Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2023 Skerðingsstaðir

Árið 2023, mánudaginn 16. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 112/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023 um að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra landeigendur Mýrarhúsa í Grundarfjarðarbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023 að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grundarfjarðarbæ 28. september 2023.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 10. mars 2022 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir Skerðingsstaði í Grundarfjarðarbæ. Tillagan var auglýst frá 20. júlí s.á. með athugasemdafresti til 14. september s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Tillagan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 9. mars 2022 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. ágúst 2022. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir hóteli í landi Skerðingsstaða.

Kærendur vísa m.a. til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir samkvæmt umræddu deiliskipulagi muni hafa í för með sér verulega aukna hljóð-, ljós- og loftmengun vegna aukinnar umferðar ökutækja á svæðinu og hótelstarfseminnar sjálfrar. Ekki sé hægt að ætla annað en að hávaða- og ljósmengun vegna fyrirhugaðs hótels muni berast yfir á land kærenda og rýra verðmæti fasteignar kærenda. Þá muni fyrirhuguð hótelbygging hafa í för með sér umtalsverða sjónmengun. Deiliskipulagið fari í bága við stefnu og meginmarkmið Aðalskipulags Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 og meginreglur laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Einnig séu ágallar á umhverfismati framkvæmdarinnar og rannsókn á áhrifum á nærumhverfið ófullnægjandi. Þá sé ekki gerð grein fyrir fyrirkomulagi fráveitu og umhverfisáhrifum vegna hennar. Jafnframt hafi ekki verið aflað leyfis Minjastofnunar í samræmi við ákvæði 21. og 22. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar né heldur verið kannað hvort þörf sé á leyfi Fiskistofu til framkvæmdanna samkvæmt 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiðar.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi margsinnis komist að þeirri niðurstöðu að almennt sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varði gildi deiliskipulagsákvarðana. Meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Heimildarákvæði 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar séu undantekning frá meginreglunni sem skýra beri þröngt. Því verði ríkar ástæður eða veigamikil rök að liggja til grundvallar ákvörðun um frestun réttaráhrifa. Í framkominni kæru séu ekki færð sérstök sjónarmið eða málsástæður fyrir því að fallast eigi á kröfu um frestun réttaráhrifa og því verði ekki séð á hvaða grundvelli víkja eigi frá þessari framkvæmd.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 enda framkvæmdir fyrst þá eftir atvikum yfirvofandi í skilningi 2. mgr. ákvæðisins. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestun réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulags­ákvarðana verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hins kærða deiliskipulags.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.