Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2008 Helguvík

Með

Ár 2009, föstudaginn 9. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2008, kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verið felldar úr gildi.  Þá krafðist kærandi þess einnig að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til málið hefði verið til lykta leitt, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hafnaði úrskurðarnefndin þeirri kröfu með úrskurði, uppkveðnum 4. september 2008.

Málavextir:  Um nokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi byggingar álvers í Helguvík á Reykjanesi.  Af því tilefni var tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Gerðahrepps 1998-2008 (Sveitarfélagsins Garðs) auglýst hinn 6. september 2007 og öðlaðist breytingin gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. desember 2007.  Deiliskipulag svæðisins, innan Sveitarfélagsins Garðs, var samþykkt í sveitarstjórn 30. janúar 2008 og öðlaðist það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar s.á.

Jafnframt var tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995-2015 vegna framkvæmdarinnar auglýst hinn 1. maí 2007 og öðlaðist sú breyting gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2007.  Deiliskipulag svæðisins, innan Reykjanesbæjar, var samþykkt í sveitarstjórn 5. febrúar 2008 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars s.á.

Á sama tíma og unnið var að gerð framangreindra skipulagsáætlana vegna fyrirhugaðs álvers var unnið að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Var Skipulagsstofnun send frummatsskýrsla um byggingu og rekstur álvers í Helguvík hinn 14. maí 2007 og var hún tekin til lögboðinnar meðferðar hjá stofnuninni.  Hinn 3. september 2007 sendi framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun endanlega matsskýrslu og gaf stofnunin lögbundið álit sitt á matsskýrslunni og efni hennar 4. október 2007.  Kemur m.a. fram í álitinu að ekki hafi verið talið verjandi að krefjast þess að metin yrðu samtímis umhverfisáhrif álverksmiðjunnar sjálfrar og tengdra framkvæmda í ljósi þess hve mikil óvissa ríkti um hvaðan og eftir hvaða leiðum orka bærist álverinu.

Með bréfi, dags. 11. október  2007, kærði Landvernd til umhverfisráðherra þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að krefjast þess ekki að metin yrðu samtímis umhverfisáhrif álverksmiðjunnar sjálfrar og tengdra framkvæmda.  Lauk meðferð þess kærumáls með úrskurði umhverfisráðherra, uppkveðnum 3. apríl 2008, þar sem hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar var staðfest.

Með bréfi, dags. 7. mars 2008, til byggingarnefndar álvers í Helguvík, sem sveitarfélögin tvö höfðu sett á stofn til að annast byggingarmál á svæðinu, sótti Norðurál um byggingarleyfi fyrir álverinu.  Umsóknin gerði ráð fyrir að framkvæmdinni yrði skipt í áfanga og að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir einstökum hlutum hennar á hverjum tíma.  Tók umsóknin til fyrsta áfanga kerskála og tengdra framkvæmda, þ.e. girðingar, nauðsynlegra jarðvegsframkvæmda og byggingar bráðabirgðaraðstöðu og athafnasvæðis fyrir verktaka.

Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á fundi sameiginlegrar byggingarnefndar álvers í Helguvík hinn 10. mars 2008.  Var afgreiðsla byggingarnefndarinnar staðfest á bæjarstjórnarfundum í báðum sveitarfélögunum 12. mars 2008 og bókað um afstöðu sveitarfélaganna til álits Skipulagsstofnunar frá 4. október 2007 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Byggingarleyfi var gefið út 13. mars 2008, og birtu sveitarfélögin auglýsingu um afgreiðslur sínar 27. mars s.á.

Þessar ákvarðanir kærðu Náttúruverndarsamtök Íslands til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 26. mars 2008.  Við frumathugun á því máli kom fram vafi um hvort lagaheimild hefði verið til stofnunar sérstakrar byggingarnefndar vegna álversins með þeim hætti sem gert hefði verið með samkomulagi Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs hinn16. janúar 2007.

Til að eyða óvissu um framangreint var leyfisveitingin tekin upp að nýju hjá báðum sveitarfélögunum.  Var umsókn Norðuráls Helguvík sf. samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs 2. júlí 2008 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar 3. júlí 2008.  Jafnframt var fyrri samþykkt afturkölluð.  Umsóknin var einnig samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 2. júlí 2008 og staðfest á fundi bæjarráðs í umboði sveitarstjórnar 3. júlí 2008.

Skaut kærandi þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 1. ágúst 2008, svo sem að framan greinir.  Fyrri kæru sína afturkallaði hann síðan með bréfi, dags. 13. ágúst 2008.   

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að framkvæmdir hafi verið hafnar á grundvelli byggingarleyfa frá 12. mars 2008 sem síðar hafi verið dregin til baka enda hafi þau verið ólögmæt.  Þar með sé ljóst að framkvæmdirnar hafi í upphafi verið ólöglegar.  Þetta skipti máli við mat á lögmæti ákvarðana leyfisveitenda.

Af hálfu kæranda er einnig á það bent að í áliti Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík séu gerðir þrír fyrirvarar sem leyfisveitendum sé gert að horfa til við útgáfu leyfa.  Fyrirvarar Skipulagsstofnunar varði óvissu varðandi orkuöflun, orkuflutninga og losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir, en til þessara fyrirvara hafi leyfisveitendur ekki tekið fullnægjandi afstöðu er hinar kærðu ákvarðanir hafi verið teknar.

Útgáfa framkvæmdaleyfisins (byggingarleyfis) uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum en þar komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar.  Þegar lög mæli fyrir um að rök séu sett fram hljóti það að vera vilji löggjafans að röksemdafærslan standist skoðun og að framsett rök séu í það minnsta jafn veigamikil og rökin sem þeim sé ætlað að hrekja.  Það sé mat Náttúruverndarsamtaka Íslands að svo sé ekki í þessu tilfelli.

Hvað orkuöflun varði megi ljóst vera að samningur tveggja fyrirtækja geti ekki skuldbundið landeigendur og sveitarfélög til þess að láta af hendi auðlindir sínar.  Orkusamningur Norðuráls og Hitaveitu Suðurnesja breyti engu um þá óvissu sem ríki um orkuöflun og ekki sé því hægt að fallast á rök leyfisveitenda hvað þetta varði.

Um rök er varði orkuflutninga gegni sama máli.  Tilvísun í samning Norðuráls og Landsnets feli ekki í sér fullnægjandi rök til þess að ganga á svig við álit Skipulagsstofnunar.  Samningar þessara tveggja fyrirtækja geti ekki rýrt rétt landeigenda og geri sveitarfélög ekki á nokkurn hátt skuldbundin til þess að breyta skipulagsáætlunum sínum.  Verði að gera ríkari kröfur til röksemdafærslu en hér hafi verið gert þegar ganga eigi gegn áliti Skipulagsstofnunar.

Loks ríki óvissa um heimildir fyrirhugaðs álvers til losunar gróðurhúsalofttegunda og verði að telja hæpið að byggingarleyfi fyrir álver í Helguvík standist lög um losun þeirra.

Málsrök Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs:  Af hálfu sveitarfélaganna er mótmælt þeirri staðhæfingu kæranda að ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Þvert á móti hafi sveitarstjórnirnar tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar með ítarlegum bókunum við afgreiðslu málsins og hafi sú afgreiðsla þeirra verið auglýst.  Bæði sveitarfélögin hafi fallist á þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhugað álver í Helguvík muni ekki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.

Þó það sé ekki fyllilega skýrt í kæru virðist kærandi byggja á því að sveitarfélögin hefðu þurft að rökstyðja betur afstöðu sína til meintrar óvissu um orkuöflun, orkuflutninga og losunarheimildir.  Á þetta verði ekki fallist.  Hvað orkuöflun varði þá hafi Skipulagsstofnun ekki sett skilyrði er lúti að henni en bent sveitarfélögunum á að huga að þessu atriði og hafi það verið gert.  Um flutning raforku segi Skipulagsstofnun í áliti sínu að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggi fyrir.  Fullt tillit hafi verið tekið til þessarar ábendingar við afgreiðslu málsins.  Loks hafi sveitarfélögin ekki talið forsendur til að synja eða fresta afgreiðslu byggingarleyfisins á þeim grunni að starfsemin hefði að svo stöddu ekki losunarheimildir.

Því hafi verið hafnað að meta þyrfti umhverfisáhrif tengdra framkvæmda samhliða áhrifum álversbyggingarinnar.  Að auki sé vandséð að heimilt hefði verið að fresta afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi fyrir álverinu þótt óvissa hafi verið um orkuöflun, orkuflutning og losunarheimildir.  Engin lagastoð hefði verið fyrir slíkri ákvörðun.

Málsrök Norðuráls Helguvík sf:  Af hálfu leyfishafans Norðuráls Helguvík sf. er á það bent að útgáfa byggingarleyfa, dags. 3. júlí 2008, vegna álvers í Helguvík hafi verið í samræmi við aðal- og deiliskipulag sveitarfélaganna Reykjanesbæjar og Garðs, sbr. auglýstar skipulagstillögur 1. maí 2007 og 6. september 2007.  Ekki sé vitað til að athugasemdir hafi verið gerðar við auglýsingar um skipulagstillögur svo sem heimilt sé að gera samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hafi skipulagstillögurnar hlotið lögboðna meðferð.

Túlka verði kröfu kæranda í málinu á þann veg að hann telji ákvarðanir sveitarstjórna Garðs og Reykjanesbæjar vera haldnar formannmarka hvað varði framsetningu rökstuðnings, sem leiða eigi til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar.  Leyfishafi mótmæli því eindregið að ákvarðanir um útgáfu byggingarleyfa séu haldnar nokkrum þeim annmörkum sem leiða eigi til þess að þær beri að ógilda.  Athygli sé vakin á því sem talið hafi verið gilda í íslenskum stjórnsýslurétti að annmarki á samhliða rökstuðningi stjórnvaldsákvörðunar geti einungis leitt til þess að íþyngjandi ákvarðanir geti sætt ógildingu.  Ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis geti varla talist vera íþyngjandi gagnvart kæranda í málinu, þar sem hann eigi engra annarra hagsmuna að gæta en þeirra sem löggjafinn kunni að hafa veitt honum með sérstakri kæruheimild samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Árétta verði að á grundvelli 78. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. og einkum 16., 23. og 44. gr. skipulags- og byggingarlaga fari sveitarfélög með skipulagsvald hér á landi.  Álit Skipulagsstofnunar sé lögbundið álit sem liggja verði fyrir áður en byggingarleyfi sé gefið út en slíkt álit bindi ekki hendur sveitarfélags samkvæmt 8. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. og athugasemdir í greinargerð með 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.  Í málinu liggi fyrir ákvarðanir sveitarfélaga um útgáfu byggingarleyfis sem teknar hafi verið á grundvelli gildandi aðal- og deiliskipulags.  Þetta vald verði, hvorki af Skipulagsstofnun né öðrum aðilum, tekið af sveitarfélögum nema skýr lagaheimild standi til þess.  Slíka lagaheimild sé ekki að finna að íslenskum rétti.

Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi fallist á framkvæmdina og talið að hún myndi hvorki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi né samfélag.  Hafi sveitarfélögin tekið undir þetta með útgáfu byggingarleyfa.  Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar sé að finna ábendingar eða tilmæli til sveitarfélaganna um að huga að vissum þáttum áður en byggingarleyfi verði veitt fyrir álveri, hvað varði virkjanakosti raforku, flutning hennar til álversins og nauðsyn þess að tryggja losunarheimildir samkvæmt lögum nr. 65/2007.  Í afgreiðslu bæjarstjórna Reykjanesbæjar og Garðs hafi sérstaklega verið tekið á þessum atriðum og rökstutt hvers vegna sveitarfélögin hafi álitið að þessi atriði stæðu ekki í vegi útgáfu byggingarleyfis.

—————-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin frekar í úrskurði þessum. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 10. júní 2008 við meðferð fyrra kærumáls um hinar umdeildu framkvæmdir.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvarðana sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Leyfin tengjast framkvæmdum sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum og bar því við töku hinna kærðu ákvarðana að gæta ákvæðis 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum m.s.br. þar sem segir að við útgáfu leyfis til framkvæmdar skv. 1. mgr. skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Við afgreiðslu á umsóknum leyfishafa um hin umdeildu byggingarleyfi lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdaraðila um umrædda framkvæmd, dags. 4. október 2007.  Samkvæmt álitinu telur Skipulagsstofnun að matsskýrsla Norðuráls Helguvík sf. hafi uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað varði þau atriði sem getið sé í 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.  Einnig telur stofnunin að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir athugasemdum og umsögnum sem borist hafi á kynningartíma frummatskýrslu og hafi þeim verið svarað.  Segir í lok álitsins að Skipulagsstofnun telji að fyrirhugað álver Norðuráls Helguvík sf., með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi og samfélag.

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur jafnframt fram að stofnunin telji að sveitarfélögin þurfi að huga vel að þeirri stöðu sem uppi sé varðandi orkuöflun fyrir álverið þegar komi að leyfisveitingum og að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggi fyrir.  Ennfremur segir að Skipulagsstofnun telji að áður en Norðuráli Helguvík sf. verði veitt framkvæmda- og byggingarleyfi þurfi að liggja fyrir hvort fyrirtækið fái þær losunarheimildir sem það þurfi eða að það hafi sýnt veitanda losunarheimilda fram á hvernig losun gróðurhúsalofttegunda verði mætt.  Er af hálfu kæranda aðallega á því byggt að sveitarstjórnir Garðs og Reykjanesbæjar hafi ekki tekið með fullnægjandi hætti rökstudda afstöðu til framangreindra þátta í áliti Skipulagsstofnunar og því hafi ekki verið fullnægt skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. skal Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla uppfylli skilyrði laga nr. 106/2000 og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Í áliti Skipulagsstofnunar skal jafnframt gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess.  Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.  Verður að telja að í fyrirliggjandi áliti hafi Skipulagsstofnun fullnægt þeim kröfum sem settar eru fram í tilvitnuðu ákvæði.

Í 2. mgr. 11. gr. segir síðan að telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða gera þurfi aðrar, eða frekari mótvægisaðgerðir en fram komi í matsskýrslu, skuli stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim.

Ekki verður talið að ábendingar Skipulagsstofnunar um að huga þurfi að orkuöflun og línulögnum, og að losunarheimildir þurfi að liggja fyrir, geti fallið undir heimildir stofnunarinnar til að setja skilyrði eða mæla fyrir um mótvægisaðgerðir á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, enda lúta þessar ábendingar að framkvæmdaþáttum sem ekki er fjallað um í matsskýrslu þeirri sem álitið tekur til.  Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar á sínum tíma að krefjast ekki sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álversins og tengdra framkvæmda og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði umhverfisráðherra hinn 3. apríl 2008.  Þykir það ekki samræmast þeirri niðurstöðu að gera síðar, í áliti um matsskýrslu sem einungis tekur til mannvirkjagerðar innan lóðar álversins, áskilnað um að leyfisveitingum verði frestað með vísan til þeirra atvika sem að framan greinir.  Var því ekki þörf á að færð væru fram frekari rök gegn téðum sjónarmiðum Skipulagsstofnunar en gert var við töku hinna kærðu ákvarðana.  Verður þvert á móti að telja að rökstuðningur leyfisveitenda hafi verið fullnægjandi í hinu kærða tilviki, enda lá fyrir að Skipulagsstofnun taldi að þær framkvæmdir við álver Norðuráls Helguvík sf. sem matsskýrslan tekur til myndu ekki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi og samfélag.  Kemur sú afstaða fram í lokamálsgrein álits stofnunarinnar en þar er jafnframt gerður fyrirvari um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda.  Engin lagaheimild er fyrir slíkum fyrirvara og var leyfisveitendum rétt að líta framhjá honum svo sem gert var.

Ekki skiptir máli þótt leyfi þau sem voru grundvöllur að upphafi framkvæmda við byggingu álversins, og veitt voru hinn 12. mars 2008, kunni að hafa verið ólögmæt, enda voru framkvæmdirnar í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag og féllu því ekki undir 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var sveitarfélögum þeim sem hlut áttu að máli því heimilt að bæta úr hugsanlegum annmörkum á leyfunum og veita þau að nýju með þeim hætti sem gert var og hefur nefndur undanfari hinna kærðu ákvarðana engin áhrif á lögmæti þeirra.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ekki fallist á að hinar kærðu ákvarðanir hafi verið haldnar neinum þeim annmörkum er leiða eigi til ógildingar og verður kröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Geir Oddsson

 

____________________________                    _____________________________
Geirharður Þorsteinsson                                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

81/2007 Lyngborgir

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.   

Fyrir var tekið mál nr. 81/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir B, Heiðarbæ 6 í Reykjavík, eigandi lóðar og húss nr. 48 í Oddsholti í landi Minni-Borgar í Grímsnesi, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.     

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 var  samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. sama mánaðar.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007.  Engar athugasemdir bárust. 

Auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. júlí 2007. 

Framangreindri samþykkt sveitarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er bent á að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi liggi aðalvegur um svæðið um fjóra metra frá mörkum lóðar kæranda og um 20 m frá húsi hans.  Um sé að ræða malarveg með tilheyrandi ryki og grjótkasti.  Í gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé talað um 50-100 m fjarlægð vegar frá byggð.  Mikil hætta sé samfara því að hafa veginn svo nærri. 

Hið kærða deiliskipulag hafi í engu verið kynnt kæranda, sem sé afar slæmt, en í 17 ár hafi hann verið íbúi í Oddsholti. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar Lyngborgar í landi Minni-Borgar hafi verið auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007 og hafi engar athugasemdir borist.  Í auglýsingunni hafi m.a. komið fram að hver sá sem ekki myndi gera athugasemd við tillöguna innan tilskilins frests teldist hafa samþykkt hana.   

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að samþykkt var á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. sama mánaðar.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007 án þess að athugasemdir bærust.  Var tekið fram í auglýsingunni að hver sá sem ekki gerði athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests, teldist vera samþykkur henni.

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Því er haldið fram af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps að vísa beri kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi ekki komið á framfæri við sveitarstjórn  athugasemdum sínum þegar tillaga að hinu kærða deiliskipulagi var auglýst. 

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en kærandi máls þessa hafi fyrst með kæru til úrskurðarnefndarinnar komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags. 

Fyrrnefnd ákvæði skipulags- og byggingarlaga verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir sem ekki koma á framfæri athugasemdum sínum vegna auglýsingar á tillögu að deiliskipulagi teljist vera samþykkir henni.  Úrskurðarnefndin er bundin af þessum lagaákvæðum og verða þau því lögð til grundvallar í málinu.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki fallist á að kærandi, sem að lögum telst hafa verið samþykkur umdeildri skipulagstillögu, hafi síðar getað haft uppi í kærumáli kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar, sem samþykkt hefur verið á grundvelli tillögunnar, án breytinga er varðað geta hagsmuni hans.  Verður kærandi því ekki talinn eiga kæruaðild í málinu og ber því að vísa því frá úrskurðarnefndinni.  
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

 

 

 

87/2007 Lyngborgir

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.   

Fyrir var tekið mál nr. 87/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir S, Tungubakka 32, Reykjavík, f.h. stjórnar Félags sumarbústaðaeigenda í Oddsholti í landi Minni-Borgar í Grímsnesi, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.     

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að réttaráhrifum hennar verði frestað.  Með tilliti til þess að vegur sá er kærendur setja helst fyrir sig hafði þegar verið lagður, er kæran barst úrskurðarnefndinni, þóttu ekki efni til að taka kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa til sérstakrar úrlausnar.

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 var  samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.  Í tillögunni fólst að gert var ráð fyrir 30 lóðum á um 35 ha svæði sem liggur að eldri frístundabyggð í Oddsholti, sunnan Búrfellslínu 1 og 2.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. október s.á.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007.  Í auglýsingunni sagði eftirfarandi:  „Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests, telst vera samþykkur henni.“  Engar athugasemdir bárust og var því óskað eftir meðferð Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 20. mars 2007. 

Með bréfi Félags sumarbústaðaeigenda í Oddsholti til Skipulagsstofnunar, dags. 28. mars 2007, var því komið á framfæri við stofnunina að auglýsing um tillögu deiliskipulagsins hefði farið framhjá félagsmönnum ásamt því að gerðar voru athugasemdir bæði við málsmeðferð og efni tillögunnar.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til skipulagsfulltrúa, dags. 30. mars 2007, kom fram að stofnunin tæki ekki afstöðu til erindis Grímsnes- og Grafningshrepps að svo stöddu og því beint til sveitarstjórnar að taka afstöðu til athugasemda Félags sumarbústaðaeigenda í Oddsholti, þó svo að bréf félagsins hefði ekki borist fyrr en um tveimur mánuðum eftir að athugasemdafresti lauk.

Sveitarstjórn tók bréf kæranda, dags. 28. mars 2007, fyrir á fundi 17. apríl 2007 og bókaði m.a. eftirfarandi:   „Varðandi kynningu á deiliskipulaginu þá bendir sveitarstjórn á að umrætt deiliskipulag hafi verið kynnt á sama hátt og aðrar skipulagstillögur sem hafa verið til meðferðar í sveitarfélögum uppsveita Árnessýslu undanfarin misseri, þ.e. kynnt með áberandi hætti (heilsíðu auglýsingu) í héraðsblaði og blaði sem gefið er út á landsvísu.  Varðandi legu vegarins þá var að sögn landeiganda ákveðið að vera með hann á þessum stað þar sem áætlað er að leggja reiðveg meðfram byggðinni að austanverðu.  Ef bílvegurinn hefði verið að austanverðu hefði reiðvegurinn þurft að vera á þeim stað sem bílvegurinn er núna en ekki var talið æskilegt að beina þeirri umferð í gegnum mitt hverfið.  Vegsvæðið sjálft er einnig tiltölulega breitt og er vegurinn sjálfur í nokkurri fjarlægð frá girðingu við Oddsholt.  Ljóst er að eitthvað ónæði mun skapast fyrir nærliggjandi lóðarhafa á meðan á framkvæmdum stendur en slíkt ástand er einungis tímabundið.  Að mati sveitarstjórnar er ekki tilefni til að breyta deiliskipulaginu í samræmi við óskir félags sumarbústaðaeigenda í Oddsholti.“  Með bréfi sveitarstjóra, dags. 17. apríl 2007, var framangreint tilkynnt kæranda.  Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 4. maí 2007, var afgreiðsla þessi kynnt Skipulagsstofnun og óskað eftir meðferð stofnunarinnar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 25. maí 2007, kom fram að gera þyrfti grein fyrir útivistarsvæði fyrir núverandi byggð og aðgengi að því, auk þess að athuga þyrfti fjarlægð byggingarreita frá Búrfellslínu 1.  Einnig var mælst til þess að sveitarfélagið leitaðist við að ná samkomulagi við kæranda.  Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 4. júní 2007, var m.a. tekið fram að ákvæði í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2002-2014, um svæði fyrir frístundabyggð, ætti ekki við í þessu tilviki því deiliskipulag frístundabyggðar í Oddsholti hefði tekið gildi áður en aðalskipulagið hefði tekið gildi.  Því ættu þessar reglur ekki við á þegar byggðum svæðum, heldur eingöngu um óbyggð og ódeiliskipulögð svæði.  Ekki væri hægt að gera þá kröfu núna að afmarka sérstakt útivistarsvæði fyrir lóðarhafa frístundabyggðar í Oddsholti utan við skipulagssvæði þeirrar byggðar.  Þá kom fram í bréfi skipulagsfulltrúa að 65 m væru frá miðri Búrfellslínu að byggingarreit og væri búið að leiðrétta uppdrætti hvað þetta varði.  Þá var í bréfinu tekið fram að sveitarstjórn hefði tekið afstöðu til athugasemda kæranda á fundi 17. apríl 2007 og ekkert nýtt lægi fyrir í því máli.  Var deiliskipulagið sent til afgreiðslu stofnunarinnar með vísan til 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 26. júní 2007, var lagfærður uppdráttur að deiliskipulagi frístundabyggðarinnar Lyngborga sendur Skipulagsstofnun.  Í lagfæringunni fólst að göngustígar, sem lágu frá frístundabyggð í Oddsholti, framlengdust yfir á hið deiliskipulagða svæði.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 5. júlí 2007, var kynnt að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að Grímsnes- og Grafningshreppur auglýsti samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing þess efnis hinn 27. júlí 2007. 

Skaut kærandi framangreindri samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að 27. júlí 2007 hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda deiliskipulag fyrir Lyngborgir í landi Minni-Borgar.  Sé auglýsingin endapunktur ferils sem staðið hafi í sex mánuði sem sumarbústaðaeigendur í aðliggjandi hverfi, Oddsholti, hafi ítrekað gert athugasemdir við.  Telji kærandi að upphafleg auglýsing deiliskipulagsins hafi verið villandi og ekki þar gefið til kynna að um væri að ræða svæði nærri Oddsholti.  Svæðið hafi verið auglýst sem deiliskipulag við Lyngborgir en engin leið hafi verið fyrir félagsmenn eða aðra hagsmunaaðila að átti sig á því að um væri að ræða land það sem lægi að Oddsholti.  Auglýsingin hafi því farið framhjá öllum eigendum á svæðinu og kæranda máls þessa og því hafi enginn gert athugasemdir við tillöguna.  Það hafi ekki verið fyrr en framkvæmdir hafi byrjað við lagningu vegar um svæðið að kæranda hafi orðið ljóst hvað um væri að ræða.  Þá hafi strax hafist bréfaskriftir við sveitarfélagið og Skipulagsstofnun um málið og athugasemdir gerðar við skipulagið og málsmeðferð þess en þær hafi ekki verið teknar til greina.

Lúti athugasemdir kæranda einkum að því að aðkomuvegur að svæðinu sé lagður meðfram lóðum í Oddsholti sem fyrir vikið lendi sumar hverjar á milli tveggja aðkomuvega.  Það valdi óþægindum, ónæði og verðrýrnum á umræddum fasteignum en einfalt hefði verið að skipuleggja svæðið með þeim hætti að hafa aðkomuveg austan við hinar nýju lóðir.  Með skipulaginu hafi verið brotið gegn lögmætum væntingum og grenndarrétti lóðarhafa á svæðinu.

Það sé mat kæranda að hefði skipulagið verið kynnt með eðlilegum hætti, þannig að hagsmunaaðilar hefðu getað komið að athugasemdum við auglýsingu, hefði verið orðið við þeirri sjálfsögðu kröfu að færa veginn.  Telji kærandi að frumhlaup landeiganda við að hefja framkvæmdir á svæðinu, án leyfis, og kostnaður hans við að breyta framkvæmdum í samræmi við óskir kæranda sé í raun ástæða þess að ekki hafi verið tekið tillit til framkominna athugasemda.  Hefði verið leikur einn að laga nýtt skipulag Lyngborga að óskum lóðarhafa í Oddsholti.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps  er aðallega krafist frávísunar málsins.  Byggist krafan í fyrsta lagi á því að kæran sé of seint fram komin, en samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 2007.  Kæran sé dagsett 27. ágúst 2007 en ekki móttekin fyrr en 28. sama mánaðar. Kærufrestur hafi því verið liðinn er kærandi skaut máli sínu til nefndarinnar.  Beri því að vísa málinu frá nefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í öðru lagi sé krafa um frávísun studd þeim rökum að tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðarinnar hafi verið í kynningu frá 14. desember 2006 til 11. janúar 2007, með fresti til athugasemda til 25. janúar 2007.  Engar athugasemdir hafi borist.  Í auglýsingunni hafi m.a. komið fram að hver sá sem ekki gerði athugasemdir innan tilskilins frests teldist hafa samþykkt tillöguna.  Hinn 26. október 2006 hafi sveitarstjórn samþykkt  deiliskipulagið.

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segi að þegar sveitarstjórn hafi  samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið sé á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr.  Þar segi m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Kærandi hafi ekki komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags þó honum, líkt og öðrum íbúum í sveitarfélaginu, hafi gefist kostur á að tjá sig um tillöguna á kynningartíma hennar.

Af greindu ákvæði skipulags- og byggingarlaga leiði að þeir sem ekki komi á framfæri athugasemdum sínum vegna auglýsingar á tillögu að deiliskipulagi teljist vera samþykkir henni.  Ljóst sé að kærandi, sem að lögum teljist hafa verið samþykkur skipulagstillögunni, geti ekki síðar í kærumáli haft uppi kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar, sem samþykkt hafi verið á grundvelli tillögunnar án breytinga er varðað geti hagsmuni hans.  Kærandi eigi því ekki kæruaðild að málinu og beri að vísa því frá úrskurðarnefndinni, sbr. úrskurð hennar í máli nr. 6/2007.

Í þriðja lagi sé frávísunar krafist með vísan til þess að kærandi, sem sé Félag sumarbústaðaeigenda í Oddsholti, eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Þá sé ekki gerð grein fyrir því með hvaða hætti umrætt félag geti átt kæruaðild fyrir nefndinni.

Til vara byggir Grímsnes- og Grafningshreppur á því að hafna beri kröfu kæranda þar sem  afgreiðsla og málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi verið fullkomleg lögmæt og í samræmi við 23. og 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Vakin sé athygli á að í kæru sé ekki vísað til þess að sveitarstjórn hafi brotið gegn tilteknum ákvæðum greindra laga við málsmeðferð sína.  Kynning og auglýsing umræddrar skipulagstillögu hafi verið framkvæmd á sama hátt og tíðkast hafi með aðrar deiliskipulagstillögur sem séu til meðferðar hjá sveitarfélaginu.  Athugasemdir hafi ekki verið gerðar á kynningartíma af hálfu kæranda.  Teljist hann því samþykkur tillögunni að lögum.  Athugasemdir kæranda hafi ekki borist fyrr en um tveimur mánuðum eftir að athugasemdafresti hafi lokið.  Sveitarstjórn hafi svaraði erindi kæranda en ekki talið tilefni til að breyta deiliskipulaginu í samræmi við óskir hans.  Varðandi athugasemdir kæranda að öðru leyti vísist til bókunar sveitarstjórnar frá 17. apríl 2007, þar sem þeim hafi verið svarað efnislega.

Andsvör kæranda vegna málsraka Grímsnes- og Grafningshrespps:  Kærandi mótmælir kröfu Grímsnes- og Grafningshrepps um frávísun málsins og áréttar kröfu um ógildingu hins kærða deiliskipulags. 

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 18. september 2008.

Niðurstaða:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er krafist frávísunar málsins.  Á það verður ekki fallist.  Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. júlí 2007 og degi síðar byrjaði kærufrestar að líða.  Kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 28. ágúst s.á. eða á lokadegi kærufrests, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi setti fram athugasemdir vegna hins kærða deiliskipulags eftir að fresti samkvæmt auglýsingu varðandi deiliskipulagstillöguna rann út.  Voru athugasemdirnar teknar fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 17. apríl 2007 og þeim svarað með bréfi til kæranda, dags. 4. maí s.á.  Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið sé á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni.  Ákvæði þessi eru mjög íþyngjandi og verður að túlka þau þröngt.  Í máli þessu tók sveitarstjórn til meðferðar athugasemdir kæranda sem bárust eftir tilskilinn frest og verður að telja að með því hafi sveitarstjórn firrt sig rétti til að bera tilvitnuð ákvæði fyrir sig.  Verður málinu því ekki vísað frá með þeim rökum að athugasemdir kæranda hafi borist eftir að athugasemdafrestur var liðinn. 

Sumarbústaðareigendur í Oddholti hafa stofnað með sér félag um hagsmunamál sín.  Er félagið skráð í fyrirtækjaskrá og telst lögaðili.  Verður að telja að félagið geti komi fram sem aðili máls fyrir úrskurðarnefndinni í málum er varða hagsmuni félagsmanna eins og í máli þessu.

Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess að meðferð málsins hafi verið andstæð lögum ásamt því að grenndaráhrif aðkomuvegar að svæðinu hafi í för með sér óþægindi, ónæði og verðrýrnum á fasteignum félagsmanna. 

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að meðferð þess hjá sveitarstjórn og Skipulagsstofnun hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Þá er efni hinnar kærðu ákvörðunar í samræmi við heimildir aðalskipulags og er tenging svæðisins við samgöngur sýnd í aðalskipulagi.  Ekki verður heldur talið að regla gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkja frá vegum komi til álita í málinu þar sem hún á ekki við um einkaveg sem jafnframt er aðkomuvegur að lóðum.  Þá verður og til þess að líta að hafi félagsmenn kæranda sannanlega orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við gildistöku skipulagsins er þeim tryggður réttur til skaðabóta samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Með vísan til alls framanritaðs verður ekki fallist á ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.     

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

 

 

 

 

22/2006 Melar

Með

 

Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2006, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2006 um deiliskipulag Mela, sem tekur til hluta Melahverfis við Hagamel, Grenimel og Reynimel í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. mars 2006, er barst nefndinni 20. sama mánaðar, kæra K og L, Grenimel 44, G og H Grenimel 48, E og V, Reynimel 65, H, J og E, Reynimel 63, B, Reynimel 61, S, F og E, Grenimel 45, K og H, Grenimel 47, og J og V, Grenimel 42 ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2006 um deiliskipulag Mela, sem tekur til hluta Melahverfis við Hagamel, Grenimel og Reynimel í Reykjavík. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á fundi skipulagsráðs hinn 10. ágúst 2005 var lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi Mela, en skipulagsreiturinn afmarkast af Hofsvallagötu, Hagamel, Reynimel og lóðarmörkum Reynimels 58-68 og Víðimels 55-67.  Var samþykkt á fundinum að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu og stóð kynning frá 15. ágúst til 5. september 2005.  Bárust athugasemdir frá nokkrum íbúum á svæðinu. 

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 5. október 2005 og samþykkt að auglýsa tillöguna með þeim breytingum er fram kæmu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 30. september s.á.  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu á fundi sínum hinn 27. október 2005.  Þá gerðu skipulags- og byggingarsvið, byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur og Minjasafn Reykjavíkur húsakönnun fyrir umrætt svæði í október 2005 og var niðurstaðan sú að ekki væri gerð tillaga um verndun svæðis eða friðun húsa. 

Var tillaga að deiliskipulagi Mela auglýst frá 4. nóvember til 16. desember 2005 og bárust athugasemdir frá fjölmörgum aðilum, m.a. listi með undirskriftum 100 aðila. 

Tillagan var enn á ný lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 18. janúar 2006 og hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og málinu vísað til borgarráðs er staðfesti samþykktina á fundi sínum hinn 26. janúar s.á.  Birtist auglýsing um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. febrúar 2006 að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Þá samþykkti skipulagsráð leiðréttingu á skilmálum deiliskipulagsins hinn 10. maí 2006, en upplýsingar í skilmálatöflu skipulagsins höfðu víxlast og birtist auglýsing þess efnis 30. maí s.á. í B-deild Stjórnartíðinda.  Skutu kærendur fyrrgreindri ákvörðun borgarráðs frá 26. janúar 2006 til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir. 

Deiliskipulagsreiturinn afmarkast sem fyrr segir af Hofsvallagötu, Hagamel, Reynimel og lóðarmörkum Reynimels 58-68 og Víðimels 55-67.  Skiptist svæðið í tvo götureiti og hluta af þeim þriðja og samkvæmt skilmálum hins kærða deiliskipulags er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum á reitunum.  Þó er m.a. gert ráð fyrir að byggja megi við húsin að Grenimel 46 og Reynimel 66 innan byggingarreits, eða að ný hús verði byggð á lóðunum verði hin eldri rifin.  Þá er m.a. heimilt á öðrum lóðum, þar sem nýtingarhlutfall er innan við 0,75, að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna.  Jafnframt er m.a. heimilt að byggja litlar geymslur á baklóðum, og á lóðinni að Hagamel 42 er gert ráð fyrir byggingu bílgeymslu. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að deiliskipulagið taki ekki nægjanlega mikið mið af þeirri byggð sem fyrir sé, en um sé að ræða þegar uppbyggt hverfi og verið sé að leyfa nýbyggingar sem séu mun stærri en hús þau sem fyrir séu á reitnum. 

Nýtingarhlutfall nýbygginga sé of hátt og ekki sé tryggt að útreikningur sá sem nýtingarhlutfallið sé byggt á sé sambærilegur við útreikning nýtingarhlutfalls þeirra húsa sem séu á reitnum.  Setja þurfi inn ákvæði um hámarksrúmmál húsa og/eða hversu stórt hlutfall gólfflata teljist ekki með í nýtingarhlutfalli. 

Gert sé ráð fyrir að nýbyggingar geti verið hærri en aðliggjandi hús og salarhæðin sé ekki tilgreind.  Ekki sé gerður greinarmunur á hæð húsa með flötum þökum og húsa með mæni.  Form og skipulag húsa sem nú þegar séu í hverfinu komi ekki fram í skipulaginu.  Megi þar t.d. nefna hæð lóða miðað við götuhæð og mismunandi húsagerðir sem skipta megi í þrjá flokka. 

Deiliskipulagið virðist taka mið af því að sameina á lóðinni nr. 46 við Grenimel allt það sem stuðli að því að ná sem mestri nýtingu út úr lóðinni.  Þannig eigi að nota nýtingarhlutfall til að ákvarða byggingarmagnið og hafi of hátt hlutfall verið valið þar sem lóðin sé langstærst.  Fyrirhugað hús á lóðinni sé miklu stærra en nýtingarhlutfallið segi til um, með því að taka með svæði þar sem gólffletir teljist ekki með í nýtingarhlutfallinu, og valdi aukin stærð hússins miklu skuggavarpi sérstaklega við Reynimel.  Flatarmál byggingarreits hússins við Grenimel 46 sé 221 eða 247 m² og hússins við Reynimel 66 sé 186 m².  Stærsti grunnflötur húss í húsagerðarflokki 3, Reynimels 59, sé 185 m² og grunnflötur þess húss sem sé á stærstu lóðinni, Hagamel 52, sé 180 m².

Ekki sé hægt að endurreisa hús af sömu tegund á lóðum í fyrstu húsaröðinni við Hofsvallagötu þar sem skipulagið leyfi ekki hærri hús en 9 m.  Þá komi ekki skýrt fram að skipulag nýbygginga og lóða skuli vera í samræmi við þá byggð sem fyrir sé.  Kærendur geri athugasemdir við að málsetningar vanti á reiti og flatarmál byggingarreita nýbygginga til að meta umfang þeirra.  Deiliskipulagið sýni aðeins hvar húseigendur þriggja húsa geti byggt við hús sín en ekki sé sýnt hvar aðrar viðbyggingar geti risið. 

Þá benda kærendur á að árið 2004 hafi verið grenndarkynnt tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðina að Grenimel 46 þar sem nýtingarhlutfall hafi farið úr 0,24 í 0,92.  Hafi íbúar mótmælt þessu en ekkert deiliskipulag hafi verið til fyrir hverfið og því ekki hægt að grenndarkynna nýtt deiliskipulag og þaðan af síður fyrir einungis eina lóð.  Í ársbyrjun 2005 hafi svo verið grenndarkynnt breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 46 við Grenimel þar sem í ljós hefði komið uppdráttur frá 1951 er sagður hefði verið gildandi deiliskipulag fyrir hverfið.  Hafi nýtingarhlutfall lóðar verið lækkað í 0,75 en umfang hafi verið hið sama og áður, en búið hafi verið að gera breytingar á gólfflötum og lækka þannig nýtingarhlutfallið.  Um 45 aðilar hafi mótmælt tillögunni og verði að líta svo á að grenndarkynningin standi enn yfir þar sem íbúar hafi aldrei fengið svör við athugasemdum sínum. 

Málsrök Reykjavíkurbogar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.  Bent sé á að hæð hússins á lóðinni nr. 46 við Grenimel sé svipuð og annarra húsa á reitnum.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0,75, en helmingur lóða hafi þegar þá nýtingu eða hærri.  Bílskúr sé af sömu stærð og hæð og aðrir bílskúrar á reitnum. 

Málsmeðferð sé í fullu samræmi við skipulags- og byggingarlög en nýtt deiliskipulag hafi verið unnið þar sem ekki hafi verið til deiliskipulag að svæðinu.  Hagsmunaaðilum hafi verið kynnt niðurstaða skipulagsráðs í málinu, en ekki sé skylt að senda þeim sem athugasemdir hafi gert svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum.  Geti aðilar kynnt sér slík gögn.  Ekki sé rétt að málsetningar vanti á reiti nýbygginga.  Ákvæði í skilmálum, um að neðsta hæð húss sé einum metra undir götuhæð, sé í samræmi við önnur hús á svæðinu en ekki sé þó gert ráð fyrir að öll lóðin sé metra lægri en götuhæð.  Hæðarkótar lóða á lóðarmörkum séu gefnir upp á hæðarblöðum. 

Heimilt sé að byggja innan byggingarreits hús með flötu þaki eða þak með allt að 30 gráðu halla, en þó ekki út fyrir reitinn.  Sé það í samræmi við önnur hús á reitnum.  Við gerð tillögunnar hafi verið leitast við að hafa skilmála nokkuð opna þannig að ákveðið frelsi gæfist við að hanna húsin.  Þó hafi þess verið gætt að hæð þeirra og þakform væru í samræmi við önnur hús á reitnum.  Séu hús á skipulagssvæðinu nokkuð mishá, bæði miðað við vegghæð og efsta punkt þaks.  Þar séu hús sem séu með vegghæð verulega undir því sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulaginu en einnig hús með hærri útveggi.  Þök húsa séu flest einhalla en þó séu nokkur með mænisþaki þar sem mænirinn fari yfir hámarkshæð.  Því sé ekki talið að 9 metra hátt hús muni skera sig úr í umhverfinu. 

Ekki sé venja að gefa upp hámarksrúmmál húsa í deiliskipulagi, enda takmarkist stærðin annars vegar af byggingarreit og hins vegar af brúttóflatarmáli húss á lóðinni.  Þá hafi verið sett ákvæði um frágang lóða og húsa í skilmálum skipulagsins. 

———-

Gerð hefur verið ítarlegri grein fyrir rökum og sjónarmiðum sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags fyrir Mela, sem tekur til hluta Melahverfis við Hagamel, Grenimel og Reynimel í Reykjavík.  Á svæðinu er gróin byggð og í skilmálum skipulagsins kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir miklum breytingum á reitnum. 

Umrætt deiliskipulag ber þess merki að megintilgangur þess sé að koma fram áformum um endurbyggingu á lóðinni nr. 46 við Grenimel, en eins og fyrr hefur verið greint frá munu tvisvar hafa verið grenndarkynnt byggingaráform á þeirri lóð áður en tillaga að deiliskipulagi svæðisins kom fram.  Hafa kærendur m.a. haldið því fram að nýtingarhlutfall á lóðum, þar sem nýbyggingar séu heimilaðar, sé of hátt og að ekki sé tryggt að útreikningur sá, er nýtingarhlutfall byggist á, sé sambærilegur þeim er byggt hafi verið á við útreikning á nýtingarhlutfalli annarra lóða á skipulagsreitnum.  Þá sé deiliskipulaginu m.a. áfátt að því leyti að málsetningar vanti á reiti nýbygginga til að meta umfang þeirra. 

Fyrir liggur að byggingarframkvæmdir eru hafnar á lóðinni að Grenimel 46 en leyfi vegna þeirra hefur ekki verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er því ekki tilefni til að meta hvort þær séu í samræmi við deiliskipulag svæðisins.  Í skipulaginu er hins vegar gerð grein fyrir heimildum til nýbygginga þar sem við á og tekið fram hvert sé nýtingarhlutfall lóðanna sem og hámarkshæð fyrirhugaðra bygginga.  Einnig virðist hinu kærða skipulagi ætlað að jafna nýtingarhlutfall lóða á skiplagsreitnum og er þannig heimilt að reisa viðbyggingar á þeim lóðum þar sem nýtingarhlutfall er lægra en 0,75.

Fallast má á það sjónarmið kærenda að skýrara hefði verið að sýna byggingarreiti fyrir viðbyggingar á lóðum, en til þess ber þó að líta að um gróna byggð er að ræða og setur það möguleikum til viðbygginga nokkrar skorður.  Þá er í skipulaginu gerður áskilnaður um fjarlægð viðbygginga frá lóðamörkum og verður að telja að framsetning skipulagsins fullnægi lágmarkskröfum, enda er ákvæði gr. 5.4.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 ekki fortakslaust hvað þetta varðar. 

Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu við auglýsta tillögu um deiliskipulag umsögn sína um þær.  Hafa kærendur gert athugasemd við að málsmeðferð hafi m.a. verið áfátt að þessu leyti.  Meðal málsganga er bréf skipulags- og byggingarsviðs til eins kærenda þar sem tilkynnt er um hina kærðu ákvörðun og fylgir bréfinu umsögn skipulagsfulltrúa um framkomar athugasemdir.  Verður að telja að eins og hér stóð á hafi þessi tilkynning verið fullnægjandi enda bera málsgögn það með sér að samráð hafi verið með kærendum um andmæli þeirra við tillögunni.  Verður því ekki fallist á að málsmeðferð hafi verið svo áfátt að þessu leyti að leiða eigi til þess að hið umdeilda skipulag verði fellt úr gildi. 

Um útreikning nýtingarhlutfalls segir í skilmálum skipulagsins að óupphituð rými, s.s. svalalokanir, reiknist ekki með í flatarmáli húsa og teljist því ekki með þegar nýtingarhlutfall lóða sé reiknað.  Var þessari málsgrein bætt við skilmála skipulagsins eftir að þeir voru auglýstir og felur ákvæðið í sér að gólfflötur tiltekins rýmis í lokunarflokki B telst ekki með við útreikning nýtingarhlutfalls.  Ákvæðið fer í bága við skilgreiningu orðsins nýtingarhlutfall í gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, eins og þeirri grein var breytt með reglugerð nr. 420/2002, en í greininni segir að nýtingarhlutfall sé hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga og byggingarhluta í lokunarflokkum A og B, sbr. ÍST 50:1998, á lóð eða reit og flatarmáls lóðar eða reits.

Skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er staðfest af ráðherra og eru skipulagsyfirvöld bundin af ákvæðum hennar við skipulagsgerð.  Verður ekki frá henni vikið með ákvæðum í skipulagsskilmálum og verður að meta ógild þau ákvæði skipulagsskilmála sem fara í bága við ákvæði reglugerðarinnar, nema sérstök heimild sé til slíkra frávika.  Í tilviki því sem hér um ræðir er slíkri heimild ekki fyrir að fara og var borgarráði því óheimilt að taka upp í skilmála hins umdeilda skipulags ákvæði sem vék frá ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um útreikning nýtingarhlutfalls.  Verður hin kærða ákvörðun því ógilt hvað varðar þetta ákvæði skipulagsskilmála, en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hún að öðru leyti látin standa óröskuð, enda þykja ekki slíkir ágallar á hinni kærðu ákvörðun að efni séu til að ógilda hana í heild sinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hin kærða samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2006 um deiliskipulag Mela skal óröskuð standa, að öðru leyti en því að fellt er úr gildi ákvæði í skipulagsskilmálum um að óupphituð rými, s.s. svalalokanir, reiknist ekki með í flatarmáli húsa og teljist því ekki með þegar nýtingarhlutfall lóða er reiknað.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________        _______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

80/2007 Laugavegur

Með

Ár 2008, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2007, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. desember 2006 um breytt deiliskipulag staðgreinireits 1.171.3 er tekur til hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir H, til heimilis að Laugavegi 5 í Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. desember 2007 um breytt deiliskipulag staðgreinireits 1.171.3, þ.e. svæðis er tekur til hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík.  Fundargerð skipulagsráðs var lögð fram til kynningar á fundi borgarráðs hinn 21. desember 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2002 var samþykkt deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.3.  Var þar heimilað að fjarlægja húsin á lóðunum nr. 4 og 6 við Laugaveg og reisa í þeirra stað þriggja hæða hús með risi og kjallara.  Á syðri hluta lóðarinnar að Laugavegi 6 var þó aðeins heimilað að byggja einnar hæðar hús með kjallara.  Hinn 31. ágúst 2006 tók gildi breyting á deiliskipulagi umrædds reits.  Fól hún í sér sameiningu lóðanna að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A í eina lóð og að reisa mætti fjögurra hæða byggingu við Laugaveg en byggingarmagn við Skólavörðustíg yrði óbreytt. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 20. september 2006 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðanna að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A.  Í tillögunni fólst m.a. að húsin að Laugavegi  4 og 6 og Skólavörðustíg 1A yrðu tengd saman og þar byggt hótel með móttöku á fyrstu hæð sem tengd yrði veitingastað.  Þá var gert ráð fyrir að hæð hússins við Laugaveg yrði óbreytt, eða 12,5 metrar, hæð þakskeggs þess fylgdi þakskeggshæð hússins að Laugavegi 8 og að heimiluð yrði stækkun hússins um 171 fermetra.  Samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu.  Var tillagan kynnt nágrönnum og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda.  Skipulagsráð samþykkti síðan skipulagstillöguna hinn 20. desember 2006 á grundvelli 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð og með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa.  Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. júlí 2007.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið ábótavant, m.a. hafi kæranda ekki verið kynnt tillagan, öll gögn hafi ekki legið frammi og skort hafi upplýsingar um skuggavarp.  Fjölgun veitingastaða á svæðinu fari í bága við þróunaráætlun miðborgar og muni hin fyrirhugaða bygging hafa veruleg áhrif á eign kæranda, m.a. vegna þess hve há hún komi til með að vera.   

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að hámarksnýtingarhlutfall umræddrar lóðar hækki úr 3,96 í 4,20 en hæð húss og skuggavarp taki ekki breytingum frá gildandi deiliskipulagi reitsins.  Unnin hafi verið ítarleg greinargerð um skuggavarp sem sýni með ótvíræðum hætti að frekar sé dregið úr skuggavarpi en gera hafi mátti ráð fyrir samkvæmt elda skipulagi.  Grenndarkynning hafi ekki náð til kæranda þar sem umdeild breyting hafi ekki verið talin hafa grenndaráhrif á fasteignir handan götunnar.  Kærandi hafi engu að síður komið að athugasemdum sínum á kynningartíma tillögunnar og þeim verið svarað af skipulagsyfirvöldum.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að eftir að hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi hefur skipulagi umrædds reits verið breytt.  Hinn 2. október 2008 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.3 vegna lóðanna við Laugaveg 4 og 6, þar sem m.a. er gert ráð fyrir verndun þeirra húsa er nú standa á þeim lóðum.  Var auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. nóvember 2008.

Samkvæmt framangreindu hefur deiliskipulagi svæðis þess er hin kærða ákvörðun tekur til verið breytt í svo veigamiklum atriðum að ekki verður séð að kærandi eigi lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hennar, en slíkir hagsmunir eru skilyrði kæruaðildar samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________ 
Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________       ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

67/2005 Urriðaholt

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2005, kæra á samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 12. júlí 2005 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir stíg meðfram Álftanesvegi að Urriðaholti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. ágúst 2005, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, kærir J, f.h. eigenda jarðarinnar S, framkvæmdir við gerð stígs meðfram Álftanesvegi að Urriðaholti.  Kröfðust kærendur þess að ef umboð eða heimildir væru ekki fyrir hendi yrðu framkvæmdir stöðvaðar.  Af andsvörum kærenda, dags. 17. október 2005, við greinargerð Garðabæjar í málinu frá 14. september s.á., verður ráðið að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndin aflaði upplýsinga bæjaryfirvalda um hina umdeildu framkvæmd og var upplýst að um væri að ræða framkvæmdaleyfi fyrir bráðabirgðatengingu að nýju framkvæmdasvæði og var gerð stígsins að mestu lokið er kæran barst úrskurðarnefndinni.  Þóttu því ekki efni til að taka sérstaklega til úrlausnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2005 var lokið við gerð deiliskipulags fyrir verslunar- og þjónustusvæði í Urriðaholti í Garðabæ og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. júlí 2005.  Við undirbúning framkvæmda á svæðinu óskaði bæjarverkfræðingurinn í Garðabæ eftir framkvæmdaleyfi til að gera stíg er tryggði bráðabirgðaaðkomu að lóðum á svæðinu og var umbeðið leyfi veitt hinn 12. júlí 2005 með hinni kærðu samþykkt bæjarráðs.  Við gerð stígsins var farið yfir svæði þar sem eigendur jarðarinnar Selskarðs telja til beitarréttar og höfðu sett upp beitarhólf sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum er stígurinn var gerður.  Höfðu kærendur uppi mótmæli við þessum athöfnum bæjaryfirvalda og gera kröfu til þess að þær verði metnar ólögmætar.

Af hálfu kærenda er á því byggt að umræddur stígur hafi ekki verið í samræmi við aðal- og deiliskipulag og að gerð hans hafi farið í bága við rétt kærenda og verið án heimildar rétthafa að svæðinu.

Af hálfu Garðabæjar er því haldið fram að lega umrædds stígs hafi verið ákvörðuð með hliðsjón af samþykktu aðalskipulagi og tillögu að deiliskipulagi.  Stígurinn sé til bráðabirgða og liggi um svæði sem samkvæmt skipulagi eigi að vera óhreyft hraun. 

————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki þykir ástæða til að rekja frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Ekki verður í máli þessu tekin afstaða til þess hvernig háttað sé óbeinum eignarréttindum kærenda á umræddu svæði en því hefur ekki verið mótmælt að þeir geti átt lögvarða hagsmuni í málinu.  Verður málið því tekið til efnislegrar úrlausnar.

Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn, við útgáfu framkvæmdaleyfis, taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.  Verður að skilja ákvæði þetta á þann veg að áskilið sé að framkvæmdir sem háðar eru framkvæmdaleyfi þurfi jafnframt að eiga stoð í skipulagi.  Bæjaryfirvöld hafa látið úrskurðarnefndinni í té loftmynd af umræddu svæði þar sem greina má stíg þann sem um er deilt í málinu.  Jafnframt liggja fyrir skipulagsuppdrættir aðal- og deiliskipulags.  Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir svonefndum fjarstíg frá austri til vesturs um svæði það sem hér um ræðir.  Við samanburð á þessum gögnum kemur í ljós að stígur sá er um er deilt í málinu fellur ekki að skipulagi og er lega hans nokkuð önnur en þar er gert ráð fyrir.  Var því ekki gætt ákvæðis 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga er leyfi fyrir honum var veitt og var leyfið því ólögmætt.

Enda þótt bráðabirgðanotkun stígsins fyrir umferð bifreiða og vinnuvéla hafi verið hætt hefur hann ekki verið afmáður.  Þykir í því ljósi rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna tafa við gagnaöflun og mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 12. júlí 2005 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir stíg meðfram Álftanesvegi að Urriðaholti.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________        ______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

10/2007 Bykoreitur

Með

Ár 2008, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2007, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 14. desember 2006 um deiliskipulag svokallaðs Bykoreits í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. febrúar 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 5. sama mánaðar, kæra íbúar að Sólvallagötu 82, 83 og 84 í Reykjavík samþykkt borgarráðs frá 14. desember 2006 um deiliskipulag svokallaðs Bykoreits í Reykjavík er afmarkast af Framnesvegi, Hringbraut og Sólvallagötu. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 28. apríl 2004 voru lögð fram drög að forsögn skipulagsfulltrúa, dags. í apríl 2004, að deiliskipulagi svokallaðs Bykoreits er afmarkast af Hringbraut, Sólvallagötu og Framnesvegi.  Var forsögnin samþykkt með þeim breytingum sem fram komu á fundinum.  Á fundi nefndarinnar í desember sama ár voru lögð fram drög að deiliskipulagi reitsins ásamt hljóðvistarútreikningum.  Var gerð eftirfarandi bókun:  „Samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu. Tillagan send til umsagnar Fræðsluráðs. Jafnframt samþykkt að óska heimildar umhverfis- og heilbrigðisnefndar vegna fráviks frá hljóðvistarkröfum skv. reglugerð um hávaða.“  Athugasemdir bárust og á fundi skipulagsráðs hinn 16. nóvember 2005 var eftirfarandi fært til bókar:  „Samþykkt að kynna að nýju framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum innan reitsins og fyrir hagsmunaaðilum að Sólvallagötu 80-84.“  Að lokinni þeirri kynningu var á fundi skipulagsráðs 11. janúar 2006 lögð fram tillaga að deiliskipulagi svæðisins og var eftirfarandi bókað:  „Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa.“  Var tillagan auglýst frá 18. júlí til og með 29. ágúst 2006 og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 29. nóvember 2006 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Auglýst tillaga að deiliskipulagi samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á nýjum uppdrætti dags. nóvember 2006 og með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð staðfesti ofangreinda afgreiðslu skipulagsráðs á fundi hinn 14. desember 2006.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 5. janúar 2007. 

Hin kærða deiliskipulagssamþykkt felur í sér að heimilt er að byggja við eða endurnýja að fullu húsin að Framnesvegi 48-58B og auka byggingarmagn á lóðunum talsvert.  Þá er og heimilað að sameina lóðirnar að Sólvallagötu 77 og 79 og svokallaða Steindórslóð við Hringbraut þar sem heimilt verði að byggja allt að 50 íbúðir í einu eða tveimur húsum.  Heimilt verður að sameina byggingarrétt á þeirri lóð byggingarrétti á aðliggjandi lóðum að Framnesvegi 56A og 58B. Leyfilegt nýtingarhlutfall þessarar nýju lóðar verður 2,0.

Hafa kærendur kært framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að ástæða kæru sé m.a. skortur á lögbundnu samráði en í febrúar 2005 hafi íbúi að Sólvallagötu 84 rekist á blaðagrein þar sem rakin hafi verið mikil byggingaráform á Bykoreit.  Það hafi verið í fyrsta sinn sem íbúar að Sólvallagötu 80-84 hafi frétt af áformunum.  Þá hafi þeir ekki vitað af áformunum við kaup á íbúðum sínum.  Í framhaldi fréttarinnar hafi einn kærenda sent bréf, dags. 8. febrúar 2005, til skipulags- og byggingarsviðs þar sem áformunum hafi verið mótmælt.  Hafi m.a. verið vísað til þess að ekkert samráð hafi verið viðhaft við íbúa, nálægð fyrirhugaðra bygginga hefði í för með sér skerðingu á friðhelgi einkalífs auk þess sem útsýni myndi skerðast.  Áform um skipulag reitsins hafi verið óbreytt þrátt fyrir mótmælin og ekkert samband eða samráð haft við íbúa.  Einu svörin sem fengist hafi varðandi samráð hafi verið þau að ekki tíðkaðist að kynna málið öðrum en íbúum þess reits sem verið væri að skipuleggja.  Samkvæmt þessu komi það íbúum að Sólvallagötu 80-84 ekki við þótt reisa eigi fimm hæða steinmúra, 12 metra frá útsýnisgluggum þeirra. 

Þrátt fyrir að á fundi skipulagsnefndar hafi verið samþykkt að kynna ætti tillögurnar hagsmunaaðilum að Sólvallagötu 80-84 hafi það ekki verið gert.  Í bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 9. október 2006, sé fullyrt að húsfélaginu Sólvallagötu 80-84 hafi verið sent bréf varðandi málið en engin kannist við að hafa móttekið slíkt bréf.  Þá hafi í sama bréfi verið gefið í skyn að samráð hafi falist í því að formanni húsfélagsins hafi verið send útprentun af tillögunni.  Að Sólvallagötu 80-84 séu starfandi fjögur húsfélög, eitt fyrir hvern stigagang, og eitt sameiginlegt fyrir alla stigaganga.  Því sé erfitt að átta sig á við hvaða formann sé átt og ekki boðlegt að kalla svo óformleg og tilviljunarkennd samskipti lögformlegt samráð. 

Hinn 27. ágúst 2006 hafi íbúar að Sólvallagötu 80-84 sent bréf til skipulagsyfirvalda þar sem fyrirhuguðum áformum hafi verið mótmælt.  Þar hafi komið fram að ekkert samráð hafi verið haft við íbúa, þrátt fyrir kröfu þar um, fjarlægð milli bygginga mótmælt sem og hæð bygginganna, skuggavarp yrði of mikið og áhrif bílaumferðar yrðu neikvæð.  Þá hafi verið bent á að verðlagning íbúða ráðist m.a. af útsýni en það myndi skerðast ef áformin næðu fram að ganga.  Að lokum hafi því verið haldið fram að sterkir vindstrengir myndu myndast á svæðinu og krafist rannsóknar á veðurfarslegum áhrifum.  Í desember 2006 hafi einum kærenda borist bréf, dags. 19. s.m., sem hafi átt að vera svar vegna bréfa 26 íbúa til skipulags- og byggingarsviðs.  Einu breytingarnar sem gerðar hafi verið á deiliskipulagsáformunum hafi verið þær að a.m.k. 2/3 hlutar bygginga meðfram Sólvallagötu skyldu vera inndregnar um tvo metra á lóðina.  Auk þess væri fimm hæða bygging flutt innar á lóðina. 

Af hálfu kærenda er mótmælt því verklagi að hver íbúi fái ekki svar við sínu eigin bréfi.  Það geti ekki talist eðlilegt að skipulags- og byggingarsvið skipi einhliða einn úr hópi íbúa sem tengilið við aðra íbúa og því brjóti meðferð málsins gegn 5. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Jafnframt beri að vekja athygli þeirra sem gert hafi athugasemdir á að þeir eigi möguleika á að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála, en það hafi ekki verið gert.  Þá séu svör vegna vindálags ófullnægjandi.  Færsla fimm hæða blokkar sé spor í rétta átt en ekki ásættanleg lausn varðandi skuggavarp og eðlilega fjarlægð á milli húsa. 

Mikið ójafnræði hafi verið á milli íbúa á Sólvallagötu og eigenda Bykolóðar.  Svo virðist sem eigendur lóðarinnar hafi greiðan aðgang að skipulagsyfirvöldum og geti lagt inn eigin arkitektateikningar og hugmyndir meðan ekkert sé rætt við íbúa Sólvallagötu eða þeim gefin kostur á að leggja fram hugmyndir að skipulagi reitsins þannig mannvirki þar  falli vel að umhverfi sínu.  Á milli íbúa Sólvallagötu og eigenda Bykoreits mætist andstæð sjónarmið þar sem mikið byggingarmagn á Bykoreit hækki söluvirði hans en lækki verðmæti íbúða á Sólvallagötu. 

Þá sé því mótmælt að lóðin að Sólvallagötu 80-84 og Bykoreitur séu ekki skipulögð sem ein heild þannig að íbúum Sólvallagötu hafi verið ljóst frá upphafi þær miklu breytingar á nánasta umhverfi sem ætlunin sé að ráðast í.  Auk þess sé því mótmælt að bygging tveggja fimm hæða blokka í 12-18 metra fjarlægð frá húsi kærenda lagi sig að eldri byggð og staðháttum eins og talað sé um í deiliskipulaginu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg telur að tillagan að deiliskipulagi svæðisins hafi verið kynnt með fullnægjandi hætti.  Hún hafi fyrst verið kynnt þeim er hagsmuna áttu að gæta á svæðinu frá 30. desember til 14. janúar 2005.  Í kjölfarið hafi skipulagsráð samþykkt að kynna tillöguna að nýju fyrir hagsmunaaðilum innan reitsins sem og hagsmunaaðilum að Sólvallagötu 80-84.  Hafi kynningin staðið frá 25. nóvember til 9. desember 2005.  Fullyrðingar kærenda þess efnis að þeim hafi ekki verið sent bréf vegna hagsmunaaðilakynningarinnar séu rangar.  Húsfélaginu Sólvallagötu 84 hafi verið sent bréf, dags. 23. nóvember 2005, til kynningar á tillögunni. 

Hinn 11. janúar 2006 hafi skipulagsráð samþykkt að auglýsa tillöguna með þeim breytingum sem fram hafi komið í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. janúar 2006.  Nokkrar athugasemdir hafi borist frá hagsmunaaðilum á svæðinu, en skipulagsráð hafi samþykkt deiliskipulagstillöguna á fundi hinn 29. nóvember 2006, m.a. með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar.  Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. október 2006, hafi komið fram að byggingar, eins og gert væri ráð fyrir, væru fremur lágar meðfram Sólvallagötu og í takti við það sem gerðist í vesturbænum, eða 2-3 hæðir.  Sá hluti hússins sem væri hæstur, þ.e. fimm hæðir, næði ekki alveg að horni Sólvallagötu og Ánanausta.  Þó væri skiljanlegt að íbúar að Sólvallagötu 80-82 hefðu áhyggjur af hæð hússins, það myndi hafa áhrif á skuggavarp seinni hluta dags og tæki einnig útsýni.  Íbúum þar hefði þó mátt vera ljóst að byggt yrði upp á Bykolóðinni, þar sem byggingar þar væru gamlar og lágreistar og starfsemi þar á undanhaldi.  Þegar deiliskipulag Sólvallagötureits hafi verið samþykkt hafi verið til drög að fyrirkomulagi bygginga á Bykoreit, sem að nokkru leyti hafi verið grunnur að deiliskipulagsvinnu Bykoreitsins.  Reiturinn væri á þéttingarsvæði samkvæmt aðalskipulagi.  Því hefði tillagan verið auglýst óbreytt þrátt fyrir athugasemdir í hagsmunaaðilakynningu. 

Í áðurnefndri umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. október 2006, hafi verið komið til móts við óskir íbúa í veigamiklum atriðum.  T.a.m. hafi verið samþykkt að lækka hæsta húsið, þ.e. það sem sé áætlað fimm hæðir, næst Sólvallagötu, eða færa það fjær Sólvallagötu. Við það myndi skuggavarp á Sólvallagötu 80-84 minnka og áhrif á útsýni yrðu líklega minni.  Mesta hæð nýbyggingar yrði ekki meiri en hæð Sólvallagötu 80-84.  Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi einnig komið fram að rætt hefði verið við veðurfræðing um áhrif bygginga á vind.  Með því að byggja hús á horni Sólvallagötu og Ánanausta mætti búast við vindstreng eftir Sólvallagötu við ákveðin veðurskilyrði og yrði sá strengur líklega meiri þeim mun hærri sem byggingin væri.  Það væri því hagstæðara út frá því sjónarmiði að færa hæsta hluta hússins fjær Sólvallagötu. 

Óskir hagsmunaaðila hafi einnig verið þær að byggingarreitur meðfram Sólvallagötu skyldi færður innar á reitinn.  Komið hafi verið til móts við þetta atriði og skilmálum breytt þannig að aðeins yrði heimilt að byggja þriðjung byggingar að byggingarlínu við Sólvallagötu, en afganginn a.m.k. tveimur metrum innar.  Þannig væri tryggt að á tveimur þriðju hluta götuhliðar yrði garður meðfram Sólvallagötu enda ekki heimilt að koma fyrir bílastæðum á þessum hluta lóðarinnar.  Götumyndina mætti gera heillega með því að á þeim hluta lóðarinnar þar sem hús væri inndregið yrðu reistir steinveggir, allt að 1,20 m háir, meðfram lóðarmörkum svipað og við Hávallagötu. 

Það sé eðli borga að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa á miðborgarsvæðinu að gera ráð fyrir því að hvorki óbreytt útsýni né sólarljós sé sjálfgefið í þéttri byggð og geti ávallt tekið breytingum í uppbyggingu hverfa og við þéttingu byggðar.  Það sé aftur á móti hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja hagsmuni allrar heildarinnar og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun sé að ræða vegna framkvæmda á annarri eign. 

Bent sé á að telji aðilar sig hafa orðið fyrir tjóni vegna tillögunnar sé vísað til 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags svokallaðs Bykoreits er markast af Framnesvegi, Hringbraut og Sólvallagötu.  Felur skipulagið m.a. í sér heimild til sameiningar lóðanna að Sólvallagötu 77 og 79 og svokallaðrar Steindórslóðar við Hringbraut, þar sem fyrirhugað er að byggðar verði allt að 50 íbúðir í einu eða fleiri húsum.  Þá er og heimilt að sameina byggingarrétt á lóðinni byggingarrétti á aðliggjandi lóðum, þ.e. Framnesvegi 56A og 58B.  Leyfilegt nýtingarhlutfall þessarar sameinuðu lóðar verði 2,0. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að ógilda beri hina kærðu ákvörðun sökum þess að með henni sé með íþyngjandi hætti gengið gegn grenndarhagsmunum þeirra, m.a. með auknu skuggavarpi, skerðingu á útsýni og því að umferð muni þyngjast á svæðinu. 

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er á svæði því er hér um ræðir gert ráð fyrir þéttingu byggðar og er heimilt að byggja þar 90 íbúðir.  Hafa þegar verið byggðar 39 íbúðir við Sólvallagötu og er hið kærða deiliskipulag innan marka aðalskipulags hvað þetta varðar.  Áður en umrætt deiliskipulag öðlaðist gildi var ekki í gildi deiliskipulag að svæðinu og gátu kærendur því ekki treyst því að þar yrði ekki byggt með líkum hætti og heimilað er með hinu umdeilda skipulagi.  Eftir að tillaga að deiliskipulagi svæðisins hafði verið auglýst voru gerðar á henni breytingar sem telja verður að hafi verið kærendum til hagsbóta. 

Fallast má á með kærendum að vanda hefði mátt betur til undirbúnings og kynningar á tillögu að hinu umdeilda skipulagi með vísan til 4. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hins vegar var tillagan auglýst svo sem áskilið er í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 og var málsmeðferð eftir það í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Verður, með vísan til framanritaðs, ekki fallist á að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verð svo áfátt að ógildingu varði.

Þrátt fyrir að í hinu kærða deiliskipulagi sé ekki með ótvíræðum hætti gerð grein fyrir staðsetningu mannvirkja innan byggingarreits hinnar sameinuðu lóðar Sólvallagötu 77-79 og svokallaðrar Steinsdórslóðar, fyrirkomulagi innan hennar og fjölda bílastæða, verður að telja að deiliskipulagið og framsetning þess fullnægi skilyrðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 hvað þessi atriði varðar.  

Með hliðsjón af öllu framansögðu verður ekki fallist á ógildingu hins kærða deiliskipulags. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu samþykktar borgarráðs Reykjavíkur frá 14. desember 2006 um deiliskipulag svokallaðs Bykoreits í Reykjavík. 

 

 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________            ________________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

50/2008 Barmahlíð

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 27. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 50/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júlí 2008 um synjun byggingarleyfis fyrir brú af svölum íbúðar að Barmahlíð 54 í Reykjavík yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð á nefndri lóð.  Jafnframt er kærð sú ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja handrið og göngubrú af bílgeymsluþaki fyrrgreindrar fasteignar og tréstiga við suðurgafl bílgeymslunnar og jafnframt að steypa í og múrhúða op á svalahandriði fyrstu hæðar innan 30 daga að viðlögðum dagsektum.    

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir Ó, Barmahlíð 54 Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júlí 2008 að synja um byggingarleyfi fyrir brú af svölum íbúðar að Barmahlíð 54 í Reykjavík yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð á nefndri lóð.  Borgarráð staðfesti umrædda ákvörðun hinn 17. júlí 2008.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Kærandi hefur jafnframt í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kært ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja handrið og göngubrú af bílgeymsluþaki fyrrgreindrar fasteignar og tréstiga við suðurgafl bílgeymslunnar og jafnframt að steypa í og múrhúða op á svalahandriði fyrstu hæðar innan 30 daga að viðlögðum dagsektum svo sem greinir í hinni kærðu ákvörðun.  Er sú krafa gerð að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en ella að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar.  Þar sem kæruefnin tengjast sömu málsatvikum verður síðarnefnda kærumálið, sem er nr. 51/2008, sameinað máli nr. 50/2008. 

Málavextir:  Forsaga þessa máls er sú að í apríl 2007 barst embætti byggingarfulltrúa erindi þess efnis að yfir stæðu óleyfisframkvæmdir við fasteignina að Barmahlíð nr. 54.  Verið væri að saga í sundur svalahandrið til að komast út á þak bílskúrs við hlið hússins.  Ætlunin væri að setja upp skjólvegg og nýta þakið sem svalir eða sólverönd.  Kæranda barst bréf byggingarfulltrúa, dags. 18. apríl 2007, þar sem krafist var stöðvunar framkvæmda enda um óleyfisframkvæmdir að ræða.  Var kærandi með bréfinu krafinn skýringa innan 14 daga og bent á úrræði byggingaryfirvalda í tilefni af óleyfisframkvæmdum. 

Í kjölfar þessa sendi kærandi inn fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort leyft yrði að setja upp festingar fyrir færanlegan skjólvegg og handrið á bílskúrsþak að Barmahlíð 54, sem aðeins yrði notaður á tímabilinu frá apríl til október, ásamt færanlegri brú af bílskúrsþaki að svölum á suðvesturhlið 1. hæðar fjölbýlishússins á lóðinni.  Var erindið tekið fyrir á fundi embættisins hinn 8. maí 2007 og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Af hans hálfu var ekki gerð athugasemd við erindið svo framarlega sem samþykki meðlóðarhafa og lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi fyrir og sótt yrði um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum sem yrðu grenndarkynntar. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. ágúst 2007 var tekin fyrir ný fyrirspurn kæranda um hvort leyfi fengist fyrir timburtengibrú á milli svala 1. hæðar og þaks bílgeymslu, auk timburtröppu frá þaki bílgeymslu og niður í garð umræddrar lóðar.  Jákvætt var tekið í fyrirspurnina með sömu fyrirvörum og við afgreiðslu fyrri fyrirspurnar. 

Í aprílmánuði 2008 sendi byggingarfulltrúi kæranda bréf þar sem m.a. kom fram að engin byggingarleyfisumsókn fyrir umræddum framkvæmdum hefði borist og við skoðun 16. apríl 2008 hefði komið í ljós að búið væri að framkvæma öll þau atriði sem fyrirspurnir kæranda hefðu lotið að þrátt fyrir stöðvunarbréf byggingarfulltrúa frá 18. apríl 2007.  Í bréfinu var og tekið fram að borist hefði bréf lögmanns eigenda 1. og 2. hæðar að Barmahlíð 52 þar sem krafist væri að handrið á þaki bílgeymslunnar að Barmahlíð 54 yrði fjarlægt.  Fullljóst mætti telja að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 fengist ekki fyrir umdeildum framkvæmdum en það væri grundvallarforsenda fyrir því að unnt væri að samþykkja byggingarleyfisumsókn um handriði á þaki bílgeymslunnar.  Í bréfinu var loks upplýst um fyrirhugaða tillögu þess efnis að kæranda verði gert að koma hlutum í fyrra horf að viðlögðum dagsektum. 

Hinn 6. maí 2008 tók byggingarfulltrúi fyrir fyrirspurn kæranda um hvort leyfi fengist fyrir handriði á þaki bílgeymslu ásamt tengingu inn á svalir 1. hæðar með brú og tröppum niður í garð fasteignarinnar að Barmahlíð 54.  Málinu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem bókaði eftirfarandi á embættisafgreiðslufundi sínum þann 16. maí 2008:  ,,Ekki eru gerðar athugasemdir við erindið með þeim fyrirvörum að ekki er tekin afstaða til útlits samkvæmt fyrirspurnarteikningum. Útlit handriðs þarf að samræmast byggingarstíl hússins og vinnast í samstarfi við skipulagsstjóra. Samþykki allra meðlóðarhafa skal liggja fyrir þegar sótt verður um byggingarleyfi auk samþykkis lóðarhafa að Barmahlíð 52. Byggingarleyfi verður grenndarkynnt þegar það berst.“  Byggingarfulltrúi tók erindið síðan fyrir á fundi sínum hinn 20. maí 2008 og bókaði:  ,,Samkvæmt umsögn skipulagsstjóra er tekið jákvætt undir fyrirspurnina enda liggi fyrir samþykki nágranna í Barmahlíð 52. Fyrir liggur bréf lögmanns eigenda Barmahlíðar 52. Þar kemur fram algjör andstaða við erindið. Í því ljósi er ekki unnt að samþykkja umsókn um byggingarleyfi, verði hún lögð fram. Er fyrirspyrjanda uppálagt að framvísa samþykki eigenda Barmahlíðar 52 innan 14 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa halda áfram áður boðuðum aðgerðum.“ 

Enn gerði kærandi fyrirspurnir til byggingarfulltrúa varðandi brúargerð frá svölum yfir á bílskúrþak og þaðan niður í garð að Barmahlíð 54 og var tekið jákvætt í málið á fundi byggingarfulltrúa hinn 10. júní 2008 með fyrirvara um samþykki meðlóðarhafa og um grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar ef til kæmi. 

Var byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir brú af svölum íbúðar á fyrstu hæð yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð hússins að Barmahlíð 54, tekin fyrir af byggingarfulltrúa hinn 24. júní 2008.  Var málinu vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum hinn 4. júlí 2008 með þeim rökum að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi ekki fyrir.  Var málið á dagskrá byggingarfulltrúa hinn 8. júlí 2008 og eftirfarandi bókað:  ,,Samþykki lóðarhafa í Barmahlíð 52 liggur ekki fyrir vísað er til bókunar byggingarfulltrúa á afgreiðslufundi þann 20. maí 2008 en þar sagði: Er fyrirspyrjanda uppálagt að framvísa samþykki eigenda Barmahlíðar 52 innan 14 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa halda áfram áður boðuðum aðgerðum.“  Var umsókninni svo synjað á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2008 með svohljóðandi bókun:  „Enn vantar samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar í Barmahlíð 52 en það er forsenda þess að samþykkja megi málið. Er vísað til fyrri bókana skipulags- og byggingarsviðs vegna þessa.“ 

Á fundi skipulagsráðs 16. júlí 2008 var síðan samþykkt tillaga byggingarfulltrúa um að kæranda yrði gert að fjarlægja óleyfisframkvæmdir á lóðinni nr. 54 við Barmahlíð að viðlögðum dagsektum.  Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs Reykjavíkur hinn 17. júlí 2008 og fól hún í sér að kæranda var boðið að:  ,,Fjarlægja handrið og göngubrú af bílgeymsluþaki og tréstiga við suðurgafl bílgeymslunnar á lóðinni nr. 54 við Barmahlíð og jafnframt að steypa í og múrhúða op á svalahandriði 1. hæðar. Tímafrestur 30 dagar og dagsektir kr. 10.000 á dag og kr. 5.000 vegna viðgerða á handriði.“ 

Hefur kærandi nú skotið hinum umdeildum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hann hafi lagt fram með byggingarleyfisumsókn og undirskriftir fjölda íbúa í aðliggjandi húsum sem staðfesti að engar athugasemdir yrðu gerðar ef umrætt byggingarleyfi yrði veitt.  Jafnframt hafi verið lagðar fram myndir sem sýndu svipaðar framkvæmdir víðs vegar í Hlíðahverfi og annars staðar í Reykjavík.  Málið virðist stranda á andstöðu einnar konu í húsinu við Barmahlíð nr. 52, án þess að umrædd kona hafi fært fram nein efnisleg rök sem ættu að verða til þess að byggingarfulltrúi geti ekki grenndarkynnt umsóknina. 

Kærandi hafi skotið synjun byggingarfulltrúa á umsóttum framkvæmdum til úrskurðarnefndarinnar og þar sem það mál hafi ekki fengið úrlausn hjá nefndinni geri kærandi þá kröfu að ákvörðun um þvingunarúrræði samkvæmt 56. og 57 gr. skipulags- og byggingarlaga verði felld úr gildi en ella að réttaráhrifum dagsektarákvörðunar verði frestað þar til úrskurðarnefndin hafi fjallað efnislega um málið. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að hin kærða synjun byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn kæranda verði staðfest.  Þá er þess krafist að kæru vegna dagsektarákvörðunar verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hún standi óhögguð. 

Barmahlíð nr. 54 sé á ódeiliskipulögðu svæði.  Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 komi fram að þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir skuli skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hljóti afgreiðslu byggingarnefndar.  Í 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 komi fram að girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa.  Andstaða íbúa Barmahlíðar 52 við umrædda girðingu á lóðamörkum komi ein og sér í veg fyrir að byggingarleyfisumsókn kæranda verði grenndarkynnt.  Forsenda þeirrar grenndarkynningar sé að fyrir liggi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sé um að ræða framkvæmd á lóðamörkum, ásamt samþykki meðeigenda á grundvelli laga um fjöleignarhús.  Vert sé að taka fram að kæranda hafi verið kunnugt um allan feril málsins og að samþykki aðliggjandi lóðarhafa væri fortakslaust skilyrði þess að byggingarleyfi fengist ef um væri að ræða framkvæmd á lóðamörkum. 

Kærandi hafi ráðist í framkvæmdirnar án byggingarleyfis.  Fram komi í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.  Einnig komi fram í 1. mgr. 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum.  Borgarar geti þó ekki vænst þess að öðlast rétt á grundvelli jafnræðis eigi slíkur réttur sér ekki lagastoð. 

Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 úrskurði úrskurðanefnd skipulags- og byggingarmála í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Í VI. kafla þeirra laga sé fjallað um þvingunarúrræði og viðurlög og kveði 57. gr. á um að sinni aðili ekki fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar innan þess frests sem sveitarstjórn setji geti hún ákveðið dagsektir þar til úr verði bætt.  Hámark þeirra sekta sé ákveðið í byggingarreglugerð og renni þær í sveitarsjóð.  Í 1. mgr. 209. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 komi fram að ef byggingarleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni beri byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdina tafarlaust og síðan skuli hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Óumdeilt sé að kærandi hafi ekki haft byggingarleyfi þegar hann hafi ráðist í umræddar framkvæmdir og því ekki um að ræða ágreining á sviði skipulags- og byggingarlaga.  Því megi leiða líkur að því að ákvörðun um álagningu dagsekta sé ekki kæranleg. 

Hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sé eftir atvikum að staðfesta ákvarðanir skipulags- og byggingaryfirvalda eða fella þær úr gildi en ekki breyta þeim ákvörðunum.  Nefndin sé ekki hefðbundið æðra stjórnvald sem breytt geti ákvörðunum lægra setts stjórnvalds að vild eins og eigi við um skipulagsráð Reykjavíkur þegar til þess sé skotið embættisafgreiðslum skipulagsstjóra eða byggingarfulltrúa.  Ef úrskurðanefndin telji sig geta afnumið umræddar dagsektir ætti hún einnig að geta lækkað sektir eða hækkað að eigin mati.  Á slíkt verði ekki fallist og því sé ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar nái ekki yfir álitaefnið. 

Reykjavíkurborg minni á þá meginreglu, sé það afstaða úrskurðarnefndarinnar að kæra vegna álagningar dagsekta eigi undir hana, að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, svo sem um dagsektir, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Undantekning sé á þeirri meginreglu í 2. mgr. þeirrar greinar, mæli veigamiklar ástæður með því.  Þegar ákvörðun sé tekin um hvort fresta eigi réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem takist á.  Í þessu tilfelli grenndarsjónarmið lóðarhafa aðliggjandi lóðar sem sé ósamþykkur framkvæmdinni og sjónarmið kæranda sem ráðist hafi í og kostað framkvæmd án byggingarleyfis.  Í fyrirliggjandi bréfi húsfélagsins Barmahlíð 52 til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur, dags. 8. ágúst 2007, séu sjónarmið íbúa tíunduð á þessa leið: 

,,Niðurstaða húsfélagsfundar Húsfélagsins Barmahlíð 52 þann 18. júlí s.l. er að við mótmælum enn og aftur harðlega öllum þessum áðurnefndum framkvæmdum, þ.e. útsöguðu opi í steyptar svalir B. 54 til vesturs og ítrekað er að enginn áhugi er á því að þak bílskúrsins verði notað sem verönd/svalir eða til annarra sambærilegra hluta. Ástæðurnar eru þessar:
Burðarþol. Bílskúrarnir liggja saman og eru alls ekki byggðir með það í huga að bæta við viðbyggingu eða öðru sambærilegu ofan á þá. Bygging ofan á bílskúr Barmahlíðar 54 mun hafa áhrif á bílskúr Barmahlíðar 52.
Útlit. Þar sem þessi fyrirhugaða framkvæmd mun liggja að eign Barmahlíðar 52 mun það st[i]nga í stúf við núverandi og upprunalegt útlit eignarinnar, en þetta eru gamlar og góðar byggingar. Einnig mun þetta skemma götumyndina.
Birta. Bygging eða viðbót á skúr. Rýrir til muna birtu og sól úr austri suðaustri inn í íbúð Barmahlíðar 52.
Útsýni. Bygging á bílskúr eða færanleg verönd rýrir alveg útsýni úr íbúðum til austurs 1.h. Barmahlíðar 52. Bæði úr stofu og eins úr eldhúsi. Hið sama gera háir stórir lausir kassar sem raðað er upp sem einhvers konar handrið sbr. nú í dag, en einnig geta þeir reynst hættulegir svona lausir.
Hávaði. Bílskúr og hugsanleg bygging á honum er á lóðarmörkum og liggur að/á bílskúr íbúðar Barmahlíðar 52. Bygging eða svalir að lóðarmörkum mun auka hávaðamengun inn í eignir Barmahlíðar 52.“ 

Reykjavíkurborg telji að sjónarmið lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegi þyngra en sjónarmið kæranda og sé því gerð sú krafa að ekki verði fallist á frestun réttarhrifa dagsektaákvörðunarinnar. 

Það sé afstaða Reykjavíkurborgar að í fyrirliggjandi máli hafi ekki verið unnt að grenndarkynna áður gerða óleyfisframkvæmd þar sem samþykki lóðarhafa Barmahlíðar 52 hafi ekki legið fyrir.  Því hafi byggingarfulltrú ekki átt annan kost en að beita kæranda þeim þvingunarúrræðum sem honum séu heimil skv. 56. gr. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ákvæða byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Niðurstaða:  Umdeild byggingarleyfisumsókn kæranda var tekin fyrir hjá byggingarfulltrúa 24. júní 2008 og var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til umsagnar.  Erindið var svo tekið fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 4. júlí 2008 og því frestað með þeim rökum að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi ekki fyrir.  Í kjölfar þess tók byggingarfulltrúi málið fyrir hinn 8. júlí 2008 þar sem ítrekað var að samþykki lóðarhafa Barmahlíðar 52 lægi ekki fyrir og kæranda gefinn kostur á að afla þess innan 14 daga.  Byggingarleyfisumsókninni var síðan synjað á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2008 með vísan til þess að enn lægi ekki fyrir fyrrgreint samþykki en það væri forsenda þess að unnt væri að fallast á erindið og var jafnframt skírskotað til fyrri bókana vegna málsins. 

Þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir skal skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Greint lagaákvæði átti við um byggingarleyfisumsókn kæranda. 

Þegar byggingarleyfisumsóknin var afgreidd hafði lögmælt grenndarkynning ekki farið fram og málið ekki fengið efnislega umfjöllun og afgreiðslu skipulagsyfirvalda.  Þá verður ekki ráðið af bókunum skipulags- og byggingaryfirvalda sem fjölluðu um málið hvaða lagarök stæðu að baki þeirri forsendu að samþykki lóðarhafa að Barmahlið 52 þyrfti að liggja fyrir áður en málið fengi frekari framgang.  Leiða þessir annmarkar á málsmeðferð og rökstuðningi ákvörðunarinnar til þess að fallist verður á kröfu kæranda um ógildingu á afgreiðslu umræddrar byggingarleyfisumsóknar. 

Samkvæmt 1. og 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga kveður úrskurðarnefndin upp úrskurði í ágreiningsmálum um stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga á sviði skipulags- og byggingarmála.  Hin kærða ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að færa ástand umræddrar fasteignar í fyrra horf að viðlögðum dagsektum er gerð með stoð í þvingunarúrræðum 56. og 57. gr. laganna. 

Ekki liggja fyrir lögskýringarsjónarmið eða önnur rök er hníga að því að skýra fyrrnefnda 8. gr. greindra laga með þeim hætti að umræddar stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga falli utan úrskurðarvalds úrskurðarnefndarinnar og hefur nefndin í fyrri kærumálum fjallað efnislega um lögmæti slíkra ákvarðana.  Eru því ekki efni til að vísa frá nefndinni þeim kærulið er lýtur að ákvörðun borgarráðs um beitingu þvingunarúrræða 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Umdeildar breytingar kæranda á fasteigninni að Barmahlíð 54 eru byggingarleyfisskyldar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Fyrir liggur að kærandi aflaði sér ekki byggingarleyfis fyrir framkvæmdunum og lauk þeim raunar þrátt fyrir framkvæmdabann byggingarfulltrúa.  Ákvörðun borgarráðs um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisframkvæmdirnar að viðlögðum dagsektum var því í samræmi við heimildir 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga og ekki liggur fyrir í málinu að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þeirrar ákvörðunar.  Verður því ekki fallist á ógildingu ákvörðunarinnar. 

Afgreiðsla umsóknar kæranda um leyfi fyrir umræddum framkvæmdum var kærð án ástæðulauss dráttar til úrskurðarnefndarinnar og málið hefur síðan verið til meðferðar hjá nefndinni.  Að þessu virtu, og þegar litið er til þess að hin kærða afgreiðsla á byggingarleyfisumsókn kæranda hefur í máli þessu verið felld úr gildi, þykir rétt, með hliðsjón af 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fresta réttaráhrifum umræddrar ákvörðunar borgarráðs frá móttöku kæru til úrskurðardags í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júlí 2008, sem staðfest var í borgarráði hinn 17. júlí s.á., um að synja byggingarleyfisumsókn fyrir brú af svölum íbúðar að Barmahlíð 54 í Reykjavík yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð á nefndri lóð. 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja og færa til fyrra horfs tilgreind mannvirki innan 30 daga, að viðlögðum dagsektum sem í ákvörðuninni greinir, en réttaráhrifum ákvörðunarinnar er frestað frá 29. júlí 2008 til 27. nóvember 2008. 

 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

________________________________         _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

13/2006 Ingólfsstræti

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson, forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2006, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2006 um að afturkalla samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og synja um samþykkt byggingarleyfis fyrir áður gerðum geymsluskúr á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. febrúar 2006, er barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir H, eigandi rýmis í kjallara og geymsluskúrs á lóðinni að Ingólfsstræti 21b, þá ákvörðun skipulagsráðs að afturkalla samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og synja kæranda um byggingarleyfi fyrir áður gerðum geymsluskúr á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 26. janúar 2006.

Kærandi gerir þá kröfu að ofangreind ákvörðun skipulagsráðs verði felld úr gildi og að fyrri samþykkt byggingaryfirvalda verði endurvakin.

Málsatvik:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. janúar 2005 var tekin fyrir umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir áður gerðri bílgeymslu á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti.  Var umsókninni frestað og vísað til athugasemda á umsóknarblaði, en þar var m.a. tilgreint að samþykki meðlóðarhafa vantaði, og í framhaldi var umsóknin send þeim til kynningar.

Ný umsókn, nú svo breytt að óskað var eftir samþykki fyrir áður gerðum geymsluskúr, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. febrúar 2005.  Jafnframt var m.a. lagt fram bréf f.h. meðlóðarhafa frá 4. febrúar s.á. þar sem þess var krafist að umsókninni yrði hafnað og að skúrinn yrði fjarlægður líkt og byggingarnefnd hefði samþykkt árið 1988. Var þar á það bent að skúrinn hefði upphaflega verið reistur í óleyfi og stæði í óþökk eigenda sem ættu meira en 2/3 hluta húss og lóðar. 

Byggingarfulltrúi afgreiddi umsóknina með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Borgarstjórn samþykkti ofangreinda afgreiðslu á fundi sínum hinn 1. mars 2005.  Með bréfi, dags. 14. mars s.á., mótmæltu meðlóðarhafar fyrrgreindri afgreiðslu og kröfðust rökstuðnings fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa og var rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 22. mars 2005.

Með tölvupósti, dags. 15. mars 2005, fóru meðlóðarhafar fram á endurupptöku málsins á þeim forsendum að byggingarfulltrúa væri óheimilt skv. byggingarlögum að ráðstafa til séreignarnota óskiptri sameign á eignarlóð án samþykkis eigenda.  Þá skiluðu þeir jafnframt inn greinargerð þar sem meðferð og afgreiðslu málsins var harðlega andmælt.  Var ákvörðun byggingarfulltrúa jafnframt kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála en kæran síðar afturkölluð.

Byggingarfulltrúi veitti umsögn um málið að beiðni stjórnsýslu- og starfsmannasviðs með bréfi, dags. 18. apríl 2005, þar sem fram kom að samþykkt byggingarfulltrúa væri einkum á því byggð að skúrinn væri sýndur á deiliskipulagi er samþykkt hefði verið á árinu 2003.  Í umsögn frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. júní 2005, vegna beiðni um endurupptöku, kom fram að umsókn um byggingarleyfi hefði m.a. verið afgreidd á þeirri forsendu um málsatvik að sérstakt samþykki meðeigenda lóðarinnar þyrfti ekki að liggja fyrir þar sem þeir hefðu sætt sig við tilvist skúrsins frá upphafi.  Þar sem ekki yrði séð að sú forsenda ætti sér stoð í gögnum málsins yrði að telja að ákvörðunin hefði að þessu leyti byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og því væru skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um rétt aðila til að krefjast endurupptöku máls fyrir hendi. 

Var lagt til að ákvörðunin yrði tekin upp að nýju og byggingarfulltrúa falið að taka umsóknina til afgreiðslu á nýjan leik.  Jafnframt var kæranda máls þessa, með bréfi frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. júní s.á., veitt færi á að koma að athugasemdum vegna framkominnar óskar um endurupptöku málsins.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum hinn 7. júlí 2005 að taka málið upp og vísa því til byggingarfulltrúa til meðferðar að nýju.  Með bréfi, dags. 18. desember 2005, vísaði byggingarfulltrúi málinu til skipulagsráðs til ákvörðunar en lagði til að samþykkt sín stæði óbreytt.  Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 4. janúar 2006, og til skipulagsráðs, dags. 10 sama mánaðar, komu meðlóðarhafar kæranda á framfæri andmælum sínum og kröfðust þess enn að umsókn um byggingarleyfi yrði synjað og að skúrinn yrði fjarlægður.  Lögfræði og stjórnsýsla skipulags- og byggingarsviðs veitti umsögn um málið með bréfi, dags. 17. janúar 2006, og lagði til að skipulagsráð felldi úr gildi fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa en lagði jafnframt til að kröfu um niðurrif hússins yrði hafnað.

Á fundi skipulagsráðs hinn 25. janúar 2006 var tekin fyrir umsókn um samþykki fyrir áður gerðum geymsluskúr á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti.  Voru lögð fram bréf frá umsækjanda, þ.e. kæranda máls þessa, meðlóðarhöfum, byggingarfulltrúa sem og tilvitnuð umsögn lögfræði og stjórnsýslu og var svohljóðandi bókað:  „Fyrri samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 er afturkölluð.  Synjað.  Með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu“.  Staðfesti borgarráð afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 26. janúar 2006. 

Ofangreinda ákvörðun skipulagsráðs skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi hafi eignast rými í kjallara ásamt skúrbyggingu á lóð með afsali árið 1997 og hafi það verið ákvörðunarástæða fyrir kaupunum að skúrinn fylgdi með vegna starfs kæranda.  Lögð sé rík áhersla á að kærandi hafi verið grandlaus við kaupin um að skúrinn fengi e.t.v. ekki að standa áfram.

Sérstaða málsins sé sú að geymsluskúrinn hafi staðið á lóðinni í áratugi og allt bendi til þess að full eining hafi ríkt í húsinu um byggingu hans í öndverðu.  Af frágangi skúrsins megi ráða að hann hafi án efa verið reistur löngu fyrir gildistöku fjölbýlishúsalaga nr. 59/1976 og jafnvel fyrir tíð laga um sameign fjölbýlishúsa nr. 19/1959.  Hafa verði hliðsjón af þeim reglum sem giltu þegar skúrinn hafi verið reistur og hæpið sé að beita ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 fullum fetum við úrlausn máls þessa.  Ótvírætt sé að geymsluskúrinn hafi verið reistur þegar eignarhald heildareignarinnar hafi verið á einni hendi og krafa um samþykki meðeigenda á lóðinni eigi því ekki við.  Sameigendur kæranda að Ingólfsstræti 21b hafi báðir eignast íbúðir sínar í húsinu eftir að kærandi festi kaup á eign sinni og tilvist geymsluskúrsins hafi ekki getað farið fram hjá þeim er þeir keyptu íbúðir sínar.

Samþykki byggingarfulltrúa fyrir geymsluskúrnum sé fullkomlega eðlilegt og lögum samkvæmt og endurupptaka málsins, svo ekki sé minnst á breytta niðurstöðu þess hjá skipulagsráði, óskiljanleg.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Þess er aðallega krafist að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað og ákvörðun skipulagsráðs staðfest.  Þess er jafnframt krafist að öllum kröfum kæranda þess efnis að úrskurðarnefndin endurveki fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa sé hafnað þar sem engar lagaheimildir séu fyrir því að úrskurðarnefndin geti breytt skipulagsákvörðunum sveitarfélaga eða tekið nýjar.   Það sé mat borgarinnar að skipulagsráði hafi verið heimilt að endurupptaka málið og afgreiða það með þeim hætti sem gert hafi verið.

Í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús komi fram að lögin gildi um lögskipti eigenda fullgerðra fjöleignahúsa, að lóðum meðtöldum, og að óumdeilt virðist vera að reglur laganna taki til málsins.  Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna sé einum eiganda á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota tiltekna hluta hennar.  Að sama skapi geti eigandi ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt.

Þá komi fram í 4. mgr. 35. gr. sömu laga komi fram að einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema aðrir eigendur ljái því samþykki en sambærilegt ákvæði hafi verið í eldri lögum um fjölbýlishús.  Það sé óumdeilt að hin umdeilda skúrbygging hafi aldrei hlotið samþykki byggingaryfirvalda og skipti því engu máli hvenær hún hafi verið reist.  Í ljósi þess að byggingin hafi verið reist í óleyfi á sínum tíma og byggingaryfirvöld hafi aldrei veitt samþykki sitt fyrir henni, sé óumflýjanlegt annað en að líta svo á að samþykki meðeigenda þurfi að liggja fyrir á þeim tíma þegar leitað sé samþykkis fyrir henni.

Við gerð nýrra deiliskipulaga (sic) fyrir miðborg Reykjavíkur hafi ekki verið tekin afstaða til heimilda vegna skúrbygginga á lóðum en þeir sýndir á deiliskipulagsuppdrætti. Aðeins hafi verið gerð krafa um niðurrif í þeim tilvikum að heimild til viðbygginga væri skilyrt við niðurrif á eldri skúrbyggingum.  Í ljósi þessa hafi ekki verið gerðar neinar sérstakar úttektir á því hvort skúrar væru samþykktir eður ei enda hafi ætlunin verið sú að veita eigendum tækifæri til að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim skúrum sem ekki höfðu öðlast formlegt samþykki.  Í ljósi þessa beri sérstaklega að ítreka að allar heimildir samkvæmt deiliskipulagi séu háðar því að unnt sé að uppfylla skilyrði annarra laga, t.d. laga um fjöleignarhús, svo sem um samþykki meðeigenda.  Engu breyti þótt skúrinn hafi verið reistur þegar eignarhald innan lóðarinnar hafi allt verið á einni hendi í ljósi þess að skúrinn hafi verið reistur í óleyfi.

Málsrök meðlóðarhafa:  Úrskurðarnefndin tilkynnti talsmanni meðeigenda kæranda að lóðinni að Ingólfsstræti 21b um framkomna kæru og veitti honum færi á því að koma að athugasemdum í málinu en af þeirra hálfu hefur einungis verið vísað til fyrirliggjandi gagna.

Af málsgögnum má ráða að meðlóðarhafar telji að umþrættur skúr hafi verið reistur í óleyfi árið 1987 eða 1988.  Hafi skúrinn staðið á lóðinni síðastliðin 17 ár þrátt fyrir samþykkt byggingaryfirvalda um niðurif hans að viðurlögðum dagsektum.  Krafa um niðurrif hafi verði höfð uppi og jafnan verið tekin fram við sölu eignarhluta í húsinu.  Aðgerðarleysi og sinnuleysi um að framfylgja kröfu um niðurrif verði því ekki rakin til tómlætis íbúa og eigenda.  Lögð hafi verið fram umsókn um byggingarleyfi í janúar 2005 er hafi verið meingölluð og uppfull af vísvitandi rangfærslum og fölsunum. „Reyndaruppdráttur“ eigi sér litla stoð í reyndinni og byggingarlýsing enn minni og stærð skúrsins sé ekki í samræmi við þær upplýsingar er fram komi í afsali.  Þá sé sagt að umsókn sé í „fullu umboði lóðarhafa“ sem sé rangt og að eignin sé matshluti 02 sem gefi til kynna að skúrinn sé skráður í Landsskrá fasteigna og hafi heimild í deiliskipulagi til aukins byggingarmagns en matshluti 02 sé í raun húseignin að Ingólfsstræti 21d.

Meðlóðarhafar telji að fella beri samþykkt byggingarfulltrúa úr gildi enda sé hún andstæð ákvæðum laga um fjöleignarhús sem og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem óheimilt sé með öllu að gera breytingar á sameign, eignarlóð í þessu tilviki, án samþykkis allra eigenda.  Um sé að ræða verulega breytingu á hagnýtingu lóðar, eiganda minnihluta til handa.  Jafnframt sé bent á að fjöleignarhúsalög kveði afdráttarlaust á um að eigendur geti ekki undir nokkrum kringumstæðum öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt.  Sú röksemdafærsla að skúrinn sé sýndur á deiliskipulagi standist ekki en deiliskipulag sé ekki framkvæmdaskipulag og veiti óleyfisskúr sem þessum enga löghelgun.  Skúrsins sé í engu getið í greinargerð skipulagsins og muni hafa verið færður inn á uppdrátt fyrir vangá.  Bent sé á að deiliskipulagið hafi verið birt 6. október 2003 en rúmum mánuði áður hafi byggingarfulltrúi móttekið erindi þar sem gengið hafi verið eftir svörum við því hvers vegna samþykkt um niðurrif hefði ekki verið framfylgt.

Gerð sé athugasemd við starfshætti byggingarfulltrúa sem hafi ekki auðsýnt kostgæfni við að sannreyna framlögð gögn, brotið góða stjórnsýsluhætti með því að samþykkja, án frekari kynningar, annað erindi en fyrir hann hafi verið lagt og umsókn hafi ekki verið grenndarkynnt svo sem borið hafi lögum samkvæmt.  Þá fái rökstuðningur fyrir samþykktinni ekki staðist og sé aukin heldur byggður á augljósum mistökum í vinnslu deiliskipulags og því brjóti samþykktin einnig í bága við deiliskipulag.  Jafnframt hafi byggingarfulltrúi virt að vettugi fyrri samþykktir eigin embættis og borgarráðs, málsaðilum hafi verið kynnt önnur málsmeðferð en raunin hafi verið og komið í veg fyrir að meirihluti eigenda nyti andmælaréttar og komið þannig eign þeirra og eignarrétti í annars hendur með ólögmætum hætti. 

Þá sé bent á að skúrinn sé afar óhrjálegur og lýti í umhverfinu og einnig stafi af honum eldhætta.  Sé engin leið að nýta lóðina með viðunandi hætti á meðan skúrinn standi.

————-

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar um úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur að afturkalla áður veitt byggingarleyfi fyrir geymsluskúr að lóðinni Ingólfsstræti 21b og synja umsókn um samþykki fyrir honum.

Fyrir liggur að lögð var fram krafa af hálfu meðeigenda kæranda að fasteigninni að Ingólfsstræti 21b um endurupptöku málsins eftir að byggingarfulltrúi hafði samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir umræddum geymsluskúr.  Lagði lögfræðingur borgarstjórnar til í umsögn, dags. 9. júní 2006, að málið yrði endurupptekið þar sem fram hefði komið að ákvörðun byggingarfulltrúa hefði m.a. verði byggð á þeirri forsendu um málsatvik (sic) að sérstakt samþykki meðeigenda lóðarinnar þyrfti ekki að liggja fyrir þar sem þeir hefðu sætt sig við tilvist skúrsins frá upphafi, en ekki yrði séð að sú forsenda ætti sér stoð í þeim gögnum sem fyrir lægju í málinu.  Hin umdeilda ákvörðun hefði því byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og því væru skilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga til endurupptöku málsins fyrir hendi.  Samþykkti borgarráð, á fundi sínum hinn 7. júlí 2005, að taka málið upp og vísa því til byggingarfulltrúa til meðferðar að nýju. 

Í umsögn lögfræði og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs, dags. 17. janúar 2006, sem vísað er til í umþrættri ákvörðun skipulagsráðs, var bent á að samþykki meðeigenda fyrir veitingu byggingarleyfisins væri ekki fyrir hendi svo sem áskilið væri að lögum og lagt til að fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa yrði felld úr gildi.  Lauk skipulagsráð endurupptökumeðferð málsins með því að afturkalla fyrri samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og synja umsókn kæranda um byggingarleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp að nýju hafi ákvörðun í málinu verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða þegar íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin.

Telja verður að meðeigendur kæranda að lóðinni að Ingólfsstræti 21b geti átt lögvarða hagsmuni tengda hinni umdeildu samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. febrúar 2005 og að þeir hafi því haft stöðu aðila máls við þá ákvörðun.  Var þeim því heimilt að fara fram á endurupptöku málsins með stoð í 24. gr. stjórnsýslulaga, svo sem þeir gerðu, og barst beiðni þeirra innan lögákveðinna tímamarka. 

Við afgreiðslu á endurupptökubeiðni meðeigendanna komust borgaryfirvöld að þeirri niðurstöðu að hin umdeilda ákvörðun hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og því væru skilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga til endurupptöku málsins fyrir hendi.  Á þá niðurstöðu verður ekki fallist.  Fyrir liggur að þegar byggingarfulltrúi tók ákvörðun sína í málinu lá fyrir að meðeigendur kæranda töldu að ákvörðun um leyfi fyrir margnefndum skúr væri háð samþykki þeirra.  Það voru því hvorki fyrir hendi ófullnægjandi né rangar upplýsingar um málsatvik hvað þetta varðar er málið kom til endanlegrar afgreiðslu byggingarfulltrúa heldur var uppi í málinu réttarágreiningur sem hann varð að taka afstöðu til.  Verður endurupptökuheimildum 24. gr. stjórnsýslulaga ekki beitt til þess að fá fram nýja ákvörðun stjórnvalds vegna þess eins að deilt hafi verið um lagatúlkun og beitingu réttarheimilda um ágreiningsefni sem fyrir lá þegar ákvörðun var tekin.  Voru því ekki fyrir hendi skilyrði til endurupptöku máls í hinu umdeilda tilviki og verður ný ákvörðun skipulagsráðs í málinu því felld úr gildi.

Skipulagsráð lauk endurupptökumeðferðinni með því að taka fyrir umsókn kæranda um samþykkt fyrir áður gerðum skúr og afturkalla fyrri samþykkt byggingarfulltrúa frá  22. febrúar 2005.  Að því búnu tók ráðið nýja efnislega ákvörðun í málinu og synjaði  umsókn kæranda.  Verður að skilja afgreiðslu ráðsins á þann veg að með henni hafi verið lokið endurupptökumeðferð málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga en ekki er í bókun ráðsins vísað til þeirra lagaheimilda sem stuðst var við.  Verður ákvörðun ráðsins ekki talin fela í sér einhliða afturköllun stjórnvaldsákvörðunar með heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga enda þótt bókað sé um afturköllun fyrri ákvörðunar.  Var kæranda aldrei tilkynnt um að til stæði að taka ákvörðun um afturköllun á grundvelli þeirrar heimildar og ekki var af hálfu borgaryfirvalda vísað til þess ákvæðis við afgreiðslu málsins.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til endurupptöku ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og að ekki hafi heldur verið tekin lögmæt ákvörðun um afturköllun hennar.  Verður hin kærða ákvörðun skipulagsráðs frá 25. janúar 2006, sem staðfest var í borgarráði 26. sama mánaðar, því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2006, sem staðfest var í borgarráði 26. sama mánaðar, um að afturkalla samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2005 og synja um samþykkt byggingarleyfis fyrir áður gerðum geymsluskúr á lóðinni nr. 21b við Ingólfsstræti.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

47/2008 Bárustígur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Oddgeir Einarsson hdl., f.h. B, Bárustíg 7, Vestmannaeyjum, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja hinn 28. september 2005 var lögð fram svohljóðandi tillaga svonefnds umferðarhóps:  „1.  Bárustígur verði gerður að vistgötu frá Vestmannabraut að Vesturvegi (í framhaldi af Hilmisgötu) þannig að ákvæðum í gr. 1.14 í deiliskipulagi miðbæjarins verði framfylgt.  2.  Bannað verði að leggja bílum við gangstéttar frá Bárustíg 9 að Strandvegi.“  Var tillagan samþykkt og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs falið að hafa samráð við viðeigandi aðila varðandi framgang málsins.  Lýtur ógildingarkrafa kæranda að 2. tl. bókunarinnar. 

Kærandi kveðst hafa verið eigandi hússins að Bárustíg 7 frá árinu 1991 og rekið þar bakarí um árabil.  Bílastæði framan við húsið séu verslunarrekstrinum mikilvæg og hafi þau verið forsenda fyrir kaupum á fasteigninni á sínum tíma.  Umdeild ákvörðun um bann við bifreiðastöðum hafi komið til framkvæmda í júlí 2006 og hafi komið kæranda í opna skjöldu enda hafi honum ekki verið tilkynnt um ákvörðunina.  Af hálfu kæranda hafi ítrekað verið gerðar athugasemdir við bifreiðastöðubannið, farið fram á endurskoðun ákvörðunarinnar og kallað eftir rökstuðningi að baki banninu en án árangurs.  Hafi kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar því ekki byrjað að líða. 

Ógildingarkrafa kæranda sé byggð á því að umrædd ákvörðun sé ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi enda eigi ákvarðanir um stöðvun og lagningu ökutækja undir lögreglustjóra skv. a lið 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Verði talið að ákvörðunin hafi verið tekin af þar til bæru stjórnvaldi sé um deiliskipulagsákvörðun að ræða sem fari eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. um auglýsingu, kynningu og yfirferð Skipulagsstofnunar á deiliskipulagstillögu.  Við hina kærðu ákvörðun hafi þessara lagaákvæða ekki verið gætt og málsmeðferðin því brotið gegn reglum stjórnsýslulaga um rannsókn máls, andmælarétt, tilkynningaskyldu stjórnvalds og rökstuðning fyrir ákvörðun.  Um sé að ræða ákvörðun sem sé verulega íþyngjandi gangvart kæranda og snerti atvinnuhagsmuni hans. 

Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er byggt á því að hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 8. gr. skipulags- og byggingarlaga eða stjórnsýslulaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Hvort heimilt sé eða ekki að stöðva eða leggja ökutækjum við gangstéttar sé háð ákvörðun viðkomandi lögreglustjóra en sveitarstjórn eigi aðeins tillögurétt í því efni, sbr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Umdeild tillaga sveitarstjórnar Vestmannaeyja hafi verið send lögreglustjóra sem hafi í kjölfar þess tekið ákvörðun um að banna að leggja bifreiðum við Bárustíg.  Hafi sú ákvörðun komið fram í auglýsingu sýslumanns um umferð í Vestmannaeyjum sem birst hafi í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006. 

Fyrirliggjandi bréf kæranda frá árinu 2006 beri það með sér að honum hafi þá þegar verið ljóst efni umræddrar samþykktar eða bókunar umhverfis- og skipulagsráðs.  Ekki sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning fresti því að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar byrji að líða en í 21. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning skuli koma fram í síðasta lagi 14 dögum eftir að ákvörðun hafi verið birt viðkomandi.  Engin formleg beiðni um rökstuðning hafi borist frá kæranda þrátt fyrir vitneskju hans um málið á árinu 2006 og verði að telja kærufrest í málinu löngu liðinn. 

Niðurstaða:  Hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 25. september 2005 fól í sér samþykkt á tillögu til lögreglustjóra um umferðarmál við Bárustíg sem unnin var af starfshópi um umferðarmál á vegum sveitarfélagsins.  Hið umdeilda bann við stöðu bifreiða við Bárustíg sem þar var lagt til var síðan ákveðið af lögreglustjóra.  Var sú ákvörðun birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006 í auglýsingu nr. 337/2006 um umferð í Vestmannaeyjum. 

Samkvæmt 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fer lögreglustjóri með ákvörðunarvald um þau málefni sem hér um ræðir að fengnum tillögum viðkomandi sveitarstjórnar.  Ákvarðanir lögreglustjóra um umferðarmál samkvæmt téðu ákvæði eru ekki teknar á grundvelli skipulags- og byggingarlaga.  Verða þær því ekki bornar undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda hefur nefndinni ekki verið falið úrskurðarvald um þær ákvarðanir í öðrum lögum. 

Hin kærða samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs var lögboðinn undanfari ákvörðunar lögreglustjóra en fól ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður sú samþykkt af þeim sökum ekki kærð ein og sér til úrskurðarnefndarinnar.  Þegar af þeirri ástæðu verður máli þessu vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________    _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson