Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2003 Miðhraun

Ár 2004, fimmtudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2003, kæra eiganda Miðhrauns I, Eyja- og Miklaholtshreppi, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, á samþykkt hreppsnefndar Eyja- og Miklaholtshrepps frá 24. mars 2003 á deiliskipulagi fyrir vatnsaflsvirkjun í fjallinu fyrir ofan Miðhraun í nefndum hreppi og eftirfarandi staðfestingu Skipulagsstofnunar á því deiliskipulagi og atriðum það varðandi frá 30. maí og 3. júlí s.á.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júlí 2003, er barst nefndinni hinn 16. júlí sama ár, kærir Ólafur Sigurgeirsson hrl., fyrir hönd Miðhrauns I ehf., kt. 500101-3340, eiganda Miðhrauns I, Eyja- og Miklaholtshreppi, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, þá ákvörðun hreppsnefndar Eyja- og Miklaholtshrepps frá 24. mars 2003 að samþykkja deiliskipulag fyrir vatnsaflsvirkjun í fjallinu fyrir ofan Miðhraun í nefndum hreppi og staðfestingu Skipulagsstofnunar á því deiliskipulagi og atriðum það varðandi frá 30. maí og 3. júlí s.á.  Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 12. október 2002, fór hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps þess á leit við Skipulagsstofnun, með vísan til 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að hún heimilaði auglýsingu til kynningar á deiliskipulagstillögu um heimilisrafstöð í landi Miðhrauns.  Ástæða erindisins var sú að ekki hafði verið gert aðalskipulag fyrir hreppinn.  Var þess jafnframt óskað í greindu bréfi að stofnunin tæki afstöðu til þess hvort ráðgerðar framkvæmdir samkvæmt skipulagstillögunni væru háðar mati á umhverfisáhrifum.

Umrædd deiliskipulagstillaga laut að því að heimila allt að 500 kw vatnsaflvirkjun til heimanota í Grímsá í landi Miðhrauns.  Í tillögunni var gert ráð fyrir um 30 metra langri stíflu  ásamt allt að 80 fermetra stöðvarhúsi auk stofnlagnar og vegar frá stíflu að stöðvarhúsi.

Með bréfi, dags. 24. október 2002, heimilaði Skipulagsstofnun á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga að fyrrnefnd deiliskipulagstillaga yrði auglýst til kynningar.  Mun tillagan hafa verið auglýst í Lögbirtingablaði og Skessuhorni til kynningar frá 14. nóvember til 11. desember 2002 með fresti til athugasemda til 25. desember s.á.  Athugasemdir bárust frá fimm aðilum, m.a. af hálfu kæranda í bréfi, dags. 17. desember 2002, þar sem bent var á að fyrirhuguð virkjun yrði í óskiptu landi jarðanna Miðhrauns I og II og að ekki væri fært að auglýsa tillöguna án samþykkis allra landeigenda.

Skipulags- og byggingarnefnd hreppsins tók málið fyrir á fundi hinn 24. febrúar 2003 og lagði til við hreppsnefnd að deiliskipulagstillagan yrði samþykkt óbreytt.  Hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps staðfesti síðan skipulagstillöguna á fundi sínum hinn 24. mars 2003 ásamt umsögnum skipulags- og byggingarnefndar um framkomnar athugasemdir.  Var lögmanni kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 22. maí 2003.  Deiliskipulagið var að því búnu sent til umsagnar Skipulagsstofnunar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 30. maí s.á., að ekki væru gerðar athugasemdir við að birting auglýsingar um gildistöku skipulagsins færi fram í B-deild Stjórnartíðinda.

Aðili að hinum umræddu virkjunarframkvæmdum, eigandi Miðhrauns II, tilkynnti Skipulagsstofnun fyrirhugaðar framkvæmdir með bréfi, dags. 14. apríl 2003, og tilkynnti stofnunin í bréfi til framkvæmdaraðila, dags. 3. júlí 2003, að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi hefur nú skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt deiliskipulagsins og afstöðu Skipulagsstofnunar til birtingar þess í B-deild Stjórnartíðinda og ákvörðun stofnunarinnar um að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt skipulaginu skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til þess að land það sem umdeilt deiliskipulag taki til sé í óskiptri sameign kæranda og eiganda Miðhrauns II svo sem ráða megi af landamerkjabréfum Miðhrauns I og II.  Umdeild virkjun sé í fjallinu fyrir ofan Miðhraun og í báðum landamerkjabréfum komi fram að fjallland jarðarinnar Miðhrauns sé í óskiptri sameign hinna uppskiptu jarðarhluta.  Ekkert samráð hafi verið haft við kæranda við skipulagsgerðina og telji hann það andstætt eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar að heimila tilteknar framkvæmdir með deiliskipulagningu lands án vilja eigenda. 

Málsrök Eyja- og Miklaholtshrepps:  Bent er á að aldrei hafi komið fram efnisleg rök fyrir því að hafna umræddu deiliskipulagi og framkvæmdum þeim sem þar séu heimilaðar á þessu stigi málsins.  Kæranda hafi verið kunnugt um skipulagsgerðina og Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við að deiliskipulagið yrði auglýst til kynningar.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Þar sem kæra í máli þessu snýr m.a. að atbeina Skipulagsstofnunar að hinu kærða deiliskipulagi var stofnuninni gefinn kostur á að lýsa viðhorfum sínum til kæruefnisins og barst umsögn frá stofnuninni, dags. 10. maí 2004.

Skipulagsstofnun telur að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Sveitarstjórnir annist gerð skipulagsáætlana samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og sé meginreglan sú að einstaklingar eða lögaðilar geti ekki takmarkað skipulagsvald þeirra.  Við leyfisveitingar sveitarstjórna til framkvæmda með byggingar- eða framkvæmdaleyfum þurfi hins vegar að liggja fyrir heimildir landeigenda eða eftir atvikum heimild til eignarnáms til þess að hrinda skipulagsáætlunum í framkvæmd.

Niðurstaða:  Auk kröfu um ógildingu samþykktar hreppsnefndar á hinu umdeilda deiliskipulagi gerir kærandi kröfu um ógildingu á afstöðu Skipulagsstofnunar til auglýsingar um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda frá 30. maí 2003 og afstöðu stofnunarinnar frá 3. júlí s.á. til þess hvort heimilaðar framkvæmdir samkvæmt deiliskipulaginu væru háðar mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn.  Telji stofnunin að form- eða efnisgallar séu á skipulagi sem henni hefur verið sent skal hún koma athugasemdum sínum þar að lútandi til sveitarstjórnar.  Umsögn Skipulagsstofnunar í þessu efni ræður ekki úrslitum um hvort deiliskipulag taki gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og telst því ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kröfu kæranda um ógildingu á afstöðu Skipulagsstofnunar til birtingar umrædds deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Þá verður kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu heimilaðra framkvæmda samkvæmt deiliskipulaginu jafnframt vísað frá úrskurðarnefndinni, en málskot þeirrar ákvörðunar á undir umhverfisráðherra skv. lokamálsgrein 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Með hinni kærðu ákvörðun hreppsnefndar Eyja- og Miklaholtshrepps var samþykkt deiliskipulag fyrir vatnsaflsvirkjun í landi Miðhrauns.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að ólík sjónarmið séu uppi milli kæranda og eiganda Miðhrauns II um eignarhald á landi því sem ætlað er undir virkjunarmannvirkin.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga annast sveitarstjórn og ber ábyrgð á gerð deiliskipulags.  Í téðu ákvæði er tekið fram að landeiganda eða framkvæmdaraðila sé þó heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á gildandi deiliskipulagi á sinn kostnað.  Ákvæði þetta eða önnur ákvæði skipulags- og byggingarlaga gefa ekki tilefni til þeirrar ályktunar að skipulagsvaldi sveitarstjórna sé takmörk sett vegna eignarhalds á landi.  Hins vegar ber sveitarstjórnum skv. 4. mgr. 9. gr. laganna eftir föngum að leita eftir sjónarmiðum og tillögum þeirra er hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið við skipulagsgerð og á ákvæði þetta ekki síst við um þá sem ætla má að eigi land það sem skipulag tekur til.  Ekki liggur fyrir að slíkt samráð hafi verið haft við kæranda við umrædda deiliskipulagsgerð og verður að telja það annmarka á málsmeðferð skipulagsins eins og á stóð.

Eins og hér stendur sérstaklega á þykir þó þessi annmarki ekki eiga að ráða úrslitum um gildi umdeildrar skipulagsákvörðunar enda eru framkvæmdir í skjóli skipulagsins háðar samþykki kæranda, eigi staðhæfingar hans um eignarhald á hinu skipulagða svæði við rök að styðjast, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Að þessu virtu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu á afstöðu Skipulagsstofnunar til auglýsingar um gildistöku hins kærða deiliskipulags, frá 24. mars 2003 fyrir vatnsaflsvirkjun í fjallinu fyrir ofan Miðhraun í Eyja- og Miklaholtshreppi, í B-deild Stjórnartíðinda frá 30. maí 2003 og á afstöðu stofnunarinnar frá 3. júlí 2003 til þess hvort heimilaðar framkvæmdir samkvæmt deiliskipulaginu væru háðar mati á umhverfisáhrifum er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kröfu um ógildingu á ákvörðun hreppsnefndar í nefndum hreppi um að samþykkja framangreint deiliskipulag er hafnað.

________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________      _____________________________
             Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir