Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2020 Fákaflöt

Árið 2020, miðvikudaginn 11. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 76/2020, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Rangárþings eystra frá 20. júlí 2020, og byggðaráðs Rangárþings eystra 30. s.m., um að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnr. 209731.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. ágúst 2020, er barst nefndinni 21. s.m., kærir eigandi lóðar úr jörðinni Skeggjastaðir, fastanúmer 2341917 og landnúmer 194858 þá ákvörðun skipulagsnefndar Rangárþings eystra frá 20. júlí 2020 og byggðaráðs Rangárþings eystra frá 30. s.m. að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnr. 209731. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að fjarlægja gámahúsin af lóð kæranda að uppkveðnum úrskurði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 1. október 2020.

Málavextir: Með bréfi, dags. 4. desember 2019, til eiganda Fákaflatar, landnr. 209731, óskaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra eftir skýringum á stöðu mannvirkja (skúr/smáhýsi og gám) á lóðinni Fákaflöt. Með bréfi, dags. 14. apríl 2020, tilkynnti embættið eigendum Fákaflatar að færa þyrfti nefnd mannvirki til þannig að það yrði í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum Skeggjastaða, landnr. 194858. Að auki þyrfti að skila inn hönnunargögnum fyrir fyrrgreind mannvirki, sem að mati byggingarfulltrúa virtust flokkast sem tilkynningarskyld framkvæmd skv. i-lið í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2020, óskaði eigandi Fákaflatar eftir teikningum og mælingum sem framkvæmdar hefðu verið þannig að hægt yrði að taka upplýsta ákvörðun um hvort ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa yrði andmælt eða ekki.

Með bréfi, dags. 11. júní 2020, ítrekaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að skila yrði inn hönnunargögnum vegna nefndra mannvirkja, að öðrum kosti yrði að fjarlægja þau og afmá allt jarðrask. Ef ekki yrði brugðist við ítrekuðum óskum skipulags- og byggingarfulltrúa innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi embættið láta fjarlægja mannvirkin á kostnað landeiganda Fákaflatar.

Með umsókn, dags. 8. júlí 2020, sótti eigandi Fákaflatar um stöðuleyfi fyrir tvo gáma frá 9. s.m. til 9. júlí 2021. Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra 24. júlí 2020 var umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að gámar yrðu staðsettir innan lóðamarka Fákaflatar, landnr.209731, og var sú afgreiðsla staðfest á fundi byggðaráðs Rangársþings eystra 30. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að um gámahús sé að ræða og sé búið að leiða bæði vatn og rafmagn í þau og þar rekin atvinnustarfsemi í formi hundaræktunar. Kærandi hafi aldrei verið beðinn um eða veitt leyfi fyrir lausagöngu hunda á landi sínu. Gámahús séu ekki gámar samkvæmt leiðbeiningum Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar og séu því ekki stöðuleyfisskyld. Samkvæmt byggingarreglugerð séu sumar framkvæmdir ekki byggingarleyfisskyldar, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Þær lóðir sem um ræði í þessu máli séu ódeiliskipulagðar.

Málsrök Rangárþings eystra: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að stöðuleyfisumsókn eiganda Fákaflatar, dags. 8. júli 2020, hafi verið tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra hinn 20. júlí 2020. Á fundinum hafi verið bókað að skipulagsnefnd samþykkti að veita stöðuleyfi frá 9. júlí 2020 til 8. júlí 2021 með þeim fyrirvara að gámarnir yrðu staðsettir innan lóðarmarka umsækjanda. Byggðaráð hefði staðfest niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi sínum 30. júlí 2020.

Heimild til útgáfu stöðuleyfis sé að finna í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar segi í gr. 6.1.1: „Sækja skal um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, og stór samkomutjöld.“ Á grundvelli umræddrar heimildar hafi Rangárþing eystra talið sig hafa fulla heimild til útgáfu stöðuleyfis með þeim hætti sem gert hafi verið. Áréttað sé að stöðuleyfi sé í eðli sínu tímabundið leyfi. Hið umþrætta stöðuleyfið falli því samkvæmt efni sínu úr gildi um mitt næsta ár.

Í fyrirliggjandi stöðuleyfi sé sérstaklega tekið fram að leyfið taki einungis til þess að setja gámanna niður innan þess lands sem tilheyri Fákaflöt, landnr. 20973. Leyfishafi hafi því enga heimild frá sveitarfélaginu til að setja gámanna niður á landi sem tilheyri kæranda eða öðrum aðilum. Komi það raunar skýrt fram í afgreiðslu skipulagsnefndar frá 20. júní 2020.

Almennt taki sveitarfélagið ekki afstöðu til ágreinings fasteignareigenda um lóðamörk eða landamerkja bújarða. Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem aðilar verði að leysa úr sjálfir eftir þeim reglum sem um það gildi.

Þrátt fyrir þetta hafi Rangárþing eystra verið í samskiptum við lögmann eigenda Fákaflatar í því skyni að fá upplýst hvort umþrættir gámar væru innan lóðar hans. Ef gámarnir séu að hluta til eða öllu leyti utan lóðamarka Fákaflatar sé ljóst að staðsetning þeirra sé ekki í samræmi við útgefið stöðuleyfi. Það þýði þó ekki að stöðuleyfið sem slíkt sé ólögmætt. Á hinn bóginn sé ljóst að ef gámarnir séu að hluta til inn á landi kæranda geti hún krafist fjarlægingar þeirra að öðrum skilyrðum uppfylltum. Sömu heimild hafi skipulagsyfirvöld.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð sú krafa að kærunni verði vísað frá sökum aðildarskorts. Kærandi titli sig sem eiganda jarðarinnar Skeggjastaðar en skráður eigandi þeirrar jarðar sé Nínukot ehf. Ekki sé hægt að sjá með hvaða hætti kærandi málsins eigi aðild að umræddu máli á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rétt sé að benda á að kærandi komi fram fyrir sína hönd persónulega en ekki annars aðila eða lögaðila. Í ljósi þessa telji leyfishafi að vísa eigi kærunni frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts, enda ekki hægt að sjá með nokkru móti hvernig kærandi hafi lögmæta hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Þá sé kæran með öllu óljós og í henni sé fjallað um hluti sem eigi ekki inn á borð hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Málið sé einfalt í augum leyfishafa, sótt hafi verið um stöðuleyfi sem hafi verið veitt. Ekkert sé við málsmeðferð skipulags- og byggingarráðs Rangárþings eystra að setja og leyfisveiting þeirra fullkomlega lögleg að mati leyfishafa.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að lóðin sem um ræði sé þinglýst eign hans, með fastanúmer 2341917 og landnúmer 194858, og sé hún lögbýlinu Skeggjastöðum óviðkomandi.

Gámahúsin hafi ekki verið innan lóðarmarka Fákaflatar þegar stöðuleyfi hafi verið veitt og séu það ekki ennþá nú 3 mánuðum síðar. Það sé óumdeilt. Þetta séu ekki gámar ætlaðir til tímabundinnar geymslu heldur tvö samliggjandi gámahús með verönd sem standi enn lengra inn á lóð kæranda en gámahúsin og séu ætlaðir fyrir atvinnustarfsemi, það er hundarækt þar sem fjöldi hunda hafi nú íveru. Umferð að þeim, bæði manna og dýra, gangandi og akandi sé því öll um lóð kæranda án heimildar.

Svör Rangárþings eystra skorti rökstuðning fyrir því á hvaða lagaforsendum og reglugerðum byggt hafi verið á þegar tekin hafi verið sú stjórnvaldsákvörðun að veita stöðuleyfi á lóð kæranda án samþykkis. Í gr. 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi vissulega að gámar falli undir heimildarákvæði stjórnvalds til veitingu stöðuleyfis, en í leiðbeiningum Húsnæðis og mannvirkjastofnunar um grein 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé í grein 2 skýring á hvaða hlutir falli undir stöðuleyfi og tekið fram að svokölluð gámahús falli ekki þar undir. Þar sé ekki að finna heimild til að veita stöðuleyfi gámum eða gámahúsum á lóð annarra hvorki tímabundið, með fyrirvara eða afturvirkt og framvirkt.

—–

Með tölvupósti 1. nóvember 2020 upplýsti kærandi úrskurðarnefndina um að umþrætt gámahús hefðu verið færð 10 cm inn fyrir lóðarmörk Fákaflatar.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var þeim tilmælum beint til leyfishafa að fjarlægja mannvirki sín þannig að þau yrðu í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum Skeggjastaða, landnr. 194858, en um þinglýsta eign kæranda er að ræða sem stofnuð var árið 2003 úr jörðinni Skeggjastaðir, landnr. 163963 sem er í eigu Nínukots ehf., en kærandi er forráðamaður og stjórnarmaður félagsins verður kæru þessari því ekki vísað frá sökum aðildarskorts.

Í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að sveitarstjórnum sé heimild að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. útgáfu stöðuleyfa. Þá mælir 60. gr. nefndra laga fyrir um setningu reglugerða á grundvelli laganna og skulu skv. 9. tl. ákvæðisins m.a. vera í reglugerð skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa, kveðið á um atriði sem varða öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til þess að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki eru uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er með stoð í lögunum, skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda, en hann er skv. skilgreiningu í 51. tl. í gr. 1.2.1. í reglugerðinni er leyfisveitandi það stjórnvald, þ.e. byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem gefur út eða á að gefa út byggingarleyfi skv. reglugerðinni. Eru það enda þeir aðilar sem veita byggingarleyfi skv. ákvæðum 9.-11. gr. mannvirkjalaga nema til staðar sé sérstök samþykkt skv. 7. gr. mannvirkjalaga, en slík samþykkt virðist ekki vera fyrir hendi.

Svo sem áður er lýst tók skipulagsnefnd Rangárþings eystra, á fundi sínum 20. júlí 2020, ákvörðun um að samþykkja umsókn leyfishafa um stöðuleyfi, og var umsóknin einnig samþykkt á fundi byggðaráðs sveitarfélagsins 30. s.m. Ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið slíka ákvörðun í málinu, en samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum falið það vald að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfi í hverju tilviki. Var hin kærða ákvörðun því ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki liggur fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál og borin verður undir úrskurðarnefndina. Verði slík ákvörðun tekin af byggingarfulltrúa er hún hins vegar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sama gildir taki hann ákvörðun um að umdeild mannvirki verði fjarlægð, en slíkar ákvarðanir eru jafnframt á forræði byggingarfulltrúa.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.