Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2007 Bykoreitur

Með

Ár 2008, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2007, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 14. desember 2006 um deiliskipulag svokallaðs Bykoreits í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. febrúar 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 5. sama mánaðar, kæra íbúar að Sólvallagötu 82, 83 og 84 í Reykjavík samþykkt borgarráðs frá 14. desember 2006 um deiliskipulag svokallaðs Bykoreits í Reykjavík er afmarkast af Framnesvegi, Hringbraut og Sólvallagötu. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 28. apríl 2004 voru lögð fram drög að forsögn skipulagsfulltrúa, dags. í apríl 2004, að deiliskipulagi svokallaðs Bykoreits er afmarkast af Hringbraut, Sólvallagötu og Framnesvegi.  Var forsögnin samþykkt með þeim breytingum sem fram komu á fundinum.  Á fundi nefndarinnar í desember sama ár voru lögð fram drög að deiliskipulagi reitsins ásamt hljóðvistarútreikningum.  Var gerð eftirfarandi bókun:  „Samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu. Tillagan send til umsagnar Fræðsluráðs. Jafnframt samþykkt að óska heimildar umhverfis- og heilbrigðisnefndar vegna fráviks frá hljóðvistarkröfum skv. reglugerð um hávaða.“  Athugasemdir bárust og á fundi skipulagsráðs hinn 16. nóvember 2005 var eftirfarandi fært til bókar:  „Samþykkt að kynna að nýju framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum innan reitsins og fyrir hagsmunaaðilum að Sólvallagötu 80-84.“  Að lokinni þeirri kynningu var á fundi skipulagsráðs 11. janúar 2006 lögð fram tillaga að deiliskipulagi svæðisins og var eftirfarandi bókað:  „Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa.“  Var tillagan auglýst frá 18. júlí til og með 29. ágúst 2006 og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 29. nóvember 2006 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Auglýst tillaga að deiliskipulagi samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á nýjum uppdrætti dags. nóvember 2006 og með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð staðfesti ofangreinda afgreiðslu skipulagsráðs á fundi hinn 14. desember 2006.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 5. janúar 2007. 

Hin kærða deiliskipulagssamþykkt felur í sér að heimilt er að byggja við eða endurnýja að fullu húsin að Framnesvegi 48-58B og auka byggingarmagn á lóðunum talsvert.  Þá er og heimilað að sameina lóðirnar að Sólvallagötu 77 og 79 og svokallaða Steindórslóð við Hringbraut þar sem heimilt verði að byggja allt að 50 íbúðir í einu eða tveimur húsum.  Heimilt verður að sameina byggingarrétt á þeirri lóð byggingarrétti á aðliggjandi lóðum að Framnesvegi 56A og 58B. Leyfilegt nýtingarhlutfall þessarar nýju lóðar verður 2,0.

Hafa kærendur kært framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að ástæða kæru sé m.a. skortur á lögbundnu samráði en í febrúar 2005 hafi íbúi að Sólvallagötu 84 rekist á blaðagrein þar sem rakin hafi verið mikil byggingaráform á Bykoreit.  Það hafi verið í fyrsta sinn sem íbúar að Sólvallagötu 80-84 hafi frétt af áformunum.  Þá hafi þeir ekki vitað af áformunum við kaup á íbúðum sínum.  Í framhaldi fréttarinnar hafi einn kærenda sent bréf, dags. 8. febrúar 2005, til skipulags- og byggingarsviðs þar sem áformunum hafi verið mótmælt.  Hafi m.a. verið vísað til þess að ekkert samráð hafi verið viðhaft við íbúa, nálægð fyrirhugaðra bygginga hefði í för með sér skerðingu á friðhelgi einkalífs auk þess sem útsýni myndi skerðast.  Áform um skipulag reitsins hafi verið óbreytt þrátt fyrir mótmælin og ekkert samband eða samráð haft við íbúa.  Einu svörin sem fengist hafi varðandi samráð hafi verið þau að ekki tíðkaðist að kynna málið öðrum en íbúum þess reits sem verið væri að skipuleggja.  Samkvæmt þessu komi það íbúum að Sólvallagötu 80-84 ekki við þótt reisa eigi fimm hæða steinmúra, 12 metra frá útsýnisgluggum þeirra. 

Þrátt fyrir að á fundi skipulagsnefndar hafi verið samþykkt að kynna ætti tillögurnar hagsmunaaðilum að Sólvallagötu 80-84 hafi það ekki verið gert.  Í bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 9. október 2006, sé fullyrt að húsfélaginu Sólvallagötu 80-84 hafi verið sent bréf varðandi málið en engin kannist við að hafa móttekið slíkt bréf.  Þá hafi í sama bréfi verið gefið í skyn að samráð hafi falist í því að formanni húsfélagsins hafi verið send útprentun af tillögunni.  Að Sólvallagötu 80-84 séu starfandi fjögur húsfélög, eitt fyrir hvern stigagang, og eitt sameiginlegt fyrir alla stigaganga.  Því sé erfitt að átta sig á við hvaða formann sé átt og ekki boðlegt að kalla svo óformleg og tilviljunarkennd samskipti lögformlegt samráð. 

Hinn 27. ágúst 2006 hafi íbúar að Sólvallagötu 80-84 sent bréf til skipulagsyfirvalda þar sem fyrirhuguðum áformum hafi verið mótmælt.  Þar hafi komið fram að ekkert samráð hafi verið haft við íbúa, þrátt fyrir kröfu þar um, fjarlægð milli bygginga mótmælt sem og hæð bygginganna, skuggavarp yrði of mikið og áhrif bílaumferðar yrðu neikvæð.  Þá hafi verið bent á að verðlagning íbúða ráðist m.a. af útsýni en það myndi skerðast ef áformin næðu fram að ganga.  Að lokum hafi því verið haldið fram að sterkir vindstrengir myndu myndast á svæðinu og krafist rannsóknar á veðurfarslegum áhrifum.  Í desember 2006 hafi einum kærenda borist bréf, dags. 19. s.m., sem hafi átt að vera svar vegna bréfa 26 íbúa til skipulags- og byggingarsviðs.  Einu breytingarnar sem gerðar hafi verið á deiliskipulagsáformunum hafi verið þær að a.m.k. 2/3 hlutar bygginga meðfram Sólvallagötu skyldu vera inndregnar um tvo metra á lóðina.  Auk þess væri fimm hæða bygging flutt innar á lóðina. 

Af hálfu kærenda er mótmælt því verklagi að hver íbúi fái ekki svar við sínu eigin bréfi.  Það geti ekki talist eðlilegt að skipulags- og byggingarsvið skipi einhliða einn úr hópi íbúa sem tengilið við aðra íbúa og því brjóti meðferð málsins gegn 5. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Jafnframt beri að vekja athygli þeirra sem gert hafi athugasemdir á að þeir eigi möguleika á að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála, en það hafi ekki verið gert.  Þá séu svör vegna vindálags ófullnægjandi.  Færsla fimm hæða blokkar sé spor í rétta átt en ekki ásættanleg lausn varðandi skuggavarp og eðlilega fjarlægð á milli húsa. 

Mikið ójafnræði hafi verið á milli íbúa á Sólvallagötu og eigenda Bykolóðar.  Svo virðist sem eigendur lóðarinnar hafi greiðan aðgang að skipulagsyfirvöldum og geti lagt inn eigin arkitektateikningar og hugmyndir meðan ekkert sé rætt við íbúa Sólvallagötu eða þeim gefin kostur á að leggja fram hugmyndir að skipulagi reitsins þannig mannvirki þar  falli vel að umhverfi sínu.  Á milli íbúa Sólvallagötu og eigenda Bykoreits mætist andstæð sjónarmið þar sem mikið byggingarmagn á Bykoreit hækki söluvirði hans en lækki verðmæti íbúða á Sólvallagötu. 

Þá sé því mótmælt að lóðin að Sólvallagötu 80-84 og Bykoreitur séu ekki skipulögð sem ein heild þannig að íbúum Sólvallagötu hafi verið ljóst frá upphafi þær miklu breytingar á nánasta umhverfi sem ætlunin sé að ráðast í.  Auk þess sé því mótmælt að bygging tveggja fimm hæða blokka í 12-18 metra fjarlægð frá húsi kærenda lagi sig að eldri byggð og staðháttum eins og talað sé um í deiliskipulaginu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg telur að tillagan að deiliskipulagi svæðisins hafi verið kynnt með fullnægjandi hætti.  Hún hafi fyrst verið kynnt þeim er hagsmuna áttu að gæta á svæðinu frá 30. desember til 14. janúar 2005.  Í kjölfarið hafi skipulagsráð samþykkt að kynna tillöguna að nýju fyrir hagsmunaaðilum innan reitsins sem og hagsmunaaðilum að Sólvallagötu 80-84.  Hafi kynningin staðið frá 25. nóvember til 9. desember 2005.  Fullyrðingar kærenda þess efnis að þeim hafi ekki verið sent bréf vegna hagsmunaaðilakynningarinnar séu rangar.  Húsfélaginu Sólvallagötu 84 hafi verið sent bréf, dags. 23. nóvember 2005, til kynningar á tillögunni. 

Hinn 11. janúar 2006 hafi skipulagsráð samþykkt að auglýsa tillöguna með þeim breytingum sem fram hafi komið í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. janúar 2006.  Nokkrar athugasemdir hafi borist frá hagsmunaaðilum á svæðinu, en skipulagsráð hafi samþykkt deiliskipulagstillöguna á fundi hinn 29. nóvember 2006, m.a. með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar.  Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. október 2006, hafi komið fram að byggingar, eins og gert væri ráð fyrir, væru fremur lágar meðfram Sólvallagötu og í takti við það sem gerðist í vesturbænum, eða 2-3 hæðir.  Sá hluti hússins sem væri hæstur, þ.e. fimm hæðir, næði ekki alveg að horni Sólvallagötu og Ánanausta.  Þó væri skiljanlegt að íbúar að Sólvallagötu 80-82 hefðu áhyggjur af hæð hússins, það myndi hafa áhrif á skuggavarp seinni hluta dags og tæki einnig útsýni.  Íbúum þar hefði þó mátt vera ljóst að byggt yrði upp á Bykolóðinni, þar sem byggingar þar væru gamlar og lágreistar og starfsemi þar á undanhaldi.  Þegar deiliskipulag Sólvallagötureits hafi verið samþykkt hafi verið til drög að fyrirkomulagi bygginga á Bykoreit, sem að nokkru leyti hafi verið grunnur að deiliskipulagsvinnu Bykoreitsins.  Reiturinn væri á þéttingarsvæði samkvæmt aðalskipulagi.  Því hefði tillagan verið auglýst óbreytt þrátt fyrir athugasemdir í hagsmunaaðilakynningu. 

Í áðurnefndri umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. október 2006, hafi verið komið til móts við óskir íbúa í veigamiklum atriðum.  T.a.m. hafi verið samþykkt að lækka hæsta húsið, þ.e. það sem sé áætlað fimm hæðir, næst Sólvallagötu, eða færa það fjær Sólvallagötu. Við það myndi skuggavarp á Sólvallagötu 80-84 minnka og áhrif á útsýni yrðu líklega minni.  Mesta hæð nýbyggingar yrði ekki meiri en hæð Sólvallagötu 80-84.  Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi einnig komið fram að rætt hefði verið við veðurfræðing um áhrif bygginga á vind.  Með því að byggja hús á horni Sólvallagötu og Ánanausta mætti búast við vindstreng eftir Sólvallagötu við ákveðin veðurskilyrði og yrði sá strengur líklega meiri þeim mun hærri sem byggingin væri.  Það væri því hagstæðara út frá því sjónarmiði að færa hæsta hluta hússins fjær Sólvallagötu. 

Óskir hagsmunaaðila hafi einnig verið þær að byggingarreitur meðfram Sólvallagötu skyldi færður innar á reitinn.  Komið hafi verið til móts við þetta atriði og skilmálum breytt þannig að aðeins yrði heimilt að byggja þriðjung byggingar að byggingarlínu við Sólvallagötu, en afganginn a.m.k. tveimur metrum innar.  Þannig væri tryggt að á tveimur þriðju hluta götuhliðar yrði garður meðfram Sólvallagötu enda ekki heimilt að koma fyrir bílastæðum á þessum hluta lóðarinnar.  Götumyndina mætti gera heillega með því að á þeim hluta lóðarinnar þar sem hús væri inndregið yrðu reistir steinveggir, allt að 1,20 m háir, meðfram lóðarmörkum svipað og við Hávallagötu. 

Það sé eðli borga að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa á miðborgarsvæðinu að gera ráð fyrir því að hvorki óbreytt útsýni né sólarljós sé sjálfgefið í þéttri byggð og geti ávallt tekið breytingum í uppbyggingu hverfa og við þéttingu byggðar.  Það sé aftur á móti hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja hagsmuni allrar heildarinnar og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun sé að ræða vegna framkvæmda á annarri eign. 

Bent sé á að telji aðilar sig hafa orðið fyrir tjóni vegna tillögunnar sé vísað til 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags svokallaðs Bykoreits er markast af Framnesvegi, Hringbraut og Sólvallagötu.  Felur skipulagið m.a. í sér heimild til sameiningar lóðanna að Sólvallagötu 77 og 79 og svokallaðrar Steindórslóðar við Hringbraut, þar sem fyrirhugað er að byggðar verði allt að 50 íbúðir í einu eða fleiri húsum.  Þá er og heimilt að sameina byggingarrétt á lóðinni byggingarrétti á aðliggjandi lóðum, þ.e. Framnesvegi 56A og 58B.  Leyfilegt nýtingarhlutfall þessarar sameinuðu lóðar verði 2,0. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að ógilda beri hina kærðu ákvörðun sökum þess að með henni sé með íþyngjandi hætti gengið gegn grenndarhagsmunum þeirra, m.a. með auknu skuggavarpi, skerðingu á útsýni og því að umferð muni þyngjast á svæðinu. 

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er á svæði því er hér um ræðir gert ráð fyrir þéttingu byggðar og er heimilt að byggja þar 90 íbúðir.  Hafa þegar verið byggðar 39 íbúðir við Sólvallagötu og er hið kærða deiliskipulag innan marka aðalskipulags hvað þetta varðar.  Áður en umrætt deiliskipulag öðlaðist gildi var ekki í gildi deiliskipulag að svæðinu og gátu kærendur því ekki treyst því að þar yrði ekki byggt með líkum hætti og heimilað er með hinu umdeilda skipulagi.  Eftir að tillaga að deiliskipulagi svæðisins hafði verið auglýst voru gerðar á henni breytingar sem telja verður að hafi verið kærendum til hagsbóta. 

Fallast má á með kærendum að vanda hefði mátt betur til undirbúnings og kynningar á tillögu að hinu umdeilda skipulagi með vísan til 4. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hins vegar var tillagan auglýst svo sem áskilið er í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 og var málsmeðferð eftir það í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Verður, með vísan til framanritaðs, ekki fallist á að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verð svo áfátt að ógildingu varði.

Þrátt fyrir að í hinu kærða deiliskipulagi sé ekki með ótvíræðum hætti gerð grein fyrir staðsetningu mannvirkja innan byggingarreits hinnar sameinuðu lóðar Sólvallagötu 77-79 og svokallaðrar Steinsdórslóðar, fyrirkomulagi innan hennar og fjölda bílastæða, verður að telja að deiliskipulagið og framsetning þess fullnægi skilyrðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 hvað þessi atriði varðar.  

Með hliðsjón af öllu framansögðu verður ekki fallist á ógildingu hins kærða deiliskipulags. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu samþykktar borgarráðs Reykjavíkur frá 14. desember 2006 um deiliskipulag svokallaðs Bykoreits í Reykjavík. 

 

 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________            ________________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

50/2008 Barmahlíð

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 27. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 50/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júlí 2008 um synjun byggingarleyfis fyrir brú af svölum íbúðar að Barmahlíð 54 í Reykjavík yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð á nefndri lóð.  Jafnframt er kærð sú ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja handrið og göngubrú af bílgeymsluþaki fyrrgreindrar fasteignar og tréstiga við suðurgafl bílgeymslunnar og jafnframt að steypa í og múrhúða op á svalahandriði fyrstu hæðar innan 30 daga að viðlögðum dagsektum.    

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir Ó, Barmahlíð 54 Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júlí 2008 að synja um byggingarleyfi fyrir brú af svölum íbúðar að Barmahlíð 54 í Reykjavík yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð á nefndri lóð.  Borgarráð staðfesti umrædda ákvörðun hinn 17. júlí 2008.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Kærandi hefur jafnframt í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kært ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja handrið og göngubrú af bílgeymsluþaki fyrrgreindrar fasteignar og tréstiga við suðurgafl bílgeymslunnar og jafnframt að steypa í og múrhúða op á svalahandriði fyrstu hæðar innan 30 daga að viðlögðum dagsektum svo sem greinir í hinni kærðu ákvörðun.  Er sú krafa gerð að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en ella að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar.  Þar sem kæruefnin tengjast sömu málsatvikum verður síðarnefnda kærumálið, sem er nr. 51/2008, sameinað máli nr. 50/2008. 

Málavextir:  Forsaga þessa máls er sú að í apríl 2007 barst embætti byggingarfulltrúa erindi þess efnis að yfir stæðu óleyfisframkvæmdir við fasteignina að Barmahlíð nr. 54.  Verið væri að saga í sundur svalahandrið til að komast út á þak bílskúrs við hlið hússins.  Ætlunin væri að setja upp skjólvegg og nýta þakið sem svalir eða sólverönd.  Kæranda barst bréf byggingarfulltrúa, dags. 18. apríl 2007, þar sem krafist var stöðvunar framkvæmda enda um óleyfisframkvæmdir að ræða.  Var kærandi með bréfinu krafinn skýringa innan 14 daga og bent á úrræði byggingaryfirvalda í tilefni af óleyfisframkvæmdum. 

Í kjölfar þessa sendi kærandi inn fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort leyft yrði að setja upp festingar fyrir færanlegan skjólvegg og handrið á bílskúrsþak að Barmahlíð 54, sem aðeins yrði notaður á tímabilinu frá apríl til október, ásamt færanlegri brú af bílskúrsþaki að svölum á suðvesturhlið 1. hæðar fjölbýlishússins á lóðinni.  Var erindið tekið fyrir á fundi embættisins hinn 8. maí 2007 og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Af hans hálfu var ekki gerð athugasemd við erindið svo framarlega sem samþykki meðlóðarhafa og lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi fyrir og sótt yrði um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum sem yrðu grenndarkynntar. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. ágúst 2007 var tekin fyrir ný fyrirspurn kæranda um hvort leyfi fengist fyrir timburtengibrú á milli svala 1. hæðar og þaks bílgeymslu, auk timburtröppu frá þaki bílgeymslu og niður í garð umræddrar lóðar.  Jákvætt var tekið í fyrirspurnina með sömu fyrirvörum og við afgreiðslu fyrri fyrirspurnar. 

Í aprílmánuði 2008 sendi byggingarfulltrúi kæranda bréf þar sem m.a. kom fram að engin byggingarleyfisumsókn fyrir umræddum framkvæmdum hefði borist og við skoðun 16. apríl 2008 hefði komið í ljós að búið væri að framkvæma öll þau atriði sem fyrirspurnir kæranda hefðu lotið að þrátt fyrir stöðvunarbréf byggingarfulltrúa frá 18. apríl 2007.  Í bréfinu var og tekið fram að borist hefði bréf lögmanns eigenda 1. og 2. hæðar að Barmahlíð 52 þar sem krafist væri að handrið á þaki bílgeymslunnar að Barmahlíð 54 yrði fjarlægt.  Fullljóst mætti telja að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 fengist ekki fyrir umdeildum framkvæmdum en það væri grundvallarforsenda fyrir því að unnt væri að samþykkja byggingarleyfisumsókn um handriði á þaki bílgeymslunnar.  Í bréfinu var loks upplýst um fyrirhugaða tillögu þess efnis að kæranda verði gert að koma hlutum í fyrra horf að viðlögðum dagsektum. 

Hinn 6. maí 2008 tók byggingarfulltrúi fyrir fyrirspurn kæranda um hvort leyfi fengist fyrir handriði á þaki bílgeymslu ásamt tengingu inn á svalir 1. hæðar með brú og tröppum niður í garð fasteignarinnar að Barmahlíð 54.  Málinu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem bókaði eftirfarandi á embættisafgreiðslufundi sínum þann 16. maí 2008:  ,,Ekki eru gerðar athugasemdir við erindið með þeim fyrirvörum að ekki er tekin afstaða til útlits samkvæmt fyrirspurnarteikningum. Útlit handriðs þarf að samræmast byggingarstíl hússins og vinnast í samstarfi við skipulagsstjóra. Samþykki allra meðlóðarhafa skal liggja fyrir þegar sótt verður um byggingarleyfi auk samþykkis lóðarhafa að Barmahlíð 52. Byggingarleyfi verður grenndarkynnt þegar það berst.“  Byggingarfulltrúi tók erindið síðan fyrir á fundi sínum hinn 20. maí 2008 og bókaði:  ,,Samkvæmt umsögn skipulagsstjóra er tekið jákvætt undir fyrirspurnina enda liggi fyrir samþykki nágranna í Barmahlíð 52. Fyrir liggur bréf lögmanns eigenda Barmahlíðar 52. Þar kemur fram algjör andstaða við erindið. Í því ljósi er ekki unnt að samþykkja umsókn um byggingarleyfi, verði hún lögð fram. Er fyrirspyrjanda uppálagt að framvísa samþykki eigenda Barmahlíðar 52 innan 14 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa halda áfram áður boðuðum aðgerðum.“ 

Enn gerði kærandi fyrirspurnir til byggingarfulltrúa varðandi brúargerð frá svölum yfir á bílskúrþak og þaðan niður í garð að Barmahlíð 54 og var tekið jákvætt í málið á fundi byggingarfulltrúa hinn 10. júní 2008 með fyrirvara um samþykki meðlóðarhafa og um grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar ef til kæmi. 

Var byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir brú af svölum íbúðar á fyrstu hæð yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð hússins að Barmahlíð 54, tekin fyrir af byggingarfulltrúa hinn 24. júní 2008.  Var málinu vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum hinn 4. júlí 2008 með þeim rökum að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi ekki fyrir.  Var málið á dagskrá byggingarfulltrúa hinn 8. júlí 2008 og eftirfarandi bókað:  ,,Samþykki lóðarhafa í Barmahlíð 52 liggur ekki fyrir vísað er til bókunar byggingarfulltrúa á afgreiðslufundi þann 20. maí 2008 en þar sagði: Er fyrirspyrjanda uppálagt að framvísa samþykki eigenda Barmahlíðar 52 innan 14 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa halda áfram áður boðuðum aðgerðum.“  Var umsókninni svo synjað á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2008 með svohljóðandi bókun:  „Enn vantar samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar í Barmahlíð 52 en það er forsenda þess að samþykkja megi málið. Er vísað til fyrri bókana skipulags- og byggingarsviðs vegna þessa.“ 

Á fundi skipulagsráðs 16. júlí 2008 var síðan samþykkt tillaga byggingarfulltrúa um að kæranda yrði gert að fjarlægja óleyfisframkvæmdir á lóðinni nr. 54 við Barmahlíð að viðlögðum dagsektum.  Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs Reykjavíkur hinn 17. júlí 2008 og fól hún í sér að kæranda var boðið að:  ,,Fjarlægja handrið og göngubrú af bílgeymsluþaki og tréstiga við suðurgafl bílgeymslunnar á lóðinni nr. 54 við Barmahlíð og jafnframt að steypa í og múrhúða op á svalahandriði 1. hæðar. Tímafrestur 30 dagar og dagsektir kr. 10.000 á dag og kr. 5.000 vegna viðgerða á handriði.“ 

Hefur kærandi nú skotið hinum umdeildum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hann hafi lagt fram með byggingarleyfisumsókn og undirskriftir fjölda íbúa í aðliggjandi húsum sem staðfesti að engar athugasemdir yrðu gerðar ef umrætt byggingarleyfi yrði veitt.  Jafnframt hafi verið lagðar fram myndir sem sýndu svipaðar framkvæmdir víðs vegar í Hlíðahverfi og annars staðar í Reykjavík.  Málið virðist stranda á andstöðu einnar konu í húsinu við Barmahlíð nr. 52, án þess að umrædd kona hafi fært fram nein efnisleg rök sem ættu að verða til þess að byggingarfulltrúi geti ekki grenndarkynnt umsóknina. 

Kærandi hafi skotið synjun byggingarfulltrúa á umsóttum framkvæmdum til úrskurðarnefndarinnar og þar sem það mál hafi ekki fengið úrlausn hjá nefndinni geri kærandi þá kröfu að ákvörðun um þvingunarúrræði samkvæmt 56. og 57 gr. skipulags- og byggingarlaga verði felld úr gildi en ella að réttaráhrifum dagsektarákvörðunar verði frestað þar til úrskurðarnefndin hafi fjallað efnislega um málið. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að hin kærða synjun byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn kæranda verði staðfest.  Þá er þess krafist að kæru vegna dagsektarákvörðunar verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hún standi óhögguð. 

Barmahlíð nr. 54 sé á ódeiliskipulögðu svæði.  Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 komi fram að þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir skuli skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hljóti afgreiðslu byggingarnefndar.  Í 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 komi fram að girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa.  Andstaða íbúa Barmahlíðar 52 við umrædda girðingu á lóðamörkum komi ein og sér í veg fyrir að byggingarleyfisumsókn kæranda verði grenndarkynnt.  Forsenda þeirrar grenndarkynningar sé að fyrir liggi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sé um að ræða framkvæmd á lóðamörkum, ásamt samþykki meðeigenda á grundvelli laga um fjöleignarhús.  Vert sé að taka fram að kæranda hafi verið kunnugt um allan feril málsins og að samþykki aðliggjandi lóðarhafa væri fortakslaust skilyrði þess að byggingarleyfi fengist ef um væri að ræða framkvæmd á lóðamörkum. 

Kærandi hafi ráðist í framkvæmdirnar án byggingarleyfis.  Fram komi í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.  Einnig komi fram í 1. mgr. 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum.  Borgarar geti þó ekki vænst þess að öðlast rétt á grundvelli jafnræðis eigi slíkur réttur sér ekki lagastoð. 

Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 úrskurði úrskurðanefnd skipulags- og byggingarmála í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Í VI. kafla þeirra laga sé fjallað um þvingunarúrræði og viðurlög og kveði 57. gr. á um að sinni aðili ekki fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar innan þess frests sem sveitarstjórn setji geti hún ákveðið dagsektir þar til úr verði bætt.  Hámark þeirra sekta sé ákveðið í byggingarreglugerð og renni þær í sveitarsjóð.  Í 1. mgr. 209. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 komi fram að ef byggingarleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni beri byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdina tafarlaust og síðan skuli hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Óumdeilt sé að kærandi hafi ekki haft byggingarleyfi þegar hann hafi ráðist í umræddar framkvæmdir og því ekki um að ræða ágreining á sviði skipulags- og byggingarlaga.  Því megi leiða líkur að því að ákvörðun um álagningu dagsekta sé ekki kæranleg. 

Hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sé eftir atvikum að staðfesta ákvarðanir skipulags- og byggingaryfirvalda eða fella þær úr gildi en ekki breyta þeim ákvörðunum.  Nefndin sé ekki hefðbundið æðra stjórnvald sem breytt geti ákvörðunum lægra setts stjórnvalds að vild eins og eigi við um skipulagsráð Reykjavíkur þegar til þess sé skotið embættisafgreiðslum skipulagsstjóra eða byggingarfulltrúa.  Ef úrskurðanefndin telji sig geta afnumið umræddar dagsektir ætti hún einnig að geta lækkað sektir eða hækkað að eigin mati.  Á slíkt verði ekki fallist og því sé ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar nái ekki yfir álitaefnið. 

Reykjavíkurborg minni á þá meginreglu, sé það afstaða úrskurðarnefndarinnar að kæra vegna álagningar dagsekta eigi undir hana, að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, svo sem um dagsektir, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Undantekning sé á þeirri meginreglu í 2. mgr. þeirrar greinar, mæli veigamiklar ástæður með því.  Þegar ákvörðun sé tekin um hvort fresta eigi réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem takist á.  Í þessu tilfelli grenndarsjónarmið lóðarhafa aðliggjandi lóðar sem sé ósamþykkur framkvæmdinni og sjónarmið kæranda sem ráðist hafi í og kostað framkvæmd án byggingarleyfis.  Í fyrirliggjandi bréfi húsfélagsins Barmahlíð 52 til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur, dags. 8. ágúst 2007, séu sjónarmið íbúa tíunduð á þessa leið: 

,,Niðurstaða húsfélagsfundar Húsfélagsins Barmahlíð 52 þann 18. júlí s.l. er að við mótmælum enn og aftur harðlega öllum þessum áðurnefndum framkvæmdum, þ.e. útsöguðu opi í steyptar svalir B. 54 til vesturs og ítrekað er að enginn áhugi er á því að þak bílskúrsins verði notað sem verönd/svalir eða til annarra sambærilegra hluta. Ástæðurnar eru þessar:
Burðarþol. Bílskúrarnir liggja saman og eru alls ekki byggðir með það í huga að bæta við viðbyggingu eða öðru sambærilegu ofan á þá. Bygging ofan á bílskúr Barmahlíðar 54 mun hafa áhrif á bílskúr Barmahlíðar 52.
Útlit. Þar sem þessi fyrirhugaða framkvæmd mun liggja að eign Barmahlíðar 52 mun það st[i]nga í stúf við núverandi og upprunalegt útlit eignarinnar, en þetta eru gamlar og góðar byggingar. Einnig mun þetta skemma götumyndina.
Birta. Bygging eða viðbót á skúr. Rýrir til muna birtu og sól úr austri suðaustri inn í íbúð Barmahlíðar 52.
Útsýni. Bygging á bílskúr eða færanleg verönd rýrir alveg útsýni úr íbúðum til austurs 1.h. Barmahlíðar 52. Bæði úr stofu og eins úr eldhúsi. Hið sama gera háir stórir lausir kassar sem raðað er upp sem einhvers konar handrið sbr. nú í dag, en einnig geta þeir reynst hættulegir svona lausir.
Hávaði. Bílskúr og hugsanleg bygging á honum er á lóðarmörkum og liggur að/á bílskúr íbúðar Barmahlíðar 52. Bygging eða svalir að lóðarmörkum mun auka hávaðamengun inn í eignir Barmahlíðar 52.“ 

Reykjavíkurborg telji að sjónarmið lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegi þyngra en sjónarmið kæranda og sé því gerð sú krafa að ekki verði fallist á frestun réttarhrifa dagsektaákvörðunarinnar. 

Það sé afstaða Reykjavíkurborgar að í fyrirliggjandi máli hafi ekki verið unnt að grenndarkynna áður gerða óleyfisframkvæmd þar sem samþykki lóðarhafa Barmahlíðar 52 hafi ekki legið fyrir.  Því hafi byggingarfulltrú ekki átt annan kost en að beita kæranda þeim þvingunarúrræðum sem honum séu heimil skv. 56. gr. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ákvæða byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Niðurstaða:  Umdeild byggingarleyfisumsókn kæranda var tekin fyrir hjá byggingarfulltrúa 24. júní 2008 og var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til umsagnar.  Erindið var svo tekið fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 4. júlí 2008 og því frestað með þeim rökum að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi ekki fyrir.  Í kjölfar þess tók byggingarfulltrúi málið fyrir hinn 8. júlí 2008 þar sem ítrekað var að samþykki lóðarhafa Barmahlíðar 52 lægi ekki fyrir og kæranda gefinn kostur á að afla þess innan 14 daga.  Byggingarleyfisumsókninni var síðan synjað á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2008 með vísan til þess að enn lægi ekki fyrir fyrrgreint samþykki en það væri forsenda þess að unnt væri að fallast á erindið og var jafnframt skírskotað til fyrri bókana vegna málsins. 

Þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir skal skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Greint lagaákvæði átti við um byggingarleyfisumsókn kæranda. 

Þegar byggingarleyfisumsóknin var afgreidd hafði lögmælt grenndarkynning ekki farið fram og málið ekki fengið efnislega umfjöllun og afgreiðslu skipulagsyfirvalda.  Þá verður ekki ráðið af bókunum skipulags- og byggingaryfirvalda sem fjölluðu um málið hvaða lagarök stæðu að baki þeirri forsendu að samþykki lóðarhafa að Barmahlið 52 þyrfti að liggja fyrir áður en málið fengi frekari framgang.  Leiða þessir annmarkar á málsmeðferð og rökstuðningi ákvörðunarinnar til þess að fallist verður á kröfu kæranda um ógildingu á afgreiðslu umræddrar byggingarleyfisumsóknar. 

Samkvæmt 1. og 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga kveður úrskurðarnefndin upp úrskurði í ágreiningsmálum um stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga á sviði skipulags- og byggingarmála.  Hin kærða ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að færa ástand umræddrar fasteignar í fyrra horf að viðlögðum dagsektum er gerð með stoð í þvingunarúrræðum 56. og 57. gr. laganna. 

Ekki liggja fyrir lögskýringarsjónarmið eða önnur rök er hníga að því að skýra fyrrnefnda 8. gr. greindra laga með þeim hætti að umræddar stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga falli utan úrskurðarvalds úrskurðarnefndarinnar og hefur nefndin í fyrri kærumálum fjallað efnislega um lögmæti slíkra ákvarðana.  Eru því ekki efni til að vísa frá nefndinni þeim kærulið er lýtur að ákvörðun borgarráðs um beitingu þvingunarúrræða 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Umdeildar breytingar kæranda á fasteigninni að Barmahlíð 54 eru byggingarleyfisskyldar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Fyrir liggur að kærandi aflaði sér ekki byggingarleyfis fyrir framkvæmdunum og lauk þeim raunar þrátt fyrir framkvæmdabann byggingarfulltrúa.  Ákvörðun borgarráðs um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisframkvæmdirnar að viðlögðum dagsektum var því í samræmi við heimildir 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga og ekki liggur fyrir í málinu að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þeirrar ákvörðunar.  Verður því ekki fallist á ógildingu ákvörðunarinnar. 

Afgreiðsla umsóknar kæranda um leyfi fyrir umræddum framkvæmdum var kærð án ástæðulauss dráttar til úrskurðarnefndarinnar og málið hefur síðan verið til meðferðar hjá nefndinni.  Að þessu virtu, og þegar litið er til þess að hin kærða afgreiðsla á byggingarleyfisumsókn kæranda hefur í máli þessu verið felld úr gildi, þykir rétt, með hliðsjón af 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fresta réttaráhrifum umræddrar ákvörðunar borgarráðs frá móttöku kæru til úrskurðardags í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júlí 2008, sem staðfest var í borgarráði hinn 17. júlí s.á., um að synja byggingarleyfisumsókn fyrir brú af svölum íbúðar að Barmahlíð 54 í Reykjavík yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð á nefndri lóð. 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja og færa til fyrra horfs tilgreind mannvirki innan 30 daga, að viðlögðum dagsektum sem í ákvörðuninni greinir, en réttaráhrifum ákvörðunarinnar er frestað frá 29. júlí 2008 til 27. nóvember 2008. 

 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

________________________________         _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

13/2006 Ingólfsstræti

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson, forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2006, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2006 um að afturkalla samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og synja um samþykkt byggingarleyfis fyrir áður gerðum geymsluskúr á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. febrúar 2006, er barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir H, eigandi rýmis í kjallara og geymsluskúrs á lóðinni að Ingólfsstræti 21b, þá ákvörðun skipulagsráðs að afturkalla samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og synja kæranda um byggingarleyfi fyrir áður gerðum geymsluskúr á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 26. janúar 2006.

Kærandi gerir þá kröfu að ofangreind ákvörðun skipulagsráðs verði felld úr gildi og að fyrri samþykkt byggingaryfirvalda verði endurvakin.

Málsatvik:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. janúar 2005 var tekin fyrir umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir áður gerðri bílgeymslu á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti.  Var umsókninni frestað og vísað til athugasemda á umsóknarblaði, en þar var m.a. tilgreint að samþykki meðlóðarhafa vantaði, og í framhaldi var umsóknin send þeim til kynningar.

Ný umsókn, nú svo breytt að óskað var eftir samþykki fyrir áður gerðum geymsluskúr, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. febrúar 2005.  Jafnframt var m.a. lagt fram bréf f.h. meðlóðarhafa frá 4. febrúar s.á. þar sem þess var krafist að umsókninni yrði hafnað og að skúrinn yrði fjarlægður líkt og byggingarnefnd hefði samþykkt árið 1988. Var þar á það bent að skúrinn hefði upphaflega verið reistur í óleyfi og stæði í óþökk eigenda sem ættu meira en 2/3 hluta húss og lóðar. 

Byggingarfulltrúi afgreiddi umsóknina með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Borgarstjórn samþykkti ofangreinda afgreiðslu á fundi sínum hinn 1. mars 2005.  Með bréfi, dags. 14. mars s.á., mótmæltu meðlóðarhafar fyrrgreindri afgreiðslu og kröfðust rökstuðnings fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa og var rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 22. mars 2005.

Með tölvupósti, dags. 15. mars 2005, fóru meðlóðarhafar fram á endurupptöku málsins á þeim forsendum að byggingarfulltrúa væri óheimilt skv. byggingarlögum að ráðstafa til séreignarnota óskiptri sameign á eignarlóð án samþykkis eigenda.  Þá skiluðu þeir jafnframt inn greinargerð þar sem meðferð og afgreiðslu málsins var harðlega andmælt.  Var ákvörðun byggingarfulltrúa jafnframt kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála en kæran síðar afturkölluð.

Byggingarfulltrúi veitti umsögn um málið að beiðni stjórnsýslu- og starfsmannasviðs með bréfi, dags. 18. apríl 2005, þar sem fram kom að samþykkt byggingarfulltrúa væri einkum á því byggð að skúrinn væri sýndur á deiliskipulagi er samþykkt hefði verið á árinu 2003.  Í umsögn frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. júní 2005, vegna beiðni um endurupptöku, kom fram að umsókn um byggingarleyfi hefði m.a. verið afgreidd á þeirri forsendu um málsatvik að sérstakt samþykki meðeigenda lóðarinnar þyrfti ekki að liggja fyrir þar sem þeir hefðu sætt sig við tilvist skúrsins frá upphafi.  Þar sem ekki yrði séð að sú forsenda ætti sér stoð í gögnum málsins yrði að telja að ákvörðunin hefði að þessu leyti byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og því væru skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um rétt aðila til að krefjast endurupptöku máls fyrir hendi. 

Var lagt til að ákvörðunin yrði tekin upp að nýju og byggingarfulltrúa falið að taka umsóknina til afgreiðslu á nýjan leik.  Jafnframt var kæranda máls þessa, með bréfi frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. júní s.á., veitt færi á að koma að athugasemdum vegna framkominnar óskar um endurupptöku málsins.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum hinn 7. júlí 2005 að taka málið upp og vísa því til byggingarfulltrúa til meðferðar að nýju.  Með bréfi, dags. 18. desember 2005, vísaði byggingarfulltrúi málinu til skipulagsráðs til ákvörðunar en lagði til að samþykkt sín stæði óbreytt.  Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 4. janúar 2006, og til skipulagsráðs, dags. 10 sama mánaðar, komu meðlóðarhafar kæranda á framfæri andmælum sínum og kröfðust þess enn að umsókn um byggingarleyfi yrði synjað og að skúrinn yrði fjarlægður.  Lögfræði og stjórnsýsla skipulags- og byggingarsviðs veitti umsögn um málið með bréfi, dags. 17. janúar 2006, og lagði til að skipulagsráð felldi úr gildi fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa en lagði jafnframt til að kröfu um niðurrif hússins yrði hafnað.

Á fundi skipulagsráðs hinn 25. janúar 2006 var tekin fyrir umsókn um samþykki fyrir áður gerðum geymsluskúr á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti.  Voru lögð fram bréf frá umsækjanda, þ.e. kæranda máls þessa, meðlóðarhöfum, byggingarfulltrúa sem og tilvitnuð umsögn lögfræði og stjórnsýslu og var svohljóðandi bókað:  „Fyrri samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 er afturkölluð.  Synjað.  Með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu“.  Staðfesti borgarráð afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 26. janúar 2006. 

Ofangreinda ákvörðun skipulagsráðs skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi hafi eignast rými í kjallara ásamt skúrbyggingu á lóð með afsali árið 1997 og hafi það verið ákvörðunarástæða fyrir kaupunum að skúrinn fylgdi með vegna starfs kæranda.  Lögð sé rík áhersla á að kærandi hafi verið grandlaus við kaupin um að skúrinn fengi e.t.v. ekki að standa áfram.

Sérstaða málsins sé sú að geymsluskúrinn hafi staðið á lóðinni í áratugi og allt bendi til þess að full eining hafi ríkt í húsinu um byggingu hans í öndverðu.  Af frágangi skúrsins megi ráða að hann hafi án efa verið reistur löngu fyrir gildistöku fjölbýlishúsalaga nr. 59/1976 og jafnvel fyrir tíð laga um sameign fjölbýlishúsa nr. 19/1959.  Hafa verði hliðsjón af þeim reglum sem giltu þegar skúrinn hafi verið reistur og hæpið sé að beita ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 fullum fetum við úrlausn máls þessa.  Ótvírætt sé að geymsluskúrinn hafi verið reistur þegar eignarhald heildareignarinnar hafi verið á einni hendi og krafa um samþykki meðeigenda á lóðinni eigi því ekki við.  Sameigendur kæranda að Ingólfsstræti 21b hafi báðir eignast íbúðir sínar í húsinu eftir að kærandi festi kaup á eign sinni og tilvist geymsluskúrsins hafi ekki getað farið fram hjá þeim er þeir keyptu íbúðir sínar.

Samþykki byggingarfulltrúa fyrir geymsluskúrnum sé fullkomlega eðlilegt og lögum samkvæmt og endurupptaka málsins, svo ekki sé minnst á breytta niðurstöðu þess hjá skipulagsráði, óskiljanleg.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Þess er aðallega krafist að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað og ákvörðun skipulagsráðs staðfest.  Þess er jafnframt krafist að öllum kröfum kæranda þess efnis að úrskurðarnefndin endurveki fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa sé hafnað þar sem engar lagaheimildir séu fyrir því að úrskurðarnefndin geti breytt skipulagsákvörðunum sveitarfélaga eða tekið nýjar.   Það sé mat borgarinnar að skipulagsráði hafi verið heimilt að endurupptaka málið og afgreiða það með þeim hætti sem gert hafi verið.

Í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús komi fram að lögin gildi um lögskipti eigenda fullgerðra fjöleignahúsa, að lóðum meðtöldum, og að óumdeilt virðist vera að reglur laganna taki til málsins.  Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna sé einum eiganda á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota tiltekna hluta hennar.  Að sama skapi geti eigandi ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt.

Þá komi fram í 4. mgr. 35. gr. sömu laga komi fram að einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema aðrir eigendur ljái því samþykki en sambærilegt ákvæði hafi verið í eldri lögum um fjölbýlishús.  Það sé óumdeilt að hin umdeilda skúrbygging hafi aldrei hlotið samþykki byggingaryfirvalda og skipti því engu máli hvenær hún hafi verið reist.  Í ljósi þess að byggingin hafi verið reist í óleyfi á sínum tíma og byggingaryfirvöld hafi aldrei veitt samþykki sitt fyrir henni, sé óumflýjanlegt annað en að líta svo á að samþykki meðeigenda þurfi að liggja fyrir á þeim tíma þegar leitað sé samþykkis fyrir henni.

Við gerð nýrra deiliskipulaga (sic) fyrir miðborg Reykjavíkur hafi ekki verið tekin afstaða til heimilda vegna skúrbygginga á lóðum en þeir sýndir á deiliskipulagsuppdrætti. Aðeins hafi verið gerð krafa um niðurrif í þeim tilvikum að heimild til viðbygginga væri skilyrt við niðurrif á eldri skúrbyggingum.  Í ljósi þessa hafi ekki verið gerðar neinar sérstakar úttektir á því hvort skúrar væru samþykktir eður ei enda hafi ætlunin verið sú að veita eigendum tækifæri til að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim skúrum sem ekki höfðu öðlast formlegt samþykki.  Í ljósi þessa beri sérstaklega að ítreka að allar heimildir samkvæmt deiliskipulagi séu háðar því að unnt sé að uppfylla skilyrði annarra laga, t.d. laga um fjöleignarhús, svo sem um samþykki meðeigenda.  Engu breyti þótt skúrinn hafi verið reistur þegar eignarhald innan lóðarinnar hafi allt verið á einni hendi í ljósi þess að skúrinn hafi verið reistur í óleyfi.

Málsrök meðlóðarhafa:  Úrskurðarnefndin tilkynnti talsmanni meðeigenda kæranda að lóðinni að Ingólfsstræti 21b um framkomna kæru og veitti honum færi á því að koma að athugasemdum í málinu en af þeirra hálfu hefur einungis verið vísað til fyrirliggjandi gagna.

Af málsgögnum má ráða að meðlóðarhafar telji að umþrættur skúr hafi verið reistur í óleyfi árið 1987 eða 1988.  Hafi skúrinn staðið á lóðinni síðastliðin 17 ár þrátt fyrir samþykkt byggingaryfirvalda um niðurif hans að viðurlögðum dagsektum.  Krafa um niðurrif hafi verði höfð uppi og jafnan verið tekin fram við sölu eignarhluta í húsinu.  Aðgerðarleysi og sinnuleysi um að framfylgja kröfu um niðurrif verði því ekki rakin til tómlætis íbúa og eigenda.  Lögð hafi verið fram umsókn um byggingarleyfi í janúar 2005 er hafi verið meingölluð og uppfull af vísvitandi rangfærslum og fölsunum. „Reyndaruppdráttur“ eigi sér litla stoð í reyndinni og byggingarlýsing enn minni og stærð skúrsins sé ekki í samræmi við þær upplýsingar er fram komi í afsali.  Þá sé sagt að umsókn sé í „fullu umboði lóðarhafa“ sem sé rangt og að eignin sé matshluti 02 sem gefi til kynna að skúrinn sé skráður í Landsskrá fasteigna og hafi heimild í deiliskipulagi til aukins byggingarmagns en matshluti 02 sé í raun húseignin að Ingólfsstræti 21d.

Meðlóðarhafar telji að fella beri samþykkt byggingarfulltrúa úr gildi enda sé hún andstæð ákvæðum laga um fjöleignarhús sem og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem óheimilt sé með öllu að gera breytingar á sameign, eignarlóð í þessu tilviki, án samþykkis allra eigenda.  Um sé að ræða verulega breytingu á hagnýtingu lóðar, eiganda minnihluta til handa.  Jafnframt sé bent á að fjöleignarhúsalög kveði afdráttarlaust á um að eigendur geti ekki undir nokkrum kringumstæðum öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt.  Sú röksemdafærsla að skúrinn sé sýndur á deiliskipulagi standist ekki en deiliskipulag sé ekki framkvæmdaskipulag og veiti óleyfisskúr sem þessum enga löghelgun.  Skúrsins sé í engu getið í greinargerð skipulagsins og muni hafa verið færður inn á uppdrátt fyrir vangá.  Bent sé á að deiliskipulagið hafi verið birt 6. október 2003 en rúmum mánuði áður hafi byggingarfulltrúi móttekið erindi þar sem gengið hafi verið eftir svörum við því hvers vegna samþykkt um niðurrif hefði ekki verið framfylgt.

Gerð sé athugasemd við starfshætti byggingarfulltrúa sem hafi ekki auðsýnt kostgæfni við að sannreyna framlögð gögn, brotið góða stjórnsýsluhætti með því að samþykkja, án frekari kynningar, annað erindi en fyrir hann hafi verið lagt og umsókn hafi ekki verið grenndarkynnt svo sem borið hafi lögum samkvæmt.  Þá fái rökstuðningur fyrir samþykktinni ekki staðist og sé aukin heldur byggður á augljósum mistökum í vinnslu deiliskipulags og því brjóti samþykktin einnig í bága við deiliskipulag.  Jafnframt hafi byggingarfulltrúi virt að vettugi fyrri samþykktir eigin embættis og borgarráðs, málsaðilum hafi verið kynnt önnur málsmeðferð en raunin hafi verið og komið í veg fyrir að meirihluti eigenda nyti andmælaréttar og komið þannig eign þeirra og eignarrétti í annars hendur með ólögmætum hætti. 

Þá sé bent á að skúrinn sé afar óhrjálegur og lýti í umhverfinu og einnig stafi af honum eldhætta.  Sé engin leið að nýta lóðina með viðunandi hætti á meðan skúrinn standi.

————-

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar um úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur að afturkalla áður veitt byggingarleyfi fyrir geymsluskúr að lóðinni Ingólfsstræti 21b og synja umsókn um samþykki fyrir honum.

Fyrir liggur að lögð var fram krafa af hálfu meðeigenda kæranda að fasteigninni að Ingólfsstræti 21b um endurupptöku málsins eftir að byggingarfulltrúi hafði samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir umræddum geymsluskúr.  Lagði lögfræðingur borgarstjórnar til í umsögn, dags. 9. júní 2006, að málið yrði endurupptekið þar sem fram hefði komið að ákvörðun byggingarfulltrúa hefði m.a. verði byggð á þeirri forsendu um málsatvik (sic) að sérstakt samþykki meðeigenda lóðarinnar þyrfti ekki að liggja fyrir þar sem þeir hefðu sætt sig við tilvist skúrsins frá upphafi, en ekki yrði séð að sú forsenda ætti sér stoð í þeim gögnum sem fyrir lægju í málinu.  Hin umdeilda ákvörðun hefði því byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og því væru skilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga til endurupptöku málsins fyrir hendi.  Samþykkti borgarráð, á fundi sínum hinn 7. júlí 2005, að taka málið upp og vísa því til byggingarfulltrúa til meðferðar að nýju. 

Í umsögn lögfræði og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs, dags. 17. janúar 2006, sem vísað er til í umþrættri ákvörðun skipulagsráðs, var bent á að samþykki meðeigenda fyrir veitingu byggingarleyfisins væri ekki fyrir hendi svo sem áskilið væri að lögum og lagt til að fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa yrði felld úr gildi.  Lauk skipulagsráð endurupptökumeðferð málsins með því að afturkalla fyrri samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og synja umsókn kæranda um byggingarleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp að nýju hafi ákvörðun í málinu verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða þegar íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin.

Telja verður að meðeigendur kæranda að lóðinni að Ingólfsstræti 21b geti átt lögvarða hagsmuni tengda hinni umdeildu samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. febrúar 2005 og að þeir hafi því haft stöðu aðila máls við þá ákvörðun.  Var þeim því heimilt að fara fram á endurupptöku málsins með stoð í 24. gr. stjórnsýslulaga, svo sem þeir gerðu, og barst beiðni þeirra innan lögákveðinna tímamarka. 

Við afgreiðslu á endurupptökubeiðni meðeigendanna komust borgaryfirvöld að þeirri niðurstöðu að hin umdeilda ákvörðun hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og því væru skilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga til endurupptöku málsins fyrir hendi.  Á þá niðurstöðu verður ekki fallist.  Fyrir liggur að þegar byggingarfulltrúi tók ákvörðun sína í málinu lá fyrir að meðeigendur kæranda töldu að ákvörðun um leyfi fyrir margnefndum skúr væri háð samþykki þeirra.  Það voru því hvorki fyrir hendi ófullnægjandi né rangar upplýsingar um málsatvik hvað þetta varðar er málið kom til endanlegrar afgreiðslu byggingarfulltrúa heldur var uppi í málinu réttarágreiningur sem hann varð að taka afstöðu til.  Verður endurupptökuheimildum 24. gr. stjórnsýslulaga ekki beitt til þess að fá fram nýja ákvörðun stjórnvalds vegna þess eins að deilt hafi verið um lagatúlkun og beitingu réttarheimilda um ágreiningsefni sem fyrir lá þegar ákvörðun var tekin.  Voru því ekki fyrir hendi skilyrði til endurupptöku máls í hinu umdeilda tilviki og verður ný ákvörðun skipulagsráðs í málinu því felld úr gildi.

Skipulagsráð lauk endurupptökumeðferðinni með því að taka fyrir umsókn kæranda um samþykkt fyrir áður gerðum skúr og afturkalla fyrri samþykkt byggingarfulltrúa frá  22. febrúar 2005.  Að því búnu tók ráðið nýja efnislega ákvörðun í málinu og synjaði  umsókn kæranda.  Verður að skilja afgreiðslu ráðsins á þann veg að með henni hafi verið lokið endurupptökumeðferð málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga en ekki er í bókun ráðsins vísað til þeirra lagaheimilda sem stuðst var við.  Verður ákvörðun ráðsins ekki talin fela í sér einhliða afturköllun stjórnvaldsákvörðunar með heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga enda þótt bókað sé um afturköllun fyrri ákvörðunar.  Var kæranda aldrei tilkynnt um að til stæði að taka ákvörðun um afturköllun á grundvelli þeirrar heimildar og ekki var af hálfu borgaryfirvalda vísað til þess ákvæðis við afgreiðslu málsins.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til endurupptöku ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og að ekki hafi heldur verið tekin lögmæt ákvörðun um afturköllun hennar.  Verður hin kærða ákvörðun skipulagsráðs frá 25. janúar 2006, sem staðfest var í borgarráði 26. sama mánaðar, því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2006, sem staðfest var í borgarráði 26. sama mánaðar, um að afturkalla samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og synja um samþykkt byggingarleyfis fyrir áður gerðum geymsluskúr á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

47/2008 Bárustígur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Oddgeir Einarsson hdl., f.h. B, Bárustíg 7, Vestmannaeyjum, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja hinn 28. september 2005 var lögð fram svohljóðandi tillaga svonefnds umferðarhóps:  „1.  Bárustígur verði gerður að vistgötu frá Vestmannabraut að Vesturvegi (í framhaldi af Hilmisgötu) þannig að ákvæðum í gr. 1.14 í deiliskipulagi miðbæjarins verði framfylgt.  2.  Bannað verði að leggja bílum við gangstéttar frá Bárustíg 9 að Strandvegi.“  Var tillagan samþykkt og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs falið að hafa samráð við viðeigandi aðila varðandi framgang málsins.  Lýtur ógildingarkrafa kæranda að 2. tl. bókunarinnar. 

Kærandi kveðst hafa verið eigandi hússins að Bárustíg 7 frá árinu 1991 og rekið þar bakarí um árabil.  Bílastæði framan við húsið séu verslunarrekstrinum mikilvæg og hafi þau verið forsenda fyrir kaupum á fasteigninni á sínum tíma.  Umdeild ákvörðun um bann við bifreiðastöðum hafi komið til framkvæmda í júlí 2006 og hafi komið kæranda í opna skjöldu enda hafi honum ekki verið tilkynnt um ákvörðunina.  Af hálfu kæranda hafi ítrekað verið gerðar athugasemdir við bifreiðastöðubannið, farið fram á endurskoðun ákvörðunarinnar og kallað eftir rökstuðningi að baki banninu en án árangurs.  Hafi kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar því ekki byrjað að líða. 

Ógildingarkrafa kæranda sé byggð á því að umrædd ákvörðun sé ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi enda eigi ákvarðanir um stöðvun og lagningu ökutækja undir lögreglustjóra skv. a lið 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Verði talið að ákvörðunin hafi verið tekin af þar til bæru stjórnvaldi sé um deiliskipulagsákvörðun að ræða sem fari eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. um auglýsingu, kynningu og yfirferð Skipulagsstofnunar á deiliskipulagstillögu.  Við hina kærðu ákvörðun hafi þessara lagaákvæða ekki verið gætt og málsmeðferðin því brotið gegn reglum stjórnsýslulaga um rannsókn máls, andmælarétt, tilkynningaskyldu stjórnvalds og rökstuðning fyrir ákvörðun.  Um sé að ræða ákvörðun sem sé verulega íþyngjandi gangvart kæranda og snerti atvinnuhagsmuni hans. 

Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er byggt á því að hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 8. gr. skipulags- og byggingarlaga eða stjórnsýslulaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Hvort heimilt sé eða ekki að stöðva eða leggja ökutækjum við gangstéttar sé háð ákvörðun viðkomandi lögreglustjóra en sveitarstjórn eigi aðeins tillögurétt í því efni, sbr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Umdeild tillaga sveitarstjórnar Vestmannaeyja hafi verið send lögreglustjóra sem hafi í kjölfar þess tekið ákvörðun um að banna að leggja bifreiðum við Bárustíg.  Hafi sú ákvörðun komið fram í auglýsingu sýslumanns um umferð í Vestmannaeyjum sem birst hafi í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006. 

Fyrirliggjandi bréf kæranda frá árinu 2006 beri það með sér að honum hafi þá þegar verið ljóst efni umræddrar samþykktar eða bókunar umhverfis- og skipulagsráðs.  Ekki sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning fresti því að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar byrji að líða en í 21. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning skuli koma fram í síðasta lagi 14 dögum eftir að ákvörðun hafi verið birt viðkomandi.  Engin formleg beiðni um rökstuðning hafi borist frá kæranda þrátt fyrir vitneskju hans um málið á árinu 2006 og verði að telja kærufrest í málinu löngu liðinn. 

Niðurstaða:  Hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 25. september 2005 fól í sér samþykkt á tillögu til lögreglustjóra um umferðarmál við Bárustíg sem unnin var af starfshópi um umferðarmál á vegum sveitarfélagsins.  Hið umdeilda bann við stöðu bifreiða við Bárustíg sem þar var lagt til var síðan ákveðið af lögreglustjóra.  Var sú ákvörðun birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006 í auglýsingu nr. 337/2006 um umferð í Vestmannaeyjum. 

Samkvæmt 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fer lögreglustjóri með ákvörðunarvald um þau málefni sem hér um ræðir að fengnum tillögum viðkomandi sveitarstjórnar.  Ákvarðanir lögreglustjóra um umferðarmál samkvæmt téðu ákvæði eru ekki teknar á grundvelli skipulags- og byggingarlaga.  Verða þær því ekki bornar undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda hefur nefndinni ekki verið falið úrskurðarvald um þær ákvarðanir í öðrum lögum. 

Hin kærða samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs var lögboðinn undanfari ákvörðunar lögreglustjóra en fól ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður sú samþykkt af þeim sökum ekki kærð ein og sér til úrskurðarnefndarinnar.  Þegar af þeirri ástæðu verður máli þessu vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________    _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

136/2007 Leynir

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 136/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 31. janúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 196827 í landi Leynis í Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. október 2007, er barst nefndinni næsta dag, kæra S og M, eigendur lóðar nr. 189497 í landi Leynis í Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 31. janúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúss á lóð nr. 196827 í landi Leynis í Bláskógabyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 7. febrúar 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 31. janúar 2006 samþykkti byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu að veita leyfi fyrir byggingu 99,2 m² sumarhúss að Köldukinn 2 í landi Leynis í Bláskógabyggð,  en sú lóð liggur að lóð kærenda.  Mun sumarhús samkvæmt hinu umdeilda leyfi hafa vera risið um mitt ár 2007.       

Byggja kærendur kröfu sína á því að umrætt hús samræmist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins og fari í bága við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hafi byggingarleyfi fyrir húsinu verið veitt án þeirra vitundar.  Enn sem komið sé dvelji kærendur afar lítið á lóð sinni enda séu þeir aðeins búnir að byggja lítið afdrep til að geta haft aðstöðu þegar að því komi að byggja þar hús.  Þar af leiðandi hafi þeir ekki vitað af byggingunni fyrr en nýlega enda hafi engin grenndarkynning farið fram áður en húsið hafi verið reist.  Telji þeir að hæð og staðsetning hússins skaði hagsmuni þeirra þar sem útsýni af efri hæð þess sé yfir alla lóð kærenda.  Leiði þetta til þess að lóð þeirra falli í verði. 

Af hálfu Bláskógabyggðar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni enda sé hún of seint fram komin auk þess sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi.  Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar 7. febrúar 2006. 

Ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að kærendum hafi verið kunnugt um veitingu leyfisins og hina kærðu ákvörðun eigi síðar en þann 25. júlí 2007, en þá hafi annar kærenda sent fyrirspurn til byggingarfulltrúa í tölvupósti og vísað til þess að hús væri risið á lóðinni.  Jafnframt hafi sama kæranda borist bréf frá Skipulagsstofnun þann 8. ágúst 2007 þar sem leiðbeint hafi verið um kæruheimild og kærufrest.  Kæra hafi verið móttekin hjá úrskurðarnefndinni 11. október 2007 og hafi því kærufrestur verið liðinn þegar kærendur hafi skotið málinu til nefndarinnar.  Vitneskja kærenda um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi hafi raunar verið til staðar mun fyrr en greindar dagsetningar í skjölum málsins gefi til kynna.  Hefðu kærendur þá þegar átt að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. 

Sveitarfélagið byggi einnig á því að kærendur eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Staðsetning sumarhúsa á skipulögðum lóðum sæti ekki grenndarkynningu.  Umrætt sumarhús sé staðsett innan byggingarreits og standi vel gagnvart lóð kærenda.  Stallur sé í landinu á milli lóða og hafi fjölmörg tré verið gróðursett þar og muni því ekki sjást mikið á milli lóða eftir nokkur ár.  Þá geti fallegt sumarhús, eins og hér um ræði, ekki haft neikvæð áhrif á verðmat lóðar kærenda. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 31. janúar 2006 og staðfest í sveitarstjórn Bláskógabyggðar 7. næsta mánaðar. 

Eins og áður greinir eru kærendur eigendur lóðar nr. 189497 sem er við hlið lóðar nr. 196827 þar sem hið umdeilda hús var reist.  Að virtum gögnum máls þessa liggur fyrir að gerð var athugasemd af hálfu kærenda við umrætt hús í júlí 2007, samanber áðurgreindan tölvupóst annars þeirra til byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu hinn 25. júlí 2007, en þar kemur m.a. fram að umrætt hús sé risið og sé sjö metra hátt. 

Þá var með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 8. ágúst s.á., upplýst um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar, en bréfið var ritað í tilefni af kröfu kærenda um að umrætt sumarhús yrði lækkað til samræmis við samþykktir gildandi deiliskipulags. 

Með vísan til framangreinds verður við það að miða að kærendum hafi verið kunnugt um byggingu umdeilds sumarhúss í lok júlí 2007 og um kæruheimild og kærufrest eigi síðar en er þeim barst svarbréf Skipulagsstofnunar 8. ágúst s.á.  Hefði þeim því borið að skjóta ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 11. október 2007 eða um mánuði eftir að kærufrestur var liðinn.  Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

17/2007 Kirkjuferjuhjáleiga

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 6. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 21. desember 2006 um deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Reynir Karlsson hrl., f.h. eigenda jarðanna Grænhóls, Strýtu og Auðsholtshjáleigu í Ölfusi, samþykkt bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 21. desember 2006 um deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu. 

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hafa jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda við urðun sorps á svæðinu þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Ljóst er að í mörg ár hefur urðun sorps átt sér stað á svæðinu og þótti því ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þá kröfu kærenda að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. 

Málavextir:  Deilumál þetta á sér langan aðdraganda og áður hafa ákvarðanir bæjarstjórnar Ölfuss varðandi sorpstöðina verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar.  Sorpstöð Suðurlands er í eigu 13 sveitarfélaga í Árnes- og Rangárvallasýslum og fer starfsemi stöðvarinnar fram í landi Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi, en í september 1992 var undirritaður leigusamningur milli landbúnaðarráðherra og sorpstöðvarinnar um leigu á 20 hekturum af landi jarðarinnar fyrir starfsemi sorpstöðvarinnar og gilti hann til ársloka 2017.  Aðal- og deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt á árinu 1994.  Var upphaflegt starfsleyfi stöðvarinnar gefið út sama ár sem og leyfi fyrir framkvæmdum.  Starfsleyfi stöðvarinnar var endurnýjað á árinu 1998 og er núgildandi starfsleyfi frá árinu 2002.  Í gildi er Aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 og samkvæmt því er svæði það er um ræðir skilgreint sem sorpförgunarsvæði. 

Á árinu 2001 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss sorpstöðinni bréf þess efnis að urðun sorps á svæðinu væri í andstöðu við samþykkt deiliskipulag hvað hæð urðunarreina varðaði og krafðist þess að farið yrði eftir deiliskipulaginu, ella yrði beitt ákvæðum 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Mótmælti sorpstöðin framangreindu og vísaði til þess að í samþykktu deiliskipulagi kæmi hvergi fram leyfileg hámarkshæð urðunarreina.  Með bréfi Skipulagsstofnunar á árinu 2002 til sveitarfélagsins var greint frá því áliti stofnunarinnar að sniðmynd sem fylgt hefði skipulaginu á sínum tíma væri hluti af samþykktu deiliskipulagi svæðisins en á sniðmynd þessari voru m.a. tilgreindar hæðir urðunarreina. 

Eftir þetta áttu sér stað samskipti milli sorpstöðvarinnar og bæjarstjórnar er lutu að hæð urðunarreina á svæðinu.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarfélagsins, dags. 15. mars 2004, sagði m.a. eftirfarandi:  „Í deiliskipulagi fyrir sorpstöðina er fjallað um hæð urðunarreina en svo virðist sem hæð þeirra sé nokkru hærri en miðað var við í upphafi samkvæmt umræddu deiliskipulagi.  Skipulagsstofnun telur ljóst með tilliti til starfsemi sorpstöðvarinnar þá sé óframkvæmanlegt að lækka hæð urðunarreina til samræmis við gildandi deiliskipulag.  Má líta svo á að um sé að ræða ómöguleika, þar sem umrót sorphaugs leiðir til verulegs umhverfistjóns og mengunar.  Með þetta að leiðarljósi og þann ágreining sem um starfsemi stöðvarinnar hefur ríkt leggur Skipulagsstofnun til að gert verði nýtt deiliskipulag fyrir sorpstöðina.“ 

Í bréfi Umhverfisstofnunar til sorpstöðvarinnar, dags. 31. mars 2004, sagði m.a. eftirfarandi:  „Almenn ákvæði í starfsleyfi sorpstöðvarinnar gera það óheimilt að hróflað sé við úrgangi sem búið er að urða á urðunarsvæðinu.  Við rotnun lífrænna efna myndast meðal annars hauggas, sem aðallega samanstendur af metan og kolsýru. … Með ofangreint í huga telur Umhverfisstofnun að rekstraraðili geti ekki tryggt við lækkun urðunarreina að úrgangur valdi hvergi ónæði eða óþrifnaði … Umhverfisstofnun telur því ljóst að lækkun urðunarreina muni brjóta í bága við ákvæði starfsleyfis.“ 

Komu kærendur á framfæri mótmælum sínum vegna framangreinds og vísuðu m.a. til ákvæða 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til lögmanns kærenda, dags. 29. apríl 2004, sagði m.a. eftirfarandi:  „…er ljóst að um ómöguleika er að ræða við lækkun umræddra urðunarreina.  Þótt Umhverfisstofnun hafi í bréfi sínu fjallað um samhengi starfsleyfis og lækkun urðunarreina og það umhverfisslys sem af slíku leiðir þá fjallar erindi stofnunarinnar með skýrum hætti um efnislegar afleiðingar lækkunar urðunarreina og það umhverfisslys sem af slíku leiðir.  Niðurstaða Umhverfisstofnunar er að lækkun urðunarreina brjóti ákvæði starfsleyfis, sem m.a. er byggt upp af gildandi lögum og reglum umhverfisréttar.  Þar af leiðandi eru þær forsendur sem þér nefnið í bréfi yðar til Skipulagsstofnunar með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ekki fyrir hendi.“  Þá sagði m.a. eftirfarandi í bréfi Skipulagsstofnunar til lögmanns kærenda, dags. 29. október 2004,:  „Ljóst er að sveitarfélaginu ber að stöðva þær framkvæmdir sem fram fara og brjóta í bága við gildandi skipulag svæðisins.[…] Skipulagsstofnun telur hins vegar að eingöngu sé unnt að framfylgja 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga í þessu tilfelli, þ.e. að lækka urðunarreinar til samræmis við gildandi skipulag, ef fyrir liggur að mengunarvarnaryfirvöld telji slíkt ekki hafa í för með sér óásættanlega mengun og hættu.  Einnig minnir stofnunin á að slík framkvæmd væri ekki í samræmi við gildandi starfsleyfi sorpurðunarsvæðisins.  Einnig virðist stofnuninni ljóst að taka þarf til endurskoðunar skipulag svæðisins, s.s. hvað gera eigi ráð fyrir háum urðunarreinum til framtíðar.  Stofnunin telur hins vegar að til að sátt náist um málið, þurfi sveitarfélagið að endurskoða deiliskipulag svæðisins í samráði við hagsmunaaðila og leggja fram deiliskipulagstillögu til opinberrar kynningar sem fyrst.“ 

Hinn 3. nóvember 2004 var gert samkomulag milli Sorpstöðvar Suðurlands annars vegar og Sveitarfélagsins Ölfuss hins vegar um tilhögun sorpurðunar að Kirkjuferjuhjáleigu.  Í 4. gr. samkomulagsins sagði að aðilar þess væru sammála um að láta vinna, í samræmi við tilmæli Skipulagsstofnunar ríkisins er fram hafi komið í bréfi, dags. 15. mars 2004, nýtt deiliskipulag að urðunarsvæði í Kirkjuferjuhjáleigu.  Þá sagði í 5. gr. að urðunarrein nr. 7 yrði lækkuð til eðlilegs samræmis við þá hæð urðunarreina sem skilgreind yrði í nýju deiliskipulagi.  Bráðabirgðalækkun reinarinnar skyldi vera lokið fyrir 1. desember 2004 og endanlegum frágangi innan þriggja mánaða frá því að nýtt deiliskipulag tæki gildi.  Komu kærendur á framfæri mótmælum sínum vegna samkomulags þessa. 

Á fundi bæjarstjórnar hinn 23. júní 2005 var m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Tillaga að breytingu á deiliskipulagi á urðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands.  Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi á sorpurðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands í Kirkjuferjuhjáleigu dags. 13. apríl 2005 unnin af Landformi ehf.  Samþykkt samhljóða að heimila auglýsingu á tillögunni.“ 

Þá var á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar 12. júlí 2005 m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Bæjarstjórn hefur samþykkt að breytt deiliskipulag fyrir urðunarstað að Kirkjuferjuhjáleigu fari í auglýsingu.  Kallað hefur verið eftir að deiliskipulagsgögn frá Landformi berist skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd til að setja í auglýsingu.  Afgreiðsla:  Málið rætt.“ 

Hinn 22. júlí 2005 birtist auglýsing í Lögbirtingablaðinu þar sem sagði m.a. eftirfarandi:  „Auglýsing sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og 2. mgr. 6.2.3 í skipulagsreglugerð.  Bæjarstjórn Ölfuss auglýsir hér með tillögu að breytingu á deiliskipulagi Sorpstöðar Suðurlands við Kirkjuferjuhjáleigu, Ölfusi, samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Deiliskipulagið og greinargerð hefur verið afgreitt á lögboðinn hátt í skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn Sveitarfélagins Ölfuss.[…]  Við afgreiðslu þessa breytta skipulags fellur eldra skipulag úr gildi sem afgreitt var í sveitarstjórn Ölfuss í mars 1993 og staðfest af skipulagsstjórn ríkisins 28. apríl 1994.“  Komu m.a. kærendur á framfæri athugasemdum sínum vegna tillögunnar.  Á fundi bæjarráðs hinn 6. október 2005 voru teknar fyrir athugasemdir er borist höfðu og þeim svarað ásamt því að tillagan var samþykkt.  Á fundi bæjarstjórnar 27. sama mánaðar var fundargerð bæjarráðs samþykkt. 

Hinn 8. nóvember 2005 voru athugasemdir þær er bárust vegna tillögunnar kynntar í skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd og svör við þeim samþykkt.  Var um að ræða sömu svör og bæjarráð hafði áður veitt vegna sömu tillögu.  Var fundargerð þessi samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 25. nóvember 2005. 

Á fundi bæjarstjórnar 5. október 2006 var eftirfarandi fært til bókar:  „Deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Kirkjuferjuhjáleigu.  Lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands að Kirkjuferjuhjáleigu Ölfusi unnin af Landformi ehf.  Tillagan var samþykkt á fundi skipulags- byggingar- og umhverfisnefnd Ölfuss þann 8. nóvember 2005 og er um lítilsháttar orðalagsbreytingar að ræða.  Samþykkt samhljóða.“ 

Með bréfi Skipulagsstofnunar til bæjarstjóra, dags. 19. október 2006, var greint frá því mati stofnunarinnar að ekki hafi verið teknar til greina athugasemdir hennar varðandi deiliskipulagið.  Í bréfi lögmanns sveitarfélagsins til Skipulagsstofnunar, dags. 9. nóvember 2006, var greint frá fyrirhuguðum viðbrögðum vegna þessa og með bréfi stofnunarinnar til lögmannsins, dags. 16. nóvember 2006, var á þau fallist. 

Á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar hinn 19. desember 2006 var fært til bókar að deiliskipulagstillaga fyrir Sorpstöð Suðurlands hefði verið lagfærð til samræmis við athugasemdir sem Skipulagsstofnun hefði gert við staðfestingu á deiliskipulaginu og sé það þannig afgreitt til auglýsingar í Stjórnartíðindum.  Þá voru og samþykkt endurskoðuð svör nefndarinnar við athugasemdum er bárust á auglýsingartíma tillögunnar.  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 28. desember 2006.  Bréf til þeirra er athugasemdir gerðu var dagsett 10. janúar 2007 og var auglýsing um gildistöku skipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. febrúar 2007. 

Skutu kærendur áðurgreindri ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur kveða mál þetta eiga sér langan aðdraganda en þau séu eigendur og/eða ábúendur jarða skammt frá urðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi. 

Kærendur hafi fljótlega eftir að framkvæmdir hafi hafist tekið eftir því að á sorpurðunarsvæðinu væri ekki allt með felldu.  Bæði hafi virst sem magn sorps væri meira en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi auk þess sem hæð urðunarreina væri ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Þá hafi frágangi á sorpi verið ábótavant. 

Í starfsleyfi stöðvarinnar frá 2002 sé gert ráð fyrir „…urðun úrgangsefna, allt að 30.000 tonnum á ári“ en í eldri starfsleyfum, sem gefin hafi verið út af Hollustuvernd ríkisins á árunum 1994 og 1998, hafi ekki verið tiltekið ákveðið magn úrgangsefna sem heimilt væri að urða.  Í þágildandi deiliskipulagi, sem nú hafi verið fellt úr gildi með nýju deiliskipulagi, hafi verið gert ráð fyrir að urðunarreinar gætu orðið allt að fimm metrum yfir landkóta.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 21. mars 2002, hafi verið staðfestur sá skilningur að líta bæri á sniðmynd sem hluta af þágildandi deiliskipulagi þar sem vísað væri til hennar á deiliskipulagsuppdrætti og hún hafi verið fylgigagn með aðal- og deiliskipulagstillögum á sínum tíma. 

Kærendur hafi um árabil krafist þess af sveitarstjórn að gengið væri eftir því að framkvæmd urðunar færi eftir eldra deiliskipulagi.  Skemmst sé frá því að segja að því hafi lítt verið sinnt af sveitarstjórn og sé hæð urðunarreina mun meiri en gert hafi verið ráð fyrir í eldra deiliskipulagi. 

Árið 2004 hafi málið tekið nýja stefnu þegar bæjarstjórn hafi vísað til þess að Umhverfisstofnun teldi óframkvæmanlegt að færa urðunarreinar í þá hæð sem gert hefði verið ráð fyrir í þágildandi deiliskipulagi og að Skipulagsstofnun hefði lagt til að deiliskipulagi svæðisins yrði breytt þannig að urðunarreinar yrðu hækkaðar frá því sem gert hefði verið ráð fyrir.  Síðan þá hafi kærendur ítrekað komið á framfæri mótmælum sínum við þar til bær yfirvöld vegna áætlana um breytt deiliskipulag svæðisins sem í engu hafi verið sinnt. 

Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu 22. júlí 2005 hafi bæjarstjórn auglýst tillögu að breyttu deiliskipulagi sorpstöðvarinnar.  Þar hafi verið gert ráð fyrir að urðunarreinar gætu farið a.m.k. í 20 metra hæð.  Með bréfi, dags. 29. ágúst 2005, hafi kærendur mótmælt tillögunni og gert kröfu um að farið væri eftir þágildandi deiliskipulagi sem hafi gert ráð fyrir fimm metra jarðlagi yfir landkóta á hverjum stað.  Hafi þau ítrekað þau sjónarmið sín sem áður hafi komið fram að með tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins væri sveitarfélagið að freista þess að „…gera ólögmætt ástand lögmætt“, en slíkt væri ótvírætt brot á 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þá hafi sveitarfélagið ekki nýtt sér þau úrræði sem fram komi í VI. kafla laga nr. 73/1997 til þess að koma í veg fyrir hina ólögmætu háttsemi sorpstöðvarinnar.  Þá hafi þau bent á að þau teldu óhjákvæmilegt að fram færi umhverfismat vegna breytinga á deiliskipulaginu þar sem breytingar væru það miklar að jafna mætti til nýs sorpurðunarsvæðis vegna verulega aukins sorps á svæðinu, a.m.k. á hvern fermetra lands.  Hafi þau minnt á að sorphaugarnir væru nálægt Ölfusárósi þar sem væri uppgöngustaður lax og silungs í þekktar laxveiðiár auk þess sem kærendur stundi þar hrossarækt.  Hafi þau einnig bent á að mikill sóðaskapur og lyktarmengun fylgdi sorphaugunum auk þess sem þeir skyggðu á fjallasýn kærenda.  Hafi þau einnig vakið athygli á að ekki væri annað að sjá en að bæjarstjórn hefði ákveðið að vinna eftir hinu nýja skipulagi, sbr. samkomulag hennar og sorpstöðvarinnar frá 3. nóvember 2004.  Skemmst sé frá því að segja að öllum athugasemdum kærenda hafi verið hafnað með bréfi, dags. 12. október 2005. 

Kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrskurði nefndarinnar þar sem þau séu eigendur og eða ábúendur nærliggjandi jarða í sömu sveit, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  G ehf. sé eigandi Grænhóls og Strýtu en þau G og K séu ábúendur þar.  K eigi jörðina Auðsholtshjáleigu með foreldrum sínum, þeim E og Þ, og systkinum sínum, þeim H og Þ. 

Þá sé bent á að ekkert framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út vegna framkvæmda samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi en slíkt sé ótvírætt brot á 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hafi sveitarstjórn borið því við að ekki þyrfti framkvæmdaleyfi þar sem framkvæmdir hafi hafist fyrir gildistöku laganna og að enginn áskilnaður hafi verið í eldri lögum um framkvæmdaleyfi.  Þá hafi sveitarstjórn haldið því fram að framkvæmdirnar ættu sér stoð í eldra skipulagi og væru því ekki háðar framkvæmdaleyfi.  Kærendur telji hins vegar að um sé að ræða meiriháttar framkvæmdir sem hafi veruleg áhrif á umhverfið og muni breyta ásýnd þess.  Öllum hljóti að vera ljóst að hækkun urðunarreina um fleiri metra frá eldra deiliskipulagi hljóti að teljast meiriháttar breyting á umhverfinu.  Það að framkvæmdir hafi verið hafnar fyrir gildistíð núgildandi laga geti ekki veitt afslátt frá þeim kröfum sem 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga setji mönnum ef verulegt rask verði á umhverfinu með nýju deiliskipulagi frá því sem verið hafi samkvæmt eldra deiliskipulagi.  Ef skilningur sveitarstjórnar réði þýddi það að hægt væri að gerbreyta ásýnd landsins þar sem upphaflegar framkvæmdir á svæðinu hefðu hafist fyrir gildistöku laganna, burtséð frá því hvaða framkvæmdir yrðu síðar þótt þær væru verulegar.  Það sé augljóslega ekki tilgangurinn með fyrrgreindu lagaákvæði, heldur hitt að tryggja að framkvæmdaleyfi verði fengið frá hlutaðeigandi yfirvöldum áður en óafturkræf spjöll verði unnin á landinu. 

Kröfu sína styðji kærendur við 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 8. gr. sömu laga.  Óheimilt hafi verið að gera nýtt deiliskipulag fyrir sorphaugana við þessar aðstæður „…fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt“, eins og það sé orðað í ákvæðinu.  Þessa hafi ekki verið gætt, heldur hafi urðun farið fram án hlés langt umfram leyfilega hámarkshæð samkvæmt eldra deiliskipulagi og haldi nú áfram samkvæmt hinu nýja.  Þetta sé ótvírætt brot á 4. mgr. 56. gr. fyrrgreindra laga.  Því sé ekkert annað að gera en að fella samþykktina úr gildi. 

Málsrök Sveitarfélagins Ölfuss:  Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að mál þetta eigi sér langan aðdraganda en við mælingu á hæð urðunarreina á urðunarstað Sorpstöðvar Suðurlands í júlí 2001 hafi komið upp ágreiningur milli stöðvarinnar og sveitarfélagsins um hæð urðunarreina á svæðinu.  Í framhaldi af því hafi bæjarstjórn ákveðið að hefja undirbúning aðgerða í samræmi við skipulags- og byggingarlög er miðað hafi að því að urðun sorps í framangreindum urðunarreinum yrði hætt og þess gætt að hæð nýrra urðunarreina bryti ekki í bága við deiliskipulag. og hæð þeirra lækkuð til samræmis við þágildandi deiliskipulag.  Þá hafi einnig verið skorað á sorpstöðina að hætta þegar í stað urðun sorps í framangreindum urðunarreinum þannig að hæð þeirra bryti ekki í bága við deiliskipulag svæðisins.  Ágreiningur hafi hins vegar verið á milli sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar um túlkun á gildandi deiliskipulagi.  Samkomulag hafi náðst með sveitarfélaginu og sorpstöðinni um að urðun, er færi yfir tiltekin hæðarmörk, yrði tafarlaust hætt meðan fundin yrði lausn á málinu. 

Leitað hafi verið bæði til Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar varðandi úrlausn málsins.  Á grundvelli afstöðu þessara stofnana um þann ómöguleika sem fyrir hendi hafi verið um lækkun umræddra urðunarreina hafi sorpstöðin, í samráði við sveitarfélagið, farið að tilmælum Skipulagsstofnunar og gert breytingar á deiliskipulagi svæðisins.  Áður hafi verið gert samkomulag milli sorpstöðvarinnar og sveitarstjórnar um þessa ráðstöfun, eða hinn 3. nóvember 2004.  Hafi þá ágreiningur sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar um deiliskipulagið verið lagður til hliðar. 

Sveitarfélagið krefjist frávísunar málsins og byggi þá kröfu á því að kærendur eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kærendur hafi í engu rökstutt hvaða lögvörðu hagsmuni þeir telji sig hafa vegna breytinga á deiliskipulagi svæðisins.  Í kæru sé einungis tiltekið að kærendur séu eigendur eða ábúendur „…nærliggjandi jarða í sömu sveit“.  Tekið sé fram að hluti kærenda sé búsettur í Reykjavík, þ.e. Eyvindur og Þóra, auk þess sem einn kærenda, Hreggviður, búi í Svíþjóð.  Samkvæmt skráningu Fasteignamats ríkisins sé G ehf. eigandi Grænhóls og Strýtu en K, Þ, E og H eigendur Auðsholtshjáleigu.  Óútskýrð sé þá aðild G persónulega, Þ  og Þ. 

Talsverð vegalengd sé frá eignum kærenda og hins deiliskipulagða svæðis.  Fasteignin Grænhóll sé í meira en tveggja km fjarlægð og Auðsholtshjáleiga í rúmlega eins og hálfs km fjarlægð frá hinu deiliskipulagða svæði.  Sama gildi um Strýtu.  Kærendur geti vissulega haft sértæka hagsmuni af tilteknum þáttum skipulagsins en þeir geti ekki haft beina, einstaklega og lögvarða hagsmuni af því að fá fellt úr gildi hið breytta deiliskipulag.  Hagsmunir þeirra af umræddu deiliskipulagi geti ekki talist meiri en annarra íbúa sveitarfélagsins eða þá Suðurlands alls, sbr. Hrd. mál nr. 171/2004. 

Þá hafi deiliskipulagið ekki í för með sér skerðingu á útsýni eða verulegar breytingar á umhverfi kærenda þegar miðað sé við staðsetningu húsa þeirra, afstöðu og fjarlægð þeirra frá hinu deiliskipulagða svæði, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2006.  Þá verði að hafa í huga að með breytingu á deiliskipulaginu sé urðunarsvæðið minnkað frá því sem gilt hafi samkvæmt hinu eldra skipulagi auk þess sem breytingin hafi ekki í för með sér hækkun á landhæð urðunar. 

Bent sé á að þegar kærendur hafi sett fram kæru sína til úrskurðarnefndarinnar hinn 7. mars 2007 hafi verið rekið dómsmál vegna sama kæruefnis og fleiri atriða fyrir Héraðsdómi Suðurlands.  Úrskurður í því máli hafi ekki verið kveðinn upp fyrr en 4. apríl 2007.  Þar sem mál verði ekki rekið samhliða fyrir úrskurðarnefndinni og dómstólum hafi borið að vísa því frá nefndinni. 

Verði ekki fallist á kröfu sveitarfélagsins um frávísun sé á það bent að við samþykkt og auglýsingu hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið farið í einu og öllu eftir málsmeðferðarreglum, bæði skipulags- og byggingarlaga sem og stjórnsýslulaga.  Þannig hafi tillagan verið auglýst, aðilum gefinn kostur á að koma að athugasemdum, þeim svarað og hið samþykkta skipulag sent Skipulagsstofnun.  Fullt tillit hafi verið tekið til athugasemda Skipulagsstofnunar og deiliskipulaginu breytt í samræmi við þær. 

Hafnað sé með öllu þeirri málsástæðu kærenda að óheimilt hafi verið að gera breytingar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi vegna ákvæða 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Við skoðum ákvæðisins sé ljóst að þvingunarúrræði 2., 3. og 4. mgr. 56. gr. eigi fyrst og fremst við um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt IV. kafla laganna en ekki framkvæmdir sem falli undir III. kafla þeirra, eins og þær framkvæmdir sem hér um ræði, þ.e. framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi. 

Hvað varði þá málsástæðu kærenda að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út vegna framkvæmda samkvæmt hinu nýja skipulagi, og sé slíkt ótvírætt brot á 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, sé bent á að framkvæmdir við sorpurðun á umræddu svæði hafi hafist löngu fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga.  Ákvæði 27. gr. hafi verið nýmæli í lögum við gildistöku þeirra.  Því séu framkvæmdir við sorpurðun á umræddu svæði ekki framkvæmdaleyfisskyldar. 

Verði ekki fallist á að 56. gr. skipulags- og byggingarlaga eigi ekki við í málinu sé bent á að í 4. mgr. þeirrar greinar segi:  „Óheimilt er að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“ 

Þannig segi í ákvæðinu að aðeins sé óheimilt að breyta skipulagi ef framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag og hið ólöglega jarðrask hafi ekki verið afmáð eða starfsemi hætt.  Í framangreindu ákvæði sé aðeins gerður áskilnaður um að ýmist skuli „…jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“  Þannig sé í ákvæðinu ekki gerður áskilnaður um að jarðrask skuli afmáð í öllum tilvikum, heldur látið nægja að tiltaka að í ákveðnum tilvikum sé nægjanlegt að starfsemi skuli hætt.  Líkt og að framan greini hafi hinni umdeildu urðun verið hætt og leiði það til þess að 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi ekki getað staðið því í vegi að gert yrði nýtt deiliskipulag fyrir svæðið. 

Í ljósi þess að framangreint ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sé undantekningarregla verði að beita þröngri lögskýringu við túlkun ákvæðisins og verði það því aldrei túlkað á þann veg að allri starfsemi á svæðinu skuli hætt.  Telja verði nægjanlegt að aðeins þeirri starfsemi sem talin hafi verið í ósamræmi við skipulag hafi verið hætt, líkt og gert hafi verið. 

Sveitarfélagið hafni ennfremur röksemdum kærenda byggðum á 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga með vísan til þess að ákveðinn ómöguleiki sé fyrir hendi.  Líkt og að framan sé rakið hafi Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 31. mars 2004, gefið það álit sitt að lækkun þeirra urðunarreina sem taldar hafi verið brjóta í bága við gildandi deiliskipulag gæti stofnað heilsufari almennings í hættu og/eða valdið röskun lífríkis á svæðinu og nágrenni þess.  Þá hafi Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 15. mars 2004, látið í ljós það álit sitt, að teknu tilliti til eðlis starfsemi sorpstöðvarinnar, að óframkvæmanlegt væri að lækka urðunarreinar til samræmis við þær kröfur sem settar hafi verið fram.  Hafi Skipulagsstofnun litið svo á að um væri að ræða ómöguleika þar sem umrót sorphaugs leiddi til verulegs umhverfistjóns og mengunar.  Í þessu ljósi hafi Skipulags¬stofnun lagt til að gert yrði nýtt deiliskipulag fyrir sorpstöðina. 

Sveitarfélagið bendi á að hagsmunir þess og Sorpstöðvar Suðurlands, sem og alls samfélagsins á Suðurlandi, séu mun meiri af áframhaldandi starfsemi stöðvarinnar heldur en óljósir hagsmunir kærenda af stöðvun. 

Að endingu bendi sveitarfélagið á að kærendur vísi ítrekað í afgreiðslu Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar á erindum þeirra til framangreindra stofnana.  Rétt sé að taka fram að sveitarfélagið svari ekki fyrir gjörðir framangreindra stofnana.  Þau atriði sem lúti að afgreiðslu þeirra á erindum kærenda eigi að mati sveitarfélagsins ekki að falla undir úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og því máli þessu óviðkomandi.  Af þeim sökum sé í greinargerð að engu vikið að þessum röksemdum kærenda. 

Málsrök Sorpstöðvar Suðurlands:  Af hálfu Sorpstöðvar Suðurlands er bent á að með bréfi, dags. 28. maí 1993, hafi sveitarstjóri Ölfushrepps (nú Sveitarfélagið Ölfus) óskað eftir heimild frá skipulagsstjórn ríkisins til að auglýsa aðal- og deiliskipulag vegna svæðis fyrir sorpurðun í landi Kirkjuferjuhjáleigu í samræmi við 17. og 18. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964.  Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun hafi umræddu erindi fylgt gögn, m.a. þversnið af urðunarstað í mkv. 1:100 (sic), svonefnt snið A-A.  Einnig hafi fylgt með skipulaginu greinargerð þar sem fram hafi komið að innan lóðarmarka komi jarðvegsgarður um 1,5 m á hæð og ræktað svæði, ýmist 25 eða 50 m breitt, sem ætlað sé undir trjágróður og gras, en ekki hafi verið umfjöllun um hæð urðunarreina. 

Með auglýsingu nr. 192/1994 hafi verið staðfest skipulag fyrir sorpurðun á þessu svæði með heimild í þágildandi skipulagslögum nr. 19/1964.  Hafi skipulagið átt að vera í gildi til ársins 2013.  Hollustuvernd ríkisins hafi gefið út starfsleyfi fyrir sorpstöð á þessum stað 29. apríl 1994 og með bréfi, dags. 30. sama mánaðar, hafi sveitarfélagið veitt leyfi fyrir framkvæmdum á svæðinu fyrir sitt leyti með vísun til staðfests aðal- og deiliskipulags. 

Starfsleyfi stöðvarinnar hafi verið endurnýjað 30. júní 1998 og í tengslum við endurnýjun þess hafi umhverfisráðuneytið kveðið upp úrskurð 31. ágúst 1998, um að starfsleyfi Hollustuverndar ríkisins skyldi óbreytt standa að undanskildum tveimur ákvæðum varðandi aðstöðu til að skoða blandaðan framleiðsluúrgang og eftirlit með losun gass.  Í forsendum úrskurðarins hafi sagt orðrétt, þar sem fjallað hafi verið um athugasemd sem fram hafi komið um að hæð urðunarreina væri ekki í samræmi við skipulag svæðisins:  „Liður 3.  Ráðuneytið bendir á að athugasemdir hafa verið gerðar varðandi frágang og hæð urðunarreina.  Í deiliskipulagi er ekki fjallað um þennan þátt og ráðuneytið sér ekki ástæðu til að takmarka hæð reina.“ 

Nýtt starfsleyfi hafi verið gefið út af Hollustuvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun) hinn 4. desember 2002 með gildistíma í sex ár.  Leyfið sé í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs. 

Samskipti hafi átt sér stað milli sorpstöðvarinnar og sveitarfélagsins um skipulag svæðisins.  Með bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 31. mars 2004, hafi niðurstaðan verið sú að lækkun urðunarreina myndi brjóta í bága við ákvæði starfsleyfis.  Skipulagsstofnun hafi lagt til að unnið yrði nýtt deiliskipulag fyrir sorpstöðina með bréfi, dags. 15. mars 2004. 

Samkomulag hafi verið gert milli sorpstöðvarinnar og sveitarfélagsins hinn 3. nóvember 2004 um gerð nýs deiliskipulags fyrir sorpurðunarsvæðið í samræmi við tillögu Skipulagsstofnunar.  Deiliskipulagið hafi verið afgreitt, eftir lagfæringar á gögnum, á fundi bæjarstjórnar 28. desember 2006 og samkvæmt því sé svæði til urðunar nú um 11,6 ha að stærð en hafi áður verið 19 ha.  Við samþykkt breytingarinnar hafi fallið úr gildi áður samþykkt deiliskipulag fyrir sama svæði frá 28. apríl 1994. 

Af hálfu sorpstöðvarinnar sé tekið undir kröfu sveitarstjórnar um frávísun málsins og vísað til sömu raka þar að lútandi. 

Verði ekki fallist á frávísun sé þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað.  Bent sé á að sveitarfélagið hafi veitt sorpstöðinni framkvæmdaleyfi í skilningi 27. gr. skipulags- og byggingarlaga hinn 30. apríl 1994.  Þar hafi verið tekið fram að sækja þyrfti sérstaklega um leyfi til húsbygginga.  Hafi því aldrei verið veitt byggingarleyfi vegna urðunarreinanna en það skipti verulegu máli að gera greinarmun á þessu þegar komi að beitingu þvingunarúrræða skipulags- og byggingarlaga. 

Sorpstöðin hafi fengið framkvæmdaleyfi 30. apríl 1994 en um slík leyfi sé nú fjallað í III. kafla skipulags- og byggingarlaga, einkum 27. gr.  Í IV. kafla laganna séu ákvæði um byggingarleyfi, sbr. 36. gr.  Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. skuli mannvirki, sem séu undanþegin byggingarleyfi, t.d. þær framkvæmdir sem veitt sé framkvæmdaleyfi fyrir skv. 27. gr., byggð í samræmi við III. kafla laganna.  Í VI. kafla séu ákvæði um þvingunarúrræði úttektar- og eftirlitsaðila, ábyrgð aðila og viðurlög við brotum á lögunum og reglugerðum sem settar séu samkvæmt þeim. 

Þegar ákvæði 56. gr. laga nr. 73/1997 séu skoðuð sé ljóst að þvingunarúrræði 2., 3. og 4. mgr. 56. gr. eigi fyrst og fremst við um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. IV. kafla laganna en ekki framkvæmdir sem falli undir III. kafla þeirra, eins og þær framkvæmdir sem hér um ræði, þ.e. framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi.  Þá hafi framkvæmdir á svæðinu, hvað sem öðru líði, verið í samræmi við skipulagið frá 1993, sem nú sé fallið úr gildi, og því ekkert tilefni til beitingar úrræðis 4. mgr. 56. gr.  Einnig liggi fyrir álit Umhverfisstofnunar um að hugmyndir kærenda og vangaveltur séu einfaldlega óframkvæmanlegar.  Fari svo ólíklega að talið verði að fyrri urðun hafi verið andstæð þágildandi skipulagi liggi fyrir, hvort heldur sem er, að þeirri starfsemi hafi verið hætt. 

Vegna umfjöllunar kærenda um framkvæmdaleyfi sé áréttað að sorpstöðin hafi fengið framkvæmdaleyfi 30. apríl 1994, sbr. bréf byggingarfulltrúa Ölfushrepps til Sorpstöðvarinnar. 

Af hálfu kærenda sé því haldið fram að samkvæmt eldra deiliskipulagi frá 1993 hafi hæð urðunarreina verið takmörkuð við „5 metra hæð yfir landkóta“.  Þetta sé rangt. 

Fyrir liggi að hvorki í greinargerð sem fylgt hafi hinu eldra deiliskipulagi svæðisins, né á deiliskipulagsuppdrættinum sjálfum frá 1993 hafi verið að finna sérstaka umfjöllun um hæð urðunarreina eða takmarkanir þar að lútandi.  Sniðmynd A-A, sem unnin hafi verið af Verkfræðistofu Suðurlands, hafi ekki verið ætlað að setja sérstakar takmarkanir þar að lútandi heldur einungis sett fram til viðmiðunar, enda hafi umfjöllun um hæð urðunarreina ekki verið  tekin upp í greinargerðinni eða deiliskipulagsuppdrættinum, sem hefði þurft að gera ef ætlunin hefði verið að binda hendur stjórnvalda og notendur eigna á svæðinu við þetta atriði. 

Minnt sé á að deiliskipulag sé stjórnvaldsákvörðun sem birta skuli, annars vegar með skriflegri greinargerð og hins vegar á uppdrætti, sbr. 23. gr. laga nr. 73/1997 og 11. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964, og eldri skipulagsreglugerð nr. 318/1985.  Þess þurfi að gæta að samræmi sé í efni þessa tveggja skjala.  Í greindu ákvæði laga nr. 73/1997 sé tiltekið hvaða atriði skuli koma fram í greinargerðinni en sambærileg ákvæði hafi verið í eldri lögum.  Eins og tekið sé fram í lagaákvæðinu „…atriði sem skylt er að hlíta samkvæmt skipulaginu“ þurfi þau atriði sem skipulag eigi að vera bindandi um fyrir stjórnvöld, eigendur og notendur fasteigna að koma fram í greinargerð og uppdrætti að því marki sem efni skipulags sé lýst þar.  Það hafi ekki verið gert í þessu tilviki varðandi hæð urðunarreina eða einstakar framkvæmdir bundnar ákveðnum skilyrðum varðandi tíma. 

Framangreint sé líka í samræmi við úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 31. ágúst 1998, en eins og fyrr greini hafi ráðuneytið ekki talið ástæðu til að takmarka hæð reina í starfsleyfi til stöðvarinnar þar sem í deiliskipulagi svæðisins væri ekki fjallað um þennan þátt.  Þrátt fyrir að ráðuneytið hafi verið að fjalla um útgáfu starfsleyfis til handa sorpstöðinni hafi skipulag svæðisins engu að síður komið til skoðunar vegna athugasemda sem þá hafi komið fram við hæð urðunarreina.  Minnt sé á að umhverfisráðuneytið fari með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála skv. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 19/1964 og 3. gr. laga nr. 54/1978, sbr. 14. og 15. gr. laga nr. 47/1990, þar sem tekið sé fram að umhverfisráðuneytið fari með stjórn þessara mála.  Það hafi því þegar verið kveðinn upp úrskurður um þetta atriði af hálfu æðsta stjórnvalds skipulags- og byggingarmála.  Þeim úrskurði hafi aldrei verið hnekkt.  Það skipti hins vegar engu máli í dag, enda nýtt deiliskipulag tekið gildi. 

Þá hafi komið fram hjá höfundi deiliskipulagsins frá 1993 að sniðmyndin hafi einungis átt að vera leiðbeinandi og hafi ekki átt að fela í sér skilyrði eða ná yfir allt svæðið.  Það hafi einungis verið sett fram til skýringar þar sem ekki hafi verið unnt, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, að láta það hafa víðtækara gildi.  Það liggi því fyrir að sniðmynd A-A hafi ekki getað talist vera hluti af bindandi ákvæðum deiliskipulags á svæðinu þar sem ekki hafi verið fjallað um það með skýrum hætti í skipulagsskilmálum, hvorki í greinargerð né á deiliskipulagsuppdrætti, heldur eingöngu minnst á það sem snið á urðunarsvæði samkvæmt sniðmerkingu á korti.  Sniðið hafi því ekki getað falið í sér slíkar takmarkanir á hæð urðunarreina sem afstaða kærenda virðist byggja á. 

Þá sé ljóst að enda þótt litið yrði svo á að sniðmyndin væri hluti af deiliskipulaginu frá 1993 væri ekki unnt að heimfæra sniðmynd A-A á allt urðunarsvæðið þar sem sniðinu hafi verið markaður einn ákveðinn staður og hann einkenndur (staðsettur) á grunnkorti.  Sniðmynd A-A hafi því einungis gilt fyrir þann eina stað.  Það verði að teljast harla óvenjulegt ef styðjast ætti við einungis eitt kennisnið í svo umfangsmiklu máli.  Gildi hins vegar sniðmynd A-A fyrir þann hluta af svæðinu þar sem það hafi verið tekið, og ef það ætti að gilda fyrir heildarsvæðið, væri fyllingarhæð um 18,2 m á öllu svæðinu samkvæmt því.  Þegar fyllingarhæðir í sniðmyndinni hafi verið heimfærðar upp á mældar yfirborðshæðir urðunarreina, áður en nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi, hafi fyllingarhæðir verið í lagi. 

Starfsemi sorpstöðvarinnar lúti opinberu eftirliti sem taki mið af starfsleyfi stöðvarinnar.  Hinn 4. desember 2002 hafi Umhverfisstofnun gefið út starfsleyfi til sex ára fyrir urðunarstað stöðvarinnar og hafi því endurnýjað eldra starfsleyfi frá 22. september 1998.  Einn kærenda, K, hafi kært útgáfu starfsleyfisins en með úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 26. júní 2003 hafi kröfum hennar verið hafnað og ákvörðun Umhverfisstofnunar staðfest óbreytt. 

Starfsemi og staðsetning urðunarsvæðisins í Kirkjuferjuhjáleigu hafi verið samþykkt á sínum tíma af hálfu þeirra sérfróðu aðila sem að málinu hafi komið og hafi sorpstöðin ætíð reynt að haga starfsemi sinni í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í starfsleyfi stöðvarinnar, sem og opinberum fyrirmælum.  Starfsemin brjóti ekki bága við gildandi aðal- og deiliskipulag og hafi stöðin auk þess öll tilskilin leyfi.  Athugasemdum varðandi starfsemi og rekstur stöðvarinnar hafi auk þess verið hafnað af hálfu stjórnvalda.  Að mati sorpstöðvarinnar séu umkvörtunaratriði kærenda ekki á rökum reist. 

Andsvör kærenda við greinargerðum Sveitarfélagsins Ölfuss og Sorpstöð Suðurlands:  Kærendur telja fráleitt að halda því fram að þau eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun enda séu þau eigendur aðliggjandi jarða.  Kærendur hafi þurft að sæta því að sorphaugarnir byrgi fjallasýn þeirra, þaðan sé lyktarmengun, sjónmengun auk þess sem rusl fjúki á jarðir þeirra.  Þá fylgi sorphaugunum fjöldi vargfugla sem hætta sé á að smiti búfénað kærenda, hætta sé á mengun grunnvatns, Ölfusár og lands og þar sé enn urðað riðufé, sbr. fundargerð sorpstöðvarinnar frá 5. desember 2007. 

Vegna fullyrðinga þess efnis að Auðsholtshjáleiga sé í 1,5 km fjarlægð frá hinu deiliskipulagða svæði, sé rétt að taka fram, að aðeins séu 300-400 m á milli sorpstöðvarinnar og lands Auðsholtshjáleigu.  Kort sem sorpstöðin og sveitarfélagið hafi lagt fram tilgreini augljóslega ekki fjarlægð milli landamerkja lands sorpstöðvarinnar og landa kærenda.  Fullyrða megi að verð fyrir jarðir kærenda hafi fallið vegna nálægðar við stöðina.  Það sé því fjarstæða að þau hafi engra lögmætra hagsmuna að gæta vegna breytinga á deiliskipulaginu sem hafi í för með sér hærri urðunarreinar og meira sorpmagn. 

Ekki verði heldur fallist á að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni vegna dómsmáls þess er höfðað hafi verið vegna sorpstöðvarinnar enda hafi því máli verið vísað frá dómi.

Kærendur mótmæla þeirri túlkun sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar að ákvæði 56. gr. laga nr. 73/1997 eigi fyrst og fremst við um framkvæmdir samkvæmt IV. kafla laganna en ekki framkvæmdir sem falli undir III. kafla laganna.  Vísi kærendur m.a. til þess að í 1. mgr. 56. gr. laganna sé vísað til 27. gr. laganna þar sem fjallað sé um framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi.  Þá sé 4. mgr. 56. gr. alls ekki einskorðuð við byggingaleyfisskyldar framkvæmdir, sbr. orðalag greinarinnar. 

Þá telji kærendur fráleita þá málsástæðu að ekki sé tilefni til beitingar úrræðis samkvæmt 4. mgr. 56. gr. þar sem framkvæmdum samkvæmt eldra skipulagi hafi verið hætt.  Það sem máli skipti sé að ennþá sé verið að urða sorp í andstöðu við gamla deiliskipulagið, í „ólögmætar hæðir“.  Með nýju skipulagi reyni sveitarfélagið að gera það ólögmæta ástand lögmætt sem sé í andstöðu við ákvæði 4. mgr. 56. gr. laganna.  Starfsemi hafi alls ekki verið hætt. 

Sveitarfélagið og sorpstöðin geri mikið úr því að ekki sé hægt að lækka urðunarreinar og vísa þar til úrskurðar Umhverfisstofnunar og tillögu Skipulagsstofnunar um nýtt deiliskipulag vegna þessa.  Sé látið að því liggja að nauðsyn hafi verið að breyta skipulaginu vegna þessa sem sé fráleitt.  Auðvitað hafi verið hægt, jafnvel eftir að athugasemdir hafi komið fram, að urða sorp í hæðir samkvæmt gamla skipulaginu.  Jafnvel þótt rétt væri að ekki væri hægt að lækka urðunarreinar hafi engin ástæða verið til að halda áfram að urða í hæstu hæðir.  Sé þetta sérstaklega ámælisvert ef um óafturkræfar framkvæmdir sé að ræða eins og haldið sé fram í málatilbúnaði sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar.  Enn sé því gengið á rétt kærenda.

Mótmælt sé þeirri málsástæðu að hagsmunir sorpstöðvarinnar og sveitarfélagsins séu ríkari en „óljósir“ hagsmunir kærenda eins og það sé orðað í greinargerðunum.  Lögin séu skýr.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 18. september 2008. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss um deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi en með samþykktinni féll úr gildi eldra deiliskipulag svæðisins. 

Af hálfu sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar er krafist frávísunar máls þessa og því haldið fram að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Á þetta verður ekki fallist.  Meðal kærenda eru eigendur jarðarinnar Strýtu sem liggur að Kirkjuferjuhjáleigu ásamt því að aðrir kærendur eru eigendur aðliggjandi jarða.  Miðað við aðstæður á umræddu svæði verður að fallast á að grenndaráhrif frá starfsemi sorpstöðvarinnar aukast nokkuð vegna þeirra breytinga sem hið kærða deiliskipulag felur í sér og er kærendum því játuð kæruaðild að máli þessu. 

Þá er því haldið fram að vísa beri málinu frá sökum þess að rekið hafi verið dómsmál fyrir Héraðsdómi Suðurlands vegna sama sakarefnis á sama tíma og kærendur settu fram sína kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Dómsmálinu var hins vegar vísað frá áður en úrskurðarnefndin tók málið til meðferðar og hefur engin efnisleg afstaða verið tekin til málsins af hálfu dómstóla.  Verður því ekki fallist á frávísun málsins af þeirri ástæðu.

Eins og að framan er rakið var upphaflegt deiliskipulag fyrir sorpurðunarsvæðið staðfest á árinu 1993.  Af málsgögnum verður ráðið að nokkur ágreiningur hafi staðið um rekstur sorpstöðvarinnar, er laut að framkvæmd við urðun sorps í sérstakar urðunarreinar, sbr. bréf skipulags- og byggingarfulltrúa til sorpstöðvarinnar, dags. 20. nóvember 2001.  Sagði þar m.a. að hæð urðunarreina á svæðinu bryti í bága við deiliskipulag svæðisins og þess krafist að framkvæmt yrði eftir staðfestu deiliskipulagi ella yrði beitt ákvæðum 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í kjölfar þessa samþykkti bæjarráð að beita sorpstöðina dagsektum á grundvelli laganna.  Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar en kæran dregin til baka með bréfi, dags. 29. ágúst 2003. 

Hin kærða ákvörðun um nýtt deiliskipulag sorpurðunarsvæðisins virðist grundvallast á tillögu Skipulagsstofnunar frá 15. mars 2004 þess efnis að unnið verði nýtt deiliskipulag svæðisins.  Segir m.a. í nefndu bréfi að Skipulagsstofnun telji ljóst með tilliti til starfsemi sorpstöðvarinnar að óframkvæmanlegt sé að lækka hæð urðunarreina til samræmis við gildandi deiliskipulag.  Megi líta svo á að um sé að ræða ómöguleika þar sem umrót sorphaugs leiði til verulegs umhverfistjóns og mengunar.  Leggi Skipulagsstofnun til að gert verði nýtt deiliskipulag fyrir sorpstöðina.  Er framangreint ítrekað í síðari bréfum stofnunarinnar varðandi sama efni.  Þá kemur og fram í bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 31. mars 2004, að samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi stöðvarinnar sé óheimilt að hrófla við úrgangi sem þegar hafi verið urðaður. 

Samkvæmt framansögðu töldu bæði bæjarstjórn og Skipulagsstofnun að framkvæmdir við urðun sorps á sorpurðunarsvæði stöðvarinnar væru í andstöðu við eldra deiliskipulag svæðisins.  Verður ekki annað ráðið en að sú hafi verið raunin, enda höfðu ekki verið virt ákvæði skipulagsins um hámarkshæð urðunarreina, en á deiliskipulagsuppdrætti svæðisins er vísað í snið A-A, þar sem gerð er grein fyrir leyfilegri hæð reinanna en líta verður svo á að umrædd sneiðmynd hafi verið hluti eldra deiliskipulags.  Verður ekki heldur fallist á að úrskurðarnefndin sé bundin af sjónarmiðum sem fram koma í úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 31. ágúst 1998 um starfsleyfi sorpstöðvarinnar enda var þar ekki kveðið á um gildi umrædds deiliskipulags.

Samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga er óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Verður að telja að ákvæðið taki til allra skipulagsskyldra og leyfisskyldra framkvæmda.  Var bæjarstjórn því óheimilt að samþykkja hina kærðu ákvörðun nema að því undangengnu að framkvæmdir þær sem farið höfðu í bága við eldra skipulag yrðu fjarlægðar, jarðrask afmáð og starfsemi hætt, enda verður ekki fallist á að meintur ómöguleiki eða skilmálar í starfsleyfi hafi geta réttlætt það að ákvæðinu væri vikið til hliðar.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 21. desember 2006, um deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu, er felld úr gildi. 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________           _______________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

145/2007 Útey

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 30. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 145/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. október 2007 um að hafna kröfu um niðurfellingu gjalds vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi á landspildu úr landi Úteyjar í Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. október 2007, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir Helgi V. Jónsson hrl., fyrir hönd T, eiganda landspildu úr landi Úteyjar í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. október 2007 að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu gjalds vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi á fyrrgreindri landspildu.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 20. apríl 2007, krafði byggingarfulltrúi Bláskógabyggðar kæranda um greiðslu gjalds að fjárhæð kr. 7.300 fyrir stöðuleyfi vegna hjólhýsis er stendur á landspildu kæranda í landi Úteyjar.  Kærandi skaut ákvörðuninni um gjaldtökuna til sveitarstjórnar Bláskógabyggðar með bréfi, dags. 7. ágúst 2007, og krafðist ógildingar hennar þar sem gjaldtakan ætti ekki lagastoð.  Að fenginni umsögn byggingarfulltrúa ákvað byggðarráð sveitarfélagsins á fundi hinn 25. september 2007 að halda gjaldtökunni til streitu með vísan til fyrrgreindrar umsagnar.  Sveitarstjórn staðfesti þá afstöðu á fundi sínum hinn 3. október sama ár.  Hefur kærandi skotið þeirri afgreiðslu sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Hinn 31. janúar 2008 kvað úrskurðarnefndin upp frávísunarúrskurð í málinu þar sem byggt var á því að gjaldtaka opinberra stofnana, svo sem vegna leyfisveitinga, félli ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar.  Í kjölfar úrskurðarins kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis vegna umræddrar gjaldtöku Bláskógabyggðar og sendi umboðsmaður úrskurðarnefndinni bréf af því tilefni þar sem þess var m.a. farið á leit að úrskurðarnefndin skýrði lagagrundvöll umdeildrar gjaldtöku.  Að virtum þeim sjónarmiðum sem fram koma í nefndu bréfi umboðsmanns ákvað úrskurðarnefndin að taka kærumál þetta til efnismeðferðar.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að hann hafi um árabil verið krafinn um greiðslu gjalds fyrir stöðuleyfi vegna hjólhýsis í hans eigu sem geymt sé á eignarlandi hans.  Byggir kærandi málskot sitt á því að túlkun sveitarfélagsins á 27. og 29. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem umdeild gjaldtaka sé talin styðjast við, eigi ekki stoð í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Þá uppfylli gjaldtakan ekki skilyrði 27. gr. byggingarreglugerðar þess efnis að gjöld samkvæmt greininni megi ekki fara fram úr kostnaði sveitafélagsins vegna leyfisveitinga og skuli byggjast á gjaldskrá sem sveitarstjórn setji og birti í B-deild Stjórnartíðinda, en svo hafi ekki verið gert þegar stöðuleyfisgjaldið hafi verið lagt á kæranda.  Ekki sé í skipulags- og byggingarlögum gert ráð fyrir að leyfi þurfi fyrir staðsetningu hjólhýsa eða gjaldtöku vegna þeirra en í 2. mgr. 37. gr. laganna sé aðeins tekið fram að í byggingarreglugerð skuli setja ákvæði um staðsetningu þeirra. 

Gangi gr. 71.1 í byggingarreglugerð um leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa gegn fyrrgreindu ákvæði 2. mgr. 37. gr.  Sé gjaldtakan einnig í andstöðu við það ákvæði og eigi ekki stoð í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kröfur sveitarfélagsins um umrædda leyfisskyldu og gjaldtöku brjóti jafnframt gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og 40. gr., 72. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.  Loks sé á það bent að 71. gr. byggingarreglugerðar kveði á um að stöðuleyfi þurfi m.a. fyrir hjólhýsi ef það standi til notkunar á sama stað lengur en einn mánuð.  Hjólhýsi kæranda standi á landi hans til geymslu en ekki til notkunar.  Önnur sveitarfélög láti það óáreitt að eigendur hjólhýsa geymi þau á lóðum sínum án þess að leyfi og gjaldtaka komi til.

Málsrök Bláskógabyggðar:  Í gögnum málsins kemur fram að Bláskógabyggð styður leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa við 71. gr. byggingarreglugerðar þar sem segi að óheimilt sé að láta hjólhýsi standa til notkunar á sama stað, utan tjaldstæða og skipulagðra hjólhýsasvæða, lengur en einn mánuð án stöðuleyfis byggingarnefndar.  Gjaldtaka vegna stöðuleyfis eigi stoð í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga og 27. gr. byggingarreglugerðar.  Gjaldið sé kr. 7.300 sem fullyrða megi að sé undir raunkostnaði sveitarfélags við leyfisveitingu og eftirlit.  Benda megi á að auk eftirlits og umsýslu með hjólhýsunum hafi eigendur þeirra aðgang að sorpgámum og brunavörnum á vegum sveitarfélagsins.

Vegna misskilnings hafi gjaldskrá er umdeild gjaldtaka styðjist við ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda en bætt hafi verið úr því með auglýsingu gjaldskrár nr. 849/2007 sem birst hafi í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. september sama ár.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði sveitarstjórn Bláskógabyggðar kröfu kæranda um niðurfellingu gjalds að fjárhæð kr. 7.300, sem innheimt var með bréfi byggingarfulltrúa, dags 20. apríl 2007, vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi kæranda.  Snýst ágreiningur í máli þessu um hvort gjaldtakan eigi sér viðhlítandi lagastoð og þá hvort efnisskilyrði séu fyrir gjaldtökunni.

Gjaldtaka fyrir þjónustu opinberra stofnana, svo sem vegna leyfisveitinga, byggir á almennum stjórnvaldsfyrirmælum sem eftir atvikum eru sett fram í samþykktum, reglugerðum og gjaldskrám.

Gjaldskrá nr. 849/2007 fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu, er starfar m.a. á vegum sveitarfélagsins Bláskógabyggðar, tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. september 2007, eða áður en hin kærða ákvörðun var tekin, en eftir að kærandi var krafinn um greiðslu gjaldsins með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 20. apríl 2007.

Samkvæmt 2. gr. gjaldskrárinnar, sem tekur til afgreiðslu- og þjónustugjalda, skal greiða kr. 7.300 fyrir stöðuleyfi.  Í 3. gr. gjaldskrárinnar kemur síðan fram að hún sé sett með heimild í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Hið umdeilda stöðuleyfisgjald í máli þessu mun byggja á framangreindri gjaldskrá.

Í 2. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 segir að sveitarfélög hafi m.a. tekjur af leyfisgjöldum eftir því sem lög og reglugerðir kveði á um.  Sveitarstjórnum er heimilað í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga að innheimta gjöld fyrir framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. og byggingarleyfi skv. 43. gr. laganna og auk þess fyrir útmælingu, eftirlit, úttektir yfirferð hönnunargagna og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té.  Er nánar kveðið á um byggingarleyfisgjöld í 27. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og um framkvæmdaleyfisgjald í gr. 9.5 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og eru þessi ákvæði að efni til í samræmi við fyrrgreinda 53. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði skulu gjöldin vera í samræmi við kostnað af viðkomandi þjónustu og byggjast á gjaldskrá sem sveitarstjórn setur og birt er í B-deild Stjórnartíðinda.

Í 71. gr. byggingarreglugerðar er fjallað um stöðuleyfi án þess að gjaldheimildar vegna slíks leyfis sé getið.  Að öðru leyti er ekki fjallað um stöðuleyfi í nefndri byggingarreglugerð eða skipulags- og byggingarlögum nema hvað hugtakið er skilgreint í gr. 4.41 í byggingarreglugerð.

Af orðalagi tilvitnaðra ákvæða skipulags- og byggingarlaga og reglugerðarákvæða sem sett eru samkvæmt þeim lögum verður ekki ráðið að heimilt sé að taka sérstakt gjald fyrir veitingu stöðuleyfis.  Af þeim sökum og að virtu því sjónarmiði að gjaldtaka opinberra aðila skuli hafa ótvíræða stoð í lögum eða reglum, settum samkvæmt þeim, verður að telja hina umdeildu gjaldtöku skorta lagastoð. 

Að öllu framangreindu virtu voru ekki viðhlítandi rök fyrir hinni kærðu ákvörðun um synjun á niðurfellingu margnefnds stöðuleyfisgjalds og verður hún því felld úr gildi.     

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. október 2007, um að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu gjalds vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi á landspildu í landi Úteyjar í Bláskógabyggð, er felld úr gildi.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________         ______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

  

   

 

30/2007 Hveramýri

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 30. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 30/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 7. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í Hveramýri í landi Garðs í Hrunamannahreppi.  Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa hreppsins frá 14. mars 2006 um að veita stöðuleyfi fyrir tveimur sumarhúsum í Hveramýri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. apríl 2007, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, kæra K og B, Hvammi, Hrunamannahreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar frá 7. mars 2007 að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í Hveramýri í landi Garðs í Hrunamannahreppi. 

Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa hreppsins frá 14. mars 2006 um að veita stöðuleyfi fyrir tveimur sumarhúsum í Hveramýri.  Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps hinn 14. febrúar 2006 var samþykkt að auglýsa breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins er fól m.a. í sér að landnotkun á um 6 ha svæði, Hveramýri, yrði breytt úr landbúnaðarsvæði í frístundabyggð.  Aðkoma að umræddu svæði frá þjóðvegi hafði verið um veg sem liggur um land Hvamms. 

Tillagan var auglýst og bárust athugasemdir m.a. frá kærendum máls þessa.  Bentu þeir á að landspildu þessari hefði verið skipt úr jörðinni Hvammi á fimmta áratug síðustu aldar.  Skýrt hefði verið tekið fram þegar landið hefði verið tekið á leigu árið 1946 að það væri leigt til „…garðyrkju og venjulegs búreksturs og [..] leiguliða heimilt að reisa á því gróðurhús, fénaðarhús og önnur mannvirki er að starfi hans lýtur“.  Í tengslum við starfsemi garðyrkjustöðvarinnar hafi leigutaka verið heimil umferð eftir vegi um land Hvamms að landi sínu í Hveramýri.  Teldu kærendur sér ekki skylt að taka við þeirri umferðaraukningu sem yrði við breytta nýtingu landsins.  Sveitarstjórn tók tillöguna fyrir á fundi sínum hinn 27. júní 2006 og samþykkti eftirfarandi umsögn um fyrrgreinda athugasemd:  „Í stað þess að fella út svæði fyrir frístundabyggð á landspildunni Hveramýri mun sveitarstjórn beina því til eigenda svæðisins að leita lausna á aðkomu að svæðinu, annað hvort með samkomulagi við eigendur Hvamms I eða með nýjum vegi á öðrum stað og ekki verða gefin út byggingarleyfi fyrir frístundahús fyrr en viðeigandi lausn hefur fundist sem eigendur Hvamms I og landspildunnar Hveramýri geta sætt sig við.  Svæðið verður því skilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð í aðalskipulagi.“  Var aðalskipulagsbreyting þessi endanlega samþykkt í sveitarstjórn hinn 16. ágúst 2006 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. október sama ár. 

Hinn 13. september 2006 var samþykkt á fundi skipulagsnefndar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í Hveramýri og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 4. október s.á. 

Í deiliskipulagstillögunni fólst að á um 6 ha svæði um 500 m austan við bæinn Hvamm yrði gert ráð fyrir sjö lóðum á bilinu 2.990-7.393 fermetrar að stærð þar sem heimilt yrði að reisa allt að 180 fermetra frístundahús, allt að tvær hæðir, með 6 m mænishæð.  Var samkvæmt tillögunni gert ráð fyrir að aðkoma að svæðinu yrði um veg í landi kærenda.  Komu kærendur á framfæri athugasemdum við auglýsta tillögu þar sem fyrri afstaða þeirra til aðkomu að svæðinu var m.a. ítrekuð. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 8. febrúar 2007 var tillagan lögð fram að nýju ásamt minnisblaði lögmanna um innkomna athugasemd og var tillagan samþykkt.  Jafnframt var skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdinni í samræmi við framlagt minnisblað.  Staðfesti sveitarstjórn Hrunamannahrepps greinda afgreiðslu á fundi sínum hinn 7. mars 2007 og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. maí 2007. 

Hinn 14. mars 2006 mun byggingarfulltrúi Hrunamannahrepps hafa veitt stöðuleyfi fyrir sumarhúsi að Hveramýri. 

Hafa kærendur skotið greindri deiliskipulagsákvörðun, sem og ákvörðun um stöðuleyfi, til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er bent á að þeir hafi mótmælt tillögu að deiliskipulagi en þeir hafi ekkert frétt af meðferð málsins fyrr en með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 20. mars 2007.  Af því bréfi megi helst ráða að tillaga að deiliskipulagi hafi verið samþykkt.  Það segi þó hvergi berum orðum og ekki sé að finna efnislegan rökstuðning í bréfinu en staðhæft að farið hafi verið eftir skipulags- og byggingarlögum við afgreiðslu málsins.  Þá megi af því ráða að umferðarréttur eigenda Hveramýrar í gegnum land Hvamms sé óháður notkun, þ.e.a.s. að skilyrði aðalskipulagsins skipti engu máli.  Samþykkt deiliskipulags í þessa veru sé andstæð ákvæði 4.11.2 í skipulagsreglugerð og valdi eigendum Hvamms verulegu ónæði. 

Veitt hafi verið tímabundið stöðuleyfi fyrir tveimur sumarhúsum í Hveramýri en samkvæmt gr. 4.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sé ekki gert ráð fyrir því að veitt sé stöðuleyfi fyrir sumarhúsi eða öðrum mannvirkjum sem standa eigi áfram eftir að stöðuleyfistímabili ljúki.  Stöðuleyfið hafi hvorki verið samþykkt af byggingarnefnd né hreppsnefnd og þá sé liðið meira en eitt ár frá því að leyfið hafi verið veitt og það því ekki lengur í gildi.  Hafi hið svonefnda stöðuleyfi enga lagaheimild. 

Málsrök Hrunamannahrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að áður en tillaga um deiliskipulag hafi verið lögð fyrir í skipulagsnefnd hafi eigandi Hveramýrar lagt fram samning er sýnt hafi fram á að eigendum landsins væri heimil aðkoma að því, óháð nýtingu þess.  Þessi gögn hafi ekki legið fyrir þegar breyting á aðalskipulagi hafi verið samþykkt í sveitarstjórn.  Í ljósi þessa hafi verið ákveðið að halda áfram með málið þó svo að ekki lægi fyrir samkomulag eigenda landsins og Hvamms um lausn á því.  Ekki verði séð hvernig samþykkt deiliskipulagsins sé andstæð ákvæðum 4.11.2 í skipulagsreglugerð enda komi ekki efnislega fram í kæru með hvaða hætti svo sé og vísar sveitarfélagið til fyrrgreinda gagna sem landeigandi svæðisins hafi lagt fram. 

Óskað hafi verið eftir stöðuleyfi fyrir sumarhúsi á Hveramýri meðan beðið væri eftir fullnaðarafgreiðslu á deiliskipulagi svæðisins og hafi byggingarfulltrúi með bréfi, dags. 14. mars 2006, heimilað flutning á sumarhúsi frá Selfossi og veitt því stöðuleyfi meðan gengið væri frá skipulagsmálum.  Hafi leyfið ekki verið lagt fyrir byggingarnefnd enda hafi byggingarfulltrúi heimild til að afgreiða slík mál án hennar samþykkis.

Málsrök eigenda Hverarmýrar:  Eigendum landspildunnar Hverarmýrar, sem hið umdeilda deiliskipulag tekur til, var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í kærumáli þessu.  Mótmæla þeir kröfum kærenda í málinu.  Hvað stöðuleyfi varðar taka þeir fram að leyfi hafi verið veitt fyrir einu húsi hinn 14. mars 2006 og hafi það verið flutt á staðinn í framhaldi af því.  Húsið hafi verið þarna á bráðabirgðaundirstöðum og ekki fest á nokkurn hátt.  Hafi ekkert verið unnið við húsið fyrr en eftir að deiliskipulagið hafi tekið gildi og teikningar verið samþykktar.

Varðandi umferðarrétt að landspildunni vísa eigendur til fyrirliggjandi samnings frá 13. ágúst 1983 og minnisblaðs frá Lögmönnum Suðurlandi þar sem fram komi að réttur til aðkomu að spildunni sé talinn óháður notkun hennar.

———————-

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Kærendur styðja ógildingarköfu sína á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun þeim rökum að hún fari í bága við gildandi aðalskipulag enda sé hún andstæð gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Auk þess verði grenndaráhrif gagnvart þeim vegna umferðar að hinu skipulagða sumarhúsasvæði óásættanleg. 

Í gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir að í svæðisskipulagi og á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum svæðum fyrir frístundabyggð utan þéttbýlisstaða.  Þá segir m.a. í ákvæðinu að gera skuli grein fyrir tengslum slíkra svæða við samgöngur, þjónustu og opin svæði.  Jafnframt segir m.a. í gr. 4.16.2 sömu reglugerðar að á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir þjóðvegum og almennum vegum.  Einnig skuli gera grein fyrir gömlum þjóðbrautum og göngu-, hjólreiða- eða reiðstígum, þegar til staðar eða fyrirhuguðum. 

Frístundasvæði það sem hið kærða deiliskipulag tekur til var fært inn á sveitarfélagsuppdrátt aðalskipulags með breytingu sem samþykkt var í sveitarstjórn Hrunamannahrepps 16. ágúst 2006.  Ekki er þar gerð grein fyrir tengingu svæðisins við samgöngur og ekki er heldur á uppdrætti aðalskipulags sýndur vegur sá sem fyrir var að landi Hveramýrar og ætlunin mun hafa verið að nýta fyrir umferð að og frá deiliskipulagssvæðinu.  Var þó full þörf á að gera grein fyrir vegtengingu við svæðið þar sem fyrir lá að ágreiningur var með hagsmunaaðilum um þetta atriði.  Verður að telja, eins og hér stendur á, að hið umdeilda deiliskipulag eigi sér ekki fullnægjandi stoð í aðalskipulagi hvað varðar aðkomu að svæðinu og fullnægi því ekki skilyrði 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem kveðið er á um að deiliskipulag skuli gert á grundvelli aðalskipulags. 

Á uppdrætti hins kærða deilskipulags sýnist ekki vera gerð með skýrum hætti grein fyrir afmörkun skipulagssvæðis og sætti sá ágalli aðfinnslum af hálfu Skipulagsstofnunar við afgreiðslu hennar á deiliskipulagstillögunni.  Af samanburði við aðalskipulagsuppdrátt og af skýringum á deiliskipulagsuppdrætti verður þó ráðið að deiliskipulagið taki til svæðis sem sýnt er í stækkaðri mynd í mælikvarða 1:1400 á uppdrætti deiliskipulagsins þar sem jafnframt er vísað til hnitaskrár um afmörkun svæðisins.  Í skilmálum sem fram koma á deiliskipulagsuppdrætti kemur fram að aðkoma að lóðum sé frá þjóðvegi nr. 30.  Á uppdrættinum er sýndur vegur sem liggur að deiliskipulagssvæðinu en hann er allur utan þess og sama á að hluta til við um vegtengingar við einstakar lóðir, sé við það miðað að punktar í tilgreindri hnitaská séu ákvarðandi um afmörkun svæðisins.  Telur úrskurðarnefndin að hinu umdeilda skipulagi sé svo áfátt, bæði hvað framsetningu og samræmi við aðalskipulag varðar, að leiða eigi til ógildingar og verður það því fellt úr gildi. 

Af hálfu kærenda er jafnframt kært stöðuleyfi sem þeir halda fram að veitt hafi verið fyrir staðsetningu tveggja sumarhúsa í Hveramýri.  Upplýst hefur verið af hálfu byggingaryfirvalda Hrunamannahrepps að einungis hafi verið veitt stöðuleyfi fyrir einu húsi á umræddum stað og hafi það leyfi verið veitt hinn 14. mars 2006.  Fyrir liggur að kærendum var kunnugt um hús það sem umdeilt stöðuleyfi tekur til þegar á árinu 2006, en í bréfi þeirra til skipulagsfulltrúa, dags. 19. maí það ár, og í bréfi lögmanns þeirra til hans, dags. 28. nóvember sama ár, koma fram athugasemdir kærenda varðandi sumarhús á svæðinu.  Bar kærendum þá að kynna sér hvernig háttað væri leyfisveitingu vegna þessara mannvirkja og var kærufrestur vegna umrædds stöðuleyfis því löngu liðinn er kærendur skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar hinn 16. apríl 2007.  Verður þessum lið kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 7. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í Hveramýri í landi Garðs í Hrunamannahreppi er felld úr gildi.

Kröfu kærenda um ógildingu stöðuleyfis frá 14. mars 2006 fyrir flutningshúsi er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________       _______________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

138/2007 Hlíðarendi

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2007, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 20. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi á lóð knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. október 2007, er bárust nefndinni 17. sama mánaðar, kæra A, Álftamýri 28, Reykjavík og K, Háaleitisbraut 139, Reykjavík, samþykkt borgarráðs frá 20. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi á lóð knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda er fól m.a. í sér heimild til aukins byggingarmagns og breyttrar aðkomu að skipulagssvæðinu.

Skilja verður málsskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu skipulagsákvörðun.  Að baki kærunum búa svipuð sjónarmið og þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð.  Verður því fjallað um kærurnar í einu máli, sem er nr. 138/2007.
 
Málsatvik og rök:  Hinn 26. apríl 2007 samþykkti borgarráð Reykjavíkur að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda.  Gerði tillagan ráð fyrir að skipulagssvæðið yrði m.a. stækkað til vesturs um tæpan hektara og byggingarmagn aukið um 35.000 m².  Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum máls þessa.  Borgarráð samþykkti tillöguna hinn 20. september 2007 og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. febrúar 2008.

Kærendur skírskota m.a. til þess að umrætt skipulag hafi veruleg áhrif á stækkunarmöguleika Reykjavíkurflugvallar og að lokun SV-NA brautar vallarins sé mjög óskynsamleg, en í sterkum suðvestan útsynningi sé þetta eina nothæfa brautin á vellinum.  Jafnframt muni mikil þétting byggðar valda aukinni mengun, fleiri umferðarhnútum og fjölga slysum.  Mótmælt sé að skipulags- og byggingarsvið hafi aðeins vísað til þess að athugasemdir hafi borist frá tveimur aðilum en ekki níu eins og verið hafi.  Þá hafi ekki verið tekið nógu mikið tillit til framlagðra athugasemda og leiðbeiningum skipulagsyfirvalda hafi verið áfátt.

Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um að staðfest verði fyrrgreind breyting á deiliskipulagi.  Meðferð málsins hafi verið lögum samkvæmt og hvorki hafi verið brotinn andmælaréttur né leiðbeiningum verið áfátt.  Því sé vísað á bug að veittar hafi verið villandi upplýsingar um fjölda þeirra sem gert hafi athugasemdir við breytt deiliskipulag.  Hið rétta sé að níu aðilar hafi gert athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur en tveir við fyrrgreinda tillögu að deiliskipulagi.

Niðurstaða:  Deiliskipulagstillögur og tillögur um breytingar á deiliskipulagi skulu auglýstar til kynningar og geta þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta komið að ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu samkvæmt 25. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.   Geta aðilar í þeim tilvikum eftir atvikum byggt athugasemdir sínar á almennum hagsmunum íbúa svæðis eða sveitarfélags.   Aðild að stjórnsýslukæru hefur hins vegar að stjórnsýslurétti verið talin bundin við þá aðila sem teljast eiga einstaklega og verulega hagsmuni tengda tiltekinni stjórnvaldsákvörðun.  Hefur og verið áréttað í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga að kæruaðild sé háð því að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.

Kærendur máls þessa eru tveir einstaklingar, búsettir í talsverðri fjarlægð frá svæði því sem hin kærða ákvörðun varðar.  Hafa þeir í kærum sínum vísað til sjónarmiða er fremur lúta að almannahagsmunum en einkahagsmunum og hefur hvorugur þeirra sýnt fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski neinum einstaklingsbundnum rétti.  Verða þeir því ekki taldir eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________         _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Aðalheiður Jóhannsdóttir     

 

9/2008 Hólmaþing

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 9. janúar 2008 um að veita leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing í Kópavogi.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. febrúar 2008, er barst úrskurðarnefndinni samdægurs, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. R og Á, lóðarhafa Gulaþings 5 í Kópavogi þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 9. janúar 2008 um að veita leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing í Kópavogi.  

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá gerðu kærendur þá kröfu að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Var kröfu þeirri hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum hinn 6. maí 2008.

Málavextir:  Á svæðinu Vatnsendi-Þing í Kópavogi er í gildi deiliskipulag frá árinu 2005.  Samkvæmt því er heimilt að byggja á lóðinni að Hólmaþingi 1 einbýlishús á einni hæð auk kjallara.  Í greinargerð deiliskipulagsins segir eftirfarandi:  „Í almennum ákvæðum skipulagsskilmála er m.a. fjallað um: mæli- og hæðarblöð; frágang lóðar; hljóðvist í byggingum, bílageymslur, bílastæði og sorp.  Í sérákvæðum er auk þess m.a. fjallað um húsagerð; hönnun húsa og lóða; byggingarreiti; grunnflöt húsa; fjölda íbúða; hæð húsa og þakform.  Lóðarstærðir á deiliskipulagsuppdrætti eru leiðbeinandi og ákvarðast nánar við gerð mæliblaða.  Hæðarkótar húsa og lóða koma fram á hæðarblaði.  Mæli- og hæðarblöð verða unnin og gefin út í kjölfar deiliskipulagsins.  Sá fyrirvari er gerður að lóðastærðir og hæðarlega getur breyst við gerð hæðar- og mæliblaða.“ 

Í sérákvæðum með skipulagsgreinargerð er gilda m.a. fyrir lóðina að Hólmaþingi 1 segir eftirfarandi:  „Húshæð er gefin upp sem a) bindandi hæðafjöldi og b) hámarkshæð bygginga yfir aðkomukóta.  Þegar talað er um hæðafjölda er átt við fulla hæð, þ.e. útveggir séu í fullri lofthæð (ekki rishæð eða portbyggð rishæð).  Efsti hluti þaks má ná upp í uppgefna hámarkshæð, en getur verið lægri.  Hæðarkótar fyrir aðkomuhæðir húsa eru sýndir á hæðarblaði (gólfkótar –K).  Hámarkshæð húsa er gefin upp á skilmálateikningu og er hún miðuð við hæð yfir tilgreindum hæðarkóta aðkomuhæðar.  Mesta hæð húss talið frá aðkomuhæð er 4,8 metrar.  Mesta hæð húss frá kjallara er 7,5 metrar.  Byggingarhlutar sem óhjákvæmilega ná upp fyrir þak, t.d. skorsteinar og loftræsibúnaður mega þó fara upp fyrir hámarkshæð þaks.“ 

Á deiliskipulagsuppdrætti er lóðin að Hólmaþingi 1 sýnd með bílgeymslu við Gulaþing.  Upphaflegt hæðarblað vegna lóðarinnar er dagsett hinn 12. janúar 2006.  Samkvæmt því er kóti efstu hæðar 98,00. 

Með bréfi, dags. 9. nóvember 2006, óskaði lóðarhafi lóðarinnar nr. 1 við Hólmaþing eftir því að hæðarblað yrði leiðrétt.  Í bréfinu sagði m.a. eftirfarandi:  „Við skoðun hæðarblaðs kom fram að kóti efri plötu Hólmaþings 1 er skráður 98,00, en kóti á efri plötu Hólmaþings 3 er 98,60, þ.e. 60 cm hærri, þó það standi neðar í hlíðinni.  Skv. skipulagsskilmálum á neðri plata að vera 2,7 m lægri en sú efri, þ.e. í k. 95,30 fyrir Hólmaþing 1 og bílageymsla skal vera á þeirri hæð með aðkomu frá Gulaþingi.  Götuhæð í Gulaþingi þar sem aðkoma að bílskúr er sýnd á lóðablaði, er hins vegar 97,1-97,4 (línuleg framlenging á milli uppgefinna hornkóta) eða um 2 m ofar en bílskúrsgólf … Þegar hins vegar er litið á dæmigerða sneiðingu í gegnum Hólmaþing 1 og 3, merkt A, sem fylgdi skipulagsskilmálum, kemur í ljós að kóti efri plötu Hólmaþings 1 er 1,5 m hærri en plötukóti Hólmaþings 3 (mælt af tölvutækum uppdrætti).  Þetta er í samræmi við landhalla, þó einungis sé um skýringamynd að ræða, sem eðlilega hefði verið leiðrétt við hæðarmælingu og kótasetningu gatna … Hæðarmunur húsanna er 60 cm eins og áður, en í öfuga átt, þ.e. Hólmaþing 1 er nú 60 cm hærra en Hólmaþing 3.  Líklega er hér komin skýringin, að 60 cm hafi óvart verið dregnir frá hæð hússins, en ekki bætt við.“  

Í kjölfar þessa var á fundi skipulagsnefndar 21. nóvember 2006 lagt fram bréf f.h. byggingarleyfishafa þar sem óskað var eftir að deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 1 við Hólmaþing yrði breytt m.a. þannig að leyft yrði að byggja út fyrir byggingarreit.  Var erindið grenndarkynnt og bárust athugasemdir og ábendingar.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 19. júní 2007 var breytingin samþykkt og lá fyrir að lóðarhafar aðliggjandi lóða að Gulaþingi 60 og Hólmaþingi 3 samþykktu breytinguna með fyrirvara.  Bæjarráð samþykkti tillögu að breyttu deiliskipulagi hinn 21. s.m. og öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. desember 2007.  Með hæðarblaði, dags. 27. júní 2007, var kóta efri hæðar hússins að Hólmaþing 1 breytt úr 98,00 í 99,20. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 21. nóvember 2007 var lögð fram umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing.  Var byggingarfulltrúa falið að ljúka afgreiðslu málsins, að uppfylltum framlögðum athugasemdum.  Hinn 16. janúar 2008 var á fundi byggingarnefndar lögð fram afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 9. sama mánaðar þar sem áðurnefnd umsókn var samþykkt.  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 22. janúar 2008.

Hafa kærendur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er bent á að þau séu lóðarhafar nærliggjandi lóðar að Gulaþingi 5 og eigi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Þau hafi tekið eftir því síðustu vikuna í janúar 2008 eða byrjun febrúar, við skoðun á teikningum fyrir nærliggjandi hús, að hæðarlegu hússins að Hólmaþingi 1 hefði verið breytt, sem geri það að verkum að útsýni úr húsi þeirra skerðist verulega.

Þá sé kæra þeirra lögð fram innan þeirra tímafresta sem skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 mæli fyrir um.  Kærendum hafi ekki verið kunnugt um fyrr en síðustu viku í janúar eða byrjun febrúar 2008 að hinar umdeildu framkvæmdir væru í andstöðu við gildandi skipulag.

Við hönnun á húsi kærenda hafi rík áhersla verið lögð á að nýta einstakt útsýni frá lóðinni, með þeim takmörkunum sem skipulagið og aðliggjandi hús hafi skapað.  Lóðin, staðsetningin og hæðarlega hafi boðið upp á mikla möguleika.  Forsendur skipulagsins hafi sömuleiðis gefið til kynna að nýta mætti þessa möguleika.  Þessar forsendur hafi verið grundvöllur hönnunar hússins sem og aðliggjandi húsa.

Samkvæmt gildandi mæliblaði sé gólfkóti neðri hæðar Gulaþings 5 +98,60 og aðalhæðar Hólmaþings 1 +98,00.  Húsið að Hólmaþingi 1 sé samkvæmt skilmálum skilgreint sem ein hæð með kjallara og því augljóst að það hefði samkvæmt þessu ekki haft áhrif á útsýni úr húsi kærenda. 

Í lok nóvember 2006 hafi kærendum borist tillaga (grenndarkynning) að breytingum á skipulagi vegna lóðarinnar að Hólmaþingi 1 sem falið hafi í sér breytingu á byggingarreit.  Ekkert hafi komið fram um breytta hæðarlegu hússins.  Engar athugasemdir hafi því verið gerðar við þá breytingu af hálfu kærenda.

Nú hafi forsendum fyrir þetta tiltekna hús verið breytt með afgerandi hætti og það án nokkurrar kynningar.  Kóti aðalhæðar hafi verið hækkaður úr +98,00 í +99,20 og sé það hækkun um 1,2 m (um 1/2 hæð) sem augljóslega hafi áhrif á útsýni af efri hæð Gulaþings 5.  Samkvæmt upplýsingum sem kærendur hafi fengið frá skipulagsfulltrúa séu rökin fyrir breyttri hæðarlegu hússins að Hólmaþingi 1 þau að það liggi of neðarlega miðað við G-kóta (kóti á lóðamörkum á frágenginni götu) lóðarinnar að Hólmaþingi 3.  Húsið hafi verið 0,88 m neðar en G-kótinn við Hólmaþing sem sé +98,88.  Þessi rök haldi augljóslega ekki.  Aðkoma að húsinu sé frá Gulaþingi, ekki Hólmaþingi.  Hæsti kóti lóðarinnar sé +98,88, lægsti kóti í norðausturhorni lóðarinnar sé +95,20.  Hæðarmunur á lóðinni sé því 3,68 m.  Reglan í öllu hverfinu sé að miðla þessum hæðarmun, ekki ýkja hann.  Þetta megi lesa úr mæliblöðum fyrir götuna og aðrar í hverfinu enda góð og gild regla við hæðarleguhönnun af þessu tagi.

Taka megi önnur dæmi úr götunni, t.d. Gulaþing 1.  Sú lóð liggi, líkt og Hólmaþing 1, að götu á tvo vegu.  Þar sé efsti G-kóti að efri hluta Gulaþings +103,00.  Kóti aðalhæðar hússins sé +101,35 og sé þar um meiri mun að ræða en við Hólmaþing 1.  Miðað við þessi rök ætti t.d. Gulaþing 1 að vera um 1,5 m hærra.  Fleiri hús megi nefna eins og sjá megi með því skoða mæliblað fyrir þennan götuhluta.

Hæð aðalgólfs hússins að Hólmaþingi 1, sem sé skilgreint sem einnar hæðar einbýlishús með kjallara, verði með þessari aðgerð hærri en hæsti kóti lóðarinnar.  Breytingin hafi það í för með sér að hús sem skilgreint sé sem einnar hæðar hús með kjallara sé á að líta sem nær tveggja hæða hús, enda gengið upp í það um 1,2 m útitröppur.  Hæðarmunur frá aðalgólfi að neðsta lóðarkóta verði þá orðinn 4,0 m en hafi áður verið 2,8 m.  

Hið umdeilda byggingarleyfi sé í ósamræmi við deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Sú breyting sem virðist hafa verið gerð á deiliskipulagi lóðarinnar, þ.e. hin breytta hæðarlega, hafi ekki verið kynnt samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða hlotið fullnaðarafgreiðslu samkvæmt fyrirmælum laganna og hafi  því ekki tekið gildi.  Samkvæmt gildandi skipulagi sé húsið að Hólmaþingi 1 skilgreint sem einnar hæðar hús með kjallara en með hinni umdeildu breytingu líti það út sem tveggja hæða hús.  Byggingarleyfi hússins sé því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Beri því að fallast á kröfur kærenda.  Það sé áréttað að grenndarkynning vegna breytingar á byggingarreit í nóvember 2006 hafi ekki tekið til breyttrar hæðarlegu.  Þá verði hvort heldur sem er ekki séð að sú breyting hafi hlotið fullnaðarafgreiðslu samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Þá sé einnig ljóst að ólögmætt sé að samþykkja breytingu á deiliskipulagi með sérskilmálum og breyttri hæðarlegu fyrir hina umræddu lóð eins og virðist hafa verið gert.  Kærendur telji, með hliðsjón af reglum stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna, að bæjarstjórn hefði borið að endurskoða skilmála alls svæðisins.  Ólögmætt sé að ívilna einum lóðarhafa með rýmri skilmálum en gildi á öðrum lóðum, þar sem reyndar hús hafi þegar risið.  Nauðsynlegt sé að skoða áhrif slíkrar breytingar á allt svæðið enda hljóti slík breyting á einni lóð að leiða til breytinga á öðrum, m.t.t. reglunnar um jafnræði.  Þessu til stuðnings vísi kærendur til sjónarmiða og lagaraka sem fram komi í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 21. desember 2000 sem og til úrskurðar nefndarinnar frá 18. maí 2007 í máli nr. 31/2007. 

Þá telji kærendur að slíkar breytingar á tiltölulega nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, verði að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Hagsmunir eins lóðarhafa um aukna nýtingu og rýmri skilmála gegn hagsmunum annarra húseigenda á svæðinu geti ekki talist málefnaleg sjónarmið í þessu sambandi.  Breytingin sé af þessum sökum ólögmæt.  Til stuðnings þessum sjónarmiðum sé vísað til tveggja álita Umboðsmanns Alþingis SUA 727/1992 og SUA 2421/1998 og til úrskurða úrskurðarnefndarinnar frá 10. maí 2004 í máli nr. 12/2004 og 18. maí 2007 í máli nr. 31/2007.

Þá sé bent á að engar veigamiklar ástæður geti réttlætt breytingu frá hinu nýlega deiliskipulagi með þeim hætti sem reynt hafi verið að gera.  Þá sé auk þess ólögmætt og ómálefnalegt að taka hagsmuni eins aðila og láta þá ganga fyrir á kostnað annarra.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að deiliskipulag fyrir lóðina að Hólmaþingi 1 hafi tekið gildi árið 2005.  Í deiliskipulagsskilmálum sé kveðið á um að heimilt sé að byggja á lóðinni einbýlishús á einni hæð auk kjallara.  Hvorki séu gefnir upp hæðarkótar fyrir mannvirkið í deiliskipulagsskilmálum né á skipulagsuppdráttum, en í sérákvæðum segi að hæðarkótar fyrir aðkomuhæðir húsa séu sýndir á hæðarblaði (gólfkótar, K).
 
Haustið 2006 hafi Kópavogsbæ borist ábending frá hönnuði hússins að Hólmaþingi 1 um villu í hæðarblöðum og í erindi, dags. 9. nóvember 2006, hafi formlega verið óskað eftir leiðréttingu á hæðarkótum.  Í framhaldinu hafi málið verið skoðað af deildarstjóra hönnunardeildar sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að hæðarkótar samræmdust ekki gildandi deiliskipulagi og væru því rangir á hæðarblaði.  Ljóst hafi verið að hæðarkótar á hæðarblaði hafi verið miðaðir við að aðkoma og bílgeymsla væri á sömu hæð, en ekki á sitt hvorri hæðinni líkt og deiliskipulagið hafi gert ráð fyrir.  Hæðarkótar á hæðarblöðum hafi því verið leiðréttir til samræmis við deiliskipulagið. 

Af hálfu Kópavogsbæjar sé þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni og á því byggt að kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geti þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Til þess að aðili geti átt kæruaðild að máli samkvæmt almennum sjónarmiðum stjórnsýsluréttar verði hann að eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn þess.  Byggingarleyfi það sem um sé deilt í máli þessu sé gefið út í samræmi við gildandi deiliskipulag og leiðrétt hæðarblöð.  Hæðarsetning á fyrra hæðarblaði hafi verið miðuð við að aðkoma og bílskúr væru á sömu hæð, þ.e. á efri hæð hússins.  Sú hæðarsetning hafi ekki samræmst gildandi deiliskipulagi þar sem gert sé ráð fyrir að aðkoma að bílskúr sé að neðri hæð en almenn aðkoma að efri hæð.  Breyting á hæðarblaði hafi því verið gerð til samræmis við deiliskipulagsskilmála. 

Á hæðarblaði fyrir lóðina Gulaþing 5, dags. 26. nóvember 2006, sé leiðrétt hæðarsetning sýnd á lóðinni Hólmaþingi 1.  Leiðrétting á hæðarblaði hafi því átt sér stað rúmu ári áður en teikningar fyrir Gulaþing 5 hafi verið samþykktar í byggingarnefnd.  Leiðrétting á hæðarblaði geti ekki haft áhrif á hagsmuni kærenda þar sem hún sé gerð til samræmis við staðfest deiliskipulag.  Leiðrétting á hæðarblaði feli ekki í sér breytingu á gildandi deiliskipulagi og eigi athugasemdir kærenda er lúti að útsýnisskerðingu því ekki við rök að styðjast.  Þar sem leiðréttingin hafi verið til samræmis við deiliskipulag hafi hún aðeins varðað hagsmuni lóðarhafa Hólmaþings 1.  Með vísan til þessa sé það álit Kópavogsbæjar að kærendur eigi hvorki einstaklegra né verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls og leiði það til frávísunar.  

Þá byggi Kópavogsbær kröfu sína um frávísun málsins á því að leiðrétting stjórnvalda á augljósum villum í gögnum geti ekki talist kæranleg ákvörðun.  Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga sé stjórnvaldi heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í ákvörðun, eftir að aðila hafi verið tilkynnt um hana.  Slík leiðrétting sé ekki breyting á gildandi deiliskipulagi og geti því ekki talist vera ný stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til æðra stjórnvalds. 

Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest enda sé byggingarleyfið í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag og því lögmætt.  Í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sé kveðið á um að byggingarleyfi skuli gefið út til samræmis við gildandi deiliskipulag.  Hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út í samræmi við gildandi deiliskipulagskilmála sem og útgefin hæðarblöð.  Í kæru sé því aðeins haldið fram að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við deiliskipulag að því leyti að vikið hafi verið frá upphaflegum hæðarkótum á hæðarblaði.  Ekki séu gerðar athugasemdir við byggingarleyfið að öðru leyti. 

Fullyrðing kærenda þess efnis að leiðrétting á hæðarkótum leiði til þess að húsið verði tvær hæðir í stað þess að vera ein hæð og kjallari sé alfarið röng.  Í gildandi deiliskipulagi sem og á hæðar- og mæliblöðum séu skilmálar óbreyttir að þessu leyti, þ.e. á lóðinni megi byggja hús á einni hæð auk kjallara. 

Þá eigi fullyrðingar kærenda þess efnis að Kópavogsbær hafi brotið gegn jafnræðisreglu með ákvörðun um einhliða breytingu á deiliskipulagi ásamt því að sú ákvörðun hafi verið ómálefnaleg ekki við rök að styðjast í ljósi þess að ekki hafi verið um að ræða breytingu á deiliskipulagi. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er tekið undir kröfur Kópavogsbæjar um frávísun málsins. 

Þá sé vísað til þess að á uppdrætti með skipulagsskilmálum sé byggingarreitur Hólmaþings 1 sýndur og gefnir og séu upp þeir skilmálar sem um hann gildi.  Sýndar séu tvær sneiðingar í gegnum húsið.  Ljóst sé af sneiðingu A-A að skipulagið geri ráð fyrir að hæð Hólmaþings 1 miðist við götuhæð Hólmaþings á horni Gulaþings og Hólmaþings.  Þá komi greinilega fram að afstaða á milli Hólmaþings 1 og Hólmaþings 3 fylgi landinu, þar sem Hólmaþing 1 sé staðsett hærra en Hólmaþing 3.  Heimilt sé að byggja 4,8 m upp fyrir gólfkóta aðalhæðar.  

Jafnframt sé byggt á því að þar sem hæðir séu ekki tilgreindar í deiliskipulagi svæðisins hljóti það stjórnvald sem fari með skipulagsvaldið að hafa mat um útfærslu hæðarblaða svo lengi sem slík útfærsla stríði ekki gegn gildandi deiliskipulagi eins og hið upprunalega hæðarblað vegna Hólmaþings 1 hafi gert.  Vegna þessa séu kærendur bundnir af því mati Kópavogsbæjar að leiðrétta eigi hæðarblaðið nema að sýnt sé fram á að slík leiðrétting stríði beinlínis gegn gildandi deiliskipulagi sem ekki hafi verið gert. 

Þá sé einnig bent á að jafnvel þótt talið yrði að kærendur geti byggt á hinni augljóslega röngu hæðarsetningu hafi þeir ekki getað vænst þess að útsýni yrði með þeim hætti sem þeir fari nú fram á.  Hin meinta útsýnisskerðing kærenda að þessu leyti snúist eðli málsins samkvæmt ekki um gólfkóta Hólmaþings 1 heldur þær forsendur sem fyrir hendi séu um hámarkshæð hússins. 

Í þessu sambandi sé bent á ákvæði deiliskipulagsins vegna Hólmaþings 1 en þar komi fram að leyfileg hámarkshæð frá gólfkóta aðalhæðar sé 4,8 m.  Þakform sé frjálst og lína sem fram komi á uppdrætti sé bara til leiðbeiningar um stefnu mænis.  Það sé því ljóst að samkvæmt deiliskipulaginu sé lóðarhöfum Hólmaþings 1 heimilt að byggja veggi upp í 4,8 m hæð frá gólfkóta aðkomuhæðar að því tilskyldu að þak sé flatt. 

Á þversniðum á samþykktri teikningu fyrir Hólmaþing 1 megi sjá að veggir nái hvergi hærra en 3,6 m yfir gólfkóta.  Með þessu hafi lóðarhafar Hólmaþings 1 ekki nýtt 1,2 m vegghæð sem þeim sé heimilt samkvæmt skipulagi.  Þetta hafi það í för með sér að jafnvel þó að svo ótrúlega myndi vilja til að kærendur gætu byggt einhvern rétt á mistökum tæknideildar Kópavogsbæjar gætu þeir ekki vænst þess að húsið að Hólmaþingi 1 væri lægra en það sé nú samkvæmt samþykktum byggingarnefndarteikningum. 

Því til viðbótar sé á það bent að fasteign kærenda sé tugi metra frá Hólmaþingi 1 sem að mestu sé staðsett eins langt frá Gulaþingi 5 innan byggingarreits eins og hægt sé.  Gulaþing 5 sé samt sem áður eftir breytingu með gólfplötu efri hæðar í 2,2 m hæð yfir gólfplötu Hólmaþings 1.  Beint fyrir neðan Hólmaþing 1 standi Hólmaþing 3 sem sé aðeins 20-60 cm lægra en Hólmaþing 1.  Jafnvel þó að ekki yrði fallist á neitt af framangreindu sé ljóst að mati byggingarleyfishafa að enn sé gott útsýni frá Gulaþingi 5 sem gnæfi yfir Hólmaþing 1.  Skerðing útsýnis fyrir kærendur sé því lítil sem engin. 

Andsvör kærenda vegna málsraka Kópavogsbæjar og byggingarleyfishafa:  Kærendur taka fram að fyrir liggi að í skilmálum deiliskipulags viðkomandi svæðis sé vísað til þess að hæðarkótar séu sýndir á hæðarblaði (gólfkótar, K), sbr. sérákvæði skipulagsskilmála.  Þar með sé hæðarblað viðkomandi lóða hluti af skilmálum deiliskipulagsins.  Af því leiði að sé ætlunin að breyta gólfkóta/hæðarlegu þurfi að breyta deiliskipulagi og kynna slíka breytingu í samræmi við fyrirmæli 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Það sé óumdeilt í málinu að svo hafi ekki verið gert heldur hafi grenndarkynning í nóvember 2006 fyrir Hólmaþing 1 einungis tekið til breytinga á byggingarreit en ekkert hafi verið minnst á breytingu á hæðarlegu hússins.  Byggingarleyfi sé því ekki í samræmi við fyrirliggjandi skipulag. 

Þá sé bent á að í janúar 2006 hafi hönnuður húss kærenda óskað eftir því við starfsmann Kópavogsbæjar að fá sendan dwg-grunn af lóðinni við Gulaþing 5 og komi þar fram með skýrum hætti að hæðarkóti hússins nr. 1 við Hólmaþing sé 98,00.  Eftir því hafi verið unnið við hönnum húss kærenda.  

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Fulltrúar úrskurðarnefndarinnar kynntu sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti þriðjudaginn 22. apríl 2008. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 9. janúar 2008 til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing og krafist ógildingar þess.  Af hálfu Kópavogsbæjar og byggingarleyfishafa er krafist frávísunar málsins, annars vegar sökum aðildarskorts kærenda og hins vegar vegna þess að leiðrétting sem gerð hafi verið á hæðarblaði lóðarinnar að Hólmaþingi 1 sé ekki ákvörðun sem sé kæranleg til æðra stjórnvalds.  Á þetta verður ekki fallist.  Kærendur eru lóðarhafar Gulaþings 5, sem er gengt lóðinni að Hólmaþingi 1, og er ljóst að leyfi til byggingar húss að Hólmaþingi 1 varðar einstaklega og lögvarða hagsmuni þeirra, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá er í málinu kærð ákvörðun um að veita leyfi til byggingar húss en ekki leiðrétting stjórnvaldsákvörðunar og á hin kærða ákvörðun því undir úrskurðarnefndina.  Verður framkominni frávísunarkröfu þar af leiðandi hafnað.    

Á svæði því sem hér um ræðir er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið Vatnsendi-Þing frá árinu 2005.  Samkvæmt því er heimilt að byggja á lóðinni að Hólmaþingi 1 einbýlishús á einni hæð auk kjallara.  Á deiliskipulagsuppdrætti svæðisins eru lóðir ekki hæðarsettar heldur segir m.a. eftirfarandi í greinargerð:  „Hæðarkótar húsa og lóða koma fram á hæðarblaði.  Mæli- og hæðarblöð verða unnin og gefin út í kjölfar deiliskipulagsins.  Sá fyrirvari er gerður að lóðarstærðir og hæðarlega getur breyst við gerð hæðar og mæliblaða.“  Var hæðarblað vegna lóðarinnar að Hólmaþingi 1, dags. 12. janúar 2006. 

Lóðin að Hólmaþingi 1 er hornlóð og er í nokkrum halla þar sem landi hallar niður á við frá suðvestri til norðausturs.  Vestan hennar og nokkru hærra í landi er lóð kærenda að Gulaþingi 5 en austan hennar og lítið eitt lægra í landinu er lóðin að Hólmaþingi 3.  Samkvæmt upphaflegu hæðarblaði átti gólfplata efri hæðar að Hólmaþingi 1 að vera lægri en að Hólmaþingi 3 sem er ekki í samræmi við landhalla og hæðarkóta götu.  Fór byggingarleyfishafi fram á breytingu vegna þessa sem fallist var á og var breytt hæðarblað gefið út 27. júní 2007. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að óheimilt hafi verið að gera umrædda breytingu á hæðarblaðinu þar sem það sé hluti gildandi skipulags og sé hið kærða byggingarleyfi því í ósamræmi við það.  Eins og áður segir innheldur deiliskipulagið ekki hæðarkóta lóða og húsa en í skilmálum þess segir að þessir kótar komi fram á hæðarblaði sem unnið verði og gefið út í kjölfar deiliskipulagsins.  Er sá fyrirvari jafnframt gerður að lóðarstærðir og hæðarlega geti breyst við gerð hæðar- og mæliblaða.  Verður að skýra þessi ákvæði svo að umræddir hæðarkótar séu ekki hluti af gildandi skipulagi svæðisins og að breytingar á þeim lúti því ekki þeim reglum sem gilda um breytingar á skipulagi.  Var byggingaryfirvöldum því ekki skylt að kynna þá breytingu sem gerð var á hæðarsetningu hússins að Hólmaþingi 1 en af málsgögnum verður ráðið að með henni hafi hæðarsetning þess verið löguð að landhæð og hæðarsetningu sambærilegra húsa í næsta nágrenni.  Verður því ekki fallist á að byggingarleyfi hússins fari í bága við gildandi skipulag hvað hæðarsetningu varðar.

Samkvæmt sérákvæðum skipulagsins sem gilda fyrir Gulaþing 15, 17 og 60 og Hólmaþing 1 og 3, sem eru á einni hæð með kjallara, er mesta hæð húss frá aðkomuhæð 4,8 m en 7,5 m sé miðað við gólfhæð kjallara.  Hið umdeilda hús að Hólmaþingi 1 er hins vegar aðeins 6,3 m á hæð mælt frá kjallaragólfi eða 1,2 m lægra en skipulagið heimilar.  Er húsið því ekki hærra en það hefði mest mátt vera samkvæmt gildandi skipulagi þótt ekki hefði komið til þeirrar hækkunar á hæðarkótum sem er tilefni kærumáls þessa og hefur bygging þess því ekki í för með sér neina skerðingu á hagsmunum kærenda umfram það sem vænta mátti samkvæmt skipulaginu, jafnvel þótt upphaflegri hæðarsetningu hefði ekki verið breytt. 

Samkvæmt gr. 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 skulu skipulagsskilmálar deiliskipulags eftir því sem svæðið gefur tilefni til koma fram á skipulagsuppdrætti og kveða m.a. á um byggingarreiti, hæðarlegu, hámarkshæð bygginga, byggingarmagn á lóð og fleira sem talið er í ákvæðinu.  Telur úrskurðarnefndin það ágalla á deiliskipulagi umrædds svæðis að ekki skuli í skilmálum þess eða á uppdrætti vera gerð betur grein fyrir hæðarlegu mannvirkja en raun ber vitni.  Umrætt skipulag hefur hins vegar ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar og kemur það ekki til endurskoðunar í máli þessu. 

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.  

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 9. janúar 2008 um að veita leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing í Kópavogi.  

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________          ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir