Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2025 Torgsöluhús

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2025, beiðni um að úrskurðað verði hvort fyrirhugað torgsöluhús á Seyðisfirði sé háð byggingarleyfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með erindi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hinn 4. febrúar 2025 fór Sveitarfélagið Múlaþing fram á það við úrskurðarnefndina með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að skorið yrði úr um hvort fyrirhugað torgsöluhús, sem sótt hafði verið um stöðuleyfi fyrir, væri háð byggingarleyfi.

Málavextir og rök: Með umsókn, móttekinni 3. febrúar 2025, var sótt um stöðuleyfi fyrir torgsöluhús hjá Sveitarfélaginu Múlaþingi. Í umsókninni kom fram að um væri að ræða 35 m2 skúr á hjólum sem standa ætti í Hafnargarði við Lónsleiru/Ferjuleiru á Seyðisfirði. Fyrirhugað væri að grafa tvær holur fyrir hjólabúnað svo húsið gæti sest niður á grindina. Um sé að ræða nýtt hús sem byggt yrði á stálgrind og klætt að utan með bárujárni. Húsið verði einn salur að innan með fimm gluggum ásamt einni hurð þar sem beisli sé tengt við vörubíl. Húsið verði notað til sölu á handverki og fest niður með steyputunnum sem auðvelt sé að fjarlægja.

Á grundvelli 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki óskaði sveitarfélagið eftir að úrskurðarnefndin úrskurðaði um hvort torgsöluhúsið væri byggingarleyfisskylt þar sem vafi léki á hvort það væri jarðfast í skilningi laga nr. 160/2010.

Niðurstaða: Í máli þessu er tekin fyrir sú beiðni sveitarfélagsins Múlaþings að úrskurðarnefndin skeri úr um hvort torgsöluhús, sem sótt hefur verið um stöðuleyfi fyrir, sé háð byggingarleyfi. Er beiðnin lögð fram með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sem kveður á um að ef vafi leikur á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Í 9. gr. laga nr. 160/2010 er fjallað um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Þar segir í 1. mgr. að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Í 13. tl. 3. gr greindra laga er mannvirki skilgreint sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.

Í 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 er tekið fram að í reglugerð skuli setja ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Í reglugerð skuli kveða á um atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar.

Í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um stöðuleyfi. Í gr. 2.6.1. kemur fram að sækja skuli um stöðuleyfi til leyfis­veitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: a. Hjólhýsi, á tíma­bilinu frá 1. október til 1. maí. b. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað sé til flutnings, og stór samkomutjöld.

Af fyrirliggjandi lýsingu er um að ræða hús á hjólum sem verður tyllt niður á grind hússins og fest niður með steyputunnum. Af lýsingunni má ráða að húsið sé ekki varanlega fest við jörðu, þrátt fyrir að það sé fest niður með steyputunnum. Ber lýsing hússins með sér að auðvelt sé að fjarlægja það og ekki sé fyrirhugað að leggja lagnir að því.

Að framangreindu virtu er það álit úrskurðarnefndarinnar að ekki sé um jarðfast mannvirki að ræða í skilningi 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 og sé það því ekki byggingarleyfisskylt skv. 9. gr. laga nr. 160/2010. Þá er og sérstaklega gert ráð fyrir í lögum nr. 160/2010 og byggingarreglugerð að sótt sé um stöðuleyfi en ekki byggingarleyfi fyrir torgsöluhús, líkt og hér um ræðir.

 Úrskurðarorð:

Umrætt torgsöluhús á Seyðisfirði er ekki háð byggingarleyfi samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

31/2025 Spítalastígur

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 26. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 31/2025, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 30. mars 2023 um breytingar á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. febrúar 2025, kærir eigandi íbúðar í risi húss á lóð nr. 2 við Spítalastíg, ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 30. mars 2023 um breytingar á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir og rök: Á afgreiðslufundi 30. mars 2023 samþykkti skipulagsfulltrúi Reykjavíkur, í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, með vísan til heimilda um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa í viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkur­borgar, breytingu á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. Í breytingunni fólst meðal annars að í skilmálatöflu var byggingarmagn endurskoðað og greint á milli eldra húss (4) og nýbyggingar (4A) í athugasemdum. Miðað var við að í nýbyggingu yrðu fimm íbúðir, tvær á 1. og 2. hæð og ein íbúð í risi. Stærðir íbúða yrðu á bilinu 35 m2–80 m2. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2023.

Kærandi vísar til þess að hin umdeilda skipulagsbreyting muni hafa þau áhrif að lokast muni fyrir glugga á baðherbergi í íbúð hans, sem sé í risi húss á lóð nr. 2 við Spítalastíg. Glugginn sé neyðarútgangur og eina loftræsingin fyrir baðherbergið. Þá sýni deiliskipulagsbreytingin að heimilt sé að byggja yfir þak húsnæði sem sé í eigu kæranda.

Niðurstaða: Mál þetta varðar breytingu á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. Þess ber að geta að þær heimildir greinds deiliskipulags er kærandi vísar til, þ.e. heimild til stækka rishæð til austurs á húsi á lóð nr. 2 við Spítalastíg, var þegar til staðar í deiliskipulagi reitsins fyrir breytingu þá er tók gildi 26. júní 2023.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2023 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. febrúar 2025 og var kærufrestur þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kæru­máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að skilyrði séu til að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti, en lögmælt opinber birting ákvörðunar hefur þá þýðingu að almenningi telst við hana vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

50/2024 Lofnarbrunnur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda á borgarlandi við hlið lóðar nr. 30 við Lofnarbrunn.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. apríl 2024, kæra eigendur, Lofnarbrunni 30, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda á borgarlandi við fasteignina að Lofnarbrunni 30. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. október 2024.

Málavextir: Kærendur eru eigendur fasteignarinnar að Lofnarbrunni 30, Reykjavík. Í september 2022 hófu þeir byggingu útveggja á svæði við hlið lóðarinnar meðfram göngustíg á borgarlandi. Kærendur sendu fyrirspurn 28. september s.á. til Reykjavíkurborgar ásamt greinargerð frá teiknistofu varðandi stækkun lóðarinnar nr. 30 við Lofnarbrunn til vesturs um 90 cm og að gangstétt norðan megin lóðar verði hellulögð í stað þess að hún verði steypt. Fyrirspurn kærenda var lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. október 2022. Umsögn skipulagsfulltrúa lá fyrir 20. s.m. Í henni kom fram að mikilvægt væri að halda í breidd landrýmis um mikilvægan stíg í hverfinu og var því tekið neikvætt í erindið. Með málskoti til umhverfis- og skipulagsráðs, 14. september 2023, andmæltu kærendur afgreiðslu skipulagsfulltrúa. Á  fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. október s.á. var fyrrgreind umsögn skipulagsfulltrúa staðfest.

Með bréfi, dags. 22. janúar 2024, var kærendum tilkynnt um fyrirhugaðar dagsektir og var þeim veittur 30 daga frestur til þess að fjarlægja girðingu sem hafði verið sett upp ásamt undirstöðum hennar. Í bréfinu var jafnframt tekið fram að eiganda beri að sækja um afnotaleyfi af borgarlandi áður en ráðist yrði í framkvæmdir við að fjarlægja mannvirkið. Með tölvupósti, dags. 5. febrúar s.á., andmæltu kærendur áformunum, en þeim andmælum var hafnað af hálfu Reykjavíkurborgar með tölvupósti degi síðar. Vísað var til þess að engin rök hefðu komið fram sem vógu á móti ákvörðuninni og því héldist uppgefinn frestur til þess að verða við kröfunni. Af hálfu kærenda var óskað eftir frekari rökstuðningi vegna málsins með tölvupósti, dags. 7. febrúar 2024. Því erindi var svarað með tölvupósti, dags. 19. s.m., þar sem fram kom að um væri að ræða nauðsynlegt borgarland, m.a. vegna snjómoksturs, og að málinu væri lokið af hálfu Reykjavíkurborgar.

Með bréfi, dags. 19. mars 2024, var kærendum tilkynnt um álagningu dagsekta þar sem ekki hafi verið brugðist við fyrri kröfu byggingarfulltrúans í Reykjavík. Í bréfinu kom fram að dagsektirnar yrðu innheimtar frá og með 20. s.m. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að ákvörðun byggingarfulltrúa um álagningu dagsekta hafi verið andstæð reglum stjórnsýsluréttar um meðalhóf. Í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 komi fram að stjórnvöld skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði verði ekki náð með öðru vægara móti. Gæta skuli þess að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Reglan feli í sér að stjórnvöld verði að gæta hófs í meðferð valds síns. Stjórnvaldi sé þannig ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefnir að, heldur beri því að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 19. mars 2024, komi fram að innheimta dagsekta hæfist næsta dag, þ.e. 20. s.m. Ákvörðunin hafi borist kærendum með ábyrgðarpósti 4. apríl s.á. og hafi þá verið liðnir 16 dagar frá álagningu dagsekta. Áður en ákveðið hafi verið að leggja dagsektir á kærendur hafi þau ítrekað óskað eftir fundi við starfsmenn Reykjavíkurborgar í leit að lausn málsins, en kærendur hafi ekki neitað að fjarlægja þau mannvirki sem standi á borgarlandi á neinum tímapunkti. Með tölvupósti, dags. 23. febrúar 2024, hafi kærendur óskað eftir fundi með starfsmönnum Reykjavíkurborgar, en honum hafi ekki verið svarað.  Eftir að kærendur hafi fengið vitneskju um ákvörðunina hafi ítrekað verið reynt að hafa samband við Reykjavíkurborg símleiðis og með tölvupóstum í því skyni að fá dagsektirnar felldar niður og myndu kærendur þá fjarlægja umrædd mannvirki. Engin afstaða hafi borist frá Reykjavíkurborg gagnvart þeirri beiðni. Þá hafi kærendur tjáð Reykjavíkurborg að þau hyggist fjarlægja girðingar og undirstöður sem staðsettar eru á borgarlandi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að hin kærða ákvörðun sé dagsett 19. mars 2024, en kæran í máli þessu sé dagsett 22. apríl s.á. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um ákvörðunina og kærufrestur hafi því verið liðinn.

Bent sé á að reynt hafi verið að ná sáttum í málinu. Í tölvupósti frá starfsmanni umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. apríl 2024, hafi komið fram svar við fyrirspurn fyrirsvarsmanns kærenda varðandi afstöðu byggingarfulltrúa um niðurfellingu dagsekta. Fram hafi komið að þegar kærendur hafi orðið við kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja girðingu og undirstoðir á borgarlandi yrði afstaða tekin til þess hvort tilefni væri til að fella niður áfallnar dagsektir. Slíkt hafi ekki verið gert eins og fyrirliggjandi myndir og mælingar á vettvangi sýni. Lóðamörk Lofnarbrunns 30 hafi verið mæld og staðfest af mælingamanni Reykjavíkurborgar í tvígang þar sem í ljós hafi komið að umdeildar framkvæmdir kærenda stæðu á borgarlandi. Grundvöllur fyrir álagningu dagsekta sé því skýr og teljist málið nægilega upplýst. Reykjavíkurborg hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 22. janúar 2024, hafi kærendum verið veittur 30 daga frestur til þess að fjarlægja umdeilda girðingu og undirstöður hennar. Í bréfinu hafi komið fram áform byggingarfulltrúa um álagningu dagsekta ef ekki yrði orðið við kröfunni. Tæplega tveimur mánuðum síðar hafi verið tekin ákvörðun um álagningu dagsekta. Kærendur hafi þá haft uppi andmæli gegn áformunum, en án rökstuðnings og því hafi ekkert nýtt komið fram sem taka þyrfti til skoðunar áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Kærendur hafi bent á í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar að reynt hafi verið að fá dagsektir felldar niður gegn því að þau fjarlægðu umrædd mannvirki. Það hafi enn ekki verið gert, þrátt fyrir yfirlýsingar þess efnis. Í tölvupósti frá kærendum, dags. 18. apríl 2024, hafi þau lýst því yfir að þau myndu á næstu dögum hefjast handa við að fjarlægja undirstöður og girðingu sem væri staðsett í borgarlandi við Lofnarbrunn 30. Nú hafi rúmlega hálft ár liðið og enn standi undirstöðurnar á borgarlandi líkt og vettvangsskoðun sem farin hafi verið 29. október 2024 staðfesti.

Í grein 2.9.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé fjallað um heimild byggingarfulltrúa um álagningu dagsekta. Þar sé þó ekki fjallað um þann tímapunkt sem heimilt sé að hefja innheimtu slíkra sekta. Telja verði að meðalhófsregla stjórnsýslulaga girði fyrir það að hægt sé að leggja á afturvirkar stjórnvaldssektir. Í þessu tilfelli sé ekki um afturvirka beitingu þvingunarúrræða enda hafi innheimta dagsektanna hafist eftir að ákvörðun hafi verið tekið. Ákvarðanir byggingarfulltrúa séu birtar á vefsvæði byggingarfulltrúa á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Þar sé hægt að sjá afgreiðslu byggingarfulltrúa frá 19. mars 2024, en um sé að ræða opinbera birtingu.

Í meðalhófsreglunni  felist að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem stefnt sé að verði ekki náð með öðru vægara móti. Með tilliti til tilgangs dagsekta sem sé að knýja menn til ákveðinna verka eða láta af ólögmætu atferli, hafi byggingarfulltrúi gætt að meðalhófi með álagningu dagsekta daginn eftir að ákvörðun um það hafi verið tekin í kjölfar rúms frests sem kærendum var veittur til þess að gera úrbætur.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kærendum með bréfi dags. 19. mars 2024. Skrifleg og undirrituð kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. apríl 2024 í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en frekari gögn og greinargerð af hálfu kærenda bárust nefndinni 22. s.m. Er því af framangreindu virtu litið svo á að kæran hafi borist innan fyrrgreinds kærufrests.

Í máli þessu er deilt um álagningu dagsekta á kærendur að fjárhæð 25.000 kr., til að knýja fram að óleyfisframkvæmdir við lóð nr. 30 við Lofnarbrunn, Reykjavík, verði fjarlægðar. Umdeildar framkvæmdir fólust í því að sett var upp girðing og undirstöður á svæði sem er í eigu Reykjavíkurborgar.

Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að telji byggingarfulltrúi að ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli hann gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Þá er í 2. mgr. ákvæðisins að finna heimild til að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur. Nánar er kveðið á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðun um beitingu dagsekta er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga um mannvirki er háð mati stjórnvalds. Við mat á því hvort beita eigi dag­sektum þarf sem endranær að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins svo sem um andmæla­rétt, rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið.

Kærendum var fyrst tilkynnt um áform um álagningu dagsekta með bréfi, dags. 22. janúar 2024, þar sem veittur var 30 daga lokafrestur til að verða við kröfu Reykjavíkurborgar um að þær framkvæmdir sem staðsettar væru á borgarlandi yrðu fjarlægðar. Yrði ekki orðið við þeirri kröfu áformi byggingarfulltrúi álagningu dagsekta að fjárhæð 25.000 krónur. Ákvörðun um álagningu dagsekta var tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 19. mars s.á., tæpum tveimur mánuðum eftir að þeim var tilkynnt um áformin. Af hálfu Reykjavíkurborgar var ákvörðunin studd þeim rökum að um væri að ræða nauðsynlegt borgarland.

Liggur því ekki annað fyrir en að meðalhófs hafi verið gætt og að byggingarfulltrúi hafi fylgt málsmeðferðar­reglum stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 við meðferð málsins, þ. á m. veitt kærendum andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, og fært fram rök að baki ákvörðuninni með vísan til málsatvika og viðeigandi réttarheimilda, sbr. 21. og 22. gr. laganna. Voru því uppfyllt skilyrði 56. gr. laga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð fyrir því að taka hina kærðu ákvörðun.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga þykir rétt að dagsektir, sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2024 um álagningu dagsekta að fjárhæð 25.000 kr. vegna óleyfisframkvæmda á borgarlandi við hlið lóðar nr. 30 við Lofnarbrunn.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

182/2024 Brimslóð

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 182/2024, kæra á ákvörðun skipulags- og samgöngunefndar Húnabyggðar frá 4. desember 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 10. s.m., um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna fasteignarinnar að Brimslóð 10C, Blönduósi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimslóð ehf. þá ákvörðun skipulags- og samgöngunefndar Húnabyggðar frá 4. desember 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 10. s.m., að synja umsókn um byggingarleyfi vegna fasteignarinnar að Brimslóð 10C, Blönduósi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt fyrir bæjaryfirvöld að gefa út hið umsótta byggingarleyfi, en að því frágengnu að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn kæranda í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húnabyggð 31. janúar 2025.

Málavextir: Með úrskurði í máli nr. 70/2024 frá 8. október s.á. felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar frá 29. maí 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. júní s.á., um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna fasteignarinnar að Brimslóð 10C, Blönduósi. Var sú niðurstaða byggð á því að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hefði verið áfátt. Í ljósi úrskurðarins var með erindi dags. 28. nóvember 2024 til sveitarfélagsins óskað eftir því að umsókn Brimslóðar ehf. um byggingarleyfi við Brimslóð 10C yrði tekin fyrir að nýju.

Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og samgöngunefndar 4. desember 2024 þar sem lagt var til við sveitarstjórn að afgreiðslu erindisins yrði hafnað þar til deiliskipulag fyrir svæðið sem nú sé í vinnslu liggi fyrir sem og breytingar á Aðalskipulagi Blönduóss 2010–2030. Bókað var í fundargerð að þar sem yfirlýstur vilji sveitarfélagsins væri sá að hverfisvernd yrði komið á fyrir gamla bæinn og ásýnd byggðarinnar varðveitt væri ekki hægt að taka til afgreiðslu mál varðandi stækkun einstakra húsa á svæðinu á meðan skipulagsvinnan væri í gangi. Þá séu ákvæði í gildandi aðalskipulagi varðandi umrætt svæði sem verndi byggðina og hamli nýbyggingum. Einnig sé skýrt tekið fram í deiliskipulagslýsingu fyrir nýtt deiliskipulag að unnið skuli að vernd, viðhaldi, endurheimt og styrkingu bæjarmyndar gamla bæjarkjarnans og Klifamýrar. Sveitarfélagið hafi um langt árabil unnið að verndun svæðisins og stefnt sé að því að þær fyrirætlanir verði staðfestar í nýju deiliskipulagi. Á fundi sveitarstjórnar 10. desember 2024 var afgreiðsla skipulags- og samgöngunefndar samþykkt.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að mál þetta eigi sér langan aðdraganda og hafi áður komið til kasta nefndarinnar í málum nr. 36/2008 og 70/2024.

Kærandi hafi gert ráð fyrir því að sveitarfélagið myndi að eigin frumkvæði taka nýja og breytta afstöðu gagnvart umsókn hans um byggingarleyfi í kjölfar hins síðarnefnda úrskurðar. Ekki hafi raunin verið sú og hafi kærandi því ítrekað umsókn sína með tölvupósti 28. nóvember 2024 og sé hin kærða ákvörðun svar við þeirri umsókn sem sé nákvæmlega sú sama og fjallað hafi verið um í máli nefndarinnar nr. 70/2024.

Eins og fram komi í kæru þeirri sem leitt hafi til úrskurðar í máli nr. 70/2024 hafi umsókn kæranda um byggingarleyfi ýmist verið samþykkt eða henni synjað með mismunandi rökstuðningi í hvert sinn. Í nefndu máli hafi kæranda verið synjað á grundvelli aðalskipulags þar sem sveitarfélagið hafi talið að skipulagið kæmi í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis. Hafi úrskurðarnefndin verið því ósammála og því fellt synjunin sveitarfélagsins úr gildi.

Þrátt fyrir framangreint hafi hin kærða ákvörðun verið byggð á sömu rökum og áður ásamt því að vísað hafi verið til fyrirhugaðrar eða yfirstandandi vinnu við skipulagsáætlanir sem og til fyrirætlana sveitarfélagsins sem nái aftur til ársins 2017. Raunin sé þó sú að árið 2015 hafi sveitarfélagið sótt um að Gamli bærinn á Blönduósi yrði verndarsvæði í byggð. Þær fyrirætlanir hafi þó ekki komið í veg fyrir að vel hafi verið tekið í byggingar- og framkvæmdaleyfi á svæðinu, eins og t.d. stækkun Hótel Blönduóss.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi sveitarfélagið á engan hátt leitast við að bæta úr þeim annmarka sem úrskurðarnefndin hafi fundið að fyrri ákvörðun sveitarfélagsins sem felld hafi verið úr gildi með úrskurði í máli nr. 70/2024. Hafi sá annmarki falist í því að ekki hafi fylgt nánari rökstuðningur með synjun sveitarfélagsins og séstaklega í ljósi heimilaðs nýtingarhlutfalls lóða og þess misræmis sem gætti í nýtingarheimildum lóðar hótelsins og lóðar kæranda, en sömu skilmálar aðalskipulagsins eigi við um báðar lóðirnar. Þá hafi nefndin einnig bent á réttmætar væntingar kæranda um að byggingarleyfisumsókn hans yrði samþykkt í niðurstöðu sinni í nefndu máli.

Bent sé á að um Húnabyggð gildi það sama og eigi við um alla aðra á landinu. Gildandi réttur sé það sem ráði réttindum og skyldum borgara og þ. á m. íbúa Húnabyggðar. Geti sveitarfélagið því ekki rökstutt ákvörðun sína með því að vísa til fyrirætlana eða yfirstandandi vinnu við skipulagsáætlanir.

Að lokum séu ítrekaðar fyrri áskoranir um að sveitarfélagið leggi fram gögn og skýringar varðandi viljayfirlýsingu sveitarfélagsins og Infocapital um uppbyggingu gamla bæjarkjarnans á Blönduósi, dags. 1. september 2022. Þar komi fram að gerðir séu fyrirvarar sem snúi m.a. að lóðamálum og deiliskipulagi. Skorað sé á sveitarfélagið að upplýsa hverjir þeir fyrirvarar séu. Þá hafi kærandi heimildir fyrir því að Infocapital eða annar tengdur aðili hafi kostað skipulagsvinnu í gamla bænum á Blönduósi með stoð í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sé því skorað á sveitarfélagið að upplýsa hvort sú sé raunin og ef svo sé hvort ákvæði 2. ml. 2. mgr. 38. gr. laganna hafi verið fylgt.

Málsrök Húnabyggðar: Bent er á að í hinni kærðu ákvörðun komi skýrt fram að útgáfu byggingarleyfis sé hafnað þar til deiliskipulag fyrir svæðið sem nú sé í vinnslu auk breytinga á aðalskipulagi sem einnig sé í vinnslu liggi fyrir. Yfirlýstur vilji sé til þess hjá sveitarfélaginu að hverfisvernd gildi um gamla bæinn og ásýnd byggðarinnar varðveitt eins og mögulegt sé og því ekki hægt að taka mál varðandi stækkun einstakra húsa á svæðinu til afgreiðslu á meðan skipulagsvinnan sé í gangi. Þá sé einnig vísað til gildandi aðalskiplags fyrir svæðið sem verndi byggðina og hamli nýbyggingum. Þá sé í deiliskipulagslýsingu fyrir nýtt deiliskipulag sem auglýst hafi verið 18. júlí – 18. ágúst 2024 skýrt tekið fram að unnið skuli að vernd, viðhaldi, endurheimt og styrkingu bæjarmyndar gamla bæjarkjarnans og Klifamýrar. Sveitarfélagið hafi um langt árabil unnið að verndun svæðisins og stefnt sé að því að þær fyrirætlanir verði staðfestar í nýju deiliskipulagi.

Vísað sé til 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 varðandi hlutverk sveitastjórna í gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Þessa skyldu sé sveitarstjórn Húnabyggðar að rækja með því að vinna aðalskipulag fyrir Blönduós auk deiliskipulags fyrir gamla bæinn á Blönduósi um leið og staðinn sé vörður um þau verðmæti sem talin séu felast í varðveislu gömlu bæjarmyndarinnar. Ef gefið væri út byggingarleyfi andstætt gildandi skipulagi sem og því skipulagi, bæði deiliskipulagi sem og aðalskipulagi, sem sé í vinnslu myndi það skapa fordæmi og erfitt væri að standa gegn því að fleiri aðilar innan svæðisins vildu einnig framkvæma og breyta og byggja við hús sín. Sveitarfélagið leggi mikið upp úr því að jafnræðis milli aðila á svæðinu sé gætt og hafi því hafnað beiðni kæranda um viðbyggingu og breytingu á Brimslóð 10C sem sannarlega myndi leiða til breytingar á ásýnd gamla miðbæjarkjarnans. Höfnun þessi byggi á skipulagi sem í gildi er sem og þeim meginsjónarmiðum sem nýtt skipulag miðast við. Sveitarfélagið telji sig ekki bært til að heimila framkvæmdir innan svæðis sem berlega fari í bága við gildandi aðalskipulag sem og það deiliskipulag sem unnið hafi verið að um langa hríð.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 70/2024, sem varðaði hafi sama úrlausnarefni, hafi það verið talið til annmarka á kærðri ákvörðun að ekki hafi fylgt annar rökstuðningur en tilvísun til aðalskipulags. Kærandi telji engu hafi verið bætt við rökstuðning sveitarfélagsins sem nú vísi til draga að nýju deiliskipulagi, sem nú þegar sé afar umdeilt og muni vafalaust koma til kasta nefndarinnar eða eftir atvikum dómstóla.

Þá vísi sveitarfélagið til þess að synjun á umsókn kæranda byggi á jafnræðissjónarmiðum. Sveitarfélagið leitist þó á engan hátt við að rökstyðja þá staðhæfingu nánar eða hnekkja þeirri niðurstöðu nefndarinnar sem fram hafi komið í úrskurði í máli nr. 70/2024, að afgreiðsla sveitarfélagsins hafi brotið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.

Að mati kæranda sé umfjöllun um málavexti og athugasemdir í bréfi sveitarfélagsins að meginstofni til afar villandi og þar sé leitast við að breyta sögunni aftur í tímann svo falli að staðhæfingum sveitarfélagsins. Fullyrðingar þess varðandi það að óbætanlegur skaði yrði á hinni gömlu bæjarmynd ef heimilað yrði að byggja við hús kæranda séu rangar, enda séu þær og í fullkomnu ósamræmi við gögn sem stafi frá sveitarfélaginu sjálfu og eigi uppruna sinn í vinnu við nýtt deiliskipulag gamla bæjarins, sem verið hafi í vinnslu á árabilinu 2020–2022.

Í greinargerð þeirrar deiliskipulagstillögu segi í umfjöllun um Vestursvæði, en Brimslóð sé m.a. innan þess svæðis. „Öll uppbygging og endurgerð húsa, mannvirkja og umhverfis þeirra og almannarýma skal stuðla að styrkingu heildarásýndar svæðisins. Sögulegum einkennum skal viðhaldið og þau dregin fram, samræma skal umfang og útlit bygginga og litaval mannvirkja. Nýbyggingar skulu miða að því að styrkja heildarásýnd svæðisins. Þær skulu falla vel að umhverfi, staðháttum og virða menningarsöguleg einkenni byggðarinnar og samræmast henni hvað umfang, útlit, efnisval og litaval varðar.“

Í greinargerðinni segi í skilmálum um Brimslóð 10 A, B og C að skilgreindur sé nýr byggingarreitur innan lóðar þar sem heimilt sé að byggja við núverandi hús við Brimslóð 10C og að grunnfleti megi viðbygging vera allt að 50 m2.

 Kærandi telji ljóst að alger kúvending hafi orðið í afstöðu sveitarfélagsins til skipulags gamla bæjarins þegar sveitarfélagið hafi ritað undir viljayfirlýsingu við Þróunarfélag gamla bæjarins 1. september 2022. Sé því beint þeirri áskorun til sveitarfélagsins að upplýsa um hvaða fyrirvarar hafi verið gerðir af hálfu viðsemjanda sem sveitarfélagið hafi samþykkt.

Kærandi telji að ráða megi af rás atburða að fyrirvarar þróunarfélagsins við deiliskipulag hafi verið margvíslegir, enda virðist þeir hafa leitt til þess að deiliskipulagi í vinnslu hafi verið varpað fyrir róða og vinna hafin við gjörbreytt deiliskipulag þar sem þróunarfélaginu sé hyglað á kostnað annarra hagsmunaaðila í gamla bænum á Blönduósi.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar á umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna fasteignarinnar að Brimslóð 10C, Blönduósi. Í hinni kærðu ákvörðun var synjun byggingarleyfisumsóknarinnar byggð á ákvæðum aðalskipulags sem vernda eigi byggðina og hamli nýbyggingum á svæðinu. Þar að auki var vísað til yfirstandandi vinnu við skipulagsáætlanir og til fyrirætlana sveitarfélagsins um verndun gamla miðbæjar Blönduóss sem nái aftur til ársins 2017.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin að jafnaði ekki nýja ákvörðun í máli og er því ekki á færi nefndarinnar að leggja fyrir bæjaryfirvöld að gefa út hið umsótta byggingarleyfi eða að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn kæranda í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Verður því einungis tekin afstaða til lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er það í höndum sveitarstjórnar að annast gerð skipulagsáætlana innan marka sveitarfélags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Þá ber að taka mið af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning og afgreiðslu ákvarðana á þessu sviði sem endranær.

Af framangreindu þykir tilefni til að rekja það sem fram kom í niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. 70/2024. Þar benti úrskurðarnefndin á að vísun til umfjöllunar í Aðalskipulagi Blönduóss 2010–2030 teldist ekki fullnægjandi rökstuðningur. Ætti það sérstaklega við í ljósi heimilaðs nýtingarhlutfalls lóða samkvæmt ákvæðum gildandi aðalskipulags og þess misræmis sem gætti í nýtingarheimildum lóðar hótels á umræddu svæði og lóðar kæranda, en sömu skilmálar aðalskipulagsins ættu við um báðar lóðirnar. Þá var á það bent að texti í greinargerð aðalskipulagsins um að tilteknar lóðir við Brimslóð teldust fullbyggðar fæli í sér lýsingu á staðháttum á svæðinu við skipulagsgerð. Slík lýsing girti ekki fyrir breytingar á þeim byggðu lóðum við deiliskipulagsgerð eða eftir atvikum með afgreiðslu umsóknar á grundvelli aðalskipulags að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga, svo fremi sem breytingin væri í samræmi við skilmála aðalskipulagsins og viðmið þess um nýtingarhlutfall.

Lóðin Brimslóð 10C er 366 m2 og húsið sem stendur á henni er 74,7 m2 og er skráð sem vörugeymsla samkvæmt fasteignaskrá, en fyrirhugað er að nýta húsið undir veitingastað og/eða kaffihús. Núverandi nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,2 en yrði 0,31 með umsóttri stækkun hússins í 115 m2. Innan sama svæðis er 2.500 m2 lóð sem Hótel Blönduós stendur á og er nýtingarhlutfall þeirrar lóðar 0,48 og er ráðagerð í aðalskipulaginu um frekari stækkun þess.

Í hinni kærðu ákvörðun var vísað til aðalskipulags sem vernda eigi byggðina og hamli nýbyggingum á svæðinu og til yfirstandandi vinnu við skipulagsáætlanir og fyrirætlana sveitarfélagsins um verndun gamla miðbæjar Blönduóss. Enn hafa þó ekki verið færð fram efnisleg rök fyrir því misræmi sem gætir í nýtingarheimildum lóðar hótels og lóðar kæranda, sem eru á sama svæði og því sömu skilmálar aðalskipulags gildandi fyrir báðar lóðirnar. Í þessu sambandi verður að líta til sjónarmiða jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga er leiða til þess að fasteignaeigendur á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir eigi að njóta sambærilegra nýtingarheimilda á lóðum sínum nema að skipulagssjónarmið eða önnur efnisrök mæli því í mót. Við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar umdeildu ákvörðunar verður að líta til þess að um er að ræða stjórnvaldsákvörðun sem veitir skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda til að móta byggð einstakra svæða. Stjórnvöldum ber þó við töku stjórnvaldsákvarðana, svo sem við afgreiðslu byggingarleyfisumsókna að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og þeim lagagrundvelli sem ákvörðun byggist á hverju sinni.

