Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2020 Garðavegur

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 22. desember 2020, sjá hér.

Árið 2020, þriðjudaginn 8. september tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðar-nefnd umhverfis- og auðlindamála fyrir:

Mál nr. 70/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2020, er barst nefndinni 31. s.m., kærir eigandi Garðavegar 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á kæranda frá og með 10. júlí 2020. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 24. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem farið var fram á að umdeildur stigi við vesturhlið húss kæranda að Garðavegi 18 yrði fjarlægður, en byggingarleyfisumsókn kæranda vegna stigans hafði áður verið synjað. Veittur var fjögurra vikna frestur til að fjarlægja stigann en að öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 109/2019, uppkveðnum 20. mars 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Tilmælum byggingarfulltrúa hefði hins vegar ekki verið fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu og hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 30. mars 2020, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem vísað var til áðurgreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og farið fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður innan fjögurra vikna eða í síðasta lagi 29. apríl 2020. Ef ekki yrði brugðist við yrði dagsektum beitt frá og með 30. s.m. Mál kæranda var svo aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 24. júní 2020. Á fundinum var samþykkt að leggja dagsektir á kæranda frá og með 10. júlí 2020. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 43/2020, uppkveðnum 10. júlí 2020, var vísað til þess að í málinu lægi fyrir ákvörðun um beitingu dagsekta frá 10. júlí 2020 en hvergi væri getið um fjárhæð þeirra. Því væri ljóst að á grundvelli þeirrar ákvörðunar einnar og sér sem hefði verið kærð yrðu dagsektir ekki lagðar á kæranda. Hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál kæranda var enn tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. júlí 2020. Á fundinum var eftirfarandi bókað: „Tekið fyrir að nýju. Eigandi hefur reist stiga í óleyfi. Eiganda hafa verið send bréf þess efnis og ekki brugðist við. Afgreiðslufundur skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkir að leggja dagsektir á eiganda Garðavegs 18 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Dagsektir, 20.000 kr. pr. dag, verða lagðar á frá og með 10. júlí 2020.“ Kæranda var send tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 15. júlí 2020, og hefur kærandi borið málið undir úrskurðarnefndina, eins og að framan greinir.

Kærandi tekur meðal annars fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hafi verið ákveðið að leggja á dagsektir frá og með 10. júlí 2020. Sé þetta löglegt neyðist hann til að selja fasteign sína. Ekki sé hægt að hafa þetta yfir höfði sér.

Bæjaryfirvöld vísa til athugasemda í kærumáli nr. 43/2020. Þar sé m.a. bent á að kærandi hafi reist án leyfis stiga við hlið hússins að Garðavegi 18. Hafi verið farið ítarlega yfir stöðu málsins og honum gerð grein fyrir eðli þess. Í öllum samskiptum liggi skýrt fyrir að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingarfulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Niðurstaða: Með tölvupósti frá bæjaryfirvöldum Hafnarfjarðarbæjar er barst úrskurðar-nefndinni 7. september 2020 vegna kærumáls þessa var tilkynnt að kærandi hefði fjarlægt umþrættan stiga og byggingarfulltrúi því fallið frá ákvörðun sinni um dagsektir.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að byggingarfulltrúi afturkallaði hina kærðu ákvörðun um beitingu dagskekta hefur ákvörðunin ekki réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

67/2020 Fjósatunga

Með

Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 67/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 25. júní 2020 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur spildunnar Grjótárgerðis, Þingeyjarsveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 25. júní 2020 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu. Er þess m.a. krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 21. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Á árinu 2019 var óskað heimildar til að fara að 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hefja vinnu við deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar frístundabyggðar. Skipulagslýsing var auglýst og í kjölfar athugasemda og umsagna var unnin deiliskipulagstillaga. Hinn 26. mars 2020 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu vegna uppbyggingar frístundabyggðar. Tillagan var auglýst og frestur gefinn til athugasemda til 20. maí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar 18. júní 2020 var lagt til við sveitarstjórn að hún samþykkti fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu með áorðnum breytingum í samræmi við svör nefndarinnar við innsendum athugasendum. Jafnframt lagði nefndin til að skipulagsfulltrúa yrði falið að sjá um málsmeðferð vegna gildistöku tillögunnar í samræmi við lög og reglugerðir. Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 25. júní 2020 var tekin fyrir fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 18 s.m. Samþykkti sveitarstjórn tillögu að nýju deiliskipulagi Fjósatungu að teknu tilliti til athugasemda/umsagna og svara nefndarinnar. Var og bókað að skipulagsfulltrúa væri falin málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins.

Kærendur vísa m.a. til þess að deiliskipulagstillagan lúti að landnýtingu jarðarinnar Fjósatungu, Þingeyjarsveit sem liggi að og umlyki spildu kærenda, Grjótárgerði. Breytt deiliskipulag hafi bein og mikil áhrif á nýtingu þeirrar frístundalóðar vegna gríðarlegs þéttleika og byggingarmagns sem hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir.

Af hálfu Þingeyjarsveitar er krafist frávísunar. Umþrætt deiliskipulag hafi ekki tekið gildi og gildistaka þess ekki auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Málsmeðferð deiliskipulags samkvæmt ákvæði 42. gr. skipulagslaga standi nú yfir. Þar sé gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki deiliskipulag til athugunar og fari yfir það hvort efnis- eða formannmarkar séu á samþykktu deiliskipulagi. Nú séu ekki lögvarðir hagsmunir kærenda til kærumálsmeðferðar enda ríki óvissa um gildistöku ákvörðunar og endanlegt efni hennar. Því beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Auglýsing hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulags Fjósatungu en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Jafnframt liggur fyrir að Skipulagsstofnun hefur ekki lokið yfirferð sinni á deiliskipulaginu, sbr. fyrirmæli 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar um, og hefur af hálfu Þingeyjarsveitar verið vísað til þess að ekki liggi fyrir hver afgreiðsla stofnunarinnar verði á hinu umdeilda deiliskipulagi. Þar sem óvissa ríkir um afdrif deiliskipulagsins og lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar eru ekki uppfyllt, verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Árétta skal að ljúki meðferð deiliskipulagsins með gildistöku þess með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda telst mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar frá þeirri birtingu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

20/2020 Hrauntunga

Með

Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2020, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 21. janúar 2020 um að synja beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns vegna lóðarinnar Hrauntungu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. mars 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Dalsnes ehf., Fossaleyni 21, Reykjavík, eigandi fasteignarinnar Hrauntungu í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 21. janúar 2020 að synja beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns vegna lóðarinnar Hrauntungu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að fallast á beiðni kæranda. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að taka málið fyrir á nýjan leik.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 1. júní 2020.

Málavextir: Kærandi er eigandi húss og lóðarréttinda á lóðinni Hrauntungu í Garðabæ, en lóðin er um 3,2 ha að flatarmáli. Hinn 29. september 2015 komu fulltrúar kæranda á fund skipulags­nefndar Garðabæjar og greindu frá hugmyndum hans um uppbyggingu á lóðinni. Á fundi skipulagsnefndar 30. júní 2016 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Varðaði tillagan aðallega breytingar á gatnakerfi en ekki var gert ráð fyrir frekari byggð á lóðinni Hrauntungu. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarráðs 5. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda. Gerði hann athuga­semd við að ekki væri gert ráð fyrir nýjum byggingum á lóðinni og vísaði til þess að samkvæmt aðalskipulagi væri lóðin á svæði fyrir íbúðabyggð.

Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 9. mars 2017 ásamt minnisblaði skipulagsstjóra um svör við framkomnum athugasemdum. Í svari við athuga­semdum kæranda segir að fyrrverandi lóðarhafi umræddrar lóðar hafi lagt áherslu á „að hafa lóðina óbyggða og varðveita gróðurinn sem hann hafi lagt sál sína í að rækta. Ákveðin gæði eru fólgin í slíku umhverfi sem skipulagið varðveitir og í því felst enginn mismunur gagnvart lóðarleiguhafa sem áfram hefur sinn rétt samkvæmt leigusamningi um að byggja eitt hús.“ Samþykkti nefndin deiliskipulagstillöguna með breytingum sem gerðar voru til að koma til móts við athugasemdir sem borist höfðu. Var sú afgreiðsla samþykkt í bæjarráði 14. mars 2017 og í bæjarstjórn 16. s.m. Skipulagsstjóri Garðabæjar sendi kæranda bréf, dags. 29. september s.á., með svörum við athugasemdum sem borist höfðu. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. október 2017.

Kærandi kærði deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði uppkveðnum 10. janúar 2019, í kærumáli nr. 131/2017, hafnaði nefndin kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar. Í kjölfar úrskurðarins sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar með bréfi, dags. 28. mars 2019, þar sem lagðar voru fram tvær tillögur að skipulagi lóðarinnar Hrauntungu. Á fundi bæjarráðs 9. apríl s.á. var umsókn kæranda vísað til skipulags­nefndar, en jafnframt var fært til bókar að bæjarráð árétti þá kvöð sem fram komi í 2. gr. lóðarleigusamnings lóðarinnar um að landið sé leigt leigutaka til byggingar íbúðarhúss og til skógræktar. Í bréfi kæranda frá 10. s.m. var óskað eftir upplýsingum um hvort sambærileg ákvæði hafi verið í lóðarleigusamningnum „sem voru gerðir um lóðirnar í kring á svipuðum tíma og lóðarleigusamningur var gerður um Hrauntungu.“

Hinn 22. desember 2019 kærði kærandi drátt á afgreiðslu erinda sinna með vísan til málshraða-reglu 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en hann hafði þá hvorki fengið afgreiðslu á erindi sínu frá 28. mars s.á. né svar við fyrirspurn sinni frá 10. apríl s.á. Á fundi bæjarráðs 21. janúar 2020 var erindi kæranda tekið fyrir. Var bókað að bæjarstjóri hafi kynnt drög að svarbréfi við bréfi kæranda og honum falið að svara bréfinu. Í bréfi bæjarritara, dags. 30. janúar 2020, til kæranda kom fram að sveitarfélagið telji ekkert fram komið sem kalli á breytingar á skipulagi umræddrar lóðar í samræmi við tillögur kæranda. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2020, óskaði kærandi eftir svari við fyrirspurn sinni frá 10. apríl 2019 um sambærileg ákvæði í lóðarleigusamningum annarra lóða á svæðinu. Í bréfi bæjarritara til kæranda, dags. 17. febrúar s.á., var fyrirspurn kæranda svarað.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi eignast lóðina Hrauntungu árið 2011 og hafi strax lýst yfir áhuga við bæjaryfirvöld að skipuleggja lóðina upp á nýtt líkt og gert hafi verið við lóðir í kring. Ítrekað hafi komið fram af hálfu kæranda að sú byggð gæti farið mjög vel saman við þann gróður og útsýni sem fyrir sé á lóðinni og að vinna mætti skipulagið þannig að Garðbæingar og aðrir gætu notið umhverfisins. Á árinu 2016 hafi verið auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns og hafi kærandi komið að athugasemdum vegna tillögunnar. Í minnisblaði skipulagsstjóra um framkomnar athugasemdir hafi komið fram að fyrrverandi lóðarhafi hafi lagt áherslu á að „hafa lóðina óbyggða og varðveita gróðurinn sem hann hafði lagt sál sína í að rækta. Ákveðin gæði séu fólgin í slíku umhverfi sem skipulagið varðveitir og í því felst engin mismunun gagnvart lóðarleiguhafa sem áfram hefur sinn rétt samkvæmt leigusamningi um að byggja eitt hús.“

Deiliskipulagsbreytingin hafi verið samþykkt en kærandi hafi kært þá ákvörðun til úrskurðar­nefndarinnar. Í úrskurði sínum hafi nefndin talið að við ákvörðun um skipulag tiltekins svæðis geti sveitarfélag ekki látið niðurstöðu sína ráðast af vilja fyrrum lóðarleiguhafa um upp­byggingu á lóðinni. Þá hafi nefndin vísað til þess að í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felist „fyrst og fremst breyting á legu gatna“. Hins vegar hafi verið tekið fram að í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið gert ráð fyrir „þeim möguleika að lóðinni Hrauntungu, sem og annarri stórri lóð, verði skipt í smærri lóðir með sambærilegu skipulagi og þar sé lýst. Verður að telja að með því móti hafi verið komið í nokkru til móts við óskir kæranda og meðalhófs verið gætt.“ Forsendur úrskurðarins feli sér viðurkenningu á annars vegar því að sá rökstuðningur sem bærinn hefði teflt fram fyrir synjun sinni væru ekki málefnalegur og hins vegar að fyrirliggjandi greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar feli í sér að lóðarhafi Hraun­tungu hefði þann möguleika að fá að skipta lóð sinni upp í smærri lóðir. Á grundvelli þess hafi erindi kæranda frá 28. mars 2019 um að breyta skipulagi lóðarinnar verið sent til Garðabæjar.

Bærinn hafi nú sem fyrr hafnað tillögum um breytingu á skipulagi lóðarinnar. Bent sé á að þær tillögur séu í beinu samhengi og orsakasambandi við þær forsendur sem fram komi í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 131/2017. Synjunin sé ekki lengur byggð á vilja fyrrum lóðarhafa heldur á því að lóðarleigusamningur girði fyrir að gerðar séu breytingar á fyrirkomulagi lóðarinnar. Nánar tiltekið komi fram í bréfi bæjarritara frá 30. janúar 2020 að um sé að ræða leigulóð til byggingar íbúðarhúss og skógræktar. Leigutími lóðarinnar sé 50 ár og að þegar sé liðinn rúmlega helmingur leigutíma og „því möguleiki á að landið falli til Garðabæjar að leigutíma loknum sem gefur tækifæri til að skilgreina landið allt eða hluta þess sem opið svæði.“ Ekki sé fallist á þennan rökstuðning. Bærinn vilji ekki virða eigin greinargerð með skipulagi vegna þess að ákvæði lóðarleigusamnings, sem bærinn sjálfur sé aðili að, sé orðað með tilteknum hætti. Bærinn sé að reyna að setja fyrri rökstuðning sinn, þ.e. að einhvers konar óljóst og óskjalfest loforð við fyrri eiganda komi í veg fyrir uppbyggingu, í nýjan búning. Lóðarleigu­samningar hafi almennt veitt lóðarhafa öll eðlileg afnot af leigulóðinni í krafti lóðarleigu­samningsins. Rökstuðningur bæjarins fari gegn ákvæðum skipulagsins sem það hafi sjálft sett, en þau ákvæði hafi komið til eftir að lóðarleigusamningurinn var gerður.

Hin nýja afstaða bæjarins sé á engan hátt rökstudd frekar eða reynt að útskýra hvers vegna eðlilegt sé að kærandi fái þessa meðferð þegar lóðum í kring hafi verið heimilt að fá skipulagi sínu breytt. Ítrekað sé að ríkur vilji sé til þess að leyfa umhverfi lóðarinnar að njóta sín í breyttu skipulagi en vert sé að benda á að í dag sé umrædd lóð einkalóð og afgirt þannig að náttúra hennar nýtist engum. Rökstuðningur bæjarins standist því ekki skoðun. Ákvörðun bæjarins fari gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga, vönduðum stjórnsýsluháttum og meginreglum skipulagslaga nr. 123/2010 um forræði lóðarhafa á skipulagi á sínum lóðum.

Málsrök Garðabæjar: Bæjaryfirvöld vísa til greinargerðar Garðabæjar í máli úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 131/2017 þar sem afstaða sveitarfélagsins komi fram en þar segi að skipulagsvaldið sé í höndum sveitarstjórnar og verði eigendur landa og lóða almennt að lúta málefnalegum ákvörðunum þeirra í því efni. Hafi kærandi ekki getað haft væntingar til þess að fá auknar heimildir til byggingar á svæði þar sem skipulagi hafi verið frestað og það sér í lagi þegar þess sé gætt að forveri hans, sem var upphaflegur lóðarhafi, hafi sérstaklega óskað þess að svæðið yrði áfram nýtt til skógræktar sem hann hafi stundað á landinu. Breyti þar engu þótt svæðið sé skilgreint sem íbúðarsvæði í aðalskipulagi, enda megi á slíkum svæðum gera ráð fyrir opnum svæðum, leiksvæðum, görðum og þjónustulóðum fyrir nær­þjónustu án þess að það sé sérstaklega tilgreint á uppdrætti. Í lóðarleigusamningi um lóðina Hrauntungu komi skýrt fram að aðeins sé leyfi til að byggja eitt íbúðarhús á lóðinni og óheimilt sé að reisa byggingar á landinu. Í bréfi til kæranda, dags. 30. janúar 2020, sé þessi afstaða ítrekuð.

Ekki sé óalgengt að lóðarleigusamningar hafi að geyma ákvæði eða kvaðir sem þrengi land­notkun miðað við það sem annars væri ef aðeins væri horft til skipulags og sé auðvitað ekkert við það að athuga þótt eigandi lóðar vilji halda skilmálum samningsins. Sveitarfélagið sé eigandi lóðarinnar og eðlilegt að það hafi meira um það að segja hvernig lóðinni verði ráðstafað heldur en leigutaki samkvæmt samningi sem meira en helmingur leigutímans sé liðinn. Sveitar­félagið árétti að sú afstaða að gera ekki tillögur um breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar að Hrauntungu ráðist ekki af vilja fyrrum lóðarhafa þó að afstaða hans hafi verið kunnug um að varðveita ræktun og byggja ekki frekar á lóðinni. Tilvísun til vilja fyrri eigenda hafi enga þýðingu í málinu enda sé það ekki sá vilji sem ráði afstöðu sveitarfélagsins. Sjónarmið um varðveislugildi lóðarinnar séu alveg óháð vilja fyrri eigenda.

Mikil vakning hafi orðið í umhverfismálum á þeim áratugum sem liðnir séu frá því minni erfðaleigulöndum á skipulagssvæðinu hafi verið skipt upp í fleiri lóðir á árunum milli 1960 og 1990 og nú séu aðeins stærstu lóðirnar eftir óskiptar og ósnortnar, þ.e. Hrauntunga og Hraun, sem jafnframt eru þau svæði þar sem mest skógrækt hafi átt sér stað. Hafi afstaða sveitar­félagsins verið hin sama til þessara svæða, þ.e. að halda í þau eins og þau eru og sé þannig gætt jafnræðis milli þeirra aðila sem séu í sambærilegri stöðu. Hafi það einstakt gildi fyrir skipulag heildarsvæðisins og verði þau sjónarmið að teljast málefnaleg.  Ákvæði í deiliskipulagi sem fjalli um möguleika á að skipta löndum Hrauns og Hrauntungu breyti ekki því að skipulags­valdið sé hjá sveitarfélaginu en í því felist ekki bara vald til að ákveða hvort leyfa eigi breytingu á skipulagi og skipta upp landi, heldur líka hvenær í slíka breytingu yrði ráðist.

Frá því að deiliskipulag svæðisins hafi upphaflega verið samþykkt árið 2003 hafi enginn lóðar­hafi fengið að breyta skipulagi til að skipta upp landi eða lóð. Það sé því ekki um neina mismunun að ræða eða brot á jafnræðisreglu. Allt aðrar ástæður séu í dag en voru á síðari hluta síðustu aldar auk þess sem þau lönd sem skipt hafi verið upp á þeim tíma hafi ekki verið sambærileg við Hrauntungu og Hraun hvað varði stærð lands og umfang ræktunarstarfs, einkum skógræktar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar að við kaup á lóðinni Hrauntungu árið 2011 hafi hvergi komið fram neins konar kvöð eða tilkynning um að fyrri eigandi hefði komið á framfæri vilja sínum um að lóðin ætti að vera óbreytt um alla framtíð. Hvað þá að sveitarfélagið hefði tekið þá afstöðu upp og myndi fortakslaust leggjast gegn öllum breytingum á skipulagi lóðarinnar þaðan í frá. Í greinargerð sveitarfélagsins með skipulagi um Hrauntungu hafi komið skýrt fram að unnt sé að fá skipulagi lóðarinnar breytt. Að halda því fram af hálfu bæjarins að örðugt sé að fara í þessa breytingu vegna innviða þá sé því alfarið hafnað. Um sé að ræða lóð í miðju byggðu hverfi með öllum umferðarmannvirkjum til staðar og öðrum innviðum sem máli skipta. Um sé að ræða nýtt sjónarmið af hálfu bæjarins, þar sem kæranda hafi aldrei verið gerð grein fyrir því að bærinn byggði synjun sína á innviðum og mögulegri uppbyggingu þeirra og þá hvaða innviða væri horft til að þessu leyti.

Nú virðist sem afstaða bæjarins byggist fyrst og fremst á orðalagi lóðarleigusamnings. Því sé alfarið hafnað og bent á að lóðarleigusamningar hafi verið í gildi um aðrar sambærilegar lóðir þegar skipulagi þeirra lóða hafi verið breytt. Sé því andmælt sem ólögmætu sjónarmiði af hálfu bæjarins að bera þetta fyrir sig auk þess sem það standist ekki jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frá því að umræddur lóðarleigusamningur hafi verið gerður hafi sveitarfélagið a.m.k. í tvígang lýst því yfir í greinargerð með skipulagi að vilji bæjarins standi til þess að breyta skipulagi en að því sé frestað. Í öllum erindum sínum til sveitarfélagsins hafi verið ítrekað tekið fram að kærandi vilji hlúa að náttúru svæðisins. Þessi viðleitni mæti hins vegar engum áhuga sveitarfélagsins. Lóðin sé einkalóð og notuð sem slík í dag en sveitarfélagið fjalli um lóðina líkt og um sé að ræða friðaða náttúruperlu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin til endur­skoðunar lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. janúar 2020 að synja beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns vegna lóðarinnar Hrauntungu. Hins vegar fellur það utan valdheimilda nefndarinnar að taka ákvörðun um að leggja fyrir sveitar­félagið að samþykkja umsótta breytingu á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags skv. 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er það í valdi sveitarstjórnar að samþykkja deiliskipulag, sbr. 40. – 42. gr. laganna. Gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Sveitarfélagi er falið víðtækt vald í skipulagsmálum, líkt og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga en við beitingu þess valds ber þó að fylgja markmiðum laganna sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Skipulagsvald sveitarstjórna er tæki þeirra til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Í lögum er skipulagsyfirvöldum ekki sett sérstök tímamörk um hvenær hrinda skuli einstökum þáttum skipulags í framkvæmd og það því háð mati þeirra hvenær og með hvaða hætti til dæmis ráðist er í þéttingu byggðar á einstökum svæðum. Verður almennt að búast við því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema til þess að ná lögmætum skipulags­markmiðum eða með hliðsjón af öðrum almannahagsmunum. Ber sveitarstjórn við meðferð slíkra tillagna að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rök­stuðning ákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er lóðin Hrauntunga á skilgreindu íbúða­svæði. Í gildandi deiliskipulagi Garðahrauns, sem upphaflega tók gildi á árinu 2003, er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðabyggðar á svæði sunnan Garðahraunsvegar. Þar hefur aðeins komið til uppbyggingar á tveimur lóðum og ekki liggja fyrir áætlanir um frekari uppbyggingu að svo stöddu. Á lóð kæranda Hrauntungu, sem er um 3,2 ha og er á umræddu svæði, er gert ráð fyrir einu einbýlishúsi líkt og í gildandi lóðarleigusamningi. Hefur kærandi ítrekað leitað eftir samþykki skipulagsyfirvalda fyrir uppbyggingu íbúðabyggðar á lóðinni.

Við málsmeðferð síðustu breytingar á deiliskipulagi Garðahrauns sem samþykkt var á árinu 2017 fór kærandi fram á að settar væru í skipulagið heimildir til uppbyggingar íbúðasvæðis á lóð hans en þeirri málaleitan var hafnað. Var sú niðurstaða kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Í forsendum nefndarinnar í því máli var komist að þeirri niðurstöðu að sú afstaða sveitarfélagsins að vilja varðveita þau gæði sem felast í lítt byggðri lóð innan svæðisins væru ekki talin ómálefnaleg. Var og talið að hin kærða ákvörðun fæli ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki væri gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu í umræddri deiliskipulagsbreytingu. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið og þar sem aðstæður hafa ekki breyst frá fyrri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 131/2017, þykir ekki tilefni til að breyta mati hennar sem fyrir liggur forsendum þess úrskurðar.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því að einstaklingar eða lögaðilar eiga ekki lögvarinn rétt til að knýja fram skipulagsbreytingar gegn vilja skipulagsyfirvalda, verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Garðabæjar frá 21. janúar 2020 um að synja beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns vegna lóðarinnar Hrauntungu.

15/2020 Naustabryggja

Með

Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. febrúar 2020, sem barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Naustabryggju 31-33, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. apríl 2020.

Málavextir: Fyrirliggjandi gögn bera það með sér að kærandi og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 í Reykjavík. Byggingarfulltrúa barst tölvupóstur frá kæranda 10. janúar 2018, þar sem spurt var um hvort verk fengi lokaúttekt ef ákvæði um frágang, fjölda og stærð bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða væri ekki fullnægt. Einnig var spurt hvort verktaki fengi leyfi fyrir slíkri framkvæmd, þar sem fyrir lægi að lóð aðalinngangs byggingar væri á einkalóð annarra en þeirra sem byggju í umræddri byggingu og hvort eða hvernig hann gæti þá uppfyllt skilyrði lokaúttektar um stæði fyrir hreyfihamlaða. Erindinu var svarað að hluta til með tölvupósti starfsmanns skipulags­fulltrúa 15. s.m. á þann veg að kæranda hefði í tvígang verið sendir tölvupóstar með fylgi­gögnum er vörðuðu svæðið.

Hinn 22. febrúar 2019 barst Reykjavíkurborg annað erindi frá kæranda þar sem vakið var máls á því að bygging Naustabryggju 31-33 og annar frágangur stangaðist á við byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem engin aðkoma væri fyrir hreyfihamlaða. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með tölvupósti 7. mars 2019, þar sem meðal annars var vísað til teikningar af bílakjallaranum á lóð Naustabryggju 17-19 og 31-33 og Tangabryggju 6-8, 10 og 12-12A, en þar komi fram að í kjallaranum séu fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða og önnur átta bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu á lóð fyrir utan bílageymslu sem tilheyri húsunum.

Með tölvupósti til skipulagsfulltrúa 20. júní 2019 fór kærandi fram á við borgaryfirvöld að gildandi deiliskipulagi yrði breytt þannig að Naustabryggja 31-33 fengi afnot af bílastæðum norðan við húsið og stæði fyrir fatlaða yrði merkt hið fyrsta ásamt því að tryggja aðkomu neyðarbíla. Erindinu var svarað af hálfu skipulagsfulltrúa 12. september s.á. þar sem skipulagslegar aðstæður voru skýrðar. Í svarpósti skipulagfulltrúa kom meðal annars fram að ef óskað væri eftir afstöðu skipulagsfulltrúa hvort mögulegt væri að breyta deiliskipulagi þyrfti að senda fyrirspurn þess efnis í gegnum rafræna Reykjavík.

Hinn 5. nóvember 2019 sendi kærandi Reykjavíkurborg erindi að nýju og var því svarað með tölvupósti yfirverkfræðings byggingarfulltrúa 20. nóvember 2019 og fylgdi í viðhengi öryggis- og lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna umræddrar byggingar ásamt umsókn um byggingarleyfi og afgreiðslu hennar í fundargerð. Byggingarfulltrúi svaraði jafnframt erindinu með tölvupósti sama dag. Þar kom meðal annars fram að ekki yrði annað séð en að gerð væri góð grein fyrir algildri hönnun og aðkomu fyrir alla á samþykktum teikningum. Með tölvupósti 24. nóvember 2019 til Reykjavíkurborgar áréttaði kærandi kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 að skilyrðum byggingarreglugerðar væri fylgt og a.m.k. þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðalinngangi þessara tveggja stigaganga. Erindinu var svarað af hálfu byggingarfulltrúa 25. nóvember s.á. Ítrekaði hann að embættið hafi ekki komið að gerð deiliskipulags. Kröfur um bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt byggingarreglugerð væru uppfylltar í bílastæðakjallara. Vissulega væri erfitt að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfi­hamlaða við götu, nálægt aðalinngöngum hússins vegna staðsetningar lóðarmarka til norðurs, en bæði væru merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóðinni og við næstu götur. Þau væru þó vissulega ívið lengra frá aðalinngöngum en kveðið væri á um í byggingarreglugerð. Því yrði ekki breytt á meðan lóðarmörkin við norðurhlið húsanna nr. 31-33 við Naustabryggju væru eins og raun bæri vitni samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Með tölvupósti sem var sendur af hálfu skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til byggingar­fulltrúa 21. janúar 2020 var þess óskað að tekin yrðu saman þau svör sem veitt hafi verið vegna fyrirspurna kæranda og honum sent heildstætt lokasvar vegna ítrekunar hans á því að ófullnægjandi svör hafi borist við erindi hans. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. s.m., voru samskipti borgaryfirvalda og kæranda reifuð og í niðurstöðu bréfsins var eftirfarandi tekið fram: „Ítrekað er að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða er í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, en eins og áður hefur komið fram er kröfum um bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða þegar fullnægt í bílakjallara hússins, en auk þeirra eru stæði fyrir hreyfihamlaða á lóð. Kröfu þinni um að Reykjavíkurborg tryggi, án tafar, aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðal­inngangi Naustabryggju 31-33 er því hafnað.“ Var og tilkynnt að embættið muni ekki aðhafast frekar vegna málsins og kæranda bent á að afgreiðsla erindis hans væri kæranleg til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Var þessi afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefndina eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að aðgengi fyrir fatlaða sé ekki tryggt frá bílakjallara Naustabryggju 31-33. Bílastæðin séu án sérstakrar hönnunar sem sýni sig til dæmis í því að hurðir á milli kjallara og íbúðarhúss séu ekki með sjálfvirkum opnara. Þá séu hvorki uppfyllt skilyrði um fjarlægð né fjölda stæða. Byggingarfulltrúi hafi staðfest að stæðin séu lengra frá en byggingarreglugerð nr. 112/2012 geri ráð fyrir. Reykjavíkurborg sé ekki heimilt að víkja með samningum frá ákvæðum byggingarreglugerðar um aðgengi fatlaðra. Núverandi skipulag hafi þá þýðingu að íbúar hússins geti ekki keypt sér þjónustu að heimili sínu um það gatnakerfi sem liggi að húsinu heldur þurfi þeir að gefa upp annað heimilisfang. Þetta bjóði upp á að skipulag borgarinnar sé að óþörfu bæði óáreiðanlegt og handahófskennt. Kærandi telji að lagfæra megi stöðuna með því að gera bílastæði norðanmegin og næst húsinu að framanverðu sem liggi að borgarlandi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í samþykktri byggingarlýsingu á aðaluppdráttum fyrir Naustabryggju 31-33, dags. 10. október 2014, segi um bílastæði fyrir hreyfihamlaða: „Bílageymsla er aðgangsstýrð, og er eitt stæði fyrir hverja íbúð. Útisvæði fyrir húsin eru á lóðinni 12E og við götur. Sjá nánar bílastæða-bókhald hér að ofan. Gert er ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða.“ Í samþykktri byggingarlýsingu sé einnig með ítarlegum hætti fjallað um algilda hönnun. Þar segi að íbúðir séu hannaðar með þeim hætti að auðvelt sé að taka þær í notkun fyrir einstaklinga í hjólastól. Á samþykktum aðaluppdráttum fyrir bílageymslu komi fram að gert sé ráð fyrir fjórum bílastæðum ætluðum hreyfihömluðum. Þar að auki komi fram í bréfi byggingarfulltrúa til forsvarsmanns kæranda að gert sé ráð fyrir átta bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fyrir utan bílgeymslu. Bendi byggingarfulltrúi á að hafi þessi stæði ekki verið merkt hreyfihömluðum sérstaklega, þá skuli slíkt gert í samræmi við samþykkt byggingarleyfi.

Í gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé fjallað um bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 5. mgr. greinarinnar sé að finna töflu 6.01 þar sem gerð sé grein fyrir lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús. Samkvæmt samþykktu byggingarleyfi fyrir fasteignina Naustabryggju 31-33 séu íbúðir í fasteigninni 30 talsins. Samkvæmt því skuli að lágmarki gera ráð fyrir þrem bílastæðum ætluðum þeirri fasteign. Fasteignin sé á lóð með fleiri matshlutum og deili bílakjallara þar að auki. Í heildina sé gert ráð fyrir 12 bílastæðum fyrir hreyfihamlaða. Miðað við heildarmagn íbúða á lóðinni verði ekki annað sé en að krafa byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða ætluðum hreyfihömluðum hafi verið uppfyllt.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem taki til fasteignarinnar Naustabryggju 31-33 liggi lóðar­mörk að bílastæðalóð sem tilheyri Naustabryggju 35-55 og 55-57. Eina aðkoman að Nausta­bryggju 31-33 sé um gönguleið sem liggi að lóðarmörkum og því sé ekki hægt að komast að inngangi nema um þá aðkomu. Naustabryggja 31-33 hafi hvorki þinglýsta kvöð né skipulags­kvöð um umferð um bílastæðalóðina. Fasteignin sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Lóðarmörk séu skýr sem og skipulagsskilmálar. Tekið sé undir það sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. nóvember 2019, um að byggingarfulltrúi hafi ekkert með gerð deiliskipulags að gera. Hlutverk byggingarfulltrúa sé meðal annars að veita byggingarleyfi í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Niðurstaða: Fyrirliggjandi gögn málsins bera með sér að kæranda og Reykjavíkurborg greini á um aðkomu að Naustabryggju 31-33 og fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða við fasteignina. Með hinni kærðu ákvörðun var kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 um að borgaryfirvöld tryggðu án tafar aðgengi hreyfihamlaðra að aðalinngangi hússins hafnað með þeim rökum að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða væri í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þar segir í 1. mgr. að bílastæði skulu vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti og að eitt af hverjum fimm bílastæðum, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5×5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði, um 3 m að lengd. Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en u.þ.b. 25 m. Mælt er fyrir um það í 5. mgr. að fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, skuli að lágmarki vera samkvæmt töflu 6.01. Í þeirri töflu kemur fram að þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 21-40 skuli vera þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 9. mgr. ákvæðisins er síðan kveðið á um að ávallt skuli gera ráð fyrir bílastæðum sem henti fyrir hreyfihamlaða í bílgeymslum sem almenningur hafi aðgang að og að fækka megi bíla­stæðum á lóð mannvirkis samkvæmt töflu 6.01 sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfi­hamlaða í sameiginlegri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna.

Fjölbýlishúsið að Naustabryggju 31-33 er með 30 íbúðum og skulu þar því vera þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. nefnda gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð. Á samþykktum uppdráttum byggingarleyfis hússins kemur fram að þar skuli vera fjögur sérmerkt bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða í sameiginlegri bílageymslu fyrir fjölbýlishúsin að Tangabryggju 6-8, 10, 12 og Naustabryggju 17-19, 31-33 og 15B. Þá er og gert ráð fyrir átta stæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fyrir utan bílgeymslu, merkt 12E á skipulagsuppdrætti.

Í gildi er deiliskipulag Bryggjuhverfisins, síðast breytt með ákvörðun borgarráðs frá 18. desember 2017, vegna húsa 12A, B, C, D, E og 15C + spennistöð. Samkvæmt skipulaginu liggja lóðarmörk Naustabryggju 31-33 að bílastæðalóð sem tilheyrir Naustabryggju 35-55 og 55-57. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sem gert er ráð fyrir að séu staðsett á bílastæðalóð 12E, eru samkvæmt lóðarblaði um eða yfir 60 m frá bílastæðinu að þeim inngangi Naustabryggju 31-33, sé farið með austurhlið lóðarinnar að framhlið hússins. Samkvæmt framangreindri 2. mgr. gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar skulu bílastæði fyrir hreyfihamlaða ekki vera fjær aðalinngangi byggingar en u.þ.b. 25 m. Er ákvæði greinarinnar um hámarksfjarlægð umræddra stæða frá aðalinngangi umrædds húss því ekki uppfyllt.

Með hliðsjón af framangreindu eru annmarkar á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar sem leiða til ógildingar. Breytir engu í því efni þótt nefnt fyrirkomulag sé í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda getur deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingar­reglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu samþykktir aðal­uppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

37/2020 Leynisbrún

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 37/2020, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Grindavíkurbæjar frá 23. mars 2020 á umsókn um byggingarleyfi vegna Leynisbrúnar 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. maí 2020, er barst nefndinni 13. s.m., kærir eigandi fasteignarinnar að Leynisbrún 6, Grindavík, „…ákvörðun skipulagsnefndar Grindavíkur frá 23. mars 2020 um að veita byggingarleyfi vegna byggingaráforma við Leynisbrún 4…“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Umsókn eiganda hússins nr. 4 við Leynisbrún um leyfi fyrir viðbyggingu við bílgeymslu fasteignarinnar var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Grindavíkurbæjar 3. febrúar 2020. Lagði skipulagsnefnd til að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum í nærliggjandi húsum. Erindið var grenndarkynnt frá 12. febrúar til 11. mars 2020. Bárust athugasemdir frá kæranda. Umsóknin var aftur tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 23. mars s.á. þar sem bókað var að grenndarkynning vegna byggingaráforma við Leynisbrún 4 hefði farið fram. Ein athugasemd hefði borist sem hefði verið tekin fyrir en ekki tekin til greina. Þá var bókað að skipulagsnefnd samþykki byggingaráformin og byggingarfulltrúi gæfi út byggingarleyfi þegar tilskyldum gögnum hefði verið skilað inn.

Kærandi heldur því m.a. fram að ákvörðun skipulagsnefndar bæjarins sé ófullnægjandi, hlutdræg og andstæð skipulagslögum nr. 123/2010 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. bent á að vísa eigi kærunni frá í heild sinni þar sem ekki sé um lokaákvörðun máls að ræða, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kveðið á um það að ákvarðanir skipulagsnefnda sveitarfélaga eða sveitarstjórna séu ekki lokaákvarðanir í málum hvað varði útgáfu byggingarleyfa á grundvelli grenndarkynningar samkvæmt 44. gr. skipulagslaga, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í kærumáli nr. 166/2016.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.

Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, en þá skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er tiltekið í lagagreininni að þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr sömu laga. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis í kjölfar grenndarkynningar er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki sem eru rakin hér að framan.

Í því máli sem hér um ræðir lét skipulagsnefnd fara fram grenndarkynningu, en úrskurðarnefndin hefur fengið staðfest frá bæjaryfirvöldum að byggingarfulltrúi hafi ekki haft aðkomu að málinu. Jafnframt að í kjölfar samþykktar skipulagsnefndar sendi umsækjandi teikningar og skráningu iðnmeistara til byggingarfulltrúa sem gefi út byggingarleyfi í kjölfarið, en þetta skref hafi þó ekki verið tekið í máli þessu vegna þess ágreinings sem væri uppi.

Hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar frá 23. mars 2020 er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur liður í málsmeðferð sem lýkur með ákvörðun byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi hefur hins vegar ekki veitt leyfi til hinna umdeildu framkvæmda eins og áskilið er í mannvirkjalögum. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í máli þessu verður ekki hjá því komist að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Þó þykir rétt að benda á að veiti byggingarfulltrúi leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku þá í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2020 Kirkjubraut

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 19/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erinda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Skólabraut 6, Seltjarnarnesi, þá „háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að gera ekki neitt skv. bréfi dags. 30. janúar 2020“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærður sé dráttur á afgreiðslu erinda kæranda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 16. apríl og 18. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur beint erindum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnessbæjar frá ágúst 2017 vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut sem kærandi er ósáttur við. Í kjölfar nokkurra samskipta stöðvaði byggingarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar framkvæmdir við byggingu umdeilds skúrs með erindi, dags. 23. júlí 2018, þar sem vísað var til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Voru framkvæmdir stöðvaðar þar til borist hefðu fullnægjandi svör við nánar tilgreindum spurningum byggingarfulltrúa, m.a. hvort eigandi skúrsins teldi framkvæmdina falla undir minniháttar framkvæmd samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Skýringar bárust með bréfi, dags. 1. ágúst s.á., og áttu frekari samskipti sér stað eftir það.

Með umsókn, dags. 22. nóvember 2019, sótti eigandi íbúðar að Kirkjubraut 7 um byggingarleyfi fyrir geymsluskúr á lóðinni. Í umsókninni var vísað til þess að skúrinn stæði á milli tveggja steyptra bílgeymsla annars vegar á Kirkjubraut 7 og hins vegar á Skólabraut 8 og að byggingarfulltrúa hefðu borist undirskriftir frá aðilum um samþykki fyrir skúrnum. Hinn 15. janúar 2020 var erindi Kirkjubrautar 7 tekið til umræðu á fundi skipulags- og umferðarnefndar. Bókaði nefndin að fela byggingarfulltrúa að kynna fyrirliggjandi gögn fyrir lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Kærandi leitaði upplýsinga frá bæjaryfirvöldum með tölvupósti 3. febrúar s.á. og benti að staðfest hefði verið að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Fékk kærandi sent afrit af áðurgreindri afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar og barst kæra úrskurðarnefndinni 28. febrúar 2020, svo sem áður segir.

Meðferð málsins var fram haldið og með bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa Kirkjubrautar 7, dags. 15. apríl 2020, var upplýst að ljóst væri að bygging skúrsins félli undir ákvæði g-liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar um að vera smáhýsi sem ekki þyrfti byggingarleyfi að öðru leyti en því að ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa á lóðinni nr. 6 við Skólabraut en skúrinn stæði nær þeim lóðarmörkum en þrír metrar. Þar sem skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt og ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir skúrnum væri ljóst að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Var lóðarhafa gefinn frestur til að sækja um byggingarleyfi en ella fjarlægja skúrinn innan 21 dags frá móttöku bréfsins.

Kærandi vísar til þess að mál skúrsins á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut hafi nokkrum sinnum verið tekið fyrir í skipulags- og umferðarnefnd. Kærandi sé einn eigandi að nærliggjandi lóð og hafi aldrei skrifað undir eða samþykkt eitt né neitt. Sé kærð sú háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að aðhafast ekki samkvæmt bréfi, dags. 30. janúar 2020. Skúrinn sé óleyfisframkvæmd og standi enn þá og hafi ekkert farið. Ekki sé að sjá að hann sé á förum.

Af hálfu Seltjarnarnessbæjar er vísað til þess að það bærinn hafi ekki talið sér fært að fallast á að framkvæmdin félli undir undanþágu gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem samþykki kæranda hafi ekki legið fyrir í málinu, sbr. skilyrði 5. tölul. g-liðar ákvæðisins. Í þessu sambandi sé þó bent á að lóðirnar snertist ekki nema horn í horn auk þess sem skúr standi á lóðinni nr. 6 við Skólabraut.

Sveitarfélagið hafi ekki talið annað fært en að gefa eiganda skúrsins kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni enda hafi fjarlægðarreglan ekki átt við í því tilviki sem sótt sé um byggingarleyfi. Nokkur dráttur hafi orðið á málinu en það hafi stafað af því að sveitarfélagið hafi leitast við að ná sáttum í málinu á milli nágranna en hafi ekki haft erindi sem erfiði í þeirri viðleitni sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt því sem rakið hefur verið í málavaxtalýsingu er uppi ágreiningur um byggingu skúrs á lóðinni að Kirkjubraut 7 og hefur kærandi ítrekað beint athugasemdum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnesbæjar vegna framkvæmdarinnar. Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið slegið föstu að skúrinn sé byggingarleyfisskyldur og var framkvæmdaraðila gefinn kostur á að sækja um slíkt leyfi eða fjarlægja skúrinn ella, en til þess stendur vilji kæranda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, svo sem viðurkennt hefur verið af hálfu sveitarfélagsins. Meðferð málsins var þó fram haldið eftir af kæra barst og hefur úrskurðarnefndin aflað þeirra upplýsinga frá bæjaryfirvöldum að málið sé í vinnslu og standi til á næstu dögum að beita þvingunarúrræðum til að umdeildur skúr verði fjarlægður. Benda þessar upplýsingar til þess að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms. Er því ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Dragist áframhaldandi meðferð málsins hins vegar úr hófi er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar. Þá er rétt að benda á að breytist afstaða sveitarfélagsins á þann veg að byggingarfulltrúi samþykki byggingaráform fyrir umræddan skúr er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

65/2020 Hagasel

Með

Árið 2020, föstudaginn 21. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Heiðarseli 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fram­kvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. júlí 2020.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag miðsvæðis Seljahverfis, sem samþykkt var í borgarráði 9. ágúst 1988, en upphaflegir skipulagsskilmálar fyrir Seljahverfi eru frá marsmánuði 1973. Hinn 19. desember 2018 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu skipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Hagasel. Í tillögunni fólst m.a. hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar úr 0,32 í 0,42 með heimilaðri byggingu á 600 m² íbúðakjarna á tveimur hæðum með átta íbúðum, ætluðum sem búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2019. Hinn 4. febrúar 2020 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn Félagsbústaða um byggingu tveggja hæða fjölbýlishúss með átta íbúðum á lóðinni Hagaseli 23 sem ætlað væri sem búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkur­borgar og Félagsbústaða. Á árituðum aðaluppdráttum sem fylgdu hinu kærða byggingarleyfi var brúttóflatarmál A- og B-rýma samkvæmt skráningartöflu 629,1 m² og nýtingarhlutfall lóðar­innar þar með 0,44.

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 85/2019, uppkveðnum 27. febrúar 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að þar sem stærð fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni nr. 23. við Hagasel væri ekki í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, væri óhjákvæmilegt að fella byggingarleyfið úr gildi. Hins vegar var hafnað kröfu um ógildingu ákvörðunar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi að því er varðaði lóðina að Hagaseli 23.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. mars 2020 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða, átta íbúða fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs og Félagsbústaða á lóð nr. 23 við Hagasel. Fyrirhugað hús yrði 580,2 m² (A-rými) og 48,9 m² rými undir svölum og svalagöngum (B-rými), eða samtals 629,2 m². Það gæfi nýtingarhlutfallið 0,44. Var umsókninni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. mars s.á., var vísað til þess að óskað væri eftir skipulagslegri afstöðu til aukningar á byggingarmagni B-rýma um 29,2 m². Heildaraukningin væri því 29,2 m². Breytingin væri talin óveruleg, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segi að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis gæti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndar­kynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðaði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Var því ekki gerð skipulagsleg athugasemd við erindið. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. mars 2020 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt deiliskipulagi megi húsið á lóðinni nr. 23 við Hagasel vera 600 m² og nýtingarhlutfall 0,42. Lóðin sé 1.435 m². Byggingarleyfisumsókn sýni 580,2 m² hús (A-rými) og 48,9 m² undir svölum og svalagöngum (B-rými), eða skráða A+B fermetra 629,2 m². Það gefi nýtingarhlutfallið 0,438 (0,44). Munurinn sé 29,2 m² yfir leyfilegu nýtingarhlutfalli sem sé ekki í samræmi við heimildir deiliskipulags. Samkvæmt skilgreiningu á nýtingarhlutfalli, sbr. byggingarreglugerð nr. 112/2012, sé verið að samþykkja meira byggingarmagn en heimilt sé og sé því farið fram á ógildingu á ákvörðun byggingar­fulltrúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 12. mars 2020, en þar komi fram að um óverulega breytingu (stækkun) sé að ræða samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé heimilt við útgáfu byggingarleyfis að víkja frá kröfum um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu. Ljóst sé að umræddir fermetrar hafi engin áhrif á hagsmuni kærenda umfram það sem 600 m2 hús hefði mögulega haft, en form, staðsetning og hæð byggingarinnar sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og verði grenndaráhrif hennar því þau sömu og vænta mátti. Hafi kærendur ekki gert tilraun til að sýna fram á með hvaða hætti stækkunin hafi áhrif á hagsmuni þeirra.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að það verði að teljast undarleg vinnubrögð þegar skipulagsyfirvöld geri sérstaka deiliskipulagsbreytingu á reitnum með því að auka byggingarmagn í 600 m² en ákveða síðan að samþykkja 30 m² stærri byggingu en heimildir segi til um í deiliskipulagi. Fram komi í greinargerð borgaryfirvalda að um sé að ræða óverulega stækkun sem nemi tæpum 30 m² umfram heimildir í deiliskipulagi eða tæp 5%. Skilgreining á nýtingarhlutfalli eigi bæði við um A- og B rými og sé því ljóst að gera þurfi deiliskipulags­breytingu og grenndarkynna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 eða minnka húsið um áðurnefnda umframfermetra.

Stækkun hússins geti með engum hætti flokkast sem óverulegt frávik í ljósi þess að um 5% viðbótarstækkun sé að ræða sem laumað hafi verið í gegnum stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og hafi aldrei verið kynnt íbúum svæðisins. Viðbótarstækkanir af þessari stærðargráðu umfram heimildir í deiliskipulagi séu afar sjaldan samþykktar innan stjórnsýslu Reykjavíkur, enda sé hugsunin á bak við beitingu þessa ákvæðis sú að einungis skuli það gert í sérstökum tilfellum sem ekki eigi við í þessu tilviki þar sem hægt sé að fara aðrar leiðir. Því sé mótmælt að hagsmunir skerðist ekki við þessa umframfermetra, því aukningin hafi áhrif á útsýni vegna stærri byggingar og hafi auk þess bein áhrif á nýtingu reitsins.

Niðurstaða: Fyrir liggur að á árituðum aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis er brúttóflatarmál A- og B-rýma samkvæmt skráningartöflu 629,1 m² og nýtingarhlutfall um­ræddrar lóðar þar með 0,44. Heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt deiliskipulagi er 0,42, sem heimilar allt að 602,7 m² byggingu. Stærð fyrirhugaðs mannvirkis er því samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Reykjavíkurborg telur hins vegar að frávik frá deiliskipulagi rúmist innan heimildarákvæðis 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga getur sveitarstjórn heimilað að gefið sé út byggingar­leyfi sem víki óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Ljóst er að um undanþáguákvæði er að ræða sem túlka ber þröngt. Stærð fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni við Hagasel 23 er 26,4 m² umfram leyfilegt hámarksflatarmál húss samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins. Lóðin er staðsett í grónu hverfi og ekki unnt að útiloka að umdeild frávik frá gildandi deiliskipulagi hafi grenndaráhrif gagnvart kærendum umfram það sem verið hefði samkvæmt heimildum deili­skipulags.

Með vísan til þess sem að framan er rakið voru þau ströngu skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga fyrir því að vikið sé frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og verður hún því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félags­bústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel.

35/2020 Langholtsvegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 21. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Langholtsvegi 138, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndar­innar uppkveðnum 29. maí 2020 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. maí 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 17. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja stein­steyptan bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð húss þess sem stendur á lóðinni. Umsókninni fylgdi m.a. samþykki sameigenda fyrir framkvæmdunum.

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júní 2019 og ákveðið að vísa málinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. júlí s.á., kom fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Hinn 10. september 2019 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin og var byggingarleyfi gefið út 29. apríl 2020. Í útgefnu byggingarleyfi er tekið fram að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að umdeild byggingaframkvæmd sé ekki í samræmi við deiliskipulag Vogahverfis frá árinu 2010. Áður en byggingarleyfi verði veitt þurfi því að fara fram grenndarkynning. Deiliskipulag heimili ekki svalabyggingu að Langholtsveg 136. Slík bygging virðist jafnframt í andstöðu við deiliskipulagið frá 2010, en þar komi fram að við endurbætur skuli leitast við að viðhalda upprunalegu formi húsa. Í deiliskipulaginu segi: „Byggingarreitir bílskúra eru afmarkaðir á skipulagsuppdrætti. Í einhverjum tilfellum eru eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra. Gildir þá sú samþykkt. Byggingarreitir bílskúra eru almennt 5×7 m fyrir einnar hæðar einfaldan bílskúr en 7,5×7 m fyrir einnar hæðar tvöfaldan bílskúr.“

Deiliskipulagið frá 2010 sýni ekki byggingarreiti bílskúrs. Ekki séu heimildir til þess að byggja bílskúr á svo óljósum grundvelli sem felist í því að í deiliskipulagi sé vísað til „eldri byggingar­nefndarsamþykkta“. Það sé í andstöðu við tilgang skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að vísa til svo óljósra heimilda. Um það megi vísa til skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðarinnar. Hvað sem þessu líði sé ljóst að sá byggingarreitur sem komi fram á eldri lóðarblöðum sé mun minni en 5×7 m. Hann rúmi ekki um 31 m² bílskúrsbyggingu. Eigi eldri heimildir að hafa þýðingu, þá þýði það jafnframt að byggja þurfi á stærð byggingarreits samkvæmt þeim heimildum. Bygging bílskúrs virðist í ósamræmi við önnur deiliskipulagsákvæði, t.a.m. að ekki megi fjölga innkeyrslum að húsum, að ekki megi fjölga bílastæðum og það markmið að ekkert jarðrask verði utan byggingarreita.

Þá sé skilyrði fyrir byggingaráformum eftirfarandi: „Skilyrt er að ný eignaskiptayfirlýsing sé samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis, henni verður þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt.“ Sá aðili sem standi að byggingaráformum eigi hvorki forgangs- eða eignarrétt að bílskúrs­byggingu á lóð Langholtsvegar nr. 136 samkvæmt gildandi eignaskiptayfirlýsingu. Gera verði þá kröfu að fyrir liggi samþykki annarra eigenda og eignarréttarlegar forsendur fyrir framkvæmdum eins aðila á sameignarhluta húss og lóðar komi fram með skýrum hætti.

Bæði bílskúrsbygging og svalabygging raski grenndarhagsmunum eigenda Langholtsvegar 138 og sé beinlínis gert ráð fyrir að framkvæmdasvæðið fari 1,5 m inn á lóð þeirra. Frágangur lóðar og umsjón byggingarsvæðis sé hluti byggingarleyfis og byggingaryfirvöld þurfi að ganga úr skugga um að eigendur svæðis heimili framkvæmd og nauðsynleg afnot áður en byggingar­leyfi sé gefið út. Eigendur Langholtsvegar 138 séu því aðilar máls og beri að gæta að réttindum þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, meðal annars með upplýsingagjöf, leiðbeiningum og að veita andmælarétt. Þá sé í ósamræmi við löggjöf á sviði skipulags- og byggingarmála að veita byggingarleyfi til framkvæmda á lóð annars aðila án samþykkis þess aðila. Gengið sé á eignarréttarlega hagsmuni eigenda Langholtsvegar 138, sbr. þá röskun sem verði af byggingum við og nærri lóðarmörkum og nýrra svala á hlið Langholtsvegar 136 sem snúi að Langholtsvegi 138.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að samkvæmt Aðalskipulagi Reykja­víkur 2010-2030 sé Langholtsvegur 136 í skilgreindri íbúðar­byggð, merkt ÍB27. Í gildi sé deiliskipulag fyrir Vogahverfi, samþykkt 1. september 2010. Í skilmálum deiliskipulags fyrir svæði A, sem Langholtsvegur 136 tilheyri, segi: „Lögð er áhersla á að halda í fíngert yfirbragð byggðar. […] Nýtingarhlutfall einbýlis- og sambýlishúsa á svæði A verði allt að 0,6.“ Bundin byggingarlína sé skáhallt á götu og hús í þriggja m fjarlægð frá lóðarmörkum vestan við götu en í sex m fjarlægð frá lóðarmörkum austan við götu.

Samkvæmt deiliskipulaginu sé 7×5 m stór byggingarreitur í norðvestur horni umræddrar lóðar fyrir bílskúr. Þar segi að „nýir bílskúrar hafi sömu yfirborðsáferð og önnur hús á lóðinni“ og verður bílskúrinn steinsteyptur líkt og aðalhúsið sé. Einnig komi fram í skilmálum deili­skipulagsins að byggingarreitir bílskúra séu afmarkaðir á skipulagsuppdrætti. Í einhverjum tilfellum séu eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra. Gildi þá sú samþykkt. Fjallað sé um viðbyggingar og kvisti í deiliskipulaginu og falli svalir undir þá skilgreiningu. Samþykki meðlóðarhafa fyrir framkvæmdum þurfi að liggja fyrir, bæði fyrir svölum og bílskúr. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag.

Áhyggjur kærenda vegna hugsanlegra framkvæmda séu skiljanlegar en í gildi sé samþykkt borgarráðs frá 1. september 1998 sem kveði á um að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektum, sbr. gr. 2.4.7. og 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Minnt sé á að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir nýbyggingu á lóðinni og hafi breytingin ekki meiri áhrif á framkvæmdatíma né rask á meðan á framkvæmdum standi, en vera myndi samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Meðlóðarhafar að Langholtsvegi 136 séu að fullu meðvitaðir um þau byggingaráform sem séu fram undan á lóðinni enda liggi fyrir samþykki þeirra, dags. 24. apríl 2019, sem hafi fylgt byggingarleyfisumsókninni. Kærendur séu ekki aðilar að eignaskipta­yfirlýsingu annarrar eignar. Úrskurðarnefndin taki ekki afstöðu til eignaskiptayfirlýsinga heldur dómstólar. Einnig liggi fyrir breytt eignaskipta­yfirlýsing, undirrituð af öllum eigendum að Langholtsvegi 136, samþykkt af byggingarfulltrúa 1. apríl 2020. Eignaskiptayfirlýsingin verði send sýslumanni til þinglýsingar þegar lokaúttekt fari fram.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar benda á að byggingarframkvæmdin sé í fullu samræmi við deiliskipulag Vogahverfis og því sé ekki gerð krafa um grenndarkynningu samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Eigendur Langholtsvegar 136 hafi þó gengið lengra og sent kynningarefni til eigenda aðliggjandi lóða.

Deiliskipulag banni ekki svalir. Fordæmi séu fyrir samþykki svala á sambærilegum byggingum á deiliskipulagssvæðinu. Að banna svalir gangi í berhögg við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um flóttaleiðir vegna bruna. Svalir séu einnig fyrir innan byggingarreit eins og sjáist á skipulagsuppdrætti. Byggingarreitur fyrir bílskúr komi skýrt fram á skipulagsuppdrætti og sé um 5×7 m.

Bygging bílskúrs og bílastæðis sé í fullu samræmi við deiliskipulagsákvæði. Innkeyrsla að húsi sé óbreytt frá fyrri uppdráttum enda vandséð hvernig bílskúrsreitur geti verið án innkeyrslu. Vandséð sé hvernig eignarréttur eiganda Langholtsvegar 138 sé skertur með upprunalegum byggingarrétti á lóð Langholtsvegar 136 sem hafi verið til staðar við nýbyggingu, meðal annars á samþykktum teikningum Langholtsvegar 138 frá árinu 1946 og 1947 ásamt því að vera skilmerkilega lýst á skipulagsuppdráttum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að borið hafi að grenndarkynna byggingar­fyrirætlanir m.a. í ljósi ónákvæmni deiliskipulags, óskýrleika um nýtingu bygginga og stöðu eldri bygginga og byggingarreita. Húsbyggingin á lóðamörkum sé verulegt grenndarrask, bæði hvað varði ásýnd og birtu og eins skerðist lóðagæði vegna skuggavarps. Hefði því þurft skýra heimild lóðamarkaeigenda svo slík grenndargæðaskerðing gæti fengið framgöngu og hlotið samþykki.

Byggingarleyfi svala staðsettra á gafli Langholtsvegar 136 eigi sér ekki stoð í deiliskipulagi. Svalirnar séu, samkvæmt athugasemdum Reykjavíkurborgar, reistar á grundvelli leyfis í deiliskipulagi fyrir kvisti og viðbyggingar en leyfið sé samt veitt fyrir þeim á gafli húss. Þá séu svalir eðlisólíkar viðbyggingum sem tilheyri innra rými húsnæðis. Svalabygging á húsgafli Langholtsvegar 136 eigi sér ekki stoð í deiliskipulagi Vogahverfis frá 2010 og raski grenndar­hagsmunum vegna óþægilegrar innsýnar í svefnherbergi, stofu og eldhús næsta húss.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og svölum og svaladyrum sem á að bæta við aðra hæð hússins. Er einkum deilt um hvort byggingarleyfið sé í samræmi við skipulagsáætlanir og þau grenndaráhrif sem verði af byggingu bílskúrs og svala.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi jafnframt vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í gildi er deiliskipulag Vogahverfis, samþykkt 1. september 2010. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins er svæðinu skipt upp í sjö svæði, þ.e. svæði A-E og svæði V og S. Lóðin Langholtsvegur 136 er staðsett á svæði A en þar eru aðallega sænsk timburhús og sambýlishús og nýtingarhlutfall lóða á svæðinu geti verið allt að 0,6. Kemur og fram að eitt markmiða deiliskipulagsins sé að varðveita hið fíngerða yfirbragð hverfisins með því að takmarka stærð húsa. Í greinargerð skipulagsins er fjallað um almenna skilmála sem varða allt svæðið. Þar kemur meðal annars fram að byggingarreitir séu afmarkaðir á öllum lóðum í hverfinu. Byggingarreitir taki mið af byggðamynstri hverfisins og allar breytingar skuli vera innan byggingarreita en innan þeirra megi byggja m.a. ný hús og viðbyggingar við núverandi hús. Auk þess sem gerð sé grein fyrir byggingarreitum bílskúra. Í einhverjum tilfellum séu eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra, en þá gildi sú samþykkt. Byggingarreitir bílskúra séu almennt 5×7 m fyrir einnar hæðar einfaldan bílskúr en 7,5×7 m fyrir einnar hæðar tvöfaldan bílskúr. Bílskúrar skuli vera lágreistir með lítt hallandi þaki eða mænisþaki sem taki mið af þaki aðalhúss. Hæsta leyfilega hæð við útvegg verði 2,7 m og hæsta leyfilega mænishæð verði 3,4 m mælt frá gólfi undir efstu klæðningu. Nýir bílskúrar hafi sömu yfirborðsáferð og önnur hús á lóðinni. Heimilt sé að gera kvisti á íbúðarhús, en breidd þeirra verði aldrei meiri en 3 m eða 1/3 af lengd húss og skuli allir kvistir vera dregnir minnst 1 m inn frá vegglínu. Þá er í skipulaginu heimilt að lengja hús þar sem lóðaraðstæður leyfa eða reisa viðbyggingar sem verði inndregnar frá göflum húsa. Heildarbreidd húsa og viðbyggingar megi verða allt að 12 m.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum fyrirhugaðs bílskúrs að Langholtsvegi 136 er hann staðsettur á byggingarreit sem er afmarkaður á skipulags­uppdrætti. Stærð bílskúrs verður 4,5×7,0 m með 3,40 m mænishæð. Þá mun hann hafa sömu yfirborðsáferð og íbúðarhús lóðarinnar, en bílskúrinn verður steinsteyptur, steinaður að utan í sama litatón og þakkantur verði í sama formi og á íbúðarhúsinu. Eftir breytingarnar verður nýtingarhlutfall lóðarinnar um 0,46. Samkvæmt því fer umdeildur bílskúr ekki í bága við skilmála gildandi deiliskipulags.

Með hinu kærða byggingarleyfi er jafnframt heimiluð bygging 7,2 m² svala og svaladyra við aðra hæð vesturgafls íbúðarhússins á umræddri lóð sem snýr að austurgafli húss kæranda sem stendur í u.þ.b. 10 m fjarlægð frá húsinu að Langholtsvegi 136. Ekki er sérstaklega tekið fram í skilmálum skipulagsins hvort heimilt sé að byggja svalir við hús á svæðinu en telja verður að slíkt mannvirki rúmist innan heimildar deiliskipulagsins um viðbyggingar innan byggingarreits, enda er um viðurhlutaminna mannvirki að ræða en hefðbundna stækkun húss. Á göflum beggja húsanna sem snúa hvort að öðru eru gluggar og munu því heimilaðar svalir sem eru hóflegar að stærð ekki auka innsýn að marki umfram það sem þegar er fyrir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins á lóðinni.

33/2020 Kerhraun

Með

Árið 2020, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. apríl 2020 um að hafna erindi kæranda um að breyta skráningu á sumarhúsi í íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. maí 2020, er barst nefndinni 6. s.m., kærir eigandi sumarhúss að Kerhrauni C103/104 þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. apríl 2020 að hafna erindi kæranda um að breyta skráningu nefnds sumarhúss í íbúðarhús. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að ný ákvörðun verði tekin þar sem kæranda verði heimilað að breyta sumarhúsinu í íbúðarhús. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi sveitarfélagsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 16. júní 2020.

Málavextir: Kærandi sendi Grímsnes- og Grafningshreppi erindi, dags. 3. desember 2018, þar sem óskað var eftir því að breytt yrði skráningu á sumarhúsi hans á lóðinni Kerhrauni C103/104 í íbúðarhús. Sveitarstjórn tók erindið fyrir á fundi 19. s.m. og hafnaði því með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð. Kæranda var tilkynnt um synjunina með bréfi, dags. 20. s.m. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. janúar 2019, sem með úrskurði uppkveðnum 7. febrúar 2020 vísaði málinu frá þar sem umsókn kæranda hefði ekki fengið lögboðna afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps tók umrædda umsókn kæranda fyrir á fundi 22. apríl 2020 þar sem umsókninni var synjað með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð í landi Klausturhóla samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið 17. nóvember 1999.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 2. október 2013 hafi sambærilegt erindi og hér um ræði verið samþykkt, þar sem samþykkt hafi verið breytt notkun Snæfoks­staða 99 og 100 úr sumarbústað í einbýlishús. Hið sama eigi við um Vaðstíg 1, 3 og 5, en samþykkt hafi verið að breyta landnotkun lóðanna úr frístundabyggð í íbúðarbyggð á fundi sveitarstjórnar 22. apríl 2020. Ráða megi af fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps við afgreiðslu þess erindis er sneri að Snæfoksstöðum að sveitarstjórn telji það óverulega breytingu á aðalskipulagi að breyta sumarhúsalóð í íbúðarhúsalóð. Framangreindar umsóknir hafi verið algjörlega sambærilegar umsókn kæranda en hafi ekki verið afgreiddar með sama hætti. Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, enda skuli allir vera jafnir fyrir lögum samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Hinar tilvitnuðu lóðir sem kærandi hafi samþykkt sambærilegar breytingar á og kærandi hafi óskað eftir, hafi allar verið skráðar frístundalóðir fyrir breytingar. Það sé því ómálefnalegt að fara ekki eins með umsókn kæranda. Rangt sé farið með þegar sveitarstjórn segist ekki hafa heimilað breytta notkun einstakra lóða. Það hafi verið gert bæði í máli Vaðstígslóðanna sem og Snæfoksstaðalóða. Þá sé það eftir á skýring að benda á að breyting Snæfoksstaðalóðanna hafi verið samþykktar þar sem þær séu nálægt landbúnaðarbyggð. Ekkert komi fram um þetta í aðalskipulags­­­breytingunni frá 8. febrúar 2018. Þá sé rétt að benda á að lóð kæranda sé einnig  í grennd við landbúnaðarsvæði Seyðishóla.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess aðallega krafist að kæru í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi sveitarstjórn víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags. Í 1. mgr. 29. gr. og 38. gr. sömu laga sé kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð aðal- og deiliskipulags. Samkvæmt því heyri það undir hana að samþykkja aðalskipulag sem og deiliskipulag, sbr. 20. og 40.- 42. gr. laganna, og gildi hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 36. og 43. gr., sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 7. febrúar 2013 í máli nr. 439/2012.

Beiðni kæranda feli í sér að breyta þarf aðalskipulagi. Samkvæmt framangreindum ákvæðum eigi sá sem óski eftir slíkri breytingu ekki heimtingu á henni, heldur sé sveitarfélögum falið að taka slíkar ákvarðanir, allt eftir skipulagi sveitarfélagsins hverju sinni. Endanleg ákvörðun um aðal- og deiliskipulagsbreytingu sé ávallt í höndum sveitarstjórnar sem taki endanlega skipu­lagsákvörðun. Í framangreindu felist að sveitarfélagið líti enn þannig á að beiðni kæranda feli ekki einungis í sér breytingu á skráningu hússins, heldur einnig óverulega breytingu á aðalskipulagi, þar sem lóð kæranda sé í skipulagðri frístundabyggð.

Líkt og áður segi sé lóð kæranda í skipulagðri frístundabyggð og feli erindi hans í sér óverulega breytingu á aðalskipulagi, svo hægt sé að fallast á breytta skráningu hússins. Málefni varðandi aðalskipulag eigi ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar og beri því að vísa kæru þessari frá nefndinni. Vísist í þeim efnum til 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga, þar sem fram komi að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Breytingar á aðalskipulagi séu háðar samþykki sveitarstjórnar og Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga. Hin kærða ákvörðun hafi falið í sér synjun um breytingu aðalskipulags, en samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulags­laga hafi úrskurðarnefndin ekki valdheimildir til að endurskoða slíka ákvörðun. Beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Sé litið svo á að erindið hafi átt undir byggingarfulltrúa sé bent á að erindi kæranda hafi nú verið tekið fyrir bæði hjá sveitarstjórn sem og hjá byggingarfulltrúa. Hafi erindið því hlotið fullnægjandi meðferð samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 10/2019. Í báðum tilfellum hafi erindi kæranda verið hafnað. Fyrir liggi að lóð kæranda sé staðsett í skipulagðri frístundabyggð Kerhrauns í landi Klausturhóla. Að baki synjun á erindi kæranda séu því bæði skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið. Lóð kæranda sé staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipu­lagða frístundabyggð. Skipulagssvæðið sé í heild um 107 hektarar og telji 130 frí­stundalóðir á svæðum A, B og C. Sveitarstjórn hafi ekki heimilað breytta landnotkun stakrar lóðar við slíkar aðstæður. Til þess þyrfti bæði aðal- og deiliskipulagsbreytingu.

Vegna tilvísunar kæranda til lóða 99 og 100 að Snæfoksstöðum (Rauðhólahverfi) þá séu aðstæður þar allt aðrar en í tilviki frístundabyggðarinnar við Kerhraun. Samþykkt hafi verið að breyta landnotkun þessara tveggja lóða úr frístundabyggð í landbúnaðarsvæði til samræmis við aðliggjandi svæði. Fyrir liggi að lóðirnar séu staðsettar við landbúnaðarsvæði og sé um að ræða tvær austustu lóðirnar í enda skipulagðrar frístundabyggðar sem hafi eingöngu talið sjö lóðir. Lóðir 99 og 100, sem séu stærstu lóðirnar, verði þá hluti af aðliggjandi landbúnaðarsvæði. Þá sé þar mjög stutt í aðalveg og gott að þjónusta með tilliti til fastrar búsetu.

Varðandi lóðir við Vaðstíg þá sé á það bent að þær lóðir séu á bæjarhlaðinu á Kringlu. Um sé að ræða þrjár lóðir sem stofnaðar hafi verið af landeiganda og síðar gerðar að íbúðarhúsalóðum. Líkt og í tilfelli Snæfoksstaða séu landbúnaðarlönd allt í kring um lóðirnar og liggi sami vegur um þær og heim að bænum Kringlu.

Ljóst sé samkvæmt framangreindu að aðstæður séu allt aðrar að Snæfoksstöðum og Kringlu en í tilviki frístundabyggðarinnar við Kerhraun og lóðarinnar að Kerhrauni C103/104. Sé því ekki fallist á að ómálefnaleg rök hafi ráðið ákvörðun sveitarfélagsins eða að ekki hafi verið gætt að jafnræðis­reglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í fyrra málinu sem rekið var fyrir úrskurðarnefndinni vegna afgreiðslu umsóknar kæranda um breytta skráningu sumarhúss hans var lagt til grundvallar að um væri að ræða byggingarleyfis­­umsókn enda óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Var málinu vísað frá nefndinni með úrskurði, uppkveðnum 7. febrúar 2020, í máli nr. 10/2019, þar sem umsóknin hafði ekki fengið lögboðna afgreiðslu byggingarfulltrúa. Í máli þessu er deilt um lögmæti afgreiðslu byggingarfulltrúa á sömu umsókn kæranda.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Því er það ekki innan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þeirrar kröfu kæranda. Þá er ekki fyrir hendi heimild í lögum fyrir úrskurðarnefndina til að ákvarða greiðslu málskostnaður til handa aðilum máls og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda.

Samkvæmt 11. gr. mannvirkjalaga skal byggingarleyfisskyld mannvirkjagerð vera í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði og skv. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga er eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulags­áætlunum á svæðinu. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag frístundabyggðar Kerhrauns í landi Klausturhóla, sem samþykkt var 17. nóvember 1999. Samkvæmt grein 2.2.1. í deiliskipulagi þessu eru aðalforsendur þess að mynda sumarbústaðahverfi sem falli sem best að umhverfinu. Samkvæmt grein 2.2.2. er gert ráð fyrir að landnotkun svæðisins sé sumarbústaða­svæði, útivistarsvæði, vernduð svæði og óbyggð svæði. Í grein 2.2.2.1. um sumarbústaðasvæði segir: „Kerhraun, svæði C, skipulagt undir sumarbústaðalóðir liggur á norðausturhluta jarðarinnar, meðfram Hæðarendalæk að norðan og landamerkjum að austan. Að suðaustan og sunnan afmarkast svæðið af Seyðishólum.“ Í grein 2.2.5.1. kemur og fram að á hverri lóð sé heimilt að reisa einn sumarbústað. Aðrar byggingar, svo sem geymsluskúrar, verði ekki leyfðar. Þó sé heimilt að hafa útigeymslu sambyggða bústað. Að lokum er tekið fram í grein 2.3.4. skipulagsins um húsagerðir að hús skuli einungis ætluð til samfelldrar dvalar að sumri til en á öðrum árstímum til styttri dvalar, t.d. yfir helgi.

Deiliskipulagi þessu hefur verið breytt fjórum sinnum. Þrjár breytinganna snúa einvörðungu að sameiningu lóða eða breytingu á lóðamörkum. Með fjórðu breytingunni, dags. 5. maí 2010, var framangreindri grein 2.2.5.1. breytt. Eftir breytingu segir þar að heimilt sé að reisa eitt hús á hverri lóð og að auki sé heimilt að reisa geymslu- eða gestahús, allt að 40 m2. Þá var framangreind grein 2.3.4. felld úr skipulaginu. Eftir stendur þó að samkvæmt grein 2.2.2. er enn gert ráð fyrir að landnotkun svæðisins sé sumarbústaðasvæði, útivistarsvæði, vernduð svæði og óbyggð svæði. Engin heimild er í deiliskipulaginu til að leyfa þar íbúðarbyggð. Var byggingarfulltrúa því rétt að synja erindi kæranda.

Kærandi hefur vísað til jafnræðisreglna 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og í þeim efnum vísað til afgreiðslu sveitarfélagsins varðandi lóðir við Snæfoksstaði og Vaðstíg. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki um sambærileg tilvik að ræða enda hafði bæði aðal- og deiliskipulagi verið breytt áður en umræddar landnotkunarbreytingar voru samþykktar af sveitarfélaginu. Verður því ekki fallist á að ekki hafi verið gætt að jafnræðis­sjónarmiðum. Kærandi getur eftir sem áður sótt um aðal- og deiliskipulagsbreytingu, kjósi hann að gera það.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 22. apríl 2020 um að hafna erindi hans um að breyta skráningu á sumarhúsi í íbúðarhús.

56/2020 Esjumelar

Með

Árið 2020, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. apríl 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Mosfellsbær þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. apríl 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. júlí 2020.

Málavextir: Hinn 11. desember 2019 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Í breytingunni fólst að heimilt væri að starfrækja malbikunarstöð á lóðinni. Borgar-ráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 9. janúar 2020 og var hún auglýst til kynningar með fresti til athugasemda frá 20. s.m. til 2. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma og var afstaða tekin til þeirra í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2020. Skipulags- og samgönguráð vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 1. apríl s.á. sem sam-þykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 2. s.m. Með erindi, dags. 24. apríl 2020, sendu borgaryfirvöld Skipulagsstofnun deiliskipulagsbreytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Með bréfi, dags. 22. maí s.á, tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemd við birtingu aug-lýsingar um samþykkt deiliskipulagsins og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að deiliskipulagsbreytingin vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu feli í sér að verið sé að breyta stórum hluta „athafnasvæðisins“ á Esjumelum í „iðnaðarsvæði“ í skilningi skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Slík breyting samræmist ekki gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Óheimilt sé að breyta landnotkun sem ákveðið hafi verið í aðalskipulagi með deiliskipulagsbreytingu. Óumdeilt sé að umrætt svæði á Esju-melum sé skilgreint sem „athafnasvæði (AT)“ í aðalskipulagi. Deiliskipulagsbreytingin feli í sér að verið sé að heimila starfsemi sem geti haft mengun í för með sér. Í breytingunni felist þ.a.l. rýmkun á landnotkun sem samræmist ekki aðalskipulagi. Hafi breytingin vegna framan-greindra lóða ekki verið kynnt kæranda. Slíkt brjóti í bága við ákvæði 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annars vegar sé skýrt kveðið á um að athafnasvæðið á Esjumelum sé ekki ætlað undir iðnaðarstarfsemi en hins vegar sé að finna vissar heimildir fyrir slíkri starfsemi. Í ljósi framangreinds verði því að túlka aðalskipulagið á þann veg að iðnaðarstarfsemi verði eingöngu heimiluð í algjörum undantekningartilvikum.

Umrætt svæði á Esjumelum sé nálægt sveitarfélagamörkum kæranda og í næsta nágrenni við stóra íbúðabyggð bæjarins. Aðeins sé um einn km milli nýrrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Starfsemin hafi einnig í för með sé neikvæð sjónræn áhrif auk neikvæðra umhverfis-áhrifa sem gætu skert gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði sem margir höfuðborgarbúar nýti sér. Kærandi telur sig eiga lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þótt hin kærða ákvörðun beinist ekki sérstaklega að kæranda varði hún hagsmuni hans og réttindi umfram aðra. Lagaleg skylda hvíli á borgaryfirvöldum að haga skipulagsáætlunum sínum til samræmis við skipulagsáætlanir kæranda. Skipulagslöggjöfin geri beinlínis ráð fyrir því að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum.

Esjumelar séu m.a. í nágrenni við íbúðarbyggð og svæði á náttúruminjaskrá sem séu innan sveitarfélagamarka kæranda. Kærandi hafi því augljósra hagsmuna af því að gæta að uppbyggingu á iðnaðarsvæðum á Esjumelum enda sé fyrirséð að slík landnotkun í næsta nágrenni muni hafa veruleg takmarkandi áhrif á athafnir kæranda og skipulagsáætlanir til frambúðar. Mengun og aukin umferð vörubíla og stórvirkra vinnuvéla frá slíku iðnaðarsvæði kunni að takmarka möguleika á uppbyggingu þeirra svæða sem standi næst Esjumelum. Þá séu ótalin þau sjónrænu áhrif sem fylgi malbikunarstöðvum og annarri mengandi iðnaðarstarfsemi rétt utan við bæjardyr.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg telur að ljóst sé að eftir breytingu á Aðal-skipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 20. júní 2019 og staðfest af Skipulagsstofnun 2. september s.á. og hafi m.a. tekið til atvinnusvæðisins á Esju-melum, sé heimilt að vera með iðnaðarstarfsemi á lóðinni nr. 6-8 við Koparsléttu enda sé starfsemin tilgreind sérstaklega í deiliskipulagi og háð sérstöku mati á umhverfisáhrifum viðkomandi starfsemi. Í þeirri ákvörðun hafi m.a. verið lagt mat á það hvort forsvaranlegt væri að viðkomandi svæði, sem áður hafi verið ætlað að taka við þrifalegri iðnaðarstarfsemi, taki við grófari starfsemi.

Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hvaða marki hann telji að aðalskipulagið samræmist ekki skipulagsáætlunum sveitarfélags kæranda. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi sérstakrar lýsingar ekki verið þörf enda hafi allar meginforsendur legið fyrir í aðalskipulaginu. Ekki sé heldur fallist á að verið sé að skilgreina landnotkun rýmra í deiliskipulaginu en aðalskipulagið geri ráð fyrir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Taki deiliskipulagstillaga til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags skv. 41. gr. skipulagslaga. Að öðru leyti gera lögin ekki ráð fyrir aðkomu nágrannasveitarfélaga við deili-skipulagsgerð annars sveitarfélags. Samráð nágrannasveitarfélaga um sameiginleg hagsmuna-mál á vettvangi skipulagsmála fer fram við gerð svæðisskipulags.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld og er í 7. gr. laganna fjallað um almennar skyldur þeirra. Um lögvarða hagsmuni af úrlausn kæru-máls þessa hefur kærandi vísað í kæru sinni m.a. til þess að umþrætt svæði sé nálægt sveitarfélagamörkum og í næsta nágrenni við stóra íbúðabyggð bæjarins en aðeins sé um einn km á milli fyrirhugaðrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Þá hafi starfsemin í för með sér neikvæð sjónræn áhrif ásamt neikvæðum umhverfisáhrifum, sem geti m.a. skert gæði útivistar á nærliggjandi svæðum sem margir höfuðborgarbúar nýti sér. Verður að telja að framangreind málsrök lúti fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem ekki teljist til einstaklingsbundinna hagsmuna kæranda. Getur kærandi því hvorki talist aðili að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né átt þá einstaklega lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem eru skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með hljóðsjón af því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga aðild að kærumáli þessu og verður því af þeirri ástæðu málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.