Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2005 Vagnhöfði

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2005, kæra á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík  frá 3. maí 2005 um að samþykkja breytingu á byggingarleyfi er fól í sér stækkun og breytingu á áður samþykktri lager- og tengibyggingu á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júní 2005, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir Hákon Stefánsson hdl., fyrir hönd A ehf., leigutaka fasteignarinnar að Vagnhöfða 27, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2005 að samþykkja breytingu á byggingarleyfi er fól í sér stækkun og breytingu á áður samþykktri lager- og tengibyggingu á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að úrskurðað yrði um stöðvun framkvæmda þar til efnisniðurstaða lægi fyrir í málinu.  Þar sem framkvæmdir hafa ekki verið hafnar í skjóli hins kærða leyfis og með hliðsjón af því að málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til efnisúrlausnar verður ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Málavextir:  Hinn 1. júní 1999 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Iðnaðarsvæðis sem upphaflega er frá árinu 1969.  Með þeirri breytingu var ákveðið að eitt bílastæði yrði á lóð fyrir hverja 50 fermetra húsnæðis skv. gr. 4.3.1 í skipulagsskilmálum og að hámark nýtingarhlutfalls lóða yrði 0,7 skv. gr. 4.4.5 í greindum skipulagsskilmálum. Var í gr. 4.4.4 gert ráð fyrir að ónýttir byggingarmöguleikar á lóðum yrðu skoðaðir við byggingarleyfisumsóknir í hverju tilfelli með hliðsjón af hámarks nýtingarhlutfalli.  Á skipulagsuppdrættinum er markaður byggingarreitur við norðurmörk lóðarinnar að Vagnhöfða 29.

Hinn 10. september 2002 var samþykkt byggingarleyfi fyrir 277,2 fermetra birgðaskemmu á norðurmörkum lóðarinnar að Vagnhöfða 29 og jafnframt heimiluð 22,8 fermetra tengibygging í suðaustur horni, milli skemmunnar og húss þess sem fyrir er á lóðinni.  Með byggingarleyfinu fór nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,67.  Þá samþykkti byggingarfulltrúi hinn 17. desember 2002 tillögu um byggingarreit, breytingu á bílastæðum og innkeyrslu að lóðinni.

Kærandi í máli þessu mótmælti heimiluðum mannvirkjum við byggingaryfirvöld við upphaf framkvæmda á árinu 2002 og mun hafa verið leitað sátta um fyrirkomulag bygginga að Vagnhöfða 29 og framkvæmdir stöðvast af þeim sökum.  

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 27. október 2004 var síðan lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Vagnhöfða 29 þar sem byggingarreitur á norðanverðri lóðinni var dreginn inn frá Vagnhöfða og breikkaður til suðurs og jafnframt stækkaður í 456 fermetra með jafnstórri bílageymslu neðanjarðar með nýrri aðkeyrslu frá Vagnhöfða.  Þá fól tillagan í sér að reisa mætti í suðaustur horni lóðarinnar 432 fermetra þriggja hæða skrifstofubyggingu.  Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Vagnhöfða 27.

Málið var í kynningu frá 3. nóvember til 1. desember 2004.  Engar athugasemdir bárust og samþykkti skipulags- og byggingarnefnd tillöguna sem öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. janúar 2005 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar.  Skaut kærandi þessari ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 3. maí 2005 samþykkti byggingarfulltrúi beiðni lóðarhafa að Vagnhöfða 29 um breytingu á byggingarleyfinu frá árinu 2002 til samræmis við hina nýsamþykktu deiliskipulagsbreytingu.  Fól byggingarleyfið í sér heimild til að byggja 454 fermetra bílageymslu neðanjarðar, birgðaskemmu og skrifstofubyggingu, 450,1 fermetra að flatarmáli á fyrstu hæð og 137 fermetra á annarri og þriðju hæð, hvorri um sig.  Samkvæmt byggingarleyfinu var gert ráð fyrir 37 bílastæðum á lóð og í kjallara og að greiða þyrfti í bílastæðasjóð fyrir 8 stæði sem á vantaði svo kröfum um bílastæði samkvæmt skipulagi væri fullnægt.  Skaut kærandi þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Hinn 21. júní 2005 var síðan samþykkt breyting á afstöðumynd af lóð þar sem tilhögun bílastæða var breytt þannig að á lóðinni og í bílakjallara voru sýnd alls 42 bílastæði.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hann hafi kært deiliskipulagsbreytingu þá er hin kærða breyting á byggingarleyfi styðjist við og sé sú kæra til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Telur hann að óheimilt sé að samþykkja breytingar á byggingarleyfi og þar með heimila byggingarframkvæmdir á lóðinni að Vagnhöfða 29 á meðan úrlausn um deiliskipulag liggi ekki fyrir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg telur hið kærða byggingarleyfi í samræmi við deiliskipulag sem ekki hafi verið hnekkt og sé ekki neinum annmörkum háð.  Sé framkominni ógildingarkröfu því mótmælt.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi mótmælir framkominni ógildingarkröfu og tekur undir sjónarmið Reykjavíkurborgar í málinu.

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi var veitt með stoð í gildandi skipulagi svæðisins svo sem því var breytt  með samþykki borgarráðs hinn 8. desember 2004.

 Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem hún var staðfest.  Í þeim úrskurði er fjallað um og tekin afstaða til málsástæðna kæranda í máli þessu er varða fyrirhugaðar byggingar á lóðinni að Vagnhöfða 29.  Að gengum greindum úrskurði samræmast umþrættar byggingar og aðkoma að bílakjallara gildandi deiliskipulagi.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að ógilda beri hið kærða byggingarleyfi þar sem það hafi verið veitt á meðan skipulagsbreyting sú sem var undanfari leyfisins var í kærumeðferð hjá úrskurðarnefndinni.  Við útgáfu leyfisins hafði umræddri  skipulagsbreytingu ekki verið hnekkt.

Samkvæmt gildandi skipulagsskilmálum umrædds svæðis þarf eitt bílastæði fyrir hverja 50 fermetra húsnæðis.  Samkvæmt þeirri reglu þurfa að vera 45 stæði á lóðinni að Vagnhöfða 29 miðað við byggingarmagn það sem heimilað hefur verið með hinu kærða byggingarleyfi, en fyrir liggur að þau eru 42.

Í 6. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð er heimild til að víkja frá tilskildum fjölda bílastæða í deiliskipulagi, enda sé sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.  Í gr. 4.3.1 í skipulagsskilmálum fyrir umrætt svæði er sambærileg heimild.  Ekki er að finna í deiliskipulagsbreytingu þeirri sem var undanfari hins kærða byggingarleyfis á hvaða forsendu vikið sé frá bílastæðakröfum á lóðinni að Vagnhöfða 29 eða með hvaða hætti verði bætt úr bílastæðaþörf með öðrum hætti. 

Með hliðsjón af því að stór hluti heimilaðrar byggingar er ætlaður undir birgðaskemmu sem ætla má að ekki fylgi mikil bílastæðaþörf  og í ljósi þess að stórt almenningsbílastæði er handan Vagnhöfða þykir þessi skortur á þremur bílastæðum ekki alveg nægjanleg ástæða til þess að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2005 um að samþykkja breytingu á byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson 

 

 
_____________________________          ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ásgeir Magnússon

 

11/2005 Vagnhöfði

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2005, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar  Reykjavíkur frá 8. desember 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi er fól í sér stækkun og breytingu á byggingarreit og heimild fyrir byggingu þriggja hæða skrifstofubyggingar á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. febrúar 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Hákon Stefánsson hdl., fyrir hönd A ehf., leigutaka fasteignarinnar að Vagnhöfða 27, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. desember 2004 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi er fól í sér stækkun og breytingu á byggingarreit og heimild fyrir byggingu þriggja hæða skrifstofubyggingar á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða skipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 1. júní 1999 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Iðnaðarsvæðis sem upphaflega er frá árinu 1969.  Með þeirri breytingu var ákveðið að eitt bílastæði yrði á lóð fyrir hverja 50 fermetra húsnæðis skv. gr. 4.3.1 í skipulagsskilmálum og að hámark nýtingarhlutfalls lóða yrði 0,7 skv. gr. 4.4.5 í greindum skilmálum.  Var í gr. 4.4.4 gert ráð fyrir að ónýttir byggingarmöguleikar á lóð yrðu skoðaðir við byggingarleyfisumsóknir í hverju tilfelli með hliðsjón af hámarks nýtingarhlutfalli. Á skipulagsuppdrætti var markaður byggingarreitur við norðurmörk lóðarinnar að Vagnhöfða 29.

Hinn 10. september 2002 var samþykkt byggingarleyfi fyrir 277,2 fermetra birgðaskemmu á norðurmörkum lóðarinnar að Vagnhöfða 29 og jafnframt heimiluð 22,8 fermetra tengibygging í suðaustur horni lóðarinnar milli skemmunnar og húss þess sem fyrir er á lóðinni.  Með byggingarleyfinu varð nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,67.  Þá samþykkti byggingarfulltrúi hinn 17. desember 2002 tillögu um byggingarreit, breytingu á bílastæðum og innkeyrslu að lóðinni.

Kærandi í máli þessu mótmælti heimiluðum mannvirkjum við byggingaryfirvöld við upphaf framkvæmda á árinu 2002 og mun hafa verið leitað sátta um fyrirkomulag bygginga að Vagnhöfða 29 og framkvæmdir stöðvast af þeim sökum.  

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 27. október 2004 var síðan lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Vagnhöfða 29 þar sem byggingarreitur á norðanverðri lóðinni var styttur frá Vagnhöfða og breikkaður til suðurs og jafnframt stækkaður í 456 fermetra með jafnstórri bílageymslu neðan jarðar með nýrri aðkeyrslu frá Vagnhöfða.  Þá fól tillagan í sér að reisa mátti í suðaustur horni lóðarinnar 432 fermetra þriggja hæða skrifstofubyggingu auk 312 fermetra einnar hæðar skemmu við norðurmörk lóðarinnar sem mun hafa verið lækkuð nokkuð frá útgefnu byggingarleyfi með breytingu á þakformi.  Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Vagnhöfða 27.

Málið var í kynningu frá 3. nóvember til 1. desember 2004. Engar athugasemdir bárust og samþykkti skipulags- og byggingarnefnd tillöguna sem öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. janúar 2005 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar.  Hefur kærandi skotið þessari deiliskipulagsbreytingu  til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að hann sé leigutaki að Vagnhöfða 27 og hafi leigusali veitt honum heimild til að halda uppi þeim hagsmunum í máli þessu er tengist ofangreindri skipulagsbreytingu og kunni að hafa áhrif á hagsmuni lóðarhafa að Vagnhöfða 27, Reykjavík.  Jafnframt telji hann sig eiga aðild að máli þessu á grundvelli leigusamnings um eignina.

Byggt sé á því að hin kærða ákvörðun sé ógildanleg.  Ekki hafi verið staðið rétt að grenndarkynningu umræddrar skipulagsbreytingar auk þess sem breytingin raski verulega hagsmunum er tengist aðliggjandi lóðum.  Þá hafi framkvæmdir verið hafnar á lóðinni sem hafi farið þvert gegn eldra skipulagi.

Fara hafi átt með breytinguna skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997  þar sem ekki sé um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi sem heimili grenndarkynningu í stað auglýsingar.  Breytingin feli í sér heimild til byggingar þriggja hæða húss en samkvæmt gildandi skipulagi og í framkvæmd hafi almennt verið gengið út frá því í hverfinu að mannvirki væru á einni hæð.   Þá sé um verulega breytinga að ræða í ljósi þess að lóðin að Vagnhöfða 29 liggi mun hærra en lóðin að Vagnhöfða 27.  Þá sé vart heimilt að beita 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga þegar deiliskipulag liggi fyrir í þegar byggðum hverfum, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna.

Hvað sem öðru líði hafi grenndarkynning skipulagsbreytingarinnar ekki verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Kærandi hafi ekki fengið senda tilkynningu um fyrirhugaða breytingu þrátt fyrir að vera hagsmunaaðili sem leigjandi fasteignarinnar að Vagnhöfða 27 og eigandi fasteignarinnar hafi ekki fengið tilkynningu um téða breytingu.  Grenndarkynningin sé því ekki í samræmi við 43. gr., sbr. 2. mgr. 26. gr. laganna.

Umdeild skipulagsbreyting víki umtalsvert frá byggðamynstri því sem fyrir sé í hverfinu.  Heimiluð þriggja hæða bygging verði mjög há og muni skyggja verulega á aðliggjandi lóðir og þá sérstaklega þegar horft sé frá Bíldshöfða inn Vagnhöfðann.  Staðsetning fyrirhugaðs mannvirkis innan lóðar sé með þeim hætti að fari í bága við skipulag annarra lóða, a.m.k. þeirra  sem eigi lóðamörk við Höfðabakka, þar sem mannvirki á þeim lóðum séu á austurhluta þeirra.  Við breytinguna hafi ekki verið gætt ákvæðis 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga um bæja- og húsakönnun og um sé að ræða breytingu á einni lóð sem ekki sé í samræmi við skipulags- og byggingarlög.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Vagnhöfða 29 verði of hátt við umdeilda breytingu auk þess sem bílastæði á lóð verði of fá miðað við byggingarmagn.  Jafnframt muni aðkoma að lóðinni versna til muna gangi heimiluð breyting eftir.

Umrædd skipulagsbreyting gangi gegn hagsmunum kæranda sem lóðarhafa næstu lóðar og því sé gerð krafa um ógildingu hinnar kærðu skipulagbreytingar.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg fellst ekki á málsástæður kæranda  fyrir kröfu hans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Við meðferð málsins hafi það verið metið svo að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða.  Í samræmi við ákvæði laga nr. 73/1997 hafi farið fram ítarleg grenndarkynning og þeim sem hagsmuna hafi átt að gæta verið gefinn kostur á að tjá sig um breytingarnar.  Ekki séu fordæmi fyrir kröfu um almenna auglýsingu skipulagsbreytingar í sambærilegum tilvikum enda slík framkvæmd ekki í samræmi við venjubundna túlkun á skipulags- og byggingarlögum.

Þar sem umrædd skipulagstillaga hafi varðað breytingar á byggingarreit og aðkomu á lóðamörkum Vagnhöfða 27 og 29 hafi hún verið kynnt fyrir þinglýstum eiganda að Vagnhöfða 27.  Ekki hafi verið tilefni til að kynna breytingarnar öðrum enda þær þess eðlis að þær gætu aðeins varðað hagsmuni lóðarhafa aðliggandi lóðar.  Í kynningarbréfi til eiganda að Vagnhöfða 27 hafi verið tekið fram að leigutakar teldust einnig til hagsmunaaðila og áréttað að eigandi gerði þeim aðvart um kynninguna.

Um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi fyrir eina lóð.  Samkvæmt venjubundinni túlkun á skipulags- og byggingarlögum sé ekki heimilt að vinna nýskipulag af einni lóð þegar um sé að ræða safn lóða í þéttbýli.  Í máli þessu sé hins vegar um að ræða óverulega breytingu á samþykktu deiliskipulagi í samræmi við málsmeðferðarreglur skipulags- og byggingarlaga og eigi því efasemdir kæranda um lögmæti slíkrar málsmeðferðar ekki við rök að styðjast.  

Samþykktar breytingar séu í raun til bóta fyrir kæranda þar sem byggingarreitur hafi verið styttur við lóðamörk og húsið lækkað frá því sem áður hafi verið heimilað í samþykktu byggingarleyfi.  Ekki hafi verið þörf á bæja- og húsakönnun við skipulagsbreytinguna skv. 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga í ljósi efnis hennar og bent sé á að heimild hafi verið í gildandi deiliskipulagi fyrir byggingu á lóðarmörkum en hin kærða breyting hafi einungis í för með sér tilfærslu og breytingu á þeirri heimild.

Skilmálum varðandi bílastæði hafi ekki verið breytt frá gildandi deiliskipulagi og sé enn gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja 50 fermetra auk þess sem heimild sé veitt fyrir bílageymslu í kjallara með 10 bílastæðum.  Nýtingarhlutfall hækki úr 0,67 í 0,83 ofanjarðar en ekki sé ákvæði um hámarksnýtingarhlutfall í gildandi deiliskipulagi. Gert sé ráð fyrir nýrri aðkomu að bílastæðakjallara auk fyrri aðkomu að lóðinni sem telja verði til bóta.

Ljóst þyki að áhrif umþrættra breytinga séu ekki svo veruleg að leitt geti til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar. Telji kærandi sig hins vegar geta sannað að deiliskipulagsbreytingin valdi honum fjártjóni geti hann átt bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Um bótarétt sé úrskurðarnefndin hins vegar ekki bær til að fjalla.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða:  Hin kærða skipulagsbreyting felur í sér lítilsháttar stækkun áður afmarkaðs byggingarreits fyrir birgðaskemmu og tengibyggingu á lóðinni að Vagnhöfða 29 og liggur reiturinn að lóðamörkum Vagnhöfða 27.  Breytingin heimilar jafnframt byggingu 312 fermetra einnar hæðar skemmu og þriggja hæða 432 fermetra skrifstofuhúsnæðis á umræddum byggingarreit ásamt bílageymslu undir nýbyggingunni.  Veggæð skemmunnar er tilgreind um 4,5 metrar en skrifstofubyggingarinnar um 10 metrar.  Við breytinguna fer heildarflatarmál bygginga á lóðinni úr 1.468 fermetrum  í 2.212 fermetra án bílageymslu.  Lóðin er 2.652 fermetrar og fer nýtingarhlutfall í 0,83.  Samkvæmt gildandi deiliskipulagi þurfa bílastæði á lóð að vera 45 ef byggingarheimildir eru fullnýttar.

Umræddar lóðir eru á athafnasvæði og er lóðin að Vagnhöfða 29 hornlóð og hefur af þeim sökum aukna nýtingarmöguleika á við aðrar lóðir þar sem svo háttar ekki til.  Nýtingarhlutfall annarra hornlóða á viðkomandi götureit er skv. töflu í  gildandi skipulagsskilmálum með þeim hætti að nýtingarhlutfall lóðanna að Vagnhöfða 1 er 0,51, Vagnhöfða 7 er 0,74 og Vagnhöfða 23 er 1,16.  Lóðir þessar eru sambærilegar að stærð.  Meginbreytingin frá gildandi skipulagi er fólst í hinni kærðu ákvörðun er heimild fyrir 432 fermetra þriggja hæða skrifstofubyggingu í suðaustur horni umræddrar lóðar.

 Þegar hafðar eru í huga þær aðstæður á skipulagssvæðinu sem að framaner lýst, verður að meta skipulagsbreytinguna óverulega enda eru grenndaráhrif skrifstofubyggingarinnar ekki umtalsverð gagnvart kæranda.  Liggur og fyrir að víða á skipulagssvæðinu hefur verið vikið frá upphaflegu skipulagi frá árinu 1969 hvað varðar fjölda hæða bygginga. Þá verður einnig að líta til þess að í aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem í gildi var við endurskoðun umrædds deiliskipulags, voru ákvæði um hámark nýtingarhlutfalls, sem vitnað var til í greinargerð deiliskipulagsins, en þessi ákvæði eru ekki lengur fyrir hendi í gildandi aðalskipulagi.  Með hliðsjón af framansögðu var heimilt að fara með skipulagsbreytinguna skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Deiliskipulagsbreytingin var kynnt fyrir þinglýstum eiganda að Vagnhöfða 27, sem er eina lóðin sem hinn umdeildi byggingarreitur liggur að, en Vagnhöfði 29 á ekki mörk að öðrum lóðum.  Þykir því hafa verið nægilegt að kynna fyrirhugaða skipulagsbreytingu fyrir lóðarhafa þeirrar lóðar enda verður ekki séð að heimilaðar framkvæmdir geti snert grenndarhagsmuni annarra á svæðinu.  Telja verður þá framkvæmd eðlilega að senda þinglýstum eiganda bréf um kynninguna, enda vandséð hvernig skipulagsyfirvöld geti haft upplýsingar hugsanlega leigutaka fasteigna.  Í fyrirliggjandi kynningarbréfi skipulagsyfirvalda til þinglýsts eiganda, sem ekki hefur andmælt móttöku bréfsins, var sérstaklega tekið fram að leigutakar teldust eiga hagsmuna að gæta og á það bent að eigandi gerði þeim aðvart um kynninguna. Grenndarkynning umdeildrar skipulagsbreytingar telst að þessu leyti ekki áfátt.

Ekki er fallist á þau rök kæranda að óheimilt sé að beita grenndarkynningu við skipulagsbreytingu þegar deiliskipulag liggur fyrir í þegar byggðum hverfum, að þörf hafi verið á bæjar- og húsakönnum við skipulagsbreytinguna eða að óheimilt sé að breyta skipulagi vegna einnar lóðar.

Í 26. gr. skipulags- og byggingarlaga er fjallað um breytingar á deiliskipulagi og er kveðið á um í 2. mgr. ákvæðisins að heimilt sé að grenndarkynna breytingu í stað auglýsingar sé hún talin óveruleg.  Hins vegar tekur 3. mgr. 23. gr. laganna til grenndarkynningar fyrirhugaðra framkvæmda þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.  Þá verður 5. mgr. ákvæðisins um bæja- og húsakönnun skýrð svo að hún eigi einungis við þegar deiliskipulag er sett í hverfum sem byggst hafa upp án deiliskipulags.   Styðst sú túlkun við eðli máls.  Þótt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga kveði á um að deiliskipulag skuli ná til einstakra svæða eða reita girðir það ákvæði ekki fyrir að breyting á þegar settu skipulagi geti tekið til einnar lóðar.  Á ákvæðið við þegar verið er að skipuleggja svæði eða reiti í fyrsta sinn enda tilgangur skipulags að taka mið af  heildarþörf við uppbyggingu og nýtingu svæðis.  Eðli máls samkvæmt getur forsenda fyrir breytingu skipulags eftir atvikum átt við um eina lóð.

Að  öllu þessu virtu þykja ekki þeir annmarkar vera á málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar eða hún talin snerta hagsmuni kæranda með þeim hætti að varðað geti ógildingu.  Er kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. desember 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Vagnhöfða 29 í Reykjavík, er hafnað.

 

 

___________________________        
Hjalti Steinþórsson

 

 
_____________________________       ____________________________ 
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ásgeir Magnússon

 

93/2005 Vesturgata

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 um að veita leyfi til að rífa norðvesturálmu bakhúss og byggja í hennar stað tveggja hæða byggingu á kjallara á lóðinni nr. 3 við Vesturgötu í Reykjavík, hækka veggi annarra hluta hússins um 75 cm, bæta kvistum á þakið og breyta innra fyrirkomulagi allra hæða.  Enn fremur að heimila að byggja göngubrú yfir Fischersund, svo og að heimila að starfrækt verði hótel í húsinu.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir Minjavernd hf. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 um að veita leyfi til að rífa norðvesturálmu bakhúss og byggja í hennar stað tveggja hæða byggingu á kjallara á lóðinni nr. 3 við Vesturgötu í Reykjavík, hækka veggi annarra hluta hússins um 75 cm, bæta kvistum á þakið og breyta innra fyrirkomulagi allra hæða.  Enn fremur að heimila að byggja göngubrú yfir Fischersund, svo og að starfrækt verði hótel í húsinu.
 
Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 7. júlí 2005.  Skriflegt byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlag nr. 73/1997 var gefið út hinn 23. september 2005.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Umsögn Reykjavíkurborgar vegna kærumáls þessa, dags. 8. desember 2005, barst úrskurðarnefndinni hinn 9. sama mánaðar ásamt fylgiskjölum.  Þá hefur byggingarleyfishafi andmælt kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.   Er málið nú tekið til úrlausnar um þá kröfu.

Málsatvik og málsrök aðila:  Í árbyrjun 2004 kom fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Grjótaþorps varðandi lóðina nr. 3 við Vesturgötu í Reykjavík.  Borgaryfirvöld tóku vel í tillöguna og var hún tekin til meðferðar skipulagsyfirvalda. All langur tími leið þar til málið þótti komið á það stig að hægt væri að taka tillöguna til afgreiðslu en hinn 25. febrúar 2005 var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Fischersundi 3 og 3a, Vesturgötu 5 og 5a og Aðalstræti 2.  Tillagan var grenndarkynnt frá 3. mars til 1. apríl 2005.  Athugasemdir bárust frá tveimur einstaklingum auk Minjaverndar hf., kæranda í máli þessu.

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs þann 4. maí 2005.  Urðu nokkrar umræður um tillöguna en hún var síðan samþykkt á fundinum.  Málinu var eftir þetta vísað til borgarráðs sem staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum þann 12. maí 2005.  Skipulagsstofnun staðfesti í bréfi sínu, dags. 27. maí 2005, að framlögð gögn hefðu verið yfirfarin og að stofnunin gerði ekki athugasemd við að auglýsing um skipulagstillöguna yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar hinn 8. júní 2005.

Með bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júní 2005, var þess farið á leit „…að gildistöku breytts skipulags skv. samþykkt skipulagsráðs frá 4. maí sl. verði frestað og að allar fyrirliggjandi tillögur verði auglýstar.“  Kærandi gerði síðar í tölvupósti og með bréfi, dags. 14. júlí 2005, grein fyrir aðild sinni að málinu sem eiganda að húseignum að Aðalstræti 2.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 31. maí 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að rífa norðvesturálmu bakhúss og byggja í hennar stað tveggja hæða byggingu á kjallara á lóðinni nr. 3 við Vesturgötu.  Jafnframt var sótt um leyfi til að hækka veggi annarra hluta hússins um 75 cm og bæta kvistum á þakið og breyta innra fyrirkomulagi allra hæða.  Enn fremur var sótt um leyfi til að byggja göngubrú yfir Fischersund og breyta notkun húss þannig að þar mætti starfrækja hótel.  Málinu var vísað til yfirferðar skipulagsfulltrúa sem afgreiddi erindið til byggingarfulltrúa á fundi sínum þann 3. júní 2005 með bókun um að ekki væri gerð athugasemd við erindið sem samræmdist deiliskipulagi.
 
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 5. júlí 2005 var byggingarleyfisumsóknin tekin fyrir að nýju og samþykkt.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum þann 7. júlí 2005.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að breyting sú á  deiliskipulagi, sem verið hafi undanfari hinna umdeildu framkvæmda, hafi verið meiri en heimilt sé að gera með grenndarkynningu með stoð í undantekningarákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Breytingin sé umfangsmeiri en þörf hafi verið á og ekki hafi verið gætt sjónarmiða um verndun húsa og verslunarports á svæðinu.  Fleiri rök eru færð fram sem ekki verða tíunduð í bráðabirgðaúrskurði þessum.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er kröfum kæranda mótmælt.  Til þess er vísað að sambærilegar breytingar á deiliskipulagi Grjótaþorps hafi áður verið gerðar með grenndarkynningum án athugasemda af hálfu kæranda.  Við gerð skipulagsbreytingarinnar hafi verið vandað til alls undirbúnings og leitað hafi verið umsagnar húsafriðunarnefndar ríkisins og Minjasafns Reykjavíkur um breytingarnar og allra lagaskilyrða gætt.  Frekari rök eru tíunduð af hálfu borgaryfirvalda sem ekki þykir þurfa að rekja í úrskurði þessum.

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um sjónarmið Reykjavíkurborgar um stöðvunarkröfuna en ekki hefur borist formlegt erindi frá honum af  því tilefni. 

Af hálfu byggingarleyfishafa hefur kröfum kæranda verið mótmælt og vísar hann til sömu sjónarmiða og borgaryfirvöld í málinu.
 
Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um hvort heimilt hafi verið að breyta deiliskipulagi lóðarinnar að Vesturgötu 3 með grenndarkynningu svo sem gert var og jafnframt hvort gætt hafi verið lagaskilyrða þegar hinar umdeildu ákvarðanir um skipulag og byggingarleyfi voru teknar.  Við mat á því hvort heimilt hafi verið að grenndarkynna umdeilda skipulagsbreytingu þykir rétt að líta til þess að um er að ræða atvinnulóðir á miðborgarsvæði þar sem nýtingarhlutfall er hátt og margvísleg starfsemi rekin.  Leiðir af þessum aðstæðum að umræddar breytingar verða varla taldar þess eðlis að ástæða hafi verið til að auglýsa skipulagsbreytinguna í samræmi við ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.  Er og til þess líta að Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við meðferð málins að þessu leyti.

Ekki hefur verið sýnt fram á að líklegt sé að efnisannmarkar séu á hinum umdeildu ákvörðunum er ógildingu varði. 

Samkvæmt framansögðu verður kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að framkvæmdir samkvæmt leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 um að heimila tilgreindar breytingar mannvirkja á lóðinni nr. 3 við Vesturgötu í Reykjavík ásamt gerð gögnubrúar yfir Fischersund verði stöðvaðar.

 

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson                      

 

_____________________________       ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ásgeir Magnússon

 

100/2005 Tangagata

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2005, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2005 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 2. desember s.á., kærir R, Sundstræti 41, Ísafirði ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2005 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hinn 3. nóvember 2005.

Skilja verður erindi kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst kærandi þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu bílskúrsins þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Af hálfu úrskurðarnefndarinnar var byggingarfulltrúa gerð grein fyrir framkominni kæru og kröfu um stöðvun framkvæmda og þess jafnframt óskað að hann kynnti byggingarleyfishafa kæruna og kröfur kæranda.  Hefur byggingarfulltrúi sent úrskurðarnefndinni gögn er málið varða og jafnframt upplýst um afstöðu byggingarleyfishafa, sem hefur að sögn í hyggju að ljúka gerð sökkla og plötu í vetur eftir því sem tíðarfar leyfi.  Þykir málið nú nægilega upplýst til þess að úrskurðað verði til bráðabirgða um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Á svæðinu þar sem umdeildur bílskúr á að rísa er í gildi deiliskipulag fyrir Eyrina á Ísafirði frá árinu 1997.  Fyrir liggja gögn um að kynnt hafi verið tillaga að breytingu á umræddu skipulagi á árinu 2000 þar sem gert hafi verið ráð fyrir að leyft yrði að byggja bílskúr á lóðinni nr. 26 við Tangagötu, fast að lóðamörkum við Sundstræti.  Mun umrædd breyting á skipulagi hins vegar hvorki hafa verið send Skipulagsstofnun til afgreiðslu né auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og tók breytingin því aldrei gildi.

Í bréfi byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. desember 2005, er málsatvikum lýst og segir þar að upphaf málsins megi rekja aftur til ársins 2000.  Þá hafi eigandi Tangagötu 26 sótt um, í einu erindi, byggingarleyfi til breytinga á íbúðarhúsi og byggingar bílskúrs á eignarlóð sinni.  Erindið hafi verið grenndarkynnt og hafi kynningunni lokið án athugasemda.  Framkvæmdir hafi eftir þetta verið hafnar við breytingar á íbúðarhúsinu en ekki við bílskúrinn.  Vorið 2005 hafi eigandinn hafist handa við bílskúrsbygginguna.  Grafið hafi verið fyrir sökklum, skipt um jarðveg og lagðar lagnir að grunninum.

Kærandi, sem sé eigandi að Sundstræti 41, hafi orðið var við framkvæmdirnar og skrifað bréf, dags. 9. júní 2005, til nefndarmanna í umhverfisnefnd.  Eigandi Tangagötu 26 hafi síðan sótt um endurnýjun á byggingarleyfi fyrir bílskúrnum með bréfi, dags. 22. júlí 2005.  Það erindi hafi verið tekið fyrir á fundi umhverfisnefndar 27. júlí 2005 og hafi tæknideild þá verið falið að grenndarkynna umsóknina. Það hafi verið gert með bréfum, dags. 29. júlí og 11. ágúst 2005.  Seinna bréfið hafi verið sent vegna formgalla á fyrra bréfi og hafi upphaf og lok grenndarkynningarinnar miðast við dagsetningu seinna bréfsins.

 Ein athugasemd hafi borist eftir grenndarkynninguna, frá kæranda í bréfum dags. 12. ágúst og 5. september 2005, sem séu endurtekningar þess sem fram komi í bréfinu frá 9. júní 2005.  Kannað hafi verið með skuggamyndun á lóðinni að Sundstræti 41 vegna bílskúrsins og í ljósi þeirrar niðurstöðu hafi umhverfisnefnd lagt til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt.  Bæjarstjórn hafi vísað tillögunni aftur til umhverfisnefndar. Umsóknin hafi aftur verið tekin fyrir í umhverfisnefnd 12. október 2005 og hafi byggingarfulltrúa þá verið falið að ræða við umsækjanda.  Niðurstaða viðræðna við hann hafi orðið sú að hann hafi fallist á að gera þær breytingar á bílskúrnum að hann yrði færður 1,3 metra frá lóð kæranda að Sundstræti, en þess í stað yrði skúrinn breikkaður úr fjórum metrum í fimm.  Umhverfisnefnd hafi metið það svo að með þessari breytingu á upphaflegri umsókn hafi verið komið til móts við athugasemd kæranda um nálægð bílskúrsins við lóðamörk og fjarlægð milli húsa.  Umhverfisnefnd hafi því lagt til við bæjarstjórn að umsóknin um byggingarleyfið, svo breytt, yrði samþykkt.  Tillaga umhverfisnefndar hafi síðan verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar 3. nóvember 2005.

Aðilum hafi verið kynnt þessi niðurstaða bæjarstjórnar.  Gögn varðandi grenndarkynninguna hafi verið send til Skipulagsstofnunar en gildistaka breytingarinnar á deiliskipulaginu hafi ekki enn verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi telur að umdeild bygging hafi veruleg grenndaráhrif.  Ekki verði fallist á að komið hafi verið til móts við sjónarmið kæranda með þeirri breytingu sem gerð hafi verið frá upphaflegri umsókn, enda hafi breikkun bílskúrsins í för með sér að hann stækki um 7 fermetra.  Ekki hafi verið nægilega ljóst hvað fælist í skipulagsbreytingu þeirri sem kynnt hafi verið og telji kærandi að heimild fyrir umdeildri byggingu hafi verið „smyglað“ inn í skipulagið.  Skúrinn hafi mikil neikvæð áhrif á umhverfið og skapi slæmt fordæmi.

Af hálfu Ísafjarðarbæjar hefur kröfu um stöðvun framkvæmda verið mótmælt.  Ítarleg grenndarkynning hafi átt sér stað á fyrirhuguðum bílskúr og komið hafi verið til móts við sjónarmið kæranda í málinu með því að færa skúrinn frá lóðamörkum.

Byggingarfulltrúi hefur kynnt byggingarleyfishafa efni kærunnar og kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Hefur byggingarfulltrúi lýst áformum hans um framkvæmdir en ekki hefur borist skriflegt erindi frá byggingarleyfishafa vegna málsins.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur nú fyrir virðist byggingarleyfi það sem um er deilt í málinu ekki hafa verið í samræmi við gildandi deiliskipulag þegar það var gefið út og staðfest í bæjarstjórn hinn 3. nóvember 2005.  Sýnast framkvæmdir samkvæmt leyfinu því vera andstæðar ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þykir þegar af þessari ástæðu rétt að fallast á kröfu kæranda um að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við byggingu bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði, samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
      Hjalti Steinþórsson           

 

 
_____________________________       ____________________________   
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ásgeir Magnússon

 

36/2004 Ofanleiti

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2004, kæra eigenda hluta fasteignarinnar að Ofanleiti 17, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 5. maí 2004 um að staðfesta þá afstöðu byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafa ekki afskipti af gerð sólpalls og skjólgirðingar að Ofanleiti 17. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. júní 2004, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Gunnar Sæmundsson hrl., f.h. K og Ö, Ofanleiti 17, Reykjavík staðfestingu skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 5. maí 2004 á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafa ekki afskipti af gerð sólpalls og skjólgirðingar að Ofanleiti 17 í Reykjavík.  Var ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 15. maí 2004.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi, dags. 2. desember 2005, óskar lögmaður kæranda þess jafnframt, með vísun í 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarmála, að úrskurðarnefndin taki til úrlausnar, óháð niðurstöðu málsins að öðru leyti, álitaefni um það hvort umdeilt mannvirki sé háð byggingarleyfi.

Málavextir:  Í júlí árið 2003 barst embætti byggingarfulltrúa kvörtun frá kærendum vegna framkvæmda eiganda íbúðar á 1. hæð að Ofanleiti 17, sem hafði hafist handa við gerð sólpalls og skjólgirðingar á baklóð hússins.  Embætti byggingarfulltrúa gerði húsfélaginu að Ofanleiti 17 grein fyrir kvörtuninni og krafðist skýringa á umræddum framkvæmdum í bréfi, dags. 17. júlí 2003.  Við vettvangsskoðun embættisins sama dag hafði komið í ljós að smíði sólpallsins og skjólveggja var lokið.

Hinn 15. ágúst 2003 var haldinn fundur með byggingarfulltrúanum í Reykjavík og eiganda sólpallsins vegna málsins og var ákveðið að boða til húsfundar þar sem leitað yrði eftir samþykki meðeigenda fyrir framkvæmdinni. 

Var sá fundur haldinn hinn 11. september 2003 og sátu hann allir íbúðareigendur eða umboðsmenn þeirra ásamt byggingarfulltrúa.  Þar lýsti byggingarfulltrúi því áliti sínu að samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum hússins væri gert ráð fyrir skjólveggjum við þann sérnotaflöt er deilt væri um, að langhliðinni undanskilinni.  Því væri fyrir hendi byggingarleyfi fyrir skammhliðunum og þar sem langhliðin færi ekki yfir 1,80 metra á hæð væri ekki þörf á leyfi byggingarfulltrúa fyrir henni.  Myndi embættið því ekki aðhafast frekar vegna framkvæmdarinnar. 

Hinn 25. febrúar 2004 barst embætti byggingarfulltrúa síðan krafa kærenda um að skipulags- og byggingarnefnd ómerkti framangreinda ákvörðun byggingarfulltrúa og tæki jafnframt nýja ákvörðun í málinu um að fjarlægja mannvirkið.

Byggingarfulltrúi vísaði erindi kærenda til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs, sem í umsögn sinni, dags. 21. apríl 2004, komst að þeirri niðurstöðu að byggingarfulltrúi ætti ekki að hafa frekari afskipti af málinu. Skipulags- og byggingarnefnd staðfesti umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúa hinn 5. maí 2004 með vísan til niðurstöðu greinds lögfræðiálits. 

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að mannvirkjagerðin á lóðinni að Ofanleiti 17 sé byggingarleyfisskyld skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Því til stuðnings megi vísa til hrd. 1999 bls. 1794.  Framkvæmdin breyti verulega svipmóti hússins nr. 17 við Ofanleiti og stingi mjög í stúf við byggingarstíl þess og sé reist á sameiginlegri lóð án tilskilins samþykkis meðeigenda samkvæmt lögum um fjöleignarhús.  Farið sé gegn byggingarskilmálum fyrir umrætt svæði enda séu heimildir þeirra til að afmarka spildur til einkaafnota framan við íbúðir fyrstu hæðar bundnar við 80 sentimetra hátt limgerði. 

Kærendur benda á að þegar samþykktar teikningar af húsinu séu skoðaðar komi í ljós að á grunnmynd 1. hæðar virðist upphaflega hafa verið sýndir steyptir veggstubbar sem gangi út úr vesturhlið hússins sitt hvoru megin við einkaafnotaflöt íbúðar þeirrar sem um ræði í málinu.  Þeir séu einnig sýndir á útlitsmynd vesturhliðar.  Samkvæmt grunnmyndinni nái þeir báðir út fyrir heildarlínu vesturhliðar og ættu því að sjást á útlitsmynd norðurhliðar en þar séu þeir ekki sýndir.  Báðir þessir veggstubbar hafi síðan á grunnmyndinni verið lengdir með veggjum úr öðru efni allt að vesturmörkum sérafnotaflatarins.  Engar skýringar sé að finna á þeirri breytingu á teikningunum og ljóst sé að hinir steyptu veggstubbar hafi ekki verið byggðir með húsinu.  Sú skoðun byggingarfulltrúa, að í gildi hafi verið byggingarleyfi er framkvæmdir hófust við gerð timburveggja norðan og sunnan sérafnotaflatarins, fái ekki staðist þegar ákvæði 45. gr. skipulags- og byggingarlaga séu virt. 

Umrædd framkvæmd raski hagsmunum kærenda, sé gróft stílbrot við arkitektúr hússins, meiði fegurðarskyn þeirra og annarra og sé til þess fallin að valda verðfalli á íbúðum annarra í húsinu.  Að auki benda kærendur á að það séu almannahagsmunir að einstakir borgarar komist ekki upp með að hunsa skipulags- og byggingarlög. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa í tilefni af kvörtun kærenda standi óhögguð. 

Umrædd ákvörðun byggingarfulltrúa geti tæpast talist stjórnvaldsákvörðun enda ekki verið að kveða einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds.  Í þessu tilviki hafi verið um að ræða ákvörðun byggingarfulltrúa um að afmarkað mál ætti ekki undir verksvið hans að lögum. 

Formlegri beiðni kærenda þess efnis að skipulags- og byggingarnefnd endurskoðaði ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið vísað til skipulags- og byggingarnefndar, sem hafi staðfest hina kærðu afgreiðslu byggingarfulltrúa.  Byggingarfulltrúa hljóti að hafa verið heimilt að lýsa þeirri afstöðu sinni munnlega að tiltekið mál ætti ekki undir embætti hans eftir að fram hefði farið nauðsynleg frumathugun á efni umkvörtunar.

Hvað varði efnisatriði málsins sé bent á að umrædd fasteign standi á heildarlóð fyrir Ofanleiti nr. 15 og 17.  Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu fylgi íbúðum á jarðhæð réttur til sérafnota af afmörkuðum skikum á lóðinni en um þá segi í byggingarskilmálum fyrir íbúðabyggð norðan Ofanleitis, sem í gildi séu á svæðinu:  „Á uppdrætti er merkt 4-6 metra spilda, sem íbúar á 1. hæð eiga að fá til einkaafnota, fyrir framan íbúðir sínar.  Þennan reit skal merkja á teikningar, sem sendar verða til byggingarnefndar.  Reit þennan mega eigendur íbúðanna afmarka með limgerði, 80 sm. á hæð.“ 

Á samþykktum aðaluppdráttum hússins, dags. 13. október 1983, séu sýndir skjólveggir á skammhliðum sérnotaflatarins, sem geti verið allt að tveggja metra háir.  Þar sem tréveggur standi nú á langhlið sé gert ráð fyrir trjágróðri eins og fyrr greini. 

Samkvæmt gögnum málsins megi ljóst vera að hluti framkvæmda við ofangreindan sérafnotaflöt rúmist innan samþykktrar teikningar og hafi því þinglýstum eiganda ekki borið að afla sér samþykkis meðeigenda sinna vegna framkvæmda á skammhliðum sólpallsins samkvæmt fjöleignarhúsalögum.  Á hinn bóginn sé því ekki að heilsa hvað varði skjólvegg á langhlið sólpallsins en með honum sé að verulegu leyti vikið frá samþykktum aðaluppdráttum þar sem gert sé ráð fyrir limgerði.  Þó megi líta svo á að um sé að ræða smávægilega breytingu frá samþykktum aðaluppdrætti í ljósi þess að takmarkaða stjórn sé hægt að hafa á því hversu hátt limgerði geti orðið og sé það væntanlega háð ákvörðun eigenda hverju sinni. 

Þá beri að líta til þess að skv. 67. gr. byggingarreglugerðar séu girðingar aðeins byggingarleyfisskyldar ef hæð þeirra fari yfir 1,80 metra en við vettvangsskoðun hafi umdeild langhlið skjólveggjarins ekki farið yfir 1,77 metra.  Í ljósi alls framangreinds hafi ekki verið talið að um byggingarleyfisskylda framkvæmd væri að ræða heldur ætti ágreiningur eigenda í máli þessu um útfærslu skjólveggja undir ákvæði laga um fjöleignarhús. 

Eiganda hins umdeilda mannvirkis var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum í máli þessu en hann hefur ekki nýtt þann rétt sinn. 

Frekari rök hafa verið færð fram í máli þessu sem ekki þykir tilefni til að tíunda en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 23. júní 2005. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um staðfestingu skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem hann tilkynnti á húsfundi að Ofanleiti 17 hinn 11. september 2003, um að aðhafast ekki frekar í tilefni af kvörtun kærenda vegna byggingar skjólveggja og sólpalls á lóð hússins.  Var afstaða byggingarfulltrúa  byggð á  þeirri niðurstöðu hans að byggingarleyfi væri fyrir umdeildum skjólveggjum að hluta til og að ekki væri þörf byggingarleyfis fyrir mannvirkinu að öðru leyti.  Virðist byggingarfulltrúi hafa metið það svo, eins og málið lá þá fyrir, að frágangi umrædds mannvirkis hafi ekki verið ábótavant með þeim hætti að tilefni væri til afskipta hans, en um það á byggingarfulltrúi mat, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þykja ekki efni til að hnekkja hinni kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um að staðfesta þessa afstöðu byggingarfulltrúa.

Eins og að framan greinir hefur lögmaður kærenda óskað úrlausnar  úrskurðarnefndarinnar um það álitaefni hvort títtnefnt mannvirki sé háð byggingarleyfi, óhað niðurstöðu málsins að öðru leyti.  Á úrskurðarnefndin úrlausnarvald um  það efni, án þess að fyrir liggi kæranleg stjórnvaldsákvörðun, sbr. 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ber nefndinni samkvæmt tilvitnuðu ákvæði að taka erindi kærenda um þetta álitaefni til úrlausnar. 

Á neðstu hæð hússins að Ofanleiti 15-17 eru fjórar íbúðir og fylgja þeim svonefndir sérafnotafletir af sameiginlegri lóð sem markaðir eru á aðaluppdrætti hússins.  Sjá má á uppdráttunum að gert er ráð fyrir skjólveggjum út frá vegg hússins á mörkum sérafnotaflata nefndrar íbúðar, en trjágróður er sýndur að framanverðu í samræmi við fyrrnefnda skilmála, sem gera ráð fyrir 80 sentimetra runnagróðri.  Umdeildir skjólveggir og sólpallur hafa verið reistir við íbúðina en gólfflötur þeirrar íbúðar er nokkru hærri en íbúðanna beggja vegna og er umþrætt mannvirki jarðfast og fasttengt útvegg hússins og rís allhátt yfir yfirborð lóðar.  Segir í úttekt starfsmanns byggingarfulltrúa frá 17. júlí 2003 að sólpallurinn standi á steyptum súlum og að skjólveggir séu yfir 180 sentimetrar á hæð en af málsgögnum verður ráðið að veggirnir hafi síðar verði lækkaðir. 

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun eða gera önnur þau mannvirki er falla undir 4. kafla laganna um mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Þá segir í 1. mgr. 36. gr., er markar gildissvið 4. kaflans, að hann taki til hvers konar bygginga ofan jarðar og neðan. 

Af þessum ákvæðum verður leidd sú meginregla að byggingarleyfi þurfi fyrir öllum húsbyggingum og breytingum á þeim ásamt öðrum jarðföstum framkvæmdum eins og hugtakið mannvirki er skýrt í byggingarreglugerð, gr. 4.2.6.  Með meginreglunni er verið að vernda bæði almanna- og einstaklingshagsmuni.  Með því að mannvirkjagerð sé háð leyfum er unnt að fylgja eftir öryggiskröfum um hönnun og gerð mannvirkis og hindra að ekki verið ráðist í framkvæmdir er breyti ásýnd og yfirbragði byggðar frá því sem skipulagsyfirvöld hafa mælt fyrir um og íbúar hafa mátt vænta. 

Ekki verður þó gerð krafa um að hvers konar framkvæmdir séu leyfisskyldar.  Má nefna að samkvæmt 67. gr. byggingarreglugerðar verður almennt ekki gerð krafa um byggingarleyfi fyrir girðingum sem ekki eru hærri en 180 sentimetrar, nema um sé að ræða girðingar á lóðamörkum, og í framkvæmd hefur það verið látið átölulaust að byggðir séu sólpallar og lágar girðingar á íbúðarlóðum. 

Þegar meta skal hvort umdeilt mannvirki sé háð byggingarleyfi kemur helst til álita hvort það breyti svipmóti hússins að Ofanleiti 15-17, sbr. fyrrgreinda 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, en afstaða til þess hlýtur að vera háð mati hverju sinni. 

Þótt hæð títtnefndra skjólveggja að Ofanleiti 17 fari ekki yfir 180 sentimetrar metra er óumdeilt að a.m.k. hluti þeirra fer í bága við lóðarskilmála þá sem lóðarhöfum á svæðinu var gert að fylgja.  Einnig er það mat úrskurðarnefndarinnar að mannvirkið hafi mikil áhrif á svipmót hússins vegna umfangs, staðhátta og þess ósamræmis sem verður í frágangi lóðarhlutanna.  Ekki verður heldur á það fallist að mannvirkið eigi svo verulega stoð í byggingarleyfi hússins samkvæmt aðaluppdráttum að það hafi réttlætt byggingu þess í heild.  Verður í því sambandi að líta til þess að staðsetning veggjanna samræmist að hluta til ekki aðaluppdráttum og að stöllun þeirra og 45º sneiðing hluta annars hliðarveggjanna á sér enga stoð í uppdráttum.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeilt mannvirki sé háð byggingarleyfi.  Jafnframt er því hafnað að mannvirkið eigi sér fullnægjandi stoð í gildandi byggingarleyfi hússins.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á að ógilda beri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 5. maí 2004, þar sem staðfest var fyrri afstaða byggingarfulltrúa til hinna umdeildu mannvirkja.

Umdeild mannvirki við íbúð fyrstu hæðar að Ofanleiti 17 eru byggingarleyfisskyld og eiga sér ekki stoð í byggingarleyfi samkvæmt aðaluppdráttum.
 

 

     ___________________________         
Hjalti Steinþórsson

 

 

 
_____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ásgeir Magnússon 

 

78/2005 Háteigsvegur

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 7. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2005 um að veita leyfi fyrir byggingu einnar hæðar með þremur íbúðum og rishæðar með þremur íbúðum ásamt hanabjálka ofan á húsið að Háteigsvegi 3 í Reykjavík ásamt breytingu á notkun annarrar hæðar úr atvinnuhúsnæði í þrjár íbúðir, auk leyfis fyrir byggingu svala á austur- og norðurhlið hússins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. október 2005, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kæra P og M, íbúar að Rauðarárstíg 41 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2005 að veita leyfi fyrir byggingu einnar hæðar með þremur íbúðum og rishæðar með þremur íbúðum ásamt hanabjálka ofan á húsið að Háteigsvegi 3 í Reykjavík ásamt breytingu á notkun annarrar hæðar úr atvinnuhúsnæði í þrjár íbúðir, auk leyfis fyrir byggingu svala á austur- og norðurhlið hússins.  Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 22. september 2005.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Var jafnframt höfð uppi krafa um stöðvun framkvæmda meðan beðið væri efnisniðurstöðu í málinu og var kveðinn upp úrskurður til bráðabirgða um þá kröfu hinn 27. október sl., þar sem framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi voru stöðvaðar vegna álitaefna varðandi bílastæði, grenndaráhrif og skipulagsskyldu.

Málavextir:  Íbúð kærenda er í fjölbýlishúsi að Rauðarárstíg 41 sem stendur samhliða á bak við og norðan megin við húsið að Háteigsvegi 3, sem er að stærstum hluta tveggja hæða.  Ekki liggur fyrir deiliskipulag er tekur til umræddra lóða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. mars 2005 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að byggja tvær hæðir og ris auk hanabjálka ofan á húsið á lóðinni nr. 3 við Háteigsveg og var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa.  Skipulagsfulltrúi afgreiddi fyrirspurnina hinn 12. apríl 2005 á þann veg að ekki væri lagst gegn hækkun hússins um eina hæð og ris.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 5. júlí 2005 var byggingarleyfisumsókn, sem sniðin var að fyrrgreindri afstöðu skipulagsfulltrúa, tekin fyrir þar sem jafnframt var sótt um leyfi til að breyta atvinnuhúsnæði á annarri hæð hússins í þrjár íbúðir og koma fyrir þremur íbúðum á þriðju hæð og þremur á fjórðu hæð og gerð svala á austur- og norðurhlið og að steina húsið að utan með ljósri steiningu.  Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Samþykkti skipulagsfulltrúi, á fundi sínum hinn 8. júlí 2005 að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Þverholti 30 og 32, Rauðarárstíg 41 og Háteigsvegi 1, 2, 4, 6 og 8.

Grenndarkynning stóð yfir frá 14. júlí til 11. ágúst 2005 og komu fram athugasemdir frá nágrönnum að Þverholti 30 og 32, Rauðarárstíg 41 og Háteigsvegi 4 þar sem kynntri umsókn var mótmælt.
 
Erindið var á næstu vikum til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum Reykjavíkur þar sem sjónum var einkum beint að fyrirhugaðri hækkun hússins og bílastæðamálum og urðu lyktir málsins þær að skipulagsráð samþykkti umsóknina fyrir sitt leyti hinn 14. september 2005 samkvæmt breyttum teikningum, dags. 8. september 2005, þar sem mænishæð hússins hafði verið lækkuð um 1,5 metra.  Var málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsóknina á fundi sínum hinn 20. september 2005 og staðfesti borgarráð þá ákvörðun hinn 22. sama mánaðar.  Kærendur skutu veitingu byggingarleyfsins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur bera fyrir sig að hækkun umrædds húss sé óhófleg og muni hindra birtuflæði og valda því að suðurhlið húss þeirra verði í stöðugum skugga.  Muni breytingin skerða nýtingarmöguleika og rýra verðgildi eigna þeirra.  Fjölgun bílastæða norðan við Háteigsveg 3 og aukin umferð allan sólarhringinn sem fylgi níu íbúðum muni valda auknum hávaða milli húsanna en til þessa hafi umferð vegna starfsemi að Háteigsvegi 3 aðeins verið að degi til.  Þá muni tvöfalt fyrirkomulag á sorphirðu fyrir íbúðir annars vegar og atvinnuhúsnæði hins vegar auka á ónæðið.  Þá skilji kærendur það svo að lóðamörk að Háteigsvegi 1 og 3 verði að einhverju leyti opin og verði unnt að aka milli húsanna og muni ónæði gagnvart kærendum margfaldast.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð sú krafa að hið kærða byggingarleyfi standi óraskað.  Ítarleg grenndarkynning hafi átt sér stað á fyrirhuguðum framkvæmdum.  Umbeðin hækkun hússins að Háteigsvegi 3 sé í samræmi við næsta umhverfi og götumyndir Þverholts og Háteigsvegar og umferð muni ekki aukast að neinu ráði.  Komið hafi verið til móts við framkomin andmæli á kynningartíma umsóknarinnar með því að mænishæð umrædds húss hafi verið lækkuð um 1,5 metra frá kynntri tillögu og létt hafi verið á þaki austur- og vesturhliða, þannig að skuggavarps muni ekki gæta á neðri hæðum húss kærenda um miðjan dag á jafndægrum.  Grenndaráhrif heimilaðra framkvæmda séu ekki meiri en almennt megi búast við á miðborgarsvæði (sic), en geti kærendur sannað að svo sé yrði þeim bættur skaðinn skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í kjölfar bráðabirgðaúrskurðar í málinu um stöðvun framkvæmda sendi Reykjavíkurborg úrskurðarnefndinni viðbótargreinargerð vegna þeirra álitaefna sem reifuð voru í þeim úrskurði.

Þar kemur fram að samkvæmt uppdráttum sé gert ráð fyrir níu íbúðum í húsinu að Háteigsvegi 3 sem allar séu stærri en 80 fermetrar.  Þrjár af þeim íbúðum séu tilkomnar vegna breyttrar nýtingar 500 fermetra atvinnuhúsnæðis á annarri hæð. Samkvæmt 64. gr. byggingarreglugerðar ættu að fylgja íbúðunum 12 bílastæði en hafa verði í huga að bílastæðainneign hins breytta 500 fermetra atvinnuhúsnæðis séu 10 bílastæði.  Þar myndist því inneign upp á fjögur bílastæði sem eðlilegt sé að telja með þeim íbúðum sem bætist í húsið.  Atvinnuhúsnæði á 1. hæð sé um 370 fermetra og reiknist eitt bílastæði á hverja 50 fermetra eða samtals 7,4 bílastæði. Samtals þyrftu því að vera 21,4 bílastæði á lóðinni samkvæmt tilvitnuðu ákvæði byggingarreglugerðar en samkvæmt 6. gr. reglna um bílastæðagjald þurfi ekki að fjölga stæðum fyrir þann hluta húsnæðisins sem breytt er í íbúðarhúsnæði.

Hluti bílastæða sé utan lóðar, en samkvæmt 11. gr. reglna um bílastæðagjald sé heimilt að samþykkja slíkt fyrirkomulag, enda sé gangstétt innan lóðar.

Það sé hinsvegar álit Reykjavíkurborgar að heimilt hafi verið að samþykkja eitt bílastæði fyrir hverja íbúð og eitt bílastæði fyrir hverja 50 fermetra atvinnuhúsnæðis í máli þessu.  Ástæðan sé sú að árið 1986 hafi verið samþykkt bygging fjölbýlishúsa, Egilsborga, á Rauðarárstíg 35-41 og Þverholti 20-32.  Þessi hús séu að mestu fjórar hæðir og ris, en að hluta þrjár hæðir og ris.  Gert hafi verið ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja íbúð.

Á umræddum reitum sé krafist eins bílastæðis fyrir hverja íbúð vegna hinnar miklu uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á næsta reit til austurs, milli Þverholts og Einholts.  Í samræmi við þessar kröfur og með hliðsjón að jafnræði þyki ekki rétt að krefjast nema eins bílastæðis fyrir hverja íbúð vegna hækkunar hússins að Háteigsvegi 3.  Árið 1996 hafi verið samþykkt í byggingarnefnd lóðarmynd (afstöðumynd) fyrir umrædda lóð þar sem gert hafi verið ráð fyrir 20 bílastæðum á lóðinni.

Komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að fella beri niður byggingarleyfið í máli þessu sé það álit Reykjavíkurborgar að heimilt sé, með vísan til reglna um bílastæðagjald, sbr. 54. gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 28 og 64.10 í byggingarreglugerð, að láta greiða fyrir þau stæði sem ekki er hægt að gera á lóðinni.
 
Nú sé gert ráð fyrir 17 bílastæðum á lóðinni en samkvæmt framansögðu sé ekki tilefni til að gera kröfur um fjölgun þeirra.

Umdeildur reitur teljist vera fullbyggður og því ekki ástæða til að vinna deiliskipulag fyrir reitinn í heild sinni vegna umsóknar um hækkun hússins að Háteigsvegi 3. Umbeðin hækkun sé í fullu samræmi við hæð annarra húsa á reitnum og hið sama eigi við um reitinn næst fyrir norðan.  Ekki sé heldur talið æskilegt að vinna deiliskipulag fyrir eina lóð.  Í ljósi aðstæðna hafi því verið talið heimilt að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn þá sem fjallað sé um í máli þessu.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Vakin er athygli á því að kærendur búi í endaíbúð, sem snúi að Rauðarárstíg, gegnt Háteigsvegi 1, og gæti því ekki skuggavarps við íbúð kærenda frá húsinu að Háteigsvegi 3.  Bílastæðum verði ekki fjölgað að norðanverðu við Háteigsveg 3 andspænis lóðinni að Rauðarárstíg 41 og rekstrareiningum í húsinu fjölgi aðeins um fjórar til fimm við heimilaða breytingu hússins.  Þá sé ekki rétt, sem kærendur haldi fram, að opnað verði fyrir umferð á milli húsanna að Háteigsvegi 1 og 3.

Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 17. nóvember 2005.

Niðurstaða:  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt og er hið kærða byggingarleyfi því veitt með grenndarkynningu skv. 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í gildandi aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem íbúðarbyggð.  Kærendur búa í fjölbýlishúsinu að Rauðarárstíg 41, sem reist var á bak við húsið að Háteigsvegi 3, og geta breytingar og framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi haft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra.  Verða þeir því taldir eiga kæruaðild í máli þessu. 

Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 eru settar fram ýmsar kröfur er taka til íbúðarhúsnæðis og íbúðarbyggðar.  Í byggingarreglugerð, gr. 92.1, er kveðið á um að íbúðir skuli þannig hannaðar að þær njóti fullnægjandi dagsbirtu og henti sem best til sinna nota og í gr. 104.1, er tekur til fjölbýlishúsa, er áréttað að staðsetning vistarvera skuli taka mið af dagsbirtu og útsýni.  Þá segir í skipulagsreglugerð, gr. 4.2.2, 4. mgr., að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  

Með hinu kærða byggingarleyfi er heimilað að tvöfalda hæð meginhluta hússins að Háteigsvegi 3 í rúma 14 metra og er gert ráð fyrir svölum á norðurhlið hússins gegnt svölum á suðurhlið fjölbýlishússins að Rauðarárstíg 41 þar sem kærendur búa.  Fyrir liggur að umdeild hækkun hússins mun auka skuggavarp umtalsvert gagnvart húsi kærenda vegna nálægðar og afstöðu húsanna.  Þá eykur staðsetning svala innsýn milli húsanna.  Fer umrætt byggingarleyfi að þessu leyti gegn markmiðum áðurnefndra ákvæða skipulags- og byggingarreglugerða.

Í gr. 64.3 og 64.4 byggingarreglugerðar er kveðið á um að fjöldi bílastæða skuli að lágmarki vera tvö stæði á lóð fyrir hverja íbúð sem er stærri en 80 fermetrar.  Fjölbýlishúsum með sex íbúðum eða fleiri skal auk þess fylgja eitt gestabílastæði sem henti þörfum fatlaðra.  Atvinnuhúsnæði, öðru en verslunar-, þjónustu- eða skrifstofuhúsnæði, skal fylgja a.m.k. eitt bílastæði fyrir hverja 50 fermetra húsnæðis.  Þá segir í 16. kafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 um bílastæði að miðað við umferðarspár og aukna bílaeign sé ljóst að framfylgja þurfi ítrustu kröfum skipulagsreglugerðar um bílastæði í flestum tilvikum.

Samkvæmt aðaluppdrætti byggingarleyfisins tilheyra húsinu sex bílastæði innan lóðar að Háteigsvegi 3 og ellefu stæði við götu, þar af tvö fyrir fatlaða, eða samtals sautján bílastæði.  Með hinu umdeilda leyfi eru heimilaðar níu íbúðir í húsinu með breytingu annarrar hæðar og byggingu þeirrar þriðju auk rishæðar og eru allar íbúðirnar stærri en 80 fermetrar.  Auk fyrirhugaðra íbúða er í húsinu 370 fermetra atvinuhúsnæði á fyrstu hæð.  Til þess að uppfylla lágmarkskröfur byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða þyrftu að fylgja húsinu a.m.k. 26 stæði.  Ekki er unnt að víkja frá þessum lágmarkskröfum um bílastæði nema í deiliskipulagi, sbr. 6. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, enda sé sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.  Sömu sjónarmið eru uppi í gr. 64 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sem heimilar í gr. 64.9 að bílastæðum sé komið fyrir á annarri lóð í sama hverfi, sem nýtist viðkomandi húsi, ef ekki verði komið fyrir á lóð nægjanlegum fjölda bílastæða.  Þessi undantekningarákvæði eiga ekki við um hið kærða byggingarleyfi og ekki verður frávik frá lágmarksfjölda bílastæða réttlætt með framkvæmd í tíð eldri reglna eða með hliðsjón af forsögn að deiliskipulagi fyrir nágrenni umrædds svæðis, sem ekki hefur öðlast gildi.  Skortir því verulega á að fullnægt hafi verið kröfum um lágmarksfjölda bílastæða fyrir húsið við útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis.

Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að heimiluð stækkun og notkunarbreyting hússins að Háteigsvegi 3 sé þess eðlis að ekki hafi verið heimilt að beita undanþáguheimild 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um grenndarkynningu byggingarleyfis á ódeiliskipulögðum svæðum í stað deiliskipulagsgerðar í samræmi við meginreglu 2. mgr. ákvæðisins.  Fyrrgreind hækkun húss og tilkoma níu nýrra íbúða á reit, sem þegar er þéttbyggður, hefur í för með sér töluverð áhrif á byggð þá sem fyrir er, svo sem vegna skuggavarps, umferðar og bílastæðamála, en að þessum atriðum er hugað við deiliskipulagsgerð skv. 2. mgr. gr. 5.4.2 í skipulagsreglugerð. 

Að virtum áðurnefndum grenndaráhrifum, reglum um fjölda bílastæða og 23. gr. skipulags- og byggingarlaga eins og hún hefur verið skýrð, þykir rétt að verða við kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Úrskurðarorð:

Byggingarleyfi, sem veitt var af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 20. september 2005 og staðfest af borgarráði hinn 22. sama mánaðar, fyrir framkvæmdum að Háteigsvegi 3 í Reykjavík er fellt úr gildi.

 

___________________________ 
Hjalti Steinþórsson

 
_____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ásgeir Magnússon

 

61/2005 Skeifan

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 7. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir bensínafgreiðslustöð með fjórum sjálfsafgreiðsludælum og stakstæðu verðskilti á lóðinni nr. 5 við Skeifuna í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. ágúst 2005, er barst nefndinni 9. sama mánaðar, kærir Hanna Lára Helgadóttir hrl., f.h. húsfélagsins Skeifunnar 3, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita byggingarleyfi fyrir bensínafgreiðslustöð á lóðinni nr. 5 við Skeifuna.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði í umboði borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 21. júlí 2005.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Jafnframt krafðist kærandi þess að framkvæmdir, sem hafnar væru við byggingu bensínstöðvarinnar yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum 18. ágúst 2005.   

Málsatvik:  Haustið 2004 var leitað afstöðu skipulags- og byggingarnefndar til þess hvort leyft yrði að reisa bensínsjálfsafgreiðslu á lóð nr. 5 við Skeifuna.  Tók nefndin jákvætt í erindið og lét umsækjandinn því vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar þar sem gert var ráð fyrir bensínafgreiðslunni.  Tillagan var fyrst tekin fyrir þann 8. október 2004 á fundi skipulagsfulltrúa og á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 15. desember s.á.  Vísaði nefndin tillögunni til kynningar í samgöngunefnd og umhverfis- og heilbrigðisnefnd.  Að þeirri kynningu lokinni var ákveðið að auglýsa tillöguna.

Snemma árs 2005 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að reisa mætti sjálfsafgreiðslustöð fyrir bifreiðaeldsneyti á lóðinni nr. 5 við Skeifuna í Reykjavík.  Var tillagan í auglýsingu til 8. apríl 2005 og bárust allmargar athugasemdir, m.a. frá eigendum eignarhluta að Skeifunni 3.  Í umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 2. maí 2005, var gerð tillaga að breytingum á skipulagstillögunni til að koma til móts við athugasemdir.  Var lagt til að byggingarreitur ofanjarðar fyrir bensíndælur yrði færður frá lóðamörkum og að sett yrði í skilmála deiliskipulagsins að ekki mætti vera þak yfir dælum né óþarfa skilti við stöðina.  Var auglýst tillaga samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 18. maí 2005 með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa.  Staðfesti borgarráð þessa samþykkt skipulagsráðs á fundi sínum þann 26. maí 2005.  Skipulagstillagan hlaut lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 14. júlí 2005.  Hafði kærandi þá þegar skotið skipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. júní 2005.

Þann 19. júlí 2005 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að koma fyrir bensínafgreiðslustöð með fjórum sjálfsafgreiðsludælum á lóðinni nr. 5 við Skeifuna.  Jafnframt var sótt um leyfi fyrir 6 metra háu stakstæðu verðskilti við innkeyrslu á lóðina.  Umsóknin var samþykkt á fundinum með eftirfarandi bókun: 

„Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.  Áskilið samþykki heilbrigðiseftirlits.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 5. júlí s.l., var samþykkt byggingarleyfi fyrir húsfélagið Skeifunni 5 um byggingu bensínsjálfsafgreiðslustöðvar á lóðinni nr. 5 við Skeifuna.  Þegar sú samþykkt var gerð var ekki búið að staðfesta deiliskipulag á reitnum með birtingu í Stjórnartíðindum.

Vegna þessa er umrædd samþykkt felld úr gildi en málið nú samþykkt þar sem formskilyrðum hefur verið fullnægt með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. júli s. l.“

Eins og áður er rakið var ofangreind ákvörðun byggingarfulltrúa einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 8. ágúst 2005, og þess krafist að byggingarleyfið yrði fellt úr gildi.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hið umdeilda byggingarleyfi eigi stoð í skipulagi sem breytt hafi verið og hafi kærumál um lögmæti breytingarinnar verið til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Sé því haldið fram að skipulagsbreytingin hafi farið í bága við aðalskipulag Reykjavíkurborgar og að auki hafi verið verulegir ágallar á málsmeðferð skipulagsyfirvalda þegar skipulaginu hafi verið breytt.  Rekstri bensínstöðvar fylgi óhjákvæmilega aukin umferð, slysahætta og mengun, sem allt gangi gegn lögvörðum hagsmunum kæranda.  Loks dregur kærandi í efa að umdeilt byggingarleyfi uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar sem og ákvæði reglna um heilbrigðiseftirlit, brunavarnir og mengunarvarnir.  Sérstaklega sé á það bent að það skilyrði hafi verið fyrir byggingarleyfinu að leyfishafi hefði samráð við aðra lóðarhafa um frágang á lóðamörkum.  Hann hafi þrátt fyrir þetta hvorki haft samráð né gert nokkurt samkomulag við eigendur fasteignarinnar nr. 3 við Skeifuna.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram að ákvarðanir um hina umdeildu skipulagsbreytingu og byggingarleyfi hafi verið teknar að vel ígrunduðu máli og að undirbúningur umræddra ákvarðana hafi í alla staði verið í samræmi við lög.  Komið hafi verið til móts við athugasemdir er gerðar hafi verið við skipulagstillöguna og hafi henni verið breytt til hagsbóta fyrir nágranna, þar á meðal kæranda.  Tillögunni hafi þó ekki verið breytt í grundvallaratriðum og hafi því ekki verið skylt að auglýsa hana að nýju.  Samþykkt skipulagsráðs hafi hlotið lögboðna staðfestingu borgarráðs og verið afgreidd af Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda svo sem lögskylt sé.  Ekki hafi verið sýnt fram á að annmarkar séu á umræddri skipulagstillögu eða byggingarleyfi er leitt geti til ógildingar og beri því að hafna kröfu kæranda. 

Hvað varði byggingarleyfi vegna bensínstöðvarinnar að Skeifunni 5 þá geri kærandi ekki neinar efnislegar athugasemdir við það, þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess, né bendi hann á nein atriði sem leitt geti til ógildingar þess.  Varðandi yfirlýsingu lögmanns kæranda þess efnis að ekki hafi verið haft samráð við eigendur Skeifunnar 3 um frágang á lóðamörkum þá skuli bent á að ekkert komi fram í samþykktum aðaluppdráttum, sem bendi til þess að raska þurfi lóðamörkum, enda dælurnar staðsettar 6 metrum frá þeim.  Bókun byggingarfulltrúa feli einungis í sér að samráð þurfi að hafa við kæranda ef einhverja breytingu þurfi að gera á lóðamörkum vegna framkvæmdanna.  Valdi sú skylda framkvæmdaraðila að sjálfsögðu ekki ógildingu byggingarleyfis.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt.  Byggir hann á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og borgaryfirvöld, sem þegar hafa verið rakin.

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, sem ekki þykir ástæða til að rekja nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu krafist ógildingar byggingarleyfis sem heimilar að reisa sjálfsafgreiðslustöð fyrir bifreiðaeldsneyti að Skeifunni 5 í Reykjavík.  Hefur kærandi aðallega byggt á því að ógilda beri breytingu þá á deiliskipulagi sem hafi verið undanfari og forsenda fyrir útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis.

Með ítarlegum úrskurði uppkveðnum fyrr í dag hefur úrskurðarnefndin hafnað kröfu kæranda um ógildingu umræddrar skipulagsbreytingar.  Verður hið kærða byggingarleyfi því ekki ógilt með þeim rökum að skipulagslegar forsendur skorti.

Kærandi hefur ekki bent á neina tiltekna ágalla á byggingarleyfinu og ekki verður fallist á að skilyrði um samráð um frágang á lóðamörkum geti komið til álita sem ógildingarástæða í máli þessu enda óvíst að nokkuð hafi reynt á umrætt skilyrði.  Ekki hafa heldur komið fram neinar ábendingar um að umdeilt mannvirki hafi haft í för með sér einhver vandkvæði þrátt fyrir að allangt sé síðan það var reist og rekstur stöðvarinnar hafinn.  Verður kröfum kæranda því hafnað með vísan til þess sem að framan er rakið.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu á hinu kærða byggingarleyfi fyrir bensínafgreiðslustöð á lóðinni nr. 5 við Skeifuna í Reykjavík er hafnað.

 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Ásgeir Magnússon       

 

 

76/2005 Hamrahlíð

Með

Ár 2005, föstudaginn 25. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2005, kæra fjögurra íbúa og eigenda fasteigna við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. október 2005 um að veita leyfi til að byggja tveggja hæða steinsteypta viðbyggingu við austurhlið Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir íþróttir ásamt ellefu kennslustofum og bókasafni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. október 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Hróbjartur Jónatansson hrl., f.h. Ó, Stigahlíð 50, Ó og Þ, Stigahlíð 56 og H, Stigahlíð 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að byggja tveggja hæða steinsteypta viðbyggingu við austurhlið Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir íþróttir ásamt ellefu kennslustofum og bókasafni.  Krefjast kærendur ógildingar hins kærða byggingarleyfis.

Málsatvik:   Mál þetta á sér þann aðdraganda að í ársbyrjun 2005 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð.  Bárust fjölmargar athugasemdir við tillöguna þar á meðal frá kærendum.  Var m.a. bent á að við sölu lóða við Stigahlíð hefði kaupendum verið kynnt deiliskipulag skólalóðarinnar, þar sem gert hefði verið ráð fyrir byggingum sunnan við núverandi skólahús.  Í ljósi þessara athugasemda munu borgaryfirvöld hafa látið fara yfir skipulagsmál lóðarinnar og kemur fram í umsögn borgaryfirvalda í máli þessu að þá hafi fundist nýrra deiliskipulag, frá árinu 1990, sem gert hafi ráð fyrir viðbyggingum austan við skólahúsið.  Í ljósi þessara nýju upplýsinga var ákveðið að auglýsa tillögu að breytingu á eldra deiliskipulagi.  Bárust enn athugasemdir frá nágrönnum.  Einhverjar breytingar munu hafa verið gerðar á tillögunni með hliðsjón af athugasemdum þeirra og var m.a. dregið úr skuggavarpi yfir á grannlóðir.  Var tillagan þannig breytt samþykkt í skipulagsráði og var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarráðs Reykjavíkur 7. júlí 2005.  Birtist auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda þann 29. ágúst 2005.  Skutu kærendur ákvörðun borgaryfirvalda um skipulagið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 10. ágúst 2005.

Hinn 22. september 2005 veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð og skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. september 2005.  Vísaði úrskurðarnefndin því máli frá með úrskurði, uppkveðnum 4. nóvember 2005, með þeim rökum að ekki hefði þar verið um fullnaðarákvörðun að ræða er sætt gæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Byggingarleyfi það sem um er deilt í máli þessu var sem fyrr greinir gefið út af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 11. október 2005 og staðfest í borgarráði 13. sama mánaðar.  Töldu kærendur að útgáfa téðs leyfis færi alfarið í bága við þá stöðu sem uppi væri vegna ágreinings um lögmæti deiliskipulags þess sem Reykjavíkurborg hafi reynt að knýja fram í mikilli óþökk kærenda.  Kærendur töldu að fengi byggingarleyfishafinn að hefja framkvæmdir samkvæmt áformum hins umdeilda deiliskipulags á meðan ágreiningurinn væri til meðferðar í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála væru líkur á að hann næði fram niðurstöðu sér í hag á þeim grundvelli að ekki yrði hróflað við mannvirkjum sem þegar hefðu risið á lóðinni. 

Úrskurðarnefndin tók kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrskurðar hinn 4. nóvember 2005 og var kröfunni hafnað með rökstuddum úrskurði.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda hefur verið lögð á það áhersla að fasteignaréttindi þeirra grundvallist ekki á hefðbundnum leigulóðarréttindum, heldur sé um að ræða eignarlóðir sem geri réttarstöðu þeirra aðra en ella, sem m.a. lúti að þeim skuldbindingum sem Reykjavíkurborg hafi tekist á hendur gagnvart kærendum í samningum um kaupin á téðum lóðum.  Að öðru leyti vísa kærendur til sjónarmiða í máli sínu um skipulagsákvörðun borgarinnar, sem verið hafi undanfari máls þessa. 

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er kröfu kærenda mótmælt.   Telja borgaryfirvöld að ekki hafi verið sýnt fram á að form eða efnisgallar hafi verið á skipulagsákvörðun þeirri sem fyrirhugaðar framkvæmdir styðjist við og hafi hið kærða byggingarleyfi verið veitt í samræmi við gilt skipulag og umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.  Endanlegum frágangi leyfa samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga sé og lokið.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt og vísað til þess að allar framkvæmdir á lóð Menntaskólans við Hamrahlíð eigi stoð í auglýstu skipulagi og leyfum borgaryfirvalda.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, m.a. í ítarlegum greinargerðum í máli aðila um lögmæti skipulagsákvörðunar þeirrar sem var undanfari útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis.  Verða þær ekki raktar hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis alfarið studd þeim rökum að krafist hafi verið ógildingar skipulagsákvörðunar þeirrar sem sé grundvöllur leyfisins.  Eigi leyfið því að sæta ógildingu komi til þess að fallist verði á kröfu kærenda um ógildingu skipulagsákvörðunarinnar.  Engar málsástæður hafa verið færðar fram um að byggingarleyfið kunni að vera haldið ógildingarannmörkum óháð gildi skipulagsákvörðunarinnar.

Með úrskurði, uppkveðnum fyrr í dag, hefur úrskurðarnefndin hafnað kröfu kærenda um ógildingu skipulagsákvörðunarinnar.  Leiðir af þeirri niðurstöðu að einnig verður hafnað kröfum kærenda í máli þessu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógilt verði ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. október 2005 um að veita leyfi til þess að byggja tveggja hæða steinsteypta viðbyggingu við austurhlið Menntaskólans við Hamrahlíð.

 

 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Ásgeir Magnússon

 

50/2005 Skeifan

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 7. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2005, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 18. maí 2005 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Skeifunni 5 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júní 2005, er barst nefndinni 23. sama mánaðar, kærir Helgi V. Jónsson hrl., f.h. húsfélagsins Skeifunnar 3, Reykjavík þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 18. maí 2005 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Skeifunni 5, þar sem heimilað er að reisa bensínafgreiðslustöð á lóðinni.  Borgarráð staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi sínum hinn 26. maí 2005. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Haustið 2004 var leitað afstöðu skipulags- og byggingarnefndar til þess hvort leyft yrði að reisa bensínsjálfsafgreiðslu á lóð nr. 5 við Skeifuna.  Tók nefndin jákvætt í erindið og lét umsækjandinn því vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar þar sem gert var ráð fyrir bensínafgreiðslunni.  Tillagan var fyrst tekin fyrir þann 8. október 2004 á fundi skipulagsfulltrúa og á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 15. desember s.á.  Vísaði nefndin tillögunni til kynningar í samgöngunefnd og umhverfis- og heilbrigðisnefnd.  Að þeirri kynningu lokinni var ákveðið að auglýsa tillöguna.

Tillagan var auglýst til kynningar frá 25. febrúar til 8. apríl 2005 og bárust allmargar athugasemdir, m.a. frá eigendum eignarhluta að Skeifunni 3.  Í umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 2. maí 2005, var gerð tillaga að breytingum á skipulagstillögunni til að koma til móts við athugasemdir.  Var lagt til að byggingarreitur ofanjarðar fyrir bensíndælur yrði færður frá lóðamörkum og að sett yrði í skilmála deiliskipulagsins að ekki mætti vera þak yfir dælum né óþarfa skilti við stöðina.  Var auglýst tillaga samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 18. maí 2005 með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa.  Staðfesti borgarráð þessa samþykkt skipulagsráðs á fundi sínum þann 26. maí 2005.  Skipulagstillagan hlaut síðan lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 14. júlí 2005.  Hafði kærandi þá þegar skotið ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. júní 2005.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því í fyrsta lagi haldið fram að borgarráð hafi ekki samþykkt tillögu skipulagsráðs.  Sé tilkynning skrifstofu skipulags- og byggingarsviðs því ógild og marklaus, sbr. skilyrði um samþykki sveitarstjórnar í 25. gr. laga nr. 73/1997.

Í öðru lagi telur kærandi að heimild fyrir bensínstöð á lóðinni, sem samkvæmt aðal- og deiliskipulagi sé ætluð til byggingar verkstæðishúsnæðis/verslunarhúsnæðis, sé ekki í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkurborgar og gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. 

Í þriðja lagi er því haldið fram að breytingar þær á hinni umdeildu skipulagstillögu, sem skipulagsfulltrúi hafi lagt til í umsögn sinni, hafi verið þess eðlis að borið hafi að auglýsa hina breyttu tillögu að nýju, sbr. 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ákvæði 2. mgr. 26. gr. séu undanþáguákvæði frá þeirri meginreglu að breytingar á auglýstu deiliskipulagi skuli auglýstar að nýju og verði því að túlkast þröngt.  Þær kröfur verði að gera til deiliskipulags að það sé í samræmi við aðalskipulag og lagt fyrir með skýrum og ótvíræðum hætti þannig að ljóst megi vera hvað í breytingunum felist.  Því sé ekki fyrir að fara í samþykkt skipulagsráðs, þar sem breytingarnar frá fyrirliggjandi auglýstri tillögu séu ekki tilgreindar með skýrum og ótvíræðum hætti.

Í fjórða lagi heldur kærandi því fram að fjarlægð hinnar fyrirhuguðu bensínstöðvar frá lóð kæranda sé ekki nægileg skv. 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Beri í því sambandi að mæla fjarlægð frá mörkum lóðarinnar Skeifunni 3 eins og þau hafi verið skilgreind í deiluskipulagi frá 6. nóvember 2001, en svo virðist sem í tillögunni sé miðað við að lóðarmörk séu færð til baka inn í innkeyrsluna að Skeifunni 3 og þannig fengin meiri fjarlægð en ella.

Í fimmta lagi telur kærandi að ljóst megi vera að staðsetning bensínstöðvar, nánast á lóðarmörkum Skeifunnar 3, leiði eðlilega til óánægju hjá eigendum og leigjendum húsnæðis að Skeifunni 3 vegna hættu á óþægindum og tjóni.  Byggð í nágrenninu sé nú þegar nokkuð þétt og gera verði ráð fyrir að viðbótarbyggingarmagn, sem heimilað hafi verið á lóðinni Skeifan 5, verði nýtt.  Megi því vera ljóst að bygging bensínstöðvarinnar muni leiða til þess að eigendur Skeifunnar 5 muni ekki uppfylla bifreiðastæðakröfur þær sem settar hafi verið varðandi byggingar á lóðinni, en kröfur þessar kveði á um eitt stæði á hverja 35 fermetra húsnæðis. 

Í sjötta lagi telur kærandi rekstur bensínstöðvar vera þess eðlis að óframkvæmanlegt verði að fyrirbyggja mengun eða ólykt frá bensíngufu, sem fylgi áfyllingu á bíla og tanka.  Þá verði ekki framhjá því litið að hætta verði á að olía og/eða bensín komist í jarðveg og að sprengi- og brunahætta aukist.  Fyrirséð sé að umferð muni aukast og fylgi því aukinn hávaði og slysahætta.  Muni þessi atriði og minni sýnileiki verslana valda verðrýrnun á fasteigninni að Skeifunni 3 og tjóni, sérstaklega fyrir leigjendur þeirra hluta fasteignarinnar, sem næstir séu fyrirhugaðri bensínstöð, eins og fram hafi komið í athugasemdum þeirra við tillöguna.  Sé gerð sú krafa til skipulagsyfirvalda að fengin verði skrifleg niðurstaða um óæskileg áhrif frá fyrirhugaðri starfsemi bensínstöðvarinnar og þá litið til hinna fjölmörgu laga og reglugerða, sem hafi þann tilgang að draga úr þessum áhrifum.  Vísist í þessu sambandi t.d. til laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga (sic) nr. 252/1999 um varnir gegn losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda, laga nr. 75/2000 um brunavarnir o.fl. 

Í sjöunda lagi telur kærandi að skilmálar skipulagsins séu ófullnægjandi hvað mengunarvarnir varði en aðeins sé þar tekið fram að hafa skuli samráð um frágang mengunarvarna við umhverfis- og heilbrigðisstofu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að ákvörðun skipulagsráðs, dags. 18. maí 2005, og bókun ráðsins um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 5 við Skeifuna verði staðfest með þeim breytingum sem gerðar hafi verið á tillögunni.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er hafnað fullyrðingum kæranda um áhrif hinnar umþrættu breytingar á deiliskipulagi.  Ekki sé tekið undir þau sjónarmið að umrædd samþykkt valdi fjárhagslegu tjóni hjá kærendum.  Þá hafi málsmeðferð að öllu leyti verið í samræmi við formreglur skipulags- og byggingarlaga.

Í kæru sé því haldið fram að borgarráð Reykjavíkur hafi ekki samþykkt tillögu skipulagsráðs  um hina umdeildu skipulagsbreytingu.  Þetta sé beinlínis rangt eins og sjá megi af fundargerð borgarráðs hinn 26. maí 2005 en þar sé í 10. lið svohljóðandi bókun:

„Lagt fram bréf sviðsstjóra Skipulags- og byggingarsviðs frá 18. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytt deiliskipulag lóðarinnar að Skeifunni 5. R05020067.
Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum.“

Í kæru sé því einnig haldið fram að af umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir, er lúti að nálægð fyrirhugaðrar bensínafgreiðslu við bensínstöð Olíuverslunar Íslands við Suðurlandsbraut megi ráða að heimild fyrir bensínstöð á lóðinni sé ekki í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkurborgar og gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þetta sé ekki rétt ályktun hjá kæranda.  Í umsögn skipulagsfulltrúa sé aðeins bent á að við endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur verði unnin stefnumörkun um fjölda og staðsetningu bensínstöðva í borginni.  Í núgildandi aðalskipulagi sé hins vegar ekki að finna neinar heimildir til takmörkunar á fjölda bensínstöðva né heimild til að synja á grundvelli staðsetningar ef umsóknin samræmist samþykktri landnotkun, þrátt fyrir nálægð við aðrar stöðvar. 

Þá sé því haldið fram að vegna breytinga sem gerðar hafi verið á hinni auglýstu tillögu hefði borið að auglýsa hana að nýju með áorðnum breytingum, sbr. 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þessari málsástæðu sé algerlega hafnað og sé hún ekki í samræmi við venjubundna túlkun á ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, enda komi fram í lögunum að ef sveitarstjórn ákveði að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik.  Umsögn skipulagsfulltrúa sé stuttorð og skýr og þar séu lagðar til breytingar á auglýstri tillögu sem komi til móts við athugasemdir nágranna.  Séu hinar samþykktu breytingar kærendum í hag.

Að því er varði þá málsástæðu að fjarlægð fyrirhugaðrar bensínstöðvar frá lóð kæranda sé ekki nægileg skv. 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, og að mæla beri fjarlægðina frá mörkum lóðarinnar að Skeifunni 3 eins og þau hafi verið skilgreind í  deiliskipulagi frá 6. nóvember 2001, sé áréttað að miðað sé við núverandi lóðamörk eins og glögglega sjáist á uppdrætti.  Í auglýstri tillögu hafi verið gert ráð fyrir að heimilt yrði að koma byggingarreit bensínstöðvarinnar fyrir við lóðamörk Skeifunnar 3 og 5.  Eins og fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa hafi tillagan verið samþykkt með þeirri breytingu að bensínstöðin hafi verið færð frá lóðamörkum.  Fjarlægð frá afgreiðslutækjum að lóðarmörkum verði um 7,5 m og fjarlægð byggingarreits frá lóðamörkum sé 6 m.  Tilvísun til 75. gr. byggingarreglugerðar eigi þar að auki ekki við í þessu sambandi þar sem í ákvæðinu sé kveðið á um afstöðu húsa og fjarlægð þeirra frá lóðamörkum en með deiliskipulagsbreytingunni sé verið að heimila uppsetningu á sjálfsafgreiðsludælum fyrir eldsneyti.

Ekki séu gerðar minni kröfur til fjölda bílastæða á lóð við hina kærðu breytingu á deiliskipulagi.  Í gildandi deiliskipulagi, sem samþykkt hafi verið í borgarráði þann 6. nóvember 2001, sé gerð krafa um 167 bílastæði á lóð Skeifunnar 5.  Fjöldi bílastæða á lóðinni eftir tilkomu sjálfsafgreiðslustöðvar sé 171 stæði og sé því bílastæðakröfum fullnægt og vel það, þrátt fyrir að sex stæði falli niður við breytinguna.  Ekki sé tekin afstaða til þess á þessu stigi hvernig fyrirkomulagi bílastæða á lóð verði háttað ef sótt verði um stækkun á húsinu nr. 5 við Skeifuna, enda sé það ekki til umræðu nú.
Því sé haldið fram að óframkvæmanlegt verði að fyrirbyggja mengun eða ólykt frá bensíngufu, sem fylgi áfyllingu á bíla og tanka.  Þá verði ekki framhjá því litið að hætta verði á að olía og/eða bensín komist í jarðveg og að sprengi- og brunahætta aukist.  Fyrirséð sé að umferð muni aukast með vaxandi hávaða og slysahættu.  Þessi atriði eigi eftir að valda verðrýrnun á fasteigninni að Skeifunni 3 og tjóni fyrir leigjendur.  Krafa sé gerð um að fengin verði skrifleg niðurstaða um óæskileg áhrif frá fyrirhugaðri starfsemi bensínstöðvarinnar. 
Vegna þessara staðhæfinga sé bent á að fyrirhuguð bensínstöð uppfylli allar kröfur sem gerðar séu í reglugerðum um bruna- og mengunarvarnir.  Aðliggjandi hús séu utan við öryggissvæði bensínstöðvarinnar.  Skilmálar varðandi þessi atriði séu í fullu samræmi við lög og reglugerðir þar að lútandi og uppfylli allar kröfur sem gerðar séu til skipulagsuppdrátta.

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á breytingu á deiliskipulagi sem heimilaði að reist yrði sjálfsafgreiðslustöð fyrir bifreiðaeldsneyti á lóðinni nr. 5 við Skeifuna í Reykjavík.  Byggir kærandi annars vegar á því að málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við viðeigandi reglur skipulags- og byggingarlaga og hins vegar að efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun og að hún stríði gegn lögvörðum hagsmunum kæranda.

Hvað fyrra atriðið varðar þá verður að hafna staðhæfingum kæranda um að málsmeðferð hafi verið áfátt.  Rangt er hjá kæranda að skort hafi á að hin kærða ákvörðun hlyti staðfestingu borgarráðs.  Leggur hann fram til stuðnings þessari fullyrðingu hluta fundargerðar borgarráðs frá 26. maí 2005, liði 1 – 4, en í 4. lið kemur fram að borgarráð hafi staðfest B-hluta fundargerðar skipulagsráðs frá 25. maí 2005.  Virðist kærandi draga þá ályktun að þar með hafi ákvörðun skipulagsráðs frá 18. maí 2005 ekki komið til afgreiðslu á fundinum, en í 10. lið fundargerðar sama fundar er bókað um afdráttarlaust samþykki borgarráðs á hinni umdeildu ákvörðun.

Kærandi heldur því einnig fram að breytingar, sem skipulagsfulltrúi hafi lagt til að liðnum auglýsingartíma skipulagstillögunnar og samþykktar hafi verið í skipulagsráði, hafi ekki verið færðar inn á skipulagsuppdráttinn.  Leggur kærandi fram upphaflegan tillöguuppdrátt og vísar til hans til stuðnings þessari staðhæfingu en á vefsíðu skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur má sjá að breytingar höfðu verið færðar inn á uppdráttinn og skilmálum breytt hinn 3. maí 2005 til samræmis við samþykkt skipulagsráðs.  Kom skipulagið þannig breytt til staðfestingar í borgarráði.

Kærandi heldur því loks fram um málsmeðferð að breytingar þær sem gerðar voru að liðnum auglýsingartíma og í tilefni af innsendum athugasemdum hefðu átt að leiða til þess að tillagan yrði auglýst að nýju samkvæmt 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Á þetta verður ekki fallist.  Umræddar breytingar voru ekki stórvægilegar og miðuðu allar að því að koma til móts við sjónarmið nágranna, þar á meðal kæranda, með því að færa afgreiðsludælur fjær lóðamörkum, fella niður heimild fyrir skyggni yfir dælunum og takmarka uppsetningu skilta við stöðina.  Verður ekki á það fallist að um breytingu í grundvallaratriðum hafi verið að ræða eins og áskilið er í tilvitnuðu ákvæði.  Tilvísun kæranda til 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga í þessu sambandi sýnist á misskilningi byggð, en í því ákvæði er fjallað um heimildir sveitarstjórna til að falla frá auglýsingu á tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi og viðhafa þess í stað grenndarkynningu, en í tilviki því sem hér er til meðferðar kom sú málsmeðferð ekki til álita.

Kærandi telur enn fremur að ýmsir efnisannmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun.  Fari ákvörðunin m.a. í bága við aðalskipulag og tilgreind ákvæði í skipulagsreglugerð, byggingarreglugerð, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög um brunavarnir o.fl.

Svæði það sem hér um ræðir er í gildandi aðalskipulagi skilgreint athafnasvæði.  Gildir því á svæðinu landnotkun sem lýst er í gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Ekkert stendur því í vegi að telja litla bensínafgreiðslustöð samrýmast þeirri skilgreiningu og má því til áréttingar benda á að bensínstöðvar eru leyfðar á skilgreindum íbúðasvæðum og svæðum fyrir verslun og þjónustu.  Verður því að telja umdeilda bensínstöð samræmast gildandi aðalskipulagi, en ekki er í greinargerð þess að finna takmarkanir er lúta að fjarlægð milli bensínstöðva.

Hvað varðar fjarlægð afgreiðslubúnaðar frá lóðamörkum og nærliggjandi mannvirkjum þá er hún í öllum atriðum fullnægjandi miðað við ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem kærandi vísar til.  Er raunar ekki augljóst að tilvitnað ákvæði eigi við um mannvirki sem hér um ræðir, en ekki þykir þurfa að skera úr vafa um það þar sem fyrir liggur að staðsetning afgreiðslubúnaðar og útloftunarröra eldsneytisgeyma  samræmist reglum Brunamálastofnunar um brunavarnir á bensínstöðvun frá október 1993, en reglur þessar, sem settar eru með viðhlítandi lagastoð, kveða á um öryggissvæði og umbúnað slíkra stöðva.

Um þá málsástæðu að með fækkun bílastæða vegna bensínstöðvarinnar verði ekki unnt að fullnægja bílastæðakröfu ef byggingarréttur á lóðinni nr. 5 við Skeifuna verði nýttur er það eitt að segja að þessi staðreynd gæti komið í veg fyrir að lóðarhafi fengi neytt þeirra byggingarheimilda sem felast í gildandi skipulagi svæðisins, enda ber við útgáfu byggingarleyfis að gæta þess að fullnægt sé  skilmálum skipulags í þessu efni.  Þarf því ekki að koma til úrlausnar nú hvernig brugðist verði við þessum vanda ef á reynir.

Staðhæfing kæranda um að lóðamörkum hafi verið breytt frá því sem fyrir var í gildandi skipulagi sýnist á misskilningi byggð og er ekki á rökum reist.  Ekki verður heldur fallist á að staðhæfingar almenns eðlis um aukna umferð, hugsanlega mengun og önnur neikvæð áhrif á eign kæranda eða hagmuni leigutaka eigi að leiða til ógildingar hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar, en gildistaka skipulagsákvörðunar getur hins vegar lagt grundvöll að bótarétti ef sýnt er fram á að ákvörðunin hafi rýrt verð- eða notagildi eignar, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Loks verður að hafna fullyrðingum kæranda um að skipulagsskilmálum sé áfátt varðandi skilyrði um mengunarvarnir þar sem kveðið er á um að haft skuli samráð um frágang mengunarvarna við umhverfis- og heilbrigðisstofu.   Er þetta ákvæði í samræmi við 117. gr. byggingarreglugerðar sem miðar að því að tryggja að eldvarnir og mengunarvarnir fullnægi ströngum skilyrðum.  Verður í þessu sambandi að hafa í huga að þess er ekki krafist að gerð sé á tæmandi hátt grein fyrir tæknilegum útfærslum í deiliskipulagi heldur ber við útgáfu byggingarleyfis og starfsleyfis að ganga úr skugga um að slíkra atriða hafi verið gætt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum þeim ágöllum er til ógildingar eigi að leiða.  Verður kröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 18. maí 2005 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Skeifunni 5 í Reykjavík, sem staðfest var í borgarráði 26. maí 2005.

 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________              _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ásgeir Magnússon       

62/2005 Hamrahlíð

Með

Ár 2005, föstudaginn 25. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2005, kæra fjögurra íbúa og eigenda fasteigna við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun Borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2005 um að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. ágúst 2005, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kæra Ó, Stigahlíð 50, Ó og Þ, Stigahlíð 56 og H, Stigahlíð 60, Reykjavík, þá ákvörðun Borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2005 að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð. Ákvörðunin var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 29. ágúst 2005.  Verður að skilja erindi kærenda svo að þeir krefjist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málsatvik:  Þann 22. desember 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur að auglýsa tillögu að deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð, gerðu í nóvember 2004.  Áður hafði nefndin vísað málinu til kynningar í hverfisráði Hlíða.  Borgarráð samþykkti bókun skipulags- og byggingarnefndar á fundi sínum þann 6. janúar 2005.  Umrædd skipulagstillaga, sem auglýst var, gerði ekki ráð fyrir því að í gildi væri deiliskipulag fyrir lóðina og var hún því sett fram eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða.

Athugasemdir bárust við tillöguna á auglýsingatíma frá 10 íbúum í Stigahlíð 50-64, með bréfi dags. 23. febrúar 2005, þar á meðal kærendum máls þessa.  Í þeim athugasemdum var m.a. bent á að þegar lóðir við Stigahlíð hefðu verið seldar hefði kaupendum verið kynnt þágildandi deiliskipulag, sem samþykkt hafi verið árið 1983, en í því hafi verið gert ráð fyrir byggingarheimildum á lóð menntaskólans sunnan við núverandi skólahús. 

Í framhaldi af þessum athugasemdum voru eldri samþykktir vegna lóðarinnar yfirfarnar og töldu borgaryfirvöld, eftir þá athugun, að með vísan til 11. tl. til bráðabirgða með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 mætti líta svo á að fyrrnefnt deiliskipulag frá 1983 væri í gildi.  Einnig kom fram nýrra deiliskipulag, frá árinu 1990, sem gerði ráð fyrir viðbyggingum austan við skólahúsið. Í kjölfar þessa leituðu borgaryfirvöld álits Skipulagsstofnunar á því hvaða deiliskipulag, ef nokkurt, væri í gildi á lóðinni. Í áliti stofnunarinnar, dags. 23. mars 2005, kom fram að deiliskipulagið frá 1990 teldist í gildi þrátt fyrir að það hafi ekki verið kynnt, enda fullnægði það skilyrðum 11. tl. bráðabirgðarákvæðis skipulags- og byggingarlaga.  Lagði stofnunin til að uppsetningu skipulagstillögunnar yrði breytt í samræmi við þetta álit og að hún yrði auglýst að nýju, svo breytt.

Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 20. apríl 2005 var lagt til að tillagan yrði auglýst að nýju með þeim breytingum sem fram kæmu í umsögn skipulagsfulltrúa.  Ákvað Borgarráð á fundi sínum hinn 28. apríl 2005 að tillagan yrði auglýst að nýju og að halda bæri kynningarfund um málið.  Var tillagan auglýst og jafnframt kynnt á opnum fundi sem haldinn var 18. maí 2005. 

Á fundi skipulagsráðs, 29. júní 2005, var tillagan tekin fyrir á ný að lokinni auglýsingu. Athugasemdabréf höfðu þá borist frá einum íbúa við Hamrahlíð og nokkrum íbúum við Stigahlíð.  Á fundinum var lagt fram bréf menntamálaráðuneytisins, dags. 15. júní 2005, og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. júní 2005.  Skipulagsráð samþykkti tillöguna með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa en einhverjar breytingar munu hafa verið gerðar á tillögunni með hliðsjón af athugasemdum nágranna sem m.a. miðuðu að því að draga úr skuggavarpi yfir á grannlóðir.  Var málinu vísað til Borgarráðs sem samþykkti ákvörðunina á fundi sínum hinn 7. júlí 2005. 

Málið var eftir þetta sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.  Lýsti stofnunin þeirri afstöðu sinni í bréfi, dags. 28. júlí 2005, að ekki væri gerð athugasemd við að tillagan yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, en kallað var eftir lagfærðum gögnum. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist loks hinn  29. ágúst 2005.  Höfðu kærendur þá þegar kært ákvörðun borgaryfirvalda um skipulagið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 10. ágúst 2005, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er bent á að óvanalega hátti til um Stigahlíð því einbýlishúsalóðir þar hafi verið seldar hæstbjóðendum.  Þegar gerður hafi verið kaupsamningur við Reykjavíkurborg vegna lóðakaupanna hafi kaupendum verið afhent innbundið hefti með deiliskipulagsuppdráttum og skilmálum svæðisins, dags. í janúar 1983. Kærendum sé ljóst að af þessu leiði ekki að þeir eigi rétt á því að deiliskipulag svæðisins standi óbreytt um aldur og ævi.  Þeir óski hins vegar eftir því að tillit sé tekið til þessa og að skipulag svæðisins sé í anda þess skipulags lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð frá árinu 1983 sem þeim hafi verið kynnt sérstaklega og sagt að unnið yrði eftir. 

Ekki verði fallist á að deiliskipulag, sem samþykkt hafi verið í Borgarráði 26. júní 1990, hafi haft nokkurt gildi.  Tillaga að deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð hafi fyrst verið kynnt sem nýtt deiliskipulag snemma á árinu 2005.  Tillagan hafi síðan verið endurkynnt sem breyting deiliskipulags frá árinu 1990.  Verði ráðið af bréfi skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar til Skipulagsstofnunar, dags. 15. mars 2005, og svari Skipulagsstofnunar varðandi þetta efni, að vafi hafi þótt leika á um gildi umrædds skipulags.  Talsvert skorti á upplýsingar varðandi meðferð deiliskipulagsins frá árinu 1990.  Einungis komi fram í bréfi skipulags- og byggingarsviðs að umrætt skipulag hafi verið samþykkt í Borgarráði 26. júní 1990.  Skipulagið hafi ekki verið kynnt hagsmunaaðilum og ekki komi fram hvort það hafi verið samþykkt í borgarstjórn og auglýst með lögbundnum hætti.  Af bréfaskrifum megi sjá að starfsmenn skipulags- og byggingarsviðs hafi að minnsta kosti talið vafasamt að umrætt skipulag væri gilt og hafi þeir snúið sér til Skipulagsstofnunar varðandi gildi þess.  Ekki sé hægt að fallast á að skipulagið hafi öðlast gildi við gildistöku 11. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, heldur hljóti það ákvæði að hafa átt að taka til þeirra skipulagsákvarðana sem eðlilega afgreiðslu hafi hlotið samkvæmt eldri skipulagslögum.  Ákvæðið geti ekki hafa átt að vera allsherjar syndaaflausn, yfirbreiðsla, vegna mistaka við skipulagsgerð.  Umrætt deiliskipulag frá árinu 1990 hafi að líkindum ekki lotið eðlilegu stjórnsýsluferli deiliskipulags.    Hagsmunaaðilar hafi þar af leiðandi ekki átt þess kost að gera athugasemdir, kynna sér skipulagið og haga sínum gerðum í samræmi við það.

Þar sem eigendum lóða í Stigahlíð hafi verið kynnt deiliskipulagið frá árinu 1983 sérstaklega og með beinum hætti hljóti stjórnvöldum að hafa verið skylt að kynna nýtt og gjörbreytt skipulag á árinu 1990 með sambærilegum hætti.

Kærendur benda á að enginn rökstuðningur liggi að baki fullyrðingum þess efnis að hagkvæmara sé að reisa hinar umdeildu viðbyggingar á austurhluta lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð í stað suðurhluta hennar.  Athyglisvert sé að starfsmenn skipulags- og byggingarsviðs taki heldur ekki undir fullyrðingar skipulagshöfunda þess efnis.  Ekki hafi verið tekin sjálfstæð afstaða til þeirrar grundvallarspurningar hvort viðbyggingar við Menntaskólann í Hamrahlíð hefðu ekki allt eins getað verið sunnan megin við skólann, en á þann veg hafi arkitekt skólans séð framtíðarstækkun hans fyrir sér.  Ekki hafi heldur verið lagðir á vogaskálarnar þeir mörgu kostir sem felist í því að beina viðbyggingum skólans inn á suðurhluta lóðar.  Megi þar nefna verndun yfirbragðs aðalbyggingar og að ásýnd skólans verði önnur,  léttari og fallegri, verði vel gert útisvæði og sparkvöllur staðsett á eystri hluta lóðar.   Enginn vafi sé á því að það samræmdist betur nábýli skólans við hina lágreistu íbúðarbyggð Stigahlíðar ef farið væri eftir meginstefnu deiliskipulagsins frá árinu 1983.

Kærendur benda einnig á að núverandi tillaga geri ráð fyrir tvöfalt meira byggingarmagni en áformað hafi verið í skipulagstillögunni frá 1990 og sé því ekki hægt að fallast á staðhæfingu borgaryfirvalda um að breytingar nú víki aðeins lítillega frá þeirri tillögu.  Þá hafi ekki verið gerð fullnægjandi grein fyrir áhrifum aukinnar bílaumferðar og ekki hafi verið tekin afstaða til gangandi umferðar.  Ekki sé heldur gerð grein fyrir því við hvaða fjölgun nemenda og kennara sé miðað í mati borgaryfirvalda. 

Skilaboð frá starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs á fundi með íbúum og í bréfi, dags. 20. júní 2005, þess efnis að íbúar geti krafist skaðabóta ef á þá sé hallað lýsi ekki skilningi á eðli þessa máls.  Íbúar Stigahlíðar séu ekki á móti viðbyggingu við Menntaskólann við Hamrahlíð en sætti sig ekki við að það sé gert með metnaðarlausum hætti þar sem ekki verði séð að tillit sé tekið til nærliggjandi byggðar eða byggingalistarlegs gildis aðalbyggingar skólans.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. nóvember 2005, gerir Hróbjartur Jónatansson hrl. f.h. kærenda ítarlega grein fyrir frekari sjónarmiðum þeirra í málinu.  Er þar fyrst vísað til álits umboðsmanns Alþingi í máli nr. 727/1993 þar sem fram komi sjónarmið sem leggja eigi til grundvallar við úrlausn máls þessa.  Þá er frá því greint að ákveðið hafi verið á árinu 1984 að selja lóðir við Stigahlíð hæstbjóðendum, en verð lóðanna hafi verið afar hátt, um 20 milljónir króna að meðaltali reiknað til núvirðis.  Við sölu lóðanna hafi verið vísað til deiliskipulags er samþykkt hafi verið í Borgarráði þann 12. júlí 1983 og 14. nóvember 1983.  Í afsölum fyrir lóðunum hafi verið tekið fram að um þær giltu skipulags- og byggingaskilmálar sem samþykktir hefðu verið af skipulagsnefnd og Borgarráði og afsalshafinn hefði kynnt sér og skuldbundið sig til að hlíta.  Hafi þarna verið vísað til þess skipulags sem gert hafi ráð fyrir byggingum á suðurhluta skólalóðarinnar, en opnu svæði og sparkvelli á austurhluta hennar. 

Með vísan til framangreindra skilmála um sölu lóðanna sé vafalaust að bæði þáverandi borgaryfirvöld og kaupendur lóðanna hafi litið svo á að hluti bindandi samningsskilmála um lóðirnar væri þágildandi deiliskipulag og þar af leiðandi hafi falist í lóðarsölusamningunum þær forsendur að ekki yrði hróflað við deiliskipulaginu í framtíðinni nema samkomulag tækist um slíkt með borgaryfirvöldum og eigendum fasteigna við Stigahlíð 50-94.

Af kynningargögnum sjáist að hið nýja deiliskipulag byggi á skipulagi sem samþykkt hafi verið í borgarráði 1990.  Það skipulag hafi ekki verið kynnt kærendum með þeim hætti sem þágildandi skipulagslög nr. 19/1964, hafi mælt fyrir um, sbr. 11. gr. sbr., 17. gr. þeirra laga og þar af leiðandi hafi það ekki gildi gagnvart kærendum.  Einungis skipulagið frá 1983 hafi gildi gagnvart þeim enda hafi það verið kynnt sérstaklega fyrir kaupendum lóðanna og auk þess verið hluti samningsskilmála um lóðirnar. Bráðabirgðaákvæði 11. tl. núgildandi skipulags- og byggingarlaga sem með afturvirkum hætti leysi sveitarstjórn undan þeirri skyldu að auglýsa deiliskipulag stríði berlega gegn eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.  Því sé ætlað að hafa íþyngjandi verkanir gagnvart kærendum og svipti þá þeim almenna andmælarétti sem viðurkenndur sé í stjórnsýslurétti þegar um sé að ræða aðgerðir stjórnvalda sem snerta hagsmuni manna.  Á grundvelli þessa beri að skýra bráðabirgðaákvæðið þröngt og í samræmi við tilgang þess.  Af lögskýringargögnum verði helst ráðið að 11. tl. bráðabirgðaákvæðisins sé ætlað að lögfesta skipulag sem hafi þegar verið framkvæmt og þar af leiðandi kunnugt hlutaðeigandi einstaklingum sem átt hafi hagsmuna að gæta.  Af þessum sökum beri að skýra ákvæðið svo að það nái einvörðungu til skipulags sem þegar hafi verið hrint í framkvæmd með byggingu mannvirkja en ekki, eins og hér hátti til, að lögfesta skipulag sem ekki hafi verið byggt eftir.  Í slíkum tilfellum verði, í samræmi við núgildandi skipulagslög, að leggja deiliskipulag, sem ekki hafi komið til framkvæmda, undir málsmeðferðarreglur núgildandi skipulags- og byggingarlaga áður en ráðist verði í byggingu mannvirkja.  Deiliskipulagið frá 1990 hafi því ekkert gildi gagnvart kærendum og beri því að leggja til grundvallar að áður gildandi skipulag sé frá 1983.

Kærendur telja loks, með hliðsjón af sjónarmiðum í tilvitnuðu áliti umboðsmanns Alþingis, að Reykjavíkurborg þurfi að sýna fram á að veigamiklar ástæður réttlæti þá ákvörðun borgarinnar að brjóta samninga við viðsemjendur sína um téðar lóðir í Stigahlíð og breyta þágildandi deiliskipulagi með þeim hætti sem borgin stefni að.  Skorti verulega á að borgaryfirvöld hafi réttlætt breytinguna á deiliskipulaginu með fullnægjandi hætti.  Engar breytingar hafi orðið á landfræðilegum aðstæðum á svæðinu en þó sé vísað til sjónarmiða um þær sem rök fyrir breytingunni.  Í raun séu engin málefnaleg skilyrði fyrir því að fella deiliskipulagið frá 1983 úr gildi með þeim hætti sem gert hafi verið.

Í þessu sambandi skipti einnig afar miklu máli að byggingarleyfishafinn sjálfur, menntamálaráðuneytið, hafi lýst því yfir skriflega að ekki sé þörf á þeirri byggingu sem merkt sé II í breytingu þeirri á deiliskipulagi sem hér sé deilt um.  Sú þörf kunni þó að skapast einhvern tímann í framtíðinni. Með hliðsjón af þessu sé fráleitt að breyta deiliskipulaginu nú á þann hátt sem ráðgert sé, sérstaklega þegar litið sé til mótmæla íbúa við Stigahlíð við þessum breytingum, sem m.a. hafi sannanlega í för með sér skerðingu kvöldsólar í þeim húsum við Stigahlíð sem liggi næst hinum nýja byggingarreit auk þess að þrengja byggðina, skerða grenndarrými og útileikjaaðstöðu á svæðinu, auka umferð og verðfella fasteignir kærenda.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er hafnað málsástæðum kæranda og sjónarmiðum um að umrædd skipulagsbreyting valdi þeim tjóni.

Einnig er því vísað á bug að gallar hafi verið á afgreiðslu málsins og vísað til málsgagna, en af þeim megi ráða að vandað hafi verið til meðferðar málsins.

Kærendur byggi aðallega á gildi eldri deiliskipulagsáætlana á svæðinu.  Eins og áður hafi komið fram hafi það verið álit Skipulagsstofnunar að deiliskipulag frá 1990 væri í gildi þrátt fyrir að það hefði ekki verið kynnt íbúum sérstaklega, en slík túlkun sé í samræmi við 11. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga þar sem deiliskipulag teljist hafa gildi sem unnið hafi verið á grundvelli aðalskipulags og samþykkt af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998 án tillits til þess hvort það hafi verið auglýst, staðfest af ráðherra eða samþykkt af skipulagsstjóra ríkisins skv. eldri lögum og reglugerðum. Með vísan til þessa hafi skipulagsráð ákveðið að auglýsa að nýju tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð en fyrri tillaga hafi verið sett upp eins og um nýtt skipulag lóðarinnar væri að ræða.  Jafnframt megi benda á að Reykjavíkurborg hafi ekki heimild til að velja og hafna þegar gildi eldri deiliskipulagsákvarðana sé metið.  Í 11. tl. til bráðabirgða séu tekin af öll tvímæli um að skipulagsuppdrættir, sem uppfylli lágmarksskilyrði um útlit og framsetningu slíkra áætlana og fullnægi að öðru leyti skilyrði ákvæðisins, séu í gildi og sé Reykjavíkurborg óheimilt að líta framhjá þeim þegar unnið sé deiliskipulag í grónum hverfum borgarinnar.   Ekki sé því fallist á þær röksemdir að umþrætt deiliskipulag frá 1990 hafi ekki öðlast gildi.

Ástæður þess að nýjum byggingum sé markaður reitur austan núverandi byggingar séu fyrst og fremst sjónarmið um aðgengi og landfræðilegar aðstæður.  Embættismenn Reykjavíkurborgar hafi að sjálfsögðu farið yfir þær röksemdir sem lagðar séu til grundvallar þegar ákveðið sé að ráðast í deiliskipulagsgerð eða breytingar á fyrirliggjandi eldra deiliskipulagi. Ljóst þyki að landfræðilegar aðstæður geri það að verkum að nær ógerlegt sé að koma fyrir nýjum byggingum, sem uppfylli kröfur um rými, tengsl við núverandi byggingu og kostnað, á þeim stað sem áformað hafi verið í deiliskipulaginu frá árinu 1983.  Ljóst sé einnig að allt aðgengi, þar með talið öryggisaðkoma og aðgengi fatlaðra, yrði ekki eins og best verði á kosið ef byggt væri sunnan við núverandi byggingu.  Samkvæmt upplýsingum frá skipulagshöfundum sé það einnig ósk skólans að hlíðin njóti verndunar svo nýta megi hana áfram til kennslu í náttúrufræðum.  Auk þessa megi einnig benda á að allt frá árinu 1990 hafi verið gert ráð fyrir því að betur fari á að viðbyggingar rísi á þeim stað þar sem nú sé fyrirhugað að reisa íþróttahús skólans.

Að því er varði umferðarmál þá hafi sérstaklega verið óskað eftir áliti verkfræðistofu framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar um áhrif aukins byggingarmagns á umferð í Hamrahlíð og nærliggjandi götum.  Mat framkvæmdasviðs hafi verið að umrætt byggingarmagn gæti leitt til meðalumferðaraukningar um Hamrahlíð sem nemi 200 bílum á sólarhring.  Það sé um 2,5% aukning, sem verði að teljast óverulegt.  Einnig beri að líta á það að með skipulagsbreytingunni sé verið að leggja grunn að því að unnt verði að uppfylla nútíma kröfur til skólahúsnæðis með því að auka það að gæðum.  Aðalmarkmið stækkunarinnar sé ekki fjölgun nemenda, heldur að koma allri starfsemi skólans undir eitt þak og gefa nemendum kost á líkamsrækt eins og lögboðið sé í framhaldsskólum, en áður hafa nemendur þurft að sækja leikfimi utan skólans.  Ekki sé því fallist á að viðbyggingin hafi í för með sér slíka aukningu á umferð sem kærendur haldi fram. Talið sé að umferðaraukning á svæðinu verði í algeru lágmarki miðað við fyrirliggjandi umsögn verkfræðistofu.

Reykjavíkurborg telur einnig að sjónarmið kærenda um skerðingu á eignarrétti séu þess eðlis að það geti aldrei valdið ógildingu umræddra ákvarðana. Ljóst sé að hin samþykkta breyting á deiliskipulagi geti valdið einhverjum afmörkuðum grenndaráhrifum á hluta af lóðum kærenda en við slíkum áhrifum megi að jafnaði búast þegar gerðar séu breytingar á húsum í þéttbýli.  Aukning skuggavarps inn á lóðir kærenda, þegar sól sé lægst á lofti, sé í lágmarki, auk þess sem útsýnisskerðing sé minniháttar.  Við umfjöllun um grenndarsjónarmið verði sérstaklega að hafa í huga að í skipulags- og byggingarlögum sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að vinna að og breyta skipulagsáætlunum sbr. t.d. 25. og 26. gr. þeirra laga.

Eigendur fasteigna í þéttbýli geti því ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.   Að teknu tilliti til allra atriða sé ljóst að grenndaráhrif fyrirhugaðra breytinga á húsi Menntaskólans við Hamrahlíð geti ekki talist það veruleg að leitt geti til ógildingar skipulagsbreytingarinnar á grundvelli almennra reglna grenndarréttarins.  Telji aðilar sig hins vegar geta sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt megi búast við hjá fasteignaeigendum í þéttbýli eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Um bótarétt sé úrskurðarnefndin hins vegar ekki bær til að fjalla.

Andmæli lóðarhafa:  Af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur ekki verið skilað greinargerð í máli þessu en í bréfi er ráðuneytið sendi úrskurðarnefndinni hinn 4. október 2005 vegna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda er tekið fram að ráðuneytið telji öll áform um framkvæmdir á lóðinni styðjast við lögformlegar heimildir borgaryfirvalda.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 17. nóvember 2005, en ekki þóttu efni til að boða til formlegrar vettvangsgöngu í málinu.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2005 um að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð.  Ágreiningur er um það hvaða skipulag hafi áður gilt á svæðinu og þar með hver hafi verið grundvöllur hinnar umdeildu ákvörðunar.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að líta hefði átt á deiliskipulag frá árinu 1983 sem gildandi skipulag á svæðinu þegar tillaga að breyttu skipulagi var kynnt í ársbyrjun 2005, enda hafi það skipulag verið kynnt lóðarhöfum við Stigahlíð á árinu 1984 er þeir keyptu eignarlóðir sínar á svæðinu.  Af hálfu borgaryfirvalda hefur hins vegar verið lagt til grundvallar að á svæðinu hafi gilt deiliskipulag sem samþykkt hafi verið á árinu 1990, en gildi þess eigi sér stoð í 11. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Úrskurðarnefndin telur að rétt hafi verið að leggja til grundvallar að deiliskipulagið frá 1990 hafi gilt um svæðið þegar umdeild tillaga að breyttu skipulagi kom fram.  Verður að skilja umrætt ákvæði 11. tl. til bráðabirgða á þann veg að deiliskipulagsákvarðanir, sem samþykktar hafi verið í sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998, gildi þrátt fyrir að þær hafi ekki verið auglýstar eða hlotið staðfestingu ráðherra eða skipulagsstjóra ríkisins eftir eldri lögum.  Verður ekki fallist á að ákvæðið eigi einungis við um skipulag sem komið hafi að fullu til framkvæmda, eins og kærendur halda fram, enda þykja lögskýringargögn ekki gefa tilefni til þeirrar túlkunar. 

Hvað varðar skilyrðið um samþykkt sveitarstjórnar skal áréttað að í Reykjavík hefur borgarráð lengi farið með vald sveitarstjórnar til að samþykkja deiliskipulagsákvarðanir og byggist það fyrirkomulag á samþykkum um stjórnsýslu borgarinnar.  Verður því ekki fallist á að skipulaginu frá 1990 hafi verð áfátt hvað þetta varðar, eins og kærendur hafa haldið fram.   

Af hálfu kærenda er einnig á því byggt að umrætt ákvæði 11. tl. til bráðabirgða stríði gegn eignaréttarákvæði stjórnarskrár.  Fellst úrskurðarnefndin á að með ákvæðinu sé í veigamiklum atriðum vikið frá lagareglum er varða meðferð og birtingu skipulagsákvarðana og að heimildir ákvæðisins kunni að orka tvímælis.  Það er hins vegar ekki á færi úrskurðarnefndarinnar, sem stjórnvalds, að leggja mat á stjórnskipulegt gildi laga heldur er það viðfangsefni dómstóla.  Verður því að leggja til grundvallar að deiliskipulagið frá 1990 hafi verði í gildi er hin umdeilda skipulagstillaga var unnin og að það hafi því legið til grundvallar tillögugerðinni.  Í þessu sambandi þykir rétt að taka fram að ekkert liggur fyrir um að eldra deiliskipulag svæðisins frá 1983 hafi verið auglýst eða staðfest af skipulagsstjóra ríkisins og ríkir því óvissa um hvort það skipulag hafði lögformlegt gildi á árinu 1984 þegar kaupendum lóða við Stigahlíð var kynnt efni þess.

Samkvæmt framansögðu var borgaryfirvöldum rétt að leggja til grundvallar að í gildi væri deiliskipulag það sem gert var árið 1990.  Var hin nýja tillaga byggð á þeim grunni sem þar hafði verið lagður og felur hún því í sér nánari útfærslu fyrra skipulags, en gerir jafnframt ráð fyrir verulegri aukningu byggingarmagns.  Verður þó ekki talið að með tillögunni hafi verið gengið svo freklega gegn grenndarhagsmunum kærenda að ógilda beri hina umdeildu ákvörðun af þeim ástæðum. 

Ekki verður heldur á það fallist að borgaryfirvöldum hafi verð óheimilt að breyta skipulagi umrædds svæðis vegna sjónarmiða um gildi og eðli skipulags, sem rakin eru í tilvitnuðu áliti umboðsmanns Alþingis.  Verður í því sambandi að líta til þess að liðin eru meira en 20 ár síðan skipulag það, sem kærendur vilja leggja til grundvallar, var unnið og að um er að ræða stóra stofnanalóð þar sem búast má við að breyta þurfi byggingaráformum með hliðsjón af breyttum kröfum um umhverfi og aðstöðu skólastofnana af því tagi sem hér um ræðir.  Verður því ekki fallist á að kærendur hafi mátt treysta því að ekki gæti komið til breytinga á skipulagi svæðisins áratugum saman. 

Af hálfu kærenda hefur verið vísað til þess að þeim hafi verið kynnt skipulag svæðisins frá 1983 við kaup á lóðum á árinu 1984.  Má fallast á að kynning skipulagsins kunni að hafa verið ein af mörgum ákvörðunarástæðum kaupenda er festu kaup á byggingarlóðum við Stigahlíð en af því leiðir ekki að borgaryfirvöld hafi bundið hendur sínar varðandi breytingar á skipulagi svæðisins.  Telur nefndin hér vera um einkaréttarlegar forsendur að ræða sem kunni að skipta máli um hugsanlegan bótarétt kærenda en varði ekki heimildir borgaryfirvalda samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, en samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 26. gr. laganna eru ákvæði um málsmeðferð ákveði sveitarstjórn að breyta deilskipulagi.  Samkvæmt ákvæðum þessum hvílir á sveitarstjórnum skylda til að hlutast til um gerð deiliskipulags þegar við á, en jafnframt er þeim játaður réttur til að gera breytingar á deiliskipulagi.  Verður þó að telja að þau skilyrði séu almennt sett um breytingar á deiliskipulagi að fyrir þeim þurfi að vera málefnalegar ástæður, en mat á þessum skilyrðum hlýtur að ráðast af aðstæðum í hverju tilviki.

Í tilviki því sem hér er til úrlausnar verður ekki séð að borgaryfirvöld hafi farið út fyrir málefnaleg mörk við gerð hinnar umdeildu skipulagstillögu, en ætla verður sveitarstjórn forræði á því hversu víðtækar heimildir felist í deiliskipulagi, innan þeirra marka sem leiðir af skilmálum aðalskipulags, grenndarreglum og ákvæðum skipulags- og byggingarlöggjafarinnar.  Þá verður ekki heldur á það fallist að málsmeðferð, rannsókn máls eða undirbúningi hafi verið svo áfátt að til ógildingar eigi að leiða. 

Samkvæmt framansögðu verður kröfum kærenda  um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógilt verði ákvörðun Borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2005 um að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð.

 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________         _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ásgeir Magnússon