Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2008 Fífuhvammur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 87/2008, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 6. ágúst 2008 um að veita leyfi til að byggja bílskúr með geymslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. ágúst 2008, er barst úrskurðarnefndinni 29. sama mánaðar, kærir Guðmundur Ágústsson hdl., f.h. Ó og T, eigenda fasteignarinnar nr. 27 við Fífuhvamm í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 6. ágúst 2008 að veita leyfi til að byggja bílskúr með geymslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 14. ágúst 2008. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda. 

Málsatvik:  Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda og hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar.  Upphaf þess má rekja til þess að á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 3. apríl 2007 var tekið fyrir erindi frá lóðarhafa að Fífuhvammi 25 þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr austan við húsið að Fífuhvammi 25.  Samþykkti nefndin að senda málið í kynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. til kærenda sem settu fram athugasemdir vegna þessa.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 19. júní 2007 var erindið lagt fram að nýju ásamt umsögn bæjarskipulags.  Skipulagsnefnd ákvað á þeim fundi að fela skipulagsstjóra að ræða við aðila máls.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. júlí 2007 var erindið tekið fyrir að nýju og eftirfarandi fært til bókar:  „Skipulagsnefnd samþykkir erindið með áorðnum breytingum, sbr. samkomulag lóðarhafa Fífuhvammi 25 og 27 dags. 3. júlí 2007.“ 

Hinn 23. júlí 2007 barst erindi kærenda til skipulagsnefndar þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar.  Á fundi skipulagsnefndar 7. ágúst 2007 var málið enn á dagskrá og eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram að nýju ásamt bréfi lóðarhafa Fífuhvammi 25, dags. 23. júlí 2007, ásamt endurskoðaðri umsögn bæjarskipulags dags. 24. júlí 2007.  Skipulagsnefnd samþykkir framlagt erindi skv. uppdrætti dags. 24. júlí 2007 og endurskoðaða umsögn bæjarskipulags dags. 24. júlí 2007 og vísar því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.“  Á fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007 var ákvörðun skipulagsnefndar staðfest. 

Umsókn lóðarhafa að Fífuhvammi 25 um leyfi til byggingar umrædds bílskúrs var tekin fyrir í byggingarnefnd Kópavogs hinn 22. ágúst 2007 og afgreidd með svofelldri bókun:  „Samþykkt, þar sem teikningar eru í samræmi við byggingar- og skipulagslög nr. 73/1997, með síðari breytingum.  Nefndin leggur til að bæjarstjórn samþykki afgreiðslu byggingarnefndar.“  Var afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september 2007. 

Skutu kærendur framangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 31. janúar 2008 felldi þær úr gildi. 

Á fundi byggingarnefndar 5. mars 2008 var tekið fyrir erindi eiganda fasteignarinnar að Fífuhvammi 25 varðandi leyfi til að byggja bílskúr á lóðinni.  Var erindinu vísað til skipulagsnefndar sem tók ákvörðun um grenndarkynningu þess.  Komu kærendur á framfæri mótmælum sínum vegna þessa.  Á fundi skipulagsnefndar 20. maí 2008 var erindinu, ásamt athugasemdum er bárust vegna grenndarkynningarinnar, vísað til byggingarnefndar.  Á fundi byggingarnefndar 16. júlí s.á. var eftirfarandi fært til bókar:  „Með tilvísun til umsagnar byggingarnefndar dags. 16. júlí 2008 um athugasemdir eigenda að Fífuhvammi 27 og yfirlýsingar hönnuðar dags. 10. júlí, gefur nefndin eigendum að Fífuhvammi 25 og 27 kost á að gæta andmæla sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fyrir fund byggingarnefndar 6. águst n.k.“  Í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 21. júlí 2008, af þessu tilefni sagði eftirfarandi:  „Eigendum Fífuhvamms 25 og 27 er hér með gefinn kostur á að gæta andmæla sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fyrir fund byggingarnefndar 6. ágúst 2008.“  Með bréfi þessu fylgdi m.a. umsögn byggingarnefndar, dags. 16. júlí 2008, vegna athugasemda kærenda vegna grenndarkynningarinnar og yfirlýsing verkfræðistofu um fyrirhugaðar framkvæmdir.  Með bréfi, dags. 30. júlí 2008, komu kærendur á framfæri við byggingarnefnd mótmælum sínum vegna fyrirhugaðar bílskúrsbyggingar. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 6. ágúst 2008 var veitt leyfi til að byggja 56,8 fermetra bílskúr með geymslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm, 40 cm frá mörkum lóðarinnar nr. 27.  Var framangreint staðfest á fundi bæjarráðs hinn 14. sama mánaðar. 

Hafa kærendur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að eftir að úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi gengið í hinu fyrra kærumáli hafi kærendur leitað eftir því að ná samkomulagi við bæjaryfirvöld og byggingarleyfishafa, eins og þeir hafi raunar einnig gert á meðan málið hafi verið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni.  Hafi kærendur verið tilbúnir að fallast á að bílskúr yrði reistur á lóðinni gegn því að hann yrði annað hvort minnkaður eða komið fyrir innar á lóðinni.  Þá hafi þau viljað tryggja sig gagnvart því að síðar yrði ekki heimilað að byggt yrði ofan á bílskúrinn ásamt því að fá skuldbindandi yfirlýsingu byggingarleyfishafa þess efnis að þak bílskúrsins yrði ekki notað sem leiksvæði.  Þessu hafi alfarið verið hafnað af byggingarleyfishafa.  Þess í stað hafi hann lagt fram sömu teikningu til skipulagsnefndar með ósk um grenndarkynningu.  Eina frávikið frá fyrri beiðni hafi verið að bílskýlið yrði fellt niður.  Hafi skipulagsnefnd samþykkt að grenndarkynna erindið og hafi gefið kærendum kost á að koma að athugasemdum sem þau hafi gert.  Þrátt fyrir athugasemdir kærenda hafi nefndin vísað erindinu til bygginganefndar til afgreiðslu.  
 
Áður en málið hafi verið tekið fyrir í bygginganefnd hafi kærendur óskað eftir fundi með bæjaryfirvöldum.  Til fundarins hafi mætt byggingarfulltrúi, skipulagsfulltrúi, lögmaður skipulagssviðs og kærendur ásamt lögmanni sínum.  Byggingarleyfishafi hafi ekki séð sér fært að mæta en lögmaður hans hafi mætt.  Hafi erindi kærenda verið það að finna lausn á málinu í samræmi við það sem þau hefðu áður boðið.  Afstaða byggingarleyfishafa hafi verið óbreytt frá því sem áður hafði verið og hafi byggingarfulltrúi þá tilkynnt að erindið yrði ekki samþykkt óbreytt og án samkomulags við kærendur.  Með þessi skilaboð hafi kærendur farið af fundinum.  Framangreindu til staðfestu geti kærendur lagt fram hljóðupptöku af fundinum. 

Bent sé á að samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi sé fyrirhugaður bílskúr 0,4 m frá lóðarmörkum og nái inn eftir allri lóðinni og fram fyrir hús kærenda.  Þá hafi þegar verið grafið tæpan metra inn á lóð þeirra. 

Fífuhvammurinn teljist til eldri hverfa í Kópavogi.  Samkvæmt gildandi deiliskipulagi (sic) sé ekki gert ráð fyrir að veitt verði leyfi til viðbygginga eða bílskúrsbygginga á lóðinni að Fífuhvammi 25.  Telji kærendur að engin fordæmi séu fyrir því á þessu eða öðrum eldri svæðum í Kópavogi að veitt hafi verið heimild til byggingar bílskúrs svo nálægt lóðarmörkum í andstöðu við vilja nágranna. 

Fram hafi farið grenndarkynning vegna fyrirhugaðra framkvæmda og í tilkynningu skipulagsyfirvalda hafi komið fram að um óverulega breytingu á byggingareit væri að ræða.  Þessu hafi kærendur mótmælt m.a. á þeirri forsendu að ekki væri um óverulega breytingu að ræða heldur verulega og því hafi þurft að breyta deiliskipulagi svæðisins áður en erindið yrði samþykkt.  Grenndarkynning sé ekki nægjanleg. 

Miðað við forsögu þessa máls sé eigandi neðri hæðar að Fífuhvammi 25 að fara fram á stækkun á íbúð sinni úr 78 m² í 143 m².  Beiðni um bílskúr sé því yfirskyn.  Stækkun þessi sé öll í áttina að lóðarmörkum kærenda sem leiði til þess að baklóðin verði þeim ónothæf vegna skuggavarps, ekki einungis frá fyrirhugðum bílskúr heldur einnig húsi þeirra sjálfra og mishæðar í landslagi.  Þessi viðbót, að fá 2,5 metra háan steinsteyptan bílskúr, verði ekki til að bæta ástandið sem hafi verið slæmt fyrir. 

Bent sé á að vestari hluti lóðarinnar að Fífuhvammi 25 sé mun stærri og breiðari.  Þegar metið sé hvort um verulega eða óverulega breytingu sé að ræða sé ekki nægjanlegt að reikna lóðarfermetra og húsfermetra heldur verði einnig að taka með í reikninginn hvar núverandi hús sé staðsett á lóðinni og hvar fyrirhuguð viðbygging komi til með að vera staðsett.  Þannig skipti það kærendur verulegu máli hvort viðbótarbyggingin sé nokkra metra frá lóðarmörkum eða nokkra sentimetra.  Kærendur hefðu ekki hreyft mótmælum ef fyrirhuguð bygging yrði reist bak við hús eða hinum megin við húsið þar sem rými sé nægjanleg. 

Um túlkun úrskurðarnefndarinnar á 23. gr. skipulags- og byggingarlaga og undantekningarákvæðis 7. mgr. 43. gr. sömu laga vísist m.a. til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 164/2007.  Bendi kærendur á að hinn umdeildi bílskúr muni hafa veruleg áhrif á möguleika til að selja hús þeirra ásamt því sem það muni lækka í verði. 

Samkvæmt 113. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998, skuli bílageymsla fyrir einn bíl að jafnaði ekki vera stærri en 36 m² brúttó.  Sú bílageymsla sem byggingarnefnd hafi veitt leyfi fyrir sé um 65 m².  Samkvæmt sama ákvæði geti byggingarnefnd leyft stærri bílageymslur en 36 m² þar sem slíkt valdi ekki verulegri röskun á umhverfi og aðstæðum að öðru leyti.  Kærumál þetta verði að meta með hliðsjón af hinu fyrra kærumáli.  Þegar það mál hafi verið til afgreiðslu hafi byggingarnefnd samþykkt sama bílskúrinn þrátt fyrir að fyrir lægi veruleg röskun.  Með því hafi byggingarnefnd gefið byggingarleyfishafa heimild til að eyðileggja rætur trjáa sem staðið hefðu á lóðarmörkum, fella niður girðingar, taka í sundur lagnir og valda kærendum miklu tilfinningalegu tjóni.  Ef rök byggingarnefndar séu þau að aðstæður hafi nú breyst þar sem trén hafi verið söguð niður af starfsmönnum Kópavogsbæjar og það staðfest af hálfu úrskurðarnefndarinnar sé fallist á lögmæti fyrri samþykktar byggingarnefndar. 

Í umsögn byggingarnefndar um stærð hins umdeilda bílskúrs sé vísað til þess að bílskúrinn sé 50 m² og geymsla í bílskúrnum 15 m².  Telji nefndin þetta ekki óeðlilega stærð og í samræmi við aðrar bílskúrsbyggingar sem leyfðar hafi verið í eldri hverfum.  Þá sé það mat nefndarinnar í sömu umsögn að hagsmunir kærenda felist ekki í stærð bílskúrsins heldur hæð hans og nálægð hans við lóðarmörk.  Sé nefndin að gefa sér forsendur sem eigi sér enga stoð í bréfum kærenda.  Hagsmunir kærenda séu þeir og hafi alltaf verið að skúrinn verði ekki eins stór og teikningarnar geri ráð fyrir.  Vilji þau ekki fella sig við að hann nái eins lagt fram í innkeyrsluna og gert sé ráð fyrir.  Þá vilji þau að byggingarnefndin fari að lögum og samþykki ekki stærri bílskúr en 113. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 heimili. 

Í sambandi við stærð bílskúrs og rökleysu byggingarnefndar sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 88/2007. 

Þá vísi kærendur til þess að íbúðarhús þeirra sé fjóra metra frá lóðarmörkum.  Með því að leyfa byggingu fyrirhugaðs bílskúrs við lóðarmörk telji þau að byggingarnefnd brjóti ákvæði 75. gr. og 113. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um lágmarksfjarlægð milli húsa með tilliti til brunavarna.  Á teikningu sé hvorki teiknaður eldvarnarveggur né sett lýsing um að byggingarefni sé eldþolið. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er á því byggt að hafna beri kröfu kærenda og vísað til þess að málsmeðferð við samþykkt byggingarleyfis hafi verið lögmæt, réttmæt og í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Afgreiðslan hafi verið byggð á 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Umsóknin hafi verið ítarlega grenndarkynnt þeim sem talið hafi verið að ættu hagsmuna að gæta og hafi aðeins ein athugasemd borist, þ.e. frá kærendum. 

Áður en ákvörðun hafi verið tekin hafi verið gerð könnun á byggðarmynstri á svæðinu.  Litið hafi verið til byggingarmagns/nýtingarhlutfalls á lóðinni Fífuhvammi 25 og það borið saman við byggingarmagn/nýtingarhlutfall á aðliggjandi lóðum.  Hafi komið í ljós að byggingarmagn/nýtingarhlutfall á lóðinni hafi til að mynda verið töluvert minna en á lóð kærenda. 

Kannað hafi verið hvort bílskúra væri að finna við eða á lóðarmörkum á aðliggjandi lóðum og hvar þeir væru staðsettir á lóðum og í ljós hafi komið að umsókn lóðarhafa væri í samræmi við þá bílskúra sem fyrir væru á svæðinu. 

Litið hafi verið til afstöðu bílskúra gagnvart mannvirkjum á næstu lóð.  Hafi það verið álit nefndarinnar að staðsetning bílskúrs austan við Fífuhvamm 25 færi ekki í bága við byggðarmynstur á svæðinu.  Jafnframt hafi verið litið til stærðar bílageymslna á öðrum lóðum á svæðinu. 

Við mat á aðstæðum á svæðinu sé ljóst að samþykkt bílskúrs á lóð Fífuhvamms 25 þrengi að lóðinni Fífuhvammi 27 frá því sem áður hafi verið.  Nálægð bílskúrsins við lóðina hafi að vissu leyti tilfinningarleg áhrif þar sem áður hafi verið gróður á lóðarmörkum.  Bílskúrinn hafi hins vegar ekki í för með sér neikvæð grenndaráhrif í formi skuggamyndunar eða takmarkaðri afnot af lóðinni Fífuhvammi 27.  Af aðstæðum að dæma ætti ónæði eða óþægindi af staðsetningu eða stærð bílskúrsins að vera óveruleg ef nokkur fyrir kærendur. 

Að loknu heildarmati byggingarnefndar á framangreindum sjónarmiðum og aðstæðum hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að samþykkja umsóknina og vísa henni til bæjarstjórnar.  Sú ákvörðun hafi að miklu leyti verið byggð á því að fyrirhugaður bílskúr muni fela í sér verulega aukna nýtingarmöguleika byggingarleyfishafa á fasteign og á lóð.  Hafi nefndin talið mikilvægt að litið yrði til þeirra hagsmuna og þeir bornir saman og metnir með tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafi komið. 

Kópavogsbær telji að við mat á aðstæðum hafi byggingarnefnd tekið afstöðu og farið að ákvæðum 113. gr. byggingarreglugerðar ásamt því að með hinu kærða byggingarleyfi hafi ekki verið farið gegn ákvæðum 75. gr. byggingarreglugerðar. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er bent á að hinn umdeildi bílskúr sé teiknaður 40 cm frá lóðamörkum og hafi við byggingu hans að sjálfssögðu verið farið eftir því.  Það sé alrangt að byggingarleyfishafi hafi grafið inn á lóð kærenda, enda honum það hvorki heimilt né nauðsynlegt vegna byggingarframkvæmdanna.  Þá sé, samkvæmt upplýsingum frá byggingaryfirvöldum, röng sú fullyrðing kærenda að engin fordæmi séu fyrir því á þessu eða öðrum svæðum í Kópavogi að veitt hafi verið heimild til byggingar bílskúrs svo nálægt lóðamörkum í andstöðu við vilja nágranna. 

Mótmælt sé þeirri túlkun kærenda að í tilfelli því er hér um ræði sé grenndarkynning ekki nægilegur grundvöllur hins kærða byggingarleyfis.  Ekki sé verið að breyta deiliskipulagi heldur fjalli málið um það hvort einstök bygging verði leyfð eða ekki.  Þá sé mótmælt þeirri fullyrðingu kærenda að beiðni um leyfi fyrir byggingu bílskúrs sé yfirvarp þar sem í raun sé verið að stækka íbúð byggingarleyfishafa. 

Kærendur hafi ekki sýnt fram á með teikningum eða öðrum gögnum að byggingin valdi skuggavarpi á lóð þeirra umfram það sem önnur mannvirki, trjágróður og landslag valdi á lóðinni.  Því til viðbótar verði ekki séð að kærendur hafi nýtt baklóð sína til útiveru eða ræktunar, enda örðugt um vik þar sem gríðarstórar aspir, sem staðið hafi lóð þeirra, hafi birgt fyrir sólarljós þar sem víðar. 

Órökstudd sé sú fullyrðing kærenda að hinn umdeildi bílskúr hafi áhrif á möguleika til sölu á húsi þeirra jafnframt því sem húsið muni lækka í verði.  Lögmaður byggingarleyfishafa hafi óskað eftir því að fenginn yrði fasteignasali/-salar til að meta hvort og þá hversu mikil verðbreyting yrði á húsinu Fífuhvammi 27 ef af byggingu bílskúrsins yrði.  Hafi kærendur ekki lagt fram niðurstöður slíks mats. 

Byggingarleyfishafi sé ósammála þeirri fullyrðingu kærenda að bílskúrinn sé of stór miðað við ákvæði byggingarreglugerðar þar sem hann sé yfir 36 m².  Bent sé á að samkvæmt 113. gr. byggingarreglugerðar sé byggingarnefnd heimilt að veita leyfi fyrir stærri bílgeymslu þar sem slíkt valdi ekki verulegri röskun á umhverfi og aðstæður að öðru leyti leyfi.  Telji byggingarleyfishafi að svo hagi til í þessu tilfelli. 

Áhyggjur kærenda af brunavörnum séu óþarfar.  Eins og fram komi á samþykktum teikningum sé tekið fram að veggir og þak sé gert úr steinsteypu en ekki brennanlegum efnum.  

————————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar. 

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 9. september 2008. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs um að heimila byggingu bílskúrs og geymslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm. 

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og kusu skipulags- og byggingaryfirvöld að neyta undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Verður að telja að það hafi verið heimilt eins og þarna stóð á, enda verður ekki talið að byggðarmynstur eða yfirbragð byggðarinnar breytist til mikilla muna við tilkomu hins  umdeilda bílskúrs.  Verður nýtingarhlutfall lóðarinnar að Fífuhvammi 25 hóflegt þrátt fyrir tilkomu hinnar umdeildu nýbyggingar en auk þess verður að líta til þess að á íbúðarhúsalóðum í næsta nágrenni við eignina eru víða bílskúrar er standa á eða nærri lóðamörkum.  Má af þessum sökum fallast á með skipulags- og byggingaryfirvöldum að ekki hafi verið skylt að ráðast í gerð deiliskipulags vegna hinnar umdeildu byggingar. 

Kærendur halda því fram að með hinu kærða leyfi sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum þeirra vegna skuggavarps.  Þegar litið er til innbyrðis afstöðu eigna málsaðila og þeirrar byggðar sem fyrir er á svæðinu fellst úrskurðarnefndin ekki á að umdeild bygging hafi slík grenndaráhrif að leiða eigi til ógildingar hins kærða byggingarleyfis.  Verður heldur ekki talið, eins og hér stendur sérstaklega á, að ákvæði 113. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um stærð bílgeymsla, standi í vegi fyrir hinni kærðu ákvörðun enda verður hvorki talið að byggingin valdi verulegri röskun á umhverfi né að aðstæður leyfi ekki byggingu hennar að öðru leyti.  Loks verður að telja að fullnægt sé ákvæðum 75. gr. reglugerðarinnar um brunavarnir þar sem steinsteyptur, gluggalaus veggur er á nýbyggingunni á þeirri hlið er veit að vesturgafli húss kærenda, sem einnig er gluggalaus. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs frá 6. ágúst 2008 um að veita leyfi til að byggja bílskúr á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi. 

 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________   ______________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

75/2007 Krókeyrarnöf

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 75/2007, kæra á synjun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 2. maí 2007 á erindi varðandi leyfi til að byggja kanadískt timbureiningahús með STO Fibercement útveggjum á lóðinni nr. 18 við Krókeyrarnöf, Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júlí 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir V, lóðarhafi lóðar nr. 18 við Krókeyrarnöf, Akureyri, synjun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 2. maí 2007 á erindi kæranda um leyfi til að byggja kanadískt timbureiningahús með STO Fibercement útveggjum á lóðinni nr. 18 við Krókeyrarnöf.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málavextir:  Í júní 2006 fékk kærandi úthlutað byggingarlóð að Krókeyrarnöf 18 í Naustahverfi.  Með bréfi, dags. 26. febrúar 2007, óskaði kærandi eftir leyfi til að byggja kanadískt timbureiningahús með Novabrik hleðslusteinsklæðingu.  Var erindinu hafnað á fundi skipulagsnefndar hinn 28. febrúar 2007 þar sem nefndin vildi halda sig við þá meginstefnu sem gefin væri í gildandi deiliskipulagi svæðisins. 

