Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

132/2007 Melabraut

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 132/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkja¬nefndar Seltjarnarnesbæjar frá 16. ágúst 2007 um að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut á Seltjarnarnesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2007, er barst nefndinni 5. sama mánaðar, kæra 34 íbúar og fasteignaeigendur við Melabraut og Miðbraut á Seltjarnarnesi þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 16. ágúst 2007 að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 16. ágúst 2007 var samþykkt umsókn um byggingu fjögurra íbúða húss á lóðinni nr. 27 við Melabraut.  

Með tölvubréfi byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. október 2007, var tilkynnt að framkvæmdir við byggingu hússins hefðu verið stöðvaðar og að framkvæmdaleyfi hefði ekki verið gefið út og yrði ekki fyrr en skipulags- og mannvirkjanefnd hefði fjallað um málið.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 8. nóvember 2007 var byggingarleyfi það sem um er deilt afturkallað en nýtt leyfi veitt í þess stað.  Hafa úrskurðarnefndinni borist kærur nágranna vegna þess leyfis og eru þau kærumál til meðferðar fyrir nefndinni.   

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins.  Bílskúrar nái út fyrir byggingarreit, hæð hússins sé of mikil ásamt því að bílastæði séu of mörg. 
 
Niðurstaða:  Eins og að framan greinir hefur ákvörðun sú sem kærð er í máli þessu verið afturkölluð af þar til bæru stjórnvaldi.  Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________            _____________________________
   Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson

 

159/2007 Melabraut

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 159/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. nóvember 2007 um að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut á Seltjarnarnesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. desember 2007, er barst úrskurðarnefndinni 11. sama mánaðar, kæra H og B, Melabraut 28, E Þ, S Á, K R. E og E M E, Melabraut 25, F R, M D,  H O K og R H, Melabraut 26, K Ó og L G, Melabraut 30, H M, Melabraut 32, C B S, T M, K P og S H  Melabraut 29, og B Á og G L, Miðbraut 26 þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. nóvember 2007 að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut.  Var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 14. nóvember 2007.  Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. desember 2007, er bárust nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kæra G I. R og Þ Þ. Þ, Miðbraut 32 og Á J og Í Í, Miðbraut 34 einnig fyrrgreinda ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 8. nóvember 2007.  Hagsmunir kærenda fara saman og ákvað úrskurðarnefndin því að sameina síðari kærumálin hinu fyrsta, sem er númer 159/2007.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Er krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 31. ágúst 2006 var samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi Vesturhverfis, eða þess svæðis er afmarkast af Lindarbraut, Vallarbraut, Hæðarbraut og Melabraut, og samþykkti bæjarstjórn hinn 25. september 2006 að auglýsa tillöguna.  Var kynningartími tillögunnar frá 4. október 2006 til og með 2. nóvember s.á. og bárust athugasemdir við hana. 

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 8. mars 2007 var tillagan samþykkt ásamt drögum að svörum við athugasemdum.  Bæjarstjórn samþykkti tillöguna hinn 27. júní 2007.  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 26. júlí 2007, kom fram að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að auglýsing um samþykki bæjarstjórnar birtist og hinn 7. ágúst 2007 var gildistakan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Fram kemur í greinargerð deiliskipulagstillögunar að markmið með endurskoðun deiliskipulags Vesturhverfis sé að samræma stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða og gefa lóðarhöfum, sérstaklega á syðri hluta svæðisins þar sem nýtingarhlutfall er undir meðalnýtingu, möguleika á auknu byggingarmagni innan uppgefinna byggingarreita.  Hefur skipulagsbreytingin verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 8. nóvember 2007 var samþykkt að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut.  Var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 14. nóvember 2007.

Af hálfu kærenda er bent á að kærendur hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun bæjarstjórnar um breytt deiliskipulag svæðisins.  Þá sé hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins, hæð hússins sé of mikil ásamt því að bílastæði séu of mörg.   

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er bent á að samkvæmt deiliskipulagi svæðisins sé heimilt að byggja tveggja hæða hús á lóðinni og í skýringum á deiliskipulagsuppdrætti komi fram fjöldi bílastæða á íbúð.    

Byggingarleyfishafa gafst kostur á að tjá sig um framkomna stöðvunarkröfu en gerði ekki. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi er veitt með stoð í breyttu deiliskipulagi svæðis er markast af Lindarbraut, Vallarbraut, Miðbraut og Melabraut.  Hefur deiliskipulagsbreytingin verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.  Er skipulagssvæðinu skipt í svæði A, B og C og er nýtingarhlutfall mismunandi eftir svæðum eða 0,3 til 0,5.  Svæði þessi ganga þvert á götur þannig að við sömu götuna er nýtingarhlutfall lóða mismunandi.  Eru uppi álitaefni er varða gildi umrædds skipulags og þar með grundvöll hins kærða byggingarleyfis og þykir eftir atvikum rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi við byggingu fjögurra íbúða húss á lóðinni nr. 27 við Melabraut á Seltjarnarnesi, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

__________________________   
                Hjalti Steinþórsson                    

_____________________________          ____________________________              
               Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson                         
           

131/2007 Kiðjaberg

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 8. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2007, kæra á ákvörðunum byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsum á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóðinni nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi þær ákvarðanir byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 að veita leyfi fyrir byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs.  Voru framangreindar ákvarðanir staðfestar á fundi sveitarstjórnar hinn 4. október 2007.    

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi ásamt því að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðunum.  Þá var og gerð krafa um að úrskurðarnefndin kvæði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda, en með úrskurði nefndarinnar hinn 11. október 2007 var þeirri kröfu hafnað.   

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda en sumarið 2006 kærðu kærendur máls þessa til úrskurðarnefndarinar ákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að heimila byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109, 112 og 113 í landi Kiðjabergs.  Voru framkvæmdir stöðvaðar með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum hinn 2. ágúst 2006, en síðar var kærumálunum vísað frá þar sem sveitarstjórn hafði afturkallað hinar kærðu ákvarðanir og tekið nýjar í þeirra stað.  Á fundi byggingarnefndar hinn 17. október 2006 voru ný leyfi gefin út fyrir byggingu húsanna og hinn 27. febrúar 2007 var samþykkt nýtt byggingarleyfi fyrir sumarhúsinu á lóðinni nr. 112.  Framangreindum samþykktum skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 4. júlí 2007 felldi úr gildi byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 þar eð ekki var talið að þau styddust við gildandi deiliskipulag svæðisins en hafnaði kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis fyrir sumarhúsi á lóð nr. 113.  Í kjölfar þessa var auglýst breyting á deiliskipulagi svæðis þess er um ræðir og hún samþykkt í sveitarstjórn 6. september 2007.  Á fundi byggingarnefndar hinn 25. september 2007 voru síðan samþykkt ný leyfi til bygginga á lóðunum nr. 109 og 112 með stoð í fyrrgreindri deiliskipulagsbreytingu.  Hafa kærendur nú skotið þeim samþykktum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að gildi byggingarleyfanna velti á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar sem einnig hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.  Verði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hin kærðu byggingarleyfi úr gildi.  Í því sambandi nægi að benda á að húsin samræmist ekki eldri skilmálum, eingöngu fyrir þær sakir að þau séu stærri en eldri skilmálarnir heimili.  Hámarksstærð húsa samkvæmt eldri skilmálum séu 60 m².  Húsið á lóðinni nr. 109 sé 108,8 m². að stærð og húsið á lóðinni nr. 112 sé 179,1 m² samkvæmt fundargerð byggingarnefndar.  

Að auki telji kærendur að umrædd hús séu ekki einu sinni í samræmi við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu eða skipulag svæðisins að öðru leyti eins og því hafi verið breytt.  Þannig sé húsið nr. 109 utan byggingarreits svo eitthvað sé nefnt.  Telji kærendur nauðsyn á því að staðsetning húsanna verði mæld upp svo þetta liggi fyrir.

Jafnframt sé bent á að samkvæmt hinum nýju skilmálum skuli nýta landkosti sem best og fella byggingar vel að landslagi.  Hvorugt húsanna teljist uppfylla þetta skilyrði.  Þannig hafi verið byggður einn sá stærsti púði sem sést hafi undir húsið á lóðinni nr. 112.  Þá hafi lóðin á nr. 109 verið hækkuð upp og löguð að húsinu en ekki öfugt auk þess sem aðkoma að húsinu sé ekki í samræmi við skipulag.  Þá eigi litir á veggjum að vera jarðlitir sem falla eigi vel að landslagi.  Telji kærendur að ráðgert sé að setja állitaða klæðningu á húsið nr. 109. 

Þá liggi einnig fyrir að húsin á lóðunum nr. 109 og 112 hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Húsin hafi ekki verið fjarlægð.  Þvert á móti hafi verið unnið í og við húsin þrátt fyrir að úrskurðarnefndin hafi fellt byggingarleyfi þeirra úr gildi hinn 4. júlí 2007.   

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er vísað til þess að hin kærðu byggingarleyfi séu lögmæt og í samræmi við gildandi deiliskipulag og skilmála.  Kærendur geri ekki grein fyrir því með skýrum hætti að hvaða leyti leyfin séu andstæð gildandi skipulagi og/eða skilmálum. 

Órökstuddum staðhæfingum þess efnis að hús á lóð nr. 109 sé ekki innan byggingarreits sé hafnað.  Sama gildi um aðkomu að því húsi.  Reyndar verði ekki séð hvernig það tengist veitingu byggingarleyfisins sem slíks.  Hús á lóð nr. 112 sé einnig innan byggingarreits. Jarðvegspúði sé innan reitsins og taki einfaldlega mið af aðstæðum í landinu.

Athugasemdir kærenda lúti fyrst og fremst að deiliskipulaginu, sem tekið hafi gildi hinn 23. ágúst 2006, varðandi stærðir lóða og byggingarreiti, og þar með hvort byggingarleyfin samrýmist því skipulagi.  Bent sé á að kæran taki einungis til skilmálanna, þ.e. stærðar húsa á svæðinu, en kæru varðandi deiliskipulagið hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni.  Stoði því ekki fyrir kærendur að vísa til kæru sinnar frá 24. september 2007 til stuðnings þessum málsástæðum sínum.

Byggt sé á því að gildandi deiliskipulag sé lögmætt og málsmeðferð við afgreiðslu þess í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Hið sama gildi um skilmála skipulagsins. 

Þá sé mótmælt þeim skilningi kærenda að breyting á skipulagsskilmálum hafi verið ólögmæt með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þ.e. að rífa hefði þurft byggingar á lóðum nr. 109 og 112 áður en unnt hefði verið að breyta skipulagi svæðisins.

Vakin sé sérstök athygli á því að umræddar byggingar séu í samræmi við deiliskipulagsbreytingu þá er öðlast hafi gildi hinn 23. ágúst 2006.  Sú breyting hafi m.a. falið í sér að lóðarmörkum og byggingarreitum á næstum lóðum og í nágrenni við lóð  kærenda hafi verið breytt.  Ágreiningurinn nú standi einungis um skilmálana sem slíka, þ.e. stærðir húsa á öllum sumarhúsalóðum í landi Kiðjabergs.  Það eitt leiði til þess að hafna beri þessum málatilbúnaði. 

Framkvæmdir við hús á umræddum lóðum hafi verið taldar í samræmi við gildandi skipulag.  T.d. megi benda á að framkvæmdir við hús á lóð nr. 112 hafi hafist eftir að breytingar á skilmálum deiliskipulagsins hafi tekið gildi haustið 2006.  Frá þeim tíma og allt til 4. júlí 2007 hafi framkvæmdirnar verið í samræmi við byggingarleyfi og gildandi deiliskipulag.  Enn fremur megi nefna að neikvæð áhrif framkvæmda á lóðunum fyrir hagsmuni kærenda séu óveruleg. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað.  Byggingarleyfishafar hafi í höndunum útgefin byggingaleyfi af þar til bærum byggingaryfirvöldum.  Á grundvelli þeirra leyfa hafi byggingarleyfishafar hafið framkvæmdir á ný en þær hafi legið niðri frá því sumarið 2007, eða þar til nýtt deiliskipulag svæðisins hafi tekið gildi.  Það deiliskipulag hafi ekki verið fellt úr gildi og meðan svo sé ástatt hnígi engin rök til þess að fella byggingarleyfin úr gildi. 

Harðlega sé mótmælt kröfu kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðunum.  Húsin eins og þau standi nú séu að fullu í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Kærendur hafi gert ágreining varðandi skilmála núverandi deiliskipulags, þ.e. varðandi stærð húsa, litaval og þess háttar, en sá ágreiningur geti engan veginn réttlætt niðurrif mikilla verðmæta, sem byggingarleyfishafar hafi lagt fram fé og vinnu til að skapa á lögmætan hátt.  Vernd stjórnarskrárinnar á eignarrétti einstaklinga komi auk þess í veg fyrir að unnt sé að fallast á þessa kröfugerð kærenda. 

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir kröfugerð sinni sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um leyfi er sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur veitt til byggingar tveggja sumarhúsa í landi Kiðjabergs. 

Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hinna umdeildu byggingarleyfa m.a. studd þeim rökum að leyfin eigi stoð í deiliskipulagsbreytingum sem þeir telji ólögmætar og hafi kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag fallist á kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar þeirrar er öðlaðist gildi hinn 24. september 2007, en í þeirri ákvörðun fólst m.a. breyting á ákvæðum skipulagsskilmála um hámarkshæð og stærð  sumarhúsa á skipulagssvæðinu.  Kemur því til skoðunar hvort hin kærðu byggingarleyfi séu að efni til í samræmi við heimildir deiliskipulags á svæðinu varðandi hámarksstærð sumarhúsa eins og þær voru fyrir gildistöku umræddrar breytingar.
 
Í gildi er deiliskipulag frá árinu 1990 með áorðnum breytingum er lýtur m.a. að lóðaskipan á svæðinu, stærð lóða, húsa og byggingarreita.  Um stærð húsa segir í deiliskipulagsskilmálum:  „Um hámarksstærðir bústaða og önnur almenn sérákvæði vísast til greinar 6.10.4.6 í byggingarreglugerð frá ágúst 1989.“  Í hinu tilvitnaða reglugerðarákvæði sagði m.a. að sumarbústaðir skyldu að jafnaði vera á einni hæð og skyldu þeir ekki vera stærri en 60 m², meðallofthæð ekki minni 2,2 m, vegghæð mest 3,0 m og hæð mænis frá jörðu mest 4,5 m.  Sambærilegt ákvæði um hámarksstærð sumarhúsa er ekki  að finna í núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 en eðlilegast er að túlka gildandi skipulag á þann veg að áfram hafi gilt þau 60 m² stærðarmörk sem vísað var til, enda leiðir breyting á byggingarreglugerð ekki sjálfkrafa til breytingar á gildandi skipulagsákvörðunum.  Verður því við það að miða að á umræddu svæði hafi ekki verið mátt heimila byggingu sumarhúsa sem væru yfir 60 m² að flatarmáli.

Samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum er heimilað að reisa 179,1 m² hús á lóð nr. 112 og 108,8 m² hús á lóð nr. 109, að hluta á tveimur hæðum, ásamt 18,1 m² geymslu.  Af framangreindu má ljóst vera að leyfi fyrir byggingum á lóðum nr. 109 og 112 eru ekki í samræmi við gildandi ákvæði skipulags um hámarksstærð.  Var útgáfa leyfanna því í andstöðu við ákvæði  2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem áskilið er að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag og verða þau því felld úr gildi.

Krafa kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðum sínum hefur ekki komið til úrlausnar á lægra stjórnsýslustigi og liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun um þá kröfu.  Verður henni því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007, um að veita leyfi fyrir byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, eru felldar úr gildi.

Kröfu kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðum sínum er vísað frá úrskurðarnefndinni.    

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

  _______________________________                     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

122/2007 Kiðjaberg

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 8. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. september 2007 um breytt deiliskipulag frístundasvæðis í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. september 2007, er barst nefndinni hinn 25. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóðinni nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnesi, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. september 2007 um breytt deiliskipulag frístundasvæðis í landi Kiðjabergs. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að réttaráhrif hennar verði þegar stöðvuð.  Þykir ekki hafa þýðingu að fjalla sérstaklega um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu skipulagsákvörðunar enda felur hún ekki í sér sjálfstæða heimild til framkvæmda.  Hafa kærendur, með kæru, dags. 4. október 2007, kært til úrskurðarnefndarinnar útgáfu byggingarleyfa sem veitt hafa verið fyrir sumarhúsum á lóðum næst lóð kærenda með stoð í hinni kærðu ákvörðun og hafa krafist stöðvunar framkvæmda í því máli.  Hefur úrskurðarnefndin þegar tekið afstöðu til þeirrar kröfu. Verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa í máli þessu en málið er nú tekið til efnisúrlausnar.

Málavextir:  Mál þetta á sér nokkra forsögu en deilur hafa verið uppi um deiliskipulagsákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps varðandi frístundahúsasvæði í landi Kiðjabergs, en upphaflegt deiliskipulag svæðisins er frá árinu 1990.  Hinn 23. ágúst 2006 öðlaðist gildi breyting á umræddu deiliskipulagi er tók til stærðar og staðsetningar sumarhúsalóða á svæðinu og hinn 9. október 2006 tók gildi deiliskipulagsbreyting er varðaði stærð og hæð sumarhúsa þar.  Voru breytingar þessar kærðar til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði sínum uppkveðnum hinn 4. júlí 2007 vísaði frá kæru á fyrri skipulagsbreytingunni en felldi þá síðari úr gildi.  Þá voru og úr gildi felld leyfi til bygginga tveggja sumarhúsa á skipulagssvæðinu. 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 5. júlí 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Sveitarstjórn samþykkir að fela oddvita meirihluta og oddvita minnihluta að samþykkja f.h. sveitarstjórnar fundargerðir skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu í júlí og byrjun ágúst eða þar til sveitarstjórn fundar að nýju.“

Á fundi hinn 12. júlí 2007 samþykkti skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu að auglýsa tillögu að breyttum skilmálum sumarhúsasvæðisins í Kiðjabergi, er fólu m.a. í sér að hámarksstærð húsa gæti orðið allt að 350 m², hámarkshæð mænis 6 metrar og að heimilt yrði að byggja geymslukjallara þar sem aðstæður gæfu tilefni til.  Samþykktu oddviti meirihluta og oddviti minnhluta fundargerð nefndarinnar hinn 13. sama mánaðar.  Var tillagan auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu hinn 19. júlí 2007 og bárust við henni athugasemdir, m.a. frá kærendum.   Á fundi sveitarstjórnar hinn 16. ágúst 2007 var lögð fram fundargerð skipulagsnefndar frá 12. júlí 2007 og eftirfarandi bókað:  „Fundargerð lögð fram og kynnt en oddvitar meiri og minni hluta sveitarstjórnar hafa samþykkt fundargerðina sbr. bókun í sveitarstjórn þann 5. júlí sl. og er samþykki þeirra staðfest af hálfu sveitarstjórnar.“  Var tillagan tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 6. september 2007 og afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Lögð fram tillaga að breytingum á skilmálum deiliskipulags Kiðjabergs, orlofs- og sumarhúsasvæðis Meistarafélags húsasmiða.  Í tillögunni felst að gerð er breyting á skilmálum er varða stærð og útlit húsa, h. lið í greinargerð deiliskipulagsins.  Gert er ráð fyrir að heimilt verði að reisa allt að 350 fm frístundahús og 40 fm aukahús á hverri lóð, þó þannig að nýtingarhlutfall verði ekki hærra en 0,03.  Einnig verða breytingar er varða hæðir húsa, mænishæð og þakhalla. Þann 21. september 2006 samþykkti sveitarstjórn breytingu á skilmálum deiliskipulagsins en með úrskurði Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 4. júlí 2007 var sú breyting felld úr gildi.  Tillagan var í kynningu frá 19. júlí til 16. ágúst 2007 með athugasemdafresti til 30. ágúst.  Tvö athugasemdabréf bárust.  Sveitarstjórn samþykkir tillöguna skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga óbreytta og felur skipulagsfulltrúa að svara innsendum athugasemdum í samræmi við afgreiðslu sveitarstjórnar.“

Með bréfi Skipulagsstofnunar til skipulagsfulltrúa, dags. 21. september 2007, lýsti stofnunin þeirri afstöðu sinni að hún féllist ekki á að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 auk þess sem efnisinnihald skilmálanna væri óskýrt.  Þrátt fyrir þessa afstöðu Skipulagsstofnunar var auglýsing um gildistöku breytingarinnar, dags. 21. september 2007, birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. sama mánaðar.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 12. október 2007, var óskað eftir upplýsingum um hvernig staðið hafi verið að staðfestingu fundargerðar skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu frá 12. júlí 2007 þar sem samþykkt hafði verið að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðis þess er hér um ræðir.  Í bréfi lögmanns sveitarfélagsins, dags. 22. október 2007, kemur m.a. fram að hinn 13. júlí 2007 hafi oddvitar meiri- og minnihluta sveitarstjórnar staðfest fundargerð skipulagsnefndar frá 12. júlí 2007 með áritun sinni, sbr. heimild sveitarstjórnar frá 5. júlí 2007 og því hafi samþykki hennar fyrir auglýsingu tillögunnar legið fyrir.

Með tölvubréfi lögmanns sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. nóvember 2007, segir m.a. eftirfarandi:  „Sveitarstjórn telur að samþykktin 5. júlí sl. hafi verið fullgild og í samræmi við sveitarstjórnarlög og ekki hafi þurft staðfestingar við á samþykkt oddvitanna frá 13. júlí varðandi Kiðjaberg.  Afgreiðsla þann 16. ágúst var einungis ex tuto.  Þá liggur líka fyrir að hafi verið einhverjir annmarkar á samþykkt oddvita eða heimild þeirra þá hafi verið úr henni bætt þann 16. ágúst.  Að loknum kynningartíma tillögunnar, sem lauk 30. ágúst 2007, þá tók sveitarstjórn málið fyrir þann 6. september og samþykkti tillöguna og fól skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum í samræmi við það sem fram fór á fundinum.“

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að svo virðist sem hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi eingöngu hlotið eina umræðu í hreppsnefnd Grímsnes- og Grafningshrepps, eða hinn 6. september 2007.  Tillagan hafi ekki verið tekin fyrir á fundi hreppsnefndar sem haldinn hafi verið daginn eftir uppkvaðningu úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 4. júlí 2007.  Eftir það hafi hreppsnefndin ekki komið saman fyrr en hinn 16. ágúst 2007 en þá hafi tillagan þegar verið auglýst.  Tillagan virðist því hafa verið auglýst án þess að fyrir lægi samþykki hreppsnefndar.  Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli sveitarstjórn samþykkja auglýsingu deiliskipulagstillögu og taka tillöguna til umræðu á ný eftir athugasemdafrest, að undangenginni umfjöllun í skipulagsnefnd.  Tillagan virðist hvorki hafa fengið umfjöllun í hreppsnefnd fyrir auglýsingu né umfjöllun í skipulagsnefnd eftir auglýsingu eins og jafnframt sé lögskylt.  Með vísan til framangreinds sé hin kærða deiliskipulagsbreyting ógildanleg.

Í 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að sveitarstjórn skuli við seinni umræðu í sveitarstjórn „…taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni.“  Eins og fram komi í afgreiðslu sveitarstjórnar hafi hún ekki tekið afstöðu til athugasemda kærenda heldur hafi hún falið skipulagsfulltrúa að svara þeim.  Ekkert sé heldur bókað um að lögð hafi verið fram umsögn um athugasemdir kærenda.  Slík afgreiðsla sé ekki í samræmi við ákvæði áður nefndrar 25. gr. enda byggi lögin á því að sveitarstjórnin sjálf taki afstöðu til athugasemda sem berist.  Sé hin kærða ákvörðun þegar af þessari ástæðu ógildanleg.

Þá sé því haldið fram að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt með vísan til þess að samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sé óheimilt „… að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“  Eins og úrskurðarnefndinni sé kunnugt hafi fjöldi bygginga verið reistur á svæðinu í ósamræmi við gildandi skilmála.  Sambærileg skipulagsbreyting hafi áður verið samþykkt en felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 4. júlí 2007.  Þá hafi kærendur tvisvar kært byggingarleyfi fyrir sumarhúsum á lóðunum nr. 109 og 112 sem haldið sé fram að hafi verið byggð eftir umræddum skilmálum.  Þegar byggingarleyfin fyrir þessum húsum hafi verið veitt í upphafi hafi þó ekki einu sinni verið búið að samþykkja þá breytingu á skipulagsskilmálum sem felld hafi verið úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 4. júlí 2007.  Byggingarframkvæmdir við umrædd hús, á lóðunum nr. 109 og 112, hafi því alltaf verið ólögmætar og hreppsnefnd verið um það fullkunnugt.  Hreppsnefndinni hafi því borið, áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið auglýst, að láta fjarlægja hinar ólögmætu framkvæmdir.  Það hafi ekki verið gert.  Hin kærða breyting sé því í beinni andstöðu við umrætt lagaákvæði sem sett hafi verið til að koma í veg fyrir háttsemi af þessum toga.  Undir þetta taki Skipulagsstofnun í bréfi, dags. 21. september 2007.  Tilgangur samþykktar skilmálanna virðist því eingöngu hafa verið sá að koma sér hjá bótaskyldu gagnvart eigendum allra þeirra húsa sem reist hafi verið í trássi við skipulag, þ.m.t. á lóðunum nr. 109 og 112.

Kærendur telji deiliskipulagsbreytinguna ólögmæta þar sem ólögmætt sé að breyta tiltölulega nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, enda verði eigendur fasteigna að geta treyst því að því umhverfi og þeim réttindum sem þeim séu sköpuð með skipulagsáætlunum sé ekki breytt nema fyrir því liggi sterk málefnaleg og lögmæt sjónarmið.  Með breytingu sem þessari sé raskað öllum þeim væntingum sem kærendur hafi haft er þau hafi sótt um og fengið lóð á svæðinu og hafið þar uppbyggingu. 

Þá sé því haldið fram að hin kærða breyting á skilmálum samræmist ekki reglum um samræmi og jafnræði.  Tillagan sé því andstæð reglum stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna.  Með því að breyta skilmálum eftir á sitji lóðarhafar ekki við sama borð. 

Auk framangreinds telji kærendur að hin kærða breyting muni skerða mjög friðhelgi og grenndarrétt þeirra þar sem hærri og stærri hús kalli á meiri yfirsýn yfir lóð þeirra og aukna umferð.  Í því sambandi sé minnt á að lóðir í kringum lóð þeirra hafa verið stækkaðar og útivistarsvæði minnkuð verulega en um leið hafi kærendum verið synjað um sambærilega stækkun. 

Þá sé hin kærða breyting ekki í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga eða skipulagsreglugerð um framsetningu slíkra skipulagsbreytinga.  Jafnframt sé efnisinnihald skilmálanna óskýrt eins og fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar frá 21. september 2007. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er kröfum kærenda mótmælt og þess krafist að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði staðfest. 

Bent sé á að á fundi sveitarstjórnar hinn 5. júlí 2007, í lið 20. a, sé eftirfarandi fært til bókar:  „Heimild til að samþykkja f.h. sveitarstjórnar fundargerðir skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu í júlí og byrjun ágúst eða þar til sveitarstjórn fundar að nýju.  Sveitarstjórn samþykkir að fela oddvita meirihluta og oddvita minnihluta að samþykkja f.h. sveitarstjórnar fundargerðir skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu í júlí og byrjun ágúst eða þar til sveitarstjórn fundar að nýju.“

Hinn 13. júlí 2007 hafi oddvitar meirihluta og minnihluta staðfest fundargerð skipulagsnefndar frá 12. júlí 2007 þar sem samþykkt hafi verið að auglýsa tillögu að breytingu á skilmálum frístundabyggðar í landi Kiðjabergs.  Samþykki sveitarstjórnar fyrir auglýsingu tillögunnar hafi því legið fyrir.  Um rangfærslu sé því að ræða í kæru.

Þá hafi á fundi sveitarstjórnar hinn 6. september 2007 legið fyrir auglýst tillaga ásamt innkomnum athugasemdum, sem hafi verið yfirfarnar og ræddar, og í kjölfarið hafi sú afstaða verið tekin að ekki skyldi gera breytingar á tillögunni vegna þeirra og tillagan því samþykkt óbreytt.

Almennt sé það svo að fullgerð umsögn um athugasemdir liggi ekki alltaf fyrir þegar sveitarstjórn taki mál til afgreiðslu, en með samþykktinni sé að sjálfsögðu tekin afstaða til athugasemdanna, þ.e. að þær séu ekki þess eðlis að gera þurfi breytingar á tillögunni.  Þeir sem gert hafi athugasemdir fái svo umsögn um athugasemdir sínar í samræmi við afgreiðslu sveitarstjórnar.  Í tilviki því er hér um ræði hafi málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar verið að öllu leyti í samræmi við fyrirmæli skipulags- og byggingarlaga.

Þá sé skilningi kærenda á 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997 alfarið mótmælt.  Skipulags- og byggingarnefnd sé ekki skylt að lögum að láta fjarlægja sumarhús á lóðum nr. 109 og 112 eða öðrum lóðum á svæðinu áður en gerð sé breyting á skilmálum deiliskipulags, þrátt fyrir að byggingarleyfi hafi verið afturkölluð.  Ekki sé unnt að túlka ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga með þeim hætti.  Í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sé ekki kveðið með skýrum hætti á um hvernig með skuli fara í slíkum tilvikum.  Engin fyrirmæli séu í greindum lögum sem skyldi byggingarnefnd til að taka ákvörðun um að fjarlægja mannvirki, sem þegar hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis.  Skoða verði ákvæði 4. mgr. í samhengi við önnur þvingunarúrræði 56. gr.  Ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 56. gr. eigi fyrst og fremst við um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt IV. kafla laga nr. 73/1997 og taki þá fyrst og fremst til framkvæmda, sem hafnar séu án þess að fengin séu tilskilin leyfi.  Ákvæði 4. mgr. geti þar af leiðandi ekki átt við í því tilviki er bygging hafi verið reist á grundvelli gilds byggingarleyfis, sem talið hafi verið í samræmi við skipulag og skilmála, á þeim tíma sem leyfið hafi verið veitt.  Ákvæðinu sé fyrst og fremst ætlað að taka á þeim tilvikum þegar framkvæmt sé án allra tilskilinna leyfa.  Slík túlkun sé einnig í samræmi við forsögu þessa lagaákvæðis og tilgang þess.  Þá sé hér um að ræða undantekningarreglu og verði að beita þröngri lögskýringu við túlkun hennar.  Þröng skýring leiði til þess að ákvæðið verði aldrei túlkað á þann veg sem kærendur krefjist.  Hér verði einnig að hafa í huga að um leið og mannvirki hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis komi til önnur sjónarmið, m.a. um eyðileggingu verðmæta o.fl., sem geti komið í veg fyrir að unnt sé að rífa eða fjarlægja eign, sem reist hafi verið.  Einnig þurfi að líta til skipulagssjónarmiða sem og hagsmuna eiganda þess húss sem risið sé, en niðurrif eignar hans væri augljóslega verulega íþyngjandi fyrir hann.  Loks þurfi að gæta meðalhófs í slíkum ákvörðunum sem og jafnræðisreglu.

Þá megi einnig benda á að framkvæmdir við hús á lóð nr. 112 hafi hafist eftir að breytingar á skilmálum deiliskipulagsins hafi tekið gildi haustið 2006.  Frá þeim tíma og allt til 4. júlí 2007 hafi framkvæmdirnar verið í samræmi við byggingarleyfi og gildandi deiliskipulag.  Enn fremur hafi það verið vilji sveitarstjórnar sem og landeiganda að breyta skilmálum svæðisins þar sem ljóst hafi þótt að þeir væru ekki í samræmi við þá þróun sem átt hafi sér stað í uppbyggingu frístundasvæða undanfarin ár.  Húsin sem risið hafi á lóðum nr. 109 og 112 séu í góðu samræmi við hús sem hafi verið leyfð á öðrum svæðum innan sveitarfélagsins og vegna þessa, sem og greindra sjónarmiða um túlkun á fyrirmælum skipulags- og byggingarlaga, hafi það ekki verið talið skynsamlegt að rífa húsin til þess eins að leyfa uppbyggingu þeirra þegar nýir skipulagsskilmálar hafi tekið gildi.

Í ljósi alls framangreinds sé ekki hægt að fallast á þá túlkun 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997, sem sett sé fram af hálfu kærenda, að rífa þurfi húsin á lóðum nr. 109 og 112, sem reist hafi verið á grundvelli byggingarleyfa, áður en unnt sé að breyta deiliskipulagsskilmálum svæðisins.

Þá sé mótmælt þeirri staðhæfingu kærenda að um sé að ræða grundvallarbreytingu á nýlegu skipulagi.  Ekki sé hægt að segja að deiliskipulag umrædds svæðis í Kiðjabergi sé nýlegt því það sé eitt af þeim fyrstu sem unnið hafi verið í sveitarfélaginu. 

Á þeim tíma er upphaflegt deiliskipulag hafi verið unnið hafi ekki verið heimilt að byggja stærri frístundahús en 60 m² samkvæmt lagafyrirmælum og hafi skipulagið miðast við þá stærð.  Í dag sé ekki kveðið á um hámarksstærð frístundahúsa í lögum og ef litið sé til þróunar síðustu ára þá hafi frístundahús smám saman verið að stækka í samræmi við kröfur húsbyggjenda.  Að mati sveitarfélagsins sé ekki talið óeðlilegt að þessi þróun nái einnig til byggðarinnar í Kiðjabergi, sérstaklega í ljósi þess að þangað til nýlega hafi fjölmargar lóðir á svæðinu verið óseldar.

Ljóst sé að fjölmörg hús á svæðinu hafi risið sem séu í samræmi við gildandi skilmála, þar sem hámarksstærð húsa sé 60 m² enda hafi ekki verið heimilt samkvæmt þágildandi lögum að reisa stærri hús.  Slíkt ákvæði hafi hins vegar verið fellt úr gildi þegar ný skipulags- og byggingarlög hafi tekið gildi fyrir um tíu árum.  Ekki sé unnt að túlka jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar með þeim hætti sem kærendur geri, þ.e. að hús sem byggð séu síðar á svæðinu megi ekki vera stærri.  Á vel flestum öðrum svæðum innan sveitarfélagsins megi byggja mun stærri hús.  Þegar farið hafi verið af stað með breytingar á svæði C-Kambar í landi Kiðjabergs hafi átt eftir að úthluta fjölmörgum lóðum á svæðinu.  Markmið breytinganna hafi m.a. verið að gera svæðið meira aðlaðandi til að auðvelda úthlutun.  Ef skilmálum deiliskipulagsins hefði ekki verið breytt hefði mátt túlka það sem svo að ekki væri gætt jafnræðis milli landeigenda Kiðjabergs og annarra landeigenda í sveitarfélaginu þar sem minni byggingarheimildir gætu haft áhrif á úthlutun lóðanna.

Af hálfu sveitarfélagsins sé á því byggt að breyting á skilmálum hafi ekki neikvæð áhrif á grenndarrétt kærenda.  Það sé ekki mat sveitarstjórnar að stærri hús kalli á aukna yfirsýn yfir aðliggjandi lóðir og aukna umferð.  Með breyttu skipulagi muni umferð fólks í næsta nágrenni kærenda minnka því lóðum norðan við lóð þeirra fækki úr þremur í tvær.

Telji kærendur sig hins vegar verða fyrir tjóni geti þau haft uppi bótakröfu á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Hinir umræddu skilmálar séu í samræmi við það sem algengt sé í deiliskipulagi frístundabyggða.  Í kærunni sé reyndar ekki rökstutt nánar hvað það sé sem kærendur telji óskýrt í þessum skilmálum.  Hér verði að hafa í huga að við setningu skilmála fyrir svæðið verði að vera hægt að taka tillit til mismunandi landaðstæðna hverrar lóðar fyrir sig.  Land innan byggingarreita lóða sé mjög mismunandi og þar af leiðandi þurfi að gera ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika.  Skilmálarnir sem slíkir séu hins vegar skýrir og auðvelt sé að lesa úr þeim.

Af hálfu kærenda sé ekki sýnt fram á að breytingar á skilmálunum hafi neikvæð áhrif á hagsmuni þeirra þar sem húsin, sem þau hafa aðallega gert athugasemdir við, sjáist varla frá lóð þeirra.  

Úrskurðarnefndin tekur fram að aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt.  Þá segir einnig að þegar liðinn sé frestur til athugasemda skuli sveitarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar.

Eins og rakið er hér að framan var á fundi sveitarstjórnar hinn 5. júlí 2007 samþykkt að fela oddvita meirihluta og oddvita minnihluta að samþykkja fyrir hönd sveitarstjórnar fundargerðir skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu í júlí og byrjun ágúst það ár.  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 12. júlí 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttum skilmálum sumarhúsasvæðisins í Kiðjabergi, er fól í sér m.a. að hámarksstærð húsa á svæðinu gæti orðið allt að 350m², hámarksmænishæð 6 m og að heimilt væri að byggja geymslukjallara þar sem aðstæður gæfu tilefni til.  Samþykktu oddviti meirihluta og oddviti minnihluta fundargerð nefndarinnar hinn 13. sama mánaðar.  Birtist auglýsing um tillöguna í Lögbirtingarblaðinu hinn 19. júlí 2007 og var frestur til athugasemda til 30. ágúst s.á.  Bárust athugasemdir við henni, m.a. frá kærendum.  

Á fundi sveitarstjórnar hinn 16. ágúst 2007 var lögð fram fundargerð skipulagsnefndar frá 12. júlí 2007 og eftirfarandi bókað:  „Fundargerð lögð fram og kynnt en oddvitar meiri og minni hluta sveitarstjórnar hafa samþykkt fundargerðina sbr. bókun í sveitarstjórn þann 5. júlí sl. og er samþykki þeirra staðfest af hálfu sveitarstjórnar.“  Var tillaga að breyttu deiliskipulagi samþykkt samkvæmt 25. gr. skipulags- og byggingarlaga á fundi sveitarstjórnar hinn 6. september og var skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við afgreiðslu sveitarstjórnar.

Samkvæmt 36. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 eiga sveitarstjórnarmenn rétt á að störfum sveitarstjórnar sé hagað þannig að þeir geti tekið sér hæfilegt orlof árlega og í 3. mgr. 39. gr. sömu laga segir að á meðan sveitarstjórn sé í sumarleyfi fari byggðarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hafi ella.  Engar lagaheimildir standa hins vegar til þess að haga meðferð skipulagsmála með þeim hætti að fela oddvitum meiri- og minnihluta fullnaðarafgreiðslu sem sveitarstjórn er falin að lögum og breytir hér engu þótt sveitarstjórn hafi áður heimilað oddvitunum að staðfesta fundagerðir skipulags- og byggingarfulltrúa meðan sveitarstjórn væri í sumarleyfi.  Jafnframt er á það bent að meint umboð oddvitanna náði ekki til staðfestingar fundargerða skipulagsnefndar. 

Af ofangreindu leiðir að samþykki sveitarstjórnar lá ekki fyrir þegar hin umdeilda tillaga að breyttu deiliskipulagi var auglýst til kynningar svo sem áskilið er, sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá verður ekki séð að skipulagsnefnd hafi fjallað um tillöguna að liðnum fresti til athugasemda eins og ráðgert er í sama ákvæði.  Var meðferð málsins við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar þannig haldin verulegum annmörkum sem telja verður að leiða eigi til ógildingar hennar.

Deiliskipulagsbreyting sú sem kærð er í máli þessu varðar breytta skilmála deiliskipulags fyrir frístundabyggð í landi Kiðjabergs frá árinu 1990, nánar tiltekið h-lið greinargerðar þess er fjallar um stærð og útlit húsa á svæðinu.  Samkvæmt hinum nýju skilmálum er m.a. gert ráð fyrir að heimilt sé að reisa á svæðinu frístundahús allt að 350 m² að stærð að grunnfleti og skal nýtingarhlutfall ekki vera hærra en 3% af stærð lóðar.  Hámarkshæð mænis frá gólfi sé 6 m.  Möguleiki sé að byggja geymsluhús/gestahús allt að 40m².

Af hálfu kærenda er  á því byggt að óheimilt hafi verið að gera hina umdeildu skipulagsbreytingu þar sem ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi staðið því í vegi en í tilvitnuðu ákvæði segir að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Í eldri skipulagsskilmálum sagði eftirfarandi um stærð húsa:  „Um hámarksstærðir bústaða og önnur almenn sérákvæði vísast til greinar 6.10.4.6 í byggingarreglugerð frá ágúst 1989.“  Í reglugerðarákvæði þessu sagði m.a. að sumarbústaðir skyldu að jafnaði vera á einni hæð og skyldu þeir ekki vera stærri en 60m².  Meðallofthæð ekki minni 2,2 m, vegghæð mest 3,0 m og hæð mænis frá jörðu mest 4,5 m.  Sambærilegt ákvæði um hámarksstærð sumarhúsa er ekki  að finna í núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 en eðlilegast er að túlka eldra skipulag á þann veg að áfram hafi gilt þau 60 m² stærðarmörk sem vísað var til enda leiðir breyting á byggingarreglugerð ekki sjálfkrafa til breytingar á skipulagsákvörðunum.  Verður því við það að miða að á umræddu svæði hafi einungis verið heimilt að reisa sumarhús sem að hámarki mættu vera 60m².

Fyrir liggur í máli þessu að veitt höfðu verið leyfi til byggingar sumarhúsa á svæði því er um ræðir, áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi, sem m.a. voru langt umfram þær stærðarheimildir samkvæmt eldri skipulagsskilmálum sem að framan er lýst. 

Í 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarmála nr. 73/1997 segir að ef byggingarframkvæmd sé hafin með byggingarleyfi sem brjóti í bága við skipulag beri byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdir tafarlaust og síðan skuli hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Þá segir einnig í 4. mgr. sömu greinar að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Verður ekki séð að tekin hafi verið með skýrum hætti afstaða til tilvitnaðra ákvæða 56. gr. skipulags- og byggingarlaga þegar ákvörðun var tekin um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu þrátt fyrir ábendingu Skipulagsstofnunar þar að lútandi.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður hin kærða deiliskipulagsbreyting felld úr gildi.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. september 2007, um breytt deiliskipulag frístundasvæðis í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, er felld úr gildi.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

85/2006 Hellisheiði

Með

Ár 2007, föstudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2006, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. mars 2006 um að veita Orkuveitu Reykjavíkur bráðabirgðaframkvæmdaleyfi fyrir vegagerð upp á Stóra-Skarðsmýrarfjall og gerð niðurrennslisholu vegna Hellisheiðarvirkjunar.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. október 2006, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kæra Bergur Sigurðsson, f.h. Landverndar, Hróðmar Bjarnason f.h. Eldhesta ehf. og Björn Pálsson leiðsögumaður, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. mars 2006 að veita Orkuveitu Reykjavíkur bráðabirgðaframkvæmdaleyfi fyrir vegagerð upp á Stóra-Skarðsmýrarfjall og gerð niðurrennslisholu vegna Hellisheiðarvirkjunar.  

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði fellt úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss hinn 30. mars 2006 var tekið fyrir erindi frá Orkuveitu Reykjavíkur og af því tilefni var eftirfarandi fært til bókar:  „Orkuveita Reykjavíkur.  Óskað er eftir því að sveitarfélagið veiti bráðabirgðaframkvæmdaleyfi fyrir eftirfarandi framkvæmdum við Hellisheiðarvirkjun:  1. Vegagerð upp á Stóra-Skarðsmýrarfjall. 2. Gerð niðurrennslisholu, HN05 sem verður um 150 m norðan við niðurrennslisholuna HN-03.  Samþykkt samhljóða.“

Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 9. nóvember 2006, var þeim tilmælum beint til sveitarfélagsins að það stöðvaði framkvæmdir þær er hið kærða leyfi heimilaði og að þeim yrði ekki haldið áfram fyrr en nauðsynlegar breytingar hefðu verið gerðar á aðal- og deiliskipulagi svæðisins.  Með bréfi sveitarfélagins til Skipulagsstofnunar, dags. 14. nóvember 2006, var tilkynnt að orðið yrði við tilmælum stofnunarinnar og að stöðvuninni yrði hagað þannig að fyllsta öryggis yrði gætt.  Verður ráðið af málsgögnum að frágangi hafi verið lokið og framkvæmdum hætt í byrjun desember 2006.

Á fundi bæjarráðs hinn 12. apríl 2007 var eftirfarandi fær til bókar:  „Framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda á Hellisheiði.  Tekið fyrir bráðabirgðaframkvæmdaleyfi sem bæjarstjórn Ölfuss veitti Orkuveitu Reykjavíkur þann 30. mars 2006 vegna eftirfarandi framkvæmda:  1. Vegagerð upp á Stóra-Skarðsmýrarfjall.  2. Gerð niðurrennslisholu HN05 sem verður um 150 m norðan við niðurrennslisholuna HN-03.  Eftirfarandi tillaga lögð fram:  Bæjarráð Ölfuss samþykkir að fella úr gildi framkvæmdaleyfi sem bæjarstjórn Ölfuss gaf út 30. mars 2006 vegna framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur á Stóra-Skarðsmýrarfjalli og við gerð niðurrennslisholu, HN05 um 150 m norðan við niðurrennslisholuna HN-03.   Samþykkt samhljóða.“

Af hálfu kæranda, Landverndar, er því haldið fram að samtökin eigi kæruaðild þar sem um sé að ræða framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá halda aðrir kærendur því fram að þeir eigi einnig aðild að kæru þessari þar sem hið kærða leyfi komi til með að takmarka atvinnu og starfsemi þeirra sem varin sé af 75. gr. stjórnarskrárinnar.  

Kærendum hafi ekki verið kunnugt um hið kærða leyfi fyrr en tillaga að breyttu aðalskipulagi sveitarfélagsins hafi verið auglýst til kynningar í Sunnlenska fréttablaðinu hinn 5. október 2006 og um hið kærða leyfi fjallað í blaðgrein Blaðsins hinn 20. október 2006.  Af þessum sökum sé kæra þeirra borin undir úrskurðarnefndina innan kærufrests, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Bent sé á að hið kærða leyfi sé ekki í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og kalli það á breytingar á því sem og deiliskipulagi fyrir virkjun á Hellisheiði.  Þá hafi ekki hafi legið fyrir áætlun um efnistöku, sbr. lög um náttúruvernd nr. 44/1999.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hið kærða bráðabirgðaframkvæmdaleyfi var afturkallað á fundi bæjarráðs Sveitarfélagins Ölfuss hinn 12. apríl 2007 en áður hafði sveitarfélagið fallist á tilmæli Skipulagsstofnunar um að láta af framkvæmdum þeim sem heimilaðar voru með leyfinu. 

Eiga kærendur af framangreindum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins umdeilda leyfis og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 

98/2005 Miklabraut

Með

Ár 2007, föstudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2005, kæra á ákvörðunum skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. október 2005 um niðurrif bílskúra og byggingu nýrra á lóðum nr. 24, 26 og 28 við Miklubraut í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. nóvember 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, f.h. húsfélags Mjóuhlíðar 8-10 í Reykjavík, þær ákvarðanir skipulagsráðs frá 26. október 2005 að heimila niðurrif núverandi bílskúra og byggingu nýrra á lóðunum nr. 24, 26 og 28 við Miklubraut í Reykjavík.

Skilja verður erindi kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu samþykktir skipulagsráðs verði felldar úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á baklóðum húsanna að Miklubraut 24, 26 og 28 eru bílskúrar sem byggðir voru fyrir nokkrum tugum ára.  Milli lóða kæranda og baklóðanna við Miklubraut 24-28 liggur gatan Mjóahlíð. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 3. maí 2005 voru teknar fyrir umsóknir íbúðareigenda að Miklubraut 24, 26 og 28 þess efnis að veitt yrðu leyfi til að rífa umrædda bílskúra á lóðum þeirra og byggja nýja.  Var afgreiðslu frestað og á fundi byggingarfulltrúa hinn 12. júlí 2005 voru umsóknirnar lagðar fram að nýju ásamt samþykki rétthafa aðliggjandi lóða.  Afgreiðslu var frestað og málunum vísað til skipulagsfulltrúa sem ákvað að grenndarkynna umsóknirnar fyrir hagsmunaaðilum.  Bárust athugasemdir frá 32 íbúum við Mjóuhlíð. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 26. október 2005 voru lögð fram svör við framkomnum athugasemdum ásamt samantekt skipulagsfulltrúa og umsögn framkvæmdasviðs.  Voru umsóknirnar samþykktar og þær staðfestar í borgarráði 27. september s.á.

Skaut kærandi ákvörðunum skipulagsráðs frá 26. október 2005 til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Á fundi byggingarfulltrúa hinn 25. september 2007 var samþykkt að nýju, að undangenginni grenndarkynningu, byggingarleyfi fyrir bílskúr að Miklubraut 24 og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 27. september s.á.  Hefur þessi ákvörðun ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að bílskúrar á lóðunum við Miklubraut 24, 26 og 28 séu lítið sem ekkert notaðir sem bílskúrar en bílastæði framan við þá og á milli þeirra séu notuð af eigendum skúranna.  Með því sé komið í veg fyrir að íbúar að Mjóhlíð 8-10 geti lagt ökutækjum sínum fyrir framan hús sín.  Muni nýir bílskúrar enn auka á bílastæðavanda íbúa að Mjóuhlíð.  Um litla og þrönga götu sé að ræða sem sé ófær slökkvi- og sjúkrabifreiðum.  Telji kærandi að sjónmengun sé af núverandi skúrum og rétt sé að rífa þá.  Að lokum sé lögð áhersla á að núverandi skúrar hafi verið byggðir án leyfis en það síðar veitt, eða fyrir um 20 árum, og þá án þess að grenndarkynning hafi farið fram.

Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að ekki sé fyrir hendi deiliskipulag fyrir þann reit er umræddir bílskúrar standi á.  Núverandi bílskúrar og bílastæði við vesturhlið þeirra hafi verið samþykktir á fundi byggingarnefndar borgarinnar hinn 12. apríl 1984 en þeir hafi verið byggðir nokkru áður.  Ekki sé fallist á að bílskúrarnir hafi verið byggðir án leyfis og vísað sé til samþykktar bæjarráðs Reykjavíkur frá 28. júlí 1951 því til stuðnings.

Vísað sé til umsagnar framkvæmdasviðs þar sem fram komi að ekki sé möguleiki að bæta það fyrirkomulag sem ríki varðandi skipulag bílastæða í umræddri götu og að bílastæði sem gert sé ráð fyrir við hlið bílskúranna samsvari rúmlega einu bílastæði við götu.

Hin kærðu leyfi geri ráð fyrir endurbyggingu bílskúra sem þegar séu til staðar og hafi verið samþykktir af byggingaryfirvöldum.  Sé því hvorki um að ræða aukningu á umferð né á notkun bílastæða miðað við núverandi ástand.  Reykjavíkurborg hefði í raun verið óheimilt að synja um endurbyggingu skúra þeirra sem um ræði í málinu nema að viðlagðri bótaábyrgð þar sem um samþykktan byggingarrétt sé að ræða.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fellur samþykkt sveitarstjórnar úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.   Í máli þessu liggur fyrir að ekki voru gefin út byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir bílskúrum á lóðunum að Miklubraut 24, 26 og 28 innan þess tíma og eru samþykktir sveitarstjórnar því úr gildi fallnar með vísan til  tilvitnaðs ákvæðis.  Hefur kærandi af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinna kærðu ákvarðana og verður kröfu þess efnis því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

127/2007 Ánanaust

Með

Ár 2007, föstudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 127/2007, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. júní 2007 um að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum i Reykjavík með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. september 2007, er barst nefndinni hinn 1. október sama ár, kærir S, Vesturgötu 73, Reykjavík, formaður húsfélagsins að Vesturgötu 69-75, f.h. íbúa og húsfélagsins að Vesturgötu 69-75, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. júní 2007 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum í Reykjavík, með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu. 

Í málinu liggur ekki fyrir umboð íbúa að Vesturgötu 69-75 til að kæra umdeilda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og verður því litið svo á að aðild málsins sé á hendi fyrrgreinds formanns húsfélags greindrar fasteignar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðað verði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Reykjavíkurborg hefur tilkynnt að útgáfu framkvæmdaleyfis vegna landfyllingarinnar hafi verið frestað vegna kærumáls þessa og hefur því ekki verið þörf á að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Hinn 13. júní 2007 var lagt fram á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs borgarinnar, dags. 10. júní 2007, þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi til að koma fyrir út frá Ánanaustum allt að þriggja hektara landfyllingu með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.  Var afgreiðslu erindisins frestað en það hlaut síðan samþykki ráðsins á fundi hinn 20. júní 2007.  Skaut kærandi þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Bendir kærandi á að fyrirhuguð landfylling sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur, en þar sé gert ráð fyrir heildarskipulagi vegna fyrirhugaðrar landfyllingar á svæðinu þar sem stærð hennar og afmörkun verði endurskoðuð í samráði við íbúa á nærliggjandi svæði.  Jafnframt sé í aðalskipulaginu tekið fram að áður en framkvæmdir hefjist við landfyllinguna muni fara fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Hvorki hafi verið haft samráð við íbúa svæðisins varðandi umdeilda framkvæmd né hafi farið fram umhverfismat vegna hennar.  Íbúar hafi mátt ætla að ekki yrði ráðist í landfyllingu á umræddu svæði fyrr en eftir árið 2012 í samræmi við gildandi aðalskipulag en ekkert liggi fyrir um landnotkun á fyllingunni.  Fyrirhuguð framkvæmd muni skapa íbúum óþægindi og rýra verðmæti eigna þeirra. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða leyfisveiting verði staðfest.  Skírskotað sé til þess að ástæða fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi vegna landfyllingar við Ánanaust sé sú staðreynd að mikið efni komi upp úr grunni vegna byggingar tónlistarhúss við Geirsgötu og ef litið sé til umhverfisáhrifa verði að telja þetta hagkvæmustu lausnina við að losna við efnið jafnframt því að leyst yrði vandamál vegna ágangs sjávar við Ánanaust.  Efnið sem um ræði sé gömul landfylling sem sjór hafi leikið um í áraraðir, en sjávarfalla hafi gætt langt inn í hana. 

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé gert ráð fyrir um 35 hektara landfyllingu við Ánanaust.  Skilgreind landnotkun á fyllingunni sé blönduð byggð og í fyrstu töflu í greinargerð I í skipulaginu segi að þessi uppbygging verði á tímabilinu 2012 til 2024.  Í neðanmálsgrein í sömu töflu segi enn fremur:  „Meginhluti uppbyggingar viðkomandi svæðis fari fram á tilgreindu tímabili. Nauðsynlegur undirbúningur vegna uppbyggingar á einstökum svæðum, s.s. landfyllingar, getur hafist mun fyrr. Gert er ráð fyrir að landfylling fyrir framhaldsskóla við Ánanaust verði gerð fyrir 2012.“  Fyrirhuguð framkvæmd fari því ekki í bága við aðalskipulag.  Heildarskipulag svæðisins verði unnið í samráði við íbúa og umhverfismat framkvæmt áður en til uppbyggingar komi á væntanlegri landfyllingu samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Hin heimilaða þriggja hektara landfylling sé ekki tilkynningarskyld eða matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. 

Um sé að ræða afturkræfa framkvæmd en ekki verði ráðist í frekari landfyllingu á svæðinu eða framkvæmdir fyrr en að uppfylltum skilyrðum aðalskipulags Reykjavíkurborgar varðandi fyrirhugaða 35 hektara landfyllingu á svæðinu.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun heimilar allt að þriggja hektara landfyllingu við Ánanaust á svæði þar sem Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 gerir ráð fyrir um 35 hektara landfyllingu.  Ekki eru heimilaðar byggingar á umræddri fyllingu og mun hún vera staðsett þar sem fyrirhugaðar hafa verið framkvæmdir vegna ágangs sjávar. 

Að stjórnsýslurétti er það skilyrði aðildar að kærumáli að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar eða að kæruaðild sé samkvæmt beinni lagastoð.  Með hliðsjón af aðstæðum og eins og atvikum er háttað þykir umdeild framkvæmd ekki þess eðlis að hún snerti grenndarhagsmuni eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann teljist eiga kæruaðild í máli þessu.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

135/2007 Nesbali

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 11. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 135/2007, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og afgreiðslu bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á erindi vegna umsóknar um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. október 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir V, eigandi fasteignarinnar að Nesbala 48, Seltjarnarnesi, afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og afgreiðslu bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á erindi vegna umsóknar um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36.  Þá hafa úrskurðarnefndinni borist bréf tveggja nágranna kæranda, dags. 16. og 25. október 2007, þar sem tekið er undir sjónarmið hans en ekki verður litið á erindi þessi sem kærur eða meðalgöngu.

Gerir kærandi þá kröfu að ef líta megi svo á að hinar kærðu samþykktir feli í sér loforð um útgáfu byggingarleyfis þá verði þær felldar úr gildi.  Jafnframt gerði kærandi kröfu um að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu.  Féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum 29. nóvember 2007. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness hinn 6. apríl 2006 var tekin fyrir umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Nesbala 36, en lóðin hefur verið óbyggð allt frá því skipulag var gert fyrir umrætt svæði snemma árs 1979.  Umsókninni var synjað þar sem byggingin fór út fyrir byggingarreit. 

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 22. júní 2006 var lögð fram að nýju umsókn um leyfi til byggingar húss á lóðinni og var samþykkt að senda málið í grenndarkynningu.  Á fundi nefndarinnar 17. ágúst 2006 var umsóknin samþykkt þar sem engar athugasemdir höfðu borist við grenndarkynninguna og ákvörðunin staðfest í bæjarstjórn 23. ágúst 2006.

Í framhaldi af nánari hönnun hússins sendi lóðarhafi inn nýja umsókn þar sem óskað var eftir leyfi fyrir verulegri hækkun þess vegna breyttra hönnunarforsendna.  Var samþykkt að senda erindið í grenndarkynningu.  Athugasemdir bárust frá nágrönnum og var umsókninni hafnað á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 11. janúar 2007.  Aftur var send inn umsókn um breytingu á hæð væntanlegs húss og málið á ný sent í grenndarkynningu.  Enn bárust athugasemdir og var umsókninni hafnað á grundvelli þeirra.

Með bréfi, dags. 12. júní 2007, dró umboðsmaður lóðarhafa allar breytingartillögur vegna byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 36 við Nesbala til baka og fór þess á leit við skipulags- og mannvirkjanefnd að þær yrðu ekki lagðar fyrir bæjarstjórn til samþykktar eða synjunar.  Í bréfinu kom jafnframt fram að lóðarhafi hygðist óska byggingarleyfis á grundvelli samþykktar bæjarstjórnar á fundi hinn 23. ágúst 2006, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var erindi þetta tekið fyrir á fundi nefndarinnar 12. júlí 2007 og afgreitt með svohljóðandi bókun:  „Tekið fyrir að nýju erindi frá Ívari Erni Guðmundssyni arkitekti fh. Á….. varðandi umsókn hennar um byggingu einbýlishúss á lóðinni nr. 36 við Nesbala.  Skipulags- og mannvirkjanefndar (sic) vísar til samþykktar sinnar frá 17. ágúst 2006“.  Þessa afgreiðslu samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness á fundi sínum hinn 22. ágúst 2007.

Á aðaluppdráttum er áritun um samþykkt byggingarnefndar hinn 17. ágúst 2006.  Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa eru byggingarleyfisgjöld ógreidd en byggingarstjóri mun hafa skrifað sig á verkið hinn 19. júlí 2007 og iðnmeistarar verið tilkynntir hinn 15. nóvember 2007.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ef litið væri svo á að hinar kærðu samþykktir fælu í sér loforð um útgáfu byggingarleyfis þá beri að fella þær úr gildi og setja málið í grenndarkynningu.  Ekki hafi verið unnt að veita leyfið á grundvelli fyrri samþykktar frá árinu 2006 þar sem hún hafi verið fallin úr gildi samkvæmt 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er tekið fram að fyrir liggi deiliskipulag fyrir svæðið vestan Nesbala, ásamt byggingarskilmálum, sem samþykkt hafi verið í skipulagsnefnd 27. mars 1979 og í bæjarstjórn 12. apríl sama ár.  Ástæða þess að málið hafi verið sent í grenndarkynningu hafi verið sú að nýtingarhlutfall á lóðinni hafi verið nokkru hærra en byggingarskilmálar segi til um eða 0,375 í stað 0,3.  Þess beri að geta að Nesbali 36 sé síðasta óbyggða lóðin á svæðinu og sé nýtingarhlutfall byggðra lóða í hverfinu frá 0,29 – 0,35.  Grenndaráhrif hinnar umdeildu byggingar séu óveruleg.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er því haldið fram að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni.  Ljóst megi vera að kæranda hafi verið kunnugt um allar ákvarðanir sem teknar hafi verið í málinu fyrir 10. september 2007, enda séu allar ákvarðanir bæjaryfirvalda á Seltjarnarnesi birtar opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins.  Sé kæra í málinu því of seint fram komin og beri að vísa henni frá.  Verði ekki fallist á kröfu byggingarleyfishafa um frávísun sé kröfu kæranda um ógildingu mótmælt.  Ekkert hafi verið athugavert við meðferð málsins þegar hið umdeilda byggingarleyfi hafi verið veitt og hafi m.a. fullnægjandi grenndarkynning farið fram. 

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, en með hliðsjón af niðurstöðu málsins þykja ekki efni til að rekja þau frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á erindi vegna umsóknar um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36.

Í bréfi kæranda til byggingarfulltrúans á  Seltjarnarnesi, dags. 12. september 2007, kemur fram að honum hafi daginn áður borist tilkynning byggingarfulltrúa, dags. 5. september 2007, um hinar kærðu afgreiðslur.  Verður við það að miða að viðtaka tilkynningarinnar marki upphaf kærufrests í málinu en ekki verður á það fallist að birting fundargerða á heimasíðu sveitarfélagsins hafi jafngilt opinberri birtingu eða tilkynningu gagnvart kæranda.  Var kærufrestur því ekki liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 10. október 2007.

Með þeim samþykktum sem kærðar eru í máli þessu var einungis svarað erindi kæranda þar sem fallið var frá áformum um breytingar á fyrirhugaðri byggingu frá því sem áður hafði verið heimilað með samþykkt bæjarstjórnar hinn 23. ágúst 2006.  Fólst hvorki í hinni kærðu bókun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 12. júlí 2007 né í samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 ný ákvörðun um byggingarleyfi og verður því ekki litið á þessar afgreiðslur sem kæranlegar stjórnvaldsákvarðanir, enda var ekki með þeim bundinn endi á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ekki liggur fyrir að byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi verið gefið út innan tímarka 5. mgr. sömu greinar.  Þó verður ekki í máli þessu tekin afstaða til þeirrar málsástæðu kæranda að samþykkt bæjarstjórnar frá 23. ágúst 2006 hafi verið fallin úr gildi er framkvæmdir hófust við bygginguna enda hefur engin kæranleg ákvörðun henni tengd verið borin undir úrskurðarnefndina.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verða hinar kærðu samþykktir ekki bornar undir úrskurðarnefndina og verður málinu því vísað frá nefndinni.  Jafnframt falla niður réttaráhrif úrskurðar nefndarinnar frá 29. nóvember 2007 um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

__________________________         _________________________
           Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson

37/2007 Hamrafell

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 11. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2007, kæra vegna gatnagerðarframkvæmda sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs við Hamrafell, Fellabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. apríl 2007, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir O, Hamrafelli 3, Fellabæ, gatnagerðarframkvæmdir við Hamrafell í Fellabæ.

Skilja verður kæruna svo að þess sé krafist að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs hinn 12. mars 2007 var lögð er fram tillaga að fyrirkomulagi lóða við enda götunnar Hamrafells í Fellabæ sem nefndin samþykkti fyrir sitt leyti og fól skipulagsfulltrúa að kynna málið fyrir rétthöfum lóða nr. 2-4 og 3.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 26. mars 2007 var fært til bókar að byggingarfulltrúi hafi fundað með eigendum húsa að Hamrafelli 2, 3 og 4 og var eftirfarandi fært til bókar:  „S&B samþykkir framlagða tillögu og felur skipulagsfulltrúa að láta færa tillöguna inn á væntanlegt deiliskipulag fyrir svæðið.“

Hinn 23. apríl 2007 var á fundi skipulags- og byggingarnefndar fjallað um gatnagerð við Hamrafell og var eftirfarandi bókað:  ,, ..eigandi íbúðarhússins að Hamrafelli 3, Fellabæ og S .. f.h. Búseta á Héraði, eigandi íbúðarhússins að Hamrafelli 4, Fellabæ og S .., ítreka fyrri tillögu sína, með rýmkun á snúningsplani í enda götunnar og krefjast þess að samið verði um kaup á landi við landeiganda austan Hamrafells 3.  S&B hafnar erindinu og vísar að öðru leyti í bókun nefndarinnar 26. mars 2007.“

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurðarnefndin kanni lögum samkvæmt réttmæti framkvæmda við götuna Hamrafell, sem Fljótsdalshérað standi að, án þess að fyrir hendi sé deiliskipulag eða samkomulag við íbúa götunnar.  Bréfi kæranda og annarra íbúa við götuna, dags. 11. apríl 2007, hafi ekki verið svarað, en á meðan haldi framkvæmdir áfram og sé gatan ófær öðrum en gangandi vegfarendum.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð framkvæmd við gatnagerð við Hamrafell í Fellabæ.  Af málsgögnum verður ekki ráðið að gefið hafi verið út formlegt framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa mun hin kærða framkvæmd hafa falið í sér jarðvegsskipti, endurnýjun lagna og yfirborðsfrágang götu þeirrar sem fyrir var.

Verður ekki talið að ágreiningur um framangreinda framkvæmd sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

105/2005 Vatnsstígur

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 11. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 105/2005, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. nóvember 2005 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5, sem afmarkast af Vatnsstíg, Frakkastíg, Lindargötu og Hverfisgötu, þar sem fallið var frá niðurrifi bygginga að Vatnstíg 12 og bílastæðum vegna fyrirhugaðra stúdentagarða á reitnum fækkað. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. desember 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Hilmar Magnússon hrl., f.h. Þ, eiganda fasteigna að Vatnsstíg 11 og 12, Lindargötu 34 og Hverfisgötu 53, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. nóvember 2005 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5, sem afmarkast af Vatnsstíg, Frakkastíg, Lindargötu og Hverfisgötu, þar sem fallið var frá niðurrifi bygginga að Vatnsstíg 12 og bílastæðum vegna fyrirhugaðra stúdentagarða á reitnum fækkað.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Fasteignin að Vatnsstíg 12 er nú í eigu Vatns og lands ehf., auk þess sem félagið á ýmsar aðrar eignir á svæðinu.  Hefur greint félag tekið við aðild málsins að sínu leyti.  

Málavextir:  Á árinu 2004 var gerð breyting á skipulagi umrædds svæðis þar sem m.a. var gert ráð fyrir niðurrifi húsa að Vatnsstíg 12.  Gert var ráð fyrir þeim möguleika að sú lóð yrði sameinuð lóðum að Lindargötu 40-48 (jöfn númer) undir fyrirhugaðar íbúðir fyrir stúdenta.  Var lóðin að Vatnsstíg 12 ætluð fyrir innkeyrslu að stúdentaíbúðunum og undir bílastæði fyrir þær íbúðir. 

Á fundi skipulagsráðs 5. október 2005 var lögð fram fyrirspurn Skipulagssjóðs um breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5 ásamt tillögu skipulagsfulltrúa að breytingu á deiliskipulaginu.  Skipulagsráð samþykkti að grenndarkynna deiliskipulagstillöguna fyrir hagsmunaðilum að Vatnsstíg 12. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 16. nóvember 2005 þar sem lagt var fram m.a. athugasemdabréf eiganda húseignarinnar að Vatnsstíg 12 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir.  Var skipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu eins og að framan greinir.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 30. nóvember 2005 að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að hina kærðu skipulagsbreytingu hafi borið að auglýsa og fara með í samræmi við meginreglu 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 í stað þess að grenndarkynna hana samkvæmt undantekningarreglu 2. mgr. ákvæðisins.  Breytingin varði fjölmargar húseignir þótt um fáa aðila sé að ræða. 

Einungis sé heimilt að falla frá auglýsingu ef um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða.  Umrædd breyting sé veruleg og snúi að eignum og eignaréttindum sem varin séu af stjórnarskrá.  Miða eigi við hvort breyting sé veruleg gagnvart einum eða fleiri íbúðareigendum en ekki hvort breyting á skipulagi sem slík sé óveruleg.  Fyrirhuguð fjölmenn byggð í miðbæjarhluta muni hafa ónæði í för með sér og verðfella eignir kærenda.  Umferð bifreiða muni aukast verulega, sérstaklega við Lindargötu, en rekið sé  gistiheimili að Vatnsstíg 11. 

Fækkun bílastæða bitni á eignum kærenda og fullnægi engan veginn þörfum íbúanna í nýjum fjölbýlishúsum.  Gert sé ráð fyrir 0,4 stæðum fyrir hverja íbúð en ráða megi af gögnum að þau verði aðeins 0,3 á íbúð, sem sé allt of lágt.  Því sé mótmælt sem fram komi í greinargerð umdeildrar skipulagsbreytingar að breyting á leiðakerfi strætisvagna hafi leitt til fjölgunar ferða en engin gögn fylgi sem sanni þá fullyrðingu.  Þetta séu auk þess haldlaus rök fyrir minni þörf á bílastæðum þar sem leiðakerfi Strætó bs. taki sífelldum breytingum og því ekki útilokað að ferðum fækki síðar.  Ekkert liggi fyrir um að íbúar í fyrirhuguðum stúdentaíbúðum muni síður nota einkabíla en aðrir.  Í þessu sambandi megi benda á svör vegna athugasemda er borist hafi við deiliskipulag það sem fyrir hafi verið, þar sem sagt hafi verið eðlilegt að miða við 0,5 stæði á íbúð með hliðsjón af bílaeign stúdenta.  Þá hafi ekki verið talið unnt að gera minni kröfur vegna mikillar bílaeignar og að ekki verði séð að breytt leiðakerfi strætisvagna hafi í för með sér breytingu á bílaeign stúdenta í þeim mæli sem umdeild skipulagsbreyting geri nú ráð fyrir. 

Meginbreytingin snúi að lóðinni að Vatnsstíg 12.  Á sínum tíma hafi verið mótmælt að gert yrði ráð fyrir innkeyrslu um þá lóð en þeim mótmælum hafi ekki verið fylgt eftir þar sem talið hafi verið að samningur væri í höfn við Reykjavíkurborg um makaskipti á þeirri lóð og Lindargötu 2-36 en það hafi ekki gengið eftir.  Bílastæði og fjögurra hæða nýbygging stúdenta liggi að lóðarmörkum Vatnsstígs 12, sem sé í andstöðu við 4. kafla byggingarreglugerðar.  Á skipulagsuppdrætti séu færð inn tákn á lóðina Vatnsstíg 12 sem ekki séu skýrð í skipulagstillögunni. 

Umrædd nýbygging virðist eiga að rísa að hluta á lóðinni að Vatnsstíg 12 ef marka megi mælingablað frá umhverfis- og tæknisviði, þar sem fyrrgreind lóð sé minnkuð um 1,3 m² og lóðamörk færð til vesturs þannig að þau séu í gegnum bílskúr sem þar sé. 

Kærendur telji af framangreindum ástæðum hina kærðu ákvörðun ólögmæta og skerði hún eignarréttindi þeirra með þeim hætti að ekki verði við unað skv. almennum reglum grenndarréttar, bæði hvað varði nýtingu og næði.  Ekki liggi fyrir ástæður borgaryfirvalda fyrir umræddum breytingum sem telja verði ómálefnalegar og beri vott um valdníðslu enda leiði breytingin til mikils tjóns fyrir kærendur með einangrun fasteigna er leiði til takmarkaðri nýtingarmöguleika.  Breyti hér engu þótt tjón sem kærendur verði sannanlega fyrir verði bætt.  Það sé rangt sem komi fram hjá skipulagsfulltrúa í umsögn hans um umrædda skipulagsbreytingu að verið sé að færa skipulag til fyrra horfs þar sem í byggingu séu stórir stúdentagarðar á reitnum.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið grenndarkynnt fyrir þeim aðilum sem taldir hafi átt hagsmuna að gæta, þ.e. annars vegar lóðarhafa Vatnsstígs 12 og hins vegar félagsins Stafna á milli, sem hafi verið eigendur að þeim eignum á reitnum sem ekki hafi verið í eigu Reykjavíkurborgar.  Breytingin hafi verið þess eðlis að aðrir aðilar á svæðinu hafi ekki verið taldir eiga hagsmuna að gæta vegna þeirra.  Vegna þess um hve fáa hagsmunaaðila hafi verið að ræða, hafi breytingin verið talin óveruleg. 

Ekki sé fallist á að umrædd breyting skerði með ólögmætum hætti eignir  kærenda.  Fallið hafi verið frá heimild í gildandi deiliskipulagi fyrir niðurrifi húsa á lóðinni að Vatnsstíg 12 og til að sameina hana nokkrum öðrum lóðum á reitnum.  Með hinni samþykktu breytingu sé því verið að hverfa til núverandi ástands hvað umrædda lóð varði.  Því verði ekki séð að um skerðingu á eignum sé að ræða og sé sú fullyrðing órökstudd.  Minnt sé á að annar kærenda, þáverandi eigandi Vatnstígs 12, hafi gert athugasemd við áform fyrra deiliskipulags um niðurrifið þegar sú skipulagstillaga hafi verið kynnt hagsmunaaðilum. 

Í umdeildu deiliskipulagi sé gert ráð fyrir 0,4 bílastæðum á hverja íbúð í stúdentagörðum.  Hvorki sé kveðið á um fjölda íbúða né bílastæða í tillögunni og beri lóðarhöfum því að haga hönnun fyrirhugaðra íbúða með tilliti til þessara skilmála.  Fram komi á deiliskipulagsuppdrætti að leiðakerfi strætisvagna hafi verið breytt í grundvallaratriðum síðan fyrra deiliskipulag hafi verið samþykkt.  Í núverandi leiðakerfi séu eknar fimm stofnleiðir frá Hlemmi niður Hverfisgötu um Lækjargötu og miðbæinn að biðstöð við Félagsstofnun stúdenta.  Ekið sé í báðar áttir á 10 mínútna fresti á álagstímum og 20 mínútna fresti þess á milli.  Í eldra leiðakerfi megi segja að aðeins ein leið hafi farið frá Hlemmi niður Hverfisgötu, um miðborgina og stoppað á Suðurgötu fyrir ofan aðalbyggingu HÍ.  Það sé því ljóst að þjónusta strætisvagna milli umrædds svæðis og HÍ hafi aukist til muna með nýju leiðakerfi og því grundvöllur til að minnka kröfur um bílastæði á lóð stúdentagarða við Lindargötu.  Þessar góðu samgöngur geri stúdentum kleift að þurfa ekki að reka bíl. 

Í þágildandi gr. 75.4 í 4. kafla byggingarreglugerðar hafi verið heimild til að víkja frá reglum um fjarlægð húsa frá lóðamörkum í deiliskipulagi og hafi  deiliskipulagsbreytingin því verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar að þessu leyti.  Samkvæmt mælingum mælingadeildar framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar standi norðaustur horn bílskúrs á lóð Vatnsstígs 12 0,199 metra út fyrir lóðamörk.  Þetta sé væntanlega til komið þar sem húsið sem standi að Lindargötu 42A sé ekki samsíða vesturlóðamörkunum og sé því 0,15 metra bil milli norðvestur horns hússins og lóðamarkanna.  Þar sem umræddur bílskúr hafi verið byggður hornrétt á húsið að Lindargötu 42A standi hann út fyrir lóðamörkin.  Farið hafi verið fram á það við gerð umræddrar deiliskipulagsbreytingar að lóðamörkum yrði breytt til samræmis við stöðu núverandi bílskúrs á lóð Vatnsstígs 12.

Athugasemdir kærenda við umsögn Reykjavíkurborgar:  Áhersla er lögð á að hagsmuni eiganda Vatnsstígs 12 verði að skoða í því ljósi að við gildistöku skipulagsins frá 2004 hafi legið fyrir að hann yrði að láta þá lóð af hendi.  Hafi hagsmunir hans því einungis snúist um verðmat eignarinnar á þeim tíma.  Með hinni umdeildu breytingu sé aðeins verið að falla frá því að leggja greinda lóð undir aðkeyrslu og bílastæði fyrir stúdentagarða sem rísa eigi á reitnum en ekki sé dregið úr þeirri uppbyggingu sem ákveðin hafi verið á árinu 2004 og kærendur þurfi nú að þola. 

Áréttað sé að breytingin feli í sér fækkun bílastæða um 20% frá því sem áður hafi verið gert ráð fyrir án þess að sú breyting hafi verið studd málefnalegum rökum.  Benda megi á að starfsemi HÍ fari fram um allan bæ og fái röksemdir um tíðar strætisvagnaferðir því ekki staðist.  Þessi breyting muni valda auknum bílastæðavanda og snerti alla fasteignaeigendur á svæðinu og renni sú staðreynd stoðum undir þá ályktun að auglýsa hefði átt breytinguna samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Telja verði að umdeild breyting sé einungis gerð í því skyni að komast hjá uppkaupum eigna en ekki til þess að auðvelda aðgengi og fullnægja bílastæðaþörf á reitnum svo sem áhersla hafi verið lögð á við skipulagsgerðina frá árinu 2004. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var fallið frá niðurrifi mannvirkja að Vatnsstíg 12 og að leggja lóðina undir aðkomu og bílastæði fyrir stúdentaíbúðir sem gert hafði verið ráð fyrir í deiliskipulagsákvörðun er tók gildi á árinu 2004.  Við breytinguna er kröfum um bílastæði vegna stúdentaíbúðanna breytt úr 0,5 stæðum á íbúð í 0,4 stæði.  Bygging nefndra stúdentaíbúða var heimiluð með deiliskipulagsákvörðuninni frá 2004 og kemur sú framkvæmd og hugsanleg áhrif hennar á hagsmuni kærenda ekki til skoðunar í máli þessu enda kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar löngu liðinn. 

Breytingu þá, að falla frá áformum um niðurrif mannvirkja á lóðinni að Vatnsstíg 12,  verður að telja óverulega í ljósi þess að með henni er aðeins verið að falla frá breytingu skipulags sem ekki hefur komið til framkvæmda og með tilliti til þess að breytingin tekur aðeins til tveggja lóða, þ.e. hinnar sameinuðu lóðar undir stúdentagarða og lóðarinnar að Vatnsstíg 12.  Þá þykir fækkun bílastæða vegna stúdentaíbúða á umræddum skipulagsreit ekki þess eðlis að þurft hafi að auglýsa breytinguna til kynningar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hafa verður í huga að breytingin tekur til reits sem liggur að miðborgarsvæði þar sem algengt er að vikið sé frá kröfum um fjölda bílastæða og í nágrenninu eru tvö bílastæðahús.  Var efni og umfang hinnar kærðu ákvörðunar því þess eðlis að heimilt var að kynna hana samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga en ekki liggur annað fyrir en að skipulagstillagan hafi verið kynnt hagsmunaaðilum. 

Í greinargerð umræddrar deiliskipulagsbreytingar kemur fram að við breytingu skipulags svæðisins á árinu 2004 hafi fjöldi bílastæða vegna margnefndra stúdentaíbúða verið ákveðinn 0,5 stæði á íbúð með hliðsjón af bílaeign stúdenta, nálægðar við bílastæðahús við Vitatorg og góðum almenningssamgöngum.  Þau rök eru færð fyrir umdeildri breytingu á fjölda bílastæða í 0,4 að ferðum strætisvagna frá svæðinu að Háskóla Íslands hafi fjölgað til muna með breytingu á leiðakerfi strætisvagna eftir skipulagsbreytinguna frá árinu 2004.  Væru því rök fyrir því að fækka bílastæðum enn frekar. 

Ekki er fallist á að breyting á leiðakerfi strætisvagna geti verið haldbær rök fyrir skipulagsbreytingu.  Slíkar breytingar geta ekki talist skipulagsforsendur enda breytingar á leiðakerfi gerðar á öðrum vettvangi og geta ráðist af ýmsum öðrum ástæðum en búa að baki skipulagi.  Þá er fallist á það að hagsmunir eiganda lóðarinnar að Vatnsstíg 12 sýnast fyrir borð bornir með skipulagsbreytingunni.  Nýtingarhlutfall hinnar sameinuðu lóðar undir stúdentagarða er 1,9 en lóðarinnar nr. 12 við Vatnsstíg er 0,3.  Engar heimildir eru til uppbyggingar að Vatnsstíg 12 í hinni kærðu ákvörðun og ekki eru gefnar skýringar á hinum mikla mismun á nýtingarheimildum á þeim tveim lóðum er skipulagsbreytingin tekur til. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið þykir hin kærða skipulagsákvörðun haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. nóvember 2005 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.5, sem afmarkast af Vatnsstíg, Frakkastíg, Lindargötu og Hverfisgötu, er felld úr gildi.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 _____________________________           ______________________________
  Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson