Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2004 Bessahraun

Ár 2004, þriðjudaginn 23. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2004, kæra eigenda húseignarinnar að Bessahrauni 15, Vestamannaeyjum á samþykkt skipulags- og umhverfisráðs frá 27. október 2004 um að veita byggingarleyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 13 við Bessahraun.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. nóvember 2004, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir Hrund Kristinsdóttir hdl., f.h. I og J, Bessahrauni 15, Vestmannaeyjum, ákvörðun skipulags- og umhverfisráðs (áður skipulags- og byggingarnefnd) Vestmannaeyjabæjar frá 27. október 2004 um að veita byggingarleyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 13 við Bessahraun. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun skipulags- og umhverfisráðs verði felld úr gildi.  Þá krefjast þeir þess að úrskurðarnefndin úrskurði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar. 

Samþykkt skipulags- og umhverfisráðs var staðfest í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar hinn 4. nóvember 2004.

Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir afstöðu byggingaryfirvalda til framangreindrar kæru.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar, með hliðsjón af gögnum málsins, að það sé nú tækt til efnisúrlausnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar hinn 3. desember 2002 var lögð fram umsókn um lóðina nr. 13 við Bessahraun til byggingar einbýlishúss og var hún samþykkt.  Í október 2003 var lóðarhafa Bessahrauns 13 veitt heimild til könnunar jarðvegs og í kjölfarið leituðu kærendur sér upplýsinga um framkvæmdina þar sem þeir töldu að staðsetning hússins yrði norðar en þeir hefðu átt von á og ekki innan byggingarreits.  Vegna deilna um staðsetningu byggingarreits hússins var málið nokkru sinnum á dagskrá skipulags- og byggingarnefndar, en hinn 30. mars 2004 samþykkti nefndin að auglýsa deiliskipulagstillögu vegna Bessahrauns 1-15.  Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 1. apríl 2004.  Tillagan var auglýst frá 16. apríl til 14. maí 2004 með fresti til athugasemda til 28. maí sama ár.  Ein athugasemd barst, frá lóðarhöfum Bessahrauns 13, sem kröfðust þess að byggingarreitur lóðarinnar færðist um einn metra til norðurs frá áður auglýstri tillögu. 

Á fundi skipulags- og byggingarefndar hinn 2. júní 2004 var eftirfarandi fært til bókar:  „Í ljósi innsendra athugasemda lóðarhafa að Bessahrauni 13, og málavöxtu alla vegna umræddra lóðar, gerum við það að tillögu okkar að byggingarreitur Bessahrauns 13 verði færður til norðurs um einn metra.  Þannig að fjarlægð frá lóðarmörkum að sunnan verði 6 m. í stað 5 m., byggingarreitur verði óbreyttur að öðru leyti hvað varðar stærð og legu austur-vestur.“ 
Kærendur kærðu framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem fyrr í dag úrskurðaði um kröfu þeirra um ógildingu deiliskipulagsins.

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Vestmannaeyjabæjar hinn 27. október 2004 var samþykkt að veita byggingarleyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 13 við Bessahraun og hlaut samþykktin afgreiðslu bæjarstjórnar hinn 4. nóvember 2004.  

Kærendur máls þessa voru ósáttir við framangreinda ákvörðun skipulags- og umhverfisráðs og kærðu hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur styðja kröfu sína um ógildingu byggingarleyfis þeim rökum að krafist hafi verið ógildingar skipulagsákvörðunar þeirrar sem leyfið eigi sér stoð í.  Verði fallist á kröfur kærenda um ógildingu skipulagsákvörðunarinnar verði byggingarleyfið einnig fellt úr gildi.  Á hinni kærðu skipulagsákvörðun séu ágallar, sem leiða eigi til ógildingar hennar.  Ógilda beri deiliskipulagið vegna annmarka á málsmeðferð og vegna þess að með samþykktinni hafi verið gengið gegn lögvörðum grenndarhagsmunum þeirra.  Af þessum sökum sé ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 13 við Bessahraun ólögmæt.

Málsrök Vetmannaeyjabæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að hið umdeilda byggingarleyfi hafi verið veitt með stoð í skipulagi sem ekki hafi verið hnekkt.  Engar ástæður hafi verið færðar fram er leiða eigi til ógildingar byggingarleyfisins verði kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulags svæðisins hafnað.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim einum rökum að leyfið byggist á deiliskipulagi sem þau telja ólögmætt og hafa kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar. 

Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag hafnað kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulags þess sem hið umdeilda byggingarleyfi á stoð í.  Engar aðrar ástæður hafa verið færðar fram er leiða eigi til ógildingar hins umdeilda byggingarleyfis og verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og umhverfisráðs Vestmannaeyjabæjar frá 27. október 2004 um að veita byggingarleyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 13 við Bessahraun. 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________         _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ingibjörg Ingvadóttir.