Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2008 Fagurhóll

Ár 2010, miðvikudaginn 26. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 36/2008, kæra á synjun umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar frá 4. mars 2008 á beiðni um endurskoðun á lögmæti sólpallabyggingar að Fagurhóli 8a, Grundarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. maí 2008, er barst nefndinni 28. sama mánaðar, kæra K og K, Fagurhólstúni 9, Grundarfirði, synjun umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar frá 4. mars 2008 á beiðni kærenda um endurskoðun á lögmæti sólpallabyggingar að Fagurhóli 8a, Grundarfirði.  Bæjarstjórn Grundarfjarðar staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. mars sama ár.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinn kærðu ákvörðun.

Málsatvik og rök málsaðila:  Hinn 6. nóvember 2006 samþykkti umhverfisnefnd Grundarfjarðarbæjar umsókn um leyfi fyrir lóðarframkvæmdum að Fagurhóli 8a.  Var um að ræða pallagerð og skjólveggi auk jöfnunar og frágangs yfirborðs á baklóð og voru framkvæmdir þá þegar hafnar samkvæmt bókun nefndarinnar.  Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar hinn 9. nóvember sama ár.  Með bréfi, dags. 11. desember 2007, fóru kærendur fram á það við umhverfisnefnd að kannað yrði lögmæti byggingar sólpalls að Fagurhóli 8a.  Var erindið tekið fyrir á fundi nefndarinnar 4. mars 2008 og sú afstaða nefndarinnar bókuð að áður veitt leyfi fyrir byggingu sólpalls að Fagurhóli 8a væri í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar.  Að öðru leyti var vísað til fyrri afgreiðslu og 67. gr. byggingarreglugerðar um girðingu lóða.  Var kærendum tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 19. maí 2008.

Kærendur benda á þeir eigi töluverðra hagsmuna að gæta varðandi umdeilt leyfi fyrir gerð sólpalls að Fagurhóli 8a, sem liggi að lóð kærenda, og standi að miklum mun hærra.  Þrátt fyrir það hafi grenndarkynning ekki farið fram.  Kærendur geti ekki fallist á að umræddar framkvæmdir og málsmeðferð geti verið lögum samkvæmt og hafi því vísað málinu til úrskurðarnefndarinnar.

Af hálfu Grundafjarðarbæjar er vísað til þess að á sínum tíma hafi byggingaryfirvöld farið á vettvang og metið það svo að umræddar framkvæmdir gengju ekki á hagsmuni nágranna.  Fjarlægð umdeilds hringlaga palls frá girðingu á lóðamörkum Fagurhóls 8a og Fagurhólstúns 9 sé 2,2 metrar.  Pallurinn sé tengdur aðalsólpalli með brú og sé aðeins ætlaður fyrir blóm og styttur og standi pallurinn 36 sentimetrum lægra en aðalpallurinn.

Niðurstaða:  Hin kærða afgreiðsla umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar fól í sér synjun á erindi kærenda frá 11. desember 2007 um endurskoðun á fyrri ákvörðun um veitingu leyfis fyrir tilteknum framkvæmdum á lóðinni að Fagurhóli 8a, sem bæjarstjórn staðfesti  hinn 9. nóvember 2006. 

Aðili máls getur ekki gert kröfu um að stjórnvald, sem tekið hefur ákvörðun og birt hana, endurskoði hana nema að skilyrði um endurupptöku máls séu fyrir hendi.  Ekki er til að dreifa lagaákvæðum á sviði skipulags- og byggingarmála sem veita rýmri rétt til endurupptöku máls en kveðið er á um í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hún hefur að geyma almenna reglu um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana.  Samkvæmt nefndri 24. gr. er endurupptaka máls háð þeim skilyrðum að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin.  Mál verður þó ekki endurupptekið eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá tilkynningu ákvörðunar eða því að aðila var kunnugt eða mátti vera kunnugt um breytingar á atvikum nema með samþykki annarra málsaðila.  Eftir að ár er liðið frá því að aðila varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun eða breyttar forsendur verður mál ekki endurupptekið nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Þegar kærendur óskuðu endurskoðunar á veitingu umþrætts byggingarleyfis var liðið meira en ár frá veitingu þess og byrjun framkvæmda.  Þar sem samþykki byggingarleyfishafa skortir fyrir endurupptöku málsins og ekki liggja fyrir veigamiklar ástæður fyrir henni verður ekki haggað við hinni kærðu afgreiðslu umhverfisnefndar á erindi kærenda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.          

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á synjun umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar frá 4. mars 2008 á beiðni kærenda um endurskoðun á lögmæti sólpallabyggingar að Fagurhóli 8a, Grundarfirði. 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

__________________________             __________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson