Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2003 Heiðargerði

Ár 2004, fimmtudaginn 29. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2003, kæra G, Heiðargerði 76, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 7. maí 2003 um að samþykkja uppdrátt og greinargerð að deiliskipulagi „Heiðargerðisreits“.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 28. júlí 2003, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 8. ágúst s. á, kærir Óskar Sigurðsson hdl., f.h. G, Heiðargerði 76, Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 7. maí 2003 um að samþykkja uppdrátt og greinargerð að deiliskipulagi „Heiðargerðisreits“.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. júlí 2003 að undangenginni afgreiðslu Skipulagsstofnunar og staðfestingu borgarráðs.

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 13. mars 2002 voru lögð fram drög að forsögn að deiliskipulagi „Heiðargerðisreits“, sem afmarkast af helgunarsvæði við Miklubraut til norðurs, Grensásvegi til austurs, Brekkugerði og lóð Hvassaleitisskóla til suðurs og lóðum við Stóragerði til vesturs.  Var samþykkt á fundinum að unnin yrði tillaga að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði á grundvelli framlagðrar forsagnar.  Var íbúum og hagsmunaaðilum á svæðinu greint frá þessum áformum með samhljóða bréfum, dags. 3. apríl 2002, og þeim boðið að koma að ábendingum og hugmyndum um gerð skipulagstillögunnar.

Með bréfi til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 15. september 2002, komu eigendur Heiðargerðis 76, Eggert Guðmundsson og Guðmundur Ó. Eggertsson, kærandi í máli þessu, á framfæri athugasemdum um að þeir teldu að hvorki væri unnið að skipulagsgerðinni á réttum forsendum né í samræmi við fyrirliggjandi forsögn, þar sem ekki hefði verið tekið tillit til þess að húseignin að Heiðargerði 76 væri tvíbýlishús og ætti nýtingarhlutfall lóðarinnar að ráðast af því.  Er í bréfinu vísað til fundar húseigenda með tilgreindum starfsmönnum Borgarskipulags hinn 12. september 2002.

Með bréfum, dags. 20. nóvember 2002, var hagmunaaðilum gefinn kostur á að tjá sig um tillögu að deiliskipulagi svæðisins og fylgdi bréfunum smækkaður uppdráttur að svæðinu ásamt greinargerð skipulagshöfunda.  Athugasemdir og ábendingar bárust frá nokkrum aðilum, þar á meðal frá kæranda, þar sem hann átaldi m.a. að ekki skyldi vera ákvarðað sérstaklega nýtingarhlutfall fyrir sambýlishús á svæðinu, sem væru allmörg, þar á meðal hús hans, sem verið hefði tvíbýlishús allt frá árinu 1954.  Jafnframt taldi kærandi skipulagsuppdráttinn rangan hvað Heiðargerði 76 varðaði.  Munu einhverjar lagfæringar hafa verið gerðar á skipulagstillögunni í tilefni af framkomnum athugasemdum en ekki var fallist á að endurskoða tillöguna varðandi nýtingarhlutfall eignar kæranda.

Hinn 28. febrúar 2003 var birt auglýsing um skipulagstillöguna og frestur veittur til 11. apríl 2003 til að koma að athugasemdum við hana.  Tvær athugasemdir bárust við tillöguna, þar af önnur frá kæranda, sem ítrekaði sjónarmið sín í málinu og lagði hann fram gögn máli sínu til stuðnings.

Að kynningartíma liðnum var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. maí 2003 og lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. maí 2003, um framkomnar athugasemdir.  Var nefndin ekki einhuga í málinu en skipulagstillagan var þó samþykkt á fundinum með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa.  Skipulagstillagan var staðfest í borgarráði 16. júní 2003 og hlaut lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Var auglýsing um gildistöku tillögunnar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. júlí 2003.

Kærandi vildi ekki una hinni kærðu ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 28. júlí 2003, svo sem að framan greinir.

Rétt þykir að taka hér fram að kærandi fékk á árinu 2000 leyfi byggingaryfirvalda til að reisa viðbyggingu við þakhæð hússins að Heiðargerði 76.  Kærðu nágrannar þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem felldi umrætt byggingarleyfi úr gildi með þeim rökum að byggingarleyfið samræmdist ekki ákvæðum aðalskipulags um nýtingarhlutfall og var því hafnað að miða ætti við nýtingarhlutfall sambýlishúsa við úrlausn málsins, þrátt fyrir að tvær samþykktar íbúðir væru að Heiðargerði 76. 

Kærandi leitaði til dómstóla og krafðist ógildingar á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.  Féllst héraðsdómur á kröfur hans en með dómi Hæstaréttar hinn 20. september 2001 var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um ógildingu byggingarleyfisins staðfest.  Var í dómi Hæstaréttar til þess vísað að kærandi hefði áður fengið leyfi til að bæta við hús sitt og eftir þá viðbót hefði nýting lóðar hans verið komin verulega fram yfir það sem almennt hefði verið ákveðið fyrir aðliggjandi byggð.  Með hinu umdeilda byggingarleyfi hefði nýting kæranda á lóðinni aukist enn frekar, til óhagræðis a.m.k. fyrir næstu nágranna, sem taldir voru hafa mátt treysta því að ekki yrði ráðist í frekari stækkun húss kæranda án þess að unnið yrði deiliskipulag þar sem tekið yrði tillit til byggðamynsturs svæðisins.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og byggir kærandi kröfu sína einkum á því að a) ekki sé getið um nýtingarhlutfall tvíbýlishúsa/sambýlishúsa í deiliskipulagstillögunni, b) að skort hafi á kynningu greinargerðar skipulagsfulltrúa og að auglýsa hafi þurft tillöguna að nýju og c) að ósamræmi sé milli greinargerðar og deiliskipulagsuppdráttar.

a)  Nýtingarhlutfall tvíbýlishúsa/sambýlishúsa ekki skilgreint.

Kærandi tekur fram að í greinargerð skipulagshöfundar, lið 2.1, komi fram að tvær íbúðir séu í 11 húsum, sem skipulagið taki til, og einnig sé vitað að þrjár íbúðir séu að minnsta kosti í tveimur húsum við Heiðargerði.

Heiðargerði 76 hafi verið tvíbýlishús frá 15. júní 1954 en þá hafi byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkt teikningar af íbúð í risi.  Vísar kærandi einnig í greinargerð Hjörleifs B. Kvaran, fyrrverandi borgarlögmanns, dags. 9. janúar 2001.  Með þessari samþykkt byggingarnefndar hafi Heiðargerði 76 orðið að tvíbýli og hafi verið það síðan.  Þá megi einnig minna á að með bréfi, dags. 17. september 1955, til Eggerts Grímssonar lóðarhafa að Heiðargerði 76 hafi bæjarráð tilkynnt að það hefði samþykkt að kærandi yrði einnig aðili að lóðarsamningi að Heiðargerði 76.  Þá hafi eignaskiptayfirlýsing milli Eggerts og kæranda, dags. 8. júlí 1956, staðfest af Byggingarsamvinnufélagi Reykjavíkur, verið samþykkt sama dag.  Yfirlýsing þessi hafi verið staðfest af borgarstjóranum í Reykjavík 8. ágúst 1956 og þinglýst 14. ágúst 1956.  Heiðargerði 76 sé því samþykkt tvíbýlishús.

Fasteign kæranda sé sambýlishús og hafi verið út frá því gengið í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 1996-2016, þar sem viðmiðunarnýtingarhlutfall slíkra húsa hafi verið skilgreint 0,5-0,8.  Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem staðfest hafi verið 20. desember 2002, sé ekki getið um nýtingarhlutfall lóða, enda eigi slíkt að útfærast í deiliskipulagi.  Í bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 3. apríl 2002, hafi hins vegar komið fram að þágildandi aðalskipulag og skipulagsáætlanir yrðu lagðar til grundvallar við deiliskipulagsvinnuna.

Bent sé á að Heiðargerði 76 hafi þegar verið orðið tvíbýlishús/sambýlishús þegar almenn ákvæði um nýtingarhlutfall hafi verið tekin upp í aðalskipulagsáætlun Reykjavíkurborgar og því verði við gerð deiliskipulags fyrir viðkomandi svæði að skilgreina nýtingarhlutfall slíkra húsa, sbr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Vegna umfjöllunar í greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 5. maí 2003, telur kærandi nauðsynlegt að taka skýrt fram að þetta mál lúti ekki að því hvort byggingarleyfi verði veitt fyrir framkvæmdum hans að Heiðargerði 76, sem dómur Hæstaréttar frá 20. september 2001 lúti að.  Þetta mál lúti að skilgreiningu nýtingarhlutfalls fyrir tvíbýlishús/sambýlishús í deiliskipulagi í samræmi við skilyrði laga.  Það hvort veitt verði leyfi fyrir framkvæmdinni sé einfaldlega annað mál.  Þá sé það ekki brot á jafnræðisreglum, enda þótt nýtingarhlutfallið sé skilgreint í deiliskipulagi fyrir slík hús.  Það sé lagaleg skylda skipulags- og byggingarnefndar að skilgreina nýtingarhlutfall tvíbýlishúsa/sambýlishúsa í deiliskipulagi og það teljist ekki brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þó að nefndin sinni þeirri skyldu sinni. 

Þá telur kærandi framsetningu í skipulagsgreinargerð á nýtingarhlutfalli fyrir Heiðargerði 3-65 nokkuð villandi, þar sem kvaðir séu á öllum lóðum um akbraut og lagnaleiðir.  Raunnýtingarhlutfall lóðanna sé því mun hærra en fram komi í greinargerðinni, þar sem þeir hlutar þeirra sem teknir séu undir götur nýtist ekki til aukningar byggingarmagns og ættu því að dragast frá við útreikning nýtingarhlutfalls til að fá réttan samanburð við nýtingu lóða á sléttum tölum Heiðargerðis og í Hvammsgerði.

b)  Breyting á greinargerð, skortur á kynningu – auglýsing að nýju.

Í öðru lagi byggir kærandi á því að greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 5. maí 2003, og þá umfjöllun sem þar komi fram, hafi borið að leggja fram til kynningar fyrir íbúa og hagsmunaaðila en ekki einungis fyrir byggingar- og skipulagsnefnd, eins og gert hafi verið.  Í greinargerð skipulagsfulltrúa sé, að mati kæranda, gerð veruleg breyting á skipulagsgreinargerðinni sem og auglýstum uppdrætti, t.d. mælt fyrir um nýtingarhlutfall lóða með öðrum hætti en kynnt hafi verið.  Það hefði því verið rétt að auglýsa tillöguna ásamt skipulagsgreinargerð að nýju, með innfærðum breytingum skipulagsfulltrúa, eða a.m.k. gefa þeim aðilum, sem gert höfðu athugasemdir um þau atriði sem breytingarnar lutu að, sem og öðrum hagsmunaaðilum, kost á að tjá sig um hina breyttu tillögu áður en hún var tekin til afgreiðslu hjá skipulags- og byggingarnefnd.

Bendir kærandi á að í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir að auglýsa beri skipulagstillögu á nýjan leik, sé henni breytt í grundvallaratriðum, en ekki sé skýrt í lagatextanum eða lögskýringargögnum hvað felist í þessu hugtaki. 

Við umfjöllun um hvort um verulega breytingu sé að ræða eða ekki megi hafa til hliðsjónar túlkun á 2. mgr. 26. gr. sömu laga.  Við setningu skipulags- og byggingarlaga hafi komið fram hjá umhverfisnefnd að skýra bæri hugtakið óveruleg breyting á deiliskipulagi í greindu ákvæði laganna þröngt.  Í nefndaráliti sínu hafi nefndin sagt að breytingar þær sem hún legði til að gerðar yrðu með 25. gr. væru í samræmi við breytingar á sams konar greinum um svæðisskipulag og aðalskipulag og miðuðu þær að því að auðvelda aðkomu íbúa sveitarfélagsins að skipulaginu, með hertum kröfum um auglýsingar og kynningu.

Þegar þess sé gætt að skipulags- og byggingarlög byggi á þeirri meginreglu að gefa skuli þeim sem kunni að eiga hagsmuna að gæta kost á að gera athugasemdir við efni skipulagstillagna áður en þær séu endanlega afgreiddar verði að telja að heimild til að gera breytingar frá áður auglýstri deiliskipulagstillögu eða skipulagsgreinargerð, án þess að slík breyting sé auglýst, sé undantekningarregla sem skýra verði þröngt.  Skyldan til að auglýsa breytta tillögu og greinargerð sé því mjög brýn samkvæmt lögum, einkum og sér í lagi í þessu máli, þar sem umrætt hverfi, sem skipulagið taki til, þarfnist sérstaks aðhalds við umfjöllun um skipulag, byggingar og nýtingarhlutfall.

c)  Ósamræmi milli uppdráttar og greinargerðar.

Í þriðja lagi byggir kærandi á því að í ljósi greinargerðar skipulagsfulltrúa sé ósamræmi milli uppdráttar annars vegar og skipulagsgreinargerðar hins vegar. 

Deiliskipulag sé stjórnvaldsákvörðun sem birta skuli annars vegar með skriflegri greinargerð og hins vegar á uppdrætti.  Þess þurfi að gæta að samræmi sé í efni þessara tveggja skjala.  Þau atriði sem koma eigi fram í skipulagi og bindi  stjórnvöld, eigendur og notendur fasteigna, þurfi að koma fram í greinargerðinni og á uppdrættinum.  Miðað við þær breytingar sem skipulagsfulltrúi hafi lagt til í greinargerð sinni og samþykktar hafi verið af hálfu skipulags- og byggingarnefndar sé ljóst að ekki sé samræmi milli þessara tveggja skjala, þ.e. uppdráttar og skipulagsgreinargerðar að því er varði nýtingarhlutfall og skilgreiningu þess.

Málsrök Reykjavíkurborgar:   Hinn 9. júlí 2004 barst úrskurðarnefndinni greinargerð Reykjavíkurborgar í málinu ásamt fylgiskjölum.  Er þess þar krafist að hin kærða ákvörðun verið staðfest.

Um málsástæður kæranda um nýtingarhlutfall er einkum vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 5. maí 2003.  Er þar gerð grein fyrir því að nýtingarhlutfall á lóð kæranda hafi áður komið ítrekað til umfjöllunar í tengslum við leyfi til viðbyggingar sem honum hafi verið veitt hinn 6. júní 2000, en síðar hafi verið fellt úr gildi.  Við meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg hafi Borgarskipulag lagst gegn því að umsóknin yrði samþykkt þar sem meðalnýtingarhlutfall í viðkomandi „botnlanga“ væri um 0,4 en á lóðinni nr. 76 væri það 0,71 fyrir umsóttar breytingar en 0,77 eftir þær.  Þá hafi breytingin ekki verið talin í samræmi við byggðamynstur svæðisins auk þess sem hún hefði í för með sér skuggamyndun á aðliggjandi lóðum.  Embættið hafi því talið að með veitingu byggingarleyfisins væri verið að víkja enn frekar frá yfirbragði og nýtingarhlutfalli á nærliggjandi lóðum en þegar væri orðið.  Hafi umsóknum kæranda um aukið byggingarmagn tvívegis áður verið hafnað á þessum forsendum.

Þessar forsendur hafi ekki breyst að mati embættisins.  Ef heimilað hefði verið í deiliskipulagi að hækka nýtingarhlutfall lóðar kæranda hefði, með tilliti til jafnræðissjónarmiða, orðið að láta sama gilda um aðrar lóðir sem svipað hafi verið ástatt um.  Það hefði hins vegar verið grundvallarbreyting á skipulagi svæðisins. Í þessu sambandi breyti engu þótt lóðinni hafi á sínum tíma verið úthlutað til tveggja aðila eða hvort samþykktar hafi verið tvær íbúðir í húsinu, enda hafi ekki falist í þeim ákvörðunum loforð um hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar.  Megi ráða þetta af úrskurði úrskurðarnefndarinnnar frá 10. nóvember 2000, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar.

Ekki sé ágreiningur um að tvær íbúðir hafi verið samþykktar í húsinu, sem og í fleiri húsum á reitnum.  Borgaryfirvöld telji hins vegar að það eigi ekki að leiða til hækkunar nýtingarhlutfalls þeirra húsa sem svo sé ástatt um og því hafi ekki verið ástæða til að tilgreina það sérstaklega í deiliskipulaginu hvaða hús séu sambýlishús.  Bent sé á að í núgildandi aðalskipulagi sé ekki gerður sá greinarmunur á nýtingarhlutfalli einbýlishúsa og sambýlishúsa sem gerður hafi verið í eldra aðalskipulagi.

Rétt sé að hafa í huga að nýtingarhlutfall í Heiðargerði verði nokkru hærra samkvæmt deiliskipulaginu en það sem miðað hafi verið við í eldri hverfum og verði þéttleiki töluverður.  Í deiliskipulaginu sé verið að leggja línur til framtíðar, taka tillit til byggðarmynsturs og leyfa ákveðna uppbyggingu.  Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur segi ekki fyrir um viðmiðunarnýtingarhlutfall en nýtingarhlutfall deiliskipulagsins sé byggt á faglegu og málefnalegu mati á þeim þéttleika sem þyki hæfa á reitnum. 

Reykjavíkurborg mótmælir því að kynna hafi þurft umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir fyrir hagsmunaaðilum áður en skipulagstillagan yrði afgreidd.  Engin fyrirmæli séu um slíkt í skipulags- og byggingarlögum.  Að auki hafi breytingar þær sem lagt hafi verið til í umsögninni að gerðar yrðu á deiliskipulagstillögunni verið smávægilegar og augljóst m.t.t. ákvæða skipulags- og byggingarlaga að ekki hafi þurft að auglýsa tillöguna á ný.

Talsmaður Reykjavíkurborgar kveðst ekki átta sig fyllilega á þriðju málsástæðu kæranda um að misræmi sé milli uppdráttar og greinargerðar deiliskipulagsins.  Af hálfu borgaryfirvalda sé fullyrt að framsetning deiliskipulagsins sé í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og að samræmi sé milli uppdráttar og greinargerðar.  Þá liggi fyrir í gögnum málsins að deiliskipulagið hafi hlotið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.
 
Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið krefst kærandi ógildingar á ákvörðun borgaryfirvalda um deiliskipulag fyrir „Heiðargerðisreit“.  Teflir kærandi aðallega fram þremur málsástæðum til stuðnings kröfu sinni um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Í fyrsta lagi heldur kærandi því fram að það hafi verið lagaleg skylda skipulags- og byggingarnefndar að skilgreina sérstaklega nýtingarhlutfall tvíbýlishúsa/sambýlishúsa í deiliskipulaginu.  Þessa hafi ekki verið gætt og eigi það að leiða til ógildingar.  Þá sé ekki unnt að fallast á að það hefði talist brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þótt nefndin hefði sinnt þessari skyldu sinni.

Málsástæða þessi virðist reist á þeirri forsendu að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem í gildi var þegar undirbúningur var hafinn að gerð hins umdeilda skipulags, hafi verið mælt fyrir um hærra gildi fyrir sambýlishús en einbýlishús.  Var kveðið svo á um í greinargerð aðalskipulagsins að hafa skyldi þargreinda töflu um nýtingu eftir húsagerðum til viðmiðunar og var þar miðað við að nýtingarhlutfall einbýlishúsa væri 0,2 – 0,4 en sambýlishúsa (2-5 íbúðir) 0,5 – 0,8.

Eins og tafla þessi var sett fram var augljóst að henni var ætlað að vera til viðmiðunar við ákvörðun um nýtingarhlutfall í íbúðarhverfum víðast hvar í borginni.  Verður að telja, með hliðsjón af ákvæði 3.1.4 í skipulagsregugerð nr. 400/1998, að heimilt hefði verið að ákveða í deiliskipulagi fast gildi fyrir nýtingarhlutfall, að því tilskyldu að það væri innan tilgreindra marka aðalskipulags.  Samræmdist það því ákvæðum Aðalskipulags  Reykjavíkur 1996 – 2016 að gera tillögu um að nýtingarhlutfall fyrir hús kæranda yrði 0,5 svo sem gert var, jafnvel þótt fallist hefði verið á að skilgreina hefði átt húsið sem sambýlishús.  Þá var jafnframt heimilt að leggja til hærra nýtingarhlutfall fyrir einbýlishús en viðmiðunartaflan gerði ráð fyrir, enda var í aðalskipulaginu ótvíræð heimild til þess að víkja í deiliskipulagi frá ákvæðum aðalskipulags um nýtingarhlutfall til hækkunar.  Við gerð hinnar umdeildu skipulagstillögu var nýtingarhlutfall m.a. látið ráðast af  því hvort kjallari væri undir húsum en í aðalatriðum virðist hafa verið stefnt að því að sem mest jafnræði ríkti um nýtingu lóða á svæðinu.

Þegar lokið var vinnu við gerð hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu hafði nýtt aðalskipulag Reykjavíkur tekið gildi.  Með hliðsjón af 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 bar borgaryfirvöldum að tryggja að skipulagstillagan samræmdist hinu nýja aðalskipulagi, sem tekið hafði gildi þegar tillagan var auglýst til kynningar hinn 28. febrúar 2003.  Voru þá ekki lengur í gildi áðurgreind ákvæði eldra aðalskipulags um nýtingarhlutfall til viðmiðunar fyrir einstakar húsagerðir.  Verður með hliðsjón af þessu að telja að skipulagsyfirvöldum hafi verið heimilt að ákveða nákvæmlega það nýtingarhlutfall sem talið var hæfilegt með hliðsjón af markmiðum skipulagsforsagnar og almennri stefnu nýs aðalskipulags Reykjavíkur um þéttleika byggðar.  Verður ekki annað ráðið en að málefnalegar ástæður hafi legið að baki ákvörðun borgaryfirvalda um nýtingarhlutfall í hinu umdeilda deiliskipulagi og að ákvarðanir skipulagsins fullnægi lagaskilyrðum.  Verður því ekki fallist á að ógilda beri hina kærðu ákvörðun vegna annmarka á ákvæðum hennar um nýtingarhlutfall.

Í öðru lagi heldur kærandi því fram að kynna hefði átt hagsmunaaðilum umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir og að skylt hafi verið að auglýsa tillöguna að nýju vegna þeirra breytinga sem á henni voru gerðar eftir kynningu hennar.

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um málsmeðferð eftir að sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi.  Kemur þar fram að  taka skuli afstöðu til þess hvort breyta skuli skipulagstillögu vegna framkominna athugasemda, en af ákvæðinu verður ráðið að umsögn skipulagsnefndar skuli koma til umfjöllunar í sveitarstjórn.  Er ekki kveðið á um að sú umsögn skuli kynnt hagsmunaaðilum sérstaklega en senda skal þeim sem athugasemdir gerðu umsögn sveitarstjórnar um þær eftir að hún hefur afgreitt tillöguna.  Verður ekki fallist á að borgaryfirvöldum hafi borið að kynna hagsmunaaðilum umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir svo sem kærandi heldur fram, enda er slík málmeðferð ekki áskilin að lögum.  Verður ekki heldur fallist á að skipulagstillögunni hafi verið breytt í svo veigamiklum atriðum að skylt hafi verið að auglýsa hana að nýju, enda var tillögunni ekki breytt í grundvallaratriðum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.

Loks heldur kærandi því fram að ósamræmi sé milli skipulagsuppdráttar og greinargerðar er ógildingu varði. 

Úrskurðarnefndin fellst ekki á að um slíkt misræmi sé að ræða.  Greinargerð hins umdeilda skipulags er ekki færð inn á uppdráttinn og er það fyrirkomulag í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, gr. 5.1.1.  Afgreiddi Skipulagsstofnun uppdrátt og greinargerð skipulagsins með ábendingu um að betur þyrfti að gera grein fyrir aðkomu að tilgreindum húsum og var farið að þeim tilmælum.  Verður ekki annað séð en að með þeirri lagfæringu hafi skipulagsgögnunum verið komið í lögmætan búning.

Engar aðrar ástæður hafa komið fram er leiða ættu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á staðfestri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 7. maí 2003 um að samþykkja uppdrátt og greinargerð að deiliskipulagi „Heiðargerðisreits“.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir