Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2003 Laugarásvegur

Með

Ár 2003, mánudaginn 21. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2003, kæra húseigenda að Laugarásvegi 22 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2003 um að veita leyfi til byggingar bílgeymslu o.fl. að Laugarásvegi 24.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júlí 2003, kæra G, I, P og S, húseigendur að Laugarásvegi 22 í Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2003 um að veita leyfi til byggingar bílgeymslu o.fl. að Laugarásvegi 24.  Hin kærða ákvörðun var staðfest af borgarstjórn Reykjavíkur hinn 30. apríl 2003.

Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þeir krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin úrskurði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu bílgeymslunnar.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Reykjavík til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Hinn 4. janúar 1972 var samþykktur í borgarráði Reykjavíkur skipulagsuppdráttur að byggingarsvæði vestan Laugarásvegar og tekur uppdrátturinn til lóðanna nr. 2-30, jafnar tölur, við götuna.  Uppdrætti þessum fylgdu skilmálar fyrir einbýlishús við Laugarásveg 2-30.  Á nefndum skipulagsuppdrætti eru sýnd mörk lóða á svæðinu.  Innan hverrar lóðar eru skyggðir fletir, afmarkaðir með misbreiðum línum og að auki reitir afmarkaðir af brotnum línum, sem ekki falla saman við hina skyggðu fleti.  Verður helst ráðið af uppdrættinum að gert sé ráð fyrir að bílskúrar verði byggðir á norðurmörkum hverrar lóðar og að mynstur byggðarinnar verði nokkuð fastmótað.  Á uppdrættinum eru að auki sýndir grunnfletir fimm húsa sem fyrir voru á svæðinu og er húsið nr. 24 við Laugarásveg eitt þeirra.  Engar skýringar eru á uppdrættinum en í niðurlagi skilmála þeirra er honum fylgdu segir svo:  „Ábending um fyrirkomulag húss er sýnt á skipulagsuppdrætti.“  Í 2. gr. skilmálanna segir að hús skuli staðsett innan byggingarreits, sem sýndur sé á mæliblaði.  Þá segir að staðsetning bílskúrs og stærðarmörk séu sýnd á mæliblaði.  Óski lóðarhafi að hafa aukabílgeymslu á lóðinni sé það heimilt innan reits þess sem ætlaður sé fyrir íbúðarhúsið.

Ekki var í framangreindu skipulagi tekin afstaða til afdrifa þeirra húsa sem fyrir voru á svæðinu.  Húsið á lóðinni nr. 24 við Laugarásveg mun hafa verið byggt árið 1943 og mun þá hafa verið gert ráð fyrir bílgeymslu í húsinu með aðkomu frá Sunnuvegi.  Sú aðkomuleið lagðist síðar af vegna breytts skipulags og var rými því sem ætlað var fyrir bílgeymslu breytt í vinnustofu.  Er umrætt hús án bílgeymslu af þessum sökum.

Hinn 10. apríl 1972 gaf gatnamálastjórinn í Reykjavík út mæliblað fyrir lóðirnar nr. 18-30 við Laugarásveg, jafnar tölur, og er á mæliblaðinu vísað til framangreinds skipulags.  Eru byggingarreitir þar afmarkaðir en ekki eru þar sýndir sérstakir byggingarreitir að lóðamörkum fyrir bílgeymslur.  Mun byggingum á óbyggðum lóðum á svæðinu hafa verið hagað í samræmi við mæliblað þetta og sambærileg mæliblöð annarra lóða og munu þess engin dæmi að bílgeymslur hafi verið byggðar á lóðamörkum á svæðinu eftir að framangreint skipulag var samþykkt. 

Með bréfi, dags. 17. október 2001, sendi eigandi hússins að Laugarásvegi 24 fyrirspurn til byggingarfulltrúans í Reykjavík um byggingu bílskúrs á lóðinni.  Var erindið tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa þann 6. nóvember 2001 og vísað til Borgarskipulags.  Á fundi sínum þann 16. nóvember s.á. svaraði skipulagsstjóri Reykjavíkur erindinu jákvætt þar sem það samræmdist skipulagi.  Hinn 27. nóvember 2001 afgreiddi byggingarfulltrúi fyrirspurnina með svohljóðandi bókun:  „Jákvætt.  Að uppfylltum skilyrðum“.

Í byrjun árs árið 2003 barst byggingarfulltrúa umsókn sem byggði á framangreindri fyrirspurn.  Var hún til skoðunar á fundum byggingarfulltrúa þann 4. og 25. febrúar s.á.  Var á þeim fundum bókað að lagfæra þyrfti umsóknina, sbr. athugasemdir embættisins.  Ein af athugasemdum byggingarfulltrúa laut að því að samþykki lóðarhafa á lóðinni nr. 22 þyrfti að fylgja umsókninni.  Á fundi byggingarfulltrúa þann 18. mars var umsókninni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem afgreiddi erindið þann 28. mars 2003 með svofelldri bókun:  „Neikvætt, samræmist ekki skipulagi þar sem bílgeymsla fer út fyrir byggingarreit. Verði það lagfært gerir embættið ekki athugasemd við erindið.“  Í kjölfar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frestaði byggingarfulltrúi afgreiðslu erindisins á fundi sínum þann 1. apríl 2003, með vísan til bókunar skipulagsfulltrúa.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 8. apríl 2003 var umsóknin hins vegar samþykkt, en að sögn byggingaryfirvalda höfðu þá verið gerðar lagfæringar á teikningum og staðsetningu bílgeymslunnar breytt.

Í kjölfar samþykktar byggingarleyfisins barst byggingarfulltrúa bréf kærenda, dags. 19. maí 2003, þar sem byggingarleyfinu er mótmælt og varpað fram þeirri hugmynd til lausnar að bílskúrinn verði grafinn niður.  Í tilefni bréfs þessa sendi byggingarleyfis¬hafinn einnig bréf til byggingarfulltrúa, dags. 27. júní 2003, þar sem bréfi kærenda var mótmælt en boðið til sátta að mjókka bílskúrinn um 50-60 cm og færa hann fram, þ.e. nær Laugarásvegi.  Í kjölfar þessa munu byggingaryfirvöld hafa átt fundi með kærendum og byggingarleyfishafa í því skyni að leita lausnar á málinu sem báðir aðilar gætu sætt sig við, en ekki náðist að sætta aðila. 

Þegar ljóst þótti að ekki fyndist lausn á málinu sem kærendur gætu fellt sig við vísuðu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 14. júlí 2003, svo sem að framan greinir, en framkvæmdir við bygginguna voru þá hafnar. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hið kærða byggingarleyfi sé ógildanlegt þar sem það samræmist ekki deiliskipulagi svæðisins.  Bílgeymslan fari út fyrir byggingarreit sem sýndur sé á mæliblaði lóðarinnar.  Ekki hafi verið byggt á umræddu svæði eftir skipulagsuppdrætti svæðisins heldur hafi við framkvæmdir á svæðinu sl. 30 ár verið stuðst við þá byggingarreiti sem sýndir séu á mæliblöðum og hafi ekkert annað hús á svæðinu verið byggt með þessum hætti.  Furðu gegni að nú, á árinu 2003, hafi verið hægt að fá leyfi byggingarfulltrúa til að byggja bílskúr á lóðamörkum án þess að grenndarkynning hafi farið fram, þrátt fyrir að framkvæmdin gangi þvert á þær venjur sem hafðar hafi verið í heiðri við framkvæmdir á svæðinu undanfarin 30 ár.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram að deiliskipulag reitsins, eins og það hafi verið samþykkt 1972, heimili byggingu bílskúrs á mörkum lóðanna nr. 22 og 24.  Byggingarleyfið sé í samræmi við deiliskipulagið enda sé skúrinn innan þess reits sem sýndur sé á skipulagsuppdrættinum.  Mæliblöð eigi að vera í samræmi við skipulagsuppdrætti og geti rangt mæliblað ekki breytt heimildum skipulags.

Í raun þurfi einungis að svara tveimur spurningum í máli þessu til þess að komast að niðurstöðu um það hvort byggingarleyfið sé lögmætt.  Sú fyrri lúti að gildi deiliskipulagsins og hin síðari að því hvort framkvæmd skipulagsins hafi breytt skipulaginu.  Með breytingu á skipulags- og byggingarlögum, sbr. lög nr. 117/1999, hafi 11. tl. verið bætt við ákvæði til bráðabirgða með lögunum.  Ákvæðið svari í raun báðum framangreindum spurningum.  Samkvæmt nefndu ákvæði sé deiliskipulagið örugglega í gildi.  Það að framkvæmd skipulagsins hafi verið önnur en skipulagið hafi gert ráð fyrir breyti ekki þeirri niðurstöðu, enda geri ákvæðið sérstaklega ráð fyrir að slík staða geti komið upp.  Samkvæmt ákvæðinu megi í slíkum tilvikum ekki veita byggingarleyfi þegar um veruleg frávik sé að ræða nema endurskoða skipulagið fyrst, enda sé um verulega framkvæmd að ræða.  Í því tilviki sem hér um ræði sé a.m.k. annað þessara skilyrða örugglega ekki uppfyllt því fráleitt sé um verulega framkvæmd að ræða.  Umfang hennar sé lítið, aðeins sé um að ræða byggingu einfalds bílskúrs á einni lóð, auk þess sem grenndaráhrif byggingarinnar séu ekki veruleg.  Beri því, með vísan til framanritaðs, að hafna kröfum kærenda í málinu. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Í greinargerð Guðmundar B. Ólafsson hdl., f.h. K, byggingarleyfishafa, sem úrskurðarnefndinni hefur borist, er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að kröfum kærenda verði hafnað og að hin kærða ákvörðun verði staðfest. 

Frávísunarkröfu sína styður lögmaðurinn þeim rökum að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og beri því að vísa málinu frá.  Við mat á kærufresti beri að miða í síðasta lagi við dagsetningu bréfs kærenda til skipulagsnefndar þann 19. maí 2003.  Því hafi kærufrestur, sem sé einn mánuður, verið liðinn þegar kæran hafi borist úrskurðarnefndinni hinn 15. júlí 2003. 

Um þá málsástæðu kærenda að byggingar á umræddri lóð ráðist af mæliblaði áréttar byggingarleyfishafi að mæliblaðið sé ekki í samræmi við samþykkt skipulag og skipulagsuppdrátt frá 1972 og hafi því engin lögformleg réttaráhrif og geti kærendur ekki byggt rétt sinn á því.  Uppdráttur á mæliblaði af staðsetningu húsa sé ekki byggingarreitur í skilningi skipulagslaga, heldur beri að miða við samþykkt deiliskipulag, en þar komi skýrt fram leiðbeinandi ábending um fyrirkomulag húsa.

Samþykki fyrir útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis hafi byggst á fyrirliggjandi deiliskipulagi og sé leyfið í samræmi við rétt eiganda til að byggja bílgeymslu á lóðinni.  Hér sé um verulegt hagsmunamál að ræða, en stöðvun framkvæmda myndi leiða til verulegs fjárhagstjóns fyrir byggingarleyfishafa.  Gera verði mjög ríkar kröfur til kærenda að sýna fram á að leyfisveitingin brjóti í bága við lög eða rétt þeirra, en kærendur hafa ekki rökstutt kæru sína með neinum öðrum hætti en með vísun til mæliblaðs sem samræmist ekki skipulagi.  Því beri að hafna kröfum um stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snúist um hvort heimilt hafi verið að veita leyfi fyrir bílgeymslu í samræmi við skipulag.  Laugarásvegur 24 sé eina húsið við götuna sem ekki hafi bílgeymslu.  Hér beri einnig að hafa í huga ákveðin sjónarmið um jafnræði, einkum í ljósi þess að húsið nr. 24 hafi verið byggt löngu fyrr en aðrar byggingar í hverfinu og skeri sig úr, bæði hvað varði útlit og skipulag lóðar. 

Aðilar máls þessa hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Fallast má á með byggingarleyfishafa að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber, þegar svo stendur á, að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tl. ákvæðisins.  Fyrir liggur að kærendur kvörtuðu til byggingaryfirvalda skömmu eftir að þeim varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun og að kærufrestur var þá ekki liðinn.  Sáttaumleitanir stóðu um tíma fyrir milligöngu byggingaryfirvalda og munu kærendur hafa sent kæru sína til úrskurðarnefndarinnar í framhaldi af því að upp úr sáttaviðræðum slitnaði.  Þá verður ekki séð að kærendum hafi verið leiðbeint af hálfu byggingaryfirvalda um kærurétt og kærufrest meðan á viðræðum þessu stóð.  Leiðir af atvikum þessum að afsakanlegt verður að telja að kæran barst ekki fyrr, enda máttu kærendur ekki vænta þess að sáttaviðræður aðila gætu leitt til réttarspjalla.  Ber af þessum sökum að hafna frávísunarkröfu byggingarleyfishafa.

Eins og að framan er rakið er í máli þessu efnislega deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 8. apríl 2003 um að veita leyfi til byggingar bílgeymslu o.fl. að Laugarásvegi 24.  Hið umdeilda leyfi er af hálfu byggingaryfirvalda talið eiga stoð í deiliskipulagi því frá 1972, sem að framan er lýst.  Verulegur vafi þykir leika á um túlkun umrædds skipulags, svo sem hversu bindandi uppdráttur þess sé um staðsetningu húsa á svæðinu.  Einnig leikur vafi á um það hvort í umræddu skipulagi hefði getað rúmast heimild til að reisa bílgeymslu á lóðamörkum, að hluta til á tveimur hæðum, þegar litið er til 18. gr. skipulagsreglugerðar nr. 217/1966, sem í gildi var þegar skipulagið var samþykkt.  Þá liggur fyrir að vikið hefur verið í verulegum atriðum frá skilmálum skipulagsins við uppbyggingu á svæðinu.  Hafa þannig verið reist parhús á allmörgum lóðum í stað einbýlishúsa svo sem skilmálar kveða á um.  Loks hafa ekki í neinum tilvikum verið byggðar bílgeymslur á lóðamörkum í samræmi við þá ábendingu sem sýnd var á skipulagsuppdrætti.

Umrætt skipulag ber hvorki með sér að hafa hlotið samþykki skipulagsstjóra ríkisins né hafa verið auglýst.  Styðst gildi þess því við 11. tl. til bráðbirgða með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sbr. 2. gr. laga nr. 117/1999 um breytingu á þeim.  Í 2. málslið tilvitnaðs 11. tl. segir að þegar sótt sé um byggingarleyfi í götureit eða reit þar sem framkvæmt hafi verið í verulegu ósamræmi við samþykkt deiliskipulag skuli endurskoðun á deiliskipulagi fara fram áður en byggingarleyfisumsókn sé afgreidd, enda sé um verulega framkvæmd að ræða.  Telur úrskurðarnefndin að með hliðsjón af því að í umræddum 11. tl. er í veigamiklum atriðum vikið frá lagareglum er varða meðferð og birtingu skipulagsákvarðana verði að túlka heimildir ákvæðisins þröngt. Þarf úrskurðarnefndin að meta hvort umrædd framkvæmd teljist veruleg.

Með hliðsjón af framansögðu þykir svo mikill vafi leika á um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar að rétt sé að fallast á kröfu kærenda um að framkvæmdir skuli stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru við byggingu bílgeymslu að Laugarásvegi 24 í Reykjavík, samkvæmt byggingarleyfi frá 8. apríl 2003, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Óðinn Elísson

38/2003 Viðarrimi

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 10. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2003, kæra eigenda húseignarinnar að Viðarrima 47 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2002 um að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta, steinsteypta viðbyggingu við norður- og austurhlið einbýlishúss að Viðarrima 49.
 

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júní 2003, kæra H og G, eigendur fasteignarinnar að Viðarrima 47 í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2002 að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta, steinsteypta viðbyggingu við norður- og austurhlið einbýlishúss að Viðarrima 49.  Hin kærða ákvörðun var staðfest af borgarráði Reykjavíkur, í umboði borgarstjórnar, þann 2. júlí 2002.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði þegar upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu viðbyggingarinnar.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Reykjavík til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Málavöxtum verður hér aðeins lýst stuttlega að því marki er þurfa þykir við úrlausn um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Fasteignirnar að Viðarrima 47 og 49 eru á svæði sem byggst hefur upp á grundvelli deiliskipulags sem samþykkt var í borgarráði hinn 4. júní 1991.  Samkvæmt skipulagsskilmálum er gert ráð fyrir fjölbreytni í gerð húsa á svæðinu.  Byggingarreitir setja staðsetningu húsa á lóðum rúmar skorður og gefa kost á byggingu allstórra húsa.  Nýtingarhlutfall er ekki tilgreint í umræddu skipulagi.  Á lóðum á því svæði við Viðarrima sem hér skiptir máli er gert ráð fyrir einbýlishúsum á einni hæð.  Á þessu svæði ganga stuttir botnlangar norður úr Viðarrima og standa fjögur hús við hvern þeirra, en sunnan götunnar er einföld húsaröð.  Húsin á lóðunum nr. 43-53 við Viðarrima (stök númer) voru reist á árunum 1992 til 1994 og er nýtingarhlutfall þeirra lóða á bilinu 0,2 – 0,27.  Er gerð þessara húsa nokkuð breytileg.

Fyrir liggur að við byggingu hússins að Viðarrima 49 hefur norðvesturhorn bílgeymslu verið byggt nokkuð út fyrir byggingarreit á um 3,5 metra bili miðað við framhlið hússins, en ekki er til þess vitað að fram hafi komið athugasemdir af því tilefni á byggingartíma þess.

Eigendur Viðarrima 49 óskuðu eftir leyfi til að byggja við hús sitt til norðurs, innan þess byggingarreits sem markaður er á lóðinni í gildandi skipulagi svæðisins.  Var það mat byggingarfulltrúa að umrædd viðbygging samræmdist skilyrðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og féllst hann því á að veita umbeðið leyfi.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að húsið að Viðarrima 49 sé nú þegar komið út fyrir byggingarreit.  Með því hafi bílskúr verið stækkaður og sé hann stærri en leyfilegt sé, sbr. byggingarreglugerð nr. 441/1998, gr 113.1.  Þessi breyting á byggingarreit hafi aldrei verið kynnt fyrir öðrum húseigendum sem þarna búi, en telja verði eðlilegt að það hefði verið gert.  Við þessa breytingu og vegna ólöglegrar fjarlægðar hússins frá götu hafi innkeyrsla að bílskúr og bílastæði orðið mjög brött og hafi þess vegna þurft að lækka gólfplötu í bílskúr umtalsvert, en kærendum sé ekki kunnugt um hvort leyfi hafi verið fyrir lækkun gólfsins.

Í skipulagsskilmálum fyrir Rimahverfi þá sé þess getið og sýnt á teikningum að hús ofan götu skuli vera 6 m frá götu.  Samkvæmt teikningum fyrir Viðarrima 49, dagsettum þann 27. maí 1992, sé fjarlægð frá götu sýnd 6 metrar.  Ef þessi sama teikning sé skoðuð megi sjá að fjarlægð frá götu sé miðuð við bílgeymsluhurð, sem sé inndregin um einn metra undir skyggni á húsinu, en ekki sé miðað við útveggi hússins eins og rétt sé að gera.  Á þeim teikningum sem nú hafi verið gerðar og dagsettar séu 19. júní 2002 breytist talan og sé þar tilgreint að fjarlægð frá húsi að götu sé 5 metrar.  Með þessari breytingu á fjarlægð húss frá götu hafi byggingarreitur verið stækkaður um ca. 22 m².

Kærendur telja að með fyrirhugaðri viðbyggingu og þeim sólpalli sem nú þegar sé á lóðinni verði lóðin ofnýtt.  Búið sé þá að nýta nánast allan byggingarreit hússins og mjög lítið verði eftir af láréttum lóðarfleti.

Einnig megi spyrja hver verði notkunin á viðbyggingunni og hver hin raunverulega þörf sé, hvort verið sé að byggja til að fjölga svefnherbergjum eða til að koma fyrir aukaíbúð við húsið, en slíkt sé andstætt skipulagi.  Af teikningum verði ekki annað ráðið en að til standi að byggja langt út fyrir þá stærð sem þrjú svefnherbergi þarfnist.  Engir steyptir burðarveggir séu í rýminu og sérinngangur sé hafður á vesturhlið hússins, en þessi atriði geri það að verkum að auðvelt sé að nýta þessa viðbyggingu á hvern þann máta sem eigendur kjósi nú eða í framtíðinni.  Það sé alþekkt að fólk leigi út frá sér íbúðir þó að það stangist á við lög og reglugerðir og hafi oftar en ekki verið erfitt að koma í veg fyrir það.

Nýting á byggingarreit hljóti að verða að taka mið af því að ekki séu skertir möguleikar annarra til að njóta útsýnis, friðsældar og sólar.  Meginatriði málsins sé sú röskun sem viðbyggingin hafi í för með sér á byggingartímanum og þau áhrif sem byggingin hafi á umhverfið, sem kærendur geti ekki sætt sig við.

Loks árétta kærendur í samandregnu máli nokkur meginatriði um stærðir, fjarlægðir frá götu og lóðamörkum, tilfærslu á byggingarreit o.fl., sem þau telja að líta beri til við úrlausn máls þessa.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram að hið umdeilda byggingarleyfi samræmist að öllu leyti því deiliskipulagi sem það byggi á og hafi kærendur ekki fært fram nein þau rök sem við skoðun geti leitt til annarrar niðurstöðu.  Það að leyft hafi verið að byggja húsið út fyrir byggingarreit á sínum tíma hafi enga þýðingu fyrir gildi þess byggingarleyfis sem nú sé kært, enda kæruréttur vegna eldra leyfis fallinn niður.

Í grein 1.0.9 í skilmálum skipulagsins komi fram að byggingarreitir séu sýndir á mæliblöðum og að hús skuli standa innan þeirra.  Í grein 1.0.8 komi og fram að mæliblöð sýni byggingarreiti.  Skýringarmynd sú sem kærandi vísi til breyti ekki framangreindum ákvæðum skilmálanna, enda sé hún ekki bindandi að öðru leyti en hvað varði hæð húsa, sbr. ákvæði 1.1.1. í skilmálunum.  Byggingarreitur lóðarinnar hafi því ekki verið stækkaður.  Ekki verði séð hvaða áhrif málsetningar á eldri uppdráttum hafi í þessu sambandi.

Nægilegt leik- og dvalarsvæði sé á lóðinni þrátt fyrir hina umdeildu breytingu á húsinu.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé eftir viðbygginguna innan viðmiðunar-nýtingarhlutfalls Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016, þ.e. 0,4, sem í gildi hafi verið á þeim tíma er leyfið hafi verið veitt.  Sé nýting lóðarinnar því ekki meiri en almennt sé reiknað með á lóðum einbýlishúsa.

Ekki sé verið að samþykkja aukaíbúð í húsinu.  Hugleiðingar kæranda um hugsanlega leigu húsnæðisins hafa því enga þýðingu.

Þar sem byggingarleyfið sé í samræmi við deiliskipulag og Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 séu grenndaráhrif ekki meiri en kærandi hafi mátt búast við.  Í því sambandi sé rétt að hafa í huga að hús kæranda standi ofar en hús byggingarleyfishafa.  Áhrif byggingarleyfisins séu því ekki veruleg.  Í ljósi þessa verði það því heldur ekki fellt úr gildi á grundvelli almennra reglna grenndarréttarins.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum og sjónarmiðum kærenda mótmælt.  Framkvæmdir þeirra styðjist við gilt byggingarleyfi.  Ekki verði séð að nú verði á því byggt að bílskúr hafi á sínum tíma að litlum hluta verið reistur utan byggingarreits.  Ekkert nýtingarhlutfall sé tilgreint í skipulagi svæðisins og verði því að líta til viðmiðunar gildandi aðalskipulags á þeim tíma er hið umdeilda byggingarleyfi hafi verið veitt, en það hafi verið á bilinu 0,25-0,4 fyrir einbýlishús í íbúðarhverfum af því tagi sem hér sé um að ræða.  Húseignin að Viðarrima 49 verði innan þessara marka að meðtalinni hinni umdeildu viðbyggingu.  Inngangur í viðbyggingu á vesturhlið sé hafður til að fullnægja kröfum um flóttaleiðir komi til eldsvoða en svefnrými verði í viðbyggingunni.  Önnur atriði í kærunni telja byggingarleyfishafar ýmist ekki eiga við eða ekki vera á rökum reist.  Gera þau kröfu til þess að kröfum kærenda verði hafnað.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Vettvangskönnun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 3. júlí 2003 en ekki þóttu efni til að boða til formlegrar vettvangsgöngu á þessu stigi málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 19. júní 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Viðarrima 49 í Reykjavík.  Er það megin úrlausnarefni máls þessa hvort hið umdeilda byggingarleyfi samræmist skipulagsskilmálum, ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og öðrum réttarreglum um skipulags- og byggingarmál.

Fyrir liggur að úttekt á botni grunns fyrir hina umdeildu viðbyggingu fór fram hinn 16. júní 2003 og voru framkvæmdir við bygginguna því hafnar innan árs frá afgreiðslu byggingarleyfisins, svo sem áskilið er í 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hin umdeilda viðbygging er alfarið innan þess byggingarreits sem markaður er í gildandi skipulagi og verður nýtingarhlutfall hússins eftir viðbygginguna innan þeirra marka sem kveðið var á um í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem í gildi var við útgáfu leyfisins.  Hvorki þykir skipta máli að bílgeymsla hafi að hluta verið reist utan byggingarreits á árinu 1992 né að vera kunni að miða hefði átt fjarlægð húss frá botnlanga við 6 metra að lágmarki eins og kærendur halda fram, enda hefði allt að einu verið unnt að reisa á lóðinni jafnstórt hús og um verður að ræða eftir viðbygginguna, sem að öllu leyti hefði verið innan byggingarreits.  Verður því að telja líklegt, miðað við þau gögn sem nú liggja fyrir í málinu, að hin umdeilda viðbygging verði talin samræmast skipulagsskilmálum.

Ekki verður séð að umdeild viðbygging fari í bága við gildandi lög eða reglugerðir um skipulags- og byggingarmál eða raski grenndarhagsmunum kærenda svo að leitt gæti til ógildingar.  Sé litið til afstöðu húss kærenda til viðbyggingarinnar, hæðarmunar lóða og gróðurs á lóðamörkum er það mat úrskurðarnefndarinnar að viðbyggingin hafi ekki umtalsverð áhrif á hagsmuni kærenda með tilliti til grenndarsjónarmiða. 

Með hliðsjón af framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í þessum þætti málsins að hafna beri kröfu kærenda um að framkvæmdir við viðbyggingu samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefur kærumál þetta til meðferðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við viðbyggingu að Viðarrima 49 í Reykjavík verði stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________       _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Ingibjörg Ingvadóttir                    

52/2001 Klettaborg

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Klettaborg 35, Akureyri, á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 7. nóvember 2001, að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Klettaborg 35 þar sem gert var ráð fyrir dyrum úr bílgeymslu inn í anddyri hússins.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. nóvember  2001, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir T verkfræðingur, f.h. H, eiganda fasteignarinnar að Klettaborg 35, Akureyri, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 7. nóvember 2001 að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Klettaborg 35, Akureyri, þar sem gert var ráð fyrir dyrum milli bílgeymslu og anddyris hússins.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Kærandi, sem er lóðarhafi lóðarinnar að Klettaborg 35, Akureyri, sótti hinn 20. september 2001 um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð.  Um var að ræða umsókn um byggingu tveggja hæða einbýlishúss með innbyggðum bílskúr.  Á byggingarnefndarteikningum var gert ráð fyrir að innangengt yrði úr bílskúr í forstofu hússins um dyr með eldþolinni hurð.  Úr forstofunni lágu tröppur upp í stofu hússins og önnur rými á annarri hæð.

Byggingarfulltrúi leitaði álits Brunamálastofnunar í tilefni af fyrirhuguðum dyrum milli bílskúrs og forstofu og í umsögn stofnunarinnar, dags. 7. nóvember 2001, kom fram það álit að umræddur umbúnaður færi í bága við gr. 103.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 þar sem rými það sem gengið sé inn í úr bílskúr sé ekki lokað frá aðalrými húss.  Mælti stofnunin gegn þessari tilhögun.  Byggingarfulltrúi tók erindi kæranda fyrir á afgreiðslufundi hinn 7. nóvember 2001 og synjaði erindinu með vísan til þess að byggingarleyfisumsóknin uppfyllti ekki skilyrði byggingarreglugerðar samkvæmt greindri umsögn Brunamálastofnunar og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dagsettu sama dag.

Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun byggingarfulltrúa og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kröfu sína á því að umdeild byggingarleyfisumsókn hafi ekki verið andstæð ákvæðum byggingarreglugerðar og hafi því ekki verið forsendur fyrir synjun umsóknarinnar.

Í byggingarreglugerð nr. 441/1998, gr. 103.4 segi:  „Dyr á milli íbúðar og bílskúrs mega ekki opnast beint inn í meginrými eða inn í kyndiklefa, heldur í millirými, s.s. geymslu, þvottahús eða anddyri.  Hurð í þeim skal vera a.m.k. EI-CS30.”  Í greininni standi því hvergi að það sé krafa að anddyri sé einnig lokað af frá íbúðinni með hurð.  Þess sé aðeins krafist að hurð að bílgeymslu uppfylli fyrrgreindan staðal og sé sjálflokandi með 30 mínútna brunamótstöðu.

Í áliti Brunamálastofnunar komi fram að ekki séu gerðar sérstakar kröfur til þeirra rýma sem gengið sé inn í úr bílgeymslu heldur sé við það miðað að þau rými séu að venjulegum gæðum.  Þetta staðfesti að aflokun millirýmis hafi enga brunatæknilega þýðingu og megi reikna með að í mörgum húsum séu hurðir millirýma úr bílgeymslu í meginrými húss að jafnaði látnar standa opnar ef ekki alltaf.  Ekki sé ásættanlegt að Brunamálastofnun fái úrskurðarvald um innra skipulag íbúðar þegar ekki sé um brunamál að ræða.

Í umræddu húsi, sem sé á tveimur hæðum, sé lagt mikið upp úr því að anddyri neðri hæðar sé opið og bjart og tengist efri hæð með breiðum stiga þannig að birta berist frá efri hæð niður í anddyrið.  Það sé lokað frá öðrum rýmum á neðri hæð með hurðum og dragsúgur frá útihurð nái ekki inn í önnur rými eða upp á efri hæð vegna eðlismunar heits og kalds lofts og ekki sé sjónmengun af bílgeymslunni þar sem ekki sé bein sjónlína þangað úr öðrum rýmum hússins.  Að öllu þessu virtu sé ekki gild ástæða til að gera kröfu um vegg eða hurð milli anddyris og stiga upp á efri hæð og mæli hvorki byggingarreglugerð né brunatæknileg atriði gegn því að innangengt sé úr bílskýli hússins inn í anddyri þess. 

Málsrök byggingarfulltrúa:  Embætti byggingarfulltrúa bendir á að hin kærða ákvörðun hafi byggst á gr. 103.4 í byggingarreglugerð og stuðst hafi verið við niðurstöðu Brunamálastofnunar í umsögn hennar um umdeilda byggingarleyfisumsókn.

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort sú tilhögun, að hafa innangengt úr bílskýli inn í forstofu, sem tengist stofu og öðrum rýmum á efri hæð hússins um stiga, fari í bága við ákvæði gr. 103.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en umrætt ákvæði hljóðar svo:  „Dyr á milli íbúðar og bílskúrs mega ekki opnast beint inn í meginrými eða inn í kyndiklefa, heldur í millirými, s.s. geymslu, þvottahús eða anddyri.  Hurð í þeim skal vera a.m.k. EI-CS30.”

Af orðalagi ákvæðisins verður ráðið að gert sé að skilyrði að dyr úr bílgeymslu inn í íbúðarhús tengist afmörkuðu lokanlegu rými sem skilið sé frá meginrými húss.  Orðalag ákvæðisins ber og með sér að kröfur í þessu efni eru hertar frá eldri byggingarreglugerð nr. 177/1992, þar sem í gr. 6.10.3.5 í þeirri reglugerð voru þær skorður settar að dyr að bílgeymslu mættu ekki liggja úr svefnherbergisgangi íbúðarhúss eða kyndiklefa og var í ákvæðinu vísað til samsvarandi ákvæðis í þágildandi reglugerð um brunavarnir og brunamál nr. 269/1978. 

Að baki skorðum við því hvar megi setja dyr milli bílgeymslu og íbúðarrýmis búa öryggis- og heilbrigðissjónarmið.  Þótt ekki séu gerðar kröfur um sérstakar ráðstafanir vegna brunamótstöðu millirýmis í gr. 103.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, umfram brunamótstöðu hurðar úr bílskúr í íbúðarrými, hefur þetta skilyrði ákvæðisins þýðingu með tilliti til eldvarna.  Lokað rými tefur fyrir útbreiðslu elds og reyks og hamlar almennt útbreiðslu óæskilegra lofttegunda inn í meginrými íbúðar, sem geta myndast í bílskúrum sökum útblásturs bifreiða og eftir atvikum vegna meðhöndlunar rokgjarnra efna.

Með vísan til þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeild byggingarleyfisumsókn uppfylli ekki ákvæði gr. 103.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og verður hin kærða ákvörðun því ekki felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 7. nóvember 2001, að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Klettaborg 35.

_________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________            _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

30/2002 Straumsvík

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn nefndarinnar; Ásgeir Magnússon, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2002, kæra Logos lögmannsþjónustu, f.h. Alcan á Íslandi hf., á álagningu skipulagsgjalds á kerskála 3 í Straumsvík, Hafnarfirði að fjárhæð kr. 6.013.959,- samkvæmt reikningi, dags. 1. apríl 2002.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 18. júní 2002, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála kærir Logos lögmannsþjónusta, f.h. Alcan á Íslandi hf., álagningu skipulagsgjalds á Kerskála 3 í Straumsvík, Hafnarfirði og krefst þess að álagningin verði felld niður.

Um kæruheimild vísast til 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997, um skipulagsgjald.

Málavextir:  Skipulagsgjald var lagt á vegna kerskála 3 í álverinu í Straumsvík, Hafnarfirði, sem er í eigu Alcan á Íslandi hf., skv. reikningi, dags. 1. apríl 2002, að fjárhæð kr. 6.013.959,-.  Við álagninguna var lögð til grundvallar fyrirliggjandi brunabótavirðing mannvirkisins.  Kærandi hefur nú skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kæranda:  Alcan á Íslandi hf. heldur því fram að félagið sé undanþegið skyldu til greiðslu skipulagsgjalds vegna kerskála 3 í Straumsvík á grundvelli aðalsamnings ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Swiss Aluminium Ltd. hins vegar, frá 28. mars 1966, ásamt viðaukasamningum.  Samningur þessi hafi verið staðfestur með lögum frá Alþingi, sbr. 1. gr. laga nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.  Í ákvæði 2. gr. nefndra laga sé kveðið á um, að ákvæði samnings skuli hafa lagagildi hér á landi. 

Í IV. kafla áðurnefnds samnings sé fjallað um skatta og gjaldskyldu kæranda og sú grein samningsins sem þýðingu hafi við úrlausn þessa máls sé 31. gr. hans sem beri heitið „Aðrir skattar og gjöld“.  Í upphafi gr. 31.01 segi, að auk framleiðslugjaldsins sem kæranda beri að greiða, skuli honum skylt að greiða þá skatta og gjöld, sem núgildandi lög geri ráð fyrir, að því marki og í þeim mæli, sem segi í þessari málsgrein svo og aðra svipaða skatta og gjöld, sem almennt séu þau sömu að upphæð og síðar kunni að verða lögleidd.  Í k) lið nefndrar greinar samningsins sé kveðið á um, að kæranda beri að greiða skipulagsgjald samkvæmt lögum nr. 19/1964 af öllum byggingum, sem skilgreindar séu sem „hús“ í grein 31.05.  Ákvæði um skipulagsgjald hafi á þeim tíma er samningurinn var undirritaður verið að finna í 35. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og það sé sambærilegt skipulagsgjaldi því sem nú sé í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í nefndri gr. 31.05, lið k) í samningi kæranda og íslensku ríkisstjórnarinnar segi í 2. málslið:  „ISAL skal vátryggja byggingar (að frátöldu fylgifé og búnaði), sem reistar eru á bræðslulóðinni, gegn bruna í samræmi við ákvæði laga nr. 9/1955, þó þannig, að bræðslukerjasalir, steypuhús, geymsluturnar og geymar bræðslunnar teljast ekki „hús“  í skilningi laganna“. 

Skipulagsgjald það sem hér sé kært, sé lagt á vegna kerskála 3.  Kærandi telji ótvírætt, að kerskálar flokkist til þess sem nefnt sé bræðslukerjasalir í tilvitnuðu samningsákvæði.  Í samræmi við það hafi aldrei verið litið svo á, að kerskálarnir séu brunatryggingarskyldir.  Þar sem kerskálar teljist samkvæmt framangreindu ekki til „húsa“, sbr. gr. 31.05 í áðurgreindum samningi, sé ekki fyrir að fara skyldu til greiðslu skipulagsgjalds samkvæmt gr. 31.01.  

Málsrök innheimtumanns:  Af hálfu innheimtumanns, Sýslumannsembættisins í Hafnarfirði, er álagning og innheimta gjaldsins rökstudd með tilvísun til réttarheimilda, sem prentaðar eru á bakhlið reiknings fyrir gjaldinu, nánar tiltekið 35. gr. skipulagslaga nr. 73/1997, ásamt síðari breytingum og reglugerð nr. 737/1997.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum er skipulagsgjald sérstakt gjald af mannvirkjum sem innheimta skal í ríkissjóð og er því ætlað að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Heimild var til innheimtu sambærilegs gjalds í 35. gr. eldri skipulagslaga nr. 19/1964 og var með stoð í því heimildarákvæði sett reglugerð um álagningu og innheimtu gjaldsins nr. 167/1980.  Sú reglugerð var í gildi allt fram til ársins 1994 er ný reglugerð um það var sett.  Nú er í gildi reglugerð nr. 737/1997 um sama efni. 

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins tilkynnt hana til innheimtumanns ríkissjóðs.  Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni.

Með lögum nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Straumsvík, er staðfestur samningur milli sömu aðila, dags. 28. mars 1966, um byggingu og rekstur álbræðslu við Straumsvík.  Í k) lið gr. 31.01 samningsins segir að kærandi skuli greiða skipulagsgjald af öllum byggingum, sem skilgreindar séu sem „hús“ í gr. 31.05, en í þeirri grein segir að kærandi skuli vátryggja byggingar sem reistar verði á bræðslulóðinni gegn bruna, þó þannig að bræðslukerjasalir o.fl. teljist ekki „hús“ í skilningi laganna.  Að áliti úrskurðarnefndar var því óþarft að virða mannvirkið til brunabóta enda er kærandi ótvírætt undanþeginn, skv. samningsákvæðinu, skyldu til að vátryggja það og þar af leiðir að hann er á sama hátt undanþeginn skipulagsgjaldi vegna kerskála.  Ber því að fella niður hina umdeildu álagningu. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds vegna kerskála 3 í eigu Alcan á Íslandi hf. samkvæmt reikningi, dags. 1. apríl 2002, að fjárhæð kr. 6.013.959,-. 

 
__________________________
Ásgeir Magnússon

_______________________      ______________________
Þorsteinn Þorsteinsson                 Ingibjörg Ingvadóttir

36/2001 Háhæð

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2001, kæra eigenda fasteignarinnar að Háhæð 1, Garðabæ, á þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. maí 2001, að synja um breytingu á deiliskipulagi sem heimilaði hækkun hússins um 25 sentimetra vegna byggingar kvista.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2001, er barst nefndinni hinn 26. júlí sama ár, kæra Ö og S, eigendur fasteignarinnar að Háhæð 1, Garðabæ þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. maí 2001 að hafna umsókn kærenda um breytingu á skipulagi, sem fæli í sér heimild til hækkunar á húsi kærenda um 25 sentimetra vegna byggingar kvista.  Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 9. mars 2000, leituðu kærendur álits byggingarfulltrúa Garðabæjar á fyrirhuguðum breytingum á húsinu að Háhæð 1, Garðabæ.  Breytingarnar voru í því fólgnar að reisa tvo kvisti og gera glugga á rými undir íbúð og opna milli hæða.  Spurðust kærendur fyrir um hvort skipulag stæði í vegi fyrir nefndum breytingum.  Byggingarfulltrúi mun hafa óskað eftir útlitsteikningum að fyrirhuguðum breytingum og kærendur skilað inn umbeðnum teikningum, unnum af arkitekt hússins.  Byggingarfulltrúi benti kærendum á að með fyrirhuguðum breytingum yrði hæð hússins 80 sentimetra umfram heimildir í gildandi deiliskipulagi.  Í kjölfar þessa sóttu kærendur um samþykki skipulagsnefndar fyrir umræddum framkvæmdum, en nefndin hafnaði erindinu með vísan til þess að umsóknin fæli í sér þörf á breytingu á skipulagi hvað varðaði hámarkshæð húss og aukið nýtingarhlutfall.

Kærendur sendu inn nýja umsókn til byggingarfulltrúa hinn 9. nóvember 2000 þar sem kvistir höfðu verið lækkaðir svo húsið væri innan hæðarmarka deiliskipulags.  Var kærendum þá bent á að fyrirhuguð lofthæð þakrýmis fullnægði ekki skilyrðum byggingarreglugerðar um lofthæð í híbýlum manna.  Kærendur leituðu þá til skipulagsnefndar með bréfi, dags. 9. janúar 2001, með fyrirspurn um hvort nefndin gæti mælt með breytingum á húsi kærenda í samræmi við umsókn frá 9. nóvember 2000, með þeirri breytingu að kvistir yrðu lækkaðir og næðu aðeins 20 sentimetra yfir leyfilega hámarkshæð, svo fullnægt yrði skilyrðum byggingarreglugerðar um vegghæð.  Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á fundi hinn 14. febrúar 2001 og mælti með að grenndarkynning færi fram vegna erindis kærenda, þegar teikningar hefðu borist, á þeim grundvelli að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða.  Breyttar teikningar, dags. 14. mars 2001, voru sendar skipulagsnefnd og voru þær notaðar við grenndarkynningu, sem fram fór skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Skipulagsnefnd tók málið til umfjöllunar að kynningu lokinni hinn 2. maí 2001 og lagðist gegn hækkun hússins en mælti með breytingu á deiliskipulagi er fæli í sér hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar.  Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum hinn 17. maí 2001.

Kærendur undu ekki þessari niðurstöðu og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur styðja kröfu sína þeim rökum að umsókn þeirra um leyfi fyrir breytingum á húsinu að Háhæð 1, Garðabæ feli í sér óverulegar breytingar á deiliskipulagi þar sem aðeins sé um að ræða hækkun lítils hluta hússins um 25 sentimetra.  Aðeins hafi komið fram ein athugasemd við grenndarkynningu á fyrirhuguðum breytingum en þremur aðilum hafi verið sent málið til kynningar.

Í bókun skipulagsnefndar fyrir afstöðu hennar til málsins komi fram að lagst sé gegn erindinu m.a. í ljósi framkominna athugasemda án þess að önnur rök, en nefnd athugasemd, séu færð fram fyrir umdeildri niðurstöðu.

Í tilefni af því að skírskotað sé til fordæmisgildis í athugasemd þeirri sem fram hafi komið við grenndarkynninguna taka kærendur fram að fjöldi fordæma sé fyrir heimiluðum breytingum þar sem vikið sé frá skipulagi.  Megi nefna hús þess sem sendi inn athugasemd við grenndarkynninguna, en það sé tvær hæðir þótt skipulag geri þar ráð fyrir húsi á einni og hálfri hæð.  Fasteignin að Melhæð 2 sé tvær hæðir en megi aðeins vera ein hæð samkvæmt skipulagi.  Þá hafi verið heimilað að hafa stóra kvisti á húsunum nr. 4 og 6 við Melhæð þannig að húsin séu í raun tveggja hæða þrátt fyrir að skipulag heimili aðeins eina hæð á þeim lóðum.  Loks benda kærendur á að heimilað hafi verið að setja kvist á fasteignina að Melhæð 5, sem sé áþekkur kvistum þeim sem kærendur hugðust reisa, en var hafnað þar sem vegghæð uppfyllti ekki skilyrði byggingarreglugerðar.

Kærendur vísa og til þess að fjöldi raðhúsa í næsta nágrenni við hús þeirra hafi milliloft sem nýtt séu til daglegra nota þótt vegghæð rýmanna nái ekki tilskilinni lofthæð íbúðarherbergja.  Óeðlilegt sé að teikningar af húsi þeirra hafi á sínum tíma verið samþykktar með millilofti sem næði ekki lágmarkslofthæð þótt um geymslu hafi verið að ræða.  Hafi ákvæðum byggingarreglugerðar síðar verið breytt í þessu efni, geti sú breyting vart verið afturvirk og takmarkað nýtingarmöguleika fasteignaeigenda á rýmum í þegar byggðum húsum.

Málsrök Garðabæjar:  Bæjaryfirvöld gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Umsókn kærenda hafi lotið að því að setja kvisti á hús sitt, sem leitt hafi til þess að farið væri yfir leyfileg hæðarmörk húss og umfram nýtingarhlutfall lóðar miðað við gildandi skipulagskilmála.  Skipulagsnefnd hafi ákveðið að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir sem óverulega breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Að kynningu lokinni hafi legið fyrir athugasemdir nágranna þar sem hækkun hússins hafi verið mótmælt.   Skipulagsnefnd hafi á fundi sínum hinn 2. maí 2001 samþykkt að breyta deiliskipulagi fyrir lóðina að Háhæð 1-3 með hækkun nýtingarhlutfalls í allt að 0,4 en ekki talið fært, með hliðsjón af framkomnum athugasemdum, að breyta hámarkshæð hússins frá gildandi skipulagi.

Afstaða skipulagsnefndar til erindis kærenda byggi á því að fram hafi komið mótmæli við hækkun hússins umfram gildandi skipulag.  Skipulagsnefnd hafi það hlutverk að tryggja að mannvirki séu byggð í samræmi við gildandi skipulag enda verði menn að treysta því að hönnun bygginga sé í samræmi við gildandi skilmála, jafnræðis sé gætt og heildarmynd hverfis sé ekki raskað gegn vilja íbúa.  Í framkomnum mótmælum hafi verið vísað til þess að hækkun á húsi kærenda sé líkleg til að skerða útsýni og hafa önnur neikvæð áhrif vegna nálægðar, auk þess sem hækkun hússins hefði fordæmisgildi, sem gæti leitt til að fleiri hús yrðu hækkuð með þeim neikvæðu áhrifum sem því fylgdi.

Garðabær líti svo á að þegar fram komi athugasemdir, sem almennt geti talist málefnalegar frá aðila sem sannanlega eigi hagsmuna að gæta, verði ekki hróflað við gildandi skipulagi um byggingu húsa.  Aðilar eigi að geta treyst því að farið sé að gildandi skilmálum og ekki fáist síðar leyfi til að víkja frá þeim nema fyrir liggi samþykki þeirra sem hagsmuna eigi að gæta.

Rétt sé hjá kærendum að vikið hafi verið frá deiliskipulagsskilmálum í þeim tilvikum sem þeir tilgreini, að undanskildu húsinu nr. 2 við Háhæð, sem teljist uppfylla skipulagsskilmála.  Í þeim tilvikum, að undanskildu einu, hafi sérstaklega verið um þau mál fjallað og leyfi veitt fyrir framkvæmdum.  Við þær afgreiðslur hafi legið fyrir eftir atvikum samþykki nágranna,  sem hagsmuna hafi átt að gæta, og farið hafi verið eftir ákvæðum byggingarreglugerðar um lágmarkshæðir.

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort hafna hafi átt erindi kærenda um að fá leyfi til að reisa kvisti á hús sitt að Háhæð 1 í Garðabæ, sem skyldu rísa um 20 sentimetra yfir leyfilega hámarkshæð húss samkvæmt gildandi deiliskipulagi.  Kærendur beindu erindi sínu til skipulagsnefndar eftir að embætti byggingarfulltrúa benti á að fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn frá 9. nóvember 2001 uppfyllti ekki skilyrði byggingarreglugerðar um lágmarkshæð íbúðarhúsnæðis.  Að tilhlutan skipulagsnefndar sendu kærendur teikningar og uppdrætti með breytingum, dags. 14. mars 2001, að umsóttum breytingum hússins til nefndarinnar.

Umsóknir um byggingarleyfi skal senda byggingarnefnd, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og ályktar nefndin um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laganna.  Þegar sótt er um byggingarleyfi, sem felur í sér óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi, skal skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en umsókn hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Ákvæðið veitir byggingarnefnd heimild til að afgreiða byggingarleyfisumsókn, að undangenginni grenndarkynningu og umfjöllun skipulagsnefndar, þegar umsóknin felur í sér óveruleg frávik frá gildandi skipulagi eða þegar ekki er við að styðjast deiliskipulag, sbr. ennfremur gr. 12.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. 

Af málsatvikum er ljóst að umdeilt erindi kærenda til skipulagsnefndar tengdist byggingarleyfisumsókn sem vék lítillega frá gildandi deiliskipulagi í nýtingarhlutfalli lóðar og leyfilegri hámarkshæð húss vegna fyrirhugaðra kvista.  Eftir að kærendur lögðu fram uppdrætti og teikningar er fullnægðu kröfum um byggingarleyfisumsókn hefði verið rétt af hálfu skipulagsnefndar að framsenda byggingarnefnd erindið sem byggingarnefndarmál og fara hefði átt með málið að hætti 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þetta var ekki gert heldur var málið sett í farveg skv. 2. mgr. 26. gr. laganna sem óveruleg breyting á deiliskipulagi og þar með sem almennt skipulagsmál og hefur byggingarnefnd ekki ályktað um byggingarleyfisumsókn kærenda, svo sem hún lá fyrir með breyttum teikningum.

Að þessu virtu verður að telja að erindi kærenda um umsóttar breytingar samkvæmt innsendum teikningum frá 14. mars 2001 hafi ekki fengið lögboðna meðferð og er lagt fyrir bæjarstjórn Garðabæjar að hlutast til um að umsókn kærenda um leyfi til að setja kvisti á hús sitt að Háhæð 1, Garðabæ, í samræmi við nefndar teikningar, verði tekin til meðferðar í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. maí 2001 fól í sér lítils háttar breytingu á nýtingarhlutfalli lóðarinnar að Háhæð 1-3 sem telja verður óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi svo sem heimilað er í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Breyting samkvæmt téðu lagaákvæði verður gerð að frumkvæði sveitarstjórna og er óháð því hvort fyrir liggi byggingarleyfisumsókn er kalli á deiliskipulagsbreytingu.  Þykja ekki liggja fyrir þeir annmarkar á þeirri ákvörðun sem gætu leitt til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. maí 2001, en lagt er fyrir bæjarstjórnina að hlutast til um að umsókn kærenda um að setja kvisti á hús sitt að Háhæð 1, Garðabæ, samkvæmt fyrirliggjandi teikningum, dags. 14. mars 2001, verði tekin til meðferðar í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

28/2001 Sævangur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Sævangi 6, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 16. maí 2001 að hafna umsókn kæranda um að í fasteigninni verði samþykktar tvær íbúðir.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. júní 2001, er barst nefndinni hinn 21. júní sama ár, kærir L, kt. 310858-4209, eigandi fasteignarinnar að Sævangi 6, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 16. maí 2001 að synja umsókn kæranda um að fá samþykki byggingaryfirvalda fyrir tveimur íbúðum í greindri fasteign.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti afgreiðslu byggingarnefndar á fundi sínum hinn 22. maí 2001.  Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 23. febrúar 1976 var gerður lóðarleigusamningur við Hafnarfjarðarbæ um lóðina að Sævangi 6, Hafnarfirði.  Í 14. gr. samningsins, er hefur fyrirsögnina „Sérstakir skilmálar”, er kveðið á um í lið 2.b að á lóðinni skuli reisa einnar hæðar einbýlishús og óheimilt sé að hafa fleiri íbúðir en eina í húsinu.  Í úthlutunarskilmálum vegna lóðarinnar, samþykktum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 20. janúar 1976, er umrædd lóð ætluð undir einbýlishús.

Kærandi keypti fasteignina að Sævangi 6, Hafnarfirði á árinu 1999.  Með ódagsettu bréfi til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar leitaði kærandi eftir samþykki bæjaryfirvalda fyrir skiptingu hússins í tvær íbúðir og lýsti í umsókn sinni ástæðum erindisins.  Umsóknin var tekin fyrir á fundi byggingarnefndar Hafnarfjarðar hinn 16. maí 2001 og var málið afgreitt með svofelldri bókun:  „Þar sem ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúða í deiliskipulagi synjar byggingarnefnd erindinu.”  Kæranda var tilkynnt um þessi málalok með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 25. maí 2001.

Kærandi sætti sig ekki við þessi málalok og skaut synjun byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að eftir því sem best sé vitað hafi verið tvær íbúðir í húsinu nr. 6 við Sævang frá byggingu þess og hafi íbúðirnar verið leigðar út í um áratug þegar kærandi festi kaup á húsinu.  Ekki sé farið fram á breytingar á húsinu, hvorki innan- né utanhúss enda fylgi hvorri íbúð geymsla og sér bifreiðastæði á lóð hússins.  Í kjölfar kaupanna hafi kærandi þurft að ráðast í miklar endurbætur á húsinu og framundan séu frekari viðhaldsframkvæmdir.  Sonur kæranda hafi hug á að kaupa íbúðina í kjallara hússins en lán úr Íbúðalánasjóði fáist ekki nema byggingaryfirvöld samþykki íbúðina sem sérstaka eign.  Kæranda sé þörf á að selja íbúðina til að standa straum af viðgerðarkostnaði hússins.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Byggingarnefnd Hafnarfjarðar byggir hina kærðu ákvörðun sína á því að ekki sé gert ráð fyrir fjölgun íbúða á svæðinu í deiliskipulagi.  Í umsögn til úrskurðarnefndarinnar er skírskotað til þess að í b lið 14. gr. lóðarleigusamnings um umrædda lóð sé kveðið á um að þar skuli reisa einnar hæðar einbýlishús og úthlutunarskilmálar lóðarinnar beri með sér að lóðinni hafi verið úthlutað undir einbýlishús.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun á umsókn kæranda um samþykki byggingaryfirvalda fyrir tveimur íbúðum í húsinu nr. 6 við Sævang í Hafnarfirði sem sjálfstæðum eignarhlutum.  Um er að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem rökstudd var með þeim hætti að gildandi skipulag stæði því í vegi að umsóknin yrði samþykkt.

Úrskurðarnefndin leitaði upplýsinga hjá Skipulagsstofnun og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðar um gildandi deiliskipulag umrædds svæðis.  Upplýst hefur verið að í gildi sé skipulagsuppdráttur fyrir Norðurbæ Hafnarfjarðar, samþykktur af bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 19. desember 1967 með breytingu frá árinu 1972, er tekur til umrædds svæðis og sýnir lóðir og byggingarreiti en kveður ekki á um gerð einstakra bygginga eða fjölda íbúða á svæðinu.  Áritun á uppdrættinum ber með sér að ásamt skipulagsuppdrættinum hafi verið samþykkt greinargerð en hún hefur ekki fundist, hvorki hjá Skipulagsstofnun né hjá Hafnarfjarðarbæ.

Ekki hafa verið lögð fram gögn af hálfu byggingarnefndar Hafnarfjarðar er renni stoðum undir þá ályktun að gildandi deiliskipulag standi því í vegi að samþykktar verði tvær íbúðir í húsinu nr. 6 við Sævang og eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar hefur ekki leitt í ljós að gildandi skipulag hafi að geyma takmarkanir á fjölda íbúða á umræddu svæði.  Ákvæði í lóðarleigusamningi felur ekki í sér skipulagsskilmála enda kveður slíkur samningur á um einkaréttarlegt samningssamband viðkomandi sveitarstjórnar og einstakra lóðarleiguhafa og sama á við um úthlutunarskilmála lóða.  Umræddum ákvæðum og skilmálum er unnt að breyta svo fremi að breytingarnar fari ekki í bága við gildandi skipulag.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga ber byggingarnefnd að rökstyðja afgreiðslu erinda er henni berast.  Af 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 73/1997 verður ráðið að tilgangur rökstuðnings fyrir stjórnvaldsákvörðun sé sá að fyrir liggi hvaða málefnaleg sjónarmið hafi leitt til tiltekinnar ákvörðunar.  Rökstuðningur ákvörðunar er og það atriði sem aðili máls lítur til við mat á réttarstöðu sinni í kjölfar stjórnvaldsákvörðunar.

Eins og rakið hefur verið liggur ekki fyrir í málinu að gildandi deiliskipulag feli í sér ákvörðun um íbúðafjölda á skipulagssvæðinu og á því rökstuðningur byggingarnefndar fyrir hinni kærðu ákvörðun ekki viðhlítandi stoð, en önnur rök voru ekki færð fram við ákvarðanatökuna.  Að þessu virtu og með hliðsjón af 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga verður að telja rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum annmörkum að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 16. maí 2001, um að synja umsókn kæranda um að fá samþykki fyrir tveimur íbúðum í húsinu nr. 6 við Sævang, Hafnarfirði, er felld úr gildi.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

20/2003 Aðalskipulag Mosfellsbæjar

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2003; kæra Logos lögmannsþjónustu, f.h. M, á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 12. febrúar 2003 á tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. mars 2003, sem barst nefndinni 25. s.m., kærir Logos lögmannsþjónusta, f.h. M, samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 12. febrúar 2003 á tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.  Hin kærða ákvörðun hefur hlotið lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar og bíður nú staðfestingar umhverfisráðherra. 

Kærandi krefst þess að fellt verði úr gildi það ákvæði samþykktarinnar að breyta deiliskipulögðu svæði fyrir íbúða- frístundabyggð við Reykjahvamm í landi Suður-Reykja í opið óbyggt svæði.

Málsatvik:  Þann 18. febrúar 1982 var samþykkt af hreppsnefnd Mosfellshrepps deiliskipulag fyrir lóðir við Reykjahvamm í landi Suður-Reykja.  Nánar tiltekið er um að ræða 31 lóð og er kærandi eigandi tíu þessara lóða.  Var deiliskipulag þetta að sögn kæranda unnið af eigendum landsins og á þeirra kostnað, en það síðan samþykkt af hreppsnefnd.  Var það vilji eigenda landsvæðisins að lóðirnar yrði skipulagðar sem íbúðarhúsalóðir.  Það var hins vegar ekki samþykkt af skipulagsnefnd, að undanskildum neðstu lóðunum, en að öðru leyti voru lóðirnar ætlaðar fyrir sumarhús.

Í tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 var gert ráð fyrir að umræddu byggingarsvæði í landi Suður-Reykja yrði breytt í opið, óbyggt svæði.  Var áformum þessum mótmælt af kæranda og öðrum lóðarhöfum á svæðinu, en ekki var fallist á mótmæli þeirra.  Var hin breytta landnotkun samþykkt við afgreiðslu bæjarstjórnar á tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 hinn 12. febrúar 2003.  Vísaði kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 24. mars 2003, svo sem að framan er rakið.

Eftir að kæra í máli þessu barst nefndinni var lögmanni kæranda bent á að nefndin hefði ítrekað vísað frá kærumálum þar sem kærðar hefðu verið ákvarðanir um aðalskipulag eða breytingar á aðalskipulagi.  Lægi og fyrir álit Umboðsmanns Alþingis þar sem tekið væri undir þau sjónarmið nefndarinnar að hana brysti vald til þess að fjalla um skipulagsákvarðanir sem sætt hefðu staðfestingu ráðherra.  Af hálfu lögmanns kæranda var á það bent að hin kærða ákvörðun í máli þessu hefði enn ekki hlotið staðfestingu ráðherra og væri málið því ekki sambærilegt þeim málum sem nefndin hefði áður vísað frá á grundvelli sjónarmiða um valdmörk.  Hefur úrskurðarnefndin af þessu tilefni ákveðið að taka af sjálfsdáðum til úrlausnar hvort vísa eigi máli þessu frá eins og atvikum er háttað.

Málsrök aðila:  Við úrlausn frávísunarþáttar málsins þykja ekki efni til að rekja málsrök aðila í einstökum atriðum.  Nægir að taka fram að kærandi telur hina umdeildu samþykkt hafa í för með sér verulega verðmætarýrnun á umræddum lóðum og verði hann því fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni standi samþykktin óröskuð.  Telur hann rök bæjaryfirvalda fyrir hinni umdeildu ákvörðun ekki standast og að ástæðulaust hafi verið að rýra rétt eigenda umræddra lóða með þeim hætti sem  gert sé með hinni kærðu samþykkt.

Af hálfu bæjaryfirvalda er hin kærða ákvörðun m.a. studd þeim rökum að umrætt svæði henti illa sem byggingarsvæði.  Snjóþungi og landhalli sé þar mikill og hætta á ofanflóðum.  Að auki liggi svæðið illa við þjónustu.  Verða málsástæður aðila ekki raktar hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur úrskurðarnefndin talið sig bresta vald til að fjalla efnislega um skipulagsákvarðanir sveitarstjórna sem sætt hafa staðfestingu ráðherra.  Rök nefndarinnar fyrir þeirri niðurstöðu hafa áður komið fram, m.a. í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 43/1998, en þar segir m.a:  „Með setningu nýrra laga um skipulags- og byggingarmál nr. 73/1997, sem tóku gildi hinn 1. janúar 1998, var tekið upp það nýmæli að fela sérstakri úrskurðarnefnd að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál, en úrskurðarvald í þeim málum var fyrir þann tíma í höndum umhverfisráðherra.  Ekki er í lögunum gerð með skýrum hætti grein fyrir því hvaða ágreiningsmál falla undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar en af 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 má ráða, að meginviðfangsefni hennar séu að leysa úr álitaefnum sem eiga rætur að rekja til ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna um byggingar- eða skipulagsmál.  Þá er það á valdsviði nefndarinnar að skera úr um ágreining um það hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum laganna um framkvæmdaleyfi sbr. 2. mgr. 27. gr. nefndra laga, hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skv. 36. gr. laganna, svo og um  ágreining um niðurstöðu Skipulagsstofnunar um erindi er varðar undanþágur skv. 3. tl. ákvæða til bráðabirgða með lögunum.  Loks er það á valdsviði nefndarinnar að skera úr um ágreining vegna álagningar og innheimtu skipulagsgjalds skv. 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997.  Hvergi er hins vegar að því vikið í lögunum að nefndin hafi það hlutverk að endurskoða ákvarðanir ráðherra um staðfestingu  aðalskipulags eða breytinga á því.

Þegar sérstakri kærunefnd hefur verið komið á fót í tilteknum málflokki, eins og hér um ræðir, verður að líta svo á að ráðherra og kærunefndin séu hliðsett stjórnvöld á æðra stjórnsýslustigi með lögbundinni verkaskiptingu.  Leiki vafi á um valdmörk milli ráðherra og kærunefndar verður að telja valdið í höndum ráðherra, enda er það meginregla að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé að lögum undanskilin forræði hans.

Í 19. grein laga nr. 73/1997 segir að aðalskipulag, eða breyting á því, sé háð staðfestingu ráðherra og taki gildi þegar staðfestingin hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka stjórnvaldsákvörðun um staðfestingu aðalskipulags, eða breytingar á því, en í þeirri ákvörðun felst að ráðherra tekur afstöðu til lögmætis aðalskipulagsins eða breytingarinnar, bæði hvað varðar form og efni. 

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags eða breytingu á því er lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verður hún, að mati úrskurðarnefndar, einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds.  Því brestur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vald til þess að taka þessar ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar.“

Í áliti sínu í máli nr. 2906/2000 fjallaði Umboðsmaður Alþingis um framangreind álitaefni og var það niðurstaða hans að ekki væru efni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að vísa máli frá af framangreindum ástæðum.  Í álitinu segir jafnframt svo:  „Þar sem aðalskipulag tekur ekki gildi fyrr en við staðfestingu ráðherra tel ég enn fremur að ekki sé unnt að bera samþykkt sveitarstjórnar á aðalskipulagstillögu eða meðferð Skipulagsstofnunar við álitsgjöf til ráðherra undir úrskurðarnefndina.“

Með hliðsjón af þeim rökum sem fram koma í tilvitnuðu áliti er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða samþykkt verði ekki borin undir nefndina þrátt fyrir að hún hafi ekki hlotið staðfestingu ráðherra.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir

7/2002 Kapelluhraun

Með

Ár 2003, föstudaginn 13. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í fjarveru aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2002, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 7. febrúar 2002 um að synja erindi Skógræktar ríkisins um áframhaldandi efnistöku í Hrauntungum í Kapelluhrauni.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. mars 2002, er barst nefndinni 21. sama mánaðar, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. B ehf., þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 7. febrúar 2002 að synja erindi Skógræktar ríkisins frá 29. janúar 2002 um að afstaða verði tekin til erindis Borgartaks ehf. um að félaginu verði heimilað, á næstu 6 árum, að taka hraunfyllingu (u.þ.b. 320.000-350.000 rúmetra), er félagið sé eigandi að, úr námu í landi Skógræktar ríkisins í Hrauntungum í Kapelluhrauni.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í andmælum við frávísunarkröfu, dags. 21. mars 2003, gerir kærandi þá varakröfu að ef úrskurðarnefndin telji að nauðsynlegt hafi verið að afla mats á umhverfisáhrifum áður en unnt væri að óska framkvæmaleyfis, sé þess engu að síður krafist að nefndin felli úr gildi ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar og heimili kæranda að taka allt að 150.000 rúmmetra af hraunfyllingu úr námunni. 

Verði ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en þess krafist að úrskurðarnefndin kveði á um skyldu Hafnarfjarðarbæjar til þess að greiða kæranda bætur, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, vegna þess tjóns er hin kærða ákvörðun hafi í för með sér fyrir hann.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. maí 2003, óskar lögmaður kæranda þess loks að úrskurðarnefndin skeri úr um það, með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997, hvort fyrirhugaðar framkvæmdir kæranda séu háðar framkvæmdaleyfi skv. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er þess aðallega krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að hin kærða ákvörðun standi óröskuð og að bótakröfu kæranda verði hafnað.

Málavextir:  Með samningi, dags. 6. febrúar 1992, keypti kærandi af Skógrækt ríkisins 1.000.000 rúmmetra af hraunfyllingu úr námusvæði í landi skógræktarinnar í Straumi í Hafnarfirði, þar sem heita Hrauntungur í Kaphelluhrauni.  Samningur þessi var til 10 ára og rann því út þann 6. febrúar 2002.  Þá hafði kærandi, að eigin sögn, aðeins tekið úr námunni u.þ.b. 650.000 rúmmetra af hraunfyllingu og taldi sig því eiga þar u.þ.b. 350.000 rúmmetra óunna.  Leituðu forsvarsmenn kæranda eftir því við Skógrækt ríkisins að gildistími samningsins yrði framlengdur um 6 ár þannig að unnt yrði að ljúka vinnslu umsamins efnismagns úr námunni.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2002, óskaði lögmaður Skógræktar ríkisins þess að Hafnarfjarðarbær gerði grein fyrir afstöðu sinni til óska kæranda um áframhaldandi námuvinnslu á svæðinu.  Var erindi þessu synjað, án rökstuðnings, á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar hinn 7. febrúar 2002 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2002, óskaði Skógrækt ríkisins rökstuðnings fyrir framangreindri ákvörðun bæjarráðs.  Var með bréfi, dags. 21. febrúar 2002, gerð grein fyrir rökstuðningi bæjaryfirvalda fyrir umræddri ákvörðun.  Er þar m.a. tekið fram að samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 47. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 sé öll efnistaka í bæjarlandinu óheimil án framkvæmdaleyfis bæjarstjórnar.  Þá kemur einnig fram í rökstuðningi bæjaryfirvalda, að frekari efnistaka á svæðinu samræmist ekki gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar og að mörkuð hafi verið sú stefna að umræddri námu verði lokað og frá henni gengið.  Með vísan til stefnumörkunar bæjarstjórnar um efnistöku í bæjarlandinu og núgildandi aðalskipulags Hafnarfjarðar sé það ekki vilji bæjarstjórnar að heimila frekari efnistöku í landi Skógræktarinnar í Hafnarfirði.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að hina kærðu ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar skorti lagastoð og því beri að fella hana úr gildi.  Telur hann 27. gr. laga nr. 73/1997 og 47. gr. laga nr. 44/1999 ekki vera haldbæra stoð fyrir þeirri ákvörðun bæjarráðs að synja honum um heimild til að taka hraunfyllingu, í sinni eigu, úr námunni.  Bæjarráð hafi ekki vald til að banna töku kæranda á hraunfyllingu þeirri er hann hafi keypt á árinu 1992 en á þeim tíma hafi a.m.k. verið heimilt að taka það efni úr námunni.  Krafa kæranda um að fá að taka hraunfyllingu úr námunni byggi á samningi og hafi hann tekið hraunfyllingu jafnt og þétt úr námunni frá febrúar 1992.  Það sé því ekki svo að fyrir dyrum standi nú meiri háttar framkvæmdir, sbr. 27. gr. laga nr. 73/1997, enda framkvæmdir löngu hafnar, eða á árinu 1992.  Tilvitnuð lagaákvæði geti aðeins náð til framkvæmda er hefja skuli eftir gildistöku laganna, en ekki til framkvæmda sem áður hafi byrjað.  Þar að auki hafi kærandi tekið hraunfyllingu úr námunni eftir gildistöku laga nr. 73/1997 og 44/1999, allt fram í febrúar 2002, án þess að Hafnarfjarðarbær hafi hreyft við því athugasemdum.  Bærinn hafi því heimilað efnistöku úr námunni í mörg ár eftir gildistöku fyrrgreindra laga og hafi kærandi því mátt ætla að honum væri heimilt að nýta efni sitt í námunni.  Hefði kærandi haft ástæðu til að ætla að Hafnarfjarðarbær breytti um afstöðu til efnistökunnar hefði hann flýtt efnistökunni og lokið henni á árinu 1991.  Ekkert hafi breyst í skipulagi á svæðinu er réttlæti breytta afstöðu bæjarsins, sem sé mjög íþyngjandi fyrir kæranda.

Þá telur kærandi fráleitt að brottnám á hraunfyllingu hans úr námunni teljist nú til meiri háttar framkvæmda er áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess.  A.m.k. sé órökstutt að efnistaka nú teljist meiri háttar, þar sem efnistaka úr námunni eftir gildistöku laga nr. 73/1997 og 44/1999 og þar til í febrúar 2002 hafi ekki verið talin slík meiri háttar framkvæmd.  Umrætt svæði sé námusvæði og hafi verið það um langan tíma.  Ásýnd umhverfisins breytist ekki til hins verra, enda þótt tekið sé meira magn af hraunfyllingu úr námunni.  Svæðið verði námusvæði líkt og áður og ásýnd umhverfis lík og áður.  Þá séu fleiri námur í grenndinni, sem verið sé að nýta, og sé kæranda ekki kunnugt um að Hafnarfjarðarbær hafi bannað töku efnis úr þeim.  Efnistaka úr námunni gangi að mati kæranda ekki gegn áætlunum um skipulag svæðisins, enda sé þar gert ráð fyrir byggingum í framtíðinni.  Kappkostað hafi verið að ganga vel frá landi eftir efnistöku og hafi því verið komið í nánast sama horf og fyrir efnistöku.  Það sé því rangt að efnistakan hafi valdið spjöllum á landinu.  Þá sé efnistakan a.m.k. í samræmi við skipulag er gilt hafi er samningur um hana hafi verið gerður á árinu 1992 og sé af þeirri ástæðu heimil.

Kærandi telur að svo íþyngjandi ákvörðun sem hér um ræði eigi ekki að taka nema fullvíst sé að öllum lagaskilyrðum sé fullnægt.  Hafnarfjarðarbær hafi ekki látið rannsaka áhrif efnistökunnar á umhverfið og hafi sveitarfélagið því m.a. vanrækt rannsóknarskyldu er boðin sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá telur kærandi að Hafnarfjarðarbær hafi, með ákvörðun sinni, brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi vafalaust mátt ná markmiðum um umhverfisvernd með öðru og vægara móti, svo sem með tilmælum um frágang á landi eftir efnistöku o.fl.

Verði ekki fallist á kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld verði úr gildi sé þess krafist að úrskurðarnefndin úrskurði um að Hafnarfjarðarbæ sé skylt að bæta kæranda það tjón sem hann verði fyrir vegna þeirrar ákvörðunar bæjarráðs að synja honum um heimild til að nýta hraunfyllingu er hann eigi í fyrrgreindri námu.  Verði talið að Hafnarfjarðarbæ sé heimilt, skv. lögum nr 73/1997 og/eða 44/1999 og á grundvelli breytts skipulags svæðisins, að banna kæranda að nýta þau verðmæti er hann hafi keypt af Skógrækt ríkisins á árinu 1992 sé ljóst að Hafnarfjarðarbæ beri að bæta honum allt það tjón er hann verði fyrir, sbr. skýr ákvæði 33. gr. laga nr. 73/1997.  Augljóst sé að kærandi verði fyrir verulegu tjóni ef honum verði ekki heimilað að selja hraunfyllingu er hann eigi í námunni.

Að lokum áréttar kærandi að hann hafi hinn 23. febrúar 2002 fengið vitneskju um efni bréfs bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, dags. 21. febrúar 2002, þar sem rökstudd hafi verið hin kærða ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar.  Kæran hafi því verið sett fram innan kærufrests, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá hinni kærðu ákvörðun hnekkt, enda varði hún fyrst og fremst hagsmuni hans, en ekki sé ágreiningur milli hans og Skógræktar ríkisins að hann eigi hraunfyllingu í námunni.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu bæjarlögmanns Hafnarfjarðar er tekið fram að Skógrækt ríkisins hafi óskað eftir afstöðu bæjarráðs Hafnarfjarðar um að framlengja leigutíma umrædds samnings, en sá sem kæri afgreiðslu bæjarráðs sé Borgartak ehf. Hafnarfjarðarbær fallist á að Borgartak eigi aðild að þessu máli og geti kært umrædda afgreiðslu bæjarráðs að uppfylltum réttum formskilyrðum, þar sem Borgartak ehf. hafi verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Hafnarfjarðarbær leggi hins vegar þann skilning í erindi Skógræktarinnar, sem synjað hafi verið í bæjarráði 7. febrúar 2002, að Skógræktin hafi einungis verið að leita eftir afstöðu bæjarins um að framlengja samningi um efnistöku og sé bærinn andsnúinn því, sbr. afgreiðslu bæjarráðs á erindinu.  Skipulags- og byggingarráð hafi ekki vald til þess að hnekkja þessari afstöðu bæjarins til framlengingar á samningi, frekar en annað stjórnvald, sökum sjálfstæðis sveitarfélaganna í landinu, sem sé stjórnarskrárvarið, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994.

Hvorki Skógræktin né Borgartak hafi sótt um framkvæmdaleyfi að fengnu mati á umhverfisáhrifum, sem þeim beri að gera, en slíkt framkvæmdaleyfi, samþykkt af bæjarstjórn, sé forsenda þess að unnt sé að halda áfram efnistöku á umræddum stað.  Gildistími umrædds samnings hafi verið útrunninn og hafi erindið um afstöðu bæjarins til framlengingar hans því verið borið undir bæjarráð. 

Skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum beri að sækja um framkvæmdaleyfi þegar um sé að ræða meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku.  Skuli slíkar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þegar það eigi við.  Þegar um svo mikla efnistöku sé að ræða sem í þessu tilviki beri að afla mats á umhverfisáhrifum, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993.  Framkvæmdaaðila beri að sækja um slík leyfi, sbr. 7. gr. nefndra laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993.
 
Hefði Borgartak ehf. sótt um framkvæmdaleyfi eftir að hafa aflað mats á umhverfisáhrifum og bæjarstjórn synjað félaginu um slíkt leyfi, hefði mátt kæra þá synjun bæjarstjórnar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga með síðari breytingum, sbr. 27. gr. laganna.  Borgartak ehf. byggi rétti sinn til efnistökunnar alfarið á umræddum samningi frá 1992, og reyni þá eingöngu á reglur samningaréttarins um hvernig túlka beri þennan samning hvað varði gildistíma hans þegar meta skuli rétt félagsins til áframhaldandi efnistöku úr námunni.  Málið heyri því undir dómstóla en ekki undir úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál.  Beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni af framangreindum ástæðum.

Til stuðnings varakröfu sinni um að hin kærða ákvörðun skuli standa óröskuð bendi Hafnarfjarðarbær á að skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 njóti ákveðnar landslagsgerðir verndar, s.s. eldvörp, gervigígar og eldhraun og falli Kapelluhraun undir þetta lagaákvæði.

Eins og fram komi í núgildandi aðalaskipulagi þá hafi efnistaka í landi Hafnarfjarðar ekki farið fram með nógu skipulegum hætti og hafi hlotist af því veruleg eyðilegging á landslagi og önnur umhverfisspjöll, oft fyrir lítinn afrakstur.  Þessu vilji Hafnarfjarðarbær breyta.  Því sé til að svara um efnistök úr námum í nágrenninu, sem verið sé að nýta, að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum fyrir allar námurnar, fyrir utan eina sem Vegagerðin nýti, en sú náma hafi verið opnuð án samráðs við bæinn.  Unnið sé að mati fyrir þá námu. Jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi því ekki verið brotin með synjun bæjarráðs þann 7. febrúar 2002 á áframhaldandi efnistöku með stoð í umræddum samningi frá 1992.

Þá sé rangt, að áliti Hafnarfjarðarbæjar, að bærinn hafi vanrækt rannasóknarskyldu sína sem boðin sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda sé það hlutverk Borgartaks sem framkvæmdaaðila að óska eftir mati á umhverfisáhrifum og sækja um framkvæmdaleyfi, en ekki bæjarins.

Af ofangreindum ástæðum sé bótaskyldu Hafnarfjarðarbæjar í máli þessu einnig alfarið hafnað.

Þar sem mat á umhverfisáhrifum liggi ekki fyrir og ekki hafi verið sótt um framkvæmdaleyfi fyrir umræddri efnistöku, sem lögskylt sé, sé ekki gerlegt að fjalla frekar um kröfu kæranda efnislega.  Hér eigi ekki við að fjalla frekar um hvernig beri að túlka samning hvað varði gildistíma hans eða fjalla um reglur samningaréttarins um slík efni. Sé það dómstóla að dæma um slíkt að mati Hafnarfjarðarbæjar, eins og þegar hafi komið fram.
 
Andmæli kæranda:
  Vegna frávísunarkröfu Hafnarfjarðarbæjar var kæranda gefinn kostur á að koma að andsvörum við greinargerð bæjarins í málinu.  Kom lögmaður kæranda sjónarmiðum hans á framfæri við úrskurðarnefndina með bréfi, dags. 21. mars 2003.  Telur hann að hafna beri kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frávísun málsins enda styðji lög ekki þá kröfu bæjarins.  Telur hann að í rökstuðningi Hafnarfjarðarbæjar, dags. 21. febrúar 2002, felist að bæjaryfirvöld hafi synjaði kæranda um framkvæmdaleyfi.  Þá synjun hafi kærandi kært til úrskurðarnefndarinnar og sé hún réttur aðili til að fjalla um ágreining sem uppi sé um lögmæti þeirrar synjunar, sbr. t.d. 8. og 27. gr. laga nr. 73/1997.  Kærandi telji reyndar að óskylt hafi verið að leita eftir framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar, en hins vegar sé það staðreynd að leitað hafi verið slíks leyfis.  Það sé því rangt sem fram komi í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar að ekki hafi verið sótt um framkvæmdaleyfi.  Þá sé einnig rangt að framkvæmdaleyfi hafi aðeins mátt sækja um að fengnu mati á umhverfisáhrifum, eins og haldið sé fram af hálfu Hafnarfjarðarbæjar.  Kærandi telji að óskylt hafi verið að afla slíks mats vegna fyrirhugaðrar efnistöku, enda byggi sú efnistaka á samningi er gerður hafi verið fyrir gildistöku laga um mat á umhverfisáhrifum.

Loks vísar kærandi á bug öðrum málsástæðum er Hafnafjarðarbær teflir fram til stuðnings frávísunarkröfu sinni og mótmælir jafnframt varakröfu bæjarins með vísan til rökstuðnings í kæru, sem hann reifar nánar í andmælum sínum.

Fari svo að úrskurðarnefndin telji að nauðsynlegt hafi verið að afla mats á umhverfisáhrifum áður en unnt væri að óska framkvæmdaleyfis, sé þess engu að síður krafist að nefndin felli úr gildi ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar og heimili kæranda að taka allt að 150.000 rúmmetra af hraunfyllingu úr námunni.  Styðjist sú varakrafa við ákvæði 21. gr. í viðauka 1 með lögum nr. 106/2000 og ákvæði stjórnsýslulaga um jafnræði og meðalhóf.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. maí 2003, óskar lögmaður kæranda þess loks að úrskurðarnefndin skeri úr um það, með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997, hvort fyrirhugaðar framkvæmdir kæranda séu háðar framkvæmdaleyfi skv. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.  Áréttar hann að hann telji fyrirhugaðar framkvæmdir ekki framkvæmdaleyfisskyldar.  Ekki hafi heldur verið skylt að afla mats á umhverfisáhrifum framkvæmdanna enda gildi um þær I. liður ákvæða til bráðabirgða með lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð nánari grein fyrir röksemdum þeirra í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin boðaði til vettvangsgöngu og kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 6. mars 2003.  Auk nefndarmanna og framkvæmdastjóra nefndarinnar voru mættir lögmaður kæranda ásamt starfsmanni, sem hefur umsjón með námusvæðinu.  Ekki var mætt af hálfu Hafnarfjarðarbæjar.  Nefndarmenn fóru um svæðið og fengu upplýsingar um það hvernig kærandi hygðist standa að frekari efnistöku á svæðinu og frágangi þess.

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir óskaði Skógrækt ríkisins þess með bréfi, dags. 29. janúar 2002, að Hafnarfjarðarbær lýsti afstöðu sinni til erindis kæranda um áframhaldandi efnistöku úr námu í landi Skógræktarinnar í Kapelluhrauni.  Bæjarráð synjaði erindi þessu og verður afstaða bæjarins ekki skilin á annan veg en svo, að litið hafi verið á umrætt erindi sem beiðni um samþykki bæjarins fyrir efnistökunni.  Kom og fram í rökstuðningi bæjaryfirvalda, sem síðar kom fram, að efnistakan væri háð framkvæmdaleyfi og samræmdist þar að auki ekki gildandi aðalskipulagi bæjarins.

Enda þótt fallast megi á það með bæjaryfirvöldum að umrætt erindi Skógræktar ríkisins hafi í raun aðeins verið fyrirspurn og því ekki gefið tilefni til formlegrar ákvörðunar verður ekki framhjá því litið að afgreiðsla bæjaryfirvalda og síðari rökstuðningur hefur á sér yfirbragð stjórnvaldsákvörðunar.  Verður svar bæjaryfirvalda ekki skilið á annan veg en svo að með því hafi verið synjað erindi um leyfi fyrir frekari efnistöku á svæðinu og að þýðingarlaust hefði verið fyrir Skógrækt ríkisins eða kæranda að sækja formlega um leyfi til efnistökunnar, enda verður framkvæmdaleyfi ekki veitt fari fyrirhuguð framkvæmd í bága við gildandi skipulag, sbr. 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður því að líta svo á að svar bæjarráðs við greindu erindi Skógræktar ríkisins hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun sem hafi verið lokaákvörðun um erindið og því kæranleg samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Auk ágreinings um lögmæti framangreindrar ákvörðunar bæjarráðs er í máli þessu deilt um það hvort Skógrækt ríkisins eða kærandi hefðu þurft að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir umræddri efnistöku, eftir atvikum að undangengnu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Hefur kærandi óskað úrlausnar úrskurðarnefndarinnar um þann vafa sem hann telur leika á um framkvæmdaleyfisskyldu efnistökunnar.

Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er það á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að skera úr um vafa um það hvort afla þurfi framkvæmdaleyfis til tiltekinnar framkvæmdar.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að úrskurðarnefndin taki slík álitaefni, sem til hennar er vísað, til úrlausnar án þess að fyrir liggi ákvörðun sveitarstjórnar í málinu.  Ber nefndinni því að taka erindi kæranda um úrlausn um framkvæmdaleyfisskyldu efnistökunnar til meðferðar, óháð mati á því hvert hafi verið gildi þeirrar ákvörðunar bæjarráðs, sem upphaflega var kærð í málinu.

Með hliðsjón af framansögðu verður ekki fallist á kröfu Hafnarfjarðarbæjar um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það skilyrði er sett í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997 að leyfisskyldar framkvæmdir skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir.  Af þessu leiðir að takmarkaða þýðingu hefur að skera úr um framkvæmdaleyfisskyldu umræddrar efnistöku nema áður sé úr því skorið hvort sú staðhæfing bæjarráðs, að efnistakan fari í bága við gildandi aðalskipulag, sé á rökum reist.

Í málinu liggur fyrir gildandi aðalskipulagsuppdráttur Hafnarfjarðar 1995-2015.  Eru á honum sýnd þau efnistökusvæði sem fyrir eru innan marka skipulagsins, þar á meðal svæði það sem um ræðir í máli þessu.  Sérstaklega eru þar auðkennd þau svæði þar sem umfang og mörk eru talin háð mati á umhverisáhrifum en það auðkenni nær ekki til hins umdeilda svæðis.  Aðliggjandi svæði er merkt með lit sem táknar opin svæði/almenn græn svæði, en í greinargerð aðalskipulagsins er þessi litarmerking nánar skýrð sem merking fyrir óbyggt land án skipulagðrar notkunar.  Í greinargerð aðalskipulagsins segir að yfirborðsvinnsla á hrauni sé óheimil, nema í þeim námum sem nú þegar séu í samningsbundinni vinnslu í Hrauntungum í Kapelluhrauni.  Hafnarfjarðarbær hafi ekki veitt leyfi fyrir þeirri yfirborðsvinnslu, heldur Skógrækt ríkisins, sem sé landeigandi.  Samningar um þessa vinnslu, 1.000.000 m³ hraungjalls, hafi verið gerðir áður en lög um mat á umhverfisáhrifum hafi öðlast gildi.

Þá liggur fyrir í málinu „Stefnumótun og verklagsreglur um efnistöku í landi Hafnarfjarðar“, samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 13. nóvember 2001, þar sem segir að umrætt svæði sé í aðalskipulagi skilgreint sem opið svæði/almennt grænt svæði og hraunnám. 

Miðað við þau gögn sem fyrir liggja og að framan er lýst verður ekki fallist á að efnistaka á umræddu svæði fari í bága við gildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt í nefndri stefnumótun um efnistöku sé ráðgert að leggja af efnistöku á svæðinu, enda hefur þessi stefnumótun ekki gildi sem skipulagsákvörðun og felur því ekki í sér breytingu á gildandi skipulagi svæðisins.  Verður því ógilt sú ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 7. febrúar 2002 að hafna áformum um frekari efnistöku á umræddu svæði með þeim rökum að framkvæmdin samræmist ekki gildandi aðalskipulagi bæjarins.

Þar sem skipulag stendur því ekki í vegi að frekari efnistaka geti átt sér stað á umræddu svæði á kærandi lögvarða hagsmuni því tengda að fá úr því skorið hvort efnistakan teljist háð framkvæmdaleyfi skv. 1. mgr. 27. gr. l. 73/1997.

Efnisnám kæranda í Kapelluhrauni hefur farið fram á grundvelli samnings hans við landeiganda frá 6. febrúar 1992.  Samkvæmt 17. grein náttúruverndarlaga nr. 47/1971, sem í gildi voru þegar umræddur samningur var gerður, var landeiganda heimil efnistaka í landi sínu, gengi hún ekki í berhögg við ákvæði laganna um friðlýsingu náttúruminja og stofnun útivistarsvæða.  Sveitarstjórn gat þó, að fenginni umsögn náttúruverndarnefndar, bannað jarðrask af þessum sökum ef hún teldi hættu á að með því væri sérkennilegu landslagi eða náttúruminjum raskað.  Jafnframt var í gr. 3.3.4.7 þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 318/1985, m.s.br., gert ráð fyrir að efnistökusvæði væru auðkennd á aðalskipulagsuppdrætti sveitarfélaga.  Sveitarstjórnir höfðu þannig nokkur úrræði til íhlutunar um efnistöku en ekki var að lögum skylt að afla sérstaks leyfis sveitarstjórnar fyrir slíkum framkvæmdum.

Ákvæði um framkvæmdaleyfi var fyrst lögfest með 27. gr. laga nr. 73/1997 sem tóku gildi hinn 1. janúar 1998.  Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis þessa er óheimilt að hefja meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Er jafnframt áskilið að slíkar framkvæmdir skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það eigi við.

Hvorki er í ákvæði þessu né í 9. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um framkvæmdaleyfi tekin afstaða til þess hvernig fari um framkvæmdir sem hafnar hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 73/1997 og fram sé haldið eftir það tímamark.  Verður því að líta til almennra sjónarmiða um lagaskil og afturvirkni laga við úrlausn þess álitaefnis.

Ákvæði laga um framkvæmdaleyfi eru íþyngjandi fyrir landeigendur og rétthafa efnistökusvæða og fela í sér skerðingu á hagnýtingarrétti þeirra.  Verður ekki talið að slík ákvæði geti tekið til framkvæmda sem hafnar voru fyrir gildistöku laganna og unnar eru eftir áætlunum eða samningum, þar sem umfang þeirra hefur fyrirfram verði afmarkað, svo sem í tilviki því sem hér um ræðir.  Verður ekki talið að áframhaldandi námuvinnsla á svæðinu geti talist ný framkvæmd meðan umsömdu efnismagni hefur ekki verið náð og unnið er innan þess svæðis sem afmarkað var með samningi landeiganda og kæranda.  Tímamörk í samningi aðila eru einkaréttarlegs eðlis en ráða engu um umfang framkvæmdarinnar.  Var aðilum, að mati úrskurðarnefndarinnar, heimilt að framlengja umræddum samningi án sérstaks leyfis sveitarstjórnar, enda var ekki með þeirri ráðstöfun verið að auka umfang efnistökunnar umfram þau 1.000.000 m³ mörk sem sett höfðu verið og getið er í greinargerð gildandi aðalskipulags Hafnarfjarðar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki sé skylt að afla framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í umræddri námu, allt að því marki sem kveðið er á um í samningi landeiganda og kæranda. Þessi niðurstaða er þó háð því að framkvæmdin verði ekki talin matsskyld eða sé undanþegin matsskyldu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 í samræmi við áritun á aðalskipulagsuppdrætti.  Verður hins vegar ekki tekin afstaða til þess álitaefnis í úrskurði þessum enda fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að skera úr álitaefnum samkvæmt þeim lögum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ógilt er sú ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 7. febrúar 2002 að hafna áformum um frekari efnistöku í landi Skógræktar ríkisins í Kapelluhrauni með þeim rökum að framkvæmdin samræmist ekki gildandi aðalskipulagi bæjarins.  Ekki er skylt að afla framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í umræddri námu, allt að því marki sem kveðið er á um í samningi landeiganda og kæranda.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________           _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Óðinn Elísson

49/2001 Smiðjuvegur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2001; kæra eigenda hússins nr. 32 við Smiðjuveg í Kópavogi á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 26. júlí 2001 um að synja erindi  hans um að bæjarráð leggi fyrir byggingarnefnd að afturkalla byggingarleyfi frá 8. júní 2001 fyrir steinvegg á lóðinni að Smiðjuvegi 30 og gert verði ráð fyrir stærra gönguopi í veggnum án þröskulds.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. október 2001, sem barst nefndinni hinn 2. nóvember sama ár, kærir Björn Þorri Viktorsson hdl., f. h. J ehf., og O,eigenda hússins nr. 32 við Smiðjuveg í Kópavogi þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 28. júlí 2001 að synja beiðni kærenda um afturköllun byggingarleyfis frá 8. júní 2001 fyrir steinvegg á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg, og að hlutast verði til um að gönguop á veggnum verði breikkað í a.m.k. 100 sentimetra og 10-15 sentimetra þröskuldur í gönguopinu verði fjarlægður.

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og byggingarleyfi fyrir umdeildum vegg verði ógilt og leyfishafa verið gert að breikka gönguop á veggnum og fjarlægja þröskuld í gönguopinu áður en byggingarleyfi verði veitt að nýju.

Málavextir:  Hinn 27. nóvember 1975 samþykkti byggingarnefnd Kópavogs teikningar af húsunum nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi ásamt uppdrætti af fyrirkomulagi á lóð húsanna.  Hús þessi eru sambyggð, tvær hæðir hvert, en vegna landhalla eru efri hæðir húsanna í götuhæð að sunnanverðu og neðri hæðir niðurgrafnar á þeirri hlið, en að norðanverðu eru neðri hæðir um það bil í götuhæð.  Húsin eru ætluð til atvinnustarfsemi.  Umrædd hús munu hafa verið byggð á árunum eftir 1975 en lóðarleigusamningar fyrir húsin eru gerðir hinn 8. mars 1977 (nr. 34), 13. mars 1978 (nr. 32) og 27. nóvember 1978 (nr. 30).  Snemma árs 1980 fékk eigandi hússins nr. 34 leyfi til að stækka neðri hæð hússins með því að byggja kjallara undir bílastæði efri hæðar þess, en samsvarandi stækkun neðri hæðar hússins nr. 32 var samþykkt snemma árs 1982.  Eftir byggingu kjallaranna eru bílastæði við efri hæðir húsanna ofan á steyptri loftplötu viðbyggingarinnar en upp úr plönunum standa fyrirferðarmiklir steinsteyptir reyklosunarstokkar.  Er slíkur stokkur tilheyrandi húsinu nr. 32 fram af skilvegg efri hæða húsanna nr. 30 og 32 og er stokkur þessi, samkvæmt samþykktri teikningu, 50 sentimetrar á hæð, 1,1 metri á breidd og 8,2 metrar að lengd, samsíða mörkum húsanna, en inni á þeim hluta lóðarinnar sem er framan við húsið nr. 32.  Er 1,7 metra fjarlægð frá húsvegg að þeim enda stokksins sem veit að húsinu.

Í lok ágúst og byrjun september 1998 reisti eigandi hússins nr. 30 við Smiðjuveg steinsteyptan vegg frá mótum húsanna nr. 30 og 32 á mörkum lóðarhluta þeirra sem eru fram af húsunum.  Er veggur þessi 85 – 90 sentimetrar á hæð og nær fram undir götu þá sem liggur meðfram lóð húsanna.  Endar hann þar í veggstubb sem byggður er hornrétt á vegginn og er samsíða götunni inn á lóðarhluta hússins nr. 30.  Á 8,2 metra bili er veggur þessi samsíða áðurnefndum reyklosunarstokki og byggður fast upp að honum.  Auk veggjar þessa byggði eigandi hússins nr. 30 hliðstæðan vegg að norðanverðu milli lóðarhlutanna framan við jarðhæðir sömu húsa, en fyrir lá samþykki eiganda neðri hæðar hússins nr. 32 fyrir veggnum að norðanverðu við húsin.

Kærendur mótmæltu þessum framkvæmdum á lóðinni sunnan húsanna og komu á framfæri kvörtun við byggingarfulltrúa þegar veggirnir voru steyptir.  Hinn 10. september 1998 ritaði lögmaður þeirra bréf til byggingarfulltrúans í Kópavogi, þar sem þess var krafist að embætti byggingarfulltrúa hlutaðist til um að veggirnir yrðu fjarlægðir og að gengið yrði frá lóðinni í fyrra horf.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 4. nóvember 1998.  Lágu þá fyrir nefndinni erindi frá kærendum, svo og bréf eiganda Smiðjuvegar 30, dags. 6. október 1998, ásamt umsögn bæjarlögmanns Kópavogs um málið, dags. 21. október 1998.  Vísaði byggingarnefnd málinu frá á grundvelli umsagnar bæjarlögmanns og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 10. nóvember 1998.  Þessari ákvörðun byggingarnefndar vildu kærendur ekki una og skutu málinu því til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 10. desember 1998.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 26. febrúar 1999 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um frávísun málsins.  Var lagt fyrir nefndina að taka til úrlausnar hvort veita skyldi byggingarleyfi fyrir veggjum þeim sem eigandi Smiðjuvegar 30 hafði byggt á sameiginlegri lóð húsanna nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi, og skyldi gefa eiganda veggjanna kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og afla tilskilins samþykkis og hönnunargagna innan hæfilegs frests.

Með vísan til úrskurðar nefndarinnar óskaði eigandi Smiðjuvegar 30 eftir leyfi fyrir steyptum stoðveggjum við fasteign sína.  Byggingarnefnd tók erindið fyrir og frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum 24. mars 1999, með vísan í 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gaf málsaðilum kost á að kynna sér afstöðu byggingarnefndar og gögn málsins.

Á fundi byggingarnefndar 28. apríl 1999 var tekið fyrir erindi umsækjanda varðandi leyfi til að reisa steypta stoðveggi að Smiðjuvegi 30.  Var erindinu synjað þar sem samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 lægi ekki fyrir.  Taldi byggingarnefnd, með tilvísun til ákvæða 30., 33., 36. og 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og sérstaklega með vísun til 7., 8. og 10. töluliðar A-liðar 41. gr., að samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 þyrfti fyrir framkvæmdum á lóð, þar með talið notkun og skiptingu á sameiginlegum bílastæðum.  Ennfremur hefði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála með úrskurði sínum 26. febrúar 1999 úrskurðað að lóðin nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg væri sameiginleg.

Þessari niðurstöðu vildi umsækjandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndar sem kvað upp úrskurð sinn hinn 23. desember 1999.  Niðurstaða málsins varð sú að ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 28. apríl 1999 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddum vegg var felld úr gildi.  Lagt var fyrir byggingarnefnd að gefa kæranda í því máli kost á að sækja að nýju um byggingarleyfi fyrir veggjunum, með þeirri breytingu að gert yrði ráð fyrir óhindraðri umferð gangandi manna milli lóðarhlutanna sunnan húsanna nr. 30 og 32 við Smiðjuveg.  Var tekið fram að áður en byggingarleyfi yrði veitt bæri að gera úttekt á undirstöðum veggjanna og var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að samþykki einfalds meirihluta sameigenda lóðarinnar, miðað við eignarhluta, nægði til þess að fullnægja skilyrði 4. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.

Kærendur gerðu kröfu um að umdeildir veggir yrðu fjarlægðir í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2000, en þá virðist ekkert hafa verið aðhafst í málinu frá því að greindur úrskurður gekk hinn 23. desember 1999.  Byggingarnefnd Kópavogs tók fyrir byggingarleyfisumsókn vegna umdeildra veggja á fundi hinn 15. nóvember 2000.  Fyrir fundinum lá fyrrgreint bréf kærenda, álitsgerð Ragnars Gunnarssonar tæknifræðings, dags. 14. nóvember 2000, um úttekt á stöðugleika veggjanna og samþykki einfalds meirihluta eigenda Smiðjuvegar 30-34 miðað við eignarhluta.  Var það álit nefndarinnar að samþykkja bæri fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn, þar sem tekið hefði verið tillit til atriða í síðari úrskurði úrskurðarnefndarinnar en ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins og gefa kærendum kost á að gera grein fyrir afstöðu sinni til óhindraðrar gönguumferðar milli lóðarhlutanna.  Kærendur settu fram þá ósk í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember 2000, að fyrirhugað 80 sentimetra gönguop á vegg milli lóðarhlutanna yrði breikkað.  Málið var á dagskrá byggingarnefndar á fundi hinn 29. nóvember 2000 þar sem greint bréf kærenda frá 23. nóvember lá frammi.  Var ályktað að gönguop milli lóðarhlutanna væri fullnægjandi svo sem það væri útfært í byggingarleyfisumsókn og lagði nefndin fyrir umsækjanda að saga umrætt göngugat í vegginn áður en til formlegrar samþykktar umsóknarinnar kæmi og var frestur til framkvæmdanna veittur til 15. desember 2000.  Byggingarfulltrúa var falin fullnaðarafgreiðsla málsins að uppfylltum greindum skilyrðum.  Kærendum var tilkynnt um þessa niðurstöðu í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 30. nóvember 2000.

Bréfaskipti urðu um málið milli kærenda og bæjaryfirvalda í kjölfar þessa.  Kærendur sendu bæjarráði bréf, dags. 6. febrúar 2001, þar sem kvartað var yfir meðferð málsins af hálfu byggingarfulltrúa og því haldið fram að byggingaryfirvöld drægju taum framkvæmdaaðila á kostnað kærenda.  Var þess farið á leit að bæjarráð hlutaðist til um að gönguop á umdeildum vegg yrði breikkað og framkvæmdaaðila yrði gert að ganga frá framkvæmdum með fullnægjandi hætti. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs hinn 15. febrúar 2001 og vísað til byggingarfulltrúa og bæjarlögmanns.  Umsögn byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi ráðsins hinn 22. febrúar og umsögn lögmanna á fundi ráðsins hinn 22. mars 2001, þar sem byggingarfulltrúi og formaður byggingarnefndar gerðu grein fyrir málinu.  Kærendur sendu bæjarráði bréf hinn 1. júní 2001 með fyrirspurn um afdrif erindis þeirra frá 6. febrúar og með fyrirspurn um hvort ráðinu hefði borist greinargerð byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar vegna málsins.

Kærendum var sent bréf, dags. 3. júlí 2001, þar sem greint var frá að bæjarráð hefði á fundi sínum hinn 28. júní samþykkt umsögn bæjarlögmanns frá 27. júní sama ár í tilefni af erindi kærenda frá 1.  Var lagt til að kærendum yrði send greinargerð lögmanna um málið, dags. 28. febrúar 2001.

Lyktir umdeildrar byggingarleyfisumsóknar urðu þær að byggingarfulltrúi veitti umrætt byggingarleyfi fyrir veggjunum á fundi sínum hinn 8. júní 2001 þar sem þá hafði verið fullnægt skilyrði um sögun gönguops á vegg milli fasteignar kærenda og byggingarleyfishafa.  Byggingarleyfishafa og kærendum var tilkynnt þetta í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. júní 2001.  Umrædd afgreiðsla mun hafa verið staðfest af byggingarnefnd hinn 13. júní, í bæjarráði hinn 21. júní og í bæjarstjórn hinn 26. júní 2001.

Með bréfi, dags. 19. júlí 2001, sendu kærendur bæjarráði Kópavogs erindi þar sem athugasemdir voru gerðar við breidd gönguops á umdeildum vegg að Smiðjuvegi 30 og ýmsar athugasemdir gerðar við meðferð málsins.  Var þess farið á leit við bæjarráð að byggingarnefnd yrði gert að afturkalla umdeilt byggingarleyfi og hlutast yrði til um að gönguop á veggnum yrði breikkað í a.m.k. 100 sentimetra og 10-15 sentimetra þröskuldur í gönguopinu yrði fjarlægður.  Bæjarráð hafnaði erindi kærenda á fundi sínum hinn 26. júlí 2001 og var kærendum tilkynnt um þá niðurstöðu í bréfi bæjarlögmanns, dags. 2. ágúst 2001.

Kærendur hafa nú skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið.

Málsrök kæranda:  Kærendur byggja kröfu sína á því að ómálefnalega hafi verið staðið að meðferð beiðni kærenda um breikkun á gönguopi í vegg milli fasteigna kærenda og byggingarleyfishafa sem hafi á hendi iðnaðarstarfsemi í fasteign sinni.  Óskiljanlegt sé að bæjaryfirvöld miði gönguopið við breidd dyra á íbúðarherbergjum sem sé 80 sentimetrar samkvæmt gr. 79.9 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 í ljósi þess að um sé að ræða aðgengi að tveimur iðnaðarrýmum þar sem koma þurfi fyrirferðarmiklum hlutum að og frá.  Hin kærða ákvörðun byggi á ranghugmyndum um aðkomu og aðgengi að umræddum rýmum og niðurstaða málsins því reist á röngum forsendum auk þess sem engin rök hafi verið færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun.

Kærendur telji að miða hefði átt margnefnt gönguop við 200. gr. byggingarreglugerðar sem kveði á um að gangar, þar með taldir svalagangar, skuli vera a.m.k. 1,3 metra breiðir.

Niðurstaða: Kærufrestur vegna ákvarðana um byggingarmál er einn mánuður frá því að aðila varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gengur sá frestur framar almennum kærufresti stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga.

Erindi kærenda, dags. 19. júlí 2001, fól í sér beiðni til bæjarráðs Kópavogs um að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 8. júní 2001, um veitingu byggingarleyfis fyrir þegar reistum steinvegg við fasteignina að Smiðjuvegi 30, yrði endurupptekin og breytt á þann veg er kærandi gerði kröfu um.  Bæjarráð synjaði erindinu og fól bæjarlögmanni að svara því og var kærendum tilkynnt um synjunina með bréfi bæjarlögmanns, dags. 2. ágúst 2001, sem kærendur kveðast hafa móttekið hinn 6. ágúst sama ár.  Málskot kærenda er dagsett hinn 31. október 2001, og barst úrskurðarnefndinni hinn 2. nóvember 2001, eða tæpum þremur mánuðum eftir að kærendum var kunn hin kærða ákvörðun.  og var kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga þá löngu liðinn.  Kemur þá til álita hvort taka eigi kæruna til efnismeðferðar samkvæmt undanþáguheimildum 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í nefndri 28. gr. er kveðið á um að vísa beri kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Meginregla stjórnsýslulaganna er að vísa beri kæru frá að liðnum kærufresti og verður að skýra undantekningar frá meginreglunni þröngt.

Hvorki í tilkynningu bæjaryfirvalda til kæranda um synjun bæjarráðs á erindi hans, dags. 2. ágúst 2001, né í tilkynningu byggingarfulltrúa um veitingu umdeilds byggingarleyfis var gerð grein fyrir kæruheimild hans til úrskurðarnefndarinnar og um kærufrest eins og áskilið er í 20. gr. stjórnsýslulaga.  Deilumál um umræddan vegg hafa tvívegis áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar og voru kærendur aðilar að þeim málum.  Þeim var strax í nóvember 2000 kunn afstaða byggingarnefndar til athugasemda kærenda við fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn og var tilkynnt um veitingu leyfisins með bréfi byggingarfulltrúa Kópavogs, dags. 11. júní 2001, og hafði að tilhlutan bæjarráðs fengið senda umsögn lögmanna til bæjarráðs um málið og meðferð þess, dags. 28. febrúar 2001.  Málið fékk ítarlega umfjöllun hjá bæjaryfirvöldum og áttu sér stað nokkur bréfaskipti milli þeirra og kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins.  Í ljósi þessarar forsögu málsins verður greindur annmarki ekki talinn eiga að leiða til þess að beita eigi undanþágureglum 28. gr. stjórnsýslulaga frá kærufresti.  Ekki verður talið að dráttur á málskoti kæranda sé afsakanlegur í ljósi málsatvika og álitaefni það sem uppi er í málinu þykir ekki þess eðlis að mikilvægar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Með skírskotun til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu og með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga þótti ekki efni til að afla umsagnar bæjaryfirvalda í málinu eða leita andmæla byggingarleyfishafa enda liggur nægjanlega fyrir afstaða bæjaryfirvalda og byggingarleyfishafa í gögnum þessa máls og í þeim tveimur málum sem áður hafa komið til kasta nefndarinnar vegna veggjarins á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg, Kópavogi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson

58/2001 Steinás

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Steinási 3, Garðabæ á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 5. mars 2001, að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Steinási 5, Garðabæ þar sem gert er ráð fyrir yfirbyggðri bílgeymslu með svölum á hluta þakflatar.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. desember 2001, er barst úrskurðarnefndinni hinn 12. sama mánaðar kærir Húseigendafélagið, fyrir hönd S, Steinási 3, Garðabæ þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 5. mars 2001 að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Steinási 5, Garðabæ, sem felur í sér að byggt verði ofan á hluta bílgeymslu hússins og hluti þakflatar bílgeymslunnar verði notaður sem svalir.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var þess krafist að úrskurðarnefndin úrskurðaði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda en sú krafa var dregin til baka.

Málavextir:  Á umræddu svæði gildir deiliskipulag fyrir Hraunsholt í Garðabæ frá árinu 1997 og gilda skipulagsskilmálar deiliskipulagsins fyrir nýbyggingarsvæði á Hraunsholti.  Steinás fellur undir nefnda skipulagsskilmála og samkvæmt skipulagsuppdrætti skyldi reisa einbýlishús á lóðinni nr. 5 við Steinás sem og á öðrum lóðum í nágrenninu.  Í skipulagsskilmálunum er gert ráð fyrir einbýlishúsum á einni hæð eða einni og hálfri hæð þar sem landhalli lóðar leyfir.

Kærandi festi kaup á einnar hæðar einbýlishúsi að Steinási 3, Garðabæ í febrúar 1999 og flutti hann í húsið í febrúar 2001.  Hinn 14. júní 2000 var tekin fyrir í skipulagsnefnd Garðabæjar umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á grannlóð kæranda að Steinási 5 og lagðist skipulagsnefnd gegn veitingu leyfisins með þeim rökum að gert væri ráð fyrir einnar hæðar húsum á umræddu svæði.  Breytt umsókn var lögð fyrir skipulagsnefnd hinn 5. júlí 2000 þar sem gólf bílskúrs, sem er sambyggður húsinu, hafði verið lækkað og bygging ofan á honum innan leyfðrar þakhæðar samkvæmt gildandi skipulagi.  Skipulagsnefnd lagðist enn gegn veitingu byggingarleyfisins þar sem um tveggja hæða hús væri að ræða þótt hæð þess væri innan marka skipulags um þakhæð húsa.   Byggingarfulltrúinn í Garðabæ samþykkti síðan á afgreiðslufundi hinn 28. júlí 2000 byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Steinási 5 og var það leyfi endurútgefið af byggingarfulltrúa hinn 5. mars 2001.  Hafði hönnun hússins þá verið breytt frá fyrri umsóknum á þann veg að veggur að norðanverðu og framhlið byggingarinnar yfir þaki bílskýlis hússins voru dregnir inn og gert ráð fyrir svölum á ónýttum þakfleti er myndaðist við breytinguna.  Yfirbyggingin er um 26 fermetrar að flatarmáli.

Framkvæmdir við byggingu hússins að Steinási 5 hófust eftir að byggingarleyfi hafði verið veitt og var veiting leyfisins kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er getið.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að málsmeðferð hafi verið ólögmæt og bygging ofan á bílskúr hússins að Steinási 5 fari í bága við skipulag og gangi verulega á hagsmuni kæranda.

Að mati kæranda hafi ekki verið heimilt að fara með málið eftir 3. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem gert sé ráð fyrir afgreiðslu byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsóknum í vissum tilvikum.  Skilyrði þeirrar málsmeðferðar sé að um minni háttar framkvæmdir sé að ræða sem ótvírætt samræmist gildandi deiliskipulagi.  Umdeild byggingarleyfisumsókn hafi átt að fá afgreiðslu byggingarnefndar og sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna, sérstaklega í ljósi þess að skipulagsnefnd bæjarins hafi í tvígang lagst gegn byggingarleyfisumsókn fyrir húsinu að Steinási 5.  Þessi ágalli leiði til þess að bæjaryfirvöld hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en málið hafi verið til lykta leitt í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga auk þess sem borið hafi að færa fram rök fyrir hinni kærðu ákvörðun eftir fyrirmælum 21. og 22. gr. laganna.

Ennfremur fari umdeilt byggingarleyfi gegn gildandi deiliskipulagi.  Í skipulags-skilmálum komi fram í gr. 1.1.2 að markmið skipulagsins sé að á svæðinu rísi fjölbreytt byggð.  Áhersla sé lögð á að nýttir séu möguleikar á fjölbreytni, t.d. með hliðrunum í grunnfleti og stöllun í lóðréttum flötum húsa. Þó skuli gæta ákveðins samræmis, t.d. í þakformi bygginga.  Umdeild bygging, sem sé útsýnisturn með glerhlið og svölum á þaki bílskýlis hússins, fari gegn þessum markmiðum.  Þá sé um að ræða tveggja hæða hús að hluta þrátt fyrir að landhalli lóðar bjóði ekki upp á slíkt og vísar kærandi til röksemda skipulagsnefndar fyrir synjun á fyrri byggingarleyfisumsóknum byggingarleyfishafa.  Grenndarkynna hefði átt fyrirhugaðar framkvæmdir áður en leyfi hafi verið veitt.

Umdeild bygging á þaki bílskúrsins snúi gluggahlið að suðurlóð kæranda en auk þess sé þar gert ráð fyrir svölum á þakfleti skúrsins.  Skerði þetta verulega hagsmuni kæranda þar sem suðurhluti lóða sé mest nýttur til útivistar en auk þess sjái beint inn í eldhússkála kæranda frá umdeildri byggingu og svölum.  Jafnframt megi búast við að birtu og sólar njóti síður á suðurlóð kæranda.  Með veitingu byggingarleyfis fyrir byggingu ofan á bílskúr hússins að Steinási 5 og nýtingu þakflatar undir svalir sé farið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem gengið sé stórlega á rétt kæranda fyrir hagsmuni byggingarleyfishafa.

Kærandi fékk engar tilkynningar um veitingu hins umdeilda byggingarleyfis en hann hafi þegar leitað upplýsinga um umdeilt byggingarleyfi þegar ljóst hafi verið í októbermánuði 2001 hvert stefndi.  Bæjaryfirvöld hafi ekki kynnt honum kærurétt til æðra stjórnvalds eða kærufrest eins og stjórnsýslulög mæla fyrir um og telur kærandi að taka beri kæru hans til efnismeðferðar með hliðsjón af 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Garðabæjar:  Bæjaryfirvöld gera þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.

Umdeilt byggingarleyfi hafi verið gefið út hinn 28. júlí 2000 og síðan endurútgefið hinn 5. mars 2001.  Framkvæmdir hafi byrjað í kjölfar þess og fyrsta úttekt framkvæmd hinn 16. maí 2001 og hafi kæranda þá verið ljóst að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir byggingu hússins að Steinási 5.  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar ákveðinn einn mánuður frá því að aðila sé kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Augljóst sé að málskot kæranda, sem fram hafi komið tæpum sjö mánuðum eftir að framkvæmdir hófust, sé allt of seint fram komið og beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.  Leggja verði þær skyldur á kæranda að hann leiti sér upplýsinga um gerð húsnæðis sem verið sé að reisa við hliðina á húsi hans enda sé það kærandi sjálfur sem meta þurfi hagsmuni sína af því tilefni.  Sérstaklega hafi verið tilefni fyrir kæranda að kynna sér málið þar sem hin umdeilda byggingarframkvæmd hafi byrjað eftir að hús kæranda hafi verið fullbyggt.  Ekki verði séð að tilefni sé til að beita  undanþágureglu stjórnsýslulaga um kærufrest í tilviki kæranda.  Framkvæmdir við byggingu einbýlishúss hljóti að vera næsta nágranna ljósar og gefa viðkomandi tilefni til að gæta hagsmuna sinna.  Telja verði það tómlæti af hálfu kæranda að hafa ekki þegar við upphaf framkvæmda kannað nánari gerð hússins að Steinási 5.

Allt að einu telja bæjaryfirvöld að umdeilt byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi skipulag á svæðinu.  Í gr. 1.1.2 í gildandi skilmálum segi að helsta markmið deiliskipulagsins sé að á svæðinu rísi fjölbreytt byggð þar sem fólk eigi þess kost að velja á milli mismunandi húsagerða.  Lögð sé áhersla á að hönnuðir nýti sér möguleika á að móta fjölbreytta byggð, t.d. með hliðrunum í grunnfleti og stöllun í lóðréttum flötum húsa.  Þá sé lögð áhersla á að öll mannvirki séu hönnuð þannig að þau falli sem best að landinu.  Taka beri tillit til bratta lands við hönnun einstakra húsa þannig að einbýlishús geti ýmist verið ein eða ein og hálf hæð.  Skilmálarnir geri ráð fyrir að í báðum tilvikum sé heimilt að nýta rými í risi, rúmist það innan tiltekinna stærðarmarka. 

Skilmálarnir geri ráð fyrir einbýlishúsum á einni hæð með þakhæð allt að 5,4 metrum, einbýlishúsum á pöllum allt að 5,8 – 7,8 metra háum eftir því hvernig hús snúi að götu og einbýlishúsum á einni og hálfri hæð (tveimur hæðum) með mænishæð að 5,4 – 7,6 metrum.  Sú vinnuregla hafi verið sett til þess að ná fram markmiðum skipulagsins um aðlögun að hæðarlegu lands að leyfa einnar hæðar hús þar sem landhalli lóðar væri minni en 1,5 metrar, tveggja hæða hús á lóðum með landhalla yfir 2 metra og stölluð hús eða valkvætt þar sem hæðarmunur lóðar næmi milli 1,5 – 2 metrum.

Skipulagsnefnd hafi hafnað fyrri umsóknum um byggingarleyfishafa þar sem talið hafi verið að umsóknin fæli í sér byggingu tveggja hæða húss en landhalli leyfði ekki slíkt hús samkvæmt fyrrgreindri viðmiðunarreglu og þótti ekki skipta máli þótt heildarhæð hússins væri innan marka leyfilegrar hæðar einlyfts einbýlishúss.

Umdeilt byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt sé einnar hæðar hús innan stærðarmarka sé litið til viðmiðunarkóta og hæsta kóta húss.  Aðalkóti hússins sé 16,7 metrar eins og hæðarblað sýni og hæsti kóti þess 22,10 metrar.  Af þessu leiði að hæð hússins sé 5,4 metrar miðað við aðalkóta, sem sé mesta leyfða hæð einnar hæðar húss, en byggingunni sé haldið innan leyfilegra hæðarmarka með því að hluti af gólfi hússins er stallað niður fyrir viðmiðunarkóta sem nemi um 51 sentimetra.  Misskilnings gæti hjá kæranda um að húsið sé á tveimur hæðum.  Skipulagsnefnd hafi hafnað umsóknum byggingarleyfishafa þar um og hafi teikningum því verið breytt og heimild skipulags um nýtingu rýmis í rishæð verið nýtt.

Aðalatriðið sé að húsið að Steinási 5 sé innan þeirra stærðarmarka sem skilmálar leyfi og í engu frábrugðið því sem kærandi mátti búast við.  Hús kæranda sé tiltölulega lágreist og að hluta til lækkað í landinu frá uppgefnum viðmiðunarkóta. Þær aðstæður kunni að valda því að kærandi hafi þá tilfinningu að húsið gnæfi yfir hús hans.  Aðstæður þessar skapi kæranda hins vegar engan rétt og ekki verði fallist á að nýting lóðar kæranda skerðist að marki sökum hæðar hússins að Steinási 5.  Kærandi mátti búast við því að umrætt hús gæti orðið allt að 5,4 metra hátt og nýtt væri heimild til að nýta rými í rishæð.  Sú lausn sem valin hafi verið að Steinási 5 sé ef til vill ekki hefðbundin en sé engu að síður í samræmi við gildandi skipulagsskilmála og ekki verði séð að þeir mæli gegn því að hafðar séu svalir á þaki bílskúrsins.  Þá verði ekki séð að skuggavarp verði meira en búast mátti við miðað við byggingu samkvæmt skipulagsskilmálum.

Ekki sé til að dreifa að málsmeðferð umdeildrar byggingarleyfisumsóknar hafi verið í andstöðu við lög.  Samkvæmt samþykkt um afgreiðslu byggingarfulltrúans í Garðabæ á byggingarleyfisumsóknum sé ótvíræð heimild í 1. tl. 1. gr. fyrir byggingarfulltrúa til að afgreiða slíkar umsóknir og engu breyti þar um þótt skipulagsnefnd hafi áður hafnað umsóknum byggingarleyfishafa.  Nýjar teikningar af húsinu, sem augljóslega hafi samrýmst skipulagsskilmálum, gáfu ekkert tilefni til að um þær væri fjallað í skipulagsnefnd eða bæjarstjórn.  Umsækjandi hafi átt kröfu á því að með mál hans yrði farið samkvæmt samþykkt bæjarins um heimild byggingarfulltrúa til afgreiðslu mála.  Þá verði ekki séð með hvaða hætti bæjaryfirvöld eigi að hafa brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga sem kærandi tilgreini, enda sé hin kærða ákvörðun hefðbundin afgreiðsla á byggingarleyfisumsókn um byggingu einbýlishúss.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Vísað er til þess að kæra í máli þessu sé allt of seint fram komin og tekur byggingarleyfishafi undir rök Garðabæjar um frávísun málsins.  Að öðru leyti er skírskotað til efnisraka bæjarins í greinargerð hans í málinu.

Vettvangsganga:  Nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar fóru á vettvang hinn 6. mars 2003.  Kærandi var viðstaddur skoðunina.  Byggingarleyfishafi og fulltrúi bæjaryfirvalda voru ekki viðstaddir en þeim hafði verið gert aðvart um vettvangsgönguna.  Nefndarmenn kynntu sér aðstæður og athuguðu m.a. hvernig umdeild bygging horfði við frá eldhússkála kæranda.  

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort ógilda eigi hina kærðu ákvörðun sökum þess að byggingarhluti hússins að Steinási 5, Garðabæ, sem reistur er á þaki bílskúrs hússins og svalir á þakinu, standist ekki gildandi deiliskipulag eða vegna annmarka á málsmeðferð og sökum óhæfilegrar hagsmunaröskunar gagnvart kæranda af völdum greindra framkvæmda.  Í málinu hefur Garðabær sett fram kröfu um frávísun málsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Við mat á því hvenær kærufrestur fer að líða gagnvart aðila, sem telur rétti sínum hallað með veitingu byggingarleyfis til annars aðila, verður að miða við það tímamark hvenær honum mátti vera ljóst af framvindu framkvæmda að þær kynnu að fara gegn hagsmunum hans en ekki verður fallist á að kærandi hafi haft frumkvæðisskyldu til að afla sér upplýsinga um umdeilt byggingarleyfi við upphaf byggingarframkvæmda.  Af því sem fram er komið í málinu verður ekki ráðið hvenær framkvæmdir á þaki bílskúrsins voru þannig á veg komnar að ljóst mátti vera hvernig frágangi byggingarhlutans og nýtingu yrði háttað.  Verður því að leggja til grundvallar frásögn kæranda um að hann hafi fyrst í október 2001 séð í hvað stefndi og þá hlutast til um að leita upplýsinga um hönnun hússins að Steinási 5.  Ekki liggur fyrir hvort og þá hvenær kæranda var kynntur möguleiki á málskoti til æðra stjórnvalds eða um kærufrest í samskiptum sínum við byggingaryfirvöld og verður málið því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Deiliskipulagsuppdráttur fyrir Hraunsholt, Garðabæ, er tekur m.a. til umrædds svæðis, sýnir hvaða lóðir eru ætlaðar fyrir einbýlishús en ekki er greint nánar á um húsagerðir einstakra einbýlishúsalóða.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum er stefnt að mótun fjölbreyttrar byggðar en gæta skuli ákveðins samræmis, t.d. í þakformi bygginga.  Gert er ráð fyrir tveimur gerðum einbýlishúsa á svæðinu, annars vegar einnar hæðar húsum (E1) og hins vegar stölluðum húsum í tvær hæðir að hluta (E2). Af skilmálunum verður ráðið að húsagerðin E2 verði heimiluð þar sem landhalli bjóði upp á stöllun húss.  Samkvæmt umsögn bæjaryfirvalda í máli þessu hafa verið settar viðmiðunarreglur um hver landhalli lóðar þurfi að vera svo heimila megi stöllun húsa samkvæmt téðum skilmálum svo sem rakið hefur verið og þarf landhalli innan lóðar að vera 1,5 metrar svo heimila megi stöllun húsa.  Landhæð lóðarinnar að Steinási 5 við götu, næst lóðamörkum við lóð kæranda, er 16,10 metrar en landhæð við lóðamörk baklóðar 17,60 metrar, en hæðarmunur innan lóðar er þar mestur.  Landhalli innan lóðar er þar um 1,5 metrar en er um 1,4 metrar við suðurmörk lóðarinnar.  Hvort heldur sem um er að ræða einbýlishús af gerðinni E1 eða E2 heimila skipulagsskilmálar að nýtt sé rými í rishæð, rúmist það innan stærðarmarka húss.

Sótt var þrívegis um byggingarleyfi fyrir húsbyggingu að Steinási 5.  Fyrsta umsóknin gerði ráð fyrir einbýlishúsi á tveimur hæðum að hluta með yfirbyggingu yfir allan þakflöt bílskúrs.  Skipulagsnefnd bæjarins lagðist gegn samþykkt umsóknarinnar þar sem landhalli lóðar leyfði ekki tveggja hæða hús.  Við aðra umsókn hafði mænishæð yfirbyggingarinnar verið lækkuð þannig að hún samræmdist leyfilegum hæðarmörkum gildandi skipulags fyrir einnar hæðar einbýlishús.  Skipulagsnefnd lagðist einnig gegn þeirri umsókn með þeim rökum að húsið væri á tveimur hæðum að hluta og vísaði til afgreiðslu fyrri umsóknar um að landhalli leyfði ekki hús á tveimur hæðum.  Þriðja umsóknin, sem samþykkt var af byggingarfulltrúa og deilt er um í máli þessu, virðist óbreytt frá fyrri umsókn að öðru leyti en því að norður- og vesturhlið yfirbyggingarinnar á bílskúr hússins eru dregnar inn þannig að rými myndast á þakfleti skúrsins á tvo vegu sem ætlað er sem svalir.  Vegghæð yfirbyggingarinnar er um 2,5 metrar að innanmáli.

Í gr. 2.1.1 í deiliskipulagsskilmálum fyrir umrætt hverfi segir að einbýlishús af gerðinni E1 skuli vera á einni hæð ásamt bílgeymslu.  Heimilt er að nýta rými í rishæð rúmist það innan tilskilinna stærðarmarka.  Fallist er á það með kæranda að umrætt hús sé tvær hæðir að hluta en ekki sé um að ræða nýtingu þakrýmis eins og hönnun hússins er háttað.  Samkvæmt umsögn bæjaryfirvalda í málinu var umdeilt byggingarleyfi fyrir einnar hæðar húsi (E1), en samkvæmt áliti skipulagsnefndar við afgreiðslu fyrri umsókna um byggingu húss á lóðinni var landhalli ekki talinn nægjanlegur til þess að veitt yrði leyfi fyrir tveggja hæða húsi að hluta.  Fer umdeilt byggingarleyfi að þessu leyti í bága við greint ákvæði deiliskipulagsskilmála.

Gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir fjölbreytni í hönnun húsa á svæðinu en í gr. 1.1.1 er tekið fram að gæta verði viss samræmis, t.d. í þakformi bygginga. Umrætt hús sker sig verulega úr í samanburði við nærliggjandi hús vegna yfirbyggingarinnar á þaki bílskúrsins og nýtingu hluta þakflatar undir svalir.  Verður að telja að frávik í hönnun hússins samanborið við nærliggjandi hús sé það mikið að farið sé á svig við ákvæði deiliskipulagsins um visst samræmi í hönnun.  Nýting þakflatar bílskúrsins undir svalir er óhefðbundin og til þess fallin að hafa áhrif á nýtingarmöguleika aðliggjandi lóðar.  Er það álit úrskurðarnefndarinnar að slík nýting verði að hafa stoð í deiliskipulagi en sú er ekki raunin í máli þessu.

Gera verður þá kröfu til hönnunar húsa, engu síður en við skipulagsgerð, að ekki sé gengið með óhæfilegum hætti á hagsmuni annarra, en sú ályktun verður dregin af réttaröryggissjónarmiðum 4. mgr. 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá segir í 4. mgr. gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Norðurhlið yfirbyggingarinnar er með stórum gluggum og snýr að sunnanverðri lóð kæranda.  Ljóst er að yfirbyggingin og svalir á þaki bílkúrsins raska verulega hagsmunum kæranda þar sem bæði suðurgarður kæranda og eldhús, sem að stórum hluta er úr gleri, blasa við frá svölum og greindri yfirbyggingu að Steinási 5, en hús kæranda var þegar risið við upphaf umdeildra framkvæmda.

Með hliðsjón af greindum annmörkum telur úrskurðarnefndin að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.  Það er jafnframt álit úrskurðarnefndarinnar að eðlilegast hefði verið, í ljó forsögu málsins, að byggingarnefnd hefði tekið umdeilda byggingarleyfisumsókn til afgreiðslu skv. 1. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga, þó það atriði ráði ekki úrslitum um gildi ákvörðunarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 5. mars 2001, um veitingu byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi að Steinási 5, Garðabæ, er felld úr gildi.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Óðinn Elísson