Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2004 Pósthússtræti

Ár 2004, fimmtudaginn 11. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2004, kæra eigenda fasteignanna að Hafnarstræti 9 (utan jarðhæðar) og Hafnarstræti 11, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2004 um að veita takmarkað byggingarleyfi til að rífa og undirbúa framkvæmdir í húsunum að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28, Reykjavík vegna fyrirhugaðra breytinga. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. október 2004, sem barst nefndinni hinn 8. s.m., kærir Einar Baldvin Árnason hdl., f.h. eigenda fasteignanna að Hafnarstræti 9 (utan jarðhæðar) og Hafnarstræti 11, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2004 um að veita takmarkað byggingarleyfi til að undirbúa framkvæmdir í húsunum að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28, vegna fyrirhugaðra breytinga. 

Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar ásamt því að framkvæmdir á grundvelli hennar verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir afstöðu aðila máls þessa og er það mat nefndarinnar, með hliðsjón af framlögðum gögnum, að málið sé nú tækt til efnisúrlausnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október 2004, er barst nefndinni sama dag, kæra kærendur máls þessa nýtt takmarkað byggingarleyfi vegna sömu fasteigna þ.e. að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28.  Leyfi þetta felur í sér, á sama hátt og hið eldra leyfi, heimild til handa byggingarleyfishafa til að rífa og undirbúa framkvæmdir auk þess sem leyft er að endurnýja létta innveggi í húsunum fyrir breytingar.  Kemur fyrst til úrlausnar hvort þýðingu hafi að skera úr um gildi hins fyrra leyfis og verður,  að svo stöddu, ekki gerð sérstök grein fyrir málavöxtum og málsrökum aðila.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2004 um að veita takmarkað byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra breytinga fasteignanna að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28. Verður ekki annað séð en að með takmörkuðu byggingarleyfi, útgefnu hinn 15. október 2004, sem einnig hefur verið skotið til úrskurðarnefndarinnar, séu heimilaðar sömu framkvæmdir og í leyfi því sem kæra í máli þessu tekur til, auk frekari framkvæmda sem getið er í hinu síðara leyfi. 

Samkvæmt framansögðu hefur hér eftir ekki þýðingu að fjalla um leyfi það sem kært er í máli þessu, enda verður hið síðara kærumál tekið til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Eiga kærendur af þessum sökum ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá sérstaklega skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir