Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

129/2022 Sjókvíaeldi í Fossfirði

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 29. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 129/2022, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. október 2022 um að endurnýja rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Fossfirði með 1.500 tonna hámarkslífmassa.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. nóvember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnarlax ehf. þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. október 2022 að endurnýja rekstrarleyfi kæranda fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Fossfirði með 1.500 tonna hámarkslífmassa. Er þess krafist að ákvörðuninni verði breytt þannig að útgefið rekstrarleyfi heimili 3.000 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma, en að öðru leyti standi rekstrarleyfið óbreytt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 16. desember 2022.

Málavextir: Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fiskeldis Fjarðarlax í Fossfirði, einum innfjarða Arnarfjarðar, frá 5. maí 2011 var fjallað um áform um 1.500 tonna framleiðslu á laxi að meðaltali á ári. Í ákvörðuninni voru rakin áform félagsins um eldi á laxi í þremur fjörðum á suðurfjörðum Vestfjarða: Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Í Fossfirði væri áætlunin að framleiða að meðaltali 1.500 tonn af laxi á ári. Eldið yrði byggt upp í tveimur þrepum og væri fyrirhugað að setja 500.000 laxaseiði í Fossfjörð „á komandi sumri“, en átt var við sumarið 2012. Var ætlunin að slátrun á þessum fiski yrði lokið haustið 2013. Vorið 2014 væri fyrirhugað að setja út 1.000.000 laxaseiða, sem áætlað væri að skiluðu sér í 4.500 tonna framleiðslu árin 2015/2016, en hámarkslífmassi í firðinum yrði 3.000 tonn, skömmu áður en slátrun hæfist.

Í bréfi Fjarðalax ehf. til Skipulagsstofnunar, dags. 10. febrúar 2011, vegna tilkynningar um fyrirhugað 1.500 tonna framleiðslu á laxi á ári í Arnarfirði til ákvörðunar um matsskyldu, kom fram lýsing á áformum félagsins. Það hefði keypt annað félag og hygðist nota rekstrarleyfi þess til laxeldis í Tálknafirði og Patreksfirði, 1.500 tonn í hvorum firði, en til þess að tryggja umhverfisvænan og sjálfbæran rekstur til langs tíma væri forsenda að hafa þrjá aðskilda firði til umráða, til að tryggja ásættanlegan hvíldartíma fjarðanna. Fram kom að þegar lokið væri við að slátra úr öllum kvíum í Arnarfirði yrðu eldiskvíar fjarlægðar og fjörðurinn hvíldur í 3–9 mánuði. Var með þessu leitast við að tryggja stöðuga framleiðslu afurða til að fullnýta framleiðslutæki í laxavinnslu. Á hverju þessara þriggja svæða yrði framleiðsla áþekk og lífmassi á hverjum stað yrði í hámarki á þriggja ára tímabili í kynslóðaskiptu fiskeldi. Í greindu bréfi var gefið svofellt yfirlit til skýringar:

Hinn 1. febrúar 2012 gaf Fiskistofa út rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi í Fossfirði. Í leyfinu var mælt fyrir um heimild til að framleiða allt að 1.500 tonn af laxi árlega og tekið fram að ársframleiðsla væri miðuð við almanaksár. Þetta var í samræmi við þágildandi 10. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, þar sem sagði að skylt væri í rekstrarleyfi að kveða á um leyfilegt framleiðslumagn.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 18/2015, sem kveðinn var upp 11. júní 2015, var deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að samþykkja breytt starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, til framleiðslu á laxi í sjókvíum í Fossfirði. Fól breytingin það í sér að umfang starfseminnar breyttist úr framleiðslu á allt að 1.500 tonnum af laxi á ári í allt að 3.000 tonn á einu almanaksári með þeim takmörkunum að hámarksframleiðsla á hverjum þremur árum skyldi samtals vera undir 4.500 tonnum og lífmassi á hverjum tíma ekki vera yfir 3.000 tonnum í einu. Það var álit nefndarinnar, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að þessar breytingar fælu ekki í sér heimild til framleiðsluaukningar og var um það m.a. vísað til upphaflegrar umsóknar Fjarðalax ehf. og ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu frá 5. maí 2011.

Árið 2016 sameinuðust Fjarðalax ehf. og Arnarlax ehf. undir nafni þess síðarnefnda. Hið sameinaða félag hafði uppi áform um að leggja niður starfsemina í Fossfirði og sameina framleiðsluheimildir þess leyfis við aðrar framleiðsluheimildir félagsins í Arnarfirði. Með því yrðu heimildirnar hagnýttar á öðrum kvíastaðsetningum í firðinum. Kemur þetta fram í bréfaskiptum milli félagsins og Matvælastofnunar sem lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina. Með bréfi Matvælastofnunar, dags. 3. apríl 2017, var kæranda bent á að slíkar breytingar yrðu ekki gerðar án aðkomu Skipulagsstofnunar vegna laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og formlegrar umsóknar um breytingu á rekstrarleyfi.

Hinn 28. október 2020 var rekstrarleyfi fiskeldis í Fossfirði endurútgefið vegna aðilaskiptanna árið 2016, án þess að gildistíma leyfisins væri breytt sem var áfram 1. febrúar 2022, sbr. leyfisnúmer FE-1087. Í Arnarfirði hefur kærandi jafnframt annað rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi með 10.000 tonna hámarkslífmassa á nokkrum framleiðslusvæðum, en leyfið var gefið út af Matvælastofnun 6. maí 2016 og er leyfisnúmerið FE-1105.

Skipulagsstofnun barst tilkynning frá kæranda 27. nóvember 2020 um fyrirhugaða tilfærslu á eldisstarfsemi og eldissvæðum hans í Arnarfirði í samræmi við 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka. Fram kom í tilkynningunni að áform stæðu til þess að framleiðsla í Fossfirði myndi færast og verða á eldissvæðinu við Haganes. Þá væri áætlað að breyta legu eldissvæðanna við Haganes, Steinanes og Hringsdal í Arnarfirði. Tilgangurinn með breytingunni væri sá að mögulegt yrði að snúa eldissvæðunum þannig að hægt væri að staðsetja eldiskvíar betur innan þeirra og með því að tryggja betri eldisskilyrði með jafnari straumum og betra súrefnisflæði.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 5. júní 2021, var rakið að sjókvíaeldi félagsins í Arnarfirði væri kynslóðaskipt og yrði á þremur skilgreindum sjókvíaeldissvæðum, þ.e. svæðum A, B og C. Eldissvæði við Haganes, Steinanes og Fossfjörð væru öll innan sjókvíaeldissvæði A. Framkvæmdin fæli ekki í sér breytingu á framleiðslumagni, hvíld, eða hámarkslífmassa og væru helstu áhrifin fólgin í tilflutningi þess eldis sem fram hefði farið í Fossfirði yfir á svæði við Haganes, sem myndi leiða til aukins umfangs á því svæði. Var framkvæmdin því ekki álitin háð mati á umhverfisáhrifum.

Við meðferð þessarar tilkynningar hjá Skipulagsstofnun var ekki vikið að framleiðsluheimildum en gert ráð fyrir því að þær yrðu óbreyttar við sameiningu starfs- og rekstrarleyfa félagsins. Þess skal þó getið að í umsögn Matvælastofnunar til Skipulagsstofnunar, dags. 10. febrúar 2021, var þeirri afstöðu lýst að gildandi rekstrarleyfi Arnarlax í Arnarfirði veittu fyrirtækinu „samanlagt heimild fyrir 11.500 tonnum af laxi í firðinum, en ekki 13.000 tonnum.“ Með þessu áleit stofnunin að rekstrarleyfi kæranda í Fossfirði bæri að endurskoða með þeim hætti að það heimilaði 1.500 tonna lífmassa.

Sú endurskoðun sem með þessu var vísað til réðst af lögum nr. 101/2019, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Með þeim var gerð sú breyting á 10. gr. laga um fiskeldi, nr. 71/2008, að í rekstrarleyfi skyldu koma fyrirmæli um stærð fiskeldisstöðvar mælt í leyfilegum lífmassa. Um leið var fellt brott að kveða skyldi á um leyfilegt framleiðslumagn í rekstrarleyfi. Hugtakið lífmassi var skilgreint svo að það væri margfeldi af fjölda og meðalþyngd eldisdýra á tilteknu eldissvæði í sjó eða landeldi, sbr. 22. tl. 3. gr. laganna. Hinn 3. júní 2020 tók svo gildi ný reglugerð um fiskeldi, nr. 540/2020, og í 2. mgr. 25. gr. hennar er mælt fyrir um skyldu Matvælastofnunar til að endurskoða rekstrarleyfi þannig að leyfilegur hámarkslífmassi sé tilgreindur í rekstrarleyfi. Við slíka endurskoðun skal stofnunin tryggja að samræmis sé gætt við hámarksframleiðslumagn gildandi rekstrarleyfa að öðru óbreyttu.

Þeirri afstöðu Matvælastofnunar til lífmassa leyfisins í Fossfirði, sem kom fram við matsferli vegna ráðgerðrar sameiningar rekstrarleyfa kæranda í Arnarfirði, var mótmælt með bréfi kæranda til stofnunarinnar, dags. 10. febrúar 2021. Þar sagði að til þess að framleiða allt að 4.500 tonn yfir þriggja ára tímabil eða 1.500 tonn á ári að meðaltali þyrfti lífmassi að vera um 4.100 tonn. Var í bréfinu gefið yfirlit þar sem gert var ráð fyrir að seiði yrðu sett út að vori og eldislota stæði yfir í þrjú ár að meðtöldum hvíldartíma milli kynslóða. Með framleiðslu á 4.350 tonnum yfir þriggja ára tímabil færi lífmassi því hæst í 4.100 tonn.

Af bréfi kæranda til Matvælastofnunar, dags. 2. júní 2021, verður ráðið að á fundi stofnunarinnar með kæranda 20. maí 2021 hafi komið fram ábending um að ekki lægi fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna 4.100 tonna hámarkslífmassa í Fossfirði. Af hálfu kæranda var því svarað með vísan til áðurnefndrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 5. maí 2011, um eldi á 1.500 tonnum af laxi í sjókvíum í Fossfirði, þar sem gerð hafi verið framleiðsluáætlun sem hafi falið í sér 4.500 tonna framleiðslu á þriggja ára tímabili en til þess þyrfti leyfilegur hámarkslífmassi að fara hæst í 4.100 tonn.

Hinn 9. júní 2021 sótti kærandi um sameiningu rekstrarleyfa kæranda í Arnarfirði og tilfærslu eldisstarfsemi og eldissvæða félagsins. Um hámarkslífmassa stöðvar kom fram að hann yrði 10.000 tonn, sbr. leyfisnúmer FE-1105, auk hámarkslífmassa samkvæmt leyfisnúmeri FE-1087 sem Matvælastofnun ætti eftir að tilgreina. Í bréfi Matvælastofnunar til félagsins, dags. 11. janúar 2022, kom fram að flutningur lífmassa frá Fossfirði á eldissvæðið við Haganes, sem óskað hafi verið eftir, sé „ófær, með þeim hætti sem sótt sé um.“ Var vísað til þess að einungis eitt eldissvæði væri í Fossfirði og því ekki unnt að vera með eldi laxa á mismunandi svæðum og ala þar samtímis margar kynslóðir laxa. Það væru því ekki sömu forsendur til að ná fram framleiðslumagni sem næmu 1.500 tonnum árlega.

Í bréfi Matvælastofnunar, dags. 11. janúar 2022, var rakið að umsókn kæranda gerði ráð fyrir að færsla lífmassa næði einungis til eins af þremur eldissvæðum hins stærra rekstrarleyfis, FE-1105. Ekki hafi farið fram nein sundurliðun á leyfilegum lífmassa hvers eldissvæðis um sig. Því væri ekki grundvöllur fyrir útgáfu breytts rekstrarleyfis, þar sem eingöngu væri tiltekinn leyfilegur lífmassi allra eldissvæða rekstrarleyfisins. Matvælastofnun myndi því auglýsa breytingu á rekstrarleyfi FE-1105, þannig að hámarkslífmassi yrði 11.500 tonn og tilgreint yrði jafnframt hámarksframleiðslumagn í tonnum á ári á hverju sjókvíaeldissvæði um sig. Var með þessu gert ráð fyrir að 1.500 tonna framleiðsluheimild myndi bætast við eldissvæði A (Haganes og Steinanes) þannig að þar næmi framleiðsluheimildin 6.500 tonnum, en á svæðum B og C yrði framleiðslan áfram takmörkuð við 5.000 tonn.

Með bréfi kæranda, dags. 17. janúar 2022, voru gerðar athugasemdir við þessa boðuðu niðurstöðu. Skylt væri að tilgreina framleiðsluheimildir í lífmassa og því stæði ekki heimild til þess að binda leyfi jafnhliða skilyrðum um framleiðslumagn. Því var haldið fram að starfs- og rekstrarleyfi í Fossfirði heimili að lágmarki 3.000 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma. Með því væri heimilt að framleiða 4.500 tonn á þriggja ára tímabili. Þá var vísað til þess að málsmeðferð við sameiningu leyfanna tveggja hefði dregist og meðalþyngd á fiski í Fossfirði væri orðin svo mikil að ekki væri hægt að flytja hann á önnur eldissvæði, eins og gert hefði verið ráð fyrir í upphafi. Því væri fallið frá umsókn um sameiningu leyfanna á þessum tímapunkti, en óskað eftir að fallist yrði á breytta legu eldissvæða sem um var fjallað í ákvörðun Skipulagsstofnunar. Jafnframt var í bréfinu óskað eftir því að rekstrarleyfi kæranda í Fossfirði, FE-1087, yrði endurnýjað með 3.000 tonna hámarkslífmassa, en afstaða Matvælastofnunar til þeirrar beiðni er kæruefni þessa máls.

Hinn 21. mars 2022 óskaði Matvælastofnun eftir umsögn matvælaráðuneytisins um það með hvaða hætti bæri að fara eftir 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020 við endurskoðun þeirra rekstrarleyfa þar sem stærð fiskeldisstöðvar tæki mið af leyfilegu framleiðslumagni. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 18. maí 2022, var m.a. vísað til þess að Matvælastofnun yrði við „umbreytingu rekstrarleyfa að horfa á hvert rekstrarleyfi heildstætt og gæta þess að þær breytur sem í raun geta haft áhrif á hámarkslífmassann sé haldið stöðugum þegar ákvarðað er hvernig umbreytingunni skuli háttað.“

Með bréfi, dags. 25. ágúst s.á., boðaði Matvælastofnun fyrirhugaða niðurstöðu vegna umsóknar um endurnýjun rekstrarleyfisins í Fossfirði. Kom þar fram að með hliðsjón af umsögn matvælaráðuneytisins frá 18. maí 2022 yrði að taka mið af allri starfsemi kæranda á því hafsvæði sem um ræddi, þ.e. Arnarfirði, við afmörkun á lífmassa fiskeldisins. Var í bréfinu m.a. vísað til framkvæmdar við endurnýjun annars rekstrarleyfis kæranda í Arnarfirði, FE-1105, en þar hafði jafnt hlutfall verið milli framleiðslu og lífmassa. Að framkomnum andmælum kæranda, hinn 19. október 2022, endurnýjaði Matvælastofnun rekstrarleyfi kæranda í Fossfirði og er tilgreint í leyfinu, er hefur leyfisnúmerið FE-1204, að hámarkslífmassi megi vera 1.500 tonn.

Samtímis þessari beiðni um breytingu á rekstrarleyfinu í Fossfirði hafði Matvælastofnun til meðferðar beiðni kæranda um breytingu á rekstrarleyfi FE-1105. Fallist var á beiðni um færslu og breytta afmörkun eldissvæðanna við Haganes, Steinanes og við Hringsdal, með breytingu á því leyfi, dags. 16. maí 2022, í samræmi við ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar, dags. 5. júní 2021. Samhliða því voru ákvæði leyfisins um framleiðslumagn felld brott. Tekið hafði verið fram í leyfinu að það gæfi heimild til 10.000 tonna framleiðslumagns og hámark framleiðslu á hverju hinna þriggja sjókvíaeldissvæða væri 5.000 tonn. Eftir stóðu óröskuð fyrirmæli um að hámarkslífmassi leyfisins væri 10.000 tonn.

Þá má greina frá því að kærandi hefur uppi áform um að breyta afmörkun eldissvæða sinna við Hlaðsbót, Tjaldanes, Hringsdal og Kirkjuból í Arnarfirði, svo sem sjá má í matsskyldufyrirspurn félagsins frá 1. september 2022. Í fyrirspurninni greinir að megintilgangur breytinganna sé að eiga kost á því að snúa kvíasamstæðum þvert á straumstefnu og tryggja þannig jafnari strauma og betra súrefnisflæði um eldiskvíarnar og skapa rými til að færa eldiskvíar til innan eldissvæðanna ef bregðast þarf við vegna uppsöfnunar lífrænna efna undir kvíunum. Þá kemur fram að meira rými skapi sveigjanleika á að fjölga kvíum í þeim tilgangi að minnka þéttleika eldisfisks í hverri kví. Gott súrefnisflæði og minni þéttleiki í kvíum bæti velferð fisksins.

Málsrök kæranda: Kærandi álítur að Matvælastofnun hafi skert framleiðsluheimildir hans með útgáfu hins kærða leyfis þar sem ákvæði þess um hámarkslífmassa samrýmist ekki framleiðslumagni fyrra leyfis um heimild til að framleiða 1.500 tonn af laxi árlega eða 4.500 tonn á þriggja ára tímabili. Skilja verði framleiðslumagn sem meðaltal ársframleiðslu slátraðra tonna af óslægðum eldisfiski úr kví einnar kynslóðar, sbr. 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Til að fullnýta 4.500 tonna framleiðsluheimild á þriggja ára tímabili, þ.e. fyrir eina kynslóð af laxi, verði hámarkslífmassi að vera um 4.100 tonn. Því hafi Matvælastofnun borið að tilgreina a.m.k. 3.000 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma.

Við hina kærðu ákvörðun hafi Matvælastofnun borið að hafa hliðsjón af gildandi umhverfismati frá 2015 þar sem gert sé ráð fyrir 3.000 tonna hámarkslífmassa sjókvíaeldis í Fossfirði á hverjum tíma. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi skuli stofnunin leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar við útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis og verði ekki séð að hin kærða ákvörðun samræmist þeim áskilnaði.

Þá hafi starfsleyfi kæranda í Fossfirði að geyma heimild fyrir 3.000 tonnum af lífmassa í eldi og feli ákvörðun Matvælastofnunar í sér skerðingu á þeim heimildum. Túlkun Matvælastofnunar á framleiðslumagni og lífmassa sé ekki í neinu samræmi við fyrri framkvæmd stofnunarinnar. Til að mynda hafi stofnunin heimilað útsetningu á yfir 600.000 seiðum í október 2020 sem hafi endurspeglast í 3.008 tonna lífmassa í september. Kærandi hafi því haft réttmætar væntingar til þess að lífmassi rekstrarleyfisins yrði miðaður við a.m.k. 3.000 tonn á hverjum tíma.

Í kæru er gerð krafa um að formaður nefndarinnar víki sæti við meðferð málsins vegna fyrri starfa í Stjórnarráðinu, sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 1. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. sömu laga.

Málsrök Matvælastofnunar: Stofnunin bendir á að frá fyrstu útsetningu seiða í Fossfirði hafi verið litið svo á að þágildandi rekstrarleyfi hafi tilgreint framleiðslu sem meðaltalsframleiðslu á ári. Ekki sé ljóst hvernig þessi túlkun framleiðsluheimildar hafi komist á og hvorki hafi fundist nein skjöl þar sem slík ákvörðun hafi verið tekin né rökstuðningur fyrir henni.

Fiskeldi takmarkist af þeim lífmassa sem réttlætanlegt sé að ala á hverju hafsvæði miðað við burðarþol, sbr. 6. gr. b. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, og áhættumati erfðablöndunar, sbr. 6. gr. a. í sömu lögum. Heimilaður lífmassi hvers rekstrarleyfis takmarki réttindi annarra aðila til sjókvíaeldis á sama svæði sem nemi heimildinni. Við breytingu rekstrarleyfa sé því ekki hægt að beita samskonar aðferð á öll svæði heldur þurfi að meta hvert leyfi fyrir sig með tilliti til aðstæðna. Ógjörningur sé að líta á starfsemi kæranda í Arnarfirði öðrum augum en að þar sé samlegð í rekstri.

Hin kærða ákvörðun skerði ekki hámarksframleiðslumagn kæranda í Fossfirði heldur sé kæranda enn heimilt að framleiða 1.500 tonn árlega svo framarlega sem lífmassi fari ekki yfir 1.500 tonn hverju sinni. Samræmi sé á milli eldra leyfis og þess nýja í samræmi við áskilnað 2. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Samanlagður heimilaður lífmassi kæranda í Arnarfirði verði því 11.500 tonn, sem tryggi getu til 11.500 tonna framleiðslu á ári. Aukning heimilaðs lífmassa í Arnarfirði úr 11.500 tonnum í 13.000 tonn myndi gera kæranda kleift að framleiða 13.000 tonn árlega.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 18/2015 hafi það verið frumforsenda niðurstöðu nefndarinnar að breyting á heimiluðum lífmassa samkvæmt starfsleyfi hefði ekki leitt til framleiðsluaukningar. Matvælastofnun taki undir það viðmið, enda megi breyting heimildar rekstrarleyfis úr framleiðslumagni í lífmassa ekki leiða til þess að önnur möguleg starfsemi á svæðinu skerðist, sem hún mundi gera ef fallist yrði á kröfur kæranda. Þá vísar stofnunin til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 36/2022, þar sem fjallað hafi verið um ólíkar valdheimildir Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar, sem sé skylt að halda sig innan valdmarka sinna samkvæmt þeim lögum sem þær starfi eftir.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda eru ítrekuð sjónarmið um að við endurútgáfu rekstrarleyfis beri að miða við forsendur leyfisins í upphafi, en í Fossfirði hafi verið ráðgert að framleiða árlega að meðaltali 1.500 tonn af laxi og hafi verið áætlað að hámarks lífmassi yrði 3.000 tonn. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 5. maí 2011, komi fram að fyrirhugað sé að setja út 1.000.000 laxaseiði vorið 2014 sem skili sér í 4.500 tonna framleiðslu árin 2015 og 2016, en hámarks lífmassi verði 3.000 tonn. Skýr tengsl séu því á milli 4.500 tonna framleiðslu á þriggja ára tímabili og 3.000 tonna hámarks lífmassa yfir eldistímann. Í eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar, dags. 9. maí 2022, hafi engar athugasemdir verið gerðar þrátt fyrir að lífmassi hafi þennan sama dag farið í tæp 1.782 tonn. Eldisferill í kynslóðaskiptu eldi eru þrjú ár og því sé nauðsynlegt að miða við meðaltal ársframleiðslu. Framleiðsluheimildir flestra ef ekki allra rekstrarleyfa vegna kynslóðaskipts eldis hafi verið ákveðnar sem meðaltal ársframleiðslu einnar kynslóðar og árið 2015 hafi sá skilningur verið endurspeglaður í þágildandi reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi.

Rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í Fossfirði hafi verið gefið út fyrir þann fjörð einan þótt gert hafi verið ráð fyrir samlegð með fiskeldisstarfsemi í Patreksfirði og Tálknafirði. Með breytingarlögum nr. 49/2014 hafi ákvæði um sérstök sjókvíaeldissvæði verið innleitt í lög nr. 71/2008 um fiskeldi og hafi Matvælastofnun afmarkað slík svæði í Arnarfirði þannig að Fossfjörður hafi verið tilgreindur sem hluti af sjókvíaeldissvæði A í Arnarfirði. Að öðru leyti hafi rekstrarleyfið í Fossfirði engin tengsl við önnur rekstrarleyfi í Arnarfirði eða önnur eldissvæði í Arnarfirði. Eigi þetta sérstaklega við um tilgreint framleiðslumagn.

Kærandi hafi ítrekað komið því á framfæri að ala þurfi 3.000 tonna lífmassa af eldisfiski til að framleiða 4.500 tonn fyrir hverja kynslóð. Hámarkslífmassi fyrir 1.500 tonnum heimili einungis útsetningu á um 375.000 seiðum sem skili á bilinu 1.600 til 1.750 tonnum að hámarki á kynslóð. Raunveruleg skerðing sé því veruleg. Framtíðaráform um rekstur eða sameiningu rekstrarleyfa hafi ekkert með lögbundna umbreytingu framleiðsluheimildar að gera. Markmið laga nr. 71/2008 sé m.a. að leyfi séu nýtt til fullnustu, en aðferðarfræði Matvælastofnunar stríði gegn því markmiði.

Mat á burðarþoli alls Arnarfjarðar nemi 20.000 tonnum af hámarkslífmassa á hverjum tíma. Í firðinum séu tveir rekstrarleyfishafar, annars vegar kærandi sem hafi leyfi fyrir 11.500 tonna hámarkslífmassa og hins vegar Arctic Sea Farm ehf. með 4.000 tonna hámarkslífmassa. Eftir standi því 4.500 tonn af hámarkslífmassa óráðstöfuð miðað við burðarþol fjarðarins og því geti skortur á burðarþoli ekki verið ástæða fyrir skerðingu á leyfilegum hámarkslífmassa í Fossfirði. Þá séu ekki takmarkanir á eldi frjórra laxa í Arnarfirði samkvæmt útgefnu áhættumati erfðablöndunar þannig að skerðing hámarkslífmassa geti heldur ekki byggt á því.

Kæranda hafi verið úthlutað framleiðslumagni samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 71/2008 um úthlutun eldissvæða og lífmassa, þar sem horft hafi verið á tímaröð umsókna. Þrátt fyrir það virðist stofnunin telja sér stætt á að horfa til seinni tíma uppboðsreglu eldissvæða og hámarkslífmassa samkvæmt breytingalögum nr. 101/2019 við breytingu á rekstrarleyfi kæranda, en ekki verði betur séð en að stofnunin sé með því að beita uppboðsreglunni með ólögmætum afturvirkum hætti.

Matvælastofnun byggi ákvörðun sína á hugleiðingum um mögulegan ávinning kæranda af samlegð vegna breyttra magnviðmiða og ætluð áhrif hennar á hugsanleg réttindi þriðja aðila. Leiða megi líkum að því að verðmæti lífmassa sé grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar Matvælastofnunar. Slíkt verðmætamat komi til skoðunar við hið nýlega útboðsfyrirkomulag eldissvæða og lífmassa, en sé í engu samræmi við þær lagareglur sem gildi um endurnýjun rekstrarleyfis árið 2022 sem upphaflega hafi verið gefið út 2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. október 2022 að endurnýja rekstrarleyfi kæranda fyrir kynslóðaskipt sjókvíaeldi í Fossfirði með 1.500 tonna hámarkslífmassa.

Í kæru er því haldið fram að formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, Arnór Snæbjörnsson, hafi komið að meðferð málsins hjá því ráðuneyti sem fer með fiskeldismál og er þess krafist að hann víki sæti við meðferð málsins með vísan til 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, sem þar er kveðið sé á um að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls „á kærustigi hafi hann áður tekið þátt í meðferð málsins á lægra stjórnsýslustigi“. Tekið er fram í töluliðnum að „það sama [eigi] við um starfsmann sem fer með umsjónar- eða eftirlitsvald hafi hann áður haft afskipti af málinu hjá þeirri stofnun sem eftirlitið lýtur að.“

Nefndin tók þessa kröfu fyrir á fundi sínum fyrr í dag. Með vísan til 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga og var það niðurstaða hennar, kunngjörð með bréfi til kæranda dagsettu sama dag, að ekkert hefði komið fram um það að formaður hafi áður tekið efnislega afstöðu til ágreiningsefnis kærumálsins og því væri honum óskylt að víkja sæti við meðferð málsins.

—–

Í máli þessu er deilt um ákvörðun framleiðsluheimildar við endurnýjun rekstrarleyfis fiskeldis. Hafa þar þýðingu breytingar á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. lög nr. 101/2019, sem fólu í sér að rekstrarleyfi skyldu hafa að geyma fyrirmæli um stærð og framleiðslumagn fiskeldisstöðvar mælt í leyfilegum lífmassa, en áður var miðað við framleiðslumagn. Voru nánari fyrirmæli um þessa framkvæmd sett í 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi og sagði þar að Matvælastofnun skyldi tryggja „að samræmis væri gætt við hámarksframleiðslumagn gildandi rekstrarleyfa að öðru óbreyttu.“

Af þessum lagagrundvelli, umsögn Matvælastofnunar og sjónarmiðum aðila má ráða að við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi legið fyrir og verið litið til stjórnsýsluframkvæmdar sem tíðkast hafi um nokkurn tíma og verið almenn kunn meðal fiskeldisfyrirtækja. Um hana er fjallað með almennum hætti í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar, útgefinni í janúar 2023, um stjórnsýslu sjókvíaeldis. Til skýringarauka má greina frá því að þar er í kafla 6.4, um endurskoðun og afturköllun leyfa, sagt frá því að þar sem enginn umbreytingastuðull hafi verið settur fram við þessa breytingu hafi ekki verið fyllilega ljóst við hvað skyldi miðað. Fram að því hafi verið mismunandi hvort ákvæði um hámarkslífmassa eða framleiðslumagn hafi verið í rekstrarleyfum fiskeldis.

Í skýrslunni er bent á að þegar leyfi sem hafa verið endurskoðuð frá því lögunum var breytt séu skoðuð komi í ljós að mismunandi stuðull hafi verið notaður við umbreytinguna. Dæmi séu um að stuðull milli framleiðslumagns og lífmassa hafi verið 0,8 á móti 1 þannig að fyrirtæki sem verið hafi með leyfi fyrir hámarksframleiðslu upp á 10.700 tonn hafi fengið heimild til að vera með 12.200 tonn af lífmassa. Önnur leyfi hafi ekki breyst heldur farið úr sama framleiðslumagni í sama hámarkslífmassa (~1:1). Ekki hafi því verið fullt samræmi við umbreytingu leyfanna. Eru í framhaldi gerðar ábendingar sem varða mikilvægi þess að við notkun á stuðlum við umbreytingu úr framleiðslumagni í hámarkslífmassa sé horft til gagna úr fiskeldi. Hafi reynsla af sjókvíaeldi hér við land síðastliðin þrjú ár verið sú að stuðull milli framleiðslumagns og lífmassa sé 0,9‒1,3 á móti 1.

Í bréfi Matvælastofnunar til kæranda, dags. 25. ágúst 2022, sem var undanfari hinnar kærðu ákvörðunar, er vísað til bréfaskipta stofnunarinnar við matvælaráðuneytið sem varðaði túlkun 25. gr. reglugerðar um fiskeldi. Hafði stofnunin, að því virðist í tilefni af ágreiningsefni þessa úrskurðarmáls, óskað eftir leiðbeiningum um hvort horfa bæri á hvert rekstrarleyfi sérstaklega, án samhengis við önnur rekstrarleyfi hvers umsækjanda og breyttra aðstæðna að öðru leyti, eða hvort meta yrði aðstæður heildstætt, þannig að horft væri til allrar starfsemi hvers aðila og möguleika hans á að gæta „samræmis“ milli svæða, svo sem það var orðað.

Í leiðbeiningum ráðuneytisins í bréfi, dags. 18. maí 2022, er komist svo að orði að líta skuli til „textafræðilegrar merkingar“ orðanna „að öðru óbreyttu“ í 2. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020, þannig að notast verði við ákveðinn stuðul sem geri að verkum að samræmi sé milli framleiðslumagns og hámarkslífmassa, en allt annað en sá stuðull verði aftur á móti að „haldast óbreytt.“ Þá er fjallað sérstaklega um þær aðstæður þegar unnt er „með auðveldum hætti“ að færa fisk milli kvía og þar með stilla lífmassa af eins og best hentar hverju sinni. Séu slíkar aðstæður uppi, þá verði að „halda þeirri breytu stöðugri“ við þá umbreytingu. Er um leið vísað til þess að áhættumat og burðarþol sé gefið út fyrir tiltekin hafsvæði. Þá er vikið að því að aukinn sveigjanleiki verði í framleiðslu í eldi í sjókvíum við að framleiðendur geti hagað framleiðslu sinni „á þann veg að þeir hámarki nýtingu lífmassa“, sem „getur leitt til hærri framleiðslu en lífmassa“.

Leiðbeiningar sem þessar um stjórnarframkvæmd geta ráðuneyti látið í té í krafti yfirstjórnarheimilda, sbr. 12. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands, þótt þau séu ekki bindandi með sama hætti og stjórnvaldsfyrirmæli, enda tilgangur þeirra annar og getur verið, svo sem hér hagaði til, að skýra ákvæði slíkra fyrirmæla. Í áðurnefndu bréfi Matvælastofnunar, dags. 25. ágúst 2022, kemur fram að stofnunin hafi haft hliðsjón af þessum leiðbeiningum með því að taka mið af „allri starfsemi“ kæranda „á því hafsvæði sem hér um ræðir“. Væri samanlögð heimild til ársframleiðslu kæranda í Fossfirði því 1.500 tonn. Var einnig vísað til þess að kærandi hefði í öðru rekstrarleyfi sínu í Arnarfirði, allt síðan árið 2016, haft heimild til að framleiða árlega 10.000 tonn af laxi á sex öðrum staðsetningum í Arnarfirði þar sem lífmassi væri um leið afmarkaður við 10.000 tonn.

—–

Í hinu kærða rekstrarleyfi eru ákvörðuð hnit eldissvæðisins og tekið fram að hámarkslífmassi sé 1.500 tonn. Skylt er skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008 að tilgreina hvort sjókvíaeldi sé kynslóðaskipt og er tekið fram að svo sé. Með kynslóðaskiptu eldi er átt við eldi einnar kynslóðar innan sama sjókvíaeldissvæðis. Fram hefur komið í málinu að rekstrarleyfið í Fossfirði heyrir til sama sjókvíaeldissvæðis og tvær aðrar staðsetningar kæranda í firðinum, þ.e. við Haganes og Steinanes, en á sjókvíaeldissvæðum er gert ráð fyrir að til sé að dreifa einum árgangi eldisfisks hverju sinni og samræming sé við útsetningu seiða og hvíld svæðis, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 540/2020.

Þær heimildir sem kærandi hefur til eldis í Arnarfirði samkvæmt leyfi FE-1105 getur hann hagnýtt á alls sex staðsetningum sem heyra til þriggja sjókvíaeldissvæða. Hann getur því sett sér framleiðsluáætlun við hagnýtingu leyfisins, sem tekur mið af forsendum um stærð seiða við útsetningu, en séu seiði stærri við útsetningu getur dregið úr afföllum og eldistími í sjó styst sem leitt getur til þess að nýting lífmassa verði „hámörkuð“, svo sem komist er að orði í leiðbeiningum ráðuneytisins frá 18. maí 2022. Engum sambærilegum aðstæðum er til að dreifa við nýtingu leyfisins í Fossfirði sem bundið er við eina staðsetningu. Til skýringar um þetta má athuga framleiðsluáætlun kæranda í Arnarfirði samkvæmt leyfi FE-1105 sem frá segir í fyrirspurn um matsskyldu framkvæmdar til Skipulagsstofnunar, dags. 1. september 2022. Þar má sjá af neðanfelldu línuriti (mynd 3.1) hvernig áætlað er að haga kynslóðaskiptu eldi félagsins samkvæmt leyfinu á þremur sjókvíaeldissvæðum þannig að lífmassi verði nýttur á skipulegan hátt án þess að framleiðslan í heild yfirstígi á nokkrum tíma viðmiðun hámarkslífmassa, 10.000 tonn.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar um hámarkslífmassa rekstrarleyfisins í Fossfirði var byggt á leiðbeiningum matvælaráðuneytisins um framkvæmd 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020 þar sem mælst var til þess að notast yrði við „ákveðinn stuðul“ sem geti gert að verkum að samræmi sé milli framleiðslumagns og hámarkslífmassa, en „allt annað“ en sá stuðull skuli „haldast óbreytt“. Af hálfu Matvælastofnunar var stuðst við stuðulinn 1:1 sem var til að gæta samræmis við annað leyfi kæranda í sama firði. Á það verður engu að síður að fallast með kæranda að framleiðsluheimildir hans í Fossfirði tóku í reynd verulegum breytingum með þessu, enda óumdeilt að litið var á framleiðsluheimild rekstrarleyfisins bæði í upphafi og í framkvæmd þannig að um væri að ræða meðaltalsheimild í kynslóðaskiptu fiskeldi í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi. Til að gæta fulls samræmis við hámarksframleiðslumagn hefði því verið rétt að ákvarða hámarkslífmassa hins kærða leyfis á þeim grundvelli sem kærandi hefur fært sjónarmið fyrir gagnvart Matvælastofnun og síðar úrskurðarnefndinni.

Þessi niðurstaða er byggð á þeirri forsendu að einungis sé mögulegt að hagnýta framleiðsluheimild hins kærða leyfis á einni staðsetningu í Fossfirði. Engu hagræði verði komið við til þess að bæta nýtingu framleiðsluheimildarinnar með kynslóðaskiptu eldi á öðrum staðsetningum eða eldissvæðum, enda standi engin heimild til slíkra ráðstafana í hinu kærða leyfi. Af þessu tilefni má vísa til leiðbeininga ráðuneytis þar sem segir að í sumum tilvikum séu landfræðilegar aðstæður þannig að unnt sé með auðveldum hætti að færa fisk milli kvía og þar með stilla lífmassa af eins og best hentar hverju sinni. Þá skuli halda „þeirri breytu stöðugri“ þegar framleiðslumagni sé breytt í hámarkslífmassa. Leitast er við að útskýra þetta nánar í framhaldi, þar sem segir: „Hugsa má þetta þannig að þegar verið er að ákvarða hver hámarkslífmassinn skuli vera, þá verður að halda þeirri breytu stöðugri að hægt sé að færa starfsemina úr firðinum og vera með kynslóðaskipt eldi. Það er ekki fyrr en þeirri breytu er haldið stöðugri sem hægt er að umbreyta framleiðslumagni yfir í lífmassa. Fær þessi nálgun aukinheldur stoð í því að hvoru tveggja burðarþol og áhættumat er gefið út á tiltekin hafsvæði.“

Við athugun á gögnum máls þessa vekur athygli að hinn 27. nóvember 2020 tilkynnti kærandi Skipulagsstofnun um fyrirhugaða tilfærslu eldisstarfsemi og eldissvæða í Arnarfirði skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, sem m.a. fól í sér sameiningu rekstrarleyfa kæranda í firðinum. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna var það niðurstaða stofnunarinnar, kunngjörð 4. júní 2021, að sú framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 9. s.m. sótti kærandi um tilfærslu eldisstarfsemi og eldissvæða félagsins í Arnarfirði og fól umsóknin m.a. í sér að rekstrarleyfið í Fossfirði yrði sameinað inn í leyfi FE-1105. Hefur ekkert komið fram í gögnum málsins sem bendir til annars en mögulegt sé að sameina leyfi félagsins í Arnarfirði, verði eftir því sótt, en kærandi féll frá þeim áformum vegna tímabundinna ástæðna sem greint er frá í málavöxtum. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti rökstuðningi Matvælastofnunar í hinni kærðu ákvörðun verður að álíta að heimilt sé að taka tillit til allrar starfsemi kæranda í Arnarfirði við ákvörðun lífmassa rekstrarleyfis hans í Fossfirði.

Af hálfu kæranda hafa verið færð fram rök fyrir því að við hina kærðu ákvörðun hafi verið litið til ákvæðis IX til bráðabirgða við lög um fiskeldi nr. 71/2008, sbr. 1. gr. laga nr. 59/2021, þar sem mælt er fyrir um að úthluta skuli opinberlega því magni í lífmassa sem heimilt geti verið að ala og er umfram heimildir í leyfum til fiskeldis, eins og þeim er ráðstafað með ákvæðum laganna, eins og þau voru eftir gildistöku laga nr. 101/2019 um breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Hefur ákvæðið að geyma fyrirmæli sem ætlanin er að tryggja að ekki sé gengið á slíkan lífmassa við breytingu á rekstrarleyfum í viðkomandi firði eða hafsvæði. Með því að ekki verður séð beinum orðum að Matvælastofnun hafi byggt á þessu ákvæði laganna, verður ekki tekin afstaða til þess hvort það hefði getað haft þýðingu fyrir hina kærðu ákvörðun, auk þess sem með þessu ákvæði er ekki fjallað um breytingu rekstrarleyfi úr framleiðslumagni í hámarkslífmassa.

Með vísan til alls framangreinds er ekki fallist á kröfu kæranda um að breyta hinni kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin mælist um leið til þess að Matvælastofnun veiti kæranda leiðbeiningar um hvernig standa megi að sameiningu rekstrarleyfa hans til fiskeldis í Arnarfirði, enda standi vilji hans til þess að hagnýta lífmassa þann sem tilgreindur er í rekstrarleyfi fiskeldis í Fossfirði með þeim hætti. Vakin er athygli á því að beiðni um þetta kann að þurfa bera undir Skipulagsstofnun til mats á því hvort sæta skuli mati á umhverfisáhrifum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. október 2022 um að endurnýja rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Fossfirði með 1.500 tonna hámarkslífmassa er óröskuð.

137/2022 Naustavör

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 137/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 2. júlí 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli við íbúð nr. 010406 að Naustavör 48.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar nr. 01–0407, að Naustavör 50, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 2. júlí 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli á þakverönd við íbúð nr. 01–0406 að Naustavör 48. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 10. janúar 2023.

Málavextir: Hinn 2. júlí 2021 samþykkti byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar umsókn um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakverönd við íbúð merkt 01–0406 að Naustavör 48. Fyrir liggur að á byggingartímanum var byggingarlýsingu hússins breytt nokkrum sinnum. Var m.a. sótt um stækkun íbúðar og svalarýmis við íbúðir á 4. hæð að Naustavör 48, uppsetningu svalaskjóls og svalaskýlis við íbúðir að Naustavör 44–50.

Forsaga málsins er sú að á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 3. febrúar 2020 var lögð fram tillaga f.h. lóðarhafa Naustavarar 44–50 að breytingu á deiliskipulagi bryggjuhverfis við Kársnes. Tillagan fól í sér stækkun íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48, merkt 01-0407, og stækkun þaksvala sömu íbúðar til austurs. Var tillagan samþykkt á fundi skipulagsráðs 11. febrúar s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. apríl s.á.

Byggingarfélag Gunnars og Gylfa sótti um byggingarleyfi fyrir stækkun íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48, merkt 01–0406, og stækkun þaksvala sömu íbúðar 24. apríl 2020. Var umsóknin samþykkt 29. maí s.á. Eigendur þeirrar íbúðar sóttu um byggingarleyfi fyrir glerskýli með glerþaki á þaksvölum íbúðarinnar 11. maí 2021. Sama dag sótti hönnuður hússins um breytingu á byggingarlýsingu Naustavarar 44–50, á þann veg að gert yrði ráð fyrir glerskýldu sólskýli með léttu þaki á hluta íbúðar merkt 01–0406. Fram kemur í byggingarlýsingunni að svalaskýlið sé ekki skilgreint sem lokað rými þar sem útiloft getur leikið um rýmið óhindrað. Var byggingarlýsingin og byggingarleyfið vegna svalaskýlisins samþykkt af byggingarfulltrúa 2. júlí 2021.

 Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi keypt fasteign sína að Naustavör 50 í nóvember 2020. Við undirritun kaupsamnings, dags. 16. desember 2020, hafi legið fyrir öll helstu skjöl vegna fasteignarinnar, s.s. eignaskiptasamningur vegna Naustavarar 44–50. Í kaupsamningi hafi einungis verið fyrirvari um breytingar vegna tæknilegra útfærslna.

Kæranda hafi fyrst verið kunnugt um að byggt hafi verið sólskýli við íbúð 01–0406 að Naustavör 48 þegar hann hafi komið heim úr sumarleyfi sumarið 2022. Við nánari athugun hafi hann komist að því að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafði samþykkt breytingu á fasteigninni 2. júlí 2021, án sinnar vitundar. Hafi breytingin því aldrei verið borin undir aðra eigendur í húsinu. Um sé að ræða verulega útlitsbreytingu á fasteigninni auk þess sem breytingin hafi orðið til skerðingar á útsýni frá íbúð hans.

Hinn 13. maí 2022, um leið og kæranda hafi orðið þetta ljóst, hafi hann sent fyrirspurn til Kópavogsbæjar og óskað eftir gögnum frá byggingarfulltrúa vegna sólskýlisins. Þau gögn hafi borist með tölvupósti 9. nóvember s.á. og hafi kæranda þá fyrst verið unnt að kæra málið til úrskurðarnefndarinnar.

Leyfi til byggingar umþrætts sólskýlis hafi falið í sér breytingu á ásýnd húseignarinnar og hafi því verið háð samþykki allra eigenda, eða a.m.k. þeirra sem bygging sólskýlisins hafi áhrif á. Þar sem ekki hafi verið leitað eftir því beri að fella byggingarleyfið úr gildi.

 Málsrök Kópavogsbæjar: Rakin er forsaga málsins og m.a. vísað til þess að arkitekt og hönnuður hússins að Naustavör 44–50 hafi sótt um breytingu á byggingarlýsingu, dags. 16. október 2018. Var í umsókninni óskað samþykkis fyrir því að kaupendur íbúða gætu sett upp svalaskjól úr hertu 8 mm opnanlegu gleri, Lumon (CCME vottaðar svalalokanir) eða sambærilegu kerfi á svalir garðmegin. Ekki skyldi setja svalaskjól á svalir á norðurhlið né austurhlið, nema horníbúðir sjávarmegin á norðausturhorni hússins. Hafi umsóknin verið samþykkt af byggingarfulltrúa 29. maí 2020. Þá hafi þessar breytingar á byggingarlýsingu verið á fokheldisvottorði hússins sem gefið hafi verið út 20. október 2020.

Þegar kærandi hafi fest kaup á íbúð sinni hafi verið fyrirvari í kaupsamningi um að seljendur áskildu sér rétt til að láta breyta teikningum hússins á byggingartímanum í samráði við arkitekt og hönnuði hússins. Þá hafi einnig komið fram að húsið að Naustavör 44–50 væri enn á byggingarstigi og að hann sem kaupandi hafi kynnt sér teikningar gaumgæfilega og gerði engar athugasemdir við þær. Hafi lokaúttekt hússins farið fram 10. mars 2022 og í kjölfarið hafi byggingarfulltrúi gefið út lokavottorð 17. mars s.á.

Naustavör 44–50 sé innan deiliskipulags bryggjuhverfis á Kársnesi sem hafi tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl 2005. Í greinargerð með skipulaginu, kafla 2.6., sé fjallað um almenn atriði um utanhússhönnun bygginga á svæðinu, þ.m.t. Naustavarar 48–50. Þar segi að þegar tvö eða fleiri stigahús séu í sömu byggingu skuli varast að líta á hana sem eina heild, en heldur skuli líta á hvert stigahús sem augljósa einingu. Þá komi m.a. fram að svalir og útistandandi gluggar geti verið utan byggingarreita og einnig yfir gangstígum utan lóðar, sé hæð undir það minnst 2,8 m.

Með breytingu á deiliskipulagi fyrir Naustavör 44–50, sem samþykkt hafi verið á fundi skipulagsráðs 3. febrúar 2020 og síðar á fundi bæjarstjórnar 11. febrúar s.á., hafi þaksvalir íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48 verið stækkaðar til austurs. Í framhaldi af samþykkt byggingarfulltrúa á byggingarlýsingu fyrir íbúðina, dags. 2. júlí 2021, hafi verið heimilt að samþykkja byggingarleyfi fyrir glerskýli íbúðarinnar. Hafi það verið mat byggingarfulltrúa að glerskýlið rúmaðist innan samþykktrar teikningar fjölbýlishússins í skilningi 1. mgr. 29. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Af eðli máls og framangreindum sjónarmiðum leiði að nýting umþrættrar byggingarheimildar íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48 sé ekki háð samþykki sameigenda skv. 2. mgr. 28. gr. laga um fjöleignarhús og hafi því byggingarleyfishafa verið heimilt að uppfylltum þeim ákvæðum að ráðast í framkvæmdir að fengnu byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. 29. gr. sömu laga.

Ákvörðun byggingarfulltrúa frá 2. júlí 2021 hafi samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. III. kafla laganna og kafla 4.2. og 4.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2010. Séu því engin skilyrði til að fallast á kröfu kæranda að lögum.

 Loks er bent á að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júlí 2021. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 6. desember 2022 og hafi þá verið liðnir 17 mánuðir frá upphafi kærufrests. Hafi kærufrestur því verið löngu liðinn og vísa beri kröfunni frá sbr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé skv. 2. mgr. 28. gr. sömu laga óheimilt að sinna kæru sé meira en ár liðið frá töku ákvörðunar.

 Málsrök leyfishafa: Vísað er til þess að kæranda hafi verið ljóst að byggingarfulltrúi hafi gefið út umþrætt byggingarleyfi 2. júlí 2021. Hafnað sé skýringum kæranda um að miða skuli kærufrest við 9. nóvember 2022. Sé það í ósamræmi við gögn málsins og ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í samþykkt byggingarfulltrúa frá 2. júlí 2021 sé sérstaklega tekið fram að umsóknin samrýmist lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi því umsækjendur verið í góðri trú um að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafi gætt þeirra laga- og reglugerðarákvæða, sem um framkvæmdina gildi.

Í þeim bakhluta íbúðar kæranda sem vísað sé til að útsýni skerðist séu þrjú svefnherbergi með litlum gluggum. Sé því um að ræða litla eða enga útsýnisskerðingu. Í þeim hluta íbúðar kæranda sem snúi í austur sé stofan og svalir og sjáist svalaskýlið ekki þaðan. Því verði að líta svo á að svalaskýlið skerði hagsmuni kæranda óverulega eða ekkert.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda eru ítrekuð sjónarmið um kærurétt, en beiðni hans um upplýsingar hafi ekki verið svarað af Kópavogsbæ fyrr en 9. nóvember 2022 og þá fyrst hafi honum verið mögulegt að kæra málsmeðferð bæjarins í máli þessu. Þá eru áréttaðar athugasemdir að kaupendur íbúðanna, þar á meðal kærandi, hafi einungis undirritað samþykki fyrir því að breytingar yrðu gerðar á tæknilegum útfærslum. Bygging svalaskýlis geti ekki talist til tæknilegra breytinga, heldur til breytingar á séreignarhluta íbúðar, sem hafi veruleg áhrif á útsýni kæranda úr íbúð sinni. Þegar kærandi gerði kaupsamning hafi legið fyrir að svalir fylgdu íbúð merktri 01–0406, en það sé eðli máls allt annað en svalaskýli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs frá 2. júlí 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli við íbúð merktri 01–0406 að Naustavör 48. Þá er einnig deilt um þýðingu yfirlýsingar í kaupsamningi um eignina og hvort kæra hafi borist úrskurðarnefndinni innan lögbundins kærufrests. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að.

Í kæru greinir frá því að kæranda hafi fyrst verið kunnugt um framkvæmdir við svalaskýlið þegar hann kom heim úr sumarleyfi sumarið 2022 og komst þá að því að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafði samþykkt byggingarleyfi til breytingar á fasteigninni 2. júlí 2021. Verður að ætla af þessu að framkvæmdir hafi ekki hafist við mannvirkið fyrr en þá um vorið, en staðhæfing kæranda um þetta rekst ekki á við umsagnir Kópavogsbæjar og leyfishafa. Kærandi sendi án tafar fyrirspurn 13. maí 2022 til Kópavogsbæjar og óskaði eftir gögnum frá byggingarfulltrúa. Umrædd gögn bárust honum ekki fyrr en með tölvupósti 9. nóvember s.á. Verður af þeim sökum að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, og verður málið því tekið til efnismeðferðar. 

Í 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er fjallað um útgáfu byggingarleyfis. Þar kemur fram í 1. tl. að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirkið og notkun samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið frá 27. apríl 2005 kemur fram í grein 2.6 að þegar tvö eða fleiri stigahús séu í sömu byggingu skuli varast að líta á hana sem eina heild, en heldur skuli líta á hvert stigahús sem augljósa einingu. Þá kemur m.a. fram að svalir og útistandandi gluggar geti verið utan byggingarreita og einnig yfir gangstígum utan lóðar, sé hæð undir það minnst 2,8 m. Ekki er fjallað um gerð svalaskýla í umræddu deiliskipulagi.

Verktaki sá sem byggði húsið að Naustavör 44–50 sótti um breytingu á deiliskipulagi þess, 3. febrúar 2020, sem fól í sér stækkun á íbúð á 4. hæð, merkt 01–0407, að Naustavör 48 og stækkun þaksvala sömu íbúðar til austurs. Var tillagan samþykkt 11. febrúar s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. apríl s.á. Í deiliskipulagsbreytingunni var því eingöngu gert ráð fyrir framangreindum breytingum á íbúð merktri 01–0407, en ekki var getið um eða sýnt að gert væri ráð fyrir svalaskýli. Í framhaldi sótti verktakinn um byggingarleyfi fyrir stækkun íbúðar og þaksvala í sama stigahúsi og á sömu hæð, merktri 01–0406, sem er sú íbúð þar sem búið er að reisa hið umþrætta svalaskýli. Var umsóknin samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 29. maí s.á.

Samkvæmt 8. tl. 5. gr. laga um fjöleignarhús er innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala hluti af séreign í fjöleignarhúsi. Hins vegar kemur þar einnig fram að húsfélag hafi ákvörðunarvald um allar breytingar, búnað og annað á svölum sem áhrif hafi á útlit hússins og heildarmynd. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um hvað skuli fylgja með umsókn um byggingarleyfi. Þar segir að í fjöleignarhúsum þurfi að liggja fyrir samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús. Þá kemur einnig fram í 1. mgr. 30. gr. sömu laga að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Í 2. mgr. er kveðið á um að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi í för með sér breytingar á sameign, utan húss eða innan, sem þó geti ekki talist verulegar, þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir.

Eins og að framan greinir var það mat byggingarfulltrúa að glerskýlið rúmaðist innan samþykktrar teikningar fjölbýlishússins í skilningi 1. mgr. 29. gr. laga nr. 26/1994 og sé ekki háð samþykki sameigenda skv. 2. mgr. 28. gr. sömu laga. Það liggur fyrir að arkitekt hússins að Naustavör 44–50 sótti um breytingu á byggingarlýsingu 16. október 2018. Var í umsókninni óskað samþykkis fyrir því að kaupendur íbúða gætu sett upp svalaskjól úr hertu 8 mm gleri. Var breytingin samþykkt af byggingarfulltrúa 29. maí 2020. Fokheldisvottorð fyrir Naustavör 44–50 var gefið út 20. október 2020 og voru breytingarnar á byggingarlýsingu hússins dagsettar í umræddu vottorði.

Eigandi íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48, merkt 01–0406, sótti um byggingarleyfi fyrir glerskýli með glerþaki á þaksvalir íbúðarinnar 11. maí 2021. Sama dag sótti hönnuður hússins um breytingu á byggingarlýsingu Naustavarar 44–50, á þann veg að gert væri ráð fyrir glerskýldu sólskýli með léttu þaki á hluta þaksvala íbúðar á 4. hæð að Naustavör 48, merkt 01–0406. Fram kemur í byggingarlýsingunni að svalaskýlið sé ekki skilgreint sem lokað rými þar sem útiloft geti leikið um rýmið óhindrað. Byggingarfulltrúi samþykkti umbeðnar breytingar byggingarlýsingar á íbúðinni 2. júlí. 2022.

Þegar nýbygging eins og um ræðir í máli þessu verður fokheld skal eignarskiptayfirlýsing liggja fyrir og þinglýst sbr. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 26/1994. Í eignaskiptayfirlýsingu skal koma fram hvort séreignarhluta fylgi annars sérstakur réttur til byggingar ofan á eða við hús eða á lóð þess sbr. 6. tl. 17. gr. sömu laga.

Í deiliskipulagi bryggjuhverfis við Kársnes frá 2005, er fjallað um svalir og útistandandi glugga. Deiliskipulagið girðir ekki fyrir byggingu sólskýlis á þaki, innan byggingarreits. Stóð deiliskipulag því ekki í vegi fyrir þeim breytingum á byggingarlýsingu íbúðarinnar á 4. hæð að Naustavör 48, sem um er deilt í máli þessu.

Vegna sjónarmiða sem hafa komið fram í málinu verður að benda á að ágreiningur um gildi og innihald fyrirvara í kaupsamningi verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni. Slíkur ágreiningur á eftir atvikum undir lög um fjöleignarhús eða dómstóla.

Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 2. júlí 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli við íbúð merkt 01–0406 að Naustavör 48 látin óröskuð.

Úrskurðarorð:

 Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 2. júlí 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli við íbúð merkt 01–0406 að Naustavör 48, er óröskuð.

102/2022 Skor

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 29. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Helga J. Bjarnadóttir efna- og umhverfisverkfræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður, Kristín Benediktsdóttir dósent og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

 Fyrir var tekið mál nr. 102/2022, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5.  ágúst 2022, um að gefa út starfsleyfi til 12 ára fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 24.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. september 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir stjórn húsfélags Geirsgötu 2–4 og eigendur og íbúar 16 íbúða í fasteigninni að Kolagötu 1, áður Geirsgötu 2, og 19 íbúða í fasteigninni að Kolagötu 3, áður Geirsgötu 4, í Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. ágúst 2022 að veita Rollsinum ehf. starfsleyfi til 12 ára. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 14. október 2022.

Málavextir: Hinn 21. september 2021 sótti Rollsinn ehf. um byggingarleyfi hjá Reykjavíkurborg, til að breyta rýmum á jarðhæð í fasteigninni að Geirsgötu 2–4 og innrétta sem veitingastað í flokki III. Beiðninni var synjað þar sem gildandi aðalskipulag Reykjavíkurborgar kæmi í veg fyrir að slíkt leyfi yrði veitt á því svæði. Hinn 5. október s.á. var lögð fram önnur umsókn þar sem sótt var um heimild til að breyta rýmum í eigninni og innrétta þar veitingastað í flokki II. Var leyfi til þess látið í té með áskilnaði um lokaúttekt byggingarfulltrúa og samþykki heilbrigðiseftirlits.

Að loknum þessum framkvæmdum, 9. nóvember 2021, var sótt um rekstrarleyfi fyrir veitingastað í flokki II, samkvæmt lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hinn 15. nóvember s.á. var leyfi veitt til eins mánaðar með vísan til þess að, Reykjavíkurborg hafði lagst gegn útgáfu þess þar sem lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna breytinga á rými í eigninni lá ekki fyrir. Lokaúttektin fór fram um miðjan mars 2022 og veitti byggingarfulltrúi í framhaldinu jákvæða umsögn vegna veitingastaðar í flokki II. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur veitti einnig jákvæða umsögn um rekstur veitingastaðar í flokki II í rýminu með því skilyrði að rekstraraðili gerði allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir ónæði í samræmi við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og ákvæði 22. gr. reglugerðar nr, 941/2002, um hollustuhætti með síðari breytingum. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út rekstrarleyfi 29. mars 2022 með framangreindum skilyrðum heilbrigðiseftirlits og byggingarfulltrúa.

Samhliða þessu gaf Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur út tímabundið starfsleyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II og gilti það frá lokum marsmánaðar til 25. júní 2022 með vísan til þess að ekki lægi fyrir að grenndaráhrif væru óveruleg fyrir íbúa eða að staðurinn héldi hljóði. Fyrir lá hljóðvistarhönnunarskýrsla frá húsbyggjanda. Var það forsenda hljóðvistarhönnunar að í rýminu væri verslunar- og þjónustustarfsemi og benti heilbrigðiseftirlitið á að hljóðhönnun og einangrun virtist ekki gera ráð fyrir slíkri starfsemi sem leyfishafi ætlaði að reka í rýminu. Í hið tímabundna starfsleyfi voru af þessu tilefni sett sértæk starfsleyfisskilyrði um hljóðvist. Við útgáfu leyfisins var aflað gagna frá byggingafulltrúa og kom fram af hans hálfu að ekki væri krafist hljóðmælinga vegna veitingastaða í flokki II, en auk þess hefðu íbúar í húsinu neitað leyfishafa, eða verkfræðistofu á hans vegum, um aðgang til hljóðmælinga í íbúðum.

Á gildistíma hins tímabundna leyfis bárust heilbrigðiseftirlitinu kvartanir vegna hávaða og ónæðis, m.a. frá hluta kærenda. Nokkur samskipti voru við íbúa húseignarinnar, farið var í eftirlit í íbúðir og haldinn fundur með íbúum í húsinu. Þann 15. júní 2022 sendu kærendur erindi til eftirlitsins vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á starfsleyfinu. Óskað var upplýsinga um hvort rekstraraðili hafi sýnt fram á það með raunmælingum að hljóðvist staðarins væri í samræmi við þær kröfur sem settar væru fram í framangreindum reglugerðum um hávaða og reglugerð um hollustuhætti. Einnig var óskað eftir öllum gögnum er vörðuðu hljóðmælingar í rýminu. Þá var því sjónarmið lýst að í eðli sínu væri um að ræða rekstur veitingastaðar í flokki III og var óskað eftir því að eftirlitið legði mat á flokkun staðarins í skilningi gildandi laga og reglna. Að endingu var upplýst um að á fasteignunum að Geirsgötu 2–4 (Kolagötu 1–3), Tryggvagötu 21, 23, 25 og 27 og Kalkofnsvegi 2, hvíldi þinglýst „yfirlýsing um kvöð / sérstök húsfélagssamþykkt“ frá 18. desember 2018, sem mælti fyrir um ráðstöfunarheimildir sameignar í húsinu að Geirsgötu 2–4.

Hinn 20. júní 2022 lagði leyfishafi fram hljóðvistarskýrslu fyrir veitingastaðinn sem unnin var af hljóðverkfræðingi. Í henni kom fram að hljóðeinangrun veitingastaðarins væri ófullnægjandi og voru lagðar til fjölmargar úrbætur. Leyfishafi lagði fram tímasetta áætlun um úrbætur sem byggði á skýrslunni jafnframt því að hann sóttist eftir tímabundnu leyfi til eins mánaðar meðan unnið væri að úrbótum.

Hinn 27. júní s.á. var leyfishafa veitt tímabundið starfsleyfi til veitingastaðarins til eins mánaðar. Um leið gerði heilbrigðiseftirlitið athugasemdir við að ekki hafi verið skilað inn fullnægjandi gögnum um hljóðvist veitingastaðarins, en auk þess hafi eigin hljóðmælingar sýnt fram á að hávaði á staðnum hafi ítrekað farið yfir leyfilegt jafngildishljóðstig. Fram kom að spiluð hefði verið tónlist fram yfir leyfilegan opnunartíma staðarins og að þar með hafi leyfishafi ekki virt þær skyldur sem á hann höfðu verið lagðar. Tekið var fram að áður en hægt væri að taka starfsleyfisumsókn til 12 ára til meðferðar yrði leyfishafi að senda heilbrigðiseftirlitinu gögn til staðfestingar á því að hljóðvist staðarins væri orðin fullnægjandi með tilliti til 7. og 8. gr. reglugerðar um hávaða nr. 724/2008, og skyldi notast við viðurkennda aðferðafræði og gögn. Þar sem lægi fyrir að veitingastaðurinn valdi nágrönnum miklu ónæði og að rekstraraðili gæti ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 22. gr. reglugerðar um hollustuhætti var opnunartími veitingastaðarins takmarkaður við kl. 23:00 alla daga vikunnar.

Hinn 25. júlí 2022 lét leyfishafi heilbrigðiseftirlitinu í té skýrslu sína um framkvæmdar úrbætur á hljóðvist veitingastaðarins, minnispunkta hljóðverkfræðings eftir úttekt á úrbótum, staðfestingu á stillingu hljóðhemils (e. limiter), úrbótaskýrslu, myndir af úrbótum ásamt staðfestingu verkfræðings á skoðun á loftræsingu, sem sýndu fram á að loftræsikerfi eldhúss væri skilið frá annarri loftræsingu, en athugasemdir höfðu komið fram um lyktarmengun við meðferð málsins. Í minnispunktum hljóðverkfræðingsins var staðfest að úrbætur væru í samræmi við leiðbeiningar hans, en um leið bent á að meta yrði hljóðeinangrun milli hæða með hljóðmælingum. Án þeirra væri ekki hægt að færa sönnur á að hljóð bærist í raun frá leyfishafa, en ekki annars staðar frá.

Við skil skýrslunnar óskaði leyfishafi eftir því að tekið yrði tillit til þess að fyrirhugað hafi verið að hljóðmæla 25. júlí, en nágrannar og húsfélag hafi ekki fengist til að leyfa þær og að afstaða yrði tekin í málinu áður en bráðabirgðaleyfið rynni út, þ.e. 28. júlí nk. Tekið var fram að synjað hefði verið um sambærilega mælingu 16. mars 2022. Þá hafi verið send beiðni um þátttöku í hljóðmælingum í húsinu til stjórnar húsfélagsins 15. júlí s.á. og í framhaldinu haldinn fundur með lögmönnum húsfélagsins 20. júlí s.m. Hafi fyrirtækið sem ráðgert hafi verið að fá til hljóðmælinga 25. júlí s.m. verið fremsta fyrirtæki landsins í faglegri ráðgjöf og hljóði og tækjabúnaði. Lögmenn húsfélagsins hafi fengið allar upplýsingar sem heilbrigðiseftirlitið hafi sent leyfishafa og hefði ekki átt að koma neinum á óvart að hljóðmælingin væri ráðgerð.

Í tölvupósti 22 júlí 2022 frá lögmanni íbúa í húsinu til leyfishafa, sem heilbrigðiseftirlitinu barst 25. júlí s.á., segir að ekkert samráð hafi verið haft við stjórn húsfélagsins um forsendur mælingar, aðferðafræði, tímasetningu eða annað sem máli skipti. Greint var frá fundinum 20. júlí s.á. og að lýsing á fyrirhugaðri mælingu hafi í framhaldinu borist húsfélaginu. Stjórn húsfélagsins geti ekki tekið afstöðu til þess hvort hún mælist til þess að veittur verði aðgangur að íbúðum í húsinu til hljóðmælinga vegna takmarkaðrar þekkingar á hljóðmælingum. Var um leið fjallað um aðrar athugasemdir sem íbúar í húsinu hafa haft við starfsemi veitingastaðarins, m.a. vegna lyktar, reykinga í götunni, slæmrar umgengni o.fl. Því taki hljóðmælingin til „afar takmarkaðs þáttar þess ónæðis sem hlýst af starfsemi[nni]“.

Í tölvupóstinum frá 22. júlí 2022 var jafnframt tekið fram að stjórn húsfélagsins hafi „afar litla tiltrú“ á að mæling sem fari fram utan „rauntíma“ starfsemi veitingastaðarins, hafi þýðingu þegar leggja skuli mat á ónæði. Muni stjórnin „eftir fremsta megni“ reyna að afla þeirra upplýsinga sem hún telur nauðsynlegar, áður en hún geti tekið afstöðu til beiðni leyfishafa um aðgengi að íbúðum hússins vegna ætlaðra mælinga. Tekið sé þó fram og ítrekað að „endanleg ákvörðun“ um aðgengi að íbúðum sé háð samþykki eigenda hverrar íbúðar um sig. Stjórnin geti einvörðungu sett fram tilmæli um þetta.

Með tölvupósti 27. júlí 2022, óskaði heilbrigðiseftirlitið eftir aðgangi að íbúðum fyrir ofan veitingastaðinn til mælinga á hljóði og var gerð grein fyrir því hvernig að mælingum yrði staðið. Var erindið sent á lögmenn íbúa, formann húsfélagsins Geirsgötu 2–4 og eigendur íbúðar 205 á annarri hæð beint fyrir ofan staðinn. Var óskað svara við þessari beiðni fyrir miðvikudaginn 3. ágúst s.á. Í svari lögmanns kærenda kom fram að ekki væri unnt að ná fundi með umbjóðendum hans fyrr en 8. ágúst og var því óskað eftir að veittur yrði frestur til 9. ágúst til að svara beiðninni. Þann 29. júlí s.á. hafnaði heilbrigðiseftirlitið þeirri beiðni. Engin svör virðast hafa komið frá eiganda íbúðar 205. Beiðni um frestun mælinga var ítrekuð 1. ágúst og kom fram að lögmenn íbúa, stjórnarmenn húsfélagsins og eigendur íbúðanna fyrir ofan veitingastaðinn þar sem óskað var eftir mælingum væru í sumarleyfum utan Reykjavíkur og yrðu áfram. Því væri ómögulegt að verða við þessari beiðni með svo litlum fyrirvara. Voru um leið færð fram margvísleg sjónarmið sem vörðuðu starfsemi leyfishafa, skilyrði til útgáfu hins umþrætta starfsleyfis og hagsmuni íbúðareigenda af því að starfsemin yrði ekki heimiluð.

Með tölvupósti heilbrigðiseftirlitsins til lögmanns íbúa, formanns húsfélagsins og eigenda nokkurra íbúða, m.a. íbúðar 205, þann 3. ágúst 2022 var vísað til þess að íbúðareigendur hefðu haft nógan tíma til að gera upp við sig hvort þeir heimiluðu hljóðmælingar í íbúðum. Þá vær eftirlitinu skylt að afgreiða starfsleyfisumsóknir svo fljótt sem unnt væri. Vegna þessara aðstæðna hygðist eftirlitið leita annarra leiða til að staðfesta hljóðvist staðarins svo hægt væri að ljúka afgreiðslu starfsleyfis. Tilgangur mælinganna væri að meta hvort úrbætur þær sem leyfishafi hefði ráðist í hefðu náð þeim árangri sem að var stefnt. Um leið var ítrekað mikilvægi þess að hljóðmælingar færu fram þar sem íbúar teldu sig verða fyrir ónæði. Var jafnframt bent á að íbúar gætu alltaf óskað eftir því við heilbrigðiseftirlitið að það kæmi til hljóðmælinga í íbúðum þeirra.

Fimmtudaginn 4. ágúst 2022 voru framkvæmdar hljóðmælingar af heilbrigðiseftirlitinu að Geirsgötu 2–4. Við mælingarnar var stuðst við leiðbeiningar Umhverfisstofnunar frá 2011 og hljóðvistarstaðalinn ÍST 45:2016. Fóru mælingarnar fram á tímabilinu kl. 23:00–00:00 á sameiginlegum gangi fyrir framan íbúðir 201 og 205, sem eru staðsettar fyrir ofan veitingastaðinn og eins nærri hljóðuppsprettu og hægt var að komast án aðgengis að íbúðum. Við hljóðmælingu í karókírými var hljóðstyrkur á hámarksstillingu. Í meginrými var hljóðkerfi stillt á 75 dB(A), sem er það hljóðstig sem það rými hefur haft leyfi fyrir og hljóðhemill er stilltur á. Við mælingarnar voru notaðar eftirfarandi mælieiningar: LAeqT, sem er jafngildishljóðstig með A-síu yfir tímann T, LAFmax, sem er hæsta hljóðbil, Fast (125ms), með A-síu, og LCpeak, sem er hæsti hljóðtoppur með C-síu.

Í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins um hljóðmælinguna 4. ágúst 2022 kemur fram að þar sem ekki gafst færi á að hljóðmæla innan íbúða var ekki stuðst við þau viðmiðunarmörk fyrir íbúðarhúsnæði á miðsvæðum, 30 dB(A), sem fram koma í töflu III í viðauka við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Var því stuðst við viðmiðunargildi fyrir hljóðflokka mismunandi húsnæðis samkvæmt hljóðvistarstaðli ÍST 45:2016, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar, en í kafla 6 í staðlinum eru gefin upp viðmiðunarmörk fyrir hljóðflokka á íbúðarhúsnæði. Tekið er fram að þar sem hljóðmæling hafi farið fram á gangi fyrir framan íbúðir á annarri hæð hafi verið stuðst við viðmiðunarmörk fyrir ganga og tengirými í byggingum. Mælingarnar hafi sýnt að lítill munur væri á bakgrunnshljóðstigi og mælingu með hljóðkerfi í gangi sem benti til þess að hljóðeinangrun milli hæða væri í samræmi við upphaflega hljóðhönnun húsnæðisins. Bakgrunnshljóðstig hafi einnig reynst yfir mörkum og hafi því ekki verið unnt að staðfesta að sá hávaði sem kvartað hafi verið yfir að bærist milli hæða hafi einungis verið af völdum leyfishafa. Hafi hljóðmælingarnar verið innan marka 40 dB(A) jafngildishljóðstigs fyrir bæði ganga og tengibyggingar samkvæmt hljóðvistarstaðli ÍST 45:2016 (35 dB(A) en aðrar reglur gildi um einungrunargildi og hljóðhönnun fyrir slík rými en gildi um íbúðarhúsnæði, svo sem rakið er í skýrslunni.

Kærendur sendu fyrirspurn um stöðu á útgáfu starfsleyfis 8. ágúst 2022. Var þeirri fyrirspurn svarað 9. ágúst s.á. þar sem fram kom að gefið hefði verið út starfsleyfi til veitingastaðarins, dags. 5. ágúst s.m. til 12 ára fyrir veitingastað í flokki II.

 Málsrök kærenda: Kærendur telja að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi verið óheimilt að veita Rollsinum ehf. starfsleyfi 5. ágúst 2022 til 12 ára til reksturs veitingastaðar í fasteigninni að Geirsgötu 2–4.

Kærendur telja að rekstur staðarins teljist til reksturs veitingastaðar í flokki III (skemmtistaður) í skilningi gildandi laga og reglna sem óheimilt sé að starfrækja á því svæði sem um ræði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur. Að auki sé líklegt að reksturinn brjóti gegn þinglýstri kvöð sem hvíli á eigninni og húsfélagssamþykkt. Þá beri að hafa til hliðsjónar að ekki sé einungis um að ræða stjórnvaldsákvörðun sem verði að uppfylla þær kröfur sem lög og reglur geri til slíkra ákvarðana, heldur sé einnig um að ræða stjórnarskrárvarin réttindi íbúðaeigenda sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Verði því að gera enn meiri kröfur en ella til rannsóknar, undirbúnings og rökstuðnings ákvörðunar stjórnvalds í tilvikum sem þessu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af reynslu af rekstri staðarins sl. mánuði og fyrirliggjandi gögnum, liggi t.a.m. fyrir að rekstraraðili hafi ítrekað brotið gegn skilyrðum eldri tímabundinna starfsleyfa. Að auki liggi ekki fyrir fullnægjandi gögn varðandi hljóðvist í rýminu er sýni fram á að reksturinn valdi ekki og muni ekki valda hávaða og ónæði. Þvert á móti sé reynslan sú að frá því umþrætt starfsleyfi var gefið út 5. ágúst 2022 berist enn mikill hávaði frá starfseminni upp í nærliggjandi íbúðir. Í raun hafi litlar sem engar breytingar orðið á hljóðvist eftir að meintar endurbætur hafi verið gerðar á rýminu. Rannsókn heilbrigðiseftirlitsins á hljóðvist sem fram hafi farið í byrjun ágúst 2022 geti á engan hátt talist fullnægjandi, enda hafi aðeins verið um að ræða punktmælingu á hljóðvist, þegar engir gestir hafi verið á staðnum og reksturinn ekki í gangi. Verði að teljast augljóst að til þess að slík mæling sé marktæk verði hún að vara í einhvern tíma og þá á meðan starfsemin sé í fullum gangi.

Ekki liggi fyrir að rekstraraðili muni eða geti til framtíðar uppfyllt hin sértæku starfsleyfisskilyrði sem heilbrigðiseftirlitið hafi sett fyrir áframhaldandi rekstri eða hin almennu skilyrði laga sem gildi um hávaða og ónæði frá rekstrinum. Þar af leiðandi hafi í reynd ekki verið heimilt að lögum að veita umþrætt starfsleyfi, þar sem lögbundin skilyrði fyrir rekstrinum hafi ekki verið uppfyllt.

 Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er bent á að á lóðinni Geirsgötu 2–4 gildi almennar miðborgarheimildir samkvæmt aðalskipulagi. Samkvæmt þeim séu heimilar allar tegundir veitingahúsa í flokki I-III, að skemmtistöðum undanskildum. Þá megi opnunartíminn vera lengst til kl. 03:00 um helgar og séu útiveitingar heimilar til kl. 23:00. Það sé í höndum leyfisveitanda og lögreglu að meta þætti sem varði þörf á eftirliti og/eða löggæslu. Hlutverk heilbrigðiseftirlitsins sé að gefa umsögn um framangreinda flokkun á krám í flokk II eða flokk III og sé það metið eftir líklegum grenndaráhrifum skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Við matið séu margir þættir sem spili inn í og megi þar nefna t.d. staðsetningu, hljóðvist, opnunartíma, hvernig tónlist er spiluð og fleira. Umsagnir annarra umsagnaraðila komi því meðal annars inn í umrætt mat á grenndaráhrifum.

Þá beri að nefna að umsækjendur sem sæki um rekstrarleyfi í flokki III staðfesti með umsókn sinni að fyrirhugað sé að spila háværa tónlist og að aðaláhersla veitinga séu áfengisveitingar. Af því leiði að veitingastaðir í flokki III séu taldir líklegir til að valda grenndaráhrifum. Af þeim ástæðum fari heilbrigðiseftirlitið fram á að í þeim tilvikum sé gerð grein fyrir hljóðvist á staðnum og það megi t.d. gera með hljóðvistarskýrslu. Markmiðið sé að umsóknaraðili sýni fram á að grenndaráhrif verði innan þeirra marka sem sett eru fram í lögum, reglugerðum eða stöðlum um hávaða og hljóðvist. Ekki séu gerðar sömu kröfur til umsækjenda sem sækja um starfsleyfi vegna veitingastaða í flokki II, enda ekki talið að sú starfsemi muni valda ónæði í nágrenninu. Algengast sé að krár sæki um rekstrarleyfi í flokki II, enda oftast spiluð lágvær tónlist og gert ráð fyrir að gestir geti talað saman inni á staðnum.

Í 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sé veitingastöðum skipt í tegundir. Þar sé skilgreiningin á krá á þann veg að um sé að ræða veitingastað með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat, þar sem aðaláhersla sé lögð á áfengisveitingar og langan afgreiðslutíma. Ekki sé um skemmtistað að ræða enda sé hvorki boðið upp á fjölbreyttar veitingar á staðnum né sé lögð áhersla á dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma. Skilgreining á tegund umrædds veitingastaðar sem krá í útgefnu starfsleyfi samrýmist téðri reglugerð.

Í framhaldi af eftirliti á staðnum hafi verið gerðar þær kröfur af hendi heilbrigðiseftirlitsins að rekstraraðili sýndi fram á að grenndaráhrif væru óveruleg fyrir íbúa, að veitingastaðurinn héldi hljóði og að fram færu hljóðmælingar sem sýndu fram á hljóðvist í karókíherbergi. Áskilið var að slíkt þyrfti að framkvæma af fagaðila í hljóðvistarmálum. Rekstraraðili hafi útvegað gögn um hljóðvist frá hljóðhönnuði hússins, fengið öryggisúttekt byggingafulltrúa ásamt því að hafa farið í aðrar úrbætur á því sem upp á vantaði til að hægt væri að afgreiða starfsleyfi fyrir staðinn.

Rekstraraðili hafi sent upplýsingar um að úrbótum væri lokið 25. júlí 2022 og fylgdu gögn því til staðfestingar. Heilbrigðiseftirlitið hafi staðfest að úrbætur hefðu verið gerðar á húsnæðinu í samræmi við skýrslu hljóðverkfræðings. Útgáfa starfsleyfisins hafi verið háð því að rekstraraðili sýndi fram á fullnægjandi úrbætur á hljóðvist veitingastaðarins. Hefðu mælingar í íbúðum staðfest að úrbætur væru ófullnægjandi og hljóðstig héldist ekki innan marka lægi fyrir að rekstraraðili þyrfti að ráðast í umfangsmeiri úrbætur eða að sýna fram á að hljóðstig væri innan marka.

Heilbrigðiseftirlitið hafí í framhaldi óskað eftir aðgengi að íbúðum í húsinu til hljóðmælinga. Lögmenn íbúa hafi óskað eftir fresti til að taka afstöðu til þeirrar beiðni. Því hafi verið hafnað að veita frestinn þar sem að lengi hafi legið fyrir að hljóðmæla þyrfti á efri hæðum og í íbúðum til að sýna fram á ónæði af völdum veitingastaðarins. Hafi það verið rætt á fundum með íbúðareigendum og einnig hafi legið fyrir að rekstraraðilar hefðu þegar óskað eftir samstarfi íbúa við hljóðmælingar í tvígang. Heilbrigðiseftirlitið hafi metið stöðu mála svo að íbúðareigendur hefðu haft rúman frest til að gera upp við sig hvort hljóðmælingar í íbúðum þeirra hugnuðust þeim. Þetta hafi verið áréttað við lögmenn kærenda í tölvupósti 3. ágúst 2022.

Til að staðfesta að úrbætur rekstraraðila á hljóðvist minnki það hljóð sem berist upp á aðra hæð hússins hafi heilbrigðiseftirlitið framkvæmt hljóðmælingu 4. ágúst 2022. Meðal annars hafi verið mælt á íbúðargangi á annarri hæð hússins beint fyrir ofan veitingastaðinn. Niðurstöður þeirra mælinga hafi verið að hljóðstig reyndist innan viðmiðunarmarka og að hljóð frá karókíherbergi staðarins bærist ekki á milli hæða. Niðurstöðurnar hafi bent til að munur væri á hljóðeinangrun karókíherbergis og miðrýmis veitingastaðarins, en það hafi einnig verið staðfest með sjónskoðun í rýmunum. Hins vegar hafi lágtíðnihljóð ekki verið ríkjandi þáttur í því hljóði sem hafi borist milli hæða, en þau hljóð séu oft mjög truflandi fyrir næstu nágranna.

Eins og fram hafi komið í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins um hljóðmælinguna sé ákveðin takmörkun að ekki hafi verið hægt að komast nær hljóðuppsprettunni eins og henni sé lýst af íbúðareigendum. Þá myndu síritandi hljóðmælingar yfir lengri tíma gefa betri mynd af raunverulegum hljóðstyrk inni hjá rekstraraðila þar sem einnig bætist við hljóð frá viðskiptavinum og gæti það aukið á ónæðið. Rétt sé að taka fram að hljóðmælingar og ítrekað eftirlit með hljóðvist hafi farið fram á staðnum vegna ítrekaðra kvartana nágranna um hávaða en ekki vegna þess að starfsemin ætti í eðli sínu að valda truflunum eða ónæði í sínu næsta umhverfi.

Öllum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar hafi verið fylgt í hvívetna og hafi verið rétt staðið að ákvörðunum um að veita rekstraraðila veitingastaðarins starfsleyfi 5. ágúst 2022. Hafi starfsleyfið jafnframt verið gefið út með skilyrði um takmörkun á hljóðstyrk tónlistar við 75 dB(A) jafngildishljóðstig inni á staðnum. Hafi það verið gert til að koma til móts við íbúðareigendur, en slík ákvörðun sé ætíð íþyngjandi fyrir rekstraraðila. Hafa skuli í huga að hljóðstyrkur tónlistar við 75 dB(A) telst lágur hljóðstyrkur á tónlist.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að í rýminu hafi áður verið veitingastaður og hafi flestar íbúðirnar verið seldar eftir að sá veitingastaður hafi opnað. Almennar miðborgarheimildir gildi á lóðinni sem um ræði og þar megi heimila allar tegundir veitingastaða, að skemmtistöðum undanskildum. Umþrætt starfsleyfi uppfylli þau skilyrði sem sett séu í lögum og reglugerðum. Eigendur að rýminu og fyrirsvarsmenn veitingastaðarins hafi brugðist við öllum ábendingum og ráðist í aðgerðir til að uppfylla öll skilyrði sem þeim hafi verið sett. Eftir að lagfæringar hafi verið gerðar hafi farið fram mælingar á vegum leyfisveitanda, í samráði við heilbrigðiseftirlitið, á vegum óháðs aðila. Hafi þá komið í ljós að þær aðgerðir hafi skilað tilætluðum árangri.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka fyrri sjónarmið, auk þess að vísa m.a. til frásagnar leyfishafa af netsíðu um hávaðastig inni í karókíherbergi veitingastaðarins.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Mál þetta snýst um útgáfu á starfsleyfi til að reka veitingastað í flokki II að Geirsgötu 2–4, sem gefið var út af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 5. ágúst 2022.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra í máli þessu barst nefndinni 9. september s.á. Er þá til þess að líta að kærendur sendu fyrirspurn um stöðu á útgáfu starfsleyfis til heilbrigðiseftirlitsins 8. ágúst s.á. Var þeirri fyrirspurn svarað 9. ágúst s.á. þar sem tilkynnt var um hina kærðu ákvörðun. Verður því að telja að kæra hafi borist innan kærufrests og verður málið tekið til úrskurðar.

—–

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er Geirsgata 2–4 á skilgreindu miðborgarsvæði M1a, svæði þar sem almennar miðborgarheimildir gilda. Þar eru heimilaðir veitingastaðir í flokki II. Af hálfu kærenda er álitið að starfsemi leyfishafa beri að flokka sem veitingastað í flokki III, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, þar sem leikin er hávær tónlist og þörf er aukins eftirlits og/eða löggæslu. Heilbrigðiseftirlitið hefur á móti vísað til þess að á staðnum sé hvorki dansað né lögð áhersla á háværan tónlistarflutning. Um sé að ræða stað sem bjóði upp á drykki og einfalda matargerð ásamt pílukasti, m.ö.o. að um sé að ræða krá með lágmarksmatargerð, sbr. f. lið 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016.

Umsækjendur um opinbert leyfi miða eðlilega umsóknir sínar að þeim skilyrðum sem gerðar eru hverju sinni í lögum og eftir atvikum skipulagsáætlunum um heimildir til atvinnurekstrar. Rekstur veitingastaðar í flokki II í húsinu að Geirsgötu 2–4 samrýmist deiliskipulagi svæðisins og með því er gert ráð fyrir að hann samrýmist búsetu á sama svæði. Þetta leysir heilbrigðisyfirvöld hins vegar á engan hátt undan þeirri skyldu að meta hverju sinni hvort öllum skilyrðum til útgáfu starfsleyfis til rekstrar sé fullnægt.

—–

Fyrir nefndinni hefur verið vísað til húsfélagsyfirlýsingar sem að áliti kærenda girðir fyrir að heimilt hafi verið að veita hið kærða starfsleyfi í húsinu að Geirsgötu 2–4. Hefur heilbrigðis-eftirlitið á móti bent á að hlutverk þess sé bundið við að gefa út starfsleyfi þegar fyrir liggi jákvæð umsögn frá byggingafulltrúa og eftir því sem við eigi skipulagi. Væri það á hendi þeirra embætta að kanna slíkar kvaðir og gildi þeirra. Verður fallist á þessi sjónarmið af hálfu úrskurðarnefndarinnar en auk þess skal bent á að við útgáfu rekstrarleyfis til veitingastaða skv. lögum nr. 85/2007 er, m.a. af leyfisveitanda, farið yfir hvort eignarheimild sé full-nægjandi.

—–

Í 1. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að markmið laganna sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnareftirlits er í 5. gr. laga nr. 7/1998 kveðið á um heimild til að setja reglugerð um hávaða og titring þar sem fram eiga að koma viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða og titring með hliðsjón af umhverfishávaða, sbr. 15. tl. greinarinnar. Reglugerð nr. 724/2008 er sett með stoð í þeirri lagaheimild. Í 6. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um að allur atvinnurekstur, sem talinn er í viðaukum I, II og IV við lögin skuli hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út. Segir jafnframt í greininni að starfsleyfi skuli veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarrar löggjafar. Í 13. gr. laga nr. 7/1998 er svo skýrlega kveðið á um það að heilbrigðisnefndir beri ábyrgð á því að ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim sé fylgt eftir.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í máli þessu reynir einkum á það hvort tryggt hafi verið við útgáfu hins kærða starfsleyfis að hljóðvist í íbúðum í sama húsi og umræddur veitingastaður, væri innan þeirra marka sem ásættanleg eru talin samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Fyrir lá að ríkt tilefni var til að gæta að þessu þar sem ítrekað hafði verið kvartað yfir hávaða frá starfsemi veitingastaðarins til heilbrigðiseftirlitsins og leyfishafa verið gert, á grundvelli mælinga og úttekta, að ráðast í aðgerðir til að draga úr hávaða.

Þegar aðilar stjórnsýslumáls eiga öndverðra hagsmuna að gæta er stjórnvöldum skylt að taka tilhlýðilegt tillit til þeirra beggja eða allra. Um 10. gr. stjórnsýslulaga, segir í frumvarpi með lögunum að: „Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um nánari afmörkun verður m.a. að líta til þess hversu mikilvægt málið er og hversu nauðsynlegt það er að taka skjóta ákvörðun í málinu. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar.“

Húsið að Geirsgötu 2–4 þar sem hin kærða starfsemi fer fram er á skilgreindum miðbæjarkjarna. Þar gilda almennar miðborgarheimildir. Verður óhjákvæmilega að hafa hliðsjón af því að um eitthvað ónæði er ávallt að ræða í þéttbýli. Í 4. gr. reglugerðar nr. 724/2008 er um viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða frá umferð ökutækja, flugumferð og hvers konar atvinnustarfsemi vísað til viðauka við reglugerðina. Í III. töflu í viðaukanum eru sett mörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi, þar á meðal fyrir íbúðarhúsnæði á verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum. Forráðamönnum fyrirtækja og stofnana er skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða og ónæði af völdum hávaða, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar. Þá er í 11. gr. reglugerðarinnar mælt fyrir um að heilbrigðisnefndir skuli eftir þörfum framkvæma eða láta framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða og eru heimildir til þvingunarúrræða í 12. gr. hennar.

Fimmtudaginn 4. ágúst 2022 voru framkvæmdar hljóðmælingar af heilbrigðiseftirlitinu að Geirsgötu 2–4. Fóru mælingarnar fram á tímabilinu kl. 23:00-00:00 á sameiginlegum gangi fyrir framan íbúðir 201 og 205 sem eru staðsettar fyrir ofan karókírými og eins nærri hljóðuppsprettu og hægt var án aðgengis að íbúðum, meginrými staðarins og karókírými. Við hljóðmælingu í karókírými var hljóðstyrkur á hámarksstillingu. Í meginrými var hljóðkerfi stillt á 75 dB(A), sem er það hljóðstig sem rýmið hefur haft leyfi fyrir og hljóðhemill er stilltur á. Við mælingarnar voru notaðar eftirfarandi mælieiningar: LAeqT, sem er jafngildishljóðstig með A-síu yfir tímann T, LAFmax, sem er hæsta hljóðbil, Fast (125ms), með A-síu, og LCpeak, sem er hæsti hljóðtoppur með C-síu.

Í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins af þessu tilefni kemur fram að þessar mælingar bendi til að hljóðeinangrun milli hæða hússins sé í samræmi við upphaflega hljóðhönnun. Þá sé hljóðstig fyrir ganga og tengibyggingar innan marka 40 dB(A) jafngildishljóðstigs samkvæmt hljóð-vistarstaðli ÍST 45:2016. Í 5. gr. reglugerðar nr. 724/2008 er tekið fram að við skipulagsgerð skuli miðað við að hljóðstig verði undir mörkum í viðauka. Skipulagsyfirvöld geti þó ákveðið að í stað marka í viðauka gildi um íbúðarhúsnæði á afmörkuðum svæðum staðallinn ÍST 45:2003, nú ÍST 45:2016. Í staðlinum er fjallað um mælikvarða á hljóðstig, högghljóðseinangrun, jafngildishljóðstig og lofthljóðeinangrun og eru m.a. settar lágmarkskröfur fyrir nýjar íbúðir. Voru þær úrbætur sem leyfishafi hafði framkvæmt að því miðaðar að þessar hljóðvistarkröfur væru uppfylltar. Á grundvelli hljóðmælingarinnar og sértækra starfsleyfis-skilyrða um hljóðstig frá starfseminni voru álitnar nægilegar líkur á því, að áliti heilbrigðis-eftirlitsins, að hávaði frá starfseminni í íbúðarrými í húsinu yrði ekki yfir viðmiðunarmörkum.

Við túlkun þessara mælinga var ekki stuðst við þau viðmiðunarmörk um hávaða í íbúðarhúsnæði á miðsvæði sem fram koma í töflu III í reglugerð nr. 724/2008. Hafa kærendur og leyfishafi fært fram sjónarmið fyrir nefndinni um hvers vegna ekki varð af því. Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins hefur verið vísað til þess að íbúar hafi haft rúman frest til að gera upp við sig hvort hljóðmælingar í íbúðum hugnist þeim. Að áliti úrskurðarnefndarinnar virðist nokkuð til í því, en við þær aðstæður hefði heilbrigðiseftirlitinu verið rétt að upplýsa um að synjun um að veita aðgang að íbúðum til hljóðmælinga gæti leitt til þess að ófullkomnar upplýsingar yrðu ella lagðar til grundvallar við mat á aðstæðum. Var þessa ekki gætt nægilega um leið og íbúum var ekki gefinn kostur á að tjá sig um skýrslu heilbrigðiseftirlitsins um mælinguna, dags. 4. ágúst 2022, sem tilefni hefði verið til vegna hagsmuna þeirra.

Í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins um hljóðmælinguna, dags. 4. ágúst 2022, er vísað til leiðbeininga Umhverfisstofnunar um mæliaðferðir við hljóðmælingar vegna eftirlits. Í leiðbeiningum þessum, dags. í mars 2011, segir að „lagt sé að jöfnu hvort hljóðstig frá atvinnustarfsemi sé mælt með tilgreindum mæliaðferðum, eða reiknuð út með viðurkenndu reiknilíkani fyrir umhverfishávaða.“ Í báðum tilvikum sé niðurstaðan miðuð við „tilteknar veðurfarslegar aðstæður, og tilteknar aðstæður í rekstri eða framleiðslu.“ Tekið er fram að við mælingar á hljóðstigi frá atvinnustarfsemi skuli mæla samkvæmt annarri af þeim tveimur norrænu mæliaðferðum sem þar komi fram. Þær miðist við að mælt sé allan daginn, allt kvöldið og alla nóttina, en þó sé heimilt að mæla í styttri tíma. Niðurstaðan sé sýnd sem jafngildishljóðstig að degi, kvöldi og nóttu, en auk þess skuli ákvarða hámarkshljóðstig inni.

Með þessu er um framkvæmd mælinga vísað til leiðbeininga Umhverfisstofnunar Danmerkur, nr. 6. frá nóvember 1984, um framkvæmd hávaðamælinga frá atvinnustarfsemi (d. Måling af ekstern støj fra virksomheder). Hafa leiðbeiningarnar að geyma tæknilega lýsingu á tækjabúnaði, mælieiningum og mæliaðferðum, m.a. hvernig tekið verði tillit til bakgrunnshljóðs við hljóðmælingu. Þar er gert ráð fyrir því að við mat á hávaða frá atvinnustarfsemi sé rekstri skipt í ólík tímabil eftir því hver hávaði er frá henni, en meta þurfi þetta hverju sinni með hliðsjón af markmiði um að mæla stöðugan hávaða frá starfsemi (d. konstant støjudsendelse). Getur í þeim tilgangi orðið að mæla hávaða allt niður í eina mínútu eða minna. Á grundvelli fleiri slíkra mælinga er unnt að reikna og ákvarða jafngildishljóðstig, LAeqT, fyrir starfsemina á hverju tímabili á forsvaranlegan hátt. Í þessu felst sú nálgun að mælingar skulu byggðar á þekkingu á því hvernig starfsemi er hagað og þær fari fram þegar mestum hávaða er til að dreifa. Í leiðbeiningunum er fjallað um möguleika á því að framkvæma mælingar með sjálfvirkum búnaði yfir lengri tíma og bent á mikilvægi þess að vakta samhliða ófyrirséðan umhverfis- eða bakgrunnshávaða. Við mat á LAFmax, þ.e. hæsta hljóðstigi, verði að vakta slíkar mælingar svo tryggt sé að einungis hámarkshávaði frá viðkomandi starfsemi sé mældur, en hæsta hljóðbil skuli venjulega ákvarða sem reiknað meðaltal á grundvelli a.m.k. fimm mælinga fyrir það tímabil sem um er að ræða.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 skal gefa út starfsleyfi til tiltekins tíma og skv. 4. mgr. lagagreinarinnar er útgefanda starfsleyfis heimilt að framlengja gildistíma starfsleyfis á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, að hámarki til eins árs, hafi fullnægjandi umsókn um nýtt starfsleyfi borist útgefanda. Því hefði heilbrigðiseftirlitinu verið heimilt að gefa út starfsleyfi til skemmri tíma en 12 ára, svo sem gert var með hinu kærða leyfi, meðan unnt væri að leggja nánar mat á hávaða frá starfseminni, sem er í húsi þar sem eru margar íbúðir. Með hliðsjón af þeirri heimild sem heilbrigðisnefndir hafa til að framkvæma eftir þörfum, eða láta framkvæma, eftirlitsmælingar á hávaða, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 724/2008, hefði með því verið unnt að framkvæma eða láta framkvæma mælingar á rauntíma inni í íbúðum sem næstar eru atvinnustarfseminni, sem hefðu getað varpað skýrara ljósi á það hvort hávaða gætir frá starfseminni í íbúðum í húsinu þannig að yfirstígi viðmiðunarmörk reglugerðar nr. 724/2008. Var sérstök ástæða til þessa þar sem umræddur veitingastaður hafði verið starfræktur á tímabundnu starfsleyfi vegna krafna um endurbætur á hljóðvist og þeirra fjölmörgu athugasemda sem gerðar höfðu verið við hávaða frá starfseminni.

Eins og undirbúningi og rannsókn hinnar kærðu ákvörðunar var með þessu hagað, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, verður ekki komist hjá því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

 Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. ágúst 2022, um að gefa út starfsleyfi til 12 ára fyrir veitingastaðinn Skor að Geirsgötu 2–4, er felld úr gildi.

18/2023 Hulduhóll

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 29. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 18/2023, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Sveitarfélagsins Árborgar á erindi vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Hulduhóls 14 og 16.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. janúar 2023, kærir eigandi Hulduhóls 16, Eyrarbakka, óhæfilegan drátt á afgreiðslu Sveitarfélagsins Árborgar á erindi vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Hulduhóls 14 og 16. Er þess krafist að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins geri eiganda Hulduhóls 14 að fjarlægja vegginn.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 17. mars 2023.

Málavextir: Með tölvubréfi, dags. 19. maí 2022, kvartaði kærandi til byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar yfir því að settur hefði verið upp veggur á lóðamörkum Hulduhóls 14 og 16. Var þar farið fram á að eiganda Hulduhóls 14, sem reist hafði veginn, yrði gert að fjarlægja hann tafarlaust. Með bréfi byggingarfulltrúa dags. 20. maí s.á. var eiganda Hulduhóls 14 bent á að afla bæri samþykkis nágranna fyrir veggnum eða fjarlægja hann ella skv. gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Var kæranda tilkynnt þann sama dag um bréfið.

Kærandi sendi tölvubréf til byggingarfulltrúa, dags. 3. júní s.á., þar sem spurt var um stöðu málsins. Var því svarað dags. 20. s.m. þar sem fram kom að byggingarfulltrúi geti ekki beitt sér í svona nágrannaerjum, þar sem honum beri fara eftir byggingarreglugerð og þar komi ekki fram hvernig skuli beita sér í svona málum. Mælt sé með því að kærandi fái sér lögfræðing sem gæti tekið á málinu. Í kjölfarið sendi lögfræðingur kæranda byggingarfulltrúa tölvubréf, dags. 23. s.m., þar sem beðið var um upplýsingar um hvort bréf byggingarfulltrúa til eiganda Hulduhóls 14, dags. 20. maí 2022, hefði verið sent með ábyrgðarpósti. Kom þar einnig fram að kærandi muni ekki veita samþykki sitt fyrir skjólveggnum og var farið fram á að eiganda Hulduhóls 14 verði send ítrekun og lokaviðvörun lækki hann ekki vegginn til samræmis við byggingarreglugerð, en að öðrum kosti beittur dagsektum.

Kærandi sendi enn tölvubréf til byggingarfulltrúa, dags. 16. september s.á., þar sem farið var fram á upplýsingar um stöðu málsins, þ.e. hversu oft eiganda Hulduhóls 14 hefðu verið sendar viðvaranir og hvort dagsektir hefðu verið lagðar á. Kæranda barst svar þann sama dag þar sem fram kom að ekki hefði verið brugðist við bréfi byggingarfulltrúa og að hvorki netfang né símanúmer eiganda Hulduhóls 14 hefðu fundist til að fylgja málinu eftir. Leitað hefði verið ráða hjá lögfræðingi sveitarfélagsins varðandi næstu skref. Kærandi svaraði byggingarfulltrúa þann sama dag og upplýsti um símanúmer eiganda Hulduhóls 14. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 30. janúar 2022.

Í tölvubréfi, dags. 7. febrúar 2023, sendi byggingarfulltrúi bréf sitt frá 20. maí 2022 til eiganda Hulduhóls 14. Kom fram í tölvubréfinu að einfaldast væri fyrir nágranna að skrifa upp á leyfi vegna framkvæmda hvors annars, annars vegar vegna umdeilds veggjar og hins vegar staura fyrir rólu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að nágranni kæranda hafi verið beðinn um að setja ekki upp vegg á lóðarmörkum þar sem ekki hefði fengist samþykki fyrir veggnum. Byggingarfulltrúi hafi tjáð kæranda að yrði veggurinn reistur yrði nágrannanum sent bréf þar sem farið yrði fram á samþykki kæranda fyrir veggnum en honum ella gert að taka vegginn niður. Síðan þá, þ.e. frá því í maí árið 2022, hafi ekkert gerst í málinu.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ekki hafi verið tekin kæranleg stjórnvaldsákvörðun í skilningi 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og því sé málið ekki tækt til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Bent sé á að málið hafi fengið eðlilegan fargang hjá byggingarfulltrúa að teknu tilliti til erfiðra aðstæðna í stjórnsýslu á deildinni vegna forfalla og manneklu. Það hafi ekki verið unnt að forgangsraða máli kæranda framar málum þar sem til umfjöllunar séu umfangsmeiri byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Byggingarfulltrúi hafi ekki hafnað því að beita sér frekar í málinu, heldur sé málið enn til skoðunar. Beiting þvingunarúrræða sé viðurhlutamikil ráðstöfun sem gæta beri hófs í að grípa til og ekki nema að fullrannsökuðu máli.

Því sé hafnað að byggingarfulltrúi hafi með aðgerðarleysi sínu komið því í kring að ósamþykktur skjólveggur standi á lóðarmörkum í óþökk kæranda. Byggingarfulltrúi beri á engan hátt ábyrgð á þeirri stöðu, heldur sé öll ábyrgð á þeirri framkvæmd hjá nágranna kæranda og byggingarfulltrúi hafi beitt sér í málinu í því skyni að stuðla að lausn þess.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítekar að ástæða kæru til úrskurðarnefndarinnar sé að ekki hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu. Ekkert hafi verið aðhafst frá því í maí 2022 og þar til kæra hafi verið lögð fram.

———-

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla á erindi kæranda frá 19. maí 2022 til byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar hafi dregist óhóflega. Skilja verður erindi kæranda sem svo að farið sé fram á beitingu þvingunarúrræða skv. lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin að jafnaði ekki nýja ákvörðun í máli og er því ekki á færi nefndarinnar að ákveða að byggingarfulltrúa beri að láta fjarlægja hinn umdeilda vegg. Einskorðast niðurstaða úrskurðarnefndarinnar því við athugun á því hvort óhæfilegur dráttur hafi orðið á erindi kæranda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Í máli þessu er kærður óhæfilegur dráttur á því að beita eiganda Hulduhóls 14 þvingunarúrræðum vegna skjólveggjar á lóðamörkum Hulduhóls 14 og 16. Samkvæmt 59. gr. gr. laga nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en til þeirra teljast þvingunarúrræði vegna meintra brota á byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er kæru þessari því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.

