Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2024 Suðurgata

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Sveitar­félagsins Voga frá 8. júlí 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda við fasteignina að Suðurgötu 4, Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júlí 2024, kærir eigandi bílskúrs og íbúðar á 1. hæð fjöleignahúss á lóð nr. 4 við Suðurgötu, Vogum, ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Sveitarfélagsins Voga frá 8. júlí 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda við fasteignina. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 31. júlí og 1. ágúst 2024.

Málavextir: Með bréfi, dags. 9. júlí 2024, var kæranda tilkynnt að byggingarfulltrúi Sveitar­félagsins Voga hefði ákveðið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 10.000 vegna óleyfis-framkvæmda við fasteignina að Suðurgötu 4, Vogum. Í bréfinu var vísað til fyrri bréfa frá byggingarfulltrúa, dags. 26. febrúar 2019, 12. apríl 2019, 30. ágúst 2019, 17. febrúar 2020, 29. mars 2021, 16. júní 2022, 4. október 2023 og 7. júní 2024.

Í bréfinu kemur meðal annars fram að fyrir liggi að geymslu í húsnæðinu hafi verið breytt í baðherbergi auk þess sem dyraopi á milli eldhúss og þvottahúss hafi verið lokað. Sé það ekki í samræmi við samþykktar teikningar af húsinu. Með því móti hafi íbúðinni í raun verið skipt í tvennt. Þá liggi fyrir að bílgeymslu hafi verið breytt í íverurými sem sé heldur ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti.

Fram kom að byggingarfulltrúi hafi ítrekað veitt kæranda tækifæri til þess að verða við athuga­semdum með því að breyta húsnæðinu til fyrra horfs. Hvorki hafi verið orðið við þeim beiðnum né send staðfesting um að orðið hafi verið við fyrirmælum byggingarfulltrúa. Væri byggingar­fulltrúi því tilneyddur að beita þeim þvingunarúrræðum sem hann hafi áður boðað.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að ekki þurfi sérstakt byggingarleyfi fyrir minni­háttar framkvæmdum sem um ræði í máli þessu. Skipulag íbúðarinnar sé gamalt og ekki sé við neinar teikningar að styðjast. Hvorki þurfi byggingarleyfi til þess að opna eða loka dyrum né til þess að setja bedda í bílskúr. Í Reykjavík hvetji borgaryfirvöld fasteignaeigendur til þess að nýta bílskúra til íbúðar og sama eigi að eiga við um Sveitarfélagið Voga. Húsnæðið hafi verið leigt út í þeim tilgangi að fjármagna kaupin á því. Nái kröfur sveitarfélagsins fram að ganga lendi kærandi í fjárhagsvandræðum.

Afskipti sveitarfélagsins hafi komið til eftir að kærandi sótti um leyfi frá sveitarfélaginu til að skrá þrjár íbúðareiningar í húsinu. Hins vegar hafi sú umsókn verið dregin til baka þar sem viðhorf sveitarfélagsins hafi verið neikvætt. Sveitarfélagið vilji engar teikningar og fari fram á að húsnæðinu verði komið í upprunalegt ástand, en húsið hafi verið reist árið 1953. Engar teikningar séu til af innra skipulagi íbúðarinnar og gæti því núverandi útfærsla verið hin upphaflega. Eignin hafi verið keypt í núverandi ástandi og hafi kærandi ekki breytt innra skipulagi. Sveitarfélagið fari fram á að salerni verði fjarlægt og dyr verði opnaðar hjá kæranda, en virðist ekki skipta sér af innra skipulagi hjá íbúum á efri hæð hússins. Þá hafi sveitarfélagið ekki komið með neinar athugasemdir varðandi slæmt ástand hússins að öðru leyti eða vegna óleyfisskúrs á sameigin­legri lóð.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Þær breytingar sem kærði hafi ráðist í á íbúð sinni séu slíkar að búið sé að skipta íbúðinni upp í sjálfstæð rými sem ekki sé innangengt á milli. Með því hafi hann búið til tvær sjálfstæðar íbúðir á hæðinni. Þá hafi hann einnig breytt bílskúr í sjálfstæða íbúð. Slíkar breytingar á notkun og fjölgun íbúða séu í eðli sínu verulegar og geti ekki fallið undir minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilega breytingu sem ráðherra væri heimilt að undanþiggja byggingarleyfi með ákvæði í reglugerð.

Undanþegin byggingarleyfi skv. byggingarreglugerð nr. 110/2012 séu framkvæmdir sem ekki falli undir umfangsflokk 2 og 3 skv. b. og c. lið 1. mgr. 1.2.3. gr. Hvorug framkvæmdin geri það enda um að ræða húsnæði þar sem fólk hafi varanlega búsetu. Auk þess hafi breytingarnar veruleg skipulagsleg áhrif og grenndaráhrif á sameigendur húss og nágranna sem skipulags- og byggingaryfirvöld þurfi að meta og meðeigendur að samþykkja.

 Sveitarfélagið mótmæli því að húsnæðið hafi verið í því ástandi sem það sé nú þegar kærandi keypti það. Framkvæmdir hafi m.a. staðið yfir við breytingar á fyrstu hæð hússins þegar mál þetta hófst, sbr. bréf byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 26. febrúar og 12. apríl 2019. Það hafi þó að mati sveitarfélagsins ekki grundvallarþýðingu í málinu. Skýrt sé af þeim aðal­uppdráttum hússins sem til séu að ekki séu samþykktar tvær íbúðir á fyrstu hæð hússins og bílskúrinn hafi ekki verið samþykktur sem íbúðarrými. Þá sé eignaskiptasamningur skýr um þetta og sameigendur hafi hafnað slíkri breytingu. Kröfur sveitarfélagsins séu því alveg skýrar um að lokun sem gerð var milli eldhúss og þvottahúss verði fjarlægð þannig að ekki verði um tvær íbúðir að ræða og að bílgeymslu verði breytt aftur í bílgeymslu og látið af afnotum hennar sem íverurýmis.

 Sveitarfélagið vísi að öðru leyti til fyrirliggjandi gagna og einkum til rökstuðnings sem fram komi í bréfi sveitarfélagsins frá 9. júlí 2024 þar sem ákvörðun um beitingu dagsekta sé rökstudd og tilkynnt kæranda. Málið hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt og hafi kæranda ítrekað verið veittur möguleiki til að tjá sig. Jafnframt hafi honum ítrekað verið veittur frestur til að bregðast við kröfum með því að ráðast í úrbætur, sækja um leyfi fyrir breytingunum og fá leyfi sameigenda áður en gripið yrði til þvingunarúrræða. Með því hafi kæranda verið sýnd mikil þolinmæði og viðhaft meðalhóf með því að grípa ekki til þvingunarúrræða fyrr en fullreynt væri að kærandi hygðist ekki verða við kröfum um úrbætur. Fjárhæð dagsekta sé jafnframt hógvær m.t.t. þess að kærandi hafi skipt húsnæðinu upp í þrjár íbúðir sem séu í útleigu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að sveitarfélagið hafi við meðferð málsins brotið reglur stjórnsýslulaga. Ekki hafi farið fram hlutlaus rannsókn, kærandi hafa ekki fengið að nýta andmælarétt og ekki hafi verið gætt jafnræðis eða meðalhófs. Ekki hafi verið litið til lagaskilareglna, en húsið hafi verið byggt um miðja síðustu öld. Húsnæðið sé í samræmi við aðaluppdræti frá 1953 og reglur sem þá giltu. Engin gögn séu þó til um upphaflegt skipulag innra rýmis hússins frá þeim tíma. Lagðar hafi verið inn tillögur að breytingum á húsnæðinu, en þeim hafi ekki verið tekið með jákvæðum hætti. Ekki hafi af þeim ástæðum enn verið ráðist í fyrirhugaðar framkvæmdir.

Um sé að ræða minniháttar framkvæmdir innan séreignarhluta kæranda. Um sé að ræða færslu á vaski, lokun dyra tímabundið, uppsetningu sturtu og salernis­tilfærslu, ásamt færslu eldhúss og elhúsinnréttingar. Kærandi spyr hvort honum sé ekki heimilt að búa í bílskúr eins og öðrum íbúum í sömu götu eða hvort hann sæti einelti af hálfu sveitarfélagsins og hafi takmarkaðri réttindi en aðrir íbúar. Skorað sé á sveitarfélagið að leggja fram teikningar af öllum húsum í nágrenninu þar sem búið sé í bílskúrum án þess að við það séu gerðar athugasemdir, en kærandi hafi sent sveitarfélaginu myndir af slíkum bílskúraíbúðum.

Í eignaskiptayfirlýsingu hússins hafi verið gert frávik frá samþykktum teikningum þar sem dyr hafi verið settar til að loka innskoti við inngang og anddyri í sameign. Við þetta séu samt engar athugasemdir gerðar. Þá hafi kærandi leitað til sveitarfélagsins vegna óleyfisskúrs í eigu íbúa efri hæðar sem standi á sameiginlegri lóð hússins. Enginn brunaútgangur sé á efri hæð og allt viðhald komið á tíma. Þá hafi verið settur kvistur á þak hússins í óleyfi. Byggingarfulltrúi hafi ekki tekið nokkurt tillit til þessara ábendinga en beini kröfum einungis að kæranda sem eiganda neðri hæðar. Samkvæmt þessu hljóti að vera einhver tengsl milli íbúa efri hæðar og sveitarfélagsins sem ráði aðgerðum sveitarfélagsins.

Mótmælt er staðhæfingum um að eignin hafi verið í núverandi ástandi þegar kærandi festi kaup á henni. Skorað sé á opinberan aðila að leggja fram gögn um meint ástand við kaupin og einnig gögn um upphaflegt ástand og allar breytingar síðan. Þá sé einnig skorað á sveitarfélagið að leggja fram þær reglur sem giltu um breytingar á húsnæði frá 1953. Leyfi kærandi sér að halda því fram að á þeim tíma hafi ekki þurft neitt opinbert leyfi til þess að setja upp salerni, opna eða loka dyraopum eða búa í bílskúr. Hafi sveitafélagið sönnunarbyrðina fyrir því að það hafi þurft leyfi frá upphafi til minnstu breytinga innan dyra. Hafi sveitarfélagið einnig sönnunarbyrði fyrir því ef það telji núgildandi lög séu afturvirk og hafi áhrif í máli þessu.

Svör sveitarfélagsins um að það þurfi ekki að líta til samfélagslegra áhrifa af ákvörðunum séu röng og aðfinnsluverð. Samfélagsleg áhrif séu þau að kærandi missir eign sína, margir lendi á götunni og húsið haldi áfram að drabbast niður.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér , en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga um álagningu dagsekta á kæranda að fjárhæð kr. 10.000 til að knýja fram að óleyfis­breytingar á fasteign kæranda að Suðurgötu 4, Vogum, verði fjarlægðar, breyttri notkun bílskúrs hætt og húsið fært til fyrra horfs. Kæruheimild til nefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í máli þessu er deilt um hvort þær breytingar sem gerðar hafa verið í íbúð og bílskúr neðri hæðar Suðurgötu 4 í Vogum hafi verið framkvæmdar af kæranda. Í eignaskiptayfirlýsingu frá maí 2018, sem kærandi undirritaði, er eignarhluti hans í fasteigninni skráður sem ein íbúð á fyrstu hæð og bílgeymsla. Meðal gagna þessa máls er bréf byggingar­fulltrúa sveitarfélagsins Voga til kæranda, dags. 12. apríl 2019. Þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá kæranda og því sem sést hafi við vettvangsskoðun sé búið að stúka af vestur­hluta íbúðarinnar og koma þar fyrir eldhúsaðstöðu og salerni í þeim tilgangi að skipta íbúðinni upp í tvo aðskilda hluta til útleigu. Hafi kærandi tjáð skoðunarmönnum að bílskúrinn væri þegar í útleigu og hafi við vettvangsskoðun sést að búið var að fjarlægja innkeyrsludyr og setja þess í stað vegg með glugga. Verður að áliti nefndarinnar að byggja á þessu um að kærandi hafi ráðist í þær framkvæmdir sem um er deilt og lýst er í hinni kærðu ákvörðun. Fær þetta einnig stoð í öðrum gögnum málsins, en frá árinu 2019 hefur kærandi ítrekað verið áminntur af byggingarfulltrúa vegna breytinga í íbúð og bílskúr.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að breyta mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 1. mgr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að óheimilt sé að breyta mannvirki, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Frá þessu eru undantekningar sem varða minniháttar mannvirkjagerð, sem eiga ekki við í máli þessu. Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 er síðan mælt svo fyrir að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hinn ólöglegi byggingarhluti verði fjarlægður. Byggingarfulltrúa er svo heimilt skv. 2. mgr. 56. gr. laganna að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skuli hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða láta af ólögmætu athæfi. Var hin kærða ákvörðun um álagingu dagsekta með réttu heimfærð til þessara lagaákvæða og verður að telja ákvörðun um fjárhæð dagsekta jafnframt hóflega. Verður með vísan til þessa að hafna ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir rétt að dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Sveitarfélagsins Voga frá 8. júlí 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda við fasteignina að Suðurgötu 4, Vogum.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á samkvæmt hinni kærðu ákvörðun til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.

100/2024 Njarðargata 61

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 100/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí 2024 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðar­götu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 19. september 2024, kærir A, Lokastíg 25, ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí s.á. um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðargötu. Af hálfu kæranda er þess krafist að grenndarkynnt verði í samræmi við lög og reglur. Þá er óskað eftir staðfestingu á framkvæmd grenndarkynningar skipulagsins og að kannað verði hvort unnt sé að endurskoða deiliskipulagsbreytinguna. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að jafnframt sé krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsatvik og rök: Auglýsing um hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu var birt í B-deild Stjórnar­­­tíðinda 6. júní 2024. Í henni felst breyting á byggingarreit Njarðargötu 61 svo unnt verði að byggja þrjár hæðir og ris á lóðinni með allt að átta íbúðum, byggingarmagn aukist og nýtingar­­hlutfall hækki. Kæru vegna sömu deiliskipulagsbreytingar var vísað frá úrskurðar­nefnd­inni með úrskurði í máli nr. 99/2024 hinn 18. september 2024 þar sem kærufrestur sam­kvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var talinn liðinn.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að honum hafi ekki verið tilkynnt um þá deili­skipulags­breytingu sem um er deilt í málinu, eins og lög geri þó kröfu um. Hvorki kærandi né aðrir íbúar í nærliggjandi húsum hafi fengið tilkynningu eða boð um að taka þátt í grenndarkynningu sem þó hafi verið fullyrt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma til­teknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til erindis kæranda að því er varðar beiðni um framkvæmd grenndarkynningar, staðfestingu á fyrirkomulagi hennar eða að kannað verði hvort unnt sé að endurskoða hinna umdeildu deiliskipulagsbreytingu. Verður sá hluti málsins framsendur Reykja­víkur­borg til afgreiðslu í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. september s.á. og var kærufrestur þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kæru­máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undan­tekningar­ákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

99/2024 Skólavörðustígur

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 18. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 99/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí 2024 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðar­götu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 13. september 2024 kærir A, afsalshafi íbúðar, F2006107, í tvíbýlishúsi því er stendur á lóð nr. 44A við Skólavörðustíg, ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí s.á. um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðargötu. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Auglýsing um hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu var birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 6. júní 2024. Í henni felst breyting á byggingarreit Njarðargötu 61 svo unnt verði að byggja þrjár hæðir og ris á lóðinni með allt að átta íbúðum, byggingarmagn aukist og nýtingar­hlutfall hækki. Var tillaga að breytingunni grenndarkynnt fyrir kæranda skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með bréfi, dags. 12. apríl s.á., sem sent var á lögheimili hans og frestur til að koma framfæri athugasemdum veittur til 22. maí s.á.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann sé með skráð tímabundið aðsetur erlendis en haldi þó lögheimili á Íslandi skv. reglugerð nr. 648/1995 um réttindi og skyldur manna sem dveljast erlendis við nám. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafi verið „kynnt“ fyrir honum með einu bréfi sem ekki liggi fyrir að hafi borist á lögheimili hans. Önnur tilkynning hafi ekki borist, hvorki rafrænt né með öðrum leiðum. Kærandi hafi nú selt íbúð sína og séu kaupendur ósáttir við að hafa ekki verið upplýstir um þær framkvæmdir sem áformaðar séu.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. september s.á. og var kærufrestur þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undan­tekningar­ákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

96/2024 Laugavegur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 10. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 96/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 4. júlí 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. september 2024, er barst nefndinni 6. s.m., kærir húsfélag Laugavegs 3 þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 4. júlí 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 4. maí 2023 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg. Fólst breytingin í því að fella úr gildi heimild til að rífa steinhús á bakhluta lóðar, Laugavegur 1A, ásamt því að færa leyfilegt byggingarmagn til. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. apríl 2024 var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu á fundi 11. apríl 2024. Tillagan var auglýst 25. s.m. með athugasemdafresti til 11. júní s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá félagsmeðlimum kæranda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júlí 2024 var breytingartillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa sem og með vísan til a-liðar 2. gr. viðauka 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkur.

Kærandi tekur fram að ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra athugasemda sem gerðar hafi verið á kynningartíma þrátt fyrir að þær hafi verið rökstuddar ítarlega. Deiliskipulagsbreytingin muni hafa í för með sér gífurlegt rask og trufla alla starfsemi í nálægu umhverfi. Sé þess krafist að við framkvæmdir verði tryggt að öll umgengni og umferð vegna framkvæmdanna verði um lóð Laugavegar 1 en verði hvorki beint um sund í húsinu að Laugavegi 3 né um baklóð lóðarinnar. Brot á klöpp, steypuvinna og aðfangaflutningar verði einungis heimilað á milli kl. 07:00 og 11:00. Jafnframt verði framkvæmdaáætlun kynnt fyrir eigendum Laugavegar 3 sem skuli fela í sér verulega háar dagsektir til að tryggja að framkvæmdum verði hraðað. Einnig að byggingarleyfishafa verði gert að leggja fram tryggingu til eigenda Laugavegs 3 fyrir öllu hugsanlegu tjóni sem framkvæmdin kunni að valda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Jafnframt skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum hefur hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

91/2024 Birkihvammur

Með

Árið 2024, mánudaginn 9. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 91/2024, kæra á ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 Kópavogi og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi matshluta 0101 og 0102 í fasteigninni Birkihvammi 9, þá ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 að samþykkja umsókn eigenda matshluta 0103 um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að gera breytingar á innra skipulagi 3. hæðar hússins á lóð nr. 9 við Birkihvamm. Í umsókninni var því lýst að sótt væri um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi, þ.e. færa til herbergi og rífa niður vegg. Einnig væri sótt um lítilsháttar breytingu á neysluvatns- og hitalögnum. Áritaði byggingarfulltrúa framlagða uppdrætti til samþykktar. Hinn 7. ágúst s.á. gaf byggingarfulltrúa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.

Af hálfu kæranda er á því byggt að samþykki hans á grundvelli fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 hafi þurft fyrir hinni umdeildu framkvæmd. Burðarveggir séu séreign fjöleignarhúss, sbr. 3. tl. 5. gr. laganna, og ef átt sé við burðarvirki þurfi samþykki allra eigenda, sbr. 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. 30. gr, 31. gr. og 36. gr. laganna. Með vísan til sömu ákvæða þurfi einnig samþykki kæranda fyrir tilfærslu á herbergjum og breytingum á neysluvatns- og hitalögnum. Í bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 27. janúar 0224, hafi embættið bent á að samþykki kæranda þurfi fyrir framkvæmdunum. Hið kærða byggingarleyfi sé því ólögmætt.

Leyfishafi bendir á að kæra hafi borist eftir að kærufrestur hafi verið liðinn og því beri að vísa henni frá. Það sé meginregla í stjórnsýslurétti að kæra frestar ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögunum segi að líta verði m.a. til þess hvort líkur séu til þess að kærðri ákvörðun verði breytt efnislega. Í ljósi þess að kæra sé of seint fram komin, hin kærða ákvörðun sé byggð á efnislegum grundvelli og þegar horft sé til fyrri úrskurðar nefndarinnar, þá séu yfirgnæfandi líkur til þess að hinni kærðu ákvörðun verði ekki breytt. Mörgum verkþáttum sé þegar lokið og því sé vandséð hvernig krafa kæranda uppfylli þau skilyrði 5. gr. laga nr. 130/2011 að framkvæmdir séu yfirvofandi eða hafnar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar breytingu á innra fyrirkomulagi hússins að Birkihvammi 9 í Kópavogi. Að virtum framangreindum lagaákvæðum, þeim sjónarmiðum sem liggja þeim að baki og að um er að ræða afturkræfa framkvæmd sem mun að mestu vera lokið, verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að leyfishafi ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi Birkihvamms 9 Kópavogi.

64/2024 Iðndalur

Með

Árið 2024, föstudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður

Fyrir var tekið mál nr. 64/2024, kæra á ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 23. maí 2024 um að hefja hreinsun lóðarinnar Iðndals 23, Vogum, á kostnað eiganda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 14. júní 2024, kærir Iðndalur 23 ehf., ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 23. maí 2024 um að hefja hreinsun á hluta lóðar sem fylgja eignahlutum 01 0103 og 01 0104 að Iðndal 23, Vogum, á kostnað eiganda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er þess jafnframt krafist að starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sendi bréf sín með ábyrgðarpósti og að þeir undirriti bréfin.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 12. júlí 2024.

Málavextir: Kærandi máls þessa er með atvinnustarfsemi í iðnaðarhúsnæðinu að Iðndal 23, Vogum. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, dags. 19. apríl 2024, var þeirri kröfu beint að fyrirsvarsmanni kæranda að númerslausar vinnuvélar og ökutæki á sérafnotahluta félagsins á lóðinni yrðu fjarlægð og úrgangur flokkaður og komið í löglega förgun. Undanskilin þessari hreinsun voru ökutæki, vinnuvélar og kerrur á skráningarnúmerum auk lausafjármuna með stöðuleyfi frá byggingarfulltrúa sveitarfélagsins. Veittur var fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að ljúka verkinu en tekið fram að heilbrigðiseftirlitið gæti að öðrum kosti gripið til þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Með vísan til þeirra úrræða mætti heilbrigðiseftirlitið hlutast til um hreinsun lóðarinnar og kostnaður sem félli þannig til væri tryggður með lögveði í eignarhluta félagsins í lóðinni. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hinn 22. maí 2024 fór heilbrigðiseftirlitið í vettvangsferð að Iðndal 23 og var niðurstaðan sú að lokinni skoðun að úrbætur væru ekki fullnægjandi. Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 23. s.m., var krafa um hreinsun lóðarinnar ítrekuð og gefinn tveggja vikna lokafrestur til að ljúka hreinsun. Sama dag var málið tekið fyrir á fundi Heilbrigðisnefndar Suðurnesja þar sem tekin var ákvörðun um að heilbrigðiseftirlitinu yrði falin hreinsun lóðarinnar að loknum þeim lokafresti sem veittur hafði verið. Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi dags. 28. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst ekki hafa móttekið þau bréf sem Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi sent en ekkert þeirra hafi verið sent í ábyrgðarpósti og því sé algerlega ósannað hvaða dag þau hafi borist. Iðndalur 23 ehf. hafi frá árinu 2012 haft allar tekjur af útleigu tækja og þjónustu tengdri byggingariðnaðinum. Ekki fáist skilið hvers vegna Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja telji sjónmengun stafa af starfseminni. Númerslausir bílar sem standi á lóðinni fái skráningarnúmer þegar þeir séu í útleigu líkt því sem bílaleigur geri án afskipta heilbrigðiseftirlitsins. Staflar af byggingarefni á lóðinni hafi aflagast eftir veturinn en þeim verði komið í betra horf á næstunni. Byggingarfulltrúi hafi óskað eftir því við kæranda að tekið yrði til á lóðinni sem hafi verið gert.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja fari með „offorsi“ gegn kæranda. Lóðin Iðndalur 23 sé skilgreind sem atvinnulóð en lóðum í kring hafi verið breytt í íbúðarlóðir. Hafi kærandi sótt um að fá lóð sinni breytt í lóð undir íbúðarhúsnæði til þess að breyta rekstri í útleigu leiguíbúða en því hafi í tvígang verið hafnað af skipulagsnefnd. Þetta „upphlaup“ yfir byggingarefni á lóðinni sé óskiljanlegt en til standi að nota það í byggingu húss á lóðinni þegar leyfi fáist. Veður á svæðinu sé slæmt á veturna en hingað til hafi ekkert fokið af lóðinni né skaði hlotist af starfseminni.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að heimild heilbrigðisnefndar til beitingar þvingunarúrræða byggist á XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í nefndum lögum, reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerð nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs sé heimild til að krefjast lóðarhreinsunar. Um þvingunarúrræði vísist til reglugerðar nr. 941/2002 og um stofnun lögveðs í fasteign vegna kostnaðar við hreinsun sé vísað til laga nr. 7/1998.

Kæranda hafi verið ritað bréf, dags. 23. maí 2024, þar sem bent hafi verið á niðurstöðu vettvangsferðar sem farin hafði verið 22. s.m. en að mati embættisins hafi úrbætur ekki verið fullnægjandi. Engin viðbrögð hafi borist við því erindi. Sama dag og bréfið var sent hafi Heilbrigðisnefnd Suðurnesja komið saman og tekið ákvörðun um hreinsun lóðarinnar að loknum þeim lokafresti sem gefinn hafi verið í bréfinu. Hafi kæranda verið sent annað bréf um þá ákvörðun dags. 28. s.m. Tölvupóstur hafi þá borist frá kæranda 3. júní s.á. og var þeim pósti svarað degi síðar og óskað eftir að fyrirsvarsmaður kæranda legði fram skriflegt umboð til að fara með málefni Iðndals 23 ehf.

Vettvangsferð að Iðndal 23 hafi verið farin 9. júlí 2024 og lóðin skoðuð. Hafi fyrirsvarsmaður kæranda þá komið á vettvang og rætt við starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins. Á þeim hluta lóðarinnar sem tilheyri Iðndal 23 ehf. hafi verið sex númerslaus ökutæki sem fyrirsvarsmaður kæranda kvaðst munu fjarlægja af lóðinni. Rituð hafi verið skýrsla um vettvangsferðina, dags. 11. júlí 2024. Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki hlutast til um gáma á lóðinni, enda hlutverk byggingarfulltrúa.

Bent sé á að bréf, dags. 19. apríl 2024 sem og bréf dags. 23. og 28. maí s.á., hafi verið send með almennum pósti á skráðan fyrirsvarsmann kæranda samkvæmt fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Af framkominni kæru sé augljóst að a.m.k. síðastnefnda bréfið hafi borist honum. Telji heilbrigðiseftirlitið því að rétt hafi verið staðið að tilkynningum um málsmeðferðina.

Í kæru sé því haldið fram að rekin sé útleiga bíla að Iðndal 23 án frekari rökstuðnings eða gagna, en slíkur rekstur sé starfsleyfisskyldur hjá Samgöngustofu. Þá hafi það enga þýðingu við úrlausn málsins þótt rusl og úrgangur á lóðinni sé í eigu fleiri leigutaka en kæranda, enda hafi leigusali úrræði til að taka á því. Allt frá árinu 2014 hafi heilbrigðiseftirlitið haft uppi kröfur á félagið um hreinsun lóðarinnar og til að mynda hafi verið gerð samskonar krafa um hreinsun lóðarinnar árið 2021. Í ljósi þeirra athugasemda sem heilbrigðiseftirlitið hafi beint til kæranda á undanförnum árum ætti fyrirsvarsmönnum þess að vera fullljóst hvaða reglur gildi um meðferð úrgangs og hvernig þeim sé fylgt eftir.

Þá sé það ekki stutt neinum gögnum að númerslausir bílar á lóðinni séu nýttir til útleigu. Séu umrædd ökutæki sannanlega númerslaus og illa útlítandi auk þess sem frá mörgum þeirra hafi sýnilega lekið olía í jarðveg. Þá séu glerbrot frá bílrúðum einnig sýnileg í jarðvegi. Sé því mat heilbrigðiseftirlitsins að umgengni um lóðina Iðndal 23 sé slík að henni fylgi hætta á mengun, slysum og að rusl og úrgangur sé til lýta.

Samkvæmt framangreindu telji heilbrigðiseftirlitið að ákvörðunin hafi verið innan valdheimilda þess og framkvæmd hennar farið að gildandi lögum og reglugerðum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sendi bréf sín undirrituð og með ábyrgðarpósti heldur einungis til lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Suðurnesja um að hefja hreinsun á eignarhlutum 01 0103 og 01 0104 lóðarinnar Iðndal 23, Vogum, á kostnað eiganda, sem tryggður er með lögveði í viðkomandi eignarhlutum félagsins skv. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Við töku ákvörðunarinnar var vísað til laga nr. 7/1998, reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs.

Heilbrigðisnefndir starfa samkvæmt lögum nr. 7/1998. Samkvæmt 47. gr. laganna ber heilbrigðisnefnd að sjá um að ákvæðum laganna sé framfylgt sem og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á.

Bréf heilbrigðiseftirlitsins voru send á lögheimili skráðs fyrirsvarsmanns Iðndals 23 ehf. Skráður fyrirsvarsmaður félagsins er dóttir þess manns er fer með daglega stjórn kæranda. Sá maður kemur fram fyrir hönd félagsins gagnvart úrskurðarnefndinni í máli þessu. Hann kveðst ekki hafa haft vitneskju um bréfin sem dagsett eru 19. apríl 2024, 23. og 28. maí s.á. Samkvæmt gögnum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja barst eftirlitinu tölvupóstur frá greindum aðila 3. júní 2024 þar sem hann kveðst hafa fengið tvö bréf í hendurnar þann sama dag og var þar komið að athugasemdum varðandi fyrirhugaða hreinsun lóðarinnar. Verður litið svo á að þá þegar hafi honum verið ljóst að stjórnvaldið væri með mál varðandi hreinsun umræddrar lóðar til meðferðar. Hefði honum því verið í lófa lagið og rétt að fylgjast með þeim bréfum sem bárust á heimilisfang kæranda. Í umræddum bréfum voru leiðbeiningar um kærufrest og kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar skv. 65. gr. laga nr. 7/1998 en kæra til nefndarinnar barst innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður því litið svo á að kærandi hafi átt þess kost að koma að andmælum skv. 13. og 14. gr. laga nr. 37/1993 og bregðast við tilkynningunum. Er einnig til þess að líta að kæranda hefur gefist færi á að koma að sjónarmiðum sínum við meðferð þessa kærumáls.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. þágildandi reglugerðar nr. 941/2002 var eiganda eða umráðamanni lóða skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum, þannig að ekki valdi öðrum ónæði. Í 1. mgr. 20. gr. sömu reglugerðar kom fram að bannað væri að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Í 14. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs er fjallað um almennan þrifnað utanhúss. Þar kemur fram að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Sé það hlutverk heilbrigðisnefnda að annast eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Í því skyni er heilbrigðisnefndum veitt heimild til að krefjast aðgerða og úrræða sé kröfum ekki fylgt eftir, m.a. að krefjast aðgerða ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða sé ástand lóðar til lýta fyrir umhverfið sbr. a–lið, fyrirskipa hreinsun lóða sbr. b–lið, sem og láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun sbr. c–lið. Þá er heilbrigðisnefnd einnig veitt heimild með d–lið greinarinnar til að hreinsa einkalóðir á kostnað eiganda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu.

Kærandi er einn af tveimur leigutökum lóðarinnar og eigandi hluta 01 0103 og 01 0104 í fasteigninni. Hann hefur því sérafnotarétt af þeim hlutum lóðarinnar sem ákvörðun um hreinsun beinist að og ber honum skylda til að halda lóðinni hreinni og snyrtilegri, sbr. 18. gr. þágildandi reglugerðar nr. 942/2002 og 14. gr. reglugerðar nr. 803/2023. Í bréfum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja kemur meðal annars fram að umgengni um lóðina sé slík að henni fylgi hætta á mengun og slysum. Númerslaus ökutæki standi á lóðinni ásamt öðrum úrgangi sem sé til lýta fyrir umhverfið. Með bréfunum fylgdu myndir sem styðja þessar staðhæfingar og gerir úrskurðarnefndin að því virtu ekki athugasemdir við það mat heilbrigðiseftirlitsins eða hina kærðu ákvörðun.

Að framangreindu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 23. maí 2024 um að hefja hreinsun lóðarinnar Iðndals 23, Vogum.

67/2024 Þúfa

Með

Árið 2024, föstudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2024, kæra á ákvörðun Kjósarhrepps frá 5. júní 2024 um að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu gjalda vegna grenndarstöðva og á grunngjaldi vegna óbyggðra lóða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2024, er barst nefndinni 25. s.m. kærir Gamlibær ehf. þá ákvörðun Kjósarhrepps frá 5. júní 2024 að hafna kröfu um niðurfellingu gjalda vegna grenndarstöðva og á grunngjaldi vegna óbyggðra lóða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Kjósarhreppi 29. júlí 2024.

Málavextir: Kærandi í máli þessu er eigandi 17 lóða og sex orlofshúsa í Þúfu í Kjósarhreppi. Með erindi, dags. 25. maí 2024, óskaði kærandi eftir því við sveitarstjórn Kjósarhrepps að gjald sem innheimt hefði verið vegna reksturs grenndarstöðvar yrði endurgreitt og fellt niður hvað varði orlofssvæði Þúfu. Þá óskaði hann jafnframt eftir því að grunngjald sem lagt hefði verið á óbyggðar lóðir yrði endurgreitt og fellt niður. Vísaði kærandi til þess að greitt væri gjald fyrir sex orlofshús vegna reksturs grenndarstöðvar sem ekki væri til staðar í næsta nágrenni. Greidd væru fasteignagjöld af sex orlofshúsum og svokallað grunngjald af 17 óbyggðum lóðum.

Á fundi sveitarstjórnar 5. júní 2024 var erindi kæranda tekið fyrir. Í bókun fundarins kom meðal annars fram að Kjósin væri dreifbýli og því væri ekki hægt að gera sömu kröfur um nálægð grenndargáma eins og um þéttbýli væri að ræða. Óbyggðar lóðir í sveitarfélaginu væru margar og þjónuðu misjöfnum tilgangi. Taldi sveitarstjórn ekki  tilefni til að fella niður framangreind gjöld og var kæranda tilkynnt um þessa niðurstöðu sveitarstjórnar með tölvupósti 12. júní 2024.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að grenndargámar á svæðinu hafi verið fjarlægðir af sveitarfélaginu. Þrátt fyrir brotthvarf þeirra hafi gjald að fjárhæð 24.000 kr. áfram verið lagt á lóðirnar vegna reksturs grenndarstöðva. Að auki innheimti sveitarfélagið 25.000 kr. á hvert orlofshús vegna reksturs móttökustöðvar sorps sem staðsett sé við Meðalfell. Grunngjald vegna óbyggðra lóða sé 7.000 kr. vegna reksturs sveitarfélagsins á sorphirðu. Auk þessara gjalda séu innheimt fasteignagjöld sem lögð séu á orlofshús og óbyggðar lóðir ásamt rotþróargjöldum.

Kærandi sé með lögheimili í Reykjavík og greiði sín gjöld til Reykjavíkurborgar þar sem það sæki sína þjónustu. Kærandi hafi nýtt sorptunnur neðan við Eyrarfjallsveg á meðan þær voru til staðar en eftir að þær voru fjarlægðar hentaði kæranda betur að skila sorpi til Reykjavíkur í stað þess að aka langa leið inn í Eilífsdal eða að Meðalfelli til förgunar á sorpi. Þegar um grófan úrgang sé að ræða nýti kærandi stöku sinnum móttökustöð sorps að Meðalfelli.

Kærandi sé ósáttur við að þurfa að greiða gjöld sem hann nýti ekki. Honum sé mismunað í samanburði við íbúa í Kjósarhreppi sem hafi þar lögheimili  og geti þar með nýtt sér þau réttindi og þjónustu sem íbúum sveitarfélagsins standi til boða. Þó kærandi hafi aðgengi að móttökustöðvum sorps sé það „út í hött“ að tekið sé sérstakt gjald fyrir rekstur grenndarstöðvar sem hafi verið aflögð. Opnunartímar fyrir móttöku sorps sé á miðvikudögum, laugardögum og sunnudögum frá kl. 13:00 til kl. 16:00 eða samtals níu klukkustundir á viku. Þau gjöld sem séu innheimt réttlætist því ekki af kostnaði við sorphirðu í Kjósarhreppi.

Málsrök Kjósarhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er byggt á því að álagning sorpgjalda sem lögð séu á orlofshús og óbyggðar lóðir í eigu félags kæranda eigi sér skýra stoð í lögum og reglum sem um sveitarfélagið gilda. Sveitarstjórn hafi lögmæltum skyldum að gegna í tengslum við sorphirðu. Söfnun og förgun úrgangs sé eitt af lögbundnum skylduverkefnum sveitarfélaga og feli rekstur sorpstöðva í sér grunnþjónustu sem sveitarfélög veiti eigendum innan þeirra. Sveitarfélögum sé því heimilt að innheimta gjald af fasteignaeigendum vegna kostnaðar við veitingu þjónustunnar.

Í sveitarfélaginu séu fjórar grenndarstöðvar þar sem fasteignareigendur geti skilað sorpi. Grenndarstöðvunum sé dreift um sveitarfélagið þannig að sem flestir fasteignareigendur þurfi ekki að fara langan veg til þess að losa sig við sorp. Kjósarhreppur sé dreifbýli og því ekki hægt að gera sömu kröfur um nálægð eins og í þéttbýli. Grenndarstöðvarnar séu opnar allan sólarhringinn, alla daga, en móttökustöðin að Hurðarbaksholti sé opin laugardaga, sunnudaga og miðvikudaga, fjórar klukkustundir í senn. Sú þjónusta sem sveitarfélagið veiti sé því meiri en kærandi haldi fram. Grenndar- og móttökustöðvarnar séu staðsettar í grennd við orlofshús og lóðir kæranda og hafi hann góðan aðgang að þeim.

Samkvæmt 3. gr. samþykktar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins frá 2. maí 2024 um meðhöndlun úrgangs í Kjósarhreppi beri Kjósarhreppur ábyrgð á meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu og sér til þess að rekin sé söfnunarstöð og grenndarstöðvar fyrir úrgang samkvæmt lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 11. gr. samþykktarinnar innheimti sveitarstjórn gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 23. gr. laga nr. 55/2003. Gjaldið skuli lagt á hverja fasteign, frístundahús, lögbýli, rekstraraðila og óbyggða lóð sem njóti þjónustu samkvæmt samþykktinni. Þá segi í 4. mgr. 11. gr. að gjaldið skuli ákvarðað og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett sé á grundvelli 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998.

Í 3. gr. gjaldskrár um meðhöndlun úrgangs í Kjósarhreppi sé kveðið á um gjöld sem sveitarfélagið innheimti fyrir fastan kostnað, rekstur grenndar- og söfnunarstöðva og meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu. Þar komi fram að 24.000 kr. gjald sé innheimt á hvert frístundahús vegna reksturs grenndarstöðva. Fái eigendur slíkra húsa aðgang að sorpstöðvum í sveitarfélaginu þar sem þeir geti skilað sorpi sem safnast í húsinu. Fáir eigi lögheimili í íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu en áætlað er að búið sé í um 200 frístundahúsum allt árið. Megnið af úrgangi í sveitarfélaginu komi til vegna frístundahúsa sem séu um 600 talsins. Eigendur frístundahúsa skili sorpi sínu á grenndarstöðvar sem sveitarfélagið starfræki svo og á móttökustöðina að Hurðabaksholti. Kostnaður sveitarfélagsins af rekstri grenndarstöðva sé því verulegur. Fjárhæð gjaldanna sem innheimt séu á hvert frístundahús sé ákveðin með það að markmiði að innheimt gjöld samsvari sem næst raunkostnaði af rekstri grenndarstöðva.

Sveitarfélagið innheimti 7.000 kr. gjald af hverri óbyggðri lóð vegna þjónustu við meðhöndlun úrgangs sem kann að falla til á slíkum lóðum, óháð nýtingu þeirra. Allir eigendur óbyggðra lóða hafi aðgang að grenndarstöðvum og söfnunarstöð sveitarfélagsins. Ómögulegt sé að reikna út með nákvæmum hætti í hvaða mæli sorpþjónusta sveitarfélagsins sé nýtt af hverjum og einum eiganda óbyggðrar lóðar. Grunngjaldið sé hóflegt og sé fjárhæð þess ákveðin með það fyrir augum að hún samsvari raunkostnaði við meðhöndlun úrgangs sem almennt fellur til á óbyggðum lóðum innan sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003.

Fjárhæð gjalda sem lögð séu á eigendur fasteigna í sveitarfélaginu séu eingöngu nýtt af sveitarfélaginu til að mæta kostnaði sem hlýst af þjónustu við meðhöndlun úrgangs sem sveitafélaginu sé lögum samkvæmt skylt að veita. Eigi það einnig við um þau gjöld sem lögð séu á kæranda vegna orlofshúsa og óbyggðra lóða. Ómögulegt væri fyrir sveitarfélagið að innheimta lægri gjöld en nú sé gert enda myndu gjöldin ekki standa undir kostnaði við veitingu þjónustunnar. Síðastliðin tvö ár hafi þjónusta sveitarfélagsins verið rekin með umtalsverðum halla og nemi sorpgjöld á frístundahús og óbyggðar lóðir lægri fjárhæð en áætlaður kostnaður af sorphirðu fyrir slíkar fasteignir. Þó kærandi kjósi að skila sínu sorpi í grenndargáma breyti það því ekki að hann njóti þeirrar þjónustu við sorphirðu sem Kjósarhreppur bjóði upp á. Þá skipti það engu máli að félag kæranda sé skráð með lögheimili í Reykjavík og njóti þjónustu þar. Þjónusta sveitarfélagsins hvað varði meðhöndlun úrgangs sé eftir sem áður veitt þeim sem eigi fasteignir í viðkomandi sveitarfélagi.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Kjósarhrepps frá 5. júní 2024 að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu gjalda vegna grenndarstöðva og grunngjalds á óbyggðar lóðir.

 Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar setur sveitarstjórn sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þar er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði.

Þessi fyrirmæli taka mið af því að meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Í gildi er samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Kjósarhreppi nr. 570/2024. Samkvæmt 3. gr. hennar ber Kjósarhreppur ábyrgð á meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu og sér til þess að rekin sé söfnunarstöð og grenndarstöðvar fyrir úrgang samkvæmt lögum nr. 55/2003 og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum. Í 5. gr. samþykktarinnar kemur fram að húsráðanda frístundahúss sé skylt að flokka þann úrgang sem til fellur í samræmi við samþykktina. Þá sé það á ábyrgð húsráðanda að skila úrgangi á grenndarstöð eða söfnunarstöð sveitarfélagsins eftir því sem við á. Í 8. gr. er fjallað um skyldur húsráðenda og landeigenda í sveitarfélaginu til þess að fara eftir þeim reglum sem sveitarfélagið setur um meðhöndlun úrgangs. Sérhverjum fasteignareiganda eða umráðamanni í sveitarfélaginu sé skylt að nota þau ílát og þær aðferðir sem sveitarstjórn ákveður.

Samkvæmt 2. mgr. 23. laga nr. 55/2003 skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Tekið er fram að skylt sé að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Þó er heimilt að færa innheimtu gjalda að nokkru á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að markmiðum laganna auk þess að heimilt er að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélags. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar skal birta slíka gjaldskrá í B–deild Stjórnartíðinda.

Á fundi sveitarstjórnar Kjósarhrepps 7. febrúar 2024 var gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs í Kjósarhreppi lögð fram til staðfestingar og hún samþykkt samhljóða. Í 6. gr. gjaldskrárinnar er mælt fyrir um grunngjald á óbyggðar lóðir að fjárhæð 7.000 kr. Gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs í Kjósarhreppi nr. 230/2024 var birt til samræmis við 4. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 í B–deild Stjórnartíðinda 27. febrúar 2024. Í hinni birtu gjaldskrá er hins vegar ekki að finna ákvæði er varðar innheimtu grunngjalds á óbyggðar lóðir. Virðist því sem ákvæðið hafi verið fellt úr gjaldskránni fyrir opinbera birtingu hennar í B–deild Stjórnartíðinda. Umdeild gjaldtaka sveitarfélagsins á óbyggðar lóðir á sér því ekki stoð í hinni birtu gjaldskrá.

Í 3. gr. gjaldskrárinnar nr. 230/2024 er mælt fyrir um gjald vegna reksturs grenndar- og söfnunarstöðva. Í sömu grein kemur fram að innheimt skuli 24.000 kr. gjald á frístundahúsnæði fyrir rekstur grenndarstöðva. Þegar um svokölluð þjónustugjöld er að ræða gilda ýmis sjónarmið um álagningu þeirra, m.a. að beint samhengi sé á milli fjárhæðar gjaldsins og þess kostnaðar sem til fellur við það að veita þjónustuna. Fjárhæðin verður einnig að byggjast á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum tekur umdeilt gjald vegna reksturs grenndarstöðva mið af áætluðum kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu í samræmi við áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um að álögð gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður af rekstri þjónustunnar. Þá er og ljóst að sveitarfélagið hefur samkvæmt heimild í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 valið að fara þá leið að jafna kostnaði vegna reksturs grenndarstöðva með því að innheimta fast gjald á hvert frístundahús.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi að því er varðar grunngjald vegna óbyggðra lóða. Að öðru leyti stendur ákvörðunin óröskuð.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins Kjósarhrepps frá 5. júní 2024 um að hafna niðurfellingu grunngjalds vegna óbyggðra lóða. Að öðru leyti stendur ákvörðunin óröskuð.

45/2024 Miklabraut

Með

Árið 2024, föstudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2024 um að slökkt verði á LED-auglýsingaskilti og það fjarlægt að viðlögðum dagsektum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. apríl 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra Lónseyri ehf. og LED Birtingar ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2024 um að slökkt verði á LED-auglýsingaskilti á lóð nr. 101 við Miklubraut og það fjarlægt að viðlögðum dagsektum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. maí 2024.

Málavextir: Með bréfi, dags. 4. október 2022, tilkynnti eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, fyrir hönd byggingarfulltrúa, Bensínorkunni ehf. að borist hefði ábending um framkvæmdir við LED-auglýsingaskilti á vegg vetnisstöðvar á lóð nr. 101 við Miklubraut. Var í bréfinu þeim tilmælum beint til þinglýsts eiganda að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni og að slökkt yrði á skiltinu þar til slíkt leyfi hefði verið samþykkt og útgefið. Var bréfinu svarað af hálfu Orkunnar ehf. með tölvupósti 13. s.m., þar sem fram kom að ekki væri um nýtt skilti að ræða heldur uppfærslu á eldra skilti sem hefði verið á þessum stað í fleiri ár. Var Orkunni ehf. svarað 25. s.m. með tölvupósti og bent á að eldra skilti hefði ekki haft byggingarleyfi og um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Var ítrekað að sækja yrði um byggingarleyfi og gerð sú krafa að slökkt yrði á skiltinu þar til leyfi hefði verið veitt. Með tölvupósti 23. desember s.á. upplýsti Orkan ehf. um að kærandi, LED Birtingar ehf., myndi taka skjáinn niður dagana 5.-6. janúar 2023.

Með tölvupósti 23. janúar 2024 var upplýst að í ljós hefði komið við vettvangsskoðun að búið væri að kveikja á umræddu skilti. Málið yrði tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og uppi væru áform um álagningu dagsekta. Upplýsti Orkan ehf. með tölvupósti samdægurs að ítrekað yrði við LED Birtingar ehf. að taka skiltið niður. Með tölvupósti 30. janúar 2024 voru kröfur byggingarfulltrúa ítrekaðar og tilkynnt að áformað væri að leggja á dagsektir og ítrekuð krafa um að slökkt yrði á skiltinu og það fjarlægt.

Reykjavíkurborg barst fyrirspurn frá Vegagerðinni með tölvupósti 9. febrúar 2024 þar sem óskað var upplýsinga um hvort umrætt skilti hefði verið sett upp með leyfi Reykjavíkurborgar. Skiltið væri staðsett við ein slysahæstu gatnamót landsins og var lýst yfir áhyggjum af áhrifum þess á umferðaröryggi.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. febrúar s.á., til Orkunnar ehf. var vísað til fyrri samskipta vegna umrædds LED-skiltis. Var gefinn 30 daga frestur til að fjarlægja skiltið ella yrðu lagðar á dagsektir að fjárhæð kr. 150.000 fyrir hvern dag sem drægist að ljúka verkinu, sbr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Var einnig gerð krafa um að slökkt yrði á skiltinu án tafar.

LED Birtingar ehf. svaraði bréfi byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 26. febrúar s.á., þar sem bent var á að í lok árs 2021 hefði Kaldalón ehf. keypt lóð nr. 101 við Miklubraut af Skeljungi ehf. en Orkan ehf. væri í fullri eigu Skeljungs. Við kaupin hefði verið gerður langtíma­leigusamningur milli kaupanda lóðarinnar og Orkunnar ehf. um afnot af lóðinni. Í kjölfar kaupanna hefði LED Birtingar ehf. leigt vegg á lóðinni og sett þar upp umrætt LED-skilti. Skráður eigandi lóðarinnar væri Lónseyri ehf., dótturfélag Kaldalóns ehf. Það væri á ábyrgð lóðareiganda að sækja um byggingarleyfi fyrir mannvirkjum ella þyrfti skriflegt umboð lóðareiganda fyrir slíkri umsókn. Orkan ehf. væri hvorki lóðareigandi né eigandi skiltisins og því væri málið Orkunni ehf. óviðkomandi. Hefði bréf byggingarfulltrúa með réttu átt að beinast að LED Birtingum ehf. sem eiganda og rekstraraðila skiltisins og/eða lóðareiganda. Var gerð krafa um að byggingarfulltrúi tæki áform um álagningu dagsekta gagnvart Orkunni til nýrrar meðferðar, meðal annars með vísan til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þeirrar staðreyndar að önnur svipuð auglýsingaskilti fengju að standa athugasemdalaust víða um borgina án byggingarleyfis.

Byggingarfulltrúi sendi Lónseyri ehf. bréf, dags. 8. mars 2024, þar sem upplýst var að umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefði haft til skoðunar stafrænt auglýsinga­skilti á lóð nr. 101 við Miklubraut sem ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir. Veittur var 30 daga frestur frá móttöku bréfsins til að fjarlægja umrætt skilti en jafnframt gerð sú krafa að slökkt yrði á skiltinu án tafar. Yrði ekki orðið við kröfum innan setts tímafrests áformaði byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir kr. 150.000 fyrir hvern þann dag sem það kynni að dragast að ljúka verkinu. Byggingarfulltrúi byggði þessar kröfur á heimild í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 og gr. 2.9.1. byggingarreglugerðar og áform um dagsektir á 2. og 4. mgr. 56. gr. laganna og gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar. Með tölvupósti 26. mars 2024 óskaði Lónseyri ehf. eftir fresti til að leggja fram andmæli og var veittur frestur til 8. apríl s.á. Lónseyri ehf. og LED Birtingar ehf. mótmæltu áformum byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 8. apríl 2024, og lögðu sameiginlega fram kæru í máli þessu.

Málsrök kærenda: Bent er á að byggingarfulltrúi sé ekki að beina kröfum sínum að réttum aðila, þ.e. Lónseyri ehf. sem eiganda lóðarinnar sem umrætt auglýsingaskilti standi á. Hvorki í lögum nr. 160/2010 um mannvirki né í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé kveðið á um hver það sé sem eigi að sækja um byggingarleyfi fyrir skiltum. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar sé einungis kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem séu yfir 1,5 m2. Í 3. mgr. komi fram að umsækjandi skuli senda skriflega umsókn ásamt tilheyrandi gögnum til leyfisveitanda. Í gr. 2.5.2. reglugerðarinnar komi fram að eigandi skiltisins beri ábyrgð á öryggiskröfum sem kveðið sé á um í sama ákvæði. Af þessu leiði að lóðareigandi beri ekki skyldu til að sækja um byggingarleyfi og því beri Reykjavíkurborg að beina kröfum sínum að LED Birtingu ehf. sem sé eigandi skiltisins. Það geti ekki staðist að Reykjavíkurborg geti krafist þess að lóðareigandi fjarlægi eða slökkvi á skilti sem standi á lóð hans en hann hafi engin umráð yfir og því beri að fella ákvörðun byggingarfulltrúa úr gildi. Þegar LED Birtingar ehf. hafi leigt umræddan vegg hafi verið þar fyrir auglýsingaskilti sem hafi athugasemdalaust staðið á veggnum í áratug. LED Birtingar ehf. hafi einungis tekið niður fyrra auglýsingaskilti og sett nýtt, sömu stærðar, á sama stað. Skiltið sem nú sé á veggnum sé með lægra birtustig ásamt því að vera umhverfisvænna en fyrra skilti.

Af hálfu kæranda er vísað til samþykktar um skilti í Reykjavík sem samþykkt var á fundi borgarráðs 7. maí 2020 og birt á vef borgarinnar 11. maí s.á. Í gr. 3.6. í samþykktinni komi meðal annars fram að leyfilegt sé að setja upp nýtt stafrænt auglýsingaskilti sem sé stærra en 10 m2 ef fyrir sé sambærilegt skilti. Kærendur hafi staðið í þeirri trú að tilskilin leyfi hafi verið fyrir fyrra skilti þegar veggurinn var tekinn á leigu og sett upp nýtt skilti, enda hafi fyrra skilti staðið á veggnum árum saman án athugasemda. Horfa beri til jafnræðissjónarmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar kröfur séu lagðar á borgarana. Önnur sambærileg auglýsingaskilti fái að standa athugasemdalaust víðsvegar um borgina án byggingarleyfis, þrátt fyrir að þau séu óumdeilanlega á byggingum eða frístandandi. Það sé brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar þegar byggingarfulltrúi aðhafist ekki gagnvart öðrum en krefjist þess að kærendur slökkvi á og fjarlægi sitt skilti.

Auglýsingaskilti á strætóskýlum séu undanþegin byggingarleyfisskyldu og fjöldi slíkra skilta séu í nágrenni við hið umdeilda skilti. Þau séu sambærileg umræddu skilti sem skilti sem standi nærri vegum og rekstraraðilar þeirra séu því í beinni samkeppni við kærendur. Það skjóti skökku við að auglýsingaskilti á strætóskýlum fái að standa athugasemdalaust og án allrar aðkomu byggingarfulltrúa og veghaldara líkt og Vegagerðarinnar, sbr. 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Þetta sé sérstaklega einkennilegt þar sem Strætó bs. sé í eigu sveitarfélaganna, þar á meðal Reykjavíkurborgar, sem hafi nú farið fram á að kærendur fjarlægi og slökkvi á sínu skilti að viðlögðum dagsektum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að kröfu um að skilti á lóð nr. 101 við Miklubraut skyldi fjarlægt hafi verið beint að Lónseyri ehf. sem þinglýstum eiganda allra mannvirkja sem á lóðinni standi en sem slíkur beri aðilinn ábyrgð á ásigkomulagi, frágangi, umhverfi og viðhaldi mannvirkja og lóðar. Þar sem skiltið sé á lóð og mannvirki sem Lónseyri ehf. beri ábyrgð á verði kröfum beint til eiganda í samræmi við 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fullyrðingar kæranda um að áður hafi verið sambærilegt skilti á sama stað í áratug standist ekki skoðun þar sem veggurinn sem skiltið standi á tilheyri vetnisstöð sem hafi verið reist árið 2019. Borgaryfirvöld hafi ekki vitneskju um hvenær eldra skilti hafi farið upp en ábendingar vegna nýja skiltisins hafi borist árið 2022.

Í kafla 4.8 samþykktar um skilti í Reykjavík komi fram að leyfilegt sé að setja upp ný stafræn auglýsingaskilti við stofn- og tengibrautir sem séu stærri en 10 m2 ef að fyrir sé sambærilegt flettiskilti eða ef deiliskipulag heimili slík skilti. Eldra skilti sem hafi verið á lóðinni milli áranna 2019–2022 hafi hvorki verið flettiskilti né hafi verið gefið út leyfi fyrir því. Deiliskipulag heimili ekki slíkt skilti á lóðinni og því eigi ákvæðið ekki við. Í næstu málsgrein í sama kafla samþykktarinnar sé kveðið á um að heimilt sé að veita ákveðnum stofnunum leyfi til að setja upp stafrænt auglýsingaskilti á standi eða vegg. Skiltin megi ekki vera hærri en 8 m og ekki stærri en 25 m2 nema annað sé heimilað í skipulagi. Stafræn auglýsingaskilti megi ekki vera nær vegbrún gatnamóta, götu eða vegvísum og öðrum umferðarbúnaði en 20 m. Umrætt skilti sé nær vegbrún götu en 20 m og gæti því haft truflandi áhrif á umferð. Þessi krafa þjóni sama markmiði og ákvæði 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Veghaldari Miklubrautar sé Vegagerðin sem hafi ekki gefið leyfi fyrir skiltinu og þá hafi Vegagerðin sett út á staðsetningu þess í febrúar 2024.

Bygging sé skilgreind í byggingarreglugerð sem hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum og önnur sambærileg mannvirki. Veggir vetnisstöðvarinnar séu óumdeilanlega mannvirki sbr. 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010. Vetnisstöðin sé byggingarleyfisskyld og hafi hlotið leyfi í nóvember 2018. Veggjum þeim sem kærandi kalli skjólveggi sé lýst í aðaluppdráttum sem samþykktir hafi verið 14. maí 2019. „Veggir og öryggishlið utan um stöðina hindra óviðkomandi aðgangi og tryggja kröfur um öryggisfjarlægðir […]“. Veggir vetnisstöðvarinnar hafi verið reistir innan byggingarreits og á grundvelli byggingarleyfis fyrir vetnisstöðina. Teljist veggirnir ekki hluti af byggingu komi til skoðunar hvort skiltið teljist frístandandi. Hugtakið sé ekki skilgreint í byggingarreglugerð en í samþykkt um skilti í Reykjavík sé það skilgreint svo: „Frístandandi skilti er þannig ekki laust eða hreyfanlegt skilti sem skilgreind eru á eftirfarandi hátt: Skilti eða auglýsing sem ekki er með varanlegum festingu við jörð eða mannvirki.“ Hið umdeilda skilti sé vissulega fest á mannvirki sem sé með varanlega tengingu við jörð. Því sé ljóst að skiltið teljist annað hvort fest á byggingu eða frístandandi og því sé um að ræða byggingarleyfisskyldu skv. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar.

Hvað jafnræði varði eigi sú ábending vissulega við rök að styðjast að víða í borginni sé að finna LED-skilti sem reist hafi verið án heimildar borgaryfirvalda og það sé verkefni sem verið sé að vinna í. Því sé þó hafnað að komið sé fram við borgarana með mismunandi hætti vegna slíkra skilta og að sambærileg tilvik fái ekki sambærilega meðferð. Þá sé það ekki réttmæt eða löggild afsökunarástæða að benda á aðra sem mögulega hafi einnig framkvæmt eitthvað sem ekki standist lög og reglur.

Ákvörðun byggingarfulltrúa að boða dagsektir byggi á 56. gr. laga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Byggingarfulltrúi hafi heimild til að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skuli hlutast til um. Það sé byggingarfulltrúa að meta það hverju sinni hvað sé eðlileg upphæð dagsekta með tilliti til aðstæðna í hverju máli. Upphæð dagsekta verði hverju sinni að vera slík að álagning þeirra skili tilætluðum árangri. Í þessu tilfelli hafi byggingarfulltrúi álitið að skiltið sem um sé deilt skapaði almannahættu vegna nálægðar við umferðarmannvirki og því væri mikilvægt að slökkt yrði á því sem fyrst og það tekið niður. Í ljósi þess að sektarþoli væri stöndugt fyrirtæki þá hafi hærri dagsektum verið beitt en ella. Hins vegar væri upphæðin fjarri hámarki og því metin hófleg.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Skírskotað sé til 3. kafla samþykktar Reykjavíkurborgar um skilti, nánar tiltekið gr. 3.6. en ekki gr. 4.8. líkt og byggt sé á í umsögn Reykjavíkurborgar. Í 3. kafla séu almenn ákvæði sem nái til allra skilta óhæð stærð, staðsetningu og tæknibúnaði. Í gr. 3.6. segi meðal annars að leyfilegt sé að setja upp ný stafræn auglýsingaskilti sem séu stærri en 10 m2 ef að fyrir sé sambærilegt skilti, svo sem flettiskilti, eða ef deiliskipulag heimili slíkt. Í þessari reglu sé kveðið skýrt á um að leyfilegt sé að setja upp nýtt skilti ef að fyrir hafi verið sambærilegt skilti og sé flettiskilti tekið fram í dæmaskyni. Túlkun Reykjavíkurborgar um að reglan geti aðeins átt við þegar flettiskilti sé skipt út fyrir stafrænt skilti sé hafnað. Reglan sé sú að ef fyrir hafi verið sambærilegt skilti þá sé heimilt að uppfæra skiltið til hins betra, t.d. hvað varði umhverfissjónarmið. Þrátt fyrir að fyrra skilti sem verið hafi á veggnum hafi ekki verið flettiskilti þá hafi það óumdeilanlega verið sambærilegt hinu nýja skilti. LED Birtingar ehf., hafi sett skiltið upp í góðri trú um að fyrra sambærilega skiltið hafi verið með tilskilin leyfi.

Í niðurlagi bæði gr. 3.6. og gr. 4.8. nefndrar samþykktar sé undantekning fá meginreglunni um að heimilt sé að setja upp stafrænt skilti ef fyrir hafi verið sambærilegt skilti og virðist Reykjavíkurborg byggja á þeirri undantekningu í umsögn sinni. Slíka undantekningu beri að túlka þröngt en um sé að ræða reglu sem kveði á um ákveðna vegalengd að vegbrún gatnamóta, götu eða vegvísum. Hvorki séu lagðar fram mælingar af hálfu Reykjavíkurborgar hvað undantekningarregluna varði né önnur gögn en tölvupóst frá starfsmanni Vegagerðarinnar. Það eitt sé ekki fullnægjandi og ákvörðunin sé byggð á ófullnægjandi og órannsökuðum forsendum. Í tölvupósti starfsmanns Vegagerðarinnar hafi komið fram að skiltið væri 270 m frá „einum slysamestu gatnamótum landsins“. Í ljósi þess að skiltið sé í um það bil 270 m fjarlægð frá aðliggjandi gatnamótum byggi kærendur á því að skiltið þurfi ekki einnig að vera í 20 m fjarlægð frá vegbrún aðliggjandi gatna enda sé reglan í samþykkt Reykjavíkurborgar sett fram til þess að vernda umferðaröryggi í kringum gatnamót. Sú vernd sjáist hvað best þegar litið sé til auglýsingaskilta sem fái að standa athugasemdalaust mun nær vegbrún en í 20 m fjarlægð, en þess virðist gætt að auglýsingaskilti strætóskýla séu í að minnsta kosti 20 m fjarlægð frá gatnamótum. Skiltið að Miklubraut 101 snúi hvorki að aðliggjandi gatnamótum né sé það staðsett svo nálægt þeim að þau hafi truflandi áhrif á umferð, enda hafi aldrei orðið slys né árekstur í námunda við skiltið svo vitað sé.

Veghaldari Miklubrautar sé Vegagerðin og það sé hennar að framfylgja vegalögum en ekki Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hafi meðal annars vísað til 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og fullyrt að reglur samþykktarinnar um fjarlægð frá gatnamótum og götum þjóni sama markmiði, en þar segi orðrétt: „Veghaldari getur synjað um leyfi eða gert kröfu um að slíkur búnaður verði fjarlægður […]“. Það sé því ekki á forræði Reykjavíkurborgar að krefjast þess að skiltið sé fjarlægt heldur Vegagerðarinnar telji hún þess þörf, en slíkt hafi ekki verið gert.

Auglýsingaskilti séu ekki byggingarleyfisskyld ef þau séu hvorki á byggingum né frístandandi sbr. 21. tl. gr. 1.2.1. byggingarreglugerðar og gr. 1.4. samþykktar Reykjavíkurborgar um skilti, líkt og eigi við í þessu tilviki. Ekkert hafi komið fram í umsögn Reykjavíkurborgar sem gefi til kynna að skiltið sé byggingarleyfisskylt. Veggurinn sem skiltið sé á sé ekki hluti af vetnisstöðinni og séu sambærilegir veggir almennt ekki byggingarleyfisskyldir og falli almennt undir gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar sem minniháttar mannvirkjagerð, undanþegna byggingarheimild og leyfi. Þá sé veggurinn ekki „sambærilegt mannvirki“ í skilningi 21. tl. gr. 1.2.1. byggingarreglugerðar enda sé um að ræða vegg en ekki hús sem alla jafna sé ætlað til daglegar dvalar og/eða svefns. Veggnum sé einungis lýst í aðaluppdráttum undir kaflanum ,,Brunavarnir“. Það sé með engu móti verið að vísa til þeirra í aðaluppdráttum sem hluta af byggingarleyfi vetnisstöðvarinnar.

Fullyrðingum um neikvæðar og alvarlegar afleiðingar sé vísað á bug, sérstaklega í ljósi reksturs auglýsingaskilta í flestum ef ekki öllum strætóskýlum borgarinnar sem og á strætisvögnum. Því sé verið að brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þá geti það ekki verið á ábyrgð kærenda ef skilgreiningar í byggingarreglugerð eða samþykktum Reykjavíkurborgar um skilti séu óljósar eða valdi vafa. Athafnafrelsi borgaranna verði ekki settar skorður nema með skýrum lögum og reglum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2024, að gera kröfu á hendur lóðarhafa Miklubrautar 101 um að slökkt verði á LED-auglýsingaskilti á lóðinni og það fjarlægt að viðlögðum dagsektum.

Lónseyri ehf. er skráður eigandi lóðar nr. 101 við Miklubraut og þeirra mannvirkja sem á lóðinni standa. Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, er kveðið á um að byggingarfulltrúi skuli gera eiganda eða umráðamanni lóðar aðvart sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu. Samkvæmt framangreindu er byggingarfulltrúa heimilt að beina kröfum sínum að eiganda jafnt sem umráðamanni lóðar. Ber lóðarhafi samkvæmt ákvæðinu ábyrgð á að uppfyllt séu skilyrði laga og reglugerðar um ásigkomulag og frágang lóðarinnar. Var byggingarfulltrúa því heimilt að beina kröfum sínum að eiganda lóðarinnar þar sem umdeilt skilti stendur.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 falla skilti undir gildissvið laganna. Í 8. tl. 1. mgr. 60. gr. laganna segir að kveða skuli á um staðsetningu, gerð og frágang skilta í reglugerð auk ákvæða um hvaða skilti skuli háð byggingarleyfi. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. í byggingarreglugerð er kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m2. Undanþegin byggingarleyfisskyldu eru þó skilti allt að 2,0 m2 að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Samkvæmt 21. tl. gr. 1.2.1. byggingar­reglugerðar teljast til bygginga „hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum og önnur sambærileg mannvirki“. Telja verður umrædda vetnisstöð til byggingar en hún er umlukt steyptum þriggja metra háum veggjum og með öryggishliði, án þaks sökum sérhæfðrar starfsemi, reist samkvæmt byggingarleyfi útgefnu 6. nóvember 2018. Þá er óumdeilt í málinu að hið umdeilda auglýsingaskilti er yfir 1,5 m2 viðmiði því er 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar tekur mið af. Er auglýsingaskiltið því byggingarleyfisskylt, sbr. áðurgreind ákvæði laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar.

Í 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 kemur fram að spjöld, auglýsingar, ljósaskilti eða sambærilegan búnað megi eigi setja á eða við veg þannig að honum sé beint að umferð nema með heimild veghaldara. Veghaldari geti synjað um leyfi eða gert kröfu um að slíkur búnaður verði fjarlægður ef hann telji hann draga úr umferðaröryggi, þar á meðal ef misskilja megi hann sem umferðarmerki, umferðarskilti eða vegmerkingu, búnaður tálmi vegsýn eða sé til þess fallinn að draga athygli vegfarandans frá vegi eða umferð.

Í 32. gr. vegalaga er fjallað um fjarlægð mannvirkja frá vegi. Þar kemur fram í 1. mgr. að ekki megi staðsetja byggingar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skurði eða önnur mannvirki, föst eða laus, nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega nema leyfi veghaldara komi til. Þá segir í 2. mgr. að óheimilt sé að reisa mannvirki nema með leyfi veg­haldara við vegamót skv. 1. mgr. á svæði sem takmarkist af beinum línum milli punkta á miðlínu vega 40 m frá skurðpunkti þeirra. Veghaldari geti ef sérstaklega standi á fært út mörk þessi allt að 150 m.

Miklabraut, sem hið umdeilda skilti er staðsett við, telst stofnvegur og er í flokki þjóðvega skv. 8. gr. vegalaga. Samkvæmt 13. gr. laganna er Vegagerðin veghaldari þjóðvega og þar með talið Miklubrautar. Er samkvæmt framangreindum ákvæðum laga óheimilt að staðsetja auglýsingaskilti við Miklubraut nema með leyfi Vegagerðarinnar. Slíkt leyfi liggur ekki fyrir í máli þessu.

Það að kærandi hafi talið að auglýsingaskilti það sem fyrir var á veggnum hafi verið þar með lögmætum hætti leiðir ekki til þess að honum sé óskylt að sækja um byggingarleyfi fyrir hinu nýja skilti, enda hefur óleyfisframkvæmd ekki fordæmisgildi. Skýrt er kveðið á um í lögum nr. 160/2010 og byggingarreglugerð að auglýsingaskilti, líkt og um ræðir í máli þessu, séu byggingarleyfisskyld.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir þó rétt að dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2024 um að slökkva á og fjarlægja LED-auglýsingaskilti að viðlögðum dagsektum.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á samkvæmt hinni kærðu ákvörðun til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.

55/2024 Sandeyri

Með

Árið 2024, föstudaginn 16. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2024, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 um að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar og tengd mannvirki í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Sandeyri, þá ákvörðun  Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 29. maí 2024.

Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa, í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en með úrskurði, uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020, var kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi. Álit Skipulagstofnunar um matsskýrsluna lá fyrir 28. janúar 2021. Taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt.

Hinn 3. nóvember 2023 sótti Arctic Sea Farm um byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf síðan út byggingarleyfi 11. apríl 2024. Í leyfinu kemur fram að byggingarfulltrúi stofnunarinnar hafi yfirfarið og staðfest aðaluppdrætti í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi það verið mat hans að önnur skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis skv. 13. gr. sömu laga væru jafnframt uppfyllt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi ítrekað andmælt sjókvíaeldi við jörð hans, sem sé einstök og ósnortin náttúruperla með viðkvæmu vistkerfi sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið heimiluð stóriðja innan netlaga jarðar hans, en skipulagsyfirvöld hafi lagt rangt mat á umfang þeirra og legu. Þá muni framkvæmdin hafa veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljós- og sjónmengunar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi vanrækt þá skyldu sína skv. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að leggja mat á óafturkræf áhrif framkvæmdarinnar á þau vistkerfi sem séu innan jarðareignar kæranda með tilheyrandi sérfræðiálitum.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin bendir á að það hafi verið mat hennar að kærðar byggingarleyfisframkvæmdir hafi verið utan netlaga jarðar kæranda og því væri hann ekki aðili að stjórnsýslumáli um byggingarleyfið. Við greiningu á því hvort umrædd mannvirki væru innan netlaga hafi stofnunin stuðst við eigin athuganir á gögnum um svæðið og samsetningu upplýsinga úr byggingarleyfisumsókn, þ.e. hnit, fjölgeislamælingu frá Landhelgisgæslu Íslands og kortagrunn frá Landmælingum Íslands. Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun jafnframt óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar um hvort byggingaráformin væru í samræmi við Strandsvæðisskipulag Vestfjarða 2022. Tekið var tillit til umhverfismats framkvæmdarinnar sem og áhættumats um siglingaöryggi. Leyfishafa hafi verið gert að afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar sem við eigi í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Það hafi leyfishafi gert og hafi verið tekið tillit til álitsins við mat á því hvort binda þyrfti byggingarleyfið frekari skilyrðum, en ekki hafi verið talin þörf á því.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi fullnægi ekki áskilnaði um kæruaðild, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og af þeim sökum beri að vísa málinu frá. Skýrlega verði ráðið af kæru að aðild hans að málinu felist eingöngu í því að umrædd framkvæmd hafi átt sér stað á eignarlandi hans, þ.e. innan netlaga jarðarinnar Sandeyri. Samkvæmt lögum nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða miðist netlög við sjávarbelti 115 m út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Ótvírætt sé að eldissvæði leyfishafa liggi mun lengra frá stórstraumsfjöruborði en 115 m. Stysta fjarlægð frá því svæði sem byggingarleyfið taki til að fasteign kæranda sé um 600 m og möguleg grenndaráhrif því óveruleg. Því til viðbótar hafi þýðingu að kærandi hafi ekki fasta búsetu á fasteigninni, en hún sé ætluð til notkunar yfir sumartímann. Að lokum liggi fyrir að leyfishafi hafi haft rekstrarleyfi á svæðinu frá árinu 2012 eða rúmum þremur árum áður en kærandi hafi eignast sína fasteign.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Landareignum sem liggja að sjó fylgja netlög en í lögum er jafnan miðað við að þau nái 60 faðma eða 115 metra frá stórstraumsfjörumáli, sbr. t.d. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Í kæru er um hagsmuni kæranda vísað til þess að eldissvæði það sem kennt er við Sandeyri sé í netlögum þeirrar jarðar. Á þetta verður ekki fallist, að virtum gögnum þessa máls, þar sem fjarlægðin er meiri en sem nemur 115 metrum. Kærandi hefur um afmörkun netlaga einnig vísað til svonefndrar dýptarreglu Jónsbókar, þ.e. fyrirmæla í 2. kap. rekabálks um einkarétt til veiði miðað við dýpt selneta. Er ekki ástæða til að fjalla nánar um þá reglu eða gildi hennar, enda er ljóst af málsgögnum að meira dýpi er við umræddar eldiskvíar en miðað er við samkvæmt reglunni. Verður því aðild kæranda ekki reist á því að sjókvíar leyfishafa séu í netlögum landareignar hans.

Kemur þá til álita hvort kærandi hafi að öðru leyti lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa kærumáls, en svo sem fyrr er rakið verður að gera þá kröfu í þeim efnum að hið kærða rekstrarleyfi raski einstaklingsbundnum hagsmunum hans og að sú skerðing sé veruleg. Af aðaluppdráttum er fylgdu byggingarleyfisumsókn leyfishafa verður ráðið að fjarlægð frá fiskeldiskvíum og tengdum mannvirkjum að húsi kæranda sé um 2 km og að fjarlægð frá kvíunum að strandlengju sé um 1 km. Þrátt fyrir að kærandi megi vænta einhverrar truflunar vegna starfseminnar verður að teknu tilliti til framangreindra fjarlægðarmarka ekki álitið að grenndarréttur kæranda sé skertur svo verulega að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

62/2024 Rofabær

Með

Árið 2024, mánudaginn 12. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna klæðningar á suðurhlið fjöleignar­hússins að Rofabæ 43–47 og fyrir breyttri gerð svalahandriða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. júní 2024, kærir eigandi/íbúi, Rofabæ 47, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna klæðningar á suðurhlið fjöleignarhússins að Rofabæ 43–47 og fyrir breyttri gerð svalahandriða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. júní 2024.

Málavextir: Húsfélag Rofabæjar 43–47 hefur í hyggju að fara í viðhaldsframkvæmdir utan-húss og liggur fyrir ástandsskýrsla ráðgjafaraðila á sviði viðhalds- og endurbóta frá árinu 2016 þar sem lagðar eru til endurbætur. Á aðalfundi húsfélagsins 27. mars 2023 var samþykkt að taka tilboði í framkvæmdir sem fólu m.a. í sér að allar svalir á suðurhlið hússins yrðu brotnar niður og byggðar upp með léttum handriðum úr áli og gleri í stað steyptra handriða. Hinn 17. maí s.á. var sótt um byggingarleyfi fyrir þessum framkvæmdum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 13. júní 2023 var umsókninni vísað til skipulagsfulltrúa til grenndarkynningar, sem á afgreiðslufundi sínum, dags. 15. s.m., vísaði erindinu til umsagnar verkefnastjóra hjá embættinu. Það var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa, 13. júlí s.á., sem í umsögn sinni vísaði í skilmála gildandi hverfisskipulags frá árinu 2019 þar sem kveðið væri á um að við allar útlitsbreytingar og viðhald skyldi leitast við að halda í upprunalegan byggingarstíl og vernda sérkenni húsa og að þær skyldu falla vel að viðkomandi húsi hvað varði byggingarstíl, stærð, form, efni og frágang. Var þá tekið fram að með því að brjóta steypt svalahandrið og setja í stað þeirra glerhandrið, líkt og sýnt væri á uppdráttum sem hefðu fylgt byggingarleyfisumsókn yrði ásýnd og byggingarstíl hússins raskað. Þá hefðu ekki verið færð fyrir því rök að nauðsynlegt væri að klæða suðurhlið hússins með álklæðningu.

Hinn 27. júlí 2023 var erindið ásamt bréfi stjórnar húsfélagsins lagt fram að nýju á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og því vísað til umsagnar verkefnisstjóra hjá embættinu. Var erindið ekki tekið aftur fyrir á afgreiðslufundi fyrr en 26. apríl 2024 þar sem umsögn skipulags-fulltrúa frá þeim sama degi var samþykkt, en fyrir liggur að húsfélagið átti í millitíðinni í viðræðum við borgaryfirvöld. Í greindri umsögn skipulagsfulltrúa kom fram að samskonar lausn á klæðningu og svalahandriðum hefði verið samþykkt árið 2021 fyrir fjölbýlishúsið Hraunbæ 96–100. Þá var greint frá því að framkvæmdum við klæðningu væri lokið og að eldri svalahandrið hefðu verið brotin niður. Í ljósi aðstæðna og forsögu málsins var lagt til að umsókn um breytingar á svölum yrði samþykkt. Var niðurstaðan sú að heimilt væri að setja upp þau svalahandrið sem sótt hefði verið um auk þess sem heimilt væri að klæða húsið ef ástand þess væri metið sem svo að ekki væri möguleiki á að gera við skemmdir þess.

Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. maí 2024 þar sem byggingaráformin voru samþykkt.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda, sem er íbúðareigandi í fjölbýlishúsinu, er byggt á því að með hinum umdeildu byggingar­áformum sé ásýnd og byggingarstíl hússins raskað. Áformin brjóti í bága við gildandi hverfisskipulag en skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hafi í umsögn sinni, dags. 26. apríl 2024, fallist á breytingarnar með vísan til fordæmis sem geti ekki skapað lögmætar væntingar þess efnis að farið sé gegn lögum. Þá hafi samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús ekki fylgt umsókn um byggingarleyfi líkt og áskilið sé í 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt lögum um fjöleignarhús sé um sameign að ræða sem verði ekki ráðstafað með samningi nema allir eigendur séu því samþykkir og eigi hið sama við um verulegar breytingar á sameign eða hagnýtingu hennar, sbr. 19. gr. laganna. Varðandi byggingu, endurbætur eða framkvæmdir, sem feli í sér verulega breytingu á sameign sem ekki hefði verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu segi í 30. gr. sömu laga að ekki verði í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er byggt á því að ástand steyptra svalahandriða hafi verið orðið mjög slæmt og því hafi verið nauðsynlegt að fjarlægja þau og setja ný. Þá hafi verið nauðsynlegt að klæða suðurhlið hússins með sléttri álklæðningu og gera við helstu skemmdir á útveggjum með múrviðgerðarefnum eða öðrum þéttiefnum áður en veggir yrðu klæddir.

Samkvæmt ástandsskýrslu sem unnin hafi verið fyrir húsfélagið árið 2016, hefði ástand út-veggja suðurhliðar verið slæmt. Víða væru sýnileg einkenni frostskemmda í steypu og nokkuð um aðrar skemmdir. Mjög miklar steypuskemmdir væru í köldum steyptum flötum eins og svalagólfum, svalahandriðum og stoðveggjum sem skilji svalir íbúða á suðurhlið. Á svalagólfum væru greinileg ummerki steypuskemmda sem sæjust á útfellingum úr svalaloftum ásamt sprungum o. fl. Þá hefðu svalagólf sigið við frambrún sem benti til þess að styrkur steinsteypu væri lítill. Mætti segja að öll svalaloft bæru merki alvarlegra steypuskemmda. Ástand stálhandriða á svölum hefði verið metið lélegt og sum þeirra hefðu bognað út að ofan vegna þyngdar steyptra hluta handriðanna sem hefðu sigið. Í skýrslunni hefði verið lagt til að klæða suður- og vesturhliðar hússins með sléttri álklæðningu og að áður yrði gert við helstu skemmdir á útveggjum. Jafnframt hefði verið lagt til að svalahandrið yrðu endurnýjuð þannig að í stað steyptra handriða með stálvirki kæmu létt svalahandrið klædd með litaðri klæðningu.

Á aðalfundi húsfélagsins Rofabæjar 43–47 hinn 27. mars 2023 hefðu 12 viðstaddra samþykkt að ganga að tilboði vegna hinna umdeildu byggingaráforma en tveir verið því mótfallnir. Samkvæmt 9. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, sé um að ræða endurbætur, breytingar og nýjungar sem ganga verulega lengra og séu verulega dýrari og umfangsmeiri en venjulegt viðhald. Allar ákvarðanir sem ekki eiga undir liði A-C-liði falli undir D-lið sama ákvæðis og nægi því samþykki einfalds meirihluta eigenda miðað við hlutfallstölur á löglega boðuðum húsfundi. Í 1. mgr. 42. gr. laganna segi að húsfundur geti tekið ákvarðanir samkvæmt C-, D- og E-lið 41. gr. án tillits til fundarsóknar, enda sé hann löglega boðaður og haldinn. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segi að sé um að ræða ákvarðanir sem falli undir B-lið 41. gr. verði a.m.k. helmingur eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, að vera á fundi og tilskilinn meirihluti þeirra að greiða atkvæði með tillögu. Þar sem yfir helmingur eigenda hafi mætt á aðalfundinn og 2/3 af þeim greitt atkvæði með tillögunni væru skilyrði laganna uppfyllt.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu húsfélagsins er vísað til þess að löglega boðaður húsfundur hafi verið haldinn 27. mars 2023 þar sem tekin hefði verið ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir á suðurhlið hússins og taka tilboði lægstbjóðanda. Fyrir hefði legið ástandsskýrsla frá árinu 2016 en ástandi hússins hafi frá þeirri úttekt aðeins hrakað. Hvorki kærandi né móðir hans, sem þá hefði einnig verið skráður eigandi íbúðar kæranda, hefðu mætt á húsfundinn.

Fyrirhugaðar viðgerðir falli ekki undir A-lið 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og samþykki allra eigenda því ekki nauðsynlegt. Útilokað sé að heimfæra þær viðgerðir og endurbætur sem ráðist hafi verið í á suðurhlið hússins sem verulega breytingu á sameign eða útliti hússins. Nægi þá ótvírætt samþykki einfalds meirihluta eigenda.

