Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2006 Hamrahlíð

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 28. ágúst 2006 um að falla frá hugmyndum um lóð nr. 5 við Hamrahlíð á Egilsstöðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. október 2006, er barst nefndinni 19. sama mánaðar, kærir S, Lagarfelli 25, Egilsstöðum, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 28. ágúst 2006 að falla frá hugmyndum um lóð nr. 5 við Hamrahlíð á Egilsstöðum.  Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti nefnda bókun skipulags- og byggingarnefndar hinn 6. september 2006.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun en farið er fram á að kærandi fái að byggja hús á óskipulagðri lóð að Hamrahlíð 5 á Egilsstöðum og kveðið verði á um skaðabótaskyldu vegna þess fjártjóns sem hlotist hafi af málinu.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2005 sendi kærandi erindi til byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs þar sem óskað var eftir skipulagningu byggingarlóðar norðan Hamrahlíðar 3 á Egilsstöðum.  Eigandi umrædds lands var Kaupfélag Héraðsbúa og hafði kærandi fengið yfirlýsingu frá landeiganda, dags. 25. febrúar 2005, þar sem fram kom að ekki væri gerð athugasemd við að kærandi léti hanna hús og byggja á óskipulagðri lóð við hlið Hamrahlíðar 3.  Var tekið jákvætt í erindið en til þess að verða við ósk kæranda þurfti að breyta landnotkun aðalskipulags fyrir umrætt land og gera deiliskipulag þar sem lóðin yrði mörkuð.  Tillaga um lóð að Hamrahlíð 5 ásamt byggingarskilmálum var kynnt nágrönnum og deiliskipulagstillaga auglýst til kynningar á árinu 2006.  Nokkrar athugasemdir bárust við tillöguna.  Deiliskipulagstillagan var á dagskrá fundar skipulags- og byggingarnefndar hinn 28. ágúst 2006 þar sem gerð var svofelld bókun um málið:  „Vilji nefndarinnar er að deiliskipulag Hlíðanna gangi ekki gegn vilja íbúa svæðisins m.a. að falla frá hugmyndum um lóð nr. 5 við Hamrahlíð.  Að öðru leyti er vísað í bókun um sama mál frá síðasta fundi.“  Var þessi bókun staðfest í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hinn 6. september 2006.  Virðist skipulagstillagan þar með hafa verið úr sögunni og skaut kærandi þeim málalyktum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Kveðst kærandi hafa gert samkomulag við þáverandi landeiganda um kaup á umræddu landi.  Hafi verið sótt um skipulagningu umræddrar lóðar í ljósi áhersla sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs um þéttingu byggðar.  Málið hafi tekið á sig sérstaka mynd en engu sé líkara en tíma, fjármunum og fyrirhöfn einstaklinga sé lögð fyrir róða um leið og ákvarðanataka sveitarfélagsins sé látin mótast af áliti aðila sem ætla megi að engar forsendur hafi til að gefa marktækt álit.  Kærandi hafi varið miklum tíma og fjármunum í mál þetta vegna deiliskipulagstillögu og teikninga að mögulegu húsi.  Vinnubrögð skipulags- og byggingaryfirvalda í málinu hafi verið  ábótavant og beri þeim að bæta kæranda fjártjón sem hann hafi orðið fyrir vegna málsins.  Frávísunarkröfu Fljótsdalshéraðs sé mótmælt.  Kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, í ljósi samkomulags hans um kaup á landinu á sínum tíma, og hafi bæjaryfirvöldum Fljótsdalshéraðs verið kunnugt um yfirlýsingu þáverandi eiganda, dags. 25. febrúar 2005.

Bæjaryfirvöld Fljótsdalshéraðs krefjast frávísunar málsins þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta  í málinu en Fljótsdalshérað sé eigandi að landi því sem um ræði.

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndinni hefur borist þinglýst afsal, dags. 15. desember 2006, ásamt fylgigögnum, þar sem Kaupfélag Héraðsbúa lýsir sveitarfélagið Fljótsdalshérað m.a. eiganda að landi því sem lóðin að Hamrahlíð 5 skyldi vera samkvæmt deiliskipulagstillögu á sínum tíma.  Verður eignaréttur Fljótsdalshéraðs að umræddu landi lagður til grundvallar í máli þessu enda hefur hinu þinglýsta afsali ekki verið hnekkt.  Í afsalinu kemur fram að allir lóðaleigusamningar um hið selda land haldi gildi sínu.

Ekki verður séð að efni hinnar kærðu ákvörðunar um að falla frá skipulagningu lóðar norðan við Hamrahlíð 3 á Egilsstöðum snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að játa verði honum kæruaðild um gildi þeirrar ákvörðunar.  Fyrir liggur að Fljótsdalshérað er þinglýstur eigandi að umræddu landi en kærandi hefur ekki lagt fram gögn í málinu um að hann telji eða hafi talið til beinna eða óbeinna eignaréttinda að fyrrgreindu landi.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála er falið úrskurðarvald um gildi stjórnvaldsákvarðana á sviði skipulags- og byggingarmála skv. 1. og 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Nefndin hefur, eðli máls samkvæmt, ekki boðvald um meðferð og afgreiðslu mála hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum og kveður ekki á um bótaskyldu vegna meðferðar skipulags- og byggingarmála enda taka almennar reglur skaðabótaréttarins til þess álitaefnis sem á undir dómstóla.   Krafa kæranda um að hann fái leyfi til að byggja hús á óskipulagðri lóð að Hamrahlíð 5 á Egilsstöðum og að afstaða verði tekin til skaðabótaskyldu vegna málsins á því ekki undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________             ______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

35/2007 Urðarholt

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.  

Fyrir var tekið mál nr. 35/2007, kæra á synjun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 14. apríl 2007 um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi og um afmörkun eigna á þriðju hæð hússins að Urðarholti 4. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. apríl 2007, er barst nefndinni hinn 27. s.m., kærir Trausti S. Harðarson arkitekt, f.h. A, Urðarholti 4, Mosfellsbæ, synjun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 17. apríl 2007 um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi og um afmörkun eigna á þriðju hæð hússins að Urðarholti 4 þannið að skrifstofurými á þriðju hæð þess yrði breytt í íbúð.  Var afgreiðslan staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 25. apríl 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða synjun verði felld úr gildi.  

Málsatvik:  Hinn 17. janúar 2007 sótti kærandi um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi og afmörkun eigna á þriðju hæð hússins að Urðarholti 4 þannig að skrifstofurými yrði breytt í íbúð.  Var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. s.m. og henni hafnað með vísan til fyrri afgreiðslna ásamt því að beiðnin samræmdist ekki deiliskipulagi svæðisins.

Með bréfi, dags. 12. febrúar 2007, óskaði kærandi eftir því að skipulags- og byggingarnefnd tæki synjun sína til endurskoðunar.  Í bréfinu var m.a. vísað til gildandi deiliskipulags á svæðinu og hvernig byggingarleyfisumsóknir vegna húseignarinnar að Þverholti 4 hefðu verið afgreiddar á árunum 1987-1997.  Þá var vikið að því að skipulags- og byggingarnefnd hefði fallist á að samþykkja íbúð í húsinu að Þverholti 7.  Að lokum tók kærandi fram að umrædd eign uppfyllti allar þær kröfur sem gerðar væru til íbúða samkvæmt byggingarreglugerð. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. apríl 2007 var erindi kæranda tekið fyrir og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Fyrir lóðina gildir deiliskipulag miðbæjarins, sem samþykkt var árið 2001.  Nefndin lítur svo á að þar komi skýrt fram að lóðin sé ætluð undir verslun og þjónustu, sbr. bls. 9, 20 og 21 í skipulagsskilmálunum.  Nefndin fellst ekki á þann skilning að sá texti eigi einungis við um þær viðbyggingar sem skipulagið gerði ráð fyrir, heldur telur hún að hann eigi við bæði um það hús sem fyrir var og hinar áformuðu nýbyggingar.  Í samræmi við þennan skilning hefur nefndin talið að það samræmdist ekki skipulaginu að fjölga íbúðum í húsinu umfram þær íbúðir sem þegar höfðu verið leyfðar þar þegar skipulagið var samþykkt, og hefur hún því á undanförnum árum nokkrum sinnum hafnað umsóknum í þá veru.  Rétt er að taka fram að nú er unnið að endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins, sem kann að hafa í för með sér breytta stefnumörkun varðandi framtíð húss og lóðar að Urðarholti 2-4.  Vonir standa til að tillaga að endurskoðuðu deiliskipulagi geti komið til umfjöllunar þegar á þessu ári.  Nefndin telur rétt að framtíð hússins verði látin ráðast af nýju deiliskipulagi, og því sé óæskilegt að samþykkja nú breytingar á gildandi stefnumörkun, svo skömmu áður en tillaga að nýju skipulagi kemur fram.  Með hliðsjón af framansögðu fellst nefndin ekki á að breyta ákvörðun sinni frá 189. fundi um að hafna breytingu á hluta 3. hæðar hússins í íbúðir.“  Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 25. apríl 2007. 

Hefur kærandi kært framangreinda afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða samþykkt skipulags- og byggingarnefndar fari gegn jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Á árinu 1992 hafi verið samþykkt að breyta notkun rishæðar hússins að Urðarholti 4 á þann veg að þar yrðu tvær íbúðir í stað skrifstofa og á árinu 1997 hafi verið samþykkt viðbygging við fyrstu hæð hússins er hafi átt að vera sameiginleg hjóla- og vagnageymsla fyrir íbúðir á þriðju og fjórðu hæð og skrifstofu- og þjónustufyrirtæki á annarri og þriðju hæð.  Þá hafi á árinu 2004 verið samþykkt að breyta eign á fyrstu hæð hússins að Þverholti 7 í íbúð en efri hæðir hússins að Urðarholti 4 hafi aðkomu frá Þverholti og sé Þverholt 7 handan götunnar.  Bæði húsin teljist innan miðsvæðis í aðalskipulagi. 

Löngu sé ljóst að ekki sé eftirspurn eftir skrifstofurými í húsinu að Urðarholti 4 og hafi það leitt af sér að búseta hafi verið þar, bæði um lengri og skemmri tíma.  Telja verði varhugavert að opinber stjórnsýsla stuðli að ólöglegri búsetu í atvinnuhúsnæði með því að neita um leyfi til að breyta því í fullnægjandi horf til löglegrar búsetu.  Bent sé á að uppfylla megi allar kröfur byggingarreglugerðar um íbúðir í fjölbýli og hafi allir sameigendur kæranda lýst sig samþykka breytingunni.  

Deiliskipulag svæðisins hafi tekið gildi á árinu 2001.  Ef aðeins sé lesin skýring við svæðaskiptingarkort þess mætti draga þá ályktun að einungis væri heimilt að hafa verslun og þjónustu á lóðinni.  Af áframhaldandi lestri skilmálanna verði vart annað ráðið en að þeim sé ætlað að gilda um nýbyggingar á lóðinni, þar sem hvergi sé vikið að núverandi húsi að öðru leyti en því að heimiluð sé um 70m² viðbygging austan við það.  Megi af textanum ráða að þetta sé sú viðbygging sem veitt hafi verið leyfi fyrir á árinu 1997 en að öðru leyti sé eldra fyrirkomulag látið halda sér.  Ljóst sé að á árinu 1992 hafi byggingarnefnd talið að ekkert stæði í vegi fyrir því að í húsinu yrðu innréttaðar íbúðir. 

Í gildi sé Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024, samþykkt í bæjarstjórn hinn 12. febrúar 2003.  Á þéttbýlisuppdrætti skipulagsins sé lóðin að Urðarholti 4 sýnd innan miðsvæðis en um það segi í greinargerð:  „Í miðbæ og á miðsvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir stjórnsýslu og verslunar- og þjónustustarfsemi sem þjónar öllu sveitarfélaginu, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum, hreinlegum iðnaði og íbúðarbyggð.“ 

Á uppdrætti af þriðju og fjórðu hæð hússins sem áritaður sé af byggingarfulltrúa sem fylgirit, dags. 15. október 2001, komi fram að hinn 14. júlí 1993 hafi eign 0302 í húsi því er um ræði verið breytt í íbúð.  Breyting þessi hafi ekki hlotið samþykki byggingarnefndar, en ljóst sé að a.m.k. frá 15. október 2001 hafi byggingarfulltrúa verið kunnugt um að í eigninni væri íbúð og verði að álíta að hann hafi þá einnig upplýst skipulags- og byggingarnefnd um það.  Ekki sé vitað til þess að vitneskja þessi hafi kallað á sérstök viðbrögð nefndarinnar eða byggingarfulltrúa.  Hafi fólk verið skráð með lögheimili í ýmsum eignarhlutum hússins um árabil, án nokkurrar fyrirstöðu eða athugasemda yfirvalda.   

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er vísað til þess að samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.

Í samræmi við 9., 16. og 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi Mosfellsbær sinnt þeirri skyldu sinni að gera skipulagsáætlanir um landnotkun og þróun byggðar.  Aðalskipulag bæjarins 2002-2024 hafi tekið gildi árið 2003 og fyrir miðbæinn sé í gildi deiliskipulag sem samþykkt hafi verið árið 2001.  Óumdeilt sé að húseignin að Urðarholti 4 falli innan þess svæðis og í deiliskipulaginu komi skýrt fram að lóðin sé ætluð undir verslun og þjónustu.

Í 2. mgr., sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 komi fram að leyfi sveitarstjórnar þurfi til tiltekinna framkvæmda við húsbyggingar, m.a. þegar fyrirhugað sé að breyta notkun þeirra. Slíkar framkvæmdir skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.

Þær ákvarðanir sem teknar hafi verið á fundum skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. janúar 2007 og hinn 17. apríl s.á., þar sem erindi kæranda hafi verið hafnað, hafi fyllilega verið í samræmi við framangreind lagaákvæði.  Í því sambandi sé ítrekuð sú skylda sveitarfélagsins að tryggja að byggingarleyfi séu í samræmi við samþykkt deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.

Því sé hafnað að málsmeðferð bæjarins hafi farið í bága við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ákvarðanir skipulags- og byggingarnefndar hafi verið teknar með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum og verið staðfestar af bæjarstjórn í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga þar um.  Bænum hafi einfaldlega ekki verið heimilt að veita umrætt byggingarleyfi.

Með ákvörðunum sínum hafi Mosfellsbær þannig ekki brotið gegn þeim sjónarmiðum sem fólgin séu í 12. gr. stjórnsýslulaga, heldur litið til þess markmiðs sem að sé stefnt og ekki farið strangar í sakir en nauðsyn hafi borið til.

Í bókun skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. apríl 2007 sé tekið fram að endurskoðun á umræddu deiliskipulagi miðbæjarins standi yfir og að hún kunni að hafa í för með sér breytta stefnumörkun varðandi framtíð húss og lóðar að Urðarholti 4.  Með þessu hafi bærinn tekið fullt tillit til hagsmuna kæranda og þannig enn frekar gætt að þeim sjónarmiðum sem fólgin séu í meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna.

Þá sé bent á að í jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felist meðal annars að þegar stjórnvald hafi byggt ákvörðun á tilteknum sjónarmiðum og lagt áherslu á ákveðið sjónarmið leiði jafnræðisreglan almennt til þess að þegar sambærilegt mál komi aftur til úrlausnar beri jafnan að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslu og gert hafi verið við úrlausn hinna eldri mála.

Mosfellsbær telji að samræmis hafi verið gætt við afgreiðslu sambærilegra mála hjá skipulags- og byggingarnefnd.  Bent sé á að tvívegis hafi verið synjað um leyfi til að breyta skrifstofum í húsinu að Urðarholti 4 í íbúðir með vísan til þess að slíkt samrýmdist ekki deiliskipulagi svæðisins. 

Þá sé mótmælt fullyrðingum kæranda að mál hans sé sambærilegt máli er hafi varðað Þverholt 7 enda hafi með breytingu á deiliskipulagi miðbæjarins, er tekið hafi gildi á árinu 2002, verið heimilt að breyta landnotkun jarðhæðar Þverholts 5-15 í íbúðir.
 
Að lokum sé vísað til ákvæða síðari málsl. 3. mgr. 1. gr. lögheimilislaga nr. 21/1990 með síðari breytingum.  Þar segi að dvöl á skipulögðu iðnaðar-, athafna- og hafnarsvæði og öðru svæði innan þéttbýlis sem skipulagt sé fyrir atvinnustarfsemi, geti ekki talist til fastrar búsetu.  Það sé því ljóst að þeir sem tækju sér búsetu að Urðarholti 4 gætu aldrei fengið lögheimili sitt skráð þar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 14. apríl 2007 um að hafna beiðni kæranda um endurskoðun og að staðfesta þess í stað fyrri synjun á umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi og um afmörkun eigna á þriðju hæð hússins að Urðarholti 4 þannig að skrifstofurými verði breytt í íbúð.

Hin kærða ákvörðun er studd þeim rökum að samkvæmt deiliskipulagi fyrir miðbæ Mosfellsbæjar, er tekur til þess svæðis er hér um ræðir, sé fyrst og fremst gert ráð fyrir    verslun og þjónustu og að það samræmist ekki skipulaginu að fjölga íbúðum í húsinu umfram þær íbúðir sem þegar höfðu verið leyfðar þar þá er skipulagið var samþykkt.  Þá sé unnið að  endurskoðun skipulagsins og því óæskilegt að samþykkja erindi kæranda.

Samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 er lóðin að Urðarholti 4 innan miðsvæðis og samkvæmt greinargerð þess er þar gert ráð fyrir stjórnsýslu, verslunar- og þjónustustarfsemi og íbúðarbyggð.  Er sú landnotkun í samræmi við ákvæði gr. 4.4.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. 

Deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar, sem samþykkt var á árinu 2001, er skipt upp í nokkur svæði og tekur svæði 3 einungis til lóðarinnar að Urðarholti 2-4.  Er þetta svæði nánar tilgreint í greinargerð deiliskipulagsins sem „…hús fyrir verslun og þjónustu á lóðinni nr. 2-4 við Urðarholt“ en í skilmálum fyrir einstök hús/lóðir, sem fram koma á skipulagsuppdrætti segir: „Urðarholt 2-4: Viðbyggingar og nýbyggingar á lóðinni eru fyrir verslun og þjónustu og aðra miðbæjarstarfsemi.“  Í þeim kafla greinargerðar deiliskipulagsins, sem sérstaklega fjallar um svæði 3, er gerð grein fyrir legu umræddrar lóðar og aðkomu að henni og frá því greint að markmið skipulagsins með að stækka lóðina og auka við bygginguna séu að nýta afgangssvæði milli núverandi lóðar og Skeiðholts, að styrkja götumynd Þverholts með nýrri byggingu og að styrkja starfsemi sem nú sé á lóðinni með því að auka byggingarmagn.  Í greinargerðinni segir enn fremur að gert sé ráð fyrir nýrri byggingu á lóðinni samsíða Þverholti og viðbyggingu austan við byggingar þær sem þar séu fyrir.  Í sérákvæði, sem m.a. fjallar um notkun húsnæðis og byggingarmagn, segir að nýbyggingar á lóðinni séu hugsaðar fyrir verslun og þjónustu.  Hvergi er hins vegar getið um notkun húsnæðis í húsi því sem fyrir var á lóðinni er deiliskipulagið tók gildi en fyrir liggur að á fjórðu hæð hússins eru tvær samþykktar íbúðir, en á þriðju hæð skrifstofur og er þar það húsrými sem erindi kæranda tók til.

Úrskurðarnefndin telur að fallast beri á þann skilning kæranda að ákvæði í greinargerð deiliskipulags umrædds svæðis um landnotkun taki ekki til þess húss sem fyrir var á lóðinni er deiliskipulagið var samþykkt og að því verði að líta til gr. 4.4.1 og 4.5.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem kveðið er á um að gera megi ráð fyrir íbúðum á miðsvæðum og verslunar- og þjónustusvæðum þar sem aðstæður leyfi, sérstaklega á efri hæðum bygginga.  Af þessu leiðir að ákvæði skipulagsins stóðu ekki í vegi fyrir því að unnt væri að fallast á erindi kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er byggingarnefnd skylt að rökstyðja afgreiðslu á erindum er henni berast.  Leiðir af eðli máls að rökstuðningur nefndarinnar verður að vera haldbær en í hinu umdeilda tilviki synjaði skipulags- og byggingarnefnd erindi kæranda með rökum sem byggð eru á túlkun skipulagsskilmála sem úrskurðarnefndin telur að ekki fái staðist.  Var rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun því  áfátt hvað skipulagsforsendur varðar.

Ekki verður heldur talið að það hafi verið haldbær rök fyrir hinnu kærðu synjun að vísa til þess að endurskoðun stæði yfir á skipulagi svæðisins enda átti bæjarstjórn þess kost að neyta heimildar 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga til að fresta erindi kæranda í stað þess að hafna því.

Samkvæmt því sem að framan er rakið voru ekki færð fram viðhlítandi rök fyrir hinni kærðu ákvörðun og verður hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Synjun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 14. apríl 2007 um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi og um afmörkun eigna á þriðju hæð hússins að Urðarholti 4, er felld úr gildi.

 

___________________________          
 Hjalti Steinþórsson          

 

_____________________________            ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

62/2007 Laufásvegur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 62/2007, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2007 á umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum við fasteignina að Laufásvegi 73 er lutu m.a. að byggingu tvöfalds bílskúrs ásamt niðurrifi eldri skúrs, viðbyggingu við íbúðarhús og breyttu skipulagi lóðar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. júlí 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Einar Sverrisson hdl., fyrir hönd Þ, Laufásvegi 73, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2007 á umsókn hans um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum við fasteignina að Laufásvegi 73 er lutu m.a. að byggingu tvöfalds bílskúrs ásamt niðurrifi eldri skúrs, viðbyggingu við íbúðarhús og breyttu skipulagi lóðar.  Borgarráð staðfesti hina kærðu afgreiðslu hinn 7. júní 2007.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir skipulagsráð að taka umsóknina til lögboðinnar meðferðar er leiði til útgáfu byggingarleyfis kæranda til handa. 

Málavextir:  Handan götu og andspænis húsi kæranda að Laufásvegi 73 stendur fasteignin Laufásvegur 72, sem er gestabústaður embættis forseta Íslands.  Embættið hlaut fasteignina í arf til greindra nota í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar.  Í erfðaskrá var tekið fram að fasteignin skyldi notuð sem höfuðborgarsetur forseta Íslands eða sem aðsetur erlendra gesta ríkisstjórnarinnar svo sem þjóðhöfðingja.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en í aðalskipulagi er það ætlað undir íbúðarbyggð. 

Frá árinu 2002 mun kærandi m.a. hafa leitað eftir samþykki borgaryfirvalda fyrir byggingu nýs bílskúrs á lóðinni að Laufásvegi 73.  Á árinu 2004 var grenndarkynnt tillaga að nýjum steinsteyptum bílskúr á fyrrgreindri lóð og komu fram athugasemdir við tillöguna frá forsetaembættinu og forsætisráðuneytinu er lutu m.a. að öryggisþáttum vegna hlutverks fasteignarinnar að Laufásvegi 72.  Á árinu 2005 leitaði forsetaembættið umsagnar ríkislögreglustjóra um stöðu öryggismála við Laufásveg 72 og hvaða áhrif á öryggi umrædd bílskúrsbygging kynni að hafa.  Var það mat ríkislögreglustjóra að fyrirhuguð staðsetning bílskúrs að Laufásvegi 73 væri óheppileg frá öryggissjónarmiðum og að æskilegra væri að hann yrði byggður á sama stað og eldri bílskúr. 

Í lok árs 2006 lagði kærandi fram fyrirspurn um hvort umþrættar framkvæmdir yrðu leyfðar af hálfu borgaryfirvalda.  Skipulagsráð afgreiddi erindið með svofelldri bókun:  „Ráðið gerir ekki athugasemdir við erindið, en minnir fyrirspyrjanda á athugasemdir sem borist hafa áður.  Ný byggingarleyfisumsókn verður grenndarkynnt þegar hún berst.“ 

Byggingarleyfisumsókn var lögð fram af hálfu kæranda og var hún tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 13. mars 2007.  Sótt var um leyfi til að rífa bílskúr við lóðarmörk í vestur, byggja nýjan tvöfaldan við lóðarmörk í austur og koma fyrir tveimur bílastæðum innan lóðar.  Ennfremur var farið fram á að stækka kjallara til suðvesturs og útbúa verönd ofan á, stækka anddyri til norðvesturs, byggja jarðhýsi austan og norðan megin, stækka eldhús á fyrstu hæð og útbúa svalir á annarri hæð, innrétta rishæð og byggja tvo nýja þakkvisti.  Loks fólst í umsókninni beiðni um leyfi til að endurskipuleggja lóð, koma fyrir setlaug og skjólveggjum á suðausturhluta lóðar og skjólveggjum fyrir sorp og garðáhöld norðvestan megin á lóð.  Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 23. mars 2007 var umsókn kæranda lögð fram.  Fyrir lá samþykki lóðarhafa Laufásvegar 75, skilyrt samþykki eigenda Laufásvegar 71 og Bergstaðastrætis 80, öll dags. 8. nóvember 2006.  Ákveðið var að grenndarkynna umsóknina. 

Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir að nýju hinn 27. mars 2007 vegna breytinga á uppdráttum og vísaði málinu til skipulagsfulltrúa. 

Við grenndarkynninguna bárust athugasemdir frá embætti forseta Íslands í bréfi, dags. 20. apríl 2007, þar sem m.a. var vísað til þeirra sjónarmiða embættisins sem áður hafði verið komið á framfæri vegna sambærilegra erinda um byggingarframkvæmdir að Laufásvegi 73.  Athugasemdabréfinu fylgdi bréf ríkislögreglustjóra til forsetaembættisins þar sem vísað var til fyrirliggjandi öryggismats og áréttað að afstaða embættisins væri óbreytt hvað varðaði umrædd byggingaráform og var mælt gegn þeim áformum. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 6. júní 2007 þar sem fyrir lágu athugasemdir embættis forseta Íslands ásamt umsögn lögfræði og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs, dags. 5. júní 2007.  Var umsókninni synjað með vísan til fyrrgreindrar umsagnar.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum 7. júní 2007.  Hefur kærandi skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  Hægt hefði verið að gera ýmsar ráðstafanir og setja skilyrði til þess að ná fram meintum öryggismarkmiðum vegna fasteignarinnar að Laufásvegi 72, svo sem með umferðarrétti löggæsluaðila um lóð kæranda og rétti til uppsetningar tækjabúnaðar auk ráðstafana sem unnt væri að gera á lóð gestabústaðarins til þess að auka öryggi gesta. 

Þá fari umdeild ákvörðun gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þar sem á svæðinu hafi verið heimilaðar bílskúrsbyggingar að Laufásvegi 68 og 77 auk þess að í deiliskipulagi sé nú heimilað að reisa bílskúr að Smáragötu 13, sem liggi að lóð gestabústaðarins, þrátt fyrir andmæli forsetaembættisins er hafi byggst á sömu öryggissjónarmiðum og í máli kæranda.  Auk þess sé ákvörðuninni áfátt hvað rökstuðning varði enda hafi hvorki kærandi né skipulagsráð fengið í hendur matsgerð ríkislögreglustjóra um meinta skerðingu öryggis gesta ef veitt yrði leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóð kæranda.  Borgaryfirvöld hafi því ekki getað lagt sjálfstætt mat á þau rök sem leitt hafi til synjunar á umræddri umsókn kæranda. 

Kærandi telji sig í raun búa við íþyngjandi kvöð hvað varði nýtingu lóðarinnar að Laufásvegi 73 án þess að slíkt eigi sér stoð í skipulagsákvörðun.  Vart geti staðist að ríkisvaldið geti stöðvað alla framþróun í íbúðarhverfi vegna þess eins að þar sé hús, sem ríkið noti endrum og sinnum fyrir tignargesti og önnur stórmenni, sem þurfi hámarksöryggisgæslu.  Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að ganga á stjórnarskrárvarinn eignarrétt kæranda með ólögmætum hætti. 

Mat á vægi hagsmuna við umrædda ákvarðanatöku hefði átt að leiða til þess að byggingarleyfisumsókn kæranda hefði átt að hljóta samþykki.  Hagsmunir þeir sem takist á í máli þessu séu annars vegar hagsmunir kæranda af því að nýta eign sína með eðlilegum hætti og í samræmi við heimildir annarra fasteignareigenda í nágrenni kæranda og hins vegar réttur ríkisvaldsins til þess að hafa hámarksöryggisgæslu vegna gesta á þess vegum.  Öryggiskröfur vegna háttsettra gesta hafi aukist verulega frá því að húsið að Laufásvegi 72 hafi komist í eigu ríkisins fyrir arf og henti húsnæðið ekki lengur til þessa hlutverks sem hafi í för með sér sífellt þrengri skorður við nýtingu annarra fasteigna í nágrenninu.  Gera verði þá kröfu til stjórnvalda að finna slíkum gestum annan samastað en í miðju íbúðarhverfi við þrönga götu með miklum trjágróðri.  Í máli þessu eigi hagsmunir ríkisvaldsins, ef einhverjir eru, að víkja fyrir hagsmunum kæranda af því að fá að nýta eign sína í samræmi við almennar reglur og skipulag en umsóttan bílskúr sé ekki unnt að reisa á þeim stað sem eldri skúr standi. 

Hin kærða synjun á umsókn kæranda byggi á ólögmætum sjónarmiðum.  Halda mætti að sjónarmið um öryggi hugsanlegra gesta að Laufásvegi 72 hafi einfaldlega verið búin til af ríkislögreglustjóra samkvæmt forskrift frá embætti forseta Íslands.  Öryggisþátturinn verði sífellt veigameira sjónarmið í bréfum ríkislögreglustjóra án þess þó að þess sé getið með hvaða hætti fyrirhuguð bílskúrsbygging dragi úr öryggi gestahúss forsetaembættisins.  Vísað sé til símtala og fundar án þess að fyrir liggi hvað þar hafi farið á milli manna en kæranda hafi verið neitað um aðgang að öryggismati því er búi að baki afstöðu ríkislögreglustjóra til umdeildrar bílskúrsbyggingar. 

Í þeirri afstöðu skipulagsráðs, að beita mætti grenndarkynningu vegna umsóknar kæranda, felist í raun að fyrirhugaðar framkvæmdir væru í góðu samræmi við þá byggð er fyrir sé hvað varði notkun, nýtingarhlutfall og yfirbragð og hefðu ekki áhrif á aðra en næstu nágranna.  Grenndarhagsmunir eiganda Laufásvegar 72 séu það léttvægir að vafa sé undirorpið hvort hann eigi málsaðild eftir umhverfis- og stjórnsýslurétti við meðferð umsóknar kæranda og kunni það að vera ástæða þess að ofuráhersla hafi verið lögð á öryggissjónarmið af hans hálfu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað. 

Skipulagsráði hafi verið heimilt að afgreiða umsókn kæranda með þeim hætti sem gert hafi verið.  Fyrir liggi að hin kærða umsókn hafi fengið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Umsóknin hafi verið kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu í samræmi við ákvæði laga. 

Ekki sé fallist á málsástæður og lagarök kæranda.  Við grenndarkynningu hafi komið fram athugasemdir frá embætti forseta Íslands er hafi lotið að öryggismálum vegna Laufásvegar 72, er gegni mikilvægu hlutverki við móttöku gesta íslenska ríkisins, þar sem uppfylla þurfi strangar kröfur um öryggi og öryggisumbúnað.  Með hinni kærðu ákvörðun hafi verið tekið mið af greindum athugasemdum er hafi stafað frá þeim aðilum sem lögum samkvæmt beri ábyrgð á öryggismálum og hafi sérþekkingu á þeim öryggiskröfum sem fylgja þurfi vegna hlutverks gestahúss forsetaembættisins.  Það hafi þó verið áréttað að ekki hafi verið gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið, enda hafi synjunin einungis byggst á því faglega mati ríkislögreglustjóra sem legið hafi fyrir í málinu.  Hafi ákvörðunin því verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum en ekki verði séð að kærandi hafi átt lögvarinn rétt til þess að borgaryfirvöld létu honum í té það byggingarleyfi er um var sótt.

Færð hafa verið fram ítarlegri rök í máli þessu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
 
Niðurstaða:  Sú meginregla er sett í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að gera skuli deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í deiliskipulagi er forsendum skipulagsins lýst og einstök ariði þess skýrð, svo og skipulags- og byggingarskilmálar sem kveða nánar á um skipulagskvaðir og önnur atriði sem skylt er að hlíta samkvæmt skipulaginu, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.  Sú undantekning er gerð í 3. mgr. 23. gr. laganna að sveitarstjórn getur veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir.  Ekki er til að dreifa deiliskipulagi á því svæði er tekur til fasteignar kæranda að Laufásvegi 73 og var fyrrgreindri undantekningarreglu beitt við meðferð umsóknar hans sem hin kærða ákvörðun tekur til. 

Við mat á því hvort veita eigi byggingarleyfi í grónum hverfum, sem ekki hafa verið deiliskipulögð, er rétt að hafa hliðsjón af hvernig nýtingu lóða á svæðinu er háttað, byggðamynstri því er mótast hefur og hvað telja megi eðlilegt miðað við gildandi landnotkun svæðisins í aðalskipulagi.  Eiga sjónarmið þessi stoð í jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og því markmiði skipulags- og byggingarlaga sem sett er fram í 1. gr. laganna að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála svo réttur einstaklinga og lögaðila sé ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. 

Í umsögn þeirri sem hin kærða ákvörðun byggir á kemur fram að afstaða til umsóknar kæranda sé einungis reist á öryggishagsmunum eins nágranna vegna nýtingar fasteignar hans fyrir opinbera gesti.  Tekið er fram að ekki séu gerðar skipulagslegar athugasemdir við umfjallað erindi kæranda.  Slíkir sértækir hagsmunir eins fasteignareiganda, þótt mikilvægir kunni að vera, verða ekki taldir viðhlítandi stoð fyrir takmörkun á venjulegri nýtingu fasteignar á skilgreindu íbúðarsvæði nema eftir atvikum með kvöðum þar að lútandi í gildandi skipulagi.  Var hin kærða ákvörðun því ekki studd haldbærum rökum og verður hún af þeim sökum felld úr gildi. 

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála er falið úrskurðarvald um gildi stjórnvaldsákvarðana á sviði skipulags- og byggingarmála skv. 1. og 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Nefndin hefur, eðli máls samkvæmt, ekki boðvald um meðferð og afgreiðslu mála hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum.  Verður kröfu kæranda um að lagt verði fyrir skipulagsráð Reykjavíkur að taka umsókn hans til lögformlegrar meðferðar sem leiði til útgáfu byggingarleyfis því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hin kærða synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2007 á byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir framkvæmdum við fasteignina að Laufásvegi 73, er borgarráð staðfesti hinn 7. júní 2007, er felld úr gildi. 

Kröfu kæranda um að lagt verði fyrir skipulagsráð að taka umsókn hans til lögboðinnar meðferðar er leiði til útgáfu byggingarleyfis honum til handa, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________            ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Aðalheiður Jóhannsdóttir

81/2006 Hraungerði

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 81/2006, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 21. september 2006 um að afturkalla þá ákvörðun sína að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Hraungerði í Álftaveri og að leggja fyrir kæranda að hún verði fjarlægð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. október 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Karl Axelsson hrl., f.h. Þ, sem landeiganda og ábúanda að jörðinni Hraungerði í Álftaveri, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 21. september 2006 að afturkalla áður veitt byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Hraungerði og leggja fyrir kæranda að hún verði nú þegar fjarlægð en að öðrum kosti verði það gert á kostnað og ábyrgð hans.   

Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og réttaráhrifum ákvörðunar um niðurrif verði frestað.  Af hálfu byggingaryfirvalda Skaftárhrepps hefur verið fallist á að framfylgja ekki ákvörðuninni um niðurrif umdeildrar vélageymslu á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. 

Málavextir:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er jörðin Hraungerði í eigu kæranda og bróður hans og býr kærandi á jörðinni. 

Hinn 25. apríl 2005 voru á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps teknar fyrir umsóknir kæranda um leyfi til að rífa bílskúr, matshluta 23, og til að byggja vélageymslu á jörðinni Hraungerði í Álftaveri.  Samþykkti nefndin fyrir sitt leyti framlagðar teikningar að vélageymslunni en benti á að annað hús, matshluti 23, sem stæði á byggingarreitnum, yrði fyrst að víkja.  Var umsókn um niðurrif umrædds matshluta afgreidd með þeim hætti að fyrir þyrfti að liggja samþykki allra eigenda áður en byggingin yrði rifin.  Sveitarstjórn Skaftárhrepps staðfesti greindar afgreiðslur á fundi hinn 23. maí 2005 og voru niðurstöður tilkynntar kæranda með bréfum, dags. 16. júní 2005. 

Í kjölfarið hóf kærandi framkvæmdir á jörðinni og í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2006, var tilkynnt að búið væri að rífa áður nefndan bílskúr sem og tvær aðrar byggingar á jörðinni og þremur dögum síðar var óskað eftir því að úttekt yrði gerð á grunni vegna byggingar stálgrindarhúss og átti úttekt sér stað 22. maí 2006.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. maí 2006 var tekið fyrir fyrrgreint bréf kæranda frá 22. apríl s.á. og svofelld bókun gerð:  „Nefndin vill ítreka að samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga er óheimilt að rífa hús nema að fengnu samþykki sveitarstjórnar.  Nefndin ítrekar fyrri afgreiðslu vegna niðurrifs bílskúrs, matshluti 23, og fer fram á að [kærandi] leggi fram samþykki fyrir þessum framkvæmdum frá meðeiganda fasteignanna“.  Jafnframt var tekin fyrir afgreiðsla nefndarinnar á erindi kæranda vegna byggingarleyfis frá 25. apríl 2005 og bókað:  „Nefndin vill standa við fyrri afgreiðslu og veita byggingarleyfi.  Byggingarfulltrúa er falið að ljúka málinu.“  Samþykkti sveitarstjórn ofangreindar afgreiðslur skipulags- og byggingarnefndar á fundi sínum hinn 8. júní 2006. 

Hinn 20. júní 2006 var fundur í sveitarstjórn Skaftárhrepps þar sem til umfjöllunar var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar á byggingarleyfi kæranda, dags. 22. maí 2006.  Eftirfarandi var bókað:  „Vegna athugasemda lögmanna sem borist hafa byggingarfulltrúa og sveitarstjórn þann 29. maí og 13. júní 2006 ákveður sveitarstjórn að afturkalla tímabundið byggingarleyfi sem búið var að veita [kæranda].“  Var kæranda tilkynnt ákvörðun sveitarstjórnar með bréfi, dags. 21. júní s.á., þar sem jafnframt sagði svohljóðandi:  „Sveitarstjórn hefur engar athugasemdir við fyrirhugaða byggingu en afturköllun byggingarleyfisins gildir þar til leyfi landeigenda fyrir framkvæmdunum er fengið.“ 

Í kjölfar þessa ritaði lögmaður kæranda bréf til sveitarstjóra hreppsins þar sem því var meðal annars haldið fram að ákvörðun sveitarstjórnar væri ólögmæt og ógild.  Þá var tiltekið að kærandi hefði ekki hug á því að stöðva framkvæmdir.  Með bréfi, dags. 12. júlí 2006, svaraði lögmaður hreppsins bréfinu og greindi frá því að við athugun á málinu hefði komið í ljós að ekki hefðu verið uppfyllt lagaskilyrði fyrir veitingu byggingarleyfisins þar sem skilyrði 14. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 hefði ekki verið fullnægt.  Jafnframt var eftirfarandi tekið fram:  „…þessari skýringu er hér með komið á framfæri, en hennar er óbeint getið í niðurlagi tilkynningar sveitarstjóra í bréfi til [kæranda]dags. 21.6.2006…„afturköllun byggingarleyfis gildir þar til leyfi landeiganda fyrir framkvæmdum er fengið.““  Að lokum var þess farið á leit að sveitarfélagið yrði upplýst um það hvort og þá hvenær vænta mætti formlegs samþykkis meðeiganda jarðarinnar sem liggja þyrfti fyrir svo unnt væri að afgreiða málið.  Frestur til að svara bréfinu var veittur til 1. ágúst s.á. 

Byggingarstjóri kæranda óskaði með bréfi, dags. 18. júli 2006, eftir úttekt á burðarfyllingu undir sökklum vegna byggingar vélageymslunnar og í svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 24. júlí 2006, var bent á að byggingarleyfið hefði verið afturkallað og því bæri að stöðva framkvæmdir við bygginguna.  Þá var jafnframt tekið fram að engar úttektir myndu fara fram fyrr en umbeðin gögn lægju fyrir og byggingarleyfi hefði verið veitt að nýju. 

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2006, var kæranda enn veittur 10 daga frestur til að afla nefnds samþykkis meðeiganda að jörðinni.  Einnig sagði svo:  „Ef ekki verður brugðist við þessari áskorun megið þér vænta þess að sveitarstjórn Skaftárhrepps muni þá þegar og án frekari viðvörunar afturkalla endanlega byggingarleyfið fyrir vélageymslunni.“  Var fyrirhuguðum framkvæmdum kæranda við vélageymsluna sérstaklega mótmælt og með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 31. ágúst 2006, var kæranda tilkynnt með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að framkvæmdir við bygginguna bæri að stöðva án tafar.  Hinn 1. september 2006 andmælti lögmaður kæranda athöfnum sveitarstjórnar og benti m.a. á að ákvæði ábúðarlaga ættu ekki við varðandi umdeildar byggingarframkvæmdir.  Kærandi hefði eingöngu nýtt sér séreignir sínar á jörðinni við atvinnustarfsemi sína og sameignir að því marki sem eignarhlutur hans stæði til.  Hinn 20. september 2006 var síðan óskað áfangaúttektar á stálgrind, bitum og þaki vélageymslunnar. 

Á fundi sveitarstjórnar Skaftárhrepps hinn 21. september 2006 var mál kæranda tekið til afgreiðslu.  Lögð voru fram fjölmörg bréf vegna málsins og eftirfarandi m.a. samþykkt:  „Að afturkalla byggingarleyfi fyrir byggingu vélageymslu samanber bókun sveitarstjórnar Skaftárhrepps þann 16. júní 2005.  Að lagt verði fyrir [kæranda] að fjarlægja nú þegar vélageymslu sem reist hefur verið að Hraungerði í sumar, eigi síðar en 20. október 2006.  Að öðrum kosti verði það gert á kostnað og ábyrgð [kæranda] samanber heimild í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“ 

Hefur kærandi skotið ofangreindri samþykkt sveitarstjórnar um afturköllun byggingarleyfis og niðurrif vélageymslunnar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að hann hafi hafist handa við undirbúning framkvæmda í framhaldi af því að byggingarleyfi hafi verið útgefið í júní 2005.  Veturinn 2005-2006 hafi kærandi staðið fyrir framkvæmdum innandyra, svo sem að sníða til og sjóða saman stálgrind hússins og á vormánuðum 2006 hafi framkvæmdir byrjað utandyra.  Eftir að honum hafi borist bréf um afturköllun byggingarleyfis til bráðabirgða hafi hann afráðið að halda áfram framkvæmdum til að forðast tjón. 

Kærandi telji að ekki hafi verið gætt málsmeðferðar- og efnisreglna stjórnsýslulaga við ákvarðanatökuna, sem sé án skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar, og því í andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.  Þá sé efnislegum og lagalegum rökstuðningi ákvörðunarinnar áfátt.  Verulega hafi skort á að sýnt hafi verið fram á nauðsyn umdeildra athafna og vandséð að málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðuninni. 

Byggingarleyfi hafi verið útgefið 16. júní 2005, en kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um að sveitarstjórn gerði athugasemdir við leyfið þann 22. júní 2006, og hafi kærandi því verið í góðri trú um heimildir sínar til framkvæmda við vélageymsluna í mjög langan tíma.  Kærandi beri ekki ábyrgð á því þótt útgefið byggingarleyfi kunni e.t.v. að hafa verið veitt á grundvelli ófullnægjandi gagna sem honum hafi verið ókunnugt um og í slíkum tilvikum verði sveitarfélagið sem stjórnvald að bera hallann af afgreiðslu málsins. 

Við mat á því hvenær afturköllun samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga sé heimil verði að líta til réttmætra væntinga málsaðila, góðrar trúar hans og réttaröryggis.  Þá mæli það almennt gegn ógildingu ákvörðunar ef eingöngu sé um að kenna mistökum stjórnvalds eða langt sé um liðið síðan ívilnandi ákvörðun hafi verið tekin.  Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum verði afturköllun byggingarleyfis kæranda vart talin eiga lagastoð. 

Þá telji kærandi að krafa um niðurrif vélageymslunnar sé afar þungvæg og veigamikil aðgerð sem feli í sér mikið og óafturkræft tjón á verðmætum.  Opinberir aðilar geti ekki ráðist í slíkar athafnir nema á grundvelli skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar.  Ekki sé réttlætanlegt að grípa til niðurrifs bygginga nema brýna nauðsyn beri til þar sem niðurrif sé í eðli sínu neyðarúrræði.  Kærandi telji að sveitarfélaginu hafi borið lagaskylda til að taka til sérstakrar skoðunar athugasemdir hans við vinnubrögð sveitarfélagsins og taka málefnalega og rökstudda afstöðu til þeirra sjónarmiða áður en ákvörðun hafi verið tekin. 

Ekki verði séð að umrædd bygging falli undir 56. gr. laga nr. 73/1997 skv. orðanna hljóðan en byggingarleyfi hafi verið gefið út og byggingin reist í góðri trú kæranda um gildi þess leyfis sem brjóti ekki í bága við skipulag. 

Með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn ákvæðum 13., 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga.  Gögn að baki ákvörðunartöku hafi m.a. verið umsögn og tölvupóstur lögmanns þar sem fram hafi komið nýjar og veigamiklar upplýsingar sem hafi haft verulega og afgerandi þýðingu við ákvörðunartökuna.  Kæranda hafi borist þessi gögn eftir óformlegum leiðum eftir að ákvörðun hafi verið tekin.  Telji kærandi að þarna hafi sveitarfélagið brotið á lögmætum andmælarétti hans í tvennum skilningi, en forsenda þess að aðili geti gætt hagsmuna sinna og tjáð sig um mál, svo fullt gagn sé að, sé að hann hafi aðgang að gögnum málsins.  Í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að stjórnsýslulögum hafi verið sérstaklega tekið fram að þegar aðila sé ókunnugt um að ný gögn eða upplýsingar hafi bæst við í máli hans, og telja verði að upplýsingar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins, sé almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hafi verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær.  Kæranda hafi verið ókunnugt um að til skoðunar væri að taka sérstaka ákvörðun í máli hans 21. september 2006. 

Málsmeðferð sveitarfélagsins í máli þessu feli í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga en vegna þess hve íþyngjandi ákvörðunin sé hefði sveitarfélaginu borið sérstök skylda til að gæta vandaðra stjórnsýsluhátta í hvívetna og rannsaka á viðhlítandi hátt þau sjónarmið sem kærandi hefi lagt fram í málinu.  Jafnframt hefði borið að fjalla rækilega um minna íþyngjandi ákvarðanir sem hægt væri að grípa til áður en ákveðið hafi verið að krefjast niðurrifs.  Þá hafi rökstuðningi verið áfátt.

Málsrök Skaftárhrepps:  Af gögnum málsins verður ráðið að sveitarfélagið byggi gjörðir sínar á því að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 14. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 um að ábúandi sem óski eftir að gera endurbætur á mannvirkjum ábúðarjarðar eða byggja ný mannvirki skuli leita skriflegs leyfis jarðareiganda.  Áréttað hafi verið við veitingu upphaflegs byggingarleyfis að samþykki allra jarðareiganda þyrfti til mannvirkjagerðarinnar og þar sem fyrir hafi legið að lagaskilyrðum hafi ekki verið fullnægt að þessu leyti þá hafi sveitarstjórn tekið þá ákvörðun að afturkalla leyfið.  Þessa hafi verið óbeint getið í tilkynningu til kæranda, dags. 21. júní 2006, þar sem fram hafi komið að „…afturköllun byggingarleyfis gildir þar til leyfi landeiganda fyrir framkvæmdum er fengið.“  Þá sé því sérstaklega mótmælt að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Jafnframt sé vísað til 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem kveðið sé á um hvenær heimilt sé að gefa út byggingarleyfi og bent á að byggingarfulltrúi hafi aldrei áritað aðaluppdrætti að skemmu kæranda sem sé meðal annars skilyrði þess að byggingarleyfi sé gefið út. 

Framkvæmdum hafi verið haldið áfram við vélageymsluna eftir að kæranda hafi verið tilkynnt um afturköllun byggingarleyfis og þrátt fyrir að því hafi verið synjað að gera úttekt á undirstöðuveggjum vélageymslunnar þar sem byggingarleyfi hafi þá verið afturkallað.  Telji sveitarfélagið að framkvæmdir kæranda brjóti gegn ákvæðum 48. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 en einnig hafi verið brotið gegn ákvæðum 39. gr. tilv. reglugerðar þar sem ekki hafi verið tilkynnt um múrarameistara fyrir verkið. 

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem óþarft þykir að rekja frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er þess krafist að felld verði úr gildi sú ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps að afturkalla byggingarleyfi sem veitt hafði verið til byggingar vélageymslu að Hraungerði í Álftaveri og að leggja fyrir kæranda að fjarlægja bygginguna. 

Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila skv. 1. tl. ákvæðisins eða ákvörðun er ógildanleg skv. 2. tl. 25. gr. laganna.  Lýtur úrlausnarefni málsins að því hvort fullnægt hafi verið skilyrðum til afturköllunar umrædds byggingarleyfis á grundvelli 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga, svo og hvort gætt hafi verið réttrar aðferðar við gerð og undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar um afturköllun leyfisins og um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja bygginguna.

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti, eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Í 4. mgr. 43. gr. fyrrgreindra laga segir að sá sem óski eftir leyfi skv. 1. mgr. skuli senda um það skriflega umsókn til hlutaðeigandi byggingarnefndar ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum, þar með töldu samþykki meðeigenda sé um sameign að ræða.  Er það því skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis að slíkt samþykki meðeigenda liggi fyrir ef um sameign er að ræða.  Samkvæmt 14. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 þarf og samþykki jarðareiganda fyrir endurbótum og nýjum mannvirkjum á jörð í ábúð. 

Ekki liggur annað fyrir en að land umræddrar jarðar sé í óskiptri sameign.  Samþykki meðeiganda kæranda að jörðinni lá ekki fyrir áður en leyfi fyrir byggingu vélageymslu var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd hinn 25. apríl 2005 en leyfið var allt að einu veitt og var sú ákvörðun áréttuð á fundi nefndarinnar hinn 22. maí 2006.  Hins vegar var tekið fram í bókun nefndarinnar að skúr sá sem fyrir væri á byggingarreitnum yrði fyrst að víkja og í sérstakri bókun um umsókn kæranda um leyfi til niðurrifs eldri skúrs var tekið fram að samþykki allra eigenda skyldi liggja fyrir áður en byggingin yrði rifin.  Verður að skilja bókun skipulags- og byggingarnefndar svo að ekki hafi verið fallist á umsókn kæranda um leyfi til niðurrifs eldri skúrs.  Þrátt fyrir þetta fjarlægði kærandi umræddan skúr og hóf framkvæmdir við byggingu vélageymslunnar. 

Sveitarstjórn sendi kæranda máls þessa bréf hinn 12. júlí 2006 og aftur hinn 17. ágúst 2006 þar sem honum var veitt færi á að veita upplýsingar um hvort samþykki meðeiganda fyrir framkvæmdunum fengist.  Kom kærandi á framfæri sjónarmiðum sínum við Skaftárhrepp varðandi umdeilt byggingarleyfi og ráðagerðir um afturköllun þess áður en hin kærða ákvörðun um afturköllun var tekin.

Þegar litið er til þess að kæranda var allt frá upphafi kunnugt um þá afstöðu skipulags- og byggingarnefndar að niðurrif eldra húss væri háð samþykki meðeigenda og að hann réðist í þá framkvæmd án tilskilins leyfis, svo og þess að honum var ítrekað gefinn kostur á að afla samþykkis og veittir frestir í því skyni, verður ekki fallist á að væntingar kæranda, góð trú hans eða það hversu seint endanleg ákvörðun var tekin, eigi að leiða til þess að meta beri hina umdeildu afturköllun ólögmæta. 

Með vísan til alls þess er að framan greinir verður að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að afturkalla fyrri ákvörðun sína um veitingu byggingarleyfis fyrir vélargeymslu í landi Hraungerðis og þykir málsmeðferð við töku þeirrar ákvörðunar ekki hafa verið haldin þeim annmörkum að ógildingu varði.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar umdeildu afturköllunar því hafnað. 

Sveitarstjórn hefur jafnframt með hinni kærðu ákvörðun lagt fyrir kæranda að umrædd vélageymsla verði fjarlægð með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Sýnt þykir að ákvörðun sveitarstjórnar um að gera kæranda skylt að fjarlægja umrædda vélageymslu hafi verið tekin í tilefni af ákvörðun um afturköllun leyfis fyrir byggingu hennar sem tekin var og tilkynnt kæranda á sama tíma.  Þrátt fyrir bréfaskriftir milli yfirvalda Skaftárhrepps og kæranda varðandi umdeilda byggingu verður ekki séð að kæranda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um þá ætlan sveitarstjórnar að krefjast þess að umrædd bygging yrði fjarlægð með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Ljóst er að fyrrgreind ákvörðun er töluvert íþyngjandi fyrir kæranda, og getur m.a. haft talsverða fjárhagslega þýðingu fyrir hann.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að sveitarstjórn Skaftárhrepps hafi ekki verið heimilt að taka slíka ákvörðun án þess að gætt væri ákvæðis 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt kæranda.  Verður ákvörðun sveitarstjórnar um að kæranda verði gert að fjarlægja nefnda vélageymslu því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu samþykktar sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 21. september 2006 um afturköllun byggingarleyfis fyrir vélageymslu í landi jarðarinnar Hraungerðis í Skaftárhreppi.  Sú samþykkt sveitarstjórnar Skaftárhrepps, að leggja fyrir kæranda að fjarlægja vélageymsluna, er felld úr gildi. 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________       ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

165/2007 Ennishvarf

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 165/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 21. febrúar 2007 um að veita leyfi til byggingar hesthúss og breytinga á áður samþykktu húsi á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2007, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. J og R, Ennishvarfi 13, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 21. febrúar 2007 að veita leyfi til byggingar hesthúss og breytinga á áður samþykktu húsi á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf.  Var ákvörðun byggingarfulltrúa lögð fram á fundi byggingarnefndar hinn 7. mars 2007 og staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar. 

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði fellt úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda heldur kveðinn upp endanlegur úrskurður í málinu. 

Málavextir:  Á svæði því er hér um ræðir er í gildi deiliskipulag Vatnsendahverfis, Norðursvæði, er öðlaðist gildi hinn 12. september 2002.  Af málsgögnum verður ráðið að kærendur hafi fengið fjórar grenndarkynningar til umfjöllunar vegna tillagna að breyttu skipulagi vegna lóðarinnar nr. 6 við Ennishvarf, síðast í október 2006.  Í þeirri útfærslu, sem þá var kynnt, fólst að hesthús var staðsett út fyrir byggingarreit og svölum breytt.  Gerðu kærendur athugasemdir vegna þessa.  Var tillagan samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 23. janúar 2007.  Deiliskipulagsbreyting varðandi umrædda lóð mun þó ekki enn hafa öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. 

Hinn 21. febrúar 2007 veitti byggingarfulltrúinn leyfi til byggingar hesthúss og breytinga á áður samþykktu húsi á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf.  Var ákvörðun byggingarfulltrúa lögð fram á fundi byggingarnefndar hinn 7. mars 2007 og staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar. 

Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir eigi aðliggjandi lóð við Ennishvarf 6.  Þeir hafi tekið eftir því hinn 1. desember 2007 að framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf væru ekki samræmi við skipulag það er þeim hefði verið kynnt.  Hafi þeir talið að í gildi væri skipulag er gerði ráð fyrir að farið yrði 2,5 m út fyrir byggingarreit til norðurs.  Eftir að byggingarleyfi hafi verið veitt hafi verið hafist handa við að fjarlægja mikið magn af uppfyllingarefni og sökkla sem áður hefði verið veitt leyfi fyrir á lóðinni.  Byggingarframkvæmdir hafi hafist sumarið 2007 og í nóvember það ár hafi útveggir hússins risið.  Hinn 1. desember 2007 hafi kærendur ákveðið að mæla útveggi bílskúrsins að Ennishvarfi 6, enda hafi þeir talið að útsýni þeirra yfir Elliðavatn ætti ekki að skerðast svo mikið miðað við það skipulag sem þeir hafi talið í gildi.  Í ljós hafi komið að bílskúr fari út fyrir byggingarreit til norðurs um 4,5 m miðað við gildandi deiliskipulag. 

Ljóst sé að kærendur eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins en hinar ólögmætu framkvæmdir skerði m.a. útsýni þeirra. Þá sé kæra þeirra lögð fram innan þeirra tímafresta sem skipulags- og byggingarlög mæli fyrir um.  Kærendum hafi ekki verið um það  kunnugt fyrr en hinn 1. desember 2007 að hinar umdeildu framkvæmdir væru í andstöðu við gildandi skipulag. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hið kærða byggingarleyfi. 

Þá sé því einnig haldið fram að frestur til að skila inn kæru til nefndarinnar hafi verið útrunninn er kæran hafi borist.  Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Kæra í máli þessu hafi borist níu mánuðum eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.  Samkvæmt byggingarsögu mannvirkisins séu framkvæmdir fyrir löngu hafnar.  Kærendum hafi því mátt vera kunnugt um að byggingarleyfi hafi verið veitt en þeir hafi látið undir höfuð leggjast að krefjast stöðvunar framkvæmda eða ógildingar leyfisins fyrr en að loknum kærufresti. 

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá.  Í ljósi þess sem að framan sé rakið beri að vísa kröfu um stöðvun framkvæmda sem og um ógildingu byggingarleyfis frá úrskurðarnefndinni. 

Andsvör kærenda vegna málsraka Kópavogsbæjar:  Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfu Kópavogsbæjar.  Mótmæla þeir fullyrðingu bæjaryfirvalda þess efnis að þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta.  Farið sé með byggingarlínu bílskúrs 4,5 m út fyrir byggingarreit miðað við gildandi deiliskipulag.  Umræddur bílskúr minnki bil sem sé á milli Ennishvarfs 6 og 8, einmitt þar sem helsta útsýni sé frá borðstofu og eldhúsi kærenda, eða útsýni yfir Elliðavatn, sem augljóslega sé mjög verðmætt. 

Þá sé ítrekað að breytingar á deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2002 hafi aldrei verið kláraðar og enn síður hafi nokkurn tíma verið veitt leyfi fyrir því að fara með bílskúrinn 4,5 m út fyrir byggingarreit, hvorki hjá Kópavogsbæ né annars staðar. 

Í byrjun desember 2007 hafi uppsláttur fyrir útveggjum bílskúrsins hafist, og þá fyrst hafi kærendum fundist útsýni þeirra skerðast mun meira en þeir hafi reiknað með.  Hafi þeir því farið út og mælt og hafi þá hið rétta komið í ljós eða að farið væri 4,5 m út fyrir byggingarreit hússins. 

Byggingarleyfishafa gafst kostur á að tjá sig um kröfu kærenda en hann hefur ekki gert það. 

Málsaðilar hafa fært fram ítarleg rök fyrir kröfum sínum en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að kærendur eigi ekki aðild að kærumáli þessu þar sem hið kærða byggingarleyfi skerði í engu hagsmuni þeirra.  Á þetta verður ekki fallist.  Kærendur eru búsettir að Ennishvarfi 13 og er hús þeirra gegnt lóðinni að Ennishvarfi 6.  Verður því að játa kærendum aðild að kærumáli þessu enda höfðu þeim verið grenndarkynntar tillögur skipulagsyfirvalda að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Ennishvarfi 6. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er til nefndarinnar. 

Eins og áður greinir eru kærendur máls þessa búsettir alveg í næsta nágrenni við lóðina að Ennishvarfi 6.  Af gögnum þeim er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina má glöggt ráða að í apríl og maí 2007 hafi sökkull og botnplata hússins að Ennishvarfi 6 verið steypt.  Á tímabilinu júní til september sama ár hafi veggir neðri hæðar og plata fyrstu hæðar verið steypt og veggir annarrar hæðar hafi verið steyptir upp í október og nóvember 2007.  Verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að kærendum hafi, a.m.k. frá því uppsteypu neðri hæðar hússins að Ennishvarfi 6 var lokið í september 2007, mátt vera kunnugt um staðsetningu þess og afstöðu til þess kærenda og að þeim hafi þá borið að kynna sér byggingarleyfið og staðreyna hvort það væri í samræmi við deiliskipulag og skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma.  Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 18. desember 2007 er húsið var að mestu risið og var kærufrestur þá liðinn. 

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. greinar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

49/2005 Tunguskógur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2005, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 27. október 2004 um að heimila að sumarbústaður verði fjarlægður af lóðinni nr. 62 í Tunguskógi í Tungudal, Ísafjarðarbæ og annar reistur í staðinn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. júní 2005, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. M og M, eigenda sumarhúss á lóð nr. 61 í Tunguskógi, þá ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 27. október 2004 að samþykkja að sumarbústaður verði fjarlægður af lóðinni nr. 62 í Tunguskógi og annar byggður á sömu lóð.  Bæjarstjórn samþykkti hina kærðu afgreiðslu á fundi sínum hinn 18. nóvember 2004.  Endanleg kröfugerð kærenda er sú að hið kærða leyfi fyrir byggingu sumarhúss verði fellt úr gildi.
 
Málavextir:  Á fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar hinn 27. október 2004 var tekin fyrir umsókn um heimild til að fjarlægja sumarbústað á lóðinni nr. 62 í Tunguskógi og reisa þar nýjan.  Lagði nefndin til við bæjarstjórn að erindin yrðu samþykkt og var svo gert á fundi bæjarstjórnar hinn 18. nóvember 2004.

Í kjölfar þess að hafist var handa við byggingu sumarhússins gerðu kærendur athugasemdir við nýbygginguna með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 25. maí 2005.  Kom m.a. fram að kærendur teldu að nýbyggingin væri mun stærri en sumarbústaður sá sem fyrir hefði verið.  Einnig var bent á að ekki hefði farið fram grenndarkynning áður en byggingarleyfið hefði verið gefið út.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. júní 2005, var athugasemdum kærenda svarað og m.a. bent á að umrædd bygging væri á lóð sem væri innan þess svæðis í Tungudal sem skipulagt væri sem sumarhúsabyggð og umsókn og afgreiðsla sveitarstjórnar því í samræmi við skipulag.  Jafnframt var tekið fram að þó svo að byggingin væri nokkuð stærri en sú sem áður hefði staðið á lóðinni þá hefði ekki verið um það frávik frá skipulagi að ræða að talin hefði verið þörf á að grenndarkynna umsóknina.  Bent var á að engin ákvæði í byggingar- eða skipulagsreglugerð takmarki stærð sumarhúsa.

Kærendur skutu fyrrgreindri ákvörðun umhverfisnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að fyrir liggi að ekki hafi verið gert deiliskipulag fyrir sumarbústaðabyggðina í Tunguskógi en skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 en skylt sé, þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir, að láta fara fram grenndarkynningu áður en málið hljóti afgreiðslu byggingarnefndar.  Þar sem slíkt hafi ekki verið gert hafi kærendum ekki gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi fyrirhugaða byggingu.  Telji kærendur að þegar af þeirri ástæðu einni beri að fella byggingarleyfið úr gildi.

Byggingarleyfið sé mjög óskýrt og ekki sé í raun ljóst hvað í því felist þar sem nýbyggingin virðist ekki í nokkru samræmi við þau gögn sem lögð hafi verið fyrir umhverfisnefnd og hafi verið grundvöllur að fyrrgreindu byggingarleyfi.  Framlögð afstöðumynd hafi ekki verið rétt þegar byggingarleyfi hafi verið afgreitt og ekki sýnt rétta mynd af því húsi sem fyrirhugað hafi verið að reisa á lóðinni.

Gera verði þær kröfur til stjórnvaldsákvarðana að þær séu skýrar og ótvíræðar og að enginn vafi leiki á því hvað í þeim felist og vísa kærendur í því sambandi til meginreglna stjórnsýsluréttarins, svo sem rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Þá sé tekið fram vegna ákvæða skipulags- og byggingarlaga um kærufrest að það hafi fyrst verið þann 25. maí 2005, þegar framkvæmdir við nýbyggingu hafi byrjað, að kærendum hafi orðið kunnugt um að byggingarframkvæmdir væru ekki í nokkru samræmi við þau gögn sem lögð hefðu verið fyrir umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar.

Málsrök Ísafjarðarbæjar:  Af hálfu bæjarins er vísað til uppdráttar frá árinu 1960 sem til sé af umræddu svæði og farið hafi verið eftir í aðalatriðum, en á árinu 1980 hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir sumarbústað á lóðinni nr. 62 í Tunguskógi.  Hinn 5. apríl 1994 hafi flestallir sumarbústaðir á svæðinu eyðilagst í snjóflóði og hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir sumarbústöðum í Tungudal þá um sumarið. 

Skipulag ríkisins hafi talið útgáfu byggingarleyfanna vera brot gegn 2. mgr. 7. gr. laga nr. 28/1985 og gr. 3.1.8 í byggingarreglugerð og hafi óskað eftir úrskurði ráðherra varðandi það.  Með úrskurði uppkveðnum í september 1994 hafi umhverfisráðherra fallist á að heimilað væri að veita byggingarleyfi með því skilyrði að búseta yrði takmörkuð við tímabilið 16. apríl til 15. desember ár hvert.  Byggingarnefnd Ísafjarðarbæjar hafi svo hinn 19. september s.á. heimilað byggingu sumarbústaðar á lóð nr. 62 með kvöð um búsetu vegna ofanflóða.  Það hafi því verið mat bæjarstjórnar Ísafjarðar, Skipulags ríkisins og umhverfisráðuneytisins að um „deiliskipulag“ væri að ræða enda þótt að uppdrátturinn hefði ekki verið samþykktur formlega séð.

Þá kemur fram að á árinu 2002 hafi eigendur sumarbústaðar á lóð nr. 62 óskað eftir leyfi til að færa bústað sinn neðar á lóðina, um sem næmi breidd hússins, og hafi verið leitað álits annars kærenda vegna þessa sem hafi ekki gert athugasemd við það.

