Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2006 Unnarbraut

Með

Ár 2007, föstudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2006, kæra á samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness um að veita leyfi til að byggja við húsið að Unnarbraut 15 á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. september 2006, er barst úrskurðarnefndinni 1. október s. á., kærir E f.h. eigenda hússins að Unnarbraut 13, Seltjarnarnesi þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 31. ágúst 2006 að veita leyfi til að byggja við húsið á lóðinni nr. 15 að Unnarbraut á Seltjarnarnesi.  Á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september 2006 var ofangreind afgreiðsla samþykkt.   

Kærendur krefjast þess að felld verði úr gildi samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar. Með bréfi, dags. 6. október 2006, var þess jafnframt krafist að fyrirhugaðar framkvæmdir yrðu stöðvaðar.  Ekki kom til þess að framkvæmdir hæfust við viðbygginguna.  Hefur krafa kærenda um stöðvun framkvæmda því ekki verið tekin til úrlausnar.

Málavextir:  Á lóðinni að Unnarbraut 15 er tvíbýlishús á tveimur hæðum og er grunnflötur hússins 137,34 fermetrar.  Birt flatarmál fyrstu hæðar er 116,4 fermetrar og annarrar hæðar 132,8 fermetrar.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 11. maí 2006 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja við tilgreint hús þannig að heimilt yrði að stækka það í átt frá götu og þar með hvora hæð um u.þ.b. 30 fermetra.  Samþykkt var að senda málið í grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997. 

Kærendur eru eigendur að raðhúsum á lóðinni númer 13 við Unnarbraut og eru þau merkt 13a, 13b og 13c talið frá götu.  Snúa stofur, sólskálar og litlir garðar suðvestan húsanna að húsi byggingarleyfishafa að Unnarbraut 15.  Gerðu kærendur athugasemdir við fyrirhugða viðbyggingu sem þeir töldu rýra gæði húseigna sinna verulega.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 13. júlí 2006 og niðurstaða grenndarkynningar kynnt.  Málið var enn tekið fyrir hjá nefndinni hinn 17. ágúst en afgreiðslu frestað og samþykkt að skoða málið nánar á vettvangi.  Á fundi nefndarinnar hinn 31. ágúst 2006 var umsóknin loks afgreidd með eftirfarandi hætti: „Umsóknin samþykkt. Byggingarfulltrúa jafnframt falið að svara athugasemd sem borist hafði við grenndarkynningu“.   

Hafa kærendur kært samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er bent á að ekki sé til deiliskipulag að svæðinu sem heimili að byggt sé við húsið að Unnarbraut 15.  Er vísað til þess að kærendur hafi mótmælt framkvæmdum vegna viðbyggingarinnar með bréfi, dags. 14. júní 2006, en ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda þeirra við vinnslu málsins.  Telja kærendur að með fyrrgreindri ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar hafi verið gengið mjög gróflega á rétt þeirra og lífsgæði og verðgildi eignar þeirrar verið rýrt verulega.  Kærendur bendi sérstaklega á að óbætanleg skerðing verði á birtu við miðhúsið nr. 13b og útsýni frá því til hafs hverfi algjörlega og verði framvegis ekkert nema að vegg hússins að Unnarbraut 15.
 
Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að þar sem hvorki sé fyrir hendi deiliskipulag að svæðinu né um umfangsmikla viðbyggingu að ræða eigi grenndarkynning samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við.  Ekki sé um að ræða breytingu á notkun hússins og viðbyggingin falli vel að húsinu og yfirbragði hverfisins.  Bent sé á að núverandi nýtingarhlutfall lóðarinnar að Unnarbraut 15 sé lágt miðað við hverfið allt og aðliggjandi lóðir eða 0,37 en verði 0,44 eftir hina umdeildu stækkun, sem sé innan viðmiðunarmarka lóða í nágrenninu.  Viðbyggingin verði sjö metra frá lóðarmörkum Unnarbrautar 13 og birtuskerðing óveruleg af hennar völdum.  Þá telji bæjaryfirvöld að útsýnisskerðing vegna viðbyggingarinnar verði ekki meiri en búast megi við í þéttbýli. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum og sjónarmiðum kærenda mótmælt.  Vísar byggingarleyfishafi til þess að hvorki sé til deiliskipulag fyrir lóð hans né lóð kærenda.  Því sé mótmælt að ekki hafi verið til staðar heimild til að stækka hús hans en öll leyfi hafi verið fengin til stækkunar þess.  Hafi hann og byggingaryfirvöld farið í öllu eftir þeim lagareglum og reglugerðum sem hér gildi.  Grenndarkynning hafi átt sér stað og viðkomandi aðilum verið leyft að neyta andmælaréttar síns.  Nægilegt hafi verið að grenndarkynna málið en um óverulega breytingu sé að ræða á byggðamynstri hverfisins. Vísi byggingarleyfishafi máli sínu til stuðnings í  dóm Hæstaréttar nr. 114/2001 og úrskurð úrskurðarnefndarinnar i máli nr. 80/2005.  Þá sé á það bent að kærendur hafi marg oft óskað eftir því að fá að stækka hús sín og hafi það verið samþykkt.

Því sé andmælt að umrædd viðbygging valdi útsýnisskerðingu í íbúð 13a enda sé það ekki til staðar en jafnframt sé því andmælt að útsýnisskerðing verði í íbúð 13c þar sem viðbyggingin taki mið af byggingarlínu á aðalbyggingu hússins nr. 17, en sú lína marki útsýni úr þessari íbúð.  Byggingarleyfishafi neiti því ekki að viðbyggingin hafi áhrif á núverandi útsýni úr íbúð 13b en telji að það byggist m.a. á því að ekki hafi verið gerðar eðlilegar breytingar á garðinum við húsið nr. 15, en yrði svo gert myndi núverandi útsýni af neðri hæð hússins nr. 13b skerðast með sambærilegum hætti og þá yrði ekkert útsýni af neðri hæð þess húss.   Hús kærenda sé fjórða hús frá sjávarlínu og einkennilegt sé ef slík staða geti hindrað hógvær áform íbúa í nærliggjandi húsum til framkvæmda.

Byggingarleyfishafi bendi á að hafa verði í huga að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, eða aðrar breytingar, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. 

Þá telji byggingarleyfishafi að taka beri mið af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beita jafnræðissjónarmiðum og sé í því sambandi bent á að byggt hafi verið við allar þrjár íbúðir hússins að Unnarbraut 13 á undanförnum árum.  Athygli sé vakin á því að nýtingarhlutfall lóðar byggingarleyfishafa sé mun lægra en lóða í kring.  Eftir stækkun muni nýtingarhlutfallið verða 0,41 en lóðin sé 900 fermetrar eða 11% stærri en lóð kærenda.  Nýting lóðar kærenda sé 0,58 og því um 100 fermetra eða 21% meira byggingarmagn þar en á lóðinni að Unnarbraut 15.

Byggingarleyfishafi bendi á að við útlitshönnun og útfærslu á viðbyggingu hafi verið lögð rík áhersla á að heildarmynd hússins héldist og væri í fullu samræmi við upphaflegt útlit þess.  Viðbyggingin hafi engin áhrif á götumynd og snúi frá götu í átt að bílskúr og stórum garði.  Ytri mörk stækkunar hafi verið miðuð við samsvarandi línu á aðalbyggingu. Þá sé vitnað til orða byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi þess efnis að breyting á notkun hússins og viðbygging falli vel að núverandi húsi og yfirbragði. 

Að lokum sé því haldið fram að sjónarmið um athafnafrelsi leiði til þess að heimila verði stækkun húss á lóðinni enda sé um hóflega stækkun að ræða og nýtingarhlutfall eftir stækkun verði eftir sem áður minna en á lóð kærenda.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 4. september 2007 að viðstöddum fulltrúum kærenda, byggingarleyfishafa og bæjaryfirvalda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 31. ágúst 2006, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september 2006,  um að veita leyfi til að byggja við húsið á lóðinni nr. 15 að Unnarbraut á Seltjarnarnesi. 

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og kusu bæjaryfirvöld að neyta undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga með síðari breytingum, sem og 9. og 43. gr. sömu laga, verður byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri meginreglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna, um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra bæri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segir að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingar séu óverulegar.

Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til þess hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði og hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir.

Í hinu umdeilda tilviki er um að ræða stækkun húss sem nemur rúmlega 27% af heildarflatarmáli þess.  Sú hlið hússins sem snýr að eignum kærenda lengist til suðurs um 3,8m en því til viðbótar er gert ráð fyrir 1,0m breiðum steyptum stiga meðfram nýjum suðurgafli hússins frá lóð og upp að útgangi á 2. hæð. 

Úrskurðarnefndin telur að fyrirhuguð viðbygging muni hafa veruleg grenndaráhrif á eignir kærenda, einkum húsið nr. 13b við Unnarbraut.  Lutu athugasemdir kærenda við grenndarkynningu raunar einkum að þessum áhrifum, svo sem að skerðingu á birtu og útsýni og auknu skuggavarpi.  Ekkert var hins vegar að þessum athugasemdum vikið í svari byggingarfulltrúa f.h. skipulags- og mannvirkjanefndar til kærenda og verður ekki ráðið af málsgögnum að nein athugun hafi verið gerð af hálfu byggingaryfirvalda á meintum grenndaráhrifum byggingarinnar.  Bar þó nauðsyn til þess að gera slíka athugun, m.a. til þess að unnt væri að meta hvort nýbyggingin hefði einungis í för með sér óverulegar breytingar.

Með hliðsjón af framansögðu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á að áhrif umdeildar byggingar, sem felur í sér 27% stækkun húss byggingarleyfishafa, geti talist óveruleg.  Voru því ekki skilyrði til þess að veita hið umdeilda byggingarleyfi án þess að unnið væri deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Fær þessi niðurstaða einnig stoð í greinargerð aðalskipulags Seltjarnarness, sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 16. maí 2006, þar sem segir í umfjöllun um þéttingu byggðar í eldri hverfum að stefnt sé að því að á einstökum svæðum verði unnið deiliskipulag þar sem mörkuð verði stefna varðandi þéttingu byggðar.

Hvað varðar tilvísun byggingarleyfishafa til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 80/2005 tekur nefndin fram að í því máli var deilt um breytingu á deiliskipulagi sem gerð var að undangenginni auglýsingu samkvæmt 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og því ekki um sambærilegt úrlausnarefni að ræða við það sem hér er til meðferðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 31. ágúst 2006, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september 2006, um að veita leyfi til að byggja við húsið á lóðinni nr. 15 að Unnarbraut á Seltjarnarnesi. 

     

_________________________________          
        Hjalti Steinþórsson                          

 

_____________________________                  ____________________________
            Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir

64/2006 Þvervegur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2006, kæra eiganda fasteignar að Vesturhúsum 2, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. febrúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir þjónustubyggingu við Gufuneskirkjugarð með kirkju, kapellu, bænahúsi, bálstofu, líkhúsi og starfsmannaaðstöðu, að hluta til á tveimur hæðum, ásamt einnar hæðar erfidrykkjuhúsi á lóðinni nr. 1-7 við Þverveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. ágúst 2006, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir S, eigandi fasteignar að Vesturhúsum 2, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. febrúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir þjónustubyggingu við Gufuneskirkjugarð með kirkju, kapellu, bænahúsi, bálstofu, líkhúsi og starfsmannaaðstöðu, að hluta til á tveimur hæðum, ásamt einnar hæðar erfidrykkjuhúsi á lóðinni nr. 1-7 við Þverveg. 

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og var jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda.  Ekki þótti tilefni til að taka stöðvunarkröfu kæranda til úrskurðar þar sem ekki var fyrirhugað að hefja framkvæmdir við heimilaða bálstofu sem kærandi setur einkum fyrir sig.

Málsatvik og rök:  Byggingarfulltrúinn í Reykjavík veitti byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hinn 28. febrúar 2006 að undangenginni umsókn Kirkjugarða Reykjavíkur.   Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 2. mars 2006.  Hinn 11. júlí 2006 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn byggingarleyfishafa um að skipta byggingu umræddrar þjónustubyggingar Gufuneskirkjugarðs í áfanga þannig að fyrsti áfangi yrði bygging starfsmannahúss með sorpgeymslu og rafmagnsbílageymslu.  Var byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 síðan gefið út hinn 20. júlí 2006 fyrir framkvæmdum skv. fyrsta áfanga verksins.

Kærandi bendir á að ekki hafi farið fram grenndarkynning eða umhverfismat á líkbrennslu þeirri sem fyrirhuguð sé inni í miðri íbúðarbyggð, innan við 800 metra frá grunnskóla, tveimur barnaheimilum, opinni sundlaug, keppnis- og æfingavöllum fyrir knattspyrnu, íþróttahúsi og elli- og hjúkrunarheimili.  Veruleg sjónmengun verði af fyrirhuguðum byggingum sem muni blasa við úr stofugluggum nágranna.  Þá muni fylgja starfseminni reyk- og lyktarmengun.  Furðu veki staðsetning duftgarðs á dýrustu byggingarlóð Reykjavíkur og að flytja eigi lík til brennslu í Grafarvog og síðan til baka, í stað þess að finna hvoru tveggja stað í útjaðri byggðar og spara útfararkostnað.  Jafnframt megi benda á tækniframfarir í nágrannalöndum þar sem lík séu frostþurrkuð og síðan duftuð.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að umdeildar framkvæmdir eigi stoð í deiliskipulagi Gufuneskirkjugarðs sem öðlast hafi gildi á árinu 2000.  Fullyrðingum um sjón-, lyktar- og reykmengun sé vísað á bug en bálstofur séu algengar í þéttbýli erlendis og mengun frá þeim sé hverfandi.  Raunar leiki vafi á um það hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu enda sé fasteign hans í nokkurri fjarlægð frá fyrirhuguðum mannvirkjum.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að ákvarðanir Reykjavíkurborgar varðandi umdeild mannvirki standi óraskaðar.  Kæran sé of seint fram kominn en kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Breyting á deiliskipulagi Grafarvogskirkjugarðs hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. janúar 2006 og byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hafi verið samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 28. febrúar sama ár.  Að öðru leyti sé vísað til þess að kærandi hafi ekki fært fram efnisleg rök fyrir ógildingarkröfu sinni.

Niðurstaða:  Byggingarleyfi samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir starfsmannahúsi með sorpgeymslu og bílgeymslu var gefið út hinn 20. júlí 2006 og hafa framkvæmdir því ekki hafist fyrr en eftir þann tíma.  Eins mánaðar kærufrestur samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga reiknast frá þeim tíma sem aðila var eða mátti vera ljóst að hin kærða ákvörðun var tekin.  Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið tilkynnt um veitingu umdeilds byggingarleyfis á sínum tíma og gat honum því ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrr en framkvæmdir hófust eftir 20. júlí 2006.  Verður af þessum sökum ekki fallist á að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 10. ágúst 2006, hafi borist að liðnum kærufresti.

Með hinni kærðu ákvörðun frá 28. febrúar 2006 var veitt leyfi fyrir tilteknum mannvirkjum við Gufuneskirkjugarð.  Síðar var samþykkt umsókn byggingarleyfishafa um að skipta framkvæmdum upp í áfanga og með útgáfu byggingarleyfisins hinn 20. júlí 2006 mátti hefja byggingu fyrrgreinds starfsmannahúss.  Þessi bygging, sem mun vera á einni hæð, verður í töluverðri fjarlægð frá fasteign kæranda sem stendur mun hærra í landi en hún. Eins og aðstæður eru getur umrædd bygging ekki skert útsýni frá fasteign kæranda eða snert grenndarhagsmuni hans með öðrum hætti.  Verður kærandi því ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna byggingarleyfis nefndrar byggingar.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins að öðrum skilyrðum uppfylltum.  Í 2. mgr. ákvæðisins er heimilað að veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda þegar sérstaklega stendur á en leyfið takmarkast þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.  Eins og áður er að vikið takmarkaðist hið útgefna byggingarleyfi við þann hluta heimilaðra mannvirkja sem þar eru tilgreind. 

Hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan árs frá staðfestingu sveitarstjórnar fellur staðfestingin úr gildi samkvæmt 5. mgr. 44. gr. laganna.  Staðfesting borgarráðs hinn 2. mars 2006 á afgreiðslu byggingarfulltrúa um veitingu byggingarleyfis fyrir mannvirkjum við Gufuneskirkjugarð er því brott fallin að öðru leyti en því sem útgefið byggingaleyfi frá 20. júlí 2006 tekur til.  Hefur kærandi af þeim sökum ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti þess hluta byggingarleyfisákvörðunarinnar.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður máli þessu í heild vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

 

96/2006 Vatnsmýri

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 96/2006, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 varðandi austursvæði Vatnsmýrar í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2006, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir A, f.h. stjórnar ByggáBIRK, Skýli 21, Fluggörðum, Reykjavíkurflugvelli, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 varðandi austursvæði Vatnsmýrar í Reykjavík.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu afgreiðslu.

Málsatvik og rök:  Hin kærða aðalskipulagstillaga fólst meðal annars í því að landnotkun á hluta austursvæðis Vatnsmýrarinnar var breytt og byggingarsvæði milli flugvallar og Öskjuhlíðar stækkað til suðurs um 20 hektara.  Þá var gert ráð fyrir samgöngumiðstöð og lóð fyrir Háskólann í Reykjavík á svæðinu.  Skipulagsráð samþykkti tillöguna hinn 27. september 2006 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 5. október sama ár.  Umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulagsbreytinguna hinn 18. maí 2007 og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 22. maí 2007.

Skírskotar kærandi til þess að fjöldi mótmæla við umdeilda skipulagstillögu, sem hafi byggst á framtíðarhorfum Reykjavíkurflugvallar og flugstarfsemi þar, hafi verið virtur að vettugi.  Telja verði að niðurstaða í málinu hafi verið fyrirfram gefin í samræmi við pólitíska stefnu um brotthvarf flugvallarins úr Vatnsmýrinni.     

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
                              Hjalti Steinþórsson                          

 

_____________________________          ___________________________          Þorsteinn Þorsteinsson                               Aðalheiður Jóhannsdóttir
                                      

 

43/2005 Kirkjustétt

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 43/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Kirkjustétt 36, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. mars 2005, um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á gluggum, klæðningu útveggja og þaks raðhúsanna að Kirkjustétt 36-40 og breytingu á innra skipulagi húsanna að Kirkjustétt 38 og 40. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. maí 2005, kærir J, eigandi fasteignarinnar að Kirkjustétt 36 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. mars 2005, að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á gluggum, klæðningu útveggja og þaks raðhúsanna að Kirkjustétt 36-40 og breytingu á innra skipulagi húsanna að Kirkjustétt 38 og 40.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 19. maí 2005.  Verður að skilja erindi kæranda svo að hann geri þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærandi, ásamt þáverandi eiginkonu sinni, hafi eignast raðhúsið að Kirkjustétt 36 með kaupsamningi, dags. 2. september 2002, en fyrr á því ári hafði farið fram fokheldisúttekt á húsnæðinu.  Húsnæðinu átti að skila fullfrágengnu að utan en rúmlega fokheldu að innan og átti afhendingardagur að vera hinn 15. september 2002 en frágangi átti að vera lokið vorið 2003.  Deilur komu upp milli kæranda og verktakans sem byggði og seldi umrædda fasteign vegna meintra galla á hinni seldu eign og frávika varðandi  frágang fasteignarinnar frá skilalýsingu og samþykktum teikningum húss og lóðar.  Eigandi byggingarfyrirtækisins og byggingarstjóri raðhúsanna er eigandi raðhússins að Kirkjustétt 40. 

Í júní 2003 var dómkvaddur matsmaður til þess að meta meinta galla á fasteigninni að Kirkjustétt 36.  Kærandi mun hafa kvartað við byggingarfulltrúa vegna galla og vanefnda byggingaraðila hússins og var framkvæmd stöðuúttekt á raðhúsunum að Kirkjustétt 36-40 í júnímánuði árið 2004.  Í kjölfar hennar var byggingaraðila gert að sækja um byggingarleyfi fyrir breytingum frá samþykktum teikningum sem gerðar höfðu verið á byggingartíma raðhúsanna.  Var sótt um þær breytingar ásamt færslu sorpgeymslna á lóð og gerð garðtækjaskúrs og skjólveggja milli raðhúsanna í ágústmánuði 2004 að undangenginni kynningu á umsókninni fyrir eigendum raðhússins að Kirkjustétt 36 sem lögðust gegn henni.  Veitti byggingarfulltrúi leyfi fyrir þegar gerðum breytingum hinn 1. mars 2005 og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir. 

Aflað hefur verið gagna í málinu sem leiða í ljós að kærandi gerði samkomulag við ábyrgðartryggjanda byggingarstjóra við byggingu raðhúss hans um bætur að fjárhæð kr. 3.613.146,- í desember 2005 vegna annmarka á hinni seldu eign.  Þá var með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-243/2006, uppkveðnum 29. desember 2006, fyrrum eiginkonu kæranda tildæmdar bætur að fjárhæð kr. 1.816.091,- vegna galla og vanefnda seljanda gagnvart kaupendum fasteignarinnar að Kirkjustétt 36. 

Kærandi hefur ekki rökstutt kæru sína en gögn málsins bera með sér að hann telji hið kærða byggingarleyfi ólögmætt, þar sem nauðsynlegt samþykki sameigenda samkvæmt fjöleignarhúsalögum hafi ekki legið fyrir þegar umdeildar breytingar hafi verið samþykktar.  Eigandi Kirkjustéttar 40 sem annast hafi byggingu raðhúsanna verði að teljast vanhæfur við ákvarðanatöku í því efni. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um frávísun málsins, enda sé kæran án kröfugerðar og alls rökstuðnings.  Til vara sé þess krafist að hið kærða byggingarleyfi standi óraskað.  Þær breytingar, er varði sameign umræddra raðhúsa, séu óverulegar og þurfi því aðeins samþykki 2/3 hluta sameigenda fyrir þeim.  Breytingarnar séu í samræmi við gildandi byggingarreglugerð og ósannað sé að kæranda hafi verið ókunnugt um þær við afhendingu hússins.  Breytingar á innra fyrirkomulagi húsanna að Kirkjustétt 38 og 40 séu ekki háðar samþykki kæranda. 

Niðurstaða:  Eins og frá hefur verið greint var gert samkomulag við ábyrgðartryggjanda byggingarstjóra fasteignarinnar að Kirkjustétt 36 um greiðslu bóta vegna galla á umræddri fasteign, sem fallist var á að væru á ábyrgð hans.  Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ber byggingarstjóri ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.  Þá hefur fallið dómur þar sem meðal annars voru tildæmdar bætur vegna galla á umræddri eign er seljandi var talinn bera ábyrgð á. 

Með greindu samkomulagi og dómi, sem kærandi átti aðild að, verður ekki annað ráðið en að ágreiningsefni, er vörðuðu frávik við frágang fasteignarinnar frá upphaflega samþykktum teikningum, hafi endanlega verið til lykta leidd gagnvart kæranda.  Verður því ekki talið að kærandi eigi nú lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins kærða byggingarleyfis, sem einungis fól í sér samþykki á fyrrgreindum frávikum er orðið höfðu á byggingartíma hússins. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður kærumáli þessu vísað frá sökum aðildarskorts. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

42/2006 Vesturgata

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2006, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 2006 vegna framkvæmda við húsið að Vesturgötu 3 í Reykjavík. 

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. maí 2006, er barst nefndinni hinn 1. júní sama ár, kærir S, Fischersundi 3, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 2006 vegna framkvæmda við húsið að Vesturgötu 3 í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 22. mars 2006 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 10. mars 2006, og bréf Steins Öfjörðs, dags. 15. mars 2006, vegna hæðarmælinga hússins að Vesturgötu 3.  Jafnframt var lagt fram minnisblað byggingarfulltrúa, dags. 22. mars 2006.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Frestað.  Skipulagsráð fer fram á að aðalhönnuður afhendi skriflegar útskýringar á rangri hæðarmælingu hússins innan 10 daga frá móttöku bréfs þar um.“  Á fundi skipulagsráðs hinn 12. apríl 2006 var málið tekið fyrir að nýju og var þá eftirfarfandi fært til bókar:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 10. mars s.l., og bréf Steins Öfjörðs dags. 15. mars s.l., vegna hæðarmælinga í húsinu.  Jafnframt lagt fram minnisblað byggingarfulltrúa dags. 22. mars 2006 og minnisblað skipulags- og byggingarsviðs dags. 7. apríl 2006.

Skipulagsráð samþykkti minnisblað skipulags- og byggingarsviðs og bókaði:  Fyrir liggur að þak hússins nr. 3 við Vesturgötu er um það bil 30 cm. hærra en deiliskipulagsáætlun gerði ráð fyrir. Fram kemur í minnisblaði skipulags- og byggingarsviðs frá 7. apríl s.l., að aukin skuggi vegna hækkunarinnar er óverulegur og nánast ómælanlegur. Sama á við um yfirbragð hússins á nágrennið. Í því ljósi og með vísan til meginreglna meðalhófsreglu stjórnsýslulaga gerir skipulagsráð Reykjavíkur ekki kröfu til þess á þessari stundu að þak hússins skuli lækkað. Jafnframt felur ráðið byggingarfulltrúa að leggja fram greinargerð um ábyrgð aðalhönnuðar og byggingarstjóra á þeim mistökum sem augljóslega eru á verkinu þannig að ráðið geti tekið ákvörðun um hvort beita eigi þá viðeigandi viðurlögum sbr. ákvæði í gr. 211 og 212 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.“  Var kæranda tilkynnt um bókun skipulagsráðs með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. maí 2006, ásamt uppplýsingum um kærustjórnvald og kærufrest.  Hefur kærandi kært framangreint til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að hin raunverulega hækkun hússins að Vesturgötu 3 sé 60 cm en ekki 30 cm líkt og haldið sé fram af hálfu byggingarfulltrúa.  Þá skipti ekki máli hvort skuggavarp vegna hækkunarinnar sé verulegt eða óverulegt eins og haldið sé fram heldur það að um sé að ræða verulega hækkun á friðuðu húsi umfram heimildir.  Hið sama eigi við um fullyrðingar embættisins um að yfirbragð hússins.  Flokki byggingarfulltrúi það undir íþyngjandi aðgerðir að sjá til þess að byggt sé samkvæmt samþykktum teikningum og útgefnum leyfum sé vandséð að hann uppfylli þær skyldur sem á embætti hans hvíli.  Varðandi viðurlög vegna brota þeirra sem um sé að ræða sé vísað til ákvæða 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem og 60. gr. sömu laga. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð bókun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 2006 í tilefni framkvæmda við húsið að Vestugötu 3, m.a. ranga þakhæð þess.  Umrædd bókun felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls, þvert á móti var tekið fram að  skipulagsráð gerði ekki kröfu til þess þá að þak hússins að Vesturgötu 3 skyldi lækkað og var byggingarfulltrúa falin áframhaldandi vinna vegna málsins.  Meint ákvörðun sem kærð er í máli þessu sætir því ekki kæru samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 _____________________________                   ______________________________
 Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson
 

 

 

79/2007 Sómatún

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans á Akureyri frá 18. júlí 2007 um að heimila byggingu einbýlishúss, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. K og A, til heimilis að Sómatúni 4 og H og E, til heimilis að Sómatúni 8, þá ákvörðun skipulags og byggingarfulltrúans á Akureyri frá 18. júlí 2007 um að heimila byggingu einbýlishúss, að hluta á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún. á Akureyri. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 27. október 2006 var fellt úr gildi leyfi til byggingar einbýlishúss að Sómatúni 6 á Akureyri, þar sem það var talið andstætt samþykktu deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2005 að heimila byggingu tveggja hæða húss á lóðinni.  Ákvað bæjarstjórn hinn 14. mars 2007 að auglýsa breytingu á deiliskipulagi hverfisins þar sem heimilað var að reisa eins til tveggja hæða einbýlishús að Sómatúni 4, 6 og 8 í stað einnar hæða húsa, svo sem áður hafði verið gert ráð fyrir á skipulagsuppdrætti.  Var deiliskipulagstillögunni andmælt, þar á meðal af hálfu kærenda.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 16. maí 2007 var tillagan samþykkt með eftirfarandi rökum:  „Hönnuðir deiliskipulagsins hafa skýrt út með breytingartillögunni, grunnhugsun og hugmyndafræði deiliskipulagsins varðandi byggingu einbýlishúsa þar sem landhalli er fyrir hendi.  Skipulagsnefnd telur að með breytingu þessari sé verið að skýra og leiðrétta misræmi, annars vegar á uppdráttum og í sérskilmálum til þess að fyrirbyggja mismunandi túlkun deiliskipulagsskilmála við afgreiðslu mála í hverfinu til framtíðar.  Meirihluti skipulagsnefndar leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að annast gildistöku hennar.“   Staðfesti bæjarstjórn skipulagsbreytinguna á fundi hinn 22. maí 2007.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 14. júní 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. júlí 2007.  Skutu kærendur deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar og er mál það nú til meðferðar hjá nefndinni. 

Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 18. júlí 2007 var samþykkt að heimila byggingu einbýlishúss á þremur pöllum á lóðinni nr. 6 við Sómatún og staðfesti bæjarráð framangreint á fundi hinn 2. ágúst 2007.  Kærendur hafa nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar deiliskipulagsbreytingu þá er taki til lóðanna að Sómatúni 4, 6 og 8 og krafist ógildingar hennar.  Verði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi leiði það til þess að jafnframt beri að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.  Í kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar sé m.a. vísað til þess að breytingin taki aðeins til þriggja lóða og þar af séu einnar hæðar hús þegar risin á tveimur lóðanna.  Sé breytingin í andstöðu við skipulag það sem gengið hafi verið út frá er kærendur hafi fengið sínum lóðum úthlutað og reist hús sín.  Þá sé breytingin í andstöðu við fyrsta kafla skipulagsreglugerðar þar sem segi að deiliskipulag skuli ná til einstakra svæða eða reita innan aðalskipulags og skuli jafnan miðast við að ná til svæða sem myndi heildstæða einingu ásamt því að í þéttbýli skuli deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.  Augljóst sé að breytingunni sé einungis ætlað að taka til einnar lóðar, þ.e. Sómatúns 6.  Þá telji kærendur að slík breyting á tiltölulega nýlegu deiliskipulagi verði að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Hagsmunir eins lóðarhafa um aukna nýtingu og rýmri skilmála gegn hagsmunum annarra húseiganda á svæðinu geti ekki talist málefnaleg sjónarmið.  Breytingin sé því ólögmæt.  Kærendur hafi gengið út frá deiliskipulagi, uppdrætti og fyrirmælum við ákvörðun um hönnun og byggingu húsa þeirra.  Breytingin mæli fyrir um nýja húsagerð, sem ekki hafi verið kveðið á um áður, augljóslega aðeins gerða til að þóknast einum lóðarhafa umfram aðra. 

Þar að auki bjóði landhalli ekki upp á slíka byggingu sem hið kærða leyfi taki til. Auk þess sé brotið gegn skipulagsskilmálum, þar sem segi að jarðvegspúðar séu bannaðir, en á aðaluppdráttum fyrir Sómatún 6 komi fram að húsið standi að hluta á jarðvegspúða þar sem búið sé að hækka það upp að framan. 

Bent sé á að um sé að ræða mál þar sem miklir hagsmunir séu í húfi og sýnt að kærendur yrðu fyrir umfangsmiklu tjóni ef ekki yrði fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda.  Framkvæmdir á lóðinni séu á byrjunarstigi og því brýnt að kveðinn verði upp úrskurður um að ekki skuli hefja framkvæmdir á lóðinni meðan mál þetta sé til meðferðar.

Af hálfu Akureyrarbæjar er þess krafist að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði synjað enda sé hið kærða byggingarleyfi í samræmi við lögformlegt skipulag svæðisins svo sem því hafi nú verið breytt.  Tilgangur umdeildrar skipulagsbreytingar hafi verið sá að skýra og leiðrétta misræmi sem fyrir hafi verið milli skipulagsuppdráttar og skipulagsskilmála eins og fram komi í bókun skipulagsnefndar um samþykkt breytingarinnar. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi á stoð í skipulagsbreytingu þeirri sem samþykkt var í bæjarstjórn Akureyrar hinn 22. maí 2007 og kærð hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.  Hús kærenda eru einnar hæðar í samræmi við skipulagsuppdrátt fyrir umdeilda skipulagsbreytingu og standa þau sitt hvoru megin við lóðina að Sómatúni 6, þar sem nú hefur verið heimilað að reisa hús að hluta til á tveimur hæðum. 

Í ljósi þess að uppi eru álitaefni sem geta varðað gildi skipulagsbreytingarinnar sem hið kærða byggingarleyfi styðst við og þar sem fyrirhuguð húsbygging getur haft töluverð grenndaráhrif á fasteignir kærenda þykir eftir atvikum rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda þar til málið er til lykta leitt fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri, með stoð í hinu kærða byggingarleyfi, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________          ___________________________          Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson

69/2007 Gleráreyrar

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 69/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 13. júní 2007 um að veita leyfi fyrir útmælingu og gerð sökkla á lóðinni nr. 1 við  Gleráreyrar á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júlí 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Hákon Stefánsson lögfr., f.h. Svefns og heilsu ehf., þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 13. júní 2007 að veita leyfi fyrir útmælingu og gerð sökkla á lóðinni að Gleráreyrum 1.  Bæjarstjórn Akureyrar staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 19. júní 2007.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan málin væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykja málsatvik nú nægjanlega upplýst til þess að taka kæruna til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu. 

Málsatvik og rök:  Í febrúarmánuði 2007 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar breytt deiliskipulag fyrir Gleráreyrar 1-10 á Akureyri, sem er verksmiðjulóð sú sem Samband íslenskra samvinnufélaga hafði undir verksmiðjur sínar og nefndist í eldra skipulagi Dalsbraut 1.  Eru umdeildar framkvæmdir innan skipulagssvæðisins.  Tók skipulagið gildi með gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. apríl sl.  Hefur kærandi máls þessa krafist ógildingar á nefndri skipulagsákvörðun í kæru til úrskurðarnefndarinnar með þeim rökum að skipulagsákvörðunin sé haldin ýmsum ógildingarannmörkum.  Er það kærumál nú til meðferðar hjá nefndinni.

Meðal fyrirhugaðra mannvirkja á umræddu skipulagssvæði er viðbygging við Glerártorg, Gleráreyrum 1, Akureyri.  Áður en hin kærða ákvörðun var tekin höfðu bæjaryfirvöld veitt leyfi til jarðvegsskipta vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda á nefndri lóð.  Kærandi skaut m.a. þeirri leyfisveitingu til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði þeirri kæru frá sökum aðildarskorts með úrskurði uppkveðnum hinn 14. júní sl.  Hin kærða ákvörðun var tekin í framhaldi af umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Glerártorg.  Bókun skipulags- og byggingarfulltrúa við hina kærðu ákvörðun hljóðaði svo:  „Skipulags- og byggingarfulltrúi gefur heimild fyrir útmælingu og gerð sökkla.  Endanlegt byggingarleyfi verður ekki gefið út fyrr en endanleg brunahönnun hússins liggur fyrir.“

Skírskotar kærandi til þess að hin kærða ákvörðun byggi á skipulagi sem hann hafi kært til úrskurðarnefndarinnar og telja verði ólögmætt og vísar til þeirra sjónarmiða er hann tefli fram í skipulagskærunni.  Þar að auki fari það í bága við 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að heimila umdeildar framkvæmdar án þess að fyrir liggi fullgilt byggingarleyfi fyrir mannvirki því sem rísa eigi á heimiluðum sökklum að Gleráreyrum 1.  Kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu þar sem hann eigi fasteign á skipulagssvæðinu.  Skipulags- og byggingarlög geri ráð fyrir aðkomu eigenda mannvirkja á skipulagsreit við skipulagsgerð, svo sem skv. 7. mgr. 43. gr. laganna um grenndarkynningu.  Af því megi ráða að fasteignareigendur á skipulagsreitnum teljist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta um nýtingu og uppbyggingu viðkomandi skipulagsreits bæði við skipulagsgerð og við ákvarðanir um einstakar byggingarframkvæmdir á skipulagssvæðinu.

Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um frávísun málsins.  Deiliskipulagið að baki hinni kærðu ákvörðun sé í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga eins og fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 16. mars 2007.  Hin kærða ákvörðun byggi á staðfestu skipulagi og gr. 13.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Kærandi hafi ekki sýnt fram á að umdeildar framkvæmdir snerti lögvarða hagsmuni hans en skírskoti einungis til atriða í skipulagskæru er snúi að skiptingu lóða á svæðinu og gatnatengingu. 

Niðurstaða:  Að stjórnsýslurétti er það skilyrði aðildar að kærumáli að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar eða að kæruaðild sé samkvæmt beinni lagastoð.  Ekki verður fallist á þá túlkun kæranda að kæruaðild einstaklinga að skipulagsákvörðun feli sjálfkrafa í sér kæruaðild að ákvörðunum um mannvirkjagerð á tilteknum skipulagsreit.  Einstök mannvirki sem kunna að verða heimiluð á skipulagsreit geta haft mismikil áhrif á hagsmuni fasteignaeigenda á reitnum og verður kæruaðild því ætið háð mati á hagsmunum hverju sinni.  Hið kærða leyfi felur aðeins í sér heimild til útmælingar og gerðar sökkla á lóðinni að Gleráreyrum 1 en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. 

Með hliðsjón af eðli hins kærða leyfis, sem heimilar einungis gerð sökkla, sbr. 2. mgr.  44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, verður ekki talið að gengið sé gegn einstaklegum, verulegum og lögvörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að hann eigi kæruaðild um þá ákvörðun.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

  ___________________________
  Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                            Þorsteinn Þorsteinsson

87/2005 Ólafsgeisli

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2005, kæra eigenda fasteignarinnar að Ólafsgeisla 67 á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 11. október 2005 þess efnis að synja umsókn kærenda um að breyta lagnarými í kjallara og setja þrjá glugga á vesturhlið þess.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. nóvember 2005, er barst nefndinni sama dag, kæra V og Þ eigendur að fasteigninni Ólafsgeisla 67, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. október 2005 að synja umsókn þeirra um að setja þrjá glugga á vesturhlið lagnarýmis í húsinu að Ólafsgeisla 67 og breyta því rými í kjallara.  Framangreind ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs hinn 13. október 2005. 

Er þess krafist að framangreind synjun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Fasteignin að Ólafsgeisla 67 er íbúðarhús á tveimur hæðum auk lagnarýmis.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 27. september 2005 var tekin fyrir áður greind umsókn kærenda.  Var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Á fundi hans hinn 7. október 2005, sem og á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. október 2005, var umsókn kærenda synjað á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki deiliskipulagi.  

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að þeir hafi staðið í þeirri trú við kaup sín á fasteigninni að fyrri eigandi hennar hefði leyfi fyrir ófylltu lagnarými sem mögulegt væri að nýta.  Óeðlilegt teljist að slík nýting sé ekki möguleg þar sem rýmið sé nú þegar til staðar undir húsinu.  Bent sé á að gluggar muni ekki sjást frá götu en landið liggi lægra en sýnt sé á upprunalegum teikningum og lítið jarðrask verði vegna þessa. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgarinnar er þess krafist að hin kærða ákvörðun standi óröskuð.

Reykjavíkurborg telji sig ekki bera ábyrgð á því hvaða skilning kærendur hafi haft á nýtingarmöguleikum hússins við kaup þeirra á fasteigninni.  Vísi borgin til skilmála fyrir húsagerð I, er eigi við 26 einbýlishús við Ólafsgeisla nr. 25-75 og 89-97, en þar segi meðal annars að um sé að ræða tveggja hæða einbýlishús með innbyggðri bílageymslu.  Ekki sé getið um kjallara undir húsum en samþykktir hafi verið lagnakjallarar undir húsi vegna jarðvegsdýptar.  Hámarksstærð húsanna sé samkvæmt skilmálum 210 fermetrar að meðtöldum innbyggðum bílgeymslum, en verði 323,9 fermetrar verði breytingar heimilaðar og því langt yfir því hámark sem leyft sé samkvæmt þeim. 

Samkvæmt fyrrgreindum skilmálum skuli vanda til allrar hönnunar og frágangs bygginga og lóða og þess gætt að hvort tveggja falli sem best að landi.  Kappkosta skuli að halda góðu heildaryfirbragði allra húsa hverrar húsagötu.  Verði kjallaragluggi settur á húsið muni það virka hærra í umhverfinu miðað við önnur hús og breyta götumyndinni verulega sem sé ekki í samræmi við skipulagsskilmála svæðisins. 

Niðurstaða:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir Grafarholt frá árinu 2000.  Samkvæmt sérákvæði í skilmálum um einbýlishús við Ólafsgeisla 25-75 og 89-97 skulu hús á umræddu svæði vera tveggja hæða einbýlishús með innbyggðri bílgeymslu.  Hámarksstærð húsanna er samkvæmt sérákvæðinu 210 fermetrar að meðtöldum innbyggðum bílgeymslum. 

Deiliskipulag sem tekið hefur gildi er bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Er þar kveðið á um hvaða heimildir eru fyrir hendi til nýtingar einstakra lóða og fyrirkomulags bygginga og verða borgarar að geta treyst því að festa sé í framkvæmd byggingarmála og að mannvirki séu reist í samræmi við gildandi skipulag.

Af gögnum málsins verður ráðið að sú breyting á húsi kærenda að Ólafsgeisla 67 að  setja glugga á lagnarými og nýta það sem kjallara verði til þess að heildarstærð hússins verði 323,9 fermetrar.  Felur hin umsótta breyting því í sér verulegt frávik frá ákvæði gildandi skipulags hverfisins um hámarksstærð húsa og væri samþykkt  hennar í andstöðu við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á synjun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 11. október 2005 á umsókn þeirra um leyfi til að breyta lagnarými í kjallara og setja þrjá glugga á vesturhlið þess.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                  _____________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson

74/2007 Höfðatorg

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 15. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 um að heimila byggingu húss á lóðinni nr. 8-16 við Borgartún. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kæra H og A, bæði til heimilis að Miðtúni 2 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 að heimila byggingu 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 30. ágúst 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðis er tekur til Borgartúns, Höfðatúns, Skúlagötu og Skúlatúns, svonefnds Höfðatorgs, en fyrir var í gildi deiliskipulag frá árinu 2003.  Kynningartími var frá 29. september til og með 24. nóvember 2006 og bárust athugasemdir við tillöguna, meðal annars frá kærendum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 7. febrúar 2007 var tillagan samþykkt og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu á fundi hinn 20. febrúar s.á.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 3. apríl 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. apríl 2007.  Deiliskipulagsbreytingin fól m.a. í sér breytt landnot á svæði því er hér um ræðir, aukið byggingarmagn á lóðunum og hækkun húsbygginga.  Hafa kærendur kært þá skipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. júní 2007 var samþykkt að heimila byggingu fjórða áfanga 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 28. júní 2007.  Hafa kærendur nú kært það byggingarleyfi til úrskurðarnefndarinnar og krafist stöðvunar framkvæmda eins og að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að þau hafi kært til úrskurðarnefndarinnar deiliskipulagsbreytingu Höfðatorgs og krafist ógildingar hennar þar sem þau telji að ekki hafi verið sýnt fram á með raunhæfu umhverfismati hver verði áhrif fyrirhugaðra bygginga.  Ekki hafi verið sýnt fram á áhrif vindhviða eða aukinnar bílaumferðar og mengunar.  Ástandinu við heimili þeirra megi líkja við margra ára heimilisgíslingu, enginn vilji búa á stað þar sem verið sé að brjóta gíg að stærð sem minni á framkvæmdir við Kárahnjúka.  Byggingarleyfishafi hafi boðist til að kaupa fasteign kærenda, langt undir markaðsvirði, sem kærendur túlki sem svo að nota eigi viðkvæmt ástand vegna framkvæmdarinnar. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði synjað enda sé hið kærða byggingarleyfi í samræmi við skipulag svæðisins.  Því sé hafnað að framkvæmd sú er um ræði sé háð mati á umhverfisáhrifum enda sé ekki um að ræða matskylda framkvæmd í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum kærenda við deiliskipulag svæðisins hafi verið greint frá áætlaðri bílaumferð um svæðið ásamt því að byggingarnar séu hannaðar sérstaklega með vind og veðurfar í huga. 

Í ljósi alls ofangreinds, meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og með hliðsjón af hagsmunum byggingarleyfishafa, telji Reykjavíkurborg að hafna beri kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Byggingarleyfishafi mótmælir framkominni stöðvunarkröfu og hafnar því að þær byggingarframkvæmdir sem heimilaðar hafi verið með hinu kærða byggingarleyfi þurfi að sæta mati á umhverfisáhrifum.  Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana komi fram að lögin eigi aðeins við um umhverfismat skipulags- og framkvæmdaáætlana, en ekki einstakar byggingarframkvæmdir.  Þá komi einnig fram í ákvæðinu að lögin lúti aðeins að áætlunum er marki stefnu varðandi leyfisveitingar til þeirra framkvæmda sem tilgreindar séu í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Ljóst sé að þær framkvæmdir er um ræði séu ekki matsskyldar skv. 5. gr. fyrrnefndra laga og teljist ekki heldur framkvæmdir sem hugsanlega geti verið háðar umhverfismati skv. 6. gr. laganna. 

Stöðvun framkvæmda muni valda byggingarleyfishafa miklu tjóni og með vísan til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði að vega og meta hina andstæðu hagsmuni sem tekist sé á um. 

Niðurstaða:  Fyrir hina umdeildu skipulagsbreytingu á Höfðatorgsreit mátti reisa allt að 16 hæða byggingu á skipulagsreitnum.  Skipulagsbreytingin sem hið kærða byggingarleyfi styðst við heimilar allt að 19 hæða byggingu og nokkru hærra nýtingarhlutfall en áður. 

Með hliðsjón af byggingarheimildum deiliskipulags umrædds reits fyrir umþrætta breytingu þykja hagsmunir kærenda ekki knýja á um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Af þeim sökum og þar sem á þessu stigi liggur ekki fyrir að umrætt byggingarleyfi sé haldin augljósum ógildingarannmörkum þykja ekki efni til að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Úrskurðarorð: 

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er hafnað. 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
           Þorsteinn Þorsteinsson                                    Geirharður Þorsteinsson       

 

84/2005 Miklabraut

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 15. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2005, kæra á undirbúningi og framkvæmd við breikkun Miklubrautar í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. nóvember 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Skaftahlíð 18, Reykjavík undirbúning og framkvæmd við breikkun Miklubrautar í Reykjavík á árinu 2005. 

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að ákvarðanir borgaryfirvalda um undirbúning og framkvæmd við breikkun Miklubrautar verði felldar úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Sumarið 2005 var unnið að umfangsmiklum framkvæmdum við stækkun gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.  Voru framkvæmdirnar unnar á tímabilinu 17. maí til 29. ágúst sama ár. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi haft vitneskju um framangreindar framkvæmdir en honum hafi aftur á móti ekki verið kynnt sú fyrirætlan að setja inn auka akrein á Miklubraut fyrir umferð strætisvagna frá Kringlunni að Lönguhlíð.  Við birtingu greinar í Morgunblaðinu hinn 19. apríl 2005 hafi kæranda fyrst orðið ljóst að slík framkvæmd stæði fyrir dyrum, beint fyrir framan garð fjölbýlishúss þess er hann búi í. 

Hinn 2. maí hafi kærandi sent Vegagerðinni fyrirspurn um framkvæmdina og í kjölfarið hafi verið haldinn fundur með kæranda og fulltrúum framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar.  Á þeim fundi hafi verið ákveðið að framkvæmdasvið myndi kanna frekar áhrif hljóðstigs vegna hinnar nýju akreinar fyrir strætisvagna.  Kærandi hafi átt í samskiptum við borgina fram eftir ári 2005 um mögulegar hljóðvarnir.  Hinn 5. október s.á. hafi honum borist tölvupóstur frá aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdarsviðs þar sem eftirfarandi hafi komið fram:  „Frá mínum bæjardyrum séð hafa framkvæmdir tekist vel og mér sýnist að vel haldi sú aðgreining að strætó fari einn eftir merktri viðbótarakbraut og aukið álag vegna hávaða í þínu nágrenni sé lítið.  Varðandi hljóðvarnir hjá þér og öðrum við stærstu umferðaræðarnar þá sýnist mér líklegt að auknar fjáveitingar verið lagðar til þess á næsta ári og framundan er að vinna áætlun til að forgangsraða og ráðstafa þeim fjármunum.  Þar kemur þitt mál til skoðunar.“  Kærandi telji að þessi afstaða hafi ekki verið í samræmi við væntingar hans og þar sem fyrrgreindur tölvupóstur sé það síðasta sem komið hafi frá Reykjavíkurborg telji kærandi kæruna vera innan kærufrests. 

Af hálfu kæranda er því og haldið fram að ekki hafi farið fram lögformleg grenndarkynning á hinni nýju strætisvagnaakrein við Miklubraut og því hafi íbúar á svæðinu orðið af réttmætum andmælarétti.  Þá hafi Reykjavíkurborg ekki aflað nægilegra upplýsinga um áhrif framkvæmdarinnar áður en í þær hafi verið ráðist.  Hljóðvörnum hafi verið komið fyrir í efri hluta Skaftahlíðar en ekki á þeim kafla sem næstur sé kæranda og stangist það á við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Framkvæmdin hafi það í för með sér að hvorki hann né fjölskylda hans eða aðrir íbúar hússins geti nýtt sér garðinn og þann eignarrétt sem yfirráðum yfir honum fylgi.

Ekki hafa borist gögn eða greinargerð vegna máls þessa frá Reykjavíkurborg.  

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um breikkun Miklubrautar er hafist var handa við í maí 2005.  Kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála samkvæmt þágildandi ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 5. mgr. 8. gr. tilvitnaðra laga, er einn mánuður frá því kæranda var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. 

Fram er komið af hálfu kæranda að honum hafi verið kunnugt um fyrirhugaða akrein í apríl 2005.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni þó ekki fyrr en hinn 4. nóvember 2005 eða rúmu hálfu ári eftir að framkvæmdir hófust og tveimur mánuðum eftir að þeim var að fullu lokið.  Var því kærufrestur liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.  Ber því að vísa máli þessu frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda verður ekki ráðið af málsatvikum að rétt sé að taka málið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt undanþáguákvæðum 1. eða 2. tl. tilvitnaðs lagaákvæðis. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 _____________________________                   ______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                 Geirharður Þorsteinsson