Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2004 Akrar

Ár 2004, miðvikudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2004, kæra eiganda jarðarinnar Akrar I, Borgarbyggð, á samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 24. júní 2003 um að heimila byggingu sumarhúss á lóð í landi Akra I. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. febrúar 2004, er barst nefndinni með símbréfi hinn 25. sama mánaðar og með pósti hinn 1. mars 2004, kærir Þórður Þórðarson hdl., f.h. M, eiganda jarðarinnar Akra I, Borgarbyggð, samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 24. júní 2003 um að heimila byggingu sumarhúss á lóð í landi Akra I.

Ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar hinn 26. júní 2003. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu sumarhússins.

Málavextir:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 24. júní 2003 var tekin fyrir beiðni um að byggja sumarhús á lóð í landi Akra I.  Samkvæmt teikningum er fylgdu erindinu skyldi sumarhúsið vera 76,9 m².  Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkti beiðnina og á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.  Byggingarleyfið var gefið út hinn 27. júní 2003. 

Hinn 21. júlí 2003 var grafið fyrir undirstöðum sumarhússins og hinn 31. júlí sama ár sendi kærandi máls þessa, ásamt öðrum eigendum jarðarinnar, byggingarleyfishafanum símskeyti þar sem þess var krafist að hann fjarlægði tafarlaust þau mannvirki sem reist hefðu verið.  Þá var þess og krafist að byggingarleyfishafinn lagfærði hugsanleg landspjöll sem hlotist hefðu af framkvæmdunum. 

Með bréfi, dags. 30. september 2003, óskaði lögmaður kæranda eftir því við bæjarráð Borgarbyggðar að fyrrgreind ákvörðun yrði endurskoðuð.  Með bréfi lögmanns Borgarbyggðar, dags. 27. október 2003, var erindinu hafnað, með þeim rökstuðningi að fyrir lægi þinglýstur leigusamningur, dags. 31. ágúst 2002, um það land sem leyfið tæki til.  Þá hefðu og bændur á jörðinni Ökrum I gert með sér samkomulag um skipti á túni og ræktarlandi jarðarinnar hinn 26. júní 1955. 

Á fundi bæjarráðs Borgarbyggðar hinn 19. febrúar 2004 var bókað að ofangreindu erindi lögmanns kæranda hefði verið hafnað á fundi ráðsins hinn 23. október 2003, en láðst hafi að bóka um það.  Á fundinum hinn 19. febrúar 2004 var ákvörðunin færð til bókar og lögmanni Borgarbyggðar falið að tilkynna ákvörðunina með formlegum hætti. 

Kærandi er ósáttur við framangreinda afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar og hefur kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Lögmaður kæranda heldur því fram að bréf lögmanns Borgarbyggðar, dags. 27. október 2003, um synjun á beiðni hans um endurupptöku málsins, hafi borist honum í símbréfi hinn 26. janúar 2004.  Á því sé byggt að fyrrgreint bréf lögmanns Borgarbyggðar hafi ekkert gildi í málinu þar sem ekki hafi legið fyrir heimild til hans um að svara erindi kæranda. 

Kærandi heldur því og fram að land Akra I sé í óskiptri sameign og því sé einum eigenda landsins óheimilt að ráðstafa því á nokkurn hátt án samþykkis annarra eigenda landsins.  Kærandi sé einn eigenda Akra I og hafi ekki verið óskað eftir samþykki hans fyrir gerð leigusamningsins, sem sé grundvöllur hins kærða byggingarleyfis.  Greindur leigusamningur sé því ógildur og geti ekki orðið grundvöllur byggingarleyfis.

Kærandi hafnar þeirri röksemd bæjarstjórnar Borgarbyggðar að umræddur leigusamningur hvíli á samningi landeigenda um skiptingu lands frá 26. júní 1955 og að leiguréttur verði byggður á þeim samningi. 

Kærandi gerir einnig athugasemd við það að ekki liggi fyrir deiliskipulag á svæði því sem byggingarleyfið nái til.  Grenndarkynning hefði því þurft að eiga sér stað áður en byggingarleyfið hafi verið veitt, samkvæmt 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Greint hús blasi við kæranda og skyggi á útsýni hans. 

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem krafan sé of seint fram komin, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997.  Miða beri upphaf kærufrests við veitingu byggingarleyfisins en ekki ákvörðun sveitarstjórnar um að hafna endurupptöku málsins. 

Byggingarleyfishafi bendir á að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi hafi hafist strax eftir útgáfu þess.  Um það hafi kæranda verið kunnugt enda hafi hann sent byggingarleyfishafa skeyti hinn 31. júlí 2003 og krafist þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.  Byggingarleyfishafi hafi hafnað því með skeyti, dags. 6. ágúst 2003. 

Sjónarmið Borgarbyggðar:  Borgarbyggð hefur ekki sett fram sérstakar athugasemdir í málinu en byggingarfulltrúi Borgarbyggðar sendi úrskurðarnefndinni, með símbréfi hinn 25. mars sl., byggingarsögu sumarhússins.  Þar greinir frá því að hinn 21. júlí 2003 hafi verið grafið fyrir undirstöðum og hinn 30. desember sama ár hafi byggingin verið fokheld. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um útgáfu byggingarleyfis vegna sumarhúss á lóð í landi Akra I, Borgarbyggð.  Fyrir liggur að hinn 21. júlí 2003 var grafið fyrir undirstöðum sumarhússins og að hinn 30. desember sama ár var það fokhelt.  Kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 25. febrúar 2004.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einungis einn mánuður, samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu framkvæmd. 

Eins og áður segir hófust framkvæmdir við hið umdeilda sumarhús í júlí 2003 og þá þegar var kæranda í lófa lagið að leita frekari upplýsinga um verkið.  Allt að einu setti kærandi ekki fram kæru í málinu fyrr en um sjö mánuðum seinna og tveimur mánuðum eftir að húsið var fokhelt.  Verður við það að miða að kærufrestur hafi í allra síðasta lagi byrjað að líða hinn 31. júlí 2003, eða þann dag er kærandi krafði byggingarleyfishafa um stöðvun framkvæmda.  Var kærufestur því liðinn hinn 30. september 2003 er kærandi óskaði endurupptöku málsins og gat sú beiðni því ekki rofið kærufrest í málinu sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framansögðu barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir