Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

108/2023 Njálsgata

Árið 2023, þriðjudaginn 3. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 108/2023, kæra á afgreiðslu skrifstofu stjórnsýslu og gæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar varðandi not kæranda af hluta lóðar sinnar fyrir bílastæði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Njálsgötu 54, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar sem fram komi í tölvupósti frá sveitarfélaginu 22. ágúst 2023 um að synja honum um að nýta bílastæði á lóð Njálsgötu 54. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu um frestun réttaráhrifa. Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. september 2023.

Málsatvik og rök: Á lóðinni Njálsgötu 54 stendur einbýlishús sem verið hefur í eigu kæranda í á þriðja áratug. Í greinargerð á uppdrætti gildandi deiliskipulags fyrir umrætt svæði frá árinu 2013 kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum innan lóða.

Fyrir hönd byggingarfulltrúans í Reykjavík var kæranda 13. júlí 2023 sent bréf með yfirskriftinni „Efni: Njálsgata 54 – Óleyfisframkvæmd“. Kom þar fram að ábending hefði borist þess efnis að búið væri að útbúa innkeyrslu frá Njálsgötu inn á lóð nr. 54 við götuna, ásamt því að gulmerkja kant og almenn bílastæði í götu. Kæranda var gert að láta af akstri inn á lóðina og lagningu bifreiða og ennfremur að loka fyrir innakstur. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum sem hann og gerði. Þá kom fram að yrði þessum tilmælum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum  laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem gæti falið sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda eða mælt fyrir um dagsektir.

Hinn 22. ágúst 2023 barst kæranda tölvupóstur frá starfsmanni á skrifstofu stjórnsýslu og gæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar þess efnis að ítrekuð væri sú krafa að hann léti af akstri inn á lóðina og var um leið tilkynnt að borgaryfirvöld hygðust fjarlægja gulmerkingar af götunni og gangstéttarkanti. Um leið var leiðbeint um að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar- umhverfis og auðlindamála ásamt því að hann gæti kannað hjá skipulagsfulltrúanum í Reykjavík hvort unnt væri að breyta deiliskipulagi og fá bílastæðin með því samþykkt.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi allt frá árinu 1989 nýtt hluta lóðar sinnar sem bílastæði. Reykjavíkurborg hafi ekki gert við það athugasemdir og starfsmenn borgarinnar gulmerkt kant gangstéttar fyrir framan bílastæðið, sem hann hafi þó í fyrstu merkt að eigin frumkvæði, og með því viðurkennt rétt kæranda til að nýta umræddan lóðarpart með þessum hætti.

Borgaryfirvöld vísa til þess að ekki virðist um það deilt að tvö bílastæði á lóð nr. 54 við Njálsgötu hafi aldrei verið samþykkt af byggingar- eða skipulagsyfirvöldum borgarinnar. Þá sé fyrirkomulag lóðarinnar ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, sbr. gr. 4.3.1. og 4.4.4. í byggingarreglugerð. Ljóst sé að óheimilt sé að leggja bifreiðum inn á einkalóð ef skipulag geri ekki ráð fyrir því. Staðsetning bílastæðanna á lóðinni sé á þann veg að tvö skáhallandi almenningsstæði í götu séu ónothæf.

Niðurstaða: Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og felst það m.a. í því að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi. Annast þeir eftirlit með mannvirkjagerð sem fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna, þ.e. byggingarleyfisskyldum framkvæmdum sem ekki heyra undir Húsnæðis og mannvirkja­stofnun, en sveitarstjórn ber ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010.  Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum.

Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var kæranda með bréfi dags. 13. júlí 2023 gert að láta af akstri inn á lóð sína og tilkynnt um hugsanlega beitingu þvingunarúrræða. Var og vísað til gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem kveðið er á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur og sem er um flest samhljóða 56. gr. laga nr. 160/2010. Áskorun skv. 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga er liður í undirbúningi mögulegrar ákvörðunar um beitingu þvingunarúrræða skv. 56. gr. en felur ekki í sér lokaákvörðun um beitingu þeirra. Verður sú ákvörðun því ekki ein og sér borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hin kærða afgreiðsla í máli þessu var í formi tölvupósts frá starfsmanni skrifstofu stjórnsýslu og gæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, sem ekki verður jafnað við afgreiðslu valdbærs stjórnvalds.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að tekin hafi verið ákvörðun af byggingar­fulltrúanum í Reykjavík um hugsanlega beitingu þvingunar­úrræða í sam­ræmi við ákvæði 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.