Kærandi lagði fram nýtt erindi, dags. 13. mars 2007, sem tekið var fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 2. maí 2007, og fór á ný fram á heimild til að fá að byggja kanadískt timbureiningahús en nú með STO Fibercement útveggjum.  Meðfylgjandi var umsögn frá Kanon arkitektum.  Skipulagsnefnd hafnaði umsókninni með eftirfarandi bókun:  „Skipulagsnefnd hafnar erindinu þar sem það samræmist ekki skipulags- og byggingarskilmálum hvað varðar byggingarefni en þar segir í sameiginlegum ákvæðum að byggingar skulu vera steinsteyptar.“  Var kæranda kynnt afgreiðsla málsins með bréfi, dags. 3. maí 2007, og bent á að heimilt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan 3ja mánaða frá birtingu hennar. 

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að ákvæði það er skipulagsnefnd vísi til sé óljóst og bendir á að húsbyggjendur megi t.d. byggja úr blönduðum byggingarefnum, s.s. steinsteypta veggi klædda með timbri eða öðrum efnum að utan sem innan.  Brjóti skipulagsnefnd Akureyrarbæjar stjórnsýslulög með því að leyfa blönduð byggingarefni en hafna samt burðarvirki úr timbri með ytra byrði steinsteyptrar kápu.  Útlit hússins brjóti samkvæmt umsögn frá Kanon arkitektum ekki gegn ákvæðum í deiliskipulagi umrædds svæðis, enda klætt með steinsteyptri kápu.  Hafi kærandi orðið fyrir stórfelldu og ófyrirséðu fjárhagstjóni vegna óeðlilegrar túlkunar nefndarinnar á ákvæðum skipulagsins og áskilji sér rétt til að sækja bætur vegna þess. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í sameiginlegum ákvæðum um hönnun mannvirkja á bls. 2 í greinargerð deiliskipulags svæðisins segi að byggingarnefndarteikningar skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð og skilmála.  Þá segi að allar húsagerðir skuli vera samræmdar í efni.  Samkvæmt sérákvæðum skuli byggingar vera steinsteyptar, þó leyfilegt sé að nota önnur efni í útveggjaklæðningu að hluta, með steinsteyptum flötum.  Hafi umsóknir kæranda því ekki uppfyllt þær kröfur sem settar séu í skipulagsskilmálum. 

Því sé hafnað að ákvæði skilmálanna séu óljós.  Þar sem segi að „…leyfilegt sé að nota önnur efni í útveggjaklæðningu að hluta, með steinsteyptum flötum“, sé átt við þá byggingarhefð sem nú tíðkist að hafa hluta af steinsteyptum veggjum viðarklædda.  

Telji Akureyrarbær að umdeild ákvörðun, sem rót eigi að rekja til skýrra markmiða og sérákvæða um byggingarefni í greinargerð skipulagsins, lögmæta með vísan til 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur í málinu að erindi kæranda, sem hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar laut að, var sett fram í tölvubréfi frá 13. mars 2007.  Var erindinu beint til skipulagsnefndar og fól í sér ósk um að nota STO Fibercement sem byggingarefni á útveggi áformaðs húss að Krókeyrarnöf 18.  Í erindinu var sérstaklega tekið fram að ekki væri óskað breytinga á byggingarskilmálum.  Engar byggingarnefndarteikningar fylgdu erindinu og hafnaði skipulagsnefnd því, eins og að framan er rakið, með þeim rökum að umbeðin útfærsla samræmdist ekki gildandi skipulagi. 

Kærandi sendi skipulagsnefnd síðan erindi hinn 8. maí 2007 með útlitsteikningum þar sem m.a. útveggjum, þaki og gluggum hafði verið breytt.  Lýsti kærandi þar þeirri skoðun sinni að fyrirhugað timburhús með áðurgreindri klæðingu samræmdist gildandi skilmálum og óskaði eftir staðfestingu skipulagsnefndar á þeirri skoðun sinni.  Mun skipulagsnefnd ekki hafa fallist á þá málaleitan.  Þá hefur verið upplýst í málinu að kærandi hafi hinn 10. október 2007 sótt um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu einbýlishúsi á umræddri lóð og var umsóknin samþykkt hinn 1. nóvember 2007.  Mun húsið nú vera risið. 

Umrætt erindi kæranda frá 13. mars 2007 fól ekki í sér byggingarleyfisumsókn og samkvæmt orðalagi erindisins sjálfs var þar ekki farið fram á breytingu á skilmálum gildandi skipulags.  Verður því að skýra erindið svo að þar hafi kærandi leitað álits skipulagsnefndar um hvort áformað timburhús með steypuklæðningu félli að skilmálum gildandi deiliskipulags umrædds svæðis.  Með hinni kærðu afgreiðslu hafnaði skipulagsnefnd því að svo væri. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar nema á annan veg sé mælt í lögum.  Afgreiðsla fyrirspurna eða álitsumleitana fela eðli máls samkvæmt aðeins í sér skoðun eða álit viðkomandi stjórnvalds en teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir þar sem ákvörðun er tekin um réttindi og/eða skyldur aðila í skjóli stjórnsýsluvalds. 

Af framangreindum ástæðum verður hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrar ekki borin undir úrskurðarnefndina og er máli þessu af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                      Þorsteinn Þorsteinsson

 

61/2007 Kópavogsbakki

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 18. október 2006 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 11 við Kópavogsbakka í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 3. sama mánaðar, kærir S, Víðigrund 59, Kópavogi, lóðarhafi Kópavogsbarðs 14, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 18. október 2006 að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 11 að Kópavogsbakka.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 24. október 2006.  Með bréfi, dags. 17. júlí 2007, sem móttekið var næsta dag, kæra S og J, Kópavogsbarði 18 og K og V, Kópavogsbarði 20 sömu ákvörðun.  Liggja lóðir kærenda beint ofan við og skáhallt við lóðina nr. 11 við Kópavogsbakka.  Að baki kærunum búa svipuð sjónarmið og þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verður því svo gert.

Gera kærendur þá kröfu að úrskurðað verði um réttmæti gluggabyggingar á þaki hússins að Kópavogsbakka 11.  Jafnframt er gerð krafa um að þakglugginn verði fjarlægður eða lækkaður niður á þakflöt hússins.  Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar byggingarleyfis fyrir húsið að Kópavogsbakka 11.

Málavextir:  Í marsmánuði 2006 tók gildi deiliskipulag fyrir Kópavogstún og tekur það m.a. til lóðarinnar nr. 11 við Kópavogsbakka.  Deiliskipulaginu var breytt sama ár og fólust breytingar m.a. í stækkun byggingarreita og var auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags birt í B- deild Stjórnartíðinda hinn 25. október 2006.  

Hinn 18. október 2006 var lögð fram á fundi byggingarnefndar Kópavogs umsókn lóðarhafa Kópavogsbakka 11 um leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni.  Bókað var að erindið hefði hlotið afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarráðs í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og var byggingarfulltrúa falið að ljúka afgreiðslu málsins, að uppfylltum framlögðum athugasemdum.  Fundargerð byggingarnefndar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 24. október 2006.  Erindið var síðan samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 25. október 2006.

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa Kópavogs, dags. 4. júní 2007, kom lóðarhafi Kópavogsbarðs 14 á framfæri athugasemdum við byggingu hússins að Kópavogsbakka 11 um það er væri líklega þakgluggi.  Fór hann þess á leit við byggingarfulltrúa að hann hlutaðist til um að bygging hússins yrði færð til samræmis við byggingarleyfið og að hann tæki af öll tvímæli um byggingu þakglugga á téðu húsi. 

Í kjölfar þessa fól byggingarnefnd byggingarfulltrúa að vinna að málinu og afla frekari gagna og með bréfi, dags. 12. júní 2007, tilkynnti byggingarfulltrúi lóðarhafa Kópavogsbakka 11 að til skoðunar væri hvort stöðva þyrfti framkvæmdir við hús hans þar sem byggingarleyfið samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi.  Með bréfi, dags. 15. júní 2007, setti arkitekt hússins að Kópavogsbakka 11 fram þá skoðun sína að hönnun hússins væri samkvæmt skipulagsskilmálum fyrir Kópavogstún og benti á að hvorki byggingarnefnd né skipulagsnefnd hefðu gert athugasemd við þakgluggann en hann hefði verið sýndur á teikningum.   

Þá rituðu lóðarhafar Kópavogsbarðs 18 og 20 byggingarfulltrúa bréf, dags. 19. júní 2007, og fóru fram á að svokallaður þakgluggi hússins að Kópavogsbakka 11 yrði fjarlægður þar sem hann væri í andstöðu við skipulag á svæðinu.  Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. júní 2007, var bent á að málinu hefði verið vísað til skipulagsstjóra sem myndi kynna þeim lóðarhöfum sem málið varðaði rétt sinn.   

Í bréfi skipulagsstjóra, dags. 25. júní 2007, var vikið að því að samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi frá júlí 2006 fyrir lóðina að Kópavogsbakka 11 hefði verið kynnt lóðarhöfum Kópavogsbakka 10 og 13 og Kópavogsbarðs 16 og 18 og að engar athugasemdir hefðu borist.  Jafnframt sagði m.a. svo í fyrrnefndu bréfi:  „Í kynningargögnum sem send voru á […] lóðarhafa var tekið fram sbr. erindi lóðarhafa að fá leyfi til að bílageymsla fari út fyrir byggingarreit en ekki tekið fram að þakkvistur fari upp fyrir hæð byggingarreits.  Þar sem ekki var tekið fram að um hækkun á byggingarreit væri að ræða fór kynning ekki víðar en til […] lóðarhafa.  Byggingarleyfi hefur þegar verið gefið út.“  

Hafa kærendur skotið framangreindri samþykkt byggingarnefndar frá 18. október 2006 til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið.

Málsrök kærenda:  Lóðarhafi Kópavogsbarðs 14 bendir á að beiðni lóðarhafa Kópavogsbakka 11 um að hafa hallandi þak á húsi sínu hafi verið synjað af hálfu skipulagsyfirvalda.  Í bókunum skipulagsnefndar Kópavogs hafi hvergi verið vakin athygli á umræddum þakglugga en ætla megi að breytingin svari til hæðar hússins með hallandi þaki eins og áður hafi verið synjað.  Hafi hvorki útfærsla á bílageymslu né hækkun á þakglugga verið kynnt kæranda en síðarnefnd breyting snerti þó engan fremur en hann.

Téð gluggabygging skyggi verulega á útsýni frá aðalhæð húss kæranda en hún rísi um einum og hálfum metra hærra en það sem almennt tíðkist í götunni.

Lóðarhafar að Kópavogsbarði 18 og 20 benda á að í skipulagsskilmálum fyrir nýbyggingarsvæðið, sem legið hafi til grundvallar við lóðarúthlutun einbýlis- og parhúsalóða, sé sérstaklega kveðið á um hámarkshæðir bygginga og tekið fram að þök þeirra skuli vera flöt.  Lóðarhafi Kópavogsbakka 11 hafi reist ofanljósglugga, sem brjóti í bága við þessar hámarkshæðir og skyggi á útsýni kærenda yfir Kópavoginn til vesturs. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær krefst þess aðallega að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærur séu of seint fram komnar.  Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Byggingarleyfið hafi verið samþykkt 25. október 2006 og breytingar á því í janúar og mars 2007 og kærufrestir þar af leiðandi þegar liðnir.  Fokheldisvottorð fyrir mannvirkið hafi verið gefið út 23. maí 2007 og hafi kærendum þá mátt vera ljóst að umræddur þakgluggi hafi verið reistur.

Til vara sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað þar sem útgefið byggingarleyfi sé að fullu í samræmi við gildandi skipulag.  Í 4. gr. skilmála deiliskipulags fyrir Kópavogsbakka segi eftirfarandi:  „Húshæð er gefin upp sem a) bindandi hæðafjöldi b) hámarkshæð byggingar yfir aðkomukóta.  Efsti hluti þaks má ná upp í uppgefna hámarkshæð, en getur verið lægri.  Hæðarkótar fyrir aðkomuhæðir húsa eru sýndir á hæðarblaði.  Hámarkshæð húsa er gefin upp á skilmálateikningu og er hún miðuð við hæð yfir tilgreindum hæðarkóta aðkomuhæðar.  Mesta hæð húss talið frá aðkomuhæð er 4,0 metrar.  Þakgluggar, skorsteinar og loftræstibúnaður mega þó fara upp fyrir hámarkshæð þaks.“

Í skilmálum sé ekki kveðið á um form eða útlit þakglugga eða aðrar skorður settar við hönnun þeirra.  Umræddur þakgluggi sé því í fullu samræmi við samþykkta deiliskipulagsskilmála.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá.  Er sú krafa á því byggð að kærur séu allt of seint fram komnar.  Samkvæmt niðurlagi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til nefndarinnar einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Byggingarleyfi hafi verið veitt 28. október 2006 og þá hafi teikningar sem sýndu umræddan þakglugga og hæðarkóta hans verið fyrirliggjandi en þær upplýsingar hafi legið fyrir frá fyrstu teikningum að húsinu. 

Kært sé í máli þessu rúmlega níu mánuðum eftir að byggingarleyfið hafi verið veitt og jafnvel þótt litið yrði til þeirra breytinga á byggingarleyfi sem samþykktar hafi verið í janúar, mars og apríl 2007 og talið að þau tímamörk marki upphaf kærufrests hafi kærufrestur allt að einu verið löngu liðinn þegar umræddar kærur hafi borist.  Kærendum hafi einnig mátt vera löngu kunnugt um áhrif þakgluggans en lokið hafi verið við að steypa húsið í byrjun apríl 2007 og þá þegar hafi þeim mátt vera vel kunnugt um áhrif hans.  Atvik málsins séu öll með þeim hætti að kærur berist mun síðar en lögbundnir kærufrestir áskilji.

Byggingarleyfishafi eigi að geta treyst því að útgefið byggingarleyfi sé lögmætt og afar mikilvægt sé að ákveðinn varanleiki sé tryggður eftir útgáfu leyfa enda fari fram mikil verðmætasköpun á grundvelli þeirra.  Sé þetta meðal þeirra lagaraka sem búi að baki þeim tiltölulega stutta kærufresti sem veittur sé í skipulags- og byggingarlögum og einkar mikilvægt sé að eftir honum sé farið.  Þannig krefjist hinir ríku hagsmunir byggingarleyfishafa þess að kærufrestur sé túlkaður þröngt og eftir orðanna hljóðan settra lagaákvæða og að þau tímamörk sem lögin áskilji gildi varðandi fram komnar kærur.

Til vara krefjast byggingarleyfishafar þess að kröfum kærenda verði hafnað.  Tekið sé að öllu leyti undir og vísað til málsástæðna sem fram komi í greinargerð Kópavogsbæjar þeirri kröfu til stuðnings.  Sé sérstaklega á það bent að umræddur þakgluggi sé í samræmi við skilmála deiliskipulags fyrir Kópavogstún en í 4. gr. þeirra sé þess sérstaklega getið að þakgluggar, skorsteinar og loftræstibúnaður megi fara upp fyrir hámarkshæð þaks.  Skipulagsskilmálar takmarki ekki þessa undanþágu eða afmarki hana frekar.  Feli skýrt orðalag skilmálanna, sem kærendum hafi mátt vera fullkunnugt um, í sér að umræddur þakgluggi sé heimill.  Skilji bæði veitingavaldshafi og hönnuður skipulagsins skilmálana á þann veg að umdeildur þakgluggi samræmis þeim fyllilega.  Einnig sé bent á að af kærum málsins verði séð að ekki sé deilt um að umræddur gluggi teljist þakgluggi.

Bent sé á að veruleg og alvarleg röskun felist í því að gera nú breytingar á fyrrgreindum þakglugga.  Kalli það á verulega breytta heildarhönnun hússins ef nú eigi að fara að breyta skipulagi þakgluggans eftir að húsið sé nánast fullklárað, bæði að innan að utan.  

Þá mótmæla byggingarleyfishafar því að beiðni þeirra um hallandi þak hafi verið hafnað, en um fyrirspurn af þeirra hálfu hafi verið að ræða sem hafi verið svarað með þeirri ábendingu að slíkt samræmdist ekki gildandi skipulagi.  Jafnframt sé bent á að þeir hafi fyrstir lóðarhafa byrjað framkvæmdir í Kópavogstúni en íbúar við Kópavogsbarð nokkru seinna.

Sjónarmið um greinargerð Kópavogsbæjar:  Lóðarhafi Kópavogsbarðs 14 tekur fram að honum hafi ekki verið ljóst að þessi viðbót við húsið að Kópavogsbakka 11 stæði til fyrr en í júlí 2007 þegar mót hafi verið tekin utan af húsi kæranda og útsýni hafi opnast út um stofugluggann.  Þá rýri umræddur þakgluggi söluverðmæti húss kæranda og lífsgæði þeirra er þar búi.     

                                                                  —————————

Málsaðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 27. maí 2008.

Niðurstaða:  Af hálfu Kópavogsbæjar og byggingarleyfishafa er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærur hafi borist að liðnum kærufresti. 
Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Skal, samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti, nema talið verði afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna. 

Kærendur máls þessa eru lóðarhafar í næsta nágrenni við Kópavogsbakka 11 en varhugavert verður þó að fullyrða að þeim hafi mátt vera kunnugt um hinn umdeilda byggingarhluta á þaki hússins fyrr en það var að fullu risið.  Fokheldisvottorð vegna hússins var gefið út 23. maí 2007 og gerðu kærendur máls þessa athugasemdir við byggingu svonefnds þakglugga með bréfum, dags. 4. júní og 19. júní 2007. 

Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 25. júní 2007, var kærendum tilkynnt að byggingarleyfi hefði verið gefið út og bent á að byggingarnefnd hefði fjallað um málið á fundi 20. júní s.á. og frestað til næsta fundar 4. júlí.  Var jafnframt bent á að þeir sem teldu rétti sínum hallað gætu skotið máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála innan mánaðar frá dagsetningu bréfsins skv. 8. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997.  Verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að kærendum máls þessa hafi fyrst mátt vera kunnugt um að hinn umdeildi byggingarhluti hafi í raun verið samþykktur af byggingaryfirvöldum er þeim barst ofangreint svarbréf skipulagsstjóra.  Þegar litið er til þessa er það álit úrskurðarnefndarinnar að kærur í málinu hafi borist innan kærufrests.

Í máli þessu er um það deilt hvort leyfi byggingarnefndar frá 18. október 2006, fyrir byggingu húss að Kópavogsbakka 11 sé í samræmi við deiliskipulag fyrir umrætt svæði að því er varðar umdeildan byggingarhluta á þaki hússins.  Deiliskipulag fyrir Kópavogstún tók gildi árið 2006 og í skilmálum þess er umfjöllun um hæð húsa í 4. grein.  Þar segir m.a. að mesta hæð húss talið frá aðkomuhæð sé 4,0 m en að „…þakgluggar, skorsteinar og loftræstibúnaður mega þó fara upp fyrir hámarkshæð þaks.“ 

Ekki er í skipulaginu kveðið á um ákveðna gerð eða útlit þakglugga.  Verður hins vegar  að telja að tilvitnaða undanþágu frá leyfðri hámarkshæð þaks verði að túlka þröngt og að hún taki einungis til þeirra byggingarhluta sem þar eru nefndir berum orðum og að miða verði við hefðbundna orðanotkun.

Samkvæmt teikningum rís umþrættur byggingarhluti 1,24 m upp fyrir efri brún útveggja hússins og er um 6 m á breidd fyrir miðju húsi.  Veit þakflötur mót norðri með um 30º þakhalla en að sunnanverðu er lóðréttur gluggi sem veitir birtu inn í miðrými hússins.

Úrskurðarnefndin telur að umfang umrædds byggingarhluta sé talsvert meira en búast hafi mátt við þegar litið sé til gildandi skipulagsskilmála og líta verði á byggingarhlutann sem einhvers konar kvist fremur en þakglugga.  Er sú niðurstaða í samræmi við það mat byggingarnefndar, sem getið er um í fyrirliggjandi bréfi byggingarfulltrúa frá 11. júní 2007, að ekki sé eðlilegt að skilgreina byggingarhlutann sem þakglugga, heldur sem einskonar kvist.

Samkvæmt því sem að framan er rakið fellur umdeildur byggingarhluti ekki undir undanþáguheimild skipulagskilmála um hámarkshæð húsa og verður því fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hið kærða byggingarleyfi þó aðeins fellt úr gildi að því er varðar hinn umdeilda byggingarhluta á þaki hússins.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 18. október 2006 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 11 við Kópavogsbakka í Kópavogi að því er varðar umdeildan byggingarhluta á þaki hússins.

 

 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

22/2007 Garðavegur

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2007, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 26. júlí 2006 um synjun á beiðni um leyfi til ganga frá lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. mars 2007, er barst  nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir Guðmundur Siemsen hdl., f.h. Olíudreifingar ehf., þá samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 26. júlí 2006 að synja beiðni um leyfi til að ganga frá lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg.   

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:    Í bréfi kæranda, dags. 20. júlí 2006, til byggingarfulltrúa sagði m.a. eftirfarandi:  „Olíudreifing ehf. og áður Olíufélagið hf. hefur haft svartolíugeymi á lóð sinni við Garðaveg til fjölda ára.  Geymir þessi hefur verið undir svartolíu fyrir verksmiðju Vinnslustöðvarinnar og aðra svartolíuafgreiðslu félaganna í Vestmannaeyjum.  Til að uppfylla reglugerð um mengunarvarnir þarf að ganga frá lekavaraþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við ofangreindan geymi.  Meðfylgjandi er teikning … þar sem fram kemur fyrirkomulag og búnaður sem fyrirhugað er koma upp við geyminn til að uppfylla mengunarvarnarreglur … Hér með er óskað eftir samþykki viðkomandi nefnda bæjarins fyrir framkvæmd þessari.“

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 26. júlí 2006 var erindi kæranda hafnað með eftirfarandi bókun: 

„Framkvæmdaleyfi
Garðavegur 13
 Árni Ingimundarson f.h. Olíudreifingar ehf. sækir um leyfi fyrir eftirfarandi framkvæmdum á lóð Olíudreifingar Garðavegi 13 skv. meðfylgjandi teikningum.
• Lekavarnarþró
• Áfyllingaraðstöðu
• Fráveitu við svartolíugeymi.
Afgr. ráðs
Ráðið hafnar umsókn og bendir á að samkvæmt ákvæðum í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014 er framtíðaruppbygging olíubirgðastöðva á svæði IS-6 (Eiði).  Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.“

Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 27. júlí 2006, var tilkynnt um fyrrgreinda bókun.  Þar sagði ennfremur:  „Afgreiðsla þessi er háð samþykki bæjarstjórnar, og verður tilkynnt yður tafarlaust ef hún breytist.“ 

Með bréfi til bæjarstjórnar, dags. 24. ágúst 2006, mótmælti kærandi ofangreindri afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs.  Sama dag var afgreiðsla ráðsins samþykkt á fundi bæjarstjórnar. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. ágúst 2006, krafðist kærandi þess að úrskurðað yrði um það hvort framkvæmdir á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum væru háðar framkvæmdaleyfi en hann taldi svo ekki vera.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 20. september 2006 var bréf kæranda til bæjarstjórnar, dags. 24. ágúst s.á., lagt fram.  Var eftirfarandi m.a. fært til bókar:  „Ráðið vísar til bókunar dags. 06.07.2006 (sic) sem tekin var með vísan í Aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014.“

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2007 gerði Vestmannaeyjabær grein fyrir sjónarmiðum sínum til kærunnar.  Þar kom fram að afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. júlí 2006 hafi verið staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 24. ágúst 2006.

Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu lögmanns kæranda er vísað til þess að hinn 27. júlí 2006 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi sent kæranda tilkynningu um afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs þar sem greint hafi verið frá því að ráðið hafi hafnað umsókn kæranda.  Í bréfinu hafi verið vísað til þess að samkvæmt ákvæðum Aðalskipulags Vestmannaeyja 2002-2014 væri framtíðaruppbygging olíubirgðastöðva á svæði IS-5 (Eiði).  Þá hafi verið einnig vísað til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Hafi kærandi talið að umhverfis- og skipulagsráð hafi meðhöndlað umsókn hans sem umsókn um framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Af greinargerð Vestmannaeyjabæjar í tilefni af erindi kæranda varðandi úrlausn um framkvæmdarleyfi í hinu fyrra kærumáli megi ráða að bæjarstjórn hafi synjað um útgáfu byggingarleyfis, skv. 43. gr. laganna, með vísan til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir kæranda samræmdust ekki gildandi aðalskipulagi. 

Þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi tekið stjórnvaldsákvörðun er snerti umtalsverða hagsmuni kæranda hafi ákvörðun bæjarins ekki verið birt honum í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hafi kæranda ekki enn verið birt ákvörðun bæjarstjórnar og hafi honum fyrst orðið kunnug um hana við lestur greinargerðarinnar.

Hin ámælisverða vanræksla bæjaryfirvalda um að gæta að meginreglu stjórnsýsluréttarins um birtingu stjórnvaldsákvarðana leiði til þess að kæranda hafi hvorki verið veitt færi á að fá ákvörðunina rökstudda né hafi honum verið leiðbeint um kæruheimild og kærufresti.

Af vanrækslu bæjaryfirvalda á birtingu ákvörðunarinnar og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga leiði jafnframt, að upphaf kærufrests samkvæmt 2. mgr. 10. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, beri að miða við 6. mars 2007, þegar greinargerð bæjarins hafi borist frá úrskurðarnefndinni, enda hafi kæranda þá fyrst verið ákvörðunin kunnug. 

Þá sé einnig vísað til þess að tilkynning byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 21. september 2006, þar sem greint hafi verið frá afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs vegna mótmæla kæranda á afgreiðslu hins kærða erindis hafi ekki falið í sér tilkynningu um ákvörðun bæjarstjórnar.  Auk þess sem hún hafi verið efnislega samhljóða fyrri tilkynningu ráðsins og með sama fyrirvara um að afgreiðslan væri háð samþykki bæjarstjórnar.  Af henni hafi því ekki verið ráðið að bæjarstjórn hefði þegar tekið ákvörðun í málinu. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um, eða mátti vera kunnugt um, ákvörðun þá er kærð er til nefndarinnar. 

Eins og áður greinir óskaði kærandi máls þessa eftir heimild bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum til að ganga frá lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg.  Umhverfis- og skipulagsráð hafnaði erindinu á fundi hinn 26. júlí 2006 og var synjunin staðfest á fundi bæjarstjórnar  hinn 24. ágúst s.á.  Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 27. júlí 2006, var tilkynnt um afgreiðslu ráðsins.  Í bréfinu sagði ennfremur:  „Afgreiðsla þessi er háð samþykki bæjarstjórnar, og verður yður tilkynnt tafarlaust ef hún breytist.“  Afgreiðslu þessari mótmælti kærandi við bæjarstjórn.  Voru mótmælin tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þar sem fyrri afgreiðsla ráðsins var ítrekuð og hún tilkynnt kæranda með sama fyrirvara og hin fyrri, þ.e. að hún væri háð samþykki bæjarstjórnar og um það yrði tilkynnt tafarlaust ef hún yrði ekki samþykkt. 

Í ljósi framanritaðs verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun löngu áður en kæra barst úrskurðarnefndinni.  Er ekkert í gögnum málsins sem gaf kæranda tilefni til að ætla annað en að bæjarstjórn hefði staðfest afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs, enda sérstaklega tilgreint að honum yrði tilkynnt ef svo yrði ekki, samanber áðurnefnt bréf byggingarfulltrúa, dags. 27. júlí 2006. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 14. mars 2007 og var kærufrestur þá löngu liðinn.  Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, enda þykir atvikum ekki þannig háttað, eins og hér stendur á, að efni séu til að beita undantekningarheimild 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. gr. laganna.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

69/2006 Garðavegur

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2006, krafa um að skorið verði úr vafa um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum séu háðar framkvæmdaleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. ágúst 2006, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, krefst Oddgeir Einarsson hdl., f.h. Olíudreifingar ehf. þess að úrskurðað verði að framkvæmdir á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum séu ekki háðar framkvæmdaleyfi.

Málavextir:  Í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 20. júlí 2006, sagði m.a. eftirfarandi:  „Olíudreifing ehf. og áður Olíufélagið hf. hefur haft svartolíugeymi á lóð sinni við Garðaveg til fjölda ára.  Geymir þessi hefur verið undir svartolíu fyrir verksmiðju Vinnslustöðvarinnar og aðra svartolíuafgreiðslu félaganna í Vestmannaeyjum.  Til að uppfylla reglugerð um mengunarvarnir þarf að ganga frá lekavaraþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við ofangreindan geymi.  Meðfylgjandi er teikning … þar sem fram kemur fyrirkomulag og búnaður sem fyrirhugað er koma upp við geyminn til að uppfylla mengunarvarnarreglur … Hér með er óskað eftir samþykki viðkomandi nefnda bæjarins fyrir framkvæmd þessari.“

Á fundi umhverfis– og skipulagsráðs hinn 26. júlí 2006 var erindi kæranda hafnað með eftirfarandi bókun: 

Framkvæmdaleyfi
Garðavegur 13
 Árni Ingimundarson f.h. Olíudreifingar ehf. sækir um leyfi fyrir eftirfarandi framkvæmdum á lóð Olíudreifingar Garðavegi 13. skv. meðfylgjandi teikningum.
• Lekavarnarþró
• Áfyllingaraðstöðu
• Fráveitu við svartolíugeymi.
Afgr.ráðs
Ráðið hafnar umsókn og bendir á að samkvæmt ákvæðum í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014 er framtíðaruppbygging olíubirgðastöðva á svæði IS-6 (Eiði).
Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997“

Með bréfi til bæjarstjórnar, dags. 24. ágúst 2006, mótmælti kærandi ofangreindri afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs.  Sama dag var afgreiðsla ráðsins samþykkt á fundi bæjarstjórnar.  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 20. september 2006 var fyrrgreint bréf kæranda, dags. 24. ágúst s.á., lagt fram.  Var eftirfarandi m.a. fært til bókar:  „Ráðið vísar til bókunar dags. 06.07.2006 (sic) sem tekin var með vísan í Aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014.“

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þurfi framkvæmdarleyfi teljist framkvæmd vera meiriháttar og hún breyti ásýnd umhverfis eða sé matsskyld samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Kærandi telji framkvæmdina ekki vera meiriháttar heldur sé um eðlilegar breytingar að ræða vegna hertra umhverfiskrafna.  Jafnvel þótt framkvæmdirnar teldust vera meiriháttar verði varla talið að um sé að ræða meiriháttar breytingu á ásýnd umhverfisins. 

Telji kærandi að ekki þurfi sérstakt framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar þrátt fyrir að um það hafi verið sótt.  Tilkynning skipulags- og byggingarfulltrúa um að umsókn kæranda hafi verið hafnað bendi til þess að vafi kunni að vera á ferðinni.  Af þeim sökum beri að úrskurða í málinu, sbr. 8. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.  

Málsrök Vestmannaeyjabæjar:  Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er bent á að kærandi óski eftir úrlausn úrskurðarnefndarinnar um hvort framkvæmdir á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum séu háðar framkvæmdaleyfi og sé staðhæft að erindi hans hafi verið meðhöndlað sem umsókn um framkvæmdaleyfi.  Um misskilning sé að ræða hjá kæranda sökum þess að efst á útskriftarblaði tilkynningar um hina kærðu ákvörðun hafi verið ritað Framkvæmdaleyfi.  Aftur á móti sé ekkert í afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs sem gefið hafi ástæðu til að álykta með þessum hætti.  Þvert á móti hafi verið sérstaklega bent á að ekki væri gert ráð fyrir framtíðaruppbyggingu olíubirgðastöðva á umræddu svæði heldur úti á Eiði.  Þá hafi kæranda einnig verið í lófa lagið að óska eftir frekari upplýsingum eins og fram komi á tilkynningarblaðinu. 

Samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sé um að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir og í 1. mgr. 43. gr. laganna komi fram að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falli undir IV. kafla laganna nema að fegnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.       

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar í máli þessu.  

Niðurstaða:  Úrlausnarefni máls þessa lýtur að því hvort frágangur við lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg séu framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt greindu lagaákvæði eru þær framkvæmdir leyfisskyldar sem teljast meiri háttar og hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku.  Nánar er fjallað um framkvæmdaleyfi í gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Af framangreindum réttarreglum verður ráðið að einungis þær framkvæmdir sem vegna eðlis eða umfangs hafi veruleg áhrif á umhverfið séu framkvæmdaleyfisskyldar.  Hvort svo sé verður að meta í hverju tilfelli fyrir sig, m.a. með hliðsjón af staðháttum.

Samkvæmt teikningu sem fylgdi beiðni kæranda til byggingarfulltrúa var ætlunin m.a. sú að gengið yrði þannig frá mengunarvörnum að birgðastöð sem fyrir er á lóðinni nr. 13 við Garðaveg uppfyllti kröfur mengunarvarnarreglugerðar og að gengið yrði frá steinsteyptri varnarþró um geymi sem er með steinsteyptum botni og veggjum.  

Með hliðsjón af eðli og umfangi umræddra framkvæmda telur úrskurðarnefndin að þær geti hvorki talist meiri háttar né að þær hafi umtalsverð áhrif á umhverfið.  Verður því ekki talið að þær séu leyfisskyldar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Eins og kröfugerð kæranda er háttað verður ekki í máli þessu tekin afstaða til þess hvort umrædd framkvæmd sé háð byggingarleyfi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við  lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum eru ekki háðar framkvæmdaleyfi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________              ____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

140/2007 Hraðamyndavélar

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 140/2007, málaleitan sveitarfélagsins Hvalfjarðarsveitar um að úrskurðað verði um byggingarleyfisskyldu uppsetningar hraðamyndavéla við stofnbrautir. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. október 2007, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, fer sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit fram á að tekin verði afstaða til þess hvort uppsetning hraðamyndavéla við stofnbrautir séu háð byggingarleyfi. 

Málsatvik og rök:  Málshefjandi vísar til þess að sumarið 2007 hafi verið settar upp tvær hraðamyndavélar í Hvalfjarðarsveit.  Samningur virðist hafa verið gerður um uppsetningu vélanna á vegum Ríkislögreglustjóra, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu f.h. samgönguráðuneytis.  Uppsetning þessara tækja sé einungis upphaf þess sem koma skuli þar sem unnið hafi veri að uppsetningu sjö nýrra stafrænna hraðamyndavéla víða um land á árinu 2007 og fyrirhuguð sé uppsetning sjö til viðbótar árið 2008.  Hvorki hafi verið sótt um leyfi fyrir hraðamyndavélum til skipulags- og byggingarnefndar Hvalfjarðarsveitar né sveitarstjórn gert aðvart um þær framkvæmdir. 

Samkvæmt 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 sé uppsetning hraðamyndavéla við stofnvegi háð leyfi Vegagerðarinnar en ekki sé þar með sagt að leyfi annarra þurfi ekki til að koma fyrir slíkum framkvæmdum.  Sú meginregla komi fram í 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að hvers konar mannvirki séu byggingarleyfisskyld en í upptalningu ákvæðisins á undantekningum frá þeirri meginreglu komi ekki fram að uppsetning hraðamyndavéla sé undanþegin byggingarleyfi.  Vegna vafa í þessu efni og með vísan til 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sé því óskað eftir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það hvort opinberir aðilar geti sett upp hraðamyndavélar við stofnbrautir án byggingarleyfis. 

Af hálfu Vegagerðarinnar er á það bent að samkvæmt 32. gr. núgildandi vegalaga nr. 80/2007 sé óheimilt að staðsetja hverskyns mannvirki, föst eða laus, innan 30 metra frá miðlínu stofnvega nema að fengnu leyfi Vegagerðarinnar.  Vegagerðin sé veghaldari þjóðvega skv. 1. mgr. 13. gr. vegalaga en í því felist forræði á vegi og vegsvæði.  Vegur sé skilgreindur með eftirfarandi hætti í 8. tl. 1. mgr. 3. gr. vegalaga:  „Vegur:  Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa að honum sem fyllst not.“ 

Umferðaröryggi sé mikilvægur þáttur í skyldum veghaldara og hluti veghalds sé að tryggja umferðaröryggi sem kostur sé.  Skýrt komi fram í frumvarpi til núgildandi vegalaga að mikilvægt markmið laganna sé að auka umferðaröryggi.  Viðurkennt sé að eftirlit og löggæsla sé nauðsynleg til þess að auka umferðaröryggi á þjóðvegum.  Gerð, rekstur og viðhald mannvirkja í þessu skyni, svo sem eftirlitsstaðir og plön og viðeigandi merkingar, séu talin óaðskiljanlegur hluti veghalds og séu vegamannvirki þessi því hluti vegar.  Sama eigi við um ýmiskonar mælitæki, svo sem umferðargreina, vefmyndavélar sem sýni færð og veður, veðurstöðvar og annan búnað sem notaður sé til upplýsingaöflunar og til að auka umferðaröryggi. 

Uppsetning umferðarmerkja teljist til veghalds og merkin til vegamannvirkja og hluta vegar í skilningi vegalaga og hafi verið ágreiningslaust að umferðarmerkingar falli utan byggingarleyfisskyldu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og telji Vegagerðin það einnig eiga við um uppsetningu hraðamyndavéla.  Samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga séu einungis varanlegar húsbyggingar, sem gerðar séu í tengslum við vegaframkvæmdir, byggingarleyfisskyldar en ekki önnur mannvirki tengd vegi og notkun vega.  Engin rök leiði til þess að hraðamyndavélar umfram annan búnað við veg eigi að teljast byggingarleyfisskyldar.  Ekki verði séð að slíkar myndavélar hafi meiri áhrif á umhverfið en annar búnaður við veg, svo sem skilti, skiltabrýr, vegrið o.fl.  Að lokum megi þess geta að uppsetning hraðamyndavéla við vegi sé ekki byggingarleyfisskyld í Noregi og muni svipað eiga við annars staðar á Norðurlöndum. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur IV. kafli laganna um mannvirki til hvers konar bygginga, ofan jarðar og neðan.  Þá er í 1. mgr. 43. gr. laganna kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Hugtakið mannvirki er skilgreint í gr. 4.26 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sem jarðföst framkvæmd, t.d. virkjun, hús, brú, línumastur eða skiltastandur. 

Tiltekin mannvirki  eru  hins vegar undanþegin byggingarleyfisskyldu samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga séu þau á vegum opinberra aðila eða unnin samkvæmt sérlögum.  Vegir og götur eru þar m.a. undanþegnar byggingarleyfisskyldu en í ákvæðinu er þó tekið fram að byggingarleyfi þurfi fyrir varanlegum húsbyggingum sem gerðar séu í tengslum við umrædd mannvirki ásamt fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum.  Af þessu orðalagi verður ráðið að annar venjulegur umbúnaður og mannvirki í tengslum við umræddar framkvæmdir séu ekki háð byggingarleyfi. 

Ýmis mannvirki tengd vegi og notkun hans, svo sem umferðarskilti, hafa ekki verið talin byggingarleyfisskyld samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga enda metin sem eðlilegur og nauðsynlegur búnaður við notkun vega.  Með uppsetningu hraðamyndavéla við vegi er verið að sinna löggæslu og væntanlega einnig að sporna við hraðakstri og auka þar með öryggi vegfarenda.  Slíkur búnaður hefur á seinni árum í auknu mæli verið tekinn í notkun við vegaeftirlit, hérlendis og erlendis, og verður nú að teljast venjulegur og eðlilegur búnaður við rekstur og notkun vega.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hraðamyndavélar eins og þær sem settar voru upp í Hvalfjarðarsveit séu ekki byggingarleyfisskyldar, enda falli þær undir undanþáguákvæði 2. mgr. 36. greinar skipulags- og byggingarlaga sem venjulegur búnaður tengdur rekstri og notkun vega.

Afgreiðsla máls þessa hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Uppsetning hraðamyndavéla við stofnbrautir á vegum Vegagerðarinnar er ekki byggingarleyfisskyld samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                  Ásgeir Magnússon

53/2008 Helguvík

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2008, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 27. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir T, Bleikjukvísl 1, Reykjavík, þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Síðar, eða með bréfi, dags. 6. ágúst 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 11. ágúst 2008, kærir E, Skógarbraut 926, Reykjanesbæ, sömu ákvarðanir.  Með bréfi, dags. 11. ágúst 2008, sem póstlagt var sama dag, en barst úrskurðarnefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir G, Garðabraut 78, Garði einnig sömu ákvarðanir.  Með hliðsjón af málatilbúnaði kærenda verður ekki séð að neitt standi því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verða síðari tvö kærumálin, sem eru nr. 75/2008 og 81/2008, því sameinuð hinu elsta, en það er nr. 53/2008. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs hinn 2. júlí 2008 var lagt til við sveitarstjórn að samþykkt yrði umsókn Norðuráls Helguvíkur sf. um byggingu álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Var tillaga nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 3. sama mánaðar.  Þá var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar hinn 2. júlí 2008 samþykkt tillaga sama efnis og hún samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar hinn 3. sama mánaðar. 

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að áhrif byggingar álvers í Helguvík verði mikil í samfélaginu á Suðurnesjum.  Álverið muni hafa neikvæð áhrif á annan rekstur, svo sem ferðamennsku, heilsustarfsemi.  Það mengi og spilli náttúru og heilsu fólks. 

Þá telji kærendur að með hinu kærða leyfi sé brotið gegn réttindum þeirra sem þegna í réttarríki með brotum á grundvallargildum, ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegum skuldbindingum. 

Af hálfu Reykjanesbæjar og Garðs er þess krafist að kærunum verði vísað frá sökum þess að kærendur eigi ekki einstaklegra eða lögvarinna hagsmuna að gæta og eigi því ekki aðild að málinu, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum eiga umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, sem varnarþing eiga á Íslandi, jafnframt sama rétt enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.  Er aðild slíkra samtaka, eðli máls samkvæmt, ekki bundin því skilyrði að þau eigi lögvarinna hagmuna að gæta. 

Kærendur máls þessa eru einstaklingar og eru þeir búsettir í talsverðri fjarlægð frá þeim stað þar sem hin umdeildu mannvirki eiga að rísa.  Hafa þeir í kærum sínum vísað til sjónarmiða er fremur lúta að almannahagmunum en einkahagsmunum og hefur enginn þeirra sýnt fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski neinum einstaklingsbundnum rétti.  Verða þeir því ekki taldir eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         _________________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

68/2008 Helguvík

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2008, kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Krefjast samtökin ógildingar leyfanna.  Til bráðabirgða er þess og krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til málið hafi verið til lykta leitt, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 29. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður stöðvunarkrafan nú tekin til úrskurðar. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs hinn 2. júlí 2008 var lagt til við sveitarstjórn að samþykkt yrði umsókn Norðuráls Helguvíkur sf. um byggingu álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Var tillaga nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 3. sama mánaðar.  Þá var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar hinn 2. júlí 2008 samþykkt tillaga sama efnis og hún samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar hinn 3. sama mánaðar. 

Kærandi kveður forsögu málsins vera þá að Náttúruverndarsamtök Íslands hafi kært byggingarleyfi sem sveitarstjórnir Garðs og Reykjanesbæjar hafi gefið út hinn 12. mars 2008.  Eftir að sveitarstjórnirnar hafi áttað sig á að gallar hafi verið á þeim leyfisveitingum hafi leyfið verið afturkallað hinn 2. júlí 2008 og nýtt leyfi gefið út daginn eftir.  Þar með sé ljóst að framkvæmdir sem hafnar hafi verið á grundvelli hins áður kærða leyfis hafi verið ólöglegar.  Því sé ástæða til að undirstrika bráðabirgðakröfu samtakanna um að framkvæmdir verði stöðvaðar án tafar þar til málið hafi verið til lykta leitt. 

Kærandi vísar einkum til þess að í áliti Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík séu gerðir þrír fyrirvarar sem leyfisveitendum sé gert að horfa til við útgáfu leyfa.  Fyrirvarar Skipulagsstofnunar varði óvissu varðandi orkuöflun, orkuflutninga og losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir.

Útgáfa framkvæmdaleyfisins (byggingarleyfis) uppfylli ekki 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en þar komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, en þess hafi ekki verið gætt. 

Af hálfu sveitarfélaga þeirra sem gáfu út hið kærða byggingarleyfi er á því byggt að það sé meginregla stjórnsýsluréttar, sem m.a. komi fram í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993,  að kæra fresti ekki réttarhrifum ákvörðunar.  Með hliðsjón af þeirri meginreglu telji sveitarfélögin að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála verði að túlka heimildir sínar til að stöðva framkvæmdir þröngt og beita þeim af mikilli varfærni. 

Í því tilviki sem hér um ræði sé ljóst að umfangsmikil undirbúningsvinna og jarðvegsframkvæmdir eigi eftir að fara fram áður en hafist verði handa við byggingu varanlegra mannvirkja á svæðinu.  Sveitarfélögin fái því ekki séð að hagsmunum kæranda sé nein hætta búin þótt framkvæmdir verði ekki stöðvaðar þar til efnisúrskurður verði lagður á málið. 

Þá sé á það bent að kærandi hafi ekki fært fram nein efnisleg rök fyrir því að hvaða leyti framkvæmdir á grundvelli leyfisins raski lögmætum hagsmunum hans eða á hvaða forsendum öðrum rétt sé að stöðva framkvæmdir.  Ljóst sé hins vegar að verði framkvæmdirnar stöðvaðar, þó ekki væri nema um stuttan tíma, muni það leiða til verulegs tjóns fyrir framkvæmdaraðila. 

Byggingarleyfishafi mótmælir kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Bendir hann á að útgáfa hins kærða leyfis sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag og að framkvæmdir sem nú standi yfir á umræddri lóð séu einungis jarðvegsframkvæmdir þar sem fram fari undirbúningur með stöllun og jöfnun lóðar.  Ekki sé um að ræða neinar varanlegar eða óafturkræfar framkvæmdir meðan málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Beri því að hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin frekar í bráðabirgðaúrskurði þessum.

Niðurstaða:  Náttúruverndarsamtök Íslands eru frjáls félagasamtök áhugafólks um náttúruvernd og fullnægja þau skilyrðum 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um aðild að kærum fyrir úrskurðarnefndinni vegna ákvarðana um framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Verður kærumál samtakanna því tekið til efnislegrar meðferðar. 

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls. 

Í máli þessu liggur fyrir að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi eru fyrst og fremst jarðvegsframkvæmdir og að svo muni verða enn um sinn.  Er ekki fyrirsjáanlegt að varanlegar og óafturtækar framkvæmdir muni eiga sér stað meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Yfirstandandi framkvæmdir eru, að dómi úrskurðarnefndarinnar, ekki til þess fallnar að raska réttarstöðu aðila með þeim hætti að haft geti áhrif á efnisúrlausn málsins og verður kröfu kæranda því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem hafnar eru á lóð Norðuráls í Helguvík. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________              _________________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

45/2008 Hvammur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 um að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kæra G, Staðarhvammi 3, H og S, Staðarhvammi 5, G og H, Staðarhvammi 7, A og M, Staðarhvammi 9, S, Staðarhvammi 11, J og J, Staðarhvammi 17, H og G, Staðarhvammi 19 og Þ, K og H, Staðarhvammi 21, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, gerðu 10 af ofangreindum kærendum þá kröfu að úrskurðarnefndin stöðvaði umdeildar framkvæmdir til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði hinn 6. ágúst sl. 

Málavextir:  Á fundi framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar 2. maí 2008 var tekið fyrir erindi vegna færanlegra húsa við leikskólann Hvamm við Jófríðarstaðatún í Hafnarfirði samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti.  Lagði ráðið fyrir að óskað yrði eftir samþykki skipulags- og byggingarráðs bæjarins fyrir stöðuleyfi vegna húsanna og umferðar- og bílastæðamál á svæðinu yrðu skoðuð sérstaklega. 

Haldinn var kynningarfundur með íbúum 14. maí 2008 og málið síðan tekið fyrir í skipulags- og byggingarráði hinn 20. sama mánaðar.  Féllst ráðið ekki á fyrirhugaða staðsetningu húsanna þar sem þau yrðu innan hverfisverndaðs svæðis, en fallist var á staðsetningu þeirra norðar og austar á svæðinu utan hverfisverndaða svæðisins.  Nýr uppdráttur, dags. 29. maí 2008, var lagður fyrir skipulags- og byggingarráð 3. júní sem samþykkti umbeðið stöðuleyfi til eins árs en að þeim tíma liðnum skyldu mannvirkin fjarlægð og svæðið fært í fyrra horf.  Munu framkvæmdir hafa hafist hinn 8. júlí 2008. 

Í kjölfar þess barst bæjaryfirvöldum bréf frá Fornleifavernd ríkisins þar sem gerð var athugasemd við að raskað hafi verið fornleifum þegar umræddum bráðabirgðakennslustofum hafi verið komið fyrir.  Um væri að ræða traðir milli bæjarstæðis Jófríðarstaðabæjarins og tófta af útihúsum á Lambhúsahæð.  Var gerð krafa um stöðvun framkvæmda þar til rannsókn á málinu væri lokið. 

Fyrrgreint stöðuleyfi var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs bæjarins hinn 22. júlí 2008 og var þar m.a. gerð eftirfarandi bókun: 

„Skipulags- og byggingarráð ítrekar bókun sína frá 03.06.2008 að stöðuleyfi er aðeins veitt til eins árs, og að þeim tíma liðnum skulu mannvirkin fjarlægð og gengið frá svæðinu í sama ástandi og nú er.  Skipulags- og byggingarráð samþykkir að fela skipulags- og byggingarsviði og framkvæmdasviði að kynna fyrir íbúum minnisblað Línuhönnunar dags. 14.07.2008 um úrbætur umferðarmála í Staðarhvammi.  Skipulags- og byggingarráð felur skipulags- og byggingarsviði að ljúka máli varðandi fornleifar í samráði við Byggðasafn og Fornleifavernd ríkisins.  Þar til því máli er lokið og niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála varðandi stöðvun framkvæmda liggur fyrir, leggur skipulags- og byggingarráð til að öllum framkvæmdum við færanlegar kennslustofur við leikskólann verði frestað.“ 

Skutu kærendur leyfi bæjaryfirvalda fyrir umdeildum framkvæmdum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að þeir hafi mótmælt umdeildri stækkun leikskólans.  Aðkoma að leikskólanum sé erfið og um íbúðargötu þeirra, en búast megi við aukinni umferð, m.a. stærri bíla, vegna stækkunarinnar.  Umdeildar framkvæmdir, sem séu utan lóðar leikskólans, geti ekki stuðst við stöðuleyfi samkvæmt gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 þar sem um sé að ræða færanlegar kennslustofur en ekki gáma.  Til framkvæmdanna þurfi byggingarleyfi sem ekki liggi fyrir.  Samkvæmt byggingarreglugerð hefði átt að grenndarkynna hina breyttu tillögu að stækkun umrædds húsnæðis og breyta skipulagi með formlegum hætti með tilliti til staðsetningar húsanna sem brjóti í bága við gildandi deiliskipulag svæðisins. 

Andmæli Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að þegar sé búið að koma fyrir umdeildum kennslustofum og búið sé að innrita 40 börn og ráða 10 starfsmenn vegna hins nýja bráðabirgðahúsnæðis, sem áætlað sé að verði tekið í notkun innan tíðar.  Leitast hafi verið við að koma til móts við íbúa á svæðinu hvað varði umferð er vænta megi að fylgi starfsemi þeirri sem fara muni fram í bráðabirgðakennslustofunum.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 2. september 2008. 

Niðurstaða:  Ákvæði 71. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 kveður á um leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa, gáma, báta, torgsöluhúsa og þess háttar lausafjármuna utan skipulagðra svæða til þeirra nota.  Er slíkt stöðuleyfi tímabundið, almennt að hámarki til eins árs.  Hvers konar byggingar, ofan jarðar og neðan, eru hins vegar háðar byggingarleyfi nema þær séu sérstaklega undanþegnar slíku leyfi, sbr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 1. mgr. 43. gr. laganna.

Verður að fallast á það með kærendum að staðsetning kennslustofa, þótt til bráðabirgða sé, verði ekki heimiluð með stöðuleyfi samkvæmt 71. gr. byggingarreglugerðar.  Umfang og eðli kennslustofa með fjölda barna og starfsmanna  verður engan veginn lagt að jöfnu við hjólhýsi, gáma eða torgsöluhús.  Ber og textaskýring 36. gr. skipulags- og byggingarlaga að sama brunni þar sem hvers konar byggingar eru látnar falla undir ákvæði mannvirkjakafla laganna sem m.a. kveður á um byggingarleyfisskyldu. 

Að þessu virtu þykir hið kærða stöðuleyfi ekki viðhlítandi heimild fyrir staðsetningu umdeildra kennslustofa og verður því ekki hjá því komist að fella hið kærða leyfi úr gildi.  

Úrskurðarorð: 

Fellt er úr gildi leyfi fyrir staðsetningu og framkvæmdum við færanlegar kennslustofur við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði, sem samþykkt var í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðarbæjar hinn 3. júní 2008. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                    Ásgeir Magnússon

80/2008 Norðurberg

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómar og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 20. maí 2008 um að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Norðurberg í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. ágúst 2008, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kæra A og L, Norðurvangi 15, auk níu annarra íbúa við Norðurvang og Heiðvang í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 20. maí 2008 um að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Norðurberg í Hafnarfirði.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Kærendur hafa jafnframt farið fram á að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði með bráðabirgðaúrskurði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Með bréfi til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði, dags. 3. mars 2008, var þess óskað af stjórnendateymi leikskólans Norðurbergs að fá tvær lausar kennslustofur með tengibyggingu og staðsetja vestan megin við leikskólann á opnu leiksvæði.  Fór málið til framkvæmdaráðs bæjarins sem sendi það til skipulags- og byggingarfulltrúa.  Fól hann á afgreiðslufundi 7. maí 2008 skipulags- og byggingarsviði, í samráði við framkvæmdasvið, að skoða málið, einkum m.t.t. aðkomu, bílastæða og umferðar.  Var málinu svo vísað til skipulags- og byggingarráðs.

Boðað var til kynningarfundar um fyrirhugaðar framkvæmdir með íbúum í nágrenni leikskólans hinn 14. maí 2008 og komu þar fram nokkrar fyrirspurnir og athugasemdir.  Stöðuleyfi fyrir fyrrgreindum skólastofum var síðan samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs þann 20. maí 2008.  Fundur með íbúum var síðan haldinn 13. ágúst s.á. þar sem nýjar tillögur um umferðarmál í tengslum við umræddar framkvæmdir voru kynntar en þær höfðu verið samþykktar á fundi skipulags- og byggingarráðs 12. ágúst 2008.  Hafa kærendur nú skotið umdeildri leyfisveitingu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að bráðabrigðastækkun leikskólans Norðurbergs í Hafnarfirði verði á grænu svæði utan lóðarmarka leikskólans sjálfs.  Þeir muni verða fyrir skerðingu og óþægindum, m.a. vegna aukins umferðarþunga, bílastæðavanda og hávaða frá hinum nýju skólastofum er verði í nágrenni fasteigna sumra kærenda.  Kynning framkvæmdanna hafi ekki náð til allra þeirra sem málið varðar og ekki hafi legið fyrir upplýsingar um umferðaraukningu eða önnur áhrif af stækkuninni hefði í för með sér og litlu betri upplýsingar hafi legið fyrir á fundi með íbúum hinn 13. ágúst 2008, en þar hafi komið fram að veitt hafi verið stöðuleyfi fyrir stækkun leikskólans. 

Umdeilt stöðuleyfi sé byggt á ákvæði gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 en það eigi við um gáma.  Að öðru leyti eigi ákvæðið við um hjólhýsi, báta, torgsöluhús og þess háttar.  Ljóst sé að hér sé um undantekningarákvæði að ræða sem beri að túlka þröngt.  Eðlismunur en ekki stigsmunur sé á gámum og skólastofum sem séu tengdar raflögnum, skolplögnum og öllum tilheyrandi búnaði sem fylgi venjulegum skólastofum.  Þá sé ljóst að fyrirhugaðar kennslustofur verði festar og njörvaðar niður eins og hver önnur fasteign.  Í öllu falli sé svo ólík notkun og eðli á skólastofum annars vegar og bátum, torgsöluhúsum, hjólhýsum og gámum hins vegar, að þessu verði ekki jafnað saman og myndi umdeild framkvæmd skapa slæmt fordæmi. 

Umræddar kennslustofur hljóti að teljast byggingarleyfisskildar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og lúti þeim reglum sem um slík leyfi gildi.  Slíku sé ekki til að dreifa og beri því að fella úr gildi stöðuleyfið fyrir umdeildum framkvæmdum en slíkt leyfi geti ekki verið lögmæt stoð fyrir framkvæmdunum. 

Andmæli Hafnarfjarðarbæjar:  Bæjaryfirvöld gera þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá en ella að kröfu kærenda verði hafnað. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu þeirrar ákvörðunar. 

Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi 20. maí 2008 og hafi fundargerð er hafi falið í sér ákvörðunina verið opinberlega birt á vefsvæði Hafnarfjarðarbæjar eins og aðrar fundargerðir.  Kærendum hefði mátt vera ljóst eftir kynningarfundinn hinn 14. maí 2008 að stutt væri í ákvörðun og hefði því átt að fylgjast með framhaldi málsins stæði vilji þeirra til þess.  Geti kærendur því ekki borið fyrir sig að þeim hafi ekki verið kunnugt um ákvörðun skipulags- og byggingarráðs frá 20. maí.  Liðið hafi næstum þrír mánuðir frá því hin kærða ákvörðun hafi verið tekin uns hún hafi verið kærð.  Hafi  kærufresturinn þá verið liðinn og beri því að vísa henni frá þegar af þeirri ástæðu. 

Varðandi efnishlið málsins sé vísað til þess að samkvæmt 7. gr. laga nr. 78/1994 um leikskóla skuli bygging og rekstur þeirra vera í umsjá sveitarstjórna.  Sé sveitarfélögum jafnframt skylt að hafa forustu um að tryggja börnum dvöl í góðum leikskóla.  Samkvæmt 8. gr. sömu laga skuli sveitarfélög ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti meta þörf fyrir leikskólarými.  Á grundvelli þess mats verði gerð áætlun til þriggja ára í senn um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi og skuli við gerð hennar höfð hliðsjón af heildarhagsmunum sveitarfélagsins.  Þörf fyrir leikskólarými hafi aukist verulega á undanförnum árum með hraðri uppbyggingu íbúðahverfa og verði bæjaryfirvöld að bregðast við aukinni þörf að þessu leyti hverju sinni. 

Í stað þess að byggja strax varanlegt húsnæði við leikskóla sé reynt að finna þá lausn sem minnstri röskun valdi í hverju tilfelli.  Farin hafi verið sú leið að veita stöðuleyfi til eins árs í samræmi við ákvæði gr. 71.2 byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Í því tilfelli sem hér um ræði hafi stöðuleyfi verið veitt til að setja færanlegar kennslustofur niður á svæði sem samkvæmt aðalskipulagi sé fyrir þjónustustofnanir.  Í því felist að íbúar í nágrenninu megi reikna með auknu leikskólarými samkvæmt skipulagi á svæðinu.  Líkur séu á að ekki verði þörf á að stækka umræddan leikskóla til langframa þar sem aðrar lausnir gætu komið til með byggingu nýs leikskóla annars staðar.  Með þessum bráðabirgðaframkvæmdum sé hvorki hróflað við trjágróðri né leiksvæði barna sem þarna sé.  Umferð muni aukast en umferðarmannvirki á svæðinu afkasti þeirri aukningu og umferðaröryggi verði ekki skert svo nokkru nemi. 

Búið sé að fylla greind leikskólapláss og ráða fólk til vinnu.  Verið sé að þjóna almannahagsmunum með hinum færanlegu kennslustofum og verði tafir á að taka þær í notkun hafi það í för með sér mun meira rask og skerðingu á þjónustu fyrir fjölda fólks en óþægindi þau sem kærendur telji sig verða fyrir. 

Hafnarfjarðarbær hafi áður beitt þeirri aðferð að gefa út stöðuleyfi og enginn úrskurður liggi fyrir um að slíkt sé ólöglegt.  Unnt sé að fallast á að deila megi um hvort stöðuleyfi sé rétta aðferðin við að setja niður færanlegar skólastofur.  Að sama skapi megi einnig deila um hvort gefa þurfi út byggingarleyfi fyrir slíkum skólastofum er vart verði skilgreindar sem fasteignir, enda ekki varanlega festar við landið.  Þeim sé heldur ekki ætlað að standa lengi á þeim stað þar sem þær séu settar niður. 

Lögskýringu kærenda á reglugerðarákvæðinu um stöðuleyfi sé hafnað og á það bent að í ákvæði gr. 4.41 í byggingarreglugerð sé eingöngu fjallað um hjólhýsi, gáma og báta en í fyrirsögn 71. gr. reglugerðarinnar sé:  „Hjólhýsi, gámar, bátar, torgsöluhús og þessháttar.“  Það sé m.ö.o. búið að útvíkka gildissvið ákvæðisins og koma í veg fyrir að skýra beri það þröngt líkt og kærendur telji. 

Eðli máls samkvæmt beri einnig að líta til þess að stöðuleyfi sé markaður skammur tími eða eitt ár hið lengsta og beri þá að endurskoða stöðuna.  Í því ágreiningsefni sem hér sé um fjallað sé það einmitt meginatriðið.  Meiningin sé ekki að þessi staða verði uppi lengur en þörf sé á.  Eins og áður hafi verið nefnt séu líkur á að ekki þurfi að koma til aukinna framkvæmda við fyrrgreindan leikskóla vegna annarra lausna.  Væri því þjóðfélagslega óhagkvæmt að fara út í slíkar framkvæmdir á þessum tíma og skammtímalausn betri. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 2. september 2008. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur einn mánuður frá því að aðila varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra skal.  Sæti ákvörðun opinberri birtingu telst upphaf kærufrests frá birtingu ákvörðunar. 

Leyfisveiting sú sem hér er til umfjöllunar sætir ekki opinberri birtingu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum eða lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað nr. 15/2005.  Verður upphaf kærufrests því miðað við það hvenær kærendum varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um hina kærðu ákvörðun.  Kærendur halda því fram að þeim hafi ekki verið kunnugt um útgáfu stöðuleyfisins fyrr en þeim var tilkynnt um það á fundi með íbúum hinn 13. ágúst 2008 og liggur ekkert fyrir í málinu sem hnekkir þeirri fullyrðingu.  Verður við það miðað að kærendum hafi ekki verið kunnugt um hvenær leyfisveitingin hafi átt sér stað fyrr en á því tímamarki, enda höfðu framkvæmdir þá ekki hafist, en ekki verður fallist á að birting fundargerðar með bókun um ákvarðanatökuna á veraldarvefnum hafi sömu þýðingu og lögformleg opinber birting.  Telst kæran af þeim sökum hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests.  Verður frávísunarkröfu Hafnarfjarðarbæjar því ekki tekin til greina. 

Ákvæði 71. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 kveður á um leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa, gáma, báta, torgsöluhúsa og þess háttar lausafjármuna utan skipulagðra svæða til þeirra nota.  Er slíkt stöðuleyfi tímabundið, almennt að hámarki til eins árs.  Hvers konar byggingar, ofan jarðar og neðan, eru hins vegar háðar byggingarleyfi nema þær séu sérstaklega undanþegnar slíku leyfi, sbr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga og 1. mgr. 43. gr. laganna.

Verður að fallast á það með kærendum að staðsetning kennslustofa, þótt til bráðabirgða sé, verði ekki heimiluð með stöðuleyfi samkvæmt 71. gr. byggingarreglugerðar.  Umfang og eðli kennslustofa með fjölda barna og starfsmanna verður engan veginn lagt að jöfnu við hjólhýsi, gáma eða torgsöluhús.  Ber og textaskýring 36. gr. skipulags- og byggingarlaga að sama brunni þar sem hvers konar byggingar eru látnar falla undir ákvæði mannvirkjakafla laganna sem m.a. kveður á um byggingarleyfisskyldu. 

Að þessu virtu þykir hið kærða stöðuleyfi ekki viðhlítandi heimild fyrir staðsetningu umdeildra kennslustofa og verður því ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðum úr gildi.   

Úrskurðarorð: 

Fellt er úr gildi leyfi fyrir staðsetningu og framkvæmdum við færanlegar kennslustofur við leikskólann Norðurberg í Hafnarfirði sem samþykkt var í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðarbæjar hinn 20. maí 2008. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                   Ásgeir Magnússon