Í ljós hafi komið að bústaðurinn hafi verið í mkv. 1:1000 á afstöðumynd en aðrir bústaðir í mkv. 1:500 sem hafi gert það að verkum að hann hafi virst mun minni en útlit og grunnmynd sýni og hafi þetta verið lagfært.  Sumarbústaðurinn standi ekki nær mörkum lóðar nr. 61 en sá sem fyrir hafi verið og ekki hafi verið litið svo á að verið væri að draga úr útsýni þar sem bakhlið flestra bústaða í Tunguskógi snúi í austur.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir sumarbústað á lóðinni nr. 62 í Tunguskógi, Ísafjarðarbæ.

Á svæði því sem hér um ræðir er í gildi Aðalskipulag Ísafjarðar 1989-2009 og kemur fram í greinargerð þess að í Tunguskógi sé nokkuð um sumarbústaði og að umrætt svæði sé sumarbústaðalönd Ísfirðinga.  Hafa bæjaryfirvöld vísað til þess að litið hafi verið til uppdráttar sem gerður var árið 1960 af K. Jónssyni sem ígildi deiliskipulags fyrir svæðið.

Í 11. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim, sem gerðar hafi verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998, gildi án tillits til þess hvort þær hafi verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Á fyrrgreindum uppdrætti frá árinu 1960 hafa verið teiknaðar lóðir og í einhverjum tilvikum einnig staðsetning bústaða og mun lóðum nr. 62 og nr. 64 hafa verið bætt síðar á uppdráttinn en ekki er vitað hvenær.  Ekki liggur fyrir í málinu að nefndur uppdráttur hafi fengið staðfestingu sveitarstjórnar eða öðlast gildi með öðrum hætti í tíð eldri laga.  Verður því ekki séð að fullnægt sé skilyrði 11. tl. til bráðabirgða um samþykkt sveitarstjórnar og verður því ekki fallist á að í gildi sé deiliskipulag að svæðinu.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar en í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis er kveðið á um að þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir í þegar byggðum hverfum geti sveitarstjórn veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna.

Í máli því er hér um ræðir liggur fyrir að veitt var leyfi til byggingar sumarbústaðar á svæði þar sem ekki er í gildi lögformlegt deiliskipulag.  Bar því að gæta ákvæða 7. mgr. 43. gr. nefndra laga um að grenndarkynna umsókn áður en leyfið var veitt, eða eftir atvikum 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, sem heimilar veitingu byggingarleyfis að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar þar sem ekki er fyrir hendi deiliskipulag.  Svo var eigi gert og verður að telja að slíkir annmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 27. október 2004, er bæjarstjórn samþykkti hinn 18. nóvember 2004, um að samþykkja byggingu sumarbústaðar á lóðinni nr. 62 í Tunguskógi, Ísafjarðarbæ. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

126/2007 Aspargrund

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2007, ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 31. maí 2007 um að heimila byggingu bílskúrs og stækkun hússins að Aspargrund 9.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. september 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Stefán BJ Gunnlaugsson hrl., f.h. S, Aspargrund 1, S og G, Aspargrund 3, Á og G, Aspargrund 5 og F og O, Aspargrund 7, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 31. maí 2007 að heimila byggingu bílskúrs og stækkun íbúðarhússins á lóðinni nr. 9 við Aspargrund í Kópavogi.  Bæjarráð Kópavogs staðfesti þá ákvörðun á fundi hinn 12. júní 2007.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi og var fallist á þá kröfu í úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum hinn 15. október 2007.

Málavextir:  Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 3. maí 2006 var tekið fyrir erindi um að reisa bílskúr og byggja við húsið að Aspargrund 9.  Var erindinu vísað til skipulagsnefndar sem samþykkti á fundi sínum hinn 16. maí 2006 að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins.  Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 5. september s.á. og samþykkt með þeirri breytingu að bílskúr yrði færður þrjá metra frá lóðarmörkum Aspargrundar 7.  Fundargerð skipulagsnefndar var samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 7. september 2006.

Með bréfi bæjarskipulags, dags. 20. september 2006, til lóðarhafa lóðarinnar að Aspargrund 9a kom m.a. eftirfarandi fram: „Í ljósi þess að fyrirhugaður bílskúr er staðsettur innan við almenn bílastæði í götunni (sbr. gildandi deiliskipulag) hefur erindið verið tekið að nýju til athugunar hjá bæjarskipulagi.  Skoðað verður með hvaða hætti sé unnt að leysa málið, þannig að umræddur bílskúr og aðkoma að honum takmarki ekki nýtingu almennra bílastæða í götunni.  Þess hefur verið farið á leit við byggingarfulltrúa að ákvörðun um byggingarleyfi verði frestað þar til áðurnefndri athugun er lokið.“

Var lögð fram ný tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Aspargrund 9-11 er gerði ráð fyrir að byggð yrði 124 fermetra viðbygging við hús það er á lóðinni stendur ásamt 22 fermetra svölum á suðurhlið og um 9 fermetra svalir á austurhlið hússins.  Auk þess var gert ráð fyrir 50 fermetra bílskúr á lóðinni og að bílastæði á bæjarlandi yrðu færð til.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. maí 2007 var erindið samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.  Á fundi bæjarráðs hinn 18. maí 2007 var framlagt erindi samþykkt með vísan til umsagnar bæjarskipulags.  Var lóðarhöfum tilkynnt um lyktir málsins með bréfi, dags. 23. maí 2007, og hinn 31. maí 2007 heimilaði byggingarfulltrúi byggingu bílskúrs og stækkun hússins að Aspargrund 9 og staðfesti bæjarstjórn leyfið hinn 12. júní 2007.  Hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Framkvæmdir við lóðina að Aspargrund 9-11 voru stöðvaðar með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. júní 2007, með vísan til þess að breytt deiliskipulag lóðarinnar hefði ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en framkvæmdir voru síðan hafnar að nýju eftir birtingu auglýsingar um breytt skipulag í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. september 2007.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að umrætt byggingarleyfi hafi verið gefið út áður en auglýsing um breytt deiliskipulag svæðisins hafi verið birt.  Byggingarleyfið hafi því verið veitt á grundvelli deiliskipulags frá 1996 sem heimili ekki þær framkvæmdir sem í leyfinu felist.  Breytingar á deiliskipulagi við Aspargrund hafi fyrst tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2007. 

Byggingarfulltrúi hafi stöðvað framkvæmdir með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi kærendur álitið að leyfið hefði verið afturkallað.  Byggingarleyfið rakni ekki við þótt auglýsing um breytingu á deiliskipulagi hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda heldur þurfi að gefa út nýtt byggingarleyfi.  Eldra leyfi sé ógilt og beri að fella það strax úr gildi.  Ekki liggi fyrir samþykkt bæjarstjórnar um byggingarleyfi á grundvelli hins breytta skipulags eftir að það hafi tekið gildi.  Sé vísað til 43.-45. gr. laga nr. 73/1997. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær krefst þess að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið afturkölluð.  Stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar ákvörðun sé ógildanleg.  Í tilfelli því sem hér um ræði hafi byggingarleyfið verið gefið út á grundvelli deiliskipulags sem ekki hafi hlotið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.  Hafi byggingarleyfið því verið afturkallað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. júní 2007.  Ekki hafi verið gefið út nýtt byggingarleyfi eftir að það hafi verið afturkallað.  

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt og bent á að réttilega hafi verið staðið að grenndarkynningum og nágrannar hafi ekki gert athugasemd við stækkun hússins sem liggi mun lægra á lóð en húsin nr. 3, 5, og 7 við Aspargrund.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er óheimilt að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Er kveðið svo á um í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis að framkvæmdir samkvæmt 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.

Í máli þessu liggur fyrir að byggingarfulltrúi veitti umdeilt byggingarleyfi hinn 31. maí 2007 og staðfesti bæjarstjórn leyfið hinn 12. júní 2007.  Ætluð auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingar þeirrar sem byggingarleyfið studdist við birtist í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2007 og verður að telja að fyrrgreindum skilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi því ekki verið fullnægt við útgáfu leyfisins.  Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp frávísunarúrskurð í deilumáli um skipulagsbreytingu varðandi lóðina að Aspargrund 9-11 þar sem skipulagsbreytingin var ekki talin hafa hlotið lögformlega birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Verður umdeilt byggingarleyfi fellt úr gildi þar sem það er ekki í samræmi við gildandi deiliskipulagi viðkomandi svæðis. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavog frá 31. maí 2007 um að heimila byggingu bílskúrs og stækkun íbúðarhússins á lóðinni nr. 9 við Aspargrund í Kópavogi, er bæjarráð Kópavogs staðfesti hinn 12. júní 2007, er felld úr gildi.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
     Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 

123/2007 Aspargrund

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2007, kæra á samþykkt bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Aspargrund 9-11, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. september 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir Stefán BJ Gunnlaugsson hrl., f.h. S, Aspargrund 1, S og G, Aspargrund 3, Á og G, Aspargrund 5 og F og O, Aspargrund 7, samþykkt bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Aspargrund 9-11, Kópavogi.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 22. október 1996 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs deiliskipulag við Birkigrund í Kópavogi.  Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 3. maí 2006 var tekið fyrir erindi um að reisa bílskúr og byggja við húsið að Aspargrund 9.  Var erindinu vísað til skipulagsnefndar sem samþykkti á fundi sínum hinn 16. maí 2006 að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins.  Fundargerð skipulagsnefndar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 18. maí 2006.

Hinn 5. september 2006 var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar og tillagan samþykkt með þeirri breytingu að bílskúr yrði færður þrjá metra frá lóðarmörkum Aspargrundar 7.  Á fundi bæjarráðs Kópavogs hinn 7. september 2006 var ákvörðun skipulagsnefndar samþykkt.

Eftir framangreinda samþykkt bárust athugasemdir frá íbúum nærliggjandi húsa um að bílastæði við götu væru ekki lengur fyrir hendi og í bréfi bæjarskipulags til lóðarhafa að Aspargrund 9a, dags. 20. september 2006, sagði m.a:  „Í ljósi þess að fyrirhugaður bílskúr er staðsettur innan við almenn bílastæði í götunni (sbr. gildandi deiliskipulag) hefur erindið verið tekið að nýju til athugunar hjá bæjarskipulagi.  Skoðað verður með hvaða hætti sé unnt að leysa málið, þannig að umræddur bílskúr og aðkoma að honum takmarki ekki nýtingu almennra bílastæða í götunni.  Þess hefur verið farið á leit við byggingarfulltrúa að ákvörðun um byggingarleyfi verði frestað þar til áðurnefndri athugun er lokið…“

Í kjölfar þessa var málið skoðað að nýju í samráði við lóðarhafa að Aspargrund 9-11 og á fundi bæjarráðs hinn 30. nóvember 2006 var óskað eftir því að unnin yrði tillaga að breyttri staðsetningu gestabílastæða.  Vísaði bæjarráð erindinu til bæjarlögmanns og skipulagsstjóra til umsagnar og mælti skipulagsstjóri með því í umsögn, dags. 18. janúar 2007, að lóðarhafi ynni að deiliskipulagstillögu er byggði á fyrri tillögu, þó þannig að bílastæði á bæjarlandi yrðu flutt til samkvæmt fyrirsögn skipulagsnefndar.

Hinn 6. febrúar 2007 var tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar að Aspargrund 9-11 tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar.  Gerði hún ráð fyrir að byggð yrði 124 fermetra viðbygging við hús það er á lóðinni stendur ásamt 22 fermetra svölum á suðurhlið og um 9 fermetra svalir á austurhlið. Auk þess var gert ráð fyrir 50 fermetra bílskúr og að bílastæði á bæjarlandi yrðu færð til.

Umrædd tillaga var grenndarkynnt og að kynningartíma loknum var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 3. apríl 2007 og afgreiðslu þess frestað en bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn varðandi innsendar athugasemdir.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. maí 2007 var erindið samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.  Á fundi bæjarráðs hinn 18. maí 2007 var framlagt erindi samþykkt með vísan til umsagnar bæjarskipulags. 

Auglýsing um gildistöku breytingar deiliskipulags Aspargrundar 9 og 11 var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. september 2007 og hljóðaði svo:  „…Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum, hefur bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkt þann 7. september 2007 tillögu að breyttu deiliskipulagi við Aspargrund 9 og 11….“  Skutu kærendur deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að deiliskipulagið brjóti gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, bæði hvað varði málsmeðferð og efni.

Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hafi bæjarráð samþykkt tillögu að breyttu deiliskipulagi þann 7. september 2007.  Þann dag hafi enginn fundur verið haldinn í bæjarráði og með vísan til þess sé ljóst að auglýsingu sé áfátt og þegar af þeirri ástæðu beri að fella hið breytta deiliskipulag úr gildi. 

Hið breytta deiliskipulag feli ekki aðeins í sér breytingar á skipulagi lóðar nr. 9-11 við Aspargrund heldur öllu deiliskipulagi Aspargrundar.  Bílastæðum sé breytt, þau hreyfð til og fækkað miðað við gildandi deiliskipulag frá 1996.  Deiliskipulagið sé því ekki unnið á lögmætan hátt.  Tillögur að breyttu deiliskipulagi, sem kynntar hafi verið kærendum, hafi verið ranglega settar fram og hafi ekki náð yfir allt svæðið sem ætlunin hafi verið að breyta.  Athugasemdir hafi verið gerðar við framlagða tillögu en engar teknar til greina en síðan hafi skipulagsyfirvöld breytt sjálfri tillögunni og samþykkt sem núverandi skipulag.  Hafi kærendur ekki fengið að koma að athugasemdum við endanlega útgáfu deiliskipulagsins eins og það hafi verið samþykkt.  Því hafi þeir óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun skipulagsnefndar en ekkert svar hafi borist.

Kærendur telji að það að taka sameiginleg bílastæði af öðrum íbúum til hagsbóta fyrir þann sem óski breytinga sé hvorki í anda skipulagslaga né skipulagsreglugerðar.  Breytingar á skipulagi í grónum hverfum skuli gera með sem minnstum óþægindum fyrir þá sem þar séu fyrir en lóðin að Aspargrund 9-11 sé stærsta lóðin við Aspargrund og auðvelt væri að koma þar fyrir innkeyrslu og fjölga bílastæðum þannig að allir væru sáttir.  Jafnframt vísi kærendur til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 727/1992.

Þá hafi breytingar á fasteign ekki verið kynntar kærendum nægjanlega.  Ekki hafi verið gerð grein fyrir hæð breytinganna og á kynningargögnum hafi hvorki hæðarkótar, fjarlægð frá lóðarmörkum né magntölur verið sýndar, hvorki af bílskúr né húsi.

Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við breytingu á deiliskipulagi. Hún hafi engu að síður verið samþykkt en kærendum hafi ekki verið tilkynnt um þær.

Að lokum sé bent á að í erindi Kópavogsbæjar til Skipulagsstofnunar sé ekki gert ráð fyrir þeim skilyrðum sem sett séu í 2. mgr. 26. gr. i.f. laga nr. 73/1997 svo sem mikilvægt sé.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. 

Málsmeðferð við afgreiðslu deiliskipulagsins hafi verið byggð á 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ákvörðunin hafi verið ítarlega grenndarkynnt þeim sem taldir voru eiga hagsmuna að gæta og hafi borist athugasemdir frá lóðarhöfum að Aspargrund 1, 3, 5 og 7 og Birkigrund 3.  Að lokinni grenndarkynningu hafi skipulagsnefnd yfirfarið málið að nýju með tilliti til framkominna athugasemda og hafi einkum kannað grenndaráhrif með tilliti til rasks, útlitsbreytinga, nýtingarmöguleika, skuggavarps og annarra þátta.  Við skoðun hafi komið í ljós að í upphaflegu skipulagi lóðarinnar að Aspargrund 9-11 hafi ekki verið gert ráð fyrir bílastæðum innan lóðar en svo hafi verið um aðrar lóðir í götunni.

Ákvörðun skipulagsnefndar hafi m.a. verið byggð á þeim grundvelli að fyrirhuguð breyting myndi fela í sér verulega aukna nýtingarmöguleika lóðarhafa á lóð, í samræmi við nýtingu innan annarra lóða í götunni.  Vegi hér þungt að ekki hafi verið gert ráð fyrir bílastæðum innan lóðarinnar í eldra skipulagi og hafi verið litið svo á að um leiðréttingu væri að ræða.

Ákveðið hafi verið að færa bílskúr frá lóðarmörkum um þrjá metra vegna framkominna athugasemda en önnur grenndaráhrif talin óveruleg, ef nokkur.

Andmæli lóðarhafa Aspargrundar 9-11:  Lóðarhafar benda á að þeir séu með fjórar bifreiðar á heimilinu og noti þrjú bílastæði af fjórum fyrir framan lóð sína.  Verði nýja skipulagið samþykkt muni losna um eitt bílastæði í viðbót og þá hafi þeir tvö stæði til að aka upp að bílskúr sínum og séu þá tvö gestastæði eftir og eitt stæði neðst í götu.  Þá hafi einn lóðarhafi við götuna nýtt sér endastæði á milli lóða nr. 7 og 9 við Aspargrund til lengri tíma og noti jafnframt stæði efst í götunni sem gæti allt eins verið gestastæði. 

Lóðarleyfishafar hafi verið upplýstir um það við kaup á fasteign sinni að bílastæði fyrir framan lóð tilheyrði húsi nr. 9 og 11 við Aspargrund og hafi þau verið merkt sem bílastæði en ekki gestastæði.  Réttilega hafi verið staðið að grenndarkynningum og nágrannar hafi ekki gert athugasemd við stækkun hússins sem liggi mun lægra á lóð en húsin nr. 3, 5, og 7 að Aspargrund.

Niðurstaða:  Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, er birtist hinn 19. september 2007, var hin kærða deiliskipulagsbreyting vegna Aspargrundar 9-11 staðfest í bæjarráði Kópavogs hinn 7. september 2007.  Við eftirgrennslan hefur komið í ljós að þann dag var ekki haldinn fundur í bæjarráði.  Hins vegar liggur fyrir í málinu að bæjarráð Kópavogs staðfesti tillögu skipulagsnefndar bæjarins frá 6. september 2006, um skipulagsbreytingu varðandi greinda lóð, hinn 7. september 2006.  Þá liggur og fyrir að bæjarráð staðfesti hinn 18. maí 2007 nýja deiliskipulagsbreytingu að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt tillögu skipulagsnefndar frá 15. maí 2007.  Víkur síðargreinda breytingin frá hinni fyrri hvað varðar tilhögun bílastæða.

Að framangreindum atvikum virtum þykir vafa undirorpið til hvaða ályktunar bæjarráðs um skipulagsbreytingu varðandi Aspargrund 9-11 fyrrgreind auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda taki.  Verður því að líta svo á að samþykkt um deiliskipulagsbreytingu vegna Aspargrundar 9-11, er mál þetta snýst um, hafi ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en umrædd birting er gildistökuskilyrði samkvæmt gr. 6.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Var því ekki fullnægt því skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kæruheimild að málið væri til lykta leitt og lá því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.   

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
   Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

5/2008 Þverholt

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 5. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2008 um að veita takmarkað byggingarleyfi á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. janúar 2008, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kæra A, Meðalholti 5 og S, Meðalholti 13 í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2008 um að veita takmarkað byggingarleyfi á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt er tekur til jarðvinnu, sprenginga og aðstöðugerðar.  Var ákvörðun þessi staðfest á fundi borgarráðs hinn 10. janúar 2008.

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði fellt úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Telst málið nú nægilega upplýst og verður það því tekið til endanlegrar úrlausnar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 2. maí 2007 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi reits 1.244.1-3, eða svæðis er afmarkast af Háteigsvegi, Þverholti, Stórholti og Einholti.  Í tillögu þessari fólst m.a. niðurrif húsa og bygging mun þéttari byggðar, bæði undir íbúðir og verslun og þjónustu.  Staðfesti borgarráð framangreint á fundi hinn 10. maí 2007 og hinn 29. nóvember s.á. birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.  Hefur deiliskipulagssamþykkt þessi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulagsráðs hinn 31. október 2007 var tekin til afgreiðslu fyrirspurn um áfangaskiptingu varðandi byggingu námsmannaíbúða á lóðinni nr. 13-15 (sic) við Þverholt.  Var svofelld bókun gerð í málinu: „Skipulagsráð gerir ekki athugasemdir við framlagað áfangaskiptingu um byggingu námsmannaíbúða en gerir hefðbundna fyrirvara um endanlega gildistöku deiliskipulags Einholts/Þverholts með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.“    

Hinn 27. desember 2007 gaf byggingarfulltrúi út takmarkað byggingarleyfi vegna Þverholts 15-19 og Einholts 6-8.  Í leyfinu segir m.a. eftirfarandi:  „Með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 13. og 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, skv. umsókn nr. BN037501 sem afgreidd verður á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 8. janúar 2008, er Byggingarfélagi námsmanna ses kt. 700707-0750 veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð skv. erindi nr. BN037036 þar sem skipulagsráð gerir ekki athugasemdir við framlagða áfangaskiptingu. … Þetta takmarkaða byggingarleyfi fellur sjálfkrafa úr gildi við útgáfu á endanlegu byggingarleyfi.“   

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. janúar 2008 var lögð fram umsókn um takmarkað byggingarleyfi á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt er tók til jarðvinnu, sprenginga og aðstöðugerðar og samþykkti byggingarfulltrúi erindið.  Á fundi borgarráðs hinn 10. janúar s.á. var afgreiðslan staðfest.  

Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið kærða leyfi geti haft í för með sér verulega röskun á lögmætum hagsmunum þeirra.  Þá styðjist leyfið við deiliskipulag sem kært hafi verið til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu þess.  Engin ástandsskoðun hafi farið fram á húsum í nágrenni við framkvæmdirnar.  Þó kunni að vera að ljósmyndir hafi verið teknar af húsum án samráðs við eigendur og án vitundar þeirra.   

Af hálfu borgaryfirvalda er hafnað fullyrðingum kærenda þess efnis að ekki hafi farið fram fullnægjandi ástandsskoðun húsanna í nágrenni við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Jafnramt er því vísað á bug að umræddar framkvæmdir geti haft í för með sér röskun á hagsmunum kærenda.

Bent sé á að einungis hafi verið gefið út takmarkað byggingarleyfi, þ.e. fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð.  Gera megi ráð fyrir að þessi undirbúningsvinna taki allt að sex mánuði þannig að líkur hnígi til þess að búið verði að úrskurða í málinu áður en óafturkræfar framkvæmdir fara af stað á lóðinni.

Þá sé því haldið fram af hálfu Reykjavíkurborgar að framkvæmdir á reitnum hafi verið til fyrirmyndar og hafi upplýsingum verið komið á framfæri við íbúa um fyrirhugaðar framkvæmdir. 

Sérstaklega sé tekið fram að tryggingafélag verktaka þess er annist sprengingar á svæðinu vinni allan framkvæmdatímann að ytri skoðun mannvirkja á áhrifasvæði sprenginganna.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu um stöðvun framkvæmda mótmælt og bent á að einungis sé fyrir hendi takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt.

Ekki sé unnt að fallast á að fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft í för með sér röskun á hagsmunum kærenda þannig að réttlætt gæti þá skerðingu á hagsmunum byggingareyfishafa sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi takmarkaðs byggingarleyfis fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt í Reykjavík.   

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falli undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Í kjölfar samþykktar sveitarstjórnar má, skv. 44. gr. laganna, gefa út byggingarleyfi, enda hafi sveitarstjórn þá staðfest samþykkt byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfis og byggingarfulltrúi áritað aðaluppdrætti.  Þegar sérstaklega stendur á má, skv. 2. mgr. 44. gr. laganna, veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkast leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn. 

Í máli því sem hér er til úrlausnar gaf byggingarfulltrúi út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð án þess að borgaryfirvöld hefðu tekið afstöðu til umsóknar um leyfi til byggingar húss á lóðinni.  Telur úrskurðarnefndin að 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga verði ekki túlkuð á þann veg að hún feli í sér sjálfstæða heimild til útgáfu takmarkaðs leyfis til einstakra þátta byggingarframkvæmda þegar svo stendur á sem hér um ræðir.

Samkvæmt framansögðu var útgáfa hins takmarkaða byggingarleyfis, sem um er deilt í máli þessu, ekki reist á réttum lagagrundvelli og verður það því fellt úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2008 um að veita takmarkað byggingarleyfi á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt í Reykjavík er felld úr gildi. 

 

    
__________________________  
 Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________        ____________________________
       Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

118/2007 Fífuhvammur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007 og á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 22. ágúst 2007 um að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni 13. sama mánaðar, kærir Guðmundur Ágústsson hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar nr. 27 við Fífuhvamm í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 22. ágúst 2007 að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 11. september 2007.  Áður, eða með bréfi, dags. 3. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 7. sama mánaðar, höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykki skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 varðandi fyrrgreindan bílskúr en sú ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007.  Ákvað úrskurðarnefndin að sameina fyrra kærumálið hinu síðara, sem er númer 118/2007.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu samþykktir verði felld úr gildi.  Þá kröfðust þeir þess að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Féllst nefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum 24. september 2007. 

Málsatvik:  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 3. apríl 2007 var tekið fyrir erindi frá lóðarhafa að Fífuhvammi 25 þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr austan við húsið að Fífuhvammi 25.  Samþykkti nefndin að senda málið í kynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til lóðarhafa að Fífuhvammi 23 og 27 og Víðihvammi 16, 18 og 20.  Kynningartíma lauk 15. maí 2007 og bárust athugasemdir frá lóðarhafa að Fífuhvammi 27.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 19. júní 2007 var erindið lagt fram að nýju ásamt umsögn bæjarskipulags.  Skipulagsnefnd ákvað á þeim fundi að fela skipulagsstjóra að ræða við aðila máls. 
Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. júlí 2007 var erindið tekið fyrir að nýju og eftirfarandi fært til bókar:  „Skipulagsnefnd samþykkir erindið með áorðnum breytingum, sbr. samkomulag lóðarhafa Fífuhvammi 25 og 27 dags. 3. júlí 2007.“

Þann 23. júlí 2007 barst erindi kærenda til skipulagsnefndar þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 7. ágúst 2007 var málið enn á dagskrá og eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram að nýju ásamt bréfi lóðarhafa Fífuhvammi 25, dags. 23. júlí 2007, ásamt endurskoðaðri umsögn bæjarskipulags dags. 24. júlí 2007.  Skipulagsnefnd samþykkir framlagt erindi skv. uppdrætti dags. 24. júlí 2007 og endurskoðaða umsögn bæjarskipulags dags. 24. júlí 2007 og vísar því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.“  Á fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007 var ákvörðun skipulagsnefndar staðfest.

Umsókn lóðarhafa að Fífuhvammi 25 um leyfi til byggingar umrædds bílskúrs var tekin fyrir í byggingarnefnd Kópavogs hinn 22. ágúst 2007 og afgreidd með svofelldri bókun:  „Samþykkt, þar sem teikningar eru í samræmi við byggingar- og skipulagslög nr. 73/1997, með síðari breytingum.  Nefndin leggur til að bæjarstjórn samþykki afgreiðslu byggingarnefndar.“  Var afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september 2007.

Skutu kærendur framangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir.

Eftir að kærumál þetta kom til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni hafa kærandi og byggingarleyfishafi leitað sátta í málinu og hafa bæjaryfirvöld í Kópavogi komið að þessum sáttaumleitunum.  Hefur ítrekað verið fullyrt við starfsmenn úrskurðarnefndarinnar, bæði í símtölum og tölvubréfum, að sátt væri komin á milli aðila en   sáttaumleitanir þessar munu þó allar hafa runnið út í sandinn.  Hefur þetta haft í för með sér tafir á meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau hafi mótmælt áformum byggingarleyfishafa við bæjarskipulag Kópavogsbæjar í bréfi, dags. 12. maí 2007, og bent á að fyrirhugað mannvirki yrði mjög nálægt húsi þeirra en það standi um fjóra metra frá lóðarmörkum.  Jafnframt hafi bæjarskipulagi verið á það bent að lóðin nr. 27 við Fífuhvamm stæði mun hærra en lóðin nr. 25 og ljóst að fyrirhuguð bygging myndi varpa miklum skugga á hana.  Lóðin að Fífuhvammi 25 standi um 1,2 metrum lægra og ef væntanleg bílskúrsbygging sé 2,5 metrar á hæð sé hæðarmismunur 3,7 metrar og yrði garður kærenda ekki hæfur til útivistar eða ræktunar.

Í kjölfar bréfs kærenda hafi bæjarskipulag lagt fram drög að samkomulagi aðila.  Þar hafi m.a. komið fram að kærendur myndu sætta sig við að um 20 metra há tré, sem þau hefðu gróðursett á lóðarmörkum, yrðu fjarlægð að hluta auk þess sem eigendur lóðarinnar greiddu í sameiningu kostnað við gerð stoðveggjar sem einungis væri til kominn vegna framkvæmda byggingarleyfishafa.  Á móti hafi átt að koma að kærendur myndu ekki eiga það á hættu að þak væntanlegs bílskúrs yrði nýtt, t.d. sem sólpallur eða undir aðra starfsemi.

Þetta hafi kærendur ekki samþykkt.  Aftur á móti hafi þau verið tilbúin að skoða samkomulag er fæli í sér að fallið yrði frá hugmyndum um skyggni framan við bílskúrinn auk þess sem byggingarleyfishafi myndi ábyrgjast allan kostnað af væntanlegu jarðraski, þ.á.m. kostnað við lagnir sem eru við lóðarmörkin svo og annan mögulegan kostnað sem framkvæmdin kynni að hafa í för með sér.  Þá hafi kærendur viljað að skoðuð yrði skuggamyndun af hinum umdeilda bílskúr.  Ekkert hafi verið gert með þessar athugasemdir kærenda.  Þegar þeim hafi verið ljóst að bæjarskipulag ætlaði að keyra málið áfram og samþykkja bygginguna á fundi hinn 13. júlí 2007 hafi þeir tilkynnt í tölvubréfi til bæjarskipulags hinn 12. júli 2007 að ekkert samkomulag hafi verið gert og að kærendur væru mótfallnir fyrirhuguðum breytingum.  Hafi kærendur ítrekaði þessa afstöðu með bréfi, dags. 23. júlí 2007.

Kærendur hafi ekkert á móti því að byggingarleyfishafi fái að byggja bílskúr á lóð sinni.  Aftur á móti sé nokkuð vel í lagt að hann nánast tvöfaldi grunnflatarmál byggingarinnar og byggi að lóðarmörkum.  Samkvæmt teikningum eigi bílskúrinn að vera upp að húsi byggingarleyfishafa og alveg að lóðarmörkum.  Þá sé sú ákvörðun skipulagsnefndar vægast sagt einkennileg að heimila byggingarleyfishafa að rífa niður tré kærenda og að fara inn á lóð þeirra án þess að þau hafi nokkuð haft um það að segja.  Þá veki það furðu að skipulagsnefnd hafi ekki við undirbúning ákvörðunar sinnar látið athuga hvaða afleiðingar framkvæmdin hefði á nýtingu á lóð kærenda.  Það liggi fyrir að byggingin, sem talin sé vera bílskúr, hafi í för með sér skuggamyndun á baklóð kærenda sem geri það að verkum að hún verði illræktanleg.  Þá sé ljóst að fyrirhugað skýli framan við bílskúrinn, sem stækki hann umtalsvert, verði til þess að skerða verulega nýtingu kærenda á sólpalli sem þau hafi byggt framan við hús sitt, gengt þeim stað þar sem skýlið eigi að rísa.  Einkennilegast af öllu sé málsmeðferðin hjá nefndum Kópavogsbæjar.  Eftir að kærendur hafi komið á framfæri mótmælum sínum hafi bæjarskipulag stillt upp drögum að samkomulagi, rætt við kærendur og fengið athugasemdir þeirra sem ekkert hafi verið hlustað á.  Síðan sé tilkynnt að kærendur hafi samþykkt samkomulagsdrögin en ekki skrifað undir skjalið, þrátt fyrir skriflegar athugasemdir kærenda um að ekkert samkomulag hafi verið gert.  Eigi að síður hafi málið verið afgreitt án athugasemda. 

Með vísan til framangreinds telji kærendur verulega á sér brotið með samþykkt skipulagsnefndar og bæjarráðs og síðar byggingarnefndar og bæjarstjórnar Kópavogs.  Ekkert tillit hafi verið tekið til hagsmuna kærenda og málið keyrt áfram á miklum hraða. 

Því sé haldið fram að meðferð málsins hjá bæjaryfirvöldum sé andstæð meginreglum skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærendur telja að ákvarðanir bæjaryfirvalda í Kópavogi, þ.e. skipulagsnefndar, bygginganefndar og bæjarstjórnar, séu ekki í samræmi við ákvæði 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og því beri að fella þær úr gildi.  Telji kærendur að fyrirhuguð bygging geti vart talist óveruleg breyting.  Þvert á móti sé um verulegar breytingar að ræða enda sé með ákvörðuninni verið að heimila mjög verulega stækkun á byggingarreit.  Grunnflötur byggingarinnar verði 150 m² í stað 84 m²

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er á því byggt að hafna beri kröfu kærenda og vísað til þess að málsmeðferð við samþykkt byggingarleyfis hafi verið lögmæt, réttmæt og í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  

Málsmeðferð við afgreiðsluna hafi verið byggð á 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ákvörðunin hafi verið ítarlega grenndarkynnt þeim sem talið hafi verið að ættu hagsmuna að gæta og hafi aðeins ein athugasemd borist.  Að því loknu hafi verið leitað umsagna, aflað frekari gagna og fundað með aðilum máls vegna framkominnar athugasemdar.

Kærandi hafi gert athugasemdir við að fyrirhuguð bygging myndi þrengja mjög að mannvirkjum á lóð þeirra og hafa í för með sér aukið skuggavarp.  Í kjölfar athugasemdarinnar hafi verið farið á vettvang og aðstæður kannaðar.  Hafi þá komið í ljós að mjög há tré séu á lóðarmörkum.  

Að grenndarkynningu lokinni hafi skipulagsnefnd yfirfarið málið að nýju með tilliti til athugasemda kærenda sem og hagsmunaaðila.  Einkum hafi verð könnuð hvaða áhrif breytingin hefði með tilliti til grenndaráhrifa, nýtingar og skuggavarps sem og annarra þátta.  Að mati skipulagsnefndar hafi jafnframt verið talið rétt að tekið yrði tillit til stærðar og staðsetningar bílskúra á öðrum lóðum á svæðinu.  Að lokinni þeirri yfirferð hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að samþykkja breytinguna og vísa henni til bæjarstjórnar.  Sú ákvörðun hafi einkum verið reist á því að breytingin væri í samræmi við byggð á svæðinu auk þess sem hún fæli í sér verulega aukna nýtingarmöguleika fyrir byggingarleyfishafa á húsi hans og lóð.  Nefndin hafi jafnframt talið, með tilliti til hæðar trjáa á lóðarmörkum, að skuggavarp, ónæði eða önnur neikvæð grenndaráhrif af bílskúr á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm yrðu óveruleg fyrir kærendur, ef nokkur.  Í ljósi þessa hafi erindið verið samþykkt.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi mótmælir, sem röngum og órökstuddum, staðhæfingum kærenda um að framkvæmdir muni hafa í för með sér mikla röskun á svæðinu.  Þá mótmælir hann þeirri fullyrðingu kærenda að fyrirhuguð bygging sé veruleg breyting á þegar staðfestu skipulagi svæðisins. 

Þegar grafið verði fyrir bílskúrnum, sem sé staðsettur 40 cm frá lóðamörkum, verði grafið í mesta lagi að lóðamörkum en ekki lengra eins og kærendur haldi fram.  Þar af leiðandi muni byggingarleyfishafi ekki fella tré sem standi á lóð kærenda enda vandséð hvaða heimild hann hafi til þess.  Þá telji byggingarleyfishafi að framkvæmdin muni ekki hafa í för með sér mikla röskun á svæðinu líkt og kærendur haldi fram.  Ljóst megi vera að skipta þurfi um jarðveg undir bílskúrnum en það sé ekki meira jarðrask en ef byggingarleyfishafi myndi malbika eða helluleggja svæði það er um ræði, eins og ætla megi að hann geri verði ekki af byggingu bílskúrsins.  Þegar hafist verði handa við bygginguna sjálfa munu kærendur ekki verða mikið varir við það sökum þess að bílskúrinn verði staðsettur andspænis gluggalausum gafli á húsi kærenda ásamt því að fyrir séu gríðarmiklar aspir á lóð kærenda sem byrgi verulega sýn á milli lóðanna.   

Á þessu svæði séu bílskúrar nánast við hvert hús, nema hús byggingarleyfishafa.  Þá muni magn bygginga á lóð hans ekki verða meira eftir byggingu greinds bílskúrs en á öðrum lóðum á svæðinu.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvarðana skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007 og byggingarnefndar Kópavogs frá 22. ágúst 2007 um að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.  Voru þessar ákvarðanir staðfestar fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007 og á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september 2007.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlag nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um byggingarleyfisumsóknir sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa að Fífuhvammi 25 um byggingarleyfi til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún samþykkti umsóknina og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.  Ber þegar af þessari ástæðu að ógilda hina kærðu ákvörðun skipulagsnefndar og staðfestingu bæjarráðs á henni hinn 16. ágúst 2007.  Gildir einu þótt það hefði verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn enda bar nefndinni þá að kynningu lokinni að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með fullnaðarafgreiðslu svo sem raunin varð.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er byggingarnefnd skylt að rökstyðja afgreiðslu á erindum sem henni berast.  Engan rökstuðning er hins vegar að finna í bókun byggingarnefndar frá 22. ágúst 2007 um samþykkt umræddrar umsóknar annan en þann að teikningar séu í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 með síðari breytingum.  Verður að telja þann rökstuðning með öllu óviðunandi þegar til þess er litið að svo virðist sem ætlan bæjaryfirvalda hafi verið að veita leyfið að undangenginni grenndarkynningu en hennar er að engu getið við afgreiðslu byggingarnefndar á málinu.  Þá kemur hvergi fram að það hafi verið mat byggingarnefndar að unnt væri að fara með umsóknina eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga enda var málinu ekki vísað frá byggingarnefnd til skipulagsnefndar til grenndarkynningar svo sem verið hefði ef gætt hefði verið málsmeðferðarreglna skipulags- og byggingarlaga, sbr. 4. mgr. 43. gr. laganna.  Var afgreiðsla byggingarnefndar þannig haldin slíkum annmörkum að ógildingu þykir varða.

Auk þess sem að framan er rakið verður ráðið af málsgögnum að bæjaryfirvöld hafi staðið í þeirri trú að samkomulag væri komið á milli kærenda og byggingarleyfishafa, m.a. um að fjarlægja tré af lóð kærenda, en fyrir liggur að ógerlegt var að ráðast í fyrirhugaða framkvæmd án þess að valda stórfelldri röskun á rótarkefi nokkurra trjáa.   Slíkt samkomulag var hins vegar ekki fyrir hendi og lágu því rangar forsendur til grundvallar niðurstöðu bæjaryfirvalda í málinu að þessu leyti.  Verður ekki séð að byggingaryfirvöldum hafi verið heimilt að veita leyfi sem óhjákvæmilega hefði í för með sér röskun á lögvörðum eignarréttindum nágranna án þess að áður væru gerðar viðhlítandi ráðstafanir af því tilefni.

Með hliðsjón að öllu því sem að framan er rakið verða ákvarðanir þær sem kærðar eru í máli þessu felldar úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni og vegna sáttaumleitana málsaðila sem vonast var til að leitt gætu til lausnar á málinu.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007, staðfest á fundi bæjarráðs hinn 16. s.m. og ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 22. ágúst 2007, staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september sama ár, um að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.

 

    
__________________________          
                Hjalti Steinþórsson                          

 

_____________________________     ____________________________
                                 Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson