Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2020 Hlíðarbraut

Árið 2020, þriðjudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 80/2020, kæra á málsmeðferð vegna breytingar á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars, vegna lóðarinnar Suðurgötu 41.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4.september 2020, er barst nefndinni 5. s.m., kæra Hollvinasamtök St. Jósefsspítala, Birkibergi 18, Hafnarfirði, „málsmeðferð og breytingu á skipulagi stofnanalóðar St. Jósefsspítala“. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að kærð sé breyting á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars vegna nefndrar lóðar og þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 7. október 2020.

Málsatvik og rök: Í gildi er deiliskipulag Suðurbæjar sunnan Hamars frá 28. maí 2014. Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar 10. mars 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu skipulagi vegna lóðanna nr. 10 og 12 við Hlíðarbraut og nr. 41 við Suðurgötu. Samhliða var auglýst breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Bæjarstjórn samþykkti tillögurnar til auglýsingar á fundi sínum 18. mars s.á. og voru þær kynntar á tímabilinu frá 23. apríl 2020 til 4. júní s.á. Tillögurnar voru samþykktar óbreyttar í bæjarstjórn 17. júlí 2020 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 25. júní 2020. Með erindi, dags. 4. ágúst 2020, sendu bæjaryfirvöld Skipulagsstofnun aðal- og deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Stofnunin tilkynnti með bréfi, dags. 10. september s.á., að hún gæti ekki tekið afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem ekki lægi fyrir svar sveitarfélagsins við bréfi stofnunarinnar, dags. 27. ágúst s.á., vegna breytingar á gildandi aðalskipulagi fyrir umrætt svæði. Hafnarfjarðarbær brást við þeim athugasemdum stofnunarinnar með bréfi, dags. 21. október s.á.

Kærandi bendir meðal annars á að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila og almenning við breytingu á stofnanalóð St. Jósefsspítala. Kynning og samráð virðist ekki hafa verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Hafnarfjarðarbær gerir fyrst og fremst kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts. Telji bæjaryfirvöld ljóst að kærandi eigi hvorki lögvarinna hagsmuna að gæta er tengist hinni kærðu ákvörðun né uppfylli hann önnur skilyrði kæruaðildar. Ella sé gerð sú krafa að framkominni kæru verði hafnað.

Niðurstaða: Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Í máli þessu samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 samhliða hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, en svo sem lýst er í málavöxtum gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við aðalskipulagsbreytinguna sem nú hefur verið svarað af hálfu bæjaryfirvalda. Stofnunin hefur hins vegar hvorki staðfest nefnda breytingu á gildandi aðalskipulagi né birt auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 3. mgr. 32. gr., sbr. og 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga.

Umdeild deiliskipulags­breyting hefur ekki heldur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, en ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu slíkrar auglýsingar. Verður ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar, enda telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar sem ekki er fyrir hendi kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni. Hefur þá ekki verið tekin afstaða til þess hvort kærandi geti yfirhöfuð átt aðild að kærumáli þessu, en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.