Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2009 Bústaðavegur

Ár 2010, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2009, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 um að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. júní 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. S, Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9 í Reykjavík. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umdeild bygging verði fjarlægð. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 29. febrúar 2008 var lögð fram fyrirspurn Geislavarna ríkisins um byggingu 20 m² smáhýsis á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9.  Skipulagsstjóri afgreiddi fyrirspurnina með eftirfarandi bókun:  „Ekki eru gerðar athugasemdir við að fyrirspyrjandi láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við embætti skipulagsstjóra, á eigin kostnað, sem síðar verður grenndarkynnt án þess tekin sé afstaða til staðsetningu samkvæmt skissu.“ 

Fyrirspurnin var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 4. apríl 2008 og svohljóðandi bókað:  „Leiðrétt bókun frá afgreiðslufundi skipulagsstjóra frá 29. febrúar 2008. Ekki eru gerðar athugasemdir við erindið. Byggingarleyfisumsókn verður grenndarkynnt þegar hún berst.“ 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. maí 2008 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir 24,3 m² smáhýsi úr timbri fyrir Geislavarnir ríkisins á lóð nr. 9 við Bústaðaveg og fylgdi umsókninni samþykki lóðarhafa.  Var umsóknin afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 15. maí 2008. 

Hinn 22. desember 2008 höfðu kærendur máls þessa samband við embætti byggingarfulltrúa og mótmæltu framkvæmdum á lóð Veðurstofu Íslands og með tölvupósti byggingarfulltrúa, dags. 26. desember s.á., var þeim m.a. tilkynnt að embættið hefði samþykkt byggingu smáhýsis á umræddri lóð og hafi þá legið fyrir umsagnir ýmissa aðila, m.a. skipulagsstjóra.  Væri ekki annað að sjá en að starfsmönnum hefði við yfirferð umsóknar yfirsést bókun þess efnis að umsókn um byggingarleyfi yrði grenndarkynnt ef hún bærist.  Þegar þetta hefði komið í ljós hefðu framkvæmdir verið stöðvaðar. 

Í kjölfar þessa var kærendum sendur aðaluppdráttur, er samþykktur hafði verið 6. maí 2008, af umræddu smáhýsi til óformlegrar kynningar á málinu og þeim bent á að hefðu þeir einhverjar athugasemdir fram að færa myndi fara fram grenndarkynning. 

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa, dags. 5. janúar 2009, fóru kærendur fram á að formleg grenndarkynning ætti sér stað.  Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. janúar s.á., var þeim tilkynnt að fallið hefði verið frá grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn og að stöðvun framkvæmda hefði verið aflétt með vísan til minnisblaðs skipulagsstjóra, dags. 8. janúar 2009. 

Var ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu kærenda og með úrskurði, dags. 26. febrúar 2009, felldi nefndin leyfið úr gildi þar sem grenndarkynning á áformuðum framkvæmdum hafði ekki farið fram skv. fyrirmælum 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. febrúar 2009 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áðurgreindu smáhýsi á lóð Veðurstofunnar og var ákveðið að grenndarkynna umsóknina.  Að henni lokinni var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 22. apríl sama ár og lágu þar fyrir andmæli kærenda og umsögn skipulagsstjóra.  Var umsóknin samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar skipulagsstjóra og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 24. apríl 2009. 

Málsrök kærenda:  Kröfur kærenda byggjast á því að hið kærða byggingarleyfi sé ólögmætt og með veitingu þess sé gengið á mikilvæga hagsmuni þeirra. 

Umdeilt smáhýsi standi framan við stofuglugga Stigahlíðar 87 og byrgi fyrir útsýni til suðurs sem áður hafi verið óskert.  Að mati kærenda sé húsið allt of hátt og muni tilvist þess hafa áhrif á verðmæti fasteigna þeirra.  Einfalt hefði verið að finna smáhýsinu annan stað á lóð Veðurstofunnar en með því hefði dregið verulega úr grenndaráhrifum þess.  Smáhýsið sé auk þess í ósamræmi við aðrar byggingar á svæðinu og falli illa að umhverfi sínu.  Íbúðarhúsin við Stigahlíð standi lægra en umrædd bygging og verði því áhrif hennar á umhverfið og útsýni meiri en ella.  Kærendur hefðu átt þess kost að benda á þessi atriði áður en byggingin var reist ef áður hefði farið fram grenndarkynning.  Umrætt smáhýsi muni ennfremur takmarka þá fjölþættu útivist sem til þessa hafi verið stunduð á svæðinu. 

Kærendum sé ekki kunnugt um þá starfsemi sem fram muni fara í greindu húsi en henni fylgi mikil hávaðamengun og óljóst sé hversu mikil umferð muni fylgja starfseminni.  Nóg sé komið af mælitækjum og sendum í nágrenni fasteigna kærenda en um sé að ræða svæði sem sé ódeiliskipulagt. 

Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar beri með sér að hagsmunir nágranna séu fyrir borð bornir.  Húsið hafi verið reist án grenndarkynningar en hún síðan farið fram eftir að húsið hafi verið komið á lóðina og byggingarleyfið fellt úr gildi.  Ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda sem fram hafi komið við grenndarkynninguna enda megi ætla að kynningin hafi aðeins þjónað þeim tilgangi að bæta úr formgalla á málsmeðferð byggingarleyfis fyrir þegar reistri byggingu. 
 
Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað. 

Grenndaráhrif umrædds smáhýsis séu svo óveruleg að ekki raski hagsmunum kærenda né annarra íbúa að neinu leyti.  Það sé aðeins um 20 m² að flatarmáli og um fjórir metrar á hæð.  Það sé staðsett innarlega á lóð, í a.m.k. 60 m frá stofuglugga kærenda og um 40 m fjarlægð frá lóðarmörkum.  Lóð Veðurstofunnar sé á ódeiliskipulögðu svæði og sé stofnanalóð samkvæmt aðalskipulagi.  Byggingin hafi einhver sjónræn grenndaráhrif en þau þyki ekki þess eðlis að hafna hefði átt umsókn byggingarleyfishafa.  Minnt sé á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nágrenni þeirra sem haft geti í för með sér útsýnisskerðingu, skuggavarp eða önnur grenndaráhrif.  Telja verði að hagsmunir Geislavarna ríkisins af því að sinna lögboðinni starfsemi sinni með byggingu umrædds smáhýsins séu mun ríkari en hagsmunir kærenda af lítilsháttar útsýnisskerðingu.  Ekki verði gerð krafa um að smáhýsið falli að byggingarstíl annarra húsa í hverfinu, enda standi það sér á lóðinni og eigi kærendur og aðrir íbúar ekki kröfu til nýtingar lóðarinnar til útivistar.  Þar að auki verði ekki séð að ca. 20 m² smáhýsi komi í veg fyrir útivist og leiki á lóðinni. 

Starfsemi sú sem smáhýsið þjóni eigi að vera kunn kærendum enda hafi hún verið kynnt við grenndarkynningu og upplýst um að smáhýsinu sé ætlað að hýsa mælitæki fyrir Geislavarnir ríkisins.  Ekkert bendi til þess að íbúum stafi hætta af starfseminni og ekki sé fallist á að frá skúrnum berist verulegur hávaði.  Við val á staðsetningu smáhýsisins hafi m.a. verið tekið tillit til masturs, lagnastokks, jarðvegs og álfasteins sem á lóðinni sé.  Á öðrum stöðum, nær Bústaðavegi, sé gert ráð fyrir annarri uppbyggingu eins og uppdráttur af lóðinni sem samþykktur hafi verið 11. maí 1999 beri með sér.  Eðlilegt sé að umrædd stofnanalóð sé nýtt fyrir mælingar og þess háttar og mannvirki reist á henni í því skyni enda hafi svo verið um árabil og almenningi verið það kunnugt.  Telji Reykjavíkurborg að málsmeðferð umdeildrar byggingarleyfisumsóknar hafi verið eðlileg og að engin efnisleg rök séu fyrir því að fella byggingarleyfið úr gildi. 

Þá sé ekki unnt að fallast á kröfu kærenda um að úrskurðað verði í málinu að umrætt smáhýsi verði fjarlægt.  Smáhýsið sé byggtr skv. samþykktu byggingarleyfi og hafi úrskurðarnefndin enga lagalega heimild til að fyrirskipa slíka aðgerð. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi hefur komið sjónarmiðum sínum á framfæri við úrskurðarnefndina í fyrra kærumáli um sama efni og bendir hann á að kærendur búi í meira en 60 m fjarlægð frá umræddu smáhýsi sem sé fyrirferðarlítið, aðeins um 20 m² að flatarmáli og 4 m á hæð.  Hafi það því hverfandi grenndaráhrif  Byggingin muni ekki fela í sér skert útsýni fyrir kærendur, hún sé ekki í óþægilegri nálægð við þá og muni ekki varpa skugga á lóðir kærenda eða á annan hátt skerða hagsmuni þeirra. 

Bent sé á að byggingin hýsi búnað er mæli geislavirkar svifagnir í andrúmslofti og séu strangar kröfur gerðar um staðarval slíkra mælinga.  Vegi veðurfarsleg skilyrði hvað þyngst auk þess sem sjónlína þurfi að vera við gervihnött.  Hvað hávaða af notkun skúrsins varði beri að taka það fram að byggingarleyfishafi hafi gert sérstaka kröfu til hönnuða um að tryggja að hávaði verði innan ásættanlegra marka, enda skúrinn nærri fjölmennum vinnustað.  Því sé alfarið vísað á bug að búnaðurinn hafi þann hávaða í för með sér að hann hafi áhrif á kærendur. 

—————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér óformlega aðstæður á vettvangi hinn 20. febrúar 2009 í tilefni af fyrra kærumáli vegna umrædds mannvirkis. 

Niðurstaða:  Lóð Veðurstofu Íslands, er hin umdeilda bygging stendur á, er á ódeiliskipulögðu svæði en hún er skilgreind sem stofnanalóð í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.  Lóðin er hluti af svæði með mótaða byggð en engar byggingar standa á milli fasteigna kærenda og umdeilds smáhýsins. 

Samkvæmt meginreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú undantekning er gerð í 3. mgr. ákvæðisins, þegar um er að ræða þegar byggð hverfi, að sveitarstjórn getur veitt heimild til framkvæmda þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir, en þá að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Hefur umrædd bygging verið grenndarkynnt í samræmi við tilvitnað ákvæði eftir að úrskurður gekk í fyrra máli um gildi byggingarleyfis fyrir henni og verður að telja eins og atvikum er háttað að heimilt hafi verið að fara með málið eftir undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hins vegar verður að fallast á með kærendum að grenndarkynning þjóni ekki tilgangi sínum með viðunandi hætti  eftir að mannvirki það sem kynningin tekur til er risið.  Er meðferð málsis haldi ágalla að þessu leyti en ekki þykir, þrátt fyrir það, alveg næg ástæða til þess að ógilda hina kærðu ákvörðun.
 
Eins og áður greinir stendur umdeild bygging Geislavarna ríkisins á stofnanalóð Veðurstofunnar sem er 30.591 m2 að stærð samkvæmt fyrirliggjandi aðaluppdrætti af lóðinni.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar er lágt og mátti því vænta að frekari uppbygging gæti þar átt sér stað.  Á lóðinni standa möstur og önnur mannvirki er tengjast starfsemi Veðurstofunnar og ekki verður talið óeðlilegt eða ófyrirséð að mælingum eins og hér um ræðir sé fundinn staður á slíkri lóð.  Byggingin er ekki stór og stendur í nokkurri fjarlægð frá fasteignum kærenda.  Þótt hún hafi grenndaráhrif og þá einkum á útsýni frá hýbýlum kærenda, verða áhrifin ekki talin slík að raskað geti gildi hins kærða byggingarleyfis þegar tekið er mið af framangreindum atvikum.  Verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað. 

Að þeirri niðurstöðu fenginni þykir ekki ástæða til að fjalla um kröfu kærenda um brottnám hinar umdeildubyggingar í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009, sem borgarráð staðfesti 24. sama mánaðar, um að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9 í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson