Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/2004 Laufás

Ár 2004, fimmtudaginn 13. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2004, kæra G á ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss í Borgarbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. janúar 2004, sem barst nefndinni 28. s.m., kærir G, eigandi sumarhúss að Selási 7 í landi Laufáss í Borgarbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2003.  Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Í lok ágúst 2003 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Hálsabyggð fyrir frístundahús í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Sagði í auglýsingunni að um væri að ræða stækkun skipulagssvæðis frá gildandi uppdrætti og að rými yrði fyrir fleiri frístundahús.  Kærandi á sumarhús á þessu svæði en munu ekki hafa orðið var við auglýsingu umræddrar tillögu.  Var tillagan samþykkt og hófust framkvæmdir á grundvelli hennar í desember 2003.  Í umræddu skipulagi er m.a. gert ráð fyrir að reist verði smáhýsi til útleigu á svonefndri Lambalækjarflöt, sem er skammt norð-vestan við bústað kæranda.  Á lóð nr. 5 á flötinni er gert ráð fyrir að reist verði þjónustuhús, allt að 6 metrar að hæð.  Er það einkum bygging þess og rekstur á svæðinu sem kærandi setur fyrir sig.  Einnig byggir kærandi á því að ekki hafi verið gætt andmælaréttar eigenda sumarhúsa á umræddu svæði við skipulagsgerðina.

Niðurstaða:  Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni höfðu aðrir hagsmunaaðilar þegar kært hina umdeildu ákvörðun, mál nr. 75/2003.  Með tilliti til þess að kærufrestur var liðinn er kæran barst þótti ekki rétt að sameina hana fyrra máli um sömu ákvörðun.  Úrskurðarnefndin hefur nú, með úrskurði fyrr í dag, tekið fyrra kærumál um hina kærðu ákvörðun til efnisúrlausnar og hafnað kröfu kærenda í því máli um ógildingu ákvörðunarinnar.  Á kærandi, að gengnum nefndum úrskurði, ekki lengur lögvarða hagsmun af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar eða um rétt sinn til að fá kæru sína tekna fyrir hjá úrskurðarnefndinni og verður kærumáli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir