Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2021 Skráning staðbundinna réttinda

Árið 2021, þriðjudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur

Fyrir var tekið mál nr. 27/2021, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 23. febrúar 2021 um að synja kæranda um skráningu á staðbundnum réttindum iðnmeistara.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir húsasmíðameistari þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 23. febrúar 2021 að synja honum um skráningu staðbundinna réttinda iðnmeistara í húsasmíði. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að skrá fyrrgreind réttindi hans.

Gögn málsins bárust frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 7. apríl 2021.

Málavextir: Kærandi öðlaðist sveinsbréf í húsasmíði árið 1986 og mun hafa starfað við þá iðn um langt skeið. Í janúar 2021 fékk hann útgefið meistarabréf í húsasmíði hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra. Hinn 9. febrúar s.á. sendi kærandi tölvupóst til Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar þar sem fram kom að hann vonaðist til að gögn sem send hefðu verið stofnuninni nægðu til þess að fullnægja kröfum um „gæðastjórnun staðbundnu réttindin mín“. Við meðferð málsins hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kom upp álitamál um hvort kærandi hefði hlotið þau staðbundnu réttindi sem hann taldi sig hafa öðlast. ­

Í tölvupóstum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til kæranda 16. og 17. febrúar 2021 var vakin athygli á því að gögn málsins bæru ekki með sér að kærandi uppfyllti skilyrði laganna til að fá skráð staðbundin réttindi iðnmeistara. Var kæranda gefinn kostur á að koma að athuga­semdum og frekari gögnum en gögn munu ekki hafa borist stofnuninni. Með bréfi stofnunar­innar, dags. 23. s. m., var erindi kæranda frá 9. febrúar 2021 afgreitt með þeim hætti að honum var synjað um skráningu á staðbundnum réttindum iðnmeistara með vísan til þess að hann uppfyllti ekki skilyrði ákvæðis 4. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er tekið fram að hann hafi hlotið sveinsbréf í húsasmíði árið 1986 og starfað í byggingargeiranum í þrjátíu og eitt ár. Í upphafi hafi hann starfað með löggiltum húsasmíðameistara, sem hafi skrifað upp á öll verk sem unnin hefðu verið. Kærandi hafi leitað eftir því að fá húsasmíðameistara til þess að skrifa upp á verk fyrir sig án árangurs þar sem enginn starfandi húsasmíðameistari hafi verið á starfssvæði hans í Grýtubakkahreppi.

Kærandi hafi fyrir tilviljun fengið veður af því að hann hefði öðlast meistararéttindi samkvæmt eldri lögum og í janúar 2021 fengið meistarabréfið útgefið. Hafi hann ætlað að sækja um löggildingu í kjölfarið en fengið synjun þar sem hann hefði ekki uppfyllt skilyrðin. Kærandi hafi fengið útgefið vottorð um starfsreynslu frá skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar þar sem tilgreind hafi verið fjölmörg verk þar sem hann hefði gengt daglegum skyldum húsasmíða­meistara í byggingarframkvæmdum á árunum 2000-2020 í byggingarumdæmi Eyjafjarðar. Það sé ósk kæranda að ákvörðunin um synjun á skráningu staðbundinna réttinda iðnmeistara verði endurskoðuð.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin vísar til þess að kærandi uppfylli hvorki ófrávíkjanleg skilyrði 4. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um mannvirki nr. 160/2010 né skilyrði 6. mgr. gr. 4.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Það sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir skráningu staðbundinna réttinda að iðnmeistari hafi fengið viðurkenningu byggingaryfirvalda eða löggildingu umhverfisráðherra í gildistíð eldri laga og uppfylli kröfur stofnunarinnar um löggildingu sem fram komi í a-lið 1. mgr. 21. gr. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 160/2010.

Í gildistíð eldri laga hafi löggilding farið þannig fram að iðnmeistarar hafi þurft að sækja um staðbundin réttindi. Síðan hafi þeir þurft að fara með samþykktirnar á milli umdæma til að fá leyfi til að starfa í þeim. Enginn heildarlisti hafi verið til yfir þá sem hefðu öðlast staðbundin réttindi. Að fengnum upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu um alla þá sem skráðir hefðu verið með löggildingu og með tilkomu rafrænnar skráningar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi þessir aðilar verið settir á lista yfir iðnmeistara og merktir með staðbundin réttindi. Sé þessi skráning jafngild löggildingu í dag.

Í tölvupóstsamskiptum við kæranda hafi þess verið óskað að kærandi sendi gögn til staðfestingar því að hann uppfyllti fyrrnefndar kröfur þar sem það væri ekki ljóst af þeim gögnum sem hann hefði þá þegar sent. Ekki hafi borist frekari gögn. Stofnunin telji kæranda hvorki uppfylla fyrrgreindra laga né reglugerðar til þess að fá  skráð staðbundin réttindi iðnmeistara.

Niðurstaða: Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. og 2. mgr. 28. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 geta iðnmeistarar gegnt stöðu skoðunarmanna og byggingarstjóra hafi þeir hlotið lög­gildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þeir iðnmeistarar geta hlotið slíka löggildingu sem hafa meistarabréf og hafa lokið prófi frá meistaraskóla eða hafa a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði, sbr. 3. mgr. 32. gr. nefndra laga. Iðnmeistarar sem fengið höfðu viður­kenningu í gildistíð eldri laga skulu teljast uppfylla fyrrnefndar kröfur um löggildingu, sbr. 4. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í sömu lögum.

Við afgreiðslu erindis kæranda þurfti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að meta hvort kærandi fullnægði kröfum laga til skráningar á þeim staðbundnum réttindum sem hann taldi sig hafa öðlast á grundvelli viðurkenningar, byggingaryfirvalda eða eftir atvikum löggildingar umhverfisráðherra sbr. eldri lög. Í 6. mgr. gr. 4.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem er samhljóða gr. 37.2. í áðurgildandi byggingar­reglugerð nr. 441/1998, koma fram þau skilyrði sem iðnmeistari þarf að uppfylla hafi hann öðlast réttindi sín á grundvelli eldri laga. Skal hann hafa lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989 og fengið áður viðurkenningu í byggingarfulltrúaumdæmi. Skuli hann, þegar leitað er nýrrar staðbundinnar viðurkenningar, leggja fram verkefnaskrá staðfesta af byggingarfulltrúa er sýni fram á að hann hafi að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingar­framkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi umdæmi.

Kærandi uppfyllti þau skilyrði fyrrgreinds reglugerðarákvæðis að hafa lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989 og að hafa haft umsjón með byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viður­kenningu í byggingarfulltrúaumdæmi Eyjafjarðar. Hins vegar verður ráðið af gögnum frá skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar að framangreind umsjón með framkvæmdum hafi ávallt verið í umboði annars aðila með tilskilin réttindi. Þá hefur skipulags- og byggingafulltrúinn upplýst í bréfi, dags. 2. júní 2021, í tilefni af fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar, að kærandi hafi ekki hlotið staðbundin réttindi í umdæmi byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis á grundvelli eldri laga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 23. febrúar 2021 um að synja  kæranda um skráningu staðbundinna réttinda iðnmeistara.