Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

33/2003 Brekkuland

Ár 2004, miðvikudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2003, kæra eiganda neðri hæðar fasteignarinnar nr. 3 við Brekkuland, Mosfellsbæ á bókun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 15. apríl 2003 varðandi framtíðaraðkomu að lóðinni nr. 3 við Brekkuland.

Á málið er lagður svofelldu

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2003, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar kærir K, eigandi neðri hæðar fasteignarinnar nr. 3 við Brekkuland, Mosfellsbæ, bókun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar varðandi framtíðaraðkomu að lóðinni nr. 3 við Brekkuland.

Krefst kærandi þess að hin kærða bókun verði fell úr gildi.

Bókun skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hinn 23. apríl 2003.

Málsatvik: Með bréfi, dags. 31. mars 2003, óskaði kærandi máls þessa eftir því við skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar að framtíðaraðkoma að lóðinni nr. 3 við Brekkuland yrði með þeim hætti sem verið hefði, eða frá Álafossvegi.

Samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 1992 – 2012 var ekki gert ráð fyrir aðkomu frá Álafossvegi að húsinu nr. 3 við Brekkuland. Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002 – 2024 var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 12. febrúar 2003, staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí 2003 og birt í Stjórnartíðindum hinn 22. júlí 2003, en samkvæmt því er ekki gert ráð fyrir breytingum varðandi þennan þátt skipulagsins.

Skipulags- og byggingarnefnd tók erindi kæranda til afgreiðslu á fundi hinn 15. apríl 2003 og bókaði að því tilefni eftirfarandi: „Brekkuland 3. Erindi frá Konný Agnarsdóttur og Gunnari Atlasyni, dags. 31.03.2003, þar sem farið er fram á að aðkoma að neðri hæð verði frá Álafossvegi. Byggingarfulltrúi gerði grein fyrir skipulaginu og forsögu aðkomu að lóðinni. Lagt var fram minnisblað frá byggingarfulltrúa, dags. 10.02.2003, og skipulagsráðgjafa, dags. 17.03.2003. Nefndin leggur áherslu á að framtíðaraðkoma að lóðinni verði frá Brekkulandi, en gerir ekki athugsemdir við aðkomu frá Álafossvegi meðan uppbygging á Helgafellshverfi kallar ekki á öfluga vegtengingu við Vesturlandsveg. Gera má ráð fyrir að frekari uppbygging á Helgafellslandi hefjist á allra næstu árum.“

Framangreinda bókun sættir kærandi sig ekki við og hefur skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi heldur því fram að ætlun bæjarfélagsins sé sú að skerða lóðarina að Brekkulandi 3 með þeim afleiðingum að engin aðkeyrsla verði að húsinu. Kærandi heldur því og fram að skipulagsyfirvöld hafi ekki boðið upp á neina lausn málsins og telji hann því verulega á sér brotið. Eignin verði verðminni fyrir vikið og næsta óseljanleg að mati fasteignasala.

Í bréfi kæranda til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 31. mars 2003, kveðst hann hafa eignast fasteignina árið 2002 og hafi þá verið tjáð að ekki stæði til að loka fyrir aðgengi framan við húsið. Hann hafi og aflað sér gagna á skrifstofum Mosfellsbæjar sem hann hafi túlkað sem svo að aðkoman frá Álfossvegi hafi verið heimil. Í fyrrnefndu bréfi kæranda til skipulags- og byggingarnefndar segir einnig að í garðinum að Brekkulandi 3 séu gömul birkitré sem myndi göngustíg að inngangi neðri hæðar hússins og yrði af þeim sjónarsviptir ef breyta þyrfti göngustíg að húsinu. Áfram segir í bréfinu að öruggt megi telja að húsnæðið að Brekkulandi 3 falli verulega í verði ef breytt aðkoma að húsinu verði að veruleika. Ekkert hús sé þannig byggt í dag að bílastæði séu í gluggahæð að svefnherbergjum en sú yrði einmitt raunin ef breyta þyrfti aðkomunni. Miðað við fyrirliggjandi skipulag sé ekkert skipulagt bílastæði við Brekkuland 3 og sé það eina húsið í öllu hverfinu sem svo sé ástatt um. Úr þessu megi bæta með því að skipuleggja bílastæði þar sem bílum hafi verið lagt við húsið í áratugi.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu Mosfellsbæjar er þess krafist að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála staðfesti hina kærðu ákvörðun. Mosfellsbær bendir á að húsið að Brekkulandi 3 sé tvíbýlishús. Íbúar neðri hæðar hafi ekið að húsinu frá Álafossvegi, en íbúar efri hæðar hafi ekið að húsinu frá Brekkulandi. Hafi þetta verið látið óátalið af hálfu bæjaryfirvalda.

Einnig er á það bent og á að samkvæmt nýsamþykktu aðalskipulagi bæjarins sé gert ráð fyrir því að í framtíðinni verði Álafossvegur byggður upp, enda kalli framtíðaruppbygging í Helgafellshverfi á öfluga vegtengingu við Vesturlandsveg. Eftir að vegurinn verði byggður upp verði aðkoma að lóð kæranda frá Álafossvegi ómöguleg nema með ærnum tilkostnaði. Ótækt sé út frá umferðaröryggissjónarmiðum að heimilaður verði út- og innakstur að einstökum húsum meðfram veginum. Því sé það svo samkvæmt aðalskipulaginu að aðkoman að Brekkulandi 3 sé frá Brekkulandi en ekki Álafossvegi. Það hafi því verið niðurstaða skipulags- og byggingarnefndar að hafna erindi kærenda. Nefndin hafi aftur á móti ekki séð ástæðu til að amast við því að íbúarnir héldu áfram að aka að húsinu frá Álafossvegi meðan vegurinn hafi ekki verið byggður upp.

Loks segir í greinargerð Mosfellsbæjar að af kærunni megi ráða að kærendur vilji að skipulaginu verði breytt þannig að þeir geti haldið áfram að aka að húsi sínu frá Álafossvegi og leggja bifreiðum sínum þar. Með vísan til framanritaðs geti bæjaryfirvöld ekki fallist á þá kröfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um bókun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar varðandi framtíðaraðkomu að lóðinni nr. 3 við Brekkuland í Mosfellsbæ og má af málatilbúnaði kæranda ráða að þess sé óskað að framtíðaraðkoma að lóð kæranda verði frá Álafossvegi í stað Brekkulands.

Í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 1992 – 2012 var gert ráð fyrir að Álafossvegur yrði tengibraut og hið sama kemur einnig fram í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002 – 2024. Samkvæmt þessu hefur um all langt skeið verið gert ráð fyrir því að aflögð verði sú skipan, sem verið hefur, að aðkoma lóðarinnar nr. 3 við Brekkuland verði frá Álafossvegi.

Af svæði því sem hér um ræðir er ekki til staðfest deiliskipulag en á ósamþykktum skipulagsuppdrætti og lóðablöðum kemur fram lega lóða, lóðamörk og götustæði.

Erindi kæranda til skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar, dags. 31. mars 2003, fól í sér ósk um að framtíðarskipan yrði með þeim hætti sem að framan er lýst og hin kærða bókun var svar við þeirri ósk. Hin kærða bókun fól því aðeins í sér afstöðu til óskar kæranda um efnið en ekki ákvörðun um réttindi eða skyldur til handa kæranda sem metin verður sem stjórnvaldsákvörðun á sviði skipulagsmála sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður af þessum sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

                                                                       Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________    _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Ingibjörg Ingvadóttir