Lögum nr. 26/1994 sé meðal annars ætlað að tryggja að enginn sé beittur órétti, sviptur eignaráðum sínum eða beittur þvingunum. Þeim sé með sama hætti ætlað að tryggja að enginn einn geti komið í veg fyrir að eignir annarra fari forgörðum, svo sem með því að hindra eðlilegt og nauðsynlegt viðhald eða stöðva hagkvæmar, viðhaldslitlar og nýtískulegar breytingar á húsi sem ekki breyta útliti hússins sérstaklega. Fyrir hafi legið úttekt ráðgjafafyrirtækisins Verksýnar þess efnis að steypuviðgerðir á suðurhlið hússins myndu ekki koma að gagni til að gera við skemmdir á húsinu og að klæðning væri því nauðsynleg. Þá sé framkvæmdum við klæðningu hússins að mestu lokið.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Úrskurðarnefndinni til ráðuneytis í máli þessu var A byggingartæknifræðingur og matsmaður.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2024 að samþykkja byggingaráform vegna klæðningar og svalahandriða á fjöleignarhúsinu að Rofabæ 43–47. Felast áformin í því að ráðast í viðhaldsframkvæmdir á suðurhlið hússins sem var steinsteypt, sléttpússuð og máluð, þannig að verði klædd með sléttri álklæðningu. Þá verði í stað steyptra handriða sett létt glerhandrið á svalir enda hafi steypt handrið að hluta til bognað út að ofan vegna þyngdar, svo sem það var orðað í umsögn byggingaryfirvalda Reykjavíkurborgar. Leyfishafi hefur upplýst úrskurðarnefndina um að hann hafi stöðvað framkvæmdir við svalir á meðan málið er til úrlausnar fyrir nefndinni en klæðningu suðurhliðar hússins er þegar lokið.

Í 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er gerð krafa um að með byggingarleyfisumsókn fylgi nauðsynleg gögn, þ.m.t. eftir atvikum samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Umsókn um byggingarleyfi í máli þessu fylgdi afrit af fundargerð aðalfundar húsfélagsins sem haldinn var 27. mars 2023. Í fundargerðinni kemur fram að á fundinn hafi mætt eigendur 13 íbúða af 24 með 56,6% eignarhluta hússins og að þar hafi verið gerð tillaga um að taka lægsta tilboði sem hefði verið samþykkt af 12 eigendum en einn verið á móti.

Samkvæmt 9. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 þarf samþykki 2/3 eigenda, miðað við fjölda og eignarhluta, við ákvarðanatöku um endurbætur, breytingar og nýjungar sem ganga verulega lengra og eru verulega dýrari og umfangsmeiri en venjulegt og nauðsynlegt viðhald. Ekki verður annað séð en að þær framkvæmdir sem hér um ræðir feli í sér nauðsynlegt viðhald á ytra byrði hússins. Verður að telja þær framkvæmdir sem fela í sér breytingu á útliti hússins með klæðningu þess og breyttu útliti svala ganga lengra en venjulegt og nauðsynlegt viðhald. Krefjast framkvæmdirnar því að lágmarki samþykkis 2/3 eigenda miðað við fjölda og eignar-hluta. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum uppfyllti fundarsókn skilyrði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 26/1994 og voru framkvæmdirnar samþykktar af 2/3 hluta eigenda. Kemur þá næst til skoðunar hvort önnur ákvæði laga nr. 26/1994 geri ríkari kröfur til samþykkis fyrir framkvæmdunum.

Í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994 segir að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Í 2. mgr. er kveðið á um að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi í för með sér breytingar á sameign, utan húss eða innan, sem þó geti ekki talist verulegar, þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir. Þá er í 3. mgr. kveðið á um að samþykki einfalds meirihluta nægi til smávægilegra breytinga. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 26/1994 kemur fram að ekki sé mögulegt að gefa nákvæmari lýsingar eða viðmið um það hvað teljist til verulegra eða óverulegra breytinga. Verður því að meta það í hverju tilviki fyrir sig með hliðsjón af atvikum og staðháttum í hverju húsi.

Kærunefnd húsamála hefur látið í té álit sitt á því hvort sú breyting á svölum sem samþykkt var á húsfundi 27. mars 2023 teljist veruleg í skilningi 30. gr. laga um fjöleignarhús. Í áliti sínu frá 5. febrúar 2024 í máli nr. 38/2023 taldi kærunefndin að svo væri ekki með hliðsjón af fyrirliggjandi myndum sem sýndu bágborið ástand svalanna og að ekki yrði annað ráðið en að stærð og lögun þeirra héldi sér þrátt fyrir að breyting yrði á því efni sem notað væri á framhliðar þeirra.

Í máli þessu er um það að ræða að ein hlið hússins að Rofabæ 43–47 hefur þegar verið klædd með svokallaðri steniklæðningu og þá hafa sambyggð hús á sameiginlegri lóð sum hver verið klædd með ólíkum steni- og álklæðningum. Með hliðsjón af þessum staðháttum og því að húsið hefur þegar verið klætt að hluta, verða hin umdeildu byggingaráform ekki talin fela í sér verulegar breytingar á útliti hússins samkvæmt 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga og því hafi samþykki 2/3 hluta eigenda samkvæmt 2. mgr. lagaákvæðisins verið fullnægjandi. Er og haft í huga að ekki verður breyting á formi eða stærð svala hússins. Þá verður ekki ráðið að klæðning suðurhliðar þess hafi verulega breytingu í för með sér í skilningi ákvæðisins enda klæðningin slétt og ljós að lit, líkt og við átti um útvegginn eins og hann var áður. Umsókn um byggingarleyfi fylgdi því nauðsynlegt samþykki meðeigenda samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994, sbr. 3. tl. B.-liðar 1. mgr. 41. gr. og 2. mgr. 42. gr. þeirra. Vegna tilvísunar kæranda til 19. gr. laga um fjöleignarhús verður bent á að greinin varðar einkum ákvarðanir er snerta ráðstöfun eigna- og afnotaréttar sameigenda á sameign og er því ekki af þýðingu í máli þessu.

Í 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins og var það gert í máli þessu. Þá verða byggingaráform aðeins samþykkt og gefið út byggingarleyfi ef fyrirhuguð framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Á svæðinu er í gildi hverfisskipulag fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Selás, ásamt leiðbeiningum hverfisskipulags sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 5. nóvember 2019. Í Byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur frá árinu 2017, sem unnin var í tengslum við gerð hverfisskipulagsins, kemur m.a. fram að skipulag hverfisins sé byggt á þeirri hugmynd að mynda skjólvegg með fjölbýlishúsum, þar sem land beri hæst í norðri, fyrir lægri byggð fyrir sunnan. Fjölbýlishúsin eru á þremur til fjórum hæðum og komið fyrir með þeim hætti að góðir garðar, opin svæði og leikvellir eru á milli þeirra að sunnanverðu en bílastæði að norðanverðu. Fjöleignarhúsið að Rofabæ 43–47 er eitt þessara húsa. Suðurhlið þess snýr að Rofabæ og norðurhliðin að sameiginlegum garði húsa á lóðinni, en einnig eru á lóðinni hús að Hraunbæ 176–198.

Í hverfisskipulaginu er lóðin innan skilmálaeiningar 7.2.11, Hraunbær og Rofabær. Þar segir um útlitsbreytingar og viðhald að taka skuli tillit til og raska sem minnst frumgerð húss og sérkennum þess, s.s. formum og hlutföllum, gluggum og gluggasetningu, inngöngum, áferð, efnisvali, litum og mynstrum. Þá segir þar um svalir og svalalokanir að þær séu heimilar, enda falli þær vel að viðkomandi húsi hvað varði byggingarstíl, stærð, form, efni og frágang. Hönnun og útfærsla skuli vera samræmd fyrir allt húsið nema aðstæður og hlutverk svalanna sé mismunandi og ekki um sömu hlið á húsinu að ræða. Um framangreint, þ.e. útlitsbreytingar, viðhald og svalir, er nánar vísað til leiðbeininga hverfisskipulags.

Í leiðbeiningum um svalir og útlitsbreytingar kemur m.a. fram að útlitsbreytingar og viðbætur við hús eigi að taka mið af byggingarstíl þess og leitast skuli við að halda í upphafleg sérkenni. Við endurbætur og breytingar þurfi að miða við upprunalegt efnisval húsa og aðliggjandi byggðar. Allur frágangur, svo sem við glugga, þakkant/þakrennur og svalir, ætti einnig að miðast við upprunalega gerð, upprunaleg hlutföll og byggingarstíl hússins. Á sama stað í leiðbeiningunum segir að almennt sé ekki heimilt að klæða hús að utan nema sýnt hafi verið fram á nauðsyn þess með óyggjandi hætti. Á húsum þar sem engin verndarákvæði séu í gildi þurfi að skoða hvort klæðning sé eina færa leiðin og hún valin með það í huga að hún rýri ekki heildarásýnd hússins. Æskilegt sé að helstu stíleinkennum sé haldið og að klæðning sé jafnvel takmörkuð við ákveðnar hliðar. Þá er tekið fram að þegar svalir séu byggðar, þeim breytt eða farið í aðrar breytingar á ytra útliti húsa sé mikilvægt að raska ekki sérkennum byggingarinnar. Í þeim tilfellum þar sem svalir eru fyrir á húsi sé best að nota sama útlit og sama efni og útfærslu og fyrir er.

Samkvæmt þessu skal við útlitsbreytingar og viðhald húsa í Árbæjarhverfi taka tillit til og raska sem minnst frumgerð húss og sérkennum þess, s.s. formum og hlutföllum, gluggum og glugga-setningu, inngöngum, áferð, efnisvali, litum og mynstrum. Þegar svalir eru byggðar, þeim breytt eða farið í aðrar breytingar á ytra útliti húsa er kveðið á um mikilvægi þess að raska ekki sérkennum bygginga. Í leiðbeiningum er tekið fram að almennt sé ekki heimilt að klæða hús að utan nema sýnt hafi verið fram á nauðsyn þess með óyggjandi hætti. Þarf að meta aðstæður hverju sinni og má vænta þess að horft verði einkum til þess hvort verja þurfi hús fyrir skemmdum. Getur val á klæðningarefni einnig verið af þýðingu með hliðsjón af heildarásýnd húss.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. maí 2024 var umsókn húsfélagsins að Rofabæ 43–47 um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á suðurhlið hússins samþykkt. Umsagnir skipulagsfulltrúa, dags. 13. júlí 2023 og 26. apríl 2024, fylgdu erindinu og vísaði byggingarfulltrúi til þess að framkvæmdin samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010. Líkt og fram hefur komið var það niðurstaðan í seinni umsögn skipulagsfulltrúa að heimila skyldi að setja upp þau svala-handrið sem sótt var um og klæða húsið ef ástand þess væri metið sem svo að ekki væri möguleiki á að gera við skemmdir þess. Með þessu áleit skipulagsfulltrúi að byggingaráformin væru ekki andstæð skipulagi og verður ekki gerð athugasemd við þá afstöðu, sem studd var ítarlegum rökum.

Það má telja til annmarka á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að ekki fylgdi nánari rök-stuðningur hinni kærðu ákvörðun. Í umsögn Reykjavíkurborgar til nefndarinnar í máli þessu er þó tekið skýrt fram að borgin byggi á því að ástand svalahandriða hafi verið mjög slæmt og því hafi verið nauðsynlegt að fjarlægja þau og setja ný í staðinn. Þá hafi verið nauðsynlegt að klæða suðurhlið hússins og gera við helstu skemmdir í útveggjum, svo sem segir í umsögninni, sem fái stoð í ástandsskýrslu frá 2016. Að teknu tilliti til þessara röksemda og þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um bágt ástand hússins, verður ekki gerð athugasemd við þetta mat Reykjavíkurborgar.

Með hliðsjón af framanröktu hafnar úrskurðarnefndin kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna klæðningar á suðurhlið fjöleignarhússins að Rofabæ 43–47 og fyrir breyttri gerð svalahandriða.