Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

60/2003 Skólatún

Ár 2004, miðvikudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2003, kæra eigenda Skólatúns I, Vatnsleysustrandarhreppi á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 29. júlí 2003 um að synja umsókn um leyfi til að loka Naustakotsvegi með hliði. 

Á málið er lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 24. september 2003, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kæra V, Skólatúni II, Vatnsleysustrandarhreppi og S, Skólatúni I, Vatnsleysustrandarhreppi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 29. júlí 2003 um að synja umsókn þeirra um leyfi til að loka Naustakotsvegi með hliði. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps hinn 2. september 2003.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að þeim verði heimilað að setja upp hlið sem loki Naustakotsvegi.

Málavextir:  Hinn 21. maí 2003 lagði annar kærenda máls þessa, f.h. eigenda Skólatúns I, Vatnsleysustrandarhreppi, inn umsókn um byggingarleyfi til Vatnsleysustrandarhrepps.  Umsóknin fól í sér beiðni um leyfi til að setja hlið á Naustakotsveg sem liggur af Vatnsleysustrandarvegi og m.a. að bæjunum Sunnuhlíð, Skólatúni I og Skólatúni II.  Í umsókninni kom fram að hliðið skyldi staðsett fyrir innan bæinn Sunnuhlíð til að draga úr óþarfa umferð sem oft væri mjög hröð með tilheyrandi ryki og grjótkasti. 

Skipulags- og byggingarnefnd tók umsóknina til afgreiðslu á fundi hinn 27. maí 2003 og bókaði af því tilefni eftirfarandi:  „Erindinu er hafnað þar sem þessi vegur er safnvegur í umsjón Vegagerðar ríkisins.“  Á fundi hreppsnefndar hinn 10. júní sama ár var eftirfarandi bókað vegna fyrrgreindrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar:  „Varðandi 4. mál þá vísar hreppsnefnd því aftur til nefndarinnar þ.s. umræddur vegur er ekki safnvegur.“  Skipulags- og byggingarnefnd tók erindið til umfjöllunar að nýju á fundi hinn 29. júlí 2003 og var þá eftirfarandi bókað:  „Byggingarnefnd hafnar erindinu.  Vegurinn hefur verið tekinn út af safnskrá en er jafnframt heimreið að fleiri bæjum.“  Afgreiðsla þessi var staðfest á fundi hreppsnefndar hinn 2. september 2003. 

Framangreindri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps skutu kærendur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að ekki sé ætlun þeirra með beiðni um uppsetningu hliðs á Naustakotsvegi að loka alfarið allri umferð um veginn.  Þó svo að hliðið verði sett upp þá verði öllum frjálst að aka um veginn, það eina sem breytist sé það að opna og loka þurfi hliðinu. 

Kærendur benda og á að rök sveitarfélagsins fyrir hinni kærðu ákvörðun séu þau að vegurinn sé heimreið að fleiri bæjum en Skólatúni I, sem sé alveg rétt, en bærinn Skólatún II sé í eigu sömu aðila og Skólatún I.  Þá liggi vegurinn heim að tveimur sumarbústöðum sem varla teljist vera bæir í merkingu þess orðs. 

Sjónarmið Vatnsleysustrandarhrepps:  Vatnsleysustrandarhreppur bendir á að Naustakotsvegur liggi af Vatnsleysustrandarvegi að bæjunum Sunnuhlíð, Skólatúni I, Skólatúni II og Naustakoti og sé í þeim skilningi að hluta til safnvegur.  Vegurinn liggi um hlað Sunnuhlíðar og Skólatúns að Naustakoti sem sé lögbýli.  Þegar erindinu hafi verið hafnað hafi það verið gert vegna þess að umræddur vegur sé heimreið að fleiri bæjum og því ekki einkamál eins aðila að loka veginum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps að synja umsókn um leyfi til að loka Naustakotsvegi í Vatnsleysustrandarhreppi með hliði.  Fyrir liggur að vegur sá sem hér um ræðir er ekki einkavegur. 

Í 1. mgr. 38. gr. vegalaga nr. 45/1994 segir að enginn megi gera girðingu yfir veg með hliði á veginum án leyfis Vegagerðarinnar nema um einkaveg sé að ræða.  Samkvæmt framansögðu var það ekki á færi skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps að afgreiða beiðni kærenda um uppsetningu hliðs á Naustakotsvegi heldur Vegagerðarinnar og skorti því nefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun með þeim hætti sem gert var. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið reist á réttum lagagrundvelli og að ekki hafi verið gætt réttrar aðferðar við meðferð málsins.  Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 29. júlí 2003, um synjun umsóknar um uppsetningu hliðs á Naustakotsvegi, er felld úr gildi. 

______________________
Ásgeir Magnússon

______________________     ___________________
Þorsteinn Þorsteinsson             Ingibjörg Ingvadóttir