Við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi ber að gæta þess að byggingaráform séu í samræmi við gildandi aðalskipulag, sbr. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og er stefna gildandi aðalskipulags bindandi, sbr. 5. mgr. 32. gr. skipulagslaga. Því er óheimilt að leggja til grundvallar fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi sem nú eru í vinnslu og hafa ekki fengið þá afgreiðslu sem lög kveða á um.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun haldin þeim ágöllum að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og samgöngunefndar Húnabyggðar frá 4. desember 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 10. s.m., um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna fasteignarinnar að Brimslóð 10C, Blönduósi.

165/2024 Nönnugata

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 25. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 165/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem tilkynnt var með bréfi dags. 28. október 2024,  um að aðhafast ekki varðandi útlitsbreytingu á gluggum á Nönnugötu 16.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 29. nóvember 2024, kærir Húsfélagið Nönnugötu 16, þá ákvörðun byggingarfulltrúa í Reykjavík frá 28. október 2024 að aðhafast ekki vegna ábendingar um breytingu á ásýnd á gluggum á 2. hæð á Nönnugötu 16, þar sem ekki sé um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í 2.3.4 gr. byggingarreglugerðar. Er þess krafist að úrskurðarnefndin ,,skoði málið og taki það til endurskoðunar.“

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. desember 2024.

Málavextir: Reykjavíkurborg barst þann 19. september 2024 ábending frá húsfélaginu Nönnugötu 16 um að gluggar á 2. hæð íbúðar nr. 202 samræmist ekki byggingartíma né teikningum hússins. Bent var á að ekki mætti breyta útliti hússins án samþykkis annarra eigenda og hafi þeir ekki verið látnir vita um þessar framkvæmdir. Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa þann 26. september 2024 og bókað í fundargerð: ,,Nönnugata 16 – breyting á útliti glugga. Byggingarfulltrúi mun ekki aðhafast þar sem ekki er um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í 2.3.4 gr. byggingarreglugerðar.“ Húsfélaginu var tilkynnt um um þessa niðurstöðu þann 28. október 2024. Úrskurðarnefndin lítur svo á að lögmæti þessarar afgreiðslu sé borin undir nefndina í máli þessu.

Málsrök kæranda/kærenda: Kærandi lýsir því að hann hafi kvartað til Reykjavíkurborgar um að eigandi íbúðar nr. 202 á annarri hæð hafi endurnýjað alla glugga á íbúðinni án samráðs við húsfélagið þannig að útlit þeirra varð annað en annarra glugga í húsinu. Kærður sé úrskurður deildar afnota- og eftirlits á umhverfissviði en teikningar af gluggunum í samþykktum teikningum hjá borginni hljóti að hafa tilgang. Gluggarnir vísi bæði út á Nönnugötu og Njarðargötu og sé stílbrotið hrópandi og augljóst öllum vegfarendum. Gluggarnir séu öðruvísi t.d. séu færri rúður í hverjum glugga, sem sé verulegur munur. Þetta sé lýti á yfirbragði hússins og leiði til lægra söluverðs fasteigna svo áhrifin séu bæði byggingarfræðileg og fjárhagsleg.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að Jón Árnason og Ólafur Þór Celbat hafi lagt fram kæru í máli þessu fyrir hönd húsfélagsins Nönnugötu 16, sem skráð sé í fyrirtækjaskrá án þess að prókúruhafi sé tilgreindur. Ljóst sé að Jón og Ólafur, sem séu eigendur íbúða í húsinu, geti ekki lagt fram kæru í nafni húsfélagsins né skuldbundið félagið nema hafa til þess umboð skv. lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, en í 71. gr. þeirra laga sé fjallað um umboð til þess að skuldbinda húsfélag og aðildarhæfi, en  æðsta vald í málefnum húsfélagsins sé í höndum almenns fundar þess sbr. 58. gr. laganna. Samkvæmt 12. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. laganna þurfi einnig samþykki allra eigenda til ráðstafana og ákvarðana sem ekki varða sameignina og sameiginleg málefni, en eigendur telji æskilegt að þeir standi saman að og ráði í félagi. Umboð til rekstrar málsins þurfi að vera í samræmi við lög um fjöleignarhús og ná sérstaklega til rekstrar þessa máls. Slík ákvörðun þyrfti að vera tekin á dagskrá á löglega boðuðum húsfundi, með samþykki allra eigenda húsfélagsins. Kæran sé því haldin annmarka að þessu leyti og beri að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.

Reykjavíkurborg fjallar einnig um viðeigandi ákvæði byggingareglugerðar nr. 112/2012, m.a. gr. 2.3.4., og mannvirkjalaga nr. 160/2010 m.a. gr. 9, 55, 56 og 60. Mat byggingarfulltrúa á því hvort breyting á útliti fjölbýlishússins við Nönnugötu 16 hafi verið veruleg og hvort beita ætti þvingunarúrræðum hafi verið stutt efnislegri- og málefnalegri skoðun og rökum, breytingin skerði ekki hagsmuni nágranna, breyti eða hafi áhrif á götumynd, né raski öryggis- og almannahagsmunum. Ekki sé því um verulega breytingu að ræða. Ekki verði séð að óveruleg framkvæmd eða útlitsbreyting eins og sú sem um sé að ræða geti falið í sér lækkun á fasteignaverði eignarinnar og kærandi hafi ekki sýnt fram á tjón. Úrskurðarnefndin eigi því að hafna kröfum kæranda.

Upplýsingaöflun úrskurðarnefndarinnar: Úrskurðarnefndin óskaði staðfestingar á að þeir aðilar sem undirrituðu kæruna fyrir hönd húsfélagsins að Nönnugötu 16 hefðu nauðsynlegt umboð til slíks. Leiðbeint var um þetta við móttöku kærunnar og síðan veittur frestur til þessa til eins mánaðar sem náði til 15. febrúar 2025. Ekkert slíkt umboð barst.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að aðhafast ekki vegna ábendingar um breytingu á ásýnd á nýjum gluggum á 2. hæð á Nönnugötu 16, þar sem ekki sé um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í gr. 2.3.4 gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kæran er send og undirrituð af Jóni A. Árnasyni og Ólafi Þór Chelbat, fyrir hönd húsfélagsins Nönnugötu 16. Í húseigninni að Nönnugötu 16 eru 10 fastanúmer og um hana gilda fjöleignarhúsalög nr. 26/1994, m.a. um húsfélag og heimildir þess. Samkvæmt 66. gr. laganna skal í húsfélagi vera stjórn sem kosin er á aðalfundi, skipuð a.m.k. þrem mönnum og sé einn þeirra formaður sem kosinn er sérstaklega.

Í 1. og 2. mgr. 70. gr. laganna er stjórn húsfélags veitt heimild til að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúta að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar sem og að láta framkvæma minni háttar viðhald, viðgerðir og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem ekki þola bið. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að ráðstafanir og framkvæmdir sem ganga lengra en kveðið er á um í 1. og 2. mgr. beri að leggja fyrir húsfund til umfjöllunar og ákvörðunar. Í 1. mgr. 71. gr. laganna segir að húsfélag sé skuldbundið út á við með skriflegri eða rafrænni undirritun meiri hluta stjórnarmanna og skuli formaður að jafnaði vera einn af þeim. Í 2. mgr. 71. gr. segir að húsfélagið geti verið aðili að dómsmáli, bæði til sóknar og varnar.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð og koma fram hver sé kærandi. Upp gefinn kærandi í máli þessu er húsfélagið Nönnugata 16, sem er skráð í fyrirtækjaskrá og hefur kennitölu. Það er lögbundið félag skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús og þótt ljóst sé að Jón A. Árnason og Ólafur Þór Chelbet, sem undirrituðu kæruna f.h. húsfélagsins, séu eigendur íbúða í fjöleignarhúsinu að Nönnugötu 16 liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um að þeir séu stjórnarmenn í húsfélaginu eða að þeir hafi umboð félagsins til að leggja fram kæruna í nafni þess. Með því að ekki er ljóst að kæran stafi með lögformlegum hætti frá upp gefnum kæranda, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2024, er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2025 Þorlákshafnarhöfn

Með

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Fyrir var tekið mál nr. 26/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar 2025 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar s.á. að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Ölfusi 14. febrúar 2025.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss 22. janúar var tekin fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi til að gera tæplega 1 ha landfyllingu við Suðurvararbryggju. Fól umsóknin í sér gerð landfyllingar milli Suðurvarargarðs og útsýnispalls á norðanverðu hafnarsvæði Þorlákshafnar. Stærð landfyllingar yrði um 9.000 m2 sem ætlað væri að ná frá núverandi sjóvörn að stórstraumsfjöruborði og tengjast núverandi athafnasvæði syðst á hafnarsvæðinu. Heildar efnismagn landfyllingar var áætlað um 27.000 m3 og í grjótkápu um 10.000 m3 til viðbótar. Var umsóknin samþykkt á fundinum með fyrirvara um birtingu deiliskipulags hafnarsvæðis í B-deild Stjórnartíðinda og að framkvæmdin yrði ekki metin umhverfismatsskyld af Skipulagsstofnun. Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 30. janúar 2025 var afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar samþykkt. Hinn 3. febrúar 2025 tók greint deiliskipulag gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrir 4. s.m. og var framkvæmdaleyfi gefið út sama dag. Í leyfinu kemur fram að framkvæmdatími er áætlaður þrír mánuðir.

Með bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 12. febrúar 2025, voru framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar stöðvaðar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þótti rétt að stöðva framkvæmdir samkvæmt leyfinu þar sem talin voru ýmiss álitaefni í málinu sem þarfnast mundu nánari rannsóknar, svo sem þar var nánar rakið. Var í því sambandi m.a. horft til þess að deilt var um ákvörðun sem tekin hafði verið á fundi bæjarstjórnar með fyrirvara um ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar, sem þá lá ekki fyrir. Fer slík málsmeðferð gegn markmiðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem gert er ráð fyrir því að í niðurstöðum matsskylduákvörðunar séu settar fram ábendingar um tilhögun framkvæmdar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif, byggt á þeim upplýsingum sem fram hafa komið við umfjöllun um tilkynningu framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 20. gr.

Í téðum úrskurði nefndarinnar kom jafnhliða þessu fram að meðal álitaefna í kærumálinu væri hvort kærandi uppfyllti skilyrði kæruaðildar fyrir nefndinni. Var til nánari skýringar greint frá ákvæðum laga sem verið gætu af þýðingu. Var af því tilefni skorað á kæranda að gera grein fyrir þeim einstaklingsbundnu og lögvörðu hagsmunum sem hann hefði af úrlausn kærumálsins, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Veittur var frestur til þessa til 18. febrúar 2025.  Umsögn kæranda barst þann sama dag. Framkvæmdaraðili hefur og tjáð sig um skilyrði kæruaðildar að máli þessu, svo sem gerð er grein fyrir hér á eftir, jafnhliða því að hann óskaði eftir því að málið sæti flýtimeðferð sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Málsrök kæranda: Í stjórnsýslukæru kæranda er aðild rökstudd svo að hann teljist til umhverfisverndar-, útivistar eða hagsmunasamtaka. Kemur fram að kærandi uppfylli áskilnað b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem hagsmunasamtök. Um sé að ræða samtök brimbrettafólks á Íslandi sem hafi m.a. að lýstu markmiði að vernda brimbrettastaði landsins, en fyrirhuguð framkvæmd muni að mati kæranda hafa verulega neikvæð áhrif á helstu brimbrettaöldu landsins. Með tölvubréfi 18. febrúar 2025 kom kærandi á framfæri nánari upplýsingum um starfsemi sína og lagði m.a. fram félagatal og fundargerð stjórnarfundar.  Í umsögn kæranda við sama tilefni voru áréttuð sjónarmið um að kæruaðild að máli þessu geti grundvallast á kærurétti samtaka skv. 4. gr. laga nr. 130/2011. Vísað var til þess að kærandi hafi borið ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu landfyllingar við Suðurvararbryggju undir úrskurðarnefndina. Aðeins að gengnum úrskurði um þá ákvörðun, sem sé forsenda hins kærða framkvæmdaleyfis, liggi endanlega fyrir hvort kæruheimild sé til að dreifa.

Um kæruaðild samkvæmt almennum meginreglum stjórnsýsluréttar vísar kærandi til þess að félag geti notið kæruaðildar eigi umtalsverður hluti félagsmanna þess einstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Þorlákshafnaraldan sé besta og áreiðanlegasta brimbrettaalda landsins og hafi verið notuð til brimbrettaiðkunar af félagsmönnum Brimbrettafélags Íslands í um 25 ára skeið. Stærsti hluti brimbrettaiðkunar landsins fari þar fram, bæði vegna þessara eiginleika og staðsetningar. Ráðgerðar framkvæmdir geti haft óafturkræf og neikvæð áhrif á „Aðalbrotið“ og með því veruleg neikvæð áhrif á möguleika til brimbrettaiðkunar. Séu hagsmunirnir félagsmanna kæranda þannig verulegir. Jafnframt þessu séu hagsmunirnir einstaklegir og umfram þá sem aðrir hafi að gæta. Félagsmenn séu helstu notendur svæðisins sem sé miðpunktur brimbrettaiðkunar hér á landi. Hafi þeir því ríka hagsmuni og umfram aðra. Hafi tilteknir félagsmenn auk þess atvinnu sína að einhverju leyti af brimbrettaiðkun.

Að lokum er af kæranda vísað til þess að kærurétti sé ætlað að tryggja réttaröryggi í stjórnsýslurétti, m.a. að óafturkræft tjón verði ekki vegna athafna sem séu í andstöðu við lög. Vegna þessara sjónarmiða séu ekki settar þröngar skorður við kæruaðild, enda hafi kærandi tengsl við efni hlutaðeigandi ákvörðunar.

Málsrök sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins eru bornar brigður á að kærandi uppfylli skilyrði kæruaðilar að máli þessu og er um það vísað til þeirra skilyrða fyrir kæruaðild félagasamtaka sem sett eru í 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með kærunni hafi ekki verið upplýsingar um fjölda félagsmanna né heldur um það hvort gefnar hafi verið út ársskýrslur um starfsemi kæranda eða hvort hann hafi endurskoðað bókhald. Þá virðist kærandi sem félag ekki hafa neina virka starfsemi og samkvæmt gögnum Skattsins sé stjórn félagsins óbreytt frá stofnun þess. Þetta bendi til þess að félagið sé lokuð samtök örfárra einstaklinga með takmarkaða starfsemi. Lögheimili þess sé í heimahúsi þar sem einn stjórnarmanna hafi eitt sinn átt heima en sú skráning hafi ekki verið uppfærð. Engin merki séu um að félagið hafi nokkra hefðbundna virkni sem félag og geti það því vart uppfyllt þær lágmarkskröfur sem lög nr. 130/2011 geri til félaga sem byggi kæruaðild sína á lögunum. Þá hafi kærandi engra einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta. Kærandi hafi ekki byggt upp neina aðstöðu í Þorlákshöfn og þrátt fyrir að tilteknir einstaklingar hafi farið á brimbretti inni á skilgreindu hafnarsvæði Þorlákshafnarhafnar skapi það eigi lögvarða hagsmuni. Sé þess því krafist að kærunni verði vísað frá.

Þessu til viðbótar bendir sveitarfélagið á að sú kæruheimild sem kærandi byggi kærurétt sinn á varði ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í lögunum komi fram að undir lögin falli landfyllingar þar sem áætluð uppfylling sé 5 ha eða stærri, sbr. liður 10.18 í við viðauka 1 við lögin. Landfyllingin sem um ræði sé 0,9 ha og því fjarri því að vera af því umfangi að lögin eigi við. Þá verði ekki séð að 13. tl. í viðauka 1 í lögum nr. 111/2021 breyti nokkru um þetta enda mundi slík skýring fela í sér að allar viðbætur við hafnir, án tillits til umfangs, mundu falla undir lögin.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Ölfuss um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 12. febrúar 2025, voru framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar stöðvaðar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sæta m.a. ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna, og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna er vísað til laga um úrskurðarnefndina, nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. þeirra laga er fjallað um skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni. Kemur fram að kærandi verði að eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast þó eiga lögvarinna hagsmuna að gæta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. þegar um er að ræða ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um nr. 111/2021, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 var rakið í skýringum við ákvæði b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum og var um það vísað til þágildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum. Hjá því verður ekki litið í máli þessu að með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. febrúar 2025, var hin kærða framkvæmd ekki talin líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þrátt fyrir að ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar raskar það því ekki að sökum þeirrar ákvörðunar er ekki til að dreifa kærurétti umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtaka yfir hinni kærðu ákvörðun. Getur aðild kæranda að máli þessu einungis grundvallast á almennum skilyrðum kæruaðildar.

Félög geta átt aðild að málum fyrir úrskurðarnefndinni á grundvelli almennra skilyrða kæruaðildar sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Til þess verða þau að sýna fram á að þau eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Verður við nánari afmörkun að líta til almennra meginreglna stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, en af þeim leiðir að kærandi verður að eiga beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem er kærð. Samkvæmt samþykktum kæranda er tilgangur hans að gæta hagsmuna allra brimbrettamanna á Íslandi og er því nánar lýst í samþykktunum að markmið í starfsemi sé m.a. að fá helstu brimbrettastaði skráða sem útivistarsvæði á aðalskipulagi sveitarfélaga. Með þessu lýtur tilgangur kæranda, sem félags, að gæslu almannahagsmuna og er í kæru hans fyrst og fremst höfðað til slíkra hagsmuna.

Fyrir liggur að í aðalskipulagi og deiliskipulagi þess svæðis sem um ræðir hefur verið tekin afstaða til landnotkunar. Þá hafa við meðferð þessa máls ekki komið fram neinar upplýsingar um að kærandi hafi yfir að ráða aðstöðu eða réttindum til brimbrettaiðkunar í grennd við ráðgert framkvæmdasvæði. Verður ekki ráðið að kærandi eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Verður ekki heldur séð að félagsmenn í kæranda eða umtalsverður hluti þeirra, eigi slíka beinna, sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls, þannig þeim verði játuð kæruaðild. Loks getur hvorki þátttaka kæranda eða félagsmanna hans við málsmeðferð Skipulagsstofnunar né við meðferð breytingar á deiliskipulagi svæðisins leitt til kæruaðildar að máli þessu.

Með vísan til alls framanrakins verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

25/2025 Þorlákshafnarhöfn

Með

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 25/2025, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar 2025 um að landfylling við Þorlákshöfn skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar s.á. að landfylling við Þorlákshöfn skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Verður nú tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kærenda.

Leitað var umsagnar Skipulagsstofnunar um kæru í máli þessu. Gerði stofnunin ábendingu um gögn málsins og boðaði umsögn innan veitts frests, sem ekki er liðinn.

Málsatvik og rök: Hinn 10. desember 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Hafnarsjóði Þorlákshafnar um landfyllingu við Þorlákshafnarhöfn samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. liði 13.02 og 10.10 í 1. viðauka laganna. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að hin fyrirhugaða framkvæmd væri tæplega 1 ha landfylling á syðsta hluta hafnarsvæðisins. Núverandi hafnarsvæði H3 væri um 12 ha að stærð og fyrirhuguð breyting gerði ráð fyrir um 9.000 m2 landfyllingu sunnan Suðurvaragarðar. Efnið sem notað yrði í landfyllinguna kæmi til með að vera uppúrtekt vegna dýpkunar við nýja Suðurvarabryggju. Gert væri ráð fyrir að í landfyllinguna sjálfa yrði notað um 27.000 m3 af efni og í grjótkápuna um 10.000 m3 af grjóti. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Brimbrettafélags Íslands, Hafrannsóknarstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Umhverfis- og orkustofnunar, Vegagerðarinnar, Sveitarfélagsins Ölfuss og Náttúruverndarstofnunar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lá fyrir 4. febrúar 2025. Var niðurstaða stofnunarinnar að hin fyrirhugaða framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021 og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi bendir á að hann telji að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé háð efnis- og formannmörkum sem eigi með réttu að valda ógildingu ákvörðunarinnar. Stofnunin hafi ekki búið yfir fullnægjandi eða réttum upplýsingum til að leggja forsvaranlegt mat á líkleg umhverfisáhrif og umfang þeirra og nauðsyn hefði staðið til þess að rannsaka ýmis atriði betur. Ljóst sé að framkvæmdirnar muni hafa í för með sér óafturkræf áhrif á Aðalbrotið. Verði hin fyrirhugaða landfylling að veruleika muni aldan styttast, gæði hennar verða óásættanleg og aðstæður til brimbrettaiðkunar mun hættulegri. Hluti brimbrettasvæðisins muni fara undir land­fyllinguna, þar á meðal það svæði sem notað sé af brimbrettafólki til að komast upp úr sjónum.

Niðurstaða: Á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls. Um er að ræða undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og ber að skýra umrædda heimild þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hefur að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Hinn 10. febrúar 2025 lagði kærandi þessa máls fram kæru á framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Ölfuss, dags. 4. s.m., og gerði kröfu um stöðvun framkvæmda. Með bráðabirgðaúrskurði, dags. 12. s.m., stöðvaði úrskurðarnefndin framkvæmdir á grundvelli hins kærða framkvæmdaleyfis. Var kæran í kjölfarið látin sæta flýtimeðferð hjá úrskurðarnefndinni á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Með úrskurði, fyrr í dag var kæru vegna framkvæmdaleyfis vísað frá nefndinni sökum aðildarskorts. Brestur nefndina heimild til þess að fjalla um skilyrði frestunar réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar, að því virtu.  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem lýtur eingöngu að því hvort fyrirhuguð framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum en ákvörðunin felur ekki í sér sjálfstæða heimild til að hefja framkvæmdir. Verður því ekki fallið á að skilyrði geti verið til þess að fresta réttaráhrifum hennar. Það er því undir framkvæmdaraðila komið að meta hvort hann kjósi að bíða úrskurðar nefndarinnar um þá ákvörðun sem er til umfjöllunar í máli þessu.

 Vert er að geta þess að í stjórnsýslukæru kæranda er aðild rökstudd svo að hann teljist til umhverfisverndar-, útivistar eða hagsmunasamtaka. Kemur þar fram að kærandi uppfylli áskilnað b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem hagsmunasamtök. Hefur kærandi komið nánari upplýsingum hér að lútandi til úrskurðarnefndarinnar, en ekki hefur verið tekin afstaða til kæruaðildar á þeim grundvelli að svo stöddu.

 Með tilliti til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa er undantekning og með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu matsskylduákvörðunar.

20/2025 Grundarland

Með

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 20/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025 um álagningu dagsekta vegna bílskýlis að Grundarlandi 22.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Grundarlands 22, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar s.á. um álagningu dagsekta að fjárhæð 25.000 kr. á dag frá og með 24. s.m. vegna bílskýlis að Grundarlandi 22. Einnig er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. 22. ágúst 2024, um niðurrif bílskýlisins. Með tölvupósti frá 14. febrúar 2025 gerðu kærendur þá kröfu að réttaráhrifum ákvörðunar um dagsektir verði frestað á meðan málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. febrúar 2025.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 22. ágúst 2024, sem móttekið var af kærendum 3. september s.á. tilkynnti byggingarfulltrúi lóðarhöfum Grundarlands 22 að borist hefði ábending um að búið væri að reisa mannvirki á lóðarhluta húss nr. 22 á lóð nr. 18.–24. við Grundarland. Samkvæmt ábendingu væri búið að reisa skúr og bílskýli utan byggingarreits. Var kærendum tilkynnt að þeim væri skylt að rífa skýlið innan 90 daga, ella yrðu lagðar á dagsektir. Með tölvupósti frá 28. nóvember s.á. var kærendum tilkynnt að ákvörðun byggingarfulltrúa stæði og að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 23. janúar 2025, var síðan tilkynnt um ákvörðun um álagningu dagsekta, kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem dragast mundi að verða við kröfu um niðurrif.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. febrúar 2025 var tekin fyrir beiðni kærenda um að stöðva innheimtu dagsekta á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri beiðni var synjað.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025 að leggja á dagsektir að fjárhæð 25.000 kr. fyrir hvern þann dag sem kærendur draga að verða við kröfu um að fjarlægja mannvirki er tilheyri húsi nr. 22 á lóð nr. 18.–24 við Grundarland. Kærendur hafa nýtt sér heimild til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kærendum. Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa.

 Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025, um beitningu dagsekta að fjárhæð 25.000 kr. á dag frá og með 24. janúar 2025.

162/2024 Furuhlíð

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 162/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10, Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. nóvember 2024, kærir eigandi, Fjóluhlíð 11, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 3. desember 2024.

Málsatvik og rök: Á árinu 2023 hóf kærandi tölvupóstsamskipti við byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna hæðar lóðar Furuhlíðar 10 og stöllunar á henni, sem hann taldi ekki vera samkvæmt samþykktum teikningum og skipulagi. Í kjölfarið fór byggingarfulltrúi á staðinn ásamt mælingamanni og með bréfi, dags. 12. maí 2024, var kæranda tilkynnt um niðurstöður mælinga. Í bréfinu kom fram að byggingarfulltrúi teldi að stöllun innan lóðar Furuhlíðar 10 samræmdist deiliskipulagi. Þá benti hann á að lóðarfrágangurinn hafi verið með þessum hætti frá því að húsin hafi verið byggð fyrir um 20-30 árum. Þá  hugðist embættið ekki aðhafast frekar í málinu.

 Kærandi kveðst hafa byggt hús sitt að Fjóluhlíð 11 í samræmi við samþykktar teikningar og hæð lóðarinnar sé í samræmi við deiliskipulag. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt nokkrum árum seinna og lóðin sett í jafna hæð í kóta 31 nema um 1,5 m frá lóðamörkum Fjóluhlíðar 11 þar sem 1,5 m hár stoðveggur hafi verið gerður svo hæðarkóti yrði réttur á lóðarmörkum. Kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að þetta hafi ekki verið í samræmi við samþykktar teikningar Furuhlíðar 10 enda hafi lóðin verið tekin út af byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar. Lóðin sé teiknuð einhalla að lóðarmörkum og hluti hæðarmunar tekinn upp við mitt hús Furuhlíðar 10. Byggingarfulltrúi hafi í ákvörðun sinni vísað til deiliskipulags um að heimilt sé að stalla lóðina niður að lóðarmörkum Fjóluhlíðar og að það sé gert með stoðvegg úr stórgrýti. Stöllun lóðar Furuhlíðar 10 sé í engu samræmi við teikningar lóðarinnar sem sýni einhalla, né deiliskipulag. Kærandi kannist ekki við að hafa fengið bréf með ákvörðun byggingarfulltrúa og því ekki náð að kæra ákvörðunina innan tímamarka. Á árinu 2024 hafi bréf verið send til bæjarstjóra, byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa þar sem kærandi hafi óskað eftir viðbrögðum við erindi sínu. Bréfinu hafi ekki verið svarað fyrr en eftir samtöl við fulltrúa Hafnarfjarðar þegar afrit af bréfi byggingarfulltrúa hafi verið afhent.

 Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er talið að kæran í málinu sé of seint fram komin og að hafna eigi öllum kröfum kæranda. Þá sé tiltekið að húsin og lóðirnar hafi verið í þessu horfi svo áratugum skipti. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt árið 1989 og hús kæranda að Fjóluhlíð 11 hafi verið byggt 1994. Kærandi hefði mátt gera sér grein fyrir landhallanum þegar hús hans hafi verið byggt. Á samþykktum teikningum séu lóðarmörkin sýnd aflíðandi að lóðarmörkum, sem ekki sé raunin. Mælingamaður hafi mælt hæð á lóðarmörkum og í framhaldinu hafi verið ákveðið að embættið myndi ekki aðhafast meira í þessu máli. Kæranda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun með bréfi.

Niðurstaða Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Ákvörðun byggingarfulltrúa var send á lögheimili kæranda með bréfi, dags. 12. maí 2024, þar sem samtímis voru gefnar leiðbeiningar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi kveðst ekki hafa móttekið bréfið en fengið það síðar í hendur í samskiptum við fulltrúa Hafnarfjarðar. Í gögnum málsins er ódagsett bréf sem kærandi kveðst hafa afhent fulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar í júní 2024. Kemur þar fram að erindi hans um að lóðin Furuhlíðar 10 yrði hæðarsett í samræmi við skipulag, hafi verið hafnað af byggingarfulltrúa. Verður ekki annað ráðið af þessu en að kærendur hafi vitað af hinni kærðu ákvörðun eigi síðar en í júní 2024.

Í ljósi þess að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. nóvember 2024, sem var að liðnum lögbundnum kærufresti, verður henni vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

171/2024 Æðaroddi

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 171/2024, kæra á afgreiðslu á erindi kæranda um að sauðfjárhald í hesthúsi að Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. desember 2024, kærir eigandi hesthúss að Æðarodda 29, afgreiðslu á erindi hans um að sauðfjárhald í næsta hesthúsi, Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akraneskaupstað 17. janúar 2025.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi hesthúss að Æðarodda 29 á Akranesi. Með tölvupósti 18. nóvember 2024 til skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar óskaði hann eftir skýringum á sauðfjárhaldi í hesthúsi að Æðarodda 27. Í framhaldi kom fram af hálfu bæjarins að heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi að halda fé á svæðinu en krafa sé gerð um að taðþró þurfi að vera innan eða utan byggingar. Í tölvupósti, dags. 26. nóvember 2024, benti kærandi á að teikningar fyrir taðþró í kjallara hússins að Æðarodda 27 vanti á kortavef sveitarfélagsins. Þá hafi húsið verið byggt og skilgreint sem hesthús en ekki fjárhús. Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta því í fjárhús né hafi verið lagðir inn uppdrættir fyrir þeim breytingum sem gerðar hafi verið á húsinu. Var þess krafist að allt sauðfé yrði fjarlægt úr húsinu þangað til þessi mál væru komin í lag. Var þessu erindi ekki svarað af hálfu bæjaryfirvalda.

Kærandi bendir á að í fasteignaskrá sé húsið að Æðarodda 27 skráð sem hesthús. Nú sé þar eingöngu sauðfé og það sem því tilheyri, þar á meðal slátrun sauðfjár að hausti. Sauðfjárhald hafi verið í húsinu í nokkur ár en hann hafi ekki vitað af því fyrr en fyrir stuttu síðan að ekki mætti breyta um starfsemi í húsinu nema með leyfi sem háð væri nýjum uppdráttum vegna breytinga. Töluverð óþægindi verði af sauðfjárhaldinu og hafi hann fengið ámæli fyrir að trufla sauðburð og sé erfitt að vera með hunda á lóðum í kring vegna þess. Vegna vondrar lyktar sem stafi frá fénu geti hann auk þess orðið fyrir fjárhagstjóni.

Af hálfu Akraneskaupstaðar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé til að dreifa kæranlegri ákvörðun né heldur hafi kæra borist innan kærufrests. Jafnframt er vísað til þess að notkun hússins að Æðarodda nr. 27 sé í samræmi við landnotkun samkvæmt deiliskipulagi og sé bænum ekki heimilt að verða við kröfum kærenda um að búfjárhald verði þar stöðvað. Athugasemdum kæranda hafi verið svarað og skýrt hafi verið út fyrir honum að sú starfsemi sem hann krefjist að verði stöðvuð sé lögmæt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og felst það m.a. í því að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi. Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum. Í bréfi kæranda, dags. 26. nóvember 2024, var farið fram á að sauðfjárhald yrði stöðvað í húsinu að Æðarodda 27. Erindinu hefur ekki verið svarað en í fyrri tölvupóstsamskipum milli kæranda og bæjaryfirvalda kom fram sú afstaða Akraneskaupstaðar að starfsemin samrýmdist skipulagsáætlunum á svæðinu. Sú afstaða stjórnvalds verður ekki jöfnuð við afgreiðslu málsins hjá því stjórnvaldi sem til þess er bært, en fyrir liggur að beiðni kæranda um að þvingunarúrræðum yrði beitt hefur ekki verið formlega afgreidd hjá byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.