Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2002 Ásgarður

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2002; kæra eiganda íbúðar að Ásgarði 22 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja byggingarleyfi fyrir eignarhluta í fasteigninni Ásgarði 22-24, er fól í sér breytingu á verslunarhúsnæði í þrjár íbúðir og útlitsbreytingu á ytra byrði hússins.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. september 2002, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir A, eigandi íbúðar að Ásgarði 22-24, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. ágúst 2002 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingu verslunarhúsnæðis á fyrstu hæð fasteignarinnar í þrjár íbúðir og útlitsbreytingu á ytra byrði hússins.  Ákvörðunin var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 5. september 2002.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir:  Í maímánuði árið 2001 voru haldnir tveir húsfundir í húsfélaginu Ásgarði 22-24, þar sem til umræðu var fyrirhuguð breyting byggingarleyfishafa á eignarhluta hans á annarri hæð hússins úr verslunarrými í þrjár íbúðir og breyting á ytra byrði hússins af þeim sökum.  Var kærandi mótfallinn fyrirhuguðum framkvæmdum.  Í kjölfar húsfundanna var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdunum en kærandi leitaði álits kærunefndar fjöleignarhúsa hinn 11. maí 2001 um það hvort umdeildar breytingar væru háðar samþykki allra meðeigenda fjöleignarhússins.  Álit kærunefndarinnar, dags. 17. september 2001, var á þann veg að fyrir skiptingu eignarhlutans í þrjár íbúðir og útlitsbreytingu hússins þyrfti samþykki allra eigenda fjöleignarhússins.

Hinn 27. ágúst 2002 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn byggingarleyfishafa frá maímánuði 2001 um umdeildar breytingar og var umsóknin samþykkt með svofelldri bókun:  „Umsókn eiganda verslunarhúsnæðis í húsinu við Ásgarð 22-24 um að gera þar þrjár íbúðir hefur verið til umfjöllunar hjá embætti byggingarfulltrúa síðan 28. maí 2001 eða í 15 mánuði.  Tveir eigendur í húsinu hafa mótmælt umsókninni.  Þeir hafa ekki sýnt fram á með haldbærum rökum að hagsmunir þeirra skerðist við að íbúðir verði samþykktar í verslunarhúsnæði.  Þá er útlitsbreyting á norðurhlið í samræmi við þá breytingu sem gerð var með samþykkt á íbúð nr. 0205.  Ætla má að breyting úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði sé öllum eigendum til hagsbóta þar sem atvinnuhúsnæði getur fylgt meiri umferð, hávaði og lyktarmengun.  Eigendur verslunarhúsnæðisins hafa ekki getað nýtt það sem slíkt um 2 ára skeið en borið af því allan kostnað, hagsmunir þeirra eru því ríkir.  Með skírskotun til ofanritaðs samþykkir byggingarfulltrúi umsóknina.“

Kæranda var tilkynnt um málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. ágúst 2002, og skaut hann síðan veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.  Er krafa kæranda um ógildingu byggingarleyfisins byggð á þeirri málsástæðu að umdeildar framkvæmdir hafi ekki hlotið samþykki allra eigenda fjölbýlishússins svo sem lögskylt sé og fram komi í fyrrnefndu áliti kærunefndar fjöleignarhúsa, sem legið hafi fyrir við afgreiðslu byggingarleyfisins.

Með kaupsamningi, dags. 13. desember 2002, seldi kærandi eignarhlut sinn í húsinu Ásgarði 22-24 og fór afhending hins selda og útgáfa afsals til kaupanda fram sama dag samkvæmt ákvæðum þess samnings.  Kaupandi eignarhluta kæranda hefur ekki látið kærumál þetta til sín taka.

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu hans sem eiganda að eignarhluta í fjölbýlishúsinu að Ásgarði 22-24.  Fyrir liggur kaupsamningur þar sem kærandi afsalar eignarhluta sínum í umræddu húsi til þriðja aðila og urðu eigendaskiptin hinn 13. desember 2002.  Frá þeim tíma hefur kærandi ekki hagsmuna að gæta vegna nýtingar séreignar eða breytingar á sameign fjölbýlishússins og á þar ekki lengur íhlutunarrétt í þeim efnum samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994.

Vegna þessara ástæðna á kærandi nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                            Ingibjörg Ingvadóttir