Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2000 Akurhlíð

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður

Fyrir var tekið mál nr. 59/2000, kæra rekstraraðila verslunar að Akurhlíð 1, Sauðárkróki á ákvörðun umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar frá 6. september 2000 um að synja umsókn kæranda frá 5. ágúst 2000 um tilhögun bílastæða og aðkeyrslu að versluninni og breytingu á legu Sæmundarhlíðar í samræmi við teikningar forráðamanns kæranda, dags. 8. júlí 2000.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. október 2000, sem barst nefndinni 10. október sama ár, kærir E, forráðamaður Raðhúss hf., Raftahlíð 4, Sauðárkróki, fyrir þess hönd, þá ákvörðun umhverfis- og tækninefndar Sauðárkróks frá 6. september 2000, er sveitarstjórn staðfesti 19. september 2000, að synja umsókn kæranda um breytingu á tilhögun bílastæða á lóðinni nr. 1 við Akurhlíð Sauðaárkróki, aðkeyrslu að lóðinni og breytingu á legu götunnar Sæmundarhlíðar framan við lóðina samkvæmt teikningum Einars Sigtryggssonar, dags. 8. júlí 2000.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Verslunin Hlíðarkaup er til húsa að Akurhlíð 1, Sauðárkróki og er reksturinn á hendi Raðhúss hf. kæranda í máli þessu.  Að norðanverðu liggur lóðin að Raftahlíð en að Sæmundarhlíð í austur.  Fyrir sunnan verslunarhúsið eru bílastæði ætluð viðskiptavinum en auk þess eru bílastæði norðan megin við húsið.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Byggingarfulltrúi Sauðárkróks sendi kæranda bréf, dags. 14. júní 1996, þar sem greint var frá bókun umferðarnefndar bæjarins á fundi nefndarinnar hinn 5. júní 1996.  Bókunin var svo hljóðandi:  „Vegna ófremdarástands í umferðarmálum framan við Hlíðakaup, vill umferðarnefnd beina því til eigenda að gengið verði frá bílastæðum við verslunina, í samræmi við skipulag, sem allra fyrst.”  Í bréfi til byggingarnefndar Sauðárkróks, dags. 1. september 1997, fór einn eigenda kæranda þess á leit að lóðarmörkum Akurhlíðar 1 yrði breytt að austanverðu þannig að Sæmundarhlíð yrði færð um 5,5 metra frá húsinu á kafla og gangstétt við götuna yrði færð að verslunarhúsinu.  Jafnframt var farið fram á að leyfð yrðu bílastæði austur af húsinu.  Tilefni beiðninnar var sögð sú að með breytingunni yrði aðkoma að versluninni bætt, útsýni yrði betra og með því dregið úr slysahættu.  Byggingarnefnd svaraði erindinu í bréfi, dags. 9. september 1997, og tilkynnti að afgreiðslu málsins væri frestað og byggingarfulltrúa falið að kanna möguleika á breyttri legu Sæmundarhlíðar við verslunina.  Hallgrímur Ingólfsson teiknaði upp drög að skipulagi lóðar kæranda þar sem Sæmundarhlíð er færð fjær verslunarhúsinu, gert ráð fyrir bílastæðum að austanverðu og viðbyggingu við húsið til norðurs.

Forsvarsmaður kæranda ritaði síðan umhverfis- og tækninefnd Skagafjarðar bréf, dags. 25. nóvember 1998, þar sem vísað var til fyrrgreinds erindis til byggingarnefndar Sauðárkróks og þess farið á leit að hugmynd um skipulag verslunarlóðarinnar að Akurhlíð 1, sem fram kæmi á teikningu Hallgríms Ingólfssonar, yrði samþykkt af nefndinni.  Afgreiðsla málsins væri aðkallandi vegna fyrirhugaðra malbikunarframkvæmda á lóðinni.  Á fundi nefndarinnar 27. nóvember 1998 var bókað að nefndin óskaði eftir að gerður yrði afstöðuuppdráttur af svæðinu.  Forsvarsmaður kæranda ítrekaði óskir sínar um afgreiðslu málsins í bréfi, dags. 19. apríl 1999, og á fundi umhverfis- og tækninefndar 2. júní 1999 var ákveðið að vísa erindinu til tæknideildar til úrvinnslu þar sem það yrði skoðað í skipulagslegu tilliti og gert kostnaðarmat.  Hinn 8. ágúst 1999 var ítrekuð beiðni um afgreiðslu umsóknar um viðbyggingu við verslunarhúsið að norðanverðu og áðurnefnda færslu götunnar framan við verslunina og sá dráttur sem orðinn var á afgreiðslu málsins átalinn.  Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar hinn 1. september 1999 þar sem fram kom að nefndin hafi látið gera afstöðumynd af svæðinu en ljóst væri að framkvæmdirnar myndu kosta sveitarfélagið margar milljónir króna.  Málið yrði afgreitt af nefndinni þegar fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir.  Kæranda var tilkynnt um þessa afgreiðslu nefndarinnar í bréfi, dags. 10. september 1999, og jafnframt á það bent að á fundinum hafi komið fram efasemdir um að umbeðin færsla Sæmundarhlíðar nægði til að gera fullnægjandi bílastæði framan við verslunina að Akurhlíð 1 og yrði að skoða málið nánar.  Afgreiðsla á umsókn kæranda um viðbyggingu biði deiliskipulagningar lóðarinnar.

Hinn 1. febrúar 2000 sendi forráðamaður kæranda umhverfis- og  tæknideild og sveitarstjórn bréf og óskaði eftir afgreiðslu á umsókn um viðbyggingu á norðurhluta lóðar að Akurhlíð 1.  Jafnframt sendi hann hinn 2. febrúar 2000 annað bréf til sömu aðila þar sem vakin var athygli á óafgreiddum erindum um bílastæðamál lóðarinnar og annan frágang.  Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum hinn 1. febrúar 2000 að umhverfis- og tækninefnd afgreiddi til næsta fundar sveitarstjórnar tillögur um skipulagsmál að Akurhlíð 1 og þar með verslunarinnar Hlíðarkaups samkvæmt erindi eigenda og forráðamanna allt frá árinu 1997.  Málið var síðan tekið fyrir á fundi umhverfis- og tækninefndar hinn 16. febrúar 2000 og eftirfarandi bókun gerð:  „Umhverfis- og tækninefnd getur ekki fallist á að breyta veglínu Sæmundarhlíðar gengt versluninni Hlíðarkaup hf.  Nefndin áréttar gildandi skipulag á svæðinu og óskar eftir því við eigendur Hlíðarkaups að þeir gangi frá bílastæðum sunnan við verslunina í samræmi við samþykkta byggingarnefndarteikningu 27.10.1981.  Umsókn á stækkun á versluninni til norðurs um allt að 15 m. er nú til afgreiðslu hjá nefndinni og felur hún byggingarfulltrúa að kynna þá umsókn hlutaðeigandi nágrönnum.  Frágangi lóðarmarka Akurhlíðar 1 að vestan og Brennihlíðar 1, 3 og 5 að austan er nauðsynlegt að ljúka og er umhverfis- og tækninefnd tilbúin að koma að lausn þess máls.”   Þessi afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 7. mars 2000 og kæranda tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 9. mars 2000, þar sem jafnframt var greint frá bókun eins nefndarmanna umhverfis- og tækninefndar þess efnis að færsla Sæmundarhlíðar til austurs væri forsenda fyrir því að umferðaröryggi yrði tryggt vegna verslunarstarfseminnar að Akurhlíð 1.

Umhverfis- og tækninefnd samþykkti leyfi til stækkunar verslunarhússins að Akurhlíð 1 til norðurs um 15 metra á fundi sínum hinn 8. júní 2000 en áréttaði að gengið yrði frá lóð hússins sem allra fyrst í samræmi við gildandi skipulag lóðarinnar.  Forsvarsmaður kærandi sendi bæjaryfirvöldum bréf, dags. 5. ágúst 2000, ásamt tveimur teikningum með umbeðnu skipulagi lóðarinnar að Akurhlíð 1, sem fólu í sér breytta tilhögun bílastæða, aðkeyrslu að verslunarhúsinu og færslu Sæmundarhlíðar framan við verslunarhúsið.  Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og tækninefndar hinn 6. september 2000 þar sem því var hafnað og bókun nefndarinnar frá 16. febrúar 2000 um sambærilegt erindi kæranda var ítrekuð.  Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar hinn 20. september 2000.

Kærandi sætti sig ekki við þessar málalyktir og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að umbeðnar breytingar á bílastæðum og aðkomu við verslunarhúsið  að Akurhlíð 1 helgist af umferðaröryggissjónarmiðum og viðleitni við að bæta aðkomu stærri bíla að versluninni.

Núverandi skipulag lóðarinnar sé til baga.  Bílastæði séu sunnan verslunarinnar með einni aðkoma frá Sæmundarhlíð og þar vilji safnast fyrir snjór í norðanáttum.  Þróun mála hafi því orðið sú að viðskiptavinir, og þá sérstaklega á stærri bílum, leggi bílum sínum austanvert við verslunina í götukanti Sæmundarhlíðar.  Núverandi ástand og skipulag skapi vandræði, m.a. þar sem útsýni þeirra sem leið eigi hjá skerðist.

Kærandi hafi af þessum sökum farið fram á að Sæmundarhlíð yrði færð austar framan við verslunina þannig að rými skapaðist við verslunarhúsið þar sem leggja mætti bílum.  Sú ráðstöfun yki umferðaröryggi á svæðinu og kæmi í veg fyrir að stærri bílum væri bakkað úr á Sæmundarhlíðina.  Hafi kærandi haft samráð við aðila sem þekktu til umferðarmála á staðnum við útfærslu tillögu sinnar.  Jafnframt hafi kærandi lýst sig reiðubúinn að taka þátt í kostnaði bæjarins við umbeðnar framavæmdir enda talið brýnt að koma málum þessum í lag.  Bendir kærandi á að sveitarstjórnum sé skylt að taka tillit til umferðaröryggis við skipulagningu byggðar samkvæmt 108. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem fram komi að þess skuli gætt að hús falli vel að lóð, aðkomu og bílastæðum.

Kærandi telur að engin haldbær rök búi að baki hinni kærðu ákvörðun.  Málsmeðferð erindis hans hafi verið ómálefnaleg og hafi þar haft áhrif afstaða formanns umhverfis- og tækninefndar sveitarfélagsins, sem einnig sitji í sveitarstjórn, sem mótast hafi af stöðu hans sem stjórnarformanns samkeppnisaðila kæranda í verslunarrekstri.  Kærandi hafi gert þá kröfu að viðkomandi aðili viki sæti við meðferð mála hans hjá bæjaryfirvöldum en þeirri málaleitan hafi í engu verið sinnt.

Málsrök Skagafjarðar:  Sveitarfélagið bendir á að skipulagsyfirvöld hafi haft verulegar áhyggjur af umferðaröryggi við verslunina að Akurhlíð 1.  Ítrekað hafi verið eftir því leitað við forráðamenn verslunarinnar að gengið yrði frá lóð og bílastæðum við húsið.  Innan lóðar hafi ekki verið gengið frá neinum bílastæðum og viðskiptavinir verslunarinnar leggi bílum sínum framan við aðalinngang hennar úti í götusvæði Sæmundarhlíðar, sem sé skilgreind sem tengibraut í gildandi aðalskipulagi Sauðárkróks.

Bæjaryfirvöld hafi látið kanna breytta legu Sæmundarhlíðar í kjölfar erinda kæranda og látið áætla kostnað við mögulegar breytingar.  Í framhaldi af því hafi umhverfis- og tækninefnd sveitarfélagsins á fundi sínum hinn 16. febrúar 2000 ekki getað fallist á breytta legu götunnar við verslunina en áréttað að gengið yrði frá bílastæðum sunnan verslunarinnar í samræmi við samþykkta byggingarnefndarteikningu frá 27. október 1981.  Þessi afstaða var ítrekuð við afgreiðslu nefndarinnar hinn 6. september 2000 á erindi kæranda um færslu Sæmundarhlíðar, sem nú hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar á beiðni kæranda um breytingu á legu Sæmundarhlíðar framan við verslun kæranda að Akurhlíð 1, Sauðárkróki og útfærslu bílastæða og aðkomu að versluninni í samræmi við teikningar, dags. 8. júlí 2000, sem undirritaðar eru af forráðamanni kæranda.  Kærandi telur að málsmeðferð erindis hans hafi verið ábótavant sökum vanhæfis eins nefndar- og sveitarstjórnarmanns, en auk þess séu engin haldbær rök fyrir synjun sveitarstjórnaryfirvalda.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 371993 fer um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga eftir sveitarstjórnarlögum.  Um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna er fjallað í 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og gildir það ákvæði um aðila í nefndum á vegum sveitarstjórna samkvæmt 47. gr. laganna.  Í nefndri 19. gr. segir að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.  Formaður umhverfis- og tækninefndar, sem jafnframt sat í sveitarstjórn, var stjórnarformaður hjá samkeppnisaðila kæranda í verslunarrekstri.  Tók hann þátt í meðferð og ákvörðun á erindi kæranda í nefndinni og í sveitarstjórn.  Ekki verður talið að umdeild ákvörðun, er snertir skipulagningu á lóð kæranda og nánasta umhverfi, sé svo vaxin að valdi vanhæfi umrædds nefndarmanns vegna fyrrgreindrar stöðu hans og verður hinni kærðu ákvörðun því ekki hnekkt af þeim sökum.

Umdeilt erindi kæranda um breytingu á fyrirkomulagi bílastæða á verslunarlóð hans og aðkomu að lóðinni fól í sér breytingu á vegarstæði Sæmundarhlíðar við verslun kæranda.  Tilefni beiðninnar var, að sögn kæranda, að auka umferðaröryggi við verslunina.  Til þess að rými fengist fyrir vegrein, samsíða Sæmundarbraut, framan við verslunina þyrfti að færa umræddan veg frá lóðarmörkum kæranda.  Sú breyting hefði í för með sér ráðstöfun á landi sveitarfélagsins til greindra nota.

Skipulagsyfirvöldum ber við skipulagningu umferðarmannvirkja og lóða að tryggja sem best örugga umferð fólks og farartækja með hliðsjón af 2. mgr. 9. gr., sbr. 1. gr.  skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og skulu eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna.  Í skipulags- og byggingarlögum er ekki að finna lagaheimildir til handa íbúum sveitarfélaga til þess að knýja á um einstakar lausnir til þess að ná greindum markmiðum eða að fá sveitarfélag knúið til að leggja land sitt undir tiltekna notkun í þessu skyni.   Slík ráðstöfun á landi sveitarfélags verður því ráðin með samningum einkaréttarlegs eðlis en ekki skipulagsákvörðunum.  Að þessu virtu verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar en jafnframt vegna beiðni kæranda um frestun á afgreiðslu málsins í tilefni af samningaumleitunum málsaðila um lausn þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar frá 6. september 2000 að synja umsókn kæranda, samkvæmt teikningu hans, dags. 8. júlí 2000, um skipulag bílastæða á lóðinni að Akurhlíð 1, Sauðárkróki og breytingu á aðkeyrslu að henni ásamt breytingu á legu götunnar Sæmundarhlíðar framan við lóðina.

 
____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Óðinn Elísson

2/2003 Vatnsendablettur

Með

Ár 2003, miðvikudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2003, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að gera eiganda 50m² húss að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi að fjarlægja umrætt hús af lóðinni eigi síðar en hinn 1. febrúar 2003, en að öðrum kosti verði húsið fjarlægt á kostnað eiganda.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. jan 2003, kærir G ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að gera honum að fjarlægja 50m² hús af lóðinni að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi eigi síðar en hinn 1. febrúar 2003, en að öðrum kosti verði húsið fjarlægt á hans kostnað.  Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að réttaráhrifum hennar verði frestað meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi byggingarfulltrúa og bæjarlögmanns Kópavogs, dags. 20. mars 2003, var kæranda tilkynnt að húsið yrði fjarlægt hinn 27. mars 2003 ef hann hefði ekki fyrir þann tíma orðið við kröfu bæjaryfirvalda um brottfltuning þess.  Er málið nú tekið til úrlausnar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Málavextir:  Málavöxtum verður hér aðeins lýst í stuttu máli að því marki sem þurfa þykir við úrlausn þessa þáttar málsins.  Kærandi var eigandi að húsi að Vatnsendabletti 241a, sem mun hafa eyðilagst í eldsvoða í aprílmánuði árið 1999.  Ekki hefur komið til endurbyggingar húss á lóðinni og mun ágreiningur kæranda við landeiganda um réttindi yfir umræddri lóð hafa staðið því í vegi, en deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir umrætt svæði og er þar gert ráð fyrir að lóðin verði að hluta byggingarlóð fyrir íbúðarhús.

Haustið 2002 flutti kærandi 50m² timburhús eða skúr á lóðina.  Kveðst hann hafa skipt um klæðningu á skúrnum og sett í hann glugga en ekki fest hann við undirstöður.  Virðist hafa vakað fyrir kæranda að nýta hús þetta í tengslum við hagnýtingu lóðarinnar og eftir atvikum sem vinnuaðstöðu meðan byggt væri nýtt hús á lóðinni. 

Fljótlega eftir að húsið var flutt á lóðina komu fram athugasemdir af hálfu byggingarfulltrúa um að ekki hefði verið aflað tilskilinna leyfa og tilkynnti hann kæranda að frekari framkvæmdir á lóðinni skyldu stöðvaðar.

Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 4. desember 2002 ákvað nefndin að gefa eiganda frest til 1. febrúar 2003 til þess að fjarlægja húsið af lóðinni en ella myndi nefndin hlutast til um að það yrði gert á kostnað eiganda.

Þessari ákvörðun vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 3. janúar 2003, svo sem að framan greinir.  Hafa bæjaryfirvöld nú ítrekað kröfu sína um brottflutning hússins eins og þegar hefur verið lýst.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að umrætt hús sé ekki fasteign þar sem það hafi ekki verið fest við undirstöður.  Það standi þar sem áður hafi staðið hús það er brunnið hafi og telji hann sig eiga fullan rétt á að endurbyggja hús í þess stað.  Þó hafi alltaf staðið til að byggja annað hús og stærra ofar í lóðinni á skilgreindum byggingarreit en af því hafi ekki orðið þar sem byggingarleyfi hafi ekki verið veitt.  Hús það sem um sé deilt í málinu sé til bráðbirgða en fyrirhugað sé að nýta það á meðan byggingarframkvæmdum standi.  Loks bendir kærandi á að aðstæður á lóðinni séu nú erfiðar til flutnings á húsinu vegna veðurfars og bleytu og kunni að vera ógerlegt að koma stórum bíl og tækjum að því eins og sakir standi.  Ekki hafi verið sýnt fram á að neina nauðsyn beri til þess að fjarlægja húsið meðan ágreiningur um stöðu þess á lóðinni sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og beri því að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 9. ágúst 2002 hafi verið hafnað erindi kæranda um að honum yrði veitt leyfi til að flytja umrætt hús á lóðina til að nota sem aðstöðu meðan á endurbygging nýs húss á lóðinni stæði yfir og í framhaldi af því að mega nýta húsið sem bílskúr eða bátaskýli.  Hafi m.a. verið vísað til þess að samkvæmt forsendum nýs skipulags á svæðinu þyrfti að gera nýja lóðarleigusamninga við landeiganda.  Kærandi hafi ekki kært þessa synjun byggingarnefndar og standi því óhögguð sú ákvörðun nefndarinnar að veita ekki leyfi fyrir umræddu húsi á lóðinni.  Kærandi hafi, þrátt fyrir þetta, flutt húsið á lóðina og hafist handa við endurbætur á því.  Þetta hafi honum verið óheimilt og hafi framkvæmdir verið stöðvaðar jafnskjótt og um þær varð kunnugt.  Ákvörðun byggingarnefndar um að gera kæranda að fjarlægja húsið af lóðinni eigi sér stoð í 2. og 5. mgr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærandi hafi ekki orðið við fyrirmælum um að fjarlægja húsið og hafi því verið ákveðið að láta vinna verkið á kostnað eiganda þrátt fyrir kæru hans til úrskurðarnefndarinnar, enda fresti kæran ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 að gera kæranda að fjarlægja hús það sem að framan greinir af lóðinni að Vatnsendabletti 241a innan tilskilins frests og um að láta að öðrum kosti fjarlægja húsið á kostnað kæranda.  Frestur sá sem kæranda var veittur til verksins er liðinn og liggur nú fyrir ákvörðun bæjaryfirvalda í Kópavogi um að fjarlægja húsið á morgun, hinn 27. þessa mánaðar.  Hefur kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun. 

Í hinni kærðu ákvörðun felst að beita skuli þvingunarúrræðum sem byggingaryfirvöldum eru tiltæk og vísa bæjaryfirvöld til ákvæða sem eiga annars vegar við um byggingarleyfisskyld mannvirki sem reist eru án samþykkis sveitarstjórnar og fara í bága við skipulag og hins vegar um ólöglegar byggingar eða byggingarhluta.  Eru réttarúrræði þessi íþyngjandi og sæta lagareglur um beitingu þeirra þröngri túlkun.  Verður jafnframt að gera ríkar kröfur til rökstuðnings fyrir ákvörðunum stjórnvalda um beitingu slíkra úrræða og þurfa þær að eiga sér ótvíræða lagastoð.

Ágreiningur er m.a. í málinu um það hvort umrætt hús sé byggingarleyfisskylt mannvirki þar sem það hafi ekki verið varanlega skeytt við undirstöður og þá jafnframt um það hvort ákvæði 2. og 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eigi við í málinu.  Engin rök hafa verið færð fyrir því af hálfu bæjaryfirvalda að nauðsyn beri til að fjalægja umrætt hús af öryggisástæðum eða vegna annarra brýnna hagsmuna bæjarfélagsins.  Þá liggur ekki fyrir að nágrannar hafi amast við húsinu eða að krafa hafi komið fram frá þeim eða öðrum hagsmunaaðilum um brottflutning þess.

Að því virtu sem að framan er rakið þykir ekki hafa verið sýnt fram á að nauðsyn beri til að framfylgja hinni kærðu ákvörðun áður en úrskurðarnefndin kveður upp efnisúrskurð í málinu.  Þykir því rétt, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og með heimild í 2. mgr. 29. gr. sömu laga, að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að fjarlægja skuli 50m² hús af lóðinni að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi meðan mál þetta er til efnismeðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Fyrirhuguð framkvæmd ákvörðunarinnar skal því stöðvuð.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________         _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                   Óðinn Elísson

 

13/2002 Skuggahverfi

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2002, kærur 71 íbúa og eigenda íbúða við Klapparstíg og Skúlagötu í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. apríl 2002 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Skugghverfi, Eimskipafélagsreit.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi, dags. 15. maí 2002, kæra K, G og Þ f.h. íbúa á Völundarlóð ákvörðun um deiliskipulag í Skuggahverfi.  Kæru þeirra fylgja undirskriftarlistar með kærum 59 íbúa á svæðinu. Með bréfi, dags. 16. maí 2002, kærir Kristján Stefánsson hrl., f.h. H og Á, eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, breytt skipulag Skugghverfis, sbr. samþykkt borgarráðs 16. apríl 2002.  Loks kæra 7 íbúar að Skúlagötu 10 sömu ákvörðun, með ódagsettu bréfi sem barst úrskurðarnefndinni hinn 17. maí 2002.  Erindi þessi lúta öll að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. apríl 2002, sem staðfest var á fundi borgarráðs hinn 16. apríl 2002, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði í Skuggahverfi, sem afmarkast af Sæbraut (áður Sætún) til norðurs, Snorrabraut til austurs, Hverfisgötu til suðurs og Ingólfsstræti til vesturs.  Hafa framangreind kærumál verið sameinuð, enda er um sama úrlausnarefni að tefla í öllum málunum og fara hagsmunir kærenda saman.

Kröfur kærenda eru eftirfarandi:

K, G og Þ, f.h. íbúa á Völundarlóð krefjast þess að hæðir húsa og fjöldi íbúða verði færður til samræmis við áður samþykkt nýtingarhlutfall svæðisins og jafnræðis verði gætt.  Þá krefjast þeir þess að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda skipulagi verið ekki hafnar meðan úrskurðarnefndin hafi kærumál þeirra til meðferðar.

Af hálfu sjö íbúa að Skúlagötu 10 er þess krafist að horfið verði til áður samþykkts nýtingarhlutfalls og byggingar lækkaðar verulega.

Kristján Stefánsson hrl., f.h. H og Á, krefst þess aðallega að nýtt deiliskipulag fyrir Skuggahverfi Reykjavíkurborgar verði ógilt, en til vara að því verði breytt á þann veg að byggingar á reitnum, er liggi að Skúlagötu 10, verði færðar fjær lóðarmörkum og Skúlagötu, auk þess verði byggingar á horninu ekki leyfðar hærri en 2 hæðir.

Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kröfugerð kærenda að í henni felist krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Ekki hefur komið til þess að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda skipulagi hæfust og verður krafa kærenda um stöðvun framkvæmda því ekki tekin sérstaklega til úrlausnar.

Málavextir:  Hinn 19. september 1985 var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur deiliskipulag Skúlagötusvæðis eða Skuggahverfis, sem afmarkast af Sætúni til norðurs, Snorrabraut til austurs, Hverfisgötu til suðurs og Ingólfsstræti til vesturs.  Skipulag þetta hlaut afgreiðslu Skipulagsstjórnar ríkisins og var staðfest af félagsmálaráðherra hinn 13. maí 1986.  Var í skipulagi þessu gert ráð fyrir að á svæðinu risi þétt íbúðabyggð auk húsnæðis fyrir ýmsa miðbæjarstarfsemi, stjórnsýslu, verslun, þjónustu og smáiðnað.  Í greinargerð skipulagsins var tekið fram að hugsanlegt væri að á svæðinu risi hótel og/eða íbúðir aldraðra og að við framhald vinnu við skipulag svæðisins yrði gerð nánari grein fyrir húsagerðum, endurbyggingarrétti einstakra lóða, skilmálum um form o.fl., götuhönnun, umhverfismótun og göngustígum meðfram sjávarlínu, ásamt öðrum þáttum sem því tengdust að færa tillöguna á framkvæmdastig.

Breytingar hafa verið gerðar á deiliskipulagi þessu eftir gildistöku þess varðandi einstaka reiti innan skipulagssvæðisins.  Þannig var snemma árs 1990 gerð sú breyting að á reit innan Frakkastígs, Lindargötu, Vatnsstígs og Sætúns mætti reisa hótel og koma fyrir bílastæðum en jafnframt voru gerðar breytingar á skipulagi aðliggjandi reits vestan Vatnsstígs, tengdar þessum áformum.  Þá voru breytingar gerðar á deiliskipulagi lóðanna nr. 1-7 við Klapparstíg og nr. 10 við Skúlagötu seint á árinu 1996.

Á árinu 2000 hófst vinna við endurskoðun á gildandi skipulagi svæðis sem afmarkast af Skúlagötu til norðurs, Frakkastíg til austurs, Hverfisgötu til suðurs og Klapparstíg til vesturs í samráði við eigendur stærsta hluta óbyggða svæðisins norðan Lindargötu.  Kynntu eigendur óbyggða svæðisins tillögu sína að deiliskipulagi þess fyrir skipulags- og umferðarnefnd á fundi nefndarinnar þann 6. mars 2000.  Með bréfi, dags. 13. mars 2000, var hagsmunaaðilum á svæðinu tilkynnt um að vinna við endurskoðun skipulags svæðisins væri hafin og tillaga að skipulagi þess yrði kynnt innan tíðar.  Tillaga að skipulagi svæðisins var næst kynnt fyrir skipulags- og umferðarnefnd þann 22. maí 2000 og aftur 10. júlí s.á.  Á þeim fundi ákvað nefndin að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu og var tillagan kynnt frá 15. júlí til 17. ágúst 2000.

Eftir kynninguna var endurskoðuð tillaga að skipulagi svæðisins lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd þann 22. nóvember 2000.  Þann 29. nóvember sama ár samþykkti nefndin að kynna tillögu, dags. 13. nóvember 2000, fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu með þeirri breytingu að hæðarkótar hæstu húsa tækju mið af hæð þeirra húsa sem hæst hefðu verið samþykkt við Skúlagötu.  Var sú samþykkt staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur þann 27. desember 2000.

Málið var á ný tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd þann 21. febrúar 2001 en þá var kynnt ný tillaga að skipulagi svæðisins þar sem tekið hafði verið mið af athugasemdum nefndarinnar frá 29. nóvember 2000.  Á þeim fundi var einnig lögð fram umsögn Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur um skólaþörf vegna fjölgunar íbúa í hverfinu, dags. 24. janúar 2001.  Samþykkti nefndin að unnið yrði áfram með tillöguna á grundvelli framlagðrar tillögu um hæð fremstu húsa.  Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum þann 27. febrúar s.á.

Í kjölfar framangreinds voru hagsmunaaðilar boðaðir til kynningarfundar um tillögu að skipulagi svæðisins í sal Borgarbókasafns að Tryggvagötu 15 þann 3. apríl 2001.  Á þeim fundi var tillagan kynnt, gerð grein fyrir framvindu málsins og hagsmunaaðilum gefið færi á að leita svara við ýmsum spurningum varðandi málið, en fundurinn var mjög fjölmennur.  Málið var lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd þann 7. nóvember 2001 og samþykkt að kynna tillöguna á ný fyrir hagsmunaðilum þar sem hún hefði tekið nokkrum breytingum, auk þess sem fallið hafði verið frá umfangsmiklum breytingum á skipulagi reitanna sunnan Lindargötu, en mestar athugasemdir við skipulagið höfðu komið frá eigendum húsa á því svæði.  Í þessu skyni var haldinn kynningarfundur í Tjarnarsal ráðhúss Reykjavíkurborgar þann 27. nóvember 2001.

Málið var enn tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 17. desember 2001 og bókað að kynna ætti tillöguna fyrir hagsmunaðilum.  Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs þann 18. desember s.á.  Afgreiðsla þessi var leiðrétt á fundi nefndarinnar þann 16. janúar 2002 þar sem í raun hafði verið samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar en ekki að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum.  Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs þann 22. janúar 2002.  Í kjölfar þess var tillaga að deiliskipulagi reitsins auglýst til kynningar skv. ákvæði 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var tillagan til kynningar frá 30. janúar 2002 til 13. mars 2002 og var athugasemdafrestur til sama tíma.  Athugasemdabréf bárust frá fjölmörgum íbúum á svæðinu, svo og frá Fornleifavernd ríkisins.

Tillagan var tekin fyrir á ný, að lokinni auglýsingu, á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 10. apríl 2002 ásamt athugasemdum og umsögn  skipulagsfulltrúa um þær, dags. 8. apríl 2002.  Á þeim fundi var hin auglýsta tillaga samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum þann 16. apríl s.á.  Var athugasemdaaðilum tilkynnt um þá afgreiðslu tillögunnar með bréfi, dags. 17. apríl 2002.  Tillagan var að því loknu send til skoðunar Skipulagsstofnunar.  Með bréfi, dags. 18. júní 2002, óskaði stofnunin eftir lagfæringum og skýringum á nokkrum atriðum áður en málið yrði afgreitt.  Lagfærður uppdráttur í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar var sendur stofnuninni til meðferðar.  Var um að ræða lagfæringar til að skýra efni skipulagsins betur, en engar efnislegar breytingar voru gerðar á tillögunni.  Með bréfi, dags. 21. október 2002, tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda þegar Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 hefði tekið gildi en staðfesting þess hafði tafist.  Þrátt fyrir framangreindan fyrirvara Skipulagsstofnunar var, fyrir mistök, birt auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda þann 30. október 2002 en auglýsing um gildistöku hins nýja aðalskipulags hafði þá ekki verið birt.  Ný auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins og afturköllun fyrri auglýsingar birtist í B-deild Stjórnartíðinda þann 15. janúar 2003.

Á sama tíma og unnið var að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar var unnið að gerð nýs aðalskipulags Reykjavíkur.  Auglýsing um tillögu að nýju aðalskipulagi var auglýst til kynningar hinn 23. janúar 2002 og stóð kynningin til 6. mars 2002.  Var tillagan samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 18. apríl 2002 en vegna dráttar á staðfestingu þess var auglýsing um gildistöku þess ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda fyrr en hinn 10. janúar 2003.

Málsrök kærenda:  Nokkur blæbrigðamunur er á málatilbúnaði einstakra kærenda.  Í meginatriðum er á því byggt að nýtingarhlutfall samkvæmt hinu breytta skipulagi sé hærra en verið hafi samkvæmt eldra skipulagi.  Þá sé hámarkshæð húsa aukin verulega.  Þar við bætist að salarhæð sé meiri en almennt gerist og auki það enn á hæð nýbygginga samkvæmt skipulaginu.  Íbúar á deiliskipulögðu svæði eigi ekki að þurfa að sæta því að skipulagi sé breytt á þann veg að íþyngjandi sé fyrir þá.  Auknu byggingamagni fylgi aukið skuggavarp og umferð, svo og skerðing á útsýni.  Þá séu rangfærslur í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir kærenda og annarra nágranna.  Nokkrir kærenda telja að ekki megi leyfa íbúðarbyggingar í þeirri nálægð við bensínstöð, sem ráðgert sé í hinu umdeilda skipulagi.   

Í kæru Kristjáns Stefánssonar hrl., f.h. eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, er vísað til þess að kærendur hafi mótmælt tillögunni þar sem þau telji hana skerða útsýni og varpa meiri skugga á fasteign sína en eldra skipulag hafi gert ráð fyrir.  Eldra skipulag hafi tryggt þeim betra útsýni og sólarljós, en það hafi þau lagt til grundvallar við kaup á íbúð sinni og greitt hærra verð fyrir hana af þessum ástæðum.  Þá halda þessir kærendur því fram að ekki hafi verið tekið sérstaklega á athugasemdum þeirra í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. apríl 2002, og að staðhæfing í umsögninni um að haft hafi verið til hliðsjónar við gerð tillögunnar að hún skerti ekki gæði byggðarinnar sem fyrir væri á svæðinu stangist á við staðreyndir.  Kærendur telja einnig að skipulagsuppdrátturinn sé ekki réttur og vísa í því sambandi til þess að útbyggingar á austurhlið hússins að Skúlagötu 10 séu ekki sýndar og lóðarmörk ráðin fast við austurgafl hússins án samráðs við þau.  Í tillögum sem hafi áður verið kynntar hafi hæð húsa á vesturmörkum verið bundin við 2-3 hæðir en ákvarðaðar +4 í skipulaginu.  Undrar kærendur að endurtekin þörf sé á breytingum á aðeins 10 ára gömlu skipulagi á kostnað eldri byggðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kærum Kristins Gunnarssonar, Gunnars M. Hanssonar og Þorsteins B. Eggertssonar, f.h. íbúa á Völundarlóð, kæru sjö íbúa að Skúlagötu 10 sem og varakröfu Kristjáns Stefánsson hrl., f.h. Helga Vignis Kristinssonar og Ásgerðar F. Guðbrandsdóttur, eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, verði vísað frá nefndinni.  Að frávísunarkröfum frátöldum er þess krafist að hin kærða ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur, um samþykkt deiliskipulagsins, standi óröskuð og að hafnað verði kröfu um stöðvun framkvæmda.

Í framhaldsgreinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 19. febrúar 2003, þar sem reifuð eru sjónarmið borgarinnar um álitaefni er varða málsmeðferð við skipulagsgerðina, sem úrskurðarnefndin hafði gefið borgaryfirvöldum kost á að tjá sig um, er sett fram sú krafa að hin kærða ákvörðun verði einungis ógilt að hluta, þ.e. einungis að því er varðar þann hluta svæðisins þar sem skipulagsákvörðunin felur í sér breytingu á landnotkun.

Frávísunarkröfu sína styður Reykjavíkurborg þeim rökum að þær kærur og sú krafa sem krafist sé frávísunar á verði ekki skildar á annan hátt en að þess sé krafist að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála breyti deiliskipulaginu eins og nánar greini í kærum.  Úrskurðarnefndin fari ekki með skipulagsvald og geti því aðeins fellt skipulagið úr gildi eða staðfest það.  Í þeim kærum og þeirri kröfu sem krafist sé frávísunar á sé ekki gerð krafa um að deiliskipulagið í heild verði fellt úr gildi.  Í ljósi framangreinds, beri nefndinni að vísa tilgreindum kærum og kröfu frá.  Að auki sé kæra 7 íbúa að Skúlagötu 10 vanreifuð og sé einnig krafist frávísunar hennar á þeirri forsendu, sbr. m.a. 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefnd skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öðru leyti er þess krafist að hin kærða ákvörðun standi óröskuð. Telja borgaryfirvöld að málsmeðferð skipulagstillögunnar, samráð og kynning hafi verið vönduð og í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Ljóst sé því að hin kærða ákvörðun verði ekki felld úr gildi á þeim grundvelli að gallar hafi verið á meðferð hennar að þessu leyti.

Reykjavíkurborg mótmælir því að athugasemdum kærenda hafi ekki verið svarað í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir, sbr. t.d. umfjöllun í 3. mgr. undir liðnum „Hæðir húsa“.  Hvað varði athugasemdir um að skipulagsuppdrátturinn sé ekki réttur, þ.e. að útbyggingar á austurhlið Skúlagötu 10 séu ekki sýndar, þá sé það rétt ábending. Svo virðist vera að við gerð tillögunnar hafi þessar útbyggingar fallið út.  Það hafi þó ekki þýðingu í málinu enda útbyggingar þessar ekki verulegar og Reykjavíkurborg kunnugt um þær sem og skipulagshöfundum.  Þessi smávægilega villa hafi engin áhrif á skipulagstillöguna.  Lóðarmörkin samkvæmt tillögunni séu hins vegar rétt og eins og fram komi á mæliblaði séu kvaðir á báðum lóðunum um að heimilt sé að byggja svalir og glugga út fyrir lóðarmörkin.   

Með hliðsjón af umfjöllun í kæru Kristjáns Stefánssonar hrl., f.h. eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, verði að telja að þeir kærendur byggi kröfu sína um ógildingu skipulagsins fyrst og fremst á grenndarréttarlegum sjónarmiðum um skerðingu útsýnis og aukið skuggavarp.  Í því sambandi verði að bera saman gildandi skipulag af svæðinu frá 1990 og hið kærða skipulag.  Skipulagið frá 1990 hafi gert ráð fyrir að byggt yrði hús sem væri 4, 6, 7 og 9 hæðir skammt sunnan við húsið nr. 10 við Skúlagötu, alveg að austurlóðarmörkum þess.  Í hinu kærða deiliskipulagi hafi verið fallið frá þessu og byggingarnar færðar frá lóðarmörkunum og sé 9 hæða byggingin bæði austar og sunnar á lóðinni en áður hafi verið ráðgert.  Leiði þessi breyting til þess að útsýni til suðurs verði meira og skuggavarp minna upp úr hádegi en samkvæmt eldra skipulagi.  Norðar á lóðinni, á móts við austurgafl hússins nr. 10 við Skúlagötu, verði hins vegar 4 hæða byggingar þar sem engar byggingar hafi áður verið fyrirhugaðar auk þess sem 13-15 hæða turnbygging rísi austast á reit nr. 1.  Muni sú breyting auka skuggavarp snemma á morgnana og skerða útsýni til austurs.  Breytingin hafi því bæði neikvæð og jákvæð áhrif.  Það sé mat Reykjavíkurborgar að þessi breyting sé hvorki svo mikil né áhrif hennar svo neikvæð að leitt geti til ógildingar hins kærða skipulags á grundvelli almennra reglna grenndarréttarins.

Hafa verði í huga að í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta gildandi skipulagsáætlunum, sbr. t.d. 21. og 26. gr. laganna.  Ekkert sé því óeðlilegt við það að endurskoðað sé 10 ára gamalt skipulag.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði íbúar og eigendur fasteigna almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Hvað varði nálægð húsa skv. skipulaginu þá sé heimilt í deiliskipulagi að ákveða að lágmarksfjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa megi vera minna en kveðið sé á um í grein 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 en þá geti þurft að grípa til sérstakra aðgerða til að tryggja brunavarnir.  Rétt sé að benda á að á sömu forsendum hafi verið leyft að byggja húsið nr. 10 við Skúlagötu á lóðarmörkum.
 
Um þá málsástæðu kærenda að óheimilt hafi verið að hækka nýtingarhlutfall við skipulagsbreytinguna benda borgaryfirvöld á að samkvæmt breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðisins, varðandi lóðina nr. 1-7 við Klapparstíg, sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra þann 7. ágúst 1996, sé nýtingarhlutfall þeirrar lóðar 2,5.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé byggingarmagn á lóðinni 14.836m² en lóðin sé 5518m². Nýtingarhlutfall hennar sé því 2,6 miðað við samþykktar byggingar.  Nýtingarhlutfall á deiliskipulagssvæðinu sé hins vegar 2,73 án bílageymslna en með bílageymslum 3,32. Nýtingarhlutfall reits 1 og 2 með bílageymslum sé 2,7 en 2,1 án þeirra. Samanlagt nýtingarhlutfall reita 1 og 2 ásamt Lindargötu 29 sé 2,8 með bílageymslum en 2,2 án bílageymslna en hafi áður verið 1,2 samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni frá 1990.  Nýtingarhlutfall reitanna næst lóðinni nr. 1-7 við Klapparstíg sé því sambærilegt við nýtingarhlutfall þeirrar lóðar.  Nýtingarhlutfall reita 3, 4, 5 og 6 sé hins vegar nokkru hærra eða samanlagt 3,18 án bílageymslna en 3,85 með bílageymslum.  Nýtingarhlutfall þeirra reita hafi áður verið 2,85 samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni frá 1990.  Þegar bílageymslur séu reiknaðar með sé um nokkra hækkun á nýtingarhlutfalli reitanna að ræða miðað við það sem eldra skipulag hafi gerti ráð fyrir.  Í því sambandi verði hins vegar að hafa í huga að þær séu að mestu neðanjarðar og hafa því ekki grenndaráhrif eins og húsbyggingar ofanjarðar heldur bæti þær umhverfið og gæði byggðarinnar.  Ekki verði hins vegar séð að hækkað nýtingarhlutfall geti leitt til ógildingar hins kærða skipulags enda sé nýtingarhlutfall þeirra reita sem liggi að lóðinni nr. 1-7 við Klapparstíg svipað og þeirrar lóðar.  Nýtingarhlutfall hinna reitanna sé hærra enda hægara um vik að skipuleggja svo þétta byggð þegar eignarhald svæðisins sé á einni hendi og skipulagið hafi þar ekki áhrif á þá byggð sem fyrir sé.

Að auki sé framangreind aukning á nýtingarhlutfalli í samræmi við stefnumörkun Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 um þéttingu byggðar en í því sé umrætt deilskipulagssvæði tilgreint sem þéttingarsvæði nr. 5 og gert ráð fyrir um 250 íbúðum á svæðinu.  Hið aukna nýtingarhlutfall og mismunur á nýtingarhlutfalli lóðarinnar að Klapparstíg 1-7 og austari reita hins kærða deiliskipulags byggi því á málefnalegum sjónarmiðum og nýrri stefnumörkun aðalskipulags. Hafi tillaga að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 verið auglýst til kynningar á sama tíma og hin kærða deiliskipulagstillaga, en í aðalskipulagstillögunni hafi framangreind ákvæði um þéttingu byggðar m.a. komið fram.  Raunar hefði breytt nýtingarhlutfall getað samræmst ákvæðum áður gildandi Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016, en samkvæmt ákvæðum þess hafi með deiliskipulagsákvörðun verið heimilt að fara verulega yfir viðmiðunarnýtingarhlutfall aðalskipulags á einstökum svæðum.

Sú fullyrðing kærenda, að frá fyrsta deiliskipulagi svæðisins, Skúlagötuskipulaginu, hafi verið gert ráð fyrir að hús væru ekki hærri en 12 hæðir, sé ekki rétt. Umræða um þetta hafi þó ekki þýðingu þar sem sveitarstjórn sé heimilt að breyta deiliskipulagi svæðisins eins og gert hafi verið.  Það sé ekki rétt að íbúar eigi skýlausan rétt á því að skipulagi sé ekki breytt.  Reykjavíkurborg hafni því einnig alfarið að grenndarréttarleg sjónarmið geti leitt til ógildingar skipulagsins á þessum forsendum enda hafi hæð húsanna óveruleg áhrif á hagsmuni kærenda eins og háttað sé innbyrðis afstöðu húsa á svæðinu.  Varðandi umfjöllun um salarhæð húsanna vísist til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 8. apríl 2002.

Andmæli lóðarhafa:  Af hálfu 101 Skuggahverfis hf., sem er eigandi allra lóða á deiliskipulagssvæðinu, er áréttað að fyrirliggjandi deiliskipulag af svæðinu sé í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Öll málsmeðferð hjá borgaryfirvöldum hafi verið vönduð og í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Fyrir liggi greinargerð Reykjavíkurborgar um ofangreint efni og sé hún ítarleg og vel rökstudd.  Efni hennar sé skilmerkilega aðgreint í form og efni og þykir félaginu sem flestum sjónarmiðum kærenda hafi verið svarað með fullnægjandi hætti.

Því sé þó við að bæta að félagið vilji mótmæla harðlega öllum kröfum um að beitt verði úrræðum um frestun hvers kyns framkvæmda.  Afar brýnt sé að unnt verði að hefja þegar framkvæmdir, að fengnu leyfi, enda gríðarlegir hagsmunir tengdir því að framkvæmdir gangi hratt fyrir sig, þar sem þegar liggi mikið fjármagn bundið í uppkaupum á landi og húsum og skipulags- og hönnunarvinnu.  Að mati félagsins séu engir hagsmunir þannig vaxnir í málinu að fresta verði upphafsaðgerðum framkvæmda.  Hagsmunir félagsins af því að hefja byggingarframkvæmdir séu miklu mun meiri en hagsmunir kærenda.  Kærur í málinu hafi borist nefndinni í maí 2002 og hafi meðferð þeirra dregist síðan, m.a. vegna þess að beðið hafi verið greinargerðar Reykjavíkurborgar.  Við lestur greinargerðar borgaryfirvalda virðist sem málið sé að fullu upplýst um sjónarmið aðila og staðreyndir máls.  Séu því skilyrði uppfyllt til að fella úrskurð í málinu að mati 101 Skuggahverfis hf.  Sé þess því sérstaklega óskað að málinu verði hraðað.

Frekari gagnaöflun:  Í greinargerð Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. janúar 2003, var þess sérstaklega óskað að Reykjavíkurborg yrði gefinn kostur á að tjá sig um málsástæður sem kynnu að koma til skoðunar hjá nefndinni þótt þær hefðu ekki verið hafðar upp af hálfu kærenda og því ekki þegar komið til umfjöllunar.  Af þessu tilefni var borgaryfirvöldum tilkynnt að úrskurðarnefndin myndi, auk þeirra atriða sem málsaðilar hefðu reifað, m.a. taka til athugunar hvort ekki hafi verið þörf á því að taka fram í auglýsingu um hið umdeilda deiliskipulag að það yrði sett með stoð í nýju aðalskipulagi, sem jafnframt væri til kynningar.  Jafnframt væri til skoðunar hvort borgarráð hafi getað samþykkt deiliskipulag á grundvelli hins nýja aðalskipulags áður en aðalskipulagið hefði verið samþykkt í borgarstjórn eða hvort talið yrði að deiliskipulagið ætti sér stoð í eldra aðalskipulagi og loks hvort fullnægjandi teldist að í svörum við athugasemdum, dags. 8. apríl 2002, hafi verið vísað til nýs Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 án þess að fram kæmi að um væri að ræða tillögu að aðalskipulagi, sem ekki hefði verið samþykkt og að ekki hafi verið vikið að því í svörunum hvað sérstaklega segði um hið umdeilda svæði í aðalskipulagstillögunni.  Jafnframt voru sömu álitaefni kynnt lóðarhafa og forsvarsmönnum kærenda. 

Úrskurðarnefndin tók fram að það væri ávallt matsatriði að hvað marki nefndin ætti að gera aðilum grein fyrir þeim atriðum sem hún tæki af sjálfsdáðum til athugunar varðandi lögmæti kærðrar ákvörðunar eða túlkun laga og annarra réttarheimilda.

Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila og hafi kynning deiliskipulagstillögunnar verið ítarleg.  Frá upphafi hafi legið fyrir að breyta þyrfti Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 vegna tillögunnar þar sem hluti svæðisins hafi verið verslunar- og þjónustusvæði samkvæmt aðalskipulagi.  Hafi m.a. verið gerð grein fyrir þessu á kynningarfundum.  Engar athugasemdir hafi komið frá hagsmunaaðilum varðandi þá breytingu.  Þegar skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkti að auglýsa deiliskipulagstillöguna til kynningar hafi verið búið að afgreiða til borgarstjórnar tillögu að nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík, Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024.  Ekki hafi því þótt ástæða til að auglýsa sérstaklega breytingu á eldra aðalskipulagi varðandi umræddan reit þar sem gert hafi verið ráð fyrir breytingu á landnotkun svæðisins í íbúðarsvæði í tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Tillögurnar hafi hins vegar verið auglýstar samhliða með heimild í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tillaga að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur hafi verið auglýst til kynningar frá 23. janúar 2002 með athugasemdafresti til 6. mars 2002, en deiliskipulagstillagan viku síðar eða frá 30. janúar 2002 með athugasemdafresti til 13. mars s.á.

Ekki hafi verið talin ástæða til þess að taka sérstaklega fram í auglýsingu um deiliskipulagið að gert væri ráð fyrir að það yrði sett með stoð í hinu nýja aðalskipulagi enda aðalskipulagstillagan auglýst og kynnt lögum samkvæmt og í raun mun ítarlegar.  Bæði aðalskipulagstillagan og deiliskipulagstillagan hafi því hlotið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og því verði að gera ráð fyrir að hagsmunaaðilar hafi séð auglýsingu aðalskipulagsins eins og auglýsinguna um kynningu deiliskipulagsins og því haft tækifæri til þess að gera athugasemd við breytinguna, teldu þeir þess þörf.  Það hafi þeir hins vegar ekki gert enda hafði ekki komið fram nein andstaða af hálfu hagsmunaaðila við landnotkunarbreytinguna.  Tillögurnar hafi verið til kynningar í sama sal og hafi aðalskipulagstillagan þar verið mjög fyrirferðarmikil og því ekki getað farið fram hjá neinum sem þangað hafi komið.

Í auglýsingu um deiliskipulagið komi hins vegar glögglega fram að verið sé að breyta landnotkun á svæðinu, enda sé þar fallið frá heimild til byggingar hótels á reitnum en þess í stað heimilað að byggja þar fjölbýlishús.  Í deiliskipulaginu sjálfu komi þetta einnig skýrt fram.  Jafnvel þótt úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að æskilegt hefði verið að gera grein fyrir þessu í auglýsingu um deiliskipulagstillöguna þá væri það ekki svo verulegur ágalli á meðferð málsins að leitt gæti til ógildingar, enda hvergi kveðið á um að þegar svo hátti til skuli geta þess sérstaklega í auglýsingu eða að tillögurnar skuli birtar í sömu auglýsingu.

Við mat á því verði einnig að hafa í huga að athugasemdaaðilar hafi ekki gert athugasemdir við kynningu málsins hvað þetta atriði varði auk þess sem ekki sé byggt á málsástæðu þessari í fyrirliggjandi kærum eða fjallað um landnotkun yfir höfuð.  Bendi það til þess að þeir hafi einmitt gert sér grein fyrir þessu, enda hefði mátt ætla að ella hefðu þeir byggt á því að tillagan væri ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 hvað landnotkun varðaði.  Ekki verði heldur séð hvaða þýðingu þetta hafi fyrir hagsmuni kærenda sem fyrst og fremst geri athugasemdir við byggðina næst sér en hún sé á íbúðarsvæði samkvæmt gamla aðalskipulaginu og því fyllilega í samræmi við það.

Af hálfu borgaryfirvalda er því vísað á bug að ágallar kunni að hafa verið á afgreiðslu þeirra á umræddum skipulagstillögum.  Hið kærða deiliskipulag hafi verið afgreitt á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 10. apríl 2002.  Fyrsta mál á sama fundi hafi verið tillaga að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Bæði málin hafi verið send borgarráði Reykjavíkur til afgreiðslu og tekin fyrir á sama fundi ráðsins þann 16. apríl 2002.  Hafi afgreiðsla nefndarinnar á deiliskipulaginu verið samþykkt með vísan til heimildar í 4. mgr. 51. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001.  Samkvæmt þeirri grein sé borgarráði heimilt að afgreiða mál sem ekki varði verulega hagsmuni borgarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur um þau í ráðinu.  Hins vegar hafi verið talið að borgarráð gæti ekki afgreitt nýtt aðalskipulag á grundvelli þessarar heimildar.  Aðalskipulagstillögunni hafi því verið vísað til afgreiðslu borgarstjórnar Reykjavíkur sem hafi samþykkt hana á fundi sínum þann 18. apríl 2002.  Á þeim fundi hafi einnig verið til umfjöllunnar fundargerð borgarráðs frá fundi þess 16. apríl.  Borgarstjórn hefði því, sem æðra stjórnvald, getað tekið afgreiðslu borgarráðs á deiliskipulagi Skuggahverfis til umfjöllunnar og endurskoðunar á fundinum.  Því verður að líta svo á að endanleg niðurstaða um deiliskipulag Skuggahverfis hafi ekki legið fyrir fyrr en að loknum fundi borgarstjórnar þann 18. apríl 2002 og að tillögurnar hafi því í raun verið afgreiddar á sama tíma.

Reykjavíkurborg telji að afgreiðsla málsins með þessum hætti sé í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. breytingu sem gerð hafi verið á lögunum með 5. gr. laga nr. 170/2000, jafnvel þótt litið væri svo á að tveggja daga munur hefði verið á afgreiðslu tillagnanna.  Með 5. gr. laga nr. 170/2000 um breytingu á skipulags- og byggingarlögum hafi ætlun löggjafans augljóslega verið sú að heimila slíka málsmeðferð.  Í lok greinargerðar með breytingunni segi m.a. : „Eftir sem áður verði þó óheimilt að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en auglýst hefur verið í Stjórnartíðindum gildistaka samsvarandi breytingar á aðalskipulagi.“  Þessa setningu í greinargerðinni telji Reykjavíkurborg sýna með skýrum hætti að löggjafinn hafi beinlínis gert ráð fyrir því að tillögurnar væru ekki nauðsynlega afgreiddar á nákvæmlega sama tíma, enda væri hún óþörf ella.

Eins og að framan greini hafi það alltaf verið ætlun borgaryfirvalda að hið kærða deiliskipulag byggði á hinu nýja aðalskipulagi, enda hafi deiliskipulagstillagan ekki verið í samræmi við eldra aðalskipulag hvað varði landnotkun á hluta svæðisins.  Sá fyrirvari hafi því legið fyrir að skilyrði fyrir gildistöku deiliskipulagsins væri að áður hefði umhverfisráðherra staðfest aðalskipulagið og birt auglýsingu um gildistöku þess.  Næði aðalskipulagið ekki fram að ganga af einhverjum ástæðum væri deiliskipulagstillagan í uppnámi, a.m.k. hvað varðaði hluta svæðisins.  Í raun hafi þetta þótt svo sjálfsagt að ekki hafi verið talin ástæða fyrir skipulags- og byggingarnefnd eða borgarráð að bóka sérstaklega þar um.  Framangreind málsmeðferð hafi verið í samræmi við málsmeðferð sem tíðkuð hafi verið um langan tíma þegar samtímis hafi verið gerðar breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi.  Hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir við þessa málsmeðferð en undir hana hafi löggjafinn skotið frekari stoðum með 5. gr. laga nr. 170/2000 um breytingu á skipulags- og byggingarlögum.

Fallist er á að nákvæmara hefði verið að taka fram í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir vegna deiliskipulagsins að Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2014 hefði enn ekki verið samþykkt og staðfest.  Hins vegar verði að hafa í huga að kynningu þess hafi verið lokið og að gert hafi verið ráð fyrir að aðalskipulagið yrði afgreitt á sama fundi þegar umsögnin hafi verið unnin.  Ekki verður hins vegar séð að þetta hafi getað villt um fyrir athugasemdaaðilum en það hljóti að vera það sem skipti máli.  Öðru máli gegndi ef þetta hefði leitt til þess að þeir hefðu misst af kærurétti vegna þessa.  Það skuli ítrekað að kærendur hafi hvorki byggt athugasemdir sínar við tillöguna né kærur á málsástæðum er varði landnotkun.  Þá sé ítrekað að skýrt hafi komið fram í deiliskipulagstillögunni sjálfri að verið væri að breyta landnotkuninni úr lóð fyrir hótel í íbúðarsvæði.  Reykjavíkurborg telji framangreint fráleitt ógildingarástæðu enda verði ekki séð hverju það hefði breytt fyrir framhald málsins þótt tekið hefði verið fram að hið nýja aðalskipulag ætti eftir að hljóta samþykki og staðfestingu.  Þrátt fyrir að það hafi ekki verið gert hafi kærendum verið í lófa lagið að kynna sér hið „nýja aðalskipulag“ og staðreyna að tillagan væri í samræmi við það.

Rétt sé að ekki hafi verið vikið nákvæmlega að því í umsögn skipulagsfulltrúa hvað segi um hið umdeilda svæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Hins vegar sé gerð grein fyrir því að tillagan sé í samræmi við þá stefnumörkun sem þar komi fram.  Það sé ávallt matsatriði hve langt eigi að ganga í slíkum umsögnum.  Í því tilviki sem hér um ræði telji Reykjavíkurborg að umsögnin hafi verið fullnægjandi m.t.t. þeirra athugasemda og málsástæðna sem fram hafi komið  Með afgreiðslu sinni á tillögunni hafi Skipulagsstofnun einnig fallist á að svo hafi verið.

Fari svo að úrskurðarnefndin telji ákvörðun borgaryfirvalda ólögmæta og að fella beri skipulagið úr gildi telji Reykjavíkurborg að slík niðurstaða geti með engu móti átt við um skipulagið í heild.  Reitirnir vestan Vatnsstígs, sem merktir séu nr. 1 og 2, auk lóðarinnar að Lindargötu 29 hafi verið skilgreindir sem íbúðarsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Deiliskipulagið hvað þessa reiti varði hafi því verið í fullu samræmi við það.  Fordæmi sé fyrir því að úrskurðarnefndin ógildi skipulagsákvörðun aðeins að hluta með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.  Reykjavíkurborg telji sömu sjónarmið eiga við í því máli sem hér sé til umfjöllunnar og krefjist þess að sá hluti deiliskipulagsins sem samræmst hafi eldra aðalskipulagi standi a.m.k. óraskaður.  Önnur niðurstaða væri ekki í samræmi við ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga og meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf.  Ekki þurfi að hafa um það mörg orð hve miklir hagsmunir séu í húfi fyrir eiganda þeirra lóða sem skipulagið taki til, enda hafi hann í hyggju að hefja framkvæmdir um leið og úrskurðað hafi verið í kærumáli þessu.  Hafi framkvæmdir þegar frestast vegna þess tíma sem kærumeðferðin hafi tekið.

Af hálfu lóðarhafa, sem er eigandi allra lóða á deiliskipulagssvæðinu og framkvæmdaaðili að fyrirhuguðum byggingum, er þess vænst að úrskurðað verði um efnisatriði málsins þannig að ágreiningsefni verði endanlega til lykta leidd.

Ítrekað sé að miklir fjárhagslegir hagsmunir séu bundnir því að framkvæmdir geti hafist nú þegar við byggingar á svæðinu.  Að mati lóðarhafa séu engir hagsmunir það ríkir í málinu að fresta eigi eða skilyrða leyfi til framkvæmda. 

Þau atriði sem nefnd séu í bréfi úrskurðarnefndarinnar snúi einungis að formi, en þessi formsatriði hafa á engan hátt skaðað hagsmuni kærenda.  Þá sé ekki byggt á eða vikið að þessum formsatriðum í kærunum.  Með fyrirliggjandi greinargerðum borgaryfirvalda séu málavextir og efnisatriði að fullu upplýst um sjónarmið aðila og staðreyndir máls.  Séu því skilyrði uppfyllt til að fella efnisúrskurð í málinu. 

Niðurstaða:  Af hálfu borgaryfirvalda er krafist frávísunar á kærum K, G og Þ, f.h. íbúa á Völundarlóð og kæru sjö íbúa að Skúlagötu 10.  Frávísunarkröfu sína styður Reykjavíkurborg þeim rökum að kærur þessar verði ekki skildar á annan hátt en að þess sé krafist að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála breyti deiliskipulaginu eins og nánar greini í kærum. 

Úrskurðarnefndin hafnar þessum sjónarmiðum og telur að skilja verði kröfur þessara kærenda á þann veg að þeir vilji ekki una hinni kærðu ákvörðun og leitist með kærum sínum eftir því að fá henni hnekkt.  Bar úrskurðarnefndinni, með hliðsjón af 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að leiðbeina kærendum ef talið hefði verið að málatilbúnaði þeirra hefði verið áfátt að þessu leyti.  Hefur úrskurðarnefndin lagt þann skilning í kröfugerð framangreindra kærenda að í henni fælist krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og verða kæru þeirra teknar til efnisúrlausnar á þeirri forsendu.  Verður frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar því hafnað að því er varðar framangreindar kærur.

Á hitt verður hins vegar fallist að úrskurðarnefndin sé ekki til þess bær að breyta hinni kærðu ákvörðun efnislega.  Verður því ekki fjallað um þær kröfur kærenda sem fela það í sér að nefndin breyti hinu umdeilda deiliskipulagi.  Af sömu ástæðu ber að fallast á kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun varakröfu Kristjáns Stefánssonar hrl., f.h. eigenda íbúðar að Skúlagötu 10, enda felst í henni krafa um að úrskurðarnefndin breyti hinni kærðu ákvörðun.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar borgaryfirvalda um breytingu á deiliskipulagi afmarkaðs svæðis í Skuggahverfi, svo sem þegar hefur verið rakið.  Hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum tekið til athugunar hvort lögformlega hafi verið rétt staðið að gerð og undirbúningi þessarar ákvörðunar.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fer að meginstefnu um breytingar á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða.  Tillögu að breytingu á deiliskipulagi ber því að auglýsa til kynningar í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 73/1997 en jafnframt skal við undirbúning slíkrar tillögu gæta ákvæða 9. gr. laganna um samráð við hagmunaaðila og önnur atriði er þar greinir.  Deiliskipulag skal, skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997, gera á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 23. gr., sem bætt var inn í greinina með ákvæði 5. gr. laga nr. 170/2000 um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, getur sveitarstjórn þó auglýst tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.

Með hinu nýja ákvæði var fallið frá því skilyrði að tillaga að deiliskipulagi þyrfti að vera í samræmi við gildandi aðalskipulag, enda væri samhliða auglýst tillaga að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Var ákvæði þetta sett í því skyni að stytta þann tíma sem það tæki að afgreiða tillögu að deiliskipulagi sem ekki yrði sett nema jafnframt væri gerð breyting á aðalskipulagi.  Var ákvæðinu ætlað að gera skipulagsyfirvöldum kleift að nýta sama tíma til kynningar á deiliskipulagstillögu og tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi og stytta þannig afgreiðslutíma málsins.  Verður að telja, með hliðsjón af 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997, að heimilt sé að neyta þessarar heimildar við meðferð tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem farið er með eftir tilvitnuðu ákvæði.

Í máli því sem hér er til meðferðar voru aðstæður þær að tillaga að hinu umdeilda deiliskipulagi var auglýst til kynningar hinn 30. janúar 2002.  Í tillögunni fólst m.a. að landnotkun á hluta skipulagssvæðisins yrði breytt frá því sem kveðið var á um í eldra deiliskipulagi og þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Skömmu áður, eða hinn 23. janúar 2002, hafði verið auglýst til kynningar tillaga að nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem eðli máls samkvæmt hafði að geyma fjölmargar tillögur um breytingar af ýmsu tagi.  Voru þar á meðal tillögur um breytta landnotkun umrædds svæðis og um þéttingu byggðar á svonefndum Eimskipsreit í Skuggahverfi, sem er það svæði sem hið umdeilda deiliskipulag tekur til.  Virðist það hafa verið ætlan borgaryfirvalda að nýta með þessum hætti áðurgreinda heimild til þess að auglýsa samtímis til kynningar deiliskipulagstillögu og samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Þess var þó ekki getið í auglýsingu deilskipulagstillögunnar að henni tengdist breyting á aðalskipulagi sem fælist í tillögu að nýju aðalskipulagi sem auglýst hefði verið.

Úrskurðarnefndin telur að skort hafi á að fullnægt væri því skilyrði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 að samhliða auglýsingu tillögunnar að hinu umdeilda deiliskipulagi væri auglýst tillaga að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Auglýsingar um þessar tillögur voru ekki birtar samhliða eða á sama tíma og ekki var vakin athygli á þeirri aðalskipulagsbreytingu sem hér skiptir máli og fólgin var í heildartillögu að nýju aðalskipulagi sem fól í sér ótaldar aðrar breytingartillögur, stórar og smáar.  Verður að gera þá kröfu til stjórnsýslunnar að athafnir hennar séu í senn skýrar og skiljanlegar þegar kynnt eru áform eða ákvarðanir sem skylt er að lögum að kynna almenningi.  Getur óljós framsetning skipulagsáforma jafnvel leitt til réttarspjalla fyrir hagsmunaaðila, t.d. á þann veg að þeim láist að gera athugasemdir við skipulagstillögu eða leita réttarúrræða svo sem málskots til æðra stjórnvalds.

Ef talið yrði að framsetning sú á umræddum skipulagstillögum, sem að framan er lýst, hefði fullnægt lagaskilyrðum hefðu tillögurnar þurft að hljóta lögmæta afgreiðslu borgaryfirvalda.  Aðalskipulagstillagan og tillagan að hinu umdeilda deiliskipulagi voru báðar samþykktar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. apríl 2002.  Deiliskipulagstillagan var að því búnu samþykkt í borgarráði hinn 16. apríl 2002 en aðalskipulagstillagan hlaut samþykkt borgarstjórnar hinn 18. apríl 2002.  Það liggur því fyrir að hin umdeilda deiliskipulagstillaga hlaut samþykki sveitarstjórnar í skilningi 25. gr. laga nr. 73/1997 áður en nýtt aðalskipulag, sem vera átti grundvöllur deiliskipulagsákvörðunarinnar, hlaut samþykki sveitarstjórnar.  Áttu borgaryfirvöld þá eftir að afla lögbundinnar staðfestingar ráðherra á hinu nýja aðalskipulagi og auglýsa það áður en það gat orðið grundvöllur ákvörðunar um samþykkt deiliskipulags.  Fellst úrskurðarnefndin ekki á þá túlkun borgaryfirvalda að nægt hafi að bíða með auglýsingu deiliskipulagsákvörðunarinnar þar til nýtt aðalskipulag hefði tekið gildi.  Telur úrskurðarnefndin að heimildin í 2. mgr. 23. gr. l. nr. 73/1997 verði ekki skýrð svo rúmt að með ákvæðinu hafi verið vikið frá því skilyrði að deiliskipulag þyrfti að vera í samræmi við aðalskipulag þegar til samþykktar þess kæmi, heldur hafi einungis verið ætlan löggjafans að heimila að undirbúningur ákvarðana um deiliskipulag og samsvarandi breytingu aðalskipulags gæti átt sér stað á sama tíma.  Verða engar víðtækar ályktanir dregnar af þeim ummælum í greinagerð með frumvarpi til umrædds lagaákvæðis, að óheimilt verði eftir sem áður að auglýsa gildistöku deiliskipulags fyrr en auglýst hafi verið gildistaka samsvarandi breytingar á aðalskipulagi, enda verður að ætla að löggjafinn hafi lagt til grundvallar að ákvarðanir þær sem koma eigi til auglýsingar hafi verið teknar með lögformlegum hætti.  Hafi svo ekki verið verður ekki úr því bætt með auglýsingu, enda er auglýsing sem slík ekki stjórnvaldsákvörðun heldur er hún birtingarmáti slíkra ákvarðana.

Loks var sá ágalli á meðferð hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar að vitnað var til nýs aðalskipulags í umsögn um athugasemdir þegar þeim var svarað án þess að fram kæmi að aðalskipulagstillagan hefði þá ekki hlotið samþykki eða öðlast gildi.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin umdeilda skipulagsákvörðun hafi ekki verið samþykkt með stoð í nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Verður hin umdeilda ákvörðunin því felld úr gildi að minnsta kosti að því marki sem gildistaka hins nýja aðalskipulags var nauðsynleg forsenda hennar.  Á það augljóslega við um þann hluta svæðisins þar sem breyta þurfti landnotkun í aðalskipulagi, þ.e. svæðið sem afmarkast af Vatnsstíg, Skúlagötu, Frakkastíg og Lindargötu.  Er þetta jafnframt sá hluti deiliskipulagssvæðisins þar sem nýtingarhlutfall er hæst.

Þegar hin umdeilda ákvörðun var samþykkt var enn í gildi Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016.  Samkvæmt því var sá hluti deiliskipulagssvæðisins sem er vestan Vatnsstígs skilgreint íbúðarsvæði.  Gat breytt deiliskipulag að svæðinu vestan Vatnsstígs samkvæmt hinni kærðu ákvörðun því samræmst þágildandi aðalskipulagi, a.m.k. hvað landnotkun varðar.  Tillagan var auglýst án vísunar til nýs aðalskipulags og þykir, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, mega fallast á að taka til úrlausnar hvort staðfesta megi hina kærðu ákvörðun að hluta, þ.e. fyrir svæðið vestan Vatnstígs, eins og krafist er af hálfu Reykjavíkurborgar í framhaldsgreinargerð í málinu, en unnt er að afmarka með nægilega skýrum hætti hvaða hluta hinnar kærðu ákvörðunar kemur til álita að staðfesta.

Deiliskipulag fyrir þann hluta svæðisins sem er vestan Vatnsstígs, þ.e. reiti 1 og 2 og lóðina nr. 29 við Lindargötu, samræmist, svo sem þegar var getið, skilmálum Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um landnotkun.  Nýtingarhlutfall þessara reita er 2,17 og 2,10 fyrir reiti 1 og 2 og 2,73 fyrir lóðina að Lindargötu 29.  Rúmast þessi gildi innan heimilda Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um nýtingarhlutfall og samræmast raunar einnig ágætlega upphaflegum áformum deiliskipulagsins frá 1986 þar sem nýtingarhlutfall á umræddu svæði mátti nema allt að 2,5 að bílgeymslum meðtöldum.  Þá fellur nýtingarhlutfall umræddra reita og lóðar vel að nýtingarhlutfalli aðliggjandi lóðar til vesturs við Klapparstíg og Skúlagötu þar sem raunnýting lóðar er 2,6.  Fullnægir hið umdeilda deiliskipulag því lagaskilyrðum um samræmi við aðalskipulag að því er varðar umrætt svæði vestan Vatnsstígs.

Kemur þá til skoðunar hvort aðrar ástæður standi í vegi fyrir því að hið umdeilda deiliskipulag verði staðfest fyrir ofangreindan hluta skipulagssvæðisins, svo sem hvort réttur kærenda standi til þess að geta búið við óbreytt skipulag eða hvort reglur grenndaréttarins standi í vegi fyrir staðfestingu umrædds hluta deiliskipulagsins.

Eins og að framan er rakið var deiliskipulag staðfest þegar árið 1986 fyrir allt svæðið milli Hverfisgötu og Sætúns, (nú Sæbrautar), vestan frá Ingólfsstræti allt austur að Snorrabraut.  Á þessu stóra svæði var fyrir töluverð byggð og einsýnt að uppbygging þess í samræmi við deiliskipulagið kæmi til með að taka langan tíma.  Í greinargerð skipulagsins kom fram að gera þyrfi frekari grein fyrir einstökum þáttum, svo sem húsgerðum, formum o.fl. og var gert ráð fyrir áframhaldandi vinnu við skipulagið.  Bar greinargerðin þannig með sér að skipulagið væri ekki endanlegt í öllum atriðum.

Með hliðsjón af þessari framsetningu, og því hversu langan tíma mátti búast við að uppbygging svæðisins tæki, telur úrskurðarnefndin að íbúar svæðisins og aðrir hagsmunaaðilar hafi ekki mátt vænta þess að ekki gæti komið til breytinga á skipulaginu eða endurskoðunar þess við nánari útfærslu og ákvarðanir um uppbyggingu einstakra reita innan svæðisins.  Hefur raunin og orðið sú að skipulagið hefur verið tekið til endurskoðunar í tilefni af áformum um uppbyggingu einstakra reita, eins og framan er lýst.  Verður því að fallast á með borgaryfirvöldum að réttur hagsmunaaðila hafi ekki átt að standa í vegi fyrir því að breytingar yrðu gerðar á skipulaginu, þótt almennt gildi að íbúar eigi að geta treyst því að deiliskipulag feli í sér endanlega ákvörðun um byggingarmál skipulagssvæðis, sem ekki verði breytt nema ríkar málefnalegar ástæður standi til þess.  Verður því ekki, eins og hér stendur á, fallist á þau sjónarmið kærenda að þeir hafi mátt treysta því að ekki yrði vikið frá því nýtingarhlutfalli eða áformum um hæð og gerð húsa sem fram voru sett í deiliskipulagi svæðisins 1986.  Er nýtingarhlutfall á mestum hluta svæðisins vestan Vatnsstígs, þ.e. reitum 1 og 2, raunar lægra en heimilað var samkvæmt upphaflegu skipulagi sem heimilaði nýtingarhlutfall allt að 2,5 á umræddu svæði.  Stangast fullyrðing í umsögn skipulagsfulltrúa frá 8. apríl 2002 um að nýtingarhlutfall þessa svæðis hafi verið 2,0 á við töflu um nýtingarhlutfall sem er hluti greinargerðar skipulagsins frá 1986 sem úrskurðarnefndin telur eiga við í málinu.  Þá telur úrskurðarnefndin að staðhæfing í kæru íbúa á Völunarlóð um að nýtingarhlutfall hafi verið talið hækka úr 1,7 í 2,5 eigi ekki við rök að styðjast þar sem þar sé vísað til tölugilda sem ekki séu samanburðarhæf, annar vegar nýtingarhlutfalls lóðar og hins vegar reitanýtingar þar sem auð svæði hafi áhif til lækkunar.

Ekki verður fallist á að hið umdeilda skipulag fyrir svæðið vestan Vatnsstígs hafi í för með sér svo aukið skuggavarp eða skerðingu á birtu og útsýni frá því sem ráðið var í eldra skipulagi að leiða eigi til ógildingar skipulagsins hvað umrætt svæði varðar.  Byggingar, sem í eldra skipulagi voru staðsettar við lóðamörk skammt sunnan við suðausturhorn Skúlagötu 10, eru færðar fjær því húsi og dregur sú breyting verulega úr skuggavarpi úr suðri.  Það hús sem hæst er á umræddu svæði er fjærst Skúlagötu 10 og stenst á við gafl þess húss.  Verður ekki séð að grenndaráhrif þess verði umtalsvert meiri fyrir kærendur en verið hefði þótt húsið hefði verið 2-3 hæðum lægra en áformað er.

Hvað varðar nálægð við bensínstöð vísast til ákvæðis 157. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem byggingaryfirvöldum ber að gæta við hönnun mannvirkja nærri bensínstöðinni, en ekki verður séð að hið umdeilda skipulag fari út af fyrir sig í bága við settar öryggisreglur um brunavarnir.

Af hálfu eigenda íbúðar að Skúlagötu 10 eru gerðar athugasemdir við það að lóðamörk séu ráðin fast við austurgafl þess húss.  Lóðamörkin voru með þessum hætti í því skipulagi sem áður gilti á svæðinu og felst ekki í hinni kærðu ákvörðun breyting á þeim við umrætt hús.  Hefur lega lóðamarkanna því enga þýðingu um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Aðrar ástæður, svo sem að vikið hafi verið frá fyrstu tillögum við skipulagsgerðina, þykja ekki heldur eiga að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar, enda verða skipulagsyfirvöld ekki talin bundin af tillögum sem kunna að hafa verið kynntar á undibúningsstigi skipulagsgerðar.

Með hliðsjón af framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu skiplagsákvörðun að því er tekur til svæðisins vestan Vatnsstígs, reita 1 og 2 og lóðarinnar að Lindargötu 29.  Að öðru leyti verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.  Til þess verður hins vegar að líta að hið umdeilda deiliskipulag hlaut ekki lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar fyrr en 21. október 2002 og að auglýsing um gildistöku þess var fyrst birt hinn 15. janúar 2003.

Úrskurðarorð:

Varakröfu eigenda íbúðar að Skúlagötu 10 og kröfum annarra kærenda um að úrskurðarnefnin breyti hinni kærðu ákvörðun er vísað frá úrskurðarnefndinni.  Fellt er úr gildi hið kærða deiliskipulag að því er tekur til svæðis sem afmarkast af Skúlagötu, Frakkastíg, Lindargötu og Vatnsstíg.  Að öðru leyti skal hin kærða ákvörðun standa óröskuð.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                        Óðinn Elísson

22/2001 Túngata

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl, varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2001, kæra íbúðareiganda að Marargötu 7, Reykjavík, á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. maí 2001, að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu fjögurra rýma til útleigu í húsinu að Túngötu 34 í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. maí 2001, er barst nefndinni hinn 18. maí sama ár, kærir M, eigandi íbúðar að Marargötu 7, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. maí 2001 að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu fjögurra rýma til útleigu í húsinu nr. 34 við Túngötu í Reykjavík.  Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á fundi hinn 7. júní 2001.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var krafist úrskurðar um stöðvun réttaráhrifa byggingarleyfisins en þeirri kröfu var ekki haldið til streitu.

Málavextir:  Fasteignin að Túngötu 34, Reykjavík er um 315 fermetrar að stærð, tvær hæðir og kjallari og stendur á íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt.  Í húsinu voru fyrir tvær íbúðir, önnur í kjallara hússins en hin á fyrstu og annarri hæð.  Landmark ehf. lagði inn byggingarleyfisumsókn, dags. 6. janúar 2001, um breytingar á innra skipulagi hússins.  Þinglýstir eigendur að fasteigninni voru þá greint einkahlutafélag og eigandi félagsins, D.  Fólust umbeðnar breytingar í því að innréttuð yrðu fjögur leigurými í húsinu, tvö í kjallara hússins, eitt á fyrstu hæð og eitt á annarri hæð.  Auk þess var gert ráð fyrir stúdíóíbúð á fyrstu hæð.

Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 13. febrúar 2001 og hún samþykkt.  Fundargerð afgreiðslufundarins var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 14. febrúar 2001 og staðfest í borgarstjórn hinn 1. mars 2001.  Með bréfi, dags. 3. maí 2001, skaut kærandi þessari ákvörðun byggingarfulltrúa til skipulags- og byggingarnefndar samkvæmt heimild í gr. 8.6 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Krafðist hann þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi og réttaráhrifum hennar þá þegar frestað og reifaði hann í bréfinu sjónarmið sín.

Skipulags- og byggingarnefnd tók erindi kæranda fyrir á fundi hinn 16. maí 2001.  Á fundinum var lögð fram umsögn skrifstofustjóra byggingarfulltrúa um málið, dags. 14. maí 2001, þar sem lagt var til að umrædd ákvörðun byggingarfulltrúa yrði staðfest með vísan til þess að í ákvörðuninni hafi ekki falist breyting á notkun fasteignarinnar að Túngötu 34, sem ætluð sé til íbúðar.  Jafnframt kom þar fram að byggingarleyfið hefði þá ekki öðlast gildi þar sem ekki væri skráður byggingarstjóri fyrir framkvæmdunum og séruppdráttum hefði ekki verið skilað til byggingarfulltrúa.  Af þessu tilefni var lagt til að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana af hálfu embættis byggingarfulltrúa.  Skipulags- og byggingarnefnd staðfesti umdeilda ákvörðun með vísan til greindrar umsagnar skrifstofustjóra byggingarfulltrúa og benti jafnframt á að orðalag í texta við afgreiðslu málsins, hvað heimagistingu varðaði, hafi verið óþarfi þar sem það sé ekki á valdsviði byggingarfulltrúa eða skipulags- og byggingarnefndar að samþykkja heimagistingu.

Kærandi var ósáttur við málalok og skaut umdeildri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að hann eigi fasteign er liggi að lóðinni að Túngötu 34 að hluta.  Hin kærða ákvörðun feli í sér innréttingu fjögurra gistirýma en af heimasíðu byggingarleyfishafa megi ráða að leigurými séu miklu fleiri.

Umdeild byggingarleyfisumsókn hafi ekki verið grenndarkynnt en fyrir liggi að fá bílastæði séu á svæðinu og ekki muni bæta úr skák ef heimila eigi gistiheimilisrekstur að Túngötu 34.  Þrátt fyrir þetta virðist ekki hafa verið leitað umsagnar skipulags- og umferðarnefndar við meðferð málsins og ekki kannað hvort umdeilt leyfi færi í bága við kvaðir sem hvíli á lóðum á svæðinu.  Vandséð sé að byggingarfulltrúi geti hafnað hugsanlegum öðrum sambærilegum umsóknum á svæðinu með hliðsjón af fordæmisgildi hinnar kærðu ákvörðunar ef hún stæði óhögguð. 

Samkvæmt d lið 8. gr. laga nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði sé gisting á einkaheimilum skilgreind sem gisting á heimili leigusala.  Kærandi vekur athygli á að Landmark ehf. hafi verið umsækjandi um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa en útilokað sé að skýra greint lagaákvæði svo að heimild til gistireksturs á einkaheimili nái til lögaðila.  Lögaðilar eigi ekki einkaheimili heldur starfsstöð eða heimilisfesti en lögheimili leyfishafa sé annað en að Túngötu 34.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld vísa til þess að íbúðarhúsið að Túngötu 34, Reykjavík sé á íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Í aðalskipulaginu sé skilgreind landnotkun á íbúðarsvæðum og í henni felist að þar megi vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi enda valdi hún nágrönnum ekki ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.  Byggingarleyfishafi hafi áður sótt um leyfi til byggingaryfirvalda til að breyta notkun hússins að Túngötu 34 í gistiheimili en þeirri umsókn hafi verið synjað, m.a. þar sem óæskilegt þótti að fjölga bílastæðum á umræddri lóð auk þess sem slíkur rekstur hefði að jafnaði í för með sér meiri umferð stórra bíla en ef um væri að ræða gistingu á heimili húsráðanda.

Með samþykkt byggingarfulltrúa frá 13. febrúar 2001 hafi aðeins verið veitt heimild til að breyta innréttingum hússins og m.a. íbúð á fyrstu og annarri hæð og íbúð í kjallara hússins verið sameinaðar í eina íbúð.  Það sé ekki á valdsviði byggingaryfirvalda að ákveða hvort íbúðareigandi leigi út einhverja hluta hennar eða einstök herbergi.  Í lögum um veitinga- og gististaði sé gert ráð fyrir því að lögreglustjóri veiti leyfi til sölu á gistingu að fenginni umsögn sveitarstjórnar og fleiri aðila.  Samkvæmt 8. gr. laganna skiptist gisting í fjóra flokka og sé einn þeirra gisting á einkaheimili, það er á heimili leigusala.  Þinglesnir eigendur fasteignarinnar að Túngötu 34 séu Landmark ehf. og Drífa Björk Þórarinsdóttir og hafi Drífa lögheimili á staðnum.

Hin kærða ákvörðun fari ekki í bága við gildandi skipulag svæðisins og breyti ekki skilgreindri notkun hússins að Túngötu 34.  Séu því ekki efni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Andmæli byggingaleyfishafa:  Lögmaður eigenda fasteignarinnar að Túngötu 34, bendir á að D, eigandi einkahlutafélagsins Landmarks ehf., hafi keypt fasteignina að Túngötu 34 í því skyni að reka þar gistiaðstöðu og skyldi reksturinn vera á hendi einkahlutafélagsins og heimilisfesti eigenda fasteignarinnar fyrirhuguð að Túngötu 34.

Ekki verði séð að umdeild ákvörðun eigi undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Kærandi byggi málskot sitt á túlkun laga um veitinga- og gististaði en leiði ekki rök að því að reksturinn muni raska hagsmunum hans eða rýra verðgildi fasteignar hans.  Flokkun gististaða í nefndum lögum sé fyrst og fremst gerð til að skilgreina hvers konar þjónustu megi búast við á viðkomandi stað en hafi ekkert með skipulags- og byggingarmál að gera. 

Eiganda húss sé heimilt að stofna félag um rekstur gistingar og hafi það engin áhrif á hvort um heimagistingu sé að ræða samkvæmt d lið 8. gr. laga um veitinga- og gististaði.  Máskot kæranda sé á misskilningi byggt og verði hún tekin til efnislegrar meðferðar blasi við að hin kærða ákvörðun verði ekki hnekkt á grundvelli túlkunar á d lið 8. gr. laga um veitinga- og gististaði.  Að öðru leyti er vísað til rökstuðnings Reykjavíkurborgar í málinu.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun veitti heimild til breytinga á innréttingu hússins að Túngötu 34 í Reykjavík er fól í sér gerð fjögurra rýma ætlaðra til útleigu auk íbúðar á fyrstu hæð.  Byggingarleyfið fól ekki í sér leyfi til rekstrar gistiaðstöðu í húsinu enda á slík leyfisveiting undir lögreglustjóra samkvæmt 3. gr. laga um veitinga- og gististaði nr. 67/1985.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 er heimilt að reka gistiaðstöðu á íbúðarsvæðum ef reksturinn veldur ekki nágrönnum ónæði m.a. vegna óeðlilega mikillar umferðar en fram er komið að svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt.  Umdeilt byggingarleyfi er því í samræmi við skilgreinda landnotkun svæðisins samkvæmt aðalskipulagi, þótt það heimili breytingar á umræddu húsi sem gefi kost á fjórum gistirýmum, en engar breytingar eru heimilaðar á ytra byrði húss eða skipulagi lóðar.

Á svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag er það meginregla, sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr.73/1997, að gera skuli deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 3. mgr. ákvæðisins er gerð sú undantekning að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir í þegar byggðum hverfum sem ekki hafa verið deiliskipulögð að undangenginni grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Hefur þetta ákvæði verið túlkað svo, til samræmis við 2. mgr. 26. gr. laganna, að aðeins megi heimila með þessum hætti óverulegar framkvæmdir eða breytingar, en ella þyrfti til að koma deiliskipulagning samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laganna.

Þótt byggingarleyfið verði ekki talið hafa verulega breytingu í för með sér gæti það snert hagsmuni kæranda þar sem heimilaðar breytingar samkvæmt því skapa möguleika á sölu gistingar eða útleigu fjögurra leigurýma í fasteigninni að Túngötu 34.   Slík nýting gæti valdið aukinni umferð frá því sem áður var og skapað bílastæðavandamál í nágrenni hússins. 

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er það álit úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun geti varðað hagsmuni nágranna fasteignarinnar að Túngötu 34 og bar því samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga að grenndarkynna umdeilda byggingarleyfisumsókn áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Af þessum sökum, og í ljósi þess að þessi annmarki kann að hafa komið í veg fyrir að andmæli og sjónarmið annarra nágranna kæmust að í málinu, verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. febrúar 2001, sem staðfest var af skipulags- og byggingarnefnd hinn 16. maí 2001, að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á innréttingu hússins að Túngötu 34, Reykjavík, er felld úr gildi.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson

65/2002 Stakkahlíð

Með

Ár 2003, föstudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2002, kæra íbúa að Bogahlíð 8 og 10 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. desember 2002, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 9. sama mánaðar, kæra S og A f.h. íbúa að Bogahlíð 8 og 10 í Reykjavík ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. nóvember 2002.  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Á vormánuðum 2001 kom fram ósk eiganda húseignarinnar að Stakkahlíð 17 um að aðalskipulagi Reykjavíkur yrði breytt þannig að lóð hússins, sem væri verslunarlóð samkvæmt skipulaginu, yrði breytt í íbúðarlóð og í framhaldi af breytingunni yrði heimilað að breyta verslunarhúsi því, sem á lóðinni væri, í íbúðarhús.  Borgaryfirvöld tóku jákvætt í erindið og var umbeðin breyting aðalskipulags undirbúin og samþykkt af borgaryfirvöldum í ágúst 2002.  Var skipulagsbreytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 11. október það ár.

Samhliða meðferð tillögu að framangreindri breytingu aðalskipulags var unnið að tillögum að endurbyggingu húss á lóðinni.  Var horfið frá því að breyta húsi því er fyrir var á lóðinni og þess í stað lagt til að það yrði rifið og nýtt hús reist í þess stað.  Voru tillögur þessar kynntar nágrönnum og um þær fjallað á fjölmörgum fundum byggingaryfirvalda og verður af málsgögnum ráðið að þær hafi verið í stöðugri endurskoðun allt þar til ákvörðun var tekin um að veita hið umdeilda byggingarleyfi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. október 2002.  Kærendur töldu að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hefði verið áfátt og að leyft hefði verið meira byggingarmagn á lóðinni en unnt væri að sætta sig við.  Skutu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 4. desember 2002, svo sem að framan greinir.

Með úrskurði, uppkveðnum 31. janúar 2003, stöðvaði úrskurðarnefndin framkvæmdir við niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 að kröfu íbúa að Bogahlíð 2, 4 og 6, sem einnig höfðu kært hina umdeildu ákvörðun.  Taldi úrskurðarnefndin slíka annmarka vera á hinni kærðu ákvörðun að líklegt væri að hún yrði ógilt.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. febrúar 2003 var framangreindur úrskurður um stöðvun framkvæmda lagður fram.  Jafnframt var á fundinum ákveðið að afturkalla hið umdeilda byggingarleyfi frá 16. október 2002 og veita að nýju leyfi fyrir sömu framkvæmdum á lóðinni.  Voru ákvarðanir þessar staðfestar á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 20. febrúar 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að grenndarkynningu sem fram hafi farið við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt.  Misræmi sé í gögnum og tilgreint nýtingarhlutfall  rangt.  Þá sé fyrirhuguð nýbygging of stór með hliðsjón af stærð lóðar.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er málatilbúnaði kærenda mótmælt og því haldið fram að við gerð og undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið gætt lagaskilyrða og að hin kærða ákvörðun sé í alla staði lögmæt.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt.  Telur hann hina kærðu ákvörðun í alla staði lögmæta og mótmælir því að á henni séu einhverjir hnökrar er ógildingu varði.  Málið hafi verið unnið og undirbúið í samráði við kærendur og hafi ítrekað verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra.  Að öðru leyti sé vísað til röksemda sem fram hafi komið af hálfu borgaryfirvalda í málinu.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki þurfa að gera nánari grein fyrir röksemdum aðila í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.  Einnig er til þess að líta að úrskurðarnefndin hefur, fyrr í dag, kveðið upp úrskurð í öðru kærumáli um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis og er í honum gerð ítarlegri grein fyrir álitaefnum málsins og sjónarmiðum aðila.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var hin kærða ákvörðun frá 16. október 2002 afturkölluð á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 5. febrúar 2003.  Var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 20. sama mánaðar.  Þar sem ákvörðun sú, sem kærð er í máli þessu, hefur verið afturkölluð af hálfu borgaryfirvalda hefur hún ekki lengur gildi að lögum og sætir því ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.  Ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson

10/2001 Lindir IV

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 10 og 12/2001, kærur íbúa að Fjallalind 16 og Geislalind 15, Kópavogi, á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. janúar 2001 um deiliskipulag fyrir Lindir IV, Kópavogi.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. og 20. mars 2001, kæra P, Fjallalind 16 og Í, Geislalind 15, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. janúar 2001 að staðfesta deiliskipulag fyrir Lindir IV, Kópavogi.  Gera kærendur þá kröfu að deiliskipulagið verði fellt úr gildi.

Greindar kærur, sem hafa fengið málanúmerin 10/2001 og 12/2001, lúta að sömu skipulagsákvörðun og gengur málatilbúnaður kærenda í sömu átt.  Verða málin því sameinuð fyrir úrskurðarnefndinni sem mál nr. 10/2001.

Málavextir:  Deiliskipulagssvæðið Lindir IV afmarkast af Reykjanesbraut í vestur og norður, Lindarvegi í austur og Fífuhvammsvegi í suður.  Í gildandi Aðalskipulagi Kópavogs 1992-2012, eftir breytingu frá árinu 1995, er gert ráð fyrir verslunar- þjónustu og stofnanasvæði auk svæðis til sérstakra nota á umræddum reit.  Svæðið er um 4,25 hektarar að stærð.

Tillaga að deiliskipulagi reitsins var lögð fram á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 23. maí 2000 og var í tillögunni gert ráð fyrir að byggt yrði verslunar- og þjónustuhúsnæði, að stofni til á tveimur hæðum, en með 12 hæða byggingu í suðvestur horni byggingarreits.  Áætlað byggingarmagn var um 25.000 fermetrar sem gæfi nýtingarhlutfall um 0,6.  Fjöldi bílastæða var áætlaður um 1.300, að stærstum hluta á tveimur hæðum, eða 1 stæði á hverja 20 fermetra húsnæðis.  Aðkoma að svæðinu skyldi vera frá Lindarvegi.  Skipulagsstjóra bæjarins var falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Tillagan var til kynningar frá 26. maí til 23. júní 2000 með athugasemdafresti til 7. júlí 2000 og komu fram mótmæli og athugasemdir frá yfir 600 íbúum Lindahverfis vegna tillögunnar.

Á fundi skipulagsnefndar 17. október 2000 var tillagan lögð fram að nýju ásamt þeim athugasemdum og ábendingum er borist höfðu.  Ennfremur var lögð fram umsögn bæjarskipulags og tæknideildar, dags. 2. október 2000, um framkomnar athugasemdir og ábendingar.  Skipulagsnefnd samþykkti framlagða tillögu með þeirri breytingu að fyrirhuguð 12 hæða bygging á svæðinu yrði 9 hæðir og sérstaklega áréttað að uppbygging fyrirhugaðrar verslunar- og þjónustumiðstöðvar í Lindum IV yrði að haldast í hendur við gatnaframkvæmdir á svæðinu sem tilgreindar voru í 10 liðum.  Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti þessa afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 24. október 2000.

Við lokafrágang deiliskipulagstillögunnar kom í ljós villa í áður birtri auglýsingu vegna hennar er varðaði lengd á fresti þeim sem tilskilinn er í 1. og 2. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tillagan var því auglýst að nýju til kynningar frá 11. nóvember til 13. desember 2000 með athugasemdafresti til 29. desember sama ár.  Athugasemdir bárust frá P, öðrum kærenda í máli þessu.  Bæjarstjórn samþykkti að nýju deiliskipulagstillöguna óbreytta á fundi hinn 23. janúar 2001 og samþykkti jafnframt framlagða umsögn Bæjarskipulags frá 11. janúar 2001 um athugasemdir og ábendingar er borist höfðu við seinni kynningu tillögunnar.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2001, tilkynnti Skipulagsstofnun að ekki væru gerðar athugasemdir við auglýsingu um gildistöku skipulagstillögunnar og birtist auglýsingin um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. febrúar 2000 í samræmi við 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þeim sem gert höfðu athugasemdir við kynningu deiliskipulagstillögunnar var tilkynnt um samþykkt hennar með bréfi, dags. 21. febrúar 2001.

Samþykkt deiliskipulagsins var síðan skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu kærenda eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja ógildingarkröfu sína á því að hin kærða deiliskipulagsákvörðun brjóti í ýmsu gegn skipulags- og byggingarlögum og skipulagsreglugerð.  Verslunarmiðstöð sú sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun raski verulega hagsmunum íbúa Lindarhverfis og með ákvörðuninni sé farið gegn vilja hundruða íbúa hverfisins.

Bent er á að fyrirhugaðri þjónustumiðstöð muni fylgja stóraukin umferð um svæðið með tilheyrandi mengun og hávaða en í nágrenni skipulagssvæðisins sé grunnskóli og leikskóli Lindarhverfis.  Gatnakerfið sé ekki byggt upp fyrir alla þá umferð sem hljótist af fyrirhugaðri verslunarmiðstöð.  Ekki sé getið í greinargerð með skipulagstillögunni um þróun umferðar og óljóst sé hvernig þau mál verði leyst af hálfu bæjaryfirvalda.  Fari framsetning deiliskipulagsins að þessu leyti í bága við gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. 

Kærendur telja að ekki hafi verið gætt ákvæða 23. gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð um bæjar- og húsakönnun við skipulagsgerðina, og tillagan hafi ekki verið nægjanlega kynnt og greinargerð með skipulagi skorti.  Umdeildur skipulagsreitur sé í gildandi aðalskipulagi ætlaður undir verslun, þjónustu, stofnanir og opin svæði til sérstakra nota en samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi eigi að leggja reitinn undir stóra verslunarmiðstöð.  Samkvæmt gr. 4.5 séu verslunar- og þjónustusvæði fyrst og fremst ætluð til að þjóna viðkomandi hverfi en ljóst sé að umrædd verslunarmiðstöð sé allt of stór til þeirra hluta og muni þjóna stærra svæði.  Umrætt svæði sé ekki skilgreint sem miðsvæði í aðalskipulagi.  Með umdeildu skipulagi sé verið að skipuleggja í þegar byggðu hverfi og verði því að gera glögga grein fyrir kvöðum og kröfum um útfærslu bygginga.  Ófullnægjandi sé í slíku skipulagi að segja að bygging skuli falla vel að umhverfi sínu.  Ekki sé í skipulaginu greint frá þakformi byggingar né hæð hennar í metrum.  Þá sé í skipulagstillögunni gert ráð fyrir opnum svæðum undir trjágróður án þess að af skipulagsuppdrætti verði séð hvar þau svæði skuli og geti verið.  Þá skorti í auglýsingu skipulagstillögunnar yfirlýsingu sveitarstjórnar um ábyrgð á tjóni sem einstaklingar kunni að verða fyrir við breytinguna, sbr. gr. 5.5 í skipulagsreglugerð.

Með hinni kærðu skipulagsákvörðun sé gengið gegn vilja mikils fjölda íbúa hverfisins sem hafi staðið í þeirri trú að á svæðinu ætti að rísa tveggja til þriggja hæða hús og lengi hafi verið ætlunin að reisa þar framhaldsskóla.  Ljóst sé að 9 hæða turn, sem heimilað sé að reisa með hinni kærðu ákvörðun, muni skerða útsýni og breyta ásýnd byggðarinnar til hins verra.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Bæjaryfirvöld halda því fram að ekki séu fyrir hendi forsendur til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.  Umdeilt deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og hafi fengið formlega rétta meðferð.  Vegna einstakra atriða í kærum taka bæjaryfirvöld eftirfarandi fram:

Ítarleg könnun hafi verið gerð á áhrifum deiliskipulagsins fyrir Lindir IV á umferð á svæðinu og við samþykkt tillögunnar hafi verið áréttað að uppbygging myndi haldast í hendur við fyrirhugaðar gatnagerðarframkvæmdir sem tilgreindar hafi verið í bókun skipulagsnefndar í 10 liðum.  Gera megi ráð fyrir um 17 þúsund bílum á sólarhring á föstudegi í gegnum snið í lóðamörkum verslunarmiðstöðvarinnar en aðra daga yrði um minni umferð að ræða.  Þessi umferðaraukning beindist aðallega á Lindarveg og Arnarnesveg.  Ekki verði annað séð en að gatnakerfið muni anna þessari umferð samkvæmt umferðarspá sem gerð hafi verið fyrir svæðið.  Í umferðarspánum sé gert ráð fyrir að Arnarnesvegur verði fjórar akreinar milli Lindarvegar og Hafnarfjarðarvegar.  Þá sé gert ráð fyrir því að Fífuhvammsvegur verði fjórar akreinar milli Dalsmára og Lindarvegar og að Smárahvammsvegur verði fjórar akreinar.  Bent er á að gert sé ráð fyrir að Lindarvegur framlengist til norðurs og tengist Álfabakka í Suður-Mjódd.  Ennfremur sé gert ráð fyrir þeim möguleika að breikka Fífuhvammsveg í fjórar akreinar austan Lindarvegar.  Þá sé í aðalskipulagi gert ráð fyrir vinstri beygju af Hafnarfjarðarvegi inn á Fífuhvammsveg, en sú tenging myndi létta á syðri akbraut Arnarnesvegar milli Hafnarfjarðarvegar og Fífuhvammsvegar.  Til álita komi að gera þessa tengingu áður en Arnarnesvegur verði tvöfaldaður.  Hafi því með fullnægjandi hætti verið hugað að umferð við skipulagsgerðina

Að öðru leyti hafi málsmeðferð verið í samræmi við lög og reglur.  Hið kærða skipulag sé fyrsta deiliskipulag umrædds reits, sem enn sé óbyggður, og því hafi ekki verið þörf á að vinna bæjar- og húsakönnun við skipulagsgerðina.  Deiliskipulagið hafi verið auglýst með fullnægjandi hætti og lagt fyrir bæjarstjórn 23. janúar 2001 þar sem afgreiðsla bæjarstjórnar frá 24. október 2000 hafi verið staðfest auk umsagnar bæjarskipulags frá 11. janúar 2001 um framkomnar athugasemdir við tillöguna.  Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í Stjórnartíðindum og tillagan síðan þar birt.  Greinargerð með umræddu deiliskipulagi sé á skipulagsuppdrætti og þar komi skýrt fram að hverju sé stefnt með tillögunni.  Deiliskipulagssvæðið sé í miðju höfuðborgarsvæðisins og hafi á síðustu árum verið að byggjast upp á svæðinu umhverfis eitt megin verslunar- og þjónustusvæði landsins.  Hið kærða deiliskipulag falli að hugmyndum um nýtingu svæðisins síðustu 15-20 árin.  Fyrirhugaðri verslunar- og þjónustumiðstöð sé ætlað að þjóna fleirum en íbúum Lindarhverfis og hafi verið haft mið af því við skipulagningu gatnakerfis svæðisins.  Á deiliskipulagsuppdrætti komi fram opin svæði en nánari lóðarhönnun fari fram samhliða hönnun bygginga.

Bæjaryfirvöld telja að þau hafi komið til móts við framkomnar athugasemdir íbúa við skipulagstillöguna með því að lækka fyrirhugaða turnbyggingu úr 12 hæðum í 9 hæðir og draga þannig úr skerðingu á útsýni og laga bygginguna betur að nærliggjandi byggð.  Umrætt skipulag ætti ekki að koma á óvart enda hafi á síðustu árum verið til umræðu hjá bæjaryfirvöldum að á svæðinu ætti að reisa húsnæði undir verslun og þjónustu á tveimur hæðum með turni.

Þá taka bæjaryfirvöld fram að í Aðalskipulagi Kópavogs 1992-2012 hafi á sínum tíma verið gert ráð fyrir um 8 hektara svæði á umræddum stað með blandaðri byggð með áætluðu nýtingarhlutfalli 0,5 og miðhverfi með áætluðu nýtingarhlutfalli 1,0.  Með breytingu á aðalskipulaginu á árinu 1995 haf verið fallið frá miðsvæðinu en eingöngu gert ráð fyrir blandaðri byggð á um 4,25 hektara svæði sem sé deiliskipulagssvæðið Lindir IV.  Fyrir breytinguna hafi verið gert ráð fyrir 60.000 fermetra byggingarmagni en með niðurfellingu miðhverfisins og hinu kærða deiliskipulagi sé sú fermetratala lækkuð í 25.000 fermetra sem komi til með að draga verulega úr umferð.  Nýtingarhlutfall deiliskipulagsins samræmist gildandi aðalskipulagi sem geri ráð fyrir nýtingarhlutfalli 0,7-1,0 á blönduðum athafnasvæðum miðsvæðis.  Tafla sem sett sé fram á aðalskipulagsuppdrætti með áætlaðri landnýtingu og byggingarmagni í fermetrum fyrir svæðið hafi aðeins það hlutverk að gefa vísbendingar um áætlaða byggða fermetra sem m.a. sé litið til við mat á umferðarálagi.

Úrskurðarnefndin leitaði álits Skipulagsstofnunar um hvert væri ákvarðað nýtingarhlutfall deiliskipulagssvæðis Linda IV eftir breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 1992-2012 sem gerð var á árinu 1995 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 12. september það ár.  Í umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 25. febrúar 2003, segir m.a. um álitaefnið:

„Skipulagsstofnun bendir á að byggingarmagn í fermetrum sem gert er ráð fyrir á deiliskipulagssvæði Linda IV getur að mati stofnunarinnar vel rúmast innan marka Aðalskipulags Kópavogs 1992-2012, sbr. sbr. breytingu sem staðfest var 12. september 1995, enda var þá stækkað það svæði blandaðrar landnotkunar, sem gert hafði verið ráð fyrir að bæri 20.000 m² byggingarmagn, þó í breytingunni væri ekki gerð grein fyrir því hversu mikið byggingarmagn mætti vera á svæðinu eftir stækkun.  Stofnunin telur hins vegar óheppilegt að í þeirri breytingu skyldi ekki vera fjallað um nýtingarhlutfall.  Skipulagsstofnun telur að nýtingarhlutfall það sem gert var ráð fyrir á blönduðum svæðum fyrir breytinguna, 0,5, gildi eftir breytingu aðalskipulags árið 1995 á hinu stækkaða svæði blandaðrar landnotkunar eftir að miðhverfi var fellt út.Þó verði einnig að hafa hliðsjón af viðmiðunartölum aðalskipulagsins varðandi athafnahverfi sem staðsett eru miðsvæðis eins og Smárahvamm, þar sem gert er ráð fyrir að nýtingarhlutfall geti orðið 0,7-1.”

Niðurstaða:  Hið kærða skipulag tekur til óbyggðs svæðis sem ekki hefur áður verið deiliskipulagt.  Aðrir hlutar hverfisins hafa byggst upp fyrr og verið deiliskipulagðir.  Kæra deiliskipulagsins er annars vegar byggð á því að málsmeðferð þess hafi ekki verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög og skipulagsreglugerð og hins vegar á því að deiliskipulagið raski hagsmunum íbúa hverfisins svo að ekki verði við unað.

Fyrir liggur að deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í tvígang og fullnægði seinni kynningin ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um lögboðinn frest til að skila inn athugasemdum.  Skýrlega er tekið fram í auglýsingunni að uppdrættir ásamt skýringarmyndum séu aðgengilegir almenningi í tilskilinn tíma hjá bæjarskipulagi Kópavogs.  Umræddur deiliskipulagsuppdráttur ber með sér að á skipulagssvæðinu eigi að rísa um 25.000 fermetra verslunar- og þjónustumiðstöð á tveimur hæðum með 9 hæða turni í suðvesturhorni byggingarinnar.  Skipulagsuppdrátturinn sýnir hæðarkóta byggingarinnar og umhverfis og ber því með sér hæð byggingarinnar, sem rís hæst um 26 metra yfir jörðu.  Þá lágu fyrir við kynninguna skýringarmyndir þar sem fyrirhugaður turn var felldur inn í ljósmynd af svæðinu.  Á skipulagsuppdrættinum er greinargerð skipulagsins skráð þar sem m.a. er gerð grein fyrir afmörkun svæðisins, forsendum og markmiðum skipulagsins, skipulagsskilmálum, nýtingarhlutfalli og útfærslu fyrirhugaðrar byggingar, bílastæða og aðkomu að svæðinu.  Þá er á uppdrættinum bókun bæjarstjórnar um samþykki skipulagstillögunnar þar sem gerð er grein fyrir að áætlaðar gatnaframkvæmdir eigi að fullnægja umferðarþörf svæðisins og haldast í hendur við uppbyggingu þess.

Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið var kynning, samþykkt og gildistaka hinnar kærðu skipulagstillögu í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 6. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, og framsetning skipulagsuppdráttar og greinargerðar nægjanlega skýr með hliðsjón af 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 5.4 í skipulagsreglugerð.  Þess ber að geta að ekki var þörf bæjar- og húsakönnunar við skipulagsgerðina þar sem deiliskipulagssvæðið er óbyggt.  Slík könnun á aðeins við ef svæði sem þegar hefur verið byggt er deiliskipulagt, sbr. 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Ennfremur var ekki þörf á ábyrgðaryfirlýsingu bæjaryfirvalda vegna hugsanlegs tjóns er kynni að hljótast af deiliskipulagsákvörðuninni, enda á slík yfirlýsing aðeins við þegar um er að ræða óverulega breytingu á skipulagsáætlunum, sbr. 4. mgr. gr. 5.5 í skipulagsreglugerð.

Í Aðalskipulagi Kópavogs 1992-2012 er landnotkun umdeilds deiliskipulagssvæðis ákveðin sem verslunar-, þjónustu, og stofnanasvæði ásamt opnu svæði til sérstakra nota, eftir breytingu á aðalskipulaginu á árinu 1995.  Samkvæmt þágildandi skipulagsreglugerð nr. 318/1985 voru verslunar- og þjónustusvæði ekki takmörkuð við verslun og þjónustu fyrir viðkomandi hverfi eins og ráða má af skilgreiningu á þeirri landnotkun í gr. 4.5 í núgildandi skipulagsreglugerð nr. 411/1998.  Hið kærða deiliskipulag er því í samræmi við ákvarðaða landnotkun aðalskipulags, á þeim tíma sem sú landnotkun var ákveðin, þótt heimiluð verslunar- og þjónustumiðstöð eigi bersýnilega að þjóna stærra svæði en Lindahverfi.  Þá verður það ekki talið andstætt aðalskipulagi þótt í deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir öllum landnýtingarmöguleikum aðalskipulags fyrir viðkomandi svæði, þar sem í 2. mgr. gr. 3.3.4 í skipulagsreglugerð er heimilað að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en gert er í aðalskipulagi.  Að þessu virtu verður ekki talið að hið kærða deiliskipulag fari í bága við ákvarðaða landnotkun gildandi aðalskipulags Kópavogs.

Á árinu 1995 var gerð breyting á aðalskipulaginu er snerti umrætt deiliskipulagssvæði.  Þar var fallið frá miðhverfi á skipulagssvæði austan Reykjanesbrautar en eftir stóð svæði það sem hið kærða deiliskipulag tekur til með blandaðri landnotkun og var það svæði stækkað úr 4 hekturum í 4,25 hektara.  Við breytinguna á aðalskipulaginu var ekki tekin afstaða til breytinga á nýtingarhlutfalli svæðisins.  Greinargerð gildandi aðalskipulags hefur að geyma töflu yfir áætlað nýtingarhlutfall og byggingarmagn á nýbyggingarsvæðum við setningu skipulagsins á árinu 1992.  Þar kemur fram að áætlað nýtingarhlutfall 4 hektara svæðis með blandaða notkun, sem umdeilt deiliskipulag tekur til, sé 0,5.  Í greinargerðinni kemur fram að taflan geymi fyrirliggjandi áætlanir um nýtingu einstakra nýbyggingarsvæða en upplýsingar um nýtingu einstakra reita í eldri hverfum bæjarins liggi ekki fyrir.   Jafnframt eru settar fram í töflu viðmiðunartölur um hámarksnýtingu athafnasvæða í bænum og er þar m.a. gert ráð fyrir nýtingarhlutfallinu 0,7-1,0 á blönduðum athafnasvæðum miðsvæðis.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að túlka verði gildandi aðalskipulag Kópavogs svo að á umdeildu skipulagssvæði sé heimilað nýtingarhlutfall 0,5 enda gangi sérákvæði aðalskipulagsins um nýtingu einstakra svæða framar almennum viðmiðunum þess um nýtingarhlutfall.  Ekki verður annað ráðið af framsetningu aðalskipulagsgreinargerðar en að framangreind tafla um nýtingarhlutfall á einstökum nýbyggingarsvæðum feli í sér áætlun bæjaryfirvalda um nýtingu og byggingarmagn viðkomandi svæða. 

Ákvarðað nýtingarhlutfall í hinu kærða deiliskipulagi er um 0,59 eða um 18% hærra en gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir.  Að þessu leyti er misræmi milli aðal- og deiliskipulags sem er andstætt 7. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Skipulagsáætlanir hafa m.a. það hlutverk að gefa borgurum til kynna hvers megi vænta um nýtingu og þéttleika byggðar, en hækkun nýtingarhlutfalls um 18% getur haft töluverða breytingu í för með sér hvað varðar stærð bygginga, umferð og ásýnd.  Staðfest aðalskipulag er bindandi fyrir stjórnvöld og borgara og skal deiliskipulag vera í samræmi við gildandi aðalskipulag samkvæmt gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu deiliskipulagsákvörðun úr gildi vegna greinds misræmis aðal- og deiliskipulags um nýtingarhlutfall fyrir umrætt svæði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. janúar 2001 að samþykkja deiliskipulag fyrir Lindir IV, Kópavogi er felld úr gildi.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson

64/2002 Stakkahlíð

Með

Ár 2003, föstudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2002, kæra íbúa að Bogahlíð 2, 4 og 6 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2002, kærir B, formaður húsfélagsins Bogahlíð 2, 4 og 6, f.h. íbúa hússins, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. nóvember 2002.  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Á vormánuðum 2001 kom fram ósk eiganda húseignarinnar að Stakkahlíð 17 um að aðalskipulagi Reykjavíkur yrði breytt þannig að lóð hússins, sem væri verslunarlóð samkvæmt skipulaginu, yrði breytt í íbúðarlóð og í framhaldi af breytingunni yrði heimilað að breyta verslunarhúsi því, sem á lóðinni væri, í íbúðarhús.  Borgaryfirvöld tóku jákvætt í erindið og var umbeðin breyting aðalskipulags undirbúin og samþykkt af borgaryfirvöldum í ágúst 2002.  Var skipulagsbreytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 11. október það ár.

Samhliða meðferð tillögu að framangreindri breytingu aðalskipulags var unnið að tillögum að endurbyggingu húss á lóðinni.  Var horfið frá því að breyta húsi því er fyrir var á lóðinni og þess í stað lagt til að það yrði rifið og nýtt hús reist í þess stað.  Voru tillögur þessar kynntar nágrönnum og um þær fjallað á fjölmörgum fundum byggingaryfirvalda og verður af málsgögnum ráðið að þær hafi verið í stöðugri endurskoðun allt þar til ákvörðun var tekin um að veita hið umdeilda byggingarleyfi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. október 2002.  Kærendur töldu að ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til sjónarmiða þeirra og að leyft hefði verið meira byggingarmagn á lóðinni en unnt væri að sætta sig við.  Skutu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. nóvember 2002, og kröfðust síðan stöðvunar framkvæmda við niðurrif hússins með bréfi, dags. 30. desember 2002.  Féllst úrskurðarnefndin á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmdanna með úrskurði uppkveðnum 31. janúar 2003 enda taldi nefndin slíka annmarka vera á hinni kærðu ákvörðun að líklegt væri að hún yrði ógilt.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. febrúar 2003 var framangreindur úrskurður um stöðvun framkvæmda lagður fram.  Var á fundinum ákveðið að afturkalla hið umdeilda byggingarleyfi frá 16. október 2002 og veita að nýju leyfi fyrir sömu framkvæmdum á lóðinni.  Voru ákvarðanir þessar staðfestar á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 20. febrúar 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á það bent að lögum og reglum um skipulagsmál, auk ákvæða stjórnsýslulaga, sé ætlað að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga verði ekki fyrir borð borinn, þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Margt bendi til þess að kynnningu á aðalskipulagstillögu þeirri sem verið hafi undanfari hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið stórlega ábótavant og hafi hún tæplega fullnægt lagaskilyrðum.  Þá hafi skort rökstuðning fyrir breyttu aðalskipulagi.  Ekkert deiliskipulag hafi verið í gildi um lóðina að Stakkahlíð 17.  Borgarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags.  Því sé harðlega mótmælt, að borgarstjórn hafi verið heimilt að samþykkja framkvæmd á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, þar sem óheimilt hafi verið að fara með málið eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997.  Ákvæði þetta beri að skýra svo að það eigi einungis við um minni háttar framkvæmdir sem ekki feli í sér breytingar á byggðamynstri.

Kærendur hafi talið sig mega treysta því að ekki yrði heimiluð bygging á umræddri lóð sem væri hærri og stærri en sú sem fyrir hafi verið á lóðinni, án þess að unnið yrði deiliskipulag þar sem tekið yrði tillit til byggðamynsturs svæðisins, m.a. vegna höfnunar umsóknar um leyfi fyrir slíkri byggingu á árinu 1991.  Hafi kærendur m.a. stuðst við vitneskju um þetta við ákvörðun um kaup á dýrum íbúðum í húsinu Bogahlíð 2, 4 og 6 á árunum 1995 og 1996.  Þá sé áréttað að 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga heimili ekki þá málsmeðferð, sem viðhöfð hafi verið, þar sem aðalskipulag hafi ekki heimilað íbúðabyggingu á lóðinni þegar grenndarkynningin hafi talist byrja þann 17. desember 2001.

Loks sé nýtingarhlutfall hinnar umdeildu nýbyggingar of hátt, auk þess sem grenndaráhrif byggingarinnar muni skerða lögvarða hagsmuni kærenda.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er mótmælt málatilbúnaði kærenda er varðar málsmeðferð breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 varðandi lóðina nr. 17 við Stakkahlíð.  Eins og ráða megi af gögnum málsins hafi meðferð tillögunnar verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda hafi tillagan verið auglýst til kynningar en ekki grenndarkynnt eins og kærendur haldi fram.  Í fyrra grenndarkynningarbréfinu hafi þess hins vegar verið getið, til frekari upplýsingar fyrir hagsmunaaðila, að samhliða grenndarkynningunni væri auglýst til kynningar tillaga að breytingu á aðalskipulagi varðandi lóðina.  Ekki verði fjallað frekar um þessa málsástæðu kærenda þar sem hún hafi ekki þýðingu í málinu, enda úrskurðarnefndin ekki til þess bær að fjalla um lögmæti breytinga á aðalskipulagi sem umhverfisráðherra hafi staðfest.

Rétt sé hjá kærendum að ekkert deiliskipulag sé til af því svæði sem lóðin að Stakkahlíð nr. 17 standi á en einmitt af þeirri ástæðu hafi það verið byggingarleyfisumsókn sem grenndarkynnt hafi verið fyrir hagsmunaaðilum, sbr. 3. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, en ekki breyting á deiliskipulagi.  Umfjöllun kærenda um deiliskipulag og þær kröfur sem gerðar séu til slíkra skipulagsáætlana hafi því ekki þýðingu.

Óumdeilt sé að núgildandi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 byggi á því að allt land sé skipulagsskylt og framkvæmdir skuli að jafnaði byggja á deiliskipulagsáætlunum.  Í 9. gr. skipulags- og byggingarlaga komi fram meginregla laganna um skipulagsskyldu, þ.e. að landið allt sé skipulagsskylt, og að allar framkvæmdir, þ.e. bygging húsa, annarra mannvirkja og aðrar framkvæmdir, skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir.  Með ákvæði þessu hafi í fyrsta sinn verið kveðið afdráttarlaust á um skipulagsskyldu á Íslandi.  Frá þessari meginreglu séu hins vegar nokkrar undantekningar en hér skipti bara ein þeirra máli og komi hún fram í 3. mgr. 23. gr. laganna.  Samkvæmt þeirri grein sé sveitarstjórn heimilt, í þegar byggðu hverfi þar sem ekki sé til deiliskipulag, að veita leyfi til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, eins og gert hafi verið í því máli sem hér sé fjallað um.  Ákvæðið hafi verið skýrt með þeim hætti að aðeins sé hægt að neyta þessarar undanþágu þegar byggingarleyfi samræmist byggðamynstri og ákvæðum aðalskipulags.  Það sé skoðun borgaryfirvalda að fyrirhuguð bygging að Stakkahlíð 17 samræmist byggðamynstri svæðisins og að heimilt hafi verið að fara með málið á þann veg sem gert hafi verið.

Mótmælt sé þeirri fullyrðingu kærenda að óheimilt hafi verið að grenndarkynna umsóknina áður en tillaga að breytingu á aðalskipulagi varðandi lóðina hafi verið samþykkt.  Hvergi í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé mælt fyrir um að það sé bannað.  Í 2. mgr. 43. gr. segi aðeins að framkvæmdir skv. 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Í því máli sem hér um ræði hafi hið kærða byggingarleyfi verið samþykkt, bæði í skipulags- og byggingarnefnd og borgarstjórn, eftir að umhverfisráðherra hafi staðfest aðalskipulagsbreytinguna.  Ljóst sé því, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingalaga, að þegar framkvæmdir hafi verið hafnar við niðurrif hússins hafi þær verið í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Þá verði að skýra 3. mgr. 23. gr. í samræmi við breytingu sem gerð hafi verið á 1. mgr. sömu greinar, sem nú sé 2. mgr., með lögum nr. 170/2001, en með þeirri breytingu hafi sveitarstjórnum verið heimilað að auglýsa tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi samhliða tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi varðandi sama svæði.  Sömu sjónarmið eigi við um samhliða auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi og grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn, en skýra verði ákvæði laganna í samræmi hvað þetta varði. 

Kærendur telji að vegna höfnunar byggingarleyfisumsóknar frá árinu 1991 hafi þeir mátt treysta því að ekki yrði heimiluð bygging sem væri hærri og stærri en sú sem fyrir hafi verið á lóðinni án þess að unnið yrði deiliskipulag.  Í þessu sambandi verði að hafa í huga að í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta gildandi skipulagsáætlunum og veita leyfi til framkvæmda án þess að fyrir liggi deiliskipulag, sbr. t.d. 21., 23. og 26. gr. laganna.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti því ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi eða byggingum sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.  Borgaryfirvöld telji að byggingarleyfi það sem um sé deilt í máli þessu hafi óveruleg áhrif á grenndarrétt hagsmunaaðila, þ.m.t. kærenda.  Telji aðilar sig hins vegar hafa orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt gerist eða þeir hafi mátt búast við eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. laganna.  Kærendur hafi ekki sýnt fram á þeir verði fyrir tjóni vegna breytingarinnar.  Umfjöllun um bætur falli hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar og verði því ekki gerð frekari skil í þessu máli.  Hafa beri í huga að kærendur búi í húsi, sem á sínum tíma hafi verið byggt á grundvelli sambærilegrar málsmeðferðar og hin kærða byggingarleyfisumsókn hafi hlotið, og hafi þeim því mátt vera ljóst að breytingar gætu átt sér stað á svæðinu.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt.  Telur hann hina kærðu ákvörðun í alla staði lögmæta og mótmælir því að á henni séu einhverjir hnökrar er ógildingu varði.  Málið hafi verið unnið og undirbúið í samráði við kærendur og hafi ítrekað verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra.  Að öðru leyti sé vísað til röksemda sem fram hafi komið af hálfu borgaryfirvalda í málinu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var hin kærða ákvörðun frá 16. október 2002 afturkölluð á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 5. febrúar 2003.  Var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 20. sama mánaðar.  Þar sem ákvörðun sú, sem kærð er í máli þessu, hefur verið afturkölluð af hálfu borgaryfirvalda hefur hún ekki lengur gildi að lögum og sætir því ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.  Ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Óðinn Elísson

30/2001 Fellasmári

Með

Ár 2003, föstudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2001, kæra eigenda Fellasmára 7, Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001 um að gefa lóðarhöfum að Fellasmára 7 kost á að ná samkomulagi við lóðarhafa að Fellasmára 5 fyrir 1. júlí 2001, en að öðrum kosti að fjarlægja skjólveggi á og við lóðamörk Fellasmára 5 og 7.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júní 2001, sem barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. eigenda Fellasmára 7, Kópavogi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001 um að gefa lóðarhöfum að Fellasmára 7 kost á að ná samkomulagi við lóðarhafa að Fellasmára 5 fyrir 1. júlí 2001, en að öðrum kosti að fjarlægja skjólveggi á og við lóðamörk Fellasmára 5 og 7.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001.  Af hálfu kærenda er lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar dregið í efa og verður að skilja kæruna á þann veg að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. ágúst 2001, setur Jón Sigurðsson hdl. fram athugasemdir við ofangreinda kæru f.h. eigenda Fellasmára 5.  Krefst hann þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Jafnframt krefst hann þess að úrskurðarnefndin geri kærendum að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir.

Málsaðilar hafa einungis reifað málið að því er varðar framkomna frávísunarkröfu en hafa áskilið sér rétt til þess að koma að frekari málatilbúnaði um efnisatriði málsins á síðari stigum, verði frávísunarkröfunni hafnað.  Þykir rétt, með hliðsjón af því hvernig málið hefur verið lagt fyrir nefndina, að taka til sérstakrar úrlausnar kröfu eigenda Fellasmára 5 um frávísun og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málavextir:  Í þessum þætti málsins þykir ekki nauðsynlegt að gera ítarlega grein fyrir málavöxtum umfram það sem varðar frávísunarþátt málsins.  Verður af málsgögnum ráðið að ágreiningur hafi risið með málsaðilum um skjólgirðingu, sem eigendur Fellasmára 7 munu hafa reist á mörkum lóða þeirra.  Kom ágreiningur þessi til kasta byggingaryfirvalda í Kópavogi og var úr honum skorið af þeirra hálfu með hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar hinn 9. maí 2001.  Kærendum var tilkynnt um ákvörðunina með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 10. maí 2001, og var í niðurlagi bréfsins vakin athygli á því að samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 10. gr. byggingarreglugerðar væri hverjum þeim sem teldi rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar heimilt, innan mánaðar frá því honum væri kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar, að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Framangreind ákvörðun byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001 og er ekki til þess vitað að kærendum hafi verið tilkynnt um þá afgreiðslu.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 25. júní 2001, svo sem að framan greinir, en með bréfi, dags. 24 ágúst 2001, krafðist umboðsmaður eigenda Fellasmára 5 frávísunar málsins.

Málsrök eigenda Fellasmára 5:  Frávísunarkröfu sína byggja eigendur Fellasmára 5 alfarið á því að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni og beri því, skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa kærunni frá, enda verði ekki talið afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr.  Kærendum hafi verið tilkynnt um ákvörðun byggingarnefndar með bréfi, dags. 10. maí 2001, og þá verið leiðbeint um eins mánaðar kærufrest.  Þrátt fyrir það hafi kærendur ekkert aðhafst í málinu fyrr en um einum og hálfum mánuði síðar eða hinn 25. júní 2001.  Hafi kærufrestur þá verið liðinn.  Þá hafi einnig verið liðinn meira en einn mánuður frá samþykkt bæjarstjórnar á hinni umþrættu ákvörðun byggingarnefndar.  Ekki tíðkist að tilkynna aðilum stjórnsýslumála um formlegar afgreiðslur sveitarstjórnarfunda á fundargerðum einstakra nefnda og hafi kærendur því ekki mátt vænta sérstakrar tilkynningar um samþykkt bæjarstjórnar á ákvörðun byggingarnefndar í málinu.  Fundargerðir bæjarstjórnar séu hins vegar birtar á vefsíðu bæjarins og öllum aðgengilegar á skrifstofum hans.  Sérstaklega sé mótmælt kröfu kærenda um að málið verði tekið til efnisúrlausnar þrátt fyrir að kærufrestur yrði talinn hafa verið liðinn er kæran barst, enda hafi málið enga þá sérstöðu að réttlætanlegt væri að beita undantekningarheimildum 28. gr. stjórnsýslulaganna í tilviki kærenda.  Því beri að vísa kærunni frá.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er frávísunarkröfunni mótmælt.  Upphaf kærufrests eigi að miða við það tímamark þegar kærendum hafi orðið kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á ákvörðun byggingarnefndar, enda hafi ákvörðun byggingarnefndar ekki verið lokaákvörðun í málinu, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærendum hafi aldrei verið tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar á hinni kærðu ákvörðun, þrátt fyrir ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafi kærendum ekki orðið um hana kunnugt fyrr en 25. júní 2001.  Hafi kæra í málinu verið send úrskurðarnefndinni þann sama dag.  Líta verði til þess að kærufrestur skv. skipulags- og byggingarlögum sé styttri en almennt gerist í stjórnsýslunni, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga, þar sem kveðið sé á um almennan þriggja mánaða kærufrest.  Af þessum sökum verði að gera ríkari kröfur um að aðilum mála á skipulags- og byggingarsviði sé tilkynnt sem fyrst um ákvarðanir er þá varði. 

Verði hins vegar litið svo á að kæra hafi borist eftir að kærufresti lauk beri allt að einu að taka hana til efnismeðferðar, enda verði að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr og eigi því við 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hafi alvarleg veikindi valdið því um tíma að kærendum hafi ekki verið unnt að sinna málinu en auk þess hafi málið sérstöðu þar sem það snúist í raun um jafnræðisreglu.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 miðast upphaf kærufrests í ágreiningsmálum, sem lögin taka til, við það tímamark er kæranda verður kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á þeirri ákvörðun, sem kæran tekur til.  Er þessi regla í samræmi við þá meginreglu að einungis lokaákvarðanir á lægra stjórnsýslustigi geti sætt kæru til æðra stjórnvalds.  Eru samþykktir byggingarnefnda ekki meðal slíkra ákvarðana, enda eru þær háðar staðfestingu sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 39. gr., 1. mgr. 43. gr. og 1. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 73/1997.

Samkvæmt fundargerð sem fyrir liggur í málinu hófst fundur bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001 kl. 16:00 og var honum slitið kl. 19:00 sama dag, en á umræddum fundi var hin umdeilda ákvörðun byggingarnefndar staðfest.  Verður ekki séð að kærendum hafi með nokkru móti mátt verða kunnugt um afgreiðsluna fyrr en í fyrsta lagi næsta virka dag, eða hinn 23. maí 2001, jafnvel þótt af þeirra hálfu hefði verið fylgst grannt með upplýsingum um afgreiðslur bæjarstjórnar á fundargerðum byggingarnefndar.

Væri talið að kærendum hefði mátt vera kunnugt um afgreiðslu bæjarstjórnar þegar hinn 23. maí 2001, sem er fyrsta mögulega tímamark, hefði kærufrestur byrjað að líða hinn 24. maí 2001, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga.  Hefði lokadagur frestsins þá verið hinn 24. júní 2001 en með því að þann dag bar upp á sunnudag lengdist fresturinn til næsta virka dags eða til 25. júní 2001, sbr. 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, en þann dag barst úrskurðarnefndinni kæra í málinu.  Yrði lokadagur frestsins raunar hinn sami þótt upphaf hans væri miðað við 23. maí 2001, þar sem lokadag frestsins hefði þá borið upp á laugardag 23. júní, sem einnig var frídagur, og hefði fresturinn því einnig framlengst til 25. júní í því tilviki.

Samkvæmt framansögðu barst kæra í máli þessu innan kærufrests, þótt miðað sé við fyrsta mögulegt upphaf hans, og verður frávísunarkröfu eigenda Fellasmára 5 því hafnað.  Er óþarft, að fenginni framangreindri niðurstöðu, að taka afstöðu til þess hvort kærendur hafi átt að hafa frumkvæði að því að fylgjast með afgreiðslu málsins hjá bæjaryfirvöldum eða til þess hvort afsakanlegur dráttur hafi orðið á því að kæran bærist úrskurðarnefndinni.

Enda þótt mál þetta hafi einungis verið reifað um frávísun gerir umboðsmaður eigenda Fellasmára 5, auk frávísunarkröfunnar, kröfu um að „…úrskurðarnefndin geri eigendum Fellasmára 7 að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk þegar í stað, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir.“  Í kröfugerð þessari felst efniskrafa sem með engu móti fær samrýmst frávísunarkröfu sama aðila í málinu.  Að auki felst í henni krafa um að úrskurðarnefndin taki ákvörðun, sem gangi lengra en felst í hinni kærðu ákvörðun.  Fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að taka slíkar ákvarðanir og verður framangreindri kröfu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál þetta verður tekið til efnisúrlausnar um gildi hinnar kærður ákvörðunar að lokinni gagnaöflun um þann þátt málsins.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu eigenda Fellasmára 5 í Kópavogi um frávísun kærumáls þessa.  Kröfu þeirra um að „…úrskurðarnefndin geri eigendum Fellasmára 7 að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk þegar í stað, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir“, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Óðinn Elísson

64/2002 Stakkahlíð

Með

Ár 2003, föstudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2002, kæra íbúa að Bogahlíð 2, 4 og 6 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2002, kærir B, formaður húsfélagsins Bogahlíð 2, 4 og 6, f.h. íbúa hússins, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. nóvember 2002.  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Með bréfi, dags. 30. desember 2002, sem barst nefndinni 2. janúar 2003, krefjast kærendur þess að framkvæmdir við niðurrif verslunarhússins, sem þeir segja hafnar, verði stöðvaðar meðan kærumál þeirra varðandi byggingarleyfið sé til meðferðar hjá nefndinni.  Hefur úrskurðarnefndin aflað gagna í málinu og leitað andsvara byggingarleyfishafa við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Hafa andmæli hans borist nefndinni, svo og greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt fylgiskjölum.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um að framkvæmdir við niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 verði stöðvaðar.

Málavextir:  Málavöxtum verður hér aðeins lýst stuttlega að því marki sem þurfa þykir við umfjöllun um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Á mál þetta sér nokkurn aðdraganda en á vormánuðum 2001 kom fram ósk eiganda húseignarinnar að Stakkahlíð 17 um að aðalskipulagi Reykjavíkur yrði breytt þannig að lóð hússins, sem væri verslunarlóð samkvæmt skipulaginu, yrði breytt í íbúðarlóð og í framhaldi af breytingunni yrði heimilað að breyta verslunarhúsi því sem á lóðinni væri í íbúðarhús.  Borgaryfirvöld tóku jákvætt í erindið og var umbeðin breyting aðalskipulags undirbúin og samþykkt af borgaryfirvöldum í ágúst 2002.  Var skipulagsbreytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 11. október 2002.

Samhliða meðferð tillögunnar að framangreindri breytingu aðalskipulags var unnið að tillögum að endurbyggingu húss á lóðinni.  Var horfið frá því að breyta húsi því er fyrir var á lóðinni og þess í stað lagt til að það yrði rifið og nýtt hús reist í þess stað.  Voru tillögur þesssar kynntar nágrönnum og um þær fjallað á fjölmörgum fundum byggingaryfirvalda og verður af málsgögnum ráðið að þær hafi verið í stöðugri endurskoðun allt þar til ákvörðun var tekin um að veita hið umdeilda byggingarleyfi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. október 2002.  Kærendur töldu að ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til sjónarmiða þeirra og að leyft hefði verið meira byggingarmagn á lóðinni en unnt væri að sætta sig við.  Skutu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. nóvember 2002, og kröfðust síðan stöðvunar framkvæmda við niðurrif hússins með bréfi, dags. 30. desember 2002, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á það bent að lögum og reglum um skipulagsmál, auk ákvæða stjórnsýslulaga, sé ætlað að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga verði ekki fyrir borð borinn, þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Margt bendi til þess að kynnningu á aðalskipulagstillögu þeirri sem verið hafi undanfari hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið stórlega ábótavant og hafi hún tæplega fullnægt lagaskilyrðum.  Þá hafi skort rökstuðning fyrir breyttu aðalskipulagi.  Ekkert deiliskipulag hafi verið í gildi um lóðina að Stakkahlíð 17.  Borgarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags.  Því sé harðlega mótmælt, að borgarstjórn hafi verið heimilt að samþykkja framkvæmd á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr.  laga 73/1997, þar sem óheimilt hafi verið að fara með málið eftir undantekningarákvæi 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997.  Ákvæði þetta beri að skýra svo að það eigi einungis við um minni háttar framkvæmdir sem ekki feli í sér breytingar á byggðamynstri.

Kærendur hafi talið sig mega treysta því að ekki yrði heimiluð bygging á umræddri lóð sem væri hærri og stærri en sú sem fyrir hafi verið á lóðinni, án þess að unnið yrði deiliskipulag þar sem tekið yrði tillit til byggðamynsturs svæðisins, m.a. vegna höfnunar umsóknar um leyfi fyrir slíkri byggingu á árinu 1991.  Hafi kærendur m.a. stuðst við vitneskju um þetta við ákvörðun um kaup á dýrum íbúðum í húsinu Bogahlíð 2, 4 og 6 á árunum 1995 og 1996.  Þá sé áréttað að 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga heimili ekki þá málsmeðferð, sem viðhöfð hafi verið, þar sem aðalskipulag hafi ekki heimilað íbúðabyggingu á lóðinni þegar grenndarkynningin hafi talist byrja þann 17. desember 2001.

Loks sé nýtingarhlutfall hinnar umdeildu nýbyggingar of hátt, auk þess sem grenndaráhrif byggingarinnar muni skerða lögvarða hagsmuni kærenda.

Kröfu sína um stöðvun framkvæmda styðja kærendur þeim rökum að slíkir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði.  Ekki sé réttmætt, með tilliti til hagsmuna kærenda, að heimila framkvæmdir við niðurrif eldra húss á lóðinni samkvæmt hinu umdeilda leyfi, enda fylgi þeim röskun á hagsmunum kærenda sem þeir eigi ekki að þurfa að þola meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði hafnað.  Sú krafa lúti að því að stöðva framkvæmdir við niðurrif eldra húss á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem sú framkvæmd ein sér hafi ekki í för með sér óafturkræf neikvæð áhrif á hagsmuni kærenda beri nefndinni að synja kröfunni, m.a. m.t.t. eigin fordæma. Telja verði að það varði ekki hagsmuni kærenda hvort niðurrif  núverandi húss á lóðinni nái fram að ganga áður en úrskurðað verði um efnishlið málsins, vilji byggingarleyfishafinn taka þá áhættu að hefja framkvæmdir. Í samræmi við þá meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði að skýra stöðvunarheimild nefndarinnar þröngt, enda um mjög íþyngjandi aðgerð að ræða fyrir þann sem fyrir verði. Um rökstuðning fyrir synjun á stöðvunarkröfunni vísist að öðru leyti til gagna málsins, málavaxtalýsingar og efnislegrar umfjöllunnar um einstakar málsástæður kærenda. 

Mótmælt er málatilbúnaði kærenda er varðar málsmeðferð breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 varðandi lóðina nr. 17 við Stakkahlíð.  Eins og ráða megi af gögnum málsins hafi meðferð tillögunnar verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda hafi tillagan verið auglýst til kynningar en ekki grenndarkynnt eins og kærendur haldi fram.  Í fyrra grenndarkynningarbréfinu hafi þess hins vegar verið getið, til frekari upplýsingar fyrir hagsmunaaðila, að samhliða grenndarkynningunni væri auglýst til kynningar tillaga að breytingu á aðalskipulagi varðandi lóðina. Ekki verði fjallað frekar um þessa málsástæðu kærenda þar sem hún hafi ekki þýðingu í málinu, enda úrskurðarnefndin ekki til þess bær að fjalla um lögmæti breytinga á aðalskipulagi sem umhverfisráðherra hafi staðfest.

Rétt sé hjá kærendum að ekkert deiliskipulag sé til af því svæði sem lóðin að Stakkahlíð nr. 17 standi á en einmitt af þeirri ástæðu hafi það verið byggingarleyfisumsókn sem grenndarkynnt hafi verið fyrir hagsmunaaðilum, sbr. 3. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, en ekki breyting á deiliskipulagi. Umfjöllun kærenda um deiliskipulag og þær kröfur sem gerðar séu til slíkra skipulagsáætlanna hafi því ekki þýðingu.

Óumdeilt sé að núgildandi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 byggi á því að allt land sé skipulagsskylt og framkvæmdir skuli að jafnaði byggja á deiliskipulagsáætlunum.  Í 9. gr. skipulags- og byggingarlaga komi fram meginregla laganna um skipulagsskyldu, þ.e. að landið allt sé skipulagsskylt, og að allar framkvæmdir, þ.e. bygging húsa, annarra mannvirkja og aðrar framkvæmdir, skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir.  Með ákvæði þessu hafi í fyrsta sinn verið kveðið afdráttarlaust á um skipulagsskyldu á Íslandi.  Frá þessari meginreglu séu hins vegar nokkrar undantekningar en hér skipti bara ein þeirra máli og komi hún fram í 3. mgr. 23. gr. laganna.  Samkvæmt þeirri grein sé sveitarstjórn heimilt, í þegar byggðu hverfi þar sem ekki sé til deiliskipulag, að veita leyfi til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, eins og gert hafi verið í því máli sem hér sé fjallað um.  Ákvæðið hafi verið skýrt með þeim hætti að aðeins sé hægt að neyta þessarar undanþágu samræmist byggingarleyfi byggðamynstri og ákvæðum aðalskipulags.  Það sé skoðun borgaryfirvalda að fyrirhuguð bygging að Stakkahlíð 17 samræmist byggðamynstri svæðisins og að heimilt hafi verið að fara með málið á þann veg sem gert hafi verið.

Mótmælt sé þeirri fullyrðingu kærenda að óheimilt hafi verið að grenndarkynna umsóknina áður en tillaga að breytingu á aðalskipulagi varðandi lóðina hafi verið samþykkt. Hvergi í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé mælt fyrir um að það sé bannað.  Í 2. mgr. 43. gr. segi aðeins að framkvæmdir skv. 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Í því máli sem hér um ræði hafi hið kærða byggingarleyfi verið samþykkt, bæði í skipulags- og byggingarnefnd og borgarstjórn, eftir að umhverfisráðherra hafi staðfest aðalskipulagsbreytinguna.  Ljóst sé því, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingalaga, að þegar framkvæmdir hafi verið hafnar við niðurrif hússins hafi þær verið í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Þá verði að skýra 3. mgr. 23. gr. í samræmi við breytingu sem gerð hafi verið á 1. mgr. sömu greinar, sem nú sé 2. mgr., með lögum nr. 170/2001, en með þeirri breytingu hafi sveitarstjórnum verið heimilað að auglýsa  tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi samhliða tillögu að samsvarandi breytingu  á aðalskipulagi varðandi sama svæði.  Sömu sjónarmið eigi við um samhliða auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi og grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn, en skýra verði ákvæði laganna í samræmi hvað þetta varði. 

Kærendur telji að vegna höfnunar byggingarleyfisumsóknar frá árinu 1991 hafi þeir mátt treysta því að ekki yrði heimiluð bygging sem væri hærri og stærri en sú sem fyrir hafi verið á lóðinni án þess að unnið yrði deiliskipulag.  Í þessu sambandi verði að hafa í huga að í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta gildandi skipulagsáætlunum og veita leyfi til framkvæmda án þess að fyrir liggi deiliskipulag, sbr. t.d. 21., 23. og 26. gr. laganna.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti því ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi eða byggingum sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.  Borgaryfirvöld telji að byggingarleyfi það sem um sé deilt í máli þessu hafi óveruleg áhrif á grenndarrétt hagsmunaaðila, þ.m.t. kærenda.  Telji aðilar sig hins vegar hafa orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt gerist eða þeir hafi mátt búast við eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. laganna.  Kærendur hafi ekki sýnt fram á þeir verði fyrir tjóni vegna breytingarinnar. Umfjöllun um bætur falli hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar og verði því ekki gerð frekari skil í þessu máli.  Hafa beri í huga að kærendur búi í húsi, sem á sínum tíma hafi verið byggt á grundvelli sambærilegrar málsmeðferðar og hin kærða byggingarleyfisumsókn hafi hlotið, og hafi þeim því mátt vera ljóst að breytingar gætu átt sér stað á svæðinu.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Telur hann hina kærðu ákvörðun í alla staði lögmæta og mótmælir því að á henni séu einhverjir hnökrar er ógildingu varði.  Málið hafi verið unnið og undirbúið í samráði við kærendur og hafi ítrekað verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra.  Að öðru leyti sé vísað til röksemda sem fram hafi komið af hálfu borgaryfirvalda í málinu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er einungis til úrlausnar í þessum þætti málsins hvort verða eigi við kröfu kærenda um að stöðva framkvæmdir við niðurrif húss þess sem fyrir er á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð, en innréttingar og léttir milliveggir voru fjarlægðir úr húsinu skömmu fyrir árslok 2002.  Hafa framkvæmdir eftir það legið niðri.

Leyfi til niðurrifs eldra húss og til byggingar nýs húss á lóðinni koma fram í einni og sömu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002, sem kærð er í máli þessu.  Þegar ákvörðun þessi var tekin hafði ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur, sem staðfest hafði verið af umhverfisráðherra hinn 11. október 2002, og var grundvöllur þess að unnt væri að heimila byggingu íbúðarhúss á umræddri lóð.  Birtist auglýsingin hinn 25. október 2002.  Birting auglýsingarinnar var skilyrði fyrir gildistöku umræddrar breytingar á aðalskipulaginu, sbr. 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og hafði skipulagsbreytingin því ekki öðlast gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin.  Sýnist því hafa skort lagaskilyrði fyrir henni, enda verður að skilja ákvæði 1. og 2. mgr. 43. gr. laganna á þann veg að ályktun skipulags- og byggingarnefndar um byggingarleyfi verði að samræmast gildandi aðalskipulagi miðað við það tímamark þegar ályktunin er gerð.  Verður þetta m.a. ráðið af gr. 11.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en styðst þar að auki við eðlisrök.  Þykja vera á hinni kærðu ákvörðun slíkir annmarkar að líklegt sé að ógildingu varði og verður ekki séð að það breyti þeirri niðurstöðu þótt borgarstjórn hafi staðfest umrædda ákvörðun eftir að framangreind auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hafði verið birt.

Samkvæmt því sem að framan er rakið þykja vera svo miklar líkur á því að hin kærða ákvörðun sæti ógildingu að fallast ber á kröfu kærenda um að framkvæmdir við niðurrif hússins, samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi, verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarefndinni.  Að öðru leyti verður málsinu frestað til frekari gagnaöflunar og meðferðar, en sýnt þykir að við efnisúrlausn þess þurfi, að frátöldu framangreindu álitaefni, einnig að taka afstöðu til úrlausnarefna er varða undirbúnig, gerð og efni hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 í Reykjavík skulu stöðvaðar meðan beðið er efnisúrlausnar úrskurðarnefndarinnar um gildi hins kærða byggingarleyfis fyrir framkvæmdum á lóðinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson

11/2001 Litli Krókur

Með

Ár 2003, föstudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl. varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2001, kæra eins eiganda jarðarinnar Króks, Kjalarnesi, Reykjavík, á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. febrúar 2001, að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar og hreppsnefndar Kjalarneshrepps frá 29. janúar og 10. júní 1992 að því er varðar kröfu um niðurrif hússins Litla Króks, Kjalarnesi.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. mars 2001, er barst nefndinni sama dag, kærir Kristinn Bjarnason hrl., fyrir hönd G, eins eigenda jarðarinnar Króks, Kjalarnesi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. febrúar 2001 að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar og hreppsnefndar Kjalarneshrepps frá 29. janúar og 10. júní 1992 um niðurrif hússins Litla Króks, Kjalarnesi.  Borgarráð Reykjavíkur staðfesti ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar á fundi hinn 20. febrúar 2001.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir byggingaryfirvöld Reykjavíkur að framfylgja fyrri ákvörðun byggingarnefndar og hreppsnefndar Kjalarneshrepps um niðurrif hússins Litla Króks, Kjalarnesi.

Málavextir:  Faðir kæranda mun hafa reist húsið Litla Krók um 1940 á jörð sinni Króki, Kjalarnesi en þá var þar fyrir hús er nefnt er Krókur.  Kærandi er nú eigandi um 52% jarðarinnar Króks í óskiptri sameign með systkinum sínum og mun eignarhluti hans í húsinu Litla Krók vera um 4% á móti eignarhluta annarra systkina í óskiptri sameign.  Kærandi býr í húsi er hann byggði á jörðinni er nefnist Lyngás og mun standa skammt frá Litla Króki.  Auk greindra húsa voru á jörðinni nokkur útihús.

Hinn 12. febrúar 1992 sendi sveitarstjóri Kjalarneshrepps skiptaráðandanum í Kjósarsýslu bréf vegna útihúsa á Króki en á þeim tíma var dánarbú föður kæranda undir opinberum skiptum og féll hluti jarðarinnar undir dánarbúið.  Í bréfinu kom fram að byggingarnefnd hreppsins hefði á fundum hinn 16. desember 1991 og hinn 27. janúar 1992 fjallað um fokhættu er stafaði frá útihúsum á Króki.  Þar var og greint frá svohljóðandi bókun hreppsnefndar Kjalarnesshrepps frá fundi nefndarinnar hinn 29. janúar 1992:  „Vegna bókana byggingarnefndar um kofana á Króki samþykkir hreppsnefnd að heimila byggingarnefnd að veita eigendum kofanna frest til 1. maí n.k. til að rífa þá.  Eftir þann tíma má byggingarnefnd láta rífa kofana eða beita dagsektum, kr. 10.000 á dag, hvort heldur sem nefndin telur hentugra.”

Í kjölfar þessa bréfs var lögð fram tillaga á skiptafundi í dánarbúinu hinn 24. apríl 1992 um tilhögun á niðurrifi útihúsa, að undanskildu sauðahúsi með hlöðu og húsinu Litla Króki, og sauðahúsi komið í það horf að byggingarnefnd Kjalarneshrepps sætti sig við.  Kærandi lagði til að öll húsin yrðu rifin.  Skiptaráðandi leitaði afstöðu byggingarnefndar á framkomnum tillögum með bréfi, dags. 27. apríl 1992.  Hreppsnefnd mun hafa afgreitt erindið hinn 15. maí 1992 með því að öll húsin skyldu rifin.  Með bréfi skiptaráðanda, dags. 20. maí 1992, var vakin athygli á því að ákvörðun sveitarfélagsins um niðurrif hefði fram að þeim tíma einskorðast við útihús jarðarinnar en ekki húsið Litla Krók.  Var kallað eftir upplýsingum um á hvaða lagaforsendum sveitarstjórn byggði afgreiðslu sína frá 15. maí 1992.  Þeirri fyrirspurn var svarað af hálfu sveitarfélagsins hinn 10. júní 1992 og tilkynnt sú samþykkt sveitarstjórnar að veita frest til niðurrifs útihúsa til 20. júní 1992 en sauðahús með hlöðu og Litli Krókur skyldu fjarlægð fyrir 1. október sama ár að viðlögðum dagsektum.  Sveitarstjóri sendi skiptastjóra dánarbúsins bréf, dags. 10. ágúst 1992, í tilefni af framkvæmdum við húsið Litla Krók.  Var  ákvörðun sveitarstjórnar frá 10. júní 1992 áréttuð og bent á að umræddar framkvæmdir væru án leyfis byggingaryfirvalda og breyttu engu um kröfu um niðurrif að viðlögðum dagsektum.  Skiptastjóri dánarbúsins sendi Kjalarneshreppi bréf, dags. 21. ágúst 1992, þar sem upplýst var að tveir erfingjanna hefðu tekið að sér að rífa öll útihús á Litla Króki og jafnframt á eigin ábyrgð og kostnað að ganga frá Litla Króki á viðunandi hátt.  Lögmaður annarra erfingja dánarbúsins en kæranda sendi hreppsnefnd bréf, dags. 26. ágúst 1992, þar sem málavextir voru reifaðir og komið á framfæri mótmælum og rökum meðerfingja kæranda gegn niðurrifi Litla Króks.  Hinn 4. september 1992 ritaði skiptastjóri dánarbúsins hreppsnefndinni erindi þar sem farið var fram á að hún breytti samþykkt sinni frá 10. júní 1992 um niðurrif Litla Króks.  Byggingarnefnd hreppsins ákvað á fundi hinn 23. september 1992 að fela lögmanni sínum að láta stöðva framkvæmdir við Litla Krók og fjarlægja þær þar sem engin leyfi væru fyrir þeim.  Lögmaður hreppsins beindi þessari kröfu til skiptastjóra með bréfi, dags. 13. október 1992, og munu framkvæmdir hafa verið stöðvaðar en þær fólust í því að steypt var utan á útveggi hússins.

Að beiðni sveitarstjórnar Kjalarneshrepps frá 26. apríl 1994 sendi lögmaður hreppsins dánarbúinu reikning vegna áfallinna dagsekta sökum tafa við niðurrif Litla Króks að upphæð kr. 5.730.000,-.  Af því tilefni sendi sveitarstjóri hreppsins og einn erfingja dánarbúsins, Ólafur Guðbjartsson, byggingaryfirvöldum hreppsins og dánarbúinu bréf, dags. 7. maí 1994.  Þar var upplýst að fljótlega myndi ganga úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um eignarhald á Litla Króki. Var í bréfinu gerð tillaga um að byggingaryfirvöld gæfu frest til að rífa eða leggja fram gögn um endurbyggingu Litla Króks, dánarbúið samþykkti að sú kvöð fylgdi húsinu að innan eins mánaðar frá dómsuppkvaðningu um eignarhaldið yrði húsið rifið eða lögð fram gögn um endurbætur og hreppsnefnd felldi niður áfallnar dagsektir og ekki yrði beitt slíkum sektum fyrr en mánuði eftir dómsuppsögu.  Þessari tillögu mun hafa verið hafnað á fundi hreppsnefndar hinn 16. maí 1994.

Með bréfi, dags. 22. mars 1999, vakti kærandi athygli byggingarfulltrúa Reykjavíkur, sem nú fór með byggingarmál á Kjalarnesi eftir sameiningu Reykjavíkur og Kjalarneshrepps, að Kjalarneshreppur hafi á árinu 1992 krafist niðurrifs á húsinu Litla Króki og var gerð krafa um að embættið sæi til þess að húsið yrði rifið tafarlaust.  Bréf kæranda var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 28. september 2000 og var samþykkt að byggingarfulltrúi skoðaði umrætt hús og leitað yrði álits annarra eigenda Litla Króks.  Byggingarfulltrúi ritaði meðeigendum kæranda að Litla Króki bréf vegna málsins hinn 5. október 2000 og svöruðu tveir þeirra, Ólafur og Guðjón Guðbjartssynir bréfinu hinn 22. október 2000.  Gera þeir þar grein fyrir sjónarmiðum sínum og lýsa þeirri skoðun að engin hætta stafaði af húsinu.  Byggingarfulltrúi skoðaði staðhætti á vettvangi og gerði grein fyrir áliti sínu í greinargerð til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 12. febrúar 2001.  Var niðurstaða hans að ekki stafaði veruleg fokhætta af Litla Króki.  Þá segir m.a. í greinargerðinni:  „Þegar upphaflega var krafist niðurrifs húsa á Litla Króki var þar um að ræða hrörlega skúra og bragga sem vissulega var hætt við foki.  Nú er bárujárn á þaki það eina sem fokið getur það er ekki í svo miklu magni að af því stafi sérstök hætta.  Húsið er til lýta í umhverfinu en sóðaskap er ekki að finna utanhúss.  Sé ástand og útlit hússins borið saman við ástand og útlit íbúðar- og útihúsa á Króki er þar ekki mikill munur á.”  Auk þess var á það bent að deildar meiningar væru um verðmat hússins, deilur væru um eignaskipti jarðarinnar meðal sameigenda og taka yrði afstöðu til niðurrifs allra húsa á jörðinni sem væru í svipuðu ástandi og Litli Krókur.  Lagði byggingarfulltrúi til að samþykkt um niðurrif og dagsektir yrði felld niður og ekki yrði krafist niðurrifs húsa á jörðinni meðan eignaskiptum væri ólokið.  Byggingarfulltrúa yrði hins vegar falið að fylgjast með ástandi húsanna og gera viðeigandi ráðstafanir á kostnað eigenda komi til hættuástands frá þeim.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 14. febrúar 2001 var samþykkt að fara að þessari tillögu byggingarfulltrúa og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 20. febrúar 2001.

Kærandi undi ekki þessum málalokum og kærði afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsástæður kæranda:  Kærandi bendir á að á árinu 1992 hafi hreppsnefnd Kjalarneshrepps tekið ákvörðun um niðurrif nokkurra mannvirkja á Króki og þar á meðal á Litla Króki sem standi skammt frá íbúðarhúsi kæranda. 

Eru gerðar athugasemdir við forsendur og rök fyrir hinni kærðu ákvörðun sem fram koma í greinargerð byggingarfulltrúa Reykjavíkur til skipulags og byggingarnefndar.  Ekki hafi verið búið að Litla Króki í áratugi og hljóti öllum þeim er skoði húsið að vera ljóst að það verði ekki notað til íbúðar í framtíðinni og fráleitt sé að taka tillit til óleyfisframkvæmda meðeigenda kæranda á húsinu við verðmat þess.  Ekki séu viðhlítandi rök fyrir hinni kærðu ákvörðun þótt kunna þurfi að rífa önnur hús á jörðinni vegna ástands þeirra, og jafnræðissjónarmið mæli gegn því að Litli Krókur verði rifinn öðrum fremur.  Telji byggingaryfirvöld ástand annarra húsa á jörðinni þess eðlis að niðurrifs sé þörf, sé byggingaryfirvöldum skylt að bregðast við með viðeigandi hætti og geri kærandi ekki athugasemdir við það.  Sömu sök séu seld þau rök að krafa um niðurrif Litla Króks sé ekki til þess fallin að einfalda lausn ágreinings með sameigendum jarðarinnar um eignaskipti sem nú sé uppi og varða skiptingu sameignarinnar milli eigenda.

Er á því byggt að ekki hafi verið fyrir hendi lagaskilyrði fyrir skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur til þess að fella úr gildi þá ákvörðun Kjalarneshrepps, sem tekin var á árinu 1992 um niðurrif Litla Króks, enda hafi ekkert gerst frá þeim tíma sem réttlæti þá breytingu, sbr. 23.-25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þótt yfirvöld hafi ekki framfylgt ákvörðuninni frá árinu 1992 af ítrustu hörku heimili það ekki afturköllun hennar til tjóns fyrir kæranda.  Litli Krókur standi nálægt húsi kæranda og sé til verulegra lýta.

Málsrök skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur:  Vísað er til þess að ákvörðun Kjalarneshrepps frá árinu 1992 hafi byggst á lélegu ástandi 5-6 skúra og bragga auk íbúðarhússins Litla Króks og hættu á foki.  Umrædd mannvirki hafi nú verið rifin að undanskildum Litla Króki sem eigendur hefðu hafið viðgerð á en þær framkvæmdir verið stöðvaðar.  Samkvæmt áliti byggingarfulltrúa, sem fram komi í greinargerða hans frá 12. febrúar 2001, sé umhverfi hússins ekki lengur sóðalegt og af húsinu stafi ekki sérstök hætta.  Húsið sé í sambærilegu ástandi og önnur hús á jörðinni.  Eigendur að 96% hluta Litla Króks hafi lýst sig mótfallna niðurrifi og hafi bent á að með slíkri aðgerð sé verið að sóa verðmætum   Kærandi haldi því fram að afturköllun ákvörðunar um niðurrif hússins skerði hagsmuni sína án þess að færa rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni.

Samkvæmt 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga geti stjórnvald afturkallað íþyngjandi ákvörðun sé það ekki til skaða fyrir neinn af aðilum máls.  Afturköllunarheimildin byggi á sömu sjónarmiðum og búi að baki 12. gr. laganna um svokallaða meðalhófsreglu, er feli í sér að stjórnvald taki ekki íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði náð með öðru og vægara móti.  Komi í ljós að aðstæður hafi breyst frá því að ákvörðun var tekin geti stjórnvald afturkallað hana að eigin frumkvæði á grundvelli 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga.

Hin kærða ákvörðun hafi fellt úr gildi fyrri ákvörðun um niðurrif Litla Króks og byggingarfulltrúa falið að fylgjast með ástandi húsanna og gera viðhlítandi ráðstafanir á kostnað eigenda ef til hættuástands kæmi.  Ljóst sé að aðstæður hafi breyst til batnaðar við niðurrif kofa og bragga sem staðið hafi við húsið og sé umhverfi þess nú í þokkalegu ástandi.  Byggingaryfirvöld hafi nú náð fram meginmarkmiði sínu sem að var stefnt með niðurrifskröfunni á sínum tíma og sé hin kærða ákvörðun um framhald málsins í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga.

Andmæli meðeigenda kæranda:  Afstaða og rök eigenda að Litla Króki annarra en kæranda, til kröfu um niðurrif hússins koma fram í bréfi lögmanns þeirra til Kjalarneshrepps frá 26. ágúst 1992 og tveir þeirra sendu byggingarfulltrúa bréf með athugasemdum sínum hinn 22. október 2000 í tilefni af erindi kæranda um að kröfu um niðurrif Litla Króks yrði framfylgt.  Þótti ekki ástæða til með hliðsjón af 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kalla sérstaklega eftir athugasemdum þeirra vegna málskosts kæranda til úrskurðarnefndarinnar.

Á því er byggt að aldrei hafi stafað hætta af húsinu Litla Króki og því engin haldbær rök fyrir niðurrifi hússins.  Ákvörðun um niðurrif Litla Króks verði að byggjast á faglegu mati.  Engin skoðun hafi átt sér stað af hálfu byggingaryfirvalda Kjalarneshrepps áður en ákvörðun um niðurrif hafi verið tekin og eigendum ekki gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við þá ákvörðunartöku.  Upphafleg krafa um niðurrif húsa á jörðinni Króki hafi verið miðuð við ástand kofa og bragga á jörðinni en ekki íbúðarhússins Litla Króks.

Kærandi hafi nýtt húsið til íbúðar frá árinu 1969-1980 og hafi hann fengið leyfi Kjalarneshrepps til að klæða húsið að utan með steypu.  Hafi þeim framkvæmdum verið lokið við suður- og vesturhlið hússins en kærandi hafi ekki klárað verkið vegna ósættis við föður sinn.  Engar athugasemdir hafi verið gerðar við ástand Litla Króks fyrr en á árinu 1992, þegar deilur voru uppi milli kæranda og meðerfingja hans að jörðinni, og hafi nú staðið deilur um skipti á eigninni Króki í 11 ár.  Samkvæmt virðingu frá 13. maí 1997 sé húsið ekki ónýtt.

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hafi verið heimilt að fella úr gildi þá ákvörðun hreppsnefndar Kjalarneshrepps frá árinu 1992, að krefjast niðurrifs á húsinu Litla Króki, Kjalarnesi.

Byggingarnefnd og byggingarfulltrúa er í 1. mgr. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 falið eftirlit með mannvirkjum og byggingarframkvæmdum.  Í 4. mgr. ákvæðisins segir að sé ásigkomulagi, frágangi, notkun, umhverfi eða viðhaldi húss ábótavant eða stafi af því hætta að mati byggingarfulltrúa skal hann gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er.  Sé slíkum ákvörðunum ekki sinnt heimilar 57. gr. laganna að verk sé unnið á kostnað eigenda eða dagsektum beitt til þess að knýja fram úrbætur.  Í gr. 61.6 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er sambærilegt ákvæði þar sem byggingaryfirvöldum er heimilað m.a. að láta rífa hús á kostnað eiganda hafi hann ekki sinnt áskorun um úrbætur en gefa skal viðkomandi eins mánaðar frest áður en ráðist er í aðgerðir nema ef um bráða hættu sé að ræða.  Ákvæði 26., 27., og 36. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem í gildi voru er ákvörðun um niðurrif var tekin, samsvara tilvitnuðum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og eru efnislega á sömu lund.

Ákvörðun um niðurrif húss á kostnað eigenda er verulega íþyngjandi ákvörðun sem verður að hafa ótvíræða stoð í lögum og veigamikil rök verða að liggja að baki slíkri ákvörðun.  Túlka verður 4. mgr. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga svo, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, að óheimilt sé að krefja eigendur mannvirkja um niðurrif þeirra nema að fullreynt sé að ekki verði bætt úr annmörkum með öðrum og vægari hætti.

Fyrir liggur í máli þessu að krafa um niðurrif Litla Króks á árinu 1992 var gegn vilja mikils meirihluta þáverandi erfingja og núverandi eigenda hússins og gögn málsins bera með sér að áhöld eru um hvort meginreglna stjórnsýsluréttarins um andmælarétt og meðalhóf hafi verið gætt við ákvarðanatökuna, auk þess sem vafi leikur á um hvort úr því hafi verið skorið með fullnægjandi hætti að hætta stafaði af umræddu húsi.  Staðreynd er að byggingaryfirvöld framfylgdu ekki ákvörðun sinni um niðurrif um árabil og ekki er vitað til að hætta hafi skapast vegna foks frá húsinu í þau 11 ár sem nú eru liðin frá töku ákvörðunar um niðurrif.  Verður ekki talið í ljósi þessa að bráð hætta stafi af húsinu.

Í 25. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvöldum veitt heimild til, að eigin frumkvæði, að afturkalla ákvörðun sem aðilum hefur verið kynnt þegar svo stendur á að afturköllun verður ekki til tjóns fyrir aðila eða fyrri ákvörðun sé ógildanleg.  Önnur sjónarmið geta og haft þýðingu um það hvort rétt verði talið að stjórnvald afturkalli fyrri ákvörðun.  Þegar litið er til þess að ákvörðunin um niðurrif virðist haldin annmörkum sem gætu leitt til ógildingar hennar, að stjórnvöld hafa ekki framfylgt ákvörðuninni frá árinu 1992 og kærandi hefur ekki sýnt fram á að afturköllun ákvörðunarinnar raski svo hagsmunum hans að réttlæti niðurrif Litla Króks gegn vilja meirihluta eigenda, telur úrskurðarnefndin að byggingarnefnd Reykjavíkur hafi verið rétt að afturkalla fyrri ákvörðun um niðurrif Litla Króks.

Samkvæmt þessu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. febrúar 2001 um að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar og hreppsnefndar Kjalarneshrepps frá 29. janúar og 10. júní 1992 um niðurrif hússins Litla Króks á Kjalarnesi.

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson