Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

77/2007 Helgafellshverfi

Ár 2010, miðvikudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 77/2007, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 11. apríl 2007, um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi III. áfanga Helgafellshverfis í Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. ágúst 2007, sem barst nefndinni 2. sama mánaðar, kæra B, Álafossvegi 23 og G, Álafossvegi 16 í Mosfellsbæ ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 11. apríl 2007 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi III. áfanga Helgafellshverfis. 

Auglýsing um gildistöku samþykktar bæjarstjórnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 2. júlí 2007. 

Í kæru kemur fram að kært sé f.h. íbúa og Varmársamtakanna en engin umboð íbúa fylgdu kærunnu.  Þá liggur ekki fyrir hvort kærendur hafi stöðu til þess að koma fram f.h. Varmársamtakanna, en þar sem málið varðar ekki ákvörðun um framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum kemur ekki til álita að umrædd samtök geti átt aðild að málinu.  Eru því ekki efni til að staðreyna stöðu kærenda að því leyti.  Því eru ekki aðrir aðilar að málinu en þeir tveir kærendur sem að framan eru nefndir. 

Málavextir og rök:  Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hinn 11. apríl 2007 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi III. áfanga íbúðahverfis í Helgafellslandi.  Nær deiliskipulagið til um 14,6 ha svæðis syðst og vestast í svokölluðu Helgafellshverfi, en Varmá og Skammadalslækur afmarka skipulagssvæðið til suðurs.  Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir 114 íbúðum á 57 lóðum, aðallega í sérbýli.  Skutu kærendur ákvörðun bæjarstjórar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að eitt fallegasta kennileitið í landslagi Mosfellsbæjar sé án efa gljúfur Skammadalslækjar, sem renni í Varmá við Álanes ofan Álafoss.  Hávaxinn trjálundur sé í og við gljúfrið sem setji mikinn svip á landslagið og gefi svæðinu mikið útivistargildi.  Með hinu kærða deiliskipulagi sé skipulögð einbýlishúsabyggð í kringum gljúfrið.  Slíkt sé í andstöðu við aðalskipulag og uppfylli ekki skilyrði gr. 4.22 í skipulagsreglugerð nr. 440/1998, um skilgreiningu á hverfisverndarsvæðum í skipulagsáætlunum.  Deiliskipulagið sé hvorki í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags né umhverfisskipulags bæjarins.  Þá brjóti deiliskipulagið í bága við 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 3. kafla laganna þar sem segi að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi.  Þá sé bent á að Sauðhóll, sem sé fyrir ofan gljúfrið, geti haft mikið útivistargildi fyrir íbúa í Helgafellslandi í framtíðinni og því óráðlegt að þrengja um of að hólnum. 

Kærendur telji að skipulagsyfirvöldum í Mosfellsbæ hafi borið að láta Skipulagsstofnun meta hvort afgreiða bæri deiliskipulagið á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda nr. 106/2000, annars vegar vegna náttúruminjagildis og hins vegar vegna vegagerðar, sem samkvæmt skipulagsáætluninni sé fyrirhuguð yfir Varmá, steinsnar frá fossinum Álafossi, í gegnum trjálundinn við Álanes.  Þá brjóti kynning á tillögu hins kærða deiliskipulags í bága við 9. gr. laga nr. 73/1997, því samkvæmt endanlegum uppdrætti hafi verið komið fyrir 1.500 m2 settjörn til hreinsunar mengaðs ofanvatns á hverfisverndarsvæði við bakka Varmár við Álanes.  Hafi tillaga að staðsetningu settjarnar í Helgafellslandi ekki verið kynnt íbúum þegar tillaga að deiliskipulaginu hafi upphaflega verið auglýst og því hafi endanleg niðurstaða ekki heldur verið kynnt íbúum, sbr. 25. gr. laganna. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér óformlega aðstæður á vettvangi hinn 2. febrúar 2010. 

Niðurstaða:  Kærendur máls þessa eru búsettir í nokkurri fjarlægð frá svæði því er hið kærða deiliskipulag tekur til.  Í kæru er vísað til atriða er lúta að almennum kröfum um form og efni skipulags svo og að almannahagsmunum, s.s. náttúruvernd og útivistarmöguleikum almennings.  Hins vegar liggur ekki fyrir að umdeild ákvörðun snerti einstaklega og lögvarða hagsmuni kærenda, sem er skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________            _________________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson