Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2008 Dælustöð

Ár 2008, fimmtudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 12/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. febrúar 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir dælustöð á lóð Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. febrúar 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ, eiganda landspildu í landi Reynisvatns, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. febrúar 2008 að veita byggingarleyfi fyrir dælustöð á lóð Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði.  Var ákvörðunin staðfest í borgarráði hinn 7. febrúar 2008. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem nú er unnt að taka málið til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 11. júlí 2007 var tekin fyrir umsókn Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 5. júlí 2007, um breytingu á deiliskipulagi vegna miðlunargeyma fyrirtækisins á Reynisvatnsheiði skv. fyrirliggjandi uppdrætti, dags. 5. júlí 2007.  Óskað var eftir heimild til að stækka lóð undir miðlunargeyma, stækka mögulega mön og færa og bæta við byggingarreiti á lóð.  Samþykkti ráðið að auglýsa framlagða tillögu og vísaði málinu til borgarráðs er staðfesti afgreiðsluna hinn 12. sama mánaðar. 

Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 21. nóvember 2007.  Þar lágu fyrir athugasemdir frá kæranda við deiliskipulagstillöguna, sem borist höfðu á kynningartíma hennar, ásamt umsögn umhverfisstjóra skipulags- og byggingarsviðs, dags. 15. nóvember 2007, vegna athugasemdanna.  Samþykkti skipulagsráð skipulagstillöguna með vísan til áðurgreindrar umsagnar og staðfesti borgarráð þá samþykkt á fundi sínum hinn 29. nóvember 2007.  Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 30. janúar 2008.  Skaut kærandi í máli þessu þeirri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. 

Í kjölfar fyrrgreindrar skipulagsbreytingar hinn 5. febrúar 2008 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að byggja dælustöð úr steinsteypu á lóð Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði og var sú umsókn samþykkt þar sem hún var talin vera í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hefur kærandi skotið þessari leyfisveitingu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir og skírskotar hann um málsrök til kæru sinnar vegna fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar fyrir umrætt svæði. 

Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað þar sem umdeilt leyfi sé í samræmi við áðurnefnda breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar en ekki hafi verið gerðar sérstakar athugasemdir vegna byggingarleyfisins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 21. maí 2008 að viðstöddum fulltrúum Reykjavíkurborgar, kæranda og lögmanni hans. 

Niðurstaða:  Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli kæranda vegna deiliskipulagsbreytingar þeirrar sem var undanfari veitingar hins kærða byggingarleyfis.  Var kröfu um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar hafnað. 

Þar sem nú liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á stoð í deiliskipulagi umrædds svæðis og ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á umdeildri leyfisveitingu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. febrúar 2008, sem staðfest var í borgarráði hinn 7. febrúar s.á., um að veita byggingarleyfi fyrir dælustöð á lóð Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði. 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson