Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2004 Skólavörðustígur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2004, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. október 2004, kæra H og B, Skólavörðustíg 21, Reykjavík ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Með ákvörðun þeirri sem kærð er í máli þessu var heimilað að breyta efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í kaffihús og stækka svalir þess.  Við frumathugun starfsmanna úrskurðarnefndarinnar á málinu kom í ljós að sorptunnur vegna fyrirhugaðrar starfsemi virtust staðsettar utan lóðamarka.  Var athygli byggingaryfirvalda vakin á þessu og í framhaldi af þeirri ábendingu var sótt um byggingarleyfi að nýju og var það leyfi veitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. nóvember 2004.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. desember 2004. 

Kærendum var gert kunnugt um hið nýja byggingarleyfi.  Kærðu þau þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 21. janúar 2005.  Er því máli ólokið hjá nefndinni.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var nýtt byggingarleyfi veitt hinn 30. nóvember 2004 í stað leyfis þess frá 6. september 2004, sem kært er í máli þessu.  Verður að telja að við útgáfu leyfisins frá 30. nóvember 2004 hafi eldra leyfi frá 6. september fallið úr gildi og að kærendur eigi því ekki lengur lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti þess.  Verður málinu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

        ___________________________          
           Hjalti Steinþórsson          

 

                                                                                                                                 ____________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                    Sigurður Erlingsson

 

53/2003 Laugavegur

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 13. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2003, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. ágúst 2003 um að veita byggingarleyfi til að innrétta kaffihús að Laugavegi 3 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2003, er barst nefndinni þann sama dag, kærir H, Laugavegi 5, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. ágúst 2003 um að veita byggingarleyfi til að innrétta kaffihús að Laugavegi 3 í Reykjavík.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 6. maí 2003 var lögð fram umsókn um leyfi til að koma fyrir kaffihúsi á 1. hæð og í kjallara hússins nr. 3 við Laugaveg.  Í umsókninni kom fram að á 1. hæð yrði veitingasalur og eldhús en starfsmannaaðstaða og snyrtingar í kjallara. Jafnframt var sótt um leyfi til að koma fyrir loftræsistokk á bakhlið hússins.  Var erindinu frestað og fært til bókar að þegar fyrir lægi samþykki meðeigenda yrði málið sent skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 20. maí 2003 var lagt fram samþykki meðeigenda hússins nr. 3 við Laugaveg og í kjölfarið vísaði byggingarfulltrúi beiðninni til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 23. maí 2003 var samþykkt að kynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Laugavegi 1, 3, 5, 2 og 4 og Hverfisgötu 18.  Bárust skipulagsyfirvöldum athugasemdir, m.a. frá kæranda.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. júlí 2003 var fært til bókar að nefndin myndi ekki gera athugasemd við að veitt yrði umbeðið leyfi og málinu vísað til byggingarfulltrúa sem veitti hið umþrætta byggingarleyfi hinn 12. ágúst sama ár.  Hinn 13. sama mánaðar var ákvörðunin kynnt á fundi skipulags– og byggingarnefndar og hlaut staðfestingu borgarráðs hinn 19. ágúst 2003.   
 
Skaut kærandi framangreindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að þegar byggingarleyfið hafi verið veitt hafi veitingastaðurinn þá þegar verið löngu tilbúin til opnunar.  Í bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. maí 2003, hafi hagsmunaaðilum verið gefinn kostur á að tjá sig um umsóknina og hafi frestur til þessa verið til 26. júní sama ár.  Vinna við breytingar á húsnæðinu hafi aftur á móti hafist um miðjan maí 2003, þrátt fyrir að grenndarkynningu hafi ekki verið lokið.  Telur kærandi að borgaryfirvöld hafi þá þegar, ólöglega og á bak við tjöldin, verið búin að veita hið kærða leyfi.  Þeirri fullyrðingu sinni til sönnunar bendir kærandi á samkomulag Reykjavíkurborgar og Miðbæjarveitinga ehf., dags. 3. júlí 2003, en í 3. lið þess samkomulags segi: „…með tilkomu nýs byggingarleyfis“ og heldur því fram að með þessu orðalagi leiki enginn vafi á því að fyrir hafi legið að veitingastaðurinn myndi fá hið umdeilda byggingarleyfi. 

Kærandi vísar einnig til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í andstöðu við þróunaráætlun miðborgarinnar.  Að Laugavegi 3 hafi til margra ára verið rekin bankastofnun sem samkvæmt þróunaráætluninni teljist til annarrar starfsemi.  Vissulega sé rekstur veitingahúss önnur starfsemi líkt og banki sé önnur starfsemi en verslun.  Í þróunaráætluninni komi ekki fram hvaða önnur starfsemi megi vera rekin í húsnæði ef breytingar séu gerðar.  Það komi aftur á móti fram í þróunaráætluninni að veitingahúsarekstur fari ekki saman við verslunarrekstur, þar sem mikil samþjöppun þess háttar notkunar húsnæðis á svæðinu sé ekki æskileg, slíkt dragi úr áhuga fólks í innkaupahugleiðingum.  Einnig komi skýrt fram í þróunaráætluninni að verslunarrekstur eigi að vera 70% á svæðinu. 

Kærandi telur að Reykjavíkurborg hafi algjörlega brugðist eftirlitsskyldu sinni og sé óskiljanlegt að hið kærða leyfi hafi verið veitt.  Það brjóti gegn þróunaráætluninni sem sé ætluð að vera grundvöllur að bættri ásýnd miðborgarinnar og skapa samræmingu og jafnræði í uppbyggingu hennar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgarinnar er fullyrðingum kæranda þess efnis að borgaryfirvöld hafi ólöglega og á bak við tjöldin veitt hið kærða leyfi mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum.  Í samkomulagi Reykjavíkurborgar og Miðbæjarveitinga ehf., dags. 10. júlí 2003, sé tekið fram að tilkoma nýs deiliskipulags geri það kleift að veita hið kærða byggingarleyfi að því tilskyldu að ákvæði laga og reglugerða verði uppfyllt að öðru leyti.  Í þessu felist ekkert loforð um veitingu byggingarleyfis.  Í samkomulaginu sé einnig hnykkt á því að ef til nýs byggingarleyfis komi, skuldbindi Miðbæjarveitingar ehf. sig til að gera þær breytingar að í húsinu verði starfrækt kaffihús. 

Reykjavíkurborg mótmælir því að hið kærða byggingarleyfi brjóti gegn þróunaráætluninni.  Það að jarðhæð götuhliðar að Laugavegi 3 sé nýtt sem kaffihús hafi ekki áhrif á hlutfall verslunarhúsnæðis á svæðinu þar sem húnæðið hafi áður verið nýtt sem bankastofnun en ekki verslun.  Ekki hafi verið fallið frá þeirri stefnumörkun sem fram komi í þróunaráætluninni um að megináhersla skuli lögð á uppbyggingu verslunarhúsnæðis á svæðinu og að mögulegt eigi að vera að hafa íbúðir á efri hæðum.  Aftur á móti sé ekki hægt að synja umsókn um breytingar á húsnæði, sem ekki hafi verið verslunarhúsnæði, þar sem það hefði ekki í för með sér breytingu á hlutfalli því sem krafist sé í þróunaráætluninni. 

Nýting jarðhæðar Laugavegar 3 sem lágstemmds kaffihúss með léttum veitingum sé í samræmi við deiliskipulag svæðisins sem samþykkt hafi verið í borgarráði 11. febrúar 2003.  Hafi deiliskipulagið verið auglýst í B- deild Stjórnartíðinda hinn 17. mars 2003. 

Á jarðhæð Laugavegar 3 sé nú rekið kaffihús með takmörkuðum opnunartíma þar sem ekki sé gert ráð fyrir tónlistarflutningi í samræmi við f- lið 9. gr. laga nr. 65/1985 um veitinga- og skemmtistaði, sbr. notkunarflokk A3 í þróunaráætlun miðborgarinnar.  Sú notkun gangi ekki gegn ákvæðum aðalskipulags og þróunaráætlunarinnar. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. ágúst 2003 þess efnis að veita byggingarleyfi til að innrétta kaffihús á jarðhæð og í kjallara hússins að Laugavegi 3 í Reykjavík.  Áður hafði verið starfrækt bankastofnun í húsnæðinu.

Úrskurðarnefndin telur að ágalli hafi verið á meðferð málsins hvað varðar kynningu þess gagnvart hagsmunaaðilum.  Á því er byggt af hálfu borgaryfirvalda að hið umdeilda leyfi samræmdist gildandi deiliskipulagi.  Þrátt fyrir þetta var efnt til grenndarkynningar með vísan til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem þó áttu augljóslega ekki við í málinu.  Var þessi framsetning til þess fallin að villa um fyrir þeim sem kynningin tók til, enda varð ekki annað af henni ráðið en að annað hvort skorti deiliskipulag af svæðinu eða að þörf væri óverulegrar breytingar á deiliskipulagi.  Hvorugt var þó raunin og áttu borgaryfirvöld að haga kynningu málsins með öðrum hætti en gert var ef þau kusu að kynna nágrönnum það umfram skyldu.  Þrátt fyrir þetta liggur ekki fyrir að þessi ranga framsetning hafi leitt til réttarspjalla og þykir því ekki rétt að láta þennan annmarka á meðferð málsins varða ógildingu.  Verður ekki heldur talið sýnt að ákvörðun um að veita hið umdeilda leyfi hafi legið fyrir áður en kynningu lauk, eins og kærandi heldur fram, eða að önnur slík ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið ákvörðun borgaryfirvalda að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  

Í gr. 4.4.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að á miðsvæði skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði.  Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem á við í málinu, er hús það sem hér um ræðir á miðsvæði.   

Í deiliskipulagi sem birtist í B- deild Stjórnartíðinda hinn 17. mars 2003 og tekur til þess svæðis sem hér um ræðir segir að húsið að Laugavegi 3 tilheyri svokölluðu aðalverslunarsvæði V.I-I, skilgreindu götusvæði nr. 7.  Á þess háttar svæðum er samkvæmt þróunaráætlun miðborgarinnar heimilt að starfrækja aðra starfsemi en verslunarrekstur svo sem veitingastaði og banka. 

Á deiliskipulagsuppdrætti að svæðinu er greinargerð þar sem lýst er afmörkun skipulagssvæðisins, forsendum skipulagsins og mannvirkjum, sem fyrir eru á svæðinu. Jafnframt segir þar:  „Nánari markmið og forsendur deiliskipulagsins koma fram í heftinu Miðborgarsvæði Reykjavíkur.  Greinargerð og deiliskipulagsskilmálar fyrir staðgreinireit 1.171.0.“  Virðist þessi greinargerð unnin eftir forskrift að skipulagsskilmálum fyrir deiliskipulögð svæði innan miðborgarinnar og er í skilmálunum m.a. gerð grein fyrir því hvaða flokkar um húsvernd samkvæmt þemahefti með aðalskipulagi og þróunaráætlun miðborgar eigi ekki við á svæðinu.  Þá er um landnotkun stuðst við þá kafla úr nefndri þróunaráætlun sem settir eru fram í hefti sem tekið var upp í Aðalskipulag Reykjavíkur á árinu 2000.  Eru ákvarðanir um landnotkun þar m.a. settar fram með skilgreiningum og hólfunum sem fram koma á smáum og ógreinilegum uppdráttum í heftinu auk þess sem starfsemi er sums staðar takmörkuð af notkunarkvótum eða lengdum í götuhliðum, svo dæmi séu nefnd.  Hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum sínum fundið að sambærilegri framsetningu deiliskipulags.  Aftur á móti er ekki deilt um lögmæti deiliskipulags umrædds svæðis í máli þessu og verður það því lagt til grundvallar við úrlausn málsins, enda hefur því ekki verið hnekkt.

Í landnotkunarþætti þróunaráætlunar miðborgar, sem tekinn hefur verið upp í aðalskipulagi og til er vísað í deiliskipulagsgögnum, segir um notkun skilgreindra götusvæða aðalverslunarsvæða að önnur notkun á svæðinu en verslun, svo sem rekstur veitingastaða og banka, geti eflt götulíf á svæðinu og að leyfður sé rýmri afgreiðslutími vínveitinga en annars staðar tíðkist.  Samræmist hið umdeilda byggingarleyfi þessum skilmálum og verður kröfu kæranda um ógildingu þess því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. ágúst 2003 um að veita leyfi til að innrétta kaffihús að Laugavegi 3 í Reykjavík. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________             _____________________________
       Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

33/2006 Brákarbraut

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2006, kæra á ákvörðun bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að hefja framkvæmdir við gerð bílastæða fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar í Borgarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2006, kærir I, Brákarbraut 11, Borgarnesi ákvörðun bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að hefja framkvæmdir við gerð bílastæða fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar í Borgarnesi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst hann þess að umræddar framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málsatvik:  Undanfarið hefur verið til meðferðar breyting á deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í bæjarstjórn 12. janúar 2006 til auglýsingar.  Engar athugasemdir bárust á kynningartímanum, en málsmeðferð var skv. 1. mgr. 26 gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í breytingunni sem auglýst var felst m.a. að hætt er við niðurrif gamla Mjólkursamlagsins, auk ýmissa breytinga á bílastæðum, byggingarreitum o.fl.  Jafnframt er fellt niður leiksvæði norðan Brákarbrautar.

Fyrir liggur að eftir auglýsingu skipulagstillögunnar ákvað bæjarráð, á fundi 27. apríl 2006, að gera breytingar eða lagfæringar á auglýstri tillögu hvað varðar fyrirkomulag götu og bílastæða við Brákarbraut.  Var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. maí 2006.  Hefur Skipulagsstofnun framangreindar skipulagsákvarðanir til meðferðar og hafa þær enn ekki tekið gildi.

Framkvæmdir við bílastæði fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar og við breytingu á legu götunnar munu hafa hafist í byrjun maí 2006 og eru þær tilefni kæru þeirrar sem hér er til meðferðar.  Liggur fyrir að ekkert formlegt framkvæmdaleyfi var veitt fyrir framkvæmdunum, en þær munu vera í samræmi við þá tillögu að breyttu fyrirkomulagi sem samþykkt var í bæjarráði hinn 27. apríl 2006.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að hvorki hafi átt sér stað lögformleg stjórnsýsluleg umfjöllun um breytinguna né framkvæmdina.  Í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir leik- og útivistarsvæði þar sem nú sé verið að gera umrædd bílastæði.  Eins sé útlit fyrir að ekki eigi að ganga frá bílastæðum við enda „Pakkhúsins“ að Brákarbraut 15 eins og deiliskipulagið geri ráð fyrir og þar með sé fækkað um helming bílastæðum fyrir smærri bíla á deiliskipulagssvæðinu.  Gerð sé athugasemd við að íbúum eða öðrum sem málið varði hafi ekki verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við svo veigamiklar breytingar á gildandi deiliskipulagi.  Þá hafi umræddar framkvæmdir ekki fengið lögformlega umfjöllun í stjórnkerfi bæjarins.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar virðist aðalleg á því byggt að aðeins hafi verið um óverulega lagfæringu á fyrirkomulagi bílastæða að ræða sem ekki hafi gefið tilefni til sérstakrar málsmeðferðar umfram það að ákvörðun hafi verið tekin um lagfæringuna í bæjarráði og hún síðan staðfest í bæjarstjórn.  Svæði það sem lagt hafi verið undir  umrædd bílastæði sé ekki lengur skilgreint sem leiksvæði og því sé kæran ekki á rökum reist hvað það varði.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var ekki veitt formlegt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum þeim sem voru tilefni kæru í máli þessu.  Aðeins hefur verið vísað til þess að þær hafi átt stoð í ákvörðun bæjaryfirvalda um lagfæringu á skipulagsákvörðun sem enn er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun og ekki hefur tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er.  Það liggur því hvorki fyrir kæranleg ákvörðun um framkvæmdaleyfi né endanleg skipulagsákvörðun sem sætt gætu kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.    

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________         
                  Hjalti Steinþórsson                                 

 

 
_____________________________                  ____________________________                 
           Ásgeir Magnússon                                             Sigurður Erlingsson

 

28/2006 Strandgata

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá  14. desember 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Strandgötu 39, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. apríl 2006, er barst nefndinni sama dag, kæra F, R og A, eigendur húsnæðis að Mjósundi 1 og Strandgötu 37 og 37b,  þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 14. desember 2005 að veita byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Strandgötu 39 í Hafnarfirði.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti þá ákvörðun hinn 10. janúar 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar.  Jafnframt krefjast þeir að skemmdir sem orðið hafi á fasteignum þeirra verði bættar.

Málsatvik:  Hinn 29. september 2005 sótti lóðarhafi að Strandgötu 39 í Hafnarfirði um leyfi til að byggja fjöleignarhús undir atvinnustarfsemi á nefndri lóð og var byggingarleyfi samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 14. desember 2005.  Hinn 8. mars 2006 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi umsókn lóðarhafa um niðurrif húss þess sem fyrir var á lóðinni að Strandgötu 39. 

Til stuðnings kröfum sínum hafa kærendur bent á að umdeilt byggingarleyfi brjóti í bága við gildandi deiliskipulag og muni fyrirhuguð nýbygging rísa að hluta inni á lóð Mjósunds 1 og svalir komi til með að snúa að lóðum nr. 37 og 37b við Strandgötu og skerða þar með nýtingarmöguleika þeirra lóða og rýra verðgildi fasteigna kærenda.  Framkvæmdir á lóðinni að Strandgötu 39, sem kærendum hafi ekki verið gert aðvart um, hafi valdið þeim verulegu tjóni.  Það stór sjái á lóðinni að Mjósundi 1 og steyptur jarðvegsburðarveggur milli lóðanna að Mjósundi 1 og Strandgötu 37b hafi hrunið ásamt loftnetsstaur og tengingum sem á honum voru.  Grindverk Mjósunds 1 við lóðarmörk Strandgötu 41 sé meira og minna brotið auk þess sem þvottasnúrur hafi verið rifnar niður og rabarbaragarður í horni lóðarinnar sé á bak og burt.  Lóðin að Strandgötu 37b sé stórskemmd og steyptur bílskúrsveggur að Strandgötu 37 hruninn að hluta ásamt steyptum skjólvegg við verönd og sprungur hafi myndast í veggjum  íbúða. 

Af hálfu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði hefur verið upplýst að samkomulag hafi náðst við lóðarhafa að Strandgötu 39 um að leiðrétta teikningar í samræmi við nýtt mæliblað og umdeilt byggingarleyfi verði afturkallað.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hið kærða leyfi fyrir nýbyggingu að Strandgötu 39 var afturkallað á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hinn 26. apríl 2006 með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn hinn 16. maí sl.

Eins og málum er komið verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar eða til kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda enda hefur ákvörðunin ekki lengur réttarverkan að lögum.  Þá verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um bætur vegna umdeildra framkvæmda en slík álitaefni falla utan verksviðs úrskurðarnefndarinnar.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________  
     Hjalti Steinþórsson         

 

 ____________________________         ______________________________
  Ásgeir Magnússon                                       Sigurður Erlingsson

 

38/2004 Akranes

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2004, kæra á breyttu deiliskipulagi miðbæjarreits á Akranesi frá 11. maí 2004.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er barst nefndinni hinn 29. júní 2004, kæra R og J, bæði til heimilis að Dalbraut 21, Akranesi þá ákvörðun bæjarstjórnar Akraness frá 11. maí 2004 að breyta deiliskipulagi miðbæjarreits á Akranesi. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og málsrök aðila:  Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 11. maí 2004 voru samþykktar breytingar á deiliskipulagi svokallaðs miðbæjarreits á Akranesi. Fól hin breytta skipulagsákvörðun m.a. í sér að á svæðinu, þar sem áður hafði eingöngu verið gert ráð fyrir verslun og þjónustu, var nú einnig gert ráð fyrir íbúðarbyggð.  Var þannig gert ráð fyrir samtals fjórum lóðum, tveimur fyrir 10 hæða íbúðarhús, lóð fyrir verslunarmiðstöð og lóð verslunarinnar Skagavers. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi var auglýst frá 28. janúar 2004 til 28. febrúar 2004 og var frestur til að skila athugasemdum til 12. mars sama ár.  Margar athugasemdir komu fram vegna tillögunnar, m.a. frá kærendum.  Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 11. maí 2004 voru breytingar á deiliskipulaginu samþykktar og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. júlí 2004. 

Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 12. apríl 2005 var á ný samþykkt breyting á deiliskipulagi miðbæjarreits sem fól í sér breytta staðsetningu beggja  íbúðarhúsanna sem fyrirhugað var að reisa á reitnum, auk breytinga á fyrirkomulagi bílastæða og bílageymslu.  Þá var og gerð breyting á byggingarreit verslunarmiðstöðvarinnar hvað varðar lögun hans og staðsetningu.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. maí 2005.  Hefur þeirri deiliskipulagsákvörðun bæjaryfirvalda á Akranesi ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Eins og að framan greinir gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.  Vísa þau m.a. til þess að breytingin geri ráð fyrir mannvirkjum sem séu í engu samræmi við umhverfi sitt, bæjaryfirvöld hafi ekki tekið afstöðu til mótmæla sem sett hafi verið fram þegar tillaga að breytingunni hafi verið auglýst ásamt því að óupplýst sé um skuggavarp bygginga þeirra er rísa muni á svæðinu. 

Af hálfu Akraness er þess krafist að kærunni verði vísað frá sökum þess að hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi verið breytt.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið liggur fyrir að bæjarstjórn Akraness hefur með samþykkt sinni hinn 12. apríl 2005 breytt hinni kærðu ákvörðun í grundvallaratriðum og hefur af þeim sökum ekki lengur þýðingu að fjalla um lögmæti hennar.  Eiga kærendur hér eftir ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn í kærumáli þessu svo sem áskilið er í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessi er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

   _____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________                               ___________________________  
         Ásgeir Magnússon                                                         Sigurður Erlingsson

 

 

6/2006 Hliðsnes

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2006, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Álftaness frá 11. janúar 2006 um að synja umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss að Hliðsnesi á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 31. janúar 2006 kærir Klemenz Eggertsson hdl., f.h. H, Hliðsnesi 2, Álftanesi ákvörðun skipulagsnefndar Álftaness frá 11. janúar 2006 um að synja umsókn kæranda um leyfi til byggingar einbýlishúss að Hliðsnesi á Álftanesi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 24. janúar 2006.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst hann þess að úrskurðarnefndin samþykki erindi kæranda um byggingarleyfi og að hún úrskurði honum hæfilegan málskostnað úr hendi varnaraðila.

Málsatvik:  Með bréfi, dagsettu 19. september 2005, óskaði kærandi eftir leyfi til að byggja einbýlishús á landareign sinni að Hliðsnesi á Álftanesi.  Tekið var fram að fyrir væri á landinu einbýlishús og hesthús.  Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Álftaness hinn 22. september 2005 og samþykkti ráðið að vísa málinu til skipulagsnefndar. 

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 28. september 2005 og var eftirfarandi bókun gerð í málinu:  „Bréf landeiganda í Hliðsnesi, Halldórs Júlíussonar dags. 19. september sl. þar sem óskað er eftir byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi í Hliðsnesi.  Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 22. september sl. að vísa erindinu til skipulagsnefndar. Efni bréfsins kynnt og rætt. Skipulagsfulltrúa er falið að taka saman upplýsingar og málið sem verður áfram til umfjöllunar í nefndinni.“

Málið var tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd hinn 7. desember 2005 og þá gerð í málinu svofelld bókun:  „Hliðsnes. Skipulagsfulltrúi leggur fram gögn vegna umsóknar Halldórs Júlíussonar um heimild til byggingar íbúðarhúss. Erindið verður áfram til umfjöllunar í nefndinni.“

Málið var enn tekið fyrir í skipulagsnefnd á fundi hinn 11. janúar 2006 og eftirfarandi bókað:  „Hliðsnes. Umsókn Halldórs Júlíussonar dags. 19. september 2005 um leyfi til byggingar íbúðarhúss á Hliðsnesi.  Skipulagsnefnd hefur haft málið til umfjöllunar undanfarið og er það niðurstaða að hafna erindi bréfritara þar sem fyrirhugaðar byggingar falla utan afmarkaðs íbúðasvæðis skv. tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.“

Var þessi niðurstaða staðfest á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 24. janúar 2006 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. sama dag.  Er það þessi ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  

Aðalskipulagstillaga sú er vísað er til í bókun skipulagsnefndar frá 11. janúar 2006 hafði á þeim tíma komið til fyrri umræðu í sveitarstjórn og verið auglýst til kynningar frá 16. desember 2005 til 12. janúar 2006, en frestur til að gera athugasemdir var til 27. janúar 2006.  Var skipulagstillagan eftir það til meðferðar hjá Skipulagsstofnun en á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 10. apríl 2006 var tillaga skipulagsnefndar að aðalskipulagi 2005 – 2024 samþykkt með breytingum sem gerðar höfðu verið í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar og var eftirfaradi bókun gerð í málinu:  „Bæjarstjórn samþykkir orðalagsbreytingar við greinargerð tillögunnar. Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar að aðalskipulagi Álftaness 2005-2024. Skipulagsfulltrúa er falið að senda aðalskipulagstillöguna til samþykktar hjá Skipulagsstofnun og auglýsa hana.“

Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað af sjálfsdáðum hefur Skipulagsstofnun lokið lögboðinni afgreiðslu málsins til staðfestingar ráðherra og mun skipulagstillagan hafa hlotið staðfestingu hinn 19. maí 2006, en ekki verður séð að auglýsing um gildistöku hennar hafi enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á  því byggt að við ákvörðun um erindi hans hafi skipulagsnefnd og sveitarstjórn borið að leggja til grundvallar gildandi aðalskipulag fyrir sveitarfélagið 1993 – 2013, sem staðfest hafi verið af umhverfis¬ráðherra hinn 1. desember 1993.  Samkvæmt því skipulagi sé svæðið þar sem kærandi hafi áformað að reisa einbýlishús ótvírætt ætlað til íbúðabygginga.  Áður hafi verið veitt leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á svæðinu og nýverið, eða hinn 24. janúar 2006, hafi verið samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss og sérstaks baðhúss að Hliði (Hliðsvegi 1) þar sem skipulags- og landfræðilegar aðstæður séu algerlega sambærilegar.  Megi því ætla að sveitarstjórn hafi orðið á mistök eða að ómálefnaleg rök hafi ráðið för við ákvörðun sveitarfélagsins.  Jafnframt hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins. 

Málsrök bæjararstjórnar Álftaness:  Eins og að framan greinir var hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar einungis studd þeim rökum að hafna bæri erindi kæranda þar sem fyrirhugaðar byggingar féllu utan afmarkaðs íbúðasvæðis samkvæmt tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.  Í greinargerð Álftaness í kærumáli þessu, dags. 9. mars 2006, kemur fram að í gildi sé aðalskipulag sveitarfélagsins fyrir 1993-2013.  Þá sé til umfjöllunar nýtt aðalskipulag, sem gert sé ráð fyrir að gildi til ársins 2024.  Það skuli áréttað að í aðalskipulagi séu landnotkunarreitir almennt ekki hnitasettir eða staðsettir á nákvæman hátt, heldur sé gert ráð fyrir að fyrirkomulag og staðsetning verði útfærð nánar í deiliskipulagi.  Hins vegar hafi ekki verið samþykkt deiliskipulag fyrir það svæði sem kæran taki til.

Í 43. gr. laga nr. 73/1997 sé ráð fyrir því gert að sveitarstjórn veiti byggingarleyfi og eigi það að vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Þar sem ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir reitinn hafi verið ljóst við afgreiðslu bæjarstjórnar að framangreind skilyrði 43. gr. laga nr. 73/1997 væru ekki uppfyllt við afgreiðslu erindis kæranda.  Þar sem í tillögu að nýju aðalskipulagi hafi verið fyrirhugað að byggingarsvæði á Hliðsnesi yrði minnkað töluvert, m.a. vegna flóðahættu, hafi jafnframt ekki verið talið rétt að fallast á umsókn kæranda, einkum þar sem fyrirhuguð nýbygging myndi lenda utan skilgreinds 30 – 50 metra öryggissvæðis í hinu fyrirhugaða skipulagi.

Loks sé kröfu um kostnað vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni mótmælt þar sem telja verði að lagaheimild skorti til slíkrar ákvörðunar.  Sé þess því krafist að kröfu kæranda um kærumálskostnað verið vísað frá nefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir hafnaði skipulagsnefnd umsókn kæranda á fundi sínum hinn 11. janúar 2006 með þeim rökum einum að fyrirhugaðar byggingar féllu utan afmarkaðs íbúðasvæðis samkvæmt tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.  Var þessi afgreiðsla samþykkt af bæjarráði og bæjarstjórn án frekari rökstuðnings eða athugasemda.  Í afgreiðslunni fólst að lögð var til grundvallar tillaga að aðalskipulagi sem þá hafði hvorki hlotið endanlegt samþykki sveitarstjórnar né lögboðna málsmeðferð Skipulagsstofnunar og staðfestingu ráðherra.  Var þessi málsmeðferð andstæð ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem m.a. er áskilið að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Jafnframt var þessi afgreiðsla andstæð þeirri grundvallarreglu að stjórnvaldsfyrirmælum, sem sæti birtingu að lögum, verði ekki beitt fyrr en birting hafi farið fram, sbr. 8. gr. laga nr. 15/2005.  Var hin kærða ákvörðun því ekki reist á lögmætum sjónarmiðum og leiða þeir annmarkar til ógildingar hennar.

Fyrir liggur að skipulagsfulltrúi lagði fram ný gögn í málinu á fundi skipulagsnefndar hinn 7. desember 2005, sem voru beinlínis til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu nefndarinnar í málinu.  Þessi gögn voru ekki kynnt kæranda og var því ekki gætt andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.  Leiðir sá ágalli einnig til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í greinargerð bæjarstjórnar í kærumálinu er leitast við að skjóta frekari stoðum undir niðurstöðu skipulagsnefndar í málinu.  Er þar annars vegar á því byggt að ekki hafi verið unnt að verða við erindi kæranda vegna þess að deiliskipulag hafi ekki verið gert fyrir umrætt svæði og hins vegar að fyrirhuguð nýbygging samræmdist ekki væntanlegu aðalskipulagi.  Þykir rétt að víkja stuttlega að þessum röksemdum enda þótt slíkur, síðar til kominn, rökstuðningur geti ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að leggja til grundvallar ákvörðun í málinu ákvæði aðalskipulagstillögu á vinnslustigi svo sem gert var.  Verður ítarlegri rökum af sama meiði í greinargerð sveitarfélagsins því hafnað.

Rétt er að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Hins vegar segir í 3. mgr. 23. gr. sömu laga að sveitarstjórn geti veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum, þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir, að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr.  Segir í tilvitnaðri 7. mgr. 43. gr. að þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 26. gr., skuli skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hljóti afgreiðslu byggingarnefndar. 

Samkvæmt framansögðu er það ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að deiliskipulag liggi fyrir.  Bar bæjarstjórn, með hliðsjón af lögvörðum rétti kæranda til hagnýtingar á eignarlandi sínu, að taka til athugunar hvort skilyrði væru til að veita byggingarleyfi í samræmi við umsókn kæranda að undangenginni grenndarkynningu með heimild í tilvitnuðum ákvæðum.  Þessa var ekki gætt og var meðferð málsins því einnig áfátt að þessu leyti.

Umsókn kæranda barst bæjaryfirvöldum hinn 22. september 2005 en meðferð málsins lauk rúmum fjórum mánuðum seinna með staðfestingu bæjarstjórnar hinn 24. janúar 2006.  Verður ekki ráðið af málsgögnum að nein þau atvik hafi verið fyrir hendi er réttlættu þann drátt er varð á afgreiðslu málsins og ber að átelja hann.

Samkvæmt framansögðu er hin kærða ákvörðun haldin verulegum ágöllum sem þykja eiga að leiða til þess að hún verði ógilt.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu með hinni kærðu ákvörðun, enda eru skipulagsforsendur ekki sambærilegar í Hliði  og í Hlíðsnesi. 

Ekki er á færi úrskurðarnefndarinnar að verða við kröfu um að veita umbeðið byggingarleyfi og verður þeirri kröfu vísað frá nefndinni.  Kröfu um kærumálskostnað verður einnig vísað frá þar sem fyrir henni er ekki lagastoð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Hliðsnesi á Álftanesi er felld úr gildi.  Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum kæranda um að nefndin veiti honum umrætt byggingarleyfi og um kærumálskostnað.

 

 ___________________________          
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________               ____________________________     
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir

60/2005 Garðastræti

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 60/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júlí 2005 um breytingu á deiliskipulagi vegna sendiráðslóðar að Garðastræti 33 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. júlí 2005, er barst nefndinni hinn 5. ágúst s.á., kæra I, G, R, T, M, R og G, íbúar að Túngötu 3 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júlí 2005 að breyta deiliskipulagi vegna lóðar sendiráðs Rússneska sambandsríkisins að Garðastræti 33, Reykjavík, sem fól í sér heimild til byggingarframkvæmda á lóð sendiráðsins.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 7. júlí 2005 og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 22. júlí s.á.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur 22. desember 2004 var lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 33 við Garðastræti og var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Túngötu 3 og 5 og Suðurgötu 4, 6, 8 og 8A.  Við grenndarkynninguna komu fram athugasemdir vegna fyrirhugaðra byggingaráforma, m.a. frá kærendum.  Skipulagsráð hafnaði skipulagstillögunni á fundi sínum hinn 2. febrúar 2005 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa og fól honum ásamt byggingarfulltrúa að funda með lóðarhafa til að leita annarra lausna með liðsinni utanríkisráðuneytis.  Ný skipulagstillaga var síðan lögð fram og samþykkti skipulagsráð hinn 25. maí 2005 að grenndarkynna hana fyrir hagsmunaaðilum og var tillögunni andmælt af hálfu kærenda.  Á fundi skipulagsráðs hinn 6. júlí 2005 var málið tekið fyrir á ný og deiliskipulagsbreytingin samþykkt.

Kærendur mótmæla stærð, staðsetningu og fyrirhugaðri notkun nýbyggingar sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun.  Kærendur telja að brotinn sé réttur á þeim með undirlægjuhætti við erlent ríki.  Benda þeir á að framkvæmdir haldi áfram á umræddri lóð þrátt fyrir að byggingarleyfi hafi ekki enn verið veitt.  Spurning vakni um hvort farið verði að íslenskum byggingarreglugerðum og ekki sé vitað til að útlitsteikning liggi fyrir af byggingunni.  Óviðunandi sé að reist verði sprengjuhelt pósthús við lóðarmörk þeirra og sendiráðslóðarinnar.  Heimiluð bygging muni leggja garð kærenda í rúst og eyðileggja nýtingu hans.  Útsýni muni skerðast úr garðinum og verðmæti fasteignar þeirra rýrna.  Bent sé á að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Garðastræti 33 verði 0,91 eftir umdeilda breytingu og sé það í ósamræmi við sambærilegar lóðir við Garðastræti.  Nýbygging rússneska sendiráðsins, 400 fermetrar að stærð, sé inni í miðjum garði upp í lóðamörkum þess og Túngötu 3 en þar hafi ekki ekki verið gert ráð fyrir nýbyggingum í deiliskipulagi svæðisins sem staðfest hafi verið af umhverfisráðuneytinu 30. júní 1993. 

Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til reglna úrlendisréttarins.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sem handhafi framkvæmdavalds, hafi ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráða, en óumdeilt sé að hin umdeilda breyting á deiliskipulagi sé alfarið innan marka lóðar sendiráðs Rússneska sambandsríkisins.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. l. nr. 16/1971, njóti sendiráðssvæðið friðhelgi.  Samkvæmt 41. gr. umrædds samnings sé það hins vegar skylda allra þeirra, sem njóti forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Ágreiningur varðandi umdeildar framkvæmdir verði því aðeins til lykta leiddur á sviði þjóðarréttarins. 

Niðurstaða:  Hið umdeilda deiliskipulag varðar lóðina að Garðastræti 33 þar sem sendiráð Rússneska sambandsríkisins er til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem öðlast hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi en í því felst að svæðið er utan dóms- og framkvæmdavaldslögsögu íslenska ríkisins.  Samkvæmt 41. gr. er það hins vegar skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu var hlutast til um að breyting yrði gerð á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 33 við Garðastræti og var fallist á það af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð var til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu. 

Af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings, hefur úrskurðarnefndin ekki, sem handhafi stórnsýsluvalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Rússneska sambandsríkisins í máli þessu og yrði úrskurði er varðaði sendiráðssvæðið ekki framfylgt að íslenskum lögum.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
                          Hjalti Steinþórsson                                 

 

____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir 

 

 

 

 

 

 

 

51/2003 Eddufell

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2003, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá  30. júlí 2003 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi fyrir veitingastað með ballskákborðum á efri hæð hússins nr. 8 við Eddufell.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. ágúst 2003, er barst nefndinni sama dag, kærir Sævar Guðlaugsson f.h. R ehf., Byggðarenda 4, Reykjavík eiganda húsnæðis að Eddufelli 8, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. júlí 2003 að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi fyrir veitingastað með ballskákborðum á efri hæð hússins að Eddufelli 8. Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 12. ágúst 2003.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt leyfi til umbeðinna breytinga.

Málsatvik:  Hinn 7. maí 2002 var á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að opna veitingastað ásamt sportbar með billjardborðum á fyrstu hæð í húsinu nr. 8 á lóðinni nr. 2-8 við Eddufell og var tekið jákvætt í erindið.  Formleg umsókn um greindar breytingar var síðan til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar 30. júlí 2003 en afgreiðslu hennar frestað með með vísan til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem deiliskipulagsvinna stæði yfir fyrir umrætt svæði.  Kærandi sætti sig ekki við þessa ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar.

Bendir kærandi á að umrætt húsnæði standi autt og ekki hafi verið unnt að leigja það að óbreyttu.  Frestun á jákvæðri afgreiðslu umsóknar hans valdi honum því fjárhagslegu tjóni.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um frestun á afgreiðslu málsins verði staðfest.  Heimilt hafi verið að fresta afgreiðslu málsins skv. 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Frestunin hafi byggst á því að verið var að vinna deiliskipulagstillögu vegna Fellagarða, en lóðin Eddufell 8 sé á því svæði.  Sú deiliskipulagsbreyting hafi verið samþykkt í skipulagsráði 22. júní 2005 og staðfest í borgarráði 30. júní s.á að undangenginni aðalskipulagsbreytingu.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. júlí 2005.  Í hinu nýja deiliskipulagi sé heimilt að breyta húsinu Eddufelli 8 í íbúðarhús með bílageymslu fyrir 14 bíla í kjallara og heimilað að byggja tvær íbúðarhæðir ofan á húsið.  Deiliskipulagsbreyting þessi hafi ekki verið kærð.  Kærandi í máli þessu hafi hins vegar gert bótakröfu á hendur Reykjavíkurborg sem byggi á fyrrgreindu ákvæði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og af því verði ráðið að kærandi hafi talið heimilt að afgreiðslu málsins væri frestað á grundvelli greinds ákvæðis.  Kærandi hafi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort skipulags- og byggingarnefnd hafi verið heimilt að fresta afgreiðslu málsins.  Frávísunarkrafa Reykjavíkurborgar varðandi þá kröfu kæranda að úrskurðarnefndin heimili umræddar breytingar sé á því byggð að umfjöllun um slíka kröfu sé utan valdsviðs nefndarinnar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um breytta notkun húsnæðis að Eddufelli 8, en slík frestun er heimiluð í 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í allt að tvö ár, m.a. ef breytingar á deiliskipulagi standa yfir.  Verði fasteignareigandi fyrir tjóni í slíkum tilfellum á hann rétt til bóta.

Fyrir liggur að breyting á  deiliskipulagi umrædds svæðis tók gildi hinn 21. júlí 2005 og er þar gert ráð fyrir að greint húsnæði sé nýtt til íbúðar.  Kærandi hefur ekki kært þá deiliskipulagsákvörðun en hefur farið fram á bætur á grundvelli fyrrgreindrar 6. mgr 43. gr.  Að þessum atvikum virtum þykir kærandi ekki lengur hafa hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
                          Hjalti Steinþórsson                                 

 

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir 

1/2006 Sorpurðunarsvæði

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2006, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss á tillögu að breyttu deiliskipulagi á sorpurðunarsvæði í landi Kirkjuferjuhjáleigu og á útgáfu sveitarfélagsins á framkvæmdaleyfi, hafi það verið gefið út vegna framkvæmda á svæðinu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. janúar 2006, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir Reynir Karlsson hrl., f.h. eigenda jarðanna Grænhóls, Strýtu og Auðsholtshjáleigu í Ölfusi, „…samþykkt skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss á tillögu að breyttu deiliskipulagi á sorpurðunarsvæði í landi Kirkjuferjuhjáleigu og á útgáfu sveitarfélagsins á framkvæmdaleyfi, hafi það verið gefið út vegna framkvæmda á svæðinu.“ 

Kærendur gera þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og hafa jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda við urðun sorps á svæðinu þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. 

Málsatvik og rök:  Í athugasemdum við kæruna, sem úrskurðarnefndinni bárust hinn 11. maí 2006 frá lögmanni Sveitarfélagsins Ölfuss, kemur fram að hin kærða skipulagsákvörðun hafi verið staðfest á fundi bæjarráðs hinn 6. október 2005, eftir að afstaða hafi verið tekin til framkominna athugasemda.  Málið hafi síðan verið sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu en stofnunin hafi gert athugasemdir við skipulagið og hafi bréf gengið á milli stofnunarinnar og sveitarfélagsins af því tilefni.  Sé nú unnið að því að verða við framkomnum athugasemdum Skipulagsstofnunar.  Af þessum sökum hafi auglýsing um gildistöku skipulagsins enn ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Í athugasemdum sveitarfélagsins er jafnframt upplýst að ekkert framkvæmdaleyfi hafi verið veitt fyrir framkvæmdum á svæðinu.  Framkvæmdirnar hafi hafist fyrir gildistöku laga nr. 73/1997 og hafi engin áskilnaður verið í eldri lögum um framkvæmdaleyfi.  Framkvæmdirnar eigi sér stoð í eldra skipulagi og séu ekki háðar framkvæmdaleyfi.  Beri því að hafna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og ógildingu framkvæmdaleyfis.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur auglýsing um gildistöku hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar enn ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er gildistökuskilyrði og markar jafnframt upphaf kærufrests, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum.  Þykir ekki geta komið til álita að ógilda með úrskurði ákvörðun sem ekki hefur öðlast gildi að lögum og verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu skipulagsákvörðunar því vísað frá meðan svo er ástatt.  Krafa um ógildingu framkvæmdaleyfis kemur ekki til álita þar sem fyrir liggur að ekkert slíkt leyfi hefur verið veitt.  Ekki getur heldur komið til álita að úrskurða til bráðbirgða um stöðvun framkvæmda með stoð í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, enda verður þeirri heimild einungis beitt í tengslum við úrlausn ágreinings um lögmæti ákvörðunar sem skotið hefur verið til nefndarinnar. 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður máli þessu vísað í heild frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

   ___________________________         
                      Hjalti Steinþórsson                                 

 

 

_____________________________                  ____________________________                 
           Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

 

17/2004 Vesturbrún

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2004, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004 um veitingu leyfis fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins nr. 20 við Vesturbrún í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. febrúar 2004, er barst nefndinni hinn 2. mars s.á., kæra Þ og K, eigendur húseignarinnar að Vesturbrún 39, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004 að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins að Vesturbrún 20 í Reykjavík.  Ákvörðunin var staðfest í borgarstjórn hinn 5. febrúar 2004.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með umsókn, dags. 18. nóvember 2003, sóttu eigendur fasteignarinnar að Vesturbrún 20 í Reykjavík um leyfi fyrir tveggja hæða 80 fermetra viðbyggingu við hús sitt.  Byggingarfulltrúi vísaði erindinu til umsagnar skipulagsfulltrúa á fundi sínum hinn 25. nóvember 2003.  Skipulagsfulltrúi afgreiddi málið 28. nóvember 2003 með eftirfarandi bókun:  „Jákvætt að grenndarkynna erindið þegar samþykki lóðarhafa á lóð nr. 22 liggur fyrir vegna fjarlægðar frá lóðarmörkum. Grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum að Vesturbrún 18, 22 og 39.“ 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd 4. febrúar 2004 þar sem fyrir lá athugasemdabréf frá kærendum, dags. 20. janúar 2004, og umsögn skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir, dags. 29. janúar s.á.  Var umsótt viðbygging samþykkt.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að með hinni samþykktu viðbyggingu, sem muni rísa um metra hærra en húsið að Vesturbrún 20, muni útsýni frá húsi þeirra að Vesturbrún 39 skerðast verulega og útsýni yfir Laugardalinn hverfa að mestu.  Á sínum tíma hafi þau valið sér lóð með tilliti til útsýnis og hafi hús þeirra verið skipulagt með það í huga og stofur þess vegna hafðar á efri hæð hússins.  Viðbyggingin muni rýra notagildi og verðmæti fasteignar þeirra. 

Benda kærendur á að þak hússins að Vesturbrún 20 hafi áður verið hækkað án nokkurrar umfjöllunar og nú hafi skipulags- og byggingarnefnd samþykkt hina kærðu breytingu rúmri viku eftir að athugasemdir kærenda hafi borist nefndinni og að því er virðist án nokkurrar skoðunar eða umfjöllunar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. 

Húsið við Vesturbrún 20 liggi lægra við götu heldur en hús á aðliggjandi lóðum. Vesturbrún 20 skyggi því mun minna á útsýni byggðar austan götu heldur en önnur hús í sömu línu.  Sú útsýnisskerðing sem verði vegna viðbyggingarinnar sé ekki meiri en vænta megi í borgarumhverfi.  Telja verði að hagsmunir umsækjanda við að geta byggt við hús sitt á þann hátt sem samþykkt hafi verið með hinni kærðu umsókn séu meiri en þeir hagsmunir kærenda sem hugsanlega fari forgörðum vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar.  Benda megi á að réttur til óbreytts útsýnis sé ekki bundinn í lög og að íbúar í borg geti ávallt átt von á að nánasta umhverfi þeirra taki einhverjum breytingum. 

Fullyrðingar kærenda um rýrnun á notagildi húss þeirra frá fagurfræðilegum- og hagkvæmnisjónarmiðum séu með öllu órökstuddar og vandséð hvernig verðgildi eignar þeirra rýrni vegna viðbyggingarinnar. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar taka fram að vegna leka og aldurs þaks húss þeirra hafi verið nauðsynlegt að endurnýja það og hafi lögboðin leyfi verið veitt fyrir þeim framkvæmdum á sínum tíma.  Í kjölfar breytinga sem ráðist hafi verið í á húsinu að Vesturbrún 22 hafi þau ákveðið að kanna hvort heimiluð yrði viðbygging við hús þeirra enda það orðið æði lágreist í samanburði við næstu hús. 

Góð sátt hafi náðst um framkvæmdirnar við næstu nágranna en kærendur hafi verið ósáttir vegna ætlaðrar útsýnisskerðingar frá húsi þeirra.  Taka beri fram að 45 ára gamalt grenitré á lóð byggingarleyfishafa, sem hafi verið umtalsvert hærra en umdeild viðbygging, hafi verið fellt við upphaf framkvæmda og megi halda því fram að nokkurt viðbótarútsýni hafi skapast á móti þeirri takmörkuðu útsýnisskerðingu sem stafi af viðbyggingunni, en hús kærenda snúi gafli að Vesturbrún 20.  Þrátt fyrir það að viðbyggingin verði einum metra hærri en álma sú sem hún tengist sé byggingin tveimur til þremur metrum lægri en húsin beggja vegna við og hús byggingarleyfishafa verði í meira samræmi við götumynd eftir breytinguna. 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér staðhætti á vettvangi. 

Niðurstaða:  Hús kærenda stendur gegnt húsinu að Vesturbrún 20 handan götunnar.  Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt en breytingar og stækkanir munu hafa verið heimilaðar við hús á svæðinu. 

Með hinni kærðu viðbyggingu hækkar hluti hússins að Vesturbrún 20 um einn metra og verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,34.  Húsin beggja vegna við það hús standa mun hærra við götu en húsið að Vesturbrún 20, þótt tekið sé mið af umdeildri viðbyggingu, og er nýtingarhlutfall þeirra lóða 0,4 og 0,32 en nýtingarhlutfall lóðar kærenda mun vera 0,6.  Fram kemur í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. janúar 2004, vegna grenndarkynningar umdeildrar breytingar að nýtingarhlutfall lóða á svæðinu sé frá 0,12 til 0,8.

Eins og hæðarlegu hússins að Vesturbrún 20 er háttað í samanburði við aðliggjandi hús verður ekki séð að umdeild viðbygging hafi veruleg grenndaráhrif gagnvart kærendum eða að húsið svo breytt raski núverandi götumynd.  Þá verður nýtingarhlutfall lóðarinnar ekki annað og meira en fyrir er á nágrannalóðum við umdeilda breytingu. 

Að þessu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki fallist á ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004, sem staðfest var í borgarstjórn hinn 5. s.m., um að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins að Vesturbrún 20 í Reykjavík.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________      ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Ásgeir Magnússon