Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2020 Þerneyjarsund

Árið 2020, þriðjudaginn 17. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dóm­stjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 14. október 2020 um að leggja dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 á lóðarhafa Þerneyjarsunds 23 í nefndum hreppi frá og með 16. nóvember 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Þerneyjarsunds 23, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 14. október 2020 að leggja á hann dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 frá og með 16. nóvember 2020. Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 12. október 2020.

Málavextir: Með bréfi til kæranda, dags. 8. september 2020, beindi byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps þeirri áskorun til kæranda að tekið yrði til á lóð hans Þerneyjarsundi 23, þannig að allt rusl og lausafjármunir yrðu fjarlægðir og að úrgangi yrði fargað á viðurkenndan hátt. Var einnig farið fram á að komið yrði í veg fyrir frekari mengun og þá hættu sem stafaði af nefndum hlutum gagnvart byggingum á lóðinni. Var bent á að umrædd lóð væri skipulögð sem sumarhúsalóð en ekki geymslusvæði fyrir lausafjármuni og rusl. Kom að auki fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir fyrir 9. október 2020 myndi byggingarfulltrúi í framhaldi beita þeim aðgerðum sem tilgreindar væru í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þ.e. dagsektum sem gætu numið allt að kr. 500.000. Þá var kæranda leiðbeint um andmælarétt samkvæmt 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærandi kærði fyrrgreint erindi byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 82/2020, uppkveðnum 13. október 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að efni bréfs byggingarfulltrúa hefði einungis falið í sér tilmæli til kæranda og viðvörun þess efnis að búast mætti við dagsektum yrði ekki að þeim farið. Lægi því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Með bréfi til kæranda, dags. 14. október 2020, vísaði byggingarfulltrúi til þess að þar sem fyrr­greindum tilmælum hefði ekki verið sinnt yrði heimildum samkvæmt gr. 2.9.2. í byggingar­reglugerð beitt. Voru lagðar á kæranda 20.000 kr. dagsektir frá og með 16. nóvember 2020 þar til kröfu byggingarfulltrúa yrði sinnt. Er þetta sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar m.a. til þess að um geðþóttaákvörðun byggingarfulltrúa sé að ræða. Kærandi sé með „skaðaðan bústað sem sé í vinnuferli“ og ekki sé nokkur möguleiki að verða við ákvörðuninni á þessum tíma árs og á svo stuttum tíma. Þeir munir sem hin kærða ákvörðun lúti að séu á lokuðu svæði og ekki fyrir neinum en fyrirsjáanlegt sé að selja þurfi bústaðinn með verulegum afföllum vegna ákvörðunarinnar. Þá séu á mörgum öðrum lóðum í hverfinu að finna sambærilega hluti og hafi verið svo árum saman.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að Þerneyjarsund 23 sé í skipulagðri frístundabyggð. Sent hefði verið bréf til kæranda, dags. 8. september 2020, þar sem farið hefði verið fram á að tekið yrði til á lóðinni, allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt. Er byggingarfulltrúi hafi farið aftur í skoðun á staðinn 9. október 2020 hafi komið í ljós að eigandi lóðarinnar hefði ekki brugðist við nefndu bréfi frá 8. september 2020. Enn sé mikið af byggingarúrgangi, rusli og öðrum lausa­fjármunum á lóðinni.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að telji byggingar­fulltrúi að ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli hann gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. ákvæðisins er síðan að finna heimild til að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur. Þá er kveðið á um í 4. mgr. 56. gr. að álagðar dagsektir njóti lögveðs í mannvirki, byggingarefni og viðkomandi lóð. Nánar er kveðið á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem byggingarfulltrúa er m.a. veitt heimild til að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja eigendur eða umráðamenn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögum um mannvirki.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu tilkynnti byggingarfulltrúi kæranda með bréfi, dags. 8. september 2020, um áform um álagningu dagsekta yrði kærandi ekki við kröfum um að tekið yrði til á lóð hans og allt rusl og aðrir lausafjármunir fjarlægðir og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt. Jafnframt var tekið fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir fyrir 9. október 2020 myndi byggingarfulltrúi beita dagsektum í samræmi við gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Var ákvörðun þar um tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. október 2020. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að andmælaréttar kæranda hafi verið gætt og hann fengið hæfilegan frest til að bregðast við áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur áður en gripið var til hinna kærðu þvingunarúrræða.

Fyrirliggjandi ljósmyndir af lóð kæranda bera með sér að þar sé talsvert af byggingar­úrgangi, rusli og öðrum lausafjármunum. Er því engum vafa undirorpið að frágangi, ásigkomu­lagi og umhverfi lóðar hans hafi á umræddum tíma verið ábótavant í skilningi 1. mgr. 56. gr. laga um mann­virki, sbr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Var því byggingarfulltrúa rétt að leggja á kæranda dagsektir til að knýja á um úrbætur á lóð hans, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur umhirðu hennar verið ábótavant um árabil.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 14. október 2020 um að leggja dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 á lóðarhafa Þerneyjarsunds 23 í nefndum hreppi frá og með 16. nóvember 2020.