Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2007 Gagnheiði

Ár 2008, fimmtudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2007, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á húsnæði að Gagnheiði 23, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júlí 2007, er barst nefndinni 24. sama mánaðar, kærir Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl., f.h. Þ þá samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2007 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á húsnæði að Gagnheiði 23, Selfossi.  Bæjarráð samþykkti greinda afgreiðslu hinn 14. júní s.á.

Krefst kærandi þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði felld úr gildi.

Málsatvik:  Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Gagnheiði 19 og starfrækir þar trésmíðaverkstæði.  Er sameiginleg innkeyrsla með fasteign kæranda og fasteigninni að Gagnheiði 23.

Hinn 23. febrúar 2007 barst skipulags- og byggingaryfirvöldum í Árborg umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæðinu að Gagnheiði 23 vegna breyttrar notkunar þess.  Nánar tiltekið mun umrætt húsnæði hafi verið nýtt af Tónlistarskóla Árnesinga en var nú ætlað fyrir starfsemi heilsuræktarstöðvar.  Með bréfi, dags. 23. apríl 2007, til skipulags- og byggingarnefndar Árborgar óskaði eigandi fasteignarinnar að Gagnheiði 19 skýringa á ýmsum atriðum varðandi starfsemi að Gagnheiði 23, svo sem hvort veitt hefði verið leyfi fyrir rekstrinum.  Var jafnframt á það bent að hinn 22. janúar 2007 hefði starfsemi hafist í umræddu húsi.  Í svarbréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. maí s.á., kom fram að rekstur líkamsræktarstöðvar í húsinu hefði ekki verið formlega samþykktur í skipulags- og byggingarnefnd þar sem beðið væri eftir fullunnum byggingarnefndarteikningum svo hægt væri að afgreiða málið endanlega.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar hinn 7. júní 2007 og var umsókn um breytingu á húsnæðinu að Gagnheiði 23 samþykkt.  Var fundargerð nefndarinnar staðfest á fundi bæjarráðs Árborgar hinn 14. júní s.á.  

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að umrædd nýting á fasteign sem styðjist við hið kærða byggingarleyfi sé hvorki í samræmi við gildandi aðalskipulag né gildandi deiliskipulag, en samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 sé óheimilt að veita byggingarleyfi til framkvæmda nema þær séu í samræmi við skipulag.  Svæðið sé skilgreint sem athafnasvæði samkvæmt staðfestu Aðalskipulagi Árborgar 2005-2025.  Í aðalskipulaginu sé ekki fjallað frekar um starfsemi á þessu svæði og verði því að vísa um slíkar skilgreiningar til þess sem fram komi í almennri umfjöllun um flokkun landnotkunar í greinargerð aðalskipulagsins.  Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé athafnasvæði skilgreint svo í gr. 4.6.1 að á slíkum svæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta sé á mengun, s.s. léttum iðnaði, vörugeymslum, hreinlegum verkstæðum og umboðs- og heildverslunum.

Samkvæmt skilgreindri landnotkun deiliskipulags fyrir umrætt svæði sé heimilt að reisa iðnaðar-, þjónustu- og/eða geymsluhúsnæði á lóðinni.  Fyrirhuguð starfsemi lúti fremur að heilbrigðisstarfsemi en starfsemi þeirri sem gert sé ráð fyrir samkvæmt gildandi skipulagi.  Rekstur heilsuræktarstöðvar kalli óhjákvæmilega á mikla umferð um sameiginlega innkeyrslu og mikla notkun bílastæða umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir.

Verði með vísan til þess er að framan greini að telja að skort hafi lagaskilyrði til að veita hið kærða byggingarleyfi og því beri að fella það úr gildi.

Þá sé vakin athygli á því að byggingarleyfi fyrir starfseminni hafi verið veitt eftir að starfsemi hófst.  Leyfið hafi verið veitt þann 14. júní 2007 en þegar þann 3. janúar s.á. hafi kærandi vakið athygli á þeim byggingarframkvæmdum sem þá hafi verið hafnar. Framkvæmd við veitingu byggingarleyfisins sé þannig í andstöðu við ákvæði 43. og 44. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Málsrök Árborgar:  Sveitarfélagið Árborg krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.  Samkvæmt staðfestu Aðalskipulagi Árborgar 2005-2025 sé viðkomandi svæði skilgreint sem athafnasvæði.  Í greinargerð með aðalskipulagi segi um þetta svæði:  „Á athafnasvæði meðfram Eyravegi er einkum byggingariðnaður og athafnasvæði verktaka ásamt verslun og þjónustu í tengslum við þessa starfsemi.“

Vísað sé til gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 en ljóst megi vera að ekki sé um tæmandi talningu að ræða um það hvers konar starfsemi sé leyfð á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt greininni. 

Rekstur líkamsræktarstöðvar sé atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta sé á mengun og upptalning sú er fram komi í tilvitnaðri grein sé það víðtæk að starfsemi eins og líkamsræktarstöð geti hæglega fallið þar undir.  Sé það því mat sveitarfélagsins að útgáfa umrædds byggingarleyfis sé í samræmi við gildandi aðalskipulag sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.

Þá sé samræmi í landnotkun þeirri sem heimil sé á svæðinu samkvæmt deiliskipulagi þess og hinu staðfesta aðalskipulagi.  Jafnframt sé ljóst að hið kærða byggingarleyfi falli undir skilgreiningar þær á landnotkun sem fram komi í tilgreindum skipulagsáætlunum.  Sé hið kærða byggingarleyfi því í fullu samræmi við samþykkt deiliskipulag og staðfest aðalskipulag eins og ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 kveði á um.

Vera kunni að fallast verði á það að annmarkar hafi verið á leyfisveitingarferli vegna umrædds byggingarleyfis.  Mögulegir annmarkar á málsmeðferð, s.s. að framkvæmdir hafi ekki verið stöðvaðar meðan beðið hafi verið eftir afgreiðslu byggingarleyfis, leiði hins vegar ekki til þess að byggingarleyfið sé ógildanlegt.  Hið samþykkta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi skipulag og því sé enginn grundvöllur fyrir því að það verði fellt úr gildi.

Niðurstaða:  Í 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 eru landnotkunarflokkar í skipulagi skilgreindir.  Ákvæði kaflans eru almennt orðuð og verður ekki talið að í gr. 4.6.1 um skilgreiningu athafnasvæða sé að finna tæmandi upptalningu á þeirri starfsemi sem fallið geti undir þann landnotkunarflokk. 

Svæði það sem hér um ræðir er í gildandi aðalskipulagi skilgreint sem athafnasvæði.  Landnotkun er ekki nánar skilgreind í greinargerð aðalskipulagsins en þar er núverandi fyrirkomulagi á svæðinu lýst.  Í gildi er deiliskipulag fyrir umrætt svæði, samþykkt í bæjarstjórn Selfoss 14. desember 1983.  Heimilt er að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en í aðalskipulagi og á það við í hinu kærða tilviki en gildandi deiliskipulag kveður á um að á svæðinu megi reisa iðnaðar-, þjónustu- eða geymsluhúsnæði.  Rúmast sú landnotkun innan marka aðalskipulags og gr. 4.6.1 í skipulagreglugerð nr. 400/1998 um skilgreiningu athafnasvæða.

Starfsemi líkamsræktarstöðvar verður að teljast þjónustustarfsemi.  Er hið umdeilda byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Verður hið kærða byggingarleyfi því ekki fellt úr gildi með þeim rökum að það fari í bága við skipulag.  Verður ekki heldur fallist á að það eigi að leiða til ógildingar leyfisins þótt framkvæmdir, sem hafnar voru fyrir útgáfu leyfisins, hafi ekki verið stöðvaðar eins og atvikum er hér háttað, sbr. 1. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  

Samkvæmt framansögðu verður kröfu kæranda um ógildinu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á húsnæði að Gagnheiði 23, Selfossi.

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                   ______________________________
   Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson