Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2003 Sogavegur

Með

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2003, kæra 15 íbúa og eigenda fasteigna að Sogavegi 103, 105, 107, 116, 120 og 122 og Hamarsgerði 8 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2002 um að veita leyfi til að rífa timburhús og byggja steinsteypt tvílyft fjölbýlishús á lóð nr. 112 við Sogaveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 16. mars 2003, sem barst úrskurðarnefndinni 17. sama mánaðar, kæra 15 íbúar og eigendur fasteigna að Sogavegi 103, 105, 107, 116, 120 og 122 og Hamarsgerði 8 í Reykjavík ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2002 um að veita leyfi til að rífa timburhús og byggja steinsteypt tvílyft fjölbýlishús á lóð nr. 112 við Sogaveg í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest af borgarráði Reykjavíkur í umboði borgarstjórnar 2. júlí 2002.  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Jafnframt kröfðust kærendur þess að framkvæmdir við nýbyggingu að Sogavegi 112 yrðu stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefði kærumál þetta til meðferðar.  Féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði, uppkveðnum 16. apríl 2003.

Gagnaöflun er nú lokið og er málið tekið til efnisúrlausnar.

Málsatvik:  Á vordögum árið 2001 sótti lóðarhafi að Sogavegi 112 um leyfi byggingaryfirvalda til að rífa gamalt hús á lóðinni og byggja þar í þess stað tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með fjórum íbúðum.  Jafnframt var sótt um breytingu á mörkum lóðanna nr. 112 og 108.  Var umsókn þessi til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum um alllangt skeið og var á þeim tíma unnið að frekari útfærslu á byggingaráformum lóðarhafa.  

Í desember 2001 var ákveðið að kynna nágrönnum erindið og stóð grenndarkynning frá 14. desember 2001 til 14. janúar 2002.  Athugasemdir bárust frá fjölda nágranna og lutu þær í höfuðatriðum að hæð fyrirhugaðrar byggingar, fjölda íbúða, fjölda bílastæða og því að taka ætti tillit til gróðurs á lóðinni.  Í kjölfar þessa vann skipulagsfulltrúi umsögn um athugasemdirnar, dags. 17. janúar 2002.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa þann 18. janúar 2002 voru athugasemdirnar kynntar, sem og umsögn skipulagsfulltrúa um þær.  Málið var tekið fyrir á fundum skipulags- og byggingarnefndar þann 23. og 30. janúar 2002, ásamt athugasemdunum og umsögn skipulagsfulltrúa.  Var afgreiðslu málsins frestað á báðum fundunum.  Enn var málið lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd hinn 13. febrúar 2002.  Samþykkti nefndin á þeim fundi breytingu á mörkum lóðanna nr. 112 og 108 við Sogaveg en frestaði afgreiðslu umsóknarinnar að öðru leyti.  Óskaði nefndin eftir því við byggingarfulltrúa að hann hlutaðist til um að útlitshönnun og hönnun þaks yrði bætt og að málið yrði að því loknu lagt á ný fyrir nefndina.  Eftir að umbeðnar lagfæringar höfðu verið gerðar var umsóknin, ásamt athugasemdum nágranna og umsögn skipulagsfulltrúa, lögð á ný fyrir nefndina þann 24. júní 2002.  Samþykkti nefndin þá byggingarleyfi það sem kært er í máli þessu.  Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu í umboði borgarstjórnar þann 2. júlí 2002.

Af misgáningi mun hafa láðst að senda þeim nágrönnum, sem gert höfðu athugasemdir, svör við þeim ásamt lögboðinni tilkynningu um lyktir málsins.  Komu þessi mistök ekki í ljós fyrr en framkvæmdir hófust á lóðinni í byrjun mars 2003.  Var þeim sem gert höfðu athugasemdir í tilefni af grenndarkynningu umsóknarinnar sent bréf, dags. 12. mars 2003, þar sem þeim var gerð grein fyrir málalokum og athygli vakin á kæruheimild.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 16. mars 2003, svo sem að framan greinir.

Áður en krafa kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðbirgða var tekin til úrlausnar leitaði úrskurðarnefndin umsagnar Skipulagsstofnunar með, bréfi dags. 9. apríl 2003, um þau álitaefni, sem til úrlausnar eru í málinu.  Í umsögn stofnunarinnar, dags. 14. apríl 2003, er gerð grein fyrir aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar, en síðan segir: 

„Í dómi Hæstaréttar frá 20. september 2001 í málinu nr. 114/2001 kemur fram að við afmörkun undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br., gagnvart meginreglu 2. mgr. sömu greinar, beri að skýra ákvæðin til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. laganna.  Þannig beri að deiliskipuleggja byggð hverfi áður en byggingarleyfi eru veitt, nema þau leiði til óverulegrar breytingar á byggðamynstri hverfisins.

Á lóðinni nr. 112 við Sogaveg var fyrir 77,4 m²  hús byggt árið 1932.  Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er nú heimilt að byggja þar 329,6 m²  hús á 2 hæðum, auk þess sem lóð hússins var stækkuð úr 684 m²  í 808 m² .  Skipulagsstofnun telur að þrátt fyrir að íbúar viðkomandi svæðis hafi mátt vænta þess að nýtt hús yrði byggt á viðkomandi lóð í stað þess sem fyrir var, verði að gera þá kröfu að svo veruleg breyting á nýtingu lóðarinnar sé skoðuð í nánu samhengi við þá byggð sem fyrir er á reitnum og hann deiliskipulagður í heild í samráði við íbúa svæðisins.  Stofnunin telur að undirbúningur veitingar hins kærða byggingarleyfis hafi ekki verið fullnægjandi, þar sem skv. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga eins og hún er skýrð í framangreindum dómi Hæstaréttar hefði átt að vinna deiliskipulag af viðkomandi svæði áður en byggingarleyfi var veitt.“

Var málsaðilum gefinn kostur á að tjá sig um þau sjónarmið sem fram koma í áliti Skipulagsstofnunar og rakin eru hér að framan.  Bárust nefndinni athugasemdir um umsögnina frá lögmanni byggingarleyfishafa og frá borgaryfirvöldum, eins og rakið verður hér að neðan.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að þeim hafi ekki verið send lögboðin tilkynning um niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar svo sem áskilið sé í 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Hafi þeim því ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrr en framkvæmdir hafi verið hafnar á lóðinni hinn 8. mars 2003, en eftir það hafi þeim verið send umrædd tilkynning.  Að auki hafi grenndarkynningu í málinu verið áfátt þar sem ekki hafi með skýrum hætti verið gerð grein fyrir stækkun lóðarinnar að Sogavegi 112 á kostnað grannlóðar.

Kærendur telja rétt sinn skertan verulega með fyrirhugaðri byggingu.  Húsið sé allt of stórt og hátt og með of mörgum íbúðum.  Rýri það útsýni og auki á umferð og bílastæðavandamál.  Virðist þeim byggingarmagn nýbyggingar á lóðinni vera umfram það sem lög leyfi og hafi byggingin í för með sér verðrýrnun eigna í nágrenninu.  Raunar sé fyrirhuguð nýbygging svo stór að hún hafi ekki rúmast á lóðinni og hafi því verið gripið til þess ráðs að stækka lóðina á kostnað grannlóðar, en af henni hafi þó ekkert mátt taka vegna skorts á bílastæðum.  Hafi nágrannar ekki mátt vænta slíkra ráðstafana samfara endurbyggingu húss á lóðinni að Sogavegi 112.  Sé ljóst að fyrirhuguð bygging hafi í för með sér meiri umferð og bílastæðavanda en verið hefði ef á lóðinni hefði verið byggt einbýlishús eða parhús í stað einbýlishúss þess sem fyrir hafi verið á lóðinni.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar mótmælt.  Fráleitt sé að ógildingu varði þótt láðst hafi að senda kærendum tilkynningu um samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar, enda hafi það ekki leitt til neinna réttarspjalla.

Umrætt hús sé ekki frábrugðið mörgum öðrum húsum í nágrenninu og sé því í samræmi við byggðamynstur hverfisins, sem reyndar sé ósamstætt.  Húsið valdi ekki meiri grenndaráhrifum en almennt megi gera ráð fyrir í þéttbýli og hafi kærendur ekki sýnt fram á að hagsmunir þeirra hafi verið skertir með ólögmætum hætti.  Þá sé þess að gæta að jafnvel þótt um eitthvert tjón kynni að vera að ræða þurfi það eitt ekki að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Nýtingarhlutfall og hæð nýbyggingar sé hvort tveggja innan viðmiðunarmarka.  Fjöldi íbúða í húsinu sé ekki meiri en dæmi séu um á viðkomandi reit, en þar sé að finna fjölmörg hús með fleiri en einni íbúð og allt upp í sjö íbúðir.  Umferðaraukning vegna íbúðanna sé ekki mælanleg og ónæði af aukinni umferð að sama skapi ekki heldur.  Vel sé séð fyrir bílastæðum innan lóðar í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá sé skuggavarp óverulegt og alls ekki meira en gera megi ráð fyrir í þéttbýli.  Kærendum hljóti að hafa verið ljóst að til þess gæti komið að hús það sem áður hafi staðið á lóðinni yrði rifið og þar byggt að nýju, enda hafi gamla húsið, sem byggt hafi verið sem sumarhús árið 1932, einungis verið 77,4 m².

Fyrir liggi að umsókn um hið umdeilda byggingarleyfi hafi hlotið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ótvírætt sé að borgaryfirvöldum hafi verið heimilt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina á grundvelli 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem húsið sé í samræmi við nýtingarhlutfall og byggðamynstur á svæðinu.

Hinn 16. apríl 2003 bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir Reykjavíkurborgar, þar sem mótmælt var áliti Skipulagsstofnunar í málinu.  Var niðurstöðu stofnunarinnar mótmælt sem rangri og því hafnað að tilvitnaður dómur Hæstaréttar gæfi tilefni til svo þröngrar túlkunar á 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 eins og talið væri í álitinu.  Slík túlkun gengi einnig gegn áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2556/1998, sem tilvitnaður dómur hefði í engu raskað og byggði í raun á. 

Með bréfi, dags. 23. október 2003, áréttar talsmaður borgaryfirvalda sjónarmið borgarinnar, sem að framan eru rakin.  Að auki er í bréfinu mótmælt fullyrðingu í úrskurði til bráðbirgða frá 16. apríl 2003 um að lóðin að Sogavegi 112 hafi verið stækkuð til þess að koma hinni umdeildu byggingu fyrir á lóðinni.  Hafi  meginástæðan fyrir stækkun lóðarinnar verið sjónarmið um umferðaröryggi og hafi tilgangurinn verið sá að koma í veg fyrir að bakka þyrfti úr bílastæðum við húsið út á Sogaveginn, en þannig hefði verið hægt að koma stæðum fyrir án þess að stækka lóðina.

Í tilvitnuðu bréfi er því ennfremur haldið fram að sú niðurstaða að ógilda hið umdeilda byggingarleyfi fæli í sér stefnubreytingu af hálfu úrskurðarnefndarinnar miðað við fyrri úrlausnir, t.d. í málum varðandi byggingarleyfi að Þórsgötu 2 og byggingu barnaspítala á lóð Landspítalans.  Niðurstaða af því tagi hefði í för með sér verulega og ástæðulausa skerðingu á nýtingarrétti fasteigna. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda mótmælt.  Byggir hann á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og Reykjavíkurborg, sem að framan eru rakin.  Hefur hann einnig komið á framfæri athugasemdum við umsögn Skipulagsstofnunar í málinu.  Hafnar hann því að tilvitnaður dómur Hæstaréttar hafi slíkt fordæmisgildi sem talið sé í umsögninni.  Aðstæður séu að auki ólíkar í því máli sem hér sé til meðferðar og sé því hafnað að fyrirhuguð nýbygging samræmist ekki byggðamynstri hverfisins. 

Með bréfi, dags. 10. nóvember 2003, reifar lögmaður byggingarleyfishafa sjónarmið hans hvað varðar efnishlið málsins.  Bendir hann á að kærendur hafi í kæru sinni vísað til þess að með því að leyfa byggingu hins umdeilda húss yrði eignaréttur þeirra skertur og myndi verðmæti eigna þeirra rýrna að sama skapi.  Engin viðhlítandi rök hafi verið færð fram fyrir þessum fullyrðingum, en á hinn bóginn sé ljóst að verði byggingarleyfið fellt niður muni byggingarleyfishafinn sannanlega verða fyrir gríðarlegu tjóni.  Hann hafi ráðist í að rífa niður hús það sem verið hafi á lóðinni þar sem hann hafi talið byggingarleyfið endanlegt, enda kærufrestir löngu liðnir er framkvæmdir hafi hafist.  Hafi honum þá ekki verið kunnugt um þau mistök er átt hefðu sér stað.  Hann hafi og gert verksamninga, sem rift hafi verið vegna vanefnda þar sem verkið hafi verið stöðvað.  Einnig hafi hann haft verulegan kostnað að því að tryggja öryggi við lóðina.  Telur hann að hagsmunir hans við halda áfram við bygginguna vegi mun þyngra heldur en óvíst tjón kærenda, en kærendum hafi mátt vera fullljóst að byggt yrði á lóðinni hús er hefði svipað nýtingarhlutfall og þeirra eigin hús, en umrætt hús hafi verið byggt fyrir rúmum 70 árum og þá sem sumarhús.

Við úrlausn málsins beri einnig að horfa til þess að byggingarleyfishafinn styðjist við gilt leyfi, útgefið af þar til bæru stjórnvaldi, er veiti honum rétt til byggingar hússins. Slíkt ívilnandi leyfi verði ekki fellt niður, nema það megi vera leyfishafa án tjóns, en því sé ekki fyrir að fara í þessu máli.  Niðurfelling leyfisins myndi og hafa í för með sér mikla skerðingu á atvinnufrelsi leyfishafa, en bygging fyrirhugaðs húss sé þáttur í atvinnustarfsemi hans.  Til þess að skerða atvinnufrelsi, sem varið sé af stjórnarskránni, þurfi mun meira til en þá hagsmuni er kærendur vísi til.

Þá telur byggingarleyfishafi að vegna þeirra mistaka sem orðið hafi við afgreiðslu leyfisins, verði kærendur að sækja rétt til sinn til bóta hjá Reykjavíkurborg, hafi þeir orðið fyrir tjóni, en hann verði í engu látinn sæta ábyrgð, hvorki til bóta, né niðurfellingu leyfisins.

Af hálfu byggingarleyfishafa er því ennfremur haldið fram að við afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar á máli þessu, beri henni að fjalla um ástæður kærenda fyrir kærunni og afgreiða þær á málefnalegan hátt. Geti nefndin ekki farið út fyrir málsástæður kærenda að þessu leyti.  Hafi byggingarleyfishafi áður fjallað um og afgreitt málsástæður kærenda og sömuleiðis það stjórnvald er veitt hafi honum leyfið.  Hafi þar verið tekið á því á málefnalegan hátt og í samræmi við góðar stjórnsýsluvenjur.

Loks gerir byggingarleyfishafi kröfu til þess að þeir nefndarmenn, sem kveðið hafi upp úrskurð um stöðvun framkvæmda, víki sæti við efnisúrlausn málsins vegna vanhæfis, en í forsendum úrskurðarins komi fram umfjöllun um efnisatriði, sem á engan hátt hafi þá verið til úrlausnar.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið láðist borgaryfirvöldum að tilkynna nágrönnum niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar um hina kærðu ákvörðun, svo sem skylt var að lögum, sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Var lögboðin tilkynning um ákvörðunina fyrst send kærendum með bréfi, dags. 12. mars 2003.  Áttu þeir málskotsrétt frá viðtöku þeirrar tilkynningar og var málinu því vísað til úrskurðarnefndarinnar innan tilskilins frests.  Verður einnig að telja að kærendur eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.  Hefur úrskurðarnefndin því tekið mál þetta til úrlausnar.

Auk atriða er varða efni máls og að framan eru rakin er nú af hálfu lögmanns byggingarleyfishafa á því byggt að nefndarmönnum í úrskurðarnefndinni beri að víkja sæti þar sem þeir hafi orðið vanhæfir við uppkvaðningu úrskurðar til bráðabirgða í málinu.  Þá sé úrskurðarnefndinni óheimilt að fara út fyrir málsástæður kærenda við meðferð málsins.

Úrskurðarnefndin hafnar málsástæðu byggingarleyfishafa um vanhæfi.  Verður ekki á það fallist að nefndarmenn verði vanhæfir fyrir það eitt að rækja lögbundin skyldustörf sín með því að kveða upp úrskurð í máli til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda og rökstyðja niðurstöðu sína um þann þátt máls að einhverju lágmarki.  Eru slík atvik ekki heldur meðal þess sem að stjórnsýslulögum eru talin valda vanhæfi.  Hefur þetta álitaefni þegar komið til úrlausnar dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar frá 27. mars 2003 í máli nr. 367/2002.

Um þá málsástæðu að úrskurðarnefndin sé bundin af málatilbúnaði kærenda vísast til þess að úrskurðarnefndin starfar eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og hefur því bæði leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu.  Er það hlutverk nefndarinnar að skera úr ágreiningi um lögmæti kærðrar ákvörðunar og er nefndin ekki bundin af málatilbúnaði aðila við úrlausn máls.  Hefur þetta álitaefni einnig komið til kasta dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar frá 20. september 2001, í máli nr. 114/2001, þar sem sambærilegri málsástæðu var hafnað.
   
Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð allstór nýbygging að Sogavegi 112 með fjórum íbúðum í stað eldra húss sem var ein íbúð.  Til þess að koma húsinu og bílastæðum fyrir á lóðinni með viðunandi hætti, var gripið til þess að stækka lóðina, en jafnframt var minnkuð lóð granneignanna að Sogavegi 108 og Réttarholtsvegi 1-3.  Hefur sú breyting í för með sér hækkun á nýtingarhlutfalli þeirrar lóðar.  Var þessi ráðstöfun, að sögn borgaryfirvalda, gerð með tilliti til umferðaröryggis, svo ekki þyfti að bakka úr stæðum við húsið út á Sogaveginn.

Þegar litið er til smæðar og aldurs húss þess er stóð á lóðinni nr. 112 við Sogaveg verður að fallast á að kærendur og aðrir íbúar umrædds svæðis hafi mátt búast við því að endurbyggt yrði á lóðinni.  Hins vegar telur úrskurðarnefndin að þeir hafi ekki mátt vænta þess að lóð hússins yrði stækkuð um rúmlega 18% og á henni reist fjöleignarhús með 4 íbúðum án þess að áður væri unnið deiliskipulag fyrir  viðkomandi götureit, sérstaklega þegar litið er til þess að í breytingunni felst einnig hækkun á nýtingarhlutfalli og fækkun mögulegra bílastæða fyrir lóðina nr. 108 við Sogaveg og nr. 1 og 3 við Réttarholtsveg, sem þó er verslunar- og þjónustulóð.   

Byggðamynstur umrædds götureits er sérstakt að því leyti að tvær raðir baklóða eru á honum með aðkomu frá Sogavegi um botnlanga á lóðamörkum framlóða.  Veldur þetta því, að mati úrskurðarnefndarinnar, að vandasamt er að leysa skipulagsmál svæðisins svo vel fari, og að óvarlegt er að gera þar umtalsverðar breytingar, án þess að unnið sé deiliskipulag fyrir svæðið í heild, einkum þegar um er að ræða breytingar á lóðastærðum, lóðamörkum og fyrirkomulagi umferðar og bílastæða, sem í eðli sínu varða skipulag.

Úrskurðarnefndin hafnar staðhæfingum borgaryfirvalda um að aðstæður í máli þessu séu sambærilegar og t.d. að Þórsgötu 2 eða lóð Landspítalans.  Í fyrra tilvikinu var um að ræða nýbyggingu sem var sambyggð granneign eins og ráðgert hafði verið, en nýbyggingin rúmaðist að öllu leyti innan viðkomandi lóðar og var bílastæðaþörf hússins einnig fullnægt innan lóðar þess.  Að auki er umrædd bygging á svæði innan Hringbrautar-Snorrabrautar, sem haft hefur nokkra sérstöðu í aðalskipulagi Reykjavíkur.  Að vísa til Landspítalalóðar til samanburðar við aðstæður í þessu máli telur úrskurðarnefndin ekki rökrétt þegar litið er til þess að þar var um framkvæmdir á stofnanalóð að tefla, sem ekki voru taldar aðrar eða meiri en gera mætti ráð fyrir samkvæmt skilgreindri landnotkun aðalskipulags.

Af hálfu Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa hefur verið mótmælt þeirri túlkun, sem fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar, að vinna hefði átt deiliskipulag fyrir umrætt svæði áður en unnt væri að taka afstöðu til umsóknar um hið umdeilda byggingarleyfi.  Hafna þessir aðilar því að tilvitnaður dómur Hæstaréttar gefi tilefni til svo þröngrar túlkunar á 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 eins og talið sé í umsögninni.  Slík túlkun gengi einnig gegn áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2556/1998, sem tilvitnaður dómur hefði í engu raskað og byggði í raun á. 

Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Telur nefndin að á svæði því sem hér um ræðir megi vænta frekari umsókna um leyfi til endurbyggingar húsa á einstökum lóðum.  Því eigi við í máli þessu röksemdir sem fram komi í tilvitnuðu áliti umboðsmanns Alþingis þar sem segir: „Þegar til afgreiðslu kemur hvort veita eigi byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi, sem ekki hefur verið deiliskipulagt, og búast má við frekari umsóknum um framkvæmdir á reitnum, er almennt rétt að gera fyrst deiliskipulag fyrir reitinn áður byggingarleyfi er veitt.  Sú hætta fylgir, þegar veitt er eitt byggingarleyfi í einu, án þess að fyrir liggi deiliskipulag, að tvö eða fleiri byggingarleyfi á reit hafi í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri reitsins enda þótt hvert byggingarleyfi eitt og sér hafi ekki slík áhrif.  Þegar svo stendur á þróast byggð ekki í samræmi við heildstæða og samþætta stefnumörkun í formi deiliskipulags, sem grundvalla ber á fjölmörgum lögmæltum sjónarmiðum, auk þess sem íbúar hlutaðeigandi hverfis eru sviptir lögboðnum rétti sínum til þess að fá færi á því að koma að sjónarmiðum sínum og hafa áhrif við gerð deiliskipulags.  Slík byggðaþróun verður að teljast í andstöðu við markmið skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“ 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að óheimilt hafi verið að veita hið umdeilda byggingarleyfi án þess að deiliskipulag væri áður unnið fyrir viðkomandi götureit, enda er það niðurstaða nefndarinnar að með leyfinu hafi byggingaryfirvöld heimilað breytingar og framkvæmdir sem séu meiri að umfangi en rúmast geti innan marka undantekningarheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eins og heimildin hafi verið skýrð.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2002 um að veita leyfi til að rífa timburhús og byggja steinsteypt tvílyft fjölbýlishús á lóð nr. 112 við Sogaveg í Reykjavík. 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

4/2003 Hraunbrún

Með

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2003, kæra eiganda fasteignarinnar að Hraunbrún 25, Hafnarfirði á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 25. nóvember 2003 um að synja beiðni um fjölgun íbúða í einbýlishúsi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. janúar 2003, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir E, Hraunbrún 25, Hafnarfirði þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 25. nóvember 2002, sem staðfest var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 17. desember s.á., að synja beiðni hans um fjölgun íbúða í fasteign hans úr einni í tvær.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Fasteign kæranda að Hraunbrún 25, Hafnarfirði, sem hér um ræðir, er 351 m² einbýlishús í grónu hverfi nærri miðbænum.  Fyrir liggur deiliskipulag af svæðinu, staðfest af félagsmálaráðherra hinn 27. maí 1981.

Með bréfi, dags. 2. apríl 2002, sendi kærandi máls þessa fyrirspurn til byggingarfulltrúans í Hafnarfirði þess efnis hvort heimilt yrði að breyta einbýlishúsinu að Hraunbrún 25, Hafnarfirði í fjölbýlishús með tveimur íbúðum.  Byggingarfulltrúi vísaði fyrirspurninni til bæjarskipulags og á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 16. apríl 2002 var eftirfarandi bókað:  „Í úthlutunarskilmálum er kveðið á um einbýlishús á lóðinni og að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsinu, sbr. umsögn bæjarskipulags dags. 10. apríl 2001. Skipulags- og umferðarnefnd leggst gegn því að yfirbragði götunnar verði breytt með því að heimila að einbýlishúsum verði breytt í fjöleignarhús í götunni. Erindinu er synjað.”
Byggingarnefnd fjallaði um fyrirspurnina á fundi hinn 17. apríl s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Gerð er fyrirspurn um leyfi til að breyta einbýlishúsi í tvær íbúðir.
Lögð fram afgreiðsla skipulagsnefndar frá 16. apríl 2002, þar sem lagst er gegn erindinu. Óskað eftir fullnaðarteikningum og erindið sent skipulagi til grenndarkynningar.” 

Í kjölfar bókunar byggingarnefndar lét kærandi ganga frá fullnaðarteikningum.  Hinn 18. apríl 2002 var lagt fram í bæjarráði bréf skipulagsstjóra þar sem vakin var athygli á afstöðu skipulags- og umferðarnefndar til fyrirspurnar kæranda og var málinu vísað til bæjarstjóra og bæjarverkfræðings.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 10. september 2002 var samþykkt að „…heimila óverulega breytingu á deiliskipulagi, skv. 2. málsgr. 26. greinar skipulags- og byggingarlaga og að grenndarkynning fari fram í húsaröðinni Hraunbrún 11-29 (oddatölur).”  Tillaga að breyttu deiliskipulagi laut að því að fella niður ákvæði í lóðarleigusamningi þess efnis að óheimilt væri að hafa fleiri en eina íbúð í húsi kæranda.  Grenndarkynningin stóð frá 4. október 2002 til og með 4. nóvember s.á. og bárust tvær athugasemdir, sem einkum lutu að því að verið væri að breyta samsetningu íbúðanna við götuna í annað horf en upphaflega hafi verið ráð fyrir gert, fyrirsjáanlegt væri að breytingin hefði í för með sér skort á bílastæðum ásamt því að vísað var til fordæmisgildis.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 25. nóvember 2002 var eftirfarandi bókað:  „Í ljósi framkominna athugasemda nágranna og samantektar bæjarskipulags frá 10.4. 2002 þá tekur skipulags- og byggingarráð undir afgreiðslu skipulagsnefndar frá 16.4. s.l. og synjar erindinu.”

Afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 17. desember 2002 og hefur kærandi kært ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að ekki fylgi deiliskipulaginu frá 1983 sérstakir skipulagsskilmálar en aftur á móti fylgi hverri lóð ítarlegur lóðarleigusamningur ásamt úthlutunarskilmálum.  Í lóðarleigusamningi lóðarinnar nr. 25 við Hraunbrún sé tekið fram að byggja skuli einbýlishús á lóðinni á einni hæð en þó sé heimilt að hafa kjallara undir húsinu, gefi landslag tilefni til þess.  Þessi heimild hafi verið nýtt og hafi húsið í upphafi verið byggt sem kjallari og hæð.

Kærandi heldur því fram að nálægum húsum hafi verið breytt úr einbýlishúsi í fjöleignarhús með tveimur íbúðum og nefnir sérstaklega hús nr. 27 og 29 við Hraunbrún í því sambandi, þrátt fyrir að sömu úthlutunarskilmálar gildi varðandi þær fasteignir.  Þá bendir kærandi á að í Hraunbrúninni séu húsgerðir mjög blandaðar en þar séu einbýlishús, raðhús á tveimur hæðum ásamt tvíbýlishúsum.  Með vísan til þessa heldur kærandi því fram að gatan hafi ekki yfirbragð einbýlishúsahverfis enda sé m.a. starfrækt í götunni gistiheimili. 

Kærandi heldur því fram að næg bílastæði séu heima við hús hans og sé raunar með því besta sem um getur í götunni. 

Að lokum bendir kærandi á að nái breytingin fram að ganga muni íbúum hússins að Hraunbrún 25 ekki fjölga neitt umfram það sem nú þegar sé. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að lóðarleigusamningur vegna lóðarinnar nr. 25 við Hraunbrún kveði á um að byggja skuli einnar hæðar einbýlishús á lóðinni.  Óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsinu en aftur á móti sé heimilt að hafa kjallara undir húsinu enda gefi landslag tilefni til þess.  Á samþykktum teikningum sé aðeins um eina íbúð að ræða í og rými á neðri hæð tilheyri efri hæðinni.  Þá vísar Hafnarfjarðarbær til þess að húsin í kring séu skipulögð sem einbýlishús. 

Niðurstaða:  Í kærumáli því sem hér er til meðferðar liggur fyrir að með bréfi, dags. 2. apríl 2002, sendi kærandi máls þessa fyrirspurn til byggingarfulltrúans í Hafnarfirði þess efnis hvort heimilt yrði að breyta einbýlishúsinu að Hraunbrún 25, Hafnarfirði í fjölbýlishús með tveimur íbúðum.  Byggingarfulltrúi vísaði fyrirspurninni til bæjarskipulags og á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 16. apríl 2002 var erindinu synjað.  Byggingarnefnd fjallaði um fyrirspurnina á fundi hinn 17. apríl s.á. og var kæranda gert að leggja fram fullnaðarteikningar að breytingu hússins og í kjölfarið var erindi hans grenndarkynnt.  Hlaut erindi kæranda því málsmeðferð eins og um byggingarleyfisumsókn væri að ræða og verður því að líta svo á að hin kærða ákvörðun hafi verði lokaákvörðun á lægra stjórnsýslustigi sem kæranda hafi verið heimilt að skjóta til úrskurðarnefndarinnar svo sem hann gerði.

Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun á umsókn kæranda um samþykki byggingaryfirvalda fyrir tveimur íbúðum í húsinu nr. 25 við Hraunbrún í Hafnarfirði sem sjálfstæðum eignarhlutum.  Um er að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem rökstudd var með þeim hætti að óheimilt væri samkvæmt lóðarleigusamningi að hafa fleiri en eina íbúð í húsinu.

Á svæði því sem hér um ræðir er í gildi deiliskipulag frá árinu 1983 en ekki eru í gildi sérstakir skipulagsskilmálar umfram það sem fram kemur á skipulagsuppdrættinum.  Hann sýnir aðeins staðsetningu byggingarreita innan lóðar, götumynd o.þ.h. en greinir í engu frá húsgerð eða fjölda íbúða.

Af hálfu skipulags- og byggingarráðs hafa ekki verið lögð fram gögn um að gildandi deiliskipulag standi því í vegi að samþykktar verði tvær íbúðir í húsinu nr. 25 við Hraunbrún og að því hafi verið nauðsynlegt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi áður en slíkt leyfi yrði veitt.  Ákvæði í lóðarleigusamningi þess efnis að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsi kæranda hafa ekki gildi sem skipulagsskilmálar, enda kveður slíkur samningur einungis á um samningssamband viðkomandi sveitarstjórnar og tiltekins lóðarleiguhafa.  Getur sveitarstjórn, að ósk lóðarhafa, vikið frá eða breytt slíkum ákvæðum lóðarleigusamnings, innan þeirra marka sem sett kunna að vera í gildandi skipulagi.

Samkvæmt framansögðu var hin kærða ákvörðun studd rökum sem að mati úrskurðarnefndarinnar fá ekki staðist.  Var því við afgreiðslu erindis kæranda ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um rökstuðning en að auki var hin kærða ákvörðun ekki reist á réttum lagagrundvelli.  Er hin kærða ákvörðun haldin svo verulegum annmörkum að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 25. nóvember 2002, um að synja umsókn kæranda um að fá samþykki fyrir tveimur íbúðum í húsinu nr. 25 við Hraunbrún, Hafnarfirði, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir

55/2002 Skarðsbraut

Með

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember kom úrskurðarnefnd skipulags-og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2002, kæra eigenda Skarðsbrautar 4, Akranesi á ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 11. júlí 2002 um synjun á beiðni um niðurfellingu banns við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 11. október 2002, sem barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir Björn Þorri Viktorsson hdl. f.h. B og H, eigenda hússins að Skarðsbraut 4, Akranesi ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 11. júlí 2002 þess efnis að synja beiðni kærenda um niðurfellingu banns við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar hinn 27. ágúst 2002. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að láta merkja kærendum tvö bifreiðastæði við hús þeirra. 

Málavextir:  Árið 1968 reistu kærendur u.þ.b. 160 m² einnar hæðar hús með bílgeymslu á lóðinni sem í dag er nr. 4 við Skarðsbraut á Akranesi.  Húsið var innra hús í tveggja húsa lokaðri götu.  Bílastæði við bílskúr hússins náði út fyrir lóðarmörk en það kom ekki að sök þar sem óverulegri umferð var til að dreifa um götuna.  Á árunum 1975 – 1976 var gatan opnuð og samtengd annarri götu.  Með þessari breytingu óx umferð um götuna og í kjölfarið voru reist fjögur fjöleignarhús við Skarðsbraut með samtals 64 íbúðum, auk þess sem byggður var leikskóli við götuna.  Þessu til viðbótar varð gatan einnig aðkomuleið að 60 íbúða fjöleignarhúsi við Vallarbraut.  Árið 1997 samþykktu bæjaryfirvöld á Akranesi breytingu á lóðinni nr. 1 við Garðabraut og heimiluðu byggingu tveggja fjöleignarhúsa á hluta lóðarinnar. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 24. september 2001 var lögð fram greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa varðandi stöðu bifreiða við Skarðsbraut og lagði nefndin til við bæjarstjórn að bönnuð yrði staða bifreiða við vesturkant götunnar frá Garðabraut að innkeyrslu Skarðsbrautar 1, 3 og 5. 

Bæjarstjórn samþykkti ofangreinda tillögu skipulagsnefndar á fundi hinn 9. október 2001 og hinn 2. sama mánaðar birtist í B–deild Stjórnartíðinda auglýsing Sýslumannsins á Akranesi þar sem greint var frá því að fallist hafi verið á tillöguna og að bannið tæki þegar gildi.  Kærendur ásamt fleirum mótmæltu ákvörðuninni og á fundi bæjarráðs hinn 1. nóvember s.á. var samþykkt að óska eftir umsögn skipulagsnefndar á erindinu.  Á fundi nefndarinnar hinn 5. nóvember 2001 var fyrri afgreiðsla staðfest með vísan til umferðaröryggis. 

Kærendur hafa átt í samskiptum við bæjaryfirvöld á Akranesi vegna ætlaðs bílastæðavandamáls sem til sé komið vegna þéttingar byggðar á svæðinu og á fundi bæjarráðs hinn 11. júlí 2002 var eftirfarandi fært til bókar:  „Bæjarráð er ekki reiðubúið að fella niður bann við lagningu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.  Stæði vegna umræddra fasteigna hafa verið merkt við götuna en þarfnist þau frekari merkinga er sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs falið að kanna málið“ 

Þessum málalokum hafa kærendur hafnað og skutu máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að opnun Skarðsbrautar og aukin umferð um götuna hafi áhrif á bílastæðamál þeirra þannig að þeir hafi ekki getað lagt bifreið við bílgeymslu sína og þurfi nú að leggja bifreiðum úti við götu, ýmist við austur- eða vesturkant hennar.  Jafnframt hafi bygging fjöleignarhúsanna við Garðabraut verið sérlega bagaleg fyrir þá, því svo virðist sem ekki hafi verið gætt ákvæða byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða á lóð, þegar samþykkt hafi verið að byggja á lóðunum.  Vegna alls þessa halda kærendur því fram að álagið á sameiginleg bílastæði fyrir framan hús þeirra sé mjög mikið og hafi stóraukist eftir að bifreiðastöður hafi verið bannaðar á vesturkanti Skarðsbrautar. 

Kærendur benda á grein 64.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 máli sínu til stuðnings, en þar segir að á hverri lóð við íbúðarhús skuli a.m.k. vera tvö bílastæði fyrir íbúð sem sé stærri en 80 m².  Samkvæmt því væri nauðsynlegt að í nýbyggingunum að Garðabraut 3 – 5 væru 16 bílastæði en þau séu í raun aðeins 10. 

Kærendur halda því og fram að með ákvörðun bæjaryfirvalda hafi réttindi þeirra og möguleikar til nýtingar eignar þeirra að Skarðsbraut 4 verið verulega þrengdir og fullyrða að þeir verði fyrir fjárhagstjóni verði núverandi staða ekki leiðrétt, þar sem ekkert sérbílastæði tilheyri einbýlishúsi þeirra. 

Málsrök Akraneskaupstaðar:  Akraneskaupstaður krefst þess að kærunni verði vísað frá þar sem hún hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufresti, samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, hafi lokið. 

Verði frávísunarkrafan ekki tekin til greina er á það bent af hálfu Akraneskaupstaðar að fasteignin að Skarðsbraut 4 hafi verið byggð árið 1968 á grundvelli þágildandi byggingarlaga.  Breytingar á byggingarlögum og nýjar kröfur hafi ekki skapað kærendum fremur en öðrum rétt til bifreiðastæða á akbraut fyrir framan hús þeirra, úr því ekki sé unnt að koma bifreiðastæðum fyrir innan lóðar.  Þá hafi breytingar á deiliskipulagi í nágrenni við kærendur verið framkvæmdar lögum samkvæmt.

Akraneskaupstaður heldur því einnig fram að kæran lúti að banni við lagningu bifreiða og að þess háttar deilumál eigi ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, heldur ráðist af umferðarlögum nr. 50/1987, sbr. 81. gr. þeirra laga.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun varðar bann við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.  Gögn málsins bera með sér að engar breytingar eru gerðar á götu eða öðrum umferðarmannvirkjum, en gert er ráð fyrir að tilgreind bílastæði verði merkt við götuna.  Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér skipulagsákvörðun þótt skipulagsnefnd hafi komið að undirbúningi hennar.  Er það á valdsviði lögreglustjóra, að fengnum tillögum sveitarstjórnar, að kveða á um varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar, svo sem stöðvun og lagningu ökutækja, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og sæta slíkar ákvarðanir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til framanritaðs verður hinni kærðu ákvörðun vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

53/2002 Sunnuhlíð

Með

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2002, kæra eins eiganda hússins nr. 12 við Sunnuhlíð, Akureyri á samþykkt umhverfisráðs Akureyrarbæjar frá 11. september 2002 um að kæranda verði send tilkynning þess efnis að húsnæði í hans eigu að Sunnuhlíð 12, Akureyri verði lokað ásamt ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar, dags. 26. september 2002, um stöðvun framkvæmda og að hin ólöglega bygging eða byggingarhluti verði fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. september 2002, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir B, Tungusíðu 2, Akureyri, þá ákvörðun umhverfisráðs Akureyrarbæjar frá 11. september 2002 að honum verði send tilkynning þess efnis að húsnæði í hans eigu að Sunnuhlíð 12, Akureyri verði lokað þar sem því hafi verið breytt og það tekið í notkun þrátt fyrir að tilskilin leyfi umhverfisráðs hafi ekki verið veitt.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. október 2002, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir fyrrnefndur Bernharð einnig ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar, dags. 26. september 2002, um tafarlausa stöðvun framkvæmda, sem séu án tilskilinna leyfa og að hin ólöglega bygging eða byggingarhluti skuli fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Samþykkt umhverfisráðs var staðfest í bæjarstjórn Akureyrarbæjar hinn 17. september 2002.

Kærandi krefst þess að ákvarðanir umhverfisráðs og skipulags- og byggingarfulltrúa verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Kærandi er eigandi að veitingastaðnum Setrinu, Sunnuhlíð 12 á Akureyri, en í því húsi eru verslanir og þjónustustarfsemi ýmiskonar.  Kærandi eignaðist á árinu 2000 verslunarrými í húsinu sem hann hugðist nýta til stækkunar veitingastaðarins.  Hinn 22. nóvember 2001 lagði kærandi inn byggingarleyfisumsókn til umhverfisráðs Akureyrarbæjar þar sem hann sótti um leyfi til að setja upp í hinu nýja rými þrjá klefa fyrir einkasýningar, búningsherbergi og setustofu.  Umhverfisráð fjallaði um erindi kæranda á fundi hinn 28. nóvember sama ár og bókaði eftirfarandi:  „Umhverfisráð heimilar ekki þá breyttu notkun á húsnæðinu sem sótt er um.“ Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti bókunina á fundi hinn 4. desember sama ár. 

Hinn 17. apríl 2002 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar bréf til kæranda þar sem honum var tilkynnt að byggingareftirlitið myndi koma til skoðunar á húsnæði hans þar sem embættinu hefði borist vitneskja um að húsnæðið hefði verið innréttað án heimildar umhverfisráðs.  Í bréfinu var kæranda veittur vikufrestur til andmæla.  Hinn 29. apríl sama ár ritaði kærandi bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa þar sem hann tilkynnti að hann tæki sér vikufrest til andmæla og bárust þau skipulags- og byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 7. maí 2002.  Hinn 14. júlí 2002 ritaði kærandi á ný bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa þar sem hann fór fram á rökstuðning umhverfisráðs fyrir ákvörðun ráðsins hinn 28. nóvember 2001 ásamt beiðni um endurupptöku ákvörðunarinnar.  Með bréfi bæjarlögmanns Akureyrarbæjar, dags. 31. júlí 2002, var beiðni um endurupptöku málsins hafnað með vísan til þess að ekki væru fyrir hendi aðstæður þær er leiða ættu til endurupptöku þess, auk þess sem allir frestir til þess væru liðnir samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.  Þá hafnaði bæjarlögmaður einnig beiðninni um rökstuðning ákvörðunar umhverfisráðs með vísan til sömu laga.

Á fundi umhverfisráðs hinn 11. september 2002 voru lagðir fram minnispunktar bæjarlögmanns varðandi stöðu málsins og hugsanlegar aðgerðir og eftirfarandi bókað:  „Umhverfisráð samþykkir að rekstraraðila verði send tilkynning þess efnis að umræddu rými verði lokað þar sem húsinu hefur verið breytt og tekið í notkun þrátt fyrir að tilskilin leyfi hafi ekki verið veitt og hann þannig gerst brotlegur við skipulags- og byggingarlög og byggingarreglugerð, en gefur honum kost á að koma á framfæri andmælum við aðgerðinni sbr. ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga innan 14 daga frá dagsetningu tilkynningar þar um“  Á fundi bæjarstjórnar hinn 17. september s.á. var bókun umhverfisráðs samþykkt.

Með bréfi, dags. 23. september 2002, kærði kærandi framangreinda bókun umhverfisráðs Akureyrarbæjar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Hinn 26. september 2002, eða eftir að kæra þessi barst úrskurðarnefndinni, ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi bréf til kæranda þar sem tilkynnt var að embættið myndi stöðva framkvæmdir sem væru án tilskilinna leyfa og skyldi hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt með vísan til 209. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kæranda var gefinn frestur til 15. október 2002 til að koma húsnæðinu í upphaflegt horf, að öðrum kosti yrði því lokað af byggingarfulltrúa.  Frestur þessi var síðar framlengdur til 1. desember 2002. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kæru sína á því að með hinni kærðu ákvörðun hafi honum verið meinuð notkun á húsnæðinu undir næturklúbb þrátt fyrir að hafa fullnægt öllum kröfum þar að lútandi.  Lögmannsstofu hafi verið falið að kæra ákvörðun umhverfisráðs, dags. 28. nóvember 2001, en það hafi ekki verið gert og lögmannstofan skömmu síðar verið úrskurðuð gjaldþrota. 

Kærandi bendir á að samþykkt bæjaryfirvalda um að fela umhverfisráði þá tilskipun að hamla skuli gegn nætur- og nektarklúbbum í bænum hafi verið gerð löngu eftir að að hann hafi fest kaup á húsnæðinu, sem hann óskar breytinga á, og breytt því til samræmis við kröfur eldvarnareftirlits.

Kærandi telur meinlega á sér brotið og krefst þess að bókun umhverfisráðs hinn 11. september 2002 verði felld úr gildi. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Krafa Akureyrarbæjar er að kærunni verði vísað frá sökum þess að kærufrestir séu liðnir.  Af málatilbúnaði kæranda megi ráða að hann sé að kæra ákvörðun umhverfisráðs, sem tekin hafi verið á fundi 28. nóvember 2001, þar sem ákveðið hafi verið að heimila ekki þá breyttu notkun á húsnæðinu sem hann hafi sótt um.  Kæranda hafi verið sent bréf þessa efnis, dags. 5. desember það ár, ásamt „Almennum leiðbeiningum um birtingu stjórnvaldsákvarðana“.  Frestur til að fara fram á frekari rökstuðning hafi runnið út 14 dögum eftir að kærandi hafi móttekið tilkynninguna.  Ekki hafi verið óskað eftir rökstuðningi innan frestsins og því hafi runnið út frestur til að kæra stjórnvaldsákvörðunina þremur mánuðum frá sama tíma.  Kærandi hafi því hvorki nýtt sér frest til að fara fram á frekari rökstuðning né að kæra ákvörðunina innan tilskilins frests, þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar.

Þá er einnig krafist frávísunar með vísan til þess að eingöngu stjórnvaldsákvarðanir séu kæranlegar.  Tilkynning embættis skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 17. apríl 2002, um að embættið hefði heimildir fyrir því að umrætt húsnæði hefði verið innréttað í andstöðu við ákvörðun umhverfisráðs, dags. 28. nóvember 2001, sé ekki stjórnvaldsákvörðun.  Kæranda hafi samt sem áður verið gefinn vikufrestur til að koma að andmælum áður en skipulags- og byggingarfulltrúi kæmi á staðinn til eftirlits, með vísan til 2. mgr. 41. gr. byggingarreglugerðar.  Með veitingu andmælaréttar hafi embætti skipulags- og byggingarfulltrúa gætt meðalhófsreglunnar og gefið kæranda færi á að koma byggingarhlutanum í samt horf, áður en gripið yrði til frekari aðgerða.  Með bréfi, dags. 29. apríl 2002, hafi kærandi staðfest að vikufrestur yrði nýttur til að andmæla hugmyndum embættisins um „afnotarétt” á húsnæðinu.  Engin andmæli hafi borist innan frestsins.  Ítrekað sé að ákvörðun starfsmanna skipulags- og byggingarfulltrúa um að framfylgja byggingarreglugerð og fara í eftirlit til að koma í veg fyrir óheimilar breytingar á mannvirkjum, sé ekki stjórnvaldsákvörðun og þar af leiðandi ekki kæranleg til æðra stjórnvalds.

Í rökum sínum vísar Akureyrarbær til þess að í 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé að finna ákvæði um almennan kærufrest.  Þar segi í 1. mgr.:  „Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls er tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.“  Tilgangurinn með slíkum fresti sé að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt sé.  Í 28. gr. laganna sé gert ráð fyrir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Ekkert í málinu styðji það að veita skuli frekari fresti enda hafi liðið um tíu mánuðir frá því að ákvörðun hafi verið tekin og þar til kæra hafi borist úrskurðarnefndinni. 

Jafnframt sé bent á það af hálfu Akureyrarbæjar að aðgerðir stafsmanna embættis skipulags- og byggingarfulltrúa séu ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga, þ.e. mál sem stjórnvald tekur ákvörðun um í skjóli stjórnsýsluvalds síns, sbr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð bókun umhverfisráðs Akureyrarbæjar þess efnis að kæranda verði send tilkynning um að húsnæði í hans eigu að Sunnuhlíð 12, Akureyri verði lokað þar sem því hafi verið breytt og tekið í notkun þrátt fyrir að tilskilin leyfi umhverfisráðs hafi ekki verið veitt.  Samkvæmt bókuninni skyldi kæranda veittur 14 daga frestur til andmæla.  Þá lýtur kæran einnig að ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um stöðvun leyfislausra framkvæmda og að hin ólöglega bygging eða byggingarhluti skuli fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt, sbr. 1. mgr. 209. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var kæranda vegna þessa veittur 14 daga frestur til að koma húsnæðinu í upprunalegt horf.  Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á máli þessu verður hvorki ráðið af gögnum málsins né samtali við starfsmann embættis skipulags- og byggingarfulltrúa að ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa hafi verið borin undir umhverfisráð til staðfestingar svo sem áskilið er samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun stjórnvalds ekki kærð nema hún feli í sér efnislegar lyktir máls.  Hin kærða bókun ber ekki með sér að í henni felist endanleg ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 heldur einvörðungu ráðagerð um slíkt.  Þá verður ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa ekki túlkuð sem slík ákvörðun, þar sem hún hefur ekki hlotið staðfestingu umhverfisráðs svo sem lögskylt er. 

Af framangreindu er ljóst að ekki liggur fyrir á sveitarstjórnarstigi lokaákvörðun er sæti kæru til æðra stjórnvalds. 

Að þessu virtu verður hvorki hin kærða samþykkt umhverfisráðs Akureyrarbæjar né ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa tekin til efnismeðferðar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

22/2003 Aðalskipulag Mosfellsbæjar

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 20. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2003, kæra tveggja arkitekta á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 12. febrúar 2003 um að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. mars 2003, sem barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kæra B, Njálsgötu 106, Reykjavík og H, Bakkavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 12. febrúar 2003 að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.  Telja kærendur að með hinni kærðu ákvörðun hafi höfundarréttur þeirra verið brotinn og gera þá kröfu að úr því verði bætt.

Eftir framlagningu kæru í máli þessu var kærendum bent á að nefndin hefði í þegar gengnum úrskurðum komist að þeirri niðurstöðu að hana brysti vald til þess að skera úr ágreiningi um aðalskipulag eða breytingu á aðalskipulagi, þar sem gildistaka þeirra skipulagsákvarðana væri háð staðfestingu ráðherra, og jafnframt lægi fyrir álit umboðsmanns Alþingis á þá lund að ekki væri ástæða til athugasemda við frávísun úrskurðarnefndarinnar á kæru vegna aðalskipulags.  Þar sem kæran hefur ekki verið dregin til baka er málið nú tekið til úrskurðar.

Málavextir:  Við kynningu Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024 komu fram athugasemdir af hálfu kærenda þess efnis að við gerð skipulagsins og eldri aðalskipulagsáætlana hafi verið stuðst við aðalskipulagstillögu þeirra fyrir Mosfellsbæ er hlotið hefði 1. verðlaun í hugmyndasamkeppni um aðalskipulag bæjarins á árinu 1978. 

Athugasemdir kærenda voru teknar fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 17. desember 2002 og þar lagt til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi umsögn tækni- og umhverfissviðs um athugasemdirnar yrði samþykkt, en umsögnin hljóðar svo:  „Árin 1977-1978 var haldin samkeppni meðal arkitekta um Aðalskipulag Mosfellsbæjar.  Ekki varð að samstarfi skipulagsyfirvalda í Mosfellsbæ og verðlaunahafa um nánari útfærslu tillögunnar.  Sveitarstjórn fól á sínum tíma Einari Tryggvasyni að gera tillögu að aðalskipulagi Mosfellsbæjar á grundvelli fyrrnefndrar hugmyndasamkeppni.  Aðalskipulag var síðan staðfest af ráðherra 1983.  Ekki bárust mótmæli frá höfundum verðlaunatillögunnar á þeim tíma né síðar þegar aðalskipulag Mosfellsbæjar til 2012 var staðfest, 1994.  Í inngangi að aðalskipulagi Mosfellsbæjar, sem staðfest var 1983, er getið um hugmyndasamkeppnina og greint frá því „að með hugmyndasamkeppinni hafi verið lagður grunnur að aðalskipulagi Mosfellshrepps“.  Tillaga að aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 er frekari þróun nefndra aðalskipulaga og hugmynda og þeirrar stefnumörkunar sem sett er fram í svæðisskipulagi fyrir höfuðborgar svæðið.  Við yfirstandandi aðalskipulagsgerð hefur ekki verið stuðst við samkeppnistillögu þá sem fékk 1. verðlaun umfram það sem gert var í fyrri tillögum er ekki var mótmælt.  Í inngangi forsenduheftis mun sögu aðalskipulagsgerðar í Mosfellsbæ vera gerð betri skil þ.m.t. hugmyndasamkeppnin og fram mun koma nöfn höfunda verðlaunatillögunnar.” 

Bæjarstjórn samþykkti aðalskipulagstillöguna og svör skipulags- og byggingarnefndar við framkomnum athugasemdum á fundi sínum hinn 12. febrúar 2003 og var kærendum tilkynnt þessi niðurstaða í bréfi, dags. 26. febrúar sama ár, þar sem bent var á kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar.  Umrætt aðalskipulag mun hafa verið staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí 2003.

Niðurstaða:  Tilefni málskots kærenda er meint brot á höfundarétti við gerð Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024  Úrskurðarnefndin hefur talið sig bresta vald til að fjalla efnislega um skipulagsákvarðanir sveitarstjórna sem háðar eru staðfestingu ráðherra og hefur málum verið vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum.  Rök nefndarinnar fyrir þeirri niðurstöðu eru t.d. rakin í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 43/1998, en þar segir m.a:  „Með setningu nýrra laga um skipulags- og byggingarmál nr. 73/1997, sem tóku gildi hinn 1. janúar 1998, var tekið upp það nýmæli að fela sérstakri úrskurðarnefnd að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál, en úrskurðarvald í þeim málum var fyrir þann tíma í höndum umhverfisráðherra.  Ekki er í lögunum gerð með skýrum hætti grein fyrir því hvaða ágreiningsmál falla undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar en af 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 má ráða, að meginviðfangsefni hennar séu að leysa úr álitaefnum sem eiga rætur að rekja til ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna um byggingar- eða skipulagsmál.  Þá er það á valdsviði nefndarinnar að skera úr um ágreining um það hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum laganna um framkvæmdaleyfi sbr. 2. mgr. 27. gr. nefndra laga, hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skv. 36. gr. laganna, svo og um  ágreining um niðurstöðu Skipulagsstofnunar um erindi er varðar undanþágur skv. 3. tl. ákvæða til bráðabirgða með lögunum.  Loks er það á valdsviði nefndarinnar að skera úr um ágreining vegna álagningar og innheimtu skipulagsgjalds skv. 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997.  Hvergi er hins vegar að því vikið í lögunum að nefndin hafi það hlutverk að endurskoða ákvarðanir ráðherra um staðfestingu  aðalskipulags eða breytinga á því.

Þegar sérstakri kærunefnd hefur verið komið á fót í tilteknum málflokki, eins og hér um ræðir, verður að líta svo á að ráðherra og kærunefndin séu hliðsett stjórnvöld á æðra stjórnsýslustigi með lögbundinni verkaskiptingu.  Leiki vafi á um valdmörk milli ráðherra og kærunefndar verður að telja valdið í höndum ráðherra, enda er það meginregla að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé að lögum undanskilin forræði hans.

Í 19. grein laga nr. 73/1997 segir að aðalskipulag, eða breyting á því, sé háð staðfestingu ráðherra og taki gildi þegar staðfestingin hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka stjórnvaldsákvörðun um staðfestingu aðalskipulags, eða breytingar á því, en í þeirri ákvörðun felst að ráðherra tekur afstöðu til lögmætis aðalskipulagsins eða breytingarinnar, bæði hvað varðar form og efni. 

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags eða breytingu á því er lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verður hún, að mati úrskurðarnefndar, einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds.  Því brestur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vald til þess að taka þessar ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar.“

Með vísan til greindra raka og álits umboðsmanns Alþingis frá 29. maí 2001 er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu  hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

 

58/2003 Sjáland

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 20. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2003, kæra Þorsteins Einarssonar hrl., f.h. 14 íbúa og eigenda fasteigna við Skrúðás í Garðabæ, á ákvörðunum bæjarráðs, bæjarstjórnar og byggingarnefndar Garðabæjar um breytingu á aðalskipulagi, um deiliskipulag Sjálands og um byggingarleyfi fyrir húsum nr. 1-17 (oddatölur) við Strandveg í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. september 2003, sem barst nefndinni sama dag, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. 14 íbúa og eigenda fasteigna við Skrúðás 1, 3, 5, 7, 9, 11, 13 og 15 í Garðabæ, samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar frá 13. júní 2002 um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar, samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar frá 13. júní 2002 um deiliskipulag Arnarnesvogs, samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 16. júlí 2002 um lagfæringar á fjórum þáttum í deiliskipulagi hverfisins og samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 2. september 2003 um breytingu á deiliskipulagi við Strandveg 9, 11, 13, 15 og 17 í Garðabæ.  Krefjast kærendur ógildingar framangreindra samþykkta. 

Þá krefjast kærendur þess að fellt verði úr gildi leyfi byggingarnefndar Garðabæjar frá 30. maí 2003 til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 9, 11, 13, 15 og 17, Garðabæ og staðfesting bæjarstjórnar Garðabæjar þann 19. júní 2003 á fyrrgreindri samþykkt byggingarnefndar Garðabæjar.

Kærendur krefjast þess ennfremur að fellt verði úr gildi leyfi byggingarnefndar Garðabæjar frá 19. september 2003 til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 1, 3, 5 og 7 í Garðabæ.

Loks krefjast kærendur þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við Strandveg 1, 3, 5, 7, 9, 11, 13, 15 og 17 í Garðabæ, á meðan beðið sé endanlegrar niðurstöðu nefndarinnar.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni áttu sér stað viðræður milli bæjaryfirvalda í Garðabæ, byggingaraðila og fulltrúa kærenda með það að markmiði að leita lausna á þeim ágöllum á deiliskipulagi svæðisins, sem urðu tilefni kærumáls þessa.  Vegna þessara sáttatilrauna frestaði byggingarleyfishafi, að eigin frumkvæði, framkvæmdum sem hafnar voru að Strandvegi 1, en síðar tókst um það samkomulag milli bæjaryfirvalda og byggingarleyfishafa að byggingarleyfi fyrir því húsi yrði afturkallað og var gengið formlega frá afturköllun leyfisins á fundi byggingarnefndar hinn 14. nóvember 2003.  Jafnframt hafa bæjaryfirvöld í Garðabæ ákveðið að taka til endurskoðunar deiliskipulag Sjálands og gera tillögu um nýja legu stígs á umræddu svæði. 

Hinn 4. nóvember 2003 staðfesti lögmaður kærenda við úrskurðarnefndina að samkomulag hefði ekki tekist milli kærenda og gagnaðila og ítrekaði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefndin hefur aflað gagna í málinu og kynnt sér aðstæður á vettvangi og telur málið nú nægilega upplýst til þess að það verði tekið til efnisúrlausnar.  Verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða í máli þessu.

Málavextir:  Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 1995 – 2015 var, fyrir miðjum Arnarnesvogi, gert ráð fyrir iðnaðarsvæði, ásamt höfn, en vestan við iðnaðarsvæðið var reitur með blandaðri landnotkun, ætlaður t.d. stofnunum, íbúðum eða þrifalegri atvinnustarfsemi.  Á landræmu næst ströndinni vestan iðnaðarsvæðisins var gert ráð fyrir útivistarsvæði.

Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar hinn 5. júní 2002 var samþykkt tillaga að breyttu aðalskipulagi bæjarins.  Breytingin fól í sér að iðnaðarsvæðið við höfnina í Arnarnesvogi ásamt svæðinu vestan þess yrði að mestu breytt í íbúðarsvæði, núverandi höfn yrði fyllt upp auk þess sem bætt yrði við um 2,5 ha nýrri landfyllingu.  Breytingarnar fólu nánar tiltekið í sér að á svæðinu yrði gert ráð fyrir íbúðum, verslun, þjónustu og stofnunum, svo og iðnaði á afmörkuðu svæði.  Útivistarsvæðinu yrði breytt í óbyggt svæði.  Breyting aðalskipulagsins gerði ráð fyrir íbúðarbyggð með 560 almennum íbúðum ásamt 200 íbúðum sem ætlaðar yrðu eldri borgurum.  Auk íbúða var gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði fyrir skrifstofur og þjónustu, lítilli smábátahöfn, bensínstöð, leikskóla, sjóbaðströnd, fuglaskoðunarstað o.fl.  Í greinargerð með tillögunni að nefndri breytingu á aðalskipulagi kom fram að hún væri í samræmi við tillögu að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins um þéttingu byggðar.  Með tillögunni væri stuðlað að aukinni fjölbreytni íbúðarhúsnæðis í bænum, hagkvæmari rekstri stofnana og fyrirtækja, hærra þjónustustigi og betri nýtingu lands.

Á áðurnefndum fundi skipulagsnefndar Garðabæjar hinn 5. júní 2002 var einnig samþykkt tillaga að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði í samræmi við framangreinda tillögu að breytingu á aðalskipulagi. 

Í greinargerð með deiliskipulagstillögunni kom fram að meirihluti bygginga á svæðinu yrði tveggja og þriggja hæða íbúðarhús.  Vestast á svæðinu yrðu tveggja hæða hús og væri þannig tekið tillit til útsýnis frá Hraunsholti.  Austan við þau og næst ströndinni yrðu þriggja hæða hús en hús upp á fjórar til fimm hæðir innar í landinu.  Hæð húsa yrði því ákvörðuð þannig að þau trufluðu sem minnst útsýni frá núverandi íbúðarhverfum.  Þá sagði ennfremur að húsaþyrpingar yrðu flestar byggðar í kringum garða sem myndu opnast í sólarátt.  Áhersla yrði lögð á að sem flestar íbúðir nytu í senn útsýnis og rólegs umhverfis.  Hús sem stæðu á núverandi óhreyfðu landi næst sjó ættu að mynda lágreista ósamfellda byggð og á milli þeirra og yfir þau myndi sjást til hafs frá næstu húsum sem stæðu ofar í landinu.  Við íbúðir eldri borgara yrði gert ráð fyrir sameiginlegu þjónustuseli.

Þá sagði ennfremur í greinargerðinni að við aðalinnkeyrslu í hverfið, næst Vífilstaðarvegi, yrði byggt tíu þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði og bensínstöð.  Við enda núverandi hafnarfyllingar kæmi lítil smábátahöfn og á jarðhæðum fjögurra húsa við hana gæti verið vistvænt atvinnuhúsnæði.  Vestast við voginn, á um 2,1 ha svæði, væri náttúruleg fjara sem áfram yrði óhreyft land.  Í beinu framhaldi af henni til austurs yrði gert ráð fyrir garði miðsvæðis og þar kæmi leikskóli, sparkvöllur og sjóbaðströnd sem snúa ætti í sólarátt.  Aðstöðu til fuglaskoðunar yrði komið fyrir á tanga þar sem áhugafólk gæti virt fyrir sér fuglalíf.  Bílastæði yrðu að miklu leyti undir húsum og torgum.  Þannig yrði helmingur bílastæða, sem tengd væru íbúðum, neðanjarðar og íbúum þar af leiðandi tryggt rólegt umhverfi með einstæðu útsýni.

Ekki verður annað ráðið af málsgögnum en að tillögur þessar að breytingu á aðalskipulagi og að samsvarandi deiliskipulagi hafi hlotið málsmeðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og öðluðust þær gildi við lögboðnar auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 19. júlí og 9. ágúst 2003.

Framkvæmdir hófust við byggingu húsa við Strandveg um og eftir mitt sumar 2003.  Kom þá berlega í ljós að landfræðilegar aðstæður voru aðrar á svæðinu en ráða hafði mátt af deiliskipulagsuppdrættinum.  Var þetta misræmi einkum fólgið í því að óhreyft land milli lóða og fjöru vestantil á svæðinu var aðeins mjó ræma og að ógerlegt var að óbreyttu að koma göngustíg fyrir neðan byggðarinnar eins og kveðið var á um í skipulaginu.  Eins og vikið er að í inngangi hér að framan hafa bæjaryfirvöld þegar hafist handa um tillögugerð, sem miðar að því að finna viðunandi lausn á þeim vanda sem við blasir vegna umrædds misræmis.  Hefur m.a. verið kynnt tillaga að nýrri legu göngustígs neðan byggðar  við Strandveg þar sem gert er ráð fyrir að hús nr. 1 verði fært fjær sjó til þess að rýmka fyrir um legu stígsins.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja á því að fyrrgreindar samþykktir bæjarstjórnar um deiliskipulag strandhverfis og breytingu á aðalskipulagi á sama svæði og öll málsmeðferð Garðabæjar vegna þeirra samþykkta hafi verið ólögmæt og því beri að ógilda hinar kærðu samþykktir bæjarstjórnar Garðabæjar.

Kærendur telja nú komið fram að greinargerð Garðabæjar með tillögu að deiliskipulagi hafi verið mjög ábótavant og að efni hennar hafi alls ekki verið í samræmi við ákvæði 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gr. 5.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Kærendur telja að með greinargerðinni hafi þeir og aðrir íbúar bæjarins verið blekktir, enda séu forsendur í henni í engu samræmi við þær framkvæmdir sem þegar séu hafnar á svæðinu. Kærendur benda á að skv. greinargerð með tillögunni skyldi varðveita fjöruna vestanmegin á svæðinu og að í grein 1.2.1 segi að óhreyft land við sjó skuli vera 21.065 fermetrar. Þá segi eftirfarandi í grein 1.2.3 í greinargerðinni:  ,,Ósnert fjara við voginn mun ekki raskast enda landfylling aðeins framhald þeirrar fyllingar sem þegar er til staðar. Strandlengjan öll, bæði núverandi og ný, verður opin almenningi. Hverfið verður kjörsvæði fyrir náttúruunnendur með göngustígum meðfram ströndinni, aðstöðu til fuglaskoðunar og smábátahöfninni.“  Með vísan til greinargerðarinnar og uppdráttar er henni hafi fylgt hafi kærendur mátt ætla að ströndin (fjaran) yrði víðfeðmt útivistarsvæði með göngustíg er tengdur yrði öðrum bæjarhlutum.  Samkvæmt greinargerð og fylgigögnum skyldi fjarlægð húsa frá sjó vera að lágmarki um 50 metrar og hafi það m.a. verið staðfest í greinargerð Garðabæjar vegna athugasemda við tillögu að deiliskipulagi og breyttu aðalskipulagi, dags. í júní 2002.  Kærendur vísi þessu til stuðnings m.a. til meginreglu greinar 4.15 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Fyrrgreindar forsendur skipulags hafi verið kynntar fyrir kærendum og öðrum.  Í ljós hafi nú komið, eftir að framkvæmdir hafi hafist á svæðinu, að fyrrgreindar forsendur standist alls ekki og sé augljóst að bæjaryfirvöld hafi í greinargerð með tillögunni gefið rangar upplýsingar um fyrirhugað skipulag.  Í ljós hafi komið að óhreyft land við sjó verði ekki 21.065 fermetrar líkt og greini í greinargerð með tillögu að deiliskipulagi.  Þá sé einnig ljóst að göngustígur með ströndinni, sem tilgreindur sé í deiliskipulagi og breyttu aðalskipulagi, rúmist ekki á svokölluðum bakka fyrir neðan Strandveg 1-17.  Fjarlægð lóðar við Strandveg nr. 1 frá flóðamörkum sé aðeins um 4 metrar, en ekki um 50 metrar líkt og greini í greinargerð með tillögu að deiliskipulaginu.  Því sé útilokað að koma fyrrgreindum göngustíg fyrir meðfram ströndinni og séu því forsendur skipulagsins brostnar.  Þá séu forsendur skipulagsins jafnframt brostnar sökum þess að óhreyft land við sjó verði aðeins brot af því sem greini í tillögu að deiliskipulagi.  Markmiðum skipulagsins verði því ekki náð, enda verði svæðið í raun vart opið almenning í svo smækkaðri mynd og í svo miklu návígi við fjölbýlishús.  Kærendur telja að tillaga að skipulaginu hafi byggst á landfræðilega röngum forsendum og hafi landsvæði á uppdráttum með tillögunni verið greint mun stærra en það sé í raunin.  Vegna þessa hafi hús á teikningum virst mun minni en raunin sé.  Þá sé stærsti hluti óhreyfðs lands við sjó á teikningu undir sjó í raunveruleikanum.  Vegna rangra forsendna í tillögu að deiliskipulagi og í greinargerð með þeirri tillögu hafi kærendur ekki fyrr mótmælt samþykkt skipulagsins, enda sé nú fyrst ljóst að ólöglega hafi verið staðið að kynningu skipulagstillagna og að rangar upplýsingar hafi verið gefnar.  Kærendur, og vafalaust fleiri, hefðu andmælt skipulagstillögunum, ef þær hefðu gefið rétta mynd af því sem koma skyldi, og telja kærendur að ógilda beri deiliskipulagið og breytingu á aðalskipulagi fyrir svæðið af þessum sökum.  Telja kærendur að nauðsyn beri til lögum samkvæmt að gefa þeim og öðrum tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum og því beri að taka skipulagstillögur til nýrrar og lögmætrar meðferðar.  Þá taka kærendur fram að bæjaryfirvöldum í Garðabæ sé a.m.k. nú ljós fyrrgreind mistök við kynningu á tillögu að deiliskipulagi, en þann 25. júní 2003 hafi bærinn kynnt fyrir kærendum og öðrum tillögu að breytingu á skipulagsuppdrætti Sjálands vegna stígs í fjöru.  Leggi Garðabær til að göngustígur verði lagður ofan við núverandi fjörukamb og að stígurinn verði þar með ofar í landinu en fram komi á gildandi skipulagsuppdrætti. Með bréfi, dags. 23. júlí 2003, hafi kærendur mótmælt fyrrgreindri tillögu að breyttu skipulagi sem og tillögu að breyttu nýtingarhlutfalli við Strandveg 9, 11, 13, 15, 17 og 19.  Þau andmæli kærenda hafi verið áréttuð með bréfi, dags. 19. ágúst 2003.  Í framhaldi af mótmælum kærenda hafi Garðabær boðað kærendur til fundar og hafi á þeim fundi verið upplýst af hálfu Garðabæjar að yfir stæði vinna verkfræðinga á vegum bæjarins við að hanna brimgarð og fyllingar fyrir utan fjöruna, sem skyldi vera ósnert skv. skipulagstillögu.

Kærendur leggja áherslu á að fjaran við Arnarnesvog sé á náttúruminjaskrá og njóti því verndar skv. lögum um náttúruvernd nr. 44/1999.  Kærendur telja að bæjaryfirvöld hafi verið grandsöm um þá staðreynd að forsendur skipulagsins væru rangar og að vegna þeirrar grandsemi beri m.a. að fella deiliskipulagið og breytingu aðalskipulagsins úr gildi.

Kærendur árétta m.a. að bygging húsa nær sjó en skv. uppdráttum, er fylgt hafi greinargerð með tillögu að deiliskipulagi, sé augljóslega ekki í samræmi við deiliskipulag.  Því beri að fella úr gildi leyfi til framkvæmdanna, jafnvel þótt ekki yrði fallist á kröfur kærenda um ógildingu samþykkta bæjarstjórnar.  Krafa um ógildingu byggingarleyfanna styðjist m.a. við 27. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 1. gr. laganna.  Þá telji kærendur að framkvæmdir þær sem hafnar séu, og jafnframt þær sem fyrirhugaðar séu, gangi gegn úrskurði um mat á umhverfisáhrifum, en ljóst sé að byggð svo nærri sjó stefni í hættu þeim náttúruminjum sem fjaran sannarlega sé og til hafi staðið að vernda.

Þá byggja kærendur á því að hús nr. 1 og jafnvel hús nr. 3 við Strandveg séu fyrir utan byggingarsvæði samkvæmt aðalskipulagi.  Kærendur benda á að skv. aðalskipulagsuppdrætti séu mörk byggingarsvæðis hverfisins í vestur í beinni línu á móti vík í fjöru en skv. samþykktu deiliskipulagi gangi byggingar lengra í vestur.  Kærendur telja þetta augljóst við samanburð uppdrátta aðalskipulags og deiliskipulags.  Þá sé þessi staðreynd jafnframt augljós við vettvangsskoðun.  Fyrrgreint deiliskipulag og útgáfa byggingarleyfis fyrir Strandveg nr. 1 og 3 brjóti því gegn aðalskipulagi Garðabæjar og beri því að ógilda samþykkt bæjarstjórnar um deiliskipulag og útgáfu byggingarleyfa, sbr. t.d. 16. gr., 23. gr., 27. gr. og 43. gr. laga nr. 73/1997.

Þá telja kærendur að fella beri úr gildi hin kærðu byggingarleyfi þar sem nýtingarhlutfall fyrirhugaðra bygginga sé hærra en skv. gildandi skipulagi.  Kærendur benda á að landnæði sé miklum mun minna en greini í skipulagstillögum, sbr. það sem áður greini, og því sé nýtingarhlutfall fyrirhugaðra bygginga á svæðinu hærra en skipulag geri ráð fyrir.

Kröfu sína um að felld verði úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar þann 4. september 2003 um breytingu á deiliskipulagi við Strandveg 9, 11, 13, 15 og 17 styðja kærendur sömu rökum og að framan eru rakin.  Með fyrrgreindri samþykkt hafi bæjarstjórn hækkað nýtingarhlutfall fyrrgreindra lóða úr 1,29 í 1,36.  Með þeirri samþykkt verði húsin ,,ívíð dýpri“ eins og segi í bréfi Garðabæjar, dags. 17. september 2003, og nái húsin því nær sjónum en áður.  Hin kærða samþykkt gangi því enn frekar gegn gildandi skipulagi, er mæli fyrir um 21.065 fermetra útivistarsvæði við ströndina. 

Þá telja kærendur að ómálefnaleg rök hafi ráðið fyrrgreindri samþykkt bæjarstjórnar enda sé ljóst að breytingin hafi aðeins verið gerð í þágu byggingarleyfishafa, sem byggja vilji stærri og verðmeiri hús en skipulag hafi heimilað.  Því sé mótmælt að um óverulega breytingu hafi verið að ræða á deiliskipulagi heldur verði að telja breytinguna verulega og því hafi borið að kynna tillöguna með þeim hætti er greini í 26. gr. laga nr. 73/1997.

Til stuðnings kröfum sínum í málinu vísa kærendur loks til markmiða skipulags- og byggingarlaga og m.a. til forsendna í áliti umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 727/1992.

Kærendur áskilja sér rétt til frekari málatilbúnaðar á síðari stigum, og m.a. til að krefja Garðabæ um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hlotist hafi af lögbrotum bæjaryfirvalda.

Kærendur krefjast þess að framkvæmdir við Strandveg 1, 3, 5, 7, 9, 11, 13, 15 og 17, Garðabæ verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan beðið sé endanlegrar niðurstöðu nefndarinnar.  Án slíkrar bráðabirgðaúrlausnar væru kærendur sviptir allri réttarvernd í málinu.  Kærendur taka fram að framkvæmdir séu þegar hafnar, m.a. nýlega við lóð nr. 1 við Strandveg.  Kærendur krefjast þess að framkvæmdir verði stöðvaðar að hluta, ef ekki verði fallist á stöðvun framkvæmda að öllu leyti.  Telja kærendur m.a. mjög brýnt að framkvæmdir við lóðir nr. 1, 3 og 5 verði stöðvaðar, enda sé augljóst að byggingar á þeim lóðum muni standa miklu nær sjó en skipulag heimili og muni útiloka að göngustígur verði lagður með sjónum líkt og skipulag geri ráð fyrir.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar hefur mál þetta aðallega verið reifað með tilliti til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og þess verið krafist að henni verði hafnað.  Hvað efni máls varðar er á það bent að kæra kærenda sem fram sé komin á deiliskipulagi Sjálands, sem samþykkt hafi verið í júní og júlí 2002, sé of seint fram komin, sbr. reglur um kærufrest til úrskurðarnefndar.  Í kærunni sé fyrst og fremst gerður ágreiningur um gerð göngustígs og stærð útivistarsvæðis í og við fjöru neðan við viðkomandi hús og því haldið fram að bæjaryfirvöld hafi beitt blekkingum við framsetningu uppdrátta.  Í þessu sambandi sé vert að haft sé í huga að svæði það sem nefnt sé í skipulagi sem óhreyft land, hafi alltaf verið skilgreint sem svæði ofan svokallaðrar núll línu, sem sé hæðarlína u.þ.b. mitt á milli flóðs og fjöru.  Það hafi því ávallt verið ljóst að hluti af svæðinu færi undir sjó á flóði, en við það minnki að sjálfsögðu ekki svæðið.  Við nánari skoðun á legu umrædds stígs hafi komið í ljós að gera þurfi breytingu á legu hans til að tryggja að hann liggi ofan við fjörukamb, en við framsetningu og umræðu um skipulagið hafi ávallt verið gengið út frá því að vernda hina eiginlegu fjöru.  Engar tillögur hafi komið fram hjá bæjaryfirvöldum um breytingu á því.  Ný lega stígsins hafi verið kynnt og auglýst sem tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins, en endanleg tillaga skipulagsnefndar um afgreiðslu liggi ekki fyrir.  Fullyrða megi að það meginmarkmið skipulagsins um opið svæði sem lýst sé í kafla 1.2.3 í greinargerð með skipulaginu muni ganga eftir.  Í greinargerðinni segi svo:  „Vestast við voginn, á um 2,1 ha svæði, er náttúruleg fjara sem verður áfram óhreyft land.“  Augljóst sé að hér sé ekki átt eingöngu við svæði ofan við fjöruna heldur einnig fjöruna sjálfa og svæði ofan við svokallaða núll línu.  Þá segi svo í greinargerðinni:  „Strandlengjan öll, bæði núverandi og ný, verður opin almenningi.  Hverfið verður kjörsvæði fyrir náttúruunnendur með göngustígum meðfram ströndinni, aðstöðu til fuglaskoðunar og smábátahöfn.“  Ljóst sé að byggingar við Strandveg sem reistar verði samkvæmt gildandi deiliskipulagi raski ekki ofangreindum fyrirheitum, sem lýst sé í greinargerð með skipulaginu.

Benda megi á, að það hafi ávallt legið fyrir að fjaran á þessu svæði sé nokkuð stórgrýtt og þakin þara, sem gerir það að verkum að hún verði aldrei auðveld yfirferðar og sem slík muni sjálf fjaran aldrei verða aðgengilegt útivistarsvæði, eins og sandfjara gæti verið, heldur verði hún frekar svæði þar sem ótruflað fuglalíf og annað náttúrulíf fái notið sín.

Hvað varði kröfur kærenda um ógildingu byggingarleyfis húsanna við Strandveg 9 til 17 sé á það bent að byggingarleyfi vegna þeirra sé útgefið 30. maí 2003 og sé því kærufrestur, sem sé einn mánuður, liðinn og beri því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu kærenda hvað þau hús varði.

Byggingarleyfi vegna húsanna við Strandveg 1 til 7 (sic) hafi verið útgefið 19. september sl. og hafi við útgáfu þess verið byggt á skilmálum samkvæmt deiliskipulagi hverfisins sem samþykkt hafi verið sumarið 2002 eins og áður segi.  Í kæru kærenda sé sú athugasemd helst gerð að viðkomandi hús standi nær sjónum en skipulagið geri ráð fyrir og sé vísað til þess að í skilmálum segi að byggingar muni vera í 50 m fjarlægð frá sjó.  Þá sé vísað til ákvæðis skipulagsreglugerðar, greinar 4.15, en greinin vísi til aðstæðna utan þéttbýlis og eigi því ekki við í þessu sambandi.  Í greinargerð Garðabæjar um athugasemdir er borist hafi við tillögu að skipulagi svæðisins komi fram að bæjarstjórn hafi ekki fallist á að stækka óhreyft svæði vesta á skipulagssvæðinu, enda ekki í samræmi við Aðalskipulag Garðabæjar 1995 – 2015.  Því liggi fyrir yfirlýsing bæjarstjórnar um að ekki séu efnisleg rök til að stækka óhreyfða svæðið.  Sú ákvörðun hafi ekki verið kærð og standi því óhögguð sem hluti skipulagskilmála hverfisins sem lagðir séu til grundvallar við veitingu byggingarleyfa viðkomandi húsa.  Þá segi einnig í greinargerðinni að markvisst hafi verið unnið að því að hafa húsin ekki of nálægt sjónum og séu húsin að jafnaði um 50 m frá sjó þar sem óhreyfð fjara sé og verði.  Eðlilegt sé að skýra þessa setningu á þann hátt, að verið sé að miða við svokallaða núll línu eins og áður hafi komið fram.

Rétt sé að taka fram, að samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 1995 – 2015 og eldra aðalskipulagi hafi ávallt verið gert ráð fyrir byggð á þessu svæði og samkvæmt eldra skipulagi hafi verið gert ráð fyrir iðnaðarstarfsemi líkri þeirri sem áður hafi verið á hafnarsvæði austast á svæðinu.  Íbúðarbyggð, sem nú hafi verið skipulögð á svæðinu, sé lágreist byggð þar sem tekið hafi verið tillit sjónarmiða um að raska sem minnst útsýni frá húsum í Ásahverfi og sé í því sambandi vísað til sneiðmynda sem lagðar hafi verið fram sem fylgiskjöl með skipulagsskilmálunum.

Af hálfu Garðabæjar þyki rétt að benda á að almennt séu opin svæði ekki tilgreind eða þeim lýst í skipulagi með jafn nákvæmum hætti og gerð mannvirkja.  Í skilmálum um byggingar séu nákvæmar lýsingar á takmörkunum hvað varði hæð og umfang og byggingarreitir skilgreindir á lóðarblöðum meðan látið sé nægja að lýsa opnum svæðum almennum orðum.  Sé það í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar, greinar 3.1.4, þar sem fjallað sé um deiliskipulag.  Þar séu settar reglur um nákvæmar lýsingar mannvirkja en varðandi opin svæði þurfi eingöngu að ákveða um aðgengi að þeim.  Ástæða þessa sé auðvitað sú, að aðilar hafi fyrst og fremst hagsmuni af því að gerð húsa sé í samræmi við þá skilmála, sem kynntir hafi verið, frekar en opin svæði, sem í flestum tilvikum séu þess eðlis að ekki sé líklegt að gerð þeirra raski hagsmunum þeirra.  Sérstaklega eigi það við þegar aðstæður séu eins og í Sjálandshverfi, þar sem opið svæði sé óhreyft land.

Í deiliskipulagi Sjálands sé opnu svæði ofan við fjöru lýst sem óhreyfðu landi, sem beri auðvitað að skilja þannig að svæðið eigi að vera eins og það sé frá náttúrunnar hendi, með þeirri undantekningu að gert sé ráð fyrir framkvæmdum við lagningu göngustígs um svæðið, sem eðlilega hafi í för með sér ákveðna röskun.

Taka megi undir sjónarmið í kæru um að umhverfi opna svæðisins og lega stígsins sé ekki nákvæmlega með þeim hætti sem sýnt sé á deiliskipulagsuppdráttum.  Það hafi hins vegar engin áhrif á þær byggingar, sem byggðar séu samkvæmt skipulaginu.  Þær séu nákvæmlega staðsettar samkvæmt því sem skilmálar mæli fyrir um og séu hvorki stærri né sýnist stærri en þar komi fram.  Ónákvæmnin skýrist fyrst og fremst af þeim aðstæðum, sem skapist við sjávarföll á svæðinu, en muni eins og áður hafi komið fram ekki hafa áhrif á aðgengi að opna svæðinu.  Í kæru sé því lýst að kærendur telji það hagsmuni sína að eiga aðgengi að svæðinu og þeim hagsmunum þeirra sé augljóslega ekki raskað með skipulaginu.  Sé svæðið aðgengilegt þeim og öðrum bæjarbúum sem þar vilji njóta útivistar.  Þá megi benda á, að fyrir utan mörk skipulagsins að sunnanverðu sé opið svæði, sem liggi að fjöru er teygi sig til norðvesturs meðfram Gálgahrauni að Bessastöðum.  Strandlengja þessi sé hluti af opnu og óhreyfðu svæði, sem sé aðgengilegt til útivistar.

Ítrekað sé, að í kæru séu engar athugasemdir gerðar við mannvirkin sem slík, heldur fyrst og fremst aðgengi að opnu svæði og stærð þess.  Sýnt hafi verið fram á að þeim hagsmunun sé ekki raskað.  Að þessu virtu verði ekki séð að kærendur hafi komið fram með nægjanlega skýrar ástæður fyrir ólögmæti byggingarleyfa viðkomandi húsa.  Byggingarnar séu nákvæmlega með þeim hætti, sem deiliskipulagið geri ráð fyrir, og raski því á engan hátt hagsmunum kærenda frekar en þar sé mælt fyrir um.  Þrátt fyrir þetta hafi verið fallist á að fella úr gildi byggingarleyfi fyrir húsi nr. 1 við Strandveg og tillaga gerð um að breyta staðsetningu þess til að auðvelda lagningu stígs neðan lóðar þess húss. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er tekið undir rök Garðabæjar í málinu, sem að framan eru rakin.  Þá er vísað til þess að byggingarleyfishafar hafi komið til móts við sjónarmið kærenda, umfram skyldu, með því að fallast á seinkun framkvæmda og afturköllun byggingarleyfis er varði fjölbýlishús að Strandvegi 1.  Fullgild leyfi séu fyrir öllum húsbyggingum sem hafnar séu á svæðinu og séu þau leyfi í samræmi við gildandi skipulag.  Því beri að hafna kröfum kærenda.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 27. október 2003 að viðstöddum fulltrúum frá Garðabæ og lögmönnum kærenda og byggingarleyfishafa.

Niðurstaða:  Eins og að framan er getið hefur úrskurðarnefndin ákveðið að taka mál þetta nú til efnisúrlaunsar og kemur krafa kærenda um stöðvun framkvæmda því ekki til frekari umfjöllunar.  Í málinu eru kærðar til ógildingar eftirtaldar stjórnvaldsákvarðanir:
 
1)  Samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar frá 13. júní 2002 um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar.
2) Samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar frá 13. júní 2002 um deiliskipulag Arnarnesvogs (Strandhverfis).
3)  Samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 16. júlí 2002 um lagfæringar á fjórum þáttum í deiliskipulagi Strandhverfis.
4) Samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 2. september 2003 um breytingu á deiliskipulagi við Strandveg 9, 11, 13, 15 og 17 í Garðabæ.  
5)  Leyfi byggingarnefndar Garðabæjar frá 30. maí 2003 til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 9, 11, 13, 15 og 17, Garðabæ og staðfesting bæjarstjórnar Garðabæjar þann 19. júní 2003 á þeirri samþykkt.
6) Leyfi byggingarnefndar Garðabæjar frá 19. september 2003 til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 1, 3, 5 og 7 (sic) í  Garðabæ.

Mun úrskurðarnefndin fjalla um kæruefni máls þessa í sömu röð og þau eru upp talin hér að framan.

Um 1)  Í þessum lið er krafist ógildingar á samþykkt bæjarstjórnar á tillögu að breytingu á aðalskipulagi, sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra og öðlast eftir það gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.  Úrskurðarnefndin hefur áður í nokkrum úrskurðum vísað frá hliðstæðum kærum með þeim rökum að nefndina bresti vald til að endurskoða ákvarðanir sem sætt hafa staðfestingu ráðherra.  Hefur niðurstaða nefnarinnar í slíku máli verið borin undir umboðsmann Alþingis og sá hann ekki efni til að gera athugasemdir við umrædda niðurstöðu, sbr. álit hans í máli nr. 2906/2000.  Með vísan til þessa og fyrri úrskurða nefndarinnar í sambærilegum málum, sbr. t.d. úrskurð í máli nr. 43/1998 frá 12. mars 1999, verður þessum lið í kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.

Um 2)   Fallast má á það með kærendum að í ljós hafi komið verulegir ágallar á framsetningu skipulagsuppdráttar deiliskipulags Arnarnesvogs (Strandhverfis) og að óviðunandi misræmi sé milli uppdráttarins og landfræðilegra aðstæðna á skipulagssvæðinu.  Var þess varla að vænta að íbúum yrði þetta ljóst fyrr en framkvæmdir væru hafnar við mannvirkjagerð á svæðinu.  Kemur því til skoðunar hvort kærendur hafi í máli þessu getað kært ákvörðun bæjarstjórnar um deiliskipulag svæðisins, þrátt fyrir hve langt var liðið frá því samþykktin var gerð.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti.  Frá þessari aðalreglu er heimilt að víkja ef afsakanlegt verður talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða þegar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. 28. gr. segir hins vegar að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því ákvörðun var tilkynnt aðila.

Deiliskipulagsákvarðanir öðlast gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda og eru bindandi fyrir stjórnvöld og almenning frá birtingardegi.  Verður að leggja lögboðna opinbera birtingu að jöfnu við tilkynningu til aðila í skilningi 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hin umdeilda deiliskipulagsákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. ágúst 2002 og var því meira en ár liðið frá birtingu hennar þegar kærendur skutu henni til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 26. september 2003.  Verður þessum kærulið því ekki sinnt og verður honum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Um 3)  Samþykkt þessi var gerð hinn 16. júlí 2002 og var hluti þeirrar ákvörðunar sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. ágúst 2002 og um er fjallað í 2. lið hér að framan.  Verður þessum kærulið vísað frá úrskurðarnefndinni með sömu rökum og þar.

Um 4)  Með þeirri ákvörðun sem um ræðir í þessum lið kærunnar var samþykkt að hækka nýtingarhlutfall fimm fjölbýlishúsalóða um tæp 5,5%.  Fyrir liggur að ákvörðun þessi hefur ekki áhrif á byggingarreiti eða hæð húsa frá því sem ákveðið var í fyrra skipulagi.  Verður ekki á það fallist að umrædd ákörðun skerði hagsmuni eigenda fasteigna utan skipulagssvæðisins í þeim mæli að fallist verði á kröfu þeirra um ógildingu hennar.  Verður þessum kröfulið því hafnað.

Um 5)  Í þessum lið er kærð ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 30. maí 2003 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 9, 11, 13, 15 og 17, og staðfesting bæjarstjórnar Garðabæjar frá 19. júní 2003 á þeirri samþykkt.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, m.a. um úttektir, liggur fyrir að framkvæmdir við þessar byggingar voru komnar á það stig í lok júlí eða byrjun ágúst 2003 að vel mátti vera ljóst hver fjarlægð þeirra væri frá sjó og hvert umfang þeirra væri.  Hafði þá áður verið lokið framkvæmdum við jarðvegsskipti í götu, sem einnig hefði átt að gefa vísbendingar um aðstæður á svæðinu. 

Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur hver sá er telur rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan mánaðar frá því honum varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á samþykktinni.  Þegar ákvörðun er ekki tilkynnt aðila, svo sem í tilviki því sem hér um ræðir, verður að miða upphaf kærufrests við það tímamark þegar ætla verður að honum hafi mátt vera ljóst að samþykkt byggingarnefndar kynni að vera andstæð hagsmunum hans.  Verður þá m.a. að líta til þess hvenær ætla megi að kærandi hafi getað ráðið af framkvæmdum í hvað stefndi.

Með hliðsjón af því að leyfi það sem kært er undir þessum lið var veitt hinn 30. maí 2003 og að af framkvæmdum mátti örugglega ráða eigi síðar en hinn 15. ágúst 2003, þegar botnplötur húsa nr. 9 og 11 við Strandveg voru teknar út, að byggingarleyfi hefði verið veitt, verður að telja að kærufrestur vegna umræddrar samþykktar hafi verið liðinn þegar kæra barst í máli þessu hinn 26. september 2003.

Um 6)  Í þessum lið er kærð ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 19. september 2003 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 1, 3, 5 og 7 (sic).  Byggingarnefnd Garðabæjar hefur nú afturkallað byggingarleyfið að því er varðar húsið nr. 1 við Strandveg, enda virtist staðsetning þess stangast á við ákvörðun aðalskipulags um legu fjarstígs og óhreyfða fjöru.  Eiga kærendur hér eftir ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti leyfisins hvað varðar það hús.  Byggingarleyfi fyrir húsi nr. 7 hafði ekki verið veitt hinn 26. september 2003, þegar kæra barst í máli þessu.  Verður kröfum er varða hús nr. 1 og 7 því vísað frá.

Byggingarleyfið fyrir húsunum nr. 3 og 5 er í samræmi við gildandi deiliskipulag og kemur bygging þeirra húsa ekki í veg fyrir að stígur verði lagður neðan lóða húsanna, ofan fjörukambs.  Ekki verður heldur á það fallist að lóð hússins  nr. 3 kunni að vera utan íbúðarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi eins og svæðið er markað eftir þá breytingu sem gerð var á vesturmörkum þess með samþykkt bæjarstjórnar hinn 13. júní 2002, en ekki er gerð sú krafa um uppdrætti aðalskipulags að af þeim verði ráðið um nákvæm eða hnitasett mörk milli einstakra landnotkunarsvæða.  Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis þessara húsa.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um ógildingu samþykkta bæjarstjórnar Garðabæjar frá 13. júní 2002 um breytingu á aðalskipulagi, samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar frá 13. júní 2002 um deiliskipulag Arnarnesvogs og samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 16. júlí 2002 um lagfæringar á fjórum þáttum í nefndu deiliskipulagi er vísað frá úrskurðarnefndinni.  Einnig er vísað frá kröfum um ógildingu samþykktar byggingarnefndar Garðabæjar frá 30. maí 2003 um leyfi til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 9, 11, 13, 15 og 17 og staðfestingar bæjarstjórnar Garðabæjar þann 19. júní 2003 á fyrrgreindri samþykkt byggingarnefndar.  Loks er vísað frá kröfum um ógildingu byggingarleyfis frá 19. september 2003 að því er varðar hús nr. 1 og 7 við Strandveg. 

Öðrum kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir

54/2001 Hraunbær

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2001, kæra eiganda verslunarhúsnæðis að Hraunbæ 102, Reykjavík, á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 23. október 2001 um breytingu á deiliskipulagsreit á móts við Hraunbæ 102-120 er fólst í breytingu á notkun lóðar, á þann veg að í stað heilsugæslustöðvar yrði heimiluð bygging húss undir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. nóvember 2001, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir Reynir Karlsson hrl., fyrir hönd Saxhóls ehf., kt. 420987-1109, Nóatúni 17, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. október 2001, að samþykkja breytingu á deiliskipulagsreit á móts við Hraunbæ 102-120, er fólst í breytingu á þann veg að í stað heilsugæslustöðvar yrði heimiluð bygging húss undir verslunar- og þjónustustarfsemi.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 8. ágúst 2001 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi reits sem afmarkast af Hraunbæ í suður, Bæjarbraut í vestur og Bæjarhálsi í norður.  Í tillögunni fólst að notkun lóðar merktri C yrði breytt á þann veg að í stað ráðgerðar heilsugæslustöðvar yrði heimilað að reisa þar hús undir verslunar- og þjónustustarfsemi.  Í auglýsingunni kom fram að tillagan væri til kynningar til 5. september 2001 en frestur veittur til 12. september 2001 til að koma að athugasemdum og ábendingum í tilefni af fyrirhugaðri deiliskipulagsbreytingu.  Athugasemdir voru gerðar við skipulagstillöguna, m.a. af hálfu kæranda, en tillagan var samþykkt óbreytt í skipulags- og byggingarnefnd hinn 3. október 2001 og sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 23. október 2001.  Kæranda voru tilkynnt málalok með bréfi, dags. 24. október 2001, og fylgdu því bréfi svör Borgarskipulags við framkomnum athugasemdum, dags. sama dag.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir ógildingarkröfu sína á því að við meðferð skipulagstillögunnar hafi ekki verið farið að lögum.  Við auglýsingu og kynningu tillögunnar hafi aðeins verið gefinn 5 vikna frestur til að koma að athugasemdum.  Samkvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi hins vegar borið að veita 6 vikna frest til athugasemda frá birtingu auglýsingar um tillöguna.  Samkvæmt orðanna hljóðan sé sá frestur lágmarksfrestur sem sé settur til þess að vernda hagsmuni borgaranna og verði ekki vikist undan því að virða þann frest.  Þá sé á það bent að í umræddu tilviki hafi fresturinn byrjað að líða hinn 8. ágúst 2001 þegar fjöldi fólks hafi verið í sumarfríi og því þeim mun mikilvægara að víkja ekki frá hinum lögboðna fresti.  Færa megi að því rök, að vegna styttri frests hafi aðilar, sem hagsmuna eigi að gæta í málinu, ekki náð að koma að athugasemdum við deiliskipulagstillöguna.  Kærandi hefði viljað undirbúa athugasemdir sínar og mótmæli betur, en ekki hafi unnist tími til þess vegna hins stutta frests.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Rétt sé hjá kæranda að kynningartími hinnar umdeildu tillögu hafi verið of stuttur.  Hafi deiliskipulagstillagan því verið auglýst að nýju hinn 19. desember 2001 með athugasemdafresti til 30. janúar 2002.  Engar athugasemdir við tillöguna hafi þá borist og hafi hún hlotið samþykki borgarráðs hinn 19. febrúar 2002 og hafi hin kærða samþykkt þar með fallið úr gildi.  Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við að gildistaka deiliskipulagstillögunnar yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og svo hafi verið gert hinn 17. maí 2002.  Af þessum ástæðum beri að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Fyrir liggur, að vegna ágalla við málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu, var hún auglýst og kynnt að nýju með lögboðnum fresti til að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna.  Með staðfestingu borgarráðs hinn 19. febrúar 2002 á skipulagstillögunni féll úr gildi hin kærða samþykkt og hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um gildi þeirrar stjórnvaldsákvörðunar.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

52/2003 Garðastræti

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Garðastræti 39, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. ágúst 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir tennisvelli á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. september 2003, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir Bergur Guðnason hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar að Garðastræti 39, Reykjavík, þeirra Ö, Á, K og C þá ákvörðun byggingarfullrúans í Reykjavík frá 26. ágúst 2003 að veita byggingarleyfi fyrir tennisvelli á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.

Hin kærða ákvörðun var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 27. ágúst 2003 og í borgarstjórn hinn 4. september s.á.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Eigandi Garðastrætis 41, kínverska sendiráðið, lagði fram fyrirspurn til byggingarfulltrúans í Reykjavík þess efnis hvort þörf væri byggingarleyfis vegna gerðar tennisvallar á lóðinni.  Í bréfi, dags. 26. mars 2003, taldi byggingarfulltrúi svo ekki vera þar sem landhæð yrði nær óbreytt, völlurinn yrði hvorki upphitaður né komið þar fyrir niðurföllum.  Þá yrðu heldur ekki sett upp ljósamöstur eða girðing sem yrði yfir 1,8 m á hæð.  Framkvæmdir hófust en þá fóru kærendur fram á það við embætti byggingarfulltrúa að þær yrðu stöðvaðar og með vísan til umfangs framkvæmdanna varð byggingarfulltrúi við þeirri kröfu.  Í kjölfarið óskaði húseigandinn að Garðarstræti 41 eftir því að gefið yrði út byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.  Hinn 26. ágúst 2003 samþykkti byggingarfulltrúi útgáfu byggingarleyfis vegna tennisvallarins og var embættisafgreiðsla hans staðfest á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 27. ágúst sama ár.

Málsrök kærenda:  Kærendur eru verulega ósáttir við framkvæmdir á lóðinni að Garðastræti 41.  Þeir halda því fram að miklu magni af fyllingarefni hafi verið ekið inn á lóðina og hún jöfnuð út til norðurs, þ.e. að lóðarmörkum Garðastrætis 39.  Hafi fyllingarefnið verið sett upp að millivegg lóðarinnar og lóðar kærenda.  Leiði þetta til þess að nú sé horft niður í garðinn hjá kærendum.  Þá hafi byggingarleyfishafinn rifið og hent áratuga gömlum trjágróðri, sem áður hafi prýtt lóðina.

Kærendur halda því fram að ein af höfuðástæðum þess að þeir hafi kært umrædda framkvæmd sé sú, að framkoma byggingarleyfishafa gagnvart þeim hafi einkennst af yfirgangi, væntanlega í skjóli úrlendisréttar, sem leyfishafi telji sig varinn af.  Aftur á móti sé skýrt tekið fram í 41. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 að sendimönnunum beri að virða lög og reglur móttökuríkisins, þó þannig að forréttindi þeirra og friðhelgi skerðist ekki.  Kærendur álíta að bygging tennisvallar, sem sé óþekkt með öllu hérlendis inni í grónu og gömlu íbúðahverfi, hafi ekkert með friðhelgi og forréttindi erlendra sendimanna að gera.  Sú framkvæmd hafi heldur ekki nein áhrif á starfsemi sendiráðs Kína hér á landi. 

Kærendur benda á slysahættu sem fylgt geti tennisiðkun því tennisboltar séu mjög harðir viðkomu.  Atvinnumenn nái allt að 200 kílómetra hraða á tennisbolta í upphafshöggum sínum.  Það sé m.a. af þessari ástæðu sem tennisvellir erlendis, sem séu inni í íbúða- eða hótelbyggðum, hafi 5-10 metra hátt net umhverfis sig.  Í því tilfelli sem hér sé til úrlausnar sé gert ráð fyrir því að netið verði 180 sentimetrar sem sé hvergi nægjanlegt til að koma í veg fyrir slysahættu. 

Kærendur halda því fram að tennisleik fylgi umtalsverður hávaði.  Hann stafi af tíðni högga og hörku boltanna, sem notaðir séu í leiknum.  Þó ekki væri nema af þessari ástæðu sé ljóst að nýting íbúðarlóðar inni í friðsælu hverfi til tennisleiks sé fráleit.  Nýting vallarins verði væntanlega að sumri til á þeim tíma, sem nágrannar þeirra nýta sínar lóðir hvað mest. 

Kærendur halda því og fram að framkvæmdin kunni að hafa áhrif þegar þeir hyggist selja eignir sínar en það fari þó eftir því hversu mikil tennisiðkunin verði.  Megintilgangur úrlendisréttarins felist ekki í því að erindrekarnir geti í skjóli hans valdið þegnum móttökuríkisins fjárhagstjóni með því sem falli undir tómstundaiðju þeirra en ekki skyldustörf.

Kröfu sína um tafarlausa stöðvun framkvæmda styðja kærendur þeim rökum að byggingarleyfishafinn hafi svo einbeittan vilja til að ljúka framkvæmdum, að hann hafi ekki látið deigan síga við framkvæmdina þrátt fyrir að honum og arkitektum hans sé fullkunnugt um megna óánægju kærenda.  Nú sé verið að leggja gervigras á lóðina, teikna útlínur vallarins o.s.frv.

Þá telja kærendur að úrskurður úrskurðarnefndarinnar nr. 10/2002, sem fjallað hafi um byggingu tengibyggingar á lóð bandaríska sendiráðsins milli tveggja húseigna í eigu þess, hafi ekkert fordæmisgildi í þessu kærumáli.  Þessi skoðun byggist á því, að það mál hafi haft beina þýðingu fyrir daglega starfsemi sendiráðsins og hafi niðurstaðan (frávísun) verið eðlileg.  Aftur á móti fjalli þessi kæra um alls óskyldan hlut því tómstundaiðja starfsmanna byggingarleyfishafa falli ekki undir Vínarsáttmálann um stjórnmálasamband ríkja.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst frávísunar málsins og bendir á að framkvæmdin sé alfarið innan lóðar Viðskiptaskrifstofu Kína, sem sé hluti sendiráðs Kína.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendirráðssvæði friðhelgi og sé undanþegið framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. sama samnings sé það aftur á móti skylda allra þeirra sem njóti forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi og friðhelgi skerðist ekki.  Í samræmi við þær skyldur hafi verið sótt um leyfi til gerðar tennisvallarins, svo lögmæti framkvæmdarinnar yrði ekki dregið í efa. 

Með vísan til reglna úrlendisréttarins hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sem handhafi framkvæmdavalds, ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráðs Kína þar sem slíkum ágreiningi verði einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðarréttarins um stjórnmálasamband. 

Verði ekki fallist á frávísun á grundvelli framangreinds krefst byggingarleyfishafi frávísunar þar sem kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að málinu, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Byggingarleyfishafa hafi verið veitt leyfi til gerðar tennisvallar á lóðinni.  Ekki verði sé að það varði hagsmuni íbúa Garðastrætis nr. 39 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.  Því sé hafnað að kærendur eigi aðildarstöðu og því beri að vísa málinu frá.

Verði kröfur byggingarleyfishafa um frávísun ekki teknar til greina er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kærenda.  Leitast hafi verið við að fara í einu og öllu eftir kröfum byggingaryfirvalda og tennisvöllurinn verði eingöngu notaður til tennisiðkunar í frístundum en ekki sé um eiginlegan íþróttavöll að ræða.  Því eigi athugasemdir kærenda um slysahættu og hávaðamengun ekki við.

Byggingarleyfishafinn bendir á að í upphafi hönnunarferlis varðandi útfærslu girðingar umhverfis völlinn hafi verið haft samband við nágranna og hafi all margir þeirra samþykkt að hún yrði sett upp á lóðarmörkum.  Þá hafi deildarstjóri Garðyrkjudeildar borgarinnar ekki lagst gegn því að tré á lóðinni yrðu fjarlægð.

Niðurstaða:  Í máli þessu kröfðust kærendur þess að framkvæmdir við gerð umrædds tennisvallar yrðu stöðvaðar.  Með hliðsjón af eðli umræddra framkvæmda og því að þeim var að mestu lokið, svo og með tilliti til líklegrar niðurstöðu málsins, þóttu ekki efni til að taka þá kröfu sérstaklega til meðferðar.  Málið er hins vegar nú tekið í heild til efnislegrar úrlausnar.

Hið umdeilda byggingarleyfi varðar framkvæmdir á lóðinni nr. 41 við Garðarstæti, en eins og að framan hefur verið rakið er Viðskiptaskrifstofa kínverska sendiráðsins þar til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. er það aftur á móti skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Kína eftir byggingarleyfi vegna gerðar tennisvallar á lóðinni og var fallist á umsóknina af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð er til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Kína í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

66/2002 Garðastræti

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2002, kæra íbúa að Garðastræti 43, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 23. október 2002 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Garðastræti 41.

Í málinu er nú kveðin upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2002, er barst nefndinni sama dag, kæra E, Á, U, D og K, eigendur og leigjendur fasteignarinnar að Garðastræti 43, Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 23. október 2002 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti . 

Hin kærða ákvörðun var samþykkt í borgarráði hinn 29. október 2002. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 3. september 2002, óskaði Andrúm arkitektar ehf., f.h. kínverska sendiráðsins á Íslandi, eftir því við skipulags- og byggingaryfirvöld Reykjavíkur að deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti yrði breytt, þannig að heimilað yrði að byggja bílskúr á lóðinni.

Beiðnin var grenndarkynnt frá 9. september 2002 til 7. október s.á. og gerðu kærendur athugasemdir við framkomna tillögu er lutu að því að húsið væri á svæði þar sem húsum, samkvæmt skipulagi, skyldi raskað sem minnst og þá sérstaklega gagnvart götumynd. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. október 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið samþykkta deiliskipulag sé andstætt lögvörðum hagsmunum þeirra. 

Kærendur halda því fram að húsaröðin við Garðastræti njóti svæðisbundinnar verndar sem takmarki mjög heimildir til breytinga á þeim hluta lóðanna er að götu snúi.  Breytingin á skipulaginu sé óþörf þar sem unnt sé að koma bílskúrnum fyrir á norðurhluta lóðarinnar.  Byggt sé að lóðarmörkum og þrengt að nágrönnum, þar sem örmjó ræma verði eftir að spennistöð Orkuveitu Reykjavíkur, sem standi nærri lóðarmörkum.

Málsrök húseiganda að Garðastræti 41:  Húseigandi krefst frávísunar málsins og bendir á að breyting deiliskipulagsins sé alfarið á svæði sem sé innan lóðar Viðskiptaskrifstofu Kína sem sé hluti sendiráðs Kína.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendirráðssvæðið friðhelgi og sé undanþegið framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. sama samnings sé það aftur á móti skylda allra þeirra sem njóti forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins en þó þannig að forréttindi og friðhelgi skerðist ekki.  Í samræmi við þær skyldur hafi verið sótt um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar, sbr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og í framhaldi af því um leyfi til byggingar umræddrar bílgeymslu.  Með vísan til þessa hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sem handhafi framkvæmdarvalds ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráðs Kína, þar sem slíkum ágreiningi verði einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðarréttar um stjórnmálasamband. 

Auk framanritaðs er frávísunarkrafan studd þeim rökum að kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að því.  Deiliskipulagið feli í sér heimild til að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.  Ekki verði séð að það varði hagsmuni íbúa Garðastrætis nr. 43 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.  Því sé hafnað að kærendur eigi aðildarstöðu og því beri að vísa málinu frá.

Verði frávísunarkrafan ekki tekin til greina er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kærenda því þær lúti aðallega að því að breytingin sé óæskileg og í ósamræmi við skipulag, auk þess sem bílaumferð sunnan við húsið valdi óþarfa truflun.  Þessum fullyrðingum sé hafnað sem órökstuddum, enda sé það í samræmi við skipulag hverfisins að heimila byggingu bílgeymslu og veita eiganda lóðarinnar þannig möguleika á þeirri nýtingu hennar sem samræmist nútíma kröfum. 

Niðurstaða:  Hið umdeilda deiliskipulag varðar lóðina að Garðastræti 41, en fasteignin er í eigu kínverska sendiráðsins á Íslandi og er Viðskiptaskrifstofa sendiráðsins þar til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. er það aftur á móti skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Kína eftir því að breyting yrði gerð á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti og var fallist á það af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð var til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Kína í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband.  Máli þessu er því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

 

26/2002 Kirkjuvegur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags-og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2002, kæra eigenda Kirkjuvegar 15, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 8. maí 2002 um útgáfu byggingarleyfis að Kirkjuvegi 9, Hafnarfirði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júní 2002, sem barst nefndinni hinn 12. júní s.á., kæra A og Ó, bæði til heimilis að Kirkjuvegi 15, Hafnarfirði ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 8. maí 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Kirkjuvegi 9, Hafnarfirði ásamt leyfi fyrir byggingu geymsluskúrs á lóðinni. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 14. maí 2002.  

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 21. febrúar 2002 óskaði byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði eftir umsögn skipulagsdeildar bæjarins um umsókn eiganda hússins að Kirkjuvegi 9 þar í bæ um leyfi til að stækka einbýlishús á lóðinni ásamt því að byggja þar geymsluskúr.  Húsið var áður á einni hæð, en eftir breytingar ein hæð og ris með kvisti og viðbyggingu upp á efri hæð.  Við þetta hækkaði þak hússins um 1,5 metra svo unnt væri að nýta ris hússins til íbúðar og forstofan lengd um 1,1 metra í vestur.  Með breytingunni stækkaði húsið um 72,6 m²; úr 124 m² í 196 m². 

Hverfið sem húsið stendur í er ekki deiliskipulagt og þar eru húsgerðir mjög blandaðar eða allt frá því að vera „…lítil kot á einni hæð yfir í tveggja hæða reisuleg hús“, eins og fram kemur í samantekt/umsögn bæjarskipulags Hafnarfjarðar, dags. 5. mars 2002.   

Skipulags- og umferðarnefnd fjallaði um erindi byggingarfulltrúa á fundi nefndarinnar hinn 12. mars 2002 og var eftirfarandi bókað:  „Skipulags- og umferðarnefnd er jákvæð gagnvart erindinu og felur bæjarskipulagi að láta fara fram grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.“   Erindið var grenndarkynnt eigendum aðliggjandi fasteigna en fasteign kærenda liggur ekki að fasteign byggingarleyfishafans og voru því kærendum ekki grenndarkynntar fyrirhugaðar breytingar.  Grenndarkynningin stóð yfir frá 14. mars 2002 til 15. apríl s.á. og bárust engar athugasemdir við hana. 

Byggingarnefnd ákvað á fundi hinn 8. maí 2002 „…að heimila byggingarfulltrúa að afgreiða erindið að uppfylltum atriðum um frágang teikninga.“ 

Um mánaðarmótin maí – júní árið 2002 urðu kærendur, sem eru eigendur fasteignarinnar að Kirkjuvegi 15, varir við að framkvæmdir væru hafnar við fasteignina að Kirkjuvegi 9.  Eigendur þeirrar fasteignar höfðu í upphafi árs 2002 kynnt kærendum fyrirhugaðar breytingar á fasteigninni og voru viðbrögð þeirra neikvæð því þær væru þess eðlis að þær myndu breyta útsýni og rýra verðgildi fasteignar þeirra.

Ákvörðun byggingarnefndar frá 8. maí 2002 hafa kærendur kært til úrskurðarnefndar eins og að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og halda því fram að breytingar á húsinu nr. 9 við Kirkjuveg séu þess eðlis að þeim hafi átt að vera grenndarkynnt áformin.  Fyrir liggi að framkvæmdin breyti útsýni sem þau hafi haft og rýri því verðgildi fasteignar þeirra.  Ef tekið sé mið af sjónarhorni þeirra fyrir og eftir breytingar fasteignarinnar nr. 9 við Kirkjuveg sé augljóst að talsverðir hagsmunir séu í húfi.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafanum var gefinn kostur á að koma að andmælum og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2003, rekja eigendur fasteignarinnar að þeir hafi farið með teikningar að breytingunum til allra „…nágrannanna í kring…“ og fengið samþykki þeirra til breytinganna. 

Málsrök byggingarnefndar:  Byggingarnefnd Hafnarfjarðarbæjar var gefinn kostur á að skýra viðhorf sitt til kærunnar.  Í bréfi byggingarfulltrúa, dags.18. september 2002, er greint frá bókun skipulags- og byggingarráðs frá 10. s.m. og segir þar eftirfarandi:  „Skipulags- og byggingarráð vísar til afgreiðslu byggingarnefndar, dags. 8. maí 2002, og skipulags- og umferðarnefndar og stendur við fyrri afgreiðslu málsins.“

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin hefur óformlega kynnt sér staðhætti við Kirkjuveg vegna undirbúnings úrskurðar þessa.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun veitti heimild til talsverðrar stækkunar hússins nr. 9 við Kirkjuveg í Hafnarfirði.  Á svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag er það meginregla, samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að gera skuli deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 3. mgr. ákvæðisins er gerð sú undantekning að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir í þegar byggðum hverfum, sem ekki hafa verið deiliskipulögð, að undangenginni grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Í grenndarkynningu felst að nágrönnum, sem hagsmuna eiga að gæta, er kynnt málið og þeim gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. 

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu fór fram grenndarkynning vegna breytinga á fasteigninni en kærendunum voru ekki kynntar þær heldur aðeins eigendum aðliggjandi fasteigna, en fasteign kærenda liggur ekki að fasteign byggingarleyfishafans heldur stendur gegnt henni með lóðir á milli.  Kærendum var kunnugt um fyrirhugaðar framkvæmdir áður en til grenndarkynningarinnar var efnt og höfðu þá þegar lýst því yfir að þær myndu hafa neikvæð áhrif á hagsmuni þeirra.

Að mati úrskurðarnefndarinnar snerti byggingarleyfið hagsmuni kærenda þar sem heimilaðar breytingar samkvæmt því hafa áhrif á útsýni frá húsi þeirra.  Því bar skipulags- og umferðarnefnd, samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, að grenndarkynna kærendum byggingarleyfisumsóknina svo andmæli og sjónarmið þeirra kæmust að í málinu áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Á hinn bóginn verður ekki fallist á að hagsmunaröskun kærenda sé svo veruleg að hún leiði til ógildingar byggingarleyfisins, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í lögum að íbúar í þéttbýli verði að þola að nágrannar þeirra nýti lögvarinn rétt sinn til hagnýtingar eigna sinna, þar með talinn rétt til viðbyggingar.  Verði aftur á móti gengið verulega gegn hagsmunum manna með þess háttar ákvörðunum kann slíkt að leiða til bótaréttar við sérstakar aðstæður, en um það álitaefni fjallar úrskurðarnefndin ekki.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 8. maí 2002, sem staðfest var af bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 14. maí sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Kirkjuvegi 9, Hafnarfirði, er staðfest.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir