Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40 og 60/2020 Skeifan Fenin

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur, en Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. mars 2020 um breytingu á deiliskipulaginu „Skeifan – Fenin“ vegna Grensásvegar 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., lóðarhafi Skeifunnar 15 og Faxafens 8, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. mars 2020 að breyta deiliskipulaginu „Skeifan – Fenin“ vegna lóðarinnar Grensásvegar 1.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. júní 2020 að samþykkja leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóð nr. 1 við Grensásveg. Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 11. ágúst 2020. Verður það kærumál, sem er nr. 60/2020, sameinað fyrrgreindu kærumáli þar sem málin eru samofin og kærandi sá sami í báðum málum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. júlí 2020.

Málavextir: Á svæði því sem lóðin Grensásvegur 1 tilheyrir er í gildi deiliskipulag „Skeifan -Fenin“ sem samþykkt var 6. nóvember 2001. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur­borgar 4. janúar 2019 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort heimilað yrði að byggja íbúðir í bland við þjónustu á jarðhæð og auka byggingarmagn með því að byggja nýja byggingu meðfram Skeifunni í stað tveggja á lóðinni Grensásvegi 1. Við breytinguna færi nýtingarhlutfall hennar ofanjarðar úr 1,64 í 1,94. Var fyrirspurninni vísað til skipulags- og samgönguráðs, sem tók jákvætt í fyrirspurnina á fundi 11. s.m. með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. Í niðurstöðu umsagnarinnar er tekið fram að mælt sé með að lóðarhafa verði heimilað að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við fyrirspurnina í samráði við verkefna­stjóra hjá skipulagsfulltrúa og Veitur. Umsókn um deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar Grensásvegar 1 í samræmi við áðurgreinda fyrirspurn var tekin fyrir á afgreiðslufundum skipulagsfulltrúa 5. apríl og 28. júní 2019 og var málinu síðan vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti á fundi sínum 25. september s.á. að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 3. október 2019.

Að lokinni kynningu á umræddri skipulagstillögu var málið á dagskrá afgreiðslufunda skipulagsfulltrúa 29. nóvember 2019 og 7. febrúar 2020 og á fundum umhverfis- og skipulagsráðs 12. og 26. s.m. Hinn 12. mars 2020 samþykkti borgarráð breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Grensásvegar 1. Í breytingunni fólst aukning á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyting notkunar efri hæða fyrir íbúðir. Með erindi, dags. 19. mars 2020, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun deiliskipulagstillöguna til lögboðinnar umfjöllunar, sem tilkynnti með bréfi, dags. 8. apríl s.á., að stofnunin gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda og fór birting slíkrar auglýsingar fram 24. s.m.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 16. júní 2020 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bíla­kjallara á lóðinni Grensásvegi 1. Var um að ræða fyrstu af fyrirhuguðum fjórum nýbyggingum á lóðinni.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að aðdragandi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi ekki verið í samræmi við grundvallarreglur skipulagslaga nr. 123/2010 um samráð og kynningu við gerð deiliskipulags. Þegar tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi sé auglýst til kynningar eigi sveitarfélagið sem fari með skipulagsvaldið að ganga til þess verks með óbundnar hendur. Í máli þessu hátti hins vegar svo til að þegar borgarráð hafi samþykkt að auglýsa hina kærðu deiliskipulagstillögu til kynningar þá hafi ráðið skömmu áður verið búið að samþykkja samkomulag við lóðarhafa Grensásvegar 1 um uppbyggingu á lóðinni í samræmi við hina umdeildu skipulagstillögu sem þá hafi legið fyrir. Með gerð þessa samkomulags hafi borgaryfirvöld bundið hendur sínar og í raun skuldbundið sig til þess að samþykkja hina umdeildu skipulagstillögu. Hafi auglýsing tillögunnar því í raun aðeins verið til málamynda.

Kærandi hafi gert athugasemdir við skipulagstillöguna, m.a. þess efnis að í greinargerð með henni væri tekið fram að við gerð rammaskipulags Skeifunnar hefði verið nýafstaðin skipulags­breyting á Grensásvegi 1 og hefði því ekki verið gert ráð fyrir breytingum á skipulagi þeirrar lóðar í rammaskipulaginu, en nýjar forsendur rammaskipulagsins og ytri aðstæður hefðu kallað á að farið yrði í þessa endurskoðun deiliskipulagsins með hliðsjón af stefnu og forsendum rammaskipulagsins. Benti kærandi á að þessi rök fái ekki staðist, enda hafi tilgangur tillögu að rammaskipulagi m.a. verið sá að kalla fram afstöðu og óskir einstakra lóðarhafa og að miklu máli hafi skipt fyrir heildina að allir lóðarhafar á svæðinu kæmu að rammaskipulaginu og sett fram sjónarmið sín.

Fyrir utan þá ágalla á rökstuðningi, undirbúningi og meðferð tillögunnar sem að framan sé lýst verði ekki annað séð en að alfarið hafi skort það samráð sem áskilið sé við íbúa og hagsmuna­aðila almennt við gerð deiliskipulagstillögu, sbr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, svo og hið sérstaka samráð sem áskilið sé við lóðarhafa aðliggjandi lóða sem fram komi í 3. mgr. gr. 5.2.1., en það ákvæði sé fortakslaust og ófrávíkjanlegt. Sjáist þess þó hvergi stað að þessara skyldu hafi verið gætt.

Hin kærða ákvörðun samræmist ekki þeirri stefnu sem sett sé fram í rammaskipulagi svæðisins. Þótt rammaskipulag sé ekki lögformleg skipulagsákvörðun feli það í sér bindandi stefnumótun borgarinnar. Í töflu sem birtist á bls. 34 í greinargerð rammaskipulagsins komi fram að ekki sé gert ráð fyrir neinum íbúðum á lóð Grensásvegar, en á reit 1, sem Grensásvegur 1 virðist eiga að vera hluti af, sé gert ráð fyrir 152 íbúðum á þeim reitsins sem falli utan lóðar Grensásvegar 1. Í svörum borgaryfirvalda við athugasemdum sé því haldið fram að Grensásvegur 1 sé sérstakur reitur skv. rammaskipulaginu, sem bætist við reitina níu, og þá séu reitirnir tíu. Þessar staðhæfingar séu hins vegar í mótsögn við það sem segi á bls. 40 í greinargerð rammaskipulagsins þar sem fram komi að svæðinu sé skipt í níu skipulagsreiti, sbr. kafla með yfirskriftinni „uppbyggingarmöguleikar/skipulagsreitir“. Það sé því beinlínis rangt sem borgaryfirvöld haldi fram að lóðin Grensásvegur 1 sé sérstakur skipulagsreitur í rammaskipulaginu. Væri það svo þá fæli það í sér augljóst brot á jafnræðisreglu enda væri lóðarhafa Grensásvegar 1 með því einum veitt sú sérstaða að geta fengið deiliskipulagi vegna lóðarinnar breytt án aðkomu annarra lóðarhafa.

Af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að ekki sé gert ráð fyrir neinum íbúðum að Grensásvegi 1 samkvæmt rammaskipulaginu. Það sé því í hróplegri andstöðu við það og þá stefnu sem þar sé mótuð að gera nú ráð fyrir allt að 204 íbúðum á lóðinni, eða sem nemi 40,8 % af heimiliðum fjölda íbúða í Skeifunni allri skv. aðalskipulagi, sem sé bindandi. Sé einnig ljóst að slík ráðstöfun gangi í berhögg við réttmætar væntingar annarra lóðarhafa í Skeifunni, sem reistar séu á stefnu borgaryfirvalda sem sett sé fram í rammaskipulaginu, og myndi þannig réttur þeirra til byggingar íbúða á lóðum sínum rýrna stórlega ef hin kærða ákvörðun fengi að standa óhögguð.

Deiliskipulag verði að vera í samræmi við aðalskipulag. Í auglýstri tillögu sé gert ráð fyrir sjö hæða byggingu á lóðinni sem ekki sé heimild fyrir í aðalskipulagi heldur sé þar gert ráð fyrir fjögurra til sex hæða byggingum á svæðinu. Í svörum við athugasemdum hafi borgaryfirvöld bent á að samkvæmt mynd 13, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2010-2030, í kaflanum „Borgin við sundin“, séu vikmörk, bæði varðandi fjölda íbúða og hæð húsa. Miðað við þessi vikmörk geti fjöldi íbúða í Skeifunni verið 450-600 og húshæðir þrjár til átta. Ekki hafi áður verið vísað til þessara fráviksheimilda við undirbúning skipulagstillögunnar og hafi því ekki verið gætt þeirra takmarka sem aðalskipulagið setji um beitingu þessara heimilda. Sé það skilyrði sett fyrir beitingu fráviksheimilda um hæð húsa að ákvörðun um hana verði rökstudd sérstaklega, en þess hafi ekki verið gætt í tilviki því sem hér sé til meðferðar. Leiði af því að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við skilmála aðalskipulags, en auk þess sé rökstuðningi fyrir henni augljóslega áfátt þar sem skyldubundinn rökstuðning skorti.

Kærandi bendi á að krafa hans um ógildingu hins kærða byggingarleyfis sé á því byggð að verði fallist á kröfu hans um ógildingu kærðrar breytingar á deiliskipulagi Skeifunnar eigi hið kærða byggingarleyfi ekki lengur stoð í gildandi deiliskipulagi og beri þegar af þeirri ástæðu að fella byggingarleyfið úr gildi. Sé byggingarleyfið í andstöðu við deiliskipulag Skeifunnar eins og það hafi verið fyrir hina kærðu  breytingu, m.a. vegna þess að ekki hafi verið þar gert ráð fyrir neinum íbúðum að Grensásvegi 1, en með hinu kærða leyfi sé heimiluð bygging 50 íbúða. Beri því að fella byggingarleyfið úr gildi verði fallist á kröfu kæranda um ógildingu skipulagsbreytingarinnar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld hafni því alfarið að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið til málamynda og að Reykjavíkurborg hafi verið með bundnar hendur um niðurstöðu málsins, en öll meðferð málsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Vakin sé athygli á að skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga sé það í höndum sveitarstjórna að annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og sé þeim falið skipulags­vald innan sinna valdmarka.

Rammaskipulag sé ekki ein þeirra lögheimiluðu skipulagsáætlana sem nefndar séu í 3. gr. skipulagslaga. Rammaskipulag sé óformlegt skipulag sem unnið sé af Reykjavíkurborg til þess að kalla eftir hugmyndum  í því skyni að skapa stefnu um heildarsýn fyrir svæði sem vinna eigi deiliskipulag fyrir eða vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi. Þar sem rammaskipulag sé ólögformleg skipulagsáætlun verði hún ekki túlkuð sem bindandi fyrir sveitarfélög þegar komi að vinnslu deiliskipulagsáætlunar. Sveitarfélag geti haft rammaskipulag til hliðsjónar, enda geti í því birst sýn sem telja megi heppilega fyrir viðkomandi svæði. Engar réttmætar væntingar geti byggst á rammaskipulagi vegna eðlis þess og stöðu gagnvart skipulagslögum. Í svörum við athugasemdum sem hafi borist á auglýsingartíma deiliskipulagstillögunnar komi fram að gildandi deiliskipulag hafi verið tekið óbreytt inn í rammaskipulagið án þess að kanna sérstaklega hug lóðarhafa. Þá hafi komið fram í svörum skipulagsfulltrúa að Grensásvegur 1 sé sérstakur reitur samkvæmt rammaskipulaginu og bætist hann við hina níu reitina sem komi fram í því skipulagi og verði reitur nr. tíu. Í rammaskipulaginu sé Grensásvegur 1 ekki skilgreindur sem reitur þar sem að við vinnslu þess hafi verið uppi önnur áform um nýtingu reitsins. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið horfið frá fyrri áformum og sé nú gert ráð fyrir íbúðum á reitnum. Með því að fella Grensásveg 1 að rammaskipulaginu verði einföld hliðrun á reitnum og við bætist nýr reitur göturýma/almenningsrýma. Reykjavíkurborg sé að fullu heimilt að gera framangreinda breytingu á rammaskipulaginu enda um að ræða ólögformlegt skipulag sem ætlað sé að marka framtíðarsýn á reitnum.

Samkvæmt kaflanum „Borgin við Sundin“ í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé gert ráð fyrir að á reit 33, Skeifan, geti verið allt að 500 íbúðir. Í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem borist hafi á auglýsingartíma hafi komið fram að „vikmörk eru heimil m.a. að íbúðarfjöldi geti verið −10%/+20%“ sem leiði til þess að á reitnum geti verið allt að 600 íbúðir, séu vikmörk til fjölgunar íbúða beitt. Þá sé rétt að benda á að í gr. 2.2. á deiliskipulagsuppdrætti komi fram að heimilt sé að byggja fjögurra til sex hæða nýbyggingu, með inndreginni sjöundu hæð. Þannig geri deiliskipulagið ekki ráð fyrir að full sjöunda hæð verði byggð. Ekki sé því rétt að tala um sjö hæða hús í því samhengi. Hvað varði sérstakan rökstuðning þá kveði aðalskipulag á um að „möguleg frávik frá viðmiðum í deiliskipulagi −1/+2 hæðir verði rökstudd sérstaklega“. Ef talið sé að ákvæðið eigi við miðað við umfang sjöundu hæðar þá hafi rökstuðningskrafa verið uppfyllt í svörum skipulagsfulltrúa, dags. 7. febrúar 2020.

Engin rök séu færð fyrir því að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið haldin annmörkum sem eigi að leiða til þess að ákvörðun hans frá 16. júní verði ógilt. Virðist því röksemdafærsla fyrir ógildingu byggingarleyfis­umsóknarinnar eingöngu vera byggð á afstöðu kæranda um að deiliskipulagsbreytingin sé haldin slíkum ágalla að varði ógildingu en borgaryfirvöld telji svo ekki vera.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að engar röksemdir séu færðar fyrir því að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið haldin einhverjum þeim annmörkum sem leiða eigi til ógildingar á ákvörðun hans. Á sama hátt sé vísað á bug málsástæðum kæranda þess efnis að hið kærða byggingarleyfi muni ekki lengur eiga stoð í gildu deiliskipulagi verði fallist  á kröfu hans og deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi kveðst vísa  til þess sem fram komi í greinargerð borgarinnar að rammaskipulag Skeifunnar sé ekki lögformlegt skipulag sem Reykjavíkurborg sé bundin af. Það breyti því þó ekki að í rammaskipulagi birtist stefna borgarinnar um uppbyggingu á svæðisins, sem unnin sé í samvinnu og samráði við lóðarhafa á svæðinu. Megi líta á rammaskipulagið sem ígildi samnings lóðarhafa og borgaryfirvalda.

Þótt fyrirhuguð sjöunda hæð sé inndregin teljist hún vera hæð í húsi í öllum skilningi. Tilvist hennar sé því í bága við aðalskipulag Reykjavíkur enda hafi ekki verið færð fram nein rök fyrir nauðsyn hæðarinnar í tillögunni, eins og áskilið sé í skilmálum aðalskipulagsins til að sú hæð gæti yfirleitt komið til álita. Kröfunni um þennan áskilnað verði ekki mætt eftir á, eins og reynt sé að halda fram í greinargerð borgarinnar að gert hafi verið í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar, sem felur í sér heimild fyrir uppbyggingu og notkun húsnæðis á lóðinni nr. 1 við Grensásveg, og um lögmæti byggingarleyfis, sem heimilar byggingu fimm hæða fjölbýlishúss með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á sömu lóð.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin nr. 1 við Grensásveg á miðsvæði M3a og þróunarsvæði Þ51. Um miðsvæði M3a segir m.a. að þar sé einkum gert ráð fyrir verslun og þjónustu, skrifstofum, stofnunum og íbúðum. Léttur iðnaður sé heimill en iðnaðarstarfsemi skuli almennt vera víkjandi. Um þróunarsvæði Þ51 er tekið fram að þar sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu, skrifstofum og íbúðum. Áhersla skuli lögð á fjögurra til sex hæða samfellda byggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi. Áætluð aukning húsnæðis (nettóaukning) er um 85 þúsund m², þar af um 500 íbúðir. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að vikmörk á fjölda íbúða geti verið −10/+20% og þau háð samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á hverjum tíma. Jafnframt er gert ráð fyrir mögulegu fráviki frá hæðum húsa í deiliskipulagi −1/+2 hæðir (einkum inndregnar), en rökstyðja skuli það sérstaklega. Unnið hefur verið rammaskipulag fyrir skipulagssvæðið og eru þar sett fram markmið og ráðandi sjónarmið varðandi megináherslur og framtíðaruppbyggingu svæðisins á grundvelli nýrra forsendna og markmiða í aðalskipulagi og lýsingu skipulagsfulltrúa.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, sem tekur til lóðarinnar Grensásvegar 1, er gert ráð fyrir aukningu á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyttri notkun efri hæða fyrir íbúðir. Samkvæmt greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verða nýbyggingar fjórar talsins og hækkar heildarnýtingarhlutfall lóðarinnar úr 3,51 í 3,69 og heildarbyggingarmagn úr 16.284 í 21.240 m². Þar af er gert ráð fyrir 17.390 m² undir íbúðir. Eins og áður greinir eru í aðalskipulagi rúmar uppbyggingarheimildir á skipulagssvæðinu en þar er gert ráð fyrir allt að 600 íbúðum, séu vikmörk nýtt til hækkunar. Með vísan til þessa og með hliðsjón af því að sveitarstjórnum er í lögum falið víðtækt skipulags­vald, sbr. áðurgreint ákvæði 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, verður ekki talið að gengið hafi verið með óhæfilegum hætti á uppbyggingarheimildir annarra lóðarhafa á skipulagssvæðinu með hinni kærðu ákvörðun. Nýbyggingar verða fjórar til sex hæðir með inndreginni sjöundu hæð. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti verða þrjár af fjórum nýbyggingum fjögurra til fimm hæða en sú nyrsta verður sjö hæðir með efstu hæðina inndregna. Borgaryfirvöld hafa vísað til þess við vinnslu tillögunnar að sú bygging verði hækkuð að horni Grensásvegar og Suðurlands­brautar, þannig að hún myndi reisulega hornbyggingu, og að byggingar til suðurs að Skeifunni verði lækkaðar. Hafa því verið færð fram rök fyrir nýtingu vikmarka í aðalskipulagi til hækkunar. Fer hin kærða deiliskipulagsbreyting samkvæmt framangreindu ekki í bága við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt.

Umrædd deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum, var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist svo gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Skipulagsáætlanir sveitarfélaga skiptast í þrjá flokka, þ.e. svæðisskipulag, deiliskipulag og aðalskipulag, sbr. m.a. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Rammaskipulag hefur ekki lögformlega stöðu en í skilmálum hins kærða deiliskipulags er m.a. mælt fyrir um að ramma­skipulag svæðisins hafi að geyma „stefnumarkandi heildarsýn fyrir uppbyggingu í Skeifunni og tengsl við nærliggjandi svæði“. Getur rammaskipulag að framangreindum ástæðum ekki bundið hendur sveitarfélaga við deiliskipulagsgerð eða skipað réttindum manna og skyldum með bindandi hætti, líkt og á við um aðal- og deiliskipulag.

Að þeirri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, m.a. hvað landnotkun varðar, svo sem áskilið er í 11. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og ekki liggur fyrir að ágallar hafi verið á málsmeðferð ákvörðunar­innar um veitingu byggingarleyfisins.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 12. mars 2020 um breytingu á deiliskipulaginu „Skeifan – Fenin“ vegna lóðarinnar Grensásvegar 1.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. júní 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða fjölbýlishúsi með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 1 við Grensásveg.

32/2020 Laugavegur

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur en Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 um að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2020, er barst nefndinni 5. s.m., kæra eigendur Laugavegar 132, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og er farið fram á að úrskurðarnefndin heimili byggingu kvista á nefnt hús.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. júní 2020.

Málsatvik: Laugavegur 132 er innan deiliskipulags Hampiðjureits, nánar tiltekið staðgreini­reita 1.241.0 og 1.241.1., sem samþykkt var í borgarráði 20. júlí 2006 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 8. ágúst s.á. Í greinagerð deiliskipulagsins kom eftirfarandi m.a. fram: „Heimilt er að gera minni háttar breytingar á húsum á reitunum að undangenginni samþykkt byggingarfulltrúa, s.s. gera skyggni, svalir, litla kvisti og lagfæringar án þess að breyta þurfi deiliskipulagi.“

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 17. nóvember 2017 var tekin fyrir fyrirspurn kæranda um byggingu kvista á húsið að Laugavegi 132. Var hún afgreidd með vísan til umsagnar skipulags­fulltrúa, dags. 16. s.m., þar sem fram kom að stærð kvistanna teldist ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags á svæðinu. Samkvæmt skipulaginu væri heimilt að setja litla kvisti á þök húsa á reitnum. Þá þyrftu svalir að vera innan þakflatar og meðfylgjandi skýringarmynd að sýna mögulega útfærslu m.v. skilmála deiliskipulagsins og ábendingar varðandi útfærsluatriði. Í framhaldi af þessu voru haldnir fundnir með kærendum vegna málsins.

Hinn 21. mars 2019 var sótt um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Laugavegi 132, sem voru í meginatriðum í samræmi við fyrirspurnina sem send hafði verið inn 2017. Var sótt um leyfi til að byggja kvisti á báðum þekjum hússins og leyfi fyrir nýjum gluggum og svölum á suðurhlið þess. Var umsóknin tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 2. apríl 2019 og erindinu vísað til skipulags­fulltrúa til umsagnar, sem vísaði því á fundi sínum 5. s.m. til umsagnar verkefnisstjóra. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. maí 2017, var vísað í leiðbeiningar og skilyrði eldri umsagnar frá árinu 2017. Þá kom eftirfarandi fram: „Þar sem ágreiningur hefur verið milli aðila um hvað séu „litlir kvistir“ hefur skipulagsfulltrúi ákveðið að skerpa á skilmálum með texta­breytingu þar sem skilmálar um kvisti og svalir verða endurskoðaðir. Skilgreind verður hámarksstærð þeirra og staðsetning í þaki. Einnig verða heimildir um svalir skilgreindar nánar, bæði hvað varðar stærð og staðsetningu.“ Erindið var lagt fram að nýju á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 24. maí 2019 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa sem var samþykkt.

Kærendur sendu byggingarfulltrúa bréf, dags. 15. ágúst og 18. september 2019, þar sem þeir mótmæltu því að byggingarleyfisumsókn þeirra væri í andstöðu við gildandi deiliskipulag og óskuðu eftir því að fá aðra umsögn frá skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. september 2019 var lögð fram og samþykkt umsögn, dags. 3. s.m., þar sem ekki var fallist á þá túlkun kærenda að umsóknin væri innan heimilda deiliskipulagsins. Þá var tekið fram að drög að textabreytingu gildandi deiliskipulags fyrir svæðið lægu fyrir og yrðu lögð fyrir skipulags- og samgönguráð innan skamms. Þegar tillagan hefði verið samþykkt yrði hún auglýst og samhliða send bréf í þau hús innan reitsins sem breytingin kynni að varða. Lögð var fram þriðja umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. september 2019, á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. s.m. Þar kom m.a. fram í niðurstöðu umsagnarinnar að breyting á deiliskipulagi Hampiðju­reits, staðgreinireits 1.241.0 og 1.231.1 væri að fara í auglýsingu innan fárra daga og bréf yrði sent til þeirra sem málið varðaði til að koma að athugasemdum við tillöguna. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 11. september 2019 var samþykkt að auglýsa breytingartillögu skilmála deiliskipulagsins sem fól í sér að heimild í deiliskipulagi var skilgreind nánar vegna minniháttar breytinga varðandi kvisti og svalir.

Með bréfi, dags. 7. október 2019, óskuðu kærendur eftir svörum frá skipulagsfulltrúa við því hvaða faglegu forsendur kæmu í veg fyrir það að tillögur að breytingum að Laugavegi 132 yrðu samþykktar til samræmis við samþykktar breytingar sem heimilaðar hefðu verið að Mjölnisholti 8 og Laugavegi 130 árin 2007 og 2018. Sömu skilmálar deiliskipulags gildi fyrir allar þessar fasteignir. Svör borgaryfirvalda voru á þá leið að deiliskipulag reitsins sem samþykkt hefði verið 20. júlí 2006 heimilaði „litla kvisti“. Hefði samþykkt þessi verið gerð í því skyni að ná utan um breytingar á húsum og gæta þess að fagurfræðilegar áherslur væru hafðar að leiðarljósi við mat á t.d. stærðum kvista, sem væri sérstaklega mikilvægt á götuhlið húsa. Kvistir hafi mikil áhrif á útlit húsa og því mikilvægt að horft sé til þess að bæði stærð, lögun og hlutföll séu í samræmi við byggingarstíl húss. Afgreiðsla erindis vegna Laugavegar 132 hafi byggst á gildandi skipulagsskilmálum. Augljóst hafi þótt að um mjög stóra kvisti væri að ræða og því væri ekki hægt að samþykkja þá sem litla kvisti og einnig hafi verið litið til fagurfræðilegra atriða með tilliti til byggingarstíls hússins. Byggingarleyfi fyrir húsi að Mjölnisholti 8 hefði verið samþykkt af byggingarfulltrúa 21. febrúar 2017, þar sem m.a. hefði verið gert ráð fyrir stórum kvistum sem samþykktir hefðu verið af byggingarfulltrúa án þess að umsagnar skipulagsfulltrúa væri leitað. Enn fremur hafi þar verið byggðir enn stærri kvistir en útgefið byggingarleyfi heimilaði og hafi þeir náð yfir tvö hús samfellt. Varðandi Laugaveg 130 þá hefði verið samþykktur kvistur á bakhlið sem næði yfir u.þ.b. 2/3 af breidd húss og gæti því talist með stærri kvistum. Byggingarleyfi fyrir þeirri stækkun hefði verið samþykkt árið 2007 og það leyfi verið endurnýjað árið 2018. Nú væri búið að auglýsa breytingu á umræddu deiliskipulagi sem skilgreindi nánar „litla kvisti“ og heimilaði að hægt væri að byggja stærri kvisti á bakhliðum húsa með breidd allt að 2/3 af húshlið, eða eins og t.d. sá sem hefði verið samþykktur við Laugaveg 130. Því væri vísað á bug að eigendur Laugavegar 132 hefðu ekki fengið rökstuðning fyrir afgreiðslu erindis þeirra hjá umhverfis- og skipulagssviði heldur hefði sviðið margítrekað reynt að koma áleiðis ábendingum og leiðbeiningum um hvernig best væri að standa að málinu til að hægt væri að afgreiða það í samræmi við þær heimildir sem til staðar væru. Nýlega auglýst breyting á deiliskipulaginu gæfi rýmri heimildir til stærðar á kvistum bakhliða, m.a. til að koma til móts við óskir kærenda, og heimilaði svipaðar breytingar og gerðar hefðu verið á Laugavegi 130. Við meðferð málsins hafi rannsóknar- og jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins verið virt og rökstuðningur ávallt legið fyrir í þeim um­sögnum skipulagsfulltrúa er varðað hefðu afgreiðslu málsins. Fyrrnefnd deiliskipulags­breyting var síðan samþykkt í skipulags- og samgönguráði 15. janúar 2020, í borgarráði 23. s.m. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. mars 2020.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. mars 2020 var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju og hún send til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem tók málið fyrir á fundi 3. apríl s.á. Þar lágu fyrir umsagnir skipulagsfulltrúa, dags. 23. maí, 3. og 26. september 2019. Var tekið neikvætt í erindið með vísan til fyrri umsagna skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. apríl 2020 var erindinu synjað með vísan til bréfs skipulagsfulltrúa, dags. 6. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi margoft samþykkt breytingar á fasteignum á umræddum deiliskipulagsreit þar sem kvistir séu stórir og/eða nái samfellt yfir þak beggja vegna fasteignar. Mistök séu ekki röksemdir sem hægt sé að bera fyrir sig. Samþykkt hafi verið breyting á deiliskipulagi fyrir Mjölnisholt 4-8 þar sem stærð kvista hafi ekki verið skilgreind sérstaklega. Löglega samþykktar breytingar að Mjölnisholti 6 og 8 feli í sér samfellda kvisti yfir þak beggja vegna fasteignanna. Með fyrirliggjandi samþykktum breytingum undir gildandi deiliskipulagi hafi skapast fordæmi sem skipulagsyfirvöld geti ekki hafnað. Með synjun sé farið á svig við ákvæði stjórnsýslulaga um jafnræði. Óskir eigenda að Laugavegi 132 séu í engu frábrugðnar þeim breytingum sem samþykktar hafi verið að Mjölnisholti 6 og 8, sem samfelldir kvistir yfir meginhluta þaks, beggja vegna fasteignar. Þá hafi skipulagsyfirvöld heimilað byggingu á stórum kvist á húsinu að Laugavegi 130 og þannig sett viðmið um heimild til byggingar á stórum kvistum. Þá hafi skipulagsfulltrúinn í Reykjavík staðfest 9. nóvember 2016 breytingu á deiliskipulagi fyrir Mjölnisholt 4-8 þar sem fallið hafi verið frá kröfunni um að kvistir væru litlir. Með þessari breytingu hafi skipulagsyfirvöld í Reykjavík verið að gefa fordæmi fyrir aðra eigendur fasteigna um mögulegar breytingar á fasteignum á deiliskipulagsreitnum. Lög um opinbera stjórnsýslu kveði skýrt á um að gæta eigi jafnræðis.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að umsótt byggingarleyfi sé í ósamræmi við þær heimildir sem koma fram í deiliskipulagi sem gildi fyrir Laugaveg 132. Því sé vísað á bug að rannsóknar- og jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin við vinnslu málsins. Rökstuðningur hafi ávallt legið fyrir í þeim umsögnum skipulagsfulltrúa er varði afgreiðslu í þessu máli og langt frá því að skipulagsyfirvöld hafi þagað þunnu hljóði í þessu máli eða komið sér hjá því að afgreiðsla málið.

Viðbótaathugasemdir kærenda: Í svari Reykjavíkurborgar sé mikið lagt upp úr frásögn í samskiptum en minna fjallað um hin eiginlegu ágreiningsefni. Engin tilraun sé gerð til að rök­styðja ákvarðanir skipulagsyfirvalda vegna Mjölnisholts 6, 8 og Laugavegs 130. Mótsagna­kenndar útskýringar um að byggingarfulltrúi hafi ekki borið málið undir skipulagsfulltrúa og breytingar á deiliskipulagi löngu eftir samþykkt breytinga sé helsti rökstuðningur Reykjavíkur­borgar. Vegna umræðu um stærð kvista sé að lokum komið á framfæri afriti af ljósmynd sem tekin hafi verið af fasteignum Laugavegi 130 og 132 29. júní. Ekki þurfi að hafa mörg orð um þann órétt sem kærendur séu beittir vegna óska sinna um breytingar. Á meðan skipulags­yfirvöld neiti breytingum að Laugavegi 132 standi breyting yfir að Laugavegi 130 sem samþykkt hafi verið í tvígang af skipulagsyfirvöldum í Reykjavík undir ákvæðum deili­skipulags frá 20. júlí 2006.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 um að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132.

Húsið að Laugarvegi 132 er á svæði þar sem er í gildi deiliskipulag Hampiðjureits, samþykkt 20. júlí 2006. Í því deiliskipulagi var heimild til að gera minni háttar breytingar á húsum á reitunum að undangenginni samþykkt byggingarfulltrúa, „s.s. gera skyggni, svalir, litla kvisti og lagfæringar án þess að breyta þurfi deiliskipulagi“. Kærendur og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna umsóknar kærenda og fyrirspurna um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. nóvember 2017, vegna fyrirspurnar annars kærenda um hvort setja mætti svalir á húsið að Laugavegi 132 til suðurs og litla kvisti á þak þess var m.a. vísað til þess að tillagan sem fylgdi fyrirspurninni teldist ekki samræmast deiliskipulagi og „myndu þeir kvistir teljast mjög stórir sem ná yfir allan þakflötinn“.

Hinn 11. september 2019 samþykkti skipulags- og samgönguráð að auglýsa tillögu að breytingu á nefndu skipulagi. Tillagan var samþykkt í borgarráði 23. janúar 2020 og tók gildi 2. mars s.á. Í skipulagsbreytingunni kemur fram að ástæða hennar hafi verið sú að ágreiningur hafi verið um hvað teljist „litlir kvistir“ og þ.a.l. ákveðið að skilgreina nánar hámarksstærðir kvista og skerpa ákvæði varðandi svalir. Samkvæmt breyttu deiliskipulagi eru m.a. settar þær takmarkanir að almennt skuli kvistir ekki fara nær aðliggjandi húsum en 1 m. Þá skuli þeir dregnir inn frá útvegg um 50 cm og frá mæni um 50 cm. Við götuhliðar húsa megi kvistir ná yfir allt að 1/3 af þakbreidd en við bakhliðar húsa megi kvistir ná yfir 2/3 af þakbreidd. Þá er tekið fram um svalir að þær skuli hafa samræmt létt yfirbragð og útfærsla vera með gegnsæju handriði. Við bakhliðar húsa sé heimilt að gera svalir á útvegg, hámarksdýpt sé 1,3 m og hámarkslengd 1/3 af breidd útveggjar. Við götuhliðar megi svalir ekki fara út fyrir lóðarmörk. Ekki sé heimilt að vera með svalir í risi að götu. Kvistir þeir sem sótt var um að mætti reisa á þaki Laugavegar 132 eru umfangsmeiri en heimilað er í deiliskipulagi svæðisins en gengið yrði út á fyrirhugaðar svalir úr íbúðarrými áformaðs kvists á suðurhlið hússins.

Umsókn kærenda um byggingarleyfi, sem dagsettt er 21. mars 2019, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. apríl 2020 og var afgreidd með eftirfarandi bókun: „Synjað. Með vísan til bréfs skipulagsfulltrúa dags. 6. apríl 2020.“ Í tilgreindu bréfi skipulagsfulltrúa er byggingar­fulltrúi upplýstur um niðurstöðu afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 3. apríl s.á. þar sem eftirfarandi var bókað um umsókn kærenda: „Neikvætt, með vísan til umsagna skipulags­fulltrúa, dags. 23. maí 2019, 3. september 2019 og 26. september 2019.“ Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu er í téðum umsögnum vísað til ágreinings um hvernig aðilar máls hafa túlkað „litla kvisti“ samkvæmt eldra deiliskipulagi. Þá er m.a. vísað til þess í umsögn skipulagsfulltrúa frá 26. september 2019 að „í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16.11.2017, kemur skýrt fram hvað skipulagsfulltrúi telur ásættanlegt varðandi stærðir kvista. Umsækjandi hefur ekki viljað una þeirri niðurstöðu […]“. Hvað sem öðru líður var byggingarleyfisumsókn kærenda ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svo sem því hafði verið breytt fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Var því óheimilt að samþykkja umsóknina, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Kærendur hafa vísað til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og í þeim efnum vísað til afgreiðslu borgaryfirvalda á byggingarleyfi vegna fasteignanna að Mjölnisholti 8 og Laugavegi 130. Hafa borgaryfirvöld gefið þær skýringar að afgreiðsla vegna fasteignarinnar að Mjölnisholti 8 hafi ekki komið til kasta skipulagsfulltrúa svo sem rétt hefði verið og bent á að samkvæmt gildandi skipulagi væri unnt að byggja sambærilega kvisti að Laugavegi 132 og heimilaðir hefðu verið að Laugavegi 130. Ekki verður talið að um sambærileg tilvik sé að ræða enda höfðu nefnd leyfi verið afgreidd í tíð eldra deiliskipulags og geta ekki verið fordæmis­gefandi gagnvart afgreiðslu umsóknar kærenda eftir áðurgreinda breytingu á skilmálum skipulagsins um kvisti.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. apríl 2020 um að synja byggingarleyfisumsókn um byggingu kvista og svala á húsið að Laugavegi 132.

87/2020 Akrahverfi

Með

 

Árið 2020, föstudaginn 25. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 87/2020, kæra á samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. september 2020 á tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Byggakri 22, Garðabæ, og eigendur, Byggakri 20, samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. september 2020 á tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 24. september 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 10. september 2020 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur. Í bókun nefndarinnar kom fram að tillagan gerði ráð fyrir því að flatarmál neðri hæðar hússins, þ.e. kjallara, yrði stærri en 70% að flatarmáli aðalhæðar. Innréttað hafi verið herbergi í djúpum kjallara með gólfsíðum gluggum og svæði á lóð í sömu hæð. Áður hafi verið veitt leyfi fyrir kjallararýminu sem tæknirými án glugga. Hafi sú tillaga verið samþykkt sem frávik frá deiliskipulagi. Gluggar á umræddu rými breyti þeim forsendum. Mat nefndin tillöguna sem svo að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísaði henni til grenndarkynningar. Á fundi bæjarráðs 15. september 2020 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna umræddar deiliskipulagsbreytingar. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 17. s.m.

Kærendur benda á að ekki sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða og því verði að fara með framkomna breytingu eftir 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga en ekki undantekningarákvæði 2. mgr. 43. gr. Breytingin feli í sér stefnumarkandi ákvörðun fyrir Akrahverfi. Kærendur geti staðið frammi fyrir orðnum hlut ef ekki verði tekin afstaða til lögmætis málsmeðferðarinnar áður en grenndarkynningu deiliskipulagsbreytingarinnar verði lokið og hún eftir atvikum staðfest.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar frá 17. september 2020, um að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur, er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur liður í málsmeðferð deiliskipulagsbreytingar. Ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður henni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagsbreytingin og öll málsmeðferð hennar, þ. á m. hvort farið er með er með hana sem óverulega eða verulega breytingu á deiliskipulagi, lögmætisathugun nefndarinnar.

Þar sem ekki liggur fyrir lokaákvörðun í máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

70/2020 Garðavegur

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 22. desember 2020, sjá hér.

Árið 2020, þriðjudaginn 8. september tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðar-nefnd umhverfis- og auðlindamála fyrir:

Mál nr. 70/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2020, er barst nefndinni 31. s.m., kærir eigandi Garðavegar 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á kæranda frá og með 10. júlí 2020. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 24. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem farið var fram á að umdeildur stigi við vesturhlið húss kæranda að Garðavegi 18 yrði fjarlægður, en byggingarleyfisumsókn kæranda vegna stigans hafði áður verið synjað. Veittur var fjögurra vikna frestur til að fjarlægja stigann en að öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 109/2019, uppkveðnum 20. mars 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Tilmælum byggingarfulltrúa hefði hins vegar ekki verið fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu og hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 30. mars 2020, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem vísað var til áðurgreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og farið fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður innan fjögurra vikna eða í síðasta lagi 29. apríl 2020. Ef ekki yrði brugðist við yrði dagsektum beitt frá og með 30. s.m. Mál kæranda var svo aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 24. júní 2020. Á fundinum var samþykkt að leggja dagsektir á kæranda frá og með 10. júlí 2020. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 43/2020, uppkveðnum 10. júlí 2020, var vísað til þess að í málinu lægi fyrir ákvörðun um beitingu dagsekta frá 10. júlí 2020 en hvergi væri getið um fjárhæð þeirra. Því væri ljóst að á grundvelli þeirrar ákvörðunar einnar og sér sem hefði verið kærð yrðu dagsektir ekki lagðar á kæranda. Hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál kæranda var enn tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. júlí 2020. Á fundinum var eftirfarandi bókað: „Tekið fyrir að nýju. Eigandi hefur reist stiga í óleyfi. Eiganda hafa verið send bréf þess efnis og ekki brugðist við. Afgreiðslufundur skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkir að leggja dagsektir á eiganda Garðavegs 18 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Dagsektir, 20.000 kr. pr. dag, verða lagðar á frá og með 10. júlí 2020.“ Kæranda var send tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 15. júlí 2020, og hefur kærandi borið málið undir úrskurðarnefndina, eins og að framan greinir.

Kærandi tekur meðal annars fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hafi verið ákveðið að leggja á dagsektir frá og með 10. júlí 2020. Sé þetta löglegt neyðist hann til að selja fasteign sína. Ekki sé hægt að hafa þetta yfir höfði sér.

Bæjaryfirvöld vísa til athugasemda í kærumáli nr. 43/2020. Þar sé m.a. bent á að kærandi hafi reist án leyfis stiga við hlið hússins að Garðavegi 18. Hafi verið farið ítarlega yfir stöðu málsins og honum gerð grein fyrir eðli þess. Í öllum samskiptum liggi skýrt fyrir að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingarfulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Niðurstaða: Með tölvupósti frá bæjaryfirvöldum Hafnarfjarðarbæjar er barst úrskurðar-nefndinni 7. september 2020 vegna kærumáls þessa var tilkynnt að kærandi hefði fjarlægt umþrættan stiga og byggingarfulltrúi því fallið frá ákvörðun sinni um dagsektir.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að byggingarfulltrúi afturkallaði hina kærðu ákvörðun um beitingu dagskekta hefur ákvörðunin ekki réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

67/2020 Fjósatunga

Með

Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 67/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 25. júní 2020 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur spildunnar Grjótárgerðis, Þingeyjarsveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 25. júní 2020 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu. Er þess m.a. krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 21. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Á árinu 2019 var óskað heimildar til að fara að 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hefja vinnu við deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar frístundabyggðar. Skipulagslýsing var auglýst og í kjölfar athugasemda og umsagna var unnin deiliskipulagstillaga. Hinn 26. mars 2020 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu vegna uppbyggingar frístundabyggðar. Tillagan var auglýst og frestur gefinn til athugasemda til 20. maí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar 18. júní 2020 var lagt til við sveitarstjórn að hún samþykkti fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu með áorðnum breytingum í samræmi við svör nefndarinnar við innsendum athugasendum. Jafnframt lagði nefndin til að skipulagsfulltrúa yrði falið að sjá um málsmeðferð vegna gildistöku tillögunnar í samræmi við lög og reglugerðir. Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 25. júní 2020 var tekin fyrir fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 18 s.m. Samþykkti sveitarstjórn tillögu að nýju deiliskipulagi Fjósatungu að teknu tilliti til athugasemda/umsagna og svara nefndarinnar. Var og bókað að skipulagsfulltrúa væri falin málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins.

Kærendur vísa m.a. til þess að deiliskipulagstillagan lúti að landnýtingu jarðarinnar Fjósatungu, Þingeyjarsveit sem liggi að og umlyki spildu kærenda, Grjótárgerði. Breytt deiliskipulag hafi bein og mikil áhrif á nýtingu þeirrar frístundalóðar vegna gríðarlegs þéttleika og byggingarmagns sem hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir.

Af hálfu Þingeyjarsveitar er krafist frávísunar. Umþrætt deiliskipulag hafi ekki tekið gildi og gildistaka þess ekki auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Málsmeðferð deiliskipulags samkvæmt ákvæði 42. gr. skipulagslaga standi nú yfir. Þar sé gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki deiliskipulag til athugunar og fari yfir það hvort efnis- eða formannmarkar séu á samþykktu deiliskipulagi. Nú séu ekki lögvarðir hagsmunir kærenda til kærumálsmeðferðar enda ríki óvissa um gildistöku ákvörðunar og endanlegt efni hennar. Því beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Auglýsing hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulags Fjósatungu en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Jafnframt liggur fyrir að Skipulagsstofnun hefur ekki lokið yfirferð sinni á deiliskipulaginu, sbr. fyrirmæli 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar um, og hefur af hálfu Þingeyjarsveitar verið vísað til þess að ekki liggi fyrir hver afgreiðsla stofnunarinnar verði á hinu umdeilda deiliskipulagi. Þar sem óvissa ríkir um afdrif deiliskipulagsins og lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar eru ekki uppfyllt, verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Árétta skal að ljúki meðferð deiliskipulagsins með gildistöku þess með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda telst mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar frá þeirri birtingu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

20/2020 Hrauntunga

Með

Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2020, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 21. janúar 2020 um að synja beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns vegna lóðarinnar Hrauntungu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. mars 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Dalsnes ehf., Fossaleyni 21, Reykjavík, eigandi fasteignarinnar Hrauntungu í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 21. janúar 2020 að synja beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns vegna lóðarinnar Hrauntungu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að fallast á beiðni kæranda. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að taka málið fyrir á nýjan leik.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 1. júní 2020.

Málavextir: Kærandi er eigandi húss og lóðarréttinda á lóðinni Hrauntungu í Garðabæ, en lóðin er um 3,2 ha að flatarmáli. Hinn 29. september 2015 komu fulltrúar kæranda á fund skipulags­nefndar Garðabæjar og greindu frá hugmyndum hans um uppbyggingu á lóðinni. Á fundi skipulagsnefndar 30. júní 2016 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns. Varðaði tillagan aðallega breytingar á gatnakerfi en ekki var gert ráð fyrir frekari byggð á lóðinni Hrauntungu. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarráðs 5. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda. Gerði hann athuga­semd við að ekki væri gert ráð fyrir nýjum byggingum á lóðinni og vísaði til þess að samkvæmt aðalskipulagi væri lóðin á svæði fyrir íbúðabyggð.

Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 9. mars 2017 ásamt minnisblaði skipulagsstjóra um svör við framkomnum athugasemdum. Í svari við athuga­semdum kæranda segir að fyrrverandi lóðarhafi umræddrar lóðar hafi lagt áherslu á „að hafa lóðina óbyggða og varðveita gróðurinn sem hann hafi lagt sál sína í að rækta. Ákveðin gæði eru fólgin í slíku umhverfi sem skipulagið varðveitir og í því felst enginn mismunur gagnvart lóðarleiguhafa sem áfram hefur sinn rétt samkvæmt leigusamningi um að byggja eitt hús.“ Samþykkti nefndin deiliskipulagstillöguna með breytingum sem gerðar voru til að koma til móts við athugasemdir sem borist höfðu. Var sú afgreiðsla samþykkt í bæjarráði 14. mars 2017 og í bæjarstjórn 16. s.m. Skipulagsstjóri Garðabæjar sendi kæranda bréf, dags. 29. september s.á., með svörum við athugasemdum sem borist höfðu. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. október 2017.

Kærandi kærði deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði uppkveðnum 10. janúar 2019, í kærumáli nr. 131/2017, hafnaði nefndin kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar. Í kjölfar úrskurðarins sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar með bréfi, dags. 28. mars 2019, þar sem lagðar voru fram tvær tillögur að skipulagi lóðarinnar Hrauntungu. Á fundi bæjarráðs 9. apríl s.á. var umsókn kæranda vísað til skipulags­nefndar, en jafnframt var fært til bókar að bæjarráð árétti þá kvöð sem fram komi í 2. gr. lóðarleigusamnings lóðarinnar um að landið sé leigt leigutaka til byggingar íbúðarhúss og til skógræktar. Í bréfi kæranda frá 10. s.m. var óskað eftir upplýsingum um hvort sambærileg ákvæði hafi verið í lóðarleigusamningnum „sem voru gerðir um lóðirnar í kring á svipuðum tíma og lóðarleigusamningur var gerður um Hrauntungu.“

Hinn 22. desember 2019 kærði kærandi drátt á afgreiðslu erinda sinna með vísan til málshraða-reglu 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en hann hafði þá hvorki fengið afgreiðslu á erindi sínu frá 28. mars s.á. né svar við fyrirspurn sinni frá 10. apríl s.á. Á fundi bæjarráðs 21. janúar 2020 var erindi kæranda tekið fyrir. Var bókað að bæjarstjóri hafi kynnt drög að svarbréfi við bréfi kæranda og honum falið að svara bréfinu. Í bréfi bæjarritara, dags. 30. janúar 2020, til kæranda kom fram að sveitarfélagið telji ekkert fram komið sem kalli á breytingar á skipulagi umræddrar lóðar í samræmi við tillögur kæranda. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2020, óskaði kærandi eftir svari við fyrirspurn sinni frá 10. apríl 2019 um sambærileg ákvæði í lóðarleigusamningum annarra lóða á svæðinu. Í bréfi bæjarritara til kæranda, dags. 17. febrúar s.á., var fyrirspurn kæranda svarað.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi eignast lóðina Hrauntungu árið 2011 og hafi strax lýst yfir áhuga við bæjaryfirvöld að skipuleggja lóðina upp á nýtt líkt og gert hafi verið við lóðir í kring. Ítrekað hafi komið fram af hálfu kæranda að sú byggð gæti farið mjög vel saman við þann gróður og útsýni sem fyrir sé á lóðinni og að vinna mætti skipulagið þannig að Garðbæingar og aðrir gætu notið umhverfisins. Á árinu 2016 hafi verið auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns og hafi kærandi komið að athugasemdum vegna tillögunnar. Í minnisblaði skipulagsstjóra um framkomnar athugasemdir hafi komið fram að fyrrverandi lóðarhafi hafi lagt áherslu á að „hafa lóðina óbyggða og varðveita gróðurinn sem hann hafði lagt sál sína í að rækta. Ákveðin gæði séu fólgin í slíku umhverfi sem skipulagið varðveitir og í því felst engin mismunun gagnvart lóðarleiguhafa sem áfram hefur sinn rétt samkvæmt leigusamningi um að byggja eitt hús.“

Deiliskipulagsbreytingin hafi verið samþykkt en kærandi hafi kært þá ákvörðun til úrskurðar­nefndarinnar. Í úrskurði sínum hafi nefndin talið að við ákvörðun um skipulag tiltekins svæðis geti sveitarfélag ekki látið niðurstöðu sína ráðast af vilja fyrrum lóðarleiguhafa um upp­byggingu á lóðinni. Þá hafi nefndin vísað til þess að í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felist „fyrst og fremst breyting á legu gatna“. Hins vegar hafi verið tekið fram að í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið gert ráð fyrir „þeim möguleika að lóðinni Hrauntungu, sem og annarri stórri lóð, verði skipt í smærri lóðir með sambærilegu skipulagi og þar sé lýst. Verður að telja að með því móti hafi verið komið í nokkru til móts við óskir kæranda og meðalhófs verið gætt.“ Forsendur úrskurðarins feli sér viðurkenningu á annars vegar því að sá rökstuðningur sem bærinn hefði teflt fram fyrir synjun sinni væru ekki málefnalegur og hins vegar að fyrirliggjandi greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar feli í sér að lóðarhafi Hraun­tungu hefði þann möguleika að fá að skipta lóð sinni upp í smærri lóðir. Á grundvelli þess hafi erindi kæranda frá 28. mars 2019 um að breyta skipulagi lóðarinnar verið sent til Garðabæjar.

Bærinn hafi nú sem fyrr hafnað tillögum um breytingu á skipulagi lóðarinnar. Bent sé á að þær tillögur séu í beinu samhengi og orsakasambandi við þær forsendur sem fram komi í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 131/2017. Synjunin sé ekki lengur byggð á vilja fyrrum lóðarhafa heldur á því að lóðarleigusamningur girði fyrir að gerðar séu breytingar á fyrirkomulagi lóðarinnar. Nánar tiltekið komi fram í bréfi bæjarritara frá 30. janúar 2020 að um sé að ræða leigulóð til byggingar íbúðarhúss og skógræktar. Leigutími lóðarinnar sé 50 ár og að þegar sé liðinn rúmlega helmingur leigutíma og „því möguleiki á að landið falli til Garðabæjar að leigutíma loknum sem gefur tækifæri til að skilgreina landið allt eða hluta þess sem opið svæði.“ Ekki sé fallist á þennan rökstuðning. Bærinn vilji ekki virða eigin greinargerð með skipulagi vegna þess að ákvæði lóðarleigusamnings, sem bærinn sjálfur sé aðili að, sé orðað með tilteknum hætti. Bærinn sé að reyna að setja fyrri rökstuðning sinn, þ.e. að einhvers konar óljóst og óskjalfest loforð við fyrri eiganda komi í veg fyrir uppbyggingu, í nýjan búning. Lóðarleigu­samningar hafi almennt veitt lóðarhafa öll eðlileg afnot af leigulóðinni í krafti lóðarleigu­samningsins. Rökstuðningur bæjarins fari gegn ákvæðum skipulagsins sem það hafi sjálft sett, en þau ákvæði hafi komið til eftir að lóðarleigusamningurinn var gerður.

Hin nýja afstaða bæjarins sé á engan hátt rökstudd frekar eða reynt að útskýra hvers vegna eðlilegt sé að kærandi fái þessa meðferð þegar lóðum í kring hafi verið heimilt að fá skipulagi sínu breytt. Ítrekað sé að ríkur vilji sé til þess að leyfa umhverfi lóðarinnar að njóta sín í breyttu skipulagi en vert sé að benda á að í dag sé umrædd lóð einkalóð og afgirt þannig að náttúra hennar nýtist engum. Rökstuðningur bæjarins standist því ekki skoðun. Ákvörðun bæjarins fari gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga, vönduðum stjórnsýsluháttum og meginreglum skipulagslaga nr. 123/2010 um forræði lóðarhafa á skipulagi á sínum lóðum.

Málsrök Garðabæjar: Bæjaryfirvöld vísa til greinargerðar Garðabæjar í máli úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 131/2017 þar sem afstaða sveitarfélagsins komi fram en þar segi að skipulagsvaldið sé í höndum sveitarstjórnar og verði eigendur landa og lóða almennt að lúta málefnalegum ákvörðunum þeirra í því efni. Hafi kærandi ekki getað haft væntingar til þess að fá auknar heimildir til byggingar á svæði þar sem skipulagi hafi verið frestað og það sér í lagi þegar þess sé gætt að forveri hans, sem var upphaflegur lóðarhafi, hafi sérstaklega óskað þess að svæðið yrði áfram nýtt til skógræktar sem hann hafi stundað á landinu. Breyti þar engu þótt svæðið sé skilgreint sem íbúðarsvæði í aðalskipulagi, enda megi á slíkum svæðum gera ráð fyrir opnum svæðum, leiksvæðum, görðum og þjónustulóðum fyrir nær­þjónustu án þess að það sé sérstaklega tilgreint á uppdrætti. Í lóðarleigusamningi um lóðina Hrauntungu komi skýrt fram að aðeins sé leyfi til að byggja eitt íbúðarhús á lóðinni og óheimilt sé að reisa byggingar á landinu. Í bréfi til kæranda, dags. 30. janúar 2020, sé þessi afstaða ítrekuð.

Ekki sé óalgengt að lóðarleigusamningar hafi að geyma ákvæði eða kvaðir sem þrengi land­notkun miðað við það sem annars væri ef aðeins væri horft til skipulags og sé auðvitað ekkert við það að athuga þótt eigandi lóðar vilji halda skilmálum samningsins. Sveitarfélagið sé eigandi lóðarinnar og eðlilegt að það hafi meira um það að segja hvernig lóðinni verði ráðstafað heldur en leigutaki samkvæmt samningi sem meira en helmingur leigutímans sé liðinn. Sveitar­félagið árétti að sú afstaða að gera ekki tillögur um breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar að Hrauntungu ráðist ekki af vilja fyrrum lóðarhafa þó að afstaða hans hafi verið kunnug um að varðveita ræktun og byggja ekki frekar á lóðinni. Tilvísun til vilja fyrri eigenda hafi enga þýðingu í málinu enda sé það ekki sá vilji sem ráði afstöðu sveitarfélagsins. Sjónarmið um varðveislugildi lóðarinnar séu alveg óháð vilja fyrri eigenda.

Mikil vakning hafi orðið í umhverfismálum á þeim áratugum sem liðnir séu frá því minni erfðaleigulöndum á skipulagssvæðinu hafi verið skipt upp í fleiri lóðir á árunum milli 1960 og 1990 og nú séu aðeins stærstu lóðirnar eftir óskiptar og ósnortnar, þ.e. Hrauntunga og Hraun, sem jafnframt eru þau svæði þar sem mest skógrækt hafi átt sér stað. Hafi afstaða sveitar­félagsins verið hin sama til þessara svæða, þ.e. að halda í þau eins og þau eru og sé þannig gætt jafnræðis milli þeirra aðila sem séu í sambærilegri stöðu. Hafi það einstakt gildi fyrir skipulag heildarsvæðisins og verði þau sjónarmið að teljast málefnaleg.  Ákvæði í deiliskipulagi sem fjalli um möguleika á að skipta löndum Hrauns og Hrauntungu breyti ekki því að skipulags­valdið sé hjá sveitarfélaginu en í því felist ekki bara vald til að ákveða hvort leyfa eigi breytingu á skipulagi og skipta upp landi, heldur líka hvenær í slíka breytingu yrði ráðist.

Frá því að deiliskipulag svæðisins hafi upphaflega verið samþykkt árið 2003 hafi enginn lóðar­hafi fengið að breyta skipulagi til að skipta upp landi eða lóð. Það sé því ekki um neina mismunun að ræða eða brot á jafnræðisreglu. Allt aðrar ástæður séu í dag en voru á síðari hluta síðustu aldar auk þess sem þau lönd sem skipt hafi verið upp á þeim tíma hafi ekki verið sambærileg við Hrauntungu og Hraun hvað varði stærð lands og umfang ræktunarstarfs, einkum skógræktar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar að við kaup á lóðinni Hrauntungu árið 2011 hafi hvergi komið fram neins konar kvöð eða tilkynning um að fyrri eigandi hefði komið á framfæri vilja sínum um að lóðin ætti að vera óbreytt um alla framtíð. Hvað þá að sveitarfélagið hefði tekið þá afstöðu upp og myndi fortakslaust leggjast gegn öllum breytingum á skipulagi lóðarinnar þaðan í frá. Í greinargerð sveitarfélagsins með skipulagi um Hrauntungu hafi komið skýrt fram að unnt sé að fá skipulagi lóðarinnar breytt. Að halda því fram af hálfu bæjarins að örðugt sé að fara í þessa breytingu vegna innviða þá sé því alfarið hafnað. Um sé að ræða lóð í miðju byggðu hverfi með öllum umferðarmannvirkjum til staðar og öðrum innviðum sem máli skipta. Um sé að ræða nýtt sjónarmið af hálfu bæjarins, þar sem kæranda hafi aldrei verið gerð grein fyrir því að bærinn byggði synjun sína á innviðum og mögulegri uppbyggingu þeirra og þá hvaða innviða væri horft til að þessu leyti.

Nú virðist sem afstaða bæjarins byggist fyrst og fremst á orðalagi lóðarleigusamnings. Því sé alfarið hafnað og bent á að lóðarleigusamningar hafi verið í gildi um aðrar sambærilegar lóðir þegar skipulagi þeirra lóða hafi verið breytt. Sé því andmælt sem ólögmætu sjónarmiði af hálfu bæjarins að bera þetta fyrir sig auk þess sem það standist ekki jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frá því að umræddur lóðarleigusamningur hafi verið gerður hafi sveitarfélagið a.m.k. í tvígang lýst því yfir í greinargerð með skipulagi að vilji bæjarins standi til þess að breyta skipulagi en að því sé frestað. Í öllum erindum sínum til sveitarfélagsins hafi verið ítrekað tekið fram að kærandi vilji hlúa að náttúru svæðisins. Þessi viðleitni mæti hins vegar engum áhuga sveitarfélagsins. Lóðin sé einkalóð og notuð sem slík í dag en sveitarfélagið fjalli um lóðina líkt og um sé að ræða friðaða náttúruperlu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin til endur­skoðunar lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. janúar 2020 að synja beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns vegna lóðarinnar Hrauntungu. Hins vegar fellur það utan valdheimilda nefndarinnar að taka ákvörðun um að leggja fyrir sveitar­félagið að samþykkja umsótta breytingu á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags skv. 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er það í valdi sveitarstjórnar að samþykkja deiliskipulag, sbr. 40. – 42. gr. laganna. Gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Sveitarfélagi er falið víðtækt vald í skipulagsmálum, líkt og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga en við beitingu þess valds ber þó að fylgja markmiðum laganna sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Skipulagsvald sveitarstjórna er tæki þeirra til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Í lögum er skipulagsyfirvöldum ekki sett sérstök tímamörk um hvenær hrinda skuli einstökum þáttum skipulags í framkvæmd og það því háð mati þeirra hvenær og með hvaða hætti til dæmis ráðist er í þéttingu byggðar á einstökum svæðum. Verður almennt að búast við því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema til þess að ná lögmætum skipulags­markmiðum eða með hliðsjón af öðrum almannahagsmunum. Ber sveitarstjórn við meðferð slíkra tillagna að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rök­stuðning ákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er lóðin Hrauntunga á skilgreindu íbúða­svæði. Í gildandi deiliskipulagi Garðahrauns, sem upphaflega tók gildi á árinu 2003, er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðabyggðar á svæði sunnan Garðahraunsvegar. Þar hefur aðeins komið til uppbyggingar á tveimur lóðum og ekki liggja fyrir áætlanir um frekari uppbyggingu að svo stöddu. Á lóð kæranda Hrauntungu, sem er um 3,2 ha og er á umræddu svæði, er gert ráð fyrir einu einbýlishúsi líkt og í gildandi lóðarleigusamningi. Hefur kærandi ítrekað leitað eftir samþykki skipulagsyfirvalda fyrir uppbyggingu íbúðabyggðar á lóðinni.

Við málsmeðferð síðustu breytingar á deiliskipulagi Garðahrauns sem samþykkt var á árinu 2017 fór kærandi fram á að settar væru í skipulagið heimildir til uppbyggingar íbúðasvæðis á lóð hans en þeirri málaleitan var hafnað. Var sú niðurstaða kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Í forsendum nefndarinnar í því máli var komist að þeirri niðurstöðu að sú afstaða sveitarfélagsins að vilja varðveita þau gæði sem felast í lítt byggðri lóð innan svæðisins væru ekki talin ómálefnaleg. Var og talið að hin kærða ákvörðun fæli ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki væri gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu í umræddri deiliskipulagsbreytingu. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið og þar sem aðstæður hafa ekki breyst frá fyrri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 131/2017, þykir ekki tilefni til að breyta mati hennar sem fyrir liggur forsendum þess úrskurðar.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því að einstaklingar eða lögaðilar eiga ekki lögvarinn rétt til að knýja fram skipulagsbreytingar gegn vilja skipulagsyfirvalda, verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Garðabæjar frá 21. janúar 2020 um að synja beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi Garðahrauns vegna lóðarinnar Hrauntungu.

15/2020 Naustabryggja

Með

Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. febrúar 2020, sem barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Naustabryggju 31-33, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. apríl 2020.

Málavextir: Fyrirliggjandi gögn bera það með sér að kærandi og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 í Reykjavík. Byggingarfulltrúa barst tölvupóstur frá kæranda 10. janúar 2018, þar sem spurt var um hvort verk fengi lokaúttekt ef ákvæði um frágang, fjölda og stærð bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða væri ekki fullnægt. Einnig var spurt hvort verktaki fengi leyfi fyrir slíkri framkvæmd, þar sem fyrir lægi að lóð aðalinngangs byggingar væri á einkalóð annarra en þeirra sem byggju í umræddri byggingu og hvort eða hvernig hann gæti þá uppfyllt skilyrði lokaúttektar um stæði fyrir hreyfihamlaða. Erindinu var svarað að hluta til með tölvupósti starfsmanns skipulags­fulltrúa 15. s.m. á þann veg að kæranda hefði í tvígang verið sendir tölvupóstar með fylgi­gögnum er vörðuðu svæðið.

Hinn 22. febrúar 2019 barst Reykjavíkurborg annað erindi frá kæranda þar sem vakið var máls á því að bygging Naustabryggju 31-33 og annar frágangur stangaðist á við byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem engin aðkoma væri fyrir hreyfihamlaða. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með tölvupósti 7. mars 2019, þar sem meðal annars var vísað til teikningar af bílakjallaranum á lóð Naustabryggju 17-19 og 31-33 og Tangabryggju 6-8, 10 og 12-12A, en þar komi fram að í kjallaranum séu fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða og önnur átta bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu á lóð fyrir utan bílageymslu sem tilheyri húsunum.

Með tölvupósti til skipulagsfulltrúa 20. júní 2019 fór kærandi fram á við borgaryfirvöld að gildandi deiliskipulagi yrði breytt þannig að Naustabryggja 31-33 fengi afnot af bílastæðum norðan við húsið og stæði fyrir fatlaða yrði merkt hið fyrsta ásamt því að tryggja aðkomu neyðarbíla. Erindinu var svarað af hálfu skipulagsfulltrúa 12. september s.á. þar sem skipulagslegar aðstæður voru skýrðar. Í svarpósti skipulagfulltrúa kom meðal annars fram að ef óskað væri eftir afstöðu skipulagsfulltrúa hvort mögulegt væri að breyta deiliskipulagi þyrfti að senda fyrirspurn þess efnis í gegnum rafræna Reykjavík.

Hinn 5. nóvember 2019 sendi kærandi Reykjavíkurborg erindi að nýju og var því svarað með tölvupósti yfirverkfræðings byggingarfulltrúa 20. nóvember 2019 og fylgdi í viðhengi öryggis- og lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna umræddrar byggingar ásamt umsókn um byggingarleyfi og afgreiðslu hennar í fundargerð. Byggingarfulltrúi svaraði jafnframt erindinu með tölvupósti sama dag. Þar kom meðal annars fram að ekki yrði annað séð en að gerð væri góð grein fyrir algildri hönnun og aðkomu fyrir alla á samþykktum teikningum. Með tölvupósti 24. nóvember 2019 til Reykjavíkurborgar áréttaði kærandi kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 að skilyrðum byggingarreglugerðar væri fylgt og a.m.k. þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðalinngangi þessara tveggja stigaganga. Erindinu var svarað af hálfu byggingarfulltrúa 25. nóvember s.á. Ítrekaði hann að embættið hafi ekki komið að gerð deiliskipulags. Kröfur um bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt byggingarreglugerð væru uppfylltar í bílastæðakjallara. Vissulega væri erfitt að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfi­hamlaða við götu, nálægt aðalinngöngum hússins vegna staðsetningar lóðarmarka til norðurs, en bæði væru merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóðinni og við næstu götur. Þau væru þó vissulega ívið lengra frá aðalinngöngum en kveðið væri á um í byggingarreglugerð. Því yrði ekki breytt á meðan lóðarmörkin við norðurhlið húsanna nr. 31-33 við Naustabryggju væru eins og raun bæri vitni samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Með tölvupósti sem var sendur af hálfu skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til byggingar­fulltrúa 21. janúar 2020 var þess óskað að tekin yrðu saman þau svör sem veitt hafi verið vegna fyrirspurna kæranda og honum sent heildstætt lokasvar vegna ítrekunar hans á því að ófullnægjandi svör hafi borist við erindi hans. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. s.m., voru samskipti borgaryfirvalda og kæranda reifuð og í niðurstöðu bréfsins var eftirfarandi tekið fram: „Ítrekað er að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða er í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, en eins og áður hefur komið fram er kröfum um bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða þegar fullnægt í bílakjallara hússins, en auk þeirra eru stæði fyrir hreyfihamlaða á lóð. Kröfu þinni um að Reykjavíkurborg tryggi, án tafar, aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðal­inngangi Naustabryggju 31-33 er því hafnað.“ Var og tilkynnt að embættið muni ekki aðhafast frekar vegna málsins og kæranda bent á að afgreiðsla erindis hans væri kæranleg til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Var þessi afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefndina eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að aðgengi fyrir fatlaða sé ekki tryggt frá bílakjallara Naustabryggju 31-33. Bílastæðin séu án sérstakrar hönnunar sem sýni sig til dæmis í því að hurðir á milli kjallara og íbúðarhúss séu ekki með sjálfvirkum opnara. Þá séu hvorki uppfyllt skilyrði um fjarlægð né fjölda stæða. Byggingarfulltrúi hafi staðfest að stæðin séu lengra frá en byggingarreglugerð nr. 112/2012 geri ráð fyrir. Reykjavíkurborg sé ekki heimilt að víkja með samningum frá ákvæðum byggingarreglugerðar um aðgengi fatlaðra. Núverandi skipulag hafi þá þýðingu að íbúar hússins geti ekki keypt sér þjónustu að heimili sínu um það gatnakerfi sem liggi að húsinu heldur þurfi þeir að gefa upp annað heimilisfang. Þetta bjóði upp á að skipulag borgarinnar sé að óþörfu bæði óáreiðanlegt og handahófskennt. Kærandi telji að lagfæra megi stöðuna með því að gera bílastæði norðanmegin og næst húsinu að framanverðu sem liggi að borgarlandi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í samþykktri byggingarlýsingu á aðaluppdráttum fyrir Naustabryggju 31-33, dags. 10. október 2014, segi um bílastæði fyrir hreyfihamlaða: „Bílageymsla er aðgangsstýrð, og er eitt stæði fyrir hverja íbúð. Útisvæði fyrir húsin eru á lóðinni 12E og við götur. Sjá nánar bílastæða-bókhald hér að ofan. Gert er ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða.“ Í samþykktri byggingarlýsingu sé einnig með ítarlegum hætti fjallað um algilda hönnun. Þar segi að íbúðir séu hannaðar með þeim hætti að auðvelt sé að taka þær í notkun fyrir einstaklinga í hjólastól. Á samþykktum aðaluppdráttum fyrir bílageymslu komi fram að gert sé ráð fyrir fjórum bílastæðum ætluðum hreyfihömluðum. Þar að auki komi fram í bréfi byggingarfulltrúa til forsvarsmanns kæranda að gert sé ráð fyrir átta bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fyrir utan bílgeymslu. Bendi byggingarfulltrúi á að hafi þessi stæði ekki verið merkt hreyfihömluðum sérstaklega, þá skuli slíkt gert í samræmi við samþykkt byggingarleyfi.

Í gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé fjallað um bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 5. mgr. greinarinnar sé að finna töflu 6.01 þar sem gerð sé grein fyrir lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús. Samkvæmt samþykktu byggingarleyfi fyrir fasteignina Naustabryggju 31-33 séu íbúðir í fasteigninni 30 talsins. Samkvæmt því skuli að lágmarki gera ráð fyrir þrem bílastæðum ætluðum þeirri fasteign. Fasteignin sé á lóð með fleiri matshlutum og deili bílakjallara þar að auki. Í heildina sé gert ráð fyrir 12 bílastæðum fyrir hreyfihamlaða. Miðað við heildarmagn íbúða á lóðinni verði ekki annað sé en að krafa byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða ætluðum hreyfihömluðum hafi verið uppfyllt.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem taki til fasteignarinnar Naustabryggju 31-33 liggi lóðar­mörk að bílastæðalóð sem tilheyri Naustabryggju 35-55 og 55-57. Eina aðkoman að Nausta­bryggju 31-33 sé um gönguleið sem liggi að lóðarmörkum og því sé ekki hægt að komast að inngangi nema um þá aðkomu. Naustabryggja 31-33 hafi hvorki þinglýsta kvöð né skipulags­kvöð um umferð um bílastæðalóðina. Fasteignin sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Lóðarmörk séu skýr sem og skipulagsskilmálar. Tekið sé undir það sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. nóvember 2019, um að byggingarfulltrúi hafi ekkert með gerð deiliskipulags að gera. Hlutverk byggingarfulltrúa sé meðal annars að veita byggingarleyfi í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Niðurstaða: Fyrirliggjandi gögn málsins bera með sér að kæranda og Reykjavíkurborg greini á um aðkomu að Naustabryggju 31-33 og fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða við fasteignina. Með hinni kærðu ákvörðun var kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 um að borgaryfirvöld tryggðu án tafar aðgengi hreyfihamlaðra að aðalinngangi hússins hafnað með þeim rökum að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða væri í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þar segir í 1. mgr. að bílastæði skulu vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti og að eitt af hverjum fimm bílastæðum, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5×5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði, um 3 m að lengd. Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en u.þ.b. 25 m. Mælt er fyrir um það í 5. mgr. að fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, skuli að lágmarki vera samkvæmt töflu 6.01. Í þeirri töflu kemur fram að þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 21-40 skuli vera þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 9. mgr. ákvæðisins er síðan kveðið á um að ávallt skuli gera ráð fyrir bílastæðum sem henti fyrir hreyfihamlaða í bílgeymslum sem almenningur hafi aðgang að og að fækka megi bíla­stæðum á lóð mannvirkis samkvæmt töflu 6.01 sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfi­hamlaða í sameiginlegri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna.

Fjölbýlishúsið að Naustabryggju 31-33 er með 30 íbúðum og skulu þar því vera þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. nefnda gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð. Á samþykktum uppdráttum byggingarleyfis hússins kemur fram að þar skuli vera fjögur sérmerkt bílastæði fyrir hreyfi­hamlaða í sameiginlegri bílageymslu fyrir fjölbýlishúsin að Tangabryggju 6-8, 10, 12 og Naustabryggju 17-19, 31-33 og 15B. Þá er og gert ráð fyrir átta stæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fyrir utan bílgeymslu, merkt 12E á skipulagsuppdrætti.

Í gildi er deiliskipulag Bryggjuhverfisins, síðast breytt með ákvörðun borgarráðs frá 18. desember 2017, vegna húsa 12A, B, C, D, E og 15C + spennistöð. Samkvæmt skipulaginu liggja lóðarmörk Naustabryggju 31-33 að bílastæðalóð sem tilheyrir Naustabryggju 35-55 og 55-57. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sem gert er ráð fyrir að séu staðsett á bílastæðalóð 12E, eru samkvæmt lóðarblaði um eða yfir 60 m frá bílastæðinu að þeim inngangi Naustabryggju 31-33, sé farið með austurhlið lóðarinnar að framhlið hússins. Samkvæmt framangreindri 2. mgr. gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar skulu bílastæði fyrir hreyfihamlaða ekki vera fjær aðalinngangi byggingar en u.þ.b. 25 m. Er ákvæði greinarinnar um hámarksfjarlægð umræddra stæða frá aðalinngangi umrædds húss því ekki uppfyllt.

Með hliðsjón af framangreindu eru annmarkar á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar sem leiða til ógildingar. Breytir engu í því efni þótt nefnt fyrirkomulag sé í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda getur deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingar­reglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu samþykktir aðal­uppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2020 um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33, Reykjavík.

37/2020 Leynisbrún

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 37/2020, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Grindavíkurbæjar frá 23. mars 2020 á umsókn um byggingarleyfi vegna Leynisbrúnar 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. maí 2020, er barst nefndinni 13. s.m., kærir eigandi fasteignarinnar að Leynisbrún 6, Grindavík, „…ákvörðun skipulagsnefndar Grindavíkur frá 23. mars 2020 um að veita byggingarleyfi vegna byggingaráforma við Leynisbrún 4…“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Umsókn eiganda hússins nr. 4 við Leynisbrún um leyfi fyrir viðbyggingu við bílgeymslu fasteignarinnar var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Grindavíkurbæjar 3. febrúar 2020. Lagði skipulagsnefnd til að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum í nærliggjandi húsum. Erindið var grenndarkynnt frá 12. febrúar til 11. mars 2020. Bárust athugasemdir frá kæranda. Umsóknin var aftur tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 23. mars s.á. þar sem bókað var að grenndarkynning vegna byggingaráforma við Leynisbrún 4 hefði farið fram. Ein athugasemd hefði borist sem hefði verið tekin fyrir en ekki tekin til greina. Þá var bókað að skipulagsnefnd samþykki byggingaráformin og byggingarfulltrúi gæfi út byggingarleyfi þegar tilskyldum gögnum hefði verið skilað inn.

Kærandi heldur því m.a. fram að ákvörðun skipulagsnefndar bæjarins sé ófullnægjandi, hlutdræg og andstæð skipulagslögum nr. 123/2010 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. bent á að vísa eigi kærunni frá í heild sinni þar sem ekki sé um lokaákvörðun máls að ræða, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kveðið á um það að ákvarðanir skipulagsnefnda sveitarfélaga eða sveitarstjórna séu ekki lokaákvarðanir í málum hvað varði útgáfu byggingarleyfa á grundvelli grenndarkynningar samkvæmt 44. gr. skipulagslaga, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í kærumáli nr. 166/2016.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.

Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, en þá skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er tiltekið í lagagreininni að þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr sömu laga. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis í kjölfar grenndarkynningar er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki sem eru rakin hér að framan.

Í því máli sem hér um ræðir lét skipulagsnefnd fara fram grenndarkynningu, en úrskurðarnefndin hefur fengið staðfest frá bæjaryfirvöldum að byggingarfulltrúi hafi ekki haft aðkomu að málinu. Jafnframt að í kjölfar samþykktar skipulagsnefndar sendi umsækjandi teikningar og skráningu iðnmeistara til byggingarfulltrúa sem gefi út byggingarleyfi í kjölfarið, en þetta skref hafi þó ekki verið tekið í máli þessu vegna þess ágreinings sem væri uppi.

Hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar frá 23. mars 2020 er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur liður í málsmeðferð sem lýkur með ákvörðun byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi hefur hins vegar ekki veitt leyfi til hinna umdeildu framkvæmda eins og áskilið er í mannvirkjalögum. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í máli þessu verður ekki hjá því komist að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Þó þykir rétt að benda á að veiti byggingarfulltrúi leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku þá í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2020 Kirkjubraut

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 19/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erinda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Skólabraut 6, Seltjarnarnesi, þá „háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að gera ekki neitt skv. bréfi dags. 30. janúar 2020“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærður sé dráttur á afgreiðslu erinda kæranda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 16. apríl og 18. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur beint erindum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnessbæjar frá ágúst 2017 vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut sem kærandi er ósáttur við. Í kjölfar nokkurra samskipta stöðvaði byggingarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar framkvæmdir við byggingu umdeilds skúrs með erindi, dags. 23. júlí 2018, þar sem vísað var til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Voru framkvæmdir stöðvaðar þar til borist hefðu fullnægjandi svör við nánar tilgreindum spurningum byggingarfulltrúa, m.a. hvort eigandi skúrsins teldi framkvæmdina falla undir minniháttar framkvæmd samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Skýringar bárust með bréfi, dags. 1. ágúst s.á., og áttu frekari samskipti sér stað eftir það.

Með umsókn, dags. 22. nóvember 2019, sótti eigandi íbúðar að Kirkjubraut 7 um byggingarleyfi fyrir geymsluskúr á lóðinni. Í umsókninni var vísað til þess að skúrinn stæði á milli tveggja steyptra bílgeymsla annars vegar á Kirkjubraut 7 og hins vegar á Skólabraut 8 og að byggingarfulltrúa hefðu borist undirskriftir frá aðilum um samþykki fyrir skúrnum. Hinn 15. janúar 2020 var erindi Kirkjubrautar 7 tekið til umræðu á fundi skipulags- og umferðarnefndar. Bókaði nefndin að fela byggingarfulltrúa að kynna fyrirliggjandi gögn fyrir lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Kærandi leitaði upplýsinga frá bæjaryfirvöldum með tölvupósti 3. febrúar s.á. og benti að staðfest hefði verið að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Fékk kærandi sent afrit af áðurgreindri afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar og barst kæra úrskurðarnefndinni 28. febrúar 2020, svo sem áður segir.

Meðferð málsins var fram haldið og með bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa Kirkjubrautar 7, dags. 15. apríl 2020, var upplýst að ljóst væri að bygging skúrsins félli undir ákvæði g-liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar um að vera smáhýsi sem ekki þyrfti byggingarleyfi að öðru leyti en því að ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa á lóðinni nr. 6 við Skólabraut en skúrinn stæði nær þeim lóðarmörkum en þrír metrar. Þar sem skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt og ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir skúrnum væri ljóst að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Var lóðarhafa gefinn frestur til að sækja um byggingarleyfi en ella fjarlægja skúrinn innan 21 dags frá móttöku bréfsins.

Kærandi vísar til þess að mál skúrsins á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut hafi nokkrum sinnum verið tekið fyrir í skipulags- og umferðarnefnd. Kærandi sé einn eigandi að nærliggjandi lóð og hafi aldrei skrifað undir eða samþykkt eitt né neitt. Sé kærð sú háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að aðhafast ekki samkvæmt bréfi, dags. 30. janúar 2020. Skúrinn sé óleyfisframkvæmd og standi enn þá og hafi ekkert farið. Ekki sé að sjá að hann sé á förum.

Af hálfu Seltjarnarnessbæjar er vísað til þess að það bærinn hafi ekki talið sér fært að fallast á að framkvæmdin félli undir undanþágu gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem samþykki kæranda hafi ekki legið fyrir í málinu, sbr. skilyrði 5. tölul. g-liðar ákvæðisins. Í þessu sambandi sé þó bent á að lóðirnar snertist ekki nema horn í horn auk þess sem skúr standi á lóðinni nr. 6 við Skólabraut.

Sveitarfélagið hafi ekki talið annað fært en að gefa eiganda skúrsins kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni enda hafi fjarlægðarreglan ekki átt við í því tilviki sem sótt sé um byggingarleyfi. Nokkur dráttur hafi orðið á málinu en það hafi stafað af því að sveitarfélagið hafi leitast við að ná sáttum í málinu á milli nágranna en hafi ekki haft erindi sem erfiði í þeirri viðleitni sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt því sem rakið hefur verið í málavaxtalýsingu er uppi ágreiningur um byggingu skúrs á lóðinni að Kirkjubraut 7 og hefur kærandi ítrekað beint athugasemdum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnesbæjar vegna framkvæmdarinnar. Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið slegið föstu að skúrinn sé byggingarleyfisskyldur og var framkvæmdaraðila gefinn kostur á að sækja um slíkt leyfi eða fjarlægja skúrinn ella, en til þess stendur vilji kæranda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, svo sem viðurkennt hefur verið af hálfu sveitarfélagsins. Meðferð málsins var þó fram haldið eftir af kæra barst og hefur úrskurðarnefndin aflað þeirra upplýsinga frá bæjaryfirvöldum að málið sé í vinnslu og standi til á næstu dögum að beita þvingunarúrræðum til að umdeildur skúr verði fjarlægður. Benda þessar upplýsingar til þess að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms. Er því ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Dragist áframhaldandi meðferð málsins hins vegar úr hófi er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar. Þá er rétt að benda á að breytist afstaða sveitarfélagsins á þann veg að byggingarfulltrúi samþykki byggingaráform fyrir umræddan skúr er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

65/2020 Hagasel

Með

Árið 2020, föstudaginn 21. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Heiðarseli 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fram­kvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. júlí 2020.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag miðsvæðis Seljahverfis, sem samþykkt var í borgarráði 9. ágúst 1988, en upphaflegir skipulagsskilmálar fyrir Seljahverfi eru frá marsmánuði 1973. Hinn 19. desember 2018 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu skipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Hagasel. Í tillögunni fólst m.a. hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar úr 0,32 í 0,42 með heimilaðri byggingu á 600 m² íbúðakjarna á tveimur hæðum með átta íbúðum, ætluðum sem búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2019. Hinn 4. febrúar 2020 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn Félagsbústaða um byggingu tveggja hæða fjölbýlishúss með átta íbúðum á lóðinni Hagaseli 23 sem ætlað væri sem búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkur­borgar og Félagsbústaða. Á árituðum aðaluppdráttum sem fylgdu hinu kærða byggingarleyfi var brúttóflatarmál A- og B-rýma samkvæmt skráningartöflu 629,1 m² og nýtingarhlutfall lóðar­innar þar með 0,44.

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 85/2019, uppkveðnum 27. febrúar 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að þar sem stærð fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni nr. 23. við Hagasel væri ekki í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, væri óhjákvæmilegt að fella byggingarleyfið úr gildi. Hins vegar var hafnað kröfu um ógildingu ákvörðunar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi að því er varðaði lóðina að Hagaseli 23.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. mars 2020 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða, átta íbúða fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs og Félagsbústaða á lóð nr. 23 við Hagasel. Fyrirhugað hús yrði 580,2 m² (A-rými) og 48,9 m² rými undir svölum og svalagöngum (B-rými), eða samtals 629,2 m². Það gæfi nýtingarhlutfallið 0,44. Var umsókninni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. mars s.á., var vísað til þess að óskað væri eftir skipulagslegri afstöðu til aukningar á byggingarmagni B-rýma um 29,2 m². Heildaraukningin væri því 29,2 m². Breytingin væri talin óveruleg, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segi að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis gæti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndar­kynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðaði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Var því ekki gerð skipulagsleg athugasemd við erindið. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. mars 2020 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt deiliskipulagi megi húsið á lóðinni nr. 23 við Hagasel vera 600 m² og nýtingarhlutfall 0,42. Lóðin sé 1.435 m². Byggingarleyfisumsókn sýni 580,2 m² hús (A-rými) og 48,9 m² undir svölum og svalagöngum (B-rými), eða skráða A+B fermetra 629,2 m². Það gefi nýtingarhlutfallið 0,438 (0,44). Munurinn sé 29,2 m² yfir leyfilegu nýtingarhlutfalli sem sé ekki í samræmi við heimildir deiliskipulags. Samkvæmt skilgreiningu á nýtingarhlutfalli, sbr. byggingarreglugerð nr. 112/2012, sé verið að samþykkja meira byggingarmagn en heimilt sé og sé því farið fram á ógildingu á ákvörðun byggingar­fulltrúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 12. mars 2020, en þar komi fram að um óverulega breytingu (stækkun) sé að ræða samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé heimilt við útgáfu byggingarleyfis að víkja frá kröfum um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu. Ljóst sé að umræddir fermetrar hafi engin áhrif á hagsmuni kærenda umfram það sem 600 m2 hús hefði mögulega haft, en form, staðsetning og hæð byggingarinnar sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og verði grenndaráhrif hennar því þau sömu og vænta mátti. Hafi kærendur ekki gert tilraun til að sýna fram á með hvaða hætti stækkunin hafi áhrif á hagsmuni þeirra.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að það verði að teljast undarleg vinnubrögð þegar skipulagsyfirvöld geri sérstaka deiliskipulagsbreytingu á reitnum með því að auka byggingarmagn í 600 m² en ákveða síðan að samþykkja 30 m² stærri byggingu en heimildir segi til um í deiliskipulagi. Fram komi í greinargerð borgaryfirvalda að um sé að ræða óverulega stækkun sem nemi tæpum 30 m² umfram heimildir í deiliskipulagi eða tæp 5%. Skilgreining á nýtingarhlutfalli eigi bæði við um A- og B rými og sé því ljóst að gera þurfi deiliskipulags­breytingu og grenndarkynna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 eða minnka húsið um áðurnefnda umframfermetra.

Stækkun hússins geti með engum hætti flokkast sem óverulegt frávik í ljósi þess að um 5% viðbótarstækkun sé að ræða sem laumað hafi verið í gegnum stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og hafi aldrei verið kynnt íbúum svæðisins. Viðbótarstækkanir af þessari stærðargráðu umfram heimildir í deiliskipulagi séu afar sjaldan samþykktar innan stjórnsýslu Reykjavíkur, enda sé hugsunin á bak við beitingu þessa ákvæðis sú að einungis skuli það gert í sérstökum tilfellum sem ekki eigi við í þessu tilviki þar sem hægt sé að fara aðrar leiðir. Því sé mótmælt að hagsmunir skerðist ekki við þessa umframfermetra, því aukningin hafi áhrif á útsýni vegna stærri byggingar og hafi auk þess bein áhrif á nýtingu reitsins.

Niðurstaða: Fyrir liggur að á árituðum aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis er brúttóflatarmál A- og B-rýma samkvæmt skráningartöflu 629,1 m² og nýtingarhlutfall um­ræddrar lóðar þar með 0,44. Heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt deiliskipulagi er 0,42, sem heimilar allt að 602,7 m² byggingu. Stærð fyrirhugaðs mannvirkis er því samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Reykjavíkurborg telur hins vegar að frávik frá deiliskipulagi rúmist innan heimildarákvæðis 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga getur sveitarstjórn heimilað að gefið sé út byggingar­leyfi sem víki óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Ljóst er að um undanþáguákvæði er að ræða sem túlka ber þröngt. Stærð fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni við Hagasel 23 er 26,4 m² umfram leyfilegt hámarksflatarmál húss samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins. Lóðin er staðsett í grónu hverfi og ekki unnt að útiloka að umdeild frávik frá gildandi deiliskipulagi hafi grenndaráhrif gagnvart kærendum umfram það sem verið hefði samkvæmt heimildum deili­skipulags.

Með vísan til þess sem að framan er rakið voru þau ströngu skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga fyrir því að vikið sé frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og verður hún því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félags­bústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel.