Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2021 Neðan-Sogsvegar

Árið 2021, þriðjudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk-fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2021, kæra á ákvörðun sveitastjórnar Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 21. október 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurkots í Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2021, er barst nefndinni 19. s.m., kærir lóðarhafi Neðan-Sogsvegar 4, þá ákvörðun sveitastjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurkots í Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3, varðandi lóðina Neðan-Sogsveg 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 30. apríl 2021.

Málavextir: Forsaga máls er sú að hinn 12. febrúar 2020 tók skipulagsnefnd Uppsveita fyrir umsókn kæranda máls þessa um breytingu á deiliskipulagi Norðurkots í Grímsnesi, sumarhúsa­hverfis, svæðis 3. Deiliskipulagsbreytingin fól í sér stofnun lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4C úr landi lóðar Neðan-Sogsvegar 4, auk lagfæringa á legu og stærð lóða. Var umsóknin samþykkt. Staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 19. s.m. og að breytingartillagan yrði grenndarkynnt sem óveruleg breyting samkvæmt 2. mgr. 43. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingartillagan var grenndarkynnt nágrönnum og bárust engar athugasemdir á kynningartíma. Tók skipulagsbreytingin gildi hinn 2. júní 2020 með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Síðar kom í ljós að grenndarkynning fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar hafði ekki náð til lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A og var honum því boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við skipulagsbreytinguna. Á fundi skipulagsnefndar 14. október 2020 var tekin fyrir athugasemd sem borist hafði frá lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A. Laut hún að því að byggingar­reitur innan lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4 næði yfir svæði sem stæði töluvert hærra en bústaður hans á lóðinni nr. 4A. Lagði nefndin til í kjölfarið að óveruleg breyting yrði gerð á deiliskipulaginu og að byggingarreitur lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4 yrði minnkaður. Var það samþykkt á fundi sveitarstjórnar 21. s.m. Var og samþykkt að farið yrði með breytinguna samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og að breytingin yrði grenndarkynnt lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4. Var kæranda sent bréf, dags. 22. október 2020, með bókunum skipulagsnefndar og sveitarstjórnar frá 14. og 21. s.m. varðandi skipulagsbreytinguna og honum bent á kæruheimild og kæruleið til úrskurðarnefndarinnar. Deiliskipulagsbreytingin tók síðan gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 2. mars 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með hinni kærðu ákvörðun sé gengið freklega á eignarrétt hans að ástæðulausu og að erfiðara verði að skipta lóð hans upp í tvær lóðir. Sá möguleiki að skipta landinu í tvö 0,67 ha spildur verði nánast úr sögunni og verðgildi eignar hans rýrni umtalsvert með umræddri breytingu á byggingarreit lóðarinnar. Skipulagsnefnd hafi tekið ranga ákvörðun með því að samþykkja athugasemdir lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A. Verði óskað eftir því að byggja innan umrædds byggingareits sé skipulagsnefnd í sjálfsvald sett að hafna þeirri beiðni, auk þess sem reglugerðarákvæði takmarki nálægð milli húsa og landamerkja. Skipulagsnefnd telji landið svo stórt að það muni kæranda engu að taka á sig skerðingu á byggingarreit lóðarinnar. Núverandi hús á landi kæranda sé barn síns tíma og því fyrirsjáanlegt að það verði endurnýjað, en hvort það verði á núverandi stað eða öðrum sé óvíst. Engin ákvörðun hafi verið tekin um að byggja á umræddu svæði. Það svæði á lóð hans sem standi hærra en húsið á lóðinni Neðan-Sogsvegi 4A sé hóll og því óheppilegt sem byggingarsvæði. Lóðarhafar þeirrar lóðar hafi ekki rétt til að krefjast skerðingar á byggingarreit lóðar hans.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Sveitarfélagið telur eigendur Neðan-Sogsvegar 4A ekki geta talist óviðkomandi aðilar í þessu máli þar sem lóðin liggi að lóð kæranda. Viðkomandi byggingarreitur á lóð kæranda nái út á svæði sem sé nokkuð hærra í landinu og megi ætla að grenndaráhrif byggingar á þeim stað gætu orðið nokkur m.t.t. skuggavarps og skertrar friðhelgi. Enginn byggingarreitur hefði verið skilgreindur á lóðinni fyrir hina kærðu breytingu þar sem lóðin hefði þegar verið byggð. Hefði því leyfi fyrir gerð mannvirkis á viðkomandi hluta lóðarinnar verið háð niðurstöðu grenndarkynningar ef ekki hefði komið til skipulagsbreyting sem fórst fyrir að grenndarkynna lóðarhöfum lóðarinnar nr. 4A. Skipulagsnefnd og sveitastjórn leggi ekki mat á þá fullyrðingu kæranda að breytingin rýri verðgildi eignar hans umtalsvert. Verði þó að telja ólíklegt að svo sé þar sem farist hefði fyrir að grenndarkynna skipulagsbreytinguna fyrir lóðarhafa fyrrnefndrar lóðar, líkt og fyrr segi. Við grenndarkynningu hefðu athugasemdir lóðarhafans komið fram og sveitarfélagið brugðist við þeim. Því sé hafnað að skipulagsnefnd hafi farið fram úr valdheimildum sínum með því að samþykkja athugasemdir lóðarhafa Neðan-Sogsvegar  4A án röksemda. Skipulagsnefnd­ fari með stjórnsýslulega meðferð máls en ákvarðanir um breytingu á deiliskipulagi séu teknar af sveitastjórn Grímsnes- og Grafningshrepps. Ákvörðun sveitarfélagsins sé rökstudd í bókun skipulagsnefndar og sveitastjórnar.

Athugasemdir lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A: Lóðarhafar vísa til þess að við kaup foreldra þeirra á lóðinni Neðan-Sogsvegar nr. 4A hafi lóðirnar nr. 4A og 4B legið saman. Fyrirhuguð staðsetning húsa á báðum lóðunum hafi þá legið fyrir. Í ferlinu hafi lóðunum nr. 4 og 4B verið breytt á þann veg að nú liggi lóð 4B vestar í landinu, ný lóð 4C hafi verið stofnuð og lóð 4 eigi tungu á milli lóða 4A og 4B en þær lóðir hafi áður legið saman. Byggingarreiturinn á tungunni sé það sem deilan snúist um. Bygging eða framkvæmdir á byggingarreitnum ógni verulega friðhelgi lóðarhafa og feli í sér truflun og sjónmengun vegna nálægðar við hús og verönd á þeirra lóð. Hina nýju skiptingu lóðarinnar telji lóðarhafar meinlausa svo fremi sem byggingarlína verði dregin nokkuð norðar, eða t.d. milli punkts p118 og að línu ofan við punkt p112. Í pósti til lóðarhafa hafi landeigendur eða umráðamenn lóðanna nr. 4, 4B og 4C lýst því yfir að þeir vilji ekki fá hús á byggingarreitinn á tungunni. Samt hafi verið lagst gegn breytingunum, sem ekki geti talist ­verulegar eða hamlandi fyrir núverandi eða framtíðareigendur lóðarinnar nr. 4, þar sem betra byggingarland sé innan nýja byggingarreitsins.

Niðurstaða: Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var byggingarreitur á lóðinni Neðan-Sogsvegar 4 minnkaður um 950 m2.

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að telji sveitastjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Með hliðsjón af því að hin kærða skipulagsbreyting laut einungis að byggingarreit lóðar kæranda verður að telja að heimilt hafi verið að haga málsmeðferð hennar í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 44. gr. skipulagslaga fer grenndarkynning þannig fram að nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta er kynnt tillaga að breytingu á deiliskipulagi og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tiltekins frests, sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.

Eins og rakið er í málavöxtum var kæranda sent bréf, dags. 22. október 2020, með bókunum skipulagsnefndar og sveitarstjórnar frá 14. og 21. s.m. varðandi fyrirhugaða skipulagsbreytingu og honum bent á kæruheimild og kæruleið til úrskurðarnefndarinnar. Í tilkynningunni var hins vegar ekki bent á að kærandi ætti þess kost að koma á framfæri athugasemdum vegna breytingarinnar við skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins innan lögboðins fjögurra vikna frests. Fór því svo að kærandi bar fyrirhugaða skipulagsbreytingu undir úrskurðarnefndina í stað þess að beina athugasemdum sínum til skipulagsnefndar. Því máli var hins vegar vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem umdeild breyting hafði þá ekki öðlast gildi með lögboðnum hætti. Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem ekki liggur heldur fyrir að andmæli kæranda vegna kynntrar skipulagsbreytingar hafi verið tekin fyrir í skipulagsnefnd og sveitarstjórn og athugasemdunum svarað áður en breytingin var samþykkt, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga, var grenndarkynning málsins haldin slíkum annmörkum að fella ber hina kærðu deiliskipulags­breytingu úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitastjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurkots í Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3.