Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2021 Fellsendi og Galtarlækur

Árið 2021, fimmtudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 59/2021, kæra á ákvörðunum umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar frá 25. mars 2021 um að synja umsóknum um að breyta landnotkun á hluta jarðarinnar Fellsenda annars vegar og hluta jarðarinnar Galtarlækjar hins vegar, en sú ákvörðun er laut að Galtarlæk var staðfest á fundi sveitarstjórnar 13. apríl s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi jarðarinnar Fellsenda og eigandi jarðarinnar Galtarlækjar, þær ákvarðanir umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar frá 25. mars 2021 að synja umsóknum kærenda um að breyta landnotkun á hluta jarðarinnar Fellsenda annars vegar og hluta jarðarinnar Galtarlækjar hins vegar, en sú ákvörðun er laut að Galtarlæk var staðfest á fundi sveitarstjórnar s.á. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 18. júní 2021.

Málsatvik og rök: Kærendur, eigendur jarðanna Fellsenda og Galtarlækjar, sendu Hvalfjarðarsveit sitt hvort erindið 22. mars 2021 þar sem þeir vísuðu til þess að endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar stæði yfir og óskuðu eftir því að við þá endurskoðun yrði land-notkun á hluta jarða þeirra breytt úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði. Á fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðar 25. s.m. var erindi eiganda jarðarinnar Fellsenda vísað til áframhaldandi vinnslu við endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar. Jafnframt var því hafnað að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði, en vísað var til þess að í drögum að endurskoðun aðalskipulags yrðu lóðirnar skilgreindar sem athafnasvæði. Þá taldi nefndin sér ekki unnt að verða við erindi eiganda jarðarinnar Galtarlækjar um breytta landnotkun þar sem hún samræmdist ekki stefnumörkun sveitarfélagsins við endurskoðun Aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Var tillaga nefndarinnar varðandi Galtarlæk samþykkt á fundi sveitarstjórnar 13. apríl s.á.

Af hálfu kærenda er bent á að þau landsvæði sem óskað hafi verið eftir að væru tekin úr landbúnaðarnotum og breytt í iðnaðarsvæði séu innan þynningarsvæða verksmiðjanna á Grundartanga. Eigendur jarðanna hafi ekki samþykkt þær kvaðir sem með því séu lagðar á jarðirnar. Þynningarsvæðið hafi verið ákveðið einhliða af Umhverfisstofnun og Hvalfjarðarsveit. Flokkun landsvæðanna sem landbúnaðarlands sé markleysa þar sem skilyrði slíkrar flokkunar sé að viðkomandi landsvæði verði nýtt til landbúnaðar. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 81/2005 skuli við flokkun lands m.a. leggja mat á staðsetningu lands, ræktunarskilyrði, ræktun sem þegar sé stunduð og hvort breyting á landnotkun hafi áhrif á aðliggjandi landbúnaðarsvæði. Í tilviki kærenda sé krafan um að ræktunarskilyrði séu fyrir hendi ekki uppfyllt vegna mengunaráhrifa frá verksmiðjunum á Grundartanga, en af þeim leiði að bönnuð sé búseta og landbúnaðarafnot innan þynningarsvæðis. Því sé ljóst að það landsvæði sem óskað sé eftir að tekið verði úr landbúnaðarnotum og breytt í iðnaðarsvæði sé ekki landbúnaðarland og sveitarfélaginu sé því óheimilt að synja kærendum um að breyta afnotunum. Þá beri að hafa í huga að sveitarfélagið hafi sjálft tekið þær ákvarðanir sem leiði til þess að landsvæðin séu ekki hæf til landbúnaðarnota.

Af hálfu Hvalfjarðarsveitar er bent á að þynningarsvæði hafi verið skilgreint í starfsleyfum fyrrgreindra fyrirtækja allt frá árinu 1997, en kærendur hafi eignast jarðirnar mun síðar. Þeim hljóti að hafa verið ljóst að heimil nýting jarðanna hafi verið takmörkuð um langa hríð og að svo yrði um fyrirsjáanlega framtíð. Skipulagsstefna sveitarfélagsins hafi verið í þá veru að uppbygging nýs iðnaðar einskorðist við Grundartangasvæðið í stað þess að vera dreifð víðar um sveitarfélagið. Þá hafi hinar kærðu ákvarðanir verið teknar í samræmi við og á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010  en ekki jarðalaga, en í 1. mgr. 6. gr. síðarnefndu laganna komi fram að breyting á notkun lands sem lögin gildi um, þ.e. land í landbúnaðarnotum, fari eftir ákvæðum skipulagslaga.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu á erindum kærenda um breytta landnotkun jarða þeirra, Fellsenda og Galtarlækjar, að hluta úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði. Slíkar ákvarðanir eru almennt teknar í aðalskipulagi sem sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð og afgreiðslu skv. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en skv. 1. mgr. 28. gr., sbr. og 1. tl. 2. gr., laganna er í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins m.a. varðandi landnotkun. Var og vísað til þess í erindum kærenda að breytingin ætti sér stað við yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar.

Svo sem greinir í málavöxtum var afgreiðsla umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar hvað varðaði Galtarlæk staðfest í sveitarstjórn, en sama gildir ekki um afgreiðslu nefndarinnar á þeirri beiðni sem varðaði Fellsenda. Í samræmi við 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er tekið fram í 29. gr. samþykktar nr. 554/2013 um stjórn Hvalfjarðarsveitar að fastanefndum Hvalfjarðarsveitar sé ekki falið að taka fullnaðarákvörðun um mál nema lög mæli sérstaklega þar um. Ályktanir nefnda séu tillögur til sveitarstjórnar, enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar og þurfi slíkar ákvarðanir stað­festingu sveitarstjórnar. Liggur fyrir að slík staðfesting hefur ekki átt sér stað, enda var beiðni um breytta landnotkun á hluta jarðarinnar Fellsenda vísað til áframhaldandi meðferðar við yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags þótt því hafi jafnframt verið synjað að breyta landnotkun í iðnaðarsvæði. Með vísan til framangreinds liggur ekki fyrir nein ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Stefna um landnotkun kemur fram í aðalskipulagi, eins og fyrr segir. Í 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga kemur fram að aðalskipulag er háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga. Í beiðni um breytta landnotkun hluta jarðarinnar Galtarlækjar verður að telja að felist beiðni um breytingu Aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2008-2020. Endurskoðun þess skipulags stendur nú yfir og var beiðni kærenda sett fram af því tilefni, en málsmeðferð vegna endurskoðunarinnar mun ljúka með staðfestingu Skipulagsstofnunar og eftir atvikum ráðherra. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að fjalla um greint álitaefni.

Af því sem að framan er rakið er ljós að ekki er fyrir hendi nein sú ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.