Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2003 Spítalastígur

Ár 2004, þriðjudaginn 23. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2003, kæra eigenda íbúða í húsinu nr. 4b við Spítalastíg í Reykjavík á synjun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. janúar 2003 á erindi þeirra, dags. 24. október 2002, um að tengibygging skúrs við húsið verði fjarlægð og að lagt verði fyrir nefndina að tryggja brunaöryggi hússins sem og næstu húsa.

Á málið er lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. mars 2003, sem barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra G og S, eigendur íbúða í húsinu nr. 4b við Spítalastíg í Reykjavík, synjun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. janúar 2003 á erindi kærenda, dags. 24. október 2002, um að tengibygging skúrs við húsið verði fjarlægð og að nefndin tryggi brunaöryggi þess.  Afgreiðsla nefndarinnar var staðfest af borgarstjórn hinn 20. febrúar 2003.  Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd að tryggja brunaöryggi húss þeirra og næstu húsa með þeim hætti sem lög standi til. 

Málavextir:  Húsið á lóðinni nr. 4b við Spítalastíg mun hafa verið reist á árinu 1904 en ekki eru fyrir hendi teikningar af húsinu frá þeim tíma.  Húsið sjálft og skúr er á lóðinni stendur voru virt í tvennu lagi við brunavirðingu á árunum 1941-1947.  Hinn 23. maí 1946 samþykkti byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á dyrum hússins samkvæmt teikningu er sýnir götuhlið þess, en af þeim uppdrætti verður ráðið að skúrbyggingin hafi þá verið ótengd íbúðarhúsinu.  Við brunavirðingu fasteignarinnar hinn 31. október 1960 kom fram að húsinu hafði verið breytt frá virðingu sem fram fór hinn 15. maí 1946.  M.a. hafði skúr á baklóð hússins verið lengdur og tengdur húsinu sem framhaldsbygging við þriggja metra breiðan gang sem gerður hafði verið í gegnum jarðhæð hússins. 

Aðdragandi máls þessa er sá að kærendur, sem eru eigendur íbúða í aðalhúsinu að Spítalastíg 4b, sendu byggingarfulltrúanum í Reykjavík bréf hinn 17. apríl 2000 þar sem leitað var liðsinnis hans við að koma ásigkomulagi fasteignarinnar og brunavörnum í viðunandi horf.  Var þar lýst samskiptaörðugleikum kærenda við eiganda viðbyggingarinnar um nauðsynlegar framkvæmdir.  Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 25. október 2000 þar sem lögð var fram umsögn, dags. 20. október 2000, um erindi kærenda.  Þar kom fram að skrifstofustjóri byggingarfulltrúa og fulltrúi eldvarnareftirlits hefðu skoðað fasteignina að Spítalastíg 4b í kjölfar bréfs kærenda til byggingarfulltrúa og hafi komið í ljós að eldvarnir væru ekki í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þrátt fyrir það var ekki mælt með því að krafa um niðurrif tengibyggingar bakhúss og aðalhúss að Spítalastíg 4b yrði tekin til greina og afgreiddi skipulags- og byggingarnefnd erindi kærenda í samræmi við fyrrgreinda umsögn.  Kærendur kærðu framangreinda afgreiðslu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem með úrskurði uppkveðnum hinn 26. september 2002 felldi ákvörðu byggingaryfirvalda í Reykjavík úr gildi með vísan til þess að þeim hafi borið að ganga úr skugga um mögulega brunahættu vegna tengibyggingarinnar, áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Slík athugun á ástandi fasteignarinnar með tilliti til brunahættu hefði eftir atvikum leitt í ljós hvort nauðsynlegt væri að fjarlægja umrædda tengibyggingu eða hvort bætt yrði með öðrum hætti úr mögulegum annmörkum.  Í kjölfar þessa óskaði byggingarfulltrúi eftir úttekt forvarnarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á brunahættu tengibyggingarinnar og úttekt á byggingunni að Spítalastíg 4b og í bréfi forvarnarsviðsins til byggingarfulltrúa, dags. 7. janúar 2003, segir m.a.:  „Þeir annmarkar sem eru á brunavörnum hússins í heild eru eftirfarandi og nauðsynlegum úrbótum raðað eftir mikilvægi:  1.  Í öllum íbúðum eiga að vera reykskynjarar og handslökkvitæki.  Æskilegt er að reykskynjarar séu einnig í sameign.  2.  Gera þarf stigahús að sérbrunahólfi EI-60 með EICS-30 hurðum að íbúðum.  Allar klæðningar í stigahúsi skulu vera í fl. 1.  3.  Gera þarf annan útgang (björgunarop) úr íbúð á 1. hæð.  4. Þak tengibyggingar þarf að vera REI-60 frá aðalhúsi og í 6 m fjarlægð.  Útveggur tengibyggingar í sömu fjarlægð þarf einnig að vera REI-60.  5. Gluggi annars vegar á tengibyggingu hins vegar á íbúð á 1. hæð eru of nálægt hvor öðrum.  Setja þarf E-30 gler í annan hvorn… 

Ofangreindar úrbætur eru byggðar á kröfum byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og þeirri vinnureglu forvarnardeildar að forgangsröðun eigi að miðast við að allir geti bjargast út úr húsi komi til eldsvoða.  Ekki er lagt mat á hvort þessar reglugerðarkröfur eigi við um þetta hús vegna aldurs og ekki er heldur lagt mat á hversu raunhæfar þessar kröfur eru miðað við aðstæður í húsinu.  Ef um væri að ræða skoðunarskylt hús samkvæmt lögum um brunavarnir yrði eiganda að öllum líkindum bent á möguleika tækniskrifta eða brunahönnunar sbr. gr. 141 og 142 í byggingarreglugerð.“ 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 15. janúar 2003 var erindi kærenda tekið til afgreiðslu og synjaði nefndin kröfu þeirra um niðurrif tengibyggingarinnar.  Vísaði nefndin í rökstuðningi sínum til bréfs byggingarfulltrúa til nefndarinnar, dags. 13. janúar 2003, þar sem segir m.a. að í umsögn slökkviliðsins komi ekki fram að ágallar tengibyggingarinnar séu það alvarlegir að hana þurfi að fjarlægja. 

Kærendur undu ekki þessari ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu synjunar.  Þeir telja hana byggða á misskilningi þar sem enginn nefndarmanna sé kunnugur á vettvangi.  Niðurstaða umsagnar forvarnardeildar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um hættu fyrir íbúa íbúðarhússins af bruna í tengibyggingunni sé skýr og í samræmi við byggingarreglugerð.  Aftur á móti sé mat byggingarfulltrúa á umsögn forvarnardeildarinnar ekki í samræmi við reglugerðina, sbr. það sem fram komi í bréfi hans til skipulags- og byggingarnefndar, að í umsögn slökkviliðs komi ekki fram að ágallar á tengibyggingunni séu það alvarlegir að hana þurfi að fjarlægja.  Það hljóti að vera alvarlegir ágallar að báðar rýmingarleiðir úr íbúðum 2. og 3. hæðar teppist við bruna í tengibyggingunni.  Með vísan til þess sem segi í umsögn slökkviliðsins um að þak tengibyggingarinnar þurfi að vera REI-60 frá aðalhúsi og í 6 m fjarlægð sé skipulags- og byggingarnefnd með ákvörðun sinni um að synja um niðurrif tengibyggingarinnar í raun að samþykkja, gegn vilja eigenda íbúðarhússins, að endurbyggja óleyfisbyggðan, nánast ónýtan skúr, sem aldrei hafi uppfyllt skilyrði til að vera samþykktur sem íbúðarhús þótt uppgerður væri. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg vísar um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun til bókunar skipulags- og byggingarnefndar frá 15. janúar 2003 og bréfs byggingarfulltrúa, dags. 13. janúar 2003.  Þar segir m.a. að í umsögn forvarnarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins komi ekki fram að ágallar á hinni umræddu tengibyggingu séu það alvarlegir að hana þurfi að fjarlægja.  Þá hafi byggingaryfirvöldum verið sannanlega ljós tilvist hennar í apríl árið 1974 og hafi hún skipulagslega engin áhrif á umhverfi sitt.  Með vísan til þessa séu ekki efnislegar forsendur til þess að krefjast niðurrifs tengibyggingarinnar. 

Málsrök eiganda tengibyggingar:  Eigandi tengibyggingarinnar bendir á að fyrir liggi tillögur frá slökkviliðinu um ráðstafanir í húsinu að Spítalastíg 4, Reykjavík til þess að auka þar brunavarnir, sbr. bréf, dags. 7. janúar 2003.  Vísað sé til tölusettra liða bréfsins er tilgreini nauðsynlegar úrbætur.  Sérstaklega sé bent á að úrbótum sé raðað niður eftir mikilvægi.  Af fyrrnefndu bréfi megi ráða að eðlilegar brunavarnir í húsinu kalli ekki á aðskilnað þeirra húseininga sem krafa kærenda lúti að. 

Eigandi tengibyggingarinnar bendir einnig á að fyrir liggi héraðsdómur, dags. 10. júní 2004, þar sem viðurkenndur sé séreignarréttur hans sem eiganda íbúðar í bakhúsinu, að rými í forstofu hússins að Spítalastíg 4, ásamt hlutdeild í allri sameign hússins, þar með talinni forstofunni.  Fyrir liggi umsókn hans til skipulags- og byggingarnefndar um staðsetningu á vegg í forstofu til samræmis við niðurstöðu í fyrrgreindu dómsmáli.  Niðurrif tengingar milli fram- og bakhússins væri í hróplegu ósamræmi við eignahald hússins samkvæmt dóminum.  Með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins sé einungis unnt að gera kröfu um eðlilegar brunavarnir miðað við núverandi fyrirkomulag í húsinu. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um niðurrif tengibyggingar milli bakhúss og íbúðarhúss að Spítalastíg 4b í Reykjavík, sem reist var, að því er virðist í óleyfi, fyrir árið 1960.  Fyrir liggur að byggingaryfirvöldum hefur sannanlega verið kunnugt um tilvist tengibyggingarinnar allt frá árinu 1974 og að hún hefur, að þeirra mati, engin áhrif á umhverfi sitt í skipulagslegu tilliti. 

Krafa kærenda um niðurrif er studd þeim rökum að brunaöryggi hússins að Spítalastíg 4b verði ekki tryggt með öðrum hætti en að rífa umrædda tengibyggingu.  Eins og að framan er rakið liggur fyrir í máli þessu úttekt forvarnarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, dags. 7. janúar 2003, varðandi brunaöryggi fasteignarinnar.  Um er að ræða heildarúttekt þar sem nauðsynlegum úrbótum er raðað eftir mikilvægi.  Samkvæmt því sem þar kemur fram er unnt að tryggja brunaöryggi með öðrum og viðurhlutaminni úrræðum en niðurrifi tengibyggingarinnar. 

Í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.  Samkvæmt 4. mgr. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eiga byggingaryfirvöld þess kost, ef mannvirki er áfátt eða af því stafar hætta, að knýja á um úrbætur, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem hægt er að fylgja eftir með úrræðum 57. gr. laganna.  Bar byggingaryfirvöldum að gæta þess meðalhófs sem kveðið er á um í 12. gr. stjórnsýslulaga við ákvörðun sína í málinu og beita vægari úrræðum en þeim sem kærendur kröfðust, væru slík úrræði tiltæk.  Telur úrskurðarnefndin að skipulags- og byggingarnefnd hafi með hinni kærðu ákvörðun gætt framangreindra sjónarmiða og verður því ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Í kæru er þess krafist að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd að tryggja brunaöryggi hússins sem og næstu húsa.  Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál og hefur málskotsréttur til nefndarinnar verið talinn einskorðast við lokaákvarðanir lægra setts stjórnvalds.  Verður úrskurðarnefndin því ekki krafin úrlausnar um ágreining um brunavarnir umræddrar byggingar nema áður sé fengin endanleg ákvörðun þar til bærra stjórnvalda á sveitarstjórnarstigi, en brunavarnir eru meðal lögbundinna verkefna sveitarstjórna.  Verður kröfu kæranda að þessu leyti því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. janúar 2003. 

Kröfu kærenda um að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd að tryggja brunaöryggi húss þeirra og næstu húsa með þeim hætti sem lög standi til er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 
___________________________ 
Ásgeir Magnússon

___________________________       ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Ingibjörg Ingvadóttir