Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2009 Barðastaðir

Ár 2010, miðvikudaginn 26. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 70/2009, kæra á gróðursetningu í landi Reykjavíkurborgar, norðan og vestan við hús nr. 61 við Barðastaði, breytingar á borgarlandi næst lóðum við hús nr. 61 og 63 við Barðastaði og hækkun lands. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. október 2009, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Jóhannes Albert Sævarsson hrl., f.h. J og K, Barðastöðum 63, Reykjavík gróðursetningu í landi Reykjavíkurborgar, norðan og vestan við hús nr. 61 við Barðastaði, breytingar á borgarlandi næst lóðum við hús nr. 61 og 63 við Barðastaði og hækkun lands. 

Gera kærendur þá kröfu að Reykjavíkurborg verði gert skylt að færa allt land utan lóðarmarka Barðastaða 61 til upprunalegs horfs, að allur gróður verði fjarlægður og allt rask þar lagfært til samræmis við skipulag og skilmála fyrir Staðahverfi.  Þá er gerð krafa um að kærendum verði ákvarðaður málskostnaður. 

Málavextir og rök:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að nágrannar þeirra að Barðastöðum 61 hafi sett niður hávaxinn trjágróður utan marka lóðarinnar og byrgi gróðurinn fyrir útsýni og frá húsi kærenda og kvöldsól.  Hafi kærendur allar götur frá árinu 2002 kvartað yfir þessu við borgaryfirvöld án árangurs. 

Kærendur vísi til þess að þeim hafi borist bréf frá skipulags- og byggingarsviði, dags. 13. maí 2009, þar sem fram komi að embætti byggingarfulltrúa hafi ekki haft neina aðkomu að málinu og hafi ekki heimild til að taka ákvörðun í ágreiningi vegna gróðursetningar íbúa að Barðastöðum 61 og helgunar þeirra á landi borgarinnar fyrir utan lóðarmörk.  Því hafi erindið verið áframsent til skrifstofu náttúru og útivistar til þóknanlegrar meðferðar.  Þar hafi hvorki ákvörðun né afstaða verið tekin til kvörtunar kærenda. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Bent sé á að eigendur hússins að Barðastöðum 61 hafi fengið leyfi hjá garðyrkjustjóra borgarinnar á árinu 2002 til að planta plöntum í borgarlandið utan við lóð sína og fengið til þess plöntur hjá borginni. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð gróðursetning í landi Reykjavíkurborgar, norðan og vestan við hús nr. 61 við Barðastaði, breytingar á borgarlandi næst lóðum við hús nr. 61 og 63 við Barðastaði og hækkun lands.  Hafa kærendur um nokkurra ára skeið komið á framfæri kvörtunum sínum vegna þessa við borgaryfirvöld.  Gera kærendur þá kröfu að borginni verði gert skylt að færa allt land utan lóðarmarka Barðastaða 61 til upprunalegs horfs, að allur gróður verði fjarlægður og allt rask þar lagfært til samræmis við skipulag og skilmála fyrir Staðahverfi. 

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kveður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurði um ágreiningsmál um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. 5. mgr. fyrrnefnds ákvæðis.  Í sömu málsgrein er áréttað að stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga sæti kæru til nefndarinnar. 

Í máli þessu liggur ekki fyrir nein ákvörðun borgaryfirvalda á grundvelli skipulags- og byggingarlaga er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kærenda um málskostnað því ekki til álita. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                 ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson