ekki sé veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meirihluta miðað við eignarhluta liggi fyrir. Þá er í 3. mgr. 21. gr. laganna kveðið á um að varanleg skipting séreignar í sjálfstæðar notkunareiningar, án þess að sala sé fyrirhuguð, sé háð samþykki allra eigenda og því að gerð sé ný eignaskiptayfirlýsing og henni þinglýst.

Í hinu útgefna byggingarleyfi, dags. 30. ágúst 2022, var tekið fram að það væri gefið út með því skilyrði að ný eignaskiptayfirlýsing væri samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfisins og henni yrði þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt. Má af þessu ráða að gert hafi verið ráð fyrir að slík yfirlýsing lægi þegar fyrir. Það fær stoð í því að skömmu eftir útgáfu leyfisins lagði leyfishafi fyrir byggingarfulltrúa nýja eignaskiptayfirlýsingu. Sú yfirlýsing var þó hvorki undirrituð af öllum eigendum hússins né hafði henni þá verið þinglýst. Verður hún því ekki talin gild, en hún var síðar afmáð úr þinglýsingarbókum að kröfu kæranda. Lá því ekki fyrir áskilið samþykki með­eiganda að fjöleignarhúsi samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 26/1994. Byggja kærendur kröfu sína um endurupptöku eða afturköllun greinds byggingar­leyfis á þeirri forsendu.

Stjórnvaldi getur verið skylt að endurupptaka mál á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga eða eftir atvikum á ólögfestum grundvelli hafi verulegum annmörkum verið til að dreifa við undirbúning ákvörðunar. Endurupptaka máls getur leitt til breytinga á fyrri ákvörðun eða eftir atvikum aftur­köllunar hennar í samræmi við 25. gr. stjórnsýslulaga, en á móti slíkri niðurstöðu geta mælt réttmætar væntingar leyfishafa. Eðli þeirrar ákvörðunar sem um er ræða kann að skipta máli, en á sviði skipulags- og byggingarmála eru réttarvörslusjónarmið oft af þýðingu sem og sjónar­mið um mikilvægi þess að komast hjá eyðileggingu verðmæta. Getur stjórnvaldi jafnframt verið rétt að gefa frest til úrbóta.

Með hliðsjón af framanröktu og að teknu tilliti til þess að borgaryfirvöld hafa einungis vísað til skilyrða 24. gr. stjórnsýslulaga og þá einkum 2. mgr. þeirrar greinar um tímafresti, verður að álíta rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að fella verði hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. febrúar 2024 um að hafna kröfu um að taka upp ákvörðun um samþykki byggingaráforma, dags. 9. nóvember 2021, vegna breytinga á annarri hæð fjöleignarhúss á lóð nr. 4 við Hraunberg.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2024 Hofgarðar

Með

Árið 2024, föstudaginn 3. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Melabraut 40, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 9. apríl 2024.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 17. apríl 2024.

Málavextir: Lóðin Hofgarðar 16 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Bollagarða og Hofgarða sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. október 2015. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar 13. apríl 2023 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða. Fólst breytingartillagan í því að hækka nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,41 í 0,48. Samþykkti nefndin að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 26. s.m. Á kynningartíma komu kærendur á framfæri mótmælum við breytingartillöguna. Skipulags- og umferðarnefnd tók hana fyrir að nýju á fundi 16. nóvember s.á. og bókaði að tekið yrði tillit til þeirra með því að leyfa einungis 0,46 nýtingarhlutfall í staðinn fyrir 0,48 sem kynnt hefði verið. Beindi nefndin því til skipulags­fulltrúa að ganga frá málinu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Samþykkti bæjarstjórn þessa afgreiðslu á fundi 7. febrúar 2024. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. febrúar s.á.

 Málsrök kærenda: Kærendur telja hina kærðu ákvörðun haldna efnisannmörkum auk þess sem hún brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Þá vísa þeir til grenndarsjónarmiða, en árið 2005 hafi þeir keypt fasteignina að Melabraut 40 með útsýni m.a. í átt að lóðinni Hofgarðar 16 og hafi útsýnið haft áhrif til hækkunar á verð fasteignarinnar. Við kaupin hafi þau verið meðvituð um að komið gæti til þess að byggt yrði á lóðinni að Hofgörðum 16, en talið víst að byggt yrði í samræmi við gildandi byggingarheimildir fyrir öll nærliggjandi hús, í samræmi við heildarásýnd hverfisins.

Árið 2015 hafi verið kynntar tillögur að deiliskipulagi fyrir Bollagarða og Hofgarða. Um lóðina að Hofgörðum 16 hafi komið fram að heimilt væri að reisa þar tvíbýlishús. Áform væru um að byggja þar hús fyrir fjóra fatlaða einstaklinga og vegna þess tæki byggingarmagn lóðarinnar mið af því sem mest gerðist á nálægum lóðum. Krafa yrði um að við hönnun yrði ásýnd og uppbrot húss með þeim hætti að ekki léki vafi á því að um einbýlishús væri að ræða.

Kærendur hafi komið að athugasemdum varðandi nýtingarhlutfall lóðarinnar þar sem heimilað hafi verið allt að 0,41 hlutfall og bent á að nýtingarhlutfall þeirrar einu lóðar á skipulagssvæðinu þar sem gert væri ráð fyrir tvíbýlishúsi væri 0,30. Skýrt væri að meðalnýting svæðisins væri á bilinu 0,20–0,30, eða allt að 0,35, sé um stækkun að ræða. Þá hafi þau einnig óskað svara við því hvort að nýtingarhlutfall lóðarinnar tæki mið af kjallara sem heimilt væri að byggja samkvæmt skipulaginu.

Í svari við athugasemdinni hafi verið vísað til þess að ákveða skyldi nýtingarhlutfall fyrir einstakar lóðir eða afmörkuð svæði eftir landfræðilegum aðstæðum og markmiðum skipulags, sbr. b-lið gr. 5.3.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Væri kjallarinn talinn með í tilgreindu hámarksnýtingarhlutfalli sem tæki mið af mögulegri notkun fasteignarinnar sem væri heimili fyrir fjóra fatlaða einstaklinga. Mismunandi byggingarmagn væri á einstökum lóðum í hverfinu. Byggðist ákvörðunin á mati skipulagshönnuða með hliðsjón af aðstæðum auk þess sem lóðin stæði sunnan götu og nokkur fjarlægð væri í næsta hús norðan við það.

Með tölvupósti skipulagsfulltrúa 6. september 2023 hafi kærendum verið sendar svonefndar tillöguteikningar sem sýni að fyrirhugað sé að byggja einbýlishús á lóðinni að Hofgörðum 16, en ekki sambýli sem hafi verið forsendan fyrir nýtingarhlutfallinu 0,41 í deiliskipulaginu. Kærendur hafi með bréfi, dags. 14. júní 2023, mótmælt tillögum þessum. Á fundi 21. september s.á. með skipulagsfulltrúa og fulltrúa lóðarhafa að Hofgörðum 16 hafi mótmælin verið ítrekuð.

Breytingartillagan hafi verið til umfjöllunar á fundi skipulags- og umferðarnefndar 16. nóvember 2023. Í fundargerð komi meðal annars fram að deiliskipulaginu sé breytt til að taka með B-rými inn í nýtingarhlutfall. Ekki sé verið að stækka „birt flatarmál hússins sem fyrirhugað er að komi á lóðina“. Þá hafi komið fram að nefndin hafi fullan skilning á því að óheppilegt sé að útsýni íbúa við Melabraut 40 skerðist, en það sé þó óhjákvæmilegt og í fullu samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sem hafi verið í fullu gildi þegar þeirra hús var byggt.

Þessi fullyrðing nefndarinnar sé röng. Hús kærenda hafi verið reist árið 1980 og þau keypt það árið 2005, en gildandi deiliskipulag sé frá árinu 2015. Þá fáist það ekki staðist að skerðing á útsýni sé í fullu samræmi við gildandi skipulagsáætlanir. Slíkt geti ekki falið í sér ótakmarkaða heimild til slíkrar skerðingar án þess að lagt sé mat á hina auknu skerðingu. Kærendur kannist ekki við að til staðar sé eitthvert „birt flatarmál“ húss sem fyrirhugað sé að komi á lóðina, enda ekkert getið um slíkt í tillögum að breytingum á skipulagsuppdráttum. Lóðarhafar að Hofgörðum 16 séu ekki að sækja um byggingarleyfi heldur breytingu á skipulagi. Hafi flatarmál hússins með einhverjum hætti verið „birt“ þá sé það væntanlega í andstöðu við gildandi skipulag, enda þyrfti þá væntanlega ekki aukið nýtingarhlutfall. Nýtingarhlutfall miði auk þess við brúttóflatarmál, en ekki birt flatarmál. Svokölluð B-rými eigi að auki að reikna inn í nýtingarhlutfall og brúttóflatarmál. Hvernig sem á málið sé litið sé með breytingunni verið að auka byggingarmagn á lóðinni og þar með rúmmál húss og grenndaráhrif. Bendi þessi rök bæjarins til þess að nýtingarhlutfall taki aðeins til A-rýma og að alltaf sé hægt að fá aukið nýtingarhlutfall vegna B-rýma. Slíkt geti ekki staðist.

 Ef fallist yrði á að veita lóðarhöfum enn meira byggingarmagn til að byggja einbýlishús þrátt fyrir framangreindar forsendur deiliskipulagsins væri verið að setja fordæmi fyrir því að aðili geti aflað sér hærra nýtingarhlutfalls með því að segja að áform séu um að byggja heimili fyrir fatlaða einstaklinga, en ákveða síðan að nota byggingarmagnið í að byggja einbýli.

 Það samræmist engan veginn jafnræði að einn lóðareigandi fái svo mikið nýtingarhlutfall. Augljóst sé að ef það stæði öllum öðrum lóðareigendum á svæðinu til boða að fá nýtingar­hlutfall lóðar sinnar hækkað upp í 0,46 gæti það ekki gengið. Þótt heimildir séu í lögum til breytinga á skipulagi eigi hagsmunaaðilar rétt á að búa við stöðugleika í skipulagsmálum. Ef svo væri ekki væri óþarft að vinna skipulagsáætlanir þ.e. ef við það væri miðað að hægt væri að breyta þeim eftir hugmyndum og höfði hvers og eins. Meginregla skipulagslaga nr. 123/2010, sem m.a. komi fram í 12. gr. laganna, um skipulagsskyldu væri þá líka marklaus. Um þetta hafi meðal annars verið fjallað í úrskurðum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 12/2004 og nr. 31/2007, ásamt álitum umboðsmanns Alþingis nr. SUA 727/1992 og SUA 2421/1998.

 Með vísan til framangreinds telji kærendur að ólögmætt sé að breyta skipulagi á þann veg sem hér sé gerð tillaga um enda engar málefnalegar og lögmætar forsendur fyrir breytingunni. Veigamiklar ástæður þurfi til að breyta tiltölulega nýlegu skipulagi í hverfi sem þegar hafi verið byggt upp á forsendum gildandi skipulags. Hvergi sé í skipulagsgögnum gerð grein fyrir þörfinni eða forsendum fyrir breytingunni.

 Þá hafi lóðareigendur fengið í gegn breytingu á deiliskipulaginu á árinu 2022 sem geri þeim kleift að stækka efri hæð hússins, en kærendur hafi látið það óátalið þar sem byggingarreitur lóðarinnar var færður 0,5 m fjær þeim. Nú eigi enn á ný að veita lóðareigendum aukið byggingarmagn til tjóns fyrir kærendur. Það hljóti að vera einsdæmi að einn og sami lóðarhafinn fái þrisvar í gegn breytingar á deiliskipulagi sem komi niður á hagsmunum eiganda að aðliggjandi lóð með tilheyrandi aukningu á skertu útsýni, aukinni innsýn o.s.frv. Verði framangreint vinnulag talið heimilt þ.e. að heimila breytingar á skipulagi vegna sértækra einstaklingshagsmuna, án nokkurra almannahagsmuna, og með því raska hagsmunum annarra og valda þeim tjóni, sé í raun búið að aftengja meginregluna um skipulagsskyldu.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Eins og fram komi í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 16. nóvember 2023 hafi deiliskipulagi verið breytt til að taka með B-rými inn í nýtingarhlutfall. Ekki sé verið að stækka birt flatarmál hússins sem fyrirhugað sé að verði reist á lóðinni. B-rými séu ekki hluti af brúttóflatarmáli hússins sem verði óbreytt þrátt fyrir breytinguna. Tekið hafi verið tillit til mótmæla kærenda með því að leyfa aðeins 0,46 í nýtingu á lóðinni í stað 0,48.

Um nýtingarhlutfall sé meðal annars vísað til b-liðar gr. 5.3.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Við ákvörðun um hækkun nýtingarhlutfallsins um 0,05 hafi meðal annars verið tekið mið af landfræðilegum aðstæðum lóðarinnar og skipulagi hverfisins í heild. Nýtingarhlutfallið og fyrirliggjandi drög að hönnun hússins samrýmist kröfum gildandi deiliskipulags. í því sambandi sé tekið fram að mismunandi byggingarmagn sé á mismunandi lóðum á svæðinu.

Við ákvörðun um hækkun nýtingarhlutfalls um 0,05 hafi því verið tekið fullnægjandi tillit til aðstæðna þar sem meðal annars hafi verið tekið tillit til þess að lóðin Hofgarðar 16 standi sunnan götu og fjarlægð í næsta hús norðan við lóðina sé þónokkur. Til viðbótar hafi verið horft til þess að lóðin standi við opið svæði og að ekki sé verið að hækka hámarkshæð fasteignarinnar. Sé því ekki verið að stækka sjálfan byggingarreitinn og hafi breytingin því engin raunveruleg áhrif á útsýni kærenda.

Hafnað sé fullyrðingum kærenda um að þar sem gildandi deiliskipulag sé frá árinu 2015 sé forsendan um gildandi skipulagsáætlanir röng því ekki hafi verið metin áhrif breytinganna á útsýni þeirra. Orðalag fundargerðar sem kærendur vísi til sé eftir atvikum ruglingsleg, en með málsgreininni sé ljóslega verið að vísa til þess að samþykkt breytingarinnar um hækkun hámarksnýtingarhlutfalls um 0,05 feli ekki í sér nýjar eða verulegar meiri skerðingar en samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Þá sé því hafnað að það hafi verið ófrávíkjanleg forsenda ákvörðunar um hámarksnýtingar-hlutfall á lóðinni á sínum tíma að þar yrði byggt heimili fyrir fjóra fatlaða einstaklinga. Það hafi að minnsta kosti ekki verið forsenda þeirrar ákvörðunar sem deilt sé um í máli þessu og verði því ekki séð að það geti haft áhrif á þá ákvörðun sem um sé deilt.

Margar fasteignir á svæðinu séu með sambærilegt eða hærra nýtingarhlutfall og/eða byggingar-magn. Þannig séu nokkrar fasteignir á svæðinu með hámarksnýtingarhlutfall á bilinu 0,46 til 0,50 og margar með nýtingarhlutfallið 0,45. Hækkun hámarksnýtingarhlutfalls um 0,05 geti aldrei talist raska stöðugleika í skipulagsmálum. Víki ákvörðunin því ekki frá byggðamynstri hverfisins, fyrirliggjandi byggingarheimildum eða heildarásýnd hverfisins.

 Málsrök leyfishafa: Eigendur lóðarinnar Hofgarða 16 telja kæru þessa byggða á misskilningi.

Hið breytta nýtingarhlutfall sé ekki einsdæmi. Á deiliskipulagssvæðinu Bollagarðar/Hofgarðar, sem eru samsíða götur, sé fjöldi lóða með hærra nýtingarhlutfall en gert sé ráð fyrir á lóð þeirra. Teljist þeim til að 11 lóðir séu með hámarksnýtingarhlutfallið 0,5, ein með 0,49 og 20 lóðir með nýtingarhlutfallið 0,47. Þá valdi deiliskipulagsbreytingin hvorki kærendum né öðrum nágrönnum tjóni þar sem hvorki sé um frekari skerðingu á útsýni að ræða né aukna innsýn.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða. Deiliskipulag fyrir Bollagarða og Hofgarða var fyrst samþykkt 17. september 2015, en áður hefur verið gerð sérstök deiliskipulagsbreyting vegna greindrar lóðar, sem samþykkt var árið 2022. Kærendur njóta kæruaðildar að máli þessu vegna grenndar-hagsmuna.

 Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt Aðalskipulagi Seltjarnesbæjar 2015–2033 tilheyrir lóðin nr. 16 við Hofgarða svæði ÍB-6. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að svæðið einkennist af fastmótaðri byggð rað- og einbýlishúsa. Tvö skilgreind leiksvæði séu á svæðinu, annars vegar sparkvöllur við Lindar­braut og hins vegar leiksvæði við Hofgarða. Nýtingarhlutfall samkvæmt töflu sé frá 0,3–0,5, en hámarksnýtingarhlutfall ofanjarðar samkvæmt deiliskipulagi. Nýtingarhlutfallið í töflu nái aðeins til byggingarhluta ofanjarðar.

Þá segir að eldri hverfi Seltjarnarness séu að stærstum hluta fullmótuð og fullbyggð. Á gildis­tíma síðasta aðalskipulags hafi verið unnar deiliskipulagsáætlanir fyrir stóran hluta íbúðar­svæðanna og séu margar þeirra þegar samþykktar en vinnsla annarra sé í ferli. Samkvæmt þessum áætlunum sé ekki gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á yfirbragði íbúðarhverfanna á skipulagstímabilinu heldur að fyrirhuguð uppbygging taki mið af þeirri byggð sem fyrir sé. Skilgreint sé hámarksnýtingarhlutfall fyrir einstök svæði eða lóðir þannig að heildarmynd svæða haldist. Í deiliskipulagsáætlunum komi einnig fram leyfileg þétting byggðar á einstökum lóðum innan eldri hverfa samkvæmt samantekt í töflu.

Þá kemur fram að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum á yfirbragði og byggðamynstri þeirra íbúðarsvæða sem þegar séu byggð, svo sem meginlínum í hæð húsa og þéttleika byggðar. Allar breytingar er varði viðhald húsa og lóða skuli unnar af metnaði með það að leiðarljósi að bæta umhverfi og yfirbragð byggðar. Að öðru leyti sé vísað til gildandi deiliskipulagsáætlana.

Samkvæmt deiliskipulagi fyrir lóðina Hofgarða 16 frá árinu 2022 er lóðin 832 m2. Þar er heimilað að byggja hús sem verði á tveimur hæðum að hluta. Efri hæð skuli ekki vera meira en 40% af flatarmáli neðri hæðar. Hámarksbyggingarmagn sé 341 m2. Eðli máls samkvæmt mun slíkt mannvirki hafa allnokkur grenndaráhrif gagnvart fasteign kærenda í ljósi stærðar sinnar og legu við mörk lóðar kærenda. Fram hefur komið af hálfu Seltjarnarnessbæjar að hin kærða breyting á deiliskipulagi lóðarinnar sé gerð í því skyni að laga heimilað byggingarmagn að því húsi sem þegar hafi verið kynnt að ráðgert yrði að reisa á lóðinni árið 2022. Þá séu margar fasteignir á svæðinu með sambærilegt eða hærra nýtingarhlutfall og/eða byggingarmagn, þar af nokkrar með nýtingarhlutfall á bilinu 0,46 til 0,50 og margar með nýtingarhlutfallið 0,45.

Hin kærða breyting á deiliskipulagi Hofgarða 16 var grenndarkynnt sem óveruleg breyting, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, í samræmi við 2. mgr. 44. gr. laganna með lögboðnum fjögurra vikna athugasemdafresti. Komu kærendur að athugasemdum sínum við tillöguna innan þess frests. Skipulags- og umferðarnefnd tók tillöguna fyrir að nýju á fundi 16. nóvember 2023 þar sem bókað var að tekið yrði tillit til mótmælanna með því að leyfa einungis hæsta nýtingarhlutfall 0,46 í staðinn fyrir hlutfallið 0,48 sem kynnt hefði verið. Að lokum samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar á 979. fundi sínum 7. febrúar 2024 óverulega breytingu á deiliskipulaginu sem staðfest var af Skipulagsstofnun 17. september 2015. Var þessi málsmeðferð lögum samkvæmt enda skipulagsbreytingin þess eðlis að fara mátti með hana sem óverulega breytingu á deiliskipulagi.

Þar sem ekki liggja fyrir neinir annmarkar sem raskað gætu gildi hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki fallist á ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða á vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða.

19/2024 Austurvegur

Með

Árið 2024, mánudaginn 22. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, fyrir:

Mál nr. 19/2024, kæra á málsmeðferð Sveitarfélagsins Árborgar við gerð og undirbúning deiliskipulags fyrir skipulagssvæðið Austurvegur-Vallholt á Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húsnæðis og lóðarinnar að Austurvegi 42 „málsmeðferð og afgreiðslu sveitarfélagsins Árborgar á stækkun bakhúss Austurvegar 42, Selfossi, til vesturs og þá yfir bílastæðasvæði sem ekkert er notað.“ Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að málsmeðferð sveitarfélagsins hvað greinda afgreiðslu varðar verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 22. mars 2024.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. september 2021 voru kynnt drög að tillögu að deiliskipulagi fyrir skipulagssvæðið Austurvegur-Vallholt, er m.a. tók til stækkunar byggingarreits við hús kæranda, Austurveg 42. Í janúar 2022 var tillagan kynnt fyrir fasteignaeigendum á svæðinu og bárust athugasemdir við tillöguna sem nefndin fól skipulagsfulltrúa að bregðast við. Kynntar voru breytingar á tillögunni á fundi nefndarinnar 12. október 2022. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26 s.m. var fyrirliggjandi tillaga samþykkt og mælst til þess að hún yrði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga og send hagsmunaaðilum á svæðinu. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 2. nóvember s.á. Málið var til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar 22. febrúar 2023 og á fundi nefndarinnar 22. mars s.á. voru svör við athugasemdum samþykkt. Við það tilefni var fært til bókar að í ljósi vægis athugasemda væri ekki grundvöllur fyrir stækkun á byggingarreit til vesturs á lóðinni nr. 42 við Austurveg og deiliskipulagstillögunni yrði breytt til samræmis við það. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 22. mars 2023 á fundi 13. apríl s.á. og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með bréfi, dags. 25. s.m.

Kærandi hefur óskað eftir skýringum hjá bæjaryfirvöldum um hvað felist í hugtakinu „vægi“ sem vísað hafi verið til í fundargerð skipulagsnefndar. Með tölvupósti skipulagsfulltrúa til kæranda frá 7. júlí 2023 var hann upplýstur um að það væri mat skipulagsnefndar að breikkun hússins nr. 42 við Austurveg myndi þrengja verulega að lóðarmörkum til vesturs og afar þröngt yrði að koma bílaumferð þar í gegn. Þá var um leið brugðist við athugasemdum kæranda um að ráðgjafarstofa landslagsarkitekta sem undirbúið hafi skipulagið hafi verið vanhæf, en ekkert benti til þess að tiltekinn starfsmaður hennar hefði aðstoðað við eða skrifað andmælabréf vegna tillögunnar. Frá þessum tíma hefur kærandi verið í reglulegum samskiptum við skipulagsfulltrúa Árborgar og ítrekað þar sjónarmið sín og beiðni um að málið komi að nýju til umfjöllunar hjá skipulagsnefnd sveitarfélagsins eða verði vísað til bæjarráðs.

Málsrök kæranda: Kærandi hafnar sjónarmiðum skipulagsnefndar, en bílastæði þau sem hafnað sé að byggja á séu svo til aldrei notuð og því geti ekki verið mikil bílaumferð fyrir vestan húsið á Austurvegi 42. Aðalþrengingin sé við vesturhlið framhússins þar sem það sé um 4.5 m fjarlægð í lóðamörkin á um 8 m kafla. Ef bakhúsið yrði breikkað um 6.5–7.0 m til vesturs og þá yfir bílastæðin yrði fjarlægðin frá nýbyggingu út í lóðamörk um 6.0 – 7.0 m, sem myndi eftir sem áður leyfa tvær akstursgreinar. Flöskuhálsinn yrði áfram um 4.5 m breiður kafli við framhúsið sem nýbyggingin myndi ekki hafa nein áhrif á.

Í kæru er staðhæft að líklegt sé að einn starfsmaður ráðgjafarstofu þeirrar sem unnið hafi að gerð deiliskipulagsins hafi skrifað andmæli gegn stækkun hússins að Austurvegi 42. Andmælin, sem greinilega séu skrifuð af fagaðila, hafi verið óundirrituð, en nöfn hjóna sem séu tengdaforeldrar téðs manns hafi verið prentuð undir bréfið. Hljóti ráðgjafarstofan að vera vanhæf til að koma að gerð deiliskipulagsins hafi starfmaður þess skrifað og sent inn andmælin. Meta þurfi lögmæti þess að athugasemdirnar hafi verið teknar til greina og samþykktar. Jafnframt þurfi að endurskoða synjun skipulagsnefndar en rök hennar standist enga skoðun. Einnig sé spurt hvort hægt sé að fá það staðfest hver hafi sent inn andmælin og hvort það sé lögmætt að neita að leggja erindi er varði niðurstöðu skipulagsnefndar fyrir hana.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er talið að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir því að ágreiningi verði skotið til úrskurðarnefndarinnar, þar sem engin ákvörðun hafi verið tekin sem leiði mál til lykta. Sé greint deiliskipulag enn til vinnslu hjá skipulagsfulltrúa eins og gögn málsins beri með sér og beri því að vísa málinu frá nefndinni. Til vara sé þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Bókun skipulagsnefndar á fundi 22. mars 2023 hafi varðað tillögur nefndarinnar um áframhaldandi vinnu við skipulagið. Ekki hafi enn verið tekin formleg ákvörðun um endanlega útfærslu byggingarreita. Öllum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt við meðferð málsins. Hugsanlegar nýjar athugasemdir kæranda verði teknar til skoðunar og afgreiddar með formlegum hætti þegar deiliskipulagstillagan verði auglýst á ný.

Þá hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að starfsmenn þeirrar ráðgjafarstofu sem unnið hafi að gerð deiliskipulagsins séu vanhæfir. Skipulagsfulltrúi hafi kannað málið og enginn rökstuddur grunur sé um að svo sé, en aðili sá er kærandi vísi til sé ekki lengur starfsmaður fyrirtækisins. Athugasemdum viðkomandi aðila hafi verið skilað inn með tölvupósti og sé það viðtekið verklag í deiliskipulagsmálum hjá sveitarfélaginu. Ekki séu gerðar kröfur um að athugasemdir er fram komi við gerð deiliskipulags séu undirritaðar til að þær teljist gildar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Höfnun skipulagsnefndar á stækkun hússins að Austurveg 42 hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 25. apríl 2023. Með því hafi skipulagsnefnd fyrir hönd sveitarfélagsins tekið ákveðna stjórnvaldsákvörðun. Þá sé það annmarki við gerð deiliskipulagsins að ekki komi fram allar upplýsingar á auglýstri tillögu sem væntanlega gætu skipt sköpum fyrir ákvörðun skipulagsnefndar um væntanlega nýbyggingu. Athugasemdir kæranda varðandi afgreiðslu nefndarinnar á stækkun hússins hafi aldrei verið lagðar fyrir hana. Ekkert komi fram í greinargerð sveitarfélagsins sem afsaki eða réttlæti slíka málsmeðferð. Þá hafi ekkert komið fram um að skipulagsnefnd hafi afturkallað greinda ákvörðun. Ekki sé um nýjar athugasemdir að ræða heldur útskýringar sem leggja þurfi fyrir skipulagsnefnd þar sem útskýrt sé hvers vegna niðurstaða nefndarinnar varðandi höfnunina hafi byggt á röngum og ófullnægjandi upplýsingum.

 Þá bendi kærandi á að samkvæmt vefsíðu ráðgjafarstofunnar er komið hafi að gerð umrædds deiliskipulags starfi umræddur einstaklingur enn hjá henni.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður þó ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt upplýsingum frá Sveitarfélaginu Árborg var hin kærða synjun skipulagsnefndar sveitarfélagsins um stækkun byggingarreits hússins að Austurvegi 42 þáttur í undirbúningi deiliskipulags, sem er enn til vinnslu. Verður að líta svo á að með þessu hafi afgreiðslan verið liður í málsmeðferð en ekki falið í sér ákvörðun um rétt eða skyldu sem borin verði undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðun um samþykkt deiliskipulags tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður ákvörðuninni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagið og öll málsmeðferð þess lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

18/2024 Hafnargata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2024, kæra á ákvörðun Sveitarfélagsins Voga frá 29. janúar 2024, um álagningu gjalds vegna sorptunna fyrir fasteignina Hafnargötu 1, Vogum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 19. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun Sveitarfélagsins Voga frá 29. janúar 2024 um álagningu gjalds vegna sorptunna fyrir fasteignina Hafnargötu 1, Vogum. Er þess krafist að gjaldið verði fellt niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 4. mars 2024.

Málavextir: Með álagningarseðli fasteignagjalda fyrir árið 2024, sem barst kæranda 29. janúar 2024, voru lögð á hann gjöld vegna sorphirðu við hús hans, Hafnargötu 1, Vogum. Skiptust þau þannig að vegna 240 lítra tvískiptrar tunnu fyrir almennt/lífrænt sorp var gjaldið kr. 34.000, vegna 240 lítra tunnu fyrir plast kr. 8.500 og vegna 240 lítra tunnu fyrir pappír kr. 8.500. Samanlagt nam fjárhæð gjaldanna kr. 51.000.

 Málsrök kæranda: Í kæru er rakið að kærandi hafi fest kaup á húsi sínu í Vogum árið 2018 og hafi hann um leið afþakkað sorptunnur. Næstu fjögur ár hafi ekki verið lagt gjald á hann vegna sorphirðu og hafi kærandi aðeins greitt sorpeyðingargjald. Sumarið 2023 hafi verið komið á nýju flokkunarkerfi á Suðurnesjum og hafi Sveitarfélagið Vogar dreift tunnum til heimila þar sem verið hafi þrír eða fleiri íbúar. Hann hafi afþakkað að veita þeim móttöku og fengið seinna að vita að hann ætti ekki rétt á þeim þar sem hann væri einn í heimili. Hann sé ósáttur við að vera látinn greiða fyrir þrjár tunnur sem hann hafi aldrei fengið og þurfi ekki á að halda. Hann kjósi að flokka allt sorp sjálfur og losa það í grenndargáma eða fara með það til söfnunarstöðva sem standi íbúum til boða.

Málsrök Sveitarfélagsins Vogar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Ákvörðun um innheimtu sorpgjalda fyrir söfnun og meðhöndlun úrgangs byggi á skýrum fyrirmælum laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt lögunum fari sveitarfélög með ákvörðunarvald um fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi og sé þeim það skylt skv. 1. mgr. 8. gr. laganna. Sé sorpgjald lagt á hverja íbúð og innheimt með fasteignagjöldum. Sé gjaldið byggt upp þannig að greiddur sé raunkostnaður fyrir þjónustuna í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laganna. Öll heimili í sveitarfélaginu hafi fengið afhentar þrjár flokkunartunnur, óháð fjölda íbúa á heimili, enda skylt að flokka pappa, plast og lífúrgang. Kæranda hafi verið tjáð þetta bæði munnlega og í tölvupósti og sé hafnað staðhæfingu um að hann hafi ekki átt rétt á tunnum.

Sveitarfélagið Vogar sé aðili að sameignarfélagi sveitarfélaga um rekstur móttöku-, flokkunar- og sorpbrennslustöðvarinnar Kölku í Helguvík sem framkvæmi sorphirðu og meðhöndlun úrgangs. Við undirbúning nýrrar gjaldskrár um sorphirðu í sveitarfélaginu nr. 1633/2023 hafi verið tryggt að hún mundi endurspegla raunkostnað við veitta þjónustu. Þá hafi verið gerð breyting á gjaldskránni, samþykkt í bæjarstjórn 31. janúar 2024, sem hafi komið til vegna nýrra upplýsinga. Fyrsti gjalddagi fasteignagjalda árið 2024 hjá sveitarfélaginu, og þar með sorphirðugjalda, hafi verið 1. febrúar sl. og hafi álagning miðað við uppfærða gjaldskrá.

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning sorpgjalds fyrir árið 2024 hvað varðar þrjár sorptunnur vegna fasteignar hans að Hafnargötu 1, Vogum.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi, ásamt því að hún ber ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar setur sveitarstjórn sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þar er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 55/2003 er kveðið á um að koma skuli upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi. Sérstök söfnun skuli vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Heimajarðgerð sé þó heimil sem og söfnun lífúrgangs með öðrum úrgangi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skuli sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnunin skuli fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila. Skuli sveitarfélög útfæra nánara fyrirkomulag söfnunar í samþykkt um meðhöndlun úrgangs. Einstaklingum og lögaðilum er skylt að flokka heimilisúrgang í samræmi við þessi fyrirmæli, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Þessu til viðbótar segir í 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi heimilisúrgangs frá öllum heimilum og lögaðilum. Auk þess skuli fasteignareigandi sjá til þess að fasteign hans fylgi nægilega mörg sorpílát og að þau séu endurnýjuð eftir þörfum, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar.

Þessi fyrirmæli taka mið af því að meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki og að sama skapi er íbúum ekki í sjálfsvald sett hvort að þeir nýta sér þjónustuna eða ekki. Hvað varðar Sveitarfélagið Voga er í gildi samþykkt nr. 426/2005 um meðhöndlun úrgangs á Suðurnesjum. Í 3. gr. hennar er fjallað um söfnun á heimilisúrgangi og kemur þar fram að sorp skuli hirt með reglulegum hætti frá íbúðarhúsum. Tekið er fram að stjórn Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. ákveði hvaða ílát og hvaða aðferðir skuli nota til sorpsöfnunar og sorphirðu. Eigendum og umráðamönnum íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum sé skylt að nota þau ílát og þær aðferðir við sorpsöfnun sem stjórnin ákveði en Sorpeyðingarstöðin leggi íbúum til viðeigandi sorpílát, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar. Þessi fyrirmæli verður að túlka með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 55/2003 og verður að álíta að kæranda sé skylt að greiða fyrir þá þjónustu við sorphirðu sem honum stendur til boða eins og öðrum íbúum í sveitarfélaginu.

Samkvæmt 2. mgr. 23. laga nr. 55/2003, sbr. lög nr. 103/2021, skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Tekið er fram að skylt sé að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Þó er heimilt að færa innheimtu gjalda að nokkru á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að markmiðum laganna auk þess að heimilað er að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélags. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar skal birta slíka gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Sveitarfélaginu Vogum nr. 1633/2023 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. janúar 2024. Hinn 31. s.m. samþykkti bæjarstjórn breytingu á gjaldskránni og tók sú breyting gildi með auglýsingu nr. 382/2024 sem birt var í B-deild 27. febrúar s.á. Hin kærða álagning er dags. 29. janúar s.á., en þrátt fyrir það tók álagningin mið af gjaldskránni eins og hún var eftir breytinguna sem tók gildi 27. febrúar s.á. Með hliðsjón af því að öll gjöld lækkuðu við þá breytingu verður sá annmarki ekki talinn varða gildi hennar. Í 3. gr. gjaldskrárinnar er mælt fyrir um að sorpgjald fari eftir rúmmáli þeirra sorpíláta sem eru við heimili og var álagning á kæranda samkvæmt gjaldskránni og þeirri þjónustu sem honum stóð til boða. Fjallað er um breytingar á tunnufjölda í sömu grein og er kveðið á um að breytt innheimta geti komið til vegna breytinga á fjölda þeirra, en það eigi þó aðeins við um þau heimili sem séu með tunnur umfram það sem lög segi til um. Samkvæmt 4. gr. gjaldskrárinnar er fast gjald á hverja íbúðareiningu kr. 18.000 til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins við meðhöndlun úrgangs.

Þegar um svokölluð þjónustugjöld er að ræða gilda ýmis sjónarmið um álagningu þeirra, m.a. að beint samhengi sé á milli fjárhæðar gjaldsins og þess kostnaðar sem til fellur við það að veita þjónustuna. Fjárhæðin verður einnig að byggjast á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald.

Við meðferð þessa máls óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu um útreikninga sorphirðugjalds þess. Fram kom að útreikningarnir byggi á áætluðum raunkostnaði við hlutdeild í rekstri móttöku-, flokkunar- og sorpbrennslustöðvarinnar Kölku, sem deilt sé niður á þjónustunotendur að teknu tilliti til áætlaðs endurgjalds frá Úrvinnslusjóði.  Ákvörðun sorpgjalda og þar með endanleg tekjuáætlun málaflokksins byggist á niðurstöðum þessa. Framlögð gögn bera með sér að kostnaður sveitarfélagsins vegna sorphirðu á árinu 2024 sé áætlaður rúmlega kr. 40.000.000, en innheimtar verði kr. 39.542.703. Er það í samræmi við áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um að álögð gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður sem falli til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna. Föst gjöld eru áætluð kr. 12.042.000 og því ekki umfram 50% af heildarkostnaði sveitarfélagsins, sbr. III. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 55/2003. Þá verður að telja að kostnaðarliðir að baki hinna umdeildu sorphirðugjalda falli undir þá þætti sem sveitarfélögum er skylt að innheimta gjald fyrir á grundvelli 2. mgr. 23. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 10. gr. Verður að þessu virtu ekki annað ráðið en að útreikningur hins kærða gjalds hafi byggst á skynsamlegri áætlun. Telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald samkvæmt áður tilvitnuðum ákvæðum 23. gr. laga nr. 55/2003.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Sveitarfélagsins Voga frá 29. janúar 2024, um álagningu gjalds vegna sorptunna fyrir fasteignina Hafnargötu 1, Vogum.

111/2023 Hafnargata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Búðavegi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september s.á. um að samþykkja byggingarleyfisumsókn eiganda fiskiðjuvers á Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði, við mörk þeirrar lóðar gegnt lóð kærenda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og vísað til efnislegrar meðferðar hjá byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun yfirvofandi framkvæmda, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 28. september 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 27. september 2023.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Á lóð Hafnargötu 36 á Fáskrúðsfirði er starfrækt fiskiðjuver Loðnuvinnslunnar hf. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 7. júní 2021 var lögð fram umsókn um leyfi til að reisa tvær viðbyggingar við iðjuverið að flatarmáli 147,5 m2 og 652,7 m2 í kverk austan frystitækjasalar og norðan við pökkunarsal og starfsmanna­aðstöðu. Kom þar fram að bæta ætti við eimsvala norðan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá kælibúnaði til að uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í samræmi við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Að lokinni grenndarkynningu var byggingar­leyfisumsóknin samþykkt á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 22. júlí 2021 og staðfest í bæjarráði 23. s.m. Við þá afgreiðslu kom fram að hávaði við fasteign kærenda yrði mældur að framkvæmdum loknum til að sannreyna útreikninga um að hljóðstig yrði með fram­kvæmdunum innan tilskilinna marka.

Framangreind ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði uppkveðnum 11. febrúar 2022 í máli nr. 138/2021 hafnaði ógildingu hennar, m.a. þar sem útreikningar á hljóðvist bentu til þess að þegar framkvæmdir yrðu afstaðnar mundi hávaði frá starfseminni ekki fara yfir þau mörk við fasteign kæranda sem tilgreind væru í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Kærendum var jafnframt bent á að leiddi hin kærða framkvæmd til hávaða umfram leyfileg mörk gætu kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar, sem færi með eftirlit samkvæmt reglugerðinni.

Á fundi Heilbrigðisnefndar Austurlands 19. janúar 2023 var bókað að hávaði mældist yfir viðmiðunarmörkum að næturlagi og var óskað eftir tímasettri úrbótaáætlun frá Loðnu­vinnslunni vegna þessa. Var sú áætlun samþykkt á fundi framkvæmdaráðs Heilbrigðiseftirlits Austurlands 10. febrúar s.á. og afgreiðslan staðfest á fundi heilbrigðisnefndar 16. mars s.á. Með bréfi kærenda, dags. 5. júlí s.á., var farið fram á að eftirlitið gripi strax til aðgerða gegn ólögmætri hávaðamengun sem hlytist af starfsemi Loðnuvinnslunnar. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins svaraði kærendum með bréfi, dags. 20. s.m., þar sem fram kom að unnið væri eftir samþykktri úrbótaáætlun og því væru ekki forsendur til að grípa til frekari aðgerða að svo stöddu. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum 19. október 2023 í máli nr. 104/2023 vísaði málinu frá þar sem það væri í höndum heilbrigðis­nefndar, en ekki framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins að taka ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða.

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar 7. mars 2023 samþykkti nefndin umsókn leyfishafa um byggingaráform og byggingarleyfi við Hafnargötu 36 vegna hljóðmanar við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Fól nefndin byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi er öllum tilskildum gögnum hefði verið skilað. Á fundi nefndarinnar 18. apríl s.á. fól nefndin skipulags- og umhverfisfulltrúa að fella byggingarleyfið úr gildi og grenndarkynna umsóknina. Sú grenndarkynning fór fram dagana 28. apríl til 26. maí s.á. og bárust þá athugasemdir frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið á dagskrá nefndarinnar á fundi 30. maí s.á. og var afgreiðslu þess frestað. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 13. júní 2023 var byggingarfulltrúa síðan falið að kalla eftir nánari hönnunar­gögnum sem sneru að mótvægisaðgerðum varðandi hljóðvist við Hafnargötu 36.

Í framhaldi þessa barst Fjarðabyggð minnisblað frá verkfræðistofu, dags. 21. júní 2023, þar sem fram kom m.a. að með hljóðvegg mætti gera ráð fyrir að hljóðstig lækkaði um 7-9 dB framan við Búðarveg 24 í tveggja metra hæð yfir landi og með honum drægi einnig úr umhverfishávaða. Enn var málið tekið fyrir á fundi 27. s.m. og var þar fjallað um minnisblað verkfræðistofunnar. Var málinu frestað en á fundi nefndarinnar 15. ágúst s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og byggingarfulltrúa falið að svara athugasemd kærenda sem barst við grenndarkynningu og leggja fyrir á næsta fundi. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 29. ágúst 2023 var umsóknin síðan samþykkt og var tekið fram að hún næði til þess að reisa hljóðmön á lóðarmörkum Hafnargötu 36 er hefði þann tilgang að draga úr hljóðmengun frá fiskvinnslu. Hinn 5. september s.á. gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að hin umdeilda framkvæmd hafi átt að fara í deiliskipulagsferli en ekki eingöngu grenndarkynningu. Vísað sé til 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem fram komi að byggingarleyfi sem séu ekki í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar skuli fara í deiliskipulagsferli og að ekki nægi að grenndarkynna slíkar framkvæmdir.

Framkvæmdir varði byggingu á risastórum hljóðvegg sem sé staðsettur nokkrum metrum frá útidyrum kærenda. Um sé að ræða breytingu á byggðamynstri og þeim viðmiðum sem gerist og gangi í þéttbýli á Fáskrúðsfirði, sem og annars staðar. Kærendum sé ekki kunnugt um að slík mannvirki séu sett upp vegna brota á reglugerð um hávaða í andstöðu við vilja þess sem brotið sé gegn án þess að deiliskipulagi sé breytt. Hljóðveggur sá sem um ræði myndi ekki einungis breyta útsýni og nýtingu á eign kærenda heldur myndi hann, ásamt því fordæmi sem hlytist af byggingu hans, breyta grundvallarbyggðarmynstri Fáskrúðsfjarðar á þeim stöðum þar sem íbúðarhúsnæði sé nálægt atvinnustarfsemi.

Málsrök Fjarðabyggðar: Af hálfu Fjarðabyggðar er bent á að málsmeðferð sveitarfélagsins hvíli á 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu hafi verið farið yfir innkomnar athugasemdir og afstaða tekin til byggingarleyfisumsóknar. Umhverfis- og skipulagsnefnd hafi tekið ákvörðun um að samþykkja byggingaráform og falið byggingar­fulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar öllum tilskildum gögnum hefði verið skilað. Ekki sé fallist á að um risastóran hljóðvegg sé að ræða. Hæð og umfang veggjarins sé ekki frábrugðið því sem tíðkist við iðnaðarlóðir. Veggurinn sé ekki hár, en hæð hans sé greinilega ákveðin með tilliti til hljóðtæknilegra sjónarmiða og þess að hæðarkóti bygginga við Hafnargötu 36 sé lægri en Búðavegar sem er fyrir ofan.

Því sé hafnað að samþykkt framkvæmdanna feli í sér breytingar á byggðamynstri og þeim viðmiðum sem gangi og gerist í þéttbýli á Fáskrúðsfirði sem og annars staðar. Þá sé því hafnað að um fordæmisgefandi framkvæmd sé að ræða sem muni breyta grundvallarbyggðamynstri Fáskrúðsfjarðar. Umsókn leyfishafa megi rekja til sérstakra og afmarkaðra hljóðvistarlegra aðstæðna vegna staðsetningar eimsvala við Hafnargötu 36 og legu Búðavegar þar fyrir ofan. Þá sé Búðavegur á mörkum tveggja landnotkunarsvæða samkvæmt gildandi aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Leyfið hafi því ekki sérstaka fordæmisþýðingu.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærendur virðist freista þess að ná fram niðurstöðu í málinu sem hafi ekkert með bætta hljóðvist á svæðinu að gera. Því sé mótmælt að umrædd framkvæmd sé við lóðarmörk Búðavegar 24 og Hafnargötu 36. Hin umdeilda hljóðmön sé inni á lóð Hafnargötu 36 og sé 1,8 m frá lóðarmörkum. Þá liggi umferðargata í eigu sveitarfélagsins á milli lóðanna, sú gata sé 6,8 m breið og sé íbúðarhús kærenda 1,4 m frá veginum. Samtals séu því um 10 m á milli íbúðarhúss kærenda og hljóðmanar leyfishafa. Að lokum megi benda á að gengið sé inn í húsið að Búðavegi 24 að ofanverðu. Um sé að ræða hljóðmön/skjólvegg sem sé 30 cm minni en almennt sé heimilt án byggingarleyfis samkvæmt byggingarreglugerð.

Bygging hljóðveggjarins sé í beinum tengslum við starfsemi lóðarhafa og samræmist ákvæðum aðalskipulags Fáskrúðsfjarðar, en þau mæli ekki gegn því að settar séu upp girðingar og/eða hljóðmanir nærri lóðarmörkum á iðnaðarsvæðum. Slíkt sé ekki óalgengt og jafnvel æskilegt m.t.t. slysahættu. Samræmist það auk þess ákvæðum aðalskipulags að frágangur sé vandaður, en ljóst sé að hljóðmönin hafi bæði þýðingu á umhverfisþætti vegna hljóðs og útsýnis inn á iðnaðarsvæðið. Framkvæmdin sé að fullu leyti í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í skilningi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og því engin þörf á deiliskipulagsgerð vegna hennar. Hún muni auk þess bæta hljóðvist á svæðinu og ekki skerða grenndarhagsmuni umfram það sem almennt megi gera ráð fyrir í þéttbýli, þar sem íbúðarhús standi nærri hafnar- og iðnaðarsvæði. Þar beri að hafa í huga að hæðarkóti íbúðarhúss kærenda sé hærri en umferðargötunnar og því takmarki hljóðveggur að litlu leyti útsýni kærenda. Þá sé á engan hátt sýnt fram á með hvaða hætti hljóðveggurinn breyti nýtingu á eign kærenda.

Umrædd hljóðmön sé í samræmi við útgefið byggingarleyfi og samþykkta úrbótaáætlun Heilbrigðiseftirlits Austurlands um að draga úr hávaða frá starfsemi fiskiðjuversins. Hafi því legið fyrir í langan tíma að ráðist yrði í framkvæmdina. Fulltrúar leyfishafa hafi látið kærendur vita af framkvæmdunum og farið þess á leit við þá að þeir fjarlægðu bíla sína svo unnt væri að hefja jarðvinnu. Kærendur hafi ekki orðið við þeim umleitunum og gert allt sem í þeirra valdi stæði til að valda usla á verkstað.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi að loknum framkvæmdum bent á að hinn umdeildi veggur mælist 181 cm yfir vegi, en í fylgigögnum grenndarkynningar hafi verið tilgreint að vegghæð skyldi vera 150 cm yfir vegi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi sem heimilar að reist verði hljóðmön/-veggur við Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Leyfishafi starfrækir þar fiskiðjuver. Hið umdeilda leyfi er þáttur í úrbótaáætlun leyfishafa til að bregðast við hljóðmælingum sem sýnt hafa að hljóðstig vegna starfsemi leyfishafa hafi verið yfir leyfilegum mörkum.

Kærendur eru eigendur Búðavegar 24. Samkvæmt umsókn um byggingaráform og byggingar­leyfi er fyrirhugað að byggja „hljóðskerm á lóðamörkum Hafnargötu 36 við Búðaveg.“ Stendur fasteign kærenda við Búðaveg gegnt hinum umdeilda veggi og eiga kærendur því lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls með vísan til grenndar.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skv. 2. mgr. 9. gr. laganna veitir byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr., vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er byggingarleyfi skv. 1. mgr.

Í 7. gr. mannvirkjalaga er fjallað um byggingarnefndir. Þar kemur fram í 1. mgr. að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Þá segir í 2. mgr. 7. gr. að sveitarstjórn sé heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingar­fulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laganna skal slík samþykkt lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Fjarðabyggð hefur sett sér samþykkt um byggingarnefnd í Fjarðabyggð nr. 1060/2022, sem birtist í B-deild Stjórnar­tíðinda 16. september 2022. Tilvitnuð samþykkt var staðfest af ráðherra 31. ágúst s.á. Sú ábending er gerð að í rafrænu gagnasafni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er þó enn vísað til samþykktar Fjarðabyggðar, sama efnis, nr. 820/2013, sem felld var úr gildi með hinni nýju samþykkt.

Í 2. gr. samþykktar nr. 1060/2022 kemur fram að skilyrði byggingarleyfis af hálfu byggingar­fulltrúa, samkvæmt III. kafla laga um mannvirki, sé að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi samþykkt útgáfuna, en nefndin annist verkefni byggingarnefndar. Í 1. mgr. 3. gr. segir að byggingarfulltrúi skuli hafa samráð við umhverfis- og skipulagsnefnd um hvert það mál sem hann telur að varði verksvið nefndarinnar. Í 2. mgr. 3. gr. er mælt fyrir um að byggingarfulltrúi skuli leita samþykkis umhverfis- og skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi er veitt, varði breyting á mannvirki útlit þess og form, nema breyting sé óveruleg, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Líkt og rakið er í málavaxtakafla samþykkti umhverfis- og skipulagsnefnd hina kærðu byggingarleyfisumsókn á fundi sínum 29. ágúst 2023 og gaf byggingarfulltrúi út leyfi 5. september s.á. Var hin formlega málsmeðferð sveitarfélagsins því í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 og samþykkt nr. 1060/2022.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Undantekningu frá þessari meginreglu má finna í 1. mgr. 44. gr. laganna, en þar kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir megi veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Samkvæmt skipulagsuppdrætti 7: Fáskrúðsfjörður í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2020–2040 er Hafnargata 36 á athafnasvæði, AT-402, en fasteign kærenda er á miðsvæði, M-400. Ekki eru í gildi deiliskipulagsáætlanir fyrir umrædd svæði. Í kafla 8.1.2 í greinargerð aðalskipulagsins eru almennir skilmálar fyrir athafnasvæði raktir, en þar segir:

Athafnasvæði eru ætluð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengun svo sem léttan iðnað, hreinleg verkstæði, bílasölur og umboðs- og heildverslanir. Einnig atvinnustarfsemi sem þarfnast mikils rýmis, t.d. vinnusvæði utandyra á lóðum eða starfsemi sem hefur í för með sér þungaflutninga, svo sem vörugeymslur og matvælaiðnaður.

Á athafnasvæðum er lögð áhersla á góða ásýnd og vandaðan frágang, sérstaklega þar sem önnur nálæg landnotkun gefur tilefni til, s.s. íbúðarbyggð, miðsvæði, þjónusta og opin svæði. Gert er ráð fyrir því að hluti starfsemi á athafnasvæðum feli í sér sölu og afgreiðslu til almennings, líkt og gerist á svæðum fyrir verslun og þjónustu.

Þessu til viðbótar inniheldur aðalskipulagið sérskilmála fyrir athafnasvæðið AT-402, Athafnasvæði við Hafnargötu, en þar kemur fram: „Snyrtileg athafnastarfsemi í bland við verslun og þjónustu með mögulegum breytingum og viðbótum í samræmi við núverandi götumynd og yfirbragð á nálægum svæðum.“

Ekki er sérstaklega tekin afstaða til þess í aðalskipulaginu hvort hljóðmanir séu heimilar eða æskilegar á mörkum athafnasvæða og annarra svæða, t.a.m. miðsvæða. Helgast það af hlutverki aðalskipulags, en þar á að koma fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu, sbr. 1. tölul. 2. gr. og 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 123/2010. Í fyrri efnisgrein almennra skilmála fyrir athafnasvæði, sem er samhljóða skilgreiningu athafnasvæðis í e-lið 2. mgr. gr. 6.2. skipulags­reglugerðar, er þó tekið fram að matvælaiðnaður sé heimilaður. Í seinni efnisgreininni er sérstök áhersla lögð á vandaðan frágang þar sem önnur nálæg landnotkun gefi tilefni til og er þar m.a. vísað til miðsvæða. Telja verður að sveitarfélög hafi nokkuð víðtækt svigrúm við mat á hvernig þetta markmið er útfært og verður því ekki litið svo á að farið hafi verið út fyrir það svigrúm við veitingu hins kærða leyfis. Var hið umdeilda byggingarleyfi því ekki í andstöðu við ákvæði Aðalskipulags Fjarðabyggðar 2020–2040. Þá verður hvorki séð að hið kærða leyfi hafi farið gegn landnotkun né að það hafi áhrif á þéttleika byggðar.

Í skipulagslögum, sbr. 6. tölul. 2. gr., er byggðamynstur skilgreint sem lögun og yfirbragð byggðar, svo sem hæð og þéttleiki. Hugtakið er skilgreint með nánari hætti í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð sem „[l]ögun og yfirbragð byggðar þar með talið fyrirkomulag byggðar og landnotkunar, svo sem hæð og þéttleiki, tegund landnotkunar, gatnakerfi, gerð og uppröðun bygginga“. Fjallað er um byggðamynstur innan sveitarfélagsins í kafla 3.2 í aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Í kaflanum eru m.a. sett fram markmið sem miða að því að styrkja miðbæi en þar er ekkert að finna sem mælir gegn hinu kærða byggingarleyfi. Verður samkvæmt öllu framangreindu litið svo á að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við aðalskipulag, landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og því hafi verið heimilt að grenndarkynna það.

Að lokum verður að líta til þess að hin kærða ákvörðun miðar að því að draga úr hávaða. Að mati nefndarinnar hafa stjórnvöld nokkuð svigrúm við mat á því hvaða leið er best fær til að ná því markmiði. Ekki verður litið svo á að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið gengið lengra en tilefni var til í því skyni að draga úr hávaða er stafar frá starfsemi leyfishafa, sbr. nánar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framangreindu verður talið að engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Það skal upplýst að lokum að kærendur í máli þessu gerðu kröfu um endurupptöku úrskurðar­máls nr. 104/2023, sem varðaði synjun um beitingu þvingunarúrræða, þar sem þeir álitu að ekki hefði verið tekin afstaða til úrbótaáætlunar vegna hljóðmengunar. Þar sem mál þetta varðar leyfi sem grundvallast á úrbótaáætluninni stóð til að taka afstöðu til þess erindis samhliða því að skorið væri úr ágreiningi þessa kærumáls. Í samráði við lögmann kærenda var því þó frestað að taka afstöðu til erindisins uns tekin yrði ný ákvörðun sama efnis og var kærð í máli nr. 104/2023, sem sætt gæti kæru til nefndarinnar. Sú ákvörðun, þegar hún lá fyrir 1. febrúar 2024, var þó ekki borin undir nefndina. Þá var krafa um endurupptöku máls nr. 104/2023 afturkölluð með bréfi, dags. 13. mars 2024. Af þessum ástæðum hefur meðferð þessa máls dregist nokkuð. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

10/2024 Móvað

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2024, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2024 um að leggja á gjald vegna sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar fyrir fasteignina Móvað 15.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. janúar 2024, kærir A ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2024 um álagningu gjalds vegna sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar fyrir fasteign hans að Móvaði 15. Er þess krafist að gjaldið verði fellt niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. febrúar 2024.

Málavextir: Hinn 19. janúar 2024 barst kæranda álagning vegna fasteignagjalda fyrir árið 2024. Með álagningunni var kæranda gert að greiða gjald að fjárhæð kr. 52.500 vegna sorptunnu, fyrir lífrænan úrgang og óflokkað sorp.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að eitt af markmiðum sorpflokkunar sé að minnka sem mest umfang óflokkaðs sorps. Hann hafi náð því markmiði með ítarlegri flokkun, enda sé óflokkað sorp frá heimilisrekstri hans sáralítið og sjái hann sjálfur um að fara með það á gámastöð. Í garði hans sé svokölluð moltutunna sem í fari allur lífúrgangur. Sé því ekki verjandi að honum sé gert að greiða kr. 52.500 á ári fyrir tæmingu á sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar sem standi ávallt tóm. Þrátt fyrir að á borginni hvíli lagaskylda til að hafa umrædda tunnu við heimili kæranda sjái hann ekki að lagastoð sé fyrir umræddu gjaldi fyrir tunnu sem aldrei þurfi að tæma.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að skv. 10. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skuli koma upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi þar sem það sé nauðsynlegt til að uppfylla ákvæði laganna varðandi endurnýtingu úrgangs og koma í veg fyrir að úrgangur blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika. Sérstök söfnun skuli vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangsefnum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laganna skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Heimilt sé m.a. að ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr, síðasta málsl. 2. mgr. Gjaldið skuli þó aldrei vera hærra en sem nemi kostnaði sem falli til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Vegna athugasemda Reykjavíkurborgar um að gjaldtaka fyrir sorphirðu eigi aðeins að standa undir kostnaði við hana þá bendir kærandi á að aldrei þurfi að hirða hjá honum sorp sem teljist til blandaðs úrgangs og eigi að flokkast í umrætt sorpílát.

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning gjalds fyrir árið 2024 vegna sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar vegna fasteignar kæranda að Móvaði 15 í Reykjavík.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi, ásamt því að hún ber ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar setur sveitarstjórn sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þar er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 55/2003 er kveðið á um að koma skuli upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi. Sérstök söfnun skuli vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Heimajarðgerð sé þó heimil sem og söfnun lífúrgangs með öðrum úrgangi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skuli sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnunin skuli fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila. Skuli sveitarfélög útfæra nánara fyrirkomulag söfnunar í samþykkt um meðhöndlun úrgangs. Einstaklingum og lögaðilum er skylt að flokka heimilisúrgang í samræmi við þessi fyrirmæli, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Þessu til viðbótar segir í 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi heimilisúrgangs frá öllum heimilum og lögaðilum. Auk þess skuli fasteignareigandi sjá til þess að fasteign hans fylgi nægilega mörg sorpílát og að þau séu endurnýjuð eftir þörfum, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar.

Þessi fyrirmæli taka mið af því að meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki og að sama skapi er íbúum ekki í sjálfsvald sett hvort að þeir nýta sér þjónustuna eða ekki. Í gildi er samþykkt nr. 644/2022 um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 1. júní 2022. Í 4. gr. hennar er fjallað um söfnun á heimilisúrgangi og kemur fram í 1. mgr. að sérhverjum húsráðanda sé skylt að nota þau ílát og aðferðir sem Reykjavíkurborg ákveði. Þá segir í 3. mgr. að Reykjavíkurborg útvegi ílát til notkunar við íbúðarhúsnæði og kemur fram að ílát fyrir lífúrgang séu 120 lítrar. Samkvæmt 5. mgr. skal að lágmarki vera eitt ílát fyrir blandaðan heimilisúrgang við hvert íbúðarhús. Þessi fyrirmæli verður að túlka með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 55/2003 og verður að álíta að kæranda sé skylt að greiða fyrir þá þjónustu við sorphirðu sem honum stendur til boða eins og öðrum íbúum í sveitarfélaginu.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, sbr. lög nr. 103/2021, skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Tekið er fram að skylt sé að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Þó er heimilt að færa innheimtu gjalda að nokkru á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að markmiðum laganna auk þess að heimilað er að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélags. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar skal birta slíka gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Reykjavíkurborg hefur á grundvelli 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 og 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998 samþykkt gjaldskrá nr. 1280/2023 fyrir meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu. Öðlaðist hún gildi 1. janúar 2024 og féll um leið úr gildi gjaldskrá sama efnis nr. 1305/2022. Samkvæmt gjaldflokki E.1 í 2. gr. gjaldskrárinnar er gjald fyrir tvískipta tunnu fyrir blandaðan heimilis-úrgang (60%) og matarleifar (40%), sótt minna en 15 m frá hirðubíl, kr. 52.500 á ári.

Þegar um svokölluð þjónustugjöld er að ræða gilda ýmis sjónarmið um álagningu þeirra, m.a. að beint samhengi sé á milli fjárhæðar gjaldsins og þess kostnaðar sem til fellur við það að veita þjónustuna. Fjárhæðin verður einnig að byggjast á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald.

Við meðferð þessa máls óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um útreikninga á sorphirðugjaldi Reykjavíkurborgar. Í svari til úrskurðarnefndarinnar er greint frá því að hirðugjöld vegna hirðu við heimili miðist við fjölda, stærð og tegund tunnu en hirðugjöld fyrir grenndar- og endurvinnslustöðvar sé fast gjald á íbúð. Hirðugjöldin séu reiknuð samkvæmt leiðbeiningum sem starfshópur á vegum stefnuráðs byggðasamlaga sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið til samræmingar á ákvörðun hirðugjalda á höfuðborgar-svæðinu. Af rekstrartölum fyrir sorphirðu í Reykjavík árin 2014–2022 sést að rekstrarkostnaður er í öllum tilvikum hærri en innheimt gjöld, að undanskildu árinu 2017. Er sú niðurstaða í samræmi við áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um að álögð gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður sem falli til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna. Verður að telja að kostnaðarliðir vegna sorphirðugjalds Reykjavíkurborgar fyrir tvískipta tunnu falli undir þá þætti sem sveitarfélögum er skylt að innheimta gjald fyrir á grundvelli 2. mgr. 23. gr. sömu laga. Verður að öllu virtu ekki annað séð en að útreikningur hins kærða gjalds hafi byggst á skynsamlegri áætlun. Telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðum ákvæðum 23. gr. laga nr. 55/2003.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2024 um að leggja á gjald vegna sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar fyrir fasteignina Móvað 15.

33/2024 Sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 16. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 33/2024, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 29. febrúar 2024 um að veita rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi með 8.000 tonna hámarkslífmassa, þar af 5.200 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa eða stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Hábrún ehf. þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 29. febrúar 2024 að veita Arctic Sea Farm ehf. rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi með 8.000 tonna hámarkslífmassa, þar af 5.200 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir A, eigandi jarðarinnar Sandeyri við Snæfjallaströnd, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu hennar. Þá er einnig krafist stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða. Verður það mál, sem er nr. 35/2024, sameinað kærumáli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Verður nú tekin afstaða til fyrirliggjandi kröfu um stöðvun framkvæmda, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa,. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en með úrskurði, uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020, var kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi, framleiðsluaukningu um 3.800 tonn, og óskaði eftir áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar lá fyrir 28. janúar 2021. Taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt. Var það álit stofnunarinnar að helstu neikvæði áhrif eldisins fælist í auknum áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar, mögulegum áhrifum á villta laxfiska vegna aukins álags laxalúsar og mögulegum áhrifum á villta laxfiskstofna vegna erfðablöndunar. Auk þess taldi stofnunin að eldið kæmi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru eldi í Ísafjarðardjúpi á framangreinda þætti.

Arctic Sea Farm sótti um rekstrarleyfi hjá Matvælastofnun 20. maí 2019 fyrir 8.000 tonnum af regnbogasilungi og laxi. Hinn 5. júní 2023 auglýsti stofnunin tillögu að rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi með 8.000 tonna hámarkslífmassa, þar af 5.200 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi, og var frestur til að skila inn athugasemdum gefinn til 5. júlí s.á. Í samræmi við auglýsta tillögu var hið kærða rekstrarleyfi (FE-1174) svo gefið út 29. febrúar 2024. Í leyfinu er leyfishafa heimilað að starfrækja sjókvíaeldi á þremur svæðum í Ísafjarðardjúpi, þ.e. svæðum við Arnarnes, Kirkjusund og Sandeyri. Þá gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi 21. s.m. til handa leyfishafa vegna þeirrar starfsemi sem hér um ræðir. Hefur sú leyfisveiting einnig verið kærð og er það kærumál nr. 36/2024.

Málsrök kærenda: Kærandinn Hábrún ehf. bendir á að eldissvæði leyfishafa við Arnarnes uppfylli ekki skilyrði 5. mgr. 18. gr. reglugerðar um fiskeldi nr. 540/2020 um fjarlægðarmörk milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila, en einungis 3,1 km sé í eldissvæði kæranda í Skutulsfirði. Matvælastofnun geti að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun veitt undanþágu en vegna neikvæðrar afstöðu þeirrar stofnunar séu forsendur ekki fyrir hendi til þess að veita þá undanþágu. Þá sé ólögmætur sá skilmáli leyfisins að leyfishafa beri að tryggja að fjarlægð í fisk ótengdra aðila verði í samræmi við áðurnefnda reglu 5. mgr. 18. gr. reglugerðar um fiskeldi. Einnig sé ólögmætt það skilyrði að leyfishafi skuli gera samstarfssamning við kæranda og annað fiskeldisfyrirtæki á svæðinu. Leyfishafi muni hefja starfsemi á grundvelli leyfisins með útsetningu seiða á vordögum. Í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi séu sé ótækt að eldi sé hafið á grundvelli leyfis sem háð sé jafn alvarlegum annmörkum og raun beri vitni.

Kærandinn A byggir á því að við útgáfu hins kærða rekstrarleyfis hafi alvarlegur misbrestur orðið sem brjóti í bága við vandaða stjórnsýsluhætti. Öll svæðin sem leyfið taki til séu í hvítum ljósgeira vita á svæðinu sem sé í andstöðu við lög og alþjóðlegar skuldbindingar og ógni þar að auki siglingaöryggi. Strandsvæðisskipulagið sem leyfin byggi á sé ófullnægjandi og að hluta til rangt, auk þess sem starfsemin sé að hluta til innan netlaga og því hefði málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 átt að gilda um svæðið. Brotið hafi verið gegn lögum nr. 160/2010 um mannvirki en byggingarleyfi skorti fyrir starfseminni. Menningarminjum sé ógnað og hafi málsmeðferð leyfisveitingarinnar ekki verið í samræmi við lög nr. 80/2012 um menningarminjar. Þá leiði leyfisveitingin til óforsvaranlegrar hættu á erfðablöndun og brjóti gegn meginreglum umhverfisréttar. Krafa um stöðvun framkvæmda byggi á því að knýjandi nauðsyn standi til þess að koma í veg fyrir óafturkræf áhrif á náttúruna sem starfsemi leyfisins geti leitt til. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 127/2023 þar sem fallist hafi verið á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda með vísan til þess að ýmis álitaefni væru uppi í málinu sem gætu haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Í úrskurðinum komi fram að nefndin þurfi tóm til að kanna málsatvik frekar og eftir atvikum afla frekari gagna. Eigi það sama við í þessu máli.

Málsrök Matvælastofnunar: Stofnunin tekur fram að við útgáfu hins kærða leyfis hafi ákvæðum þeirra laga og reglugerða sem um leyfisveitinguna gilda verið fylgt og ekkert hafi komið fram sem hafi bent til þess að fallast eigi á kröfu kærenda í málinu. Skýra verði heimild til frestunar réttaráhrifa þröngt og þurfi rík eða veigmikil rök að vera fyrir hendi til að taka slíka ákvörðun. Við matið beri jafnframt að hafa í huga réttmætar væntingar og hagsmuni leyfishafa sem og hversu mikið tjón frestun réttaráhrifa myndi hafa. Með hliðsjón af því sé einsýnt að hafna beri kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa eða stöðvun framkvæmda.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að heimild til stöðvunar framkvæmda feli í sér þrönga undantekningu frá þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra fresti ekki réttaráhrifum úrskurðar. Sú meginregla sé tekin skýrt fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Heimildinni verði þá og því aðeins beitt að kæruheimildin teljist þýðingarlaus verði framkvæmdir ekki stöðvaðar, sbr. ummæli í greinargerð frumvarps þess er orðið hafi að lögum nr. 130/2011. Til viðbótar sé það að auki skilyrði fyrir því að fallast á stöðvun framkvæmda að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Líta þurfi því til þess hversu líklegt sé að kröfur kæranda nái fram að ganga í málinu. Hvorugt skilyrðið sé uppfyllt í málinu.

Hvað varði eldissvæðið við Arnarnes og Kirkjusund þá sé ljóst samkvæmt rekstrar- og framleiðsluáætlunum leyfishafa að engin starfsemi verði stunduð þar a.m.k. fram til aprílmánaðar árið 2025. Af þessum sökum hafi kærendur enga hagsmuni af því að stöðva framkvæmdir á þeim svæðum, enda augljóst að efnisúrlausn muni liggja fyrir löngu áður en starfsemi hefjist. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda hvað þau svæði varði, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 28. september 2023 í máli nr. 107/2023.

Líta beri til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins. Í janúar 2017 hafi leyfishafi sent matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna 8.000 tonna framleiðslu á laxi eða silungi í Ísafjarðardjúpi, en undirbúningur þess hafi í raun hafist nokkru áður. Í kjölfarið hafi tekið við ítarlegt leyfisveitingarferli sem hafi lokið með útgáfu þess leyfis sem mál þetta varði. Það hafi því tekið leyfishafa rúmlega sjö ár að fá umrætt rekstrarleyfi. Þegar kvíasvæðið við Sandeyri verði tilbúið verði seiði sett út í kvíarnar, en umrædd seiði séu nú þegar komin í fulla stærð og þurfi að vera komin út í kvíar í allra síðasta lagi 26. apríl 2024. Að öðrum kosti séu miklar líkur á því ekki verði hægt að nota þau með tilheyrandi tjóni fyrir leyfishafa. Sú staðreynd að leyfishafi verði fyrir tjóni verði framkvæmdir stöðvaðar hafi í úrskurðarframkvæmd verið talin mæla gegn stöðvun, sbr. úrskurður nefndarinnar 22. júlí 2021 í máli nr. 110/2021. Fyrir liggi að tjón leyfishafa yrði verulegt ef framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Jafnframt hafi þýðingu sjónarmið um að komast hjá eyðileggingu verðmæta. Einnig beri að líta til þess að leyfishafi hafi haft rekstrarleyfi á svæðinu frá árinu 2012 eða rúmum þremur árum áður en annar kærenda hafi eignast jörðina Sandeyri.

Leyfishafi hafni öllum málsástæðum kærenda og telji enga þeirra, hvorki eina og sér né samanlagt, geta leitt til ógildingar hins kærða leyfis. Þá sé ljóst að kæra yrði ekki þýðingarlaus þó framkvæmdir verði ekki stöðvaðar. Fyrir liggi að heimilaðar framkvæmdir séu allar afturkræfar með einföldum og skjótum hætti. Eldiskvíar séu færanlegar einingar sem einfalt og auðvelt sé að færa úr stað með tiltölulega skjótum hætti. Við slíka framkvæmd þurfi vissulega að huga að aðstæðum og velferð eldisfiska en að öðru leyti séu litlar sem engar hömlur við því að færa til eða fjarlægja eldiskvíar. Gagnstæðar og órökstuddar fullyrðingar um „óafturkræf áhrif á náttúruna“ séu jafnframt í beinu ósamræmi við álit Skipulagsstofnunar um að framkvæmdirnar séu afturkræfar. Það sem meira sé þá sé sú óvenjulega staða uppi í málinu að í lögum sé beinlínis mælt fyrir um hvernig starfsemi fiskeldisstöðvar verði stöðvuð ef rekstrarleyfi hennar sé fellt úr gildi, sbr. 21. gr. c í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Þannig hafi löggjafinn tekið afstöðu til þess hvernig beri að stöðva starfsemi fiskeldisstöðvar sem missi rekstrarleyfi sitt. Við þær aðstæður verði að beita bráðabirgðaúrræðum líkt og stöðvun framkvæmda með sérstakri varúð.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að við mat á því hvort fresta eigi réttaráhrifum ákvörðunar beri að líta til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins auk þess sem horfa þurfi til þess hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Einnig er í athugasemdunum nefnd þau tilvik þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama toga eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Í máli þessu er krafa um stöðvun framkvæmda byggð á því að hið kærða rekstrarleyfi sé háð annmörkum. Þá er einnig byggt á því að knýjandi nauðsyn standi til þess að koma í veg fyrir óafturkræf áhrif á náttúruna sem geti leitt af þeirri starfsemi sem leyfið heimili. Í kærumáli þessu eru aðilar máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Fyrir úrskurðarnefndina liggja upplýsingar um að eldissvæðin við Kirkjusund og Arnarnes verði ekki tekin í notkun fyrr en í fyrsta lagi í apríl 2025, en úrskurðar í máli þessu er að vænta fyrir þann tíma. Aftur á móti er ljóst að stefnt er að útsetningu seiða í kvíar á eldissvæði við Sandeyri á næstu dögum og er starfsemi þar því yfirvofandi. Þrátt fyrir það verður ekki álitið með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér fyrir leyfishafa, svo og að teknu tilliti til þess að ekki verður talið að sú framkvæmd sem hér um ræðir sé óafturkræf, að knýjandi nauðsyn sé fyrir hendi til að beita undantekningarheimild 5. gr. laga nr. 130/2011 og stöðva framkvæmdir á grundvelli hins kærða rekstrarleyfis.

Rétt þykir að taka fram að ýmis álitaefni eru uppi í málinu og ber leyfishafa alla áhættu af því að hefja starfsemi á grundvelli hins kærða leyfis á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um lögmæti þess.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar Matvælastofnunar.

36/2024 Sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 16. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 36/2024, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. febrúar 2024 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi með 8.000 tonna hámarkslífmassa, þar af 5.200 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Sandeyri við Snæfjallaströnd, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. febrúar 2024 að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi með 8.000 tonna hámarkslífmassa, þar af 5.200 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa, í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en með úrskurði uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020 var kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi, framleiðsluaukningu um 3.800 tonn, og óskaði eftir áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar lá fyrir 28. janúar 2021. Taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt. Var það álit stofnunarinnar að helstu neikvæði áhrif eldisins fælist í auknum áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar, mögulegum áhrifum á villta laxfiska vegna aukins álags laxalúsar og mögulegum áhrifum á villta laxfiskstofna vegna erfðablöndunar. Auk þess taldi stofnunin að eldið kæmi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru eldi í Ísafjarðardjúpi á framangreinda þætti.

Arctic Sea Farm sótti um starfsleyfi og rekstrarleyfi hjá Matvælastofnun 20. maí 2019 fyrir 8.000 tonnum af regnbogasilungi og laxi, en í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 4. gr. b í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi framsendi stofnunin starfsleyfisumsóknina til Umhverfisstofnunar. Hinn 5. júní 2023 auglýsti Umhverfisstofnun tillögu að starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi með 8.000 tonna hámarkslífmassa, þar af 5.200 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi, og var frestur til að skila inn athugasemdum gefinn til 3. júlí s.á. Í samræmi við auglýsta tillögu var hið kærða starfsleyfi svo gefið út 21. febrúar 2024. Í leyfinu er leyfishafi heimilað að starfrækja sjókvíaeldi á þremur svæðum í Ísafjarðardjúpi, þ.e. svæðum við Arnarnes, Kirkjusund og Sandeyri. Þá gaf Matvælastofnun út starfsleyfi 29. s.m. til handa leyfishafa vegna þeirrar starfsemi sem hér um ræðir. Hefur sú leyfisveiting einnig verið kærð og er það kærumál nr. 33/2024.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að við útgáfu hins kærða starfsleyfis hafi alvarlegur misbrestur orðið sem brjóti í bága við vandaða stjórnsýsluhætti. Öll svæðin sem leyfið taki til séu í hvítum ljósgeira vita á svæðinu sem sé í andstöðu við lög og alþjóðlegar skuldbindingar og ógni þar að auki siglingaöryggi. Strandsvæðisskipulagið sem leyfin byggi á sé ófullnægjandi og að hluta til rangt, auk þess sem starfsemin sé að hluta til innan netlaga og því hefði málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 átt að gilda um svæðið. Brotið hafi verið gegn lögum nr. 160/2010 um mannvirki en byggingarleyfi skorti fyrir starfseminni. Menningarminjum sé ógnað og hafi málsmeðferð leyfisveitingarinnar ekki verið í samræmi við lög nr. 80/2012 um menningarminjar. Þá leiði leyfisveitingin til óforsvaranlegrar hættu á erfðablöndun og brjóti gegn meginreglum umhverfisréttar. Krafa um stöðvun framkvæmda byggi á því að knýjandi nauðsyn standi til þess að koma í veg fyrir óafturkræf áhrif á náttúruna sem starfsemi leyfisins geti leitt til. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 123/2023 þar sem fallist hafi verið á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda með vísan til þess að ýmis álitaefni væru uppi í málinu sem gætu haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Í úrskurðinum komi fram að nefndin þurfi tóm til að kanna málsatvik frekar og eftir atvikum afla frekari gagna. Eigi það sama við í þessu máli.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Stofnunin bendir á að við mat á því hvort fresta eigi réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði að líta til þess hvort sýnt hafi verið fram á að án frestunar myndi gæta röskunar sem væri óafturkræf eða hefði með öðrum hætti þungbærar afleiðingar. Það liggi ekki fyrir í þessu máli. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar séu gefin út eftir mikinn undirbúning og strangt kynningar- og athugasemdaferli í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sjókvíar utan netlaga teljist mannvirki í skilningi laga nr. 160/2010 um mannvirki og samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi leyfishafi sótt um byggingarleyfi fyrir eldissvæðið við Sandeyri, en áform séu uppi um að það svæði verði fyrst tekið í notkun. Bent sé á að rekstrarleyfi Matvælastofnunar sé háð því að leyfi til mannvirkjagerðar sé til staðar.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að heimild til stöðvunar framkvæmda feli í sér þrönga undantekningu frá þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra fresti ekki réttaráhrifum úrskurðar, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar 28. september 2023 í máli nr. 107/2023. Ávallt verði að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem vegist á í hverju máli. Við matið beri að líta til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins og hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Þá hafi það almennt verið talið mæla á móti því að réttaráhrifum verði frestað þegar fleiri en einn aðili eru að máli og þeir eigi andstæðra hagsmuna að gæta. Loks megi nefna þau tilvik þegar kæruheimild verði í raun þýðingarlaus ef réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði ekki frestað.

Líta beri til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins. Í janúar 2017 hafi leyfishafi sent matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna 8.000 tonna framleiðslu á laxi eða silungi í Ísafjarðardjúpi, en undirbúningur þess hafi í raun hafist nokkru áður. Í kjölfarið hafi tekið við ítarlegt leyfisveitingarferli sem hafi lokið með útgáfu þess leyfis sem mál þetta varði. Það hafi því tekið leyfishafa rúmlega sjö ár að fá umrætt starfsleyfi. Þegar kvíasvæðið við Sandeyri verði tilbúið verði seiði sett út í kvíarnar, en umrædd seiði séu nú þegar komin í fulla stærð og þurfi að vera komin út í kvíar í allra síðasta lagi 26. apríl 2024. Að öðrum kosti séu miklar líkur á því að ekki verði hægt að nota þau með tilheyrandi tjóni fyrir leyfishafa. Sú staðreynd að leyfishafi verði fyrir tjóni verði framkvæmdir stöðvaðar hafi í úrskurðarframkvæmd verið talin mæla gegn stöðvun, sbr. úrskurður nefndarinnar 22. júlí 2021 í máli nr. 110/2021. Fyrir liggi að tjón leyfishafa yrði verulegt ef framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Jafnframt hafi þýðingu sjónarmið um að komast hjá eyðileggingu verðmæta. Einnig beri að líta til þess að leyfishafi hafi haft rekstrarleyfi á svæðinu frá árinu 2012 eða rúmum þremur árum áður en kærendi í máli þessu hafi eignast jörðina Sandeyri.

Leyfishafi hafni öllum málsástæðum kæranda og telji enga þeirra, hvorki eina og sér né samanlagt, geta leitt til ógildingar hins kærða leyfis. Þá sé ljóst að kæra yrði ekki þýðingarlaus þó framkvæmdir verði ekki stöðvaðar. Fyrir liggi að heimilaðar framkvæmdir séu allar afturkræfar með einföldum og skjótum hætti. Eldiskvíar séu færanlegar einingar sem einfalt og auðvelt sé að færa úr stað með tiltölulega skjótum hætti. Við slíka framkvæmd þurfi vissulega að huga að aðstæðum og velferð eldisfiska en að öðru leyti séu litlar sem engar hömlur við því að færa til eða fjarlægja eldiskvíar. Gagnstæðar og órökstuddar fullyrðingar kæranda um „óafturkræf áhrif á náttúruna“ séu jafnframt í beinu ósamræmi við álit Skipulagsstofnunar um að framkvæmdirnar séu afturkræfar. Þá sé sú óvenjulega staða uppi að í lögum sé beinlínis mælt fyrir um hvernig starfsemi fiskeldisstöðvar verði stöðvuð ef rekstrarleyfi hennar sé fellt úr gildi, sbr. 21. gr. c í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Þannig hafi löggjafinn tekið afstöðu til þess hvernig beri að stöðva starfsemi fiskeldisstöðvar sem missi rekstrarleyfi sitt. Við þær aðstæður verði að beita bráðabirgðaúrræðum líkt og stöðvun framkvæmda með sérstakri varúð.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að við mat á því hvort fresta eigi réttaráhrifum ákvörðunar beri að líta til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins auk þess sem horfa þurfi til þess hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Einnig er í athugasemdunum nefnd þau tilvik þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama toga eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Kærandi byggir kröfur sínar um stöðvun framkvæmda á því að hið kærða starfsleyfi sé háð annmörkum. Þá er einnig byggt á því að knýjandi nauðsyn standi til þess að koma í veg fyrir óafturkræf áhrif á náttúruna sem geti leitt af þeirri starfsemi sem leyfið heimili. Í kærumáli þessu eru aðilar máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Fyrir úrskurðarnefndina liggja upplýsingar um að eldissvæðin við Kirkjusund og Arnarnes verði ekki tekin í notkun fyrr en í fyrsta lagi í apríl 2025, en úrskurðar í máli þessu er að vænta fyrir þann tíma. Aftur á móti er ljóst að stefnt er að útsetningu seiða í kvíar á eldissvæði við Sandeyri á næstu dögum og er starfsemi þar því yfirvofandi. Þrátt fyrir það verður ekki álitið með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér fyrir leyfishafa, svo og að teknu tilliti til þess að ekki verður talið að sú framkvæmd sem hér um ræðir sé óafturkræf, að knýjandi nauðsyn sé fyrir hendi til að beita undantekningarheimild 5. gr. laga nr. 130/2011 og stöðva framkvæmdir á grundvelli hins kærða starfsleyfis.

Rétt þykir að taka fram að ýmis álitaefni eru uppi í málinu og ber leyfishafa alla áhættu af því að hefja starfsemi á grundvelli hins kærða leyfis á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um lögmæti þess.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar Umhverfisstofnunar.

13/2024 Strandvegur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 14. september 2023 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vest­mannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. febrúar 2024, er barst nefndinni 2. s.m., kæra eigandi, Herjólfsgötu 2, eigandi, Strandvegi 49, eigandi, Herjólfsgötu 5B, eigandi, Herjólfsgötu 4, og eigandi, Herjólfsgötu 5A, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 14. september 2023 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmanna­eyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Er þess krafist að skipulagsfulltrúa verði gert að sinna sínu hlutverki af hlutleysi með hagsmuni allra í huga. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 12. mars 2024.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 12. febrúar 2024.

Málavextir: Á lóðinni Strandvegi 51 í Vestmannaeyjum stendur steinsteypt bygging á einni hæð. Er lóðin á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, frá árinu 2015. Samkvæmt skipulaginu var heimilt að byggja á lóðinni tveggja hæða hús með möguleika á þriðju hæð að hluta.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. júní 2023 var tekin fyrir umsókn um breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar sem fólst í því að heimilt yrði að byggja þar fjögurra hæða hús með átta íbúðum. Samþykkti ráðið að auglýsa tillöguna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn á fundi hennar 22. júní 2023. Tillagan var upphaflega auglýst til kynningar 3. júlí s.á. með athugasemdafresti til 14. ágúst s.á. Síðar var tillagan auglýst að nýju 17. júlí 2023 á vefsíðu sveitarfélagsins og í Lögbirtingablaðinu en við það framlengdist athugasemdafrestur til 30. ágúst s.á. Athugasemdir bárust frá hluta kærenda en að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. september 2023. Samþykkti ráðið breytingartillöguna sem og framlagða greinargerð með svörum við athugasemdum sem bárust á kynningartíma og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 14. s.m. Hluti kærenda þessa máls kærði ákvörðun bæjar­stjórnar til úrskurðarnefndarinnar hinn 10. október 2023 en með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 15. nóvember s.á. í máli nr. 120/2023, var kærumálinu vísað frá þar sem deiliskipulagsbreytingin hafði ekki tekið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til yfirferðar en með bréfi stofnunarinnar, dags. 26. október 2023, var sveitarfélaginu tilkynnt um að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til breytingarinnar vegna tiltekinna atriða. Í kjölfarið voru breytingar gerðar á framsetningu deiliskipulagstillögunnar og hún send að nýju til Skipulagsstofnunar. Í bréfi, dags. 2. janúar 2024, gerði stofnunin ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um deiliskipulags­breytinguna og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. janúar 2024.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi staðið í stappi við Vestmannaeyjabæ vegna þess hvernig staðið hafi verið að bílastæðamálum í tengslum við fyrirhugaða stækkun hússins að Strandvegi 51. Lög séu brotin með því að leyfa byggingaraðila hússins að nýta sér hluta af annarri lóð fyrir bílastæði. Þá veki ekki síður furðu samkomulag sem sveitarfélagið hafi gert við lóðarréttarhafa að Strandvegi 51 um að sá aðili hafi rétt til að nota bílastæði á vesturlóð við Strandveg 50 frá kl. 17 síðdegis til kl. 9 að morgni. Gildistími samningsins sé til 13 ára frá undirritun hans 26. september 2022 og sé því spurt hvar íbúar fjölbýlishússins eigi að leggja bílum sínum eftir 26. september 2035. Í byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði fyrir hverja 35 m2 og a.m.k. einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Eftir stækkun hússins á grundvelli deiliskipulagsbreytingarinnar þurfi húsið að Strandvegi 51 því að hafa a.m.k. tíu bílastæði auk eins bílastæðis fyrir hreyfihamlaða. Fjöldi bílastæða á svæðinu sé þegar of lítill. Sveitarfélagið sé að ganga erinda byggingaraðila á kostnað nágranna og væntanlegra kaupenda íbúða í húsinu.

Í fyrra kærumáli hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi Vestmannaeyjabær tekið fram að brugðist hafi verið við ábendingum kærenda um bílastæði með því að koma fyrir fleiri bílastæðum, m.a. á nærliggjandi lóð við Strandveg 50. Þessu mótmæli kærendur þar sem um sé að ræða bráðabirgðalausn til 26. september 2035. Þá bendi kærendur á að þegar húsið hafi verið byggt í kringum 1950 hafi eftirlit með mannvirkjagerð verið mjög áfátt. Undir gamla hluta hússins séu ekki sökklar, hvað þá flotsökklar til að dreifa þunganum á jarðveginn.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er bent á að lóðin Strandvegur 51 sé á miðbæjarsvæði M-1 samkvæmt Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015–2035. Samkvæmt þeirri skipulagsáætlun sé æskilegt að byggja í þær eyður sem séu í byggðinni og fjölga íbúðum, sérstaklega á efri hæðum. Tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og við þá kynningu hafi kærendur komið á framfæri athugasemdum sínum. Í svarbréfi sveitarfélagsins við athugasemdum kærenda hafi þeim verið bent á að lög og reglur geri ekki ráð fyrir tilteknum fjölda bílastæða. Brugðist hafi verið við ábendingum kærenda vegna bílastæða með því að koma fyrir fleiri bílastæðum, m.a. á nærliggjandi lóð við Strandveg 50. Ítarlega hafi verið fjallað um bílastæða­mál í deiliskipulagsbreytingunni. Enn fremur hafi verið merkt bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þá hafi verið tekið tillit til fyrri athugasemda kærenda og byggingarmagn minnkað frá því sem fyrri tillaga hafi gert ráð fyrir, þ.e. úr 1.500 m2 í 950 m2.

Umhverfis- og skipulagsráð hafi skoðað áætlað skuggavarp og sé skuggavarp á lóð Strandvegar 49 fyrst og fremst síðla dags að sumri til. Í því sambandi sé rétt að taka fram að samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi hafi mænishæð verið heimiluð 14,4 m, en með hinni kærðu deili­skipulagsbreytingu hafi hún lækkað um 0,5 m. Hvað varði athugasemdir er lúti að grunn og þriðju hæð hússins þá verði gert ráð fyrir að lögum og reglum verði fylgt í hvívetna og í engu slegið af þegar komi að öryggi hússins.

 Niðurstaða: Á lóð nr. 51 við Strandveg í Vestmannaeyjum stendur 334,6 m2 steinsteypt einnar hæðar hús. Árið 2015 tók gildi deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, sem heimilaði byggingu tveggja hæða húss auk þakhæðar á lóðinni. Hin kærða deiliskipulags­breyting gerir m.a. ráð fyrir stækkun byggingarreits lóðarinnar og að reist verði fjögurra hæða hús með auknu byggingarmagni.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá brestur úrskurðarnefndina heimild til þess að leggja tilteknar athafnir fyrir byggingar­yfirvöld og borgara. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að skipulagsfulltrúa verði gert að sinna sínu hlutverki af hlutleysi með hagsmuni allra í huga. Verður hins vegar af málsatvikum ráðið að farið sé fram á að lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar verði tekið til endurskoðunar og verður kærumálið tekið til efnismeðferðar á þeim grunni.

Í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er fjallað um afgreiðslu deiliskipulags. Segir þar að senda skuli Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn. Ef stofnunin telur að form- eða efnisgallar séu á deiliskipulagi skal hún koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarstjórn. Skal sveitarstjórn taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir Skipulagsstofnunar um efni deiliskipulags skal hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess. Í 7. gr. viðauka IV við samþykkt nr. 991/2020 um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar er umhverfis- og skipulagsráði falið að afgreiða án staðfestingar bæjar­stjórnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, tillögu um deiliskipulag ef fallist er á allar athuga­semdir Skipulagsstofnunar um form deiliskipulagstillögu skv. 1. mgr. 42. gr. laganna.

Í samræmi við 41. gr. skipulagslaga var umdeild deiliskipulagsbreyting auglýst til kynningar og afstaða tekin til athugasemda sem borist höfðu á kynningartíma. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 42. gr. laganna og gerði stofnunin athugasemdir með bréfi, dags. 26. október 2023, við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Gerðar voru breytingar á tillögunni en ekki verður séð af fundargerðum sveitarfélagsins að þær breytingar hafi verið teknar fyrir í umhverfis- og skipulagsráði eða bæjarstjórn í samræmi við fyrirmæli 42. gr. skipulagslaga. Breytt tillaga var svo send að nýju til Skipulagsstofnunar sem gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. janúar 2024.

Líkt og fyrr greinir stendur 334,6 m2 íbúðarhús á lóðinni að Strandvegi 51. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins sem tók gildi árið 2015 er heimilað að reisa á umræddri lóð tveggja hæða hús auk þakhæðar. Hámarksbyggingarmagn er tilgreint 849,2 m2 eða 514,6 m2 til viðbótar við það hús sem nú stendur á lóðinni. Samkvæmt auglýstri deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir að hámarksbyggingarmagn verði 1.285 m2 eða 435,8 m2 til viðbótar við það sem áður var heimilað. Nánar tiltekið yrði viðbótarbyggingarmagn á 1. hæð 121 m2, 2. hæð 320 m2, 3. hæð 270 m2 og 4. hæð 240 m2. Í bréfi Skipulagsstofnunar til Vestmannaeyjabæjar frá 26. október 2023 var m.a. sú athugasemd gerð að framsetning deiliskipulagsbreytingarinnar þyrfti að uppfylla gr. 5.8.5.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2003.Vegna þeirrar athugasemdar var sú ákvörðun tekin að breyta framsetningu uppdráttarins. Hefur sveitarfélagið í skýringum sínum til úrskurðarnefndarinnar bent á að í þeirri breytingu hafi efni skipulagsins ekki verið breytt en þó hafi mistök verið gerð við „enduruppsetningu gagnanna“. Þannig hafi hámarks­byggingarmagn verið tilgreint 1.432,6 m2 í bæði skipulagsskilmálum og skýringarmynd um lykiltölur en hefði átt að vera 1.285 m2 eins og í upphaflegri tillögu. Bendir sveitar­félagið hins vegar á að byggingarmagn fyrir hverja hæð hafi ekki tekið breytingum og því hafi leyfilegt byggingarmagn ekki aukist með breyttri framsetningu. Þá tekur sveitarfélagið einnig fram að nýtingarhlutfall hafi fyrir mistök verið breytt milli tillagna úr 3,72 í 3,91, en hefði raunar ekki átt að taka breytingum.

Að framangreindu virtu er ljóst að annmarkar eru á framsetningu hinnar kærðu deiliskipulags­breytingu hvað varðar nýtingarhlutfall og hámarksbyggingarmagn. Uppfyllir breytingin því ekki skilyrði 2. mgr. gr. 5.2.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2003 um skýra og greinargóða skipulagsskilmála. Þar að auki liggur fyrir að í auglýsingu um gildistöku breytingarinnar sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda segir að „[h]eildar byggingarmagn“ verði 1.432 m2, en sem fyrr greinir hefur sveitarfélagið viðurkennt að sú tala sé ekki rétt. Þá er ljóst að hin auglýsta og samþykkta deiliskipulagstillaga tók einnig breytingum hvað varðar efni hennar eftir athugasemdir Skipulagsstofnunar. Með breyttri framsetningu féllu út skilmálar um að við gerð viðbyggingar yrði m.a. notast við krosslímt tré, að taka ætti mið af BREEAM vottunarkerfinu og að stefnt yrði að „góðri innivist með góðri orkunýtingu með endurnýjanlegum orkugjöfum og sjálfbærni með sólarsellum og varmadælulausnum.“ Ekki liggur fyrir hvers vegna þær breytingar voru gerðar en athugasemdir Skipulagsstofnunar lutu ekki að þeim atriðum. Burtséð frá því hvaða ástæður lágu þar að baki þurfa slíkar efnislegar breytingar eftir sem áður að vera afgreiddar í bæjarstjórn eða eftir atvikum í skipulagsnefnd, en svo var ekki gert í máli þessu. Jafnframt hefur sveitarfélagið tekið fram að fyrir mistök hafi sú breyting verið gerð á auglýstri og samþykktri tillögu að merking bílastæðis fyrir Herjólfsgötu 5 hafi dottið út og að til standi að „lagfæra uppdráttinn“ vegna þess. Vegna þeirra athugasemda er bent á að skipulags­uppdráttur verður ekki lagfærður öðruvísi en með breytingu á deiliskipulagi. Þar að auki er bent á að umrædd bílastæði eru utan skipulagsmarka deiliskipulagsbreytingarinnar.

Með hliðsjón af framangreindum form- og efniságöllum verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 14. september 2023 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.

7/2024 Kópavogsbraut

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 21. desember 2023 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi og stak­stæðum bílskúr á lóðinni Kópavogsbraut 12.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Kópavogsbrautar 12, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 21. desember 2023 að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi og stakstæðum bílskúr á nefndri lóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og skipulagsráði gert að taka málið fyrir að nýju. Að auki er gerð krafa um endurgreiðslu vegna kostnaðar við byggingarleyfisumsóknina.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 8. febrúar 2024.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 15. ágúst 2022 var lögð fram fyrirspurn um breytt fyrirkomulag á lóðinni Kópavogsbraut 12. Í breytingunni fólst að á norðurhluta lóðarinnar yrði reist nýbygging, um 295 m2 staðsteypt einbýlishús á einni hæð auk kjallara með aðkomu frá Meðalbraut. Bílastæðum yrði fjölgað úr tveimur í fjögur og nýtingarhlutfall hækkað úr 0,18 í 0,38. Ekki væri gert ráð fyrir því að lóðinni yrði skipt heldur yrði núverandi hús og fyrirhuguð nýbygging á sameiginlegri lóð. Var afgreiðslu erindisins frestað á fundinum með vísan til þess að unnið væri að þróun leiðbeininga og gæðaviðmiða fyrir skipulag og breytingar á lóðum og húsnæði. Fyrirspurnin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 19. desember s.á. og var tekið jákvætt í að fyrirspurnin yrði unnin áfram skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Umsókn um byggingarleyfi vegna umræddrar nýbyggingar var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. apríl 2023 og var umsókninni vísað til skipulagsráðs með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Á fundi skipulagsráðs 5. júní s.á. var erindið tekið fyrir og samþykkt að umsókn um byggingarleyfi yrði grenndarkynnt. Bárust átta athugasemdir og ábendingar við grenndar­kynninguna. Skipulagsráð tók málið fyrir á fundi 21. ágúst 2023 að lokinni grenndarkynningu og var málinu vísað til umsagnar skipulagsdeildar. Á fundi skipulagsráðs 20. nóvember s.á. var lögð fram breytt tillaga þar sem komið var til móts við athugasemdir sem bárust á kynningar­tíma. Var hin fyrirhugaða nýbygging minnkuð um 30 m2 og fór nýtingarhlutfall lóðar við það úr 0,35 í 0,33. Var afgreiðslu málsins frestað á fundinum.

Á fundi skipulagsráðs 4. desember 2023 var málið tekið fyrir að nýju og þar lögð fram umsögn skipulagsdeildar, dags. 1. s.m., sem og greinargerð lóðarhafa, dags. 12. ágúst 2022. Á fundinum var umsókn lóðarhafa hafnað með vísan til umsagnar skipulagsdeildar. Í bókun ráðsins kom fram að tekið væri jákvætt í hugmyndir um þéttingu byggðar á svæðinu sem afmarkaðist af Skjólbraut í vestri, Kópavogsbraut í suðri og Meðalbraut í norðri. Eðlilegt væri að horfa til bæjarlands við Kópavogsbraut við slík áform. Að því leyti væri tekið undir umsögn skipulagssviðs um að svo viðamiklar breytingar sem sótt væri um kallaði á að stærra svæði væri undir við deiliskipulagsgerð. Tækifæri væru til þéttingar á svæðinu bæði til norðurs og suðurs. Var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 7. desember 2023 var málinu vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar sem staðfesti afgreiðslu skipulags­ráðs á fundi sínum 12. s.m. Umsókn kærenda um byggingarleyfi var loks hafnað á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 21 s.m. með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs og bæjarstjórnar.

 Málsrök kærenda: Bent er á að markmið bæjaryfirvalda hafi um áratuga skeið verið að þétta byggð í Kópavogi. Fjölmörg dæmi séu um það í eldri hverfum bæjarins, svo sem á Kársnesi. Nýleg dæmi séu til staðar sem séu sambærileg hugmyndum kærenda um nýbyggingu á norður­hluta lóðarinnar Kópavogsbrautar 12.

Kærendur álíta að grenndarkynning tillögunnar hafi verið meingölluð og hafi athugasemdir nágranna lotið að því að skort hafi á rökstuðning fyrir henni. Við kynninguna hafi ekki fylgt minnisblað kærenda, dags. 2. desember 2022, sem hafi haft að geyma rökstuðning fyrir umsókninni. Að mati kærenda hefði grenndarkynningin verið í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 ef minnisblaðið hefði verið látið fylgja. Þegar starfsmönnum skipulagsdeildar hafi verið bent á þetta hafi komið fram að minnisblaðið hefði verið fylgigagn með fyrirspurn kærenda til bæjarins á sínum tíma en ekki byggingarleyfisumsókninni. Ekki hafi verið gerð tilraun til að upplýsa þá aðila sem grenndar­kynnt hafi verið fyrir hvernig hin fyrirhugaða bygging tengdist markmiðum aðalskipulags bæjarins til áratuga um þéttingu byggðar svo og rammaákvæðum þess eða hvað þá að fjallað væri um hana í samhengi við svonefnda „verkfærakistu“ fyrir þróun byggðar í Kópavogi sem hefði verið mjög upplýsandi.

Óskiljanlegt sé að starfsmenn skipulagsdeildar og að lokum bæjaryfirvöld hafi komist að þeirri niðurstöðu tveimur árum eftir að fyrirspurn kærenda hafi verið lögð fram „að svo veigamiklar breytingar sem lagðar eru til kalli á að stærra svæði sé skoðað líkt og gert er við deiliskipulags­gerð“ eins og segi í niðurstöðu umsagnar skipulagsdeildar sem skipulagsráð byggi afgreiðslu málsins á. Starfsmenn skipulagsdeildar hafi ekki gefið sér tíma til að sinna þeirri rannsóknar­skyldu sem nauðsynleg sé í þeim málum sem deildin sinni og hafi tómlætið bitnað á leið­beiningar­skyldu gagnvart bæjaryfirvöldum. Kærendur hafi lagt sig fram við að vinna málið eftir þeim leiðbeiningum sem þeim hafi verið veittar og eytt miklum tíma og fjármunum í það. Ekki gangi upp að segja eftir á að svæðið umhverfis lóðina hefði átt að vinna samkvæmt annarri grein en 44. gr. skipulagslaga. Starfsmenn bæjarins hefðu átt að vita það þar sem skipulagsdeild hafi tekið sér nægan tíma til að skoða málið ítarlega þegar fyrirspurnin hafi verið send ásamt ítarlegum gögnum 8. ágúst 2022.

Í niðurstöðu umsagnar skipulagsdeildar hafi komið fram að umsóknin væri ekki að fullu leyti í samræmi við rammaákvæði aðalskipulags. Rammaákvæði aðalskipulagsins sé þríþætt en einungis þættir A og B ættu við byggingarleyfisumsóknina. Þá hafi bæjaryfirvöld samþykkt leiðbeiningar um gæði og breytingar á húsnæði eða lóð, svokallaða verkfærakistu fyrir þróun byggðar í bænum. Um væri að ræða gátlista sem lóðarhafar, hönnuðir, starfsmenn skipulags­deildar og ráðamenn geti nýtt sér í umsóknarferli um breytingar í hverfum bæjarins. Fyrirspurn vegna nýbyggingarinnar hafi verið mátuð við þann gátlista.

Í rammaákvæði A1a í aðalskipulagi sé fjallað um nýtingarhlutfall. Þar komi fram að ef fyrirhugaðar séu nýbyggingar á einstökum lóðum þannig að byggingarmagn lóðarinnar eykst skuli nýtingarhlutfall hennar að jafnaði ekki vera hærra en meðaltal nýtingarhlutfalls nær­liggjandi lóða. Meðalstærð lóða við Kópavogsbraut 8–18 sé 1.400 m2 en um 670 m2 við Meðalbraut 8–18. Í töflu 2–1 í greinargerð aðalskipulags komi fram viðmið um nýtingarhlutfall lóða eftir húsgerðum og er viðmið fyrir einbýlishúsalóðir 0,20–0,35. Núverandi nýtingar­hlutfall Kópavogsbrautar 12 sé 0,18 en með tilkomu umræddrar nýbyggingar verði það 0,33. Meðaltals nýtingarhlutfall lóða við Kópavogsbraut 8–18 sé 0,19 en 0,33 við Meðalbraut 8–18. Meðalnýtingarhlutfall lóða, bæði Kópavogsbrautar og Meðalbrautar, sé því 0,24. Þá sé bent á að nýtingar­­hlutfall Meðalbrautar 14 sé 0,34 og Meðalbrautar 16 sé 0,33. Yrði nýtingarhlutfall Kópavogsbrautar 12 með umræddri nýbyggingu því svipað þeim lóðum. Þá sé bent á tvö dæmi um nýbyggingar, Kópavogsbraut 59 og Hlíðarveg 31, þar sem nýtingarhlutfall sé 0,28, vel yfir meðaltali nærliggjandi lóða.

Í rammaákvæði A1c sé fjallað um byggingarlínur. Þar komi fram að nýbygging skuli að jafnaði liggja innan línu sem dregin sé milli húsa sitthvoru megin. Þá sé miðað við meginform aðal­byggingar á viðkomandi lóð. Ljóst sé að fyrirhuguð nýbygging muni liggja utan byggingarlínu en eins og orðalag aðalskipulags sé háttað sé ekki um fortakslaust ákvæði að ræða og vísað sé til nýlegra dæma, annars vegar nýbyggingu við Hlíðarveg 31 og hins vegar Ásbraut 1, en báðar þessar byggingar fari út fyrir byggingarlínu sbr. rammaákvæði A1c. Umrætt rammaákvæði hafi einnig verið í eldra aðalskipulagi og því ekki um nýmæli að ræða.

Kærendur hafi kynnt áform sín fyrir aðliggjandi lóðarhöfum á frumstigi og viðbrögð þeirra hafi verið að leggjast ekki gegn því að hugmyndin yrði unnin áfram. Þá fyrst hafi fyrirspurn verið lögð fyrir skipulagsyfirvöld bæjarins. Leiða megi líkum að því að ef kynnt tillaga að byggingarleyfi hefði ekki verið jafn slæleg af hálfu bæjarins hefðu færri ábendingar borist.  Byggt sé beggja vegna í mörgum götum bæjarins sem séu þrengri eða jafn þröngar og Meðal­braut. Meðalbraut sé með 5,7 m breiða akbraut en víða í suðurhlíðum Kópavogs séu húsagötur 5 m breiðar, t.d. í Fagrahjalla, Furuhjalla o.fl. Í umsögn skipulagsdeildar komi fram að fyrir­huguð aðkoma að nýbyggingunni frá Meðalbraut þrengi aðkomu annarra íbúa við götuna. Síðar í umsögninni segi hins vegar einnig að þetta sé sambærilegt í mörgum götum bæjarins og þar gildi tillitssemi sem og svo oft í samskiptum manna í millum. Þá sé gert ráð fyrir bílastæðum innan lóðar við Melbraut og ætti fjölgun innkeyrslna ekki að hafa mikil áhrif á hvort hægt sé að leggja tímabundið í götu.

Rammaákvæði aðalskipulagsins séu ekki fortakslaus hvað varði nýtingarhlutfall, byggingar­línur, byggðarmynstur o.s.frv. líkt og þau séu sett fram í gildandi skipulagi og nýleg dæmi sanni það. Þrátt fyrir að um matskennda ákvörðun sé að ræða þá hljóti bærinn að vera bundinn af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulögum nr. 37/1993, eins og hvað varði III. kafla laganna þar sem fjallað sé um leiðbeiningarskyldu, málshraða, rannsóknarskyldu, meðalhóf og jafnræði í afgreiðslu einstakra mála. Þrátt fyrir að ákvarðanir í skipulagsmálum geti verið mats­kenndar þá geti bæjaryfirvöld ekki hagað sér eins og þeim sýnist við afgreiðslu mála. Þess sé krafist að bæjaryfirvöldum verði gert að taka málið fyrir að nýju þar sem ákvörðunin byggi meðal annars á ómálefnalegum og ólögmætum sjónarmiðum sem m.a. komi fram í umsögn skipulagsdeildar og vísað sé til sem grundvöll ákvörðunar skipulagsráðs og bæjarstjórnar.

 Málsrök Kópavogsbæjar: Vísað er til þess að lóðin Kópavogsbraut 12 sé samkvæmt Aðal­skipulagi Kópavogs 2019–2040 staðsett á íbúðarsvæði ÍB–1 Kársnes. Svæðinu sé lýst sem nokkuð fastmótaðri byggð í eldri hverfum bæjarins á ódeiliskipulögðum svæðum og byggðin alla jafna 1–3 hæðir. Þá séu yfirlýst markmið fyrir Kársnesið m.a. að stuðla að því að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar og auka sjálfbærni með vistvænum áherslum. Jafnframt sé lögð áhersla á að yfirbragði byggðar og sérkennum hverfisins sé viðhaldið á afmörkuðum götu­reitum á Kársnesi og því skuli fyrirhugaðar breytingar á einstökum lóðum eða hluta götureita á Kársnesi ekki raska heildaryfirbragði aðliggjandi byggðar þar sem meðal annars sé gætt samræmis í götumynd og hlutföllum bygginga. Þessi markmið eigi ekki við um þróunarsvæði eða þar sem unnið sé að nýju deiliskipulagi. Þétting byggðar sé eitt af megin­markmiðum gildandi aðalskipulags bæjarins. Í rammahluta aðalskipulagsins, sem hafi það að mark­miði að útfæra nánari markmið fyrir hvern bæjarhluta, séu sett fram rammaákvæði sem ætlað sé að stýra byggðarþróun á ódeiliskipulögðum svæðum í þegar byggðum hverfum. Umrædd ramma­ákvæði séu þríþætt; A. Almenn rammaákvæði fyrir öll hverfi Kópavogs, B. Ramma­ákvæði fyrir Digranes og Kársnes á ódeiliskipulögðum svæðum og C. Sértæk ramma­ákvæði fyrir heildstæða byggð á fjórum afmörkuðum svæðum. Lóð nr. 12 við Kópavogsbraut sé staðsett á ódeiliskipulögðu svæði og þau rammaákvæði sem eigi við um lóðina heyri því undir flokka A og B auk markmiðs aðalskipulags um þéttingu byggðar.

Erindi kærenda hafi verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki sé fallist á þá staðhæfingu að málsmeðferð grenndarkynningarinnar hafi verið ófull­nægjandi. Tilgangur grenndarkynningar sé að kynna fyrirhugaðar breytingar, hvort sem um sé að ræða byggingarleyfi eða óverulega deiliskipulagsbreytingu með þeim hætti að nágrannar og aðrir hagsmunaaðilar geti áttað sig á því hvort fyrirhuguð breyting hafi slík grenndaráhrif að þeir telji ástæðu til að tjá sig um hana. Það sé því markmiðið að kynningar­gögn gefi hagsmuna­aðilum færi á að átta sig á staðsetningu og ásýnd fyrirhugaðrar byggingar. Á kynningar­uppdrættinum hafi verið að finna greinargóða byggingarlýsingu þar sem fyrirhugaðri byggingu var lýst. Þá hafi þar einnig verið að finna afstöðumynd sem sýndi staðsetningu byggingarinnar á lóðinni sem og myndir af ásýnd hússins frá öllu hliðum. Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að gögnin gæfu fullnægjandi sýn á fyrirhugaða nýbyggingu og mögulegum grenndaráhrifum sem henni gætu fylgt. Það að grunnmynd efri hæðar hússins hafi ekki fylgt með í kynningar­uppdrætti hafi að mati skipulagsyfirvalda ekki verið grundvallar­­forsenda fyrir því að gefa hagsmuna­aðilum rétta sýn á grenndaráhrif fyrirhugaðrar nýbyggingar.

Niðurstaða skipulagsyfirvalda, sem hafi orðið til þess að erindinu hafi verið hafnað af byggingarfulltrúa, hafi vissulega verið sú að erindið væri ekki að öllu leyti í samræmi við rammaákvæði aðalskipulags. Skipulagsyfirvöldum beri að taka mið af meginreglum stjórnsýsluréttar, þar með talið meðalhófi. Þegar skipulagsráð hafi samþykkt að hleypa málinu áfram í grenndarkynningu og leita sjónarmiða nærliggjandi lóðarhafa hafi það meðal annars verið gert á þeim forsendum að kærendur hafi staðhæft að næstu nágrannar litu jákvætt á framlagða tillögu. Af því tilefni hafi skipulagsráð verið tilbúið að skoða hvort ástæða væri til að taka jafn fordæmisgefandi ákvörðun sem gæti jafngilt heildarendurskoðun á skipulagi lóða við Meðalbraut og Kópavogsbraut. Hafi verið tekin ákvörðun um að kynna erindið formlega fyrir hagsmunaaðilum og kanna umhverfi og forsendur fyrir slíkri ákvörðun betur í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu stjórnvalda. Það að skipulagsyfirvöld hleypi erindi áfram í grenndarkynningu eða auglýsingu feli ekki í sér endanlega afstöðu þeirra til erindisins. Það sé aðeins hluti af rannsóknarskyldu og góðum stjórnsýsluháttum að vinna erindið áfram með ítarlegum hætti.

Rannsóknarskyldu hafi verið sinnt við meðferð málsins með ítarlegum hætti og það sama megi segja um leiðbeiningarskyldu. Ítarleg samskipti hafi verið við kærendur frá upphafi ferlisins og meðal annars hafi starfsmenn skipulagsdeildar fundað í tvígang með kærendum að lokinni grenndarkynningu með það að markmiði að reyna að koma til móts við athugasemdir en jafnframt til þess að leiðbeina kærendum um að móta tillöguna betur að rammaákvæðum aðalskipulags. Lagðar hafi verið fram tillögur að breytingum til þess að draga úr grenndaráhrifum og aðlaga að rammaákvæðum. Þeim tillögum hafi verið hafnað af kærendum. Þó svo þeir hafi verið tilbúnir að draga lítillega úr umfangi og byggingarmagni hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að þær breytingar dygðu ekki til að skipulagsyfirvöld væru tilbúin að samþykkja erindið.

Ómálefnalegt sé að miða upphaf málsmeðferðarinnar við framlagningu fyrirspurnar. Miklu frekar ætti að miða við dagsetningu byggingarleyfisumsóknar, þ.e. upphaf formlegrar með­ferðar stjórnsýsluerindisins sem hafi haft í för með sér endanlega ákvarðanatöku í málinu. Erindinu hafi upphaflega verið skilað inn til byggingarfulltrúa og móttekið af hans hálfu 15. mars 2023. Ekki hafi verið hægt að senda erindið áfram til skipulagsráðs fyrr en búið hafi verið að leiðrétta teikningar í samræmi við athugasemdir byggingarfulltrúa. Hafi leiðréttar teikningar verið mótteknar 31. s.m. og erindinu vísað til skipulagsráðs 14. apríl s.á. samkvæmt hefðbundu verklagi byggingarfulltrúa. Frá því erindinu hafi verið vísað til skipulagsráðs voru einungis haldnir tveir fundir hjá ráðinu áður en málið var samþykkt til grenndarkynningar. Það teljist ekki óeðlilegur tími fyrir vinnu starfsfólks skipulagsdeildar við að undirbúa erindi fyrir ákvörðun skipulagsráðs af þessari stærðargráðu. Frá því málið hafi verið samþykkt til grenndar­kynningar og þar til lokaákvörðun hafi verið tekin í málinu hafi liðið rúmir sex mánuðir. Það verði að teljast eðlilegur málshraði þegar um byggingar- og skipulagsmál sé að ræða.

Ekki hafi reynst fótur fyrir fullyrðingum kærenda um jákvæða afstöðu nágranna. Þvert á móti hafi borist hörð mótmæli frá nokkrum þeirra. Þá liggi fyrir að tillagan hafi ekki samræmst að fullu rammaákvæðum aðalskipulags sem beri að líta til við byggðarþróun í grónum og ódeili­skipulögðum hverfum. Þar megi helst nefna rammaákvæði er varði meðalnýtingarhlutfall og byggingarlínu í viðkomandi götu. Líkt og fram hafi komið í umsögn skipulagsdeildar myndi fyrirhuguð nýbygging hafa í för með sér að nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,18 í 0,33. Meðalnýtingarhlutfall lóða við Kópavogsbraut 2-22 sé 0,17 og meðalnýtingarhlutfall stærra svæðis, þ.e. Kópavogsbrautar og Meðalbrautar, sé 0,24. Ljóst sé að nýtingarhlutfall Kópavogs­brautar 12 sé yfir meðalnýtingarhlutfalli á svæðinu. Þó sé að finna lóðir við Meðalbraut sem séu með sambærilegt nýtingarhlutfall og gert sé ráð fyrir með fyrirhugaðri nýbyggingu við Kópavogs­braut 12. Hins vegar sé vert að benda á að lóðarhafi hafi óskað eftir því að lóðinni yrði ekki skipt í tvær lóðir. Ef lóðinni yrði skipt upp yrði nýtingarhlutfall að hækka upp í 0,47. Það hafi verið staðfest með úrskurði úrskurðarnefndarinnar að þegar vikið sé frá því sem almennt gerist á nærliggjandi lóðum geti það ekki talist í samræmi við rammaákvæði aðal­skipulags. Þá hafi umrædd nýbygging það í för með sér að ný byggingarlína muni myndast. Slík breyting myndi veita fordæmi fyrir næstu hús við Kópavogsbraut til að fara í slíkar breytingar. Það hafi verið mat sveitarfélagsins að slík breyting á byggðarmynstri myndi kalla á að lóðum yrði skipt upp og myndu nýjar lóðir þá tilheyra Meðalbraut en ekki Kópavogsbraut og myndi götumynd Meðalbrautar þar af leiðandi breytast og umferð aukast. Myndu slíkar breytingar þá jafnframt hafa áhrif á nýtingarhlutfall lóðanna. Eftir á að hyggja hefði að öllum líkindum ekki verið ástæða til að hleypa erindinu áfram í kynningu þar sem það hafi ekki samræmst rammaákvæðum aðalskipulags að fullu.

Þau fordæmi sem kærendur hafi haldið fram að eigi við séu ekki sambærileg en einnig sé bent á að þau hafi verið samþykkt í gildistíð Aðalskipulags Kópavogs 2012–2024 og sé búið að útfæra rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040 með ítarlegri hætti. Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur og byggð á málefnalegum rökum.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Ein megin ástæða þess að óskað hafi verið eftir byggingar­leyfi sé meginmarkmið gildandi aðalskipulags Kópavogs sem sé þétting byggðar. Í minnisblaði frá nóvember 2022 sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókninni hafi verið gerður samanburður á rammahluta aðalskipulags og verkfærakistu um þróun byggðar. Minnisblaðið hafi verið unnið í þeim tilgangi að gefa hagsmunaaðilum sýn á grenndaráhrif fyrirhugaðrar nýbyggingar og því hafi verið miður að gögnin hafi ekki fylgt með þegar málið hafi verið sent til grenndarkynningar og síðar tekið fyrir í skipulagsráði. Ein athugasemd nágranna við grenndarkynningu hafi verið á þá leið að skort hafi rökstuðning með umsókn um byggingarleyfi. Þann rökstuðning hafi meðal annars mátt finna í umræddu minnisblaði.

Í kynningarbréfi bæjaryfirvalda sem sent hafi verið vegna grenndarkynningar hafi komið fram: „Sótt er um leyfi fyrir byggingu annars einbýlishúss með bílageymslu á lóðinni, norðan núverandi húss, alls 255m2 á tveimur hæðum“. Þessi setning hafi verið villandi og gert það að verkum að gerð hafi verið athugasemd að um „þriggja hæða varðturn“ væri að ræða, þegar í raun væri einungis um að ræða eina hæð auk kjallara. Öllum nauðsynlegum gögnum hafi verið skilað til bæjarins áður en grenndarkynning hafi farið fram, þar með talið grunnmyndum bæði af hæð og kjallara hússins. Lesa megi úr orðum sveitarfélagsins að það skipti máli hvort umsækjendur sjálfir eða þriðji aðili sendi inn gögn til að þau hljóti viðhlítandi meðferð og nái inn í grenndarkynningu. Kærendur geti ekki borið ábyrgð á því að starfsmönnum sveitar­félagsins yfirsjáist að láta hluta gagna fylgja með og það hljóti að vera hægt að gera þá kröfu að í grenndarkynningu fái nágrannar sem skýrasta mynd af fyrirhugaðri byggingu, m.a. með grunnmynd af bæði hæð og kjallara hússins.

Þær athugasemdir sem fram hafi komið við grenndarkynningu verði ekki talin hörð mótmæli líkt og sveitarfélagið haldi fram. Það hafi vissulega borist athugasemdir eins og við hafi verið að búast þegar ráðist sé í breytingar í eldri byggðum. Þarna megi vísa til vankanta á grenndar­kynningu sem og þess tíma sem leið frá því að kærendur hafi rætt hugmyndir sínar við nágranna þar til málið hafi verið grenndarkynnt. Þá hafi sveitarfélagið ekki haft samband til að finna einhvern flöt til samvinnu í málinu.

Farið hafi verið ítarlega yfir nýtingarhlutfall lóðarinnar samanborið við nærliggjandi lóðir sem bærinn hafi skautað framhjá þegar fullyrt sé að sambærilegar lóðir sé að finna á Meðalbraut. Rétt sé að þrjár lóðir séu með hærra nýtingarhlutfall, Meðalbraut 10, 14 og 18 og ein með sama nýtingarhlutfall, Meðalbraut 16.

Það hafi verið fyrir tilstilli skipulagsdeildar að kosið hafi verið að skipta lóðinni ekki upp. Skipulagsdeild hafi ekki fyrr en á allra síðustu stigum málsins komið með tillögu um að skipta henni upp. Kærendur hafi frá upphafi óskað eftir leiðbeiningum og tillögum frá Kópavogsbæ og tekið þær til greina við vinnslu málsins. Það hafi hins vegar orðið mikil breyting á viðmóti og farið að skorta á leiðbeiningar þegar nýr starfsmaður hafi tekið við málinu í maí 2023. Það hafi margsinnis verið ítrekað að kærendur væru opnir fyrir öllum tillögum, óskað hafi verið eftir leiðbeiningum til að mæta athugasemdum nágranna og komast að málamiðlun.

Fullyrðingar bæjaryfirvalda um að ekki hefði verið ástæða til að hleypa erindinu áfram í kynningu þar sem það hafi ekki samræmst að fullu rammaákvæðum séu alvarlegar í ljósi þeirrar vinnu og tilheyrandi kostnaðar sem það hafi skapað. Það sé eðlilegt að ekki séu allir íbúar í nærumhverfi sammála þeim breytingum sem gerðar yrðu á lóðinni en það sé óhjákvæmilegt að breytingar hafi áhrif. Því hafi verið bent á dæmi þar sem vel hafi til heppnast í gömlum og grónum götum.

Illa hafi verið staðið að vinnslu málsins og því sé mótmælt að málið hafi verið unnið ítarlega. Gögn málsins sýni ítrekuð samskipti að frumkvæði kærenda og skort á leiðbeinandi svörum. Til viðbótar við kröfu um endurupptöku sé því gerð krafa um endurgreiðslu kostnaðar vegna allrar þeirrar vinnu sem hafi átt sér stað í kringum umsóknarferlið allt frá tímavinnu kærenda, vinnu arkitekts og umsýslugjalds sem reitt hafi verið af hendi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs­bæjar að synja kærendum um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi og stakstæðum bílskúr á lóðinni Kópavogsbraut 12. Á lóðinni er fyrir einbýlishús og bílskúr. Byggingarleyfisumsóknin var grenndar­kynnt íbúum nærliggjandi húsa en ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir svæðið.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Þá tekur nefndin ekki afstöðu til bótakrafna, svo sem um um greiðslu kostnaðar vegna stjórnsýslumáls. Verður því einungis tekin afstaða til ógildingarkröfu kærenda í máli þessu.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr skipulagslaga nr. 123/2010 gildir sú meginregla að gera skal deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við land­notkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndar­kynningu. Ef greind skilyrði 1. mgr. 44. gr. eru ekki uppfyllt er ekki heimilt að beita ákvæðum um grenndarkynningu og ber þá að deiliskipuleggja viðkomandi svæði í samræmi við 2. mgr. 37. gr. laganna.

Á fundi skipulagsráðs 19. desember 2022 var tekið jákvætt í hugmyndir kærenda og að þær yrðu unnar áfram skv. 44. gr. skipulagslaga en ákvörðun bæjaryfirvalda um að synja kærendum um byggingarleyfi var studd þeim rökum að umsóknin væri ekki að öllu leyti í samræmi við rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040. Jafn viðamiklar breytingar og sótt væri um kölluðu á að stærra svæði yrði undir við deiliskipulagsgerð.

Í greinargerð Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040 er að finna almenn rammaákvæði sem gilda um þegar byggð hverfi. Rammaákvæðunum er skipt upp í þrjá flokka, en byggingarleyfis­umsókn sú sem kæra þessi varðar fellur undir flokka A og B. Í flokki A er að finna eitt almennt rammaákvæði sem skipt er upp í þrennt og á við öll hverfi Kópavogs, en í flokki B eru þrjú ákvæði sem eiga við um Digranes og Kársnes á ódeiliskipulögðum svæðum.

Samkvæmt rammaákvæði A1a skal byggingarmagn nýbygginga að jafnaði ekki vera hærra en sem nemi meðalnýtingarhlutfalli nærliggjandi lóða. Nýtingarhlutfall á lóð Kópavogsbrautar 12 er nú 0,18 en með tilkomu umræddrar nýbyggingar myndi það hækka í 0,33. Meðal­nýtingarhlutfall nálægra lóða á Kópavogsbraut og Meðalbraut er 0,24. Meðalnýtingarhlutfall á Kópavogsbraut 8, 10, 12, 14, 16 og 18 er einungis 0,19 en meðalnýtingarhlutfall á Meðalbraut 8–18 er 0,33. Það skýrist að miklu leyti af því að meðalstærð lóða á Meðalbraut er um helmingur þess sem er á Kópavogsbraut eða 670 m2 á móti 1.390 m2. Er því ljóst að um mun meira byggingarmagn er að ræða með hinni fyrirhuguðu nýbyggingu á lóð Kópavogsbrautar 12 en er á lóðum Meðalbrautar þrátt fyrir sambærilegt nýtingarhlutfall þar sem umrædd lóð er tvöfalt stærri. Meðalnýtingarhlutfall lóða á Meðalbraut einni verður því ekki talið eiga við sem mælikvarði á meðalnýtingarhlutfalli nærliggjandi lóða. Verður að telja að nýtingar­hlutfall með umræddri nýbyggingu sé ekki í samræmi við rammaákvæði A1a um að byggingar­magn nýbyggingar verði að jafnaði ekki hærra en meðaltal nýtingarhlutfalls nærliggjandi lóða.

Í rammaákvæði A1c kemur fram að nýbygging á lóð skuli að jafnaði liggja innan línu sem dregin sé á milli húsa sitt hvoru megin við. Staðsetning fyrirhugaðrar nýbyggingar er á norður­hluta lóðar Kópavogsbrautar 12 en núverandi bygging á lóðinni er í beinni línu með öðrum húsum sunnan megin Kópavogsbrautar. Er ekkert annað hús í götunni í línu við hina umræddu nýbyggingu. Eins og kærendur benda á er ákvæðið ekki ófrávíkjanlegt, en horfa þarf til þess að umrædd bygging myndi í raun tilheyra götumynd Meðalbrautar en við þá götu, þar sem hún liggur norðan Kópavogsbrautar, er einungis byggt norðan megin götunnar. Væri því um að ræða verulega stefnubreytingu hvað varðar skipulag byggðar við Meðalbraut og væri byggingin ekki í samræmi við byggðamynstur líkt og 44. gr. skipulagslaga gerir kröfu um.

Ljóst er af því sem að framan hefur verið rakið að umrædd umsókn um byggingarleyfi uppfyllti ekki rammaákvæði gildandi aðalskipulags og var bæjaryfirvöldum því ekki heimilt að samþykkja hana á grundvelli grenndarkynningar samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga enda er heimild til grenndarkynningar samkvæmt ákvæðinu bundin því skilyrði að umsókn sé í samræmi við aðalskipulag. Mögulegir annmarkar á grenndarkynningunni, svo sem kærendur byggja á, hafa ekki áhrif á niðurstöðu málsins enda voru skilyrði til grenndarkynningar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga ekki uppfyllt.

Verður af framangreindum ástæðum ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 21. desember 2023 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi og stak­stæðum bílskúr á lóðinni Kópavogsbraut 12.