Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2005 Hrísateigur

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2005, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 30. júní 2005 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Hrísateigi 6 í Reykjavík, er fól í sér að í stað tveggja fjögurra íbúða húsa á tveimur lóðum skyldi heimilt að reisa tvö parhús með fjórum parhúsaíbúðum og eitt einbýlishús á þremur lóðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. júlí 2005, er barst nefndinni hinn 2. ágúst sama ár, kæra J og E, íbúar að Hrísateigi 4, Reykjavík samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 30. júní 2005 fyrir breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Hrísateigi 6 í Reykjavík, er fól í sér að í stað tveggja fjögurra íbúða húsa á tveimur lóðum skyldi heimilt að reisa tvö parhús með fjórum íbúðum og eitt einbýlishús á þremur lóðum.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. mars 2005 var lögð fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu varðandi lóðina nr. 6 við Hrísateig.  Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi.  Fólst breytingin í því, að í stað tveggja húsa á tveimur lóðum með fjórum íbúðum og bílskúrum á milli, kæmu þrjú parhús á jafnmörgum lóðum, öll með innbyggðum bílskúrum.  Hámarkshæð húsa var óbreytt, eða 8,5 m miðað við götu.

Andmæli bárust frá nokkrum fjölda íbúa á svæðinu við hina kynntu skipulagstillögu og þar á meðal frá kærendum.  Mun tillagan hafa tekið þeim breytingum eftir kynningu hennar, að í stað þriggja parhúsa skyldu koma tvö parhús og eitt einbýlishús.

Greind skipulagstillaga var samþykkt á afgreiðslufundi skipulagsráðs 22. júní 2005 og staðfest í borgarráði hinn 30. júní s.á.  Gildistaka skipulagsbreytingarinnar var síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 14. júlí 2005 og hafa kærendur skotið umdeildri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að lítið tillit hafi verið tekið til athugasemda þeirra og annarra íbúa við meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.  Með ákvörðuninni sé verið að skerða hverfisverndaðan garð og heimila nýtingarhlutfall lóða langt umfram það sem annars sé á umræddum reit.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 sé gert ráð fyrir nýtingarhlutfalli einbýlishúsalóða á bilinu 0,2-0,4 en að hæsta nýtingarhlutfall fyrir allt að fimm íbúða hús geti orðið 0,8.  Samkvæmt gildandi deiliskipulagi umrædds hverfis sé lagt til að þetta hlutfall gildi á deiliskipulagssvæðinu.  Með hinni kærðu breytingu eigi að heimila nýtingarhlutfall 0,56 fyrir einbýlishús á lóðinni, sem sé næstum tvöföldun miðað við nýtingu nágrannalóða.  Kærendur hafi ekki fundið þeirri staðhæfingu borgaryfirvalda stoð að heimilað nýtingarhlutfall nágrannalóða við Hrísateig 6 sé allt að 0,8 í deiliskipulagi reitsins.

Með umdeildri breytingu sé götumynd og hverfisverndun varpað fyrir róða og vafasamt fordæmi gefið fyrir nýtingarhlutfalli einbýlishúsalóða.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld gera þá kröfu að samþykkt skipulagsráðs frá 22. júní 2005, sem staðfest var í borgarráði Reykjavíkur 30. júní 2005 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Hrísateigi 6, verði staðfest.

Ástæða hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið óskir lóðarhafa um betri nýtingu lóðarinnar en gert hafi verið ráð fyrir í samþykktu skipulagi.  Óskir lóðarhafa hafi verið í samræmi við markmið borgaryfirvalda um að þétta byggð í grónum hverfum.  Fallist hafi verið á breytinguna þar sem hún hafi hvorki talist úr takti hvað varði hæð húsa né viðmiðunarnýtingarhlutfall og hafi tillagan þótt ásættanleg í ljósi byggðamynsturs.

Í fyrirliggjandi deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir að neitt rask verði á steinhleðsluhúsi því sem fyrir sé á lóðinni, enda verði væntanlega óskað eftir friðun þess, en heimilað verði að rífa allar aðrar byggingar.  Gert sé ráð fyrir að garður sem fyrir sé á lóðinni verði áfram háður skilmálum hverfisverndar og verði einstök tré eða runnar ekki felldir án leyfis garðyrkjustjóra.  Borgaryfirvöld hafi ekki haft áform um að hafa garðinn í sinni umsjón.

Í deiliskipulaginu hafi verið komið til móts við framkomnar athugasemdir þar sem gert sé ráð fyrir þremur lóðum með einu einbýlishúsi og tveimur parhúsum með nýtingarhlutfalli frá 0,56–0,68 í stað þriggja parhúsa með nýtingarhlutfalli allt að 0,77.  Þrátt fyrir að nýting á lóðum í nágrenninu sé sumstaðar lægri en sem því nemi, sé gert ráð fyrir aukinni nýtingu á lóðum í skipulaginu frá 2003.  Í því skipulagi sé heimilað nýtingarhlutfall á nágrannalóðum allt að 0,8.  Nýtingarhlutfall umdeildra lóða sé því innan þeirra marka sem samþykkt skipulag heimili á reitnum í heild sinni.

Götumyndin við Hrísateig/Hraunteig sé ekki hverfisvernduð enda um að ræða hús sem séu nokkuð ólík að stærð og útliti.  Víða sé gefið svigrúm til stækkunar, hækkunar og byggingar bílskúra þannig að búast megi við að hverfið geti tekið nokkrum breytingum í framtíðinni samkvæmt gildandi skipulagi.  Lóðin að Hrísateigi 6 hafi nokkra sérstöðu og þyki ekki óeðlilegt að leggja til breytingar nú þar sem ljóst sé að Reykjavíkurborg muni ekki leysa þann hluta lóðarinnar til sín þar sem trjágarður sé nú.

Þau hús sem gert sé ráð fyrir að rísi samkvæmt breyttu deiliskipulagi séu að öllu leyti innan þeirra hæðarmarka sem heimiluð hafi verið að óbreyttu skipulagi og ekki sé óalgengt að nútímaleg hús standi við hlið eldri húsa og beri vitni um byggingarstíl síns tíma.  Enn sé haldið í markmið um verndun einstakra bygginga og götumynda og ekki sé verið að víkja frá heildaryfirbragði hverfisins.  Í gildandi deiliskipulagi sé heimilað að rífa gömul hús og byggja ný án þess þó að heildarásýnd sé lögð fyrir róða.

Reykjavíkurborg mótmælir þeirri málsástæðu kærenda að verið sé að skapa fordæmi fyrir því að nýtingarhlutfall fari yfir 0,4 eins og aðalskipulag geri ráð fyrir.  Tillögur að húsum sem sýndar séu á deiliskipulagsuppdrætti séu stærri en þau hús sem standi nú þegar við Hrísateig/Hraunteig.  Hinsvegar megi benda á að víða í hverfinu sé að finna hús af sömu stærðargráðu.  Til dæmis sé nýting á Hraunteigi 16 og upp í 28 frá 0,6 í nýtingu og þar yfir og eigi það einnig við um Kirkjuteig 25 og Gullteig 6.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér staðhætti á vettvangi.

Niðurstaða:  Deiliskipulagsbreyting sú sem hér um ræðir felur í sér að lóðinni að Hrísateigi 6 er skipt upp í þrjár lóðir með nýtingarhlutfall 0,58, 0,64 og 0,68 í stað tveggja lóða áður með heildarnýtingarhlutfall að hámarki 0,4 og er þar heimiluð bygging einbýlishúss til viðbótar þeim tveimur parhúsum með fjórum íbúðum sem ráð var fyrir gert fyrir umdeilda breytingu deiliskipulagsins.

Í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem umhverfisráðherra staðfesti hinn 20. desember 2002, eru ekki ákvæði um nýtingarhlutfall íbúðarsvæða en ráð fyrir því gert að það sé ákveðið í deiliskipulagi.  Fer því umrædd deiliskipulagsbreyting ekki í bága við aðalskipulag með ákvörðun sinni um nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hrísateigi 6.  Eins og hér háttar til verður heldur ekki talið að aukning á nýtingarhlutfalli lóðarinnar vegna heimilaðs einbýlishússtljist svo veruleg breyting að skylt hefði verið að fara með skipulagsbreytinguna í almenna auglýsingu skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997í stað grenndarkynningar skv. 2. mgr. ákvæðisins.

Kemur þá til skoðunar hvort heimiluð bygging einbýlishúss á lóðinni, til viðbótar þeim húsum sem áður var heimild fyrir, raski svo einstaklingshagsmunum kærenda að varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Lóðin að Hrísateigi 6 er stór hornlóð og er því til þess fallin að geta borið meira byggingarmagn en ella án þess að raska verulega grennndarhagsmunum nágrannaeigna.  Samkvæmt skipulagsbreytingunni mun umrætt einbýlishús standa næst og norðaustanvert að húsi kærenda að Hrísateigi 4.  Af skipulaginu verður ekki ráðið að það muni valda verulegum grenndaráhrifum, s.s. vegna skuggavarps, gagnvart fasteign kærenda.

Að öllu þessu virtu liggja ekki fyrir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar eða efnisannmarkar sem leiða til ógildingar hennar og verður kröfu kærenda þar að lútandi því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um ógildingu á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 30. júní 2005 fyrir breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Hrísateigi 6 í Reykjavík, er hafnað.

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

 

_____________________________       ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson              Geirharður Þorsteinsson

 

80/2005 Gullengi

Með

Ár 2006, mánudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagsfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2005, kæra á samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 4. október 2005 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Gullengi 2-6 í Reykjavík er fól í sér heimild fyrir byggingu þriggja fjölbýlishúsa, þar sem áður hafði verið gert ráð fyrir bensínstöð og stæðum fyrir stóra bíla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. október 2005, er barst nefndinni hinn 25. sama mánaðar, kæra H, Þ, K, Ó, S og G, íbúar að Gullengi 11, Reykjavík, samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 4. október 2005 um að breyta deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Gullengi 2-6, er fól í sér heimild til byggingar þriggja fjölbýlishúsa þar sem áður hafði verið gert ráð fyrir bensínstöð og stæðum fyrir stóra bíla.

Skilja verður málskot kærenda svo að þar sé krafist ógildingar á hinni kærðu skipulagsákvörðun.

Með bréfi, dags. 24. október 2005, er barst úrskurðarnefndinni hinn 31. sama mánaðar kæra Gylfi Þór Sigurjónsson og Halldór Jóhannesson, íbúar að Gullengi 9, Reykjavík, fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun með sömu rökum og fram koma í fyrra kærumálinu.  Þykir því rétt að sameina það mál, sem er nr. 83/2005, máli því sem hér er til meðferðar.

Málavextir:  Þann 17. mars 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur að kynna fyrir hagsmunaaðilum framlagða tillögu Tekton ehf., dags. 25. febrúar 2004, að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 2-6 við Gullengi.  Mun tillagan hafa falið í sér byggingu þriggja fjölbýlishúsa á lóðinni en í upphaflegu skipulagi var lóðin, sem er um 6000 fermetrar, ætluð undir bensínstöð og bílastæði fyrir stóra bíla. 

Skipulags- og byggingarnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi sínum 28. júlí 2004 að lokinni kynningu tillögunnar fyrir hagsmunaaðilum og var þá lögð fram breytt skipulagstillaga, dags. 21. júlí 2004, ásamt athugasemdabréfum þeim er borist höfðu við fyrrgreinda kynningu.  Jafnframt var lögð fram umsögn forstöðumanns verkfræðistofu Reykjavíkurborgar og samantekt skipulagsfulltrúa á athugasemdum, dags. 14. maí 2004, með breytingum frá 26. júlí 2004. Á þeim fundi var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og málinu vísað til borgarráðs sem samþykkti á fundi hinn 10. mars 2005 greinda bókun nefndarinnar um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi að Gullengi 2-6.

Hinn 8. júní 2005 var deiliskipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulagsráðs að lokinni auglýsingu með athugasemdafresti til 2. maí 2005. Fjöldi athugasemda barst þar sem fyrirhugaðri skipulagsbreytingu var andmælt og þar á meðal af hálfu kærenda.  Fyrir fundinum lá jafnframt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júní 2005.  Skipulagsráð samþykkti að vísa skipulagstillögunni ásamt framkomnum athugasemdum og umsögn skipulagsfulltrúa til umsagnar hverfisráðs Grafarvogs. 

Á fundi skipulagsráðs þann 21. september 2005 var málið tekið fyrir að nýju ásamt bókun hverfisráðs Grafarvogs, dags. 8. september 2005, og var deiliskipulagstillagan samþykkt með svofelldri bókun:

„Samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Vísað til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði á móti og óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir vel rökstudd mótmæli íbúa á svæðinu og greiða atkvæði gegn tillögunni.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Fulltrúar Reykjavíkurlistans vísa til umsagnar hverfisráðs Grafarvogs og ítreka þær ábendingar sem þar koma fram. Íbúðir fara betur á þessum reit en bensínstöð og stæði fyrir stóra bíla.“

Afgreiðslunni var vísað til borgarráðs sem samþykkti erindið með fjórum atkvæðum gegn tveimur á fundi sínum hinn 29. september 2005 og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu hinn 4. október s.á. með 13 samhljóða atkvæðum.  Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu gildistökuauglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing þar um hinn 20. október 2005.

Kærendur skutu þessari deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að í tvígang hafi umdeild deiliskipulagstillaga verið kynnt íbúum svæðisins og þeir bent á annmarka tillögunnar.  Lítið tillit hafi verið tekið til athugasemda kærenda og annarra íbúa.  Fyrirhugað sé að reisa þrjú tiltölulega stór fjölbýlishús á umræddri lóð þar sem áður hafi verið gert ráð fyrir bensínstöð og bifreiðarstæðum fyrir stóra bíla.  Við vinnslu tillögunnar hafi fyrirhuguð hús verið stytt en breikkuð í staðinn, íbúðum verið fækkað en stækkaðar að sama skapi, þannig að heildarmyndin sé sú sama og lagt hafi verið upp með í byrjun.

Leggja kærendur áherslu á að skipulagsyfirvöld hafi ákveðnar skyldur með hliðsjón af fyrra skipulagi.  Þótt ákveðið sé að breyta notkun lóða, í þessu tilviki úr þjónustu í íbúðarbyggð, beri að gera það með þeim hætti að hið nýja skipulag verði ekki að marki meira íþyngjandi gagnvart íbúum en verið hefði.  Skipulagsyfirvöld hafi ekki jafn frjálsar hendur við breytingar á gildandi deiliskipulagi og raunin sé við skipulagsgerð á óskipulögðum svæðum.  Fjölmargir íbúar á umræddu svæði hafi komið með óskir og tillögur um nýtingu lóðarinnar að Gullengi 2-6 en almenn óánægja sé með þá skipulagsbreytingu er nú liggi fyrir.

Skírskotun til nýtingarhlutfalls annarra lóða í hverfinu teljist ekki haldbær rök fyrir byggingu stórra blokka þar sem nánast engin hús áttu að vera og umdeilanlegt sé hvort þétta eigi höfuðborgarbyggðina eða ekki.  Þéttleiki byggðar sé ákveðinn þegar hverfi séu deiliskipulögð en veruleg vandamál skapist oft þegar verið sé að troða eins miklu byggingarmagni og hægt sé á litlar óbyggðar lóðir í hverfum sem ekki séu mjög þéttbýl.  Í því tilviki sem hér um ræði hefði verið heppilegra að nýta lóðina undir sérbýli sem skortur sé á í höfuðborginni enda hefði sú tilhögun verið í sátt við íbúa hverfisins.

Hið kærða skipulag feli í sér óhæfilega röskun á hagsmunum kærenda þar sem útsýni muni skerðast, umferð og hljóðmengun aukast og fyrirhuguð byggð muni verða til lýta.  Muni þetta valda verðrýrnun á fasteignum kærenda.

Meðferð hinnar kærðu skipulagstillögu snerti ekki aðeins íbúa hverfisins heldur snúist málið um lýðræði og rétt íbúa til að taka þátt í ákvarðanatöku af þessu tagi.  Rétt sé að geta þess að hvorki hverfisráð Grafarvogs né skipulagsráð Reykjavíkur hafi verið einhuga við afgreiðslu skipulagstillögunnar og að minnihlutinn hafi talið að taka ætti tillit til sjónarmiða íbúa þar sem þau væru vel grunduð. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að samþykkt skipulagsráðs frá 21. september 2005, sem staðfest var af borgarráði Reykjavíkur þann 29. september sl. og af borgarstjórn Reykjavíkur þann 4. október um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Gullengi 2-6, verði staðfest.

Ljóst sé að meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga.  Allir hagsmunaaðilar á svæðinu hafi fengið senda kynningu um framkomna tillögu auk þess sem hún hafi verið kynnt fyrir íbúasamtökum Grafarvogs og hverfisráði Grafarvogs áður en hún var auglýst á lögformlegan hátt.  Í ljósi framkominna athugasemda við kynninguna hafi hinni kynntu tillögu að deiliskipulagi svæðisins verið breytt á þann hátt að íbúðum í fyrirhuguðum húsum á lóðinni hafi verið fækkað úr 36 í 27 og bílastæðum fækkað um 18.  Einnig hafi skilmálum verið breytt á þann veg að gert hafi verið ráð fyrir talsvert stærri íbúðum en í kynntri tillögu eða á bilinu 110-130 m².  Þá hafi byggingarreitir umræddra húsa verið færðir fjær Gullenginu um u.þ.b. tvo metra auk þess sem byggingarreitir sorpgeymslna voru færðir fjær lóðarmörkum.  Af þessu megi ráða að víðtækt samráð hafi verið við hagsmunaaðila við gerð skipulagstillögunnar og tillit tekið til framkominna athugasemda.  Hafa verði í huga að ekki sé unnt að taka mið af öllum hugmyndum og skoðunum sem fram kunni að koma við kynningu skipulagstillögu og feli sú staðreynd ekki í sér að íbúalýðræði sé virt að vettugi.

Svæðið sem hér um ræði sé enn óbyggt.  Við þróun íbúðarbyggðar umhverfis lóðina á 15-20 ára tímabili hafi forsendur fyrir uppbyggingu og skilgreiningu landnotkunar breyst.  Með breyttum verslunarháttum auk tilkomu verslunarmiðstöðvar í Spönginni sé ekki lengur talin þörf fyrir bensínstöð og stæði fyrir stóra bíla á umræddum stað.  Í framhaldi af fyrirspurn lóðarhafa um breytingu deiliskipulags svæðisins hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að eðlilegast væri að gera ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu sem sé í íbúðarhverfi og virðist kærendur ekki mótfallnir þessari breyttu landnotkun.  Reykjavíkurborg telji að til lengri tíma litið sé deiliskipulagsbreytingin ívilnandi fyrir grenndarhagsmuni nágranna hvað varði umferð og ónæði.

Við vinnslu deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið tekið mið af fjöleignarhúsum við Gullengi, Fróðengi, Laufengi og Reyrengi sem séu 30 talsins. Nýtingarhlutfall þeirra lóða sé frá 0,47 – 0,84 en þar af fari nýting 16 þeirra yfir 0,6.  Húsagerð á svæðinu sé blönduð byggð með þriggja hæða fjöleignarhúsum, hvort sem um sé að ræða punkthús með 6 íbúðum eða lengjuhús með 40 íbúðum.  Punkthúsin við Gullengi 1-17 og Fróðengi 6-10 með 6-9 íbúðum skeri sig nokkuð úr þar sem þau standi á tvískiptri lóð, undir húsin annars vegar og bílskúra hins vegar.  Nýtingarhlutfall margra þessara lóða fari yfir 0,6 sem sé það nýtingarhlutfall sem heimilað sé á lóðunum nr. 2-6 við Gullengi.  Af þessu verði sú ályktun dregin að fyrirhuguð hús við Gullengi falli vel inn í það byggðamynstur og nýtingarhlutfall sem fyrir sé á svæðinu.

Fallast megi á að umdeild deiliskipulagsbreyting geti haft þau áhrif að útsýni kærenda skerðist eitthvað frá því sem ella hefði orðið en því þó alfarið hafnað að skerðingin sé slík að haft geti áhrif á gildi deiliskipulagsins.  Minna megi á að aðilar í þéttri borgarbyggð geti ekki búist við því að óbyggðar lóðir í nágrenni þeirra haldist óbyggðar um aldur og að réttur íbúa til óbreytts útsýnis sé ekki bundinn í lög.  Bent sé á að skuggavarp vegna heimilaðra bygginga sé langt innan þeirra marka sem við megi búast þegar uppbygging eigi sér stað í þéttri borgarbyggð.

Hvað varði meinta rýrnun á verðmæti eigna kærenda vegna deiliskipulagsbreytingarinnar, sé bent á að ekki hafi verið gerð tilraun til að renna stoðum undir þá fullyrðingu.  Þvert á móti megi ætla að með samþykkt deiliskipulagsins hafi verðmæti nærliggjandi fasteigna aukist, en uppbygging í grónum hverfum hafi margoft haft í för með sér slíka verðmætaaukningu.  Ástæða sé til að benda á ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en þar sé borgurum tryggður bótaréttur sýni þeir fram á að gildistaka skipulags rýri verðmæti fasteigna þeirra.  Valdi þessi málsástæða því ekki að deiliskipulagsbreytingin á lóðunum að Gullengi 2-6 teljist ógildanleg þótt hún ætti við rök að styðjast.

Hafa verði í huga að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum að deiliskipulag geti tekið breytingum.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun var fallið frá því að nýta lóðina að Gullengi 2-6 undir bensínstöð og bifreiðastæði fyrir stóra bíla en þess í stað gert ráð fyrir þremur þriggja hæða fjölbýlishúsum með kjallara.

Virðast kærendur ekki setja sig upp á móti breyttri landnotkun lóðarinnar en bera fyrst og fremst fyrir sig stærð og umfang heimilaðra fjölbýlishúsa sem þeir telja að skerði óhæfilega útsýni frá fasteignum þeirra og muni skapa aukna umferð og ónæði frá því sem þeir hafi mátt vænta samkvæmt fyrra skipulagi.

Við deiliskipulagningu nýbyggingarsvæða er m.a. tekin ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar og húsagerðir og er deiliskipulag sem tekið hefur gildi bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi, sem mótað hefur byggð á skipulagssvæðinu, nema að lögmætar ástæður búi að baki.

Almannahagsmunir, þróun byggðar, skipulagrök eða önnur málefnaleg sjónarmið geta knúið á um breytingu á gildandi deiliskipulagi og er í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 gert ráð fyrir slíkum breytingum.  Breytingar á deiliskipulagi þegar byggðra hverfa geta haft og hafa oft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra er búa næst vettvangi er breytingin snertir og er einstaklingum tryggður bótaréttur í 33. gr. nefndra laga, valdi skipulagsákvörðun þeim fjártjóni.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting byggir á því mati skipulagsyfirvalda að ekki sé þörf á þeirri þjónustu sem upphaflega hafði verið fyrirhuguð á lóðinni að Gullengi 2-6 og eðlilegast að hafa þar íbúðarbyggð, en lóðin liggur inn í íbúðarhverfi.

Á svæðinu eru fjölbýlishús og af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að stærðir fyrirhugaðra fjölbýlishúsa á nefndri lóð eða nýtingarhlutfall lóðarinnar skeri sig að marki úr þeirri byggð sem fyrir er í hverfinu og ekki verður fullyrt um að umferð og ónæði aukist svo við fyrirhugaða byggð að varði ógildingu skipulagsákvörðunarinnar.  Hafa verður í huga að þjónustu bensínstöðva, eins og gert hafði verið ráð fyrir á lóðinni, fylgi töluvert ónæði.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður að telja hina umdeildu skipulagsbreytingu studda skipulagslegum rökum og málefnalegum sjónarmiðum og að fyrirhuguð byggð raski ekki svo grenndarhagsmunum kærenda að leitt geti til ógildingar hennar.  Það er ekki á verksviði úrskurðarnefndarinnar að meta hvort deiliskipulagsbreytingin hafi í för með sér bótaskylt tjón gagnvart kærendum, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 4. október 2005 um að breyta deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Gullengi 2-6. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

_____________________________     ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Geirharður Þorsteinsson

90/2005 Lónsbraut

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2005, kæra á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 3. nóvember 2004, 8. desember 2004 og 10. ágúst 2005 og ákvörðunum skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. mars 2005 og 15. apríl 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir E, eigandi bátaskýlis nr. 58 við Lónsbraut, Hafnarfirði, ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 3. nóvember 2004, 8. desember 2004 og 10. ágúst 2005 og ákvarðanir skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. mars 2005 og 15. apríl 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi og hefur jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Þar sem málsatvik liggja nægjanlega ljós fyrir verður málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar.

Málsatvik og rök:  Í gildi er deiliskipulag fyrir suðurhöfn Hafnarfjarðar frá árinu 2000 er tekur til umrædds svæðis.  Í skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að hæðir bátaskýla við Lónsbraut skuli taka mið af hæð nýjustu skýlanna sem standi austast á svæðinu og að heimilt sé að hækka sökkla þeirra skýla sem lægst standa um allt að 1,5 metra vegna sjávarhæðar.

Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að búið sé að hækka sökkla umdeildra bygginga verulega og stefni í að mænishæð þeirra verði allt að 2,5 – 3,0 metrum hærri en skýli kæranda og séu þau í engu samræmi við hæðir annarra skýla á svæðinu og gildandi deiliskipulag.  Kærandi hafi átt í vandræðum vegna aur- og vatnsflæðis að skýli sínu, sem hann hefði vænst að úr rættist þegar Lónsbrautin yrði hönnuð og lögð lægra en nú sé með hliðsjón af ákvarðaðri hæð bátaskýlanna í gildandi skipulagi.  Umræddar byggingar skemmi heildarsvip svæðisins vegna hæðar sinnar en auk þess sé þakhalli skýlisins að Lónsbraut 52 í engu samræmi við þakhalla annarra skýla.

Bæjaryfirvöld benda á að eigendur sumra bátaskýla á svæðinu hafi nýtt sér heimild í skipulagsskilmálum um að hækka gólf skýlanna um 1,5 metra og hafi skýlunum þá verið lyft til að gæta samræmis í þakhalla annarra skýla fremur en að taka mið af skýlum austast á svæðinu.  Á gildandi mæliblaði fyrir umrætt svæði sé gólkóti, (GK á mæliblaðinu), greindur á einum stað 3,9 metrar sem gildi fyrir öll skýlin og sé kótinn miðaður við að gólf skýlanna sé yfir stórstreymi.  Breyting á umræddu skipulagi sé í vinnslu þar sem skýrar sé kveðið á um gólfkóta og mænishæð umræddra skýla til þess að taka af allan vafa en ekki sé áformuð gatnagerð á svæðinu að svo komnu.

Niðurstaða:  Hin kærðu byggingarleyfi voru annars vegar afgreidd af embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar og hins vegar af skipulags- og byggingarráði bæjarins á tímabilinu nóvember 2004 til ágúst 2005, en ekki liggur fyrir að umdeildar afgreiðslur hafi verið staðfestar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna.  Sveitarstjórnum er heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra.

Af bókunum afgreiðslufunda skipulags- og byggingarfulltrúa, þar sem ákvarðanir voru teknar um hin kærðu byggingarleyfi, má ráða að afgreiðslumátinn byggi á heimild í samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 4. maí 2004 um embættisafgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa. 

Í ljós er leitt að umrædd samþykkt hefur ekki hlotið staðfestingu ráðherra og er því ekki viðhlítandi heimild til þess að víkja frá fyrrgreindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfum.  Þá liggur ekki fyrir samþykkt, staðfest af ráðherra, sem heimilar skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar lokaafgreiðslu byggingarleyfisumsókna á umræddum tíma.

Af þessum ástæðum hafa hin kærðu byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 þar sem á skortir að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi staðfest umdeild leyfi og verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfanna.

Vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda þykir rétt að taka fram að það er á verksviði byggingaryfirvalda bæjarins að gæta þess að ekki sé ráðist í byggingarleyfisskyldar framkvæmdir eða þeim fram haldið án gilds byggingarleyfis, sbr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________  
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

 

5/2005 Kirkjuteigur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2004 um að hafna kröfu sameigenda að fasteigninni Kirkjuteigi 25 um að gróðurskáli á nefndri lóð verði fjarlægður.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. janúar 2005, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir H, íbúðareigandi að Kirkjuteigi 25, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2004 að synja kröfu sameigenda lóðarinnar að Kirkjuteigi 25 um niðurrif gróðurskála á lóðinni sem er í eigu eins eiganda fasteignarinnar.

Skilja verður erindi kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Á lóðinni að Kirkjuteigi 25 í Reykjavík stendur fjölbýlishús og er lóðin í óskiptri sameign íbúðareigenda.  Í norðausturhorni lóðarinnar stendur gróðurskáli í eigu eins íbúðareiganda.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær skálinn var reistur, en það mun þó hafa gerst fyrir a.m.k. 15 til 20 árum og án þess að samþykkis byggingaryfirvalda hafi verið leitað fyrir byggingunni.

Við kynningu á deiliskipulagstillögu fyrir Teigahverfi í janúar 2002 mótmæltu eigendur íbúða að Kirkjuteigi 25 því, að undanskildum einum íbúa, að í fyrirhuguðu deiliskipulagi hverfisins væri gert ráð fyrir staðfestingu á breyttri hagnýtingu lóðar með því að gera ráð fyrir garðhýsi á sameiginlegri lóð hússins.  Var þess jafnframt krafist að embætti byggingarfulltrúa hlutaðist til um að garðhýsið sem fyrir var yrði rifið.  Í kjölfarið var byggingarreitur fyrir garðhýsið að lóðinni nr. 25 við Kirkjuteig fjarlægt úr deiliskipulagstillögunni auk sambærilegra byggingarreita á öðrum lóðum á skipulagsreitnum.

Með bréfi, dags. 20. maí 2003, var eiganda gróðurskálans á umræddri lóð tilkynnt að frístandandi garðskálar yrðu leyfðir með samþykki allra eigenda svo og lóðarhafa aðliggjandi lóða, en þar sem eigendur íbúða að Kirkjuteigi 25 hefðu margítrekað kröfu um að garðhýsið yrði rifið, væri eigenda þess veittur 30 daga frestur til að tjá sig um kröfuna.  Ítrekun vegna bréfs þessa var send eiganda garðhýsisins 13. nóvember 2003, sem kom sínum sjónarmiðum á framfæri í bréfi, dags. 28. nóvember s.á.  Þar kom m.a. fram að umdeilt garðhýsi hafi verið byggt uppúr 1970, áður en hann keypti íbúð sína og hafi staðið á lóðinni síðan í samræmi við munnlegt samkomulag íbúa.

Krafan um niðurrif gróðurskálans var síðan tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. desember 2004 og afgreitt með eftirfarandi bókun:

„Í samræmi við umsögn lögfræði og stjórnsýslu er kröfu meðeigenda á Kirkjuteig 25 um að fjarlægja gróðurskála á lóð hafnað. Leiðbeint er um að meðeigendur geta kært þessa niðurstöðu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sbr. 10. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eða leitað réttar síns fyrir dómstólum.“

Hefur kærandi skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Í kæru er tekinn upp fjöldi ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um byggingar og skipulag auk ákvæða fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 um nýtingu sameignar og réttindi og skyldur sameigenda er kærandi telur mæla gegn hinni kærðu ákvörðun.

Sú ástæða er tilgreind fyrir því að gróðurskálinn hafi staðið óáreittur á umræddri lóð af hálfu byggingaryfirvalda að þau hafi ekki haft vitneskju um bygginguna fyrr en kvörtun vegna hennar hafi borist og aðrir eigendur íbúða í húsinu hafi viljað halda friðinn eða dvalist langdvölum erlendis og fyrri eigandi skálans því getað framkvæmt nánast hvað sem var án afskipta annarra eigenda hússins.  Í ljósi þessa sé ekki um tómlæti að ræða í máli þessu.

Áréttar kærandi að um óleyfisframkvæmd sé að ræða sem standi á sameiginlegri lóð í andstöðu við vilja og hagsmuni annarra sameigenda og beri byggingaryfirvöldum að sjá svo um að því ástandi verði aflétt.  Skálinn hindri leiki barna á lóðinni og vart verði hróflað við jarðvegi vegna raflagnar úr bílskúr í skálann sem ekki séu gögn um hvar liggi.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa í máli þessu verði hafnað.

Óumdeilt sé að ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir umþrættu garðhýsi svo sem skylt hafi verið að lögum.  Ekki sé unnt að staðreyna nákvæmlega hvenær garðhýsinu hafi verið komið fyrir á lóðinni en óhætt þyki að miða við að það hafi staðið á lóðinni síðastliðin 15 til 20 ár miðað við gerð þess og útlit.

Í 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús segi að öll lóð húss og mannvirki, búnaður og tilfæringar á henni, þar með talið bílastæði, nema þinglýstar heimildir kveði á um að það sé séreign eða það byggist á eðli máls, sé í sameign eiganda hússins og í 36. gr. laganna segi að eiganda sé á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota tiltekna hluta hennar.  Eigandi geti ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt.  Einstökum eiganda sé að sama skapi óheimilt upp á sitt eindæmi að taka ákvarðanir eða gera ráðstafanir sem snerti sameign eða sameiginleg málefni.  Höfð yrði hliðsjón af þessum ákvæðum við afgreiðslu umsókna til byggingaryfirvalda um framkvæmdir eða byggingar. 

Umræddu garðhýsi hafi hins vegar verið komið fyrir á lóðinni í tíð þágildandi laga um fjölbýlishús og beri því einnig að hafa hliðsjón af þeim reglum við mat á því hvort unnt sé að grípa til þvingunarúrræða í máli þessu. 

Með vísan til gagna málsins og ofangreindra lagaákvæða sé óumdeilt að garðhýsi það er standi í norðausturhorni lóðarinnar nr. 25 við Kirkjuteig sé svokölluð óleyfisframkvæmd.  Það eitt og sér leiði ekki til þess að byggingarfulltrúa sé heimilt eða skylt að beita viðurlagaákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Fyrir liggi að ítrekað hafi verið kvartað undan garðhýsinu og farið fram á að það yrði fjarlægt. 

Aftur á móti beri einnig á það að líta að garðhýsið hafi staðið á lóðinni í fjölda ára án afskipta byggingaryfirvalda auk þess sem allir núverandi eigendur utan einn hafi keypt sína eignarhluta eftir að garðhýsinu hafi verið komið fyrir á umræddri lóð og ekki hafi verið gerðar athugasemdir vegna tilveru þess fyrr en á árinu 2002.  Í ljósi þessa hafi sameigendur að lóðinni sýnt af sér tómlæti vegna byggingar og stöðu skálans á lóð þeirra.  Hafa verði og í huga að ekki sé vitað til að núverandi eiganda umrædds skála hafi verið kunnugt um skort á leyfi fyrir garðhýsinu er hann festi kaup á eigninni.  Þá hafi ekki verið sýnt fram á neina brýna nauðsyn þess að garðhýsið verði fjarlægt né að það hafi áhrif á hagsmuni meðeiganda á þann hátt að horfi til tjóns þótt þeir þurfi að bíða dóms um réttarstöðu sína. 

Byggingaryfirvöldum í Reykjavík hafi orðið kunnugt um óleyfisbygginguna á árinu 2001 þegar deiliskipulag Teigahverfis var í vinnslu.  Ekki sé hægt að draga þá ályktun af þeirri ákvörðun, að taka nefnda óleyfisbyggingu út af deiliskipulagstillögunni, að fallist hafi verið á niðurrif byggingarinnar enda tekið fram í skipulaginu að frístandandi garðhýsi séu leyfð samkvæmt skipulaginu ef fyrir liggi samþykki lóðarhafa.  Telja verði að tómlæti meðeiganda girði fyrir að byggingarfulltrúi hafi getað knúið fram niðurrif garðskálans eins og málum hafi verið komið. 

Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins hafi byggingarfulltrúa ekki verið heimilt í þessu tilviki að beita svo íþyngjandi úrræðum sem farið sé fram á í máli þessu.  Óhjákvæmilegt virðist því að beina deiluaðilum til almennra dómstóla til að leysa úr ágreiningi þeirra varðandi nefnt garðhýsi á lóðinni. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík að beita úrræðum 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til þess að knýja fram niðurrif á gróðurskála á lóðinni að Kirkjuteigi 25 í Reykjavík, sem reistur var án leyfis byggingaryfirvalda og staðið hefur þar um árabil. 

Í 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem hér á við, er byggingarnefnd heimilað að knýja fram niðurrif óleyfisbygginga og er ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis háð mati hverju sinni.  Mat um beitingu þessa úrræðis hlýtur fyrst og fremst að byggjast á almannahagsmunum og skipulagsrökum en einstaklingum eru tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja einkaréttarlega hagsmuni.

Hin umdeilda ákvörðun er einkum studd þeim rökum að fyrir liggi að gróðurskálinn hafi staðið um árabil á lóðinni að Kirkjuteigi 25 án athugasemda sameigenda að lóð. Að auki hafi eigendaskipti orðið að íbúðum umrædds fjölbýlishúss eftir byggingu skálans, þ.á.m. að íbúð þeirri er hann fylgi, og í gildandi skipulagi sé heimilað að hafa slíka skála á lóðum á umræddu svæði.

Með hliðsjón af greindum atvikum og lagasjónarmiðum þykja málefnaleg rök hafa búið að baki þeirri ákvörðun borgaryfirvalda að beita ekki þvingunarúrræði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga gagnvart eiganda margnefnds gróðurskála um niðurrif skálans.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2004, um að synja kröfu um niðurrif gróðurskála á lóðinni að Kirkjuteigi 25, er hafnað.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

 
_____________________________                  ____________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

 

 

 

 

92/2005 Gnitakór

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2005, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs  frá 6. apríl 2005 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu tveggja hæða einbýlishúss á lóðinni að Gnitakór 9 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. H, eiganda fasteignarinnar að Kleifarkór 19, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 6. apríl 2005 að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða einbýlishúss að Gnitakór 9 í Kópavogi.  Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti þá ákvörðun hinn 12. apríl 2005. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Í ljósi þess að umdeild bygging var þegar risin er kæra barst og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til úrlausnar. þykja ekki efni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2003 tók gildi deiliskipulag fyrir nýbyggingarsvæði sem hin kærða bygging að Gnitakór 9 tilheyrir.  Umdeilt byggingarleyfi var veitt í apríl 2005 og var úttekt gerð á járnabindingu útveggja efri hæðar áður en uppsteypa hófst hinn 13. september 2005. 

Kærandi krefst ógildingar byggingarleyfisins með þeim rökum að það fari í bága við gildandi deiliskipulag með því að húsið að Gnitakór 9 sé hærra en heimiluð hámarkshæð og stöllun gólfplötu efri hæðar eigi ekki stoð í skipulaginu.  Húsið sé yfir 6 metra á hæð miðað við aðkomukóta að ofanverðu við götu en skilmálateikningar deiliskipulagsins heimili aðeins 4,8 metra hæð miðað við þann kóta.  Valdi þetta skerðingu á útsýni kæranda frá annarri hæð húss hans að Kleifarkór 19 sem verið sé að byggja.  Kærandi hafi ekki orðið áskynja um þennan ágalla fyrr en gólfplata á efri hæð húss hans hafi verið steypt um mánaðarmótin október – nóvember 2005 og hafi kæran því borist innan kærufrests.

Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hrundið.  Bent er á að úttekt vegna útveggja efri hæðar hússins að Gnitakór 9 hafi farið fram 13. september 2005 og hafi kæranda mátt vera ljóst frá þeim tíma hver hæð hússins væri.  Hafi kæran því borist að liðnum kærufresti og beri að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.  Þá er á það bent að skipulagsskilmálar heimili hæð húss allt að 7,5 metra frá aðkomukóta en húsið að Gnitakór 9 sé um 6 metra yfir þeim kóta.  Húsið standi lægra en hús kæranda og í nokkurri fjarlægð auk þess sem óbyggð séu hús ofan Gnitakórs milli húss kæranda og byggingarleyfishafa og verði ekki séð að umdeilt hús skerði útsýni frá fasteign kæranda umfram önnur hús á svæðinu.  Vafi leiki á um, í ljósi aðstæðna, að kærandi eigi einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.

Byggingarleyfishafi hefur mótmælt kröfu kæranda og tekur undir frávísunar- og efniskröfu Kópavogsbæjar í málinu.  Húsið að Gnitakór 9 hafi verið hannað og byggt í samræmi við skipulagsskilmála er byggingarleyfishafa voru látnir í té og hafi húsið verið reist samkvæmt samþykktu byggingarleyfi og veggir efri hæðar steyptir hinn 14. september 2005.  Gæti einhvers misræmis í skipulagsgögnum beri byggingarleyfishafi ekki ábyrgð á því og eigi hann ekki að verða fyrir óþægindum og tjóni af þeim sökum.

Málsaðilar hafa fært fram frekari rök og sjónarmið til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.  Þá hefur nefndin kynnt sér staðhætti á vettvangi.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að útveggir hússins að Gnitakór 9 voru uppsteyptir um miðjan september 2005 og húsið þá komið í fulla hæð og fengið endanlegt form þótt frágangi þaks hafi verið ólokið.  Gólfplata efri hæðar í húsi kæranda er í sömu hæð og aðkoma að húsinu frá götu og mátti kærandi því gera sér grein fyrir frá fyrrgreindum tíma hver áhrif húsið að Gnitakór 9 hefði á útsýni frá húsi kæranda að Kleifarkór 19.

Kæra í máli þessu er dagsett 16. nóvember 2005 og barst hún úrskurðarnefndinni hinn 17. sama mánaðar eða um tveimur mánuðum eftir að uppsteypu hússins að Gnitakór 9 var lokið.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kærð er og verður því að telja með hliðsjón af greindum málsatvikum að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum kærufresti.

Með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni, enda liggja ekki fyrir atvik er réttlæta að taka málið til meðferðar skv. 1. eða 2. tl . greinds ákvæðis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________     
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

107/2005 Brákarbraut

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 24. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2005, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 30. mars 2005 um að veita sveitarfélaginu leyfi til að reisa tengibyggingu á lóðunum nr. 13 og 15 við Brákarbraut í Borgarbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 22. desember 2005 kærir Pétur Kristinsson hdl., f.h. I, Brákarbraut 11, Borgarbyggð, ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 30. mars 2005 um að veita Borgarbyggð leyfi til að reisa tengibyggingu á lóðunum nr. 13 og 15 við Brákarbraut í Borgarbyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 14. apríl 2005, en leyfi byggingarfulltrúa til framkvæmda samkvæmt hinni kærðu samþykkt var gefið út hinn 20. desember 2005.

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt gerði hann þá kröfu að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við bygginguna þar til efnisniðurstaða lægi fyrir í málinu og var fallist á þá kröfu með úrskurði til bráðabirgða hinn 5. janúar 2006.

Málsatvik og rök:  Hinn 4. ágúst 2004 var auglýst tillaga að deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Lá tillagan frammi til kynningar á bæjarskrifstofum Borgarbyggðar til 2. september 2004, en frestur til athugasemda var til 16. sama mánaðar.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kæranda, en á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 5. október 2004 var gerð svofelld bókun:

„Erindi frá bæjarráði þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um framkomnar athugasemdir við deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Nefndin telur að þrátt fyrir innsendar athugasemdir sé ekki þörf á breytingum á deiliskipulaginu.“

Skipulagstillagan mun síðan hafa verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 14. október 2004 en síðar, eða hinnn 11. nóvember 2004, samþykkti bæjarstjórn þó svör við framkomnum  athugasemdum þar sem fallist var á minni háttar breytingar í tilefni af þeim.

Með bréfi bæjarverkfræðings Borgarbyggðar, dags. 30. nóvember 2004, var skipulagið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.  Gerði stofnunin, með bréfi, dags. 20. desember 2004, verulegar athugasemdir við skipulagið, bæði um form og efni.  Voru þessar athugasemdir teknar til athugunar og breytingar gerðar bæði á uppdrætti skipulagsins og greinargerð að því er helst verður ráðið af málsgögnum, en ekki verður séð að sveitarstjórn hafi fjallað um þessar breytingar.  Var skipulagið, svo breytt, sent að nýju til Skipulagsstofnunar til yfirferðar með bréfi, dags. 2. mars 2005.

Með bréfi, dags. 10. mars 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirra afstöðu sinni að ekki væru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, en benti þó á að gera þyrfti smávægilegar lagfæringar á skipulagsgögnunum.  Auglýsing um gildistöku skipulagsins var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. mars 2005.  Skaut kærandi ákvörðun sveitarstjórnar um framangreint skipulag til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. apríl 2005.  Gerði kærandi þar þær kröfur að skipulagið yrði auglýst til kynningar að nýju með áorðnum breytingum, en til vara að ítarleg grenndarkynning færi ella fram á tengi- og viðbyggingu við húsin nr. 13 og 15 við Brákarbraut.

Eins og að framan er rakið skaut kærandi einnig til úrskurðarnefndarinnar, með bréfi, dags. 22. desember 2005, ákvörðun bæjaryfirvalda um að heimila byggingu umdeildrar tengibyggingar, en framkvæmdir við bygginguna voru þá að hefjast.  Krafðist kærandi þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar og var fallist á þá kröfu með úrskurði til bráðabirgða hinn 5. janúar 2006.

Af hálfu kæranda er á því byggt að fyrir liggi krafa um ógildingu deliskipulags umrædds svæðis og af sjálfu sér leiði að byggingarleyfi sem eigi stoð í skipulaginu sæti ógildingu komi til þess að skipulagið verði fellt úr gildi.  Um málsrök sé því vísað til fyrirliggjandi kæru er lúti að gildi skipulagsins.

Af hálfu Borgarbyggðar er kröfum kæranda mótmælt og því haldið fram að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og gerð hinna umdeildu ákvarðana um skipulag og byggingarleyfi.  Skipulagið hafi verið auglýst lögum samkvæmt og hlotið lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar, sem ekki hafi lagst gegn auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda eftir að lagfæringar hafi verið gerðar á því í tilefni af athugasemdum stofnunarinnar.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verði rakin frekar í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við ákvörðun sína í þessum þætti málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15 í Borgarnesi.  Leyfið var veitt með stoð í deiliskipulagi sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. mars 2005.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag hefur úrskurðarnefndin fellt umrætt skipulag úr gildi að því er tekur til nefndrar tengi- og viðbyggingar.  Leiðir af þeirri niðurstöðu að ekki er í gildandi skipulagi heimild fyrir byggingunni og verður byggingarleyfi fyrir henni því fellt úr gildi.

 
Úrskurðarorð:

Fellt er úr gildi byggingarleyfi fyrir tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15 í Borgarbyggð, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 14. apríl 2005.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson     

 

 
_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

65/2005 Brákarbraut

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2005, kæra á afgreiðslu Borgarbyggðar á erindi kæranda um leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 11 við Brákarbraut í Borgarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. ágúst 2005, er barst nefndinni 24. sama mánaðar, kærir I, Brákarbraut 11 í Borgarnesi afgreiðslu Borgarbyggðar á erindi hans frá 15. júlí 2004 um að honum verði heimilað að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 11 við Brákarbraut í Borgarnesi.  Kemur fram í bréfi kæranda að þar sem hann hafi í upphafi ranglega sent málið til umboðsmanns Alþingis sé þess óskað að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála taki það til efnislegrar meðferðar.  Bréfinu fylgja tvö yfirlit um umkvörtunarefni kæranda, sem annars vegar lúta að afgreiðslu sveitarfélagsins Borgarbyggðar á erindi hans og hins vegar að vinnubrögðum Skipulagsstofnunar við afgreiðslu tillögu að deiliskipulagi fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi. 

Engin krafa er sett fram af hálfu kæranda önnur en sú að úrskurðarnefndin taki erindi hans til meðferðar svo sem að framan greinir. 

Erindi kæranda fylgir fjöldi fylgiskjala auk bréfs umboðsmanns Alþingis til hans, dags 18. júlí 2005, þar sem kæranda er gerð grein fyrir því að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu.  Er í bréfi umboðsmanns fjallað ítarlega um málskotsrétt til úrskurðarnefndarinnar og um úrskurðarvald hennar og er kæranda bent á að leita úrlausnar úrskurðarnefndarinnar í málinu.

Málsatvik:  Með bréfi til umhverfis- og skipulagnefndar Borgarbyggðar, dags. 15. júlí 2004, bar kærandi upp svofellt erindi:  „Undirritaður sækir hér með um leyfi til að byggja alltað 70 fermetra og 220 rúmmetra Bílgeymslu á lóð nr. 11 við Brákarbraut, Borgarnesi.  Meðfylgjandi er ljósrit af uppdrætti lóðar, þar kemur fram tillaga að staðsetningu fyrirhugaðrar byggingar.“  Bréfið bar yfirskriftina „Umsókn um byggingarleyfi“ og var það undirritað af kæranda.  Fylgdi því ljósrit af hnitasettu mæliblaði lóðar þar sem teiknaður hafði verið inn ómálsettur byggingarreitur merktur „Bílgeymsla“. 

Erindi þetta var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 27. júlí 2004 og eftirfarandi bókað:  „Spurt hvort heimilað yrði að byggja allt að 70m² og 220m³ bílgeymslu á lóðinni nr. 11 við Brákarbraut, samkv. meðf. frumhugmyndum.  Bókun umhverfis- og skipulagsnefndar:  Samþykkt að fresta afgreiðslu málsins.“

Var afgreiðsla þessi staðfest á fundi bæjarráðs Borgarbyggðar hinn 29. júlí 2004.

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2004, krafðist kærandi rökstuðnings fyrir ákvörðun umhverfis- og skipulagnefndar um frestun málsins og áréttaði að um umsókn væri að ræða en ekki fyrirspurn.  Með bréfi bæjarstjóra, dags. 24. ágúst 2004, var kæranda gerð grein fyrir því að nefndin hefði frestað málinu til að afla frekari gagna, enda hefði hún litið svo á að aðeins lægju fyrir frumhugmyndir varðandi umsóknina.  Til að hægt yrði að taka byggingarleyfisumsókn til greina þyrfti að liggja fyrir samþykkt skipulag og tilheyrandi byggingarnefndarteikningar.

Málið var að nýju tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagnefndar hinn 31. ágúst 2004 og eftirfarandi bókað:  „Samkvæmt 11. og 12. gr. byggingarreglugerðar er ekki hægt að líta á erindið sem byggingarleyfisumsókn þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir og hönnunargögn, sem fylgja eiga umsókn, vantar.  Nefndin bendir á að um þessar mundir er deiliskipulag svæðisins í auglýsingu þar sem umsækjandi getur komið athugasemdum á framfæri fyrir 16. september n.k.  Einnig telur nefndin rétt að leita álits Húsafriðunarnefndar í málinu.“  Var þessi niðurstaða umhverfis- og skipulagsnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar hinn 16. september 2004 og kynnt kæranda með bréfi, dags. 17. sama mánaðar.

Kærandi gerði athugasemdir við auglýsta deiliskipulagstillögu með bréfi, dags. 15. september 2005, þar sem hann fór m.a. fram á gert yrði ráð fyrir bílgeymslunni í skipulaginu.  Til þess kom ekki en bæjaryfirvöld leituðu allt að einu umsagnar Húsafriðunarnefndar um byggingu bílskúrs á lóð kæranda og barst umsögn hennar með bréfi, dags. 5. október 2004, þar sem ekki var lagst gegn erindinu en tekið fram að mikilvægt væri að vel tækist til með hönnun bílskúrsins ef af framkvæmdum yrði, þannig að hann félli að húsunum þarna megin Brákarbrautar.

Frekari bréfaskriftir áttu sér stað milli kæranda og bæjaryfirvalda á vordögum 2005.  Má af þeim ráða að kærandi hafi verið ósáttur við afstöðu bæjaryfirvalda til erindis hans og afgreiðslu deiliskipulags umrædds svæðis, en í bréfi bæjarstjóra Borgarbyggðar til kæranda, dags. 31. maí 2005, kveðst hann vilja ítreka þá afstöðu bæjaryfirvalda að þau séu reiðubúin til þess að vinna að því í samráði við lóðarhafa að setja byggingarreit fyrir bílskúr inn á deiliskipulagið.

Ekki virðist hafa komið til frekari viðræðna eða bréfaskrifta milli aðila um mál þetta eftir þetta en þegar hér var komið sögu hafði kærandi skotið ákvörðun Borgarbyggðar um deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 29. apríl 2005.  Sneri kærandi sér jafnframt til umboðsmanns Alþingis með kvörtunum er bárust umboðsmanni hinn 13. júlí 2005 en málunum lauk umboðsmaður með bréfi til hans, dags. 18. júlí 2005.  Barst úrskurðarnefndinni erindi kæranda röskum mánuði síðar, eða hinn 24. ágúst 2005, svo sem að framan greinir.

Málsrök aðila:  Af hálfu kæranda er kvartað yfir því að bæjaryfirvöld í Borgarbyggð hafi með margvíslegum hætti staðið rangt að afgreiðslu erindis hans um leyfi fyrir bílskúrsbyggingu.  Niðurstaða varðandi lyktir máls hafi verið óviðunandi, seinagangur hafi verið við afgreiðslu málsins, rökstuðningi ábótavant, leiðbeiningarskyldu ekki sinnt, rannsóknarregla sniðgengin, erindi ekki svarað með fullnægjandi hætti, misfarið með staðreyndir í rökstuðningi og svörum við fyrispurnum og að starfshættir og málsmeðferð hafi verið óviðunandi.  Þá telur kærandi að Skipulagsstofnun hafi ekki sinnt lögboðnu hlutverki sínu við yfirferð deiliskipulagstillögu fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi og hvorki gengið eftir að ábendingum stofnunarinnar væri svarað né að bæjaryfirvöld svöruðu óskum og athugasemdum kæranda.  Staðhæfingar þessar styður kærandi með tilvísunum í málsgögn.

Í málsgögnum koma fram sjónarmið bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að þau telji meðferð erindis kæranda hafa verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Ekki hefur verið leitað afstöðu Skipulagsstofnunar til umkvörtunarefna kæranda er að henni lúta af ástæðum er síðar greinir.

Niðurstaða:  Í máli þessu krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin taki til úrlausnar þá ákvörðun bæjaryfirvalda Borgarbyggðar að að líta ekki á erindi hans frá 15. júlí 2004 um bílskúrsbyggingu sem byggingarleyfisumsókn.  Verður ráðið af málsgögnum að kæranda hafi mátt vera þessi afstaða bæjaryfirvalda ljós eftir að honum barst bréf byggingarfulltrúa, dagsett 17. september 2004.  Kærandi gerði ekki reka að því að leita réttar síns í þessu tiltekna máli fyrr en undir miðjan júlí 2005 og þá með kvörtun til umboðsmanns Alþingis, en ekki með erindi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, þrátt fyrir að hann hefði þá nokku fyrr, eða í lok apríl 2005, kært til nefndarinnar ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar um deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Verður í raun að telja, með hliðsjón af fyrra erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar og vitneskju hans um hana, að kærufrestur hafi verið liðinn er hann gerði reka að málskoti sínu.

Þrátt fyrir þetta þykir rétt, með stoð í undantekningarreglu 1. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og með hliðsjón af því að hin umdeilda ákvörðun snertir ekki hagsmuni þriðja aðila, svo og með tilliti til framangreinds bréfs umboðsmanns Alþingis til kæranda, að taka til umfjöllunar kæru hans að því er varðar afgreiðslu bæjaryfirvalda á erindi hans um leyfi fyrir bílskúrsbyggingu.

Í 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga segir að byggingarleyfisumsókn skuli fylgja nauðsynleg hönnunargögn og skilríki sem nánar sé kveðið á um í byggingarreglugerð.  Í 46. gr. laganna og 12. gr., sbr. 18. gr., byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eru ákvæði um fylgigögn byggingarleyfisumsóknar og um þær kröfur sem gerðar eru til uppdrátta og annarra hönnunargagna.

Fyrir liggur að umrætt erindi kæranda fullnægði ekki lögboðnum skilyrðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar um fylgigögn byggingarleyfisumsókna og var ekki úr því bætt þrátt fyrir að kæranda væri bent á að uppdrættir þyrftu að fylgja byggingarleyfisumsókn, svo sem sjá má af bréfi bæjarstjóra, dags. 24. ágúst 2004. 
Bókun umhverfis- og skipulagnefndar frá 31. ágúst 2004 ber þess og vitni að réttilega hafi verið litið á erindi kæranda sem fyrirspurn, en altítt er að leitað sé afstöðu byggingaryfirvalda til framkvæmdaáforma áður en ráðist er í gerð kostanaðarsamra fullnaðaruppdrátta, sbr. gr. 12.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Verður að skýra ákvæði 3. og 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga svo að byggingarleyfisumsókn verði að uppfylla lágmarkskröfur um aðaluppdrátt og framkvæmdaáform til þess að umsókn verði tekin til efnislegrar meðferðar.

Sú afstaða sem umhverfis- og skipulagnefnd tók til erindis kæranda fól ekki í sér ákvörðun sem batt endi á meðferð máls, enda liggur fyrir viljayfirlýsing bæjaryfirvalda um að setja fyrirhugaðan bílskúr inn í skipulag í samráði við kæranda.  Hafa bæjaryfirvöld þannig lýst jákvæðri afstöðu til málsins og sama máli gegnir um Húsafriðunarnefnd.  Verður ekki annað séð en að kærandi eigi þess kost að sækja með formlegum hætti um byggingarleyfi fyrir bílskúrnum en fráleitt er að líta svo að fyrir liggi synjun bæjaryfirvalda í málinu.

Úrskurðarnefndin er kærustjórnvald á æðra stjórnsýslustigi.  Hefur nefndin, í ljósi þess, túlkað valdheimildir sínar til samræmis við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga á þann veg að ákvörðunum sem ekki bindi endi á meðferð máls á lægra stjórnsýslustigi verði ekki skotið til nefndarinar.  Verður þeim þætti málsins er varðar afstöðu byggingaryfirvalda til erindis kæranda frá 15. júlí 2004 því vísað frá nefndinni.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 24. janúar 2006 lauk úrskurðarnefndin máli kæranda um deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Er í þeim úrskurði fjallað um meðferð bæjaryfirvalda og Skipulagsstofnunar á skipulagstillögunni sem orðið hafa kæranda að umkvörtunarefni.  Voru þær ákvarðanir sem hann kvartar yfir varðandi skipulagið hluti af afgreiðsluferli þess og hefur úrskurðarnefndin þegar tekið afstöðu til þess að hvaða marki þeim hafi verið áfátt og til hvað niðurstöðu annmarkar á meðferð skipulagstillögunnar leiddu.  Verður ekki fjallað um þau álitaefni að nýju í úrskurði þessum og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni í heild sinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og af öðrum óviðráðanlegum orsökum.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Ásgeir Magnússon

 

107/2005 Brákarbraut

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 5. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2005, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 30. mars 2005 um að veita sveitarfélaginu leyfi til að reisa tengibyggingu á lóðunum nr. 13 og 15 við Brákarbraut í Borgarbyggð.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 22. desember 2005 kærir Pétur Kristinsson hdl., f.h. I, Brákarbraut 11, Borgarbyggð, ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 30. mars 2005 um að veita Borgarbyggð leyfi til að reisa tengibyggingu á lóðunum nr. 13 og 15 við Brákarbraut í Borgarbyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 14. apríl 2005, en leyfi byggingarfulltrúa til framkvæmda samkvæmt hinni kærðu samþykkt var gefið út hinn 20. desember 2005.

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt gerir hann þá kröfu að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við bygginguna þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Byggingarfulltrúa Borgarbyggðar var samdægurs gert viðvart um kæruna og var sveitarfélaginu, sem jafnframt er byggingarleyfishafi, gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum um kæruna og fyrirliggjandi kröfu um stöðvun framkvæmda.  Barst úrskurðarnefndinni greinargerð Borgarbyggðar í málinu hinn 28. desember 2005.  

Málsatvik og rök:  Hinn 4. ágúst 2004 var auglýst tillaga að deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Lá tillagan frammi til kynningar á bæjarskrifstofum Borgarbyggðar til 2. september 2004, en frestur til athugasemda var til 16. sama mánaðar.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kæranda, en á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 5. október 2004 var gerð svofelld bókun:
„Erindi frá bæjarráði þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um framkomnar athugasemdir við deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Nefndin telur að þrátt fyrir innsendar athugasemdir sé ekki þörf á breytingum á deiliskipulaginu.“

Skipulagstillagan mun síðan hafa verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 11. nóvember 2004.

Með bréfi bæjarverkfræðings Borgarbyggðar, dags. 30. nóvember 2004, var skipulagið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.  Gerði stofnunin, með bréfi, dags. 20. desember 2004, verulegar athugasemdir við skipulagið, bæði um form og efni.  Voru þessar athugasemdir teknar til athugunar og breytingar gerðar bæði á uppdrætti skipulagsins og greinargerð að því er helst verður ráðið af málsgögnum, en ekki verður séð að sveitarstjórn hafi fjallað um þessar breytingar.  Var skipulagið, svo breytt, sent að nýju til Skipulagsstofnunar til yfirferðar með bréfi, dags. 2. mars 2005.

Með bréfi, dags. 10. mars 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirra afstöðu sinni að ekki væru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, en benti þó á að gera þyrfti smávægilegar lagfæringar á skipulagsgögnunum.  Auglýsing um gildistöku skipulagsins var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. mars 2005.  Skaut kærandi ákvörðun sveitarstjórnar um framangreint skipulag til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. apríl 2005, og er það kærumál enn til meðferðar hjá nefndinni.  Gerir kærandi þar þær kröfur að skipulagið verði auglýst til kynningar að nýju með áorðnum breytingum, en til vara að ítarleg grenndarkynning fari ella fram á tengi- og viðbyggingu við húsin nr. 13 og 15 við Brákarbraut.

Eins og að framan er rakið skaut kærandi einnig til úrskurðarnefndarinnar, með bréfi, dags. 22. desember 2005, ákvörðun bæjaryfirvalda um að heimila byggingu umdeildrar tengibyggingar, en framkvæmdir við bygginguna voru þá að hefjast.  Krefst kærandi þess að framkvæmdir verði stöðvaðar og styður kröfu sína þeim rökum að ekki hafi verið skorið úr ágreiningi um lögmæti deiliskipulagsins en verulegur vafi leiki á um það hvort heimilt hafi verið að gera breytingar á skipulaginu eftir kynningu þess og samþykkt, sem m.a. heimili umdeilda tengibyggingu, en ekki hafi verið gert ráð fyrir henni í þeirri tillögu sem auglýst hafi verið og honum hafi gefist kostur á að gera athugasemdir við.  Verði því að minnst kosti að stöðva framkvæmdir við bygginguna meðan kæran varðandi deiliskipulagið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu Borgarbyggðar er kröfum kæranda mótmælt og því haldið fram að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og gerð hinna umdeildu ákvarðana um skipulag og byggingarleyfi.  Skipulagið hafi verið auglýst lögum samkvæmt og hlotið lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar, sem ekki hafi lagst gegn auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda eftir að lagfæringar hafi verið gerðar á því í tilefni af athugasemdum stofnunarinnar.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki veriða rakin frekar í bráðbirgðaúrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við ákvörðun sína í þessum þætti málsins.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur nú fyrir verður ekki annað ráðið en að efnisbreytingar hafi verið gerðar á skipulagi því sem liggur til grundvallar hinu umdeilda byggingarleyfi eftir að skipulagið var samþykkt í sveitarstjórn.  Meðal annars virðist byggingarreitur fyrir umdeilda tengi- og viðbyggingu hafa verið færður inn á skipulagsuppdrátt eftir samþykkt hans í bæjarstjórn 11. nóvember 2004.

Það verklag að breyta skipulagi með þessum hætti án atbeina sveitarstjórnar og án auglýsingar eða kynningar sýnist ekki samrýmast málsmeðferðarreglum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um undirbúning og gerð skipulagsákvarðana og eru líkur á að til ógildingar hins kærða skipulags geti komið, a.m.k. hvað varðar byggingarreit umdeildrar tengi- og viðbyggingar.  Eru því umtalsverðar líkur á því byggingarleyfið skorti fullnægjandi stoð í skipulagi og verður af þeim sökum ekki hjá því komist að stöðva framkvæmdir meðan álitaefni um lögmæti byggingarleyfisins eru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru við tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15 í Borgarbyggð, skulu stöðvaðar meðan mál um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis er til meðferðar fyrir nefndinni.

 

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

 

 
_____________________________            ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

36/2005 Brákarbraut

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 24. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2005, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar um samþykki og gildistöku deiliskipulags fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi.

Í málinu er nú til kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 29. apríl 2005 kærir Pétur Kristinsson hdl., f.h. I, Brákarbraut 11, Borgarbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar um samþykki og gildistöku deiliskipulags um „gamla miðbæinn í Borgarnesi“, sbr. auglýsingu sem birtist í Stjórnartíðindum þann 31. mars 2005.

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að deiliskipulagið verði ógilt og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa skipulagið að nýju og til vara að fram fari grenndarkynning vegna viðbyggingar við húsin Brákarbraut 13 og 15.  Þá er þess krafist að engar framkvæmdir sem byggja á hinu samþykkta deiliskipulagi verði leyfðar fyrr en bætt hafi verið úr og að þær ákvarðanir sem teknar hafi verið á grundvelli þess verði ógiltar.

Málavextir:  Hinn 4. ágúst 2004 var auglýst tillaga að deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Lá tillagan frammi til kynningar á bæjarskrifstofum Borgarbyggðar til 2. september 2004, en frestur til athugasemda var til 16. sama mánaðar.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kæranda, en á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 5. október 2004 var gerð svofelld bókun:

„Erindi frá bæjarráði þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um framkomnar athugasemdir við deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Nefndin telur að þrátt fyrir innsendar athugasemdir sé ekki þörf á breytingum á deiliskipulaginu.“

Skipulagstillagan mun síðan hafa verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 14. október 2004 en síðar, eða hinnn 11. nóvember 2004, samþykkti bæjarstjórn þó svör við framkomnum  athugasemdum þar sem fallist var á minni háttar breytingar í tilefni af þeim.

Þrátt fyrir að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi ekki talið þörf á að breyta skipulaginu var fallist á nokkrar breytingar og kemur fram í bréfi bæjarstjóra til kæranda, dags. 19. nóvember 2004, að tekið hafi verið undir ábendingu hans um mörk skipulagssvæðis og að eðlilegt sé að geta í skipulaginu um umferðarétt um lóðina að Brákarbraut 13 að lóð kæranda.  Þá kemur fram í bréfinu að hugmyndir séu uppi um tengibyggingu milli Brákarbrautar 13 og 15 sem meðal annars eigi að þjóna starfsemi Egilsstofu og því ekki óeðlilegt að gert sé ráð fyrir byggingarreit vegna þess auk lýsingar á þeirri starfsemi sem þar sé fyrirhuguð. 

Með bréfi bæjarverkfræðings Borgarbyggðar, dags. 30. nóvember 2004, var umrætt deiliskipulag sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.  Gerði stofnunin, með bréfi, dags. 20. desember 2004, verulegar athugasemdir við skipulagið, bæði um form og efni.  Voru þessar athugasemdir teknar til athugunar og bera málsgögn það með sér að breytingar hafi verið gerðar bæði á uppdrætti skipulagsins og greinargerð, en ekki verður séð að sveitarstjórn hafi fjallað um þær breytingar.  Var skipulagið, svo breytt, sent að nýju til Skipulagsstofnunar til yfirferðar með bréfi, dags. 2. mars 2005.

Með bréfi, dags. 10. mars 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirra afstöðu sinni að ekki væru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, en benti þó á að gera þyrfti smávægilegar lagfæringar á skipulagsgögnunum.  Auglýsing um gildistöku skipulagsins var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. mars 2005.  Skaut kærandi ákvörðun sveitarstjórnar um samþykkt og auglýsingu skipulagsins til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. apríl 2005, svo sem að framan greinir.

Með kæru, dags. 22. desember 2005, krafðist kærandi ógildingar byggingarleyfis fyrir margnefndri tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og15 og krafðist þess jafnframt að framkvæmdir sem þá voru hafnar við bygginguna yrðu stöðvaðar meðan kærumál hans væru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Féllst nefndin á þá kröfu kæranda með rökstuddum úrskurði, uppkveðnum 5. janúar 2006.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að greinargerð sú með deiliskipulaginu, sem kynnt hafi verið og auglýst, sé frá því í maí 2004.  Hafi kærandi fengið hana afhenta á bæjarskrifstofu Borgarbyggðar í tilefni af því að skipulagið var  auglýst.  Til séu að minnsta kosti fjórar útgáfur af greinargerðinni og verði ekki annað séð en það skipulag sem auglýst hafi verið 31. mars 2005 byggi á greinargerð sem dagsett sé í febrúar 2005 og lagfærð í mars 2005.  Þrátt fyrir þessar dagsetningar sé áritun á greinargerðinni um að hún hafi verið samþykkt í nóvember 2004.

Greinargerðin frá því í maí 2004 sem auglýst hafi verið geri hvorki ráð fyrir tengi- né viðbyggingu við húsin Brákarbraut 13 og 15.  Greinargerðin sem öðlast hafi gildi þann 31. mars 2005 geri hinsvegar ráð fyrir bæði tengi- og viðbyggingu við þau hús.  Kæranda sé ekki kunnugt um að sú breyting hafi verið auglýst né að grenndarkynning hafi farið fram.

Rétt sé að taka fram að greinargerð sú sem öðlast hafi gildi þann 31. mars 2005 beri ekki með sér að þær breytingar sem á henni hafi verði gerðar frá upphaflegu greinargerðinni byggi á athugasemdum sem við hana hafi verið gerðar. 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir því að deiliskipulag sé kynnt með uppdrætti og greinargerð.  Tilgangur þess sé sá að þeir sem hagsmuna eigi að gæta geti gert athugasemdir við skipulagsskilmálana.  Sé því ljóst að þeim megi ekki breyta eftir að þeir hafa verið kynntir nema breytingarnar séu auglýstar eða að grenndarkynning fari fram. 
    
Kærandi, sem sé eigandi húseignarinnar að Brákarbrautar 11, telji sig ekki hafa haft tækifæri til að gera athugasemdir við að sú viðbygging sem nefnd sé í síðustu útgáfu skipulagsskilmálanna verði heimiluð við húsin Brákarbraut 13 og 15.  Hann hafi gert athugasemdir við skipulagið með bréfi, dags. 15. september 2004, m.a. varðandi nýtingu lóðarinnar að Brákarbraut 15, en hafi ekki haft ástæðu til að mótmæla viðbyggingu við húsið þar sem hún hafi ekki verið nefnd í greinargerðinni.  Athugasemdum hans hafi verið svarað með bréfi bæjarstjóra Borgarbyggðar, dags. 19. nóvember 2005, þar sem fram komi m.a. að uppi séu hugmyndir um tengibyggingu milli húsanna að Brákarbrautar 13 og 15 án þess að þar hafi verið minnst á viðbyggingu við þau hús.  Virðist upphaflegri greinargerð þannig hafa verið breytt í grundvallaratriðum eftir kynningarauglýsingu og samþykkt bæjarstjórnar, m.a. með þeim afleiðingum að þeir sem hagsmuna hafi átt að gæta hafi ekki getað ekki komið að athugasemdum.  Beri því með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 að auglýsa skipulagið að nýju áður en það öðlist gildi. 

Verði ekki fallist á kröfu kæranda um að skipulagið verði auglýst að nýju styðji hann varakröfu sína þeim rökum að ákvörðun um tengi- og viðbygging við og á milli húsanna að Brákarbraut 13 og 15 feli í sér breytingu á því deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Borgarbyggðar þann 11. nóvember 2004 og þurfi því a.m.k. að fara fram ítarleg grenndarkynning, sbr. 26. gr. laga nr. 73/1997, eigi breyting á þeim að öðlast gildi.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er kröfum kæranda mótmælt og því haldið fram að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og gerð hinnar umdeildu ákvörðunar.  Skipulagið hafi verið auglýst lögum samkvæmt og hlotið lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar, sem ekki hafi lagst gegn auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda eftir að lagfæringar hafi verið gerðar á því í tilefni af athugasemdum stofnunarinnar.

Á fundi bæjarráðs Borgarbyggðar 29. júlí 2004 hafi verið samþykkt að sveitarfélagið skipaði fulltrúa í byggingarnefnd fyrir Landnámssetur í Borgarnesi, en fram hefðu komið hugmyndir um að setrið yrði hýst í húsi sveitarfélagsins að Brákarbraut 15.  Nefndin hafi gert það að tillögu sinni að byggð yrði tengibygging á milli húsanna að Brákarbraut 13 og 15, en eigendur hússins nr. 13 hefðu tekið jákvætt í þá tillögu.  Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar þann 9. desember 2004 hafi verið samþykkt að veita fjármagni til byggingar tengibyggingar á milli Brákarbrautar 13 og 15.  Gengið hafi verið frá samkomulagi eigenda húsanna um tengibygginguna í mars 2005.  Þá hafi umhverfis- og skipulagsnefnd Borgarbyggðar samþykkt bygginguna, en það hafi verið var gert á fundi nefndarinnar 30. mars 2005.  Einnig hafi Húsafriðunarnefnd veitt umsögn um teikningar að byggingunni og hafi nefndin talið að skálinn raskaði ekki götumyndinni og væri í sátt við gömlu húsin sem fyrir væru auk þess sem hann myndi styðja við starfsemi í báðum húsum, en slíkt stuðlaði að varðveislu húsanna.

Bæjaryfirvöld telji að breytingar á deiliskipulagstillögunni frá því að hún hafi verið auglýst og þar til hún hafi verið staðfest hafi verið unnar í samræmi við skipulagslög nr. 73/1997.  Óskað hafi verið eftir leiðbeiningum Skipulagsstofnunar við þá vinnu, m.a. hvort mögulegt væri að setja umræddan byggingarreit inn á skipulagsuppdrátt.  Telji sveitarfélagið að ekki hafi þurft að auglýsa skipulagstillöguna að nýju þó svo að gerðar hafi verið á henni minniháttar breytingar og lagfæringar.  Með bréfi bæjarstjóra, dagsettu 19. nóvember 2004, til kæranda hafi verið vakin athygli á því að áformað væri að reisa tengibyggingu á milli Brákarbrautar 13 og 15.  Hlutverk byggingarinnar sé að tengja þá safnastarfsemi sem fyrirhuguð sé að Brákarbraut 15 við veitingarekstur í húsinu að Brákarbraut 13.  Bæjaryfirvöld telji að byggingin muni falla vel að umhverfinu enda sé umsögn Húsafriðunarnefndar um hana afar jákvæð.  Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda í Borgarbyggð að ekki þyrfti að fara með þessa breytingu á skipulagstillögunni í sérstaka grenndarkynningu, enda um óverulega breytingu á þegar samþykktu skipulagi að ræða.  Þá verði ekki heldur séð að umrædd breyting á skipulaginu raski hagsmunum kæranda sem eiganda hússins að Brákarbraut 11. 

Bæjaryfirvöld í Borgarbyggð telja að öll vinna við skipulagstillöguna hafi farið fram í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997.  Þá sé ljóst að með bréfi sínu dagsettu 10. mars 2005 geri Skipulagsstofnun ekki athugasemdir við að samþykkt skipulagsins sé auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Með vísan til ofanritaðs telji bæjaryfirvöld að hafna beri kærunni og þar með öllum kröfum kæranda vegna deiliskipulags fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki veriða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 12. janúar 2006 að viðstöddum kæranda og fulltrúum Borgarbyggðar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa skipulagið að nýju.  Til vara er þess krafist að fram fari grenndarkynning vegna viðbyggingar við húsin Brákarbraut 13 og 15.  Eru kröfur kæranda studdar þeim rökum að undirbúningi og gerð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið verulega áfátt og að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við meðferð málsins.

Fallast verður á með kæranda að málsmeðferð sveitarstjórnar við gerð skipulagsins hafi að ýmsu leyti verið áfátt.  Verður m.a. ekki ráðið af málsgögnum hvenær fallist hafi verið á þær breytingar sem gerðar voru í tilefni af athugasemdum kæranda þótt fyrir liggi upplýsingar um svör við athugasemdum sem gefi nokkra vísbendingu þar um.  Verður og að átelja að svo virðist sem skort hafi á að gögn sem send voru Skipulagsstofnun til meðferðar væru árituð um samþykki sveitarstjórnar og gætir misræmis milli þeirra gagna annars vegar og gagna sveitarstjórnar hins vegar í því efni.

Þrátt fyrir þessa annmarka verður að telja að breytingar þær sem gerðar voru í tilefni af athugasemdum kæranda, þar sem komið var til móts við sjónarmið hans, hafi rúmast innan þeirra marka sem telja verður að sveitarstjórn hafi með stoð í 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til að gera breytingar á skipulagstillögu í tilefni af framkomnum athugasemdum, en ráðið verður af bréfi bæjarstjóra til kæranda, dags. 19. nóvember 2004, að ákvörðun um breytingar þessar hafi legið fyrir áður en skipulagsákvörðunin var send Skipulagsstofnun til afgreiðslu með bréfi hinn 30. nóvember 2004.  Verður ekki fallist á að með umræddum breytingum hafi skipulagstillögunni verði breytt í grundvallaratriðum þannig að skylt hafi verið að auglýsa hana að nýju samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.  Verður því ekki fallist á með kæranda að ógilda beri hið umdeilda skipulag af þessum sökum. 

Ekki verður heldur fallist á að ógilda beri skipulagið vegna þeirrar skerðingar sem með því er gerð á lóð kæranda.  Leiðir af staðháttum og stærð lóðarinnar að umrædd skerðing verður ekki talin fela í sér ólögmætt inngrip í rétt kæranda, enda er honum tryggður réttur til skaðabóta fyrir það tjón sem hann kann að verða fyrir af þessum sökum, sbr. ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Eftir stendur að ákvörðun um stærð og fyrirkomulag tengi- og viðbyggingar að Brákarbraut 13 og 15, og um byggingarreit hennar, virðist fyrst hafa verið tekin eftir að sveitarstjórn samþykkti skipulagstillöguna og sendi Skipulagsstofnun til afgreiðslu.  Í þessu felst að efnisbreyting var gerð á skipulagstillögunni án atbeina sveitarstjónar og virðist bæði greinargerð og uppdrætti hafa verið breytt eftir samþykkt sveitarstjórnar.  Samrýmist slík málsmeðferð ekki ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um undirbúning og gerð skipulagsáætlana og er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki sé í hinu umdeilda skipulagi fullnægjandi heimild fyrir umdeildri tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15.

Telja verður að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda umræddri breytingu, bæði vegna sjónrænna áhrifa og aukinnar umferðar, sem gera verður ráð fyrir að fylgi auknu byggingarmagni á svæðinu.  Verður krafa kæranda um ógildingu því tekin til úrlausnar en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki koma til álita að ógilda skipulagið í heild heldur verður einugis leyst úr kröfu kæranda að því er tekur til tengi- og viðbyggingarinnar að Brákarbraut 13 og 15.  Þykir rétt, vegna réttaráhrifa auglýsingar um skipulagið í B-deild Stjórnartíðinda, að ógilda þá heimild sem er í auglýstu skipulagi til byggingar tengi- og viðbyggingar að Brákarbraut 13 og15 í Borgarnesi.

Engin efni eru til að fallast á kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin kveði á um að fram fari grenndarkynning á þeim hluta skipulagsins sem sætir ógildingu samkvæmt úrskurði þessum og verður þeirri kröfu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu skipulagsákvörðunar er hafnað að öðru leyti en því að felld er úr gildi heimild fyrir tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15 í Borgarbyggð, sem gert er ráð fyrir í auglýstu skipulagi.  Kröfu kæranda um að fram fari grenndarkynning vegna viðbyggingar við húsin Brákarbraut 13 og 15 er vísað frá. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson      

 

 
_____________________________            ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

63/2005 Barmahlíð

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 5. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2005, kæra íbúa að Miklubraut 50 og 52 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks, gerð kvista og svala og að taka í notkun rishæð (3. hæð) í húsinu að Barmahlíð 9 í Reykjavík ásamt breytingum á svölum fyrstu og annarrar hæðar og gerð kjallarainngangs á norðurhlið hússins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. ágúst 2005, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kæra J, K, F, E, E, B og H, íbúar að Miklubraut 50 og 52, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks, gerð kvista og svala og að taka í notkun rishæð (3. hæð) í húsinu að Barmahlíð 9 í Reykjavík ásamt breytingum á svölum fyrstu og annarrar hæðar og gerð kjallarainngangs á norðurhlið hússins.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 7. júlí 2005. 

Skilja verður erindi kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinu kærða byggingarleyfi.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. febrúar 2005 var tekin fyrir umsókn íbúðareiganda að Barmahlíð 9 í Reykjavík, þar sem sótt var um leyfi til þess að hækka þak, byggja kvisti og svalir og taka í notkun rishæð (3. hæð) hússins á lóðinni nr. 9 við Barmahlíð.  Jafnframt var sótt um að breyta svölum á fyrstu og annarri hæð og gera kjallarainngang á norðurhlið hússins.  Umsókninni fylgdi samþykki meðeigenda umræddrar fasteignar fyrir umbeðnum breytingum.  Var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem ákvað að grenndarkynna erindið fyrir hagsmunaaðilum að Barmahlíð 7, 8, 10, 11 og 12 og Miklubraut 48, 50 og 52.  Að lokinni grenndarkynningu bárust athugasemdir frá 11 húseigendum og leigutökum að Miklubraut 50 og 52, sem mótmæltu umsóttri hækkun hússins að Barmahlíð 9 og gerð svala á rishæð.

Að lokinni grenndarkynningu var erindinu vísað til skipulagsráðs sem tók það fyrir á fundi hinn 6. apríl 2005 og lá þá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda við grenndarkynningu umsóknarinnar.  Gerði skipulagsráð ekki athugasemd við að umsótt byggingarleyfi yrði veitt og vísaði erindinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsóknina hinn 5. júlí 2005.

Var þeim, sem gert höfðu athugasemdir við grenndarkynninguna, tilkynnt um lyktir málsins og skutu kærendur veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja heimilaða hækkun hússins að Barmahlíð 9 og gerð svala á rishæð hafa í för með sér óásættanlega röskun á grenndarhagsmunum þeirra.  Útsýni til suðurs að Öskjuhlíð muni skerðast og skuggavaps gæta á lóðum þeirra.  Áskilji kærendur sér rétt til skaðabóta verði af heimiluðum framkvæmdum.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfu kærenda verði hafnað.

Á það er bent að ekki sé fyrir hendi deiliskipulag á svæðinu og hafi því farið fram grenndarkynning á umræddri byggingarleyfisumsókn í samræmi við ákvæði laga 73/1997 og þeim sem hagsmuna hafi átt að gæta gefinn kostur á að tjá sig um breytingarnar.

Hafa verði í huga að borgir þróist og taki breytingum.  Fasteignaeigendur geti því vænst þess að útsýni og birtuflæði geti breytst í þéttri byggð.  Í hverfaskipulagi fyrir borgarhluta 3 í kaflanum um Hlíðar sé m.a. tekið fram að leyfa megi kvisti þar sem þeir falli vel að húsi og nánasta umhverfi.  Ekki séu til skilmálar um hækkun rishæða og kvisti í Hlíðarhverfi, en höfð hafi verið hliðsjón af rammaskilmálum fyrir Norðurmýri vegna svipaðra húsagerða, en þar sé gert ráð fyrir leyfðum þakhalla allt að 45 gráðum og hámarkshæð mænis 3,6 metra yfir steyptri plötu. 

Samþykktar hafi verið hækkanir á húsum í Hlíðunum á grundvelli fyrrgreindra viðmiðana en í umdeildu byggingarleyfi sé gert ráð fyrir um 30 sentimetra lægri mænishæð en skilyrt hámarkshæð samkvæmt greindum skilmálum auk þess sem kvistir séu taldir vera í samræmi við gerð hússins.  Því verði ekki talið að skipulagssjónarmið mæli gegn fyrirhuguðum breytingum að Barmahlíð 9. 

Útsýnisskerðing sú sem fylgi hinum samþykktu breytingum geti ekki talist meiri en vænta megi í borgarumhverfi.  Telja verði að hagsmunir byggingarleyfishafa séu meiri, að geta framkvæmt umdeildar breytingar, en hagsmunir kærenda vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar.

Málsmeðferð hinnar kærðu byggingarleyfisumsóknar hafi í engu verið ábótavant og séu ekki efni til þess að fella það úr gildi.  Telji aðilar sig hins vegar geta sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt megi búast við hjá fasteignaeigendum í þéttbýli geti þeir átt bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en það álitaefni falli utan verkahrings úrskurðarnefndarinnar.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að við kaup hans á hluta fasteignarinnar að Barmahlið 9 á árinu 2003 hafi honum verið tjáð að samþykki byggingarfulltrúa lægi fyrir á beiðni fyrri eiganda um að hækka þak hússins.  Síðar hafi útlit þaks verið hannað í samráði við aðra eigendur fasteignarinnar og teikningar lagðar fram sem hafi verið samþykktar og mál þetta snúist um. 

Samskonar breytingar og hér um ræði hafi verið heimilaðar um langan aldur í Hlíðahverfi og fordæmi þess mörg í nágrenni húss byggingarleyfishafa.  Nú sé verið að gera sambærilegar breytingar á tveimur húsum í innan við 100 metra fjarlægð frá Barmahlíð 9.  Hafi mænishæð húsa á umræddu svæði því sætt breytingum í tímans rás.  Núverandi mænishæð og þakhalli umrædds húss sé lítill og þakleki verið vandamál af þeim sökum og sé fyrirhuguð framkvæmd, m.a. til þess að bæta þar úr. 

Bent sé á að talsverð fjarlægð sé milli Barmahlíðar 9 og húsa kærenda sem leiði til þess að grenndaráhrif heimilaðra breytinga séu óveruleg.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér staðhætti á vettvangi.

Niðurstaða:  Ekki er til að dreifa deiliskipulagi er tekur til umræddrar byggðar sem reist var um miðbik síðustu aldar.  Voru umsóttar breytingar á fasteigninni að Barmahlíð 9 grenndarkynntar skv. 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Bera kærendur fyrir sig að heimiluð hækkun hússins og gerð svala á rishæð raski hagsmunum þeirra með skerðingu útsýnis og skuggavarpi. 

Með hinu kærða byggingarleyfi hækkar mænir umrædds húss um 1,8 metra vegna heimilaðrar rishæðar og þak verður nokkuð umfangsmeira en fyrir var.  Lóðir kærenda að Miklubraut 50 og 52 liggja norðanvert við lóð byggingarleyfishafa og stendur bílskúr við norðurmörk lóðarinnar að Barmahlíð 9 á móts við Miklubraut 50.  Fjarlægð milli hússins að Barmahlíð 9 og húsa kærenda er á bilinu 25 til 28 metrar og eru um 10 metrar frá húsi byggingarleyfishafa að umræddum lóðamörkum.  Á svæðinu er að finna hús, sambærileg húsinu að Barmahlíð 9, með rishæð sem þriðju hæð og því fordæmi fyrir nýtingu lóða með þeim hætti sem hið kærða byggingarleyfi heimilar. 

Í ljósi staðhátta verður ekki talið að aukið skuggavarp, er fylgir umdeildri hækkun og breytingum hússins að Barmahlíð 9, rýri svo nýtingu lóða kærenda eða skerði útsýni að varði ógildingu hins kærða leyfis, enda verður heimiluð hæð og umfang hússins ekki meiri en víða er á svæðinu.  Eru því ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005, er borgarráð staðfesti hinn 7. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun þaks, gerð kvista og svala og að taka í notkun rishæð í húsinu að Barmahlíð 9 í Reykjavík ásamt breytingum á svölum fyrstu og annarrar hæðar og gerð kjallarainngangs á norðurhlið hússins.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Aðalheiður Jóhannsdóttir