Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

63, 73 og 75/2021 Hringtún

Árið 2021, þriðjudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2021, kæra vegna ákvarðana umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19 í Dalvíkur­byggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Hringtún 21, Dalvík, þær ákvarðanir umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2021 að samþykkja byggingarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana. Gerðu kærendur jafnframt þá kröfu að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. og 3. júní 2021, er bárust nefndinni samdægurs, kæra eigendur Hringtúns 25 og Miðtúns 3 sömu ákvarðanir umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana. Verða þau kærumál, sem eru nr. 73 og 75/2021, sameinuð máli þessu þar sem sömu ákvarðanir er kærðar í öllum málunum og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Gerði kærandi í máli nr. 75/2021 jafnframt kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 8. júní 2021 var fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð 26. maí og 9. júní 2021.

Málavextir: Gildandi deiliskipulag fyrir Hóla- og Túnahverfi var samþykkt í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar 20. febrúar 2018 og afmarkast skipulagssvæðið af Böggvisbraut í austri og opnu grasi grónu landsvæði í suðri, vestri og norðri. Samkvæmt Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 er svæðið skilgreint sem íbúðarbyggð. Hinn 31. október 2019 samþykkti sveitarstjórn að auglýsa tillögu að breytingu á nefndu skipulagi. Í tillögunni fólust m.a. áform um þéttingu byggðar með því að breyta tilteknum einbýlishúsalóðum í parhúsa- og raðhúsalóðir. Tillagan var kynnt á tímabilinu frá 11. desember 2019 til 31. janúar 2020. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum.

Að kynningu lokinni var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Dalvíkur­byggðar 18. febrúar s.á., þar sem fyrir lá umsögn umhverfisráðs með tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum, og samþykkti sveitarstjórn deiliskipulagsbreytinguna. Hin samþykkta skipulagsbreyting var send Skipulagsstofnun 9. júní 2020 til lögboðinnar yfirferðar og tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 23. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar. Tók breytt skipulag síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. júlí 2020. Nefnd deiliskipulagsákvörðun var kærð til úrskurðar-nefndarinnar með bréfi, dags. 3. ágúst 2020, af sömu kærendum og í þessu máli. Með úrskurði uppkveðnum 15. október s.á. í máli nr. 71/2020 hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um ógildingu deiliskipulags­breytingarinnar.

Með bréfi, dags. 12. janúar 2021, kærðu sömu kærendur og í máli nr. 53/2021 ákvörðun byggingarfulltrúa Dalvíkur­byggðar um að samþykkja graftrarleyfi fyrir lóðirnar Hringtún 17 og 19. Með úrskurði uppkveðnum 30. mars s.á., í máli nr. 10/2021, vísaði úrskurðarnefndin málinu frá þar sem graftrarleyfi, þ.e. leyfi til könnunar jarðvegs, væri almennt ekki til þess fallið að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Hafa kærendur nú skotið fyrrgreindum ákvörðunum umhverfisráðs frá 7. maí 2021 um byggingarleyfi vegna umræddra lóða til úrskurðar­nefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji að áformaðar byggingar samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum rúmist ekki innan byggingarreita. Hámarksbyggingarmagn sé 260 m2 en þakflötur húsanna samkvæmt aðaluppdráttum sé um 304 m2. Þá vanti inn á teikningar staðsetningar annarra jarðfastra mannvirkja, svo sem skjólveggja, en samkvæmt greinargerð gildandi deiliskipulags eigi öll jarðföst mannvirki að vera innan byggingarreits.

Þá sé útveggur húss á lóðinni Hringtún 19 aðeins 3,15 m frá lóðarmörkum, en samkvæmt gr. 5.9.4. í byggingarreglugerð megi ekki byggja timburhús nær lóðarmörkum en 4 m. Samkvæmt sam­þykktum teikningum sé miðað við að hæðarkóti grunnplötu á lóðinni Hringtún 17 sé 24,55 og 24,70 á lóðinni nr. 19, en samkvæmt mæliblaði eigi þeir að vera um 50 cm lægri.

Málsrök Dalvíkurbyggðar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að um leið og upplýsingar um kæruna hafi borist og eftir að byggingarfulltrúi hafi gengið úr skugga um að hæðarkóti Hringtúns 19 væri um 50 cm hærri en útgefið mæliblað kveði á um hafi framkvæmdir verið stöðvaðar. Farið hafi verið yfir málið og komið í ljós að misskilnings hafi gætt um við hvaða hæðarkóta hefði átt að miða. Eftir nánari mælingar á götu og húsum í nágrenninu hafi byggingarfulltrúi ákveðið að heimila allt að 25 cm hækkun á fyrirskrifuðum hæðarkóta húsanna, eins og hann standi í fyrrgreindum mæliblöðum. Þessi ákvörðun byggingarfulltrúa sé reist á heimild þess efnis í 3. gr. almennra byggingarskilmála fyrir lóðir sem Dalvíkurbyggð úthluti, þar sem segi orðrétt: „Á mæliblöðum eru lóðir og byggingar­reitir málsettir svo og bindandi byggingarlínur eftir því sem við á. sérstakar kvaðir ef einhverjar eru. Leyfa má allt að 25 cm frávik frá leiðsögukótum fyrir gólfplötu.“

Af framangreindu megi ráða að Dalvíkurbyggð hafi strax brugðist við og gripið til viðeigandi úrræða í því skyni að tryggja að framkvæmdaraðili héldi sig innan fyrirskrifaðs hæðarkóta og veitt honum að því búnu heimild til þess að hefja framkvæmdir á nýjan leik. Aðrar athugasemdir kærenda standist ekki skoðun og eigi fjarri því að leiða til þess að fallist verði á stöðvunarkröfu þeirra. Það sé beinlínis rangt að byggingarnar rúmist ekki innan byggingarreits en í greinargerð deiliskipulags sé sú krafa gerð og framkvæmdirnar því að öllu leyti í samræmi við skilmála. Þá sé bil milli bygginga í samræmi við byggingarreglugerð.

Kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að framkvæmdir verði stöðvaðar. Þær séu að öllu leyti í samræmi við þær reglur sem um slíkar framkvæmdir gildi, eins og gögn málsins sýni. Búið sé að leiðrétta hæðarkóta og því engar forsendur fyrir stöðvun framkvæmda.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að í þeim skipulagsuppdráttum sem kærendur vitni í sé byggingarreiturinn minni en á þeim blöðum sem síðar hafi tekið gildi eftir breytingar á aðalskipulagi. Hönnuðir leyfishafa hafi unnið eftir þeim gögnum sem hafi komið frá sveitarfélaginu. Á mæliblaði og grunnlóðauppdrætti sjáist hversu stór byggingarreiturinn sé og ekki sé farið út fyrir hann. Í kæru sé vitnað til ákvæðis í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sé ekki lengur í reglugerðinni, þ.e. gr. 5.9.4. Hins vegar gildi lög og reglur um fjarlægðir milli bygginga og í hvaða flokki veggir skuli vera. Slökkviliðsstjóri Dalvíkurbyggðar hafi yfirfarið teikningarnar og samþykkt þær. Þá sé það ekki rétt að undirstöður hússins að Hringtúni 19 standi 3,15 m frá lóðarmörkum. Byggingarfulltrúi hafi staðfest við leyfishafa að fjarlægð sé í lagi og kærendur hafi verið viðstaddir þá mælingu. Grindverk og skjólveggir séu ekki talin til jarðfastra mannvirkja. Varðandi efni þeirra skjólgirðinga sem verði við húsin þá verði þau klædd áli á grind sem sé að mestu úr stáli.

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kæranlegri stjórnvaldsákvörðun geti kært til úrskurðarnefndarinnar þá ákvörðun eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Upplýst hefur verið af hálfu byggingaryfirvalda sveitarfélagsins að hinn 8. júní 2021 hafi byggingarfulltrúi samþykkt byggingarleyfi fyrir parhúsum á lóðum nr. 17 og 19 við Hringtún  með öðrum hæðarkótum en fram koma á þeim teikningum sem samþykktar voru á fundi umhverfisráðs 7. maí 2021. Þar sem byggingarleyfi með breyttu efni hafa nú verið samþykkt fyrir byggingum á nefndum lóðum hafa byggingarleyfi þau sem um er deilt í máli þessu ekki lengur réttarverkan að lögum. Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinna kærðu ákvarðana, svo sem gert er að skilyrði fyrir kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að taka fram að telji kærendur að hin nýju byggingarleyfi raski lögvörðum hagsmunum þeirra geta þeir eftir atvikum kært ákvarðanir um veitingu þeirra til úrskurðarnefndarinnar innan eins mánaðar frá því að kærendum varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.