Kærandi sendi erindi til byggingarfulltrúa 19. maí 2022 þar sem farið var fram á að eiganda Hulduhóls 14 yrði gert að fjarlægja hinn umdeilda vegg tafarlaust. Við þessu var brugðist með bréfi byggingarfulltrúa til eiganda Hulduhóls 14 degi síðar, 20. maí. Eftir það virðist sem lítil eða engin hreyfing hafi orðið á málinu fyrr en viku eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni, þ.e. 7. febrúar 2023. Þann dag sendi byggingarfulltrúi tölvupóst til eiganda Hulduhóls 14 með ábendingum um réttarstöðu og tillögu um úrlausn þess.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga ber þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Þrátt fyrir að mál þetta hafi nú verið tekið til meðferðar að nýju verður ekki hjá því litið að óhæfilegur dráttur virðist hafa orðið á meðferð þess, af ástæðum sem sveitarfélagið hefur reifað fyrir úrskurðarnefndinni. Verður ekki séð að nokkuð standi því í vegi að byggingarfulltrúi afgreiði erindi kæranda án ástæðulauss dráttar.

 Úrskurðarorð:

Byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Árborgar skal taka fyrirliggjandi erindi kæranda um beitingu þvingunarúrræða til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

21/2023 Gljúfrasel

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2023, kæra á ákvörðun eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 25. janúar 2023 um álagningu dagsekta vegna skúrs á lóðinni Gljúfraseli 10, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2023, er barst nefndinni 5. s.m., kærir eigandi Gljúfrasels 10, Reykjavík, ákvörðun eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 25. janúar 2023 um álagningu dagsekta á hann vegna skúrs á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. mars 2023.

Málavextir: Þann 27. október 2022 barst Reykjavíkurborg kvörtun frá nágranna íbúa að Gljúfraseli 10 varðandi skúr sem stæði á lóð hússins. Þann 11. nóvember 2022 sendi eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar kæranda fyrirspurn vegna smáhýsis á lóð nr. 10 við Gljúfrasel. Kom þar fram að vettvangsskoðun hafi leitt í ljós að smáhýsi á lóðinni væri minna en 3 m frá aðliggjandi lóð og því þurfi samþykki eigenda aðliggjandi lóðar fyrir smáhýsinu, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt hafi ekki verið sýnt fram á að smáhýsið valdi ekki brunahættu, sbr. gr. 9.7.6. sömu reglugerðar. Kæranda var gert að leggja fram skriflegar skýringar vegna málsins innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. Var jafnframt bent á að yrði tilmælum ekki sinnt gæti komið til beitingar þvingunarúrræða. Kæranda var aftur sent bréf dags. 6. desember s.á., sem birt var kæranda 12. s.m., og var þar efni fyrra bréfs ítrekað og kæranda veittur 30 daga frestur til að fjarlægja skúrinn.

Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi eftirlitsdeildar og byggingarfulltrúa 19. janúar 2023, þar sem fram kom að ekki hefðu borist viðbrögð kæranda við bréfunum. Ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar og sambrunahætta væri til staðar . Á fundinum var bókað að leggja ætti á dagsektir að fjárhæð kr. 50.000 og gefa kæranda 15 daga frest til að fjarlægja skúrinn.

Viðbrögð við bréfum Reykjavíkurborgar bárust með bréfi dags. 24. janúar 2023. Í svarbréfi sem skrifað virðist fyrir hönd manns sem dvelur í skúrnum kom fram að skúrinn væri til bráðabirgða og að hann yrði fjarlægður um leið og félagslegt húsnæði fengist fyrir manninn. Með bréfi, dags. 25. s.m., sem birt var kæranda 1. febrúar s.á., kom fram að veittur væri 14 daga lokafrestur frá dagsetningu bréfsins til að verða við kröfu byggingarfulltrúa, en ella yrðu dagsektir að fjárhæð kr. 50.000 lagðar á kæranda.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að um sé að ræða skúr í smíðum. Skúrinn sé til bráðabirgða og til standi að flytja hann. Á nærliggjandi lóðum séu bæði viðbygging og stórt hjólhýsi með sólpalli sem nýtt séu til búsetu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Til vara sé þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Þau sjónarmið að skúrinn sé í smíðum hafi ekki komið fram áður og eigi sér ekki stoð í gögnum málsins. Kærandi sé væntanlega að vísa til gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um stöðuleyfi, sem segi að frístundahús í smíðum sé undanþegið byggingarleyfi. Engin umsókn um stöðuleyfi hafi borist. Af gögnum málsins megi ráða að umræddur skúr sé nýttur til búsetu. Skúrinn sé yfir 15 m2 að flatarmáli og standi nær aðliggjandi lóð en 3 m, án þess að samþykki hafi fengist fyrir því. Skúrinn geti því ekki talist smáhýsi sem undanþegið sé byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar. Byggingarfulltrúa beri að framfylgja ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar. Það sé mat Reykjavíkurborgar að rétt sé að krefja kæranda um að fjarlægja skúrinn og að þörf sé á álagningu dagsekta til að knýja á um það.

Niðurstaða: Í máli þessu er kært „bréf frá eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar“, dags. 25. janúar 2023, um álagningu dagsekta. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig 2. mgr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, er það byggingarfulltrúa að leggja á dagsektir. Verður litið svo á að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúa frá 19. s.m., en þann dag var bókað á afgreiðslufundi að leggja skyldi dagsektir á kæranda að fjárhæð kr. 50.000 að liðnum 15 daga fresti til úrbóta.

Af hálfu borgaryfirvalda hefur verið farið fram á frávísun málsins þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun. Þrátt fyrir að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið skilyrt við að ekki yrði orðið við tilmælum hans innan 15 daga er um að ræða ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda þarf ekki aðra ákvörðun byggingarfulltrúa til að hefja álagningu dagsekta. Kæruheimild vegna ákvarðana byggingarfulltrúa er að finna í 59. gr. laga nr. 160/2010. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Mannvirki er skilgreint í 13. tölul. 3. gr. laganna sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar.

Í máli þessu er um að ræða skúr sem samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa er tengdur við frárennslislagnir á lóðinni. Af gögnum málsins má ætla að um tímabundna byggingu sé að ræða sem ætluð sé til svefns og daglegrar dvalar manns sem leitar annars búsetuúrræðis. Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um hvenær búseta hófst í skúrnum en hann má þó sjá á loftmynd Borgarvefsjár sem tekin var 20. júlí 2022. Verður því ekki talið óvarlegt að ætla að skúrinn hafi verið ætlaður til svefns eða daglegrar dvalar í fjóra mánuði eða lengur. Var skúrinn því háður leyfi frá byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um minniháttar mannvirkjagerð sem er undanþegin byggingarheimild og -leyfi. Í f-lið ákvæðisins eru talin upp smáhýsi sem eru að hámarki 15 m2 og mesta hæð þaks sé 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs. Sé smáhýsið minna en 3,0 m frá aðliggjandi lóð þurfi samþykki eigenda þeirrar lóðar. Slík smáhýsi séu ekki ætluð til gistingar eða búsetu. Umræddur skúr er bæði stærri en 15 m2 og nær lóðamörkum en 3,0 m. Fyrir byggingu hans var ekki aflað samþykkis nágranna. Er skúrinn því ekki undanþeginn byggingarheimild og -leyfi.

Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, eða láta af ólögmætu athæfi. Samkvæmt öllu framangreindu var byggingarfulltrúa heimilt að leggja á dagsektir vegna hinnar ólögmætu framkvæmdar og þykja dagsektir hans ekki úr hófi.

Samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar frá 21. mars 2023 höfðu dagsektir þá ekki enn verið lagðar á kæranda. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir rétt, eins og atvikum máls er háttað, að dagsektir sem kunna að verða lagðar á frá þeirri dagsetningu til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2023, þar sem bókað var á afgreiðslufundi að leggja ætti á dagsektir kr. 50.000 að liðnum 15 daga fresti til úrbóta.

130/2022 Flekkudalur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Kjósarhrepps frá 25. október 2022 að stofna þrjár íbúðarhúsalóðir úr jörðinni Flekkudal í Kjósarhreppi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. nóvember 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Flekkudals 4, Flekkudals sumarhúss, Dalsbakka, Vatnsbakka og Fálkahreiðurs, þá ákvörðun sveitarstjórnar Kjósarhrepps frá 25. október 2022 að stofnaðar verði úr jörðinni Flekkudal þrjár íbúðarhúsalóðir, 0,5 ha eða stærri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gerðu kærendur jafnframt kröfu um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrðu frestað á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 20. desember 2022.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 9. desember 2022.

Málavextir: Umsókn eiganda jarðarinnar Flekkudals í Kjósarhreppi, um heimild til að stofna þrjár íbúðarhúsalóðir í landi jarðarinnar sem yrðu 0,5 ha að stærð hver, var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 30. ágúst 2022. Í fundargerð var vísað til þess að samkvæmt aðalskipulagi Kjósarhrepps væri heimilt að stofna íbúðarhúsalóðir á landbúnaðarlandi án deiliskipulags. Samkvæmt aðalskipulagi mætti gera ráð fyrir átta íbúðarhúsalóðum á svæðinu að hámarki en í samræmi við umsóknina yrðu þær fjórar. Var umsóknin samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn staðfesti ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar á fundi 6. september s.á.

Umsóknin var grenndarkynnt fyrir kærendum með bréfum, dags. 16. s.m., og var veittur fjögurra vikna frestur til að koma að athugasemdum, sem kærendur gerðu með bréfi, dags. 14. október s.á. Málið var tekið fyrir að nýju í skipulags- og byggingarnefnd 20. október s.á. og var umsóknin samþykkt. Í fundargerð nefndarinnar kom fram að kærendur hefðu skilað inn athugasemdum við grenndarkynningu. Taldi nefndin athugasemdirnar ekki gefa ástæðu til synjunar á stofnun lóðanna en að áður en kæmi til umsóknar um byggingaráform skyldi liggja fyrir samþykkt deiliskipulag. Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi sveitarstjórnar 25. s.m.

 Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sé allt land skipulagsskylt, sbr. m.a. a. lið 1. mgr. 1. gr. og 12. gr. laganna. Af því leiði m.a. að öll landnotkun, uppskipting lands og byggingarframkvæmdir skuli ákveðnar með skipulagi. Uppskipting lands, breytt landnotkun, byggingarframkvæmdir eða annarskonar framkvæmdir séu almennt ekki leyfð fyrr en að undangenginni deiliskipulagsvinnu í samræmi við ákvæði laganna. Eina undantekningin frá þessu komi fram í 44. gr. skipulagslaga en samkvæmt ákvæðinu geti sveitarstjórn, þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar að undangenginni grenndarkynningu. Hin kærða ákvörðun byggi á þessari heimild. Umrædd heimild sé undantekningarregla frá meginreglunni um skipulagsskyldu sem skýra beri þröngt. Eingöngu hafi verið fallist á að lögmætt væri að beita henni þegar um væri að ræða framkvæmdir í þegar byggðu svæði og þegar um framkvæmdir í algjöru samræmi við aðalskipulag og byggð í nágrenninu. Þannig hátti ekki til í þessu tilviki. Ekki sé um að ræða þegar byggt hverfi eða svæði. Þetta séu nýjar lóðir á landbúnaðarsvæði og óljóst til hvers eigi að nýta lóðirnar.

Grenndarkynningin hafi ekki verið lögmæt þar sem um hafi verið að ræða uppskiptingu lands í lóðir en ekki umsókn um byggingar- eða framkvæmdaleyfi. Ekki sé hægt að grenndarkynna uppskiptingu lands samkvæmt ákvæðum skipulagslaga, nema þá jafnframt séu kynnt byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi. Tillaga sú sem hafi verið grenndarkynnt hefði þurft að vera algjörlega í samræmi við aðalskipulag. Svo sé ekki í þessu tilfelli þar sem stefna aðalskipulags sé m.a. að vernda landbúnaðarland í fyrsta flokki en brjóta það ekki undir önnur not. Í umsögn um athugasemdir hefði þurft að greina ítarlega frá því hvernig tillagan samræmdist aðalskipulagi. Engin umsögn um það liggi hins vegar fyrir í málinu. Þá eigi undantekningarákvæði aðalskipulagsins um frávik frá deiliskipulagsgerð á bújörðum ekki við enda hafi þegar mörgum lóðum, þ.m.t. lóðum kærenda, verið skipt úr jörðinni.

Umsögn eða afstaða sveitarfélagsins til athugasemda kærenda við grenndarkynninguna hafi ekki legið fyrir og því hafi málsmeðferð ekki verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga né ákvæði stjórnsýslulaga nr. 27/1993 um rannsóknarreglu og vandaða málsmeðferð.

 Málsrök Kjósarhrepps: Bent er á að samkvæmt 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Þá segi í 3. mgr. 48. gr. laganna að sveitarstjórn geti krafist þess af eigendum landa og jarða að gerður sé fullnægjandi hnitsettur uppdráttur af nýjum landamerkjum eða lóðarmörkum til afnota fyrir landeignaskrá og þinglýsingarstjóra.

Í 1. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004 segi ennfremur að skipting lands á landbúnaðarsvæðum, sbr. 48. gr. skipulagslaga, skuli samrýmast skipulagsáætlun. Í 2. mgr. 6. gr. jarðalaga segi að við beiðni um skiptingu eða sameiningu lands á landbúnaðarsvæðum sé sveitarstjórn heimilt að krefjast þess að umsækjandi geri grein fyrir áhrifum hennar á búrekstrarskilyrði. Ákvörðun sveitarstjórnar hvort fallist verði á skipti skuli reist á heildstæðu mati á áhrifum þeirra samkvæmt skipulagsáætlun. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. skuli við skiptingu jarða og annarra fasteigna gæta ákvæða laga sem girði fyrir aðskilnað hlunninda og lands. Um stofnun fasteignar fari einnig samkvæmt 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.

Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar hafi falist í því að samþykkja skiptingu jarðarinnar á framangreindum lagagrundvelli. Bæði skipulags- og byggingarnefnd og sveitarstjórn Kjósarhrepps hefðu fallist á sjónarmið landeiganda þess efnis að áformuð stofnun þriggja lóða samræmdist skipulagsáætlun svæðisins, jafnvel þótt um væri að ræða landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Ástæðan hefði verið sú að hinar nýju lóðir væru alveg í jaðri landbúnaðarsvæðisins auk þess að vera mjög nálægt núverandi byggð og innviðum á borð við vega- og veitukerfi. Þessi afstaða sveitarfélagsins hafi byggst á umfjöllun í kafla 2.3.9 í gildandi aðalskipulagi fyrir Kjósarhrepp. Aðalskipulag Kjósarhrepps hafi hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar 21. desember 2018 og það komi því ekki í hlut úrskurðarnefndarinnar að endurskoða eða leggja á annan hátt mat á lögmæti aðalskipulagsins eða einstakra hluta þess.

Hvergi í lögum sé gerð krafa um að sveitarstjórn grenndarkynni fyrirhugaða ákvörðun um að samþykkja stofnun lóðar út úr jörð. Engu að síður hafi áformin verið grenndarkynnt með hliðsjón af málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Engar lagareglur standi í vegi fyrir slíkri ráðstöfun og þvert á móti megi segja að um vandaða málsmeðferð hafi verið að ræða og í fullu samræmi við áherslu skipulagslaga um samráð við almenning og þá sem hagsmuni kynnu að hafa. Hvað varði fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda sé áréttað að þar hafi einungis verið um að ræða athugasemdir sem væru til þess fallnar að koma beinlínis í veg fyrir umrædd áform. Þar að auki gætu athugasemdir nágranna ekki bundið hendur sveitarstjórnar við ákvörðun. Það hafi jafnframt verið samdóma álit skipulags- og byggingarnefndar annars vegar og hins vegar sveitarstjórnar að hvorki lög, skipulagsskilmálar né hagsmunir annarra kæmu í veg fyrir að landeigenda yrði heimilt að stofna umræddar lóðir á landi sínu.

Þá sé að lokum bent á að hin kærða ákvörðun ein og sér feli ekki í sér heimild til mannvirkjagerðar eða annarra framkvæmda á fyrirhuguðum lóðum. Áður en til þess komi verði landeigandi eða framkvæmdaaðili að óska eftir heimild sveitarstjórnar til að láta vinna gerð deiliskipulags. Þetta komi fram í hinni kærðu ákvörðun. Við slíkt ferli muni kærendur og aðrir hagsmunaaðilar fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

 Málsrök landeigenda: Eigendur Flekkudals, L126038, hafi á síðustu árum lagt í verulegar framkvæmdir við veglagningu fyrir aðgengi að deiliskipulögðu svæði og öðru nálægu landi, en kærendur séu eigendur fasteigna á hinu deiliskipulagða svæði. Vegurinn frá Flekkudalsvegi, að því svæði sem íbúðarhúsalóðirnar þrjár hafi verið heimilaðar á og að deiliskipulagða svæðinu, hafi verið samþykktur sem héraðsvegur. Landeigendur hafi fórnað landi sínu undir samfélagsverkefni við lagningu hitaveitu og ljósleiðara að hinum umdeildu lóðum og því deiliskipulagða svæði þar sem kærendur eigi fasteignir.

Aðalskipulag Kjósarhrepps 2017-2029 hafi verið samþykkt af sveitarstjórn Kjósarhrepps 4. desember 2018 og staðfest af Skipulagsstofnun 21. s.m. Við gerð skipulagsins hafi verið haft að leiðarljósi að styrkja skipulagssvæðið sem ákjósanlegt svæði til búsetu og atvinnuuppbyggingar og orlofsdvalar auk þess að stuðla að skynsamlegri landnotkun í sveitarfélaginu til framtíðar. Því hafi verið ætlað að stuðla að hagkvæmri þróun byggðar, meðal annars með því að skapa sem best skilyrði fyrir atvinnulíf og mannlíf og gera búsetu á svæðinu eftirsóknarverða. Samkvæmt aðalskipulaginu sé, þar sem aðstæður leyfi, heimilt á landbúnaðarlandi að byggja íbúðarhús og tengd hús s.s. geymslu/útihús, á 0,5-10 ha landspildum, enda hamli uppbygging ekki eðlilegri landbúnaðarstarfsemi né spilli samfellu í góðu landbúnaðarlandi. Skipulagið leggi áherslu á að ný hús skuli reist í nágrenni núverandi byggðar eða núverandi vega- eða veitukerfa til að nýta sem best þau þjónustukerfi sem fyrir séu.

Samþykki byggingaryfirvalda í Kjósarhreppi sé eðlilegt og réttmætt og í fullu samræmi við ákvæði gildandi aðalskipulags Kjósarhrepps skv. ákvæði 2.3.9 í greinargerð aðalskipulagsins, grein 4.3.1 í skipulagsreglugerð 90/2013 og 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarfélaginu hafi ekki borið lagaleg skylda til að grenndarkynna fyrir kærendum umsókn landeigenda um stofnun hinna umdeildu íbúðarhúsalóða. Telja verði ákvörðun sveitarfélagsins að óska eftir athugasemdum hafi falið í sér fagleg vinnubrögð og verið umfram skyldu. Það að sveitarfélagið hafi umfram lagaskyldu óskað eftir athugasemdum frá kærendum vegna umsóknar um stofnun lóðanna geti ekki valdið því að hin kærða ákvörðun teljist ólögmæt.

Í gildandi aðalskipulagi séu lóðirnar á skilgreindu svæði fyrir landbúnað en samkvæmt skilmálum skipulagsins sé heimilt að reisa stök mannvirki, t.d. íbúðar- og frístundahús, á slíkum svæðum. Þá séu lóðirnar í grennd við skipulagðar frístundabyggðir, íbúðarhús, héraðsveg, veitur og ljósleiðara. Athugasemdir sem borist hefðu frá kærendum hefðu ekki gefið ástæðu til þess að umsókn landeiganda um stofnun lóðanna yrði synjað. Stofnun lóðanna hamli ekki eðlilegri landbúnaðarstarfsemi né spilli samfellu í góðu landbúnaðarlandi. Umsóknin hafi verið í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í hinni kærðu ákvörðun hafi komið fram að áður en leyfisskyldar framkvæmdir verði heimilaðar á lóðunum skuli liggja fyrir deiliskipulag og þá fari fram grenndarkynning í samræmi við skipulagslög. Hin kærða ákvörðun byggingaryfirvalda um stofnun umræddra lóða hafi engin áhrif á hagsmuni kærenda. Eignar- og ráðstöfunarréttur eigenda jarðarinnar Flekkudals sé verndaður af 2. mgr. 72. gr. stjórnarskrár og allar takmarkanir á ráðstöfunareigenda á eignum sínum beri að túlka þröngt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitastjórnar Kjósarhrepps að samþykkja umsókn eigenda jarðarinnar Flekkudals, L126038, um að stofna þrjár íbúðarhúsalóðir úr jörðinni.

Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Samkvæmt 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004 skal skipting lands á landbúnaðarsvæðum, sbr. 48. gr. skipulagslaga, samrýmast skipulagsáætlun. Við beiðni um skiptingu eða sameiningu lands á landbúnaðarsvæðum er sveitarstjórn heimilt að krefjast þess að umsækjandi geri grein fyrir áhrifum hennar á búrekstrarskilyrði. Ákvörðun sveitarstjórnar hvort fallist verði á skipti skal reist á heildstæðu mati á áhrifum þeirra samkvæmt skipulagsáætlun. Ekki verður séð að sveitarstjórn hafi talið ástæðu til að neyta þessarar heimildar með hliðsjón af umfangi landskiptanna.

Jörðin Flekkudalur er samkvæmt Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Við flokkun landbúnaðarlands í sveitarfélaginu var heimaland jarðarinnar að mestu álitið í flokki I, þ.e. telst til lands sem álitið er kjörlendi fyrir akuryrkju. Samkvæmt aðalskipulaginu skal stefnt að því að landbúnaður verði áfram stundaður á bújörðum með eðlilegum þróunarmöguleikum ýmissa atvinnugreina sem henti á slíkum svæðum. Forðast eigi uppskiptingu bújarða, sérstaklega landbúnaðarlands í flokki I og II. Heimiluð sé uppbygging á landspildum landbúnaðarsvæða sem eru að lágmarki 0,5 ha, m.a. til áhugabúskapar. Slíkar spildur séu að jafnaði utan góðs landbúnaðarlands (í flokki I og II) og utan svæða sem séu verðmæt vegna náttúrufars, náttúruauðlinda, sögu eða almenns útivistargildis. Þá verði bygging nýrra íbúðarhúsa að jafnaði ekki heimiluð á hættusvæðum.

Við landskipti á landbúnaðarsvæðum skuli taka tillit til verndarsvæða og góðs landbúnaðarlands í flokki I og II. Byggingar á nýjum lóðum/spildum skuli nýta sem best þau veitu- og samgöngukerfi sem fyrir séu. Ekki verði heimiluð landskipti nema tryggt aðgengi sé að nýjum spildum frá þjóðvegi og gera þurfi grein fyrir áætlaðri nýtingu lands þegar óskað sé landskipta. Markmiðið með takmörkun á landskiptum sé að leitast við að tryggja að landbúnaðarland í flokki I og II verði áfram nýtt til landbúnaðar og matvælaframleiðslu, halda í dreifbýlisyfirbragð og sporna við myndun samfelldrar byggðar.

Fyrir liggur að Aðalskipulag Kjósarhrepps 2017-2029 mælir almennt gegn því að bújörðum á landbúnaðarsvæðum sé skipt upp. Hins vegar er uppskipting slíks lands og jarða ekki óheimil að uppfylltum tilteknum skilyrðum um staðsetningu, aðgengi og stærð lóða. Við ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja umsókn landeigenda um stofnun lóðanna lá fyrir að hinar umdeildu lóðir uppfylltu þau skilyrði. Lóðirnar eru aðeins þrjár talsins og staðsettar nálægt skipulögðu frístundasvæði, í nálægð við veitu- og samgöngukerfi og stærð þeirra rúmir 0,5 ha.

Heimild sveitarstjórnar til að skipta jörðum, löndum og lóðum skv. 48. gr. skipulagslaga er bundin því skilyrði 6. gr. jarðalaga að landskipti samrýmist skipulagsáætlun. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga skiptast í þrjá flokka skv. 19. tl. 2. gr. skipulagslaga, þ.e. svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Ákvörðun sveitarstjórnar um landskiptin var að því best verður ráðið í samræmi við skilyrði sett í Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029.

Við skiptingu lands á grundvelli 48. gr. skipulagslaga er ekki kveðið á um að fylgja skuli þeim málsmeðferðarreglum sem gilda um gerð, kynningu og samráð við deiliskipulagsgerð. Var sveitarstjórn Kjósarhrepps þannig ekki skylt að grenndarkynna umsókn um stofnun hinna umdeildu lóða úr jörðinni Flekkudal. Sú ákvörðun sveitarstjórnar að grenndarkynna umsóknina fyrir kærendum telst þó ekki annmarki á málsmeðferð enda kveða lög ekki á um að óheimilt sé að grenndarkynna umfram lagaskyldu.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Kjósarhrepps frá 25. október 2022, um að stofna þrjár íbúðarhúsalóðir úr jörðinni Flekkudal í Kjósarhreppi.

109/2022 Gefjunarbrunnur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2022 um að grípa ekki til aðgerða vegna fasteignarinnar Gefjunarbrunns 12 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Freyjubrunni 9, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2022 að grípa ekki til aðgerða vegna fasteignarinnar Gefjunarbrunns 12 í Reykjavík. Verður að skilja málsskot kæranda á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. nóvember 2022.

Málavextir: Um haustið 2022 sendi kærandi ábendingu í gegnum ábendingavef á vefsíðu Reykjavíkurborgar vegna lóðanna Gefjunarbrunni 10 og 12. Kom þar fram að lóðarhafar nefndra lóða nýttu götuna Freyjubrunn til geymslu byggingarefnis og væri þess óskað að Reykjavíkurborg myndi beita sér fyrir því að umræddir lóðarhafar tækju „tillit til þarfa íbúa Freyjubrunns að nýta gesta og íbúa bílastæði íbúa Freyjubrunns í eigin þágu“. Einnig kom fram að áður hefði verið óskað eftir því að dyrum á húsi að Gefjunarbrunni 12 með umgengni út í Freyjubrunn yrði lokað.

Á afgreiðslufundi skilmálaeftirlits umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar hinn 26. september 2022 var ábendingin tekin fyrir og sat byggingarfulltrúi fundinn. Bókað var í fundargerð að dyrnar og veggur undir svölum væru í lagi og ekki stæði til að aðhafast í málinu. Kæranda var tilkynnt um afgreiðsluna í gegnum ábendingarvef á vefsíðu Reykjavíkurborgar 28. s.m. Kom þar fram að dyrnar, aðkoman og geymslupláss undir tröppum væri að mati byggingarfulltrúa í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Af hálfu eftirlitsdeildar og byggingarfulltrúa væri því ekki ástæða til aðhafast í málinu og teldist því lokið.

Málsrök kæranda: Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til tölvupóstsamskipta milli hans og borgaryfirvalda sem og ljósmynda sem fylgdu kæru.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að dyr, aðkoma og geymslupláss undir tröppum við Gefjunarbrunn 12 séu í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti, dags. 5. júní 2018. Gefjunarbrunnur 12 hafi lóðamörk að bæði Gefjunarbrunni og Freyjubrunni. Í grunninn sé kærandi ósáttur við að eigendur Gefjunarbrunns 12 nýti götuna Freyjubrunn sem aðkomu að húsi þeirra. Freyjubrunnur sé gata í borgarlandi og hvorki kærandi, íbúar við Freyjubrunn né gestir þeirra eigi tilkall til eða forgang við notkun hennar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að geymslan sem liggur að bílastæðum Freyjubrunns sé undir breyttum og stækkuðum svölum Gefjunarbrunns 12, en ekki undir tröppum eins og fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar.

Í áðurgildandi deiliskipulagi svæðisins hafi bílastæði Gefjunarbrunns verið skilgreind sem sérstök lóð sem tilheyrði öðrum lóðum við Gefjunarbrunn og væri sameign þeirra. Íbúar Freyjubrunns hafi ítrekað bent lóðarhafa Gefjunarbrunns 12 á að hann geti lagt bílum sínum í sinni götu. Þá þurfi íbúar Freyjubrunns á bílastæðum götunnar að halda og mismunun á gæðum til handa íbúanna hvað bílastæði varði sé sérkennileg.

Samkvæmt borgaryfirvöldum eigi sú staðreynd að lóðin við Gefjunarbrunn 12 eigi lóðamörk að báðum götum að réttlæta yfirgang lóðarhafa yfir í Freyjubrunn vegna eignarhalds borgarinnar á götu og bílastæðum. Allt um hverfið séu lóðir sem tugum skipti með lóðamörk að tveimur götum. Ekki hafi hvarflað að neinum húsráðendum þeirra húsa að nýta sér þá götu sem þeir séu ekki skráðir við. Þeir loki sig þess í stað af með háum og miklum veggjum og nýti sínar lóðir og götur. Sá galli sé hins vegar á lóð Gefjunarbrunns 12 að þar sé nánast engin lóð utan byggingarreits. Íbúar Freyjubrunns krefjist þess að reistur verði 3 m langur skjólveggur úr timbri í framhaldi af steypta svalaburðarveggnum til að loka af átroðning. Þess sé einnig krafist að skarði í steinvegg á Gefjunarbrunni 12 út í Freyjubrunn verði lokað. Þarna eigi að vera heill veggur. Eðlilegt sé að borgaryfirvöld stígi inn fyrir hönd borgara sinna og leiði ástandið til betri vegar með vegg sem hindri aðgengi út í Freyjubrunn. Í greinargerð borgaryfirvalda sé hins vegar skautað yfir þá kröfu.

Þá sé húsið úr timbri og í geymslunni séu m.a. geymd torfæruhjól og bensín. Mikil eldhætta stafi af umgengninni fyrir íbúa hússins og bílastæðin. Haft hafi verið samband við Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur en enginn af þeim telji málið heyra undir sig.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2022 að aðhafast ekki í máli kæranda vegna fasteignarinnar Gefjunarbrunns 12. Verður að líta svo á að erindum kæranda hafi verið beint í þann farveg að þvingunarúrræða væri krafist af hans hálfu vegna málsins.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá brestur úrskurðarnefndina heimild til þess að leggja tilteknar athafnir fyrir byggingaryfirvöld. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að Reykjavíkurborg hlutist til um að settur verði upp veggur á mörkum lóðarinnar.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum.

Af málatilbúnaði kæranda má ráða að aðfinnslur hans snúist fyrst og fremst um aðgengi lóðarhafa Gefjunarbrunns 12 að húsi sínu frá Freyjubrunni, geymslu undir svölum hússins og slæma umgengni á lóðinni. Á aðaluppdráttum hússins að Gefjunarbrunni 12 eru dyr þeim megin hússins sem snýr að Freyjubrunni og er ekki gert ráð fyrir heilum vegg framan við dyrnar. Aðaluppdrættir Gefjunarbrunns 12 voru áritaðir af byggingarfulltrúa 5. júní 2018. Þá virðist samkvæmt deiliskipulagi Úlfarsárdals, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2018, ekki útilokuð aðkoma að umræddu húsi frá Freyjubrunni. Fyrrgreindum þvingunarúrræðum mannvirkjalaga verður ekki beitt gegn lögmætu ástandi. Þá verður hvorki ákvörðun um samþykkt byggingaráforma vegna hússins né deiliskipulag svæðisins endurskoðað í máli þessu þar sem kærufrestur vegna þeirra ákvarðana er löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt aðaluppdráttum virðist misræmis gæta milli teikninga er varða jarðvegsyfirborð undir svölum. Önnur teikningin, sem sýnir þverskurð hússins, skurður B, gerir ráð fyrir uppfyllingu undir svölum en hin, sem sýnir útlit suðausturhliðar þess, gerir ráð fyrir hallandi yfirborði frá húsi sem er nokkru lægra en gólf svalanna. Leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá Reykjavíkurborg vegna þessa og óskaði eftir því að útskýrt yrði nánar að hvaða leyti borgaryfirvöld teldu umrædda geymslu undir tröppum í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Í svörum Reykjavíkurborgar kom fram að við nánari skoðun á aðaluppdráttum mætti sjá misræmi milli teikninga. Ákvörðun um að geymslan, þ.e. veggur, væri í samræmi við teikningar hafi verið tekin með hliðsjón af útlitsteikningu suðausturhliðar, sem sýnir stoðvegg undir svölum við lóðarmörk.

Í ljósi misræmis milli teikninga á aðaluppdráttum má telja að vafi leiki á því hvort ásigkomu-lagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, sbr. áðurgreinda 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga. Er því tilefni til þess fyrir byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar að rannsaka málið að nýju, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og taka í framhaldi rökstudda afstöðu til erindis kæranda. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi hvað þetta snertir.

Varðandi umgengni og önnur atriði sem fjallað er um af hálfu kæranda skal bent á að skv. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti kemur fram að lóð í kringum húsnæði skuli vera frágengin og henni haldið hreinni þannig að ekki berist að óþörfu óþrifnaður inn og valdi óþægindum fyrir þá sem þar dvelja eða leita þjónustu. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum reglugerðarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2022 um að grípa ekki til aðgerða vegna fasteignarinnar Gefjunarbrunns 12.

23/2023 Ásvellir

Með

Árið 2023, föstudaginn 17. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2023, kæra á útgáfu byggingarleyfis, dags. 2. febrúar 2023, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 25. janúar s.á. um samþykki byggingaráforma um knatthús að Ásvöllum 1.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2023, er barst nefndinni 13. s.m., kæra eigendur, Blikaási 4 og 9, Hafnarfirði, útgáfu byggingarleyfis, dags. 2. febrúar 2023, fyrir knatthúsi að Ásvöllum 1, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 25. janúar s.á. um að samþykkja umsókn um greint leyfi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 21. febrúar 2023.

Málavextir: Íþróttasvæði Hauka liggur að friðlandsmörkum Ástjarnar sem friðlýst var árið 1978 samkvæmt heimild í þágildandi lögum nr. 47/1971 um náttúruvernd. Verndarsvæðið var stækkað árið 1996 með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið með skírskotun til 26. gr. sömu laga. Í greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025 kemur fram að íþróttafélagið Haukar hafi byggt upp fjölbreytta aðstöðu til íþróttaiðkunar á íþróttasvæði sínu að Ásvöllum sem sé u.þ.b. 16 ha að flatarmáli og að mestu fullbyggt. Með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars 2020 um breytingu á aðalskipulaginu var landnotkun eins hektara svæðis á vesturmörkum íþróttasvæðisins breytt í íbúðarbyggð sem sameinaðist íbúðarbyggð Valla. Deiliskipulag Ásvalla, íþrótta- og útivistarsvæði Hauka, er frá árinu 2004 og hefur því verið breytt í tvígang. Með breytingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 2021 var skilgreind ný lóð vestan íþróttamiðstöðvar „innan íþrótta- og útivistarsvæðis undir íbúðir til að stuðla að fjölbreyttari landnotkun á svæðinu.“ Þá var byggingarreitur fyrir fjölnota knatthús færður nyrst á lóð Ásvalla „til að stuðla að betri nýtingu lóðar og svo byggingin raski sem minnst núverandi íbúðarbyggð í nágrenninu.“ Fyrri áform um knatthús að Ásvöllum fólu í sér að það yrði staðsett fyrir miðju íþróttasvæðisins, að hluta á fyrrgreindri lóð fyrir íbúðarbyggð, og að önnur skammhliða þess myndi snúa að fólkvanginum. Í kjölfar fyrrgreindra breytinga á skipulagi er nú gert ráð fyrir húsið verði nyrst á lóð Ásvalla, vestan megin við íþróttahúsið, og að önnur langhliða þess verði meðfram mörkum friðlandsins, en þar var áður grasvöllur og æfingarsvæði.

Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun barst stofnuninni 16. mars 2021 tilkynning frá Hafnarfjarðarkaupstað um fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 10.03 í 1. viðauka laganna. Leitaði stofnunin umsagnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, Hafrannsóknarstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs, Minjastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. júlí 2021 kom m.a. fram að fyrirhuguð framkvæmd kynni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum og skyldi því háð mati á umhverfisáhrifum.

Lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana tóku gildi 1. september 2021 og 25. nóvember s.á. barst Skipulagsstofnun matsáætlun um uppbyggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum samkvæmt 21. gr. laganna, sbr. lið 10.01 í 1. viðauka laganna. Hinn 4. maí 2022 lagði Hafnarfjarðarkaupstaður fram umhverfismatsskýrslu um uppbyggingu á svæðinu til kynningar og athugunar Skipulagsstofnunar, sbr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Framkvæmdin og skýrslan voru auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 2. júní s.á. og Fjarðarfréttum 8. s.m. og kom þar fram að allir gætu kynnt sér skýrsluna og lagt fram athugasemdir. Umhverfismatsskýrslan lá frammi til kynningar hjá stofnuninni frá 2. júní til 15. júlí 2022 og var einnig aðgengileg á vefsíðu hennar. Umsagna var leitað hjá áðurgreindum stjórnvöldum ásamt Orkustofnun og Veðurstofu Íslands og bárust umsagnir frá þeim öllum en einnig fleirum, þ. á m. frá öðrum kærenda máls þessa.

Í umhverfismatsskýrslu kom fram að í mati á umhverfisáhrifum væru til skoðunar þrír valkostir. Valkostur A væri fyrirhuguð uppbygging samkvæmt gildandi aðal- og deiliskipulagi sem gerði ráð fyrir að knatthús væri staðsett nyrst á íþróttasvæðinu og æfingasvæði staðsett sunnan við núverandi gervigrasvöll. Syðst á svæðinu væri gert ráð fyrir þremur æfingavöllum sem væru eins í valkostum A og B. Þá væri íbúðarbyggð staðsett við núverandi íþróttamiðstöð Hauka en félli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Valkostur B væri fyrri hugmynd um uppbyggingu og fæli í sér staðsetningu mannvirkja samkvæmt eldra deiliskipulagi frá árinu 2010. Ef valkostur B yrði fyrir valinu yrði ekki úr frekari uppbyggingu íbúða. Núllkostur fæli í sér óbreytt ástand og að ekki yrði af framkvæmdum. Kom fram að núllkostur væri notaður sem grunnviðmið til að meta áhrif framkvæmda á umhverfið og að með honum kæmi ekki til þeirra áhrifa sem aðrir valkostir hefðu í för með sér. Helstu áhrifin fælust í sjónrænum áhrifum vegna knatthúss, raski á eldhrauni og áhrifum á fuglalíf við Ástjörn sem hefði sýnt sig að væri viðkvæmt fyrir framkvæmdum.

Í niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 23. september 2022 kom m.a. fram að það væri mat stofnunarinnar að tekin væri að taka áhætta með því að reisa stórt knatthús steinsnar frá viðkvæmri náttúru, líkt og ráðgert væri yrði kostur A fyrir valinu og að með hliðsjón af mögulegum áhrifum á Ástjörn og lífríki hennar væri valkostur B betri.

Hluti þess svæðis sem knatthús samkvæmt valkosti B hefði getað risið á er nú lóð fyrir íbúðarhús, þ.e. Ásvellir 3–5. Byggingaráform á þeirri lóð voru samþykkt af byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar 21. desember 2022, en áður hafði skipulagsfulltrúa verið falið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir jarðvinnu á lóðinni. Kæru vegna greindra áforma, þ. á m. frá kærendum í máli þessu, var vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 20. janúar 2023 í úrskurði í máli nr. 146/2022 þar sem framkvæmdir á þeirri lóð voru ekki taldar hafa slík grenndaráhrif að þau vörðuðu lögvarða hagsmuni kærenda í málinu.

Hinn 23. nóvember 2022 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráform vegna knatthúss að Ásvöllum 1 í samræmi við valkost A. Í fyrrgreindu máli nr. 146/2022 taldi úrskurðarnefndin hluta kærenda eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun. Var þar sérstaklega litið til stærðar mannvirkisins og þess að það yrði áberandi í byggðinni. Grenndaráhrif með tilliti til útsýnis vegna knatthúsins voru ekki talin slík að þau vörðuðu hagsmuni tveggja kærenda, en ekki var talið unnt að útiloka grenndaráhrif gagnvart eigendum Blikaáss 4 og 9. Var þeim því játuð kæruaðild og eru þeir jafnframt kærendur í máli þessu. Með úrskurði í málinu, uppkveðnum 20. janúar 2023 var hin kærða ákvörðun felld úr gildi þar sem umsagnar Umhverfisstofnunar samkvæmt 54. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 hafði ekki verið aflað áður en ákvörðunin var tekin. Þann sama dag barst bæjaryfirvöldum greind umsögn Umhverfisstofnunar og voru byggingaráform vegna knatthúss að Ásvöllum 1 samþykkt á ný af byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 25. janúar 2023. Gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi vegna hins umdeilda mannvirkis 2. febrúar s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að Ástjörn og fólkvangurinn í kring séu friðlýst og að um sé að ræða afar viðkvæmt svæði með mikla verndarþörf. Framkvæmdir á svæðinu hafi hafist á ný eftir hlé sem varð í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 146/2022 sem kveðinn hafi verið upp 20. janúar 2023. Verði haldið áfram með framkvæmdir á svæðinu muni það hafa óafturkræf áhrif á svæðið, friðlandið og fólkvanginn. Í málinu séu uppi álitamál varðandi lögmæti hinna kærðu ákvarðana sem áhrif gætu haft á gildi þeirra. Verði framkvæmdum haldið áfram sé kæran í reynd markleysa og verulegum hagsmunum kærenda stefnt í hættu og erfitt yrði að ráða bót á tjóni þeirra ef ákvörðun byggingarfulltrúa yrði síðar felld úr gildi af úrskurðarnefndinni.

Óumeilt sé að framkvæmdin raski Ástjörn og hrauni sem sé verndað samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. 61. gr. laganna. Samkvæmt lögunum skuli forðast röskun nema brýna nauðsyn beri til. Af því leiði að gera verði kröfu um bráða nauðsyn hinnar kærðu framkvæmdar. Umrætt ákvæði laganna takmarki skipulagsvald sveitarfélaga og sé rökstuðningur byggingarfulltrúa um brýna nauðsyn á raskinu haldlaus. Byggingarfulltrúi hafi talið að báðir valkostir, þ.e. A og B, yllu talsverðum neikvæðum áhrifum á hraunið en bæjaryfirvöld telji hins vegar aðra staðsetningu, utan íþróttasvæðisins ekki koma til greina.

 Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Bæjaryfirvöld telja engar forsendur fyrir því að stöðva framkvæmdir. Við undirbúning, málsmeðferð og töku ákvörðunar um byggingu knatthúss að Ásvöllum hafi öllum lögum og reglum sem við eigi verið fylgt, svo sem skipulagslögum nr. 123/2010, skipulagsreglugerð nr. 90/2013, lögum og reglugerð um umhverfismat, lögum nr. 160/2010 um mannvirki, byggingarreglugerð nr. 112/2012, lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og lögum nr. 80/2012 um menningarminjar. Byggingarleyfi hafi verið veitt sem sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag og álit Skipulagsstofnunar um framkvæmdina liggi fyrir. Framkvæmdaleyfi til slóðagerðar og gróffyllingar knattspyrnuvallar á lóð Hauka að Ásvöllum hafi verið gefið út 21. september 2020. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. febrúar 2023 hafi verið lögð fram umsókn um endurútgáfu á framkvæmdaleyfinu vegna áframhaldandi undirbyggingar knattspyrnuvallarins og heimildar til að nýta burðarhæft efni innan lóðar og hafi skipulagsfulltrúa verið falið að gefa út framkvæmdaleyfi.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í málinu sé uppi ágreiningur varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og umhverfismatsskýrslu sem geti haft áhrif á gildi útgefins byggingarleyfis. Ógjörningur yrði að ráða bót á tjóni kærenda verði framkvæmdir ekki stöðvaðar, ef ákvörðun byggingarfulltrúa um mannvirkið yrði síðar felld úr gildi af úrskurðarnefndinni. Ekkert í málsrökum bæjaryfirvalda hreki það og geri þau ekki tilraun til að fjalla efnislega um þau álitaefni sem uppi séu í málinu. Hafa beri í huga að um sé að ræða risamannvirki á mörkum friðlands þar sem fyrir hendi sé veruleg hætta á alvarlegum afleiðingum fyrir friðlandið.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi leyfis til byggingar knatthúss að Ásvöllum 1 á þegar röskuðu svæði, en líkt og fram kom í málavöxtum var þar áður grasvöllur og æfingasvæði. Að því virtu og þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og hagsmuna kærenda, sem felast í skerðingu á útsýni, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé, með tilliti til hagsmuna kærenda, á að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað, en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða að Ásvöllum 1.

127/2022 og 135/2022 Reynimelur

Með

Árið 2023, föstudaginn 17. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 14. nóvember 2022, kæra íbúar Víðimels 65, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 2. desember 2022, kærir íbúi að Reynimel 64, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 135/2022, sameinað máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Kröfu kæranda í máli nr. 135/2022 um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni var hafnað með úrskurði uppkveðnum 11. janúar 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. janúar 2023.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 10. desember 2021 var umsókn um breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel lögð fram. Sótt var um að heimilt yrði að fjölga íbúðum úr þremur í fjórar, þaksvalir yrðu heimilaðar á tveggja hæða hluta nýbyggingar og sem skuli vera inndregnar um að minnsta kosti 2 m frá útbrún þaks neðri hæðar ásamt því að heimilt sé að gera að hámarki 120 m2 kjallara innan byggingarreits. Umsókninni var vísað til skipulags- og samgönguráðs sem tók erindið fyrir á fundi sínum 15. s.m. Á fundinum var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var henni vísað til borgarráðs. Borgarráð samþykkti að auglýsa tillöguna 6. janúar 2022. Erindið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. mars s.á. að lokinni auglýsingu og var vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. september s.á. var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til afgreiðslu, en ráðið samþykkti erindið á fundi sínum 14. s.m. og vísaði því til borgarráðs, sem samþykkti það á fundi sínum 22. s.m. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að fjölgun íbúða hafi neikvæð áhrif á hagsmuni þeirra. Ekki séu málefnaleg sjónarmið fyrir því að heimila fjölgun íbúða á lóðinni úr þremur í fjórar enda sé slík fjölgun ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Melasvæðið. Í gildandi deiliskipulagi segi að þar „sem íbúðir eru færri en 3 má fjölga þeim upp í 3, en að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir fjölgun íbúða.“ Hér sé því um brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar að ræða. Ekki sé málefnalegt í því sambandi að vísa til þess að í dag skeri lóðin sig frá öðrum lóðum, enda ekki um sambærileg atriði að ræða. Í ljósi þessarar röksemdarfærslu væri heimilt að gera allar mögulegar breytingar á lóðum úr takti við aðliggjandi byggð, svo lengi sem lóðin skeri sig á einhvern hátt frá aðliggjandi byggð.

Ekki séu fordæmi fyrir því að leyft sé að byggja tvær aðskildar byggingar á einni lóð líkt og deiliskipulagsbreytingin feli í sér. Fari það gegn deiliskipulagi Mela án þess að slík breyting hafi verið rökstudd sérstaklega. Í umsögn skipulagsfulltrúa segi að taka megi undir það sjónarmið að lóðin muni áfram skera sig úr öðrum lóðum á reitnum með tvær stakstæðar byggingar innan lóðar, enda stingi núverandi ástand þegar í stúf við aðliggjandi byggð. Að núverandi fyrirkomulag skeri sig frá öðrum lóðum á reitnum sé ekki málefnalegt sjónarmið fyrir því að leyfa breytingar sem einnig stingi í stúf. Reykjavíkurborg taki sérstaklega fram að breytingin hafi ekki fordæmisgefandi áhrif fyrir aðra.

Nálægð fyrirhugaðs byggingarreits við lóðina Víðimel 65 sé án fordæma. Breytingin hafi áhrif á nýtingu garðs kærenda og breyti skuggavarpi á lóð hans. Eigendur að Víðimel 65 hafi með réttmætum hætti miðað við fyrirliggjandi skipulag og gengið út frá því að ekki yrði reist svo stórt hús nærri lóðamörkum þeirra, enda engin fordæmi fyrir slíku í hverfinu.

Samþykki lóðarhafa Reynimels 64 sé ekki fyrir hendi vegna stoðveggjar sem breytingin krefjist vegna niðurgrafinnar jarðhæðar og kjallara. Samþykkt breytingar á deiliskipulagi sé í mótsögn við höfnun skipulagsfulltrúa á sambærilegri tillögu frá árinu 2018. Helstu rök fyrir synjuninni þá voru umtalsverð áhrif skuggavarps á lóðir nágranna til norðurs á Víðimel, að þriggja hæða bygging væri of há, að lækka þyrfti bygginguna um a.m.k. eina hæð og að tillagan tæki ekki mið af byggðamynstri í útfærslu. Engu sé breytt að ráði í þeirri tillögu sem nú sé samþykkt.

Breytingin feli í sér að heimilt verði að fjölga íbúðum úr þrjár í fjórar, en raunverulegur fjöldi íbúða verði hins vegar sex. Heimildin sé því villandi og röng. Samkvæmt eldra skipulagi hafi verið heimilt að rífa núverandi íbúðarhús á lóðinni og byggja þríbýli. Eftir breytingu sé heimilt að fjölga íbúðum úr þremur í fjórar, en um leið að halda núverandi húsi á lóðinni, sem hafi tvær íbúðir.  Íbúðir á reitnum verði því sex en ekki fjórar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda kemur fram að ekki verði með neinu móti séð á hvaða hátt fjölgun íbúða úr þremur í fjórar hafi þau neikvæðu áhrif á hagsmuni kærenda að ógildingu varði, enda sé sú málsástæða órökstudd með öllu.

Taka megi undir að lóðin muni skera sig úr öðrum lóðum á reitnum með tvær stakstæðar byggingar, en slíkt valdi þó ekki ógildi deiliskipulagsbreytingarinnar, enda sé mat skipulagsfulltrúa að ekki sé um fordæmisgefandi fyrirkomulag að ræða. Vert sé að halda í sögulegt samhengi og vernda húsið m.t.t. aldurs þess um leið og gengist sé við því að það, ásamt nýjum byggingareit aftan við húsið, sé á skjön innan um fasta hrynjandi aðliggjandi byggðar. Núverandi bygging frá 1924 tilheyri eldra búsetulandslagi sem víða megi sjá merki um í borgarlandslaginu, t.d. í gamla Vesturbænum og sé byggingin sem slík áhugaverð. Vel fari á því að halda núverandi byggingu sem mest óraskaðri. Umtalsverðar byggingarheimildir séu til staðar á lóðinni og breytingin opni á möguleika lóðarhafa að halda núverandi húsi óbreyttu þótt nýbygging rísi innan lóðarinnar.

Fjarlægð byggingarinnar við lóðamörk hafi ekki áhrif á nýtingarmöguleika kærenda. Minni byggingin verði tvo metra á tvo vegu frá lóðamörkum. Önnur hliðin liggi að bílskúr aðliggjandi lóðar nr. 64 við Reynimel. Skuggavarpsgreining sýni að skuggi muni ekki aukast vegna breytingar á byggingarreit og hæð nýbyggingar, þótt form skugga muni breytast lítillega innan nágrannalóða. Breytingar á skuggavarpi séu langt innan þeirra marka sem við megi búast þegar uppbygging eigi sér stað í þéttri borgarbyggð. Samþykki lóðarhafa Reynimels 64 hafi ekki þurft að liggja fyrir vegna stoðveggjar sem að hluta til liggi upp við umræddan bílskúr. Veggurinn fari ekki inn á lóð kærenda.

Hvað varði tillögu frá árinu 2018 sé nú gert ráð fyrir tvískiptum byggingarreit þar sem u.þ.b. helmingur flatarmáls nýs byggingarreits heimili þrjár hæðir en hinn helmingurinn einungis tvær hæðir. Skuggavarp muni ekki aukast skv. skýringarmyndum. Byggingarmagn og nýtingarhlutfall sé óbreytt frá eldra deiliskipulagi. Ekki sé rétt að gert sé ráð fyrir fjölgun íbúða í sex en heimilt sé að fjölga íbúðum á lóðinni úr þremur í fjórar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Mela, staðgreinireits 1.524, vegna lóðarinnar nr. 66 að Reynimel. Breytingin fólst í breyttum sérskilmálum fyrir Reynimel 66, nánar tiltekið að heimilt yrði að fjölga íbúðum úr þremur í fjórar, að inndregnar þaksvalir um að minnsta kosti 2 m frá útbrún þaks neðri hæðar yrðu heimilaðar á tveggja hæða hluta nýbyggingar, að kjallarar að hámarki 120 m2 yrðu heimilir innan byggingarreits og að niðurrifsheimild vegna núverandi húss yrði felld niður. Skilmálatafla var óbreytt og engin breyting varð á byggingarmagni, nýtingarhlutfalli eða lóðarstærð.

Deiliskipulagsbreytingin fékk meðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Verður ekki annað séð en að málsmeðferðin hafi verið í samræmi við 1. mgr. 43. gr., sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Af hálfu kærenda hefur verið bent á að deiliskipulagsbreytingin sé í ósamræmi við gildandi deiliskipulag Melasvæðis. Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 123/2010 og getur sveitarstjórn þannig haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna og er skv. 43. gr. heimilt að breyta deiliskipulagi. Í breytingu deiliskipulags felst óhjákvæmilega að vikið er frá því skipulagi sem í gildi var fyrir breytingu þess.

Þá benda kærendur á að ekki sé fordæmi fyrir sambærilegri breytingu í hverfinu. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga er heimilt að grenndarkynna óverulegar breytingar á deiliskipulagi. Í grein 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um óverulegar breytingar á deiliskipulagi. Kemur þar fram í 2. mgr. að við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli m.a. meta hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu sem varði almannahagsmuni. Í máli þessu var farið með hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu sem verulega breytingu á deiliskipulagi og var málsmeðferðin því skv. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 123/2010. Þar sem farið var með málið sem verulega breytingu verður hin kærða ákvörðun ekki ógild af þeirri ástæðu að um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða.

Hvað varðar athugasemd um þörf á samþykki nágranna fyrir stoðvegg við bílskúr verður að athuga að slíkt samþykki þarf ekki að liggja fyrir við gerð skipulagsáætlana, enda mæla þær einungis fyrir um framtíðarheimildir, en veita ekki leyfi til framkvæmda einar og sér. Til þess þurfa frekari leyfi til að koma, t.d. byggingar- eða framkvæmdaleyfi, sem eftir atvikum eru kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Í kærum kemur fram að íbúðir á lóðinni muni verða sex en ekki fjórar, líkt og fram komi í hinni kærðu ákvörðun. Verður þó ekki ráðið annað af hinu breytta deiliskipulagi en að einungis verði heimild fyrir fjórum íbúðum á lóðinni. Verða byggingarleyfi sem kunna að vera gefin út í framtíðinni að vera í samræmi við framangreinda heimild deiliskipulagsins, sbr. 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Að lokum hafa kærendur bent á að breytingin muni skerða hagsmuni þeirra, m.a. vegna aukins skuggavarps. Leiði breyting á skipulagi til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, á sá sem getur sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi skv. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga. Þótt hagsmunir nágranna kunni að skerðast að einhverju leyti við breytingar á deiliskipulagi veldur það ekki ógildingu skipulagsbreytingarinnar.

Samkvæmt öllu framangreindu er ekkert komið fram í máli þessu sem valdið getur ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 22. september 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel.

114/2022 Brekastígur

Með

Árið 2023, föstudaginn 17. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2022, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 29. ágúst 2022, um að synja umsókn um sameiningu lóða að Brekastíg 15A og 15B og breytingu á aðkomu að Brekastíg 15B.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 6. október 2022, kæra eigandi Brekastígs 15A og eigandi Brekastígs 15A og 15B, Vestmannaeyjabæ, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 29. ágúst 2022 að synja umsókn kærenda um sameiningu lóðanna að Brekastíg 15A og 15B og breytingu á aðkomu að Brekastíg 15B þannig að innkeyrsla Brekastígs 15B verði um Brekastíg 15A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kærendum verði veitt heimild til að sameina lóðirnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 3. nóvember 2022.

Málavextir: Gatan Brekastígur er í grónu hverfi og á svæði þar sem ekki er í gildi deiliskipulag. Á lóðinni Brekastíg 15B standa einbýlishús og bílskúr. Lóðin er í eigu annars kærenda og er aðkoma að henni um Bessastíg. Árið 2011 keyptu kærendur lóðina að Brekastíg 15A og var þá á lóðinni einbýlishús sem síðan hefur verið rifið. Árið 2022 óskuðu kærendur eftir því við bæjaryfirvöld að lóðirnar yrðu sameinaðar og aðkomunni að Brekastíg 15B yrði breytt þannig að hún yrði um Brekastíg í stað Bessastígs áður. Hinn 29. ágúst s.á. synjaði umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja umsókn kærenda og var kærendum tilkynnt um ákvörðunina með tölvupósti 6. september 2022.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að aðkoma að Brekastíg 15B sé óboðleg. Lóðin sé lítil, miklar þrengingar séu að heimreiðinni og ekki hægt að komast að húsi á lóðinni. Mikil prýði væri fyrir götumyndina að leyfa sameiningu lóðarinnar við Brekastíg 15A, en sú lóð sé auð þar sem húsið sem á henni stóð hafi verið ónýtt og því rifið. Á Brekastíg og næstu götum fyrir neðan, að Hásteinsvegi, Faxastíg og Vestmannabraut, megi finna hús sem séu staðsett innar á lóð og ekki við götu. Það standist því ekki að synja umsókn kærenda með þeim rökum að það sé gert til að halda götumynd.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs hafi byggt á því að lóðin að Brekastíg 15A sé ætluð til byggingar íbúðarhúss og kærendur geti ekki vænst þess að nýta lóðina til annars. Brekastígur sé um margt einstök gata í Vestmannaeyjum og einkennist götumyndin af þéttri byggð lítilla einbýlishúsa. Lóðirnar séu yfirleitt frekar litlar sem og húsin. Vestmannaeyjabær leggi áherslu á að viðhalda þessari götumynd. Heimild til að taka eina lóð, sameina annarri og gera hana að innkeyrslu og bílastæði hefði slæm áhrif á götumyndina og væri slæmt fordæmi. Innkeyrsla og aðkoma að Brekastíg 15B hafi verið frá Bessastíg um áratugaskeið og ekki breyst. Sú aðkoma sé vel viðunandi og ekki tilefni til breytinga.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að lóðir við Brekastíg 15A og 15B séu með minnstu lóðum götunnar og ekkert því til fyrirstöðu að sameina þær. Mjög þröngt sé að komast á bifreið inn í bílskúr að Brekastíg 15B og þá sé inngangur í húsið þannig úr garði gerður að enn frekar þrengi að aðkomunni. Þá komi fyrir að bílum sé lagt með þeim hætti að hindri aðkomu í bílskúr og innkeyrslu að Brekastíg 15B. Jafnframt sé erfitt að leggja bílum í innkeyrslunni vegna þess hve þröng hún sé. Verði lóðirnar sameinaðar yrði innkeyrslu að Brekastíg 15B lokað með garðvegg og tilhögun innkeyrslu og frágangur á lóð 15A yrði eins og hún hefði alltaf verið hluti af Brekastíg 15B.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur að jafnaði ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þess hvort fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna, og geta þær með því haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Annast þær og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga og ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags. Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Við meðferð umsókna um framangreint ber sveitarstjórn að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Þá eru sveitarstjórnir jafnframt bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum.

Skipulagsnefndir fara með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Sveitarstjórn er heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu þess heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samþykkt um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. október 2020. Í IV. viðauka samþykktarinnar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslur ráða og nefnda Vestmannaeyjabæjar og er í 7. gr. hennar mælt fyrir um verkefni umhverfis- og skipulagsráðs, en á meðal þeirra verkefna eru ákvarðanir skv. 48. gr. skipulagslaga um skiptingu landa og lóða, sbr. 1. tölulið, ákvörðun um hvort gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi til samræmis við innkomin erindi með vísan til 38. gr. skipulagslaga, sbr. 6. tölulið og ákvörðun skv. 44. gr. skipulagslaga um útgáfu byggingar- eða framkvæmdaleyfis þar sem deiliskipulag er ekki í gildi en framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015–2035 kemur m.a. fram að eitt meginmarkmiða þess er þétting byggðar. Þá kemur fram að á meðal markmiða og verkefna sé að þétta miðbæ og eldri hverfi með því að byggja á lausum lóðum til að fylla upp í götu og nýta þá grunngerð sem fyrir er. Skuli breytingar og uppbygging á einstökum lóðum í eldri hverfum taka mið af þeirri byggð sem fyrir er m.t.t. samræmis við núverandi götumynd, hlutföll bygginga og byggingarlist. Lóðirnar að Brekastíg 15A og 15B eru í svonefndu Hásteinshverfi, á svæði með landnotkunar-flokkinn íbúðarsvæði, ÍB-1. Um hverfið segir í aðalskipulaginu að það sé nánast fullbyggt, en nokkrar lóðir séu óbyggðar. Heimilt sé að leyfa breytingar á núverandi húsnæði og nýbyggingar sem falli vel að einkennum og yfirbragði þeirrar byggðar sem fyrir sé. Þá sé heimilt að þétta byggð, t.d. með því að byggja á óbyggðum lóðum, byggja við eða endurbyggja.

Í lóðarleigusamningi Brekastígs 15A frá 1987 kemur fram að lóðin sé leigð til byggingar íbúðarhúss og að hvers konar önnur notkun lóðarinnar sé óheimil. Á uppdrætti sem fylgdi samningnum má sjá afstöðu lóðarinnar við lóðirnar í kring og staðsetningu húss á lóðinni. Var annarri langhlið hússins ætlað að ná að mörkum lóðarinnar og göngustígs við Brekastíg.

Á svæðinu sem um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag. Þrátt fyrir það verður að játa sveitarfélaginu svigrúm til þess að hafa áhrif á þróun og útlit hverfisins með þeim hætti sem hér um ræðir, þ.e. að synja kærendum um sameiningu lóðanna og breytta aðkomu. Sú niðurstaða skipulags- og umhverfisráðs að synja umsókn kærenda um sameiningu lóðanna og breytingu á aðkomu þeirra var studd þeim rökum að ekki væri hægt að verða við erindinu þar sem um byggingarlóð væri að ræða. Þá hefur ákvörðunin verið studd þeim rökum fyrir úrskurðarnefndinni að vilji bæjaryfirvalda standi til þess að vernda götumynd Brekastígs sem einkennist af þéttri byggð lítilla einbýlishúsa. Kemur og fram í kæru að byggingarfulltrúi hafi greint kærendum frá þeirri afstöðu ráðsins. Er sú afstaða jafnframt í samræmi við áðurnefnda stefnu aðalskipulags sveitarfélagsins. Hafa því verið færð fram lögmæt og málefnaleg skipulagsrök fyrir hinni kærðu ákvörðun sem tekin var af þar til bærum aðila.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 29. ágúst 2022 um að synja um sameiningu lóða að Brekastíg 15A og 15B og breytingu á aðkomu að Brekastíg 15B.