Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2006 Gvendargeisli

Ár 2007, fimmtudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 50/2006, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 7. júní 2006 um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Gvendargeisla 104 í Reykjavík er fól í sér að breyta innbyggðum bílskúr í íbúðarhúsnæði og heimild til að reisa frístandandi bílskúr á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júní 2006, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir Þ, eigandi fasteignarinnar að Gvendargeisla 104, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 7. júní 2006 um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Gvendargeisla 104 í Reykjavík er fól í sér að breyta innbyggðum bílskúr í íbúðarhúsnæði og heimild til að reisa frístandandi bílskúr á lóðinni.  Borgarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 8. sama mánaðar.

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. febrúar 2004 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 19. nóvember 2003, með fyrirspurn kæranda um hvort leyft yrði að byggja u.þ.b. 75 fermetra bílskúr, að mestu niðurgrafinn, sunnan húss sem heimilað hafði verið að byggja á lóðinni nr. 104 við Gvendargeisla.  Var erindið afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Jákvætt, enda verði bílageymsla felld vel í land. Umsækjandi láti á eigin kostnað vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi, í samráði við skipulagsfulltrúa. Grenndarkynna þarf tillöguna.“

Tillaga að breytingu á gildandi deiliskipulagi í samræmi við fyrrgreinda fyrirspurn var síðan lögð fram á fundi skipulagsfulltrúa hinn 27. maí 2005 þar sem samþykkt var að grenndarkynna hana.

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir hjá skipulagsfulltrúa hinn 10. febrúar 2006, þar sem fyrir lá undirskriftalisti 18 íbúa og tvö athugasemdabréf.  Var á fundinum ákveðið að vísa málinu til skipulagsráðs.  Hinn 1. mars 2006 var málið tekið fyrir hjá skipulagsráði og beiðninni synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu hinn 2. mars 2006.

Á fundi skipulagsráðs 7. júní 2006  var lögð fram ný tillaga kæranda, dags. 20. mars 2006, að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Gvendargeisla 104 og var erindinu synjað með svofelldri bókun:   „Synjað með vísan til raka í eldri umsögn skipulagsfulltrúa með vísan til fyrri málsmeðferðar.“  Var afgreiðslan staðfest á fundi borgarráðs hinn 8. júní 2006.  Hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hann hafi í desember 2005 sótt um leyfi fyrir að byggja frístandandi bílgeymslu við norðurhlið einbýlishúss að Gvendargeisla 104 í Reykjavík en lóðin sé innst í botngötu og sé við rætur aflíðandi brekku.  Gert hafi verið ráð fyrir að bílgeymslan yrði niðurgrafin í brekkuna, þannig að hún stæði um einn metra upp úr jörð, þrjá metra frá suðurhlið hússins og yrði 75 fermetrar að innanmáli.  Vegna aðstæðna hefði bílgeymslan óveruleg útlitsáhrif.

Í kjölfar þess að skipulagsráð hafi hafnað umsóttri útfærslu vegna framkominna athugasemda íbúa, m.a. í þá veru að bílgeymsla væri orðin of stór hluti hússins, hafi kærandi sótt um breytta tilhögun með því að innbyggð bílgeymsla í húsi yrði nýtt til íbúðar en umsótt bílgeymsla yrði frístandandi.  Þessu hafi einnig verið hafnað með vísan til afgreiðslu fyrri umsóknar.

Athygli sé vakin á að heimilt sé, samkvæmt gildandi skipulagi, að reisa 250-300 fermetra hús á umræddri lóð og hafi kærandi þegar greitt lóðagjöld í samræmi við það.  Samkvæmt skilmálum fyrir H einbýlishús við Gvendargeisla sé viðmiðunarstærð húsa um 215 fermetrar fyrir utan bílgeymslu, en stærð húss kæranda sé nú 163 fermetrar með bílgeymslu á 744 fermetra lóð.   Mörg hús við götuna séu um og yfir 300 fermetra að stærð.

Engin málefnaleg rök hafi verið færð fram fyrir hinni kærðu synjun borgaryfirvalda.  Byggingarmagn á lóð yrði innan marka skipulags, umsótt bílgeymsla muni ekki valda skuggavarpi, hindra útsýni eða hafa á nokkurn hátt áhrif á götuna svo sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa.  Kærandi hafi einungis sótt um að fá að nýta byggingarrétt sem lóð hans fylgi á þann hátt sem best henti.  Íbúar götunnar eigi ekki að geta með athugasemdum sínum svipt kæranda þessum rétti án rökstuddrar ástæðu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hin kærða ákvörðun standi óhögguð. 

Samkvæmt gildandi skipulagsskilmálum sé gert ráð fyrir að viðmiðunarstærð einbýlishúsa við Gvendargeisla sé 215 fermetrar fyrir utan bílskúra.  Það að kærandi hafi kosið að byggja minna hús á lóð sinni sé hans val og veiti ekki rétt til byggingar bílgeymslu til þess að fullnýta lóðina.  Greiðslur lóðagjalda hafi því enga þýðingu í máli þessu. 

Þrátt fyrir að skipulagsyfirvöld hafi upphaflega tekið jákvætt í fyrirspurn kæranda sé ljóst að við grenndarkynningu hafi komið fram mikil andstaða  á meðal íbúa við götuna, m.a. vegna þeirrar óvissu hvernig slík bílgeymsla yrði nýtt á seinni tímum.  Þó kærandi hygðist einungis nota hana sem geymslu undir fornbíla o.fl. sé óvíst hvernig seinni eigendur myndu nýta slíkt rými.  Gæti því stærð bílgeymslunnar leitt af sér óæskilega atvinnustarfsemi á síðari tímum sem ekki ætti heima í íbúðarhverfum.  Í ljósi mótmæla íbúa og þess að stærð og staðsetning bílskúrs samræmdist ekki deiliskipulagi hafi það verið mat skipulagsráðs að synja ofangreindri tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 104 við Gvendargeisla.

Niðurstaða:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir austursvæði Grafarholts, íbúðarsvæði, frá árinu 2000 með síðari breytingum.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að skipulagsskilmálar fyrir tilteknar lóðir við Gvendargeisla fyrir einbýlishús af gerðinni H hafi verið samþykktir á árinu 2002 og taka þeir m.a. til lóðar kæranda.  Samkvæmt sérákvæðum í þeim skilmálum  er kveðið á um að bílgeymslur skuli vera innbyggðar og snúa að götu.  Hin umsótta tilhögun á frístandandi bílgeymslu á lóðinni að Gvendargeisla 104, er snéri að íbúðarhúsi, fól því í sér frávik frá gildandi skipulagi hverfisins.

Við deiliskipulagningu nýbyggingarsvæða, eins og hér um ræðir, er m.a. tekin ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar og húsagerðir og er deiliskipulag sem tekið hefur gildi bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Hafa verður í huga að við úthlutun lóða á slíkum svæðum liggur þegar fyrir í deiliskipulagi hvaða heimildir eru fyrir hendi til nýtingar einstakra lóða og geta lóðarhafar ekki vænst þess að fyrra bragði að skipulagi verði breytt varðandi nýtingu og fyrirkomulag bygginga á lóðum þeirra.  Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi, sem mótar byggð á skipulagssvæðinu, nema að veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því.  Verður því að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmisgildis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa.

Þrátt fyrir að fallast megi á það með kæranda að umsótt breyting á skipulagi lóðar hans hafi óveruleg grenndaráhrif og byggingarmagn yrði innan marka gildandi skipulags verður ekki fallist á að það eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu synjunar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður ekki fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 7. júní 2006, er borgarráð staðfesti hinn 8. sama mánaðar, um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Gvendargeisla 104 í Reykjavík.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________        